Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

12/2017 Reykjanesvitabraut

Árið 2017, miðvikudaginn 8. febrúar, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 12/2017, kæra á ákvörðun skipulagsfulltrúa Reykjanesbæjar um að veita framkvæmdaleyfi vegna fyrsta áfanga bílastæðis við Reykjanesvitabraut 1, Reykjanesbæ.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 25. janúar 2017, er barst nefndinni sama dag, kærir Vitavörðurinn ehf., eigandi Reykjanesvita-íbúðarhúss, Reykjanesi, þær ákvarðanir skipulagsfulltrúa Reykjanesbæjar frá 18. janúar 2017 að samþykkja veitingu framkvæmdaleyfis annars vegar og hins vegar að gefa það út vegna fyrsta áfanga bílastæðis við Reykjanesvitabraut 1 í Reykjanesbæ. Er þess krafist að ákvarðanirnar verði felldar úr gildi.

Þess er jafnframt krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar. Er því ekki tilefni til að taka afstöðu til stöðvunarkröfu kæranda.

Gögn málsins bárust frá Reykjanesbæ 7. febrúar 2017.

Málsatvik og rök: Auglýsing um gildistöku nýs deiliskipulags fyrir Reykjanesvita var birt í B-deild Stjórnartíðinda 26. maí 2016. Gerir deiliskipulagið ráð fyrir uppbyggingu ferðaþjónustu á svæðinu með það að markmiði að Reykjanesviti og nágrenni verði miðstöð ferðamannastaða á Reykjanesi. Hinn 18. janúar 2017 samþykkti skipulagsfulltrúi Reykjanesbæjar framkvæmdaleyfi fyrir gerð fyrsta áfanga bílastæðis á deiliskipulagssvæðinu og munu framkvæmdir hafa hafist samdægurs.

Kærandi bendir á að deiliskipulag það sem hið kærða framkvæmdaleyfi styðjist við hafi verið kært til úrskurðarnefndarinnar, en úrskurður hafi ekki verið uppkveðinn. Umrætt deiliskipulag fullnægi ekki lagakröfum að því er varði form og efni. Telji kærandi þá annmarka svo verulega að ógildingu valdi. Fallist úrskurðarnefndin á að rök standi til þess að ógilda deiliskipulagið leiði sú niðurstaða jafnframt til þess að síðari ákvarðanir, sem á því séu byggðar, séu jafnframt ógildar. Þá telji kærandi enga heimild til þess að gefa út framkvæmdaleyfi með áritun á umsókn um framkvæmdaleyfi. Ekki liggi fyrir að skriflegt leyfi hafi verið gefið út í samræmi við 11. gr. reglugerðar nr. 772/2012 um framkvæmdaleyfi.

Sveitarfélagið tekur fram að vegna formgalla við samþykkt og útgáfu framkvæmdaleyfis 18. janúar 2017 hafi það verið afturkallað skv. heimild í 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Áður en framkvæmdir hefjist að nýju beri að sækja aftur um framkvæmdaleyfi til bæjaryfirvalda. Þar sem kærandi eigi ekki lengur lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins vænti sveitarfélagið þess að málinu verði vísað frá úrskurðarnefndinni. Þess megi geta að ekkert hafi verið unnið á svæðinu síðustu tvær vikur.

Niðurstaða: Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á, nema í tilteknum undantekningartilvikum sem þar eru greind. Verður að skýra þetta ákvæði í samræmi við almennar reglur stjórnsýsluréttar um aðild að kærumálum þar sem áskilið er að kærandi eigi beina einstaklingsbundna hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kærð er.

Eins og að framan greinir þá hefur hin kærða ákvörðun verið afturkölluð og er því ljóst að hún hefur ekki lengur réttarverkan að lögum. Af þeim sökum hefur kærandi ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um gildi hennar og verður máli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni, sbr. áðurnefnda 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir