Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

160/2016 Selvogsgata

Árið 2017, fimmtudaginn 2. febrúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 160/2016, kæra á ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúans í Hafnarfirði frá 9. nóvember 2016 um að veita framkvæmdaleyfi til að steypa upp vegg í stígshæð frá Selvogsgötu að leikvelli.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 4. desember 2016, er barst nefndinni 5. s.m., kæra S, Brekkugötu 25, Hafnarfirði, þá ákvörðun byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarbæjar frá 9. nóvember 2016 að veita leyfi til að steypa upp vegg í stígshæð frá Selvogsgötu að leikvelli í Hafnarfirði. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Jafnframt var gerð krafa um stöðvun framkvæmda á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Hafa úrskurðarnefndinni borist upplýsingar um að framkvæmdum sé lokið og er því ekki tilefni til að taka afstöðu til kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda.

Gögn málsins bárust frá Hafnarfjarðarbæ 12. desember 2016.

Málavextir: Lóðirnar Selvogsgata 3 og Brekkugata 25 liggja saman við norðurmörk hinnar fyrri en suðurmörk hinnar seinni. Á eystri lóðarmörkum beggja lóða rís landið og eru þar stoðveggir. Lóðin Selvogsgata 3 er dýpri til austurs og tengist stoðveggur hennar við stoðvegginn á lóðinni Brekkugötu 25.

Hinn 29. maí 2013 var á fundi umhverfis- og framkvæmdaráðs samþykkt að steyptur yrði upp veggur í stígshæð frá Selvogsgötu að leikvelli. Þá var samþykkt á fundi bæjarstjórnar 3. september 2014 að stækka lóðina Selvogsgötu 3 um 75,4 m² til austurs. Á afgreiðslufundi skipulags- og byggingarfulltrúa 9. nóvember 2016 var samþykkt að gefa út formlegt framkvæmdaleyfi, sbr. 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, til handa eiganda Selvogsgötu 3 vegna steypts veggjar við stíg, en framkvæmdir voru þá þegar hafnar að sögn kærenda.

Kærendur gerðu athugasemdir við framkvæmdirnar með bréfi til skipulags- og byggingarfulltrúa, dags. 14. nóvember 2016, og með bréfi til bæjarstjóra Hafnarfjarðar, dags. 16. s.m.

Málsrök kærenda: Kærendur skírskota til þess að farið hafi verið í hinar umdeildu framkvæmdir án skriflegs framkvæmdaleyfis og hafi verið grafið frá steinsteyptum mannvirkjum þeirra við Brekkugötu 25. Grafið hafi verið frá garðskúr og garðvegg, auk þess sem rofinn hafi verið áfastur stoðveggur við garðvegginn með skurðgröfu og höggbor. Afleiðingar þessara framkvæmda séu þær að margar sýnilegar sprungur hafi myndast í garðveggnum. Jafnframt sé stór sprunga í gaflvegg garðskúrsins, að utanverðu, sem og sprungur á innanverðum gaflvegg. Hafi verið haft samband við byggingarfulltrúa og lögregla kölluð til þegar þetta hafi uppgötvast. Þá sé bent á að á fundi með bæjarstjóra 8. nóvember 2016 hafi komið fram að framkvæmdin sé á vegum bæjarins.

Málsrök Hafnarfjarðarbæjar: Af hálfu sveitarfélagins er vísað til þess að um sé að ræða endurgerð á stoðvegg milli lóðarinnar nr. 3 við Selvogsgötu og lóðar Flensborgarskólans. Ekki sé vitað nákvæmlega um aldur veggjarins en hann sé illa farinn og endurbætur því nauðsynlegar. Umræddur stoðveggur tengist stoðvegg að Brekkugötu 25, í hornpunkti þeirrar lóðar og lóðarinnar Selvogsgötu 3. Lóðarmörk og gönguleið séu samkvæmt skipulagi.

Fullyrða megi að umræddur stoðveggur falli undir e- og f-liði gr. 2.3.5. byggingarreglugerðar nr. 112/2012, þ.e. minni háttar framkvæmdir sem séu undanþegnar byggingarleyfi. Fullt samkomulag hafi verið á milli lóðarhafa Selvogsgötu 3 og Hafnarfjarðarbæjar um framkvæmdina. Þá beri að geta þess að veggur sá sem sé á lóðamörkum Brekkugötu 25 og Flensborgarskóla hafi verið reistur af Hafnarfjarðarbæ á sínum tíma til að leysa hæðarmun milli lóðanna. Við endurbygginguna verði veggurinn útfærður með þeim hætti að hann þoli betur jarðvegsþrýsting og nýjum jarðvatnslögnum verði komið fyrir til að draga úr vatnsþrýstingi. Ljóst sé að endurbættur veggur verði til bóta.

——-

Leyfishafa var gefinn kostur á að tjá sig um málið en skriflegar athugasemdir hafa ekki borist af hans hálfu.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti framkvæmdaleyfis fyrir steyptum vegg á mörkum lóðarinnar nr. 3 við Selvogsgötu, en sú lóð liggur að lóð kæranda við Brekkugötu 25. Gerir kærandi aðallega athugasemdir við að ekki hafi verið haft samráð við hann sem lóðarhafa aðliggjandi lóðar og að hann hafi orðið fyrir tjóni vegna hinna umdeildu framkvæmda.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 skal afla framkvæmdaleyfis sveitarstjórnar vegna meiri háttar framkvæmda sem áhrif hafa á umhverfið og breyta ásýnd þess, svo sem breytingar lands með jarðvegi eða efnistöku. Þá segir í sömu grein að ekki þurfi að afla slíks leyfis vegna framkvæmda sem eru háðar byggingarleyfi samkvæmt lögum um mannvirki. Í 4. gr. reglugerðar nr. 772/2012 um framkvæmdaleyfi segir að við mat á því hvort framkvæmd telst meiri háttar skuli hafa til hliðsjónar stærð svæðis og umfang framkvæmdar, varanleika og áhrif á landslag og ásýnd umhverfisins og önnur umhverfisáhrif. Er síðan í 5. gr. reglugerðarinnar útlistað nánar hvers konar framkvæmdir geti verið háðar framkvæmdaleyfi, s.s. umferðar- og göngubrýr, jarðgöng og flugbrautir. Í 1. mgr. 2. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki segir um gildissvið laganna að þau taki m.a. til allra mannvirkja sem reist séu á landi, ofan jarðar og neðan. Þá segir jafnframt að lögin gildi einnig um gróður á lóðum, frágang og útlit lóða, girðingar í þéttbýli, skilti, möstur, gáma og leik- og íþróttasvæði.

Með hinu kærða framkvæmdaleyfi er veitt heimild til að steypa upp vegg á eystri lóðarmörkum Selvogsgötu 3. Verður ekki talið að framkvæmd þessi sé slík að umfangi að hún sé háð framkvæmdaleyfi, en slík framkvæmd er að jafnaði háð byggingarleyfi í samræmi við þau ákvæði mannvirkjalaga sem áður eru rakin.

Af hálfu sveitarfélagsins hefur því verið haldið fram að um sé að ræða minni háttar framkvæmd sem sé undanþegin byggingarleyfi, sbr. e- og f-lið gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Greindir töluliðir taka m.a. til eðlilegs viðhalds lóðar og girðinga, sem og gerðar skjólveggja, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Fyrir liggur að stoðveggur úr steini var þegar til staðar og að hann þarfnaðist endurbóta. Hins vegar verður af gögnum málsins ráðið að þær breytingar hafi verið gerðar við endurgerð veggjarins að hann hefur verið styttur og að hann tengist nú við enda stoðveggjar á lóð kæranda en ekki við hann miðjan, eins og áður var. Var því ekki um að ræða venjulegt viðhald á stoðveggnum heldur breytta endurgerð hans. Verður því ekki séð að undanþáguákvæði gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð eigi við um framkvæmdina.

Með hliðsjón af framangreindu er ljóst að um byggingarleyfisskylda framkvæmd er að ræða, sem fer að mannvirkjalögum. Umdeilt framkvæmdaleyfi var gefið út með stoð í ákvæðum skipulagslaga og laut málsmeðferð þess þeim lögum. Var hin kærða ákvörðun því hvorki reist á réttum lagagrundvelli né gætt að réttri málsmeðferð við töku hennar. Af þeim sökum verður hún felld úr gildi.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúans í Hafnarfirði frá 9. nóvember 2016 um að veita framkvæmdaleyfi til að steypa upp vegg í stígshæð frá Selvogsgötu að leikvelli.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                  Þorsteinn Þorsteinsson