Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

25/2015 Rauðagerði

Árið 2017, fimmtudaginn 9. febrúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur

Fyrir var tekið mál nr. 25/2015, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 17. mars 2015 um að synja umsókn um samþykki reyndarteikningar fyrir fasteignina að Rauðagerði 39, Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 14. apríl 2015, er barst nefndinni 16. s.m., kærir Ú Rauðagerði 39, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 17. mars 2015 að synja umsókn um samþykki reyndarteikningar fyrir fasteignina að Rauðagerði 39. Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 27. maí 2015.

Málavextir: Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúans í Reykjavík 11. nóvember 2014 var tekin fyrir umsókn kæranda, dags. 30. október s.á., þar sem sótt var um leyfi fyrir áður gerðum breytingum á fasteigninni Rauðagerði 39, er vörðuðu sökkulrými og notkun þess. Var umsókninni synjað með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa, dags. 7. nóvember 2014. Í þeirri umsögn kom fram að fyrir svæðið giltu skilmálar fyrir byggð norðan Rauðagerðis frá 2. október 1979, þar sem fram komi að einbýlishús skuli vera einnar hæðar, en þó sé heimilt að hafa hluta húss á einni og hálfri hæð. Miða skuli við að hús verði ekki stærri en 700 m3.

Hinn 24. febrúar 2015 tók byggingarfulltrúi fyrir nýja umsókn kæranda, mótt. 16. s.m., um samþykki reyndarteikninga vegna nefndrar fasteignar og jafnframt var óskað eftir að fyrri afgreiðsla málsins frá 11. nóvember 2014 yrði endurupptekin. Var málinu vísað til umsagnar skipulagsfulltrúa, sem lagði til í umsögn sinni að erindinu yrði synjað með vísan í umsögn hans frá 7. nóvember 2014, þar sem erindið samræmdist ekki deiliskipulagi svæðisins frá 2. október 1979. Var kæranda tilkynnt um þær málalyktir með bréfi byggingarfulltrúa, dags. 18. mars 2015.

Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda er vísað til þess að húsið að Rauðagerði 39 sé tveggja hæða íbúðarhús, byggt á árunum 1982 og 1983, með tveimur íbúðum í eigu sömu aðila. Samþykktar teikningar liggi fyrir að íbúðunum og eignaskiptasamningur samþykktur af Reykjavíkurborg. Stærð hússins hafi ætíð verið rétt skráð í fasteignaskrá að undanskyldu óútgröfnu rými í kjallara sem notað sé sem vinnuherbergi. Auk þess séu á vesturhlið hússins tveir gluggar og ein flóttaleið sem ekki hafi verið færð inn á teikningar. Hafi verið farið fram á að teikningar yrðu leiðréttar að þessu leyti svo uppdrættir hússins væru réttir, en húsið falli að byggðamynstri og nýtingarhlutfalli lóða á svæðinu. Eðlilegt væri að borgaryfirvöld breyttu deiliskipulagi svæðisins til samræmis við fyrri breytingar sem samþykktar hafi verið.

Við meðferð málsins hafi verið farið gegn jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga, þar sem meiri nýting hafi verið heimiluð á svæðinu en kærandi fari fram á og jafnframt ekki gætt meðalhófs í samræmi við 12. gr. laganna, með því að látið sé undir höfuð leggjast að laga deiliskipulag svæðisins að fyrri samþykktum byggingaryfirvalda. Engin haldbær rök búi að baki hinni kærðu ákvörðun. Umrætt hús sé til staðar með tveimur íbúðum og stærð þess hafi ætíð verið réttilega skráð í fasteignaskrá. Þá sé bent á gr. 5.3.2.1. í skipulagsreglugerð þar sem fram sé tekið að ef fyrir liggi gild leyfi til framkvæmda innan svæðis þurfi að taka afstöðu til þeirra og fella inn í skipulagsskilmála, ef við eigi.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Borgaryfirvöld benda á að í gildi fyrir umrætt svæði sé deiliskipulag Rauðagerðis, sem samþykkt hafi verið 2. október 1979, og í greinargerð þess komi fram að um einbýlishúsahverfi sé að ræða. Nokkur húsanna megi vera á tveimur hæðum og miða skuli við að hús séu ekki stærri en 700 m3. Fram komi í vottorði Fasteignamats ríkisins, dags. 14. mars 1991, að fasteigninni Rauðagerði 39 hafi verið skipt upp í tvær einingar, annars vegar 87 m2 íbúð í kjallara og hins vegar 270,2 m2 íbúð á fyrstu hæð. Eignaskiptasamningur hafi síðan verið gerður 12. apríl s.á.

Samkvæmt skráningartöflu sé stærð Rauðagerðis 39 um 1.100 m3, sem sé umfram leyfilega stærð samkvæmt deiliskipulaginu. Þrátt fyrir að íbúðin á neðri hæð hússins hafi verið samþykkt í byggingarnefnd hinn 26. ágúst 1983 sé sú breyting ekki í samræmi við gildandi og bindandi skipulag og hafi því borið að hafna umsókn kæranda, en honum hafi verið bent á að unnt væri að leggja inn fyrirspurn til skipulagsfulltrúa um hvort heimilt yrði að breyta deiliskipulagi vegna lóðarinnar.

Eigendur fasteigna við Rauðagerði 29 og 47 hafi sótt um samþykki reyndarteikninga fyrir fjölgun íbúða hjá byggingarfulltrúa en verið synjað á sama grundvelli og í tilviki kæranda. Hafi jafnræðisregla stjórnsýslulaga því ekki verið brotin við afgreiðslu málsins. Tilvísun kæranda í gr. 5.3.2.1. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 eigi ekki við í máli þessu.

Niðurstaða: Deiliskipulag fyrir byggð norðan Rauðagerðis var samþykkt í borgarráði 2. október 1979. Borgarráð samþykkti breytingar á skilmálum skipulagsins 5. júní 1980, þar sem heimilað var að koma fyrir allt að 60 m2 aukaíbúð í húsunum á skipulagssvæðinu og stærð húss, að meðtöldum bílskúr, mætti vera allt að 900 m3. Auglýsing um gildistöku deiliskipulagsins var ekki birt í B-deild Stjórnartíðinda. Það fékk hins vegar gildi samkvæmt 11. tölulið ákvæðis til bráðabirgða í skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997, svo sem þeim var breytt með lögum nr. 117/1999. Upplýst hefur verið að skipulagið var afhent Skipulagsstofnun og skráð í upplýsingakerfi stofnunarinnar á árinu 2006 og telst það enn í gildi samkvæmt 5. tl. bráðabirgðaákvæðis skipulagslaga nr. 123/2010.

Fyrir liggur að byggingarnefnd Reykjavíkur samþykkti teikningu að íbúð á neðri hæð hússins að Rauðagerði 39 hinn 26. ágúst 1983 og í vottorði Fasteignamats ríkisins, dags. 14. mars 1991, kemur fram að fasteigninni hafi verið skipt upp í tvær einingar og var hvor íbúð virt til fasteignamats. Þar var íbúð á neðri hæð talin vera 87 m2 en íbúð á efri hæð 270,2 m2. Sama ár var gerður eignaskiptasamningur fyrir Rauðagerði 39 þar sem 178,6 m2 íbúð á efri hæð ásamt 91,6 m2 séreignarhluta á neðri hæð var talin vera 76% eignarhluti í húsi og lóð og 87 m2 íbúð á neðri hæð taldist vera 24% eignarhluti í húsi og lóð. Eignaskiptasamningurinn var staðfestur af embætti byggingarfulltrúans í Reykjavík 12. apríl 1991 og honum þinglýst 15. s.m. Samkvæmt fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands eru íbúðirnar taldar vera 265,6 m2 og 91,6 m2, eða samtals 357,2 m2 og 1.083 m3.

Í ljósi framangreinds fól umsókn kæranda um samþykki reyndarteikningar af umræddu húsi einungis í sér beiðni um samþykki fyrir skráningu „óútgrafins“ rýmis á neðri hæð sem nýtanlegs rýmis, auk tveggja glugga og flóttaleiðar á vesturhlið hússins. Eins og að framan er rakið er rúmmál hússins nú þegar hærra en heimilað er í gildandi deiliskipulagi svæðisins og var því ekki unnt að samþykkja stækkun nýtirýmis þess að óbreyttu deiliskipulagi, enda þarf byggingarleyfi að vera í samræmi við gildandi skipulag skv. 11. gr. og 1. tl. 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Í máli þessu er  deilt um synjun byggingarfulltrúa á umsókn um breytingu á byggingarleyfi og á því ekki við ákvæði gr. 5.3.2.1. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013, sem tekur til málsmeðferðar deiliskipulagstillögu.

Með vísan til þess sem að framan er rakið verður ekki fallist á kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 17. mars 2015 um að synja umsókn um samþykki reyndarteikningar fyrir fasteignina að Rauðagerði 39.

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                  Þorsteinn Þorsteinsson