Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

54/2016 Þeistareykjalína 1

Með
Árið 2016, fimmtudaginn 30. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 54/2016, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Norðurþings um að samþykkja framkvæmdaleyfi fyrir Þeistareykjalínu 1.

Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður
um kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 26. maí 2016, er barst nefndinni sama dag, kærir Landvernd, landgræðslu- og umhverfisverndarsamtök Íslands, Þórunnartúni 6, Reykjavík, þá ákvörðun sveitarstjórnar Norðurþings frá 17. maí 2016 að samþykkja framkvæmdaleyfi fyrir Þeistareykjalínu 1, 220 kV háspennulínu. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Þess er jafnframt krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Er málið nú tekið til úrskurðar um kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda.

Gögn málsins bárust frá Norðurþingi 2. júní 2016.

Málavextir: Sú framkvæmd sem kæra þessa máls snýst um er lagning Þeistareykjalínu 1, 220 kV loftlínu, frá Þeistareykjum að Bakka við Húsavík. Frá Kröfluvirkjun að Þeistareykjum er áætlað að leggja Kröflulínu 4, einnig 220 kV loftlínu. Hefur ákvörðun sveitarstjórnar Skútustaðahrepps um útgáfu framkvæmdaleyfis vegna þeirrar framkvæmdar einnig verið kærð og er það mál nr. 46/2016.

Fram fór sameiginlegt mat á umhverfisáhrifum framkvæmda sem þá voru fyrirhugaðar við álver á Bakka við Húsavík, Þeistareykjavirkjun, stækkun Kröfluvirkjunar og háspennulínur frá Kröflu og Þeistareykjum til Húsavíkur. Síðar var fallið frá byggingu álvers á Bakka en mat á umhverfisáhrifum vegna kísilmálmverksmiðju við Bakka hefur verið gert.

Með bréfi til Norðurþings, dags. 18. mars 2016, óskaði Landsnet hf. eftir því að sveitarfélagið gæfi út framkvæmdaleyfi fyrir Þeistareykjalínu 1, 220 kV háspennulínu, sem ætti að liggja frá orkuveri Landsvirkjunar að Þeistareykjum í Þingeyjarsveit og að tengivirki sem Landsnet hygðist reisa í námunda við iðnaðarsvæðið á Bakka við Húsavík í Norðurþingi. Langan hluta leiðarinnar á línan að liggja í sveitarfélaginu Þingeyjarsveit en áætlað er að leggja hana inn í Norðurþing nálægt Höfuðreiðarmúla í landi Skóga. Umsókn Landsnets hf. um framkvæmdaleyfi laut eingöngu að því landsvæði sem er innan sveitarfélagsmarka Norðurþings.

Á fundi sveitarstjórnar Norðurþings, sem haldinn var 17. maí 2016, var samþykkt tillaga skipulags- og umhverfisnefndar um að umsókn Landsnets vegna Þeistareykjalínu 1 innan Norðurþings yrði samþykkt og jafnframt að skipulags- og byggingarfulltrúa yrði falið að gefa út framkvæmdaleyfi í samræmi við reglugerð um framkvæmdaleyfi nr. 772/2012.

Í bókun skipulags- og umhverfisnefndar kom fram að nefndin teldi að fyrirhuguð framkvæmd væri í samræmi við Aðalskipulag Norðurþings 2010-2030. Jafnframt kom fram að samkvæmt áliti Skipulagsstofnunar frá 29. nóvember 2010 uppfyllti framkvæmdin skilyrði 1. mgr. 14. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 fyrir útgáfu framkvæmdaleyfis vegna matsskyldra framkvæmda vegna sameiginlegs mats á umhverfisáhrifum álvers á Bakka, Þeistareykjavirkjunar og háspennulína frá Kröflu og Þeistareykjum að Húsavík. Loks var bókað að skipulags- og umhverfisnefnd féllist á drög að samningi á milli Umhverfisstofnunar og Landsnets hf. um eftirlit með framkvæmdinni.

Framkvæmdaleyfi var gefið út 24. maí 2016.

Málsrök kæranda:
Kærandi telur nauðsynlegt að framkvæmdir verði stöðvaðar til bráðabirgða til að koma í veg fyrir óafturkræfa röskun á hinu fyrirhugaða framkvæmdasvæði strax í sumar með vegagerð og gerð undirstaða undir háspennumöstur. Sömu röksemdir eigi við um stöðvun framkvæmda við Þeistareykjalínu 1 og eigi við um stöðvun framkvæmda við Kröflulínu 4. Um sömu framkvæmd sé að ræða og hafnað sé þeim sjónarmiðum leyfishafa að um sé að ræða framkvæmd er skiptist í fimm áfanga.

Í leyfisbeiðni leyfishafa komi fram að mikilvægt sé að hefja framkvæmdir sem fyrst. Málið hafi almenna þýðingu fyrir náttúru Íslands og orðspor landsins, fyrir alla Íslendinga og einnig erlenda ferðamenn og vísindamenn er heimsæki Ísland. Hagsmunirnir séu stórfelldir, en um sé að ræða svæði sem fyrirhugað sé að vinna veruleg og óafturkallanleg spjöll á.

Málsrök Norðurþings: Norðurþing krefst þess fyrst og fremst að kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda verði vísað frá úrskurðarnefndinni en til vara að stöðvunarkröfu kærenda verði hafnað. Krafa um frávísun byggist á því að kærandi vísi í kröfu sinni um stöðvun fyrst og fremst til greinargerðar sem hann muni hafa lagt fram í öðru máli. Slíkt sé ekki í samræmi við fyrirmæli 1. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, um það með hvaða hætti kærandi skuli búa mál sitt úr garði, þar sem öll rök fyrir kærunni vanti. Leiði þetta til þess að sveitarfélagið geti ekki reifað sín sjónarmið og viti varla hverju sé verið að verjast. Málið sé vanreifað af hálfu kæranda og ekki úrskurðarhæft.

Varðandi kröfu um að hafnað verði stöðvunarkröfu kæranda vísi Norðurþing til meginreglu stjórnsýsluréttar, sem m.a. komi fram í 1. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, um að kæra fresti almennt ekki réttaráhrifum. Þessi meginregla sé áréttuð í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011. Stöðvun framkvæmda sé því undantekningarheimild sem beri að skýra þröngt og beri einungis að beita í takmarkatilvikum þegar sérstakar aðstæður eða hagsmunir séu fyrir hendi og veigamikil rök standi til beitingar úrræðisins. Minnt sé á að réttaráhrif stöðvunar séu jafn afdrifarík og sambærileg og áhrif lögbanns. Við beitingu stöðvunarúrræðisins sé hins vegar ekki krafist neinnar tryggingar af hálfu þess aðila sem krefjist beitingar úrræðisins, eins og gert sé þegar lögbanni sé beitt. Þrátt fyrir það séu mjög þröngar skorðar settar við beitingu lögbanns. Í ljósi þessa telji Norðurþing að túlka verði heimildina til stöðvunar mjög þröngt og þrengra en heimild til lögbanns.

Kærandi hafi ekki fært fram neinar málsástæður eða rök fyrir að einhverjar þær aðstæður séu uppi í máli þessu sem réttlæti beitingu svo harkalegs úrræðis. Hafi kærandi ekki sýnt fram á að hann verði fyrir tjóni vegna framkvæmdanna. Augljóst sé að verði framkvæmdir stöðvaðar, þó ekki sé nema í stuttan tíma, muni það hafa í för með sér verulegt tjón fyrir leyfishafann og viðsemjendur hans og einnig með beinum og óbeinum afleiðingum fyrir sveitarfélagið.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi mótmælir því að um hluta af sömu framkvæmd sé að ræða og fjallað sé um í framkvæmdaleyfi Skútustaðahrepps fyrir Kröflulínu 4. Þótt fjallað hafi verið um framkvæmdirnar í einu og sama matinu á umhverfisáhrifum sé um að ræða háspennulínur í fimm áföngum, Kröflulínur 4 og 5, Hólasandslínur 1 og 2 og Þeistareykjalínu 1. Kröflulínu 4 sé ætlað að tengja Þeistareykjavirkjun við megin flutningskerfið, en Þeistareykjalínu 1 sé ætlað að tengja Þeistareykjavirkjun við iðnaðarsvæðið á Bakka. Það geti ekki talist fullnægjandi rökstuðningur fyrir stöðvunarkröfu að vísa til kærumáls vegna annarrar framkvæmdar í öðru sveitarfélagi.

Leyfishafi telji að við ákvörðun um hvort beita skuli 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, varðandi stöðvun framkvæmda til bráðabirgða, beri að líta til sömu sjónarmiða og rakin séu í athugasemdum við 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, um frestun réttaráhrifa kærðrar ákvörðunar. Ávallt verði að vega og meta í hverju tilviki fyrir sig hvort réttlætanlegt sé að fresta réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar og við það mat skuli líta til réttmætra hagsmuna hjá öllum aðilum málsins og horfa til þess hversu líklegt það sé að ákvörðuninni verði breytt. Þá mæli það almennt á móti því að réttaráhrifum ákvörðunar sé frestað ef fleiri en einn aðili séu að máli og þeir eigi gagnstæðra hagsmuna að gæta eða ef til staðar séu mikilvægir almannahagsmunir.

Framkvæmdir leyfishafa, ásamt tengdum framkvæmdum, séu viðamiklar og miklir hagsmunir séu þeim tengdir, jafnt þjóðhagslegir sem og fjárhagslegir hagsmunir þeirra sem að einstaka framkvæmdum komi, hvort sem um sé að ræða innviði, virkjanir eða verksmiðju á Bakka. Því gæti stöðvun framkvæmda á grundvelli hinnar kærðu ákvörðunar haft í för með sér mikið fjárhagslegt tjón og almannahagsmunir mæli gegn því að stöðvunin nái fram að ganga. Kærandi hafi hinsvegar ekki sýnt fram á að hagsmunir hans séu með þeim hætti að réttlætt geti stöðvun framkvæmda.

Hefja verði framkvæmdir á allra næstu dögum eigi leyfishafa að vera mögulegt að efna skyldur sínar gagnvart Landsvirkjun og kísilverksmiðju PCC um tengingu Þeistareykjavirkjunar og flutning raforku til verksmiðjunnar á Bakka.

Athugasemdir kæranda um greinargerðir Norðurþings og leyfishafa: Kærandi kveðst hafna alfarið sjónarmiðum sveitarfélagsins um skýringu á stöðvunarheimildinni í 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Að mati kæranda verði að skýra heimildina með hliðsjón af tilgangi ákvæðisins og lögskýringargögnum. Þannig segi í athugasemd með ákvæðinu í lagafrumvarpi: „Í málum er varða framkvæmdir sem hafa áhrif á umhverfið kann kæruheimild að verða þýðingarlaus ef úrskurðarnefndin hefur ekki heimild til að fresta réttaráhrifum hennar.“ Blasi við að kærur kæranda á framkvæmdaleyfum Skútustaðahrepps og Norðurþings vegna Kröflulínu 4 og Þeistareykjalínu 1 væru gjörsamlega þýðingarlausar ef á sama tíma væru hafnar framkvæmdir við línurnar með þeim óafturkræfu og neikvæðu umhverfisáhrifum sem lýst hafi verið að af hlytust. Stöðvunarheimild 5. gr. laga nr. 130/2011 verði því ekki skýrð, líkt og haldið sé fram af hálfu Norðurþings, á sama hátt eða jafnvel enn þrengra en lögbannsheimild réttarfarslaga, heldur verði hún skýrð með hliðsjón af markmiði endurskoðunarheimildar í málum er varði umhverfið og þeim alþjóðasamningum er um þá heimild gildi. Slík heimild verði að vera raunhæf og skilvirk.

Niðurstaða: Sveitarfélagið hefur krafist frávísunar þar sem kærandi vísi í kröfu sinni um stöðvun fyrst og fremst til greinargerðar í öðru máli og sé það ekki í samræmi við fyrirmæli 1. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Þykir ekki koma til greina að fallast á þessa kröfu með hliðsjón af leiðbeiningarskyldu þeirri sem á úrskurðarnefndinni hvílir, sbr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sem og rannsóknarreglu 10. gr. sömu laga.

Í 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála segir að kæra til nefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar. Kærandi geti þó krafist úrskurðar um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Hefur úrskurðarnefndin til þess sjálfstæða heimild, en sú heimild er undantekning frá þeirri meginreglu að kæra fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar.

Í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 130/2011 segir um 5. gr. að í málum sem varði framkvæmdir sem hafi áhrif á umhverfið kunni kæruheimild að verða þýðingarlaus ef úrskurðarnefndin hafi ekki heimild til að fresta réttaráhrifum hennar, þó sé  mikilvægt að gætt sé að því að efnislegar forsendur liggi að baki kæru, þ.e. að horft sé til þess hversu líklegt sé að kæra breyti efni ákvörðunar.

Kærandi krefst stöðvunar framkvæmda og máli sínu til stuðnings vísar hann til þess að framkvæmdin feli í sér óafturkræfa röskun á fyrirhuguðu framkvæmdasvæði. Einnig að sömu rök eigi við um stöðvun framkvæmda við Þeistareykjalínu 1 og eigi við um stöðvun framkvæmda við Kröflulínu 4, sbr. mál nr. 46/2016, þar sem um sömu framkvæmd sé að ræða. Þessu er mótmælt af hálfu leyfishafa, sem telur að um háspennulínur í fimm mismunandi áföngum sé að ræða. Þá leggur leyfishafi áherslu á að hefja verði framkvæmdir eigi honum að vera mögulegt að uppfylla samningsbundnar skyldur sínar.

Fyrr í dag kvað úrskurðarnefndin upp úrskurð til bráðabirgða í máli nr. 46/2016 þar sem stöðvaðar voru framkvæmdir við Kröflulínu 4 að því leyti sem raskað geti Leirhnjúkshrauni. Þær ástæður sem þar lágu að baki eiga ekki við í þessu máli, en ekki liggur fyrir að svæði það sem nú er um deilt hafi sérstakt verndargildi umfram annað, sem forðast beri að raska. Þykir alltof viðurhlutamikið að stöðva framkvæmdir á þeim grundvelli einum að umhverfi verði raskað, jafnvel þótt það rask verði umtalsvert, enda einsýnt að flestar þær framkvæmdir sem sæti mati á umhverfisáhrifum myndu þá stöðvaðar án þess að frekari skoðunar þyrfti við. Verður því annað og meira að liggja fyrir til að heimild 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 verði beitt. Hvað varðar þá málsástæðu kæranda að um sömu framkvæmd sé að ræða skal á það bent að í úrskurði sínum fyrr í dag taldi úrskurðarnefndin, að teknu tilliti til meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og ríkra hagsmuna leyfishafa, ekki réttlætanlegt að stöðva þá framkvæmd sem þar var til umfjöllunar í heild sinni, heldur einungis að þeim hluta er raskað getur Leirhnjúkshrauni. Af sömu ástæðum er ekki tilefni til að stöðva þá framkvæmd sem hér er um deilt og skiptir ekki máli í því tilliti hvort um eina framkvæmd er að ræða eða fleiri.

Með hliðsjón af framangreindu verður hafnað kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða, en þó þykir rétt að árétta að framkvæmdir eru alfarið á áhættu leyfishafa á meðan efnisleg niðurstaða úrskurðarnefndarinnar liggur ekki fyrir.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda, samkvæmt hinni kærðu ákvörðun.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

_____________________________              ______________________________
Ómar Stefánsson                                                 Aðalheiður Jóhannsdóttir

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                 Þorsteinn Þorsteinsson

57/2016 Skaftáreldahraun

Með
Árið 2016, föstudaginn 8. júlí, tók Ómar Stefánsson, varaformaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála fyrir mál nr. 57/2016 með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr.  l. nr. 130/2011.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 29. maí 2016, er barst nefndinni 31. maí s.á., kærir H, Efri-Vík, Skaftárhreppi, þá ákvörðun Orkustofnunar frá 18. maí 2016 að fresta afgreiðslu umsóknar kæranda um leyfi fyrir vatnaveitingar úr Skaftá út á Skaftáreldahraun, Skaftárhreppi, þar til mat á umhverfisáhrifum liggi fyrir. Skilja verður málatilbúnað kæranda svo að farið sé fram á ógildingu greindrar ákvörðunar.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Orkustofnun 7. júní 2016.

Málsatvik og rök: Með bréfi til Orkustofnunar, dags. 12. maí 2016 óskaði kærandi eftir vatnaveitingum út á Eldhraun um Stóra-Brest, Litla-Brest, Skálarstapa og Skálarál. Orkustofnun svaraði beiðni kæranda á þá leið að málsmeðferð umsóknarinnar væri frestað þar til að mat á umhverfisáhrifum liggi fyrir þar sem umbeðin framkvæmd félli undir lið 10.16 í 1. viðauka við lög um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000.

Af hálfu kæranda er því haldið fram að meðalrennsli á ári nái ekki lágmarksmagni liðar 10.16 í 1. viðauka við lög um mat á umhverfisáhrifum og flatarmál vatns nái ekki lágmarksstærð framangreinds liðar og því þurfi ekki að fara fram mat á umhverfisáhrifum.

Af hálfu Orkustofnunar er vísað til þess að um málsmeðferð stofnunarinnar fari samkvæmt meginreglum stjórnsýsluréttarins og svo hafi verið gert í þessu máli. Í samræmi við 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hafi Orkustofnun leiðbeint kæranda um að fari meira en 3 km2 lands undir vatn, eða rúmtak vatns sé meira en 10 milljónir m3 á ári, þurfi að liggja fyrir mat á umhverfisáhrifum slíkrar vatnsmiðlunar samkvæmt  lið 10.16 í viðauka I við lög um mat á umhverfisáhrifum. Að mati Orkustofnunar falli vatnsmiðlun undir greindan lið í viðauka 1 og sé hún því matsskyld samkvæmt 5. gr. nefndra laga. Það mat stofnunarinnar byggi á fyrirliggjandi gögnum úr rennslismælingum Vatnamælinga Orkustofnunar og Veðurstofu Íslands frá árinu 2008 auk fjarkönnunargagna um flatarmál þess svæðis er færi undir vatn í Eldhrauni.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um ákvörðun Orkustofnunar um frestun á afgreiðslu umsóknar kæranda um vatnsmiðlun en stofnuninni og kæranda greinir á um hvort umbeðin framkvæmd sé háð mati á umhverfisáhrifum.

Samkvæmt vatnalögum nr. 15/1923 hefur Orkustofnun eftirlit með framkvæmd og veitir leyfi í samræmi þau, sbr. 143. gr. laganna. Skipulagsstofnun annast hins vegar eftirlit með framkvæmd laga um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000 og tekur m.a. afstöðu til þess samkvæmt 6. gr. laganna hvort framkvæmd sé háð mati á umhverfisáhrifum.

Sú ákvörðun sem um er deilt í málinu varðar málsmeðferð þess hjá Orkustofnun en bindur ekki enda á það. Stofnunin hefur ekki heimild til þess að gefa út leyfi til framkvæmda sem háðar eru mati á umhverfisáhrifum fyrr en slíkt mat hefur farið fram, sbr. 1. mgr. 13. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum, en eins og fyrr er að vikið er það Skipulagsstofnun sem sker úr um það hvort framkvæmd sé háð slíku mati. Bjuggu því efnisleg rök að baki þeirri ákvörðun Orkustofnunar að ljúka ekki afgreiðslu umsóknar kæranda að svo stöddu.

Með vísan til þess sem að framan er rakið liggur ekki fyrir í málinu ákvörðun sem bindur enda á mál í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga og ber af þeim sökum að vísa máli þessu frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Ómar Stefánsson

46/2016 Kröflulína 4 Skútustaðahreppur

Með
Árið 2016, fimmtudaginn 30. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 46/2016, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Skútustaðahrepps um að samþykkja framkvæmdaleyfi fyrir Kröflulínu 4.

Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður
um kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 17. maí 2016, er barst nefndinni sama dag, kæra Fjöregg, félag um náttúruvernd og heilbrigt umhverfi í Mývatnssveit, Skútustaðahreppi, og Landvernd, landgræðslu- og umhverfisverndarsamtök Íslands, Þórunnartúni 6, Reykjavík, þá ákvörðun Skútustaðahrepps frá 20. apríl 2016 að samþykkja framkvæmdaleyfi fyrir Kröflulínu 4. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Þess er jafnframt krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Er málið nú tekið til úrskurðar um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda.

Gögn málsins bárust frá Skútustaðahreppi 25. maí 2016.

Málavextir: Sú framkvæmd sem kæra málsins snýst um er lagning Kröflulínu 4, 220 kV loftlínu, frá Kröfluvirkjun að Þeistareykjum, en frá Þeistareykjum að Bakka við Húsavík er áætlað að leggja Þeistareykjalínu 1, einnig fyrir 220 kV rekstrarspennu. Hefur ákvörðun sveitarstjórnar Norðurþings um útgáfu framkvæmdaleyfis vegna þeirrar framkvæmdar einnig verið kærð til úrskurðarnefndarinnar og er það mál nr. 54/2016.

Fram fór sameiginlegt mat á umhverfisáhrifum framkvæmda, sem þá voru fyrirhugaðar við álver á Bakka við Húsavík, Þeistareykjavirkjun, stækkun Kröfluvirkjunar og háspennulínur frá Kröflu og Þeistareykjum til Húsavíkur. Síðar var fallið frá byggingu álvers á Bakka en mat á umhverfisáhrifum vegna kísilmálmverksmiðju við Bakka hefur verið gert.

Á fundi sveitarstjórnar Skútustaðahrepps, sem haldinn var 20. apríl 2016, var samþykkt umsókn Landsnets hf. um framkvæmdaleyfi vegna Kröflulínu 4 og var skipulags- og byggingarfulltrúa sveitarfélagsins falið að gefa út leyfið í samræmi við reglugerð nr. 772/2012 um framkvæmdaleyfi. Jafnframt var eftirfarandi bókað: „Sveitarstjórn áréttar bókun skipulagsnefndar að æskilegra hefði verið að hluti línunnar hefði verið lagður í jörð þar sem um er að ræða óraskað land.“ Skipulags- og byggingarfulltrúi Skútustaðahrepps gaf út umrætt framkvæmdaleyfi 2. maí 2016.

Málsrök kærenda: Kærendur telja nauðsynlegt að framkvæmdir verði stöðvaðar til bráðabirgða til að koma í veg fyrir óafturkræfa röskun á Leirhnjúkshrauni strax í sumar með vegagerð og gerð undirstaða undir háspennumöstur.

Hinn 12. febrúar 2016 hafi leyfishafi gefið út opinbera tilkynningu um tilboð er borist hefðu í undirbúningsvinnu, sem fælist í lagningu línuvega og gerð undirstaða undir háspennumöstur. Þar hafi komið fram að vinnu að því er varði Kröflulínu 4 skyldi vera lokið 1. ágúst s.á. Hinn 7. apríl sl. hafi verið tilkynnt að samið yrði við verktaka vegna undirbúningsvinnu við Kröflulínu 4 á næstu dögum. Fram hafi komið að fyrirhugað væri að hefja jarðvegsframkvæmdirnar í aprílmánuði og að hafist yrði handa við reisingu háspennumastranna sjálfra í sumar. Í leyfisbeiðni leyfishafa komi fram að mikilvægt sé að hefja framkvæmdir sem fyrst. Fyrirhugað sé að ljúka Kröflulínu 4 á undan Þeistareykjalínu 1, eftir því sem næst verði komist.

Málið hafi almenna þýðingu fyrir náttúru Íslands og orðspor landsins, fyrir alla Íslendinga og einnig erlenda ferðamenn og vísindamenn er heimsæki Ísland. Óumdeilt sé að náttúrufegurð við Mývatn sé einstök og sé Mývatnssveit einn vinsælasti ferðamannastaður landsins. Þá séu hagsmunirnir stórfelldir en um sé að ræða svæði þar sem fyrirhugað sé að vinna veruleg og óafturkallanleg spjöll á. Löggjafinn hafi viðurkennt að verndun jarðmyndana og landslags á svæðum við Mývatn, sem mál þetta fjalli um, varði mikilvæga almannahagsmuni. Fram komi í frumvarpi er hafi orðið að lögum nr. 97/2004 um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu að fá svæði á Íslandi séu jafn verðmæt frá sjónarhóli náttúruverndar og náttúruminjar í grennd við Mývatn teljist órjúfanlegur hluti svæðisins. Svæðin hafi mikið verndargildi annað tveggja vegna mikilvægis þeirra fyrir lífríki vatnsins eða vegna sérstæðra jarðmyndana og landslags.

Málsrök Skútustaðahrepps: Skútustaðahreppur krefst þess að stöðvunarkröfu kærenda verði hafnað.

Aðalskipulag Skútustaðahrepps 2011-2023 hafi verið staðfest 18. apríl 2013. Þar sé fjallað um framkvæmdina og landnotkun innan sveitarfélagsins vegna hennar sé skilgreind. Þá hafi samþykkt deiliskipulag vegna stækkunar Kröfluvirkjunar verið birt í B-deild Stjórnartíðinda 3. júní 2014. Skipulagið geri grein fyrir Kröflulínu 4 og legu hennar, að því marki sem hún liggi innan deiliskipulagssvæðisins.

Framkvæmdaleyfisumsókn Landsnets hf., dags. 18. mars 2016, hafi verið yfirfarin af skipulags- og byggingarfulltrúa Skútustaðahrepps. Hún hafi verið tekin til umfjöllunar í skipulagsnefnd hreppsins á fundi 18. apríl s.á. og á fundi sveitarstjórnar 20. s.m., þar sem umsóknin hafi verið samþykkt. Framkvæmdaleyfið hafi verið gefið út og undirritað 2. maí s.á. en dregist hafi að auglýsa útgáfu þess.

Áréttað sé að Leirhnjúkshraun sé ekki inni á C-hluta náttúruminjaskrár, sbr. 37. gr. náttúruverndarlaga nr. 60/2013. Svæðið geti hinsvegar talist eldhraun, sem sé ein þeirra almennu jarðminja sem notið geti verndar skv. 61. gr. laganna.

Athugasemdir leyfishafa:
Leyfishafi telur að við ákvörðun um hvort beita skuli 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, varðandi stöðvun framkvæmda til bráðabirgða, beri að líta til sömu sjónarmiða og rakin séu í athugasemdum við 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, um frestun réttaráhrifa kærðrar ákvörðunar. Ávallt verði að vega og meta í hverju tilviki fyrir sig hvort réttlætanlegt sé að fresta réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar og við það mat skuli líta til réttmætra hagsmuna hjá öllum aðilum málsins og horfa til þess hversu líklegt það sé að ákvörðuninni verði breytt. Þá mæli það almennt á móti því að réttaráhrifum ákvörðunar sé frestað ef fleiri en einn aðili sé að máli og þeir eigi gagnstæðra hagsmuna að gæta eða ef til staðar séu mikilvægir almannahagsmunir.

Í kæru sé því haldið fram að stöðvun framkvæmda sé nauðsynleg þar sem ljóst megi vera að allt stefni í það að óbreyttu að Leirhnjúkshrauni verði raskað á óafturkræfan hátt með vegagerð og gerð undirstaða undir háspennumöstur. Taldir séu upp staðir sem dragi að sér ferðamenn og því haldið fram að allir þessir staðir séu meðal þeirra er beri að friðlýsa skv. bráðabirgðaákvæði II í lögum nr. 97/2004 um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu. Þeir hagsmunir sem tilgreindir séu í kæru séu óljósir og erfitt að henda reiður á þeim, sérstaklega ef þeir séu bornir saman við þá hagsmuni sem framkvæmdaaðilar hafi af því að af framkvæmdum verði. Fyrir liggi að hugmyndir Umhverfisstofnunar um friðlýsingu á svæðinu hafi ekki gengið eftir, þrátt fyrir að friðlýsingu hafi átt að vera lokið fyrir 1. janúar 2006. Þá liggi fyrir staðfestar skipulagsáætlanir þeirra sveitarfélaga sem um ræði, sem feli í raun í sér að ekki geti að óbreyttu orðið af friðlýsingu þess svæðis sem um ræði. Þá þurfi friðlýsing ekki að fela í sér útilokun á framkvæmdum fyrirtækisins, eins og raunar komi fram í tillögum Umhverfisstofnunar frá árinu 2004, um friðlýsingu svæða sem falli undir umrætt bráðabirgðaákvæði laga nr. 97/2004, sbr. og t.d. 1. mgr. 44. gr. náttúruverndarlaga nr. 60/2013. Enn fremur hafi leyfishafi náð samningum við stærstan hluta landeigenda og fengið opinber leyfi fyrir framkvæmdum. Þannig séu í raun engar forsendur til að friðlýsa umrætt svæði og hætta við eða breyta framkvæmdum. Slíkt myndi hafa í för með sér mikið tjón fyrir þá aðila sem að framkvæmdunum komi. Þessir réttmætu hagsmunir leyfishafa gangi framar almennum hagsmunum kærenda og því verði að hafna stöðvunarkröfu.

Leyfishafi ítreki að hefja verði framkvæmdir á allra næstu dögum eigi fyrirtækinu að vera mögulegt að efna m.a. skyldur sínar gagnvart Landsvirkjun um tengingu Þeistareykjavirkjunar við flutningskerfi raforku.

Athugasemdir kærenda um greinargerðir Skútustaðahrepps og leyfishafa: Kærendur ítreka að Leirhnjúkshraun njóti verndar skv. 3. mgr. 61. gr. náttúruverndarlaga nr. 60/2013 og skv. bráðabirgðaákvæði II í lögum nr. 97/2004 um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu. Áréttað sé að kæran í málinu varði það hvort við ákvörðun um framkvæmdir við flutningskerfi rafmagns sé gætt markmiða og ákvæða skipulagslaga, laga um mat á umhverfisáhrifum, almennra náttúruverndarlaga og sérlaga um verndun Mývatns og Laxár, sem og stefnu stjórnvalda um lagningu raflína, sem Alþingi hafi samþykkt fyrir rúmu ári, svo og stjórnsýslulaga. Tilgangur kærunnar sé að gætt sé allra lögmætra leiða til að tryggja vernd svæða sem almenni löggjafinn hafi ákveðið að njóta skuli sérstakrar verndar.

Niðurstaða: Í 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála segir að kæra til nefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar. Kærandi geti þó krafist úrskurðar um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Hefur úrskurðarnefndin til þess sjálfstæða heimild, en sú heimild er undantekning frá þeirri meginreglu að kæra fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar.

Kærendur krefjast stöðvunar framkvæmda til að koma í veg fyrir óafturkræfa röskun á Leirhnjúkshrauni í sumar með vegagerð og gerð undirstaða undir háspennumöstur, en samkvæmt þeirri framkvæmdaáætlun sem úrskurðarnefndin hefur aflað sér munu framkvæmdir standa yfir sumarið 2016 og stefnt að því að ljúka þeim í október s.á. Verður því að telja þær yfirvofandi. Af hálfu leyfishafa og sveitarfélagsins er bent á að Leirhnjúkshraun sé hvorki á náttúruminjaskrá né friðlýst. Þá leggur leyfishafi áherslu á að hefja verði framkvæmdir eigi honum að vera mögulegt að uppfylla samningsbundnar skyldur sínar.

Í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 130/2011 segir um 5. gr. að í málum sem varði framkvæmdir sem hafi áhrif á umhverfið kunni kæruheimild að verða þýðingarlaus ef úrskurðarnefndin hafi ekki heimild til að fresta réttaráhrifum hennar, þó sé  mikilvægt að gætt sé að því að efnislegar forsendur liggi að baki kæru, þ.e. að horft sé til þess hversu líklegt sé að kæra breyti efni ákvörðunar.

Í 61. gr. náttúruverndarlaga nr. 60/2013 er fjallað um sérstaka vernd tiltekinna vistkerfa og jarðminja. Samkvæmt a-lið 2. mgr. lagagreinarinnar njóta m.a. eldhraun sem myndast hafa eftir að jökull hvarf af landinu á síðjökultíma sérstakrar verndar í samræmi við markmið 3. gr. laganna. Í 3. mgr. 61. gr. er tiltekið að forðast beri að raska m.a. jarðminjum sem taldar séu upp í 2. mgr. nema brýna nauðsyn beri til. Skylt sé að afla t.d. framkvæmdaleyfis vegna framkvæmda sem hafi í för með sér slíka röskun og beri leyfisveitanda eftir atvikum að leita umsagna. Samkvæmt 4. mgr. greinarinnar skal við mat á leyfisumsókn líta til verndarmarkmiða 2. og 3. gr. og jafnframt huga að mikilvægi minjanna og sérstöðu í íslensku og alþjóðlegu samhengi. Loks skal leyfisveitandi skv. 5. mgr. 61. gr. rökstyðja sérstaklega þá ákvörðun að heimila framkvæmd fari hún í bága við umsagnir umsagnaraðila.

Náttúruverndarlögin tóku gildi 15. nóvember 2015 og er því lítið farið að reyna á framangreind lagaákvæði, en í máli þessu mun m.a. reyna á túlkun þeirra. Sýnist úrskurðarnefndinni að frekari gagna muni þurfa að afla af því tilefni og upplýsa betur um atvik málsins, s.s. um verndargildi Leirhnjúkshrauns, sem og hvort og þá með hvaða hætti mat skv. 4. mgr. 61. gr. hefur farið fram.

Fyrirhuguð framkvæmd er yfirvofandi og myndi hún raska Leirhnjúkshrauni þannig að óafturkræft væri. Verður því að telja að ekki hafi þýðingu að fjalla efnislega um málið nema tryggt sé að hrauninu verði ekki raskað á meðan málið er til úrlausnar hjá úrskurðarnefndinni. Þá þykir af framansögðu ljóst að fram séu komin atriði sem þarfnist nánari rannsóknar við og séu því efnisleg rök að baki kæru. Þykir því fullnægt skilyrðum 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 til stöðvunar framkvæmda.

Að teknu tilliti til meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og ríkra hagsmuna leyfishafa, sem og til atvika málsins, telur úrskurðarnefndin hins vegar ekki réttlætanlegt að stöðva hina leyfðu framkvæmd í heild sinni, heldur einungis að því er varðar þann hluta hennar er raskar Leirhnjúkshrauni.

Rétt þykir að árétta að framkvæmdir eru alfarið á áhættu leyfishafa á meðan efnisleg niðurstaða úrskurðarnefndarinnar liggur ekki fyrir, en hann getur jafnframt krafist þess að mál þetta sæti flýtimeðferð skv. 2. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011.

Úrskurðarorð:

Stöðvaðar eru framkvæmdir sem raskað geta Leirhnjúkshrauni, á grundvelli ákvörðunar sveitarstjórnar Skútustaðahrepps um að samþykkja framkvæmdaleyfi fyrir Kröflulínu 4 meðan mál þetta er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

_____________________________               ______________________________
    Ómar Stefánsson                                              Aðalheiður Jóhannsdóttir

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                 Þorsteinn Þorsteinsson

83/2015 Kjalvegur

Með
Árið 2016, fimmtudaginn 30. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 83/2015, kæra á ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 21. ágúst 2015 um að fyrirhuguð framkvæmd Vegagerðarinnar við breytingar á Kjalvegi á þriggja km kafla norðan Hvítár að Árbúðum, Bláskógabyggð, skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 28. september 2015, er barst nefndinni sama dag, kærir Landvernd, landgræðslu- og umhverfisverndarsamtök Íslands, Þórunnartúni 6, Reykjavík, þá ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 21. ágúst 2015 að fyrirhuguð framkvæmd Vegagerðarinnar við breytingar á Kjalvegi á þriggja km kafla norðan Hvítár að Árbúðum, Bláskógabyggð, skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Enn fremur er þess krafist að framkvæmdin verði stöðvuð til bráðabirgða ef hún hefur hafist eða getur talist vera yfirvofandi, sbr. 1. og 2. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Með bráðabirgðaúrskurði uppkveðnum 15. október 2015 var þeirri kröfu kæranda hafnað. Verður málið nú tekið til endanlegs úrskurðar.

Gögn málsins bárust frá Skipulagsstofnun 1.  og 29. október 2015.

Málavextir:
Mál þetta á sér nokkra forsögu. Með bréfi, dags. 25. mars 2014, sótti Vegagerðin um framkvæmdaleyfi vegna framkvæmda við Kjalveg. Fram kom að um endurbætur á Kjalvegi væri að ræða umfram það sem hefðbundið væri, m.a. vegna opnunar að vori, og yrði vegurinn styrktur að hluta. Var farið fram á framkvæmdaleyfi fyrir efnistöku úr 10 námum, alls um 42.000 m3. Efni yrði einnig tekið úr „skeringum í vegarstæðinu“, en lega Kjalvegar myndi ekki breytast að ráði. Umsóknin var tekin fyrir á fundi skipulagsnefndar Bláskógabyggðar 27. s.m., sem gerði ekki athugasemd við það að sveitarstjórn veitti framkvæmdaleyfi þar sem námurnar væru í aðalskipulagi. Umsókn Vegagerðarinnar var samþykkt á fundi sveitarstjórnar 3. apríl s.á. og óskaði hún eftir lagfærðum gögnum í samræmi við reglugerð um framkvæmdaleyfi.

Í nóvember 2014 bárust Skipulagsstofnun ábendingar og fyrirspurnir, m.a. frá kæranda, um framkvæmdir við uppbyggingu Kjalvegar norðan Hvítár í Bláskógabyggð. Stofnunin svaraði kæranda með tölvupósti og tók fram að ekki hefði borist fyrirspurn eða annað erindi frá Vegagerðinni um endurbætur, enduruppbyggingu eða nýlagningu vegar á Kili. Þá greindi stofnunin kæranda frá samskiptum sínum við Vegagerðina á árinu 2006 vegna framkvæmda á Kjalvegi. Vegagerðin hefði þá aðspurð greint stofnuninni frá því í bréfi, dags. 19. júlí 2006, að unnið hefði verið að endurbyggingu Kjalvegar frá Gullfossi að Sandá í nokkrum áföngum, alls um 10 km, á undanförnum árum, og hefði verið um að ræða endurbyggingu ofan á þann veg sem fyrir hefði verið. Sama vinnulag væri fyrirhugað frá Sandá að Fremstaveri sunnan Bláfellsháls og Hvítár. Því hafi Vegagerðin litið svo á að ekki væri um matsskylda framkvæmd að ræða. Til stæði að fara í frekari vinnu, a.m.k. norður að Hvítá, og þar sem fara þyrfti nokkuð út fyrir núverandi veglínu frá þeim kafla sem verið væri að vinna og norður fyrir Hvítá myndi líklega a.m.k. verða send inn fyrirspurn um matsskyldu.

Í kjölfar framangreindra ábendinga og samskipta sendi Skipulagsstofnun bréf til Bláskógabyggðar, dags. 13. nóvember 2014. Þar benti stofnunin á að síðastliðin 10-15 ár hefði Vegagerðin unnið að endurbyggingu Kjalvegar frá Gullfossi í nokkrum áföngum. Skipulagsstofnun hafi sent Vegagerðinni fyrirspurn, dags. 28. júní 2006, þar sem stofnunin hafi óskað eftir upplýsingum um hvernig fyrirhugað væri að standa að endurbyggingu Kjalvegar samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum. Í svarbréfi Vegagerðarinnar, dags. 19. júlí 2006, hafi komið fram að ekki lægi fyrir hönnun endurbyggingar Kjalvegar norðan afleggjara að Fremstaveri. Þó lægi fyrir að fara yrði nokkuð frá núverandi vegi og „því líklegt að a.m.k. verði að senda inn fyrirspurn um matsskyldu“. Í niðurlagi bréfs Skipulagsstofnunar til Bláskógabyggðar er áréttað að stofnuninni hafi ekki borist slík fyrirspurn eða tilkynning til ákvörðunar um matsskyldu endurbyggingar á Kjalvegi. Óskaði stofnunin eftir upplýsingum frá sveitarfélaginu um útgefin framkvæmdaleyfi allt frá árinu 2006 vegna framkvæmda á Kjalvegi ásamt uppdráttum og hönnunargögnum sem legið hefðu slíkum leyfum til grundvallar. Svaraði skipulagsfulltrúi Bláskógabyggðar fyrirspurninni með tölvupósti 27. nóvember 2014. Upplýsti hann um samþykki sveitarstjórnar frá 3. apríl 2014 á framkvæmdaleyfi vegna efnistöku úr 10 námum, alls um 42.000 m³, þar sem fyrirhugað væri að vinna meira í Kjalvegi en hefðbundið hefði verið. Tölvupóstinum fylgdi erindi Vegagerðarinnar og teikningar, auk umsagnar forsætisráðuneytisins.  

Með bréfi, dags. 13. janúar 2015, ítrekaði Skipulagsstofnun ósk sína um uppdrætti og hönnunarforsendur sem lagðar hefðu verið til grundvallar framkvæmdaleyfum, í þeim tilgangi m.a. að geta séð staðsetningu hvers efnistökusvæðis miðað við Kjalveg og afmörkun einstakra efnistökusvæða. Stofnunin vakti jafnframt athygli á því að heimildir sveitarstjórnar næðu aðeins til efnistöku á tilteknum efnistökustöðum, tilgreindum í aðalskipulagi, og væri því óskað eftir upplýsingum um hvort frekari framkvæmdaleyfi hefðu verið veitt „svo sem til efnistöku úr skeringum eða til breytinga á legu Kjalvegar“. Skipulagsfulltrúi Bláskógabyggðar svaraði bréfi stofnunarinnar með tölvupósti 20. febrúar 2015 og tiltók að ekki lægju fyrir önnur gögn en þau sem send hefðu verið stofnuninni. Framkvæmdir hafi eingöngu snúið að viðhaldi/endurbótum á Kjalvegi og því ekki verið útbúin nákvæm hönnunargögn eins og gert væri þegar um nýjan veg væri að ræða. Sveitarstjórn, en ekki Skipulagsstofnun, hafi gefið út framkvæmdaleyfið og hafi sveitarstjórn gert sér fyllilega grein fyrir í hverju leyfið fælist, m.a. að tekið yrði efni úr skeringum auk efnistöku úr 10 námum.

Í minnisblaði Skipulagsstofnunar, dags. 8. maí 2015, er greint frá fundi stofnunarinnar með fulltrúum Vegagerðarinnar. Kemur þar m.a. fram að á það hafi verið bent af hálfu stofnunarinnar að þær námur sem sótt hafi verið um framkvæmdaleyfi fyrir hafi falið í sér nám á svæði sem væri samtals stærra en 25.000 m2 viðmið í lið 2.03 í 1. viðauka laga um mat á umhverfisáhrifum. Auk þess væri verið að breyta framkvæmd, sbr. lið 13.02 í sama viðauka. Þá hafi ekki farið fram nein stefnumarkandi umræða um lagningu vegar yfir Kjöl meðal hagsmunaaðila. Stofnunin teldi að Vegagerðin yrði að vinna minnisblað/greinargerð um þær framkvæmdir sem lokið væri frá Hvítá. Í minnisblaði Vegagerðarinnar frá 2. júní 2015 er fjallað um viðhald Kjalvegar. Er þar gerð grein fyrir ástandi Kjalvegar frá Gullfossi, m.a. hvað varðar viðhaldsaðgerðir á malarslóða, framkvæmdir á árinu 2014 og áform Vegagerðarinnar um áframhaldandi viðhald á árinu 2015. Í kjölfar þessa áttu sér stað frekari samskipti. Þá kynnti Skipulagsstofnun sér aðstæður á vettvangi 12. júní 2015 og voru skoðaðar framkvæmdir við veginn frá Gullfossi upp að Grjótá, yfir Bláfellsháls að Hvítá og á 6,5 km kafla norðan Hvítár.

Skipulagsstofnun taldi í kjölfarið að fyrirhuguð framkvæmd við veglagningu á um 3,5 km kafla norður að Árbúðum væri tilkynningarskyld framkvæmd, skv. 6. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum og flokki B tölulið 13.02 í 1. viðauka laganna. Í minnisblaði stofnunarinnar þar um, dags. 12. júní 2015, segir m.a: „Ljóst er að á fyrrnefndum 6,5 km kafla hefur verið gerð breyting á þeim vegi sem var fyrir, bæði hefur hann verið færður mismikið á löngum köflum frá upprunalegu vegstæði og einnig verið byggður nokkuð upp auk þess sem á 3 stöðum hefur verið tekið nokkuð magn efnis. Fyrirhugað er, skv. upplýsingum Vegagerðarinnar, að standa eins að verki við þann 3,5 km langa hluta sem eftir er að Árbúðum og þarf í tilkynningu Vegagerðarinnar að leggja fram gögn skv. 10. gr. reglugerðar um mat á umhverfiáhrifum og á hefðbundinn hátt að gera grein fyrir fyrirhuguðum framkvæmdum og leggja mat á áhrif þeirra.“

Hinn 3. júlí 2015 barst Skipulagsstofnun tilkynning frá Vegagerðinni um fyrirhugaðar framkvæmdir á Kjalvegi, sbr. 6. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum og lið 13.02 í 1. viðauka laganna. Fyrirhugaðar væru lagfæringar á 2,9 km kafla norðan Hvítár, að Árbúðum. Kom fram í meðfylgjandi greinargerð að gert væri ráð fyrir að vegarkaflinn myndi fylgja núverandi vegi á rúmlega eins km kafla en á um tveggja km kafla yrði hann lagður utan núverandi vegstæðis. Gert væri ráð fyrir að vegurinn yrði sex metra breiður og nokkuð byggður upp, eða um 0,5-0,7 m yfir aðliggjandi landi, en fyllingar kynnu að verða hærri á sumum köflum. Var og tekið fram að framkvæmdin raskaði náttúruverndarsvæði sem skilgreint væri í svæðisskipulagi miðhálendisins.

Skipulagsstofnun leitaði álits Bláskógabyggðar, Ferðamálastofu, forsætisráðuneytis, Heilbrigðiseftirlits Suðurlands, Minjastofnunar Íslands og Umhverfisstofnunar. Umsagnir bárust í júlí og ágústmánuði 2015 og taldi enginn umsagnaraðila þörf á mati á umhverfisáhrifum.

Í niðurstöðu Skipulagsstofnunar frá 21. ágúst 2015 er tiltekið að um sé að ræða enduruppbyggingu á um þriggja km vegarkafla á Kjalvegi norðan Hvítár að Árbúðum. Veglagningin sé framhald af uppbyggingu á rúmlega sex km kafla frá Hvítá sem ráðist hafi verið í árið 2014. Í Svæðisskipulagi miðhálendis Íslands sé Kjalvegur skilgreindur sem aðalfjallvegur. Í greinargerð með samgönguáætlun 2011-2022 komi fram að meðal framkvæmdamarkmiða vegamála sé að hefja endurbætur á helstu stofnvegum á hálendi. Í Aðalskipulagi Biskupstungnahrepps 2000-2012 sé stefnt að frekari endurbótum á Kjalvegi. Í fyrirliggjandi tillögu að landsskipulagsstefnu sé gert ráð fyrir að unnið verði að nánari stefnumörkun um útfærslu vega á miðhálendinu og þar til hún liggi fyrir verði þess gætt við endurbyggingu stofnvega um miðhálendið að laga þá eftir föngum að landi. Fyrir liggi að Vegagerðin hafi á undanförnum 20 árum unnið í áföngum að endurbótum og styrkingu Kjalvegar á tæplega 30 km kafla að Hvítárbrú og síðan á um rúmlega 6 km kafla norðan Hvítár, sem byggst hafi á fjárveitingum hverju sinni. Endurbæturnar hafi falist í að lyfta veginum upp úr landi og sníða af krappar beygjur með það að markmiði að bæta samgöngur og umferðaröryggi, draga úr líkum á vatnssöfnun á veginum, svo hann þorni fyrr á vorin, viðhald verði auðveldara og dregið verði úr utanvegaakstri. Þrátt fyrir að fjárveitingar hafi ráðið því að unnið hafi verið í stuttum köflum vegarins hverju sinni hafi lengi legið fyrir stefna stjórnvalda um viðhald á Kjalvegi og því hefði átt strax í upphafi við vinnu á endurbótum vegarins að huga að málsmeðferð samkvæmt lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Kjalvegur sé í grunninn framkvæmd sem heyri undir lög um mat á umhverfisáhrifum, sbr. tölulið 10.08 í 1. viðauka laga um mat á umhverfisáhrifum, og breytingar á honum þar með tilkynningarskyldar samkvæmt lögunum til ákvörðunar um matsskyldu. Samkvæmt upplýsingum Vegagerðarinnar hafi enduruppbygging vegarins frá Gullfossi að Hvítá falist nær eingöngu í lagningu efnis ofan á þann veg sem fyrir hafi verið. Ekki séu til upplýsingar um efnismagn sem notað hafi verið í veginn á þessum kafla eða stærð þeirra efnistökusvæða sem efni hafi verið tekið úr. Fyrir liggi að á kaflanum norðan Hvítár, sem ráðist hafi verið í framkvæmdir á á árinu 2014, hafi verið vikið frá vegstæði núverandi vegar á meirihluta leiðarinnar. Skipulagsstofnun geri athugasemdir við að Vegagerðin hafi unnið að þessum framkvæmdum án þess að til hafi komið viðeigandi málsmeðferð skv. lögum um mat á umhverfisáhrifum, en sjái ekki að það þjóni tilgangi að taka ákvörðun um matsskyldu enduruppbyggingar þess hluta vegarins sem þegar hafi komið til framkvæmda. Sú framkvæmd sem sé nú til ákvörðunar um matsskyldu sé lagning um þriggja km vegar norðan Hvítár að Árbúðum. Skipulagsstofnun telji að sú veglagning og efnistaka muni hafa nokkur neikvæð sjónræn áhrif þar sem um sé að ræða framkvæmdir á hálendissvæði sem beri ekki merki mannvirkja fyrir utan núverandi veg. Fyrir liggi að á hluta þessa vegarkafla verði nýr vegur lagður utan núverandi vegar eins og gert hafi verið á þeim kafla sem lagður hafi verið árinu á undan frá Hvítárbrú og verði því nokkuð rask auk þess sem ásýnd landsins breytist þar sem nýr vegur verði meira áberandi mannvirki en sá gamli. Þó sé ljóst að með lágmarksuppbyggingu og malarslitlagi muni vegurinn falla betur að landslaginu heldur en fulluppbyggður vegur samkvæmt vegstaðli með bundnu slitlagi. Sú frágangstilhögun sem kynnt sé í gögnum Vegagerðarinnar sé að mati Skipulagsstofnunar til þess fallin að draga úr neikvæðum sjónrænum áhrifum vegarins í hálendislandslaginu. Neikvæð áhrif veglagningar á aðra umhverfisþætti verði vart fyrir hendi. Um sé að ræða röskun jarðmyndana, einkum lauss jökulruðnings, sem ekki hafi verndargildi og svæðið sé að mestu ógróið. Fyrir liggi að ekki sé til áætlun um heildaruppbyggingu Kjalvegar, sem í heildina sé tæplega 170 km langur frá þjónustumiðstöð við Gullfoss að Blönduvirkjun. Komi til frekari framkvæmda á Kjalvegi, hvort sem um væri að ræða nýlagningu vegar eða enduruppbyggingu hans, verði þær framkvæmdir að hljóta viðeigandi málsmeðferð skv. lögum um mat á umhverfisáhrifum.

Þá segir að í samræmi við 6. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum hafi Skipulagsstofnun farið yfir þau gögn sem lögð hafi verið fram af hálfu Vegagerðarinnar við tilkynningu, umsagnir og viðbrögð Vegagerðarinnar vegna þeirra. Á grundvelli þessara gagna sé það niðurstaða Skipulagsstofnunar að breytingar á um þriggja km kafla á Kjalvegi, norðan Hvítár að Árbúðum, séu ekki líklegar til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif með tilliti til eðlis framkvæmdarinnar, staðsetningar hennar og eiginleika hugsanlegra áhrifa hennar, sbr. þau viðmið sem tilgreind séu í 2. viðauka laga um mat á umhverfisáhrifum. Því skuli framkvæmdin ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Hefur framangreind ákvörðun verið kærð, eins og áður segir.

Málsrök kæranda: Kærandi telur framkvæmd þá sem mál þetta snýst um, þ.e. vegalagningu og efnistöku, aðallega háða mati á umhverfisáhrifum skv. a-lið 1. gr. og 1. mgr. 5. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum og 1. mgr. 4. gr. tilskipunar 2011/92/ESB, en til vara háða slíku mati skv. 6. gr. laga nr. 106/2000, sem framkvæmd er geti „haft í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif vegna umfangs, eðlis eða staðsetningar“, og 2. mgr. 4. gr. tilskipunar 2011/92/ESB. Framkvæmdin hafi ekki sætt mati í áætlun skv. lögum nr. 105/2006 um umhverfismat áætlana og tilskipun 2001/42/EB.

Framkvæmdin hafi verið unnin í áföngum, en allt frá árinu 1995 hafi framkvæmdaraðili unnið að breytingum á Kjalvegi, síðast árið 2014. Sé alls um að ræða vegarlagningu eða breytingar á vegarkafla frá Gullfossi að Árbúðum, sem sé um 44 km langur. Hver framkvæmdakafli um sig sé svo lítill að ekki sé skylt að láta hann sæta mati á umhverfisáhrifum. Þetta sé alþekkt aðferð framkvæmdaraðila til þess að skjóta sér undan umhverfismati, svokallaður „pylsuskurður“ eða „salami-slicing“.

Það sé margreynt fyrir Evrópudómstólnum að þetta vinnulag standist ekki löggjöf um mat á umhverfisáhrifum framkvæmda, nú tilskipun 2011/92/ESB, áður tilskipun 85/337/EBE með breytingum. Dómstólinn hafi dæmt það óheimilt að fara á svig við markmið tilskipunarinnar með því að skipta framkvæmd. Vanræksla þess að taka mið af samlegðaráhrifum nokkurra framkvæmda megi ekki leiða til þess að þær sleppi allar undan matsskyldu, þegar svo hátti til að líklegt sé að þær hafi í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif skv. 1. mgr. 2. gr. tilskipunarinnar, sbr. a-lið 1. gr. og 1. mgr. 5. gr. laga nr. 106/2000.

Í þessu sambandi megi benda á eftirfarandi dóma Evrópudómstólsins: C-392/96, Framkvæmdastjórnin gegn Írlandi, málsgreinar 76 og 82; C-142/07, Ecologistas en Acción-CODA, málsgrein 44; C-205/08, Umweltanwalt von Kärnten, málsgrein 53; C-2/07, Abraham o.fl., málsgrein 27; C-275/09. Brussels Hoofdstedelijk Gewest o.fl., málsgrein 36.

Hafi Skipulagsstofnun borið, með hliðsjón af nefndum dómum, að líta til þess við hina kærðu ákvörðun að ekki hafi eingöngu verið um að ræða þriggja km vegarlagningu eða breytingu, heldur einnig þá vegarlagningu eða breytingu sem þegar hafi verið framkvæmd, sem og þá vegarlagningu eða breytingu sem framundan sé á Kjalvegi, alls um 170 km. Þá hafi verið um að ræða efnistöku til framkvæmdanna í heild og önnur umhverfisáhrif sem taka hefði þurft tillit til. Skipulagsstofnun hafi verið fulljóst hvernig framkvæmdaraðili hafi hagað skiptingu framkvæmdanna á undanförnum árum, m.a. vegna samskipta þeirra á árinu 2006, og stofnuninni því borið að krefjast meðferðar samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum, þ.e. ef framkvæmdinni yrði ekki þegar hafnað vegna skorts á áætlanamati.

Hafa verði í huga að umhverfismatslöggjöf byggi á heildarmati á umhverfisáhrifum framkvæmdar eða breytinga á framkvæmd. Það sé andstætt tilgangi heildarmats að meta aðeins bein áhrif framkvæmdar en sleppa þeim umhverfisáhrifum sem hlotist gætu af notkun og nýtingu sjálfrar framkvæmdarinnar, sbr. dóma Evrópudómstólsins í málum C-2/07, Abraham o.fl., málsgreinar 42 og 43, og C-142/07, Ecologistas en Acción-CODA, málsgrein 39. Skipulagsstofnun hafi ekki hugað að heildaráhrifum umræddrar vegbreytingar, t.d. hver heildaráhrif yrðu af breyttum vegi á hálendisumferð, ásókn á hálendið og á þolmörk þess. Þá hafi stofnunin ekki gáð að því hver samlegðaráhrif kynnu að verða af breyttum vegi og uppbyggingaráformum í gistingu í hálendismiðstöðinni í Kerlingarfjöllum, sem stofnunin hafi þó haft til meðferðar á sama tíma og sé á sama svæði og Kjalvegur. Til þessara þátta hefði átt að líta.

Í umhverfismetinni samgönguáætlun hafi ekki verið gert ráð fyrir breytingum á Kjalvegi og tengdum framkvæmdum, s.s. efnistöku. Sé það andstætt lögum nr. 105/2006 og tilskipun 2011/42/EB. Hefði Skipulagsstofnun átt að hafna framkvæmdinni, m.a. með vísan til þessa.

Óhjákvæmilegt sé að ógilda hina kærðu ákvörðun Skipulagsstofnunar. Við meðferð málsins hafi stofnunin brotið gegn löggjöf um umhverfismat áætlana, lögum um mat á umhverfisáhrifum, tilskipun Evrópusambandsins um umhverfismat framkvæmda, sem og rannsóknarreglu stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Þörf sé á áliti EFTA-dómstólsins við úrlausn málsins þar sem málið muni væntanlega snúast að verulegu leyti um túlkun laga sem byggð séu á samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Kærandi telji úrskurðarnefndina til þess bæra samkvæmt EES rétti að leita álits EFTA-dómstólsins. Lög nr. 21/1994 geri aðeins ráð fyrir álitsumleitan almennra dómstóla en fjalli ekki um heimild úrskurðarnefnda í stjórnsýslunni til álitsumleitunar. Heimild úrskurðarnefnda byggi á 34. gr. samnings EFTA-ríkjanna um stofnun eftirslitsstofnunar og dómstóls en samkvæmt honum geti innlendir dómstólar og stofnanir með dómsvald leitað ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins. Í dómaframkvæmd ESB-dómstólsins og síðar EFTA-dómstólsins hafi hér undir fallið ýmsar stjórnsýslunefndir með úrskurðarvald uppfylli þær tiltekin skilyrði, s.s. að þær séu stofnaðar með lögum, starfi til frambúðar, gegni lögbundnu hlutverki, jafnræði aðila sé tryggt við málsmeðferð, þær séu bundnar af lögmætisreglu og njóti sjálfstæðis. Vísað sé til dóma EFTA-dómstólsins í málum E-1/94 Restamark og E-1/11 Statens helsepersonellnemnd. Fordæmi ESB-dómstólsins séu fjölmörg, t.d. mál C-393/92, einkum málsgrein 21. þar sem vitnað sé til Restamark.

Málsrök Skipulagsstofnunar:
Af hálfu Skipulagsstofnunar er tekið fram að á undanförnum 20 árum hafi Vegagerðin unnið í áföngum að endurbótum og styrkingu Kjalvegar á tæplega 30 km kafla frá Gullfossi að Hvítárbrú og síðan árið 2014 á um 6 km kafla norðan Hvítár. Í ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 21. ágúst 2015 komi fram að stofnunin telji það ekki þjóna tilgangi að taka ákvörðun um matsskyldu enduruppbyggingar þess hluta vegarins sem þegar hafi komið til framkvæmda. Því hafi ekki komið til skoðunar hjá stofnuninni hvort, og þá hvaða, hluti þeirra framkvæmda teldist tilkynningarskyldur lögum samkvæmt.

Ekki liggi fyrir að áformaðar séu frekari framkvæmdir við breytingar á Kjalvegi umfram þá enduruppbyggingu þriggja km vegarkafla sem tilkynnt hafi verið til Skipulagsstofnunar á árinu 2015. Hafi ekki verið til staðar forsendur til að taka afstöðu til matsskyldu annars en þess kafla sem Vegagerðin hafi lagt fram til ákvörðunar, enda liggi ekki fyrir áætlun um heildaruppbyggingu Kjalvegar. Í hinni kærðu ákvörðun sé tekið fram að frekari framkvæmdir við Kjalveg verði að hljóta viðeigandi málsmeðferð samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum, komi til áforma um frekari framkvæmdir, hvort sem um verði að ræða nýlagningu vegar eða enduruppbyggingu hans.

Í ljósi tilvísunar kæranda til dóma Evrópudómstólsins sé bent á að atvik í þeim málum séu ekki öldungis sambærileg atvikum í máli því sem kæran lúti að. Stofnunin taki engu að síður undir með kæranda að almennt sé mikilvægt að mat á umhverfisáhrifum sé ekki sniðgengið með því að búta framkvæmdir óeðlilega niður.

Í kæru sé á því byggt að andstætt lögum nr. 105/2006 og tilskipun 2001/42/EB hafi ekki verið gert ráð fyrir breytingum á Kjalvegi og tengdum framkvæmdum, svo sem efnistöku, í umhverfismetinni samgönguáætlun. Þessum málsrökum sé hafnað af hálfu stofnunarinnar. Grunnnet samgangna sé skilgreint í samgönguáætlun fyrir árin 2011-2022, þ.e. þingsályktun nr. 48/140. Þar sé Kjalvegur skilgreindur sem einn af fjórum stofnvegum á hálendinu. Í greinargerð með samgönguáætlun komi fram að meðal framkvæmdamarkmiða vegamála sé að hefja endurbætur á helstu stofnvegum á hálendi og koma þeim í „gott horf“. Telja verði að framkvæmdir við Kjalveg, samkvæmt hinni kærðu ákvörðun, séu í samræmi við framangreind markmið. Samgönguáætlun hafi hlotið umhverfismat, skv. lögum nr. 105/2006.

Hvað varði málsrök kæranda þess efnis að umhverfismatslöggjöf byggi á heildarmati á umhverfisáhrifum framkvæmdar eða breytinga á framkvæmd og að Skipulagsstofnun hafi ekkert hugað að heildaráhrifum umræddrar vegbreytinga, t.d. hver heildaráhrif yrðu af breyttum vegi á hálendisumferð, ásókn á hálendið og á þolmörk þess, sé það ítrekað að tilkynning Vegagerðarinnar hafi eingöngu varðað endurbætur á þriggja km vegarkafla á Kjalvegi. Í því ljósi hafi stofnunin ekki talið koma til álita að fjalla sérstaklega um áhrif á umferð um Kjöl eða samlegðaráhrif með uppbyggingaráformum í Kerlingarfjöllum.

Skipulagsstofnun hafi staðið í þeirri trú að Vegagerðin myndi vera í samskiptum við stofnunina, í formi fyrirspurnar eða tilkynningar um framkvæmdir við Kjalveg, áður en kæmi til framkvæmdar, m.a. í ljósi bréfasamskipta milli stofnananna í júlí 2006. Það hafi Vegagerðin hins vegar ekki gert. Skipulagsstofnun hafi ekki haft vitneskju um framkvæmdir við Kjalveg á árunum 1995-2006 fyrr en samskipti við Vegagerðina hafi átt sér stað á árinu 2006. Samkvæmt skipulagslögum, áður skipulags- og byggingarlögum, sé það viðkomandi sveitarfélag sem veiti framkvæmdaleyfi til vegaframkvæmda. Ekki sé þó heimilt að veita framkvæmdaleyfi vegna mats- eða tilkynningarskyldra framkvæmda fyrr en álit um hina matsskyldu framkvæmd liggi fyrir eða tekin hafi verið ákvörðun um að tilkynningarskyld framkvæmd skuli ekki háð umhverfismati. Sveitarstjórn Bláskógabyggðar hafi borið að kanna, áður en framkvæmdarleyfi voru veitt vegna framkvæmda við Kjalveg, hvort veglagningin félli undir ákvæði matslaganna og hefði hlotið viðeigandi málsmeðferð.

Athugasemdir framkvæmdaraðila: Framkvæmdaraðili tekur fram að hann hafi hafist handa við lagfæringar á 6,4 km vegarkafla Kjalvegs norðan Hvítár á árinu 2014. Hafi verkið verið unnið án athugasemda þar til fram hafi komið ábendingar um að verkið kynni að þurfa málsmeðferð skv. lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Verið sé að ljúka við frágang vegfláa á þeim kafla sem búið sé að vinna að og sé verkinu að mestu lokið. Verk sem kæra beinist að sé 2,9 km kafli þar í framhaldi sem endi við Árbúðir ásamt tilheyrandi 7.000 m³ efnistöku vegna umræddra lagfæringa, annars vegar úr námu C, sem sé skering við enda þeirra lagfæringa sem ráðist hafi verið í á árinu 2014, og hins vegar úr skeringu u.þ.b. 300 m norðan við námu C. Umræddar framkvæmdir séu í samræmi við framkvæmdamarkmið samgönguáætlunar 2011-2022 þar sem fram komi að hefja eigi endurbætur á helstu stofnvegum á hálendinu.

Fyrirhugaðar framkvæmdir séu minniháttar með tilliti til umhverfisáhrifa. Þær felist í lagfæringu og lítilsháttar tilfærslu vegar á 2,9 km löngum vegarkafla, lyftingu hans um 0,5-0,7 m og því að rétta af krappar beygjur. Í raun felist verkið að mestu í því að ekið sé þunnu lagi af jarðefni á vegbreiddina, það þjappað og jafnað út auk tilheyrandi efnistöku og lítilsháttar skeringu. Ítarleg skoðun hafi farið fram af hálfu Skipulagsstofnunar sem hafi komist að þeirri niðurstöðu að verkið sé ekki til þess fallið að valda umtalsverðum áhrifum á umhverfið með tilliti til staðsetningar, eðlis og hugsanlegra áhrifa, sbr. viðmið 2. viðauka laga um mat á umhverfisáhrifum. Niðurstaðan sé vel rökstudd og sé framkvæmdaraðili sammála henni. Þá sé um að ræða verk sem sé að fullu afturkræft þar sem um minniháttar breytingar á umhverfi vegarins sé að ræða, sem myndu hverfa á stuttum tíma ef fjarlægja þyrfti jarðefnið úr veginum.

Að lokinni vettvangsgöngu sendi framkvæmdaraðili úrskurðarnefndinni umferðartölur um Kjalveg frá árinu 2015. Tók hann fram að þær hefðu lítið breyst frá árinu 2013 og að lagfæring vegarins á þriggja km kafla myndi ekki hafa í för með sér nein áhrif á umferðarmagn.

Vettvangsganga: Úrskurðarnefndin kynnti sér aðstæður á vettvangi 23. júní 2016.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 21. ágúst 2015 að fyrirhuguð framkvæmd Vegagerðarinnar, við breytingar á Kjalvegi á þriggja km kafla norðan Hvítár að Árbúðum, Bláskógabyggð, skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Hefur kærandi meðal annars bent á að þörf sé á áliti EFTA-dómstólsins við úrlausn málsins. Í lögum nr. 21/1994 um öflun álits EFTA-dómstólsins um skýringu samnings um Evrópska efnahagssvæðið er kveðið á um heimildir dómara til að afla ráðgefandi álits EFTA- dómstólsins vegna mála sem rekin eru fyrir héraðsdómstólum, Félagsdómi og Hæstarétti. Í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að nefndum lögum kemur fram að í 34. gr. samnings milli EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls sé kveðið á um lögsögu EFTA-dómstólsins til þess að gefa ráðgefandi álit um skýringu samnings um Evrópska efnahagssvæðið. Segir svo að EFTA-ríkjunum sé veitt heimild í ákvæðinu til að takmarka rétt dómstóla sinna til að leita álits sem þessa við þá dómstóla sem kveði upp úrlausnir sem sæti ekki málskoti samkvæmt lögum. Þá er tekið fram að sú leið sé valin að leggja til að héraðsdómstólum verði veitt þessi heimild til jafns við Hæstarétt. Loks að taka verði tillit til þess að Félagsdómur kveði upp endanlega dóma á sínu sviði en á vettvangi hans geti reynt á atriði sem lúti að skýringu EES-reglna.

Hvorki er í nefndum lögum né frumvarpi vikið að úrskurðarnefndum, þó allnokkrar væru á þeim tíma, eða heimildum þeirra. Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála var sett á fót með lögum nr. 130/2011 sem tóku gildi 1. janúar 2012. Á sama tíma fóru fram viðamiklar lagabreytingar, sbr. einkum lög nr. 131/2011 um breytingu á ýmsum lögum vegna fullgildingar Árósasamningsins. Löggjafinn breytti hins vegar ekki lögum nr. 21/1994 af því tilefni. Verður ekki séð af framangreindu að úrskurðarnefndin geti leitað ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins og þykir rétt að árétta í því sambandi að úrskurðum nefndarinnar verður skotið til dómstóla, sem eftir atvikum geta kosið að leita slíks álits.

Markmið laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum eru tíunduð í 1. gr. þeirra og er þar m.a. tilgreint sem markmið að tryggja að áður en leyfi sé veitt fyrir framkvæmd, sem kann vegna staðsetningar, starfsemi sem henni fylgir, eðlis eða umfangs að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif, hafi farið fram mat á umhverfisáhrifum viðkomandi framkvæmdar. Er og markmið laganna að draga eins og kostur er úr neikvæðum umhverfisáhrifum framkvæmdar, en það nýmæli kom inn í lögin með breytingarlögum nr. 74/2005. Í athugasemdum með frumvarpi til þeirra laga er um þetta nýmæli vísað til nefndarálits umhverfisnefndar Alþingis um frumvarp það sem varð að lögum nr. 106/2000 og rakið að í því áliti hafi nefndin minnt á að Evróputilskipun sú er lögin byggja á sé byggð á meginreglum, m.a. varúðarreglunni og reglunni um verndarsjónarmið. Þá er nánar rakið í athugasemdunum að af aðfaraorðum og ákvæðum Evróputilskipunarinnar megi ráða að matsferli því sem kveðið sé á um sé fyrst og fremst ætlað að tryggja að við veitingu framkvæmdaleyfis liggi fyrir helstu upplýsingar um þá þætti umhverfisáhrifa framkvæmdar sem máli skipti og nánar sé lýst í tilskipuninni og að m.a. sé tekið mið af þessum upplýsingum. Er enda m.a. tiltekið í 1. mgr. 13. gr. laga nr. 106/2000 að óheimilt sé að gefa út leyfi til framkvæmdar fyrr en fyrir liggi ákvörðun um að framkvæmd skv. 6. gr. sé ekki matsskyld. Í 3. mgr. 13. gr. er svo áréttað að við útgáfu leyfis til framkvæmdar, þar sem fyrir liggi ákvörðun um að framkvæmdin skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum, skuli leyfissveitandi kynna sér tilkynningu framkvæmdaraðila og ákvörðunina um matsskyldu og kanna hvort framkvæmdin sé í samræmi við tilkynnta framkvæmd. Nefnd 3. mgr. bættist við 13. gr. með breytingarlögum nr. 138/2014 og segir í athugasemdum með þeirri grein í frumvarpi með lögunum að rétt þyki að skýra betur skyldur leyfisveitanda og að talið sé eðlilegt að skyldur hans varði einnig tilkynningarskyldar framkvæmdir.

Í athugasemdum við frumvarp það sem varð að síðastnefndum breytingarlögum nr. 138/2014 er fjallað ítarlega um breytingarnar og tilefni þeirra. Er tekið fram að Eftirlitsstofnun EFTA hafi gert athugasemdir annars vegar um viðmið matsskyldra og tilkynningarskyldra framkvæmda í 1. og 2. viðauka þágildandi laga og hins vegar um orðalag nokkurra ákvæða þeirra viðauka. Niðurstaða eftirlitsstofnunarinnar sé sú að framkvæmdir, sem heyri undir framkvæmdaflokka þá sem tilgreindir séu í viðauka II í tilskipuninni, en falli utan við viðmiðunarmörk 1. og 2. viðauka laganna eða séu ekki taldar þar upp og/eða séu ekki á verndarsvæðum, séu ekki háðar mati á umhverfisáhrifum eða nánari skoðun. Falli slík tilvik því utan við gildissvið laga um mat á umhverfisáhrifum. Þá segir í athugasemdunum með frumvarpinu að markmið lagasetningarinnar sé m.a. að koma til móts við athugasemdir eftirlitsstofnunarinnar. Er og rakin dómaframkvæmd Evrópudómstólsins og niðurstaða hans varðandi m.a. að lítil framkvæmd geti haft mikil áhrif á umhverfið ef framkvæmdin er staðsett þar sem umhverfisþættir, eins og fána og flóra, jarðvegur, vatn, loftslag eða menningarleg arfleifð, séu viðkvæmir fyrir minnstu breytingum. Einnig að aðferð sem aðildarríki ákveði að verði notuð til ákvörðunar um matsskyldu framkvæmdar megi ekki grafa undan markmiðum tilskipunarinnar. Markmið hennar sé að engin framkvæmd, sem sé líkleg til að hafa veruleg áhrif á umhverfið í skilningi tilskipunarinnar, verði undanþegin mati á umhverfisáhrifum, nema að sú framkvæmd hafi á grunni víðfeðmrar skimunar ekki verið talin hafa slík áhrif.

Kjalvegur er í heild tæpir 170 km að lengd, allt frá Gullfossi í suðri að Blönduvirkjun í norðri. Vegurinn er aðalfjallvegur samkvæmt þágildandi Svæðisskipulagi miðhálendis Íslands 2015, en aðalfjallvegir eru þar skilgreindir sem stofnvegir hálendis, byggðir sem fólksbílafærir sumarvegir með brúuðum ám. Kjalvegur er og skilgreindur sem stofnvegur um hálendi í Samgönguáætlun 2011-2022 og telst hann því hluti af grunnneti vegakerfisins. Helstu stofnvegi á hálendi skal endurbæta samkvæmt framkvæmdamarkmiðum vegamála í greinargerð með samgönguáætluninni. Jafnframt kemur fram í aðalskipulagi Biskupstungnahrepps að stefnt sé að endurbótum á Kjalvegi. Vegurinn er að stofni til matsskyld framkvæmd og var tilkynnt um þá framkvæmd sem hér er um deilt sem breytingu á matsskyldri framkvæmd, sbr. lið 13.02 í 1. viðauka laga nr. 106/2000. Þegar svo háttar þarfnast athugunar hvort að nefnd breyting kunni að hafa umtalsverð umhverfisáhrif í för með sér en slík umhverfisáhrif eru nánar skilgreind í p-lið 1. mgr. 3. gr. laganna sem veruleg óafturkræf umhverfisáhrif eða veruleg spjöll á umhverfinu sem ekki sé hægt að fyrirbyggja eða bæta úr með mótvægisaðgerðum.

Í tilkynningu framkvæmdaraðila til Skipulagsstofnunar kemur fram að við endurskoðun vegaskrár árið 2010 hafi verið tekin ákvörðun um að allir stofnvegir á Íslandi væru að minnsta kosti samkvæmt vegtegund C8. Samkvæmt veghönnunarreglum Vegagerðarinnar frá árinu 2011 er það 8 m breiður vegur með bundnu slitlagi. Kjalvegur ætti samkvæmt framangreindu að vera lagður með þeim hætti. Hins vegar kemur fram í nefndri tilkynningu að við undirbúning lagfæringa á Kjalvegi frá Hvítá að Árbúðum hafi verið tekin ákvörðun um að fara ekki eftir veghönnunarreglum um hönnun og breidd vegarins. Sumarið 2014 hafi verið lagður 6 m breiður, lítillega uppbyggður vegur í vegstæði Kjalvegar á 6,4 km löngum kafla frá Hvítá í átt að Árbúðum. Miðað hafi verið við að krappar beygjur væru gerðar meira aflíðandi og á þeim köflum hafi þurft að víkja frá veglínunni á samtals um fjögurra km kafla og hann lagður við hlið núverandi vegar. Vegurinn hafi verið lagður í ríflega eins metra hæð í tveimur lægðum en annars í 0,5-0,7 m hæð yfir aðliggjandi landi. Fyrirhugað sé að halda áfram verkinu og miðast tilkynningin við að lagfæra veginn á 2,9 km kafla. Lagður verði nokkuð góður og öruggur vegur, sem verði felldur eins vel að landi og aðstæður leyfi. Hann muni fylgja núverandi vegi nema þar sem lagfæra þurfi krappar beygjur, eða aðrar aðstæður kalli á færslu vegarins, samtals á um 1,7 km kafla. Gert sé ráð fyrir að vegurinn verði 6 m breiður og nokkuð uppbyggður, eða í um 0,5-0,7 m hæð yfir aðliggjandi landi, en þó sé ekki hægt að útiloka hærri fyllingar á stuttum köflum. Miðað sé við að vegurinn verði lagður malarslitlagi. Vegurinn verði ekki byggður fyrir aðra þungaumferð en rútur.

Í tilkynningu framkvæmdaraðila eru aðrar framkvæmdir við Kjalveg jafnframt raktar. Fram kemur að á 15,4 km kafla frá Gullfossi að Kattarhrygg sé uppbyggður vegur með bundnu slitlagi og hafi hann verið lagður á árunum 1995-2007. Framkvæmdirnar hafi verið unnar fyrir sérstakar fjárveitingar í samgönguáætlun til uppbyggingar á grunnneti, en fjárveitingum til þessara framkvæmda hafi verið hætt árið 2009. Þá kemur fram að á árinu 2010 hafi burðarhæfu efni verið keyrt í 5,3 km langan kafla, frá slitlagsenda sunnan Grjótár og að ánni. Standi vegurinn á þeim kafla upp úr landi eftir þær aðgerðir. Nokkrum árum áður hafi verið búið að gera samskonar aðgerð á 6,9 km löngum kafla norðan Bláfells, frá Vörðu á Bláfellshálsi að Hvítá. Þeir kaflar eru nú uppbyggðir með malarslitlagi og að mati úrskurðarnefndarinnar að lokinni vettvangsgöngu eru þeir áþekkir þeim kafla sem unnið var við árið 2014 og þeim kafla þar sem framkvæmdir eru nú fyrirhugaðar. Með hliðsjón af framansögðu er það álit úrskurðarnefndarinnar að í þá kafla vegarins hafi einungis verið keyrt efni án þess að teljandi hafi verið vikið frá fyrri veglínu.

Loks kemur fram í tilkynningu framkvæmdaraðila að á 6,9 km kafla milli Grjótár og Vörðu á Bláfellshálsi sé niðurgrafinn malarvegur, krókóttur, brattur og mjór, og þar þurfi að víkja út af núverandi vegi og laga legu hans. Ákvörðun um legu vegarins á þeim kafla hafi ekki verið tekin og við undirbúning þeirrar framkvæmdar verði sent erindi til Skipulagsstofnunar í samræmi við lög nr. 106/2000. Einnig að engar ákvarðanir hafi verið teknar um áframhaldandi framkvæmdir á Kjalvegi, að lokinni þeirri framkvæmd sem hér er deilt um.

Alls hefur framkvæmdaraðili á síðustu 20 árum unnið í áföngum að endurbótum og styrkingu Kjalvegar á 27,6 km kafla að Hvítárbrú og eru 15,4 km þeirra með bundnu slitlagi. Frá Hvítárbrú hefur verið framkvæmt á 6,4 km kafla og eru fyrirhugaðar framkvæmdir við 2,9 km bút í framhaldi þess kafla. Framkvæmdirnar hafa byggst á fjárveitingum hverju sinni og er ljóst af gögnum málsins að þær hafa ekki hlotið viðeigandi málsmeðferð skv. lögum um mat á umhverfisáhrifum, líkt og Skipulagsstofnun gerir athugasemd við í niðurstöðum sínum. Bætir Skipulagsstofnun því svo við að hún „sjái ekki að það þjóni tilgangi að taka ákvörðun um matsskyldu enduruppbyggingar þess hluta vegarins, sem þegar hafi komið til framkvæmda“. Afmarkaði stofnunin athugun sína þannig við þann 2,9 km kafla sem tilkynntur var án þess að fjalla um möguleg samlegðaráhrif við fyrri eða síðari framkvæmdir við Kjalveg.

Það er álit úrskurðarnefndarinnar að almennt verði ekki við það búið að skoða eingöngu stakar framkvæmdir án þess að huga að samhengi þeirra við framkvæmdir, sem þegar hafa átt sér stað og fyrirhugaðar eru, þegar augljóst er að þær tengjast. Er enda ljóst að almennt er sá háttur að hluta niður framkvæmdir til þess fallinn að fara á svig við þau markmið laga nr. 106/2000 sem áður eru rakin. Gildir þá einu hvort fjárveitingar hverju sinni ráði framvindu framkvæmda.

Eins og áður hefur verið rakið hefur legið fyrir í skipulagsáætlunum um langan tíma að Kjalvegur skuli vera fólksbílafær sumarvegur með brúuðum ám og sé stefnt að endurbótum á honum. Þrátt fyrir að framkvæmdaraðili hafi ákveðið að stofnvegir, eins og t.d. Kjalvegur, væru a.m.k. samkvæmt vegtegund C8 þykir ekki varhugavert að draga þá ályktun af síðari
ákvörðunartöku framkvæmdaraðila og framkvæmdum við veginn að fólksbílafær sumarvegur þýði að Kjalvegur verði um 6 metra breiður vegur, lítillega uppbyggður og með malarslitlagi.

Í tilkynningu framkvæmdaraðila er tekið fram að rúmlega 98 km vegarins hafi verið byggðir upp og þar af séu tæplega 19 km með bundnu slitlagi. Af lýsingu þessa hluta vegarins og vettvangsgöngu úrskurðarnefndarinnar má álykta að hann sé að þessum hluta fólksbílafær sumarvegur og sé ólíklegt að farið verði í frekari framkvæmdir þar aðrar en viðhaldsframkvæmdir án þess að um það verði þá tekin sérstök ákvörðun og framkvæmdin tilkynnt til Skipulagsstofnunar.

Utan þess 2,9 km kafla sem hér er um deilt, og þess 6,4 km kafla sem nýlega hefur verið lagfærður, er alls 60,1 km vegarins lýst sem niðurgröfnum malarvegi, krókóttum og mjóum, þar af er 6,9 km kafli frá Grjótá að Vörðu á Bláfellshálsi að auki brattur. Um þann kafla hefur framkvæmdaraðili tekið fram að víkja þurfi frá núverandi veglínu.

Með hliðsjón af því sem að framan er rakið er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að Skipulagsstofnun hafi við hina kærðu matsskylduákvörðun sína a.m.k. borið að líta einnig til þeirra framkvæmda sem áttu sér stað á 6,4 km kafla norðan Hvítár frá árinu 2014 og tilheyrandi efnistöku, sem og 6,9 km kafla frá Grjótá að Vörðu á Bláfellshálsi. Svo var hins vegar ekki gert og er það annmarki á ákvörðuninni. 
 
Þrátt fyrir greindan annmarka verður ekki framhjá því litið að framkvæmd sú sem um er deilt er hvorki mikil að umfangi né áhrifum. Byggir sú niðurstaða úrskurðarnefndarinnar ekki eingöngu á gögnum málsins heldur öðrum þræði á könnun á vettvangi framkvæmdarinnar. Skal og á það bent í því samhengi að við afgreiðslu málsins kynnti Skipulagsstofnun sér einnig aðstæður á vettvangi. Þrátt fyrir að stofnunin hefði tekið til skoðunar þá 6,4 km framkvæmd sem áður hafði verið lokið verður ekki talið að efni hefðu verið til að komast að annarri niðurstöðu. Kom enda fram í tilkynningu framkvæmdaraðila að framkvæmdinni hefði verið hagað á sama máta og fyrirhugað væri nú. Hvað varðar 6,9 km kafla milli Grjótár og Vörðu á Bláfellshálsi áréttar úrskurðarnefndin að Skipulagsstofnun hefði við ákvörðun sína verið rétt að líta til hans að auki. Með hliðsjón af því að stofnunin tók fram að komi til frekari framkvæmda á Kjalvegi verði þær framkvæmdir að hljóta viðeigandi málsmeðferð skv. lögum nr. 106/2000 verður þessi ágalli þó ekki talinn raska gildi ákvörðunarinnar. Hlyti enda þá m.a. að koma til skoðunar hvort um væri að ræða enduruppbyggingu vegar þar sem samanlögð nýlagning utan eldra vegsvæðis er a.m.k. 10 km að lengd, sbr. tl. 10.08 í 1. viðauka laga nr. 106/2000, en það leiðir fortakslaust til matsskyldu.

Samkvæmt framangreindu verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.


Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 21. ágúst 2015 um að fyrirhuguð framkvæmd Vegagerðarinnar við breytingar á Kjalvegi á þriggja km kafla norðan Hvítár að Árbúðum, Bláskógabyggð, skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ómar Stefánsson                                                    Aðalheiður Jóhannsdóttir

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                  Þorsteinn Þorsteinsson

 

90/2015 Kjalvegur

Með
Árið 2016, fimmtudaginn 30. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 90/2015, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Bláskógabyggðar frá 3. september 2015 um að samþykkja framkvæmdaleyfi fyrir áframhaldandi lagfæringum á Kjalvegi á 2,9 km kafla norðan Hvítár að Árbúðum.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 21. október 2015, er barst nefndinni sama dag, kærir Landvernd, landgræðslu- og umhverfisverndarsamtök Íslands, Þórunnartúni 6, Reykjavík, þá ákvörðun sveitarstjórnar Bláskógabyggðar frá 3. september 2015 að samþykkja framkvæmdaleyfi fyrir áframhaldandi lagfæringum á Kjalvegi á 2,9 km kafla norðan Hvítár að Árbúðum. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Enn fremur er þess krafist að framkvæmdin verði stöðvuð til bráðabirgða ef hún hefur hafist eða getur talist vera yfirvofandi, sbr. 1. og 2. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Samkvæmt þeim upplýsingum sem úrskurðarnefndin aflaði sér eru framkvæmdir ekki fyrirhugaðar fyrr en að liðnum júnímánuði 2016. Verður málið nú tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfu kæranda.

Gögn málsins bárust frá Bláskógabyggð 29. október og 17. nóvember 2015.

Málavextir: Með bréfi, dags. 31. ágúst 2015, sótti Vegagerðin um framkvæmdaleyfi til að halda áfram lagfæringum á Kjalvegi frá enda þess kafla sem lokið hafði verið við á árinu 2014. Kom fram að fyrirhugað væri að gera endurbætur á 2,9 km löngum kafla á Kjalvegi, sem hæfist 6,4 km norðan Hvítár og endaði við Árbúðir. Gert væri ráð fyrir að taka samtals um 7.000 m³ af efni í þennan áfanga úr námu C, sem væri skering við enda þess kafla sem lokið hefði verið við á árinu 2014, og úr skeringu í blindhæð u.þ.b. 300 m norðan við námu C. Var upplýst um það í umsókninni að framkvæmdin hefði verið til meðferðar hjá Skipulagsstofnun, sem hefði komist að þeirri niðurstöðu að framkvæmdin skyldi ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Ákvörðun Skipulagsstofnunar þar um fylgdi umsókninni, sem og kynning Vegagerðarinnar á lagfæringunum frá júlí 2015.

Sveitarstjórn Bláskógabyggðar tók umsókn Vegagerðarinnar til afgreiðslu á fundi sínum 3. september 2015. Bókað var í fundargerð að um væri að ræða endurbætur á 2,9 km kafla sem byrjaði norðan Hvítár frá enda þess kafla sem lokið hefði verið við 2014 og endaði við Árbúðir. Jafnframt var bókað að fyrir lægi ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 21. ágúst 2015 um að framkvæmdin skyldi ekki háð mati á umhverfisáhrifum framkvæmda. Meðfylgjandi umsókninni væri skýrsla frá júlí 2015 þar sem farið væri yfir hvernig staðið yrði að framkvæmdum. Samþykkti sveitarstjórn að fela skipulagsfulltrúa að gefa út framkvæmdaleyfi í samræmi við umsóknina.

Skipulagsfulltrúi gaf hinn 17. nóvember 2015 út leyfi vegna framkvæmdanna og lá þá fyrir þeim samþykki forsætisráðuneytisins skv. 3. mgr. 3. gr. laga nr. 58/1998 um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta, sbr. bréf þess efnis, dags. 3. s.m.

Málsrök kæranda: Kærandi telur hina umdeildu vegagerð og efnistöku háða mati á umhverfisáhrifum. Niðurstaða Skipulagsstofnunar um að svo sé ekki sé í andstöðu við lög og hafi kærandi kært þá ákvörðun. Allt frá árinu 1995 hafi Vegagerðin í áföngum unnið að breytingum á Kjalvegi, síðast árið 2014. Vegagerðin hyggist nú enn halda áfram framkvæmdum við uppbyggingu á Kjalvegi eftir því sem fjárveitingar leyfi, einnig á kaflanum norðan Árbúða. Þá hafi Vegagerðin allt frá árinu 1995 tekið efni sem talið hafi verið nauðsynlegt til framkvæmdarinnar.

Framkvæmdin hafi verið unnin í áföngum, sem hver um sig sé svo lítill að ekki sé skylt að láta þá sæta mati á umhverfisáhrifum. Þetta sé alþekkt aðferð framkvæmdaraðila til þess að skjóta sér undan umhverfismati, svokallaður „pylsuskurður“ eða „salami-slicing“. Það sé margreynt fyrir Evrópudómstólnum að þetta vinnulag standist ekki löggjöf um umhverfismat framkvæmda, nú tilskipun 2011/92/ESB, áður tilskipun 85/337/EBE, með breytingum. Dómstóllinn hafi dæmt það óheimilt að fara á svig við markmið tilskipunarinnar með því að skipta upp framkvæmd. Í þessu sambandi megi benda á eftirfarandi dóma Evrópudómstólsins: C-392/96, Framkvæmdastjórnin gegn Írlandi, málsgreinar 76 og 82; C-142/07, Ecologistas en Acción-CODA, málsgrein 44; C-205/08, Umweltanwalt von Kärnten, málsgrein 53; C-2/07, Abraham o.fl., málsgrein 27; C-275/09. Brussels Hoofdstedelijk Gewest o.fl., málsgrein 36.

Skipulagsstofnun hafi verið fulljóst hvernig leyfishafi hafi hagað skiptingu framkvæmdarinnar á undanförnum árum, m.a. vegna samskipta þeirra á árinu 2006, og hafi stofnuninni því borið að krefjast meðferðar samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum, þ.e. ef framkvæmdinni yrði ekki þegar hafnað vegna skorts á áætlanamati. Um þetta hafi sveitarstjórn Bláskógabyggðar verið fullkunnugt og hafi sem leyfisveitanda borið að rannsaka málið og taka til þess rökstudda afstöðu.

Hafa verði í huga að umhverfismatslöggjöf byggi á heildarmati á umhverfisáhrifum framkvæmdar eða breytinga á framkvæmd. Hvorki Skipulagsstofnun né Bláskógabyggð hafi hugað að heildaráhrifum umræddrar vegbreytingar, t.d. hver heildaráhrif yrðu af breyttum vegi á hálendisumferð, ásókn á hálendið og á þolmörk þess. Þessir aðilar hafi ekki gætt að því hver samlegðaráhrif kynnu að verða af breyttum vegi og uppbyggingaráformum í hálendismiðstöðinni í Kerlingafjöllum, sem sé á sama svæði og Kjalvegur.

Jafnvel minniháttar framkvæmd geti haft umtalsverð umhverfisáhrif sé staðsetning hennar á þann veg að umhverfisþættir sem tilgreindir séu í 3. gr. tilskipunar 2011/92/ESB, s.s. dýr og plöntur, jarðvegur, vatn, loftslag, landslag eða menningararfleifð, séu viðkvæmir fyrir minnstu breytingum, sbr. einnig dóm Evrópudómstólsins í máli C-392/96, málsgrein 66. Skipulagsstofnun og sveitarstjórn hafi láðst að gæta að þessari lögskýringu, sem einnig gildi við skýringu laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Naumast verði um það deilt að framkvæmd sú sem um ræði sé fyrirhuguð á einu viðkvæmasta svæði í íslenskri náttúru, þ.e. á miðhálendi Íslands. Beri því að gæta ströngustu málsmeðferðarreglna við töku allra ákvarðana sem snerti framkvæmdir á svæðinu.
Ekki verði séð á hvaða lagagrunni sveitarstjórn hafi veitt umbeðið framkvæmdaleyfi. Sveitarstjórn hafi hvorki efnt til kynningar meðal almennings á leyfisbeiðni né leitað álits umsagnaraðila og almennings áður en til ákvörðunartöku hafi komið. Ekki hafi verið hugað að öðrum atriðum, svo sem skylt sé skv. 13. og 14. gr. skipulagslaga og reglugerð nr. 772/2012 um framkvæmdaleyfi, sbr. 2.-6. mgr. 6. gr. tilskipunar 2011/92/ESB. Þá sé engan rökstuðning að finna fyrir ákvörðuninni, sbr. að nokkru 2. mgr. 14. gr. skipulagslaga og 2. mgr. 10. gr. fyrrnefndrar reglugerðar, en þó aðallega með hliðsjón af b-lið 1. mgr. 9. gr. nefndrar tilskipunar, sem skýra beri íslensku lagaákvæðin til samræmis við. Loks hafi sveitarstjórn vanrækt rannsóknarskyldu sína, en ekki sjái þess stað að hún hafi kannað hvort afla þyrfti frekari upplýsinga eða hvort framkvæmdin væri í samræmi við skipulagsáætlanir.

Í umhverfismetinni samgönguáætlun hafi ekki verið gert ráð fyrir breytingum á Kjalvegi og tengdum framkvæmdum, s.s. efnistöku. Sé það andstætt lögum nr. 105/2006 um umhverfismat áætlana og tilskipun 2011/42/EB. Hefðu Skipulagsstofnun og sveitarstjórn átt að hafna framkvæmdinni, m.a. með vísan til þessa.

Óhjákvæmilegt sé að ógilda hina kærðu ákvörðun sveitarstjórnar. Við meðferð málsins hafi sveitarstjórnin brotið gegn löggjöf um umhverfismat áætlana, lögum um mat á umhverfisáhrifum, tilskipun Evrópusambandsins um umhverfismat framkvæmda, sem og rannsóknarreglu stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Hin kærða ákvörðun, og undirbúningur hennar af hálfu sveitarstjórnar, sé því haldin verulegum annmörkum. Ákvörðun Skipulagsstofnunar sé sömuleiðis haldin ógildingarannmörkum og hafi sveitarstjórn borið að líta til þess við málsmeðferð sína.

Loks sé bent á að þörf geti verið á áliti EFTA-dómstólsins við úrlausn málsins þar sem málið muni væntanlega snúast að verulegu leyti um túlkun laga sem byggð séu á samningnum um Evrópska efnahagssvæðið.

Málsrök Bláskógabyggðar: Gögn málsins bárust frá sveitarfélaginu og var því jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um kæruefnið. Athugasemdir þess hafa hins vegar ekki borist úrskurðarnefndinni að öðru leyti en varðar stöðvunarkröfu kæranda, sem ekki verður fjallað um, svo sem áður greinir.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi tekur fram að hann hafi á árinu 2014 hafist handa við lagfæringar á 6,4 km kafla Kjalvegar norðan Hvítár. Hafi verkið verið unnið án athugasemda þar til fram hefðu komið ábendingar um að verkið kynni að þurfa málsmeðferð skv. lögum um mat á umhverfiáhrifum. Verið sé að ljúka við frágang vegfláa á þeim kafla sem búið sé að vinna að og sé verkinu að mestu lokið. Verk sem kæra beinist að sé 2,9 km kafli sem taki þar við og endi við Árbúðir, ásamt tilheyrandi 7.000 m³ efnistöku vegna umræddra lagfæringa. Annars vegar verði tekið úr námu C, sem sé skering við enda þeirra lagfæringa sem ráðist hafi verið í á árinu 2014, og hins vegar úr skeringu u.þ.b. 300 m norðan við námu C. Umræddar framkvæmdir séu í samræmi við framkvæmdamarkmið samgönguáætlunar 2011-2022, þar sem fram komi að hefja eigi endurbætur á helstu stofnvegum á hálendinu.

Umsókn um framkvæmdaleyfi hafi fylgt kynningarskýrsla frá júlí 2015 þar sem gerð sé grein fyrir fyrirhuguðum framkvæmdum. Þær séu minniháttar með tilliti til umhverfisáhrifa. Þær felist í lagfæringu og lítilsháttar tilfærslu vegar á 2,9 km löngum vegarkafla, lyftingu hans um 0,5-0,7 m og því að rétta af krappar beygjur. Í raun felist verkið að mestu í því að ekið sé þunnu lagi af jarðefni á vegbreiddina, það þjappað og jafnað út auk tilheyrandi efnistöku og lítilsháttar skeringu. Ítarleg skoðun hafi farið fram af hálfu Skipulagsstofnunar sem hafi komist að þeirri niðurstöðu að verkið sé ekki til þess fallið að valda umtalsverðum áhrifum á umhverfið með tilliti til staðsetningar, eðlis og hugsanlegra áhrifa, sbr. viðmið 2. viðauka laga um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000. Í niðurstöðukafla ákvörðunar stofnunarinnar komi m.a. fram að í Svæðisskipulagi miðhálendis Íslands og aðalskipulagi Bláskógabyggðar sé tiltekið að stefnt sé að endurbótum á Kjalvegi. Um sé að ræða verk sem sé að fullu afturkræft þar sem um minniháttar breytingar á umhverfi vegarins sé að ræða sem myndu hverfa á stuttum tíma ef fjarlægja þyrfti jarðefnið úr veginum.

Á það sé bent að tilefni kæru í máli þessu virðist ekki fyrst og fremst vera sú framkvæmd sem hin kærða ákvörðun leyfi, heldur öðru fremur þegar orðnar og fyrirhugaðar endurbætur á Kjalvegi. Komi fram í kæru að kærandi telji að meta eigi umhverfisáhrif framkvæmda við veginn í heild, 170 km, með hliðsjón af samlegðaráhrifum framkvæmda, en ljóst sé að ekki liggi fyrir áform um að ráðast í slíkar framkvæmdir á næstunni.

Vettvangsganga: Úrskurðarnefndin kynnti sér aðstæður á vettvangi 23. júní 2016.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun sveitarstjórnar Bláskógabyggðar frá 3. september 2015 að samþykkja framkvæmdaleyfi fyrir lagfæringum á Kjalvegi á 2,9 km kafla norðan Hvítár að Árbúðum, en í því fólst jafnframt nám á um 7.000 m³ af efni.

Um málsmeðferð og kæruaðild að máli þessu fer eftir 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, en skv. 3. mgr. hennar geta umhverfisverndar-, útivistar- og hagsmunasamtök kært nánar tilgreindar ákvarðanir, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum, án þess að sýna fram á lögvarða hagsmuni. Þar á meðal geta slík samtök kært ákvarðanir um að veita leyfi vegna framkvæmda sem falla undir lög um mat á umhverfisáhrifum, sbr. b-lið nefndrar 3. mgr. 4. gr. Þegar frumvarp til nefndra laga var til umfjöllunar á Alþingi var orðalagi nefnds b-liðar breytt, án þess þó að efnisinnihald hans breyttist. Í athugasemdum með frumvarpinu segir um nefndan lið að ákvörðun um matsskyldu ráði því hvort almenningur fái rétt til frekari þátttöku í gegnum matsferlið og hvort hann njóti kæruaðildar vegna ákvarðana stjórnvalda um að veita leyfi vegna framkvæmda. Hér undir falli m.a. framkvæmdir sem ákveðið hafi verið að skuli háðar mati á umhverfisáhrifum, sbr. 6. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Þau leyfi sem um sé að ræða séu öll leyfi stjórnvalda sem sæti kæru til nefndarinnar og nauðsynleg séu svo ráðast megi í framkvæmd sem sé háð mati á umhverfisáhrifum.

Með úrskurði uppkveðnum fyrr í dag í máli nr. 83/2015 hafnaði úrskurðarnefndin þeirri kröfu kæranda að fella úr gildi ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 21. ágúst 2015 þess efnis að framkvæmd sú sem hér er um deilt skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Þar sem framangreindri ákvörðun hefur ekki verið hnekkt á kærandi, sem er umhverfisverndarsamtök, ekki kæruaðild á grundvelli framangreinds b-liðar 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Þá verður heldur ekki séð að kærandi eigi kæruaðild á grundvelli lögvarinna hagsmuna. Verður máli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ómar Stefánsson                                                    Aðalheiður Jóhannsdóttir

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                  Þorsteinn Þorsteinsson

25/2016 Kerlingarfjöll

Með

Árið 2016, fimmtudaginn 30. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 25/2016, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Hrunamannahrepps frá 2. júlí 2015 um að heimila efnistöku vegna 1. áfanga uppbyggingar hálendismiðstöðvar í Kerlingarfjöllum. Jafnframt er kærð ákvörðun byggingarfulltrúa Hrunamannahrepps frá 30. september 2015 um að samþykkja byggingu hótels með 40 herbergjum í Ásgarði á svæði Kerlingarfjalla.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 8. mars 2016, er barst nefndinni sama dag, kærir Landvernd, landgræðslu- og umhverfisverndarsamtök Íslands, Þórunnartúni 6, Reykjavík, þá samþykkt byggingarfulltrúa Hrunamannahrepps frá 30. september 2015 að heimila byggingu 1.869 m² hótels í Ásgarði í Kerlingarfjöllum. Enn fremur er kærð sú ákvörðun sveitarstjórnar Hrunamannahrepps frá 2. júlí 2015 að leggjast ekki gegn efnistöku í Kerlingarfjöllum vegna framangreindrar hótelbyggingar.

Er þess krafist að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi. Jafnframt er gerð krafa um að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar, en ekki þótti tilefni til að taka afstöðu til stöðvunarkröfu kæranda fyrr þar sem framkvæmdir höfðu þegar hafist haustið 2015 en var ekki framhaldið um vetrartímann vegna aðstæðna.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Hrunamannahreppi 21. mars og 25. apríl 2016.

Málavextir: Hinn 2. júlí 2015 tók sveitarstjórn Hrunamannahrepps fyrir erindi Fannborgar ehf. um heimild til efnistöku vegna fyrirhugaðra framkvæmda í Ásgarði og Hveradölum í Kerlingarfjöllum. Var fært til bókar að nú lægi fyrir álit Skipulagsstofnunar um að framkvæmdir við heildaruppbyggingu hálendismiðstöðvar í Kerlingarfjöllum skyldu háðar mati á umhverfisáhrifum, utan 1. áfanga. Í ljósi þessa væri ekki hægt að veita leyfi fyrir efnistöku fyrir heildaruppbyggingu svæðisins en ekki væri gerð athugsemd við efnistöku í tengslum við 1. áfanga uppbyggingarinnar, þ.e. á svæðum merktum B, C og E í fyrirliggjandi greinargerð.

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa Hrunamannahrepps 30. september 2015 var tekin fyrir umsókn Fannborgar ehf. um leyfi til að reisa 1.869 m² hótel í Ásgarði í Kerlingarfjöllum. Um tveggja hæða byggingu væri að ræða með kjallara, þjónustuálmu og gistiálmu með 40 herbergjum. Var umsóknin samþykkt og bókað að uppfyllt væru ákvæði laga um mannvirki nr. 160/2010. Einnig var fært til bókar að byggingarleyfi yrði gefið út að uppfylltum skilyrðum er fram kæmu í gr. 2.4.4. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Gaf byggingarfulltrúi út leyfi til byggingar greinds hótels 4. desember 2015.

Málsrök kæranda: Kærandi tekur fram að hann eigi lögvarða hagsmuni skv. 1. ml. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Tengist mál þetta á órjúfanlegan hátt öðru máli sem kærandi hafi skotið til úrskurðarnefndarinnar og byggi ákvarðanir leyfisveitenda á ákvörðun þeirri sem kærð hafi verið í því máli. Þá sé kæranda á grundvelli b-liðar síðari málsliðar 3. mgr. 4. gr. greindra laga ekki nauðsyn á að sýna fram á lögvarða hagsmuni sína, en hinar kærðu ákvarðanir varði framkvæmdir sem falli undir lög um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000.

Kæra þessi sé sett fram innan lögbundins kærufrests. Kæranda hafi ekki verið kunnugt um samþykki byggingarleyfisins fyrr en 17. febrúar 2016 og ekki um ákvörðun um efnistöku fyrr en 7. mars s.á. Með tölvupósti kæranda til byggingarfulltrúa 8. og 10. febrúar 2016 hafi verið óskað upplýsinga um hvort gefið hefði verið út byggingarleyfi til framkvæmdaraðila vegna byggingar 1. áfanga hótels í Kerlingarfjöllum. Svar hafi borist 17. s.m. og þar komið fram að byggingarleyfið hafi verið samþykkt 30. september 2015. Í svarpósti til kæranda 22. febrúar 2016 hefði verið frá því greint að leyfið hefði þó ekki verið útgefið. Hafi kærandi orðið þess áskynja 4. mars s.á. að framkvæmdir væru hafnar.

Lögum samkvæmt sé skrifleg tilkynning um að leyfisveitandi fallist á byggingaráform ekki ígildi byggingarleyfis. Verði því að líta svo á að ekki hafi enn verið útgefið byggingarleyfi í skilningi mannvirkjalaga nr. 160/2010. Þá liggi fyrir að framkvæmdaleyfi fyrir efnistöku hafi ekki verið gefið út.

Ljóst sé að slíkir annmarkar séu á hinum kærðu ákvörðunum að fella beri þær úr gildi. Umrætt svæði sé allt innan þjóðlendu, en ekki hafi legið fyrir áskilin leyfi samkvæmt lögum nr. 58/1998 um þjóðlendur. Ákvörðun um byggingarleyfi hafi stuðst við heimildarlaust samþykki sveitarstjórnar til efnistöku fyrir framkvæmdinni eða hagnýtingar á landi til þeirrar efnistöku, en ekki hafi verið leitað samþykkis forsætisráðherra skv. 2. mgr. 3. gr. laganna. Jafnframt sé ákvörðunin ólögmæt þar sem ekki virðist hafa legið fyrir nauðsynlegt samþykki forsætisráðherra skv. 3. mgr. 3. gr. þjóðlendalaga um að heimila nýtingu lands til byggingar umrædds hótels. Sé í þessu sambandi einnig vísað til ákvæða mannvirkjalaga og kafla 2.4. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Þá verði ekki séð að gætt hafi verið 4. mgr. tilvitnaðs ákvæðis laganna um endurgjald. Breyti samningar milli Hrunamannahrepps og framkvæmdaraðila, dags. 25. ágúst 2015, engu í þessu sambandi.

Málsrök Hrunamannahrepps: Af hálfu Hrunamannahrepps er þess krafist að máli þessu verði vísað frá úrskurðarnefndinni. Kærandi geti ekki átt aðild að kærumálinu þar sem hann hafi ekki lögvarinna hagsmuni að gæta. Varði kröfur kæranda ekki ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsskylda framkvæmd og því geti a-liður 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála ekki átt við. Þá hafi kæra borist úrskurðarnefndinni utan lögbundins kærufrests. Hafi kæranda verið tilkynnt með tölvupósti 9. október 2015 að byggingarleyfi lægi fyrir og hafi það verið gefið út 4. desember s.á. Fullljóst sé að kæranda hafi verið vel kunnugt um útgáfu hins kærða byggingarleyfis.

Öllum röksemdum kæranda sé hafnað. Réttum málsmeðferðarreglum hafi verið fylgt við samþykkt hins kærða byggingarleyfis og hafi engin rök verið færð fyrir öðru.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi gerir aðallega þá kröfu að máli þessu verði vísað frá úrskurðarnefndinni. Til vara sé þess krafist að kröfum kæranda verði hafnað og hinar kærðu ákvarðanir staðfestar.

Telja verði að kæra sé of seint fram komin. Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála sé frestur til að kæra ákvörðun til nefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um hana, nema á annan veg sé mælt í lögum. Lögbundinn kærufrestur vegna ákvörðunar sveitarstjórnar um efnistöku hafi runnið út 2. ágúst 2015 og kærufrestur vegna ákvörðunar byggingarfulltrúa  hafi hafist 30. september s.á. Kæra hafi ekki borist fyrr en 8. mars 2016, nokkrum mánuðum eftir lok kærufrests. Sé röksemdum kæranda um upphaf kærufrests alfarið hafnað.

Bent sé á að kærandi hafi getað kynnt sér stöðu mála á heimasíðu sveitarstjórnar og byggingarfulltrúa, en þar séu fundargerðir birtar. Fyrir úrskurðarnefndinni liggi kæra frá kæranda vegna ákvörðunar Skipulagsstofnunar um matsskyldu framkvæmda í Kerlingarfjöllum. Hafi kærandi bæði haft efni og sérstaklega ríka ástæðu til að fylgjast náið með framgangi framkvæmda við Kerlingarfjöll, sem hann hafi lengi vitað að væru í uppsiglingu. Hafi honum í öllu falli mátt vera kunnugt um hinar kærðu ákvarðanir fljótlega eftir að framkvæmdir hófust. Hafi honum þá borið að kynna sér kærurétt sinn og gera reka að því að skjóta málinu til úrskurðarnefndarinnar. Sé í þessu sambandi vísað til úrskurðar úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála í máli nr. 84/2011. Kæranda hafi sérstaklega verið tilkynnt með tölvupósti byggingarfulltrúa 9. október 2015 að byggingarleyfi fyrir 1. áfanga framkvæmdarinnar lægi fyrir. Í öllu falli sé ljóst að kæranda hafi í síðasta lagi mátt vera kunnugt um hinar kærðu ákvarðanir undir lok janúar 2016, þegar hann hafi fengið senda tillögu að matsáætlun þar sem fram komi með skýrum hætti að framkvæmdir við 1. áfanga séu hafnar. Þá verði ekki séð að afsakanlegt sé eða að veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar. Yrði það verulega íþyngjandi fyrir leyfishafa yrði málinu ekki vísað frá úrskurðarnefndinni, enda hafi framkvæmdum verið haldið áfram í góðri trú eftir að kærufresti lauk. Verði að túlka allar undanþágur frá hinum lögbundna kærufresti þröngt.

Sé ekki fallist á frávísun máls þessa sé mótmælt rökum kæranda er snúa að því að byggingarleyfi hafi ekki verið gefið út. Útgáfa þess sé sjálfstætt álitamál sem engin áhrif geti haft á gildi ákvörðunar um að samþykkja umsókn um byggingarleyfi. Málatilbúnaður kæranda að þessu leyti varði því ekki álitaefni hinnar kærðu stjórnvaldsákvörðunar og komi því ekki til álita í máli þessu.

Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. laga nr. 58/1998 um þjóðlendur sé það hlutverk forsætisráðherra að skera úr ágreiningi um veitingu leyfa. Því sé hafnað að tilvitnuð leyfi skv. 3. gr. laganna, hafi þurft að liggja fyrir áður en ákvarðanir um samþykkt byggingaráforma eða um heimild til efnistöku hafi verið teknar. Ekki sé gert að sérstöku skilyrði í mannvirkjalögum nr. 160/2010, byggingarreglugerð nr. 112/2012 og skipulagslögum nr. 123/2010 að öll leyfi sem þurfi til að ráðast í framkvæmd séu nauðsynlegur undanfari ákvörðunar um samþykkt byggingar- eða framkvæmdaleyfisumsókna. Ekki megi heldur lesa það úr lögum nr. 58/1998 eða lögskýringargögnum. Geti skortur á tilskildum leyfum því ekki talist vera ágalli sem varðað geti ógildingu hinnar kærðu ákvarðana. Jafnframt sé því vísað á bug að 4. mgr. 3. gr. þjóðlendulaga eigi við um leyfisveitingar samkvæmt öðrum lögum en þjóðlendulögum. Þá sé ljóst að um heimildarákvæði sé að ræða.

Athugasemdir kæranda við málsrökum sveitarfélagsins og leyfishafa: Kærandi áréttar sjónarmið sín sem að framan eru rakin. Jafnframt fer hann fram á að úrskurðarnefndin hafi í huga starfsaðstæður kæranda þegar metin verði áhrif þess að ekki hafi verið brugðist strax við með nýrri kæru þegar fyrir hafi legið vitneskja um samþykki til útgáfu byggingarleyfis í október 2015, enda hefði leyfisveitandi ítrekað staðhæft við framkvæmdastjóra kæranda í október 2015 og febrúar 2016 að byggingarleyfi hefði ekki verið gefið út. Ekki sé hægt að ætlast til þess af kæranda að hann vefengdi orð forsvarsmanna leyfisveitanda um að leyfi væri óútgefið. Hafi kærandi enga ástæðu haft til að ætla að framkvæmdir gætu hafist eða myndu hefjast án útgáfu slíks leyfis. Ekki liggi heldur fyrir að leyfisveitingin hafi verið birt í Lögbirtingablaðinu eða öðru blaði. Þá skipti það engu þótt fundargerðir séu aðgengilegar á netinu. Hafi ekkert bent til þess að byggingarframkvæmdir væru í gangi eða yfir höfuð mögulegar yfir hávetur í Kerlingarfjöllum. Hafi leyfisveitandi ekki upplýst kæranda um kærurétt eða kærufrest.

Framkvæmdastjóri kæranda hafi óskað eftir gögnum í október 2015 og í febrúar 2016, þegar byggingarleyfi lægi fyrir. Hafi þau aldrei borist og hefði það fyrst verið 19. apríl 2016, eftir að kærandi hafi fengið afrit af gögnum málsins hjá nefndinni, að kæranda hafi orðið ljóst að þrátt fyrir ítrekaðar fullyrðingar af hálfu leyfisveitanda hefði byggingarleyfi í raun verið gefið út.

Líta verði svo á að kærufrestur hafi ekki getað byrjað að líða á meðan kæranda hafi ekki verið kunnugt um að byggingarleyfi hefði verið gefið út eða að veitt hefði verið leyfi til efnistöku. Geti fresturinn fyrst byrjað að líða þegar kærandi hafi haft réttmæta ástæðu til að ætla að ákvörðun sú sem honum hefði vissulega verið kunnugt um hefði komið til framkvæmda, það er að skilyrði útgáfu byggingarleyfis hefði verið uppfyllt og það gefið út. Það hefði kæranda í fyrsta lagi getað verið kunnugt um þegar upplýsingar hefðu farið að berast um að framkvæmdir hefðu hafist. Önnur og strangari skýring geti ekki átt rétt á sér eins og atvikum hafi verið háttað. Hafi kærandi ekki sýnt af sér tómlæti um að halda málinu áfram.

Á því sé byggt að ekki verði horft fram hjá 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki við úrlausn á því hvaða atburður marki upphaf kærufrests. Líta verði svo á að útgáfa byggingarleyfis teljist „ákvörðun“ í skilningi ákvæðisins, en skilyrt samþykkt í bókun í fundargerð sé ekki það tímamark sem miða beri við, eins og hér á standi. Sé vísað í 59. gr. mannvirkjalaga. Álykta verði að það sé hin skriflega útgáfa byggingarleyfisins sem fyrst geti markað upphaf kærufrests. Samkvæmt því hafi kærufrestur ekki getað byrjað að líða fyrr en eftir að kærandi setti fram kæru, þar sem honum hefði ekki verið kunnugt um það fyrr en hann fékk afrit af umsögnum 19. apríl 2016 að leyfi hefði verið gefið út.

Kærandi geri jafnframt athugsemd við samþykkt stöðuleyfi. Þá hafi sveitarstjórn verið vanhæf til töku hinnar kærðu ákvörðunar sökum einkaréttarlegra hagsmuna sinna.

Athugasemdir leyfishafa við athugasemdum kæranda: Leyfishafi áréttar að jafnvel þótt miðað sé við síðasta mögulega tímamark megi ljóst vera að kæran hafi borist að liðnum lögbundnum kærufresti. Sé lögð áhersla á að óumdeilt verði að teljast að kæranda hafi verið fullkunnugt um kæruleiðir og kærufresti til úrskurðarnefndarinnar en kærandi hafi rekið fjöldamörg kærumál fyrir úrskurðarnefndinni undanfarin áratug.

Því sé mótmælt að útgáfa stöðuleyfis komi til álita í máli þessu. Hafnað sé að engin gögn hafi verið lögð fram varðandi afstöðu forsætisráðuneytisins til leyfisveitingar samkvæmt þjóðlendulögum nr. 58/1998 og sé m.a. vísað til lóðarleigusamnings í þessu efni. Loks sé tekið fram að sveitarstjórnarmenn hafi ekki haft neinna hagsmuna að gæta er valdið geti vanhæfi þeirra til aðkomu að málinu.

——

Aðilar hafa fært fram ítarlegri sjónarmið í máli þessu sem ekki verða rakin, en úrskurðarnefndin hefur haft til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Vettvangsganga: Úrskurðarnefndin kynnti sér aðstæður á vettvangi 23. júní 2016.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um gildi leyfisveitinga vegna uppbyggingar hálendismiðstöðvar í Kerlingarfjöllum. Kærandi hefur m.a. gert athugasemd við að stöðuleyfi hafi verið veitt fyrir herbergjaeiningum, sem síðar skyldu notaðar sem 2. hæð fyrirhugaðrar hótelbyggingar. Beinir hann því til úrskurðarnefndarinnar „að skoða umrætt stöðuleyfi í tengslum við þetta mál“. Af aðstæðum á vettvangi er ljóst að umræddar herbergiseiningar eru nú þegar orðnar hluti af þeim byggingarframkvæmdum sem lokið hefur verið við á svæðinu. Var á vettvangi upplýst um það af hálfu leyfishafa að framkvæmdum vegna þessa hefði lokið á haustmánuðum ársins 2015, eða áður en kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni. Þykir því ekki ástæða til að fjalla frekar um nefnt stöðuleyfi.

Í málinu er gerð krafa um frávísun með þeim rökum að kærandi eigi ekki lögvarinna hagsmuna að gæta auk þess sem kæra hafi borist að liðnum kærufresti.

Um málsmeðferð og kæruaðild að máli þessu fer eftir 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, en skv. 3. mgr. hennar geta umhverfisverndar-, útivistar- og hagsmunasamtök kært nánar tilgreindar ákvarðanir, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum, án þess að sýna fram á lögvarða hagsmuni. Þar á meðal geta slík samtök kært ákvarðanir um að veita leyfi vegna framkvæmda sem falla undir lög nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum, sbr. b-lið nefndrar 3. mgr. 4. gr. Þegar frumvarp til laganna var til umfjöllunar á Alþingi var orðalagi nefnds b-liðar breytt, án þess þó að efnisinnihald hans breyttist. Í athugasemdum með frumvarpinu segir um greindan lið að ákvörðun um matsskyldu ráði því hvort almenningur fái rétt til frekari þátttöku í gegnum matsferlið og hvort hann njóti kæruaðildar vegna ákvarðana stjórnvalda um að veita leyfi til framkvæmda. Hér undir falli m.a. framkvæmdir sem ákveðið hafi verið að háðar skuli mati á umhverfisáhrifum, sbr. 6. gr. laganna. Þau leyfi sem um sé að ræða séu öll leyfi stjórnvalda sem sæti kæru til nefndarinnar og nauðsynleg séu svo ráðast megi í framkvæmd sem sé háð mati á umhverfisáhrifum.

Með úrskurði, uppkveðnum fyrr í dag í máli nr. 60/2015, féllst úrskurðarnefndin á þá kröfu kæranda að fella úr gildi þann hluta ákvörðunar Skipulagsstofnunar frá 1. júlí 2015 að 1. áfangi uppbyggingar hálendismiðstöðvar í Kerlingarfjöllum skuli ekki háður mati á umhverfisáhrifum. Að þeirri niðurstöðu fenginni stendur óhögguð sú ákvörðun stofnunarinnar að heildaruppbygging hálendismiðstöðvarinnar skuli háð mati á umhverfisáhrifum. Þar með á kærandi, sem er umhverfisverndarsamtök, kæruaðild á grundvelli framangreinds b-liðar 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011.

Í 2. mgr. umræddrar 4. gr. laga nr. 130/2011 er kveðið á um að kærufrestur til nefndarinnar sé einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um hina kæranlegu ákvörðun. Ekki sér þess stað í gögnum málsins að kærandi hafi vitað eða mátt vita um útgáfu framkvæmdaleyfis til efnistöku fyrr en kæra barst í málinu, þrátt fyrir að hann hafi óskað eftir upplýsingum þar um frá leyfisveitanda. Verður þeim hluta málsins því ekki vísað frá á grundvelli þess að kærufrestur sé liðinn.

Hið kærða byggingarleyfi var samþykkt 30. september 2015 og gefið út 4. desember s.á. Af hálfu kæranda var sendur tölvupóstur til byggingarfulltrúa 9. október það ár og leitað upplýsinga um útgefin leyfi vegna framkvæmdanna. Í svari byggingarfulltrúa sama dag segir að byggingarleyfi hafi verið gefið út vegna 1. áfanga framkvæmdanna og er jafnframt tekið fram að nánari upplýsingar verði sendar. Að mati úrskurðarnefndarinnar mátti kæranda vera kunnugt um efni byggingarleyfisins á þessu tímamarki þrátt fyrir að ekki væri upplýst nánar í tölvupóstinum til hverra framkvæmda 1. áfangi tæki, en kærandi er aðili annars máls fyrir úrskurðarnefndinni þar sem kærð er ákvörðun Skipulagsstofnunar varðandi nefndan 1. áfanga. Kæra í því máli barst úrskurðarnefndinni 4. ágúst 2015, um tveimur mánuðum fyrir samskipti kæranda við byggingarfulltrúa, og fjallar kæran efnislega um umræddan 1. áfanga. Þykir því ekki varhugavert að miða upphaf kærufrests vegna hins kærða byggingarleyfis við tölvupóst byggingarfulltrúa 9. október 2015. Kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni hins vegar 8. mars 2016, eða um fjórum mánuðum eftir að kærufresti lauk.

Í 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er fjallað um áhrif þess ef kæra berst að liðnum kærufresti. Ber þá að vísa kærunni frá nema að afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, sbr. 1. tl. 1. mgr. 28. gr., eða veigamiklar ástæður mæli með því að hún verði tekin til efnismeðferðar, sbr. 2. tl. 1. mgr. Í athugasemdum við nefndan 1. tl. er tekið fram í frumvarpi því sem varð að stjórnsýslulögum að nefna megi sem dæmi að lægra sett stjórnvald hafi vanrækt að veita leiðbeiningar um kæruheimild skv. 20. gr. laganna eða veitt rangar eða ófullnægjandi upplýsingar. Við mat á því hvort fyrir hendi séu skilyrði til að taka kæru til meðferðar á grundvelli nefndra töluliða þurfi að líta til þess hvort aðilar að málinu séu fleiri en einn og með andstæða hagsmuni, en undir þeim kringumstæðum sé rétt að taka mál einungis til kærumeðferðar að liðnum kærufresti í algjörum undantekningartilvikum. Er ótvírætt að leyfishafi í máli þessu á verulega hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun.

Með vísan til þess verður ekki talið afsakanlegt að kæra hafi ekki borist fyrr. Kemur þá til skoðunar hvort taka beri málið til meðferðar á grundvelli þess að veigamiklar ástæður mæli með því. Við mat á því verður samkvæmt framangreindu að líta til hagsmuna aðila máls, en að mati úrskurðarnefndarinnar koma þar einnig til skoðunar almannahagsmunir. Slíkir almannahagsmunir geta m.a. tengst framkvæmdum á svæðum á náttúruminjaskrá, en svo háttar t.a.m. um Kerlingarfjöll, sem einnig lúta hverfisvernd samkvæmt Aðalskipulagi Hrunamannahrepps 2003-2015. Í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 130/2011 er tekið fram í athugasemdum með 2. mgr. 4. gr. að brýnt sé að ágreiningur um form eða efni ákvörðunar verði staðreyndur sem fyrst og áréttað í því samhengi að eftir því sem framkvæmdir séu komnar lengra áður en ágreiningur um þær verði ljós skapist meiri hætta á óafturkræfu tjóni af bæði umhverfislegum og fjárhagslegum toga. Er þar öðrum þræði vísað til hagsmuna leyfishafa. Með vísan til alls framangreinds þykja ekki nægar ástæður liggja til grundvallar því að taka kærumálið til efnismeðferðar að liðnum kærufresti á grundvelli undantekningaákvæða 28. gr. stjórnsýslulaga þrátt fyrir fyrrgreinda almannahagsmuni. Verður þeim hluta kærunnar sem snýr að byggingarleyfi því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Samkvæmt 1. mgr. 14. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er óheimilt að gefa út leyfi fyrir framkvæmd samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum fyrr en álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum liggur fyrir eða ákvörðun stofnunarinnar um að framkvæmd sé ekki matsskyld. Þá er ákvæði sama efnis að finna í 1. mgr. 13. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Með úrskurði, uppkveðnum fyrr í dag í máli nr. 60/2015, felldi úrskurðarnefndin úr gildi ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 1. júlí 2015, þess efnis að framkvæmd sú sem hér er um deilt skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Verður þegar af framangreindum ástæðum að ógilda hið kærða framkvæmdaleyfi til efnistöku.

Í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 58/1998 um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta er tiltekið að til að nýta land og landsréttindi innan þjóðlendu að öðru leyti en greini í 2. mgr. 3. gr. þurfi leyfi hlutaðeigandi sveitarstjórnar, en sé nýting heimiluð til lengri tíma en eins árs þurfi jafnframt samþykki ráðherra. Leyfishafi og Hrunamannahreppur hafa gert með sér lóðarleigusamning til 25 ára vegna lóðar undir hálendismiðstöð í Kerlingarfjöllum. Samningurinn var samþykktur af forsætisráðherra í samræmi við framangreint ákvæði. Í málinu liggur jafnframt fyrir sú afstaða forsætisráðuneytisins, í tölvupósti frá 29. mars 2016, að þar sem samþykki liggi fyrir samningnum á grundvelli 3. og 4. mgr. 3. gr. laganna þurfi ekki að koma til samþykkis vegna einstakra framkvæmda við mannvirki á hinni leigðu lóð. Úrskurðarnefndin bendir hins vegar á að í 2. mgr. 3. gr. tilvitnaðra laga er einnig kveðið á um að leyfi ráðherra þurfi m.a. til að nýta námur og önnur jarðefni innan þjóðlendu nema mælt sé fyrir um annað í lögum. Ákvörðun sveitarstjórnar um framkvæmdaleyfi vegna efnistöku lá fyrir 2. júlí 2015 og verður ekki séð af gögnum málsins að leyfi skv. fyrrnefndri 2. mgr. 3. gr. laga nr. 58/1998 hafi þá legið fyrir.

Sveitarstjórn veitir framkvæmdaleyfi skv. 13. og 14. gr. skipulagslaga, sbr. og 3. gr. reglugerðar nr. 772/2012 um framkvæmdaleyfi. Þar segir nánar að ef annað sé ekki ákveðið í samþykkt sveitarfélags gefi skipulagsfulltrúi út framkvæmdaleyfi, að fengnu samþykki sveitarstjórnar. Um þau gögn sem fylgja skulu framkvæmdaleyfisumsókn er fjallað í 7. gr. reglugerðarinnar og er í 2. mgr. hennar m.a. talið upp að umsókninni skuli fylgja fyrirliggjandi samþykki og/eða leyfi annarra leyfisveitenda sem framkvæmdin kann að vera háð samkvæmt öðrum lögum. Verður að skilja nefnd ákvæði svo að leyfi skv. lögum nr. 58/1998 þurfi að liggja fyrir þegar leyfisveitandi, þ.e. sveitarstjórn, tekur afstöðu til umsóknarinnar. Sama máli gegnir um aðrar leyfisveitingar, s.s. á grundvelli vatnalaga nr. 15/1923, en ekki verður séð að við veitingu framkvæmdaleyfis hafi legið fyrir gögn um hvort Orkustofnun hafi verið tilkynnt um fyrirhugaða efnistöku úr áreyrum Ásgarðsár í samræmi við 1. mgr. 144. gr. þeirra laga.

 

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun sveitarstjórnar Hrunamannahrepps frá 2. júlí 2015 um að heimila efnistöku vegna 1. áfanga uppbyggingar við hálendismiðstöð í Kerlingarfjöllum.

Að öðru leyti er kærumáli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ómar Stefánsson                                                   Aðalheiður Jóhannsdóttir

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                 Þorsteinn Þorsteinsson

61/2014 Reynifellskrókur

Með
Árið 2016, fimmtudaginn 30. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ómar Stefánsson varaformaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 61/2014, kæra á ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Rangárþings ytra frá 13. maí 2013 um að veita byggingarleyfi fyrir frístundahúsi á lóð nr. 2b í landi Reynifells.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 3. júlí 2014, sem barst nefndinni 4. s.m., kærir K, eigandi lóðar nr. 6 við Reynifellskrók í landi Reynifells, Rangárþingi ytra, þá ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Rangárþings ytra frá 13. maí 2013 að veita byggingarleyfi fyrir frístundahúsi á lóð nr. 2b í landi Reynifells. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Með bréfi, dags. 8. júní 2015, gerir sami aðili þá kröfu að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Þeirri kröfu var hafnað með úrskurði nefndarinnar uppkveðnum 26. ágúst 2015. 

Gögn málsins bárust frá Rangárþingi ytra 14. júlí 2014.

Málsatvik og rök: Hinn 13. maí 2013 samþykkti skipulags- og byggingarfulltrúi Rangárþings ytra umsókn um byggingarleyfi fyrir byggingu frístundahúss á lóð nr. 2b í landi Reynifells. Var byggingarleyfið gefið út 21. s.m. Um var að ræða 23,2 m2 hús úr timbri með einhalla þaki með 3,65 m hámarkshæð. Gert var ráð fyrir að ytra byrði frístundahússins yrði klætt bárujárni. Hinn 12. janúar 2014 hafði kærandi samband við skipulags- og byggingarfulltrúa í því skyni að fá frekari upplýsingar um hið umrædda hús og hvort það samrýmdist byggingarskilmálum svæðisins. Fór kærandi þess á leit að aðstæður yrðu kannaðar og var hann í samskiptum við embættið vegna málsins allt til 18. júní 2014. Var hið umdeilda byggingarleyfi kært til úrskurðarnefndarinnar 4. júlí 2014.

Kærandi skírskotar til þess að húsið samræmist ekki byggingarskilmálum svæðisins. Húsið sé of lítið, og hvorki húslag né klæðning í samræmi við önnur hús á svæðinu. Hið umrædda hús stingi mjög í stúf við landslagið og raski útliti svæðisins. Sjónmengun sé mikil vegna hússins alls staðar að á svæðinu. Auk þess geti hin kærða ákvörðun gefið fordæmi fyrir því að fleiri hús af þessu tagi rísi á svæðinu.

Af hálfu sveitarfélagsins er vísað til þess að meðvituð ákvörðun hafi verið tekin um að leyfa tiltekna stærð á sumarhúsinu þrátt fyrir ákvæði um lágmarksstærð í byggingarskilmálum svæðisins. Skilmálarnir séu frá árinu 1999 og byggðir á samkomulagi eigenda við  landskipti á árinu 1983. Skipulag svæðisins hafi verið til umræðu hjá embætti skipulags- og byggingarfulltrúa og viðraðar hugmyndir um breytingu á því við landeigendur. Á síðustu árum hafi ekki verið sett ákvæði um  lágmarksstærðir mannvirkja á frístundasvæðum, heldur um hámarksstærðir. Sé það merki um nauðsynlegar endurbætur á núgildandi skilmálum. Að auki sé það eðlilegt að leyfa byggjendum að byrja smátt með möguleika á stækkun eða viðbyggingu síðar. Með byggingu svalaskýlis við umrætt frístundahús sé komið til móts við ríkjandi byggingarlag á svæðinu. Í byggingarskilmálunum sé tekið fram að hús skulu vera sömu gerðar og yfirvöld mæli með sem sumarhús. Sé hiklaust mælt með þeim byggingarstíl sem hér um ræði og falli hann vel að því sem fyrir sé á svæðinu. Í byggingarskilmálum segir að hús skuli byggð úr timbri. Umrætt hús sé alfarið úr timbri en veðurkápa sé þó úr stáli. Nokkuð sé um að sumarhús á svæðinu hafi ómálað stál á þökum og hafi ekki verið gerðar athugasemdir við umrætt efni á útvegg þar sem auðvelt sé að mála það í þeim lit sem hæfi. Hafi verið rétt staðið að veitingu umrædds byggingarleyfis samkvæmt lögum og reglum og almennum hefðum í landinu.

———-

Byggingarleyfishafa var gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum sínum vegna kæru máls þessa, en greinargerð af hans hálfu hefur ekki borist úrskurðarnefndinni.

Vettvangsskoðun: Úrskurðarnefndin kynnti sér aðstæður á vettvangi hinn 23. júní 2016.

Niðurstaða: Kærandi í máli þessu byggir málatilbúnað sinn á því að með hinu kærða byggingarleyfi sé vikið frá byggingarskilmálum gildandi deiliskipulags og heimilað hús falli ekki að yfirbragði byggðar eða landslagi og útliti umrædds svæðis. Umrætt frístundasvæði er fremur flatlent og að mestu leyti þakið lággróðri. Stendur hin umdeilda bygging í a.m.k. 250 m fjarlægð frá frístundahúsi kæranda en milli húsanna eru tvær óbyggðar frístundahúsalóðir.

Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er skilyrði kæruaðildar í málum fyrir nefndinni að kærandi eigi lögvarða hagsmuni tengda viðkomandi ákvörðun nema að lög mæli sérstaklega á annan veg. Er það í samræmi við meginreglu stjórnsýsluréttar að kæruaðild sé bundin við þá sem eiga einstaklingsbundna og verulega lögvarða hagsmuni tengda hinni kæranlegu ákvörðun.

Framangreindar málsástæður kæranda lúta að atriðum er tengjast skipulagslegum hagsmunum er teljast til almannahagsmuna sem sveitarstjórnir fara með og ber að gæta innan marka síns sveitarfélags í samræmi við ákvæði skipulagslaga nr. 123/2010.  Eins og atvikum er hér háttað verður ekki séð að umdeild bygging raski lögvörðum grenndarhagsmunum kæranda, en útlit byggingarinnar eitt og sér getur ekki varðað einstaklingsbundna lögvarða hagsmuni hans. 

Með hliðsjón af því sem rakið hefur verið þykir á skorta að kærandi eigi þá lögvörðu hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun sem gert er að skilyrði fyrir kæruaðild í fyrrgreindri 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 og verður kærumáli þessu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
  Ómar Stefánsson                                                  Þorsteinn Þorsteinsson

60/2015 Kerlingarfjöll

Með
Árið 2016, fimmtudaginn 30. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 60/2015, kæra á ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 1. júlí 2015 um að 1. áfangi í uppbyggingu gisti- og þjónustuaðstöðu hálendismiðstöðvarinnar í Kerlingarfjöllum skuli ekki háður mati á umhverfisáhrifum.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 4. ágúst 2015, er barst nefndinni sama dag, kærir Landvernd, landgræðslu- og umhverfisverndarsamtök Íslands, Þórunnartúni 6, Reykjavík, þá ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 1. júlí 2015 að 1. áfangi í uppbyggingu gisti- og þjónustuaðstöðu við hálendismiðstöðina í Kerlingarfjöllum skuli ekki háður mati á umhverfisáhrifum. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Með bréfi kæranda til úrskurðarnefndarinnar, dags. 3. mars 2016, er móttekið var 4. s.m., var jafnframt gerð krafa um að réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar yrði frestað eða framkvæmdir stöðvaðar. Hin kærða ákvörðun veitir ekki heimild til framkvæmda og þótti því ekki tilefni til að taka afstöðu til þessarar kröfu kæranda. Þykir málið nú nægilega upplýst til að taka það til efnislegrar úrlausnar.

Gögn málsins bárust frá Skipulagsstofnun 25. september 2015 og 7. apríl 2016.

Málavextir: Árið 1964 var gerður samningur milli Hrunamannahrepps og félagsins Fannborgar til 50 ára um afnot af svæði í Kerlingarfjöllum og byggðist þar upp starfsemi tengd rekstri skíðaskóla, einkum í Ásgarði, dal við norðurjarðar Kerlingarfjallasvæðisins. Um aldamótin 2000 var horfið frá því að bjóða upp á skíðakennslu á svæðinu og er nú starfrækt ferðaþjónusta í Ásgarði.

Kerlingarfjöll eru skilgreind sem hálendismiðstöð í þágildandi svæðisskipulagi miðhálendisins. Árið 2014 tók gildi deiliskipulag fyrir hálendismiðstöðina er gerði m.a. ráð fyrir nýjum gisti- og þjónustuhúsum á svæðinu og því að nokkur eldri hús yrðu stækkuð. Breyting á nefndu skipulagi tók gildi árið 2015, sem heimilaði aukið byggingarmagn auk tilfærslu mannvirkja. Hinn 25. ágúst 2015 gerði Fannborg ehf. lóðarleigusamning til 25 ára við Hrunamannahrepp um 5,5 ha lóð undir fyrrgreinda hálendismiðstöð. Umrætt svæði er þjóðlenda og með vísan til laga nr. 58/1998 um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta samþykkti forsætisráðherra téðan samning.

Með bréfi til Skipulagsstofnunar, dags. 15. apríl 2015, tilkynnti Fannborg ehf. um áformaða uppbyggingu hálendismiðstöðvar í Ásgarði. Fram kom í tilkynningu að fyrirhugað væri m.a. að fjölga gistirýmum á svæðinu og reisa hótelálmu, með allt að 120 herbergjum, sem tengd yrði svonefndri aðalbyggingu. Að framkvæmdum loknum myndi gistirýmum fjölga úr 177 í 342 og heildargrunnflötur bygginga aukast úr 1.077 m² í 2.650 m². Færu framkvæmdir fram í þremur áföngum.

Áætlað væri að framkvæmdir við 1. áfanga yrðu árin 2015-2017. Á því tímabili yrði gistirýmum í eldri húsum fækkað úr 177 rýmum í 102 vegna endurbóta, auk þess sem nokkur hús yrðu rifin. Fyrrnefnd hótelálma yrði byggð að hluta, með gistirými fyrir 80 manns í 40 tveggja manna herbergjum. Í heild myndi því gistirýmum, að loknum 1. áfanga, fjölga úr 177 í 182. Grunnflötur bygginga á svæðinu myndi á sama tíma breytast úr 1.077 m² í 1.690 m². Einnig ætti m.a. að endurbyggja aðalbyggingu. Í 2. áfanga, árin 2019-2020 yrði gistirýmum fjölgað um 80 í áðurnefndri hótelálmu, með 40 tveggja manna herbergjum, sem og í 3. áfanga, árin 2022-2023, þ.e. alls um 120 herbergi.

Aðrar framkvæmdir fælu t.a.m. í sér efnistöku, tilfærslu mannvirkja, uppbyggingu þjónustu fyrir tjaldstæðisgesti og gerð göngustíga.

Skipulagsstofnun leitaði umsagna Hrunamannahrepps, Ferðamálastofu, forsætisráðuneytisins, Heilbrigðiseftirlits Suðurlands, Minjastofnunar Íslands og Umhverfisstofnunar. Töldu Hrunamannahreppur og Minjastofnun Íslands að fyrirhugaðar framkvæmdir skyldu ekki háðar mati á umhverfisáhrifum. Var mat forsætisráðuneytisins á sömu lund, en ráðuneytið taldi einnig að skýra þyrfti betur og nákvæmar í hverju framkvæmdin fælist.

Niðurstaða Heilbrigðiseftirlits Suðurlands í bréfi, dags. 13. maí 2015, var sú að miðað við fyrirliggjandi gögn væri ekki unnt að taka afstöðu til þess hvort þörf væri á mati á umhverfisáhrifum. Taldi eftirlitið að gera þyrfti betur grein fyrir ákveðnum þáttum um möguleg umhverfisáhrif fyrirhugaðrar uppbyggingar og mótvægisaðgerðir vegna þeirra. Eðlilegt væri að litið yrði til umfangs og áhrifa uppbyggingar svæðisins í heild sinni, en ekki einungis hluta hennar, eins og gert væri í tilkynningu. Í kjölfar þessa kom framkvæmdaraðili að skýringum og nánari upplýsingum og með bréfi heilbrigðiseftirlitsins, dags. 2. júní s.á., var talið að miðað við framlögð gögn bæri ekki nauðsyn til þess að fram færi mat á umhverfisáhrifum.

Umhverfisstofnun taldi að brýnt væri að ráðast í þolmarkagreiningu á svæðinu. Jafnframt taldi stofnunin að héldist uppbygging í Kerlingarfjöllum í hendur við styrkingu og gæði innviða, þannig að álag á umhverfið ykist ekki þótt ferðamönnun myndi fjölga á svæðinu, myndi framkvæmdin ekki hafa umtalsverð umhverfisáhrif í för með sér.

Í umsögn Ferðamálastofu kom m.a. fram að mikilvægt væri að samhliða fjölgun gistirýma yrði tryggt að ferðamannaleiðir væru útfærðar þannig að tekið væri tillit til viðkvæmrar náttúru og áætlaðrar fjölgunar ferðamanna. Við útlitshönnun fyrirhugaðs hótels væri horfið frá uppbyggingu í anda fjallaskála. Þjónustustig yrði hækkað og yrði nær því sem þekktist í þéttbýliskjörnum. Ætla mætti að þetta myndi breyta samsetningu gestahópsins og kröfum þeirra um þjónustu. Taldi Ferðamálastofa að nauðsynlegt væri að Skipulagsstofnun tæki til alvarlegrar skoðunar hvort rétt væri að fram færi mat á umhverfisáhrifum. Gæti slíkt mat stuðlað að því að dregið yrði úr mögulegum neikvæðum umhverfisáhrifum framkvæmdanna og stuðlað að samvinnu hagsmunaaðila. Jafnframt fengi almenningur kynningu á þeim mögulegu umhverfisáhrifum sem framkvæmdunum fylgdi.
Hinn 1. júlí 2015 lá fyrir niðurstaða Skipulagsstofnunar um að sú heildaruppbygging sem tilkynnt hefði verið um í Kerlingarfjöllum kynni að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og skyldi háð mati á umhverfisáhrifum. Væri sú niðurstaða einkum byggð á þeim viðmiðum sem tilgreind væru í 1. og 2. tl. í 2. viðauka laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Samkvæmt 1. tl. bæri að líta til eðlis framkvæmdar með tilliti til stærðar og umfangs, mögulegra samlegðaráhrifa, úrgangs og mengunar. Í 2. tl. kæmi fram að horfa ætti til staðsetningu framkvæmdar með tilliti til skipulagsákvæða, verndarsvæða og álagsþols náttúrunnar, svo sem nánar var tilgreint.

Í niðurstöðu Skipulagsstofnunar var og tekið fram að stofnunin teldi hins vegar að forsendur væru til þess að uppbygging sem áformuð væri í 1. áfanga skyldi ekki háð mati á umhverfisáhrifum þar sem þar yrði um að ræða mun óverulegri aukningu á umfangi og eðlisbreytingu á mannvirkjagerð og þjónustu en þegar horft væri til allra þriggja áfanga uppbyggingarinnar og einnig þar sem framkvæmdaraðili hefði í tilkynningu og viðbrögðum við umsögnum sýnt fram á að þær framkvæmdir væru ekki líklegar til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif. Helstu neikvæðu áhrif framkvæmda í 1. áfanga yrðu staðbundin sjónræn áhrif í Ásgarðsdal vegna nýrra bygginga og rasks á gróðri á afmörkuðum svæðum, m.a. mýrlendi. Teldi Skipulagsstofnun að framangreind áhrif yrðu nokkuð neikvæð, en að framkvæmdir í 1. áfanga væru ekki líklegar til að hafa neikvæð áhrif á vatnafar, þ.e. einkum vatnsgæði og rennsli Ásgarðsár.

Einnig var bent á að framkvæmdin væri háð framkvæmdaleyfi og byggingarleyfi Hrunamannahrepps, sem og starfsleyfi Heilbrigðiseftirlits Suðurlands. Var sérstök athygli vakin á því að þar til að mati á umhverfisáhrifum heildarframkvæmdarinnar yrði lokið væri eingöngu heimilt að veita leyfi til þeirra framkvæmda sem féllu undir 1. áfanga hennar. Þá ítrekaði Skipulagsstofnun mikilvægi þess að Fannborg ehf. og aðrir sem að framkvæmdinni kæmu viðhefðu þá verktilhögun og mótvægisaðgerðir sem kynntar hefðu verið við meðferð málsins og vöktun á aðgerðum og áhrifum, þannig að framkvæmdin væri ekki líkleg til að valda verulegum og óafturkræfum áhrifum á umhverfið.

Hefur sú ákvörðun Skipulagsstofnunar að 1. áfangi framkvæmda við uppbyggingu hálendismiðstöðvar í Kerlingarfjöllum skuli ekki háður mati á umhverfisáhrifum verið kærð til úrskurðarnefndarinnar, eins og að framan greinir.

Málsrök kæranda: Kærandi telur að mat á umhverfisáhrifum skuli ná til allra áfanga framkvæmdarinnar, einnig þess fyrsta, enda séu þeir allir hluti af sömu framkvæmd. Um umfangsmikla framkvæmd sé að ræða, sem líkleg sé til að hafa umfangsmikil umhverfisáhrif. Þá stangist hún á við stefnu um landsskipulag og kunni að breyta samsetningu og kröfum ferðamanna sem sæki staðinn, með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.

Skipting framkvæmdarinnar í áfanga og tilkynning um hvern og einn þeirra til Skipulagsstofnunar, í stað þess að fjalla um þá alla í einu, sé til þess fallin að fara í kringum löggjöf um mat á umhverfisáhrifum. Um svonefnda „salami slicing“ sé að ræða og sé í því sambandi bent á stefnumarkandi dóm Evrópudómstólsins í máli nr. C-392/96, þar sem bent sé á að með þessu háttalagi kunni framkvæmdaraðili að komast hjá mati á umhverfisáhrifum þrátt fyrir umtalsverð umhverfisáhrif í heild sinni.

Óheimilt sé að skipta framkvæmd upp og komast þannig hjá mati á umhverfisáhrifum einstakra hluta hennar, sbr. nú tilskipun 2011/92/ESB. Hafi Evrópudómstólinn áréttað að vanræksla þess að taka mið af samlegðaráhrifum nokkurra framkvæmda megi ekki leiða til þess að þær sleppi undan matsskyldu, þegar svo hátti til að líklegt sé að þær hafi í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif skv. 1. mgr. 2. gr. tilskipunarinnar, sbr. a- lið 1. gr. og 1. mgr. 5. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Megi í þessu sambandi benda á dóma Evrópudómstólsins í málum nr. C-142/07, nr. C-275/09 og áðurnefndan dóm.

Byggi umhverfismatslöggjöfin á heildarmati á umhverfisáhrifum framkvæmdar eða breytinga á framkvæmd. Sé það andstætt þeirri hugsun að meta aðeins bein áhrif framkvæmdar en sleppa þeim umhverfisáhrifum, sem hlotist geti af notkun og nýtingu sjálfrar framkvæmdarinnar, sbr. dóma Evrópudómstólsins í málum nr. C-2/07 og nr. C-142/07. Hafi Skipulagsstofnun ekki hugað að heildaráhrifum 1. áfanga sem hluta af heildarframkvæmdinni, t.d. hver heildaráhrif yrðu af framkvæmdum sem miði að hærra þjónustustigi og kröfum um breytta vegi fyrir hálendisumferð, ásókn á hálendið og á þolmörk þess í því samhengi. Ekki hafi verið athugað hver samlegðaráhrif kynnu að verða af uppbyggingaráformum í gistingu og á kröfu um betri vegi og uppbyggða, en til þessara þátta hafi borið að líta.

Líklegt sé að þörf verði fyrir álit EFTA-dómstólsins við úrlausn máls þessa. Uppfylli úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála öll þau skilyrði sem EFTA- dómstólinn hafi talið að úrskurðarnefndir á stjórnsýslustigi þurfi að fullnægja til þess að vera til þess bærar að leita álits dómstólsins. Sé vísað til mála EFTA-dómstólsins, E-1/94, E-1/11 og fordæmi frá ESB dómstólnum séu fjölmörg, t.d. C-393/92. Byggi heimild EES réttar til álitsumleitana úrskurðarnefnda á 34. gr. samnings milli EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls.

Málsrök Skipulagsstofnunar: Af hálfu Skipulagsstofnunar er bent á að í c-lið 3. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum og a-lið 2. mgr. 1. gr. tilskipunar 2011/92/ESB sé að finna skilgreiningu á hugtökunum framkvæmd og framkvæmdir. Samkvæmt orðanna hljóðan sé ljóst að tiltekinn áfangi framkvæmdar falli undir hugtökin, þ.e. áfangi teljist sérstök framkvæmd í skilningi umræddra laga og tilskipunar. Megi til hliðsjónar benda á dóm Evrópudómstólsins í máli nr. C-227/01. Sé 1. áfangi við umrædda gisti- og þjónustuaðstöðu sérstök framkvæmd.

Atvik í máli nr. C-392/96 sem kærandi vísi til, séu ekki sambærileg atvikum sem á hafi reynt í hinni kærðu ákvörðun. Niðurstaðan í fyrrnefnda málinu hafi ekki beint ráðist af „salami slicing“ heldur hvort tilskipun 85/337/EBE hefði verið innleidd í írskan rétt með réttum hætti, en svo hefði ekki verið. Dómurinn hafi þ.a.l. ekki fordæmisgildi.

Því sé hafnað að ákvörðun Skipulagsstofnunar um 1. áfanga sé til þess fallin að fara í kringum lög um mat á umhverfisáhrifum. Uppbygging sem þar sé áformuð feli í sér mun óverulegri aukningu á umfangi og eðlisbreytingu á mannvirkjagerð og þjónustu en þegar horft sé til allra áfanganna. Einnig hafi framkvæmdaraðili í tilkynningu og viðbrögðum við umsögnum sýnt fram á að framkvæmdin í 1. áfanga sé ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif. Heildaruppbyggingin sem slík kunni að hafa umtalsverð umhverfisáhrif. Verði Skipulagsstofnun að virða sjónarmið um meðalhóf í störfum sínum, sbr. hina ólögfestu meginreglu stjórnsýsluréttar um meðalhóf og 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Ákvörðunin sé í fullu samræmi við þau sjónarmið.

Sé lögð áhersla á að í matsferlinu sem fari fram skv. IV. kafla laga nr. 106/2000 þurfi við mat á áhrifum framkvæmdarinnar á umhverfið að taka tillit til samlegðaráhrifa þeirrar uppbyggingar sem áformuð sé í 1. áfanga. Hafi í ákvörðun Skipulagsstofnunar verið vikið að samlegð umhverfisáhrifa þeirrar uppbyggingar sem fyrirhuguð sé í Kerlingarfjöllum og annarra framkvæmda. Tekið hafi verið undir umsögn Ferðamálastofu um mögulega aukna þyrluumferð. Einnig að leggja þurfi mat á það hvort sú uppbygging og fjárfesting sem fyrirhuguð sé miði við bættan veg og lengri opnunartíma á svæðinu og skapi þannig þrýsting á uppbyggingu heilsársvegar yfir Kjöl og meiri þjónustu við hann.

Vikið sé að álagsþoli náttúrunnar í ákvörðun Skipulagsstofnunar. Taki stofnunin undir mikilvægi þess að ekki séu teknar endanlegar ákvarðarnir um verulega aukið umfang og breytingar á mannvirkjagerð og þjónustu á þessu viðkvæma svæði án þess að lagt sé þar til grundvallar mat á álagsþoli náttúrunnar. Jafnframt að það yrði nýtt til að leggja mat á hvers konar uppbygging sé best til þess fallin að veita ferðafólki viðeigandi þjónustu um leið og tryggt sé að ekki verði gengið á álagsþol náttúrunnar og sérstöðu svæðisins.

Ekki sé tekið undir að ekki hafi verið hugað að heildaráhrifum 1. áfanga sem hluta af heildarframkvæmdinni. Lögð sé áhersla á að með heildaruppbyggingu sé átt við framkvæmdir í öllum áföngum. Í samræmi við framangreint hafi stofnunin haft í huga samlegðaráhrif þessara framkvæmda og áhrif þeirra á álagsþol náttúrunnar. Þá þurfi í umhverfismati fyrir heildaruppbygginguna að koma fram upplýsingar um 1. áfanga, sbr. d-lið 2. tl. 20. gr. reglugerðar nr. 660/2015 um mat á umhverfisáhrifum. Jafnframt þurfi að gera grein fyrir sammögnunaráhrifum 2. og 3. áfanga með 1. áfanga, sbr. 2. mgr. 9. gr. laga nr. 106/2000.

Athugasemdir framkvæmdaraðila: Framkvæmdaraðili gerir þá kröfu að kæru verði vísað frá úrskurðarnefndinni á þeim grundvelli að ekki sé sýnt fram á skilyrði kæruaðildar í kæru, en til vara að kröfum verði hafnað.

Því sé alfarið hafnað að reynt sé að fara í kringum löggjöf um mat á umhverfisáhrifum eða að dómar sem kærandi vísi í eigi við í máli þessu. Í ákvörðun Skipulagsstofnunar sé tekinn af allur vafi um samhengi framkvæmdanna. Hafi stofnunin með fyrirmælum sínum girt fyrir þann möguleika að hægt sé að tilkynna framkvæmdina í mörgum smááföngum til að komast hjá mati á umhverfisáhrifum heildarframkvæmdarinnar. Jafnframt sé ljóst að Skipulagsstofnun taki afstöðu til framkvæmdanna eins og um eina framkvæmd sé að ræða.

Í ákvörðun Skipulagsstofnunar sé með rökstuddum hætti tekin rétt afstaða til 1. áfanga. Hafi í kæru ekki verið sýnt fram á hið gagnstæða. Geti fjölgun gistirýma um fimm með engu móti talist veruleg eða umtalsverð. Sé litið til þess hvernig afkastageta hálendismiðstöðvarinnar muni þróast geti það ekki talist umtalsverð aukning frá því sem nú er. Þá sé ekki efnislega sýnt fram á að áfanginn geti haft umtalsverð umhverfisáhrif vegna umfangs, eðlis eða staðsetningar. Fram muni fara mat á umhverfisáhrifum vegna framkvæmdanna og starfseminnar almennt, enda áformað að byggja alla þrjá áfanga. Hafi umsagnaraðilar ítrekað verið minntir á að tilkynningin lyti að öllum áföngunum.

Málatilbúnaður kæranda sé á misskilningi byggður, enda verði hin kærða ákvörðun ekki með nokkru móti skilin svo að með henni sé ekki tekið mið af samlegðaráhrifum hinna fyrirhuguðu framkvæmdar. Sé afstaða Skipulagsstofnunar skýr hvað samlegðaráhrif heildarframkvæmdarinnar varði, þ.e. framkvæmdin í heild sinni skuli háð mati á umhverfisáhrifum. Verði ákvörðun Skipulagsstofnunar ekki skilin á þá leið að heimilt sé að ráðast í alla þrjá áfanga heildarframkvæmdarinnar í sitt hvoru lagi og koma sér þannig hjá mati á umhverfisáhrifum. Þvert á móti verði að telja að í ákvörðuninni felist skilyrt afstaða að því leytinu að hyggi framkvæmdaraðili á framkvæmdir umfram þær sem áformaðar séu samkvæmt 1. áfanga skuli framkvæmdin í heild sinni háð mati á umhverfisáhrifum. Þessu til samræmis hafi framkvæmdaraðili falið verkfræðistofu að vinna drög að tillögu að matsáætlun þar sem fjallað sé um umhverfisáhrif allra þriggja áfanganna í einu.

Þá sé því hafnað að það geti verið annmarki á ákvörðun Skipulagsstofnunar að líta ekki til þeirra umhverfisáhrifa sem hlotist geti af notkun og nýtingu sjálfrar framkvæmdarinnar. Sé það ekki hlutverk Skipulagsstofnunar samkvæmt lögum nr. 106/2000 að meta umhverfisáhrif framkvæmdarinnar, heldur einskorðist hlutverk stofnunarinnar á þessu stigi við að taka ákvörðun um hvort framkvæmdin skuli háð mati samkvæmt lögunum á grundvelli þeirra viðmiða sem þar komi fram, sbr. 6. gr. laganna. Þau atriði sem kærandi vilji að litið sé til og metin verði því metin í mati á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar. Þar muni koma fram áhrifaþættir framkvæmdar. Jafnframt sé þar vísað til grunnþolmarkrannsóknar frá árinu 2015 á áhrifum ferðamennsku og útivistar fyrir Kerlingarfjallasvæðið. Gerð verði nánari grein fyrir skýrslunni og helstu niðurstöðum um mat á þolmörkum svæðisins í frummatsskýrslu. Með hliðsjón af þeirri vinnu sem nú sé yfirstandandi þyki vandséð hvaða hagsmuni máli þessu sé ætlað að vernda.

Að öllu framangreindu virtu verði atvikum í máli þessu ekki með nokkru móti jafnað við atvik í tilvitnuðum dómum Evrópudómstólsins sem kærandi byggi málatilbúnað sinn á. Kröfu um að leitað skuli álits EFTA-dómstólsins í málinu sé hafnað, enda verði það ekki gert undir rekstri máls fyrir stjórnvöldum, heldur eingöngu dómstólum, sbr. skýr ákvæði laga nr. 21/1994 um öflun álits EFTA-dómstólsins um skýringu samnings um Evrópska efnahagssvæðið.

Athugasemdir kæranda við málsrökum sveitarfélagsins og framkvæmdaraðila: Kærandi áréttar sjónarmið sín og bendir á dóma Evrópudómstólsins máli sínu til stuðnings. Sú meginregla gildi í umhverfisrétti, mótuð af dómstólum að lög um mat á umhverfisáhrifum skuli túlka rúmt. Gögn með tilkynningu hafi borið skýrlega með að sér að um eina framkvæmd væri að ræða og ekki sé til staðar lagaheimild fyrir því að skipta framkvæmdinni upp. Breyti engu í þessu samhengi að framkvæmdin hafi verið tilkynnt sem áfangaskipt.

Styðji íslensk lög og dómafordæmi ekki þá niðurstöðu Skipulagsstofnunar að unnt sé að ákveða að framkvæmdin sem slík sé umhverfismatsskyld en ekki einhverjir hlutar hennar. Séu þeir þættir framkvæmdarinnar sem stofnunin telji að skuli umhverfismeta háðir því að sá hluti framkvæmdar, sem ekki þurfi að umhverfismeta, verði byggður. Nauðsynlegt sé að meta umhverfisáhrif saman, óháð því hvort um eina framkvæmd teljist að ræða, eða fleiri, m.a. í þeim tilvikum þar sem ein framkvæmd taki við af annarri. Skipti í raun ekki mestu máli hvort framkvæmdin teljist hluti annarrar framkvæmdar eða sjálfstæð framkvæmd. Ráði heildarumhverfisáhrif framkvæmdanna því hvort framkvæmd skuli metin. Næsta fráleitt sé þó að telja 1. áfanga þeirrar framkvæmdar sem hér sé fjallað um sem sjálfstæða framkvæmd, þegar af þeirri ástæðu að hinir áfangarnir séu algjörlega háðir honum.

Skipulagsstofnun hafi borið að taka tillit til þeirra samlegðaráhrifa sem nauðsynleg orkuöflun hefði á framkvæmdina. Slíkt hafi ekki verið gert og beri því að ógilda ákvörðunina. Einnig hafi ekki verið tekin afstaða til niðurrifs sem fylgi tilkynntri framkvæmd, þar á meðal 1. áfanga hennar. Hafi hin kærða ákvörðun því ekki verið í samræmi við lög um mat á umhverfisáhrifum. Jafnframt hafi Skipulagsstofnun borið að fjalla sérstaklega um þær breytingar á byggingum sem fyrir séu og taka afstöðu til umhverfismats þeirra. Þá sé bent á að í deiliskipulagi sé gert ráð fyrir mun færri gistirýmum en í tilkynningu.

Athugasemdir framkvæmdaraðila við athugasemdum kæranda: Framkvæmdaraðili ítrekar sjónarmið sín. Ljóst sé að það sé forsenda þess að heimilt sé að ráðast í 2. og 3. áfanga framkvæmdarinnar að allir þrír áfangar hinnar fyrirhuguðu uppbyggingar sæti sameiginlegu mati á umhverfisáhrifum. Fáist ekki með nokkru móti séð á hvaða grundvelli kærandi telji að verið sé að koma framkvæmdinni að hluta eða í heild sinni hjá umhverfismati með því að hluta hana niður. Vísi framkvæmdaraðili máli sínu til stuðnings í mál Evrópudómstólsins nr. C-244/12. Sé skilningur framkvæmdarhafa sá að honum sé heimilt að hefja framkvæmdir við 1. áfanga án þess að sá hluti sæti mati á umhverfisáhrifum, en að framkvæmdir við 2. og 3. áfanga geti ekki hafist fyrr en umhverfisáhrif allra þriggja áfanganna hafi verið metin í heild sinni. Þá sé því hafnað að dómur Evrópudómstólsins í máli nr. C-227/01 hafi fordæmisgildi. Öllum órökstuddum og röngum staðhæfingum um meintan orkuskort á svæðinu sé hafnað og vísað til þess er fram komi í tillögum að matsáætlun vegna framkvæmda við 1.-3. áfanga. Rangt sé að Skipulagsstofnun hafi ekki tekið tillit til þess að framkvæmdin feli í sér breytingar á eldri mannvirkjum, þ.m.t. niðurrif.

——-

Aðilar máls hafa fært fram frekari rök fyrir máli sínu sem ekki verða rakin nánar hér, en úrskurðarnefndin hefur haft þau til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Vettvangsganga: Úrskurðarnefndin kynnti sér aðstæður á vettvangi 23. júní 2016.

Niðurstaða: Í máli þessu hefur kærandi meðal annars bent á að þörf sé á áliti EFTA- dómstólsins við úrlausn málsins. Í lögum nr. 21/1994 um öflun álits EFTA-dómstólsins um skýringu samnings um Evrópska efnahagssvæðið er kveðið á um heimildir dómara til að afla ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins vegna mála sem rekin eru fyrir héraðsdómstólum, Félags-dómi og Hæstarétti. Í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að nefndum lögum kemur fram að í 34. gr. samnings milli EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls sé kveðið á um lögsögu EFTA-dómstólsins til þess að gefa ráðgefandi álit um skýringu samnings um Evrópska efnahagssvæðið. Segir svo að EFTA-ríkjunum sé veitt heimild í ákvæðinu til að takmarka rétt dómstóla sinna til að leita álits sem þessa við þá dómstóla sem kveði upp úrlausnir sem sæti ekki málskoti samkvæmt lögum. Þá er tekið fram að sú leið sé valin að leggja til að héraðsdómstólum verði veitt þessi heimild til jafns við Hæstarétt. Einnig er tekið fram að taka verði tillit til þess að Félagsdómur kveði upp endanlega dóma á sínu sviði en á vettvangi hans geti reynt á atriði sem lúti að skýringu EES-reglna.

Hvorki er í nefndum lögum né frumvarpi vikið að heimildum úrskurðarnefnda til að leita álits EFTA-dómstólsins. Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála var sett á fót með lögum nr. 130/2011, sem tóku gildi 1. janúar 2012. Á sama tíma fóru fram viðamiklar lagabreytingar, sbr. einkum lög nr. 131/2011 um breytingu á ýmsum lögum vegna fullgildingar Árósasamningsins. Löggjafinn breytti hins vegar ekki lögum nr. 21/1994 af því tilefni. Verður ekki séð af framangreindu að úrskurðarnefndin geti leitað ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins og þykir rétt að árétta í því sambandi að úrskurðum nefndarinnar verður skotið til dómstóla, sem eftir atvikum geta kosið að leita slíks álits.

Þjónustumiðstöðvar fyrir ferðamenn á hálendi og á verndarsvæðum á láglendi utan þéttbýlis, orlofsþorp, hótel og tengdar framkvæmdir utan þéttbýlis eru samkvæmt lið 12.05 í 1. viðauka laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum meðal framkvæmda sem meta skal í hverju tilviki hvort sæta skuli mati á umhverfisáhrifum. Með vísan til þess tilkynnti framkvæmdaraðili um áform sín um uppbyggingu hálendismiðstöðvar í Kerlingarfjöllum til Skipulagsstofnunar skv. 2. mgr. 6. gr. laganna. Í tilkynningu hans, dags. 15. apríl 2015, var tekið fram að tilkynnt væri um framkvæmdaáform árin 2015-2017 og þeim nánar lýst. Jafnframt fylgdi með greinargerð er bar heitið „Tilkynning um uppbyggingaráform og tilheyrandi framkvæmdir“ þar sem greint var ítarlega frá framkvæmdum við heildaruppbyggingu hálendismiðstöðvarinnar. Tekið var fram að áformað væri að ráðast í framkvæmdir í þremur áföngum. Gert væri ráð fyrir gistirýmum fyrir 342 á svæðinu að framkvæmdum loknum, en m.a. ætti að reisa 120 herbergja hótelálmu er tengd yrði svonefndri aðalbyggingu. Eins og rakið hefur verið lá ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsskyldu framkvæmda fyrir 1. júlí 2015. Var niðurstaða hennar sú að heildaruppbygging sem tilkynnt hefði verið um skyldi háð mati á umhverfisáhrifum m.t.t. viðmiða sem tilgreind væru í 2. viðauka laganna.

Uppbygging sem áformuð væri í 1. áfanga skyldi hins vegar ekki háð mati á umhverfisáhrifum þar sem um yrði að ræða mun óverulegri aukningu á umfangi og eðlisbreytingu á mannvirkjagerð og þjónustu en þegar horft væri til allra þriggja uppbyggingaráfanganna. Jafnframt var litið til þess að framkvæmdaraðili hefði í tilkynningu og viðbrögðum við umsögnum sýnt fram á að þær framkvæmdir væru ekki líklegar til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif. Snýst deila málsins um þennan þátt ákvörðunar Skipulagsstofnunar.

Telur kærandi að Skipulagsstofnun hafi ekki verið unnt að undanþiggja 1. áfanga framkvæmda við uppbyggingu hálendismiðstöðvar frá því mati sínu að heildaruppbygging skuli háð mati á umhverfisáhrifum. Framkvæmdaraðili hafnar þeirri túlkun. Ákvörðun Skipulagsstofnunar verði ekki skilin á annan veg en þann að hyggi framkvæmdaraðili á frekari framkvæmdir en samkvæmt 1. áfanga þá skuli framkvæmdin í heild sinni háð mati á umhverfisáhrifum. Forsenda þess að framkvæmdaraðila sé heimilt að ráðast í 2. og 3. áfanga framkvæmdarinnar sé að allir þrír áfangarnir sæti sameiginlegu mati á umhverfisáhrifum.

Í 1. gr. laga nr. 106/2000 er gerð grein fyrir markmiðum laganna. Eiga þau m.a. að tryggja að mat á umhverfisáhrifum hafi farið fram áður en leyfi er veitt fyrir framkvæmd, sem kann vegna staðsetningar, starfsemi sem henni fylgir, eðlis eða umfangs að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif. Jafnframt er það meðal annarra markmiða laganna að draga eins og kostur er úr neikvæðum umhverfisáhrifum framkvæmdar, en það nýmæli kom inn í lögin með breytingarlögum nr. 74/2005. Í athugasemdum með frumvarpi til þeirra laga er rakið að af aðfaraorðum og ákvæðum Evróputilskipunar þeirrar er lögin byggi á megi ráða að matsferli því sem tilskipanir kveði á um sé fyrst og fremst ætlað að tryggja að við veitingu framkvæmdaleyfis liggi fyrir helstu upplýsingar um þá þætti umhverfisáhrifa framkvæmdar sem máli skipti, og nánar sé lýst í tilskipuninni, og að m.a. sé tekið mið af þessum upplýsingum. Er enda m.a. tiltekið í 1. mgr. 13. gr. laga nr. 106/2000 að óheimilt sé að gefa út leyfi til framkvæmdar fyrr en fyrir liggi álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum. Þá er áréttað í 2. mgr., sbr. 3. mgr. 13. gr., að við útgáfu leyfis til framkvæmdar, þegar fyrir liggi ákvörðun um að framkvæmd skuli háð mati á umhverfisáhrifum, skuli leyfisveitandi kynna sér matsskýrslu framkvæmdaraðila um framkvæmdina og taka rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum hennar.

Svo sem áður greinir er ákvörðun Skipulagsstofnunar tvíþætt og var það aðalefni hennar að framkvæmdin í heild sinni kynni að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og skyldi hún því háð mati á umhverfisáhrifum, en að auki var ákveðið það sem hér er um deilt, að uppbygging í 1. áfanga skyldi ekki háð slíku mati.

Í tilkynningu framkvæmdaraðila kom fram að gistirýmum myndi fjölga úr 177 í 342 og að heildargrunnflötur bygginga myndi aukast úr 1.077 m² í 2.650 m² að framkvæmdum loknum, en framkvæmdin færi fram í þremur áföngum. Samkvæmt skilgreiningu e-liðar 1. mgr. 3. gr. laga nr. 106/2000 telst framkvæmd fyrirhuguð þegar hún er tæk til málsmeðferðar skv. IV. kafla laganna og er heildaruppbyggingin í kjölfar ákvörðunar Skipulagsstofnunar öll undir þeirri málsmeðferð, enda var tilkynnt um hana alla af framkvæmdaraðila. Eðli máls samkvæmt, og með hliðsjón af þeim markmiðum laga nr. 106/2000 sem áður hafa verið rakin, verður þeirri heildaruppbyggingu ekki skipt upp í smærri þætti þegar hún er öll fyrirhuguð. Þykir sá hluti ákvörðunarinnar ekki samrýmanlegur aðalefni hennar. Sú ákvörðun að 1. áfangi fyrirhugaðrar uppbyggingar skuli ekki háður mati á umhverfisáhrifum, þrátt fyrir að meta skuli áhrif heildaruppbyggingar á umhverfið, fer þannig í berhögg við þau fyrirmæli 1. mgr. 1. gr. laganna að mat hafi farið fram á áhrifum framkvæmdar áður en leyfi fyrir henni sé veitt, kunni hún að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif. Að öðrum kosti fengi leyfisveitandi ekki færi á að taka afstöðu til framkvæmdarinnar að fengnum þeim upplýsingum sem lögin miða við að hann hafi undir höndum við þá ákvörðunartöku. Þegar svo háttar til kemur ekki til álita að beita sjónarmiðum um meðalhóf til að komast að þeirri niðurstöðu að framkvæmdin skuli að hluta ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Þegar af greindum ástæðum verður ekki hjá því komist að fella úr gildi þann hluta ákvörðunarinnar sem lýtur að 1. áfanga framkvæmdarinnar.

Að auki verður ekki séð að sú forsenda Skipulagsstofnunar eigi við rök að styðjast að framkvæmdir við 1. áfanga myndu valda óverulegri aukningu á umfangi og eðlisbreytingu á mannvirkjagerð og þjónustu borið saman við áhrif af öllum þremur áföngum uppbyggingarinnar. Af könnun úrskurðarnefndarinnar á vettvangi virðist þvert á móti ljóst að t.a.m. eðli þeirrar gistiþjónustu sem í boði verður muni breytast þegar að 1. áfanga loknum.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 1. júlí 2015 um að 1. áfangi í uppbyggingu gisti- og þjónustuaðstöðu hálendismiðstöðvarinnar í Kerlingarfjöllum skuli ekki háður mati á umhverfisáhrifum.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ómar Stefánsson                                                   Aðalheiður Jóhannsdóttir

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                  Þorsteinn Þorsteinsson

47/2016 Borgarbraut

Með
Árið 2016, mánudaginn 6. júní, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. l. nr. 130/2010 fyrir:

Mál nr. 47/2016, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Borgarbyggðar frá 14. apríl 2016 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi fyrir Borgarbraut 55-59 og ákvörðun byggingarfulltrúa Borgarbyggðar frá 26. apríl 2016 um að veita leyfi til jarðvegsvinnu á lóðum nr. 57 og 59 við Borgarbraut. 

Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður

um kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 17. maí 2016, er barst nefndinni 18. s.m., kærir Borgarland ehf., eigandi Borgarbrautar 56-60, Borgarnesi, þá ákvörðun sveitarstjórnar Borgarbyggðar frá 14. apríl 2016 að samþykkja breytt deiliskipulag fyrir Borgarbraut 55-59 og ákvörðun byggingarfulltrúa Borgarbyggðar frá 26. s.m. að veita byggingarleyfi til jarðvegsvinnu á byggingarsvæði lóða 57 og 59 við Borgarbraut. Er þess krafist að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi. Að auki er farið fram á að framkvæmdir á svæðinu verði stöðvaðar, en til vara að réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar verði frestað.Verður nú tekin afstaða til fram kominnar stöðvunarkröfu kæranda.

Málsatvik og rök: Hinn 10. desember 2015 samþykkti sveitarstjórn Borgarbyggðar að auglýsa tillögu að breytingu á skipulagi Borgarbrautar 55-59, Borgarbyggð. Í breytingunni fólst að lóðir nr. 55 og 57 yrðu aðskildar. Byggingarmagn yrði aukið á lóðum nr. 57 og 59 og heimilt yrði að byggja auka hæð neðanjarðar. Kvöð um umferðarrétt yrði færð á milli lóða nr. 55 og 57 og gerð akstursleið. Að auki var gert ráð fyrir að heimilt yrði að tengja saman byggingar á Borgarbraut 57 og 59. Var tillagan auglýst  16. desember 2015 með athugasemdarfresti til 29. janúar 2016. Bárust athugasemdir á kynningartíma, m.a. frá kæranda. Að lokinni kynningu var erindið tekið aftur fyrir og það samþykkt á fundi sveitarstjórnar 11. febrúar 2016. Hinn 14. apríl s.á. bárust Borgarbyggð athugasemdir Skipulagsstofnunar við samþykkta breytingartillögu. Var komið til móts við athugasemdir Skipulagsstofnunar og deiliskipulagsbreytingin samþykkt, með áorðnum breytingum, á fundi sveitarstjórnar 15. s.m. Skipulagsbreytingin tók gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 20. apríl 2016. Hinn 26. s.m. samþykkti byggingarfulltrúi Borgarbyggðar að veita leyfi til jarðvegsvinnu á lóðum nr. 57 og 59 við Borgarbraut og var leyfið gefið út sama dag.

Kærandi skírskotar til þess að hin kærða deiliskipulagsbreyting sé ekki í samræmi við gildandi aðalskipulag. Með hinni kærði skipulagsbreytingu sé verið að brjóta gegn jafnræði sem eigi að ríkja á milli lóðarhafa á svæðinu til uppbyggingar og breytinga. Hin kærða deiliskipulagsbreyting sé í andstöðu við lög og nauðsynlegt sé að stöðva allar framkvæmdir sem leyfðar hafa verið á grundvelli hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar þar sem hætta sé á að hagsmunir kæranda og annarra íbúa og atvinnurekenda á svæðinu fari forgörðum.

Leyfishafi bendir á að umrætt byggingarleyfi hafi verið veitt fyrir jarðvinnu og sé óháð þeim byggingum sem þar muni rísa eða formi þeirra. Verði framkvæmdar stöðvaðar muni það valda leyfishafa ófyrirsjáanlegu tjóni.

Af hálfu Borgarbyggðar er á það bent að umrætt byggingarleyfi heimili aðeins framkvæmdir við jarðvegsvinnu. Sé greftri í samræmi við hið útgefna leyfi að mestu lokið en jarðvegsvinna hafi verið langt komin þegar stöðvunarkrafa hafi borist. Telji sveitarfélagið að stöðvun framkvæmda á þessu stigi muni ekki hafa neina sérstaka þýðingu. Að auki sé á það bent að framkvæmdir leyfishafa séu alfarið á hans ábyrgð og áhættu.

Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er tekið fram að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar en jafnframt er kæranda þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Þá getur úrskurðarnefndin að sama skapi frestað réttaráhrifum ákvörðunar sem felur ekki í sér heimild til framkvæmda, komi fram krafa um það af hálfu kæranda, sbr. 3. mgr. nefndrar 5. gr. Með sama hætti er kveðið á um það í 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar en þó sé heimilt að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar til bráðabirgða meðan málið er til meðferðar hjá kærustjórnvaldi þar sem ástæður mæli með því. Tilvitnuð lagaákvæði bera með sér að meginreglan er sú að kæra til æðra stjórnvalds frestar ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar og eru heimildarákvæði fyrir frestun framkvæmda eða réttaráhrifa kærðar ákvörðunar undantekning frá nefndri meginreglu sem skýra ber þröngt. Verða því að vera ríkar ástæður eða veigamikil rök fyrir ákvörðun um frestun réttaráhrifa og stöðvun framkvæmda

Mál þetta snýst um gildi deiliskipulagsákvörðunar sem hefur að geyma heimild til breyttrar nýtingar tiltekinna lóða. Gildistaka deiliskipulags felur ekki í sér heimildir til að hefja framkvæmdir heldur þarf til að koma sérstök stjórnvaldsákvörðun, sem kæranleg er til úrskurðarnefndarinnar, og útgáfa byggingar- eða framkvæmdaleyfis í skjóli slíkrar ákvörðunar, sbr. 11. gr. og 13. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010 og 13., 14. og 15. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Í kærumáli vegna greindra stjórnvaldsákvarðana er unnt að gera kröfu um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða skv. 5. gr. laga nr. 130/2011. Af þessu leiðir að jafnaði sé ekki tilefni til að beita heimild til stöðvunar framkvæmda eða frestunar réttaráhrifa í kærumálum er varða gildi deiliskipulagsákvarðana.

Byggingarleyfi hefur einnig verið kært en efni þess er takmarkað við leyfi til jarðvegsvinnu á því svæði sem hin kærða skipulagsbreyting tekur til. Umrætt byggingarleyfi veitir ekki heimild til frekari framkvæmda á grundvelli hinnar kærðu skipulagsákvörðunar og hefur slíkt leyfi ekki enn verið veitt. Samkvæmt gögnum málsins eru jarðvegsframkvæmdir vel á veg komnar. Framkvæmdirnar eru afturkræfar en stöðvun þeirra myndi valda leyfishafa tjóni.

Þegar litið er til alls framangreinds verður ekki séð að knýjandi nauðsyn sé á að fallast á kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda, enda ber leyfishafi af þeim alla áhættu verði hin kærða ákvörðun felld úr gildi. 

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða.

_____________________________
Nanna Magnadóttir

38/2014 Hverafold

Með
Árið 2016, föstudaginn 24. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ómar Stefánsson varaformaður og Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor.

Fyrir var tekið mál nr. 38/2014, kæra á afgreiðslu Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur frá 8. apríl 2014 um aðgerðir vegna notkunar á eignarhlutum 0301 og 0302 á þriðju hæð hússins að Hverafold 5, Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 1. maí 2014, er barst nefndinni sama dag, kærir J, Hverafold 5, Reykjavík, ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur frá 8. apríl 2014 um að „aðhafast ekkert að svo komnu máli vegna notkunar Tónlistarskólans í Grafarvogi á húsnæði sínu á 3ju hæð Hverafoldar 5 í Reykjavík“. Er þess krafist að rekstur tónlistarskólans á téðri hæð verði stöðvaður og að forsvarsmönnum skólans verði gert að sækja um leyfi fyrir nefndri starfsemi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur 6. júní 2014.

Málavextir: Í húsum á lóð nr. 1-5 við Hverafold í Grafarvogi er starfrækt verslunar- og þjónustumiðstöð, reist árið 1992 samkvæmt upplýsingum úr fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands. Í matshluta 02 að Hverafold 5 eru alls níu eignarhlutar og er þar m.a. starfræktur tónlistarskóli.

Árið 2011 festi kærandi kaup á eignarhluta 0303 á efstu hæð fyrrgreinds húss. Hinn 13. nóvember 2012 samþykkti byggingarfulltrúi umsókn kæranda um leyfi til að breyta notkun umrædds rýmis úr sólbaðsstofu í íbúð og lá þá fyrir álit kærunefndar húsamála í máli nr. 19/2012 um að nefnd breyting væri heimil án samþykkis annarra eigenda hússins. 

Á árinu 2013 kom kærandi á framfæri athugasemdum sínum vegna meintrar breyttrar starfsemi í rými á þriðju hæð hússins að Hverafold 5. Kom fram í tölvupóstum kæranda að umrætt rými hefði áður verið nýtt sem félagsheimili en þar færi nú fram starfsemi tónlistarskóla. Væri af henni mikið ónæði. Var kærandi í samskiptum við heilbrigðiseftirlitið vegna starfseminnar og með bréfi hans til m.a. heilbrigðiseftirlitsins, dags. 28. desember 2013, var gerð krafa um að „viðtakendur grípi til tafarlausrar aðgerða, einir sér eða allir saman, vegna ólíðandi breyttra nýtinga nýs eiganda á eignarhlut hans á 3ju hæð Hverafoldar 5, Reykjavík“. Vísaði kærandi m.a. til þess að í umræddu rými væri tónlistarkennsla og útleiga salar án leyfa og að nýr eigandi væri grandsamur um að nýtingin væri ósamrýmanleg íbúðarnotkun á sömu hæð. Hefði nefndur eignarhluti verið keyptur þrátt fyrir að forsvarsmenn tónlistarskólans hefðu áður staðhæft að tónlistarskólahald á annarri hæð væri ósamrýmanlegt íbúðarbyggð kæranda á þriðju hæð. Gerð var krafa um skrifleg viðbrögð viðtakenda. Þá sagði svo: „Fallist viðtakendur ekki á kröfur kæranda og ákveða að sitja aðgerðarlausir með hendur í skauti krefst kærandi þessi að viðtakendur sendi kæranda skriflega ákvörðun/úrskurð sem er eftir atvikum kæranleg til æðra stjórnsýsluvalds.“

Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur svaraði bréfi kæranda með bréfi, dags. 14. febrúar 2014. Þar var m.a. vakin athygli á því að eftirlitinu hefðu ekki borist kærur heldur fyrirspurnir frá kæranda um starfsemi tónlistarskólans. Starfsleyfi fyrir skólann hefði verið gefið út 2. nóvember 2000, það endurnýjað 4. apríl 2006 og gilti það til 4. apríl 2018. Heilbrigðiseftirlitið hefði fengið yfirlit yfir nemendatónleika í salnum á haustönn 2013. Þær upplýsingar hefðu jafnframt fengist að salurinn væri ekki leigður út til skemmtana- og samkomuhalds. Hefði rekstaraðili verið upplýstur um að ef til þess kæmi væri slík starfsemi leyfisskyld. Einnig var kæranda bent á að leita til heilbrigðiseftirlitsins eða til lögreglu teldi hann sig verða fyrir ónæði vegna hávaða og myndu heilbrigðisfulltrúar rannsaka réttmæti kvörtunar og krefjast viðeigandi úrbóta ef kvörtun ætti við rök að styðjast.

Í svarbréfi kæranda, dags. 3. mars 2014, var tekið fram að líta bæri á fyrrnefnt bréf, dags. 28. desember 2013, sem kæru, en ekki fyrirspurn. Enn fremur var áréttað að niðurstaða málsins yrði í úrskurðarformi, sem eftir atvikum væri kæranleg til tilgreinds æðra stjórnvalds og að upplýst yrði um kærufrest.

Með bréfi heilbrigðiseftirlitsins til kæranda, dags. 8. apríl 2014, var bent á að heilbrigðiseftirlitið myndi ljúka erindi kæranda með stjórnvaldsákvörðun en ekki stjórnvaldsúrskurði. Þá var tilgreint að í kjölfar bréfs kæranda, dags. 28. desember 2013, hefði heilbrigðiseftirlitið kannað meinta breytta hagnýtingu fasteignarinnar og notkun tónlistarskólans á umræddu rými, þar sem talið hafi verið af hálfu eftirlitsins að hugsanlega yrði tekin stjórnvaldsákvörðun í málinu. Við þá rannsókn hefði ekkert komið fram er bent hafi til þess að „umfang nýtingar“ á rýminu hefði breyst eða brotið hefði verið gegn starfsleyfi, þrátt fyrir eigendaskipti á fasteigninni. Tilefni hefði ekki verið til þess að heilbrigðiseftirlitið legði mat á truflun sem yrði vegna starfsemi í umræddu rými þar sem mæling á hljóðvist hefði ekki farið fram. Því væri ítrekað það sem fram kæmi í bréfi, dags. 14. febrúar 2014, um að leita skyldi til eftirlitsins eða lögreglunnar þegar meint truflun væri til staðar, svo unnt væri að staðfesta kvartanir um ónæði. Þá var tilgreint að samkvæmt 2. mgr. 13. gr. reglugerðar nr. 941/2002 um hollustuhætti væri heimilt að færa starfsemi á nýjan rekstraraðila, tæki nýr aðili við rekstri sem hefði gilt starfsleyfi. Enn fremur sagði svo: „Með vísan til framangreinds mun Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur ekki aðhafast að svo komnu máli, vegna notkunar [tónlistarskólans] á umræddu rými til kennslu, að því gefnu að ekki komi fram nýjar eða frekari upplýsingar sem gætu breytt afstöðu eftirlitsins til þessa máls.“ Loks var bent á að heimilt væri að kæra ákvörðun tekna á grundvelli reglugerðar um hollustuhætti til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála.    

Málsrök kæranda: Kærandi tekur fram að hann eigi lögvarða hagsmuni af því að gripið verði til aðgerða og skólahald tónlistarskólans stöðvað og kæranda tryggður réttur til friðar og öryggis á heimili sínu. Starfsleyfi tónlistarskólans sé bundið við starfsemi á annarri hæð hússins en hvorki sé fyrir hendi starfsleyfi né rekstrarleyfi fyrir að rækja starfsemi skólans á þriðju hæð þess. Skýrt komi fram í starfsleyfi tónlistarskólans að það gildi einungis í því húsnæði sem byggingarnefnd hafi veitt starfseminni heimild fyrir. Um sé að ræða breytta nýtingu rýmis á hæðinni. Ætli skólinn sér að vera með starfsemi á þriðju hæð beri að sækja um leyfi fyrir því og byggingarnefnd að fjalla um málið, m.a. hvort uppfyllt séu ákvæði byggingarreglugerðar um tónlistarskóla. Beri að uppfylla ákvæði þau er sett séu í starfsleyfinu, byggingarreglugerð og í lögum um fjöleignarhús. Ólíðandi hávaði sé af skólahaldinu fyrir íbúa á sömu hæð hússins.

Málsrök Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur: Af hálfu heilbrigðiseftirlitsins er þess krafist að kæru verði vísað frá úrskurðarnefndinni. Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála sé m.a. gerð krafa til þess að til grundvallar kæru liggi stjórnvaldsákvörðun stjórnvalds. Í máli þessu hafi ekki verið tekin stjórnvaldsákvörðun í samræmi við meginreglur stjórnsýsluréttar. Verði mál ekki kært fyrr en það hafi verið til lykta leitt með stjórnvaldsákvörðun, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Fram komi í bréfi Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur til kæranda, dags. 8. apríl 2014, að það muni að svo komnu máli ekki aðhafast frekar, nema nýjar upplýsingar berist embættinu. Með þessu orðalagi sé vísað til leiðbeininga í bréfi embættisins, dags. 14. febrúar s.á. Tekin hafi verið ákvörðun um meðferð máls, en slík ákvörðun bindi ekki enda á stjórnsýslumál. Á sama hátt hafi almennt verið litið svo á að ákveði stjórnvald að fresta máli, með þeim áskilnaði að taka það upp að nýju berist ný gögn, þá teljist það jafnframt ekki stjórnvaldsákvörðun.

Ekki hafi verð tekin ákvörðun um réttindi og skyldur kæranda, heldur sé beðið viðbragða kæranda á grundvelli þeirra leiðbeininga sem gefnar hafi verið um mælingu á hávaða. Slík mæling hafi ekki farið fram, þar sem kærandi hafi ekki veitt tækifæri til þess með upplýsingagjöf til embættisins, en fyrr verði ekki tekin ákvörðun um að ljúka málinu endanlega.  

Andmæli kæranda við málsrökum heilbrigðiseftirlitsins: Bent sé m.a. á að með bréfi kæranda til heilbrigðiseftirlitsins, dags. 3. mars 2014, hafi verið áréttað að bréf hans, dags. 28. desember 2013, bæri að skoða sem kæru. Sé ástandið í Hverafold 5 orðið óbærilegt og þörf sé skjótra viðbragða til að stöðva starfsemi tónlistarskólans. Hafi heilbrigðiseftirlitið tekið ákvörðun 8. apríl 2014 um aðgerðarleysi og sé það sú ákvörðun sem kærð sé. Um endanlega ákvörðun sé að ræða.

Athugasemdir eiganda eignarhluta tónlistarskólans: Vísað er til þess að við reglubundið eftirlit Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur hjá tónlistarskólanum 31. október 2013 hafi önnur og þriðja hæð hússins að Hverafold 5 verið skoðuð og eingöngu verið gerð athugasemd við ræstigeymslur. Hafi heilbrigðiseftirlitið þegar tekið til skoðunar kvartanir kæranda og komist að þeirri niðurstöðu að ekki verði aðhafst vegna starfsemi skólans á þriðju hæð, enda hafi tónlistarkennsla verið stunduð í þessum hluta hússins síðan árið 1994. Um þetta sé kæranda fullkunnugt um. Muni þriðja hæð hússins áfram þjóna sama tilgangi fyrir tónlistarskólann og hún hafi gert hingað til. Sala á fasteigninni til núverandi eiganda hennar hafi því augljóslega ekkert aukið ónæði í för með sér.

Vakin sé athygli á áliti kærunefndar húsamála í máli nr. 19/2012 en þar sé m.a. tekið fram að eigandi fyrirhugaðrar íbúðar, þ.e. kærandi í máli þessu, verði að sætta sig við þá atvinnustarfsemi sem fram fari í húsinu, enda geti tilkoma hennar ekki sett öðrum eigendum nýjar og þrengri skorður á nýtingu eignarhluta sinna. Með vísan til þessa sé ljóst að kærandi verði að sætta sig við þá atvinnustarfsemi sem fram fari og farið hafi fram liðna áratugi í húsinu. Haldi kærandi því nú fram að tónlistarskólinn, sem almennt sé einungis með starfsemi á daginn, og í mesta lagi fram yfir kvöldmat, samrýmist ekki sinni eigin breyttu notkun. Sé þessi málatilbúnaður fráleitur og beri að hafna honum.

Þá sé bent á álit kærunefndar húsamála í máli nr. 92/2013 en þar hafi verið hafnað kröfu kæranda í máli þessu um að gagnaðila [tónlistarskólanum] væri óheimilt að hagnýta eignarhluta sinn á þriðju hæð hússins sem tónlistarskóla og til útleigu salar til veisluhalda.
 
Niðurstaða: Tilefni kærumáls þessa er efni bréfs Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur, dags. 8. apríl 2014, vegna kvörtunar kæranda um ónæði sem stafaði af starfrækslu tónlistarskóla á þriðju hæð fjöleignarhússins að Hverafold 5 og kröfu hans um aðgerðir heilbrigðiseftirlitsins af því tilefni.

Svo sem rakið er í málavaxtalýsingu var í nefndu bréfi upplýst um viðbrögð heilbrigðiseftirlitsins í kjölfar kvartana kæranda og tekið fram að ekki væri tilefni til að meta truflun vegna umdeildrar starfsemi þar sem mæling á hljóðvist hefði ekki farið fram. Var þar og áréttað að leitað skyldi til eftirlitsins eða lögreglu þegar meint truflun væri til staðar svo unnt væri að staðreyna ónæði sem fylgja kynni umræddri starfsemi. Tilkynnti heilbrigðiseftirlitið í greindu bréfi að af framangreindum ástæðum yrði ekki aðhafst að svo komnu máli af þess hálfu vegna starfsemi tónlistarskóla í húsinu.

Til þess að ganga úr skugga um hvort hljóðvist sé innan þeirra marka sem eiga við um íbúðarhúsnæði þarf hljóðmæling að fara þar fram á þeim tíma sem starfsemi sú sem ætlað er að valdi hávaða fer fram. Eðli máls samkvæmt þarf framkvæmd slíkrar hljóðmælingar að vera í samráði við kæranda eða umráðamann húsnæðis. Þarf enda slík mæling eftir atvikum að fara fram innan íbúðar. Í ljósi þess bjuggu efnislegar ástæður að baki þeirri ákvörðun heilbrigðiseftirlitsins að afgreiða ekki erindi kæranda að svo stöddu. Ber orðalag bréfs heilbrigðiseftirlitsins til kæranda, dags. 8. apríl 2014, berlega með sér að ekki var um að ræða lyktir málsins.  

Að öllu framangreindu virtu felur hin kærða afgreiðsla heilbrigðiseftirlitsins ekki í sér lokaákvörðun máls en samkvæmt 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þarf svo að vera svo máli verði skotið til æðra stjórnvalds. Verður kærumáli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni.  

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

                                   ______________________________              _____________________________                                                       
Ómar Stefánsson                                                    Aðalheiður Jóhannsdóttir