Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

95 og 113/2017 Skotæfingasvæði Blönduósi

Með

Árið 2018, miðvikudaginn 28. nóvember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 95/2017, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Blönduósbæjar frá 11. apríl 2017 um að samþykkja nýtt deiliskipulag fyrir skotæfingasvæði við Blönduós. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 25. ágúst 2017, er barst nefndinni sama dag, kæra A og Blomstra ehf., eigendur jarðarinnar Hjaltabakka í Húnavatnshreppi, þá ákvörðun sveitarstjórnar Blönduósbæjar frá 11. apríl 2017 að samþykkja nýtt deiliskipulag fyrir skotæfingasvæði í landi Hjaltabakka í Húnavatnshreppi. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 5. október 2017, sem móttekið var sama dag, kæra sömu aðilar ákvörðun skipulagsfulltrúa Blönduósbæjar frá 26. september 2017 um veitingu framkvæmdaleyfis á grundvelli hins kærða deiliskipulags. Krefjast kærendur ógildingar leyfisins. Verður það kærumál, sem er nr. 113/2017, sameinað máli þessu þar sem hinar kærðu ákvarðanir eru samofnar og kærendur eru þeir sömu í báðum málunum.

Í greindum málum var jafnframt gerð krafa um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða, en þeim kröfum var hafnað með úrskurði uppkveðnum 12. október 2017.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Blönduósbæ 18. september og 10. október 2017.

Málavextir:
Með samningi milli þáverandi landeiganda Hjaltabakka og hreppsnefndar Blönduóshrepps, dags. 21. nóvember 1931, var samið um girðingar milli Hjaltabakka og Blönduóss. Kveður samningurinn á um skyldu Blönduóshrepps til að setja „fjárhelda girðingu úr girðingu þeirri sem nú er milli Hnjúka og Hjaltabakka 200 –tvöhundruð föðmum- frá vegahliði því sem verið hefir á gömlu girðingunni á melrana efst við Hjaltabakkahvamma og þaðan beina línu yfir móanna vestur í Draugagil. Þó verður ekki girt nú lengra en að Húnvetningabraut.“ Kemur fram í lið II í samningnum að spilda sú sem verði milli girðingarinnar og gildandi landamerkja fái Blönduóshreppur til ævarandi nota án sérstaks endurgjalds með tilteknum skilyrðum, sem m.a. lúta að því að Blönduóshreppur haldi girðingum við. Segir í lið VI að samningurinn gildi um óákveðinn tíma og sé því óuppsegjanlegur.

Á fundi skipulags-, umhverfis- og umferðarnefndar Blönduósbæjar 5. september 2016 var tekin fyrir tillaga að deiliskipulagi fyrir skotæfingasvæði á núverandi stað. Nefndin samþykkti að kynna deiliskipulagið á almennum fundi í samræmi við 4. mgr. 40. gr. skipulagslaga og að breyting á aðalskipulagi yrði kynnt á sama fundi. Nefndin tók málið fyrir á fundi 28. september 2016 að loknum kynningarfundi. Var deiliskipulagstillagan samþykkt og að fengnu samþykki sveitarstjórnar yrði málsmeðferð tillögunnar samkvæmt 41. gr. skipulagslaga. Skyldi tillagan auglýst samhliða breytingu á aðalskipulagi svæðisins, sem samþykkt var á sama fundi. Þá var á fundi nefndarinnar 8. febrúar 2017 lögð fram til kynningar auglýsing um tillögu að breytingu á deiliskipulagi. Deiliskipulagstillagan var auglýst frá 26. janúar til 9. mars 2017. Bárust athugasemdir vegna hennar með bréfi frá kærendum, dags. 8. mars s.á.

Að lokinni kynningu var skipulagstillagan tekin fyrir á fundi skipulags-, umhverfis- og umferðarnefndar 10. mars 2017 en afgreiðslu hennar þá frestað. Á fundi 5. apríl s.á. samþykkti nefndin deiliskipulagstillöguna og málsmeðferð samkvæmt 42. gr. skipulagslaga. Á fundinum var athugasemdum kærenda svarað með vísan í bókun við lið 8 í fundargerð fundarins. Með bréfi, dags. 19. maí 2017, staðfesti sveitarstjóri Húnavatnshrepps að Blönduósbær hefði skipulagsvald yfir umræddri landspildu úr landi Hjaltabakka, sem væri um 40 ha að stærð, þrátt fyrir að hún lægi innan sveitarfélagsmarka Húnavatnshrepps. Sveitarstjórn staðfesti fyrrgreinda afgreiðslu skipulags-, umhverfis- og umferðarnefndar á fundi sínum 11. apríl 2017 og tók deiliskipulagið gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 27. júlí 2017.

Skipulagsfulltrúi veitti síðan framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmdum á umræddu æfingasvæði á grundvelli hins samþykkta deiliskipulags 26. september 2017. Hófust framkvæmdir í samræmi leyfið í byrjun október s.á.

Málsrök kærenda:
Kærendur telja að sveitarstjórn Blönduósbæjar sé óheimilt samkvæmt skipulagslögum að samþykkja aðalskipulagsbreytingu og deiliskipulag fyrir svæði sem sé utan sveitarfélagsins og sé deiliskipulagið því í andstöðu við 7. tl. 2. gr. og 37. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Landspildan þar sem umrætt skotæfingasvæði sé innan marka Húnavatnshrepps og því hafi Blönduósbær ekki skipulagsvald á svæðinu. Landamerki Blönduósbæjar sem sýnd séu á bls. 4 í deiliskipulaginu séu ranglega tilgreind þar sem leiguland úr Hjaltabakkalandi skv. leigusamningi frá 1931 sé sýnt innan bæjarmarka Blönduósbæjar. Auglýsing um breytingu á Aðalskipulagi Blönduósbæjar 2010-2030 hafi því ekki lagastoð og sé markleysa.

Skotæfingasvæðið sé hluti af því landi sem þáverandi eigandi Hjaltabakka hafi leigt Blönduóshreppi með leigusamningi árið 1931. Leyfi lögreglustjóra fyrir skotsvæði verði aðeins veitt að undangengnu samþykki landeiganda, sbr. 2. tl. 16. gr. reglugerðar nr. 787/1998 um skotvopn og skotfæri o.fl. Kærendur, sem séu landeigendur að Hjaltabakka, hafi ekki veitt leyfi fyrir skotæfingavellinum og hafi sveitarstjórn verið kunnugt um þá afstöðu áður en hún samþykkti deiliskipulagið. Skipulagsstofnun hafi að sama skapi verið kunnugt um afstöðu landeigenda áður en hún staðfesti breytingu aðalskipulagsins. Því sé leyfi lögreglustjórans á Norðurlandi vestra, dags. 30. janúar 2017, ólögmætt, verði litið svo á að það taki til umrædds landsvæðis. Sú leyfisútgáfa hafi verið kærð til dómsmálaráðuneytisins.

Af öryggisástæðum sé óásættanlegt að skotsvæðið sé á opnu svæði nálægt byggð og nærri umferð, bæði gangandi og ríðandi fólks. Ásættanleg fjarlægð frá byggð sé almennt talin a.m.k. 2.000 m frá miðpunkti skotsvæðis, auk þess sem miðað sé við að ekki sé sjónlína frá skotsvæði til byggðar. Á uppdrætti í greinargerð og umhverfisskýrslu Landmótunar frá 20. janúar 2017 sjáist að 2.000 m fjarlægð frá miðpunkti skotsvæðisins nái nánast til ystu marka Blönduósbyggðar, norðan Blöndu. Í skýrslunni segi jafnframt að almennt megi gera ráð fyrir að hávaði vegna skotæfinga sé greinanlegur í 1-2 km radíus frá skotæfingasvæðum og megi skilgreina það sem áhrifasvæði skotæfingasvæðisins.

Frá skotsvæðinu stafi óásættanleg hávaðamengun, sem sé til þess fallin að trufla veiðimenn við Laxá á Ásum og í veiðihúsinu Ásgarði. Jafnframt geti hávaðinn fælt búfénað í landi Hjaltabakka, þar sem rekin sé umsvifamikil hrossarækt, en aðeins séu 100 m frá skotsvæðinu að girðingu í landi Hjaltabakka. Hávaði við ána og í veiðihúsinu séu langt yfir viðunandi mörkum. Fjarlægð svæðisins frá tíu af betri veiðistöðum árinnar sé 650-1.600 m og fjarlægðin frá veiðihúsinu um 1.100 m. Þá sé bein sjónlína að veiðihúsinu og að mörgum betri veiðistöðum árinnar. Ljóst sé að hávaði frá skotsvæðinu sé langt yfir viðmiðunarmörkum um hávaða samkvæmt reglugerð nr. 724/2008, sbr. töflu III, og samkvæmt nefndri greinargerð og umhverfisskýrslu, sbr. einnig bréf skipulagsfulltrúans á Blönduósi, dags. 27. apríl 2017.

Óásættanlegt og ólöglegt sé að heimila starfsemina m.t.t. fyrirliggjandi áætlana skotfélagsins um að hefja skotæfingar með rifflum sem hafi a.m.k. tveggja km drægni og þ.a.l. margfalt stærra hættusvæði og hávaðamengun en við æfingar með 250-300 m drægni, líkt og stundaðar hafi verið á svæðinu fram að þessu.

Málsrök Blönduósbæjar: Af hálfu sveitarfélagsins er því mótmælt að stjórnsýslumörk séu óljós, enda hafi sveitarfélögin komið sér saman um mörkin, sem endurspeglist t.d. í samþykktu aðalskipulagi 1993-2013 og 2010-2030 og svæðisskipulagi 2004-2016. Sveitarfélögum sé tryggður sjálfsákvörðunarréttur í stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, sbr. 78. gr., sbr. 1. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011. Þau hafi því fullt forræði á því að semja um stjórnsýslumörk sín á milli og það hafi þau gert í þessu tilviki, sbr. bréf sveitarstjóra Húnavatnshrepps, dags. 23. maí 2017. Engu máli skipti hvort umrædd landspilda teljist vera að hluta í Húnavatnshreppi eða ekki. Það sé ekki á færi úrskurðarnefndarinnar að hrófla við þessu samkomulagi sveitarfélaganna.

Blönduósbær hafi umrædda landspildu úr landi Hjaltabakka til ævarandi afnota samkvæmt samningi frá 21. maí 1931 um merkjagirðingu á milli Hjaltabakka og Blönduóss. Samningurinn sé óuppsegjanlegur og engar takmarkanir séu á notkunarheimild sveitarfélagsins. Blönduósbær hafi í 86 ár ráðstafað og skipulagt umrætt svæði án mótmæla frá eigendum Hjaltabakka. Skotsvæðið hafi verið staðsett á umræddri landspildu í 30 ár án athugasemda eigenda Hjaltabakka eða annarra. Skotfélaginu hafi ekki borist athugasemdir vegna starfsemi sinnar, hvorki af hálfu kærenda né Húnavatnshrepps, í þann tíma sem skotfélagið hafi haft landið til afnota.

Varðandi hávaðamengun sé vísað til svara skipulagsfulltrúa Blönduósbæjar og þeirra upplýsinga sem fram komi í aðal- og deiliskipulagi. Veiðihús Laxár á Ásum hafi verið byggt árið 2012 og nú standi yfir framkvæmdir við stækkun þess.

Meginmarkmiðið með breytingu á aðalskipulagi og gerð deiliskipulags fyrir umrætt svæði hafi verið að bæta öryggi við skotæfingar, auka gildi svæðisins til skotæfinga og tryggja að þær fari fram á öruggu svæði. Reynt hafi verið að vanda til skipulagsferlisins og tekið hafi verið tillit til þeirra umsagna sem borist hefðu, eins og kostur hafi verið, t.d. með því að takmarka opnunartíma skotsvæðisins, gera kröfu um að veifur/ljósmerki gefi til kynna að skotæfingar standi yfir, auk þess að gera ríkar kröfur til hljóðmana við riffilbraut. Með breytingu á reglugerð um skotvopn, skotfæri o.fl. hafi verið veitt heimild fyrir notkun á hljóðdeyfum fyrir stóra riffla. Því muni framvegis flestir notendur stórra riffla notast við hljóðdeyfi og ætla megi, eftir gildistöku breytingarinnar á reglugerðinni, að það heyri til undantekninga að skotið verði úr stórum riffli í framtíðinni án hljóðdeyfis.

Úrskurðarnefndin sé ekki bær til þess að endurskoða leyfi lögreglustjórans á Norðurlandi vestra. Umrætt skotsvæði teljist uppfylla skilyrði IV. kafla reglugerðar um skotvopn, skotfæri o.fl. nr. 787/1998, sbr. 24. gr. vopnalaga nr. 16/1998, líkt og fram komi í framangreindu leyfisbréfi, en mál vegna þeirrar leyfisveitingar sé nú rekið fyrir héraðsdómi.

Kröfur kærenda vegna veitts framkvæmdaleyfis séu óljósar og án nokkurs lagalegs rökstuðnings.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi bendir á að það sem fram komi í kæru varðandi skotæfingar, hávaða og hættumat sé úr lausu lofti gripið. Fullyrðingar séu ekki studdar neinum gögnum heldur byggðar á huglægu mati kærenda. Starfsemi leyfishafa hafi verið á umræddu svæði án athugasemda frá árinu 1989. Aðspurður hafi annar kærenda sagt óþarft að framkvæma hljóðmælingu, hans huglæga mat væri nægjanlegt.

Hvorki liggi fyrir umboð né athugasemdir frá Veiðifélagi Laxár á Ásum, sem annist rekstur veiðihússins Ásgarðs. Því sé óskiljanlegt hvaða lögvörðu hagsmuni kærendur telji sig hafa. Fulltrúar leyfishafa hafi rætt við stangveiðimenn og það sé einróma álit þeirra að engin truflun sé frá skotsvæðinu og að afar sjaldan greinist frá því hávaði. Fjarlægð milli skotsvæðis og veiðihúss sé 1.200 m í beinni loftlínu, en ekki 1.100 m. Engin búseta sé á Hjaltabakka en þó nokkuð sé þar af hrossum. Þau séu hins vegar öll innan girðingar norðan við þjóðveg 1, en skotsvæði leyfishafa sé sunnan við sama veg. Fjarlægð þar á milli sé um 1.600 m í beinni loftlínu. Leyfishafi hafi látið framkvæma hljóðmælingar og fylgi niðurstöður hennar gögnum málsins. Við skoðun niðurstaða hennar megi ljóst vera að fullyrðingar kærenda séu úr lausu lofti gripnar.

Fullyrðingar um að 2.000 m séu ásættanleg fjarlægð skotsvæðis frá byggð séu rangar. Skotæfingasvæðið á Akureyri sé t.d. rétt ofan við bæinn, um 400 m frá Hlíðarfjallsvegi. Skotstefna skotæfingsvæðisins á Reykjaströnd sé í beinni línu að Sauðárkróksbæ. Pistill formanns þess skotfélags fylgi greinargerð en þar sé fjallað um áhrif skotæfinga á dýralíf, en á skotsvæði leyfishafa sé einnig fjölskrúðugt fuglalíf. Eðlilega sé hættusvæði riffla stærra en hættusvæði haglabyssa. Riffilbrautin verði niðurgrafin og manir allt í kring, þannig að ekki verði hægt að skjóta upp úr henni. Hætta fyrir utanaðkomandi sé því engin.

Gera megi ráð fyrir að um 80% skotæfinga verð með cal. 22LR rifflum en hávaði úr slíkum rifflum sé hverfandi og margfalt minni en úr haglabyssum. Nú sé búið að leyfa hljóðdeyfa á stærri riffla og langflestir iðkendur komnir með hljóðdeyfa á sín vopn.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti ákvarðana sveitarstjórnar Blönduósbæjar, annars vegar frá 11. apríl 2017 um að samþykkja nýtt deiliskipulag fyrir skotæfingasvæði við Blönduós, og hins vegar ákvörðun skipulagsfulltrúa frá 26. september s.á. um að veita leyfi til framkvæmda á grundvelli hins kærða deiliskipulags.

Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er vald til að skipuleggja land innan marka sveitarfélags í höndum sveitarstjórnar, sem annast og ber ábyrgð á gerð aðal- og deiliskipulags í sínu umdæmi, sbr. 29. og 38. gr. laganna. Í aðalskipulagi er sett fram stefna sveitarstjórnar um þróun sveitarfélagsins, m.a. varðandi landnotkun, sbr. 1. mgr. 28. gr. nefndra laga, og sætir ákvörðun um aðalskipulag ekki kæru til úrskurðarnefndarinnar, sbr. 52. gr. skipulagslaga. Þarf deiliskipulag að rúmast innan heimilda aðalskipulags, sbr. 7. mgr. 12. gr. laganna.

Óumdeilt er að landspilda sú í landi Hjaltabakka þar sem umrætt skotæfingasvæði liggur er innan marka Húnavatnshrepps. Verður ekki framhjá því litið að hvorki Skipulagsstofnun né umhverfis- og auðlindaráðherra hafa gert athugasemd við að Blönduósbær skipulegði umrædda landspildu í aðalskipulagi, en auk þess hefur skipulagið verið staðfest af ráðherranum sem fer með æðsta vald málaflokksins á stjórnsýslustigi. Í málinu liggur og fyrir bréf sveitarstjóra Húnavatnshrepps, dags. 19. maí 2017, þar sem hann staðfestir að Blönduósbær hafi skipulagsvald yfir umræddri landspildu, þótt hún liggi innan sveitarfélagsmarka Húnavatnshrepps. Er framangreint í samræmi við ákvæði samnings frá 21. nóvember 1931, þar sem Blönduóshreppur fær spilduna til ævarandi nota. Verður því lagt til grundvallar að Blönduósbær fari með skipulagsvald á umræddu svæði.

Í gildi er Aðalskipulag Blönduósbæjar 2010-2030, en breyting var gerð á því sem tók gildi með birtingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 24. júlí 2017. Í breytingunni fólst m.a. að skilgreint var nýtt svæði, O11 – Skotæfingasvæði. Um svæðið segir að innan þess verði, auk núverandi „skeetvallar“, „tappbraut“, bogfimibraut og riffilbraut með áherslu á að bæta öryggi og auka gildi svæðisins til skotæfinga. Samtals sé svæðið 15,2 ha að stærð. Í 2. kafla hins kærða deiliskipulags kemur m.a. fram að tilgangur skipulagsins sé að bæta aðstöðu á umræddu skotæfingasvæði til að mæta kröfu Umhverfisstofnunar um kennslu í notkun stærri riffla. Öryggisreglur sem gildi á skotvöllum aðildarfélaga Skotfélags Íslands séu að mestu sniðnar eftir keppnis- og tæknireglum Alþjóðaskotsambandsins (UIT). Fram kemur í kafla 4.2. að riffilbraut verði grafin niður um 2-2,5 m og uppgröftur nýttur í manir beggja vegna brautarinnar og við austurenda hennar. Heildardýpt brautarinnar verði því um 3-3,5 m en um 5 m við enda hennar til að draga úr því hljóði sem berist frá henni. Er landnotkun samkvæmt hinu kærða deiliskipulagi því í samræmi við landnotkun svæðisins samkvæmt gildandi aðalskipulagi.

Deiliskipulag var kynnt með almennri auglýsingu í samræmi við 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga. Var skipulagið afgreitt í skipulagsnefnd að kynningu lokinni og staðfest af sveitarstjórn lögum samkvæmt. Það tók gildi með birtingu auglýsingar þar um í B-deild Stjórnartíðinda 27. júlí 2017, að lokinni lögboðinni yfirferð Skipulagsstofnunar. Var því farið að lögum við málsmeðferð hinnar kærðu skipulagsákvörðunar.

Samkvæmt framangreindu liggja ekki fyrir annmarkar á efni eða málsmeðferð hins kærða deiliskipulags sem raskað geta gildi þess og verður kröfu kærenda þar um því hafnað.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. skipulagslaga skal afla framkvæmdaleyfis vegna framkvæmda sem áhrif hafa á umhverfið og breyta ásýnd þess, svo sem breytingar lands með jarðvegi eða efnistöku, og annarra framkvæmda sem falla undir lög um mat á umhverfisáhrifum. Í 4. mgr. ákvæðisins segir að sveitarstjórn skuli við útgáfu framkvæmdaleyfis fjalla um og taka afstöðu til þess hvort framkvæmd sé í samræmi við skipulagsáætlanir.

Í útgefnu framkvæmdaleyfi er tekið fram að framkvæmdin sé í samræmi við gildandi aðalskipulag Blönduósbæjar og að það sé gefið út í samræmi við 13.-16. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, reglugerð nr. 772/2012 um framkvæmdaleyfi og ákvæði laga nr. 60/2013 um náttúruvernd. Liggur og fyrir deiliskipulag vegna umrædds svæðis þar sem fjallað er um fyrirhugaðar framkvæmdir.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. skipulagslaga veitir sveitarstjórn framkvæmdaleyfi og í 4. mgr. ákvæðisins er tekið fram að sveitarstjórn skuli við útgáfu framkvæmdaleyfis fjalla um og taka afstöðu til þess hvort framkvæmd sé í samræmi við skipulagsáætlanir Þá skal sveitarstjórn leita álits Skipulagsstofnunar um hvort framkvæmd sé matsskyld eða ekki samkvæmt lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum, sbr. 14. gr. laganna.

Greint leyfi var gefið út af skipulagsfulltrúa, en ekki liggur fyrir að honum hafi verið veitt heimild til að samþykkja útgáfu slíks leyfis, sbr. 6. gr. og 1. tl. 1. mgr. 15. skipulagslaga, en samkvæmt 3. gr. reglugerðar nr. 772/2012 um framkvæmdaleyfi gefur skipulagsfulltrúi út framkvæmdaleyfi að fengnu samþykki sveitarstjórnar nema að á annan veg sé mælt í samþykktum sveitarfélagsins.

Ekki liggur fyrir að sveitarstjórn hafi fjallað um og tekið afstöðu til útgáfu framkvæmdaleyfisins eða leitað álits Skipulagsstofnunar um það hvort framkvæmdin væri matsskyld eða ekki samkvæmt lögum nr. 106/2000 áður en leyfið var gefið út. Verða þessir annmarkar á málsmeðferð taldir svo verulegir að varði ógildingu hins kærða framkvæmdaleyfis.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um að fella úr gildi ákvörðun sveitarstjórnar Blönduósbæjar frá 11. apríl 2017 um að samþykkja nýtt deiliskipulag fyrir skotæfingasvæði við Blönduós.

Felld er úr gildi ákvörðun skipulagsfulltrúa Blönduósbæjar frá 26. september 2017 um að gefa út framkvæmdaleyfi vegna framkvæmda við skotæfingasvæði í landi Hjaltabakka í Húnavatnshreppi.

150/2017 Elliðabraut og Norðlingaholt

Með

Árið 2018, fimmtudaginn 22. nóvember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 150/2017, kæra á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 21. desember 2017 um breytingu á deiliskipulagi Norðlingaholts vegna lóða nr. 4-6, 8-10 og 12 við Elliðabraut.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags 22. desember 2017, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi, Bjallavaði 7, Reykjavík, þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 21. desember 2017 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Norðlingaholts, sem felur í sér að landnotkun lóðanna Elliðabrautar 4-6, 8-10 og 12 verði breytt úr atvinnuhúsnæði í íbúðarhúsnæði. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 12. febrúar 2018.

Málatvik og rök: Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 5. júlí 2017 var tekin fyrir tillaga um breytingu á deiliskipulagi Norðlingaholts vegna lóða nr. 4-6, 8-10 og 12 við Elliðabraut. Breytingin fól í sér að í stað þess að gera ráð fyrir atvinnuhúsnæði á lóðunum yrði gert ráð fyrir 1 – 4 hæða íbúðarhúsnæði. Tekið var fram að byggingarmagn mannvirkjanna yrði óbreytt. Að lokinni kynningu breytingarinnar, þar sem kærandi kom að athugasemdum, og frekari meðferð málsins samþykkti borgarráð deiliskipulagsbreytinguna 21. desember 2017. Tók hún gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðina 12. janúar 2018.

Kærandi bendir á að með breytingu landnotkunar úr léttum iðnaði í íbúðarbyggð muni bílaumferð stóraukast á álagstímum, en á stofnæðum í kringum Norðlingaholt séu nú þegar langar raðir bíla á þeim tíma. Engar hugmyndir séu uppi um bættar samgöngur til að mæta þessari fjölgun, sem verði á bilinu 250-550 bílar. Þá sé Norðlingaskóli nú þegar komin í aukahúsnæði vegna fjölda nemenda og óljóst hvernig leysa eigi húsnæðismál hans þegar nemendafjöldinn muni aukast enn frekar vegna umræddrar íbúðarbyggðar. Loks séu fyrirhugaðar byggingar einni hæð hærri en fyrra deiliskipulag hafi gert ráð fyrir, auk þess sem byggingarmagn sé stóraukið. Slíkt muni hafa áhrif á ásýnd hverfisins, rýra útsýni og auka skuggamyndun.

Af hálfu Reykjavíkurborgar er bent á að í umsögn umhverfis- og skipulagssviðs vegna athugasemda við tillögu aðalskipulagsbreytingar Norðlingaholts, sem vörðuðu Elliðabraut 4-13, hafi m.a. komið fram að núverandi gatnakerfi ætti að ráða við þá auknu umferð á álagstímum sem breytingin myndi hafa í för með sér þó svo að biðtími gæti aukist, en ástæða væri til að fylgjast með þróun umferðar á svæðinu. Þá mætti ætla, í ljósi reynslunnar um þróun nemendafjölda í öðrum skólahverfum, að fjölgun íbúða gæti styrkt skólahverfið til lengri tíma og fjölgun íbúa gæti styrkt rekstrargrundvöll verslunar og þjónustu í hverfinu. Byggingarreitur Elliðabrautar 4-6 verði svipaður að gerð samkvæmt fyrra deiliskipulagi fyrir utan það að vera breiðari til að ná birtu inn í inngarða. Ekki sé um að ræða aukningu á heimiluðu byggingarmagni á lóðunum.

Niðurstaða: Um kæruaðild í þeim málum sem undir úrskurðarnefndina heyra er fjallað í 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Þar er kveðið á um að þeir einir geti kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eigi lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á nema í tilteknum undantekningartilvikum sem þar eru greind. Í samræmi við aðildarhugtak stjórnsýsluréttarins hefur þetta skilyrði verið túlkað svo að þeir einir teljist eiga lögðvarða hagsmuni sem eiga beinna einstaklegra hagsmuna að gæta tengda þeirri ákvörðun sem kæra á og að þeir hagsmunir séu verulegir.

Kæran byggir á sambærilegum athugasemdum og kærandi kom á framfæri við borgaryfirvöld á athugasemdartíma tillögunnar. Hann byggir málatilbúnað sinn fyrst og fremst á því að með deiliskipulagsbreytingunni muni byggingarmagn verða aukið og húsin sem um ræðir hækkuð um eina hæð, sem hafi m.a. áhrif á útsýni og skuggamyndun. Að auki muni umferð aukast og nemendum fjölga við grunnskólann.

Kærandi er búsettur á deiliskipulagssvæðinu. Við mat á því hvort hann eigi lögvarinna hagsmuna að gæta af hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu verður að líta til þess að hús hans er staðsett í um 450-500 m fjarlægð frá þeim stað sem fyrirhugað er að umrædd hús við Elliðabraut muni rísa og þar á milli standa önnur hús. Í ljósi þessa og staðhátta að öðru leyti verður ekki séð að breyting sú sem hér um ræðir muni í neinu hafa áhrif á grenndarhagsmuni kæranda. Þá verður að telja að málsrök kæranda sem varða aukningu umferðar og fjölgun nemenda í skólanum lúti fyrst og fremst að gæslu almannahagsmuna en ekki persónulegra hagsmuna hans umfram aðra íbúa hverfisins. Á það skal bent að þótt kærandi hafi átt rétt á að koma að athugasemdum við málsmeðferð vegna tillögu að breyttu deiliskipulagi skv. skipulagslagslögum nr. 123/2010 veitir það honum ekki sjálfstæðan rétt til kæruaðildar fyrir úrskurðarnefndinni.

Með hliðsjón af því sem að framan er rakið telst kærandi ekki eiga kæruaðild vegna ágreinings um lögmæti hinnar umdeildu deiliskipulagsbreytingar. Verður máli þessu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni í samræmi við 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

124/2018 Laugavegur

Með

Árið 2018, fimmtudaginn 22. nóvember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 124/2018, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 20. febrúar 2018 um að samþykkja veitingu byggingarleyfis fyrir breytingum á húsinu nr. 130 við Laugaveg í Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags 8. október 2018, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur, Laugavegi 128, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 20. febrúar 2018 að samþykkja byggingaráform til breytingar á húsinu nr. 130 við Laugaveg. Er þess krafist að framangreind ákvörðun verði felld úr gildi og að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Verður málið nú tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til framkominnar stöðvunarkröfu kærenda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 18. október 2018.

Málavextir: Fyrir lóðina Laugaveg 130 er í gildi deiliskipulag sem tekur til staðgreinireita 1.241.0 og 1.241.1, svonefndra Hampiðjureita. Nefnt deiliskipulag var samþykkt í borgarráði Reykjavíkur 20. júlí 2006 og tók gildi 8. ágúst s.á. Í almennum skilmálum deiliskipulagsins kemur m.a. fram að með því sé veitt heimild fyrir minni háttar breytingum á húsum á reitnum, s.s. gerð skyggnis, svala, lítilla kvista og lagfæringa án deiliskipulagsbreytingar, að undangengnu samþykki byggingarfulltrúa. Í sérskilmálum fyrir lóðina nr. 130 við Laugaveg kemur fram að heimilt sé að hækka húsið um eina hæð og reisa út útbyggingu til suðurs.

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúans í Reykjavík 20. febrúar 2018 var samþykkt umsókn eiganda Laugavegs 130 um að rífa núverandi ris hússins og þak, hækka húsið um eina hæð, byggja viðbyggingu úr steinsteypu og gleri á fyrstu hæð og gera svalir á þriðju hæð og í risi. Erindið hafði áður verið samþykkt 3. apríl 2007 og 15. júlí 2008. Var afgreiðsla byggingarfulltrúa staðfest á fundi borgarráðs 1. mars 2018 og var byggingarleyfi fyrir framkvæmdunum gefið út 24. ágúst s.á. Samkvæmt aðaluppdráttum leyfisins var gert ráð fyrir 26,5 m2 svölum á þaki viðbyggingarinnar.

Málsrök kærenda:
Kærendur telja að svalir sem fyrirhugaðar séu á þaki viðbyggingar fyrstu hæðar stangist á við aðalskipulag. Þáverandi nágranni hafi samþykkt byggingu viðbyggingar við húsið fyrir u.þ.b. 10 árum, sem heimiluð hafi verið í deiliskipulagi reitsins, og geri kærendur ekki athugasemdir varðandi hana. Hins vegar hafi þá ekki verið gert ráð fyrir svölum á þaki viðbyggingarinnar, líkt og nú. Svölunum hafi verið bætt inn í teikningarnar árið 2018 án nokkurs samráðs við nágranna.

Í Aðalskipulagi Reykjavíkurborgar 2010-2030 á bls. 204 komi eftirfarandi fram varðandi svæðið: „Meðfram aðalgötum er heimil fjölbreyttari landnotkun, þó grunnskilgreining lóða við götuna sé íbúðarsvæði. Hér er einkum um að ræða starfsemi sem fellur undir flokkana verslun og þjónusta (VÞ, að skemmtistöðum undanskyldum) og samfélagsþjónustu (S). Verslun og þjónusta á jarðhæðum getur verið heimil, svo og mögulega veitingastaðir í flokki I og II og gististaðir í flokki II-III. Opnunartími allra veitingastaða skal takmarkast við kl. 23. Breytt notkun í þessa veru í fjöleignarhúsi er háð samþykki meðeigenda, sbr. ákvæði laga um fjöleignarhús. Rýmri heimildir um landnotkun gilda eingöngu um hús sem standa við viðkomandi aðalgötu og ná einkum til jarðhæða þegar um verslun, þjónustu, og veitingastaði er að ræða. Ef þörf krefur eru sett nánari ákvæði um landnotkunarheimildir við aðalgötur í hverfis- og eða deiliskipulagi.“ Kærandi bendir á að samkvæmt því sem komi fram í aðalskipulagi sé gert ráð fyrir að rýmri heimildir um landnotkun nái einkum til jarðhæða. Umræddar svalir séu hins vegar á annarri hæð og samræmist því ekki aðalskipulagi borgarinnar. Skilja verði það sem fram komi í aðalskipulagi á þann hátt að veitingastaðurinn ætti ekki að geta fengið leyfi fyrir aukinni starfsemi á annarri hæð án sérstakrar samþykktar, að undangenginni úttekt á grenndaráhrifum. Slík samþykkt liggi hins vegar ekki fyrir og sérstök úttekt hafi ekki farið fram.

Ætla megi að ekki hafi verið talin ástæða til að grenndarkynna tilkomu svalanna þar sem litið hafi verið svo á að þær féllu undir minni háttar breytingar sem gera mætti án deiliskipulags-breytingar. Nefndar svalir geti hins vegar ekki fallið undir þessa heimild þar sem þær séu óvenju stórar og því ekki hægt að líta á þær sem minni háttar breytingu á húsinu.

Með tilkomu svalanna yrði einkalíf kærenda gert að engu og ekki væri hægt að lifa eðlilegu fjölskyldulífi. Gestum veitingarstaðarins yrði gert kleift að horfa inn um stofugluggann hjá kærendum úr u.þ.b. tveggja metra fjarlægð og ætla megi að gestunum myndi fylgja hávaði, einkum í ljósi þess að veitingastaðurinn sé með vínveitingaleyfi og heimild til að hafa opið til kl. 23:00 á hverju kvöldi. Þá megi búast við að truflandi og heilsuspillandi reykingarlykt myndi berast inn í vistarverur kærenda, kysu þeir að hafa opinn glugga. Þetta myndi hafa í för með sér að erfitt yrði að selja íbúðina og að verðgildi hennar myndi hrapa.

Kærendur taki fram að í samskiptum þeirra við Reykjavíkurborg sé ekki að sjá skýra afstöðu borgarinnar til svalanna og telji kærendur það renna stoðum undir þá afstöðu þeirra að ekki hafi verið rétt að málum staðið. Í einu svari frá byggingarfulltrúa hafi komi fram að eiganda veitingastaðarins væri með öllu óheimilt að hleypa gestum út á svalirnar þar sem ekki hafi verið sótt um útiveitingaleyfi. Hins vegar sé á það bent að málið snúist ekki um það hvort borðhald verði á þaksvölunum heldur leggist kærendur gegn því að stöðugur straumur veitingarhúsagesta eigi að geta verið á svölunum og valdið þeim truflunum sem áður hafi verið raktar. Ef borgin hafi í hyggju að banna umgang á þaksvölunum sé óútskýrt hvers vegna veitt hafi verið leyfi fyrir þeim. Þá yrðu leyfðar þaksvalir tveimur metrum frá stofuglugga kærenda, sem hefðu ekkert jákvætt gildi fyrir veitingastaðinn sem þær tilheyrðu. Svalirnar myndu hins vegar hafa neikvæð áhrif gagnvart kærendum þar sem þær myndu rýra verðgildi fasteignar þeirra.

Kærendur hafi tekið fram í bréfi til leyfishafa að þeir hefðu vitað af heimild fyrir umræddri viðbyggingu þegar þeir keyptu íbúð sína en verið ókunnugt um að svalir yrðu á þaki hennar. Leyfishafi hafi lofað kærendum munnlega að hafa ekki útisvæði á þaki viðbyggingarinnar, en það kalli á breytingar á teikningum sem ekki hafi verið gerðar.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu Reykjavíkurborgar er tekið fram að umræddar framkvæmdir séu í samræmi við gildandi deiliskipulag reita 1.241.0 og 1.241.1, sem samþykkt hafi verið í borgarráði 20. júlí 2006. Í sérskilmálum skipulagsins komi fram að heimilt sé að hækka húsið Laugaveg 130 um eina hæð og gera útbyggingu til suðurs. Þá sé samkvæmt almennum skilmálum deiliskipulagsins heimilaðar minni háttar breytingar á húsum á reitnum, m.a. gerð svala, án þess að framkvæma þurfi deiliskipulagsbreytingu.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi vísar til þess að þær framkvæmdir og tilheyrandi breytingar sem hið kærða byggingarleyfi heimili hafi verið samþykktar fyrir áratug í deiliskipulagi, löngu áður en kærendur keyptu þá fasteign sem veiti þeim aðild að máli þessu. Kærufrestur vegna þess deiliskipulags, sem sé frá árinu 2007, sé löngu liðinn.

Hið útgefna byggingarleyfi sé í samræmi við gildandi lög og reglur og jafnframt aðal- og deiliskipulag svæðisins. Þegar hið kærða byggingarleyfi hafi verið gefið út 24. ágúst 2018 hafi sú breyting verið gerð frá upphaflega samþykktri breytingu frá 2007 að heimilað hafi verið að setja handrið og dyr út á þak viðbyggingarinnar að Laugavegi 130. Ástæðan fyrir því hafi verið sú að hægt yrði að nýta svalirnar sem flóttaleið fyrir efri hæð veitingastaðarins sem þar sé til húsa. Hönnuði byggingarinnar hafi hvorki þótt forsvaranlegt að fólk þyrfti að klöngrast út um glugga veitingahússins ef koma þyrfti til rýmingar, sbr. gr. 9.5.3 í byggingarreglugerð, né að ekki væru viðunandi fallvarnir til staðar. Því hafi dyr verið settar út á svalirnar og hannað handrið utan um þakflöt viðbyggingarinnar. Samkvæmt aðalskipulagi svæðisins sé heimilt að veita leyfi fyrir slíkum svölum án sérstakrar breytingar á deiliskipulagi. Hins vegar þurfi sérstakt leyfi til að heimilt verði að nýta svalirnar undir starfsemi veitingastaðarins, en engin áform séu af hálfu rekstraraðila til slíks. Áður hafi verið sótt um slíkt leyfi en því verið hafnað.

Niðurstaða: Samkvæmt byggingarreglugerð nr. 112/2012 er gerð krafa um að við hönnun mannvirkja skuli ávallt gert ráð fyrir því að eldur geti komið upp. Með því á að tryggja að viðstaddir geti yfirgefið mannvirkið í eldsvoða eða bjargast eftir öðrum leiðum. Í gr. 9.5.2. í reglugerðinni kemur fram að frá hverju rými byggingar þar sem gera megi ráð fyrir að fólk dveljist eða sé statt skuli vera fullnægjandi flóttaleiðir úr eldsvoða. Eiga flóttaleiðirnar að vera þannig skipulagðar og frágengnar að allir geti bjargast út af eigin rammleik eða fyrir tilstilli annarra á tilgreindum flóttatíma, brjótist eldur út eða annað hættuástand skapast, sbr. gr. 9.5.1. Flóttaleiðirnar skulu vera einfaldar, auðrataðar og greiðfærar svo að fólk verði ekki innlyksa í skotum og endum ganga, sbr. gr. 9.5.2.

Í bókun byggingarfulltrúa um samþykki byggingaráforma vegna Laugavegar 130 frá 20. febrúar 2018 kemur fram að veitt sé leyfi til að rífa núverandi ris og þak, hækka húsið um eina hæð, byggja viðbyggingu úr steinsteypu og gleri á fyrstu hæð og gera svalir á þriðju hæð og á ris hússins. Byggingarleyfi sem gefið var út hinn 24. ágúst s.á. í skjóli þeirrar ákvörðunar hefur og að geyma sömu byggingarlýsingu. Þá kemur fram á teikningu samþykkts aðaluppdráttar að gert sé ráð fyrir svaladyrum á annarri hæð sem liggja muni út á svæði sem skráð er sem svalir á þaki viðbyggingar fyrstu hæðar. Loks kemur fram í byggingarlýsingu aðaluppdráttar, í kaflanum notkun og gerð byggingar, að gert sé ráð fyrir hellulögðum þaksvölum á annarri hæð, en í þeim kafla sem fjallar um eldvarnir segir hins vegar að flóttaleið sé á annarri hæð út á steinsteypt þak og að á þriðju hæð og risi séu steyptar svalir. Vegna framangreinds ósamræmis verður ekki með ótvíræðum hætti ráðið hvort umrætt svæði á þaki viðbyggingarinnar þjóni einungis þeim tilgangi að vera flóttaleið eða hvort einnig sé um hefðbundnar svalir að ræða, sem ætlaðar séu til almennra nota. Hins vegar þykir verða að líta svo á, með hliðsjón af fyrrgreindu orðalagi bókunar byggingarfulltrúa um samþykki byggingaráforma og síðan sama orðalagi í útgefnu byggingarleyfi, en jafnframt því að í skipulagsskilmálum fyrir húsið er ekki gert ráð fyrir veitingastarfsemi eða umgangi gesta á umræddum þakfleti, að hin kærða ákvörðun feli í sér að umræddur þakflötur viðbyggingar fyrstu hæðar sé einungis ætlaður sem flóttaleið en ekki til notkunar fyrir gesti umrædds veitingastaðar. Teljast umræddar breytingar, sem heimilaðar eru í hinu kærða byggingarleyfi, því einungis minni háttar breytingar í skilningi almennra skilmála deiliskipulagsins, sem heimilt var að gera án þess að til kæmi breyting á deiliskipulagi.

Með hliðsjón af því sem að framan er rakið er hið kærða byggingarleyfi í samræmi við gildandi skipulagsskilmála deiliskipulags fyrir Laugaveg 130 og þykja því ekki efni til að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 20. febrúar 2018 um að veita byggingleyfi til breytinga á húsinu nr. 130 við Laugaveg.

112/2017 Laxabakki

Með

Árið 2018, miðvikudaginn 28. nóvember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 112/2017, kæra á ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Árborgar frá 7. júní 2017 um að synja umsókn um byggingarleyfi fyrir tveggja hæða einbýlishúsi á lóð nr. 4 við Laxabakka á Selfossi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 29. september 2017, er barst nefndinni 5. október s.á., kærir lóðarhafi lóðar nr. 4 við Laxabakka, þá ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Árborgar frá 7. júní 2017 að synja umsókn hans um leyfi til að byggja tveggja hæða einbýlishús á lóð nr. 4 við Laxabakka í Árborg. Verður að skilja erindi kæranda á þann veg að þess sé krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Jafnframt er gerð krafa um að skaðabótaskylda byggingarfulltrúa verði viðurkennd.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá sveitarfélaginu Árborg 17. nóvember 2017.

Málavextir: Hinn 14. október 2016 keypti kærandi lóð nr. 4 við Laxabakka ásamt teikningum, að tveggja hæða einbýlishúsi. Árið 2017 sótti kærandi um leyfi til að byggja tveggja hæða hús samkvæmt nefndum teikningum. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 25. apríl 2017 var samþykkt að grenndarkynna erindið fyrir eigendum og íbúum Laxabakka 1, 2, 3, 5 og 6 og Hellubakka 1, 3 og 5 og var sú ákvörðun samþykkt á fundi skipulags- og byggingarnefndar Árborgar 10. maí 2017. Umsóknin var grenndarkynnt frá 25. apríl til 23. maí 2017 og bárust fimm athugasemdir þar sem veitingu byggingarleyfis fyrir tveggja hæða húsi var mótmælt. Málið var tekið fyrir á fundi skipulags- og byggingarnefndar 7. júní 2017 þar sem umsókn kæranda var hafnað og var sú afgreiðsla staðfest á fundi bæjarstjórnar Árborgar 14. s.m. Skipulags- og byggingarfulltrúi tilkynnti kæranda um synjun á erindi hans með bréfi, dags. 8. júní 2017, en í bréfinu var hvorki leiðbeint um kæruheimild né kærufrest í tilefni af ákvörðuninni.

Kærandi óskaði skriflega eftir rökstuðningi og öllum gögnum málsins 22. júní 2017 og kveðst hafa ítrekað þá beiðni 14. júlí s.á. Hann ítrekaði beiðni um rökstuðning og gögn máls með tölvupósti 18. júlí 2017 og fékk svar frá skipulags- og byggingarfulltrúa 24. s.m. um að verið væri að afla gagna og að svarið kæmi fljótlega. Kærandi ítrekaði beiðnina í annað sinn með tölvupósti 25. ágúst s.á. og 30. s.m. barst honum svar við erindinu með tölvupósti frá lögmanni bæjarins. Var í tölvupóstinum hvorki leiðbeint um kæruleið né kærufrest. Kærandi sendi lögmanni bæjarins tölvupóst 5. september 2017 þar sem hann óskaði þess m.a. að fá vefslóð á deiliskipulagið sem vísað var til í svari bæjaryfirvalda og var sú beiðni ítrekuð með tölvupósti 12. september 2017.

Málsrök kæranda: Kærandi kveður upplýsingar frá byggingarfulltrúa hafa verið lykilþátt í ákvörðun hans um að festa kaup á umræddri lóð ásamt teikningum. Teikningarnar hafi verið grundvöllur byggingarleyfis sem fyrri eigandi hafi fengið samþykkt, en hann hafi aldrei hafið framkvæmdir. Hann hafi talið auðsótt að fá byggingarleyfi þar sem hæðarblöð á landupplýsingavef sveitarfélagsins hafi sýnt að skipulag gerði ráð fyrir húsinu, auk þess sem um endurútgáfu leyfis væri að ræða. Áður en gengið hafi verið frá kaupunum hafi kærandi farið ásamt væntanlegum byggingarstjóra á skrifstofu byggingarfulltrúa til að kanna skilyrði framkvæmdar og hvort allar teikningar væru til staðar. Þar hafi þeir fengið þær upplýsingar að skipulag gerði ráð fyrir tveggja hæða húsi á lóðinni.

Kærandi hafi ítrekað óskað eftir að fá afhent samþykkt deiliskipulag fyrir Laxabakka 4 og lóðir í kring án árangurs. Ekkert slíkt skipulag sé að finna á skipulagsvefsjá Skipulagsstofnunar. Byggingarfulltrúi hafi hins vegar tjáð honum að nýtt gildandi skipulag gerði ekki ráð fyrir tveggja hæða húsum en þær upplýsingar séu í þversögn við þau hæðarblöð sem séu á landupplýsingavef Árborgar og embættið hafi afhent honum. Enginn nefndarmanna í skipulags- og byggingarnefnd hafi setið hjá vegna vanhæfis við afgreiðslu málsins, en bróðir eins þeirra búi að Laxabakka 3.

Kærandi hafi engin svör fengið við fyrirspurnum um það hvers vegna umsókn hans hafi sætt grenndarkynningu. Í athugasemdum sem borist hafi vegna grenndarkynningar hafi verið vísað til þriggja ára reglu í skipulags- og byggingarskilmálum frá 26. ágúst 2004. Kærandi hafi fengið misvísandi gögn og svör og viti því ekki hvort til staðar sé skipulag eða ekki. Mikill dráttur hafi verið á að svara beiðni hans um rökstuðning. Þegar svarið hafi borist hafi honum ekki verið leiðbeint um kæruheimildir.

Málsrök Árborgar: Af hálfu sveitarstjórnar er því haldið fram að rétt hafi verið staðið að afgreiðslu málsins þar sem fylgt hafi verið kröfum um form- og efnisreglur við meðferð á umsókn kæranda.

Deiliskipulag fyrir Fossland hafi í upphafi gert ráð fyrir því að byggja mætti tveggja hæða hús á þeirri lóð sem um ræðir, en í kafla 2.3 segi m.a. að verði raunin sú að lítil eftirspurn verði eftir tveggja hæða húsum sé heimilt að þremur árum liðnum frá samþykki deiliskipulags að byggja einnar hæðar hús á eftirstandandi lóðum. Að sama skapi falli þá niður réttur til að byggja tveggja hæða hús á svæðinu. Raunin hafi orðið sú að öll nálæg hús á svæðinu hafi verið byggð á einni hæð og í samræmi við framangreint ákvæði hafi réttur til að byggja tveggja hæða hús á svæðinu fallið niður. Því hafi ekki verið heimilt samkvæmt deiliskipulagi að byggja tveggja hæða hús á umræddri lóð þegar umsókn um byggingarleyfi barst og hefði því þurft að breyta deiliskipulagi fyrir svæðið til að unnt væri að veita byggingarleyfi. Sveitarfélagið hafi talið þá breytingu sem óskað var eftir óverulega og því hafi mátt fara með umsóknina í grenndarkynningu, sbr. heimild í 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Stjórnvöld séu bundin af lögum og því þurfi ákvörðun um veitingu byggingarleyfis að byggja á fullnægjandi lagagrundvelli en svo hafi ekki verið í þessu tilfelli. Engu breyti að kærandi hafi, af mæli- og hæðarblöðum sem hann virðist þó ekki hafa fengið fyrr en eftir að ákvörðun hafi verið tekin, talið að leyfið yrði veitt. Samskipti kæranda við starfsmenn sveitarfélaginu hafi ekki falið í sér ákvörðun í málinu.

Deiliskipulagið, sem komið hafi verið á með stoð í lögum, sem aðrir fasteignareigendur á svæðinu hafi ríka hagsmuni bundna við og réttmætar væntingar til að standist, heimili ekki útgáfu byggingarleyfis á grundvelli umsóknar kæranda. Sveitarfélaginu hafi ekki þótt tækt að breyta deiliskipulaginu í ljósi þeirrar miklu andstöðu sem fram hafi komið í athugasemdum eigenda fasteigna í nágrenninu. Sjónarmiðin þeirra hafi helst verið þau að húsið passaði ekki inn í þennan hluta hverfisins, þar sem eingöngu væru einnar hæðar hús og húsið væri í ósamræmi við gildandi skipulag. Þá væri byggingin til þess fallin að valda skuggamyndun á nágrannalóðum, útsýni yrði af efri hæð hússins yfir verandir, sólpalla og sólskála nálægra húsa, sviptivindar væru líklegir til að myndast vegna hússins og snjóþyngra yrði við nálæg hús ásamt því að nýtingarmöguleikar nálægra húsa yrðu skertir og verðmæti þeirra sömuleiðis.

Málefnaleg sjónarmið hafi því legið til grundvallar við töku umræddrar ákvörðunar, sem leitt hafi til þess að ekki hafi verið unnt að veita umþrætt byggingarleyfi. Ekki hafi verið tilefni til þess að neinn nefndarmanna viki sæti við meðferð málsins. Fjölmargir hafi skilað inn athugasemdum og verið mótfallnir veitingu leyfisins með framangreindum rökum og athugasemdir eða hagsmunir eins þeirra hafi ekki ráðið úrslitum um niðurstöðu málsins.

Því sé hafnað að synjun á veitingu byggingarleyfisins feli í sér bótaskyldar takmarkanir á eignarrétti kæranda. Það sé ekki á forræði úrskurðarnefndarinnar að taka afstöðu til þess álitaefnis.

Niðurstaða:
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála starfar samkvæmt lögum nr. 130/2011 og einskorðast valdheimildir hennar lögum samkvæmt við endurskoðun á lögmæti þeirra ákvarðana sem undir hana verða bornar, en það er ekki á færi nefndarinnar að úrskurða um skaðabótaskyldu, líkt og krafa er gerð um. Verður því ekki tekin afstaða til kröfu kæranda um viðurkenningu á bótaskyldu sveitarfélagsins

Kærufrestur til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála er einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Berist kæra að liðnum kærufresti ber að vísa henni frá skv. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til efnismeðferðar. Kæranda var tilkynnt um synjun skipulags- og byggingarnefndar Árborgar á umsókn hans með bréfi, dags. 8. júní 2017. Í bréfinu var honum hvorki leiðbeint um kæruheimild né kærufrest. Kærandi óskaði rökstuðnings og ítrekaði þá beiðni nokkrum sinnum. Svar frá lögmanni bæjarins barst með tölvupósti 30. ágúst 2017, en þar var kæranda hvorki leiðbeint um kæruheimild né kærufrest í tilefni af lyktum málsins. Verður því talið afsakanlegt að kæra hafi ekki borist fyrr en raun ber vitni og verður málið af þeim sökum tekið til efnismeðferðar.

Með hinni kærðu ákvörðun var umsókn kæranda um leyfi til að byggja tveggja hæða hús synjað. Byggingarfulltrúi í viðkomandi umdæmi veitir byggingarleyfi, sbr. 2. mgr. 9. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010. Skal umsókn beint til byggingarfulltrúa, sbr. 10. gr. laganna, og skal byggingarfulltrúi tilkynna skriflega um samþykkt byggingaráforma, sbr. 11. gr. Samkvæmt framangreindu er það í höndum byggingarfulltrúa að samþykkja eða synja umsóknum um byggingarleyfi.

Samkvæmt 7. gr. mannvirkjalaga er sveitarstjórn heimilt að kveða á um að sérstök byggingarnefnd fjalli um byggingarleyfisumsókn áður en byggingarfulltrúi gefi út byggingarleyfi og hafi hún eftirlit með stjórnsýslu hans fyrir hönd sveitarstjórnar. Skal kveðið á um framangreint í sérstakri samþykkt sem birt er í B-deild Stjórnartíðinda, en hvorki er slíkri samþykkt til að dreifa fyrir sveitarfélagið Árborg samkvæmt heimasíðum Mannvirkjastofnunar og Sveitarfélagsins Árborgar né í B-deild Stjórnartíðinda.

Samkvæmt gögnum málsins liggur ekki fyrir að byggingarfulltrúi hafi fjallað um málið og tekið ákvörðun um synjun byggingarleyfis, líkt og honum ber samkvæmt 9. gr. laga um mannvirki og liggur því ekki fyrir lokaákvörðun í málinu í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sem borin verður undir úrskurðarnefndina. Eins og málsatvikum er hér sérstaklega háttað þykir rétt að taka afstöðu til þess hvort óhæfilegur dráttur hafi orðið á afgreiðslu umsóknar kæranda, en skv. 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga er heimilt að kæra slíkan drátt til þess stjórnvalds sem lokaákvörðun verður borin undir.

Með hliðsjón af því sem fyrir liggur í málinu er ekkert því til fyrirstöðu að byggingarfulltrúi taki ákvörðun um afgreiðslu umsóknar kæranda og er því lagt fyrir hann að taka erindið til efnislegrar afgreiðslu í samræmi við 2. mgr. 9. gr. mannvirkjalaga án frekari tafa.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Lagt er fyrir byggingarfulltrúa Árborgar að taka umsókn kæranda um byggingarleyfi fyrir tveggja hæða einbýlishúsi á lóð nr. 4 við Laxabakka á Selfossi, til efnislegrar afgreiðslu án ástæðulauss dráttar.

134/2018 Breiðdalshreppur

Með

Árið 2018, fimmtudaginn 22. nóvember, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 134/2018, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Fjarðabyggðar frá 30. júlí 2018 um að samþykkja tillögu að Aðalskipulagi Breiðdalshrepps 2018-2030.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 11. nóvember 2018, er barst nefndinni 20. s.m., kærir eigandi, Brekkuborg, Breiðdalsvík, þá ákvörðun bæjarstjórnar Fjarðabyggðar frá 30. júlí 2018 að samþykkja tillögu að Aðalskipulagi Breiðdalshrepps 2018-2030. Er þess krafist að í aðalskipulaginu verði lausaganga sauðfjár bönnuð.

Málsatvik og rök: Hinn 30. júlí 2018 samþykkti sveitarstjórn Fjarðabyggðar tillögu að Aðalskipulagi Breiðdalshrepps 2018-2030. Staðfesti Skipulagsstofnun aðalskipulagið 24. október s.á. og birtist auglýsing um gildistöku þess í B-deild Stjórnartíðinda 7. nóvember s.á.

Kærandi vísar til þess að í aðalskipulaginu sé lausaganga sauðfjár áfram heimiluð. Ísland sé aðili að bæði Kýótó-bókuninni og Parísarsáttmálanum og hafi því skuldbundið sig til að draga verulega úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda. Þá sé það stefna sveitarstjórnar samkvæmt aðalskipulaginu að atvinnustarfsemi taki mið af umhverfisvænum sjónarmiðum. Ljóst sé að það þurfi mikið og samhent átak til áætlanir um kolefnisbindingu og úrdrætti á losun nái fram að ganga. Með banni við lausagöngu sauðfjár muni sveitarfélagið stíga ákveðið skref í átt að kolefnisjöfnun búgreinarinnar ásamt því að styðja vel við sín eigin markmið sem fram komi í aðalskipulaginu.

Atvik málsins lágu ljós fyrir og var því ekki leitað eftir gögnum eða sjónarmiðum sveitarfélagsins.

Niðurstaða: Í 1. mgr. 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 kemur fram að ákvarðanir sem Skipulagsstofnun og ráðherra beri að nefndum lögum að staðfesta sæti ekki kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Samkvæmt 3. mgr. 29. gr. laganna er aðalskipulag háð samþykki sveitarstjórnar og staðfestingu Skipulagsstofnunar og ráðherra í þeim tilvikum sem hann skal staðfesta aðalskipulag. Er mælt svo fyrir um í 2. ml. 3. mgr. 32. gr. tilvitnaðra laga  að aðalskipulag taki gildi þegar það hafi verið samþykkt af sveitarstjórn, hlotið staðfestingu Skipulagsstofnunar og verið birt í B-deild Stjórnartíðinda. Eins og að framan er rakið var hið kærða aðalskipulag staðfest af Skipulagsstofnun 24. október 2018 og birt í B-deild Stjórnartíðinda 7. nóvember s.á. Samkvæmt skýrum fyrirmælum skipulagslaga brestur úrskurðarnefndina því vald til að taka hina kærðu ákvörðun til endurskoðunar og verður málinu af þeim sökum vísað frá nefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

60/2017 Stykkishólmur, miðbær

Með

Árið 2018, fimmtudaginn 22. nóvember kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 60/2017, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Stykkishólms frá 27. mars 2017 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi fyrir miðbæ Stykkishólms, vestan Aðalgötu.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 6. júní 2017, er barst nefndinni sama dag, kærir Queen Eider ehf., Frúarstíg 6, Stykkishólmi, þá ákvörðun bæjarstjórnar Stykkishólms frá 27. mars 2017 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi fyrir miðbæ Stykkishólms, vestan Aðalgötu. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Stykkishólmsbæ 4. júlí 2017.

Málavextir:
Á fundi bæjarstjórnar Stykkishólms 27. mars 2017 var samþykkt afgreiðsla skipulags- og byggingarnefndar frá 20. s.m. varðandi breytingu á deiliskipulagi fyrir miðbæ Stykkishólms, vestan Aðalgötu, að undangenginni auglýsingu á tillögu þar um skv. 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Bárust athugasemdir við tillöguna, m.a. frá kæranda, er var svarað af hálfu bæjarstjórnar. Tók skipulagsbreytingin gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 10. maí 2017.

Hin umdeilda deiliskipulagsbreyting felur m.a. í sér að heimilt verður að rífa núverandi hús á lóðinni að Hafnargötu 7, skipta lóðinni í tvær lóðir er fá heitið Frúarstígur 7 og 9 og byggja eitt hús á hvorri lóð í stað þess að byggja við núverandi hús á lóðinni, líkt og áðurgildandi deiliskipulag heimilaði. Er nýju húsunum ætlað að hýsa íbúðir, þjónustu eða hreinlega atvinnustarfsemi.

Málsrök kærenda: Kærandi byggir í fyrsta lagi á því að deiliskipulagsbreytingin sé í andstöðu við Aðalskipulag Stykkishólms 2002-2022 og fari þar með í bága við 3. mgr. 37. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 um innbyrðis samræmi deiliskipulags- og aðalskipulags. Deiliskipulagsbreytingin, þ.e. niðurrif húsa í gamla bænum og leyfileg landnotkun á lóðinni að Hafnargötu 7, sé í andstöðu við aðalskipulagið. Enda megi eingöngu nýta húsin undir þjónustu fyrir ferðamenn eða annars konar þjónustu sem sé til þess fallin að styrkja aðra þjónustu sem fyrir sé í miðbænum.

Í öðru lagi sé deiliskipulagsbreytingin í andstöðu við almenna skilmála sem fram komi í greinargerð með deiliskipulaginu, þar sem m.a. komi fram að markmið þess sé að hafa hagkvæmni að leiðarljósi á þann hátt að bætt sé við það sem fyrir sé fremur en að gera gagngerar breytingar, að gera ásýnd bæjarins fallegri og heillegri og að sækja viðmið í gamla bæjarkjarnann. Þá skuli hafa í huga þegar nýrri starfsemi sé valinn staður að bærinn og sú starfsemi sem fyrir sé njóti góðs af staðsetningunni. Einnig sé í deiliskipulaginu lögð áhersla á verndun og varðveislu gamla bæjarins í Stykkishólmi. Skýrðir séu möguleikar til frekari nýtingar og uppbyggingar í gamla bænum. Þar verði stjórnsýsla, menningar- og ferðatengd þjónusta, ásamt ýmissi annarri þjónustu.

Í þriðja lagi telur kærandi að sveitarfélagið hafi ekki sinnt rannsóknarskyldu sinni nægjanlega við deiliskipulagsbreytinguna í samræmi við 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og óskráða rannsóknarreglu stjórnsýsluréttarins. Húsakönnun skv. 5. mgr. 37. gr. skipulagslaga hafi í engu verið sinnt. Byggt hafi verið á húsakönnun frá árinu 1978, þar sem sérstaklega sé tekið fram að varðveisla húsa og götumyndar sé nauðsynleg. Út frá því hafi verið mótuð sú stefna að hús sem standi þar verði ekki rifin heldur verði byggt í eyður í miðbænum og „gætt verði að húsagerð nýrra húsa“. Hin kærða deiliskipulagsbreyting fari gegn þessu. Loks hafi þurft að auglýsa deiliskipulagsbreytinguna á ný þar sem samþykktri tillögu hafi verið breytt í grundvallaratriðum frá auglýstri tillögu, sbr. 4. mgr. 41. gr. skipulagslaga.

Málsrök Stykkishólmsbæjar: Af hálfu sveitarfélagsins er því hafnað að deiliskipulagsbreytingin sé í andstöðu við 3. mgr. 37. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 eða almenna skilmála í greinagerð gildandi deiliskipulags, sem breytingin sé hluti af.

Húsið að Hafnargötu 7 sé ekki hluti af þeirri heild á skipulagssvæðinu sem eigi að vernda. Sveitarfélagið hafi lagt mat á varðveislugildi hússins með hliðsjón af leiðbeiningum Húsafriðunarnefndar, þ.e. út frá byggingarlist, menningarsögulegu gildi, umhverfisgildi, upprunalegu ástandi, tæknilegu ástandi og varðveislugildi. Deiliskipulagsbreytingin geri ráð fyrir húsum sem falli vel að gamla miðbænum og sé hún því í fullu samræmi við stefnumörkun aðalskipulagsins. Þá gildi sömu reglur samkvæmt deiliskipulaginu og aðalskipulagi hvað varði landnotkun þessara og annarra húsa á svæðinu, en um sé að ræða landnotkunarflokk miðsvæðis. Jafnframt samræmist deiliskipulagsbreytingin markmiðum áðurgildandi skipulags. Þá hafi hvorki rannsóknarregla stjórnsýslulaga né stjórnsýsluréttarins verið brotin við meðferð málsins og sveitarfélagið hafi að öllu leyti fullnægt þeirri rannsóknarskyldu sem á því hvíldi.

Málsmeðferðin hafi að öllu leyti verið í samræmi við skipulagslög. Ákvæði 5. mgr. 37. gr. skipulagslaga geri ekki kröfu um að gerð sé ný húsakönnun þegar deiliskipulag eða breyting á deiliskipulagi sé samþykkt. Gildandi skipulag byggi á einni ítarlegustu húsakönnun sem gerð hafi verið. Engin lagaskylda hafi því staðið til þess að láta vinna sérstaka húsakönnun vegna deiliskipulagsbreytingarinnar. Sé því hafnað að deiliskipulagsbreytingin hafi farið gegn þeirri húsakönnun, enda sé skemman við Hafnargötu 7 ekki hluti af þeirri heild á skipulagsvæðinu sem eigi að vernda samkvæmt könnuninni, aðalskipulagi eða deiliskipulaginu fyrir breytingu. Breytingin fari ekki gegn þeim sjónarmiðum sem fram komi í bréfi Minjastofnunar, auk þess sem stofnunin hafi engar athugasemdir gert við tillöguna. Sveitarfélagið hafi lagt sérstaklega mat á það hvort varðveislugildi skemmunnar væri eitthvað og var niðurstaðan sú að svo væri ekki. Þá hafi ekki verið gerðar grundvallarbreytingar frá upphaflegri tillögu og því hafi ekki þurft að auglýsa hana að nýju. Um hafi verið að ræða minniháttar breytingar og leiðréttingar og engin þeirra hafi verið íþyngjandi.

Athugasemdir leyfishafa: Af hálfu leyfishafa er því hafnað að deiliskipulagsbreytingin sé í andstöðu við aðalskipulag. Vísað sé til Aðalskipulags Stykkishólms 2002-2022. Ekki sé skilyrði að húsaþyrpingar í gamla bænum skuli eingöngu hýsa ferðaþjónustutengda starfsemi. Mótmælt sé að skemman verði talin gamalt hús með varðveislugildi sem eigi að vernda samkvæmt skipulaginu. Niðurrif sé ekki óheimilt að því gefnu að ekki sé farið á svig við þá stefnumörkun aðalskipulagsins að verðveita beri gömul hús í gamla bænum í því skyni að gamla bæjarmyndin haldi sér. Gamli miðbærinn sé skilgreindur sem miðsvæði, sbr. gr. 6.2. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 varðandi landnotkun á miðsvæði. Einnig sé vísað til aðalskipulagsins þar sem fram komi að byggt skuli í eyður í gamla miðbænum með blönduðu íbúðar- og þjónustuhúsnæði. Ekki þurfi að tilgreina í aðalskipulagi hvort hús eigi að víkja heldur eigi slíkt heima í deiliskipulagi, sbr. gr. 5.3.2.1. í skipulagsreglugerð. Þá sé því hafnað að deiliskipulagsbreytingin sé í andstöðu við almenna skilmála gildandi deiliskipulags. Ekki þurfi að gera nýja húsakönnun skv. 5. mgr. 37. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 við vinnslu á deiliskipulagi í þegar byggðu hverfi þegar svo hátti til að húsakönnun hafi verið gerð fyrir viðkomandi svæði. Að lokum telji leyfishafi að deiliskipulagstillögunni hafi ekki verið breytt í grundvallaratriðum og því hafi ekki borið að auglýsa hana á ný.

Niðurstaða: Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 38. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 annast sveitarstjórnir og bera ábyrgð á gerð aðalskipulags og deiliskipulags í sínu umdæmi. Í skipulagsvaldi sveitarstjórna felst m.a. heimild til breytinga á gildandi deiliskipulagi eins og kveðið er á um í 43. gr. laganna, en þess ber að gæta að breyting rúmist innan heimilda aðalskipulags, sbr. 7. mgr. 12. gr. sömu laga, og að stefnt sé að lögmætum markmiðum með breytingunni. Skipulagsyfirvöld eru ekki bundin við skilmála eldra deiliskipulags við slíka breytingu enda felur breyting á deiliskipulagi eðli máls samkvæmt í sér breytingu á eldra skipulagi.

Hin kærða deiliskipulagsbreyting var kynnt með almennri auglýsingu í samræmi við 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga, afgreidd af skipulags- og byggingarnefnd að kynningu lokinni og samþykkt í bæjarstjórn lögum samkvæmt. Framkomnum athugasemdum var svarað og tók breytingin gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda að lokinni meðferð Skipulagsstofnunar.

Samkvæmt 4. mgr. 41. gr. skipulagslaga skal auglýsa deiliskipulagstillögu til kynningar að nýju í samræmi við 1. mgr. sama ákvæðis ef sveitarstjórn ákveður að breyta tillögunni í grundvallaratriðum. Þær breytingar sem gerðar voru frá auglýstri tillögu fólust í því að bætt var við texta um lóðir E og LI. Jafnframt var heimilaðri landnotkun á lóðum E, LI og D breytt úr léttri atvinnustarfsemi í hreinlega atvinnustarfsemi og íbúðir einungis heimilaðar á efri hæð húsa á lóð E en ekki á jarðhæð eða neðar, auk þess sem fallið var frá því að fella út bílastæði fyrir fatlaða við Hafnargötu 3 og Kirkjutorg. Þá var bætt við skýringarmyndum varðandi fjölda bílastæða og kótasetningu. Liggur fyrir að þær breytingar sem um ræðir fela ekki í sér aukningu á byggingarmagni eða nýtingarhlutfalli lóða, auk þess sem lóðamörk eru óbreytt og fjöldi húsa á lóðunum helst óbreyttur. Verður hvorki eðli breytinganna né umfang talið slíkt að um hafi verið að ræða grundvallarbreytingu í skilningi 4. mgr. 41. gr. skipulagslaga þannig að þurft hafi að auglýsa tillöguna að nýju.

Ákvæði í Aðalskipulagi Stykkishólms 2002-2022 um áherslu á verndun og varðveislu gamla bæjarins í Stykkishólmi eða önnur ákvæði skipulagsins útiloka ekki að í deiliskipulagi sé tekin afstaða til niðurrifs einstakra húsa í miðbænum sem ekki eru talin hafa varðveislugildi og var slík heimild fyrir hendi í deiliskipulagi svæðisins áður en hin umdeilda breyting varð gerð. Þá verður ekki talið að landnotkun samkvæmt hinni kærðu ákvörðun sé í andstöðu við aðalskipulag, en samkvæmt því er um að ræða miðsvæði þar sem gert er ráð fyrir blönduðu íbúðar- og þjónustuhúsnæði.

Í 5. mgr. 37. gr. skipulagslaga er kveðið á um að við gerð deiliskipulags í þegar byggðu hverfi skuli framkvæma húsakönnun til að meta varðveislugildi einstakra húsa og svipmót byggðar. Gildir sú regla hvort heldur um er að ræða nýtt deiliskipulag eða breytingu á eldra deiliskipulagi sé slík húsakönnun ekki þegar til staðar. Ekki var gerð sérstök húsakönnun í tengslum við umrædda deiliskipulagsbreytingu en við afgreiðslu málsins lá fyrir húsakönnun frá árinu 1978. Sú könnun tekur hins vegar aðeins á varðveislugildi bygginga sem byggðar voru fyrir 1940 en hið umdeilda hús að Hafnargötu 7 mun hafa verið byggt um 1970. Fram kemur í Aðalskipulagi Stykkishólms 2002-2022 að mikilvægt sé að ráðist verði í nýja húsakönnun í tengslum við deiliskipulagsvinnu fyrir miðbæinn, en ekki liggur fyrir að það hafi verið gert. Hafa verður þó í huga að lagt var mat á varðveislugildi umrædds húss við meðferð deiliskipulagsbreytingarinnar og var niðurstaðan sú að húsið gæti ekki talist varðveisluvert. Í ljósi framangreinds og þeirra upplýsinga sem liggja fyrir um húsið verður ekki talið að sá annmarki að ný húsakönnun var ekki gerð geti raskað gildi hinnar kærðu ákvörðunar. Í því ljósi og með hliðsjón af því samráði sem átti sér stað í tengslum við deiliskipulagsbreytinguna verður ekki heldur fallist á að brotið hafi verið gegn rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 við meðferð málsins.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið liggja ekki fyrir þeir ágallar á efni eða málsmeðferð hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar sem raskað geta gildi hennar og verður kröfu um ógildingu hennar því hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun bæjarstjórnar Stykkishólms frá 27. mars 2017 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi fyrir miðbæ Stykkishólms, vestan Aðalgötu.

118/2017 Fiskhóll

Með

Árið 2018, fimmtudaginn 15. nóvember kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 118/2017, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Sveitarfélagsins Hornafjarðar frá 12. janúar 2017 um að samþykkja deiliskipulag fyrir tjaldsvæði og íbúðarbyggð á Fiskhóli, Höfn í Hornafirði.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi innanríkisráðuneytisins, dags. 21. mars 2017, er barst úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála 11. október s.á., var framsend kæra eigendur Fiskhóli 11, Höfn í Hornafirði, vegna ákvörðunar bæjarstjórnar Sveitarfélagsins Hornafjarðar frá 12. janúar 2017 um að samþykkja deiliskipulag fyrir tjaldsvæði og íbúðarbyggð á Fiskhóli. Er þess krafist að deiliskipulaginu verði breytt á þann veg að landnýtingarflokkur lóðar kærenda verði íbúðar- og atvinnustarfsemi. Verður að skilja málatilbúnaði kærenda svo að krafist sé að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Sveitarfélaginu Hornafirði 13. nóvember 2017.

Málavextir: Með bréfi, dags. 23. ágúst 2016, óskuðu kærendur eftir því við bæjarráð Hornafjarðar að annað hvort yrði landnotkunarflokki lóðarinnar Fiskhóls 11 breytt í verslunar- og þjónustuflokk í stað íbúðarbyggðar eða að landnotkunarflokki Fiskhóls í heild yrði breytt í miðsvæði. Á fundi skipulagsnefndar Hornafjarðar 7. september s.á. var bókað að beiðni kærenda um breytingu á aðalskipulagi Hornafjarðar væri synjað. Afgreiðsla skipulagsnefndar var svo samþykkt á fundi bæjarstjórnar Hornafjarðar 10. nóvember 2016.

Bæjarstjórn Hornafjarðar samþykkti á fundi sínum 8. september 2016 að auglýsa tillögu að nýju deiliskipulagi fyrir tjaldsvæði og íbúðarbyggð á Fiskhóli. Tillagan var auglýst 22. september s.á. með fresti til að gera athugasemdir til 3. nóvember s.á. Á kynningartíma tillögunnar bárust athugasemdir frá kærendum máls þessa þar sem m.a. voru gerðar athugasemdir varðandi landnotkunarflokk á Fiskhóli 11. Skipulagsstjóri Hornafjarðar sendi kærendum bréf 4. janúar 2017 þar sem athugasemdum þeirra var svarað. Á fundi bæjarstjórnar 12. s.m. var deiliskipulagstillagan samþykkt og birtist auglýsing þar um í B-deild Stjórnartíðinda 22. febrúar 2017.

Málsrök kæranda:
Kærendur krefjast þess að landnotkunarflokki lóðarinnar Fiskhóls 11 verði breytt á þann hátt að hann endurspegli þá starfsemi sem rekin hafi verið þar í tugi ára. Í dag sé lóðin skráð sem íbúðarlóð en með réttu eigi hún að vera skráð sem lóð fyrir íbúðar- og atvinnustarfsemi. Sé hvað það varðar vísað til 37. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, þar sem fram komi að við gerð deiliskipulags skuli taka mið af þeirri starfsemi sem þegar sé fyrir á því svæði sem verið sé að gera deiliskipulag fyrir.

Málsrök Sveitarfélagsins Hornafjarðar: Af hálfu sveitarfélagsins er bent á að kærendur séu í raun að fara fram á að úrskurðarnefndin breyti landnotkunarflokki fyrir Fiskhól, sem sé og hafi verið skráður sem íbúðarbyggð (ÍB). Sveitarfélagið geti ekki séð að úrskurðarnefndin hafi heimild til að breyta landnotkun í aðalskipulagi, enda sé vald til að skipuleggja land innan marka sveitarfélags í höndum sveitastjórnar, sbr. 3. mgr. 3. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Heimilt sé samkvæmt gr. 5.3.2. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 að skilgreina landnotkun og takmarkanir á henni þrengra í deiliskipulagi en í aðalskipulagi. Nýtt deiliskipulag fyrir íbúðarbyggð á Fiskhóli skilgreini landnotkunarheimildir og eigi kærendur ekki lögvarða kröfu til þess að fá skipulagi breytt. Ákvörðun skipulagsnefndar 7. september 2016 um að synja kærendum um breytingu á landnotkun hafi verið málefnaleg og studd þeim rökum að rétt væri að standa vörð um þegar skipulagða íbúðarbyggð á svæðinu. Jafnframt hafi skipulagsnefnd bent á að gistiheimili sem starfrækt séu allt árið um kring, með tilheyrandi umferð ferðamanna, rúmist ekki í íbúðarbyggð.

Kærendur hafi bent á að mál þeirra sé sambærilegt máli sem hafi varðað breytingu á Aðalskipulagi Sveitarfélagsins Hornafjarðar 2012-2030. Þar hafi umsækjendur óskað eftir breytingu á landnotkun úr íbúðarbyggð í miðsvæði á þremur lóðum við Hafnarbraut og Skólabrú og hafi það verið samþykkt. Aðstæður þar og í þessu máli séu ólíkar, þar sem samfellt miðsvæði sé skilgreint við Hafnarbraut auk þess sem verslun og þjónusta hafi verið starfrækt á umræddum lóðum í áratugi. Á Fiskhóli séu sex einbýlishús í grónu hverfi og hafi svæðið ávallt verið skilgreint sem íbúðarbyggð.

Samkvæmt skipulagslögum sé sveitarstjórnum gefið víðtækt vald til ákvarðana um skipulag innan marka sveitarfélags. Það sé mat sveitarfélagsins að markmiðum skipulagslaga, sem tíunduð séu í 1. gr. þeirra, hafi verið fylgt í hvívetna við meðferð og gildistöku nýs deiliskipulags fyrir íbúðarsvæði á Fiskhól.

Kærendur hafi vísað til þess að samkvæmt 37. gr. skipulagslaga skuli við gerð deiliskipulags taka mið af þeirri starfsemi sem þegar sé fyrir á svæðinu. Þessari túlkun sé sveitarfélagið ekki sammála. Í 37. gr. laganna sé fjallað um innihald deiliskipulags og framsetningu þess. Í 1. mgr. sé skilgreint til hvers konar ákvarðana deiliskipulag taki, svo sem um lóðir, lóðanotkun og byggingarreiti. Í deiliskipulagi sé þannig fjallað með mun nákvæmari hætti um einstaka þætti skipulags en eigi við um svæðis- og aðalskipulag. Í 2. mgr. sé kveðið á um að deiliskipulag taki til svæða sem myndi heildstæða einingu. Með því sé ætlunin að koma í veg fyrir að skipulagðar séu einstakar lóðir, þó að slíkt geti stundum átt við. Í 3. mgr. sé áréttað að deiliskipulag skuli vera í samræmi við stefnu aðalskipulags, en hlutverk deiliskipulags sé að útfæra nánar þá stefnu. Það sé mat sveitarfélagsins að málsmeðferð nýs deiliskipulags fyrir íbúðarbyggð á Fiskhóli hafi verið í fullu samræmi við ákvæði skipulagslaga og skipulagsreglugerðar.

Undanfarin ár hafi kærendur rekið heimagistingu á Fiskhóli 11, en áður hafi tölvuþjónusta verið starfrækt í húsinu. Samkvæmt lögum sé heimagisting skilgreind sem gisting gegn endurgjaldi á lögheimili einstaklings eða í einni annarri fasteign sem hann hafi til persónulegra nota og sé í hans eigu, sbr. 3. gr. laga nr. 85/2007 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, með síðari breytingum. Fjöldi útleigðra daga í báðum eignum samanlagt skuli ekki fara yfir 90 daga á hverju almanaksári eða samanlagðar tekjur af leigu eignanna skulu ekki nema hærri fjárhæð en 2.000.000 króna. Heimagisting falli undir gistiflokk I samkvæmt lögunum. Sveitarfélagið sé þeirrar skoðunar að heimagisting rúmist innan íbúðarbyggðar, enda sé um minni háttar atvinnurekstur að ræða. Beiðni kæranda snúi aftur á móti að rekstri gistiheimilis sem falli undir gistiflokk II, er feli í sér meiri háttar atvinnurekstur árið um kring. Gistiheimilum fylgi umtalsverð umferð vegna ferðamanna sem rúmist almennt ekki í íbúðarbyggð. Samkvæmt Aðalskipulagi Sveitarfélagsins Hornafjarðar 2012-2030 sé áhersla lögð á að hafa yfirsýn og stjórn á fjölgun gistirýma og staðsetningu þeirra og hafi sveitarfélagið hvatt til uppbyggingar ferðaþjónustu á svæðum sem skilgreind séu sem verslun og þjónusta eða miðsvæði.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er það hlutverk nefndarinnar að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og í ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála, eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Einskorðast valdheimildir úrskurðarnefndarinnar því lögum samkvæmt við endurskoðun á lögmæti þeirra ákvarðana sem undir hana verða bornar. Í samræmi við það er það ekki á færi nefndarinnar að taka nýja ákvörðun í málinu, enda fer sveitarstjórn með deiliskipulagsvald innan sveitarfélagamarka samkvæmt skipulagslögum nr. 123/2010. Af þessum sökum verður ekki tekin til úrlausnar krafa kærenda um að hinu umrædda deiliskipulagi verði breytt, þ.e. að landnotkun lóðar nr. 11 á Fiskhóli verði skráð sem íbúðar- og atvinnustarfsemi.

Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 38. gr. skipulagslaga annast sveitarstjórnir og bera ábyrgð á gerð aðalskipulags og deiliskipulags í sínu umdæmi. Við gerð deiliskipulags ber þess að gæta að deiliskipulagið rúmist innan heimilda aðalskipulags, sbr. 7. mgr. 12. gr. skipulagslaga. Lóðin á Fiskhóli 11 er samkvæmt Aðalskipulagi Sveitarfélagsins Hornafjarðar 2012-2030 á skilgreindu íbúðarsvæði, ÍB-6. Samkvæmt hinu umrædda deiliskipulagi er gert ráð fyrir íbúðarbyggð á Fiskhóli og kemur þar fram að lóðirnar séu fullbyggðar. Er því landnotkun lóðarinnar samkvæmt hinu kærða deiliskipulagi í samræmi við aðalskipulag, svo sem áskilið er í fyrrnefndri 7. mgr. 12. gr. skipulagslaga.

Skipulagslýsing vegna hinnar umdeildu deiliskipulagstillögu var tekin saman og umsagna um hana leitað í samræmi við 40. gr. skipulagslaga. Hún var auglýst til kynningar með almennum hætti, líkt og kveðið er á um í 41. gr. laganna, og að lokinni kynningu var framkomnum athugasemdum svarað. Tillagan var tekin til umræðu hjá bæjarstjórn sveitarfélagsins að undangenginni umfjöllun skipulagsnefndar í samræmi 3. mgr. 41. gr. laganna. Þá var gildistaka deiliskipulagsins auglýst í B-deild Stjórnartíðinda, að undangenginni lögmæltri athugun Skipulagsstofnunar, sbr. 42. gr. laganna. Var málsmeðferðin því í samræmi við ákvæði skipulagslaga og samræmist landnotkun íbúðarbyggðar á Fiskhóli gildandi aðalskipulagi.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið var hin kærða deiliskipulagsákvörðun ekki haldin neinum þeim form- eða efnisannmörkum sem valdið geti ógildingu hennar. Verður kröfu þar um því hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar bæjarstjórnar Sveitarfélagsins Hornafjarðar frá 12. janúar 2017 um að samþykkja deiliskipulag fyrir tjaldsvæði og íbúðarbyggð á Fiskhóli, Höfn í Hornafirði.

128/2017 Laugavegur

Með

Árið 2018, fimmtudaginn 15. nóvember kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 128/2017, kæra á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 28. september 2017 um að synja umsókn um breytingu á deiliskipulagi vegna lóðar nr. 59 við Laugaveg í Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 27. október 2017, er barst nefndinni sama dag, kærir Vesturgarður ehf., lóðarhafi Laugavegar 59, þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 28. september 2017 að synja umsókn um breytingu á deiliskipulagi vegna lóðar nr. 59 við Laugaveg. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 27. júní 2018.

Málavextir: Haustið 2015 sótti kærandi um breytingu á deiliskipulagi, sem fól í sér leyfi til að byggja inndregna hæð ofan á hús félagsins að Laugavegi 59 og til að innrétta íbúðir á 3.-5. hæð þess. Deiliskipulagsbreytingin tók gildi með birtingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 3. febrúar 2016. Ágreiningur kom upp um túlkun heimilda skipulagsins í tengslum við umsókn um byggingarleyfi fyrir breytingum á húsinu og var umsókninni synjað. Sú ákvörðun var kærð til úrskurðarnefndarinnar, sem vísaði málinu frá með úrskurði uppkveðnum 27. júlí 2017

Með bréfi, dags. 6. júní 2017, spurðist kærandi fyrir um hvort leyft yrði að hafa gistiþjónustu á 3.-5. hæð hússins að Laugavegi 59. Erindinu var svarað með bréfi umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 26. júní 2017, þar sem tekið var fram að samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 væri Laugavegur á landnotkunarsvæði M1a, sem heimilaði fjölbreytta landnotkun. Í skipulagslögum væri heimild til að þrengja heimildir í aðalskipulagi með deiliskipulagi, líkt og gert hefði verið, sbr. 2. mgr. gr. 5.3.2. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013. Neikvætt svar skipulagsyfirvalda við umsókn kæranda væri því í fullu samræmi við heimildir í deiliskipulaginu. Þar væri sett skilyrði um að íbúðir í húsinu verði í langtímaleigu en ekki skammtímaleigu, sem félli undir gististarfsemi.

Kærandi krafðist rökstuðnings fyrir niðurstöðu umhverfis- og skipulagssviðs með bréfi, dags. 21. júlí 2017, auk þess að krefjast þess að ákvörðun yrði tekin um kröfu félagsins um leiðréttingu og breytingu á greinargerð deiliskipulags Laugavegar 59 sem hefði ekki enn verið svarað. Kærandi áréttaði kröfur sínar með bréfi lögmanns, dags. 21. ágúst s.á., og með bréfi arkitektastofu, dags. 23. ágúst 2017, þar sem óskað var eftir leiðréttingu á skilgreiningu landnotkunar í greinargerð deiliskipulagsins varðandi Laugaveg 59 á þann veg að vísað yrði í landnotkunarheimild aðalskipulags vegna svæðis M1a í stað M1c. Með bréfi til borgaryfirvalda, dags. 30. ágúst 2017, sótti kærandi síðan um leiðréttingu á gildandi deiliskipulagi, sem hafnað var á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 20. september s.á. með vísan til neikvæðrar umsagnar skipulagsfulltrúa frá 8. s.m. Borgarráð staðfesti synjun umhverfis- og skipulagsráðs á fundi 28. september 2017 og hefur kærandi skotið þeirri ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar, eins og að framan greinir.

Málsrök kæranda: Kærandi telur villu vera í núgildandi deiliskipulagi sem taki til fasteignar hans að Laugavegi 59. Vísað sé þar til landnotkunar svæðis M1c, blönduð miðborgarbyggð, en hið rétta sé að lóðin tilheyri svæði M1a, miðborgarkjarna. Munur sé á skilgreindri landnotkun á svæðunum, þar sem á svæði M1c sé annars vegar lögð áhersla á íbúðir til heilsársbúsetu, að lágmarki 40% landnotkunar, en hins vegar séu heimildir fyrir skrifstofu- og íbúðarhúsnæði svo og gistiþjónustu.

Röng trú kæranda um að á svæðinu gilti landnotkun M1c hafi haft áhrif á væntingar hans um þá starfsemi sem gæti verið í umræddu húsi. Í greinargerð á upphaflegum uppdrætti að tillögu að breyttu deiliskipulagi svæðisins segi að gert sé ráð fyrir að allar íbúðir verði í langtímaleigu. Dragi þessi setning augljóslega dám af landnotkun svæðis M1c sem hönnuðir kæranda hafi talið eiga við. Þessi villa hafi leitt til þess að kærandi hafi fallist á tilmæli starfsmanns skipulagsfulltrúa um að afmarka nánar í skilmálatöflu landnotkun einstakra hæða hússins. Tilmælin hafi verið bæði óþörf og ómálefnaleg enda hafi öll starfsemi sem fyrirhuguð hafi verið í húsinu rúmast innan landnotkunar í miðborgarkjarna M1a og þar með innan landnotkunar gildandi deiliskipulags svæðisins frá 1999. Með afmörkun á landnotkun einstakra hæða hafi landnotkun verið þrengd frá því sem annars gilti á svæðinu og lóðarhöfum þannig mismunað án þess að nokkur rök eða málefnalegar ástæður hafi staðið til þess. Kærandi eigi því lögvarða kröfu til þess að fá þetta leiðrétt og ekki sé lögmætur grundvöllur til að synja erindi hans.

Á lóð sem sé á sama staðgreinireit og fasteign kæranda hafi árið 2013 verið heimilað að auka byggingarmagn verulega og auka nýtingarhlutfall úr 2,51 í 3,5 og tekið fram að heimilt væri að hafa hótel/gistiheimili á lóðinni. Í húsinu séu íbúðir sem leigðar séu skammtímaleigu til ferðamanna þrátt fyrir að lóðin sé á svæði M1c, þar sem í aðalskipulagi segi að styrkja eigi íbúðarbyggð og að íbúðir skuli almennt vera til heilsársbúsetu. Ekki falli saman mörk deiliskipulags fyrir umræddan staðgreinireit og mörk svæða M1a og M1c meðfram Hverfisgötu og sé Hverfisgata 78 innan deiliskipulagsreitsins en utan svæðis M1a. Þá hafi á Laugavegi 55 verið leyft að reisa hótel, væntanlega á þeirri forsendu að heimild væri fyrir því í gildandi deiliskipulagi, sem um landnotkun vísi til aðalskipulags.

Við ýmsar breytingar sem gerðar hafi verið á gildandi deiliskipulagi svæðisins hafi hvergi verið gerð krafa um að landnotkun væri sett í skilmálatöflu eða með öðrum hætti þrengd frá því sem gilti á svæðinu samkvæmt deiliskipulaginu frá 1999. Í raun sé farið á svig við skilmála varðandi Hverfisgötu 79 þar sem það fari í bága við landnotkun M1c, sem gildi um lóðina, að reka þar íbúðir til útleigu fyrir ferðamenn. Hafi borgaryfirvöld með þessu haft rækilega endaskipti á hlutunum og ljóst sé að ekki hafi verið gætt jafnræðis milli lóðarhafa á reitnum við breytingar á deiliskipulagi vegna einstakra lóða. Hafi réttur kæranda verið brotinn með því að knýja hann til að afmarka landnotkun einstakra hæða, svo og með þeirri túlkun á skilmálum skipulagsins sem fylgt hafi í kjölfarið.

Að lokum sé tekið fram að með synjun sinni hafi borgaryfirvöld vegið að stjórnarskrárvörðum  eignarrétti og atvinnurétti kæranda og sé allur réttur áskilinn til skaðabóta vegna þess tjóns sem af hinni ólögmætu afgreiðslu hafi hlotist.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er vísað til þess að samkvæmt aðalskipulagi sé lóð kæranda á miðborgarsvæði M1a, þar sem lögð sé áhersla á að styrkja íbúðarbyggð og hverfisanda, en um leið að efla verslunar-, atvinnu- og þjónustustarfsemi sem falli að íbúðarbyggð. Í gildi sé deiliskipulag reits 1.173.0, sem heimili að byggja inndregna hæð ofan á fjórðu hæð húss kæranda og áskilji að íbúðir verði á 3.-5. hæð.

Kærandi hafi sjálfur staðið að deiliskipulagsbreytingu reitsins í samráði við Reykjavíkurborg og ljóst hafi verið frá upphafi að forsendan fyrir auknu byggingarmagni væri að á umræddum hæðum hússins skyldu vera íbúðir en ekki gististarfsemi. Skýrt komi fram í umsókn kæranda, dags. 29. júlí 2015, að breytingin gangi út á að byggja inndregna þakhæð ofan á núverandi hús og breyta 3. og 4. hæð hússins í íbúðir sem yrðu í langtímaleigu. Skilgreiningu á afmörkun notkunar hússins hafi verið bætt við skilmálana að ósk embættis skipulagsfulltrúa. Hún hafi verið í fullu samræmi við þær forsendur sem lágu að baki deiliskipulagsbreytingunni og óskir lóðarhafa.

Í umsögn skipulagsfulltrúa vegna hinnar kærðu synjunar hafi komið fram að samkvæmt gildandi deiliskipulagi væri hvergi minnst á gististarfsemi. Forsenda breytingarinnar hafi verið að á umræddum hæðum skyldu verða íbúðir en ekki gististarfsemi. Enga þýðingu hafi að sú villa hafi verið í greinargerð deiliskipulagsbreytingarinnar frá 2015 að svæðið hafi verið skilgreint sem blönduð miðborgarbyggð í stað miðborgarkjarna. Heimilt sé að þrengja heimildir aðalskipulags í deiliskipulagi, sbr. 2. mgr. gr. 5.3.2 í skipulagsreglugerð nr. 90/2013, þar sem segi að heimilt sé að skilgreina landnotkun og takmarkanir á henni þrengra í deiliskipulagi en gert sé í aðalskipulagi og kveða á um mismunandi notkun og tegund á starfsemi á einstökum lóðum, lóðahlutum eða byggingarhlutum. Það hafi verið gert í þessu tilviki og tekið fram að um íbúðir yrði að ræða. Umrætt deiliskipulag sé í gildi og sé bindandi fyrir lóðarhafa og hann eigi enga lögvarða kröfu á að fá því breytt.

Ekki sé hægt að fallast á þau rök að það hafi verið röng túlkun á skipulagi að telja að á 2. hæð eigi að vera bæði verslun og þjónusta. Það standi í skipulagi og því verði ekki annað séð en að skilyrt sé að það skuli vera hvoru tveggja. Ekki sé boðið upp á val um annað hvort og ekki fáist staðist sú túlkun kæranda að um sérstakan landnotkunarflokk sé að ræða.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti ákvörðunar borgarráðs Reykjavíkur um að synja umsókn kæranda um breytingu á deiliskipulagi sem tekur til fasteignar hans að Laugarvegi 59 í Reykjavík.

Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er vald til að skipuleggja land innan marka sveitarfélags í höndum sveitarstjórnar sem annast og ber ábyrgð á gerð aðal- og deiliskipulags í sínu umdæmi, sbr. 29. og 38. gr. laganna. Í aðalskipulagi er sett fram stefna borgaryfirvalda um þróun byggðar, m.a. varðandi landnotkun, sbr. 1. mgr. 28. gr. nefndra laga. Í skipulagsvaldi sveitarstjórnar felst m.a. heimild til breytinga á gildandi deiliskipulagi, líkt og kveðið er á um í 43. gr. laganna, en gert er að skilyrði að breytingin rúmist innan heimilda aðalskipulags, sbr. 7. mgr. 12. gr.

Í gildi er Aðalskipulag Reykjavíkur 2010-2030. Á bls. 199-201 í skipulaginu er fjallað um skilgreiningu landnotkunar í miðborg Reykjavíkur. Er landnotkun skipt eftir svæðum í M1a, M1b og M1c. Samkvæmt aðalskipulaginu er lóð nr. 59 við Laugaveg á svæði M1a, miðborgarkjarna. Breyting var gerð á kafla aðalskipulags um landnotkun svæðis M1a, sem tók gildi með birtingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 4. september 2017. Með breytingunni voru sett inn sérákvæði sem takmarka uppbyggingu hótela og gististaða í miðborgarkjarna M1a. Var bætt inn ákvæði um að á svæðinu megi ekki breyta núverandi húsnæði, s.s. skrifstofuhúsnæði, íbúðum og verslunarhúsnæði, í gististarfsemi. Mögulegt sé að skilgreina gististarfsemi sem ákveðið hlutfall starfsemi nýrrar uppbyggingar að undangenginni deiliskipulagsgerð svo lengi sem hún skerði ekki gæði, stærð eða magn núverandi húsnæðis. Var tilgangurinn með breytingunni sá að tryggja að íbúðarbyggð í miðborgarkjarna héldist óbreytt og yrði aðeins að takmörkuðu leyti nýtt undir gististarfsemi. Í greinargerð aðalskipulagsins segir um svæðið að íbúðir skuli almennt vera til heilsársbúsetu en hægt sé að heimila í deiliskipulagi íbúðarhúsnæði sem sérstaklega væri ætlað til útleigu fyrir ferðamenn.

Svæði M1c er skilgreint sem blönduð miðborgarbyggð, þar sem lögð sé áhersla á að vernda og styrkja íbúðarbyggð og hverfisanda en efla um leið verslunar-, atvinnu- og þjónustustarfsemi sem falli að íbúðarsvæðum. Hlutfall íbúðarhúsnæðis skuli vera að lágmarki 40% landnotkunar á svæðinu. Íbúðir skuli almennt vera til heilsársbúsetu en í deiliskipulagi sé þó hægt að heimila íbúðarhúsnæði sem sérstaklega sé ætlað til útleigu fyrir ferðamenn.

Deiliskipulag umrædds svæðis er frá árinu 1999, en breyting er lýtur að deiliskipulagi staðgreinireits 1.173.0, er markast af Laugavegi, Frakkastíg, Hverfisgötu og Vitastíg, tók gildi 3. febrúar 2016. Í greinargerð umræddrar breytingar er m.a. tekið fram að lögð sé áhersla á að styrkja íbúðarbyggð og hverfisanda en um leið að efla verslunar-, atvinnu- og þjónustustarfsemi sem falli að íbúðarbyggð. Hlutfall íbúðarhúsnæðis skuli vera að lágmarki 40% landnotkunar á svæðinu og skuli íbúðir almennt vera til heilsársbúsetu. Um fasteign kæranda er tekið fram að gert sé ráð fyrir verslun og þjónustu á jarðhæð, verslun, þjónustu og skrifstofum á 2. hæð og að skrifstofurými á 3. og 4. hæð víki fyrir íbúðum en ný inndregin þakhæð (5. hæð) muni hýsa íbúðir. Gert sé ráð fyrir að allar íbúðir verði í langtímaleigu.

Í gr. 5.3.2. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 kemur fram að heimilt sé að skilgreina landnotkun og takmarkanir á henni þrengra í deiliskipulagi en gert sé í aðalskipulagi og kveða á um mismunandi notkun og tegund starfsemi á einstökum lóðum, lóðarhlutum eða byggingarhlutum.

Framangreind deiliskipulagsbreyting var unnin í samráði við kæranda og er sérstaklega tekið fram í skilmálum með henni að umræddar íbúðir skuli vera til langtímaleigu. Umsókn kæranda um skammtímaleigu íbúðanna var synjað með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa, þar sem fram kemur að í umsókninni felist beiðni um breytta notkun á umræddum íbúðum og þar með breyting frá gildandi skilmálum deiliskipulags. Hafi heimild til deiliskipulagsbreytingarinnar m.a. verið veitt á grundvelli þess að aukið byggingarmagn og breytt starfsemi myndi fjölga íbúðum í miðborg Reykjavíkur í samræmi við stefnu aðalskipulags um fjölgun íbúða á svæðinu. Samkvæmt framangreindu lágu því skipulagsrök að baki hinni kærðu ákvörðun og er hún jafnframt í samræmi við stefnu aðalskipulags fyrir umrætt svæði. Breytir misvísun í texta deiliskipulags varðandi landnotkun fyrir svæðið ekki þeirri niðurstöðu.

Með vísan til þess sem að framan er rakið er hin kærða ákvörðun ekki haldin ágöllum sem áhrif geta haft á gildi hennar og verður ógildingarkröfu kæranda því hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um að fella úr gildi ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 28. september 2017 um að synja umsókn um breytingu á deiliskipulagi vegna lóðar nr. 59 við Laugaveg í Reykjavík.

57/2018 Hvalárvirkjun

Með

Árið 2018, föstudaginn 16. nóvember, tók Nanna Magnadóttir, forstöðumaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 57/2018, kæra á ákvörðun hreppsnefndar Árneshrepps frá 30. september 2018 um að samþykkja deiliskipulag fyrir Hvalárvirkjun í Ófeigsfirði.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 17. apríl 2018, er barst nefndinni 20. s.m., framsendir samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið kæru eiganda Dröngum í Árneshreppi, dags. 13. mars 2018, að því er varðar þá ákvörðun hreppsnefndar Árneshrepps frá 30. janúar 2018 að samþykkja tillögu að deiliskipulagi Hvalárvirkjunar. Tillagan var lagfærð og samþykkti hreppsnefndin deiliskipulag fyrir Hvalárvirkjun í Ófeigsfirði 30. september 2018. Verður að líta svo á að sú ákvörðun sé kærð í máli þessu. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 26. október 2018, er barst nefndinni sama dag, kæra nánar tilgreindir landeigendur að Seljanesi og við Ingólfsfjörð sömu ákvörðun hreppsnefndar Árneshrepps frá 30. september 2018 um að samþykkja deiliskipulag fyrir Hvalárvirkjun í Ófeigsfirði. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Þar sem um sömu ákvörðun er að ræða og hagsmunir kærenda standa því ekki í vegi verður síðara kærumálið, sem er nr. 129/2018, sameinað kærumáli þessu.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Árneshreppi 30. apríl og 16. nóvember 2018.

Málsatvik og rök:
Á fundi hreppsnefndar Árneshrepps 15. ágúst 2017 var samþykkt að auglýsa deiliskipulagstillögu ásamt umhverfisskýrslu fyrir Hvalárvirkjun. Var tillagan auglýst frá 1. september til 16. október 2017 og var athugasemdafrestur gefinn til sama tíma. Á fundi hreppsnefndar Árneshrepps 30. janúar 2018 var samþykkt með breytingum tillaga að deiliskipulagi fyrir Hvalárvirkjun og tekin afstaða til þeirra athugasemda sem borist höfðu á athugasemdatíma. Tillagan mun hafa sætt lagfæringum og á fundi hreppsnefndarinnar 30. september 2018 var deiliskipulag fyrir Hvalárvirkjun ásamt umhverfisskýrslu samþykkt. Auglýsing um gildistöku deiliskipulagsins birtist í B-deild Stjórnartíðinda 18. október s.á.

Kærendur byggja á því að hið kærða deiliskipulag og afgreiðsla þess sé haldið verulegum form- og efnisannmörkum sem leiði til þess að samþykkt þess af hálfu hreppsnefndar Árneshrepps sé ógild eða ógildanleg.

Af hálfu Árneshrepps er bent á að auglýsing um gildistöku deiliskipulagsins hafi verið birt í B-deild Stjórnartíðinda 18. október 2018 eða einu ári og tveimur dögum eftir að athugasemdafresti við deiliskipulagstillöguna hafi lokið. Þótt dráttur á auglýsingu skipulags um tvo daga fram yfir ársfrest 2. mgr. 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 virðist lítilsháttar formgalli þá verði að telja að í greininni felist afdráttarlaus afstaða löggjafans um að þessi ágalli leiði til ógildis deiliskipulags. Af hálfu Árneshrepps hafi því verið tekin ákvörðun um að endurtaka málsmeðferð um deiliskipulagstillöguna, sbr. ákvörðun hreppsnefndar, dags. 1. nóvember 2018. Líti hreppurinn ekki svo á að deiliskipulagið sé gilt og geti því ekki verið til staðar lögvarðir hagsmunir af því að kæra skipulagsákvörðunina. Geri Árneshreppur því þá kröfu að kærunni verði vísað frá úrskurðarnefndinni.

Niðurstaða:
Í máli þessu er deilt um ákvörðun hreppsnefndar Árneshrepps frá 30. september 2018 um að samþykkja deiliskipulag fyrir Hvalárvirkjun við Ófeigsfjörð.

Í 2. mgr. 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 kemur fram að hafi auglýsing um samþykkt deiliskipulag ekki verið birt í B-deild Stjórnartíðinda innan árs frá því að athugasemdafresti til deiliskipulagsins lauk telst deiliskipulags ógilt og fer þá um það í samræmi við 41. gr. Athugasemdafresti vegna hins kærða deiliskipulags lauk 16. október 2017 og birtist auglýsing um samþykkt þess í B-deild Stjórnartíðina 18. október 2018, eða rúmu ári eftir að athugasemdafresti lauk. Er ljóst með vísan til þess sem rakið hefur verið að hin kærða ákvörðun var ógild þegar auglýsing um hana var birt í B-deild Stjórnartíðinda og öðlaðist deiliskipulagið ekki gildi við birtinguna. Liggur því ekki fyrir í málinu gild ákvörðun er réttarverkan hefur að lögum og sætt getur kæru til úrskurðarnefndarinnar. Verður máli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni, enda hafa kærendur hafa ekki lögvarða hagsmuni af úrlausn þess.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

37/2017 Heysholt

Með

Árið 2018, fimmtudaginn 8. nóvember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 37/2017, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Rangárþings ytra frá 12. október 2016 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi fyrir Heysholt.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags 21. mars 2017, er barst nefndinni 27. s.m., kæra eigandi Heimalands, eigandi Lækjarbotnum, eigandi Flagbjarnarholti, eigandi Svörtulofta 1 og eigandi Svörtulofta 2, þá ákvörðun sveitarstjórnar Rangárþings ytra frá 12. október 2016 að samþykkja deiliskipulagsbreytingu fyrir Heysholt. Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Rangárþingi ytra 24. ágúst 2018.

Málsatvik og rök:
Bújörðin Heysholt í Rangárþyngi ytra er 52,5 ha að stærð samkvæmt upplýsingum úr fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands. Með breytingu síðla árs 2011 á Aðalskipulagi Rangárþings ytra 2010-2022 var um 18 ha svæði úr jörðinni breytt í svæði fyrir frístundabyggð og um 7 ha svæði breytt í svæði fyrir verslun- og þjónustu, sem tengjast myndi ferðaþjónustu. Hinn 7. júní 2013 tók gildi deiliskipulag fyrir land Heysholts með birtingu auglýsingar þar um í B-deild Stjórnartíðinda. Deiliskipulagssvæðið er syðst í landi Heysholts og er hverfisvernd á mýri norðan við svæðið. Svæðið er u.þ.b. 25 ha að stærð og tók deiliskipulagið til frístundabyggðar með 24 lóðum og 48 byggingum og verslun og þjónustu á tveimur lóðum með tveimur byggingum þar sem önnur þeirra lóða átti að vera til framtíðarþarfa svæðisins. Vestast á deiliskipulagssvæðinu var gert ráð fyrir svæði til mögulegrar stækkunar frístundarbyggðarinnar til framtíðar.

Á árinu 2016 var af hálfu landeiganda Heysholts lögð til breyting á deiliskipulaginu. Í stað einnar lóðar undir þyrpingu frístundahúsa og lóðar undir þjónustuhús var ætlunin að sameina þær lóðir í eina þar sem gert væri ráð fyrir hótelbyggingu. Tillaga að deiliskipulagsbreytingu þess efnis var auglýst í Lögbirtingablaðinu 3. ágúst 2016 og í svæðisblaðinu Búkollu 4.-10. s.m. með athugasemdafresti til 15. september s.á. Mun auglýsing einnig hafa verið birt í Morgunblaðinu. Deiliskipulagsbreytingin var samþykkt í sveitarstjórn Rangárþings ytra 12. október 2016 og tók hún gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 27. desember s.á. Í febrúar 2017 sendi hópur landeigenda, þ. á m. kærendur, bréf til sveitarstjórnar þar sem deiliskipulagsbreytingunni var mótmælt, en þeir höfðu ekki sent athugasemdir við tillöguna á kynningartíma. Á fundi skipulags- og umferðarnefndar 6. mars s.á. voru framkomnar athugasemdir til umræðu og var bókað að breyting hefði verið gerð á aðalskipulagi Rangárþings ytra í nóvember 2011, þar sem skilgreiningu á landnotkun á umræddu svæði hefði verið breytt í verslun og þjónustu. Skipulagsnefnd áréttaði að allra krafna um kynningu tillögunnar hefði verið gætt í auglýsingarferli hennar og að nefndin hefði ekki talið ástæðu til frekari kynninga en lögbundnar væru. Afstaða skipulagsnefndar var staðfest af sveitarstjórn á fundi hennar 8. s.m. Var landeigendum svarað af skipulags- og byggingarfulltrúa Rangárþings ytra 14. mars 2017 og vísaði hann til framangreindrar afgreiðslu skipulagsnefndar og sveitarstjórnar. Í svari fulltrúans sagði einnig orðrétt „[a]ð gefnu tilefni vil ég benda á að kannað verði hvort hægt sé að kæra samþykkt sveitarstjórnar til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála“.

Kærendur byggja á því að deiliskipulagsbreytingin hafi ekki verið auglýst með áberandi hætti og því hafi deiliskipulagið komið þeim í opna skjöldu. Hvorki hafi verið sent út dreifibréf né haldinn íbúafundur þótt ljóst væri að um umfangsmiklar framkvæmdir væri að ræða í miðju sveitahéraði. Nágrönnum hafi ekki verið kynnt efni hennar, líkt og kveðið sé á um að eigi að gera í gr. 5.2.1 og 5.2.4 í skipulagsreglugerð nr. 90/2013. Að auki hafi hvorki sveitarfélagið né leyfishafi brugðist við athugasemdum sem borist hefðu frá Umhverfisstofnun varðandi framkvæmdina.

Af hálfu Rangárþings ytra er tekið fram að gætt hafi verið að öllum kröfum um kynningu tillögunnar í auglýsingarferli hennar og að ekki hafi verið talin þörf á frekari kynningum umfram það sem kveðið sé á um í skipulagslögum nr. 123/2010. Að öðru leyti taki sveitarfélagið undir sjónarmið leyfishafa.

Af hálfu leyfishafa er vísað til þess að skv. 38. og 43. gr. skipulagslaga beri sveitarstjórn ábyrgð á gerð og afgreiðslu deiliskipulags og deiliskipulagsbreytingum. Því svari sveitarstjórn Rangárþings ytra fyrir deiliskipulag Heysholts en ekki leyfishafi. Að auki bendi leyfishafi á að kæra hafi borist úrskurðarnefndinni þegar meira en mánuður var liðinn frá því að deiliskipulagsbreytingin sætti opinberri birtingu í B-deild Stjórnartíðinda og því hafi kærufrestur verið liðinn þegar kæra barst, sbr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Niðurstaða:
Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærufrestur til nefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um þá ákvörðun sem kæra lýtur að. Sé um að ræða ákvörðun sem sætir opinberri birtingu telst kærufrestur frá birtingu ákvörðunar. Í 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er fjallað um áhrif þess að kæra berst að liðnum kærufresti. Ber þá samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins að vísa kæru frá nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til efnismeðferðar.

Svo sem fram kemur í málavaxtalýsingu var tillaga að hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu auglýst í fjölmiðlum í samræmi við 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og síðan birt í B-deild Stjórnartíðinda 27. desember 2016. Samkvæmt 1. mgr. 8. gr. og 2. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga tók kærufrestur því að líða degi síðar, eða hinn 28. s.m., en frá þeim degi mátti kærendum vera kunnugt um hina kærðu deiliskipulagsákvörðun. Þrátt fyrir það aðhöfðust kærendur ekki í málinu fyrr en með bréfi til sveitarstjórnar, dags. 27. febrúar 2017, og var þá þegar um mánuður liðinn frá lokum kærufrests. Var þeim þá bent á að kanna möguleika á kæru til úrskurðarnefndarinnar og kærðu þeir til hennar stuttu síðar. Það verður þó ekki fram hjá því litið að kæra í málinu barst hins vegar ekki úrskurðarnefndinni fyrr en um tveimur mánuðum eftir að kærufresti lauk, eða 27. mars 2017. Að því virtu verður ekki hjá því komist að vísa kærumáli þessu frá úrskurðarnefndinni samkvæmt fyrirmælum 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna verulegra tafa við gagnaöflun, sem og vegna mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.