Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

44/2015 Sunnubraut

Árið 2017, föstudaginn 20. janúar, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011 fyrir:

Mál nr. 44/2015, kæra á afgreiðslu skipulagsnefndar Kópavogsbæjar frá 4. maí 2015 um að synja umsókn um leyfi til að reisa parhús á lóðinni nr. 30 við Sunnubraut í Kópavogi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 9. júní 2015, er barst nefndinni 15. s.m, kærir Viðskiptavit ehf., lóðarhafi Sunnubrautar 30 í Kópavogi, þá ákvörðun skipulagsnefndar Kópavogsbæjar frá 4. maí 2015 að synja umsókn um leyfi til að reisa parhús á lóð nr. 30 að Sunnubraut í Kópavogi. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og leyfi til byggingar húss á umræddri lóð samþykkt.

Gögn málsins bárust frá Kópavogsbæ 13. ágúst 2015.

Málavextir: Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 6. maí 2014 var tekin fyrir umsókn um leyfi  til að reisa tveggja hæða parhús á lóðinni að Sunnubraut 30, Kópavogi. Var erindinu vísað til skipulagsnefndar með vísan til 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Tók nefndin það fyrir á fundi 20. s.m., frestaði afgreiðslu þess og óskaði ítarlegri gagna. Erindið var tekið fyrir að nýju á fundi skipulagsnefndar 28. júlí s.á. og samþykkt að grenndarkynna það. Samkvæmt kynningarbréfi frá sveitarfélaginu fól erindið í sér að 102,0 m² íbúðarhús, byggt árið 1939 og bílskúr byggður 1966, yrði rifið og reist tveggja hæða parhús á umræddri lóð. Heildarbyggingarmagn yrði 385,2 m² og nýtingarhlutfall 0,49 eftir breytingu. Mænishæð fyrirhugaðrar nýbyggingar yrði sú sama og á núverandi íbúðarhúsi. Bárust athugsemdir á kynningartíma og á fundi skipulagsnefndar 15. september s.á. var skipulags- og byggingardeild falið að taka saman umsögn um þær.

Hinn 20. október 2014 var erindið tekið fyrir á ný á fundi skipulagsnefndar. Fært var til bókar að lögð væri fram breytt tillaga þar sem komið væri til móts við innsendar athugasemdir. Einnig væri lagt fram minnisblað frá samráðfundi sem haldinn hefði verið 8. október s.á., erindi frá íbúum Sunnubrautar 31 vegna fyrirhugaðra framkvæmda,  dagsett þann sama dag, og greinargerð byggingaraðila og lóðarhafa Sunnubrautar 30 vegna innsendra athugasemda, dags. 15. október 2014. Var afgreiðslu málsins frestað. Málið var tekið fyrir að nýju á fundi nefndarinnar 4. maí 2015 og því hafnað á grundvelli innsendra athugasemda. Jafnframt var því vísað til bæjarráðs og bæjarstjórnar. Á fundi bæjarráðs 7. s.m. var erindinu vísað til bæjarstjórnar sem staðfesti afgreiðslu skipulagsnefndar á fundi 12. s.m.

Málsrök kæranda: Kærandi skírskotar til þess að hin kærða ákvörðun sé ekki rökstudd með fullnægjandi hætti. Sé vísað til svara kæranda við framkomnum athugasemdum. Þar komi m.a. fram að ekki verði séð að bygging parhúss á lóð Sunnubrautar 30 skapi fordæmi. Samkvæmt húsakönnun fyrir lóðir á Sunnubraut 21-56 sé nýtingarhlutfall fjögurra lóða svipað og sex lóða hærra en að Sunnubraut 30. Byggingarstíll húsa við götuna sé með ýmsu móti og þar af leiðandi erfitt að sjá að fyrirhuguð framkvæmd sé stílbrot á nokkurn hátt. Gert sé ráð fyrir tveimur bílastæðum á lóð fyrir hvora íbúð, eins og byggingarreglugerð kveði á um. Ljóst sé af talningu bifreiða er fari um götuna kvölds og morgna að ekki sé sá skortur á bílastæðum sem haldið sé fram. Samkvæmt mælingum á götum í vesturbæ Kópavogs sé Sunnubraut ekki mjórri en aðrar sambærilegar götur þrátt fyrir fullyrðingar þess efnis. Þá sýni myndir að hús við götuna hafi ekki aðeins einbreiða heimkeyrslu.

Málsrök Kópavogsbæjar: Sveitarfélagið tekur fram að í kjölfar samráðsfundar, þar sem komið hafi fram mikil andstaða við fyrirhugaða uppbyggingu á lóðinni, hafi byggingaraðila verið gefinn kostur á að leggja fram breytta tillögu og koma til móts við innsendar athugasemdir. Lagt hafi verið til við byggingaraðila að verulega yrði dregið úr byggingarmagni á lóðinni og byggt einbýlishús í stað parhúss. Byggingaraðili hafi lagt fram breytta tillögu þar sem byggingarreitur hafi verið minnkaður um 70 cm á austur- og vesturhlið og bílastæði á lóð færð til. Að öðru leyti hafi tillagan verið óbreytt. Hafi skipulagsnefnd ekki talið að breytingarnar kæmu nægilega til móts við innsendar athugasemdir. Byggingaraðila hafi aftur verið gefið færi á því að gera frekari breytingar á tillögunni, en þrátt fyrir leiðbeiningar skipulags- og byggingardeildar þá hafi það verið ósk byggingaraðila að tillagan yrði lögð óbreytt fyrir skipulagsnefnd að nýju. Henni hafi síðan verið hafnað á fundi skipulagsnefndar og tekið undir framkomnar athugasemdir um að byggingarmagn á lóðinni væri of mikið og fjölgun íbúða á þessari lóð ekki ákjósanleg. 
                    ———

Úrskurðarnefndinni hafa borist athugasemdir íbúa að Sunnubraut 31 vegna framkominnar kæru.

Niðurstaða: Samkvæmt 9. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki þarf leyfi byggingarfulltrúa, eða eftir atvikum Mannvirkjastofnunar, fyrir byggingu mannvirkis. Meðal skilyrða fyrir útgáfu byggingarleyfis er að mannvirki og notkun þess sé í samræmi við skipulagsáætlanir á svæðinu, sbr. 1.tl. 1. mgr. 13. gr. laganna. Leiki vafi á því skal byggingarfulltrúi leita umsagnar skipulagsfulltrúa skv. 2. mgr. 10. gr. sömu laga, sem og ef ekki liggur fyrir deiliskipulag, sbr. gr. 2.4.2. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Þegar sótt er um byggingarleyfi fyrir framkvæmd sem er í samræmi við aðalskipulag hvað varðar landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar í þegar byggðu hverfi og deiliskipulag liggur ekki fyrir, líkt og hér háttar, getur skipulagsnefnd ákveðið að veita megi leyfi án deiliskipulagsgerðar, enda hafi áður farið fram grenndarkynning, sbr. þágildandi 44. gr. skipulagalaga nr. 123/2010.

Svo sem að framan er rakið var umsókn kæranda um byggingarleyfi fyrir byggingu húss að Sunnubraut 30 grenndarkynnt. Að henni lokinni var málið til umfjöllunar að nýju hjá skipulagsnefnd og var erindi kæranda synjað 4. maí 2015. Staðfesti bæjarstjórn þá afgreiðslu og lá þar með fyrir ákvörðun um frekari meðferð málsins. Það verður þó ekki fram hjá því litið að í málinu liggur ekki fyrir afgreiðsla byggingarfulltrúa á byggingarleyfisumsókn kæranda, en samkvæmt skýrum ákvæðum mannvirkjalaga er endanleg ákvörðun um samþykkt eða synjun byggingaráforma og útgáfa byggingarleyfis í höndum byggingarfulltrúa.

Samkvæmt 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður ákvörðun sem ekki bindur enda á mál ekki kærð fyrr en málið hefur verið til lykta leitt. Að framangreindu virtu verður að telja að hvorki afgreiðsla skipulagsnefndar né afgreiðsla bæjarstjórnar hafi falið í sér lokaákvörðun í skilningi tilvitnaðs ákvæðis sem kæranleg er til úrskurðarnefndarinnar. Verður málinu þegar af þeirri ástæðu vísað frá úrskurðarnefndinni. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir