Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

147/2016 Hænsnahald

Árið 2017, fimmtudaginn 19. janúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 147/2016, kæra á ákvörðun heilbrigðisnefndar Kjósarsvæðis, frá 18. október 2016, um að fresta réttaráhrifum ákvörðunar nefndarinnar frá 18. maí s.á. um að fjarlægja skuli tvo hana af fasteigninni Reykjahvoli 5, Mosfellsbæ.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 2. nóvember 2016, er barst nefndinni 4. s.m., kærir V, Reykjahvoli 25, Mosfellsbæ, ákvörðun heilbrigðisnefndar Kjósarsvæðis, frá 18. október 2016, um að nefndin muni bíða úrskurðar úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála áður en ákvörðun heilbrigðisnefndar frá 18. maí s.á. um að fjarlægja tvo hana sem haldnir séu að Reykjahvoli 5, Mosfellsbæ, verði framfylgt. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá Heilbrigðiseftirliti Kjósarsvæðis 15. nóvember 2016.

Málavextir: Með ákvörðun sinni, dags. 18. maí 2015, komst heilbrigðisnefnd Kjósarsvæðis að þeirri niðurstöðu að eiganda tveggja hana sem haldnir væru á fasteigninni Reykjahvoli 5 í Mosfellsbæ væri skylt að fjarlægja þá af eigninni innan ákveðins frests, ella yrði óskað atbeina lögreglu til að framfylgja ákvörðuninni. Með kæru, dags. 20. júní s.á., kærði eigandi hananna ákvörðun heilbrigðisnefndarinnar til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála og hlaut málið númerið 74/2016. Mál það er enn til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.

Nágranni, sem hefur allt frá árinu 2012 kvartað yfir ónæði vegna nefndra hana, sendi heilbrigðisnefnd Kjósarsvæðis bréf, dags. 27. september 2016 og 7. október s.á., þar sem skorað var á nefndina að framfylgja áðurnefndri ákvörðun hennar frá 18. maí s.á. Var erindi kæranda tekið fyrir á fundi heilbrigðisnefndarinnar 18. október s.á. og eftirfarandi bókað: „Heilbrigðisnefnd mun bíða úrskurðar úrskurðarnefndar um umhverfis- og auðlindamál áður en ákvörðun um að fjarlægja umrædda hana verður framfylgt.“ Bréfritari sætti sig ekki við framangreinda niðurstöðu og kærði þá ákvörðun, eins og áður sagði.

Málsrök kæranda: Kærandi kveðst í fjögur ár hafa haft ónæði af gali hana sem haldnir séu á lóðinni Reykjahvoli 5 í nágrenni hans. Hanarnir gali allan liðlangan daginn án hlés. Heilbrigðisnefnd Kjósarsvæðis hafi sent eiganda hananna bréf, dags. 17. mars, 14. apríl og 19. maí 2016, þar sem honum hafi verið gert að fjarlægja hanana innan ákveðins frests en að öðrum kosti yrðu hanarnir fjarlægðir á hans kostnað, með aðstoð lögreglu ef nauðsyn þætti til. Jafnframt hafi verið skorað á eigandann að sækja um leyfi fyrir hænum sem hann haldi á lóð sinni. Ekkert hafi orðið úr nefndum boðuðum þvingunaraðgerðum.

Eigandi umræddra hana hafi lagt fram kæru til úrskurðarnefndarinnar, dags. 20. júní 2016, þar sem ákvörðun heilbrigðisnefndar Kjósarsvæðis um að fjarlægja skuli hanana hafi verið kærð. Heilbrigðisnefnd hafi, eftir að kærandi hafi sent tvö bréf, dags. 27. september og 7. október s.á., ákveðið á fundi sínum 18. október s.á. að fyrri ákvörðun um þvingunaraðgerðir yrði ekki framfylgt fyrr en niðurstaða lægii fyrir í málinu hjá úrskurðarnefnd. Með vísan til meginreglu 1. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, um að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttarákvörðun, krefjist kærandi þess að úrskurðarnefndin úrskurði um gildi hinnar kærðu ákvörðunar.

Málsrök heilbrigðisnefndar Kjósarsvæðis: Heilbrigðisnefndin segir ákvörðun sína um að fresta ákvörðun frá 18. maí 2016 vera byggða á meðalhófsreglu stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Fyrri ákvörðunin hafi verið kærð til úrskurðarnefndarinnar og telji heilbrigðisnefndin rétt að bíða eftir úrskurði í því máli, enda hafi heilbrigðisnefndin engin úrræði til að geyma hænsni á meðan málið sé til meðferðar og vilji hún ekki skapa sér skaðabótaskyldu vegna þessara kynbótafugla. Í ljósi þessa telji nefndin eðlilegt að bíða og hlíta úrskurðinum þegar hann liggi fyrir.

Niðurstaða: Með stjórnvaldsákvörðun í skilningi stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er átt við ákvörðun er stjórnvöld taka um rétt eða skyldu manna, sbr. 2. mgr. 1. gr. laganna. Jafnframt er almennt miðað við að stjórnvaldsákvörðun sé ákvörðun sem bindi enda á mál og í 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga er lögfest að ákvörðun sem ekki bindi enda á mál verði ekki kærð fyrr en málið hefur verið til lykta leitt, þ. á m. ákvarðanir um málsmeðferð. Tvær undantekningar eru frá nefndri meginreglu en það eru heimildir 4. mgr. 9. gr. og 19. gr. laganna til að kæra tvenns konar ákvarðanir um málsmeðferð, annars vegar drátt á afgreiðslu máls og hins vegar synjun á kröfu um afhendingu gagna.

Ákvörðun um frestun réttaráhrifa ákvörðunar bindur ekki enda á stjórnsýslumál en verður aftur á móti talin vera ákvörðun um meðferð máls. Samkvæmt því sem að framan greinir veita stjórnsýslulög ekki kæruheimild til æðra stjórnvalds vegna slíkrar ákvörðunar, en hún fellur ekki undir tilvitnuð undantekningarákvæði laganna. Verður málinu þegar af þeirri ástæðu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                      Ásgeir Magnússon