Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

112/2016 Grettisgata

Árið 2017, fimmtudaginn 9. febrúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 112/2016, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 3. maí 2016 að samþykkja umsókn um leyfi fyrir áður gerðri framkvæmd, þ.e. að byggja ofan á og við og innrétta átta nýjar íbúðir í húsinu nr. 62 við Grettisgötu.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 19. ágúst 2016, sem barst nefndinni sama dag, kærir A, Grettisgötu 60, Reykjavík, þá afgreiðslu byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 3. maí 2016 að samþykkja umsókn um leyfi fyrir áður gerðum breytingum að Grettisgötu 62. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Jafnframt var gerð krafa um að framkvæmdir yrðu stöðvaðar til bráðabirgða meðan málið væri til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni, en ekki verður tekin afstaða til þeirrar kröfu kæranda þar sem framkvæmdum mun að mestu hafa verið lokið þegar kæra barst nefndinni. Verður málið nú tekið til efnislegrar afgreiðslu.

Gögn málsins bárust frá Reykjavíkurborg 30. ágúst 2016.

Málavextir: Hinn 28. janúar 2016 felldi úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 22. desember 2014 um að veita byggingarleyfi til að byggja ofan á og við og innrétta átta íbúðir í húsinu á lóð nr. 62 við Grettisgötu. Var niðurstaða nefndarinnar á því reist að ekki hefði verið aflað lögbundins álits Minjastofnunar Íslands við meðferð málsins. Einnig var tilgreint að ekki yrði af framlögðum byggingarnefndarteikningum annað ráðið en að dýpt svala í kverk hússins væri meiri en áskilið væri í deiliskipulagi fyrir umrætt svæði.

Kærandi, sem skotið hafði nefndri ákvörðun til nefndarinnar, hafði í kjölfar þessa samband við Reykjavíkurborg og óskaði þess að vera upplýstur um framhald málsins hjá sveitarfélaginu. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 22. mars 2016 var tekin fyrir umsókn um leyfi fyrir breytingum sem orðið hefðu á fyrrgreindu húsi á byggingartíma þess. Fylgdi erindinu umsögn Minjastofnunar Íslands, dags. 15. s.m. Þar kemur fram að óskað sé umsagnar stofnunarinnar vegna hækkunar hússins að Grettisgötu 62, sem þegar hafi verið framkvæmd. Fyrir breytingu hafi Grettisgata 62 verið tvílyft steinhús með lágreistu mænisþaki. Veitt hafi verið heimild í deiliskipulagi frá 2002 til að byggja við húsið að lóðamörkum Grettisgötu 60 innan byggingarreits og reisa eina hæð ofan á húsið. Gerð hafi verið breyting á nefndu deiliskipulagi árið 2014. Taldi Minjastofnun það óheppilegt að heimiluð hefði verið hækkun þakhæðar umfram það sem sýnt væri í deiliskipulaginu frá 2002. Reynt hefði verið að aðlaga útlit hins endurbyggða húss að ásýnd steinsteyptra borgarhúsa í Reykjavík frá fyrri hluta 20. aldar. Fylgdi stærð og skipan gluggaopa hefðinni en gluggagerðin væri framandi og ekki í samræmi við upphaflegan stíl hússins. Bæri húsið eftir stækkun svip hreinnar nýbyggingar og fátt í útliti þess benti til þess að um væri að ræða endurbyggt gamalt hús. Var afgreiðslu málsins frestað á fyrrgreindum fundi byggingarfulltrúa. Umsókn um leyfi fyrir áður gerðri framkvæmd, þ.e. að byggja ofan á og við og innrétta átta íbúðir í umræddu húsi, var síðan samþykkt á afgreiðslufundi hans 3. maí 2016.

Með tölvubréfi kæranda til umhverfis- og skipulagssviðs 13. júní 2016 var óskað upplýsinga um stöðu málsins. Í öðru tölvubréfi kæranda 16. s.m. var bent á að starfrækt væri gistiheimili í umræddu húsi og að starfseminni fylgdi verulegt ónæði. Í kjölfar þessa urðu nokkur bréfaskipti milli kæranda og sveitarfélagsins um málið allt fram til ágústmánaðar s.á.

Málsrök kæranda: Kærandi tekur fram að byggingarfulltrúi hafi á ný samþykkt öll leyfi þrátt fyrir að honum hafi borist nýjar upplýsingar um að í húsinu væri starfrækt gistiheimili án tilskilinna leyfa. Veruleg grenndaráhrif séu vegna starfseminnar, svo sem ónæði, aukin umferð og mengun. Meiri umgangur sé um undirgang, sem sé eina aðkoman að inngangi Grettisgötu 62. Hafi samþykktar breytingar á húsnæðinu og á þeirri starfsemi sem starfrækt sé þar ekki verið grenndarkynntar fyrir nágrönnum. Sé inngangur í húsið tilgreindur frá rangri götu.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Sveitarfélagið krefst þess að úrskurðarnefndin hafni kröfum kæranda í máli þessu. Áður samþykktar svalir séu innan uppgefins byggingareits fyrir svalir. Lengd þeirra sé reiknuð út frá húsdýpt beggja megin við kverkina, en um sé að ræða hornhús. Á grundvelli alls þessa hafi verið fallist á að fyrirliggjandi teikningar af Grettisgötu 62 væru í samræmi við gildandi deiliskipulag Njálsgötureits, staðgreinireit 1.190.1., með síðari breytingum. Hafi byggingarleyfi því verið samþykkt að nýju, enda hafi nú legið fyrir umsögn Minjastofnunar Íslands.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafa var tilkynnt um framkomna kæru. Hefur hann ekki látið málið til sín taka að öðru leyti en því að hann bendir á að vottorð um lokaúttekt hafi verið gefið út 20. september 2016.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti þeirrar ákvörðunar byggingarfulltrúans frá 3. maí 2016 að samþykkja að nýju byggingarleyfi fyrir breytingum á húsinu að Grettisgötu 62. Samkvæmt gögnum málsins var kærandi upplýstur um leyfið með tölvupósti byggingarfulltrúa 23. júní s.á. og var honum leiðbeint um kæruleið með tölvupósti fulltrúans 15. júlí s.á. Kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni 19. ágúst s.á. og var þá kærufrestur liðinn. Með hliðsjón af því skilyrði fyrir gildistöku fyrrnefndar samþykktar byggingarfulltrúa að eignaskiptayfirlýsingu fyrir húsið yrði þinglýst, og að svo var ekki gert fyrr en með áritun sýslumanns þar um 20. september 2016, verður að telja afsakanlegt að kæra hafi ekki borist fyrr, sbr. 1. tl. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Verður hún því tekin til efnisúrlausnar, en rétt er að taka fram að hið kærða leyfi heimilar hvorki rekstur gistiheimilis né breytta notkun húsnæðisins að öðru leyti og koma sjónarmið í kæru vegna þessa því ekki til frekari skoðunar.

Lóðin að Grettisgötu 62 er á svæði þar sem í gildi er deiliskipulag Njálsgötureits, staðgreinireitur, sem er 1.190.1. Umrætt skipulag öðlaðist gildi árið 2002 og gerði m.a. ráð fyrir auknu byggingarmagni á fyrrgreindri lóð. Hinn 12. nóvember 2014 tók gildi breyting á skilmálum nefnds skipulags, er fól í sér að lóðirnar Grettisgata 62 og Barónsstígur 20 yrðu sameinaðar og að á þeirri lóð yrði þriggja hæða hús ásamt þakhæð með kvistum. Að auki var heimilað að svalir á 2. og 3. hæð yrðu utan byggingarreits. Að öðru leyti skyldu ákvæði eldri skilmála gilda, en þar var kveðið á um að við Grettisgötu og Barónsstíg skyldu svalir snúa inn að reit. Skyldi dýpt svalanna leggjast við húsdýpt og mesta dýpt þeirra frá bakhlið húss vera 1,6 m. Líkt og fyrr greinir benti úrskurðarnefndin á í úrskurði sínum 28. janúar 2016 að svo virtist sem byggingarnefndarteikningar fyrir aðra og þriðju hæð hússins að Grettisgötu 62 væru ekki í samræmi við skilmála deiliskipulagsins að því er lyti að dýpt svala í kverk hússins. Af hálfu sveitarfélagsins er vísað til þess að nú liggi fyrir skýringarteikning hönnuðar hússins og sé lengd svalanna reiknuð út frá húsdýpt beggja vegna kverkarinnar, en um sé að ræða hornhús. Um er að ræða L-laga hús á horni Grettisgötu og Barónsstígs. Bakhliðar hússins, miðað við áðurnefndar götur, mynda kverk þar sem gert er ráð fyrir svölum. Vísa þær svalir inn að reit, svo sem áskilið er í skipulagsskilmálum. Verður með hliðsjón af aðstæðum og nefndum skipulagsskilmálum að fallast á að dýpt svalanna megi reikna frá bakhliðum hússins miðað við bæði Grettisgötu og Barónsstíg og að byggingarleyfið fyrir þeim sé þar með í samræmi við gildandi deiliskipulag.

Þá liggur fyrir að áður en hið umdeilda byggingarleyfi var samþykkt var leitað lögbundins álits Minjastofnunar Íslands skv. 30. gr. laga nr. 80/2012 um menningarminjar, sbr. og 4. mgr. 13. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010. Gerði stofnunin athugasemd við samþykktar breytingar vegna hæðar hússins og gluggagerðar. Með hliðsjón af því að hún lagði ekki til skilyrði um nefnda framkvæmd, sem tillit hefði þurft að taka til skv. 3. mgr. 30. gr. laga nr. 80/2012, verður þó ekki annað séð en að skilyrði framangreindra laga hafi verið uppfyllt við töku hinnar kærðu ákvörðunar.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður ekki séð að um neina þá form- eða efnisannmarka sé að ræða á hinni kærðu ákvörðun að valdið geti ógildingu hennar. Verður kröfu kæranda þar um því hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 3. maí 2016 um að samþykkja umsókn um leyfi fyrir áður gerðri framkvæmd, þ.e. að byggja ofan á og við og innrétta átta nýjar íbúðir í húsinu nr. 62 við Grettisgötu.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                  Þorsteinn Þorsteinsson