Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

3/2011 Úrskurður vegna kæru Margrétar Hallgrímsdóttur og Jónasar Páls Þorlákssonar gegn Akraneskaupstað vegna afturköllunar leyfis kærenda til hundahalds í kaupstaðnum.

Með

Mál nr. 3/2011 endurupptekið. Úrskurðarnefnd skv. 31. gr. laga nr. 7/1998.

Ár 2011, föstudaginn 9. september, kom úrskurðarnefnd skv. 31. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998 saman til fundar á skrifstofu formanns nefndarinnar að Lágmúla 7 í Reykjavík. Mætt voru Steinunn Guðbjartsdóttir, Gunnar Eydal og Arndís Soffía Sigurðardóttir.

Fyrir var tekið mál nr. 3/2011 Margrét Hallgrímsdóttir og Jónas Páll Þorláksson, bæði til heimilis að Jaðarsbraut 15, Akranesi gegn Akraneskaupstað.

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

I. Aðild kærumáls og kröfur

Með stjórnsýslukæru, dags. 25. febrúar 2011, kærðu Margrét Hallgrímsdóttir og Jónas Páll Þorláksson (hér eftir nefnd kærendur) ákvörðun Akraneskaupstaðar (hér eftir nefndur kærði) frá 15. febrúar 2011, sem tilkynnt var með bréfi, dags. 21. febrúar 2011, þess efnis að ekki væri tilefni til að endurskoða ákvörðun kaupstaðarins frá 23. ágúst 2010 um afturköllun leyfis kærenda til hundahalds í kaupstaðnum og því skyldi sú ákvörðun standa óhögguð.

II. Málmeðferð

Kæra málsins er dagsett 25. febrúar 2011 og byggir hún á kæruheimild í 31. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998. Í kæru var jafnframt sett fram krafa um frestun réttaráhrifa hinnar kærðu ákvörðunar. Úrskurðarnefndin kynnti kærða framkomna kæru með bréfi, dags. 9. mars 2011. Óskaði úrskurðarnefndin í því bréfi hvort tveggja eftir greinargerð kærða í málinu og afstöðu hans til beiðni kærenda um frestun réttaráhrifa. Kærði gerði grein fyrir sjónarmiðum sínum til beiðni um frestun réttaráhrifa með tölvupósti þann 14. mars 2011 og hafnaði þar þeirri beiðni. Þann 24. mars 2011 kvað úrskurðarnefndin upp úrskurð um að fresta skyldi réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar. Þann 29. mars 2011 bárust úrskurðarnefndinni gögn frá kærða er varða málið. Með bréfi, dags. 7. apríl 2011, fór úrskurðarnefndin þess ítrekað á leit við kærða að hann sendi úrskurðarnefndinni greinargerð þar sem gerð væri grein fyrir sjónarmiðum hans í málinu. Greinargerð kærða, dags. 20. apríl 2011, barst úrskurðarnefndinni og var hún send kærendum til kynningar með bréfi, dags. 28. apríl 2011. Athugasemdir kærenda við greinargerð kærða bárust úrskurðarnefndinni þann 13. maí 2011 og voru kynntar kærða með bréfi, dags. sama dag. Viðbótargreinargerð barst frá kærða þann 31. maí 2011 og var hún kynnt kærendum með bréfi, dags. 7. júní 2011. Þann 20. júlí 2011 var kveðinn upp efnislegur úrskurður í málinu, en þann 10. ágúst 2011 kom í ljós að athugasemdir kærenda dags. 20. júní 2011 höfðu misfarist og ekki legið fyrir úrskurðarnefndinni er úrskurðurinn var kveðinn upp. Af þeim sökum ákvað úrskurðarnefndin að endurupptaka málið. Voru athugasemdir kærenda frá 20. júní 2011 kynntar kærða með bréfi, dags. 16. ágúst 2011 og þann 25. ágúst 2011 bárust upplýsingar ásamt athugasemdum frá kærða, dags. 23. ágúst 2011. Athugasemdir kærða voru kynntar kærendum með bréfi, dags. 25. ágúst 2011 og þann 5. september 2011 bárust enn frekari athugasemdir frá þeim.

III. Málsatvik

Samkvæmt gögnum málsins var kærendum, í júlí 2007, veitt leyfi, nr. 137, fyrir hundi af tegundinni French Mastiff í Akraneskaupstað. Með bréfi, dags. 23. ágúst 2010, var leyfið hins vegar afturkallað á þeirri forsendu að um ítrekuð brot á samþykkt um hundahald á Akranesi væri að ræða og farið fram á að kærendur annað hvort fjarlægðu hundinn úr kaupstaðnum eða létu aflífa hann. Áður hafði kærendum verið sent bréf, dags. 4. maí 2010, þar sem þeim var tilkynnt að formleg kvörtun hefði borist vegna hundsins sem umrætt leyfi var fyrir. Í bréfinu var þess óskað að kærendur gerðu ráðstafanir til að fyrirbyggja að slík tilvik gerðust aftur. Í tilefni af afturköllun leyfis til hundahalds sendu kærendur bréf til kærða, dags. 2. september 2010, þar sem gerð var grein fyrir sjónarmiðum þeirra og óskað eftir endurskoðun ákvörðunar kærða um afturköllun leyfis til hundahalds. Á fundi framkvæmdaráðs kærða þann 21. september 2010 staðfesti framkvæmdaráðið afturköllun leyfisins. Var kærendum kynnt sú ákvörðun með bréfi framkvæmdastjóra framkvæmdastofu kærða, dags. 22. september 2010. Var þess og krafist í bréfinu að umræddur hundur yrði fjarlægður úr bæjarfélaginu innan 10 daga frá dagsetningu þess. Kærendur sendu kærða tölvupóst þann 30. september 2010 þar sem þau kröfðust þess að ákvörðun kærða um afturköllun leyfis til hundahalds yrði afturkölluð á þeim grundvelli að brotið hefði verið gegn ákvæðum stjórnsýslulaga við töku ákvörðunarinnar og að á henni væru verulegir form- og efnisannmarkar. Með bréfi, dags. 13. desember 2010, gerði kærði kærendum grein fyrir að þó kærði gæti ekki fallist á staðhæfingar kærenda um brot á stjórnsýslulögum, væri þeim gefinn kostur á að koma að upplýsingum og gögnum sem leitt gætu til endurupptöku málsins. Var kærendum veittur frestur í þessu skyni til 21. desember 2010, en með bréfi, dags. 22. desember 2010, framlengdi kærði frest kærenda til 3. janúar 2011. Í millitíðinni, þ.e. milli þess að kærendur sendu áðurnefndan tölvupóst 30. september 2010 og áður en kærði veitti þeim frest til gagnaframlagningar vegna hugsanlegrar endurupptöku, sendi kærði kærendum bréf, dags. 18. október 2010, til áminningar um ógreitt hundaleyfisgjald fyrir árið 2010, svo og bréf, dags. 3. desember 2010 vegna ormahreinsunar. Þann 3. janúar 2011 sendu kærendur kærða tölvupóst þar sem þau óskuðu eftir að fá annað tækifæri til að hafa hundinn. Kærði svaraði kærendum með bréfi, dags. 5. janúar 2011, og í því bréfi segir að samkvæmt mati kærða hafi engar upplýsingar eða gögn komið fram í málinu sem gefi tilefni til endurupptöku þess og því skuli ákvörðun um afturköllun leyfis til hundahalds standa óröskuð. Eftir að hafa leitað til bæjarstjóra kærða skutu kærendur málinu til framkvæmdaráðs kærða með tölvupósti, dags. 30. janúar 2011, þar sem þau gerðu grein fyrir sjónarmiðum sínum í málinu. Málið var í framhaldinu tekið fyrir á fundi framkvæmdaráðs kærða þann 15. febrúar 2011, sem synjaði um endurupptöku málsins og staðfesti afturköllun leyfis kærenda til hundahalds í Akraneskaupstað. Var kærendum kynnt sú ákvörðun með bréfi, dags. 21. febrúar 2011, og þeim veittur sjö daga frestur til að fjarlægja umræddan hund úr Akraneskaupstað. Meðal gagna málsins liggja fyrir útprentanir úr dagbók lögreglustjórans á Akranesi, dags. 20. janúar og 1. febrúar 2009, svo og 8. apríl og 9. ágúst 2010, sem bera með sér að leitað hafi verið til lögreglu vegna hunds kærenda máls þessa. Samkvæmt dagbók lögreglu var henni tilkynnt þann 20. janúar 2009 að deginum áður hefði hundur kærenda ráðist á mann við Innri Hólm, bitið í föt hans og rifið gat á úlpu. Kvaðst sá sem varð fyrir árás hundsins hafa náð að verjast hundinum, slá hann frá sér og forða sér inn í bíl. Þá var hringt til lögreglu þann 1. febrúar 2009 og tilkynnt um að er hjón hafi verið að ganga Jaðarsbraut á móts við hús nr. 15 hafi komið æðandi að þeim hundur, sem var laus og varð fólkið mjög hrætt. Þann 8. apríl 2010 tilkynnti íbúi, sem býr í sama húsi og kærendur, til lögreglu að hundur þeirra hefði bitið hana. Kvaðst íbúinn hafa verið að fara út með rusl og gengið fyrir horn þegar hundurinn, sem þá var bundinn í garðinum, hafi allt í einu stokkið á hana og bitið hana í hægri höndina svo hún hlaut sár af. Jafnframt tilkynnti nágranninn um að hundurinn væri oft geymdur í sameign hússins, þangað sem hún þyrfti að geta komist en þyrði ekki vegna hans. Í fjórðu dagbókarfræslunni kemur fram að tilkynnt hafi verið um að hundur kærenda hafi glefað í 9 ára stúlku þegar hún hafi verið að fara heim með tveggja ára gamlan son kærenda eftir að hafa verið að leika við hann. Kvað stúlkan að hundurinn hefði verið í bandi er hann glefsaði í hana.

IV. Málstæður og rök kærenda

Kærendur kveða að framkvæmdastjóri framkvæmdastofu kærða hafi í bréfi, dags. 21. febrúar 2011, tekið þá ákvörðun að þau skyldu fjarlægja hund þeirra úr kaupstaðnum innan sjö daga. Segja þau ákvörðunina vera löglausa og halda því fram í greinargerð sinni að um geðþóttaákvörðun starfsmanns kærða sé að ræða. Þá segja kærendur að þeim hafi verið tilkynnt um sams konar ákvörðun 23. ágúst 2010. Þau hafi mótmælt henni og í kjölfarið hafi ákvörðuninni ekki verið fylgt eftir. Halda kærendur því fram að ákvörðunin hafi því verið felld niður og að niðurfellingin hafi verið staðfest með bréfum kærða, dags. 18. október 2010, þar sem rukkað var fyrir hundaleyfisgjald og 3. desember 2010, þar sem gerð var krafa um ormahreinsunarvottorð. Kveða kærendur þessar kröfur kærða vera í mótsögn við það að leyfi þeirra til hundahalds hafi verið afturkallað og halda því fram að þar með hafi ákvörðunin um afturköllun leyfis til hundahalds verið felld niður og að ekki sé hægt að endurupptaka hana nema að uppfylltum skilyrðum stjórnsýslulaga, sem ekki hafi verið gert. Kærendur halda því einnig fram að kærði hafi brotið allar form- og efnisreglur stjórnsýslulaga við málsmeðferðina. Kveðast þau aldrei hafa fengið tilkynningar um kvartanir, þau hafi engan andmælarétt fengið, kærði hafi ekki rannsakað málið og meðalhófs hafi ekki verið gætt. Því sé um löglausa ákvörðun að ræða. Benda kærendur á að engar nýjar kvartanir hafi borist vegna hundsins og kveðast þau telja að engin málefnalega rök séu fyrir nýrri ákvörðun kærða um afturköllun hundaleyfis eftir niðurfellingu fyrri ákvörðunarinnar. Í athugasemdum kærenda sem bárust í kjölfar greinargerðar kærða í málinu segir að kærði hafi þann 23. ágúst 2010 tekið stjórnvaldsákvörðun og afturkallað leyfi þeirra til hundahalds, án þess að þeim hafi verið veitt tækifæri til að gæta andmælaréttar. Enn fremur hafi rannsóknarreglan verið brotin, svo og meðalhófsreglan. Halda þau því fram að brot á slíkum grundvallarreglum stjórnsýsluréttar eigi að leiða til þess að stjórnvaldsákvörðunin sé ógild. Þá halda kærendur því fram að eftir að stjórnvaldsákvörðun hafi verið tekin sé ekki hægt að lagfæra galla á ákvörðuninni með því að veita andmælarétt eftir á. Segja kærendur að svo virðist sem kærði rugli saman andmælarétti annars vegar og skilyrðum fyrir endurupptöku og afturköllun ákvörðunar hins vegar. Með bréfi, dags. 13. desember 2010, hafi kærði veitt kærendum færi á að ?koma að upplýsingum og gögnum sem þú kannt að búa yfir og ekki lágu fyrir þegar umrædd ákvörðun um afturköllun hundahalds var tekin og eiga eða geta, að þínu mati, leitt til þess að rétt sé að endurupptaka málið, sbr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.? Halda kærendur því fram að í þessari fullyrðingu liggi grundvallarmisskilningur á stjórnsýslureglum. Ef ákvörðun sé tekin án þess að gætt sé málsmeðferðarreglna, líkt og andmælaréttar, sé ákvörðun ógildanleg skv. 25. gr. stjórnsýslulaga. Við þær aðstæður beri stjórnvaldi að afturkalla ákvörðun sína. Kveða kærendur að sú regla gangi framar reglum um endurupptöku og að stjórnvald geti ekki lagfært ákvörðun sína með því að veita ?andmælarétt? eftir að ákvörðun hafi verið tekin. Halda kærendur því fram að borgarar þurfi ekki að sæta því að stjórnvaldsákvörðun sé tekin án þess að form- eða efnisreglum stjórnsýslulaga sé fylgt, og sanna svo fyrir stjórnvaldinu að skilyrði fyrir endurupptöku samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga séu uppfyllt. Kærendur segja að kærði hafi hvorki afturkallað né endurupptekið ákvörðun sína frá 23. ágúst 2010 og að erfitt sé að staðsetja stjórnsýslulega þá málsmeðferð sem fram hafi farið af hálfu kærða eftir að ákvörðunin var tekin. Halda kærendur því fram að í málsmeðferðinni hafi ekki falist endurupptaka, ekki afturköllun og ekki veiting andmælaréttar. Annmarkar sem hafi verið á ákvörðuninni frá 23. ágúst 2010 hafi því ekki verið lagfærðir og þar af leiðandi beri að fella ákvörðunina úr gildi. Kærendur mótmæla því sem haldið er fram af hálfu kærða að þau hafi ekki gripið til ráðstafana vegna hundsins og benda á að frá því ákvörðunin var tekin í ágúst 2010 hafi engin kvörtun borist vegna hundsins og halda þau því fram að efnisleg skilyrði fyrir sviptingu leyfisins séu því ekki til staðar. Jafnframt benda þau á að hundurinn hafi aldrei sýnt merki þess að eitthvað væri að honum, heldur sé um varðhund að ræða og sé eðli hans að verja heimili sitt og fjölskyldu. Að auki kveða kærendur að hundurinn hafi engan bitið alvarlega og hafi auk þess róast mjög mikið. Í athugasemdum kærenda við viðbótargreinargerð kærða kveða kærendur það vera rangt, sem kærði haldi fram, að þau hafi ekki gripið til nauðsynlegra ráðstafana til að fyrirbyggja atvik eins og það sem tilkynnt var til lögreglu í apríl 2010. Kveðast kærendur í kjölfar þess atburðar hafa flutt hundinn úr herbergi tengdu þvottahúsi í sameign hússins upp í íbúð þeirra og því þurfi íbúi á neðri hæð ekki að hitta hundinn. Einnig kveðast kærendur hafa flutt keðju sem hundurinn sé bundinn með baka til þar sem enginn umgangur eigi að vera. Þá kveðast kærendur hafa upplýst kærða um þessar ráðstafanir með því að hafa sagt hundaeftirlitsmanni kaupstaðarins frá þeim þegar eftirlitsmaðurinn og annar kærenda tóku tal saman fyrir utan heimili kærenda. Kveða kærendur að í því samtali hafi komið fram að þar sem hundurinn væri kominn upp í íbúð þeirra og búið að færa keðju hans væru allir sáttir og málið leyst. Varðandi atvikið sem tilkynnt var til lögreglu í apríl 2010, kveða kærendur það ofaukið að tala um að hundurinn hafi bitið nágrannakonuna frekar hafi verið um glefs að ræða. Lýsa þau atvikum með eftirfarandi hætti: ?… þá var myrkur úti og hundurinn bundinn og Margrét var úti með honum. Konan á neðri hæðinni var að fara út með ruslið og kemur snögglega fyrir húshornið þar sem við stóðum og bregður okkur öllum og voru þetta greinilega ósjálfráð viðbrögð hans en ekki gert af grimmd, því að hundurinn bakkaði strax og skammaðist sín mjög.? Varðandi atvikið þegar hundurinn glefsaði í barn í ágúst 2010 segjast kærendur hafa beðið viðkomandi barn um að láta hundinn í friði þegar hann væri úti í garði því að hann væri af varðhundakyni og væri alltaf ?í vinnunni við að passa garðinn?. Þau kveðast oft hafa þurft að stoppa stúlkuna af í því að atast í hundinum þrátt fyrir ítrekaðar áminningar um að láta hann vera. Síðan segir: ?… þá 9. ágúst kemur Villa bakvið hús og sér þar sem sonur okkar sem er 3 ára er að leika við hundinn og kemur inn að hundinum þar sem þeir voru að leika og ætlar að taka strákinn upp, hundinum lýst illa á það og geltir á hana og ýtir henni frá með hausnum og narrar með framtönnunum í mjöðmina á henni þar sem hann var að ýta og hún fær marblett.? Þá taka kærendur fram að það hafi aldrei staðið á þeim að vilja bæta úr því sem hafi verið ábótavant, en geta þess jafnframt að allt kosti fjármuni og verði kærði að átta sig á því að þau hafi ekki farið út í framkvæmdir eins og að girða í kringum húsið eftir að búið hafi verið að afturkalla leyfi þeirra til hundahalds. Í athugasemdum sem bárust frá kærendum 5. september 2011 ítreka þau að þau hafi alltaf verið tilbúin til að fara út í hvaða framkvæmdir sem væri til að fá leyfi til hundahalds aftur. Halda þau því fram að þau séu ítrekað búin að bjóðast til að gera ráðstafanir, eins og að smíða grindverk í kringum húsið eða setja múl á hundinn, en slíkt hafi verið hunsað og þar sem slíkar framkvæmdir kosti peninga muni þau ekki framkvæma þær fyrr en þau hafi fengið leyfi fyrir hundinum á ný. Þá segir í athugasemdunum að fyrrum framkvæmdastjóri framkvæmdasviðs kærða hafi viljað láta mál þeirra kyrrt liggja og ekki hafa meiri samkipti vegna þess heldur sent ítrekanir og rukkanir um ormahreinsun og hundaleyfisgjald. Þrír mánuðir hafi liðið og enginn haft samband eða fylgt ákvörðuninni um afturköllun leyfis þeirra til hundahalds. Þegar annar kærenda hafi ætlað að inna framkvæmdastjórann um svar hafi þeim sinnast og halda kærendur því fram að þá hafi framkvæmdastjórinn sagt að þau hafi átt á líta á það sem tækifæri að fara með hundinn í ormahreinsun og borga hundaleyfisgjaldið en nú ætli hann að setja það í flýtimeðferð að koma hundinum burtu. Enn fremur kveða kærendur að það sé grátlegt að hundurinn skuli vera látinn gjalda fyrir framangreint ósætti með lífi sínu. Hægt sé að leyfa hundinum að lifa, hann sé orðinn 5 ára gamall og hafi róast mikið, enginn hafi kvartað undan honum í eitt og hálft ár, hann sé aldrei einn úti í keðju, kærendur telji sig vera búna að taka málið föstun tökum og að ekki stafi meiri ógn af hundinum.

V. Málsástæður og rök kærða

Í greinargerð kærða er gerð grein fyrir því að kærendum hafi þann 4. maí 2010 verið tilkynnt um formlega kvörtun sem borist hefði vegna hunds þeirra. Samkvæmt kvörtuninni hefði hundurinn bitið íbúa á neðri hæð hússins sem kærendur búi í, auk þess sem kvartað hefði verið yfir því að hundurinn væri geymdur í sameiginlegu rými í húsinu þannig að íbúar treystu sér ekki til að nota rýmið. Í bréfinu hafi af hálfu kærða verið óskað eftir að gerðar yrðu viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að slíkt endurtæki sig ekki og jafnframt bent á hugsanlegar afleiðingar af endurteknum brotum. Í byrjun ágúst hafi kærða borist þær upplýsingar að hundurinn hefði bitið barn. Í ljósi alvarleika þess atburðar og þess að um ítrekað brot á samþykkt um hundahald á Akranesi hafi verið að ræða hafi af hálfu framkvæmdastjóra framkvæmdastofu kærða verið ákveðið að afturkalla leyfi kærenda til að halda umræddan hund í kaupstaðnum. Hafi þess verið óskað af hálfu kærða að hundurinn yrði fjarlægður úr kaupstaðnum eða hann aflífaður og hafi kærendum verið gefinn 10 daga frestur til að gera nauðsynlegar ráðstafanir. Svar, dags. 2. september 2010, hafi borist frá kærendum og málið í kjölfar þess verið lagt fyrir framkvæmdaráð kærða til umfjöllunar 21. september 2010. Hafi framkvæmdaráðið ákveðið að staðfesta umrædda ákvörðun framkvæmdastjóra framkvæmdastofu kærða og gert þá kröfu að hundurinn yrði fjarlægður úr bæjarfélaginu eigi síðar en 2. október 2010. Kærði hafi þann 13. desember 2010 ritað kærendum bréf, þar sem tilkynnt var að þrátt fyrir að kærði gæti ekki fallist á staðhæfingar og kröfur kærenda, sem fram komu í tölvupósti 30. september 2010, varðandi meinta annmarka á stjórnsýslulegri meðferð málsins væri þeim veittur frestur til 21. desember 2010 til að koma á framfæri upplýsingum og gögnum sem gætu leitt til þess að málið yrði endurupptekið. Hafi sá frestur kærenda síðar verið framlengdur til 3. janúar 2011. Þann 5. janúar 2011 hafi framkvæmdastjóri framkvæmdastofu kærða ritað kærendum bréf þar sem þeim var tilkynnt að samkvæmt mati kærða hefðu engin gögn eða upplýsingar borist sem gæfu tilefni til endurupptöku málsins. Hafi athygli kærenda í því bréfi verið vakin á rétti þeirra til að fá ákvörðunina endurskoðaða af framkvæmdaráði kærða sem og að kæra hana til úrskurðarnefndar samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir. Á fundi framkvæmdaráðs kærða 15. febrúar 2011 hafi beiðni kærenda frá 30. janúar 2011, um endurskoðun ákvörðunar um afturköllun umrædds leyfis til hundahalds, verið tekin fyrir og ákvörðun um afturköllun leyfis til hundahalds verið staðfest. Þá segir í greinargerðinni að í samþykkt um hundahald á Akranesi sé kveðið á um að sveitarstjórn geti bannað aðila að halda hund ef brotið hafi verið gegn reglum. Það sé mat kærða að samkvæmt fyrirliggjandi gögnum liggi fyrir að hundur sá sem málið varði hafi ítrekað veist að fólki með mjög ógnandi hætti og vakið hjá því mikinn ótta, auk þess sem hann hafi ítrekað bitið eða glefsað til fólks. Þrátt fyrir að kærendur hafi vitað af þessu hafi þau ekki getað gripið til ráðstafana til að tryggja að af hundinum stafaði ekki hætta eða ógn fyrir nágranna sem og aðra íbúa bæjarins. Heldur kærði því fram að um mikla hagsmuni bæjarbúa sé að ræða sem hljóti að vega mjög þungt í málinu, svo og réttur bæjarbúa til að geta dvalist í bænum og farið um hann án þess að þurfa að þola ógn af völdum hunda sem hafi ítrekað sýnt í verki að þeim verði ekki treyst. Segir að samkvæmt mati kærða liggi fyrir að umræddur hundur hafi sýnt af sér slíka háttsemi sem hljóti að leiða til þeirrar ályktunar að honum sé ekki treystandi að þessu leyti og því sé ekki forsvaranlegt að halda hann í þéttbýli. Jafnframt heldur kærði því fram að kærendur hafi ekki sýnt í verki að þau geti tryggt að af hundinum stafi ekki hætta eða ógn fyrir bæjarbúa þó þau hafi fengið mikil og ítrekuð tækifæri til að koma rökum og upplýsingum af sinni hálfu á framfæri við meðferð málsins hjá kærða. Í viðbótargreinargerð kærða er bent á, vegna athugasemda kærenda um að það sé rangt sem haldið var fram af hálfu kærða í greinargerð þess efnis að kærendur hafi ekki gripið til ráðstafana vegna hundsins, að í bréfi kærða til kærenda, dags. 4. maí 2010, hafi verið óskað eftir að gerðar yrðu nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að það yrði ekki endurtekið að hundurinn biti eða ógnaði fólki. Þá hafi þess verið óskað í bréfinu að framkvæmdastofa kærða og hundaeftirlitsmaður yrðu upplýst innan tiltekins tíma í hverju þær ráðstafanir fælust. Síðan segir að ekkert svar hafi borist frá kærendum vegna þessara tilmæla og tekið fram að hafi kærendur gripið til einhverra ráðstafana án þess að upplýsa kærða um í hverju þær væru fólgnar hafi þær ráðstafanir ekki komið í veg fyrir að hundurinn biti barn þann 9. ágúst 2010. Þá er í viðbótargreinargerðinni vísað til tölvupósts kærenda til kærða frá 3. janúar 2011 og því haldið fram að af efni tölvupóstsins megi ráða að kærendur hafi á þeim tíma enn ekki gripið til sérstakra ráðstafana til að tryggja öryggi íbúa gagnvart hundinum. Einnig kemur fram í viðbótargreinargerðinni að kærði telji það ekki nauðsynlegt að fyrir liggi nákvæm vísindaleg greining á því hvaða ástæður liggi að baki þeirri háttsemi hundsins sem leiddi til þeirrar ákvörðunar kærða að afturkalla leyfi kærenda til hundahalds í því skyni að verja aðra íbúa kaupstaðarins fyrir þeirri hættu og ógn sem af honum hafi stafað og stafi. Bent er á að fyrir liggi að hundurinn hafi ítrekað bitið og glefsað til fólks og er því haldið fram að sú háttsemi hundsins og sú staðreynd að hann sé stór leiði eðlilega til þess að hann veki mikinn ótta hjá mörgum íbúum kaupstaðarins. Þá er því haldið fram að mikill skaði geti orðið af biti slíks hunds og sagt að íbúar kaupstaðarins eigi rétt á að bæjaryfirvöld verji þá fyrir þeirri hættu og ógn. Jafnframt segir að það sé vitað og viðurkennt að ef hundur hafi bitið fólk sé mikil hætta á að hann geri það aftur. Í viðbótargreinargerðinni segir jafnframt að það sé rangt sem haldið sé fram af hálfu kærenda að tölvupósti þeirra til kærða, dags. 30. september 2010, hafi ekki verið svarað. Umræddum tölvupósti hafi verið svarað með bréfi framkvæmdastofu kærða, dags. 13. desember 2010. Enn fremur vísar kærði á bug fullyrðingum kærenda þess efnis að stjórnsýsla kærða hafi verið haldinn ýmsum annmörkum í málinu, sem leitt gætu til ógildingar á þeirri ákvörðun kærða að afturkalla leyfi kærenda til að halda umræddan hund í kaupstaðnum. Er því haldið fram að kærendur hafi í ferli málsins fengið full og ítrekuð tækifæri til að koma sjónarmiðum sínum, skýringum og athugasemdum á framfæri við kærða og hafi verið litið til þeirra eigi síður en til annarra gagna málsins við meðferð þess á öllum stigum, undirbúning og töku ákvörðunar. Hafi einhverjir annmarkar verið á stjórnsýslulegri meðferð málsins á einhverju stigi þess hafi verið úr því bætt. Ákvörðun kærða sé byggð á traustum grundvelli sem lagður hafi verið samkvæmt rannsóknarreglu, andmælareglu, meðalhófsreglu og öðrum meginreglum stjórnsýsluréttarins. Þá segir að samkvæmt mati kærða séu alls engin efni til að úrskurðarnefndin hnekki hinni kærðu ákvörðun. Hún byggist á fullnægjandi upplýsingum og gögnum og gildum rökum og sjónarmiðum og sé nauðsynleg til að verja rétt annarra íbúa í kaupstaðnum til að þurfa ekki að búa við hættu og ótta af völdum hunds sem hafi sýnt í verki að óforsvaranlegt og of áhættusamt sé að leyfa að hann verði haldinn innan kaupstaðarins. Í athugasemdum sem bárust frá kærða eftir endurupptöku málsins segir að hundaeftirlitsmaður Akraneskaupstaðar hafni því að hafa samþykkt þær aðgerðir sem kærendur kveðast hafa gripið til og kynnt honum. Þá er áréttað af hálfu kærða að ekkert hafi komið fram sem gefi tilefni til þess að ákvörðun kærða um afturköllun leyfis til hundahalds verði hnekkt og að það sé skylda kærða að verja íbúa kaupstaðarins fyrir hættu af hundum og ótta sem þeir kunni með réttu að vekja hjá þeim. Heldur kærði því fram að hundur kærenda hafi án vafa gefið fullt tilefni til slíks ótta og að mati kærða sé það óásættanlegt að aðrir íbúar þurfi að búa við þá ógn og ótta sem hann valdi. Líta verði til þess að það sé viðurkennt að hafi hundur sýnt af sér ákveðna ógnandi háttsemi þá sé því aldrei að treysta að það endurtaki sig ekki með ófyrirséðum afleiðingum.

VI. Álit og niðurstaða úrskurðarnefndar

Samkvæmt gögnum málsins tilkynnti kærði kærendum um ákvarðanir er vörðuðu leyfi þeirra til hundahalds á Akranesi, með bréfum, dags. 23. ágúst og 22. september 2010, svo og bréfum, dags. 5. janúar og 21. febrúar 2011. Í bréfinu frá 23. ágúst 2010 segir að hundaleyfi kærenda sé afturkallað og farið fram á að þau annað hvort fjarlægi hundinn úr kaupstaðnum eða láti aflífa hann. Var kærendum í bréfinu gefinn 10 daga frestur til að fjarlægja hundinn og skyldi framkvæmdastofa kærða látin vita til hvaða ráðstafana yrði gripið af þeirra hálfu. Í bréfinu frá 22. september 2010 var kærendum tilkynnt um að framkvæmdaráð kærða hefði fjallað um mál þeirra og komist að þeirri niðurstöðu að hundurinn skyldi fjarlægður úr bæjarfélaginu innan 10 daga frá dagsetningu þess bréfs. Í hvorugu þessara bréfa var kærendum leiðbeint um kæruheimild eða kærufrest. Í bréfinu frá 5. janúar 2011 segir að samkvæmt mati kærða hafi engar upplýsingar eða gögn komið fram í málinu sem gefi tilefni til endurupptöku þess samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga. Þá er tekið fram að ákvörðun frá 23. ágúst 2010 um afturköllun leyfis til hundahalds standi óhögguð. Í bréfinu frá 21. febrúar 2011 segir að það sé mat framkvæmdaráðs kærða að ekki hafi komið fram neinar þær upplýsingar sem gefi tilefni til að ákvörðun kærða frá 23. ágúst 2010 verði endurskoðuð og er kærendum tilkynnt að ákvörðun um afturköllum leyfisins standi því óhögguð. Þessi síðari bréf hafa að geyma leiðbeiningar um kæruheimild til úrskurðarnefndar samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, svo og varðandi kærufrest. Í kjölfar ákvörðunarinnar sem kærði kynnti kærendum með bréfi, dags. 21. febrúar 2011, beindu kærendur kæru til úrskurðarnefndar samkvæmt 31. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998. Ákvæði 1. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hefur að geyma almenna reglu um kærufrest, sem á við um kærur til úrskurðarnefndar samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir. Þar er kveðið á um að kæra skuli borin fram innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um stjórnvaldsákvörðun. Ljóst er að ákvarðanir þær sem kærði kynnti kærendum með bréfum, dags. 23. ágúst og 22. september 2010, voru ekki kærðar til úrskurðarnefndarinnar innan hins lögboðna kærufrests. Í 28. gr. stjórnsýslulaga er kveðið á um hvernig fara skuli með kæru sem berst að liðnum kærufresti. Þar segir: ?Hafi kæra borist að liðnum kærufresti skal vísa henni frá, nema: 1. afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, eða 2. veigamiklar ástæður mæla með því að kæran verði tekin til meðferðar. Kæru skal þó ekki sinnt ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila.? Þegar litið er til þess hvernig mál þetta er vaxið og þess að ekki var gætt að leiðbeiningarskyldu um kæruheimild við tilkynningu ákvarðana kærða í bréfum til kærenda, dags. 23. ágúst og 22. september 2010, þykir rétt að víkja frá kærufresti í máli þessu varðandi þær ákvarðanir. Af tölvupósti kærenda til kærða, dags. 30. september 2010, verður á hinn bóginn ráðið að þeim hafi þá verið kunnugt um hina almennu kæruheimild 26. gr. stjórnsýslulaga. Engu að síður þykir rétt, þegar litið er til samskipta málsaðila frá 30. september 2010 og fram að því að kærði tók ákvörðun í málinu í febrúar 2011, sem nánar verður vikið að, að taka allar framangreindar ákvarðanir kærða til úrlausnar í úrskurði þessum og málsmeðferðina í heild sinni. Á árinu 2010 var í gildi samþykkt um hundahald á Akranesi nr. 282/2004. Þar er í 1. gr. kveðið á um að hundahald sé bannað í bænum, en í 2. gr. segir að bæjarstjórn sé heimilt að veita einstaklingum búsettum í bænum undanþágu til hundahalds að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Á grundvelli þessarar heimildar hafði kærendum verið veitt leyfi til að halda hund þann sem mál þetta varðar á Akranesi. Í 2. málslið 3. gr. framangreindrar samþykktar er kveðið á um að sé um alvarlegt eða ítrekað brot á samþykktinni að ræða skuli afturkalla viðkomandi undanþágu til hundahalds. Með bréfi, dags. 4. maí 2010, tilkynnti kærði kærendum að formleg kvörtun hefði borist vegna hunds þeirra. Ber bréfið með sér kvörtunarefni sem tilkynnt var til lögreglu 8. apríl 2010, sbr. framlagt afrit úr dagbók lögreglustjórans á Akranesi. Um er að ræða tilkynningu um að hundurinn hafi bitið konu sem býr í sama húsi og kærendur, svo og að hundurinn sé oft geymdur í sameign hússins þannig að nágranni þori ekki að nýta það rými. Í bréfinu var þess óskað að kærendur gerðu nauðsynlegar ráðstafanir til að fyrirbyggja að slík tilvik kæmu fyrir aftur og tekið fram að yrði um frekari brot að ræða mætti búast við afturköllun leyfis til hundahalds. Samkvæmt gögnum málsins hafði einnig verið tilkynnt til lögreglu um atvik tengd umræddum hundi þann 20. janúar og 1. febrúar 2009. Þann 9. ágúst 2010 barst lögreglu enn á ný tilkynning vegna umrædds hunds og þá þess efnis að hann hefði glefsað í 9 ára gamalt barn. Í framhaldi af þessari tilkynningu til yfirvalda sendi kærði kærendum, þann 23. ágúst 2010, bréf þar sem tilkynnt var um að leyfi þeirra til hundahalds væri afturkallað og farið fram á að hundurinn yrði annað hvort fjarlægður úr kaupstaðnum eða hann aflífaður innan 10 daga frá dagsetningu bréfsins. Kærendur sendu kærða tölvupóst áður en framangreindur 10 daga frestur var liðinn og gerðu þar grein fyrir sjónarmiðum sínum vegna kröfu kærða um að hundurinn yrði fjarlægður úr kaupstaðnum eða aflífaður. Í þeim tölvupósti óskuðu kærendur m.a. eftir að hundinum yrði veitt annað tækifæri. Af hálfu kærða var litið til þeirra athugasemda sem kærendur gerðu grein fyrir í framangreindum tölvupósti og var málið tekið fyrir á fundi framkvæmdaráðs kærða þann 21. september 2010. Þann 22. september 2010 sendi kærði kærendum bréf þar sem gerð var grein fyrir niðurstöðu fundarins þess efnis að framkvæmdaráðið staðfesti afturköllun leyfis þeirra til hundahalds á Akranesi. Það er niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að samkvæmt framangreindu hafi kærendum verið tilkynnt um að mál tengt hundi þeirra væri til meðferðar hjá kærða og þeim verið gefinn kostur á að tjá sig um efni málsins áður en kærði tók endanlega ákvörðun í því og að þar með hafi verið uppfylltar þær skyldur sem lagðar eru á stjórnvöld í 13. gr. stjórnsýslulaga, varðandi andmælarétt og 14. gr. sömu laga varðandi tilkynningu með meðferð máls. Við mat á því hvort gætt hafi verið meðalhófs við ákvarðanatöku kærða, sbr. 12. gr. stjórnsýslulaga, verður að líta til þess að kærði veitti kærendum tækifæri til úrbóta í bréfi, dags. 4. maí 2010 og gerði þeim þá jafnframt grein fyrir að búast mætti við afturköllun leyfis til hundahalds yrði um frekari brot á samþykkt um hundahald á Akranesi að ræða. Í sama bréfi óskaði kærði eftir að kærendur tilkynntu honum um þau úrræði sem þau myndu grípa til innan 10 daga. Kærendur halda því fram að þau hafi gripið til ákveðinna ráðstafna, sem þau hafi kynnt í samtali fyrir hundaeftirlitsmanni á vegum kærða og að þar með ætti málið að vera leyst. Hundaeftirlitmaðurinn hafnar því að hafa samþykkt umræddar ráðstafanir. Engin gögn liggja fyrir um samskipti kærenda og hundaeftirlitsmannsins og ljóst að þau fóru ekki fram með formlegum hætti. Þær ráðstafanir sem kærendur höfðu gripið til dugðu hins vegar ekki þegar hundur þeirra glefsaði í barn í ágúst 2010. Í kjölfar þess atburðar tilkynnti kærði kærendum að leyfi þeirra til hundahalds væri afturkallað og gaf þeim 10 daga frest til að fjarlægja hundinn úr kaupstaðnum. Með vísan til framangreinds ferils telur úrskurðarnefndin að gætt hafi verið meðalhófs í málinu af hálfu kærða. Þá getur úrskurðarnefndin með vísan til þess sem að framan er rakið ekki fallist á það með kærendum að við málsmeðferðina hafi verið brotið gegn rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga. Eins og að framan greinir er meginregla samþykktar um hundahald á Akranesi, sem í gildi var á árinu 2010, sú að hundahald sé bannað í kaupstaðnum. Í samþykktinni er hins vegar bæjarstjórn veitt heimild til að veita einstaklingum undanþágur til hundahalds. Samkvæmt almennum lögskýringarreglum skal skýra undantekningarreglur þröngt. Í ljósi þess og þess sem að framan er rakið varðandi meðalhóf og andmælarétt, svo og með vísan til framangreinds 2. málsliðar 3. gr. samþykktar um hundahald á Akranesi, telur úrskurðarnefndin ekki vera tilefni til að gera athugasemdir við þá ákvörðun kærða sem kynnt var kærendum í bréfi dags. 22. september 2010. Eftir að sú ákvörðun hafði verið tilkynnt kærendum sendi kærði þeim hins vegar tvö annars konar bréf, dags. 18. október og 3. desember 2010. Í fyrra bréfinu var kærendum gerð grein fyrir því að samkvæmt bókun kærða væri hundaleyfisgjald þeirra fyrir árið 2010, kr. 12.000, komið í vanskil. Samkvæmt gildandi gjaldskrá þess tíma var gjald fyrir leyfi til hundahalds kr. 12.000 á ári. Í síðara bréfinu var athygli kærenda vakin á því að dýraeftirliti bæjarins hefði ekki borist vottorð um að hundur þeirra hefði verið ormahreinsaður. Voru bréf þessi undirrituð af sama starfsmanni kærða og kærendur höfðu fram til þess tíma staðið í bréfaskiptum við vegna ákvörðunar kærða um að afturkalla leyfi þeirra til hundahalds. Þegar kærendum bárust framangreind bréf var staða mála sú milli aðila máls þessa að kærendur höfðu sent kærða tölvupóst, dags. 30. september 2010, þar sem þau fóru þess á leit að ákvörðun kærða um afturköllun leyfis til hundahalds yrði felld úr gildi vegna brota á stjórnsýslulögum og var því bréfi enn ósvarað af hálfu kærða. Kærði svaraði framangreindu erindi kærenda frá 30. september 2010 með bréfi, dags. 13. desember 2010. Í því bréfi var kærendum gefinn kostur á að koma að upplýsingum og gögnum sem gætu leitt til þess að rétt væri að endurupptaka málið samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga. Var kærendum veittur frestur í því skyni til 21. desember 2010. Þann 22. desember 2010 ritaði kærði á ný bréf til kærenda þar sem m.a. kom fram að kærði hefði ákveðið að framlengja gefinn frest til 3. janúar 2011. Kærendur sendu kærða tölvupóst, dags. 3. janúar 2011, þar sem þau báðu um tækifæri til að fá að hafa hundinn og tóku fram að þau teldu sig hæf til að koma í veg fyrir að undan honum yrði kvartað. Kærði svaraði erindi kærenda með bréfi, dags. 5. janúar 2011, þar sem endurupptöku málsins var hafnað á þeim grundvelli að samkvæmt mati kærða hefðu engar upplýsingar eða gögn komið fram sem gæfu tilefni til endurupptöku málsins. Kærendur skutu þá málinu til framkvæmdaráðs kærða sem tók málið fyrir á fundi sínum þann 15. febrúar 2011. Var það mat framkvæmdaráðsins að engar upplýsingar hefðu komið fram sem gæfu tilefni til að ákvörðun kærða frá 23. ágúst 2010 yrði endurskoðuð og staðfesti framkvæmdaráðið þar með fyrri ákvörðun um afturköllun leyfis til hundahalds. Úrskurðarnefndin getur fallist á það með kærendum að framangreind bréf kærða til þeirra, dags. 18. október og 3. desember 2010, kunni að hafa vakið upp óvissu hjá þeim og spurningar um stöðu málsins. Hins vegar telur úrskurðarnefndin að kærendum hafi mátt vera ljóst er þeim barst bréf kærða, dags. 13. desember 2010, að ekki hefði verið tekin ákvörðun af hálfu kærða að fella niður fyrri ákvörðun um afturköllun leyfis þeirra til hundahalds. Að auki kom það skýrlega fram í bréfi kærða, dags. 5. janúar 2011. Að mati úrskurðarnefndarinnar veitir sú óvissa, sem kærendur kunna að hafa verið í um stöðu málsins frá 18. október 2010 til 13. desember 2010, þeim ekki aukinn rétt umfram þann sem kærði veitti þeim með því að gefa þeim kost á að leggja fram upplýsingar og gögn sem leitt gætu til endurupptöku málsins samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga. Kærendur halda því fram að þau séu reiðubúin til að grípa til frekari ráðstafana til að fyrirbyggja hættu sem kunni að stafa af hundi þeirra, en þar sem slíkar ráðstafanir séu kostnaðarsamar, séu þau ekki reiðubúin til að grípa til þeirra fyrr en fyrir liggi að þau fái áframhaldandi leyfi til að hafa hundinn. Úrskurðarnefndin telur að ekki sé hægt að líta á slíkar yfirlýsingar um framkvæmdir, án þess að grípa til framkvæmdanna, sem ný gögn eða upplýsingar sem leiða eigi til endurupptöku málsins. Verður því ekki séð að kærendur hafi lagt fyrir kærða nein ný gögn eða upplýsingar varðandi efnisþátt málsins og af þeim sökum telur úrskurðarnefndin að ekki hafi verið forsendur til að endurupptaka málið á grundvelli 24. gr. stjórnsýslulaga og því beri að staðfesta ákvörðun kærða sem tilkynnt var með bréfi, dags. 21. febrúar 2011. Með vísan til alls þess sem að framan er rakið er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að staðfesta beri hvort tveggja ákvörðun kærða um að afturkalla leyfi kærenda til hundahalds í Akraneskaupstað og ákvörðun kærða um að synja um endurupptöku málsins.

Úrskurðarorð:

Staðfest er ákvörðun Akraneskaupstaðar um að afturkalla leyfi Margrétar Hallgrímsdóttur og Jónasar Páls Þorlákssonar nr. 137 til hundahalds í kaupstaðnum, svo og ákvörðun Akraneskaupstaðar um að synja um endurupptöku málsins.

Steinunn Guðbjartsdóttir

Gunnar Eydal                         Arndís Soffía Sigurðardóttir

Date: 9/19/11

7/2011 Úrskurður vegna kæru Gunnars Rafns Einarssonar gegn Orkuveitu Reykjavíkur vegna ákvörðunar um álagningu fráveitugjalds vegna 486,0 fermetra fasteignar við Hringbraut í Reykjavík (fastanúmer 200-2302).

Með

Mál nr. 7/2011. Úrskurðarnefnd skv. 31. gr. laga nr. 7/1998.

Ár 2011, fimmtudaginn 23. júní, kom úrskurðarnefnd skv. 31. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998 saman til fundar á skrifstofu formanns nefndarinnar að Lágmúla 7 í Reykjavík. Mætt voru Steinunn Guðbjartsdóttir, Gunnar Eydal og Arndís Soffía Sigurðardóttir.

Fyrir var tekið mál nr. 7/2011 K. Steindórsson sf., Hofgörðum 18, Seltjarnarnesi gegn Orkuveitu Reykjavíkur, Bæjarhálsi 1, Reykjavík.

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

I. Aðild kærumáls og kröfur

Með stjórnsýslukæru, dags. 22. mars 2011, kærði Gunnar Rafn Einarsson, löggiltur endurskoðandi, f.h. K. Steindórssonar sf. (hér eftir nefnt kærandi) ákvörðun Orkuveitu Reykjavíkur (hér eftir nefnd kærði) um álagningu fráveitugjalds vegna 486,0 fermetra fasteignar við Hringbraut í Reykjavík (fastanúmer 200-2302). Kærandi gerir þær kröfur að álagning fráveitugjalds á umrædda húseign, sem hvorki hafi vatnslögn né frárennslislögn, verði felld niður. Kærði telur að hafna beri kröfum kæranda og staðfesta hina kærðu ákvörðun um álagningu fráveitugjalds.

II. Málmeðferð

Kæra málsins barst úrskurðarnefndinni þann 25. mars 2011 og byggir hún á kæruheimild í 22. gr. laga um uppbyggingu og rekstur fráveitna nr. 9/2009, sbr. 31. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998. Meðfylgjandi kæru voru álagningarseðill vegna vatns- og fráveitugjalda 2011 og svar kærða, dags. 24. febrúar 2011, við athugsemd kæranda vegna vatns- og fráveitugjalda fyrir árið 2011. Úrskurðarnefndin kynnti kærða framkomna kæru með bréfi, dags. 6. apríl 2011, og óskaði eftir greinargerð hans í málinu. Kærði gerði grein fyrir sjónarmiðum sínum með greinargerð, dags. 27. apríl 2011. Greinargerð kærða var kynnt kæranda með bréfi, dags. 3. maí 2011. Sendi kærandi úrskurðarnefndinni athugasemdir, dags. 11. maí 2011, við greinargerð kærða. Voru athugasemdir kæranda kynntar kærða með bréfi, dags. 17. maí 2011. Frekari gögn hafa ekki borist.

III. Málsavik

Kærandi er eigandi húseignar við Hringbraut í Reykjavík, fastanúmer 200-2302. Er þar um að ræða 486,0 fermetra vörugeymslu/skemmu. Í janúar 2011 sendi kærði kæranda álagningu fráveitugjalds vegna húseignarinnar að fjárhæð 101.732 kr.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í kæru greinir kærandi frá því að umrædd fasteign kæranda sé óeinangruð bárujárnsskemma, byggð árið 1938 og í henni sé engin vatnslögn og hvorki frárennslislögn né annað fráveitukerfi. Kærandi kveður skemmuna hafa verið án þessara lagna frá upphafi eða í 73 ár og að því muni ekki verða breytt þar sem til standi að rífa skemmuna. Kærandi vísar til 14. gr. laga um uppbyggingu og rekstur fráveitna og segir að lagaheimild til álagningar fráveitugjalds nái ekki til umræddrar fasteignar sem sé ekki tengd fráveitu, hafi aldrei verið tengd fráveitu og muni ekki tengjast slíkri veitu um ókomna framtíð. Í athugasemdum kæranda við greinargerð kærða segir m.a. að ekki falli meiri úrkoma á þak mannvirkisins, en sem hefði án tilvistar þess fallið á yfirborð jarðar. Því vatni, sem þar falli sé vissulega veitt með rennum í niðurfallsrör niður með hlið mannvirkisins, en aðeins niður að yfirborði jarðar þar sem jarðvegur taki við með sama hætti og hann hefði gert án tilvistar mannvirkisins. Um enga tengingu við fráveitu sé að ræða. Þá kveður kærandi að ekki sé fyrirhugað að koma slíkri tengingu á, þar sem gert sé ráð fyrir að rífa mannvirkið. Vegna tilvísunar kærða til athugasemda með 14. gr. frumvarps að lögum um uppbyggingu og rekstur fráveitna gerir kærandi í athugasemdum sínum að umtalsefni hver geti verið merking orðsins ?hjallur?. Kveður kærandi að tilvísuð athugasemd með lagafrumvarpinu taki til allra húsa sem séu án tengingar við vatnsveitur og að þar séu ?hjallar? aðeins nefndir sem dæmi um slík hús. Segir kærandi að væntanlega sé þakflötur með rennum og niðurfallsrörum á flestum ?hjöllum?, hvort sem þau rör séu tengd fráveitu eða ekki.

V. Málsástæður og rök kærða

Í greinargerð kærða segir að samkvæmt 14. gr. laga um uppbyggingu og rekstur fráveitna sé heimilt að innheimta fráveitugjald af öllum fasteignum sem tengdar séu eða muni tengjast fráveitu sveitarfélags. Þá er vísað til athugasemda með 14. gr. frumvarps þess sem varð að gildandi lögum um uppbyggingu og rekstur fráveitna, þar sem segir að ekki sé gert ráð fyrir að hús þar sem engu vatni sé veitt inn og ekkert frárennsli sé frá, svo sem hjallar sem svo um hátti, greiði fráveitugjald. Kveðst kærði telja að fasteign sú sem mál þetta varðar falli ekki undir að vera ?hjallur?, þar sem í fasteignaskrá segi að um sé að ræða vörugeymslu, byggða úr timbri. Þá kveðst kærði telja að allar líkur séu á að vatni sé veitt af þaki hússins um rennur í fráveitukerfið, eins og venja sé til og að umrætt hús nýti því fráveitu og tengist henni.

VI. Álit og niðurstaða úrskurðarnefndar

Í máli þessu er deilt um álagningu fráveitugjalds á 486,0 fermetra húseign við Hringbraut í Reykjavík. Húseignin mun vera vörugeymsla eða skemma og er ekki tengd vatni, hvorki köldu né heitu. Í 1. mgr. 14. gr. laga um uppbyggingu og rekstur fráveitna nr. 9/2009 er kveðið á um fráveitugjald og þar segir að heimilt sé að innheimta fráveitugjald af öllum fasteignum sem tengdar séu eða muni tengjast fráveitu sveitarfélags. Í frumvarpi til laga um uppbyggingu og rekstur fráveitna, sem lagt var fram á 136. löggjafarþingi Alþingis, var lagt til að 1. mgr. 14. gr. laganna heimilaði að innheimta fráveitugjald af öllum fasteignum sem tengdar væru eða gætu tengst fráveitu sveitarfélags. Í athugasemdum við þetta ákvæði sagði jafnframt í frumvarpinu að ekki væri gert ráð fyrir að hús, þar sem engu vatni væri veitt inn og ekkert frárennsli væri frá, greiddi fráveitugjald og eru hjallar nefndir þar í dæmaskyni. Í nefndaráliti umhverfisnefndar um frumvarp til laga um uppbyggingu og rekstur fráveitna segir að fram hafi komið ábending um að orðalag 1. mgr. 14. gr. frumvarpsins væri of víðtækt með því að heimila innheimtu fráveitugjalds af fasteignum sem gætu tengst fráveitu. Tók nefndin undir ábendinguna og lagði til þá orðalagsbreytingu að heimildin næði til fasteigna sem væru tengdar eða myndu tengjast fráveitu. Voru lög um uppbyggingu og rekstur fráveitna samþykkt með því orðalagi. Í framangreindu nefndaráliti segir jafnframt að ákvæðum frumvarps til laga um uppbyggingu og rekstur fráveitna um gjaldtöku sé ætlað að tryggja að gjaldheimta sé í samræmi við þá þjónustu sem veitt sé. Í 10. gr. reglugerðar um fráveitur sveitarfélaga nr. 982/2010, sem sett var með stoð í 21. gr. laga um uppbyggingu og rekstur fráveitna, er kveðið á um fráveitugjald. Þar segir í 1. mgr. að heimilt sé að innheimta fráveitugjald af öllum fasteignum, þ.m.t. óbyggðum lóðum sem tengdar séu, muni tengjast fráveitu sveitarfélags eða njóti þjónustu hennar. Frárennsli er skilgreint í 1. tölulið 3. gr. laga um uppbyggingu og rekstur fráveitna sem ?Rennsli frá mannvirkjum, götum, lóðum, gönguleiðum eða opnum svæðum, svo sem ofanvatn og/eða skólp og vatn frá upphitunarkerfum mannvirkja sem veitt er í fráveitur.? Kærandi heldur því fram að húseign hans sé ekki tengd fráveitu Reykjavíkurborgar og muni ekki tengjast fráveitu borgarinnar. Af hálfu kærða hafa ekki verið lögð fram gögn sem staðfesta að umrædd húseign sé tengd fráveitu eða nýti hana. Fullyrðingum kæranda um að húseign hans sé ekki tengd vatnslögn hefur ekki verið mótmælt af hálfu kærða. Þá hefur kærði ekki sýnt fram á að húseignin sé tengd fráveitu og að rennsli frá henni vegna t.d. ofanvants sé veitt í fráveitu. Með vísan til orðalags 1. mgr. 14. gr. laga um uppbyggingu og rekstur fráveitna og þeirra breytinga sem gerðar voru á orðalagi þess frá því sem lagt var til í upphaflegu frumvarpi að lögunum, sbr. það sem að framan er rakið, telur úrskurðarnefndin að til þess að heimild til álagningar fráveitugjalds eigi við verði að vera verulegar líkur á að viðkomandi fasteign tengist eða muni tengjast fráveitu viðkomandi sveitarfélags. Ekki hefur verið sýnt fram á það í máli þessu að umrædd húseign sé tengd eða muni tengjast fráveitu Reykjavíkurborgar, heldur má þvert á móti ætla að um sé að ræða húseign, sem engu vatni sé veitt inn og ekkert frárennsli sé frá. Því telur úrskurðarnefndin að fallast verði á kröfu kæranda og gera kærða að fella niður álagningu fráveitugjalds á 486,0 fermetra vörugeymslu/skemmu kæranda sem stendur við Hringbraut í Reykjavík.

Úrskurðarorð:

Felld er niður álagning Orkuveitu Reykjavíkur á fráveitugjaldi á 486,0 fermetra vörugeymslu/skemmu í eigu K. Steindórssonar sf. við Hringbraut í Reykjavík, fastanúmer 200-2302.

Steinunn Guðbjartsdóttir

Gunnar Eydal                   Arndís Soffía Sigurðardóttir

Date: 7/4/11

8/2011 Úrskurður vegna kæru Margrétar Óskar Tómasdóttur gegn Akraneskaupstað vegna afturköllunar þriggja leyfa hennar til hundahalds í kaupstaðnum

Með

Mál nr. 8/2011. Úrskurðarnefnd skv. 31. gr. laga nr. 7/1998.

Ár 2011, fimmtudaginn 23. júní, kom úrskurðarnefnd samkvæmt 31. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998 saman til fundar á skrifstofu formanns nefndarinnar að Lágmúla 7 í Reykjavík. Mætt voru Steinunn Guðbjartsdóttir, Gunnar Eydal og Arndís Soffía Sigurðardóttir.

Fyrir var tekið mál nr. 8/2011 Margrét Ósk Tómasdóttir gegn Akraneskaupstað.

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

I. Aðild kærumáls og kröfur

Með stjórnsýslukæru, dags. 19. apríl 2011 kærði Auður Björg Jónsdóttir, hdl., f.h. Margrétar Óskar Tómasdóttur (hér eftir nefnd kærandi) ákvörðun Akraneskaupstaðar (hér eftir nefndur kærði) frá 17. nóvember 2010 um afturköllun þriggja leyfa hennar til hundahalds í kaupstaðnum. Krefst kærandi þess að vikið verði frá kærufresti í málinu og að hin kærða ákvörðun verði felld niður. Kærði krefst frávísunar málsins á þeirri forsendu að kærufrestur sé liðinn en að öðrum kosti verði hin kærða ákvörðun staðfest.

II. Málmeðferð

Kæra málsins er dagsett 19. apríl 2011 og byggir hún á kæruheimild í 31. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998. Úrskurðarnefndin kynnti kærða framkomna kæru með bréfi, dags. 28. apríl 2011 og óskaði eftir greinargerð hans í málinu. Kærði gerði grein fyrir sjónarmiðum sínum í greinargerð, dags. 10. maí 2011. Úrskurðarnefndin kynnti kæranda greinargerð kærða og gaf henni kost á að koma á framfæri frekari athugasemdum af sinni hálfu. Athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi lögmanns hennar, dags. 27. maí 2011. Þá leitaði úrskurðarnefndin upplýsinga frá Íslandspósti hf. vegna afhendingar ábyrgðarbréfs og fékk senda útprentun um feril þess.

III. Málsatvik

Samkvæmt gögnum málsins var kæranda veitt leyfi til hundahalds í Akraneskaupstað nr. 233, 234 og 235 þann 9. september 2009. Ári síðar eða þann 9. september 2010 sendi heilbrigðiseftirlit Vesturlands kæranda bréf vegna kvörtunar sem borist hafði vegna hunda hennar. Þann 28. september 2010 sendi heilbrigðiseftirlitið bréf til kærða þar sem lagt var til að leyfi kæranda til hundahalds yrðu afturkölluð vegna brota á samþykkt kaupstaðarins um hundahald. Þann 30. september 2010 sendi kærði kæranda bréf þar sem henni var gerð grein fyrir að fyrirhugað væri að afturkalla leyfi hennar til hundahalds. Kærandi lagði fram andmæli vegna fyrirhugaðrar sviptingar leyfa til hundahalds. Andmæli hennar eru ódags., en stimpluð móttekin hjá kærða þann 11. október 2010. Með bréfi, dags. 17. nóvember 2010, gerði kærði kæranda grein fyrir að leyfi hennar til hundahalds á Akranesi væru afturkölluð frá og með 25. nóvember 2010.

IV. Málstæður og rök kærenda

Í kæru er því haldið fram að kæranda hafa verið ókunnugt um ákvörðun kærða um afturköllun leyfa til hundahalds í Akraneskaupstað þar til í mars 2011 og óskar kærandi þess að vikið verði frá kærufresti. Í rökstuðningi kæranda segir að hún hafi leitað til lögmanns eftir að þriggja mánaða kærufrestur hafi verið liðinn, en á þeim tímapunkti hafi henni ekki verið kunnugt um að hundaleyfin hafi þá þegar verið afturkölluð. Þá segir að kærandi hafi í tvígang fengið bréf frá heilbrigðiseftirliti Vesturlands þar sem fram hafi komið krafa heilbrigðiseftirlitsins um afturköllun hundaleyfa hennar og bréf frá kærða vegna málsins. Kærandi hafi falið lögmanni sínum að svara bréfi kærða, það hafi lögmaðurinn gert og þá hafi komið í ljós að leyfi kæranda til hundahalds hafi verið afturkallað með bréf, dags. 17. nóvember 2010. Fram kemur að kærandi velti fyrir sér hvort bréf kærða um afturköllun hundaleyfa hafi verið sent henni og að hún telji ljóst að þar sem bréfið hafi aldrei borist henni skuli kærufrestur ekki byrja að líða fyrr en 17. mars 2011 þegar kærði dagsetti bréf til lögmanns hennar þar sem fram kom að leyfið hefði verið afturkallað. Í athugasemdum við greingerð kærða er ítrekað af hálfu kæranda að hún kannist ekki við að hafa móttekið bréf kærða frá 17. nóvember 2010. Þá bendir kærandi á að kvittun fyrir móttöku ábyrgðarbréfs, sem kærði lagði fram í málinu, sé stimpill um ítrekun, dags. 25. nóvember 2009. Kærandi vísar enn fremur til 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og kveður að veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar. Kveður kærandi að í því sambandi verði að hafa í huga að tilgangur þriggja mánaða kærufrests sé að stuðla að því að stjórnsýslumál verði til lykta leidd svo fljótt sem auðið sé. Tilgangurinn sé ekki að koma í veg fyrir að borgarar njóti réttar síns til að fá ákvörðun endurskoðaða hjá æðra stjórnvaldi. Líta verði til þess að hin kærða ákvörðun varði kæranda eina og þannig hafi meðferð kærunnar ekki áhrif á neinn annan borgara, sem leiði til þess að ekki megi túlka skilyrði 28. gr. stjórnsýslulaga þröngt. Um sé að ræða afar veigamikið mál fyrir kæranda, sem skipti hana mjög miklu máli enda varði málið hvort hún geti haldið hunda á heimili sínu. V. Málsástæður og rök kærða Í greinargerð kærða er rakin forsaga þess að leyfi kærandi til hundahalds hafi verið afturkallað. Þar segir m.a. að kærandi hafi þann 9. september 2009 fengið þau þrjú leyfi til hundahalds sem málið varðar. Vegna kvartana um hávaða frá hundum kæranda o.fl. hafi heilbrigðiseftirlit Vesturlands sent kæranda bréf þann 9. september 2010. Í því bréfi hafi m.a. komið fram að yrði um frekari brot að ræða á samþykkt um hundahald á Akranesi og ekki farið að tilmælum heilbrigðiseftirlitsins myndi verða farið fram á það við kærða að leyfi kæranda til hundahalds yrðu afturkölluð. Athugasemdir hafi borist frá kæranda 11. október 2010, sem ekki hafi breytt afstöðu heilbrigðiseftirlitsins og það farið þess á leit við kærða að leyfi kæranda til hundahalds yrðu afturkölluð. Kærði kveðst í greinargerðinni hafa tilkynnt kæranda með bréfi, dags. 17. nóvember 2010, að leyfi hennar til hundahalds á Akranesi, þ.e. leyfi nr. 233, 234 og 235, hafi verið afturkölluð frá og með 25. nóvember 2010. Þá segir að í bréfinu hafi kæranda verið gerð grein fyrir því að hún gæti freistað þess að fá ákvörðunina endurskoðaða með því að bera hana undir framkvæmdaráð kærða og einnig hafi henni verið leiðbeint um kæruheimild til úrskurðarnefndar samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, svo og kærufrest í því sambandi. Í tilefni þess að kærandi heldur því fram að bréf kærða til hennar, þar sem tilkynnt var um afturköllun leyfa til hundahalds, hafi aldrei borist kæranda segir í greinargerðinni að samkvæmt útskrift frá Íslandspósti hf. hafi umrætt bréf verið afhent 25. nóvember 2010 og sé ljósrit af útskriftinni meðal fylgigagna greinargerðarinnar. Kveðst kærði telja að leggja verði til grundvallar að umrædd ákvörðun hans um afturköllun leyfa til hundahalds hafi verið birt kæranda með fullnægjandi hætti þann 25. nóvember 2005 [innskot; á líklega að vera 2010]. Kveður kærði að því sé kæra til úrskurðarnefndarinnar of seint fram komin og kveðst telja að úrskurðarnefndinni beri að vísa kærunni frá.

VI. Álit og niðurstaða úrskurðarnefndar

Ákvæði 1. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hefur að geyma almenna reglu um kærufrest, sem á við um kærur til úrskurðarnefndar samkvæmt 31. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998. Þar er kveðið á um að kæra skuli borin fram innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um stjórnvaldsákvörðun. Í 28. gr. stjórnsýslulaga er kveðið á um hvernig fara skuli með kæru sem berst að liðnum kærufresti. Þar segir: ?Hafi kæra borist að liðnum kærufresti skal vísa henni frá, nema: 1. afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, eða 2. veigamiklar ástæður mæla með því að kæran verði tekin til meðferðar. Kæru skal þó ekki sinnt ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila.? Í máli því sem hér er til úrlausnar snýr kæruefnið að ákvörðun kærða sem tekin var í nóvember 2010. Kærði kveðst hafa kynnt kæranda ákvörðunina með bréfi, dags. 17. nóvember 2010. Meðal gagna málsins er afrit af óundirrituðu bréfi kærða til kæranda, dags. 17. nóvember 2010, þar sem segir m.a. að leyfi kæranda til hundahalds á Akranesi nr. 233, 234 og 235 séu afturkölluð frá og með 25. nóvember 2010. Þá er í bréfinu leiðbeint um kæruheimild og kærufrest. Einnig hefur verið lagt fram afrit af kvittun fyrir afhendingu ábyrgðarbréfs. Ber kvittunin með sér að kærði hafi sent kæranda ábyrgðarbréf í nóvember 2010, sem hún hafi kvittað fyrir móttöku á. Á framangreindri kvittun stendur m.a.: ?Ítrekun um póstsendingu Komud./Prentd. 18.11.10 / 25.11.10 Endursendist 18.12.10? Þá er á kvittuninni stimpill þar sem stendur: ?Íslandspóstur hf. 25. NÓV 2009 ÍTREKAÐ? Vegna misræmis ártala á umræddri kvittun leitaði úrskurðarnefndin upplýsinga frá Íslandspósti hf. og fékk senda skráningu á ferli ábyrgðarbréfsins, sem hin framlagða kvittun varðar. Samkvæmt ferilsskráningu póstlagði kærði þann 17. nóvember 2010 ábyrgðarbréf til kæranda, þ.e. sama dag og bréf um afturköllun hundaleyfa er dagsett. Þann 18. nóvember 2010 fór ábyrgðarbréfið á aksturslista frá pósthúsi og þann 19. nóvember 2010 var skilin eftir tilkynning um bréfið, sem ítrekuð var 25. nóvember 2010. Þann 26. nóvember 2010 var bréfið afhent og samkvæmt framlagðri kvittun kvittaði kærandi fyrir móttöku þess. Með vísan til framangreindra gagna og upplýsinga telur úrskurðarnefndin að sýnt hafi verið fram á að kæranda hafi borist ákvörðun kærða um afturköllun leyfa til hundahalds í Akraneskaupstað þann 26. nóvember 2010. Þar með er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að kærufrestur vegna hinnar kærðu ákvörðunar hafi verið þrír mánuðir frá 26. nóvember 2010 að telja og því staðið til 26. febrúar 2011. Kæra málsins barst úrskurðarnefndinni þann 28. apríl 2011 eða u.þ.b. tveimur mánuðum eftir að kærufresti lauk og heldur kærandi því fram að henni hafi verið ókunnugt um ákvörðun kærða þar til í mars 2011. Hafi henni borist vitneskja um ákvörðunina í kjölfar þess að lögmaður hennar sendi bréf, dags. 10. mars 2011, til kærða vegna málsins, en því bréfi hafi kærði svarað með bréfi, dags. 17. mars 2011, og gert þá m.a. grein fyrir að leyfi kæranda til hundahalds hefðu verið afturkölluð í nóvember 2010. Með vísan til þess sem að framan er rakið getur úrskurðarnefndin ekki fallist á þennan málatilbúnað kæranda og telur ótvírætt að tilkynning um afturköllun hundaleyfa hafi borist henni þann 26. nóvember 2010. Þá telur nefndin ekkert hafa komið fram í málinu sem bendi til þess að undantekningarákvæði 1. og 2. tö1uliðar 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga eigi við í tilviki kæranda. Með vísan til alls þess sem að framan er rakið er það niðurstaða úrskurðarnefndar samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir að vísa skuli kæru málsins frá nefndinni.

Úrskurðarorð:

Vísað er frá úrskurðarnefnd samkvæmt 31. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir kæru Margrétar Óskar Tómasdóttur, sem varðar ákvörðun Akraneskaupstaðar um að afturkalla leyfi er henni höfðu verið veitt til hundahalds í kaupstaðnum nr. 233, 234 og 235.

Steinunn Guðbjartsdóttir

Gunnar Eydal                 Arndís Soffía Sigurðardóttir

Date: 7/4/11

6/2011 Úrskurður vegna kæru Sigurðar H. Magnússonar gegn Orkuveitu Reykjavíkur vegna ákvörðunar um álagningu fráveitugjalds vegna 20,3 fermetra bílskúrs á lóðinni Hvassaleiti 18 ? 22 í Reykjavík.

Með

Mál nr. 6/2011. Úrskurðarnefnd skv. 31. gr. laga nr. 7/1998.

Ár 2011, fimmtudaginn 23. júní, kom úrskurðarnefnd skv. 31. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998 saman til fundar á skrifstofu formanns nefndarinnar að Lágmúla 7 í Reykjavík. Mætt voru Steinunn Guðbjartsdóttir, Gunnar Eydal og Arndís Soffía Sigurðardóttir.

Fyrir var tekið mál nr. 6/2011 Sigurður H. Magnússon, Hvassaleiti 22, Reykjavík gegn Orkuveitu Reykjavíkur, Bæjarhálsi 1, Reykjavík.

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

I. Aðild kærumáls og kröfur

Með stjórnsýslukæru, dags. 3. mars 2011, kærði Sigurður H. Magnússon (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Orkuveitu Reykjavíkur (hér eftir nefnd kærði) um álagningu fráveitugjalds vegna 20,3 fermetra bílskúrs á lóðinni Hvassaleiti 18 ? 22 í Reykjavík. Kærandi gerir þær kröfur að álagning fráveitugjalds á umræddan bílskúr, sem ekki sé tengdur neinum vatnslögnum og nýti ekki fráveitulangir, verði úrskurðuð óheimil. Kærandi krefst þess til vara að málinu verði heimvísað og kærða gert að taka málið til efnislegrar meðferðar með rökstuðningi í samræmi við 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Kærði telur að hafna beri kröfum kæranda og staðfesta hina kærðu ákvörðun um álagningu fráveitugjalds.

II. Málmeðferð

Kæra málsins barst úrskurðarnefndinni þann 7. mars 2011 og byggir hún á kæruheimild í 22. gr. laga um uppbyggingu og rekstur fráveitna nr. 9/2009, sbr. 31. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998. Meðfylgjandi kæru voru álagningarseðill vegna vatns- og fráveitugjalda 2011, álagningarseðill fasteignagjalda 2011, svar kærða, dags. 8. febrúar 2011, við athugsemd kæranda vegna vatns- og fráveitugjalda fyrir árið 2011 og útprentun af Borgarvefsjá. Úrskurðarnefndin kynnti kærða framkomna kæru með bréfi, dags. 11. mars 2011, og óskaði eftir greinargerð hans í málinu. Kærði gerði grein fyrir sjónarmiðum sínum með greinargerð, dags. 21. mars 2011, og fylgdi henni uppdráttur af viðkomandi lóð. Greinargerð kærða var kynnt kæranda með bréfi, dags. 6. apríl 2011. Sendi kærandi úrskurðarnefndinni athugasemdir, dags. 17. apríl 2011, við greinargerð kærða. Voru athugasemdir kæranda kynntar kærða með bréfi, dags. 27. apríl 2011. Frekari gögn hafa ekki borist.

III. Málsavik

Kærandi er annar tveggja eigenda að íbúðareign, ásamt bílskúr, í Hvassaleiti 22, fastanúmer 203-1650. Er þar um að ræða 93,5 fermetra íbúð og 20,3 fermetra bílskúr eða samtals 113,8 fermetra fasteign. Íbúðin er í fjölbýlishúsi en bílskúrinn er í bílskúralengju sem stendur sjálfstætt og samanstendur af 18 bílskúrum. Í janúar 2011 sendi kærði kæranda álagningu fráveitugjalda og voru gjöldin lögð á kæranda samkvæmt 113,8 fermetra fasteign hans, samtals að fjárhæð 27.764 kr.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í kæru greinir kærandi frá því að engin vatnslögn, hvorki kalda- né heitavatnslögn, sé tengd unræddum bílskúrum og kveðst hann telja sérkennilegt að þurfa að borga fráveitugjald fyrir rými sem hafi engan aðgang að vatni og nýti þ.a.l. ekki fráveitukerfi borgarinnar. Í athugasemdum kæranda við greinargerð kærða segir að óumdeilt sé að umræddir bílskúrar séu tengdir fráveitu og að sú fráveita tengist aðallögn sem sé tengd íbúðarhúsnæði á lóðinni Hvassaleiti 18 – 22. Kærandi bendir í athugasemdum sínum á athugasemdir í frumvarpi að lögum um uppbyggingu og rekstur fráveitna, þar sem segir m.a. um 1. mgr. 14. gr., ?Ekki er gert ráð fyrir að hús þar sem engu vatni er veitt inn og ekkert frárennsli er frá, svo sem hjallar sem svo um háttar, greiði fráveitugjald?. Kveðst kærandi telja að þar komi vilji löggjafans skýrt fram og eigi sú túlkun við í því tilviki sem mál þetta varðar. Af athugasemdum kæranda verður ráðið að hann telji aðalatriði málsins vera að ekkert vatn renni inn í viðkomandi bílskúr og því renni ekkert vatn út og jafnframt að gjald vegna fráveitu skuli ráðast af því hvort skylda sé til að greiða vatnsgjald. Þá segir kærandi í athugasemdum við greinargerð kærða að þó utanaðkomandi vatn, t.d. rigningarvatn, fari í fráveitukerfið eigi það ekki að skipta máli þar sem af aðallögn sé greitt fráveitugjald í samræmi við stærð íbúða í íbúðarhúsinu. Heldur kærandi því fram að fráveitugjöld, sem lögð séu á í samræmi við stærð íbúða, eigi að standa undir þeim kostnaði sem fráveitugjaldið eigi að bera. Kærandi tekur fram að ekki sé drenlögn við umrædda bílskúra og bendir á að ekki séu greidd sérstök fráveitugjöld vegna niðurfalla bílastæða, sem tengist sömu aðallögn. Heldur kærandi því fram að nánast engin kostnaður stafi af vatni sem renni frá bílskúrunum í aðallögnina og jafnframt að samkvæmt 12. gr. laga um uppbyggingu og rekstur fráveitna beri kærði engan kostnað af lögnum sem tengdar séu umræddum bílskúr. Kærandi segir að þegar fráveitugjald sé lagt á hljóti það að vera notkunin sem ráði og að þar skuli miða við eðlilega notkun, sem hann telur að hljóti að miðast við að viðkomandi rými sé tengt vatni. Þannig telur kærandi að tenging húsnæðis við vatn sé forsenda fyrir innheimtu fráveitugjalds. Þessu til staðfestingar vísar kærandi m.a. til skilgreiningar á fráveitu í 2. tl. 3. gr. laga um uppbyggingu og rekstur fráveitna og segir að ætla megi að meginhlutverk fráveitu sé að veita frá vatni sem veitt sé inn í húseignir.

V. Málsástæður og rök kærða

Í greinargerð kærða segir að samkvæmt 1. mgr. 11. gr. laga um uppbyggingu og rekstur fráveitna eigi eigandi eða rétthafi lóðar við götu, gönguleið eða opið svæði þar sem fráveitulögn liggi, rétt á að fá tengingu við fráveitukerfi. Samkvæmt 2. mgr. 12. gr. sömu laga sé eigendum húseigna þar sem fráveita liggur skylt á sinn kostnað að annast lagningu og viðhald heimæða fyrir frárennsli að tengingu við fráveitukerfi. Síðan segir að lagaskylda 1. mgr. 11. gr. laga um uppbyggingu og rekstur fráveitna hafi verið uppfyllt í því tilviki sem mál þetta varði, þar sem lóðin Hvassaleiti 18 – 22 hafi verið tengd við fráveitukerfi. Lagning heimæða innan lóðar sé á ábyrgð eigenda fasteignarinnar. Þá segir að samkvæmt 1. mgr. 14. gr. laga um uppbyggingu og rekstur fráveitna sé heimilt að innheimta fráveitugjald af öllum fasteignum sem tengdar séu eða muni tengjast fráveitu sveitarfélags. Ítrekað er að lóðin Hvassaleiti 18 – 22 sé tengd fráveitukerfinu og tekið fram að þrátt fyrir að einstakar fasteignir eða matshlutar á lóðinni kunni að vera ótengdir vatni eða fráveitu veiti það ekki undanþágu frá greiðsluskyldu samkvæmt lögunum. Þá er þess getið að allar líkur séu á að vatni sé veitt af þaki bílskúra á lóðinni og að umhverfis sökkla þeirra sé drenlögn sem veitt sé úr í fráveitukerfið. Kærði bendir í greinargerð sinni á að samkvæmt álagningarseðli fasteignagjalda kæranda sé eign hans 113,8 fermetrar að stærð og að álagning fráveitugjalda sé miðuð við sama fermetrafjölda.

VI. Álit og niðurstaða úrskurðarnefndar

Í máli þessu er deilt um álagningu fráveitugjalds á 20,3 fermetra bílskúr við Hvassaleiti í Reykjavík. Bílskúrinn er einn af átján bílskúrum sem byggðir eru í lengju á lóðinni Hvassaleiti 18 ? 20 og er ekki tengdur vatni, hvorki köldu né heitu. Í IV. kafla laga um uppbyggingu og rekstur fráveitna nr. 9/2009 er kveðið á um fráveitulagnir. Þar er í 1. mgr. 12. gr. kveðið á um að eigandi fráveitu sjái um lagningu og viðhald allra fáveitulagna, þ.e. stofnlagna, safnkerfa og fráveitutenginga. Í 1. málslið 2. mgr. 12. gr. er hins vegar kveðið á um að eigendum húseigna þar sem fráveita liggur sé skylt á sinn kostnað að annast lagningu og viðhald heimæða fyrir frárennsli að tengingu við fráveitukerfi. Í 1. mgr. 14. gr. laga um uppbyggingu og rekstur fráveitna er kveðið á um fráveitugjald og þar segir að heimilt sé að innheimta fráveitugjald af öllum fasteignum sem tengdar séu eða muni tengjast fráveitu sveitarfélags. Í frumvarpi til laga um uppbyggingu og rekstur fráveitna, sem lagt var fram á 136. löggjafarþingi Alþingis, var lagt til að 1. mgr. 14. gr. laganna heimilaði að innheimta fráveitugjald af öllum fasteignum sem tengdar væru eða gætu tengst fráveitu sveitarfélags. Í frumvarpinu segir jafnframt í athugasemdum við þetta ákvæði að ekki væri gert ráð fyrir að hús, þar sem engu vatni væri veitt inn og ekkert frárennsli væri frá, greiddi fráveitugjald og eru hjallar nefndir þar í dæmaskyni. Í nefndaráliti umhverfisnefndar um frumvarp til laga um uppbyggingu og rekstur fráveitna segir að fram hafi komið ábending um að orðalag 1. mgr. 14. gr. frumvarpsins væri of víðtækt með því að heimila innheimtu fráveitugjalds af fasteignum sem gætu tengst fráveitu. Tók nefndin undir ábendinguna og lagði til þá orðalagsbreytingu að heimildin næði til fasteigna sem væru tengdar eða myndu tengjast fráveitu. Voru lög um uppbyggingu og rekstur fráveitna samþykkt með því orðalagi. Í framangreindu nefndaráliti segir jafnframt að ákvæðum frumvarps til laga um uppbyggingu og rekstur fráveitna um gjaldtöku sé ætlað að tryggja að gjaldheimta sé í samræmi við þá þjónustu sem veitt sé. Í 10. gr. reglugerðar um fráveitur sveitarfélaga nr. 982/2010, sem sett var með stoð í 21. gr. laga um uppbyggingu og rekstur fráveitna, er kveðið á um fráveitugjald. Þar segir í 1. mgr. að heimilt sé að innheimta fráveitugjald af öllum fasteignum, þ.m.t. óbyggðum lóðum sem tengdar séu, muni tengjast fráveitu sveitarfélags eða njóti þjónustu hennar. Frárennsli er skilgreint í 1. tölulið 3. gr. laga um uppbyggingu og rekstur fráveitna sem ? Rennsli frá mannvirkjum, götum, lóðum, gönguleiðum eða opnum svæðum, svo sem ofanvatn og/eða skólp og vatn frá upphitunarkerfum mannvirkja sem veitt er í fráveitur.? Samkvæmt því sem kærandi hefur gert grein fyrir er umræddur bílskúr hans í Hvassaleiti tengdur fráveitu Reykjavíkurborgar. Af því má ráða að ofanvatni sé veitt af bílskúrunum í fráveitu og þar með sé um frárennsli að ræða þó engu vatni sé veitt inn. Með hliðsjón af öllu því sem að framan er rakið verður að fallast á að uppfyllt séu skilyrði heimildar, samkvæmt 1. mgr. 14. gr. laga um uppbyggingu og rekstur fráveitna, til að leggja fráveitugjald á 20,3 fermetra bílskúr kæranda við Hvassaleiti í Reykjavík. Ekki þykir tilefni til að fallast á varakröfu kæranda, enda hefur kærði gert grein fyrir rökstuðningi sínum við rekstur kærumálsins.

Úrskurðarorð:

Staðfest er heimild Orkuveitu Reykjavíkur til álagningar fráveitugjalds á 20,3 fermetra bílskúr í eigu Sigurður H. Magnússonar á lóðinni Hvassaleiti 18 – 22, Reykjavík.

Steinunn Guðbjartsdóttir

Gunnar Eydal                     Arndís Soffía Sigurðardóttir

Date: 7/4/11

1/2011 Úrskurður vegna kæru Boðaþings ehf. gegn heilbrigðiseftirliti Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis vegna umsóknar Hvamms ehf. um endurnýjun starfsleyfis til reksturs eggja- og kjúklingaframleiðslu við Elliðahvamm í Kópavogi.

Með

Mál nr. 1/2011. Úrskurðarnefnd skv. 31. gr. laga nr. 7/1998.

Ár 2011, fimmtudaginn 23. júní kom úrskurðarnefnd skv. 31. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998 saman til fundar á skrifstofu formanns nefndarinnar að Lágmúla 7 í Reykjavík. Mætt voru Steinunn Guðbjartsdóttir, Gunnar Eydal og Arndís Soffía Sigurðardóttir.

Fyrir var tekið mál nr. 1/2011 Boðaþing ehf., gegn heilbrigðiseftirliti Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis. Í málinu er kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

I. Aðild kærumáls og kröfur

Með stjórnsýslukæru, dags. 31. janúar 2011, kærði Helga Loftsdóttir, hdl., f.h. Boðaþings ehf. (hér eftir nefnt kærandi) ákvörðun heilbrigðiseftirlits Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis (hér eftir nefnt kærði) frá 25. október 2010 um að leita undanþága til umhverfisráðherra frá ákvæðum reglugerðar um hollustuhætti nr. 941/2002 vegna umsóknar Hvamms ehf. um endurnýjun starfsleyfis til reksturs eggja- og kjúklingaframleiðslu við Elliðahvamm í Kópavogi. Kærandi, sem á byggingarlóð í nágrenni Elliðahvamms, gerir þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði ógilt. Kærði hefur krafist frávísunar málsins á grundvelli aðildarskorts en því hefur kærandi mótmælt. Þá hefur kærði og krafist þess að kröfu kæranda verði hafnað.

II. Málsmeðferð

Kæra málsins barst úrskurðarnefndinni þann 3. febrúar 2011 og byggir hún á kæruheimild í 31. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998. Meðfylgjandi kæru voru afrit af bréfi kærða til lögmanns kæranda, dags. 4. nóvember 2010, afrit af auglýsingu um starfsleyfistillögur, afrit af bréfi skipulags- og umhverfissviðs Kópavogs til kærða, dags. 9. júlí 2010, afrit af bréfi lögmanns kæranda til kærða, dags. 18. október 2010 og yfirlitskort yfir Elliðahvamm og nágrenni. Úrskurðarnefndin kynnti kærða framkomna kæru með bréfi, dags. 15. febrúar 2011, og óskaði eftir greinargerð hans í málinu. Kærði gerði grein fyrir sjónarmiðum sínum með greinargerð, dags. 1. mars 2011, sem kynnt var kæranda með bréfi, dags. 15. mars 2011. Kærandi gerði athugasemdir við greinargerð kærða í bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 22. mars 2011. Meðfylgjandi þeim athugasemdum voru afrit af starfsleyfi og starfsreglum vegna Hvamms ehf. frá árinu 2001. Athugasemdir kæranda voru kynntar kærða með bréfi, dags. 6. apríl 2011. Viðbótargreinargerð, dags. 19. apríl 2011, barst frá kærða sem úrskurðarnefndin kynnti kæranda með bréfi, dags. 27. apríl 2011. Kærandi kom athugasemdum á framfæri við viðbótargreinargerðina og voru þær sendar kærða til kynningar með bréfi, dags. 10. maí 2011. Frekari gögn hafa ekki borist.

III. Málsatvik

Málsatvik eru þau að á fundi kærða þann 25. október 2010 var til umfjöllunar umsókn um endurnýjun leyfis Hvamms ehf. til reksturs eggja- og kjúklingaframleiðslu við Elliðahvamm í Kópavogi. Var á þeim fundi m.a. tekin sú ákvörðun, sem kæra málsins varðar, að kærði samþykkti að leita undanþágu frá ákvæðum reglugerðar um hollustuhætti nr. 941/2002 varðandi fjarlægð til næstu íbúðarhúsa.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í kæru er gerð grein fyrir að í bréfi kærða til lögmanns kæranda komi fram að kærði hafi komist að þeirri niðurstöðu að endurnýja bæri starfsleyfi Hvamms ehf. til eggja- og kjúklingaframleiðslu. Þar segir jafnframt að kærði hafi þann fyrirvara á endurnýjun starfsleyfis að leita verði undanþágu umhverfisráðherra á ákvæðum 4. mgr. 24. gr. reglugerðar um hollustuhætti nr. 941/2002 er varði nánd alifuglabúa við mannabústaði. Ákvörðun um að leita eftir undanþágu liggi fyrir og muni kærði senda umhverfisráðherra erindi þess efnis. Í kæru kveðst kærandi telja að það sé ekki hlutverk kærða að sækja um undanþágur, fyrir hönd umsækjanda starfsleyfis, frá þeim lögum og reglugerðum sem kærða beri að vinna eftir. Þá segir kærandi að það sé hlutverk kærða að gefa út starfsleyfi, svo fremi sem rekstraraðili uppfylli viðeigandi ákvæði laga, reglugerða og starfsleyfis, en ekki leita undanþága frá ákvæðum laga og reglugerða. Vísar kærandi í þessu sambandi til þess að í 4. og 5. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir og 74. gr. reglugerðar nr. 941/2002 sé gert ráð fyrir að kærði veiti ráðherra umsögn þegar sótt sé um undanþágu og að með því að kærði sjálfur leiti undanþágu til ráðherra sé hann orðinn vanhæfur til að veita umsögn til ráðherra vegna erindis sem undanþágan varði. Kærandi heldur því fram að kærði hefði með réttu átt að synja Hvammi ehf. um endurnýjun starfsleyfis með vísan til ákvæðis 4. mgr. 24. gr. reglugerðar nr. 941/2002. Hefði hann á hinn bóginn samhliða synjuninni getað bent umsækjandanum á heimild ráðherra til að veita tímabundna undanþágu og væri það þá í hendi umsækjandans hvort hann leitaði til ráðherra um undanþágu eða ekki. Í athugasemdum kæranda við greinargerð kærða rökstyður hann afstöðu sína með því að segja að telja verði það óeðlilegt og ekki í samræmi við ákvæði laga um hollustuvernd að kærði, sem hafi með starfsleyfisumsókn Hvamms ehf. að gera, sæki um undanþágu frá ákvæðum reglugerðar nr. 941/2002. Kærði hafi ekki neinna hagsmuna að gæta af rekstri alifuglabúsins og að skylda hans sé að framfylgja lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir og reglugerðum settum með stoð í þeim. Í því skyni eigi kærði að gæta hlutleysis í störfum sínum, en hætt sé við að vikið verði frá faglegum sjónarmiðum ef eftirlitsaðili taki að sér hlutverk málsaðila, líkt og gert hafi verið af hálfu kærða í máli Hvamms ehf. Þá er í athugasemdum kæranda ítrekað að eðli málsins samkvæmt sé það umsækjanda leyfis að meta hvort rétt sé að sækja um undanþágu til ráðherra samkvæmt 74. gr. reglugerðar nr. 941/2002, en kærða að synja um veitingu leyfis hafi umsækjandi ekki sótt um undanþágu. Þá sé það hlutverk kærða að gæta þess að lög og reglur séu uppfyllt áður en starfsleyfi sé gefið út og beri honum að gæta hlutleysis í störfum sínum. Hlutverk kærða sé að taka ákvörðun um rétt eða skyldu aðila er varði starfsvið kærða og verði ákvörðun kærða að vera í samræmi við sett lög. Jafnframt er því haldið fram í athugasemdum kæranda að leiðbeiningarskylda stjórnvalds, samkvæmt 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, lúti að því að veita aðila þær upplýsingar sem nauðsynlegar séu til þess að aðili geti gætt hagsmuna sinna, m.a. leiðbeina aðilanum um þær réttarreglur sem á reyni á starfssviði viðkomandi stjórnvalds. Leiðbeiningarskylda kærða væri því í mál þessu að upplýsa umsækjanda leyfis um framangreind ákvæði 4. mgr. 24. gr. og 74. gr. reglugerðar nr. 941/2002. Í athugasemdum kæranda við viðbótargreinargerð kærða kemur fram að krafa kæranda er að hin kærða ákvörðun verði ógilt. Kveðst kærandi byggja á því að kærði hafi farið út fyrir valdsvið sitt og að það sé ekki á forræði kærða að sækja, fyrir hönd umsækjanda starfsleyfis, um undanþágu frá þeim lögum og reglum sem kærða beri að fara eftir í störfum sínum. Þá er því mótmælt að kærandi hafi ekki lögvarða hagmuni af niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar um hvort lögmætt hafi verið af hálfu kærða að sækja um undanþágu f.h. Hvamms ehf. Segir í athugasemdunum að hin kærða ákvörðun varði ekki einungis hagmuni umsækjanda leyfisins heldur alla þá aðila sem hafi lögvarinna hagsmuna að gæta vegna ákvörðunarinnar. Í stjórnsýslurétti hafi hugtakið aðili máls jafnan verið túlkað rúmt og að með aðila máls sé ekki einungis átt við þá sem eigi beina aðild að máli, eins og t.d. umsækjendur, heldur falli undir hugtakið einnig þeir aðilar sem hafi óbeinna hagsmuna að gæta, t.d. nágrannar. Aðili máls geti þannig verið hver sá sem hafi einstaklegra og verulegra hagsmuna að gæta sem beinlínis reyni á við úrlausn málsins. Eigi aðili aðild að hluta máls, þá eigi hann aðild að málinu í heild sinni. Þá segir að kærandi málsins hafi lögvarða hagsmuni af því að aðdragandi og undirbúningur endanlegrar stjórnsýsluákvörðunar sé í lögmætu formi. Hann eigi byggingarlóðir sem liggi fast að eggja- og kjúklingabúi Hvamms ehf. og hafi því bersýnilega hagsmuni af því að stjórnsýsluákvörðun kærða sé á lögmætu formi og að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

V. Málsástæður og rök kærða

Í greinargerð kærða er gerð grein fyrir hlutverki kærða samkvæmt ákvæðum laga um hollustuhætti og mengunarvarnir og matskenndum stjórnvaldsákvörðunum hans. Síðan er alfarið hafnað rökstuðningi kæranda um að kærði hafi með því að beina beiðni til ráðherra um undanþágu frá ákvæði 4. mgr. 24. gr. reglugerðar nr. 941/2002 brotið í bága við ákvæði laga um hollustuhætti og mengunarvarnir. Vekur kærði athygli á orðalagi ákvæðis 74. gr. reglugerðar nr. 941/2002 og bendir á að í ákvæðinu sé ekki gerður áskilnaður um að umsækjandi um starfsleyfi sæki sjálfur um undanþágu frá ákvæðum reglugerðarinnar. Raunar sé heldur ekki sett skilyrði um að sótt sé sérstaklega um undanþágu frá ráðherra, heldur virðist samkvæmt orðalagi ákvæðisins ráðherra það í sjálfsvald sett hvort hann veiti undanþágu frá ákvæðum reglugerðarinnar, eða ekki, að eigin frumkvæði og án sérstakrar umsóknar þar um. Hvorki heilbrigðisnefnd né umsækjanda um starfsleyfi sé falið sérstaklega slíkt hlutverk. Sérstök beiðni heilbrigðisnefndar geti því ekki hafa bortið í bága við ákvæði 74. gr. reglugerðar nr. 941/2002. Þá er því haldið fram af hálfu kærða að engu breyti í þessu sambandi að kærði skuli veita ráðherra umsögn um veitingu undanþágu frá ákvæðum reglugerðarinnar. Jafnframt segir að í því tilfelli sem málið varði hafi kærði veitt ráðherra umsögn samhliða því að senda honum undanþágubeiðnina. Sú framkvæmd sé í samræmi við orðalag 74. gr. reglugerðarinnar, enda segi þar aðeins að heilbrigðisnefnd skuli veita umsögn en ekki að heilbrigðisnefndin megi ekki hafa frumkvæði að því að veita ráðherra slíka umsögn. Kærði gerir grein fyrir því að við ákvörðun um endurnýjun starfsleyfis fyrir Hvamm ehf. hafi kærði metið það svo að endurnýjun starfsleyfisins væri í samræmi við ákvæði laga um hollustuhætti og mengunarvarnir og reglugerða, sem settar hefðu verið á grundvelli laganna, svo og yfirlýstan tilgang og markmið laganna, enda yrði undanþága frá ákvæði 4. mgr. 24. gr. reglugerðar nr. 941/2002 veitt af hálfu ráðherra. Kærði kveður að beiðni hans til ráðherra hafi ekki brotið gegn lögmætisreglu stjórnsýsluréttarins, enda hafi kærði með sendingu beiðninnar unnið að markmiðum laganna og að öllu leyti í samræmi við ákvæði þeirra. Jafnframt heldur kærði því fram að telja verði það fráleitt að málefnaleg sjónarmið hafi ekki búið að baki ákvörðun hans. Kveðst kærði telja að sending undanþágubeiðni til ráðherra, þegar jákvæð umsögn kærða leggi fyrir, falli undir leiðbeiningarskyldu stjórnvalds, sbr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og getur þess að þessi háttur hafi verið hafður á margsinnis vegna annarra erinda og framkvæmdin verið með þessu móti í fjölda ára. Í viðbótargreinargerð kærða segir að hefðbundinn skilningur á því hvað teljist stjórnvaldsákvörðun sé það þegar sjórnvald kveði einhliða á um rétt og/eða skyldu tiltekins aðila í ákveðnu máli í skjóli stjórnsýsluvalds síns. Þeir njóti aðildar að stjórnsýslumálum sem hafi af niðurstöðu þeirra einstaka og lögvarða hagsmuni. Þá segir að í þeirri ákvörðun kærða að vísa erindi Hvamms ehf. til ráðherra með beiðni um undanþágu frá ákvæðum reglna hafi ekki á nokkurn hátt verið tekin ákvörðun um rétt eða skyldu Hvamms ehf. hvað varði starfsleyfi félagsins. Aðeins hafi verið tekin ákvörðun um að beina beiðni til ráðherra um undanþágu frá ákvæði 4. mgr. 24. gr. reglugerðar nr. 941/2002. Með ákvörðun kærða um sendingu beiðninnar hafi kærði ekki veitt Hvammi ehf. rétt til að starfrækja kjúklingabú sitt. Því hafi nágrannar kjúklingabúsins, þ.m.t. kærandi, ekki lögvarða hagsmuni af niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar um það einstaka deiluatriði hvort lögmætt hafi verið af kærða að beina beiðni um undanþágu frá reglum til ráðherra. Kærandi geti ekki átt aðild að málinu, enda eigi hann ekki einstakra lögvarinna hagsmuna að gæta af því hvort sending beiðninnar sem slík hafi verið lögmæt eða ekki og þar sem eini aðilinn sem njóti aðildar að hinni kærðu ákvörðun, þ.e. Hvammur ehf., hafi ekki kært ákvörðun kærða beri að vísa kæru málsins frá úrskurðarnefndinni. Þá er í viðbótargreinargerðinni enn fremur ítrekað að kærði mótmæli þeim skilningi kæranda að kærði hafi tekið að sér hlutverk málsaðila með sendingu undanþágubeiðninnar. Kærði hafi aðeins framfylgt lögbundnu hlutverki sínu og sýnt vandaða stjórnsýsluhætti umfram það sem krefjast mátti af honum. Þá er því hafnað að með sendingu slíkrar umsóknar hafi kærði ekki gætt hlutleysis, enda hvíli ákvörðunarvald um veitingu undanþágu hjá ráðherra en ekki kærða. Sending undanþágubeiðninnar sé á allan hátt í samræmi við lögmætisreglu stjórnsýsluréttarins enda sé heimild til sendingar slíkrar beiðni ekki bundin við umsækjanda um starfsleyfi.

VI. Álit og niðurstaða úrskurðarnefndar

Kærði heldur því fram að kærandi geti ekki átt aðild að málinu og því beri að vísa því frá úrskurðarnefndinni. Kærandi hefur mótmælt þeirri afstöðu kærða og heldur því fram að hann hafi lögvarðra hagsmuna að gæta í málinu. Hvorki í lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998 né stjórnsýslulögum nr. 37/1993 er mælt fyrir um hverjir eigi kæruaðild. Verður því að líta til almennra sjónarmiða um aðila máls þegar til athugunar kemur hver geti átt aðild að kærumáli. Hugtakið aðili máls er ekki skilgreint í stjórnsýslulögunum en í 2. gr. frumvarps til stjórnsýslulaganna er svohljóðandi skilgreiningu að finna: ,,Sá sem hefur lögmætra hagsmuna að gæta varðandi stjórnvaldsákvörðun?. Varðandi málsaðild verður því að líta til þess hvort hlutaðeigandi eigi einstaklegra og verulegra hagsmuna að gæta við úrlausn málsins og meta heildstætt hversu verulegir hagsmunirnir eru og hversu náið þeir tengjast úrlausn málsins. Um kæruaðild segir m.a. á bls. 254 í skýringarriti Páls Hreinssonar með stjórnsýslulögum, útg. 1994,: ?Aðili á lægra stjórnsýslustigi á almennt kæruaðild að sama máli. Enn fremur geta hugsanlega fleiri átt kæruaðild. Á heildina litið virðist tilhneiging til þess að setja ekki kæruaðild þröngar skorður?. Svo virðist sem óumdeilt sé í málinu að þegar kærði tók hina kærðu ákvörðun um að leita undanþágu frá ráðherra í tengslum við umsókn Hvamms ehf. um endurnýjun starfsleyfis fyrir eggja- og kjúklingabú við Elliðahvamm, hafi kærandi átt aðild að því máli sem varðaði endurnýjun starfsleyfisins og var honum veittur kostur á að tjá sig um það. Úrskurðarnefndin telur að kærandi eigi ótvíræðra hagsmuna að gæta varðandi hvort starfsleyfi Hvamms ehf. verði endurnýjað og kunni þar með jafnframt að eiga hugsmuna að gæta varðandi hina kærðu ákvörðun. Með vísan til þessa og þeirrar tilhneigingar sem samkvæmt framangreindu hefur verið ríkjandi að setja kæruaðild ekki þröngar skorður telur úrskurðarnefndin rétt að fallast á að kærandi geti átt aðild að máli því sem hér er til úrlausnar og er af þeim sökum synjað að vísa málinu frá úrskurðarnefndinni á grundvelli aðildarskorts. Samkvæmt heimild í 4. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998 hefur verið sett reglugerð um hollustuhætti nr. 941/2002. Ákvæði 24. gr. þeirrar reglugerðar varðar íbúðarhúsnæði. Þar segir í 1. málslið 4. mgr.: ?Óheimilt er að hafa loðdýrabú, alifuglabú og svínabú nær mannabústöðum, matvælafyrirtækjum eða vinnustöðum annarra en sjálfs búsins en sem nemur 500 metrum.“ Í 74. gr. sömu reglugerðar er hins vegar kveðið á um að ráðherra sé heimilt að fenginni umsögn heilbrigðisnefndar og Umhverfisstofnunar að veita undanþágu frá einstökum ákvæðum reglugerðarinnar. Ágreiningur máls þessa snýst um hvort kærða, Heilbrigðiseftirliti Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis, hafi verið heimilt að senda umsókn um undanþágu frá ákvæði 4. mgr. 24. gr. reglugerðarinnar til ráðherra á grundvelli 74. gr. vegna umsóknar sem eftirlitið hafði til afgreiðslu frá Hvammi ehf. um endurnýjun starfsleyfis fyrir eggja- og kjúklingabú við Elliðahvamm, sem óumdeilanlega virðist ekki hafa uppfyllt skilyrði framangreindar 4. mgr. 24. gr. reglugerðar nr. 942/2002 um 500 metra fjarlægð frá mannabústöðum. Kærandi heldur því fram að kærði hafi með því að senda beiðni um undanþágu til ráðherra gengið út fyrir valdsvið sitt og tekið að sér hlutverk sem aðeins umsækjandi um starfsleyfi, sem undanþágan varðar, geti haft með að gera. Kærði heldur því hins vegar fram að hann hafi verið að sinna leiðbeiningarskyldu sinni gagnvart umsækjandanum með því að hafa frumkvæði að því að sækja um undanþáguna. Kveðið er á um leiðbeiningarskyldu stjórnvalda í 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þar segir: ?Stjórnvald skal veita þeim sem til þess leita nauðsynlega aðstoð og leiðbeiningar varðandi þau mál sem snerta starfssvið þess. Berist stjórnvaldi skriflegt erindi, sem ekki snertir starfssvið þess, ber því að framsenda erindið á réttan stað svo fljótt sem unnt er.? Leiðbeiningarskylda stjórnvalda felur þannig í sér að stjórnvaldi ber að veita aðila, t.d. umsækjanda starfsleyfis, þær leiðbeiningar sem honum eru nauðsynlegar til að hann geti gætt hagsmuna sinna á sem bestan hátt. Með vísan til ákvæðis 7. gr. stjórnsýslulaga telur úrskurðarnefndin kærða hafa gengið lengra en leiðbeiningarskylda hans gagnvart Hvammi ehf. nær, með því að óska eftir undanþágu ráðherra til að gera mögulegt að kærði gæti í framhaldinu afgreitt umsókn Hvamms ehf. með samþykki. Tekið skal fram að ekkert hefur komið fram í málinu sem gefur tilefni til að ætla að kærði hafi, með því að senda umrædda beiðni um undanþágu til ráðherra, verið að framsenda ráðherra erindi Hvamms ehf. í samræmi við 2. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga. Það er því niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að fella skuli úr gildi ákvörðun kærða um að senda til umhverfisráðherra beiðni um undanþágu á grundvelli 74. gr. reglugerðar um hollustuhætti nr. 941/2002 vegna umsóknar Hvamms ehf. um endurnýjun starfsleyfis til reksturs eggja- og kjúklingaframleiðslu við Elliðahvamm í Kópvogi.

Úrskurðarorð:

Hin kærða ákvörðun er felld er úr gildi. Steinunn Guðbjartsdóttir Gunnar Eydal Arndís Soffía Sigurðardóttir

Date: 7/4/11

5/2011 Úrskurður vegna kæru Írisar Helgu Valgeirsdóttur gegn sýslumanninum á Selfossi vegna ákvörðunar um að aflífa skuli rottweilertíkina Chrystel.

Með

Mál nr. 5/2011.
Úrskurðarnefnd skv. 31. gr. laga nr. 7/1998.

Ár 2011, fimmtudaginn 23. júní, kom úrskurðarnefnd samkvæmt 31. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998 saman til fundar á skrifstofu formanns nefndarinnar að Lágmúla 7 í Reykjavík. Mætt voru Steinunn Guðbjartsdóttir, Gunnar Eydal og Valgerður Dís Valdimarsdóttir.

Fyrir var tekið mál nr. 5/2011 Íris Helga Valgeirsdóttir, Dalsbrún 25, Hveragerði, gegn sýslumanninum á Selfossi.

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

I. Aðild kærumáls og kröfur

Með stjórnsýslukæru, dags. 21. mars 2011, kærði Sigurður Jónsson, hrl., f.h. Írisar Helgu Valgeirsdóttur (hér eftir nefnd kærandi) ákvörðun sýslumannsins á Selfossi (hér eftir nefndur kærði) frá 16. mars 2011 þess efnis að aflífa skuli rottweilartíkina Chrystel. Krefst kærandi, sem er eigandi hundsins, þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

II. Málmeðferð

Kæra málsins er dagsett 21. mars 2011 og byggir hún á kæruheimild í 31. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998. Kæran barst úrskurðarnefndinni frá kæranda þann 28. mars 2011. Jafnframt því að senda kæru til úrskurðarnefndarinnar kærði kærandi ákvörðun kærða til innanríkisráðuneytisins. Þann 29. mars 2011 framsendi innanríkisráðuneytið málið til úrskurðarnefndarinnar. Þann 7. apríl 2011 var af hálfu kæranda sett fram krafa um frestun réttaráhrifa hinnar kærðu ákvörðunar. Þeirri kröfu var hafnað í úrskurði úrskurðarnefndarinnar uppkveðnum 5. maí 2011. Úrskurðarnefndin kynnti kærða framkomna kæru máls þessa með bréfi, dags. 6. apríl 2011 og óskaði eftir greinargerð hans. Greinargerð, dags. 19. apríl 2011, barst frá kærða og var hún kynnt kæranda með bréfi, dags. 28. apríl 2011. Kærandi gerði athugsemdir, dags. 4. maí 2011, við greinargerð kærða og voru þær kynntar kærða með bréfi, dags. 6. maí 2011. Frekari gögn hafa ekki borist.

III. Málsatvik

Samkvæmt gögnum málsins beit hundur sá sem mál þetta varðar, þann 4. mars 2011, konu til blóðs er hún kom að húsi því er kærandi bjó í í Hveragerði. Þegar atburðurinn gerðist var hundurinn bundinn fyrir utan húsið og lá taumurinn inn í gegnum bréfalúgu á heimili kæranda. Atburðurinn var tilkynntur lögreglu og kom lögregla á vettvang. Er atburðurinn gerðist var dýraeftirlitsmaður Hveragerðisbæjar vant við látinn, svo á vettvangi kynnti lögreglumaður kæranda að fjarlægja þyrfti hundinn og koma honum í vistun þar til annað yrði ákveðið. Ók kærandi, í fylgd lögreglu, með hundinn í vistun að Byggðarhorni. Lögregla tók skýrslur af aðilum málsins og leitaði upplýsinga frá dýraeftirlitsmanni Hveragerðisbæjar. Á grundvelli heimildar í b-lið 10. töluliðs 2. gr. samþykktar um hundahald í Hveragerðisbæ nr. 555/2007 var leitað álits héraðsdýralæknis, auk þess sem fallist var á beiðni kæranda um að hundurinn færi í skapgerðarmat hjá Birni St. Árnasyni hundaatferlisráðgjafa. Eftir að álit héraðsdýralæknis og álitsgerð á grundvelli atferlisskoðunar Björns St. Árnasonar hundaatferlisráðgjafa og Hönnu M. Arnórsdóttur dýralæknis lágu fyrir tók kærði þá ákvörðun að aflífa skyldi hundinn. Þegar kæranda var tilkynnt sú ákvörðun kvaðst hann ætla að leita til æðra setts stjórnvalds og ákvað kærði að fresta aflífun hundsins að sinni. Hundinum, sem þá hafði verið í gæslu Hönnu M. Arnórsdóttur dýralæknis og Björns St. Árnasonar hundaatferlisráðgjafa, var komið fyrir á hundahóteli að Arnarstöðum og sá dýraeftirlitsmaður Hveragerðisbæjar um að flytja hundinn þangað. Þann 3. maí hvarf hundurinn af hundahótelinu á Arnarstöðum og hefur lögreglu ekki tekist að hafa upp á honum.

IV. Málstæður og rök kæranda

Í rökstuðningi kæranda fyrir kröfu um að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi segir að í fyrsta lagi sé ekki sannað að tíkin Chrystel sé hættuleg. Niðurstöður hinnar kærðu ákvörðunar hafi byggst á mati héraðsdýralæknis, sem hafi komist að þeirri niðurstöðu að ekkert hafi komið fram sem útlokaði að hundurinn gæti bitið mann aftur og að það væri álit héraðsdýralæknisins að aflífa skuli hunda í slíkum tilvikum. Heldur kærandi því fram að þetta álit héraðsdýralæknisins sé almennt og sett fram án þess að héraðsdýralæknirinn hafi sjálfur skoðað hundinn. Kærandi telur að kærði geti ekki stuðst við mat héraðsdýralæknisins þar sem fyrir liggi álit annarra sérfræðinga sem allir hafi skoðað eða meðhöndlað hundinn og gangi álit þeirra gegn niðurstöðu héraðsdýralæknisins. Kveður kærandi að með tilgreindum álitum hafi verið sýnt fram á að umræddur hundur sé alls ekki hættulegur þrátt fyrir atburðinn þann 4. mars 2011 er hann beit konu fyrir utan heimili kæranda.

Þá heldur kærandi því fram að fella eigi hina kærðu ákvörðun úr gildi á þeirri forsendu að kærði, sýslumaðurinn á Selfossi, hafi ekki verið bær til að taka ákvörðunina. Vísar kærði í því sambandi til a-liðar 10. töluliðar 2. gr., 4. gr. og 6. gr. samþykktar um hundahald í Hveragerði, svo og 26., 28. og 29. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir, og segir að hvergi sé að finna heimild sýslumanns til þess að taka ákvörðun um að aflífa hund. Heldur kærandi því fram að slíka ákvörðun megi ekki taka nema með dómsúrskurði. Vísar kærandi þessu til hliðsjónar til málsmeðferðarreglna í samþykkt um hundahald í Reykjavík nr. 52/2002.

Kærandi heldur því einnig fram að ekki sé réttlátt að hundurinn þurfi að gjalda fyrir mistök eigenda sinna með lífi sínu og að með því sé gengið út fyrir almennt meðalhóf, þar sem vægari aðgerðir hljóti að vera tiltækar. Enn fremur bendir kærandi á að tjónþolinn hafi ekki gert kröfu um að hundurinn verði aflífaður og loks að það muni valda kærandi umtalsverðum fjárhagslegum skaða ef hundurinn yrði aflífaður, þar sem hann hafi verið fluttir til Íslands frá Bandaríkjunum í því skyni að stunda ræktunarstarf og séu umtalsverðir fjármunir á bak við það að kaupa hundinn og flytja hann til Íslands.

V. Málsástæður og rök kærða

Kærði kveður hina kærðu ákvörðun vera grundvallaða á 10. lið 2. gr. samþykktar um hundahald í Hveragerðisbæ, sbr. 29. gr. lögreglusamþykktar Hveragerðisbæjar frá 11. júlí 2009.

Varðandi atburðinn 4. mars 2011, sem málið varðar, kveður kærði að bitið hafi verið fast og djúpt og segir jafnframt að sú hegðun hundsins að reyna, um leið og hann beit, að draga fórnarlambið niður geri það að verkum að málið verði að teljast mjög alvarlegt. Hundurinn hafi ekki eingöngu verið að glefsa í fórnarlambið heldur hafi reynt að draga það niður af eðlislægri hvöt til að yfirbuga það.

Kærði heldur því fram að mat héraðsdýralæknis styðji ákvörðun hans og bendir á að þegar matið hafi verið unnið hafi ekki legið fyrir upplýsingar, sem síðar hafi komið fram, þess efnis að hundurinn hafi áður bitið eða glefsað. Sú staðreynd styðji niðurstöðu héraðsdýralæknis og jafnframt hina kærðu ákvörðun.

Þá bendir kærði á að ekki hafi verið leyfi fyrir hundinum þegar atburðurinn 4. mars 2011 átti sér stað, auk þess sem hann hafi ekki verið vátryggður, eins og samþykkt Hveragerðisbæjar kveði á um að gera skuli. Jafnframt kveður kærði að dýralæknir sem haft hafi afskipti af hundinum hafi tjáð að hundurinn gegndi ekki nafni, að hann þekki ekki nafn sitt og að fyllsta ástæða kynni að vera fyrir hendi að hundurinn sýndi endurtekna hegðun í umsjá eiganda síns.

VI. Álit og niðurstaða úrskurðarnefndar

Í 25. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998 er kveðið á um samþykktir sveitarfélaga. Þar segir m.a. í 1. mgr. að sveitarfélög geti sett sér eigin samþykktir um bann eða takmörkun gæludýrahalds og húsdýrahalds. Á grundvelli þessarar heimildar hefur verið sett samþykkt fyrir hundahald í Hveragerðisbæ nr. 555/2007. Í 29. gr. lögreglusamþykktar fyrir Hveragerði nr. 579/2007 er tekið fram að sérstök samþykkt gildi um hunda- og kattahald í Hveragerði og er vísað til hennar um þau atriði.

Í a- og b-lið 10. töluliðar 2. gr. samþykktar um hundahald í Hveragerðisbæ segir:
?a. Sá sem verður fyrir biti skal strax leita læknis. Ef hundur bítur mann getur eigandi átt von á kæru frá þeim bitna eða aðstandanda hans. Heimilt er að aflífa þegar í stað hættulegan hund og hund sem bítur, sbr. þó ákvæði 8. greinar reglugerðar nr. 1077/2004.
b. Hundaeiganda er þó heimilt að leita álits héraðsdýralæknis áður en ákvörðun um aflífun er tekin sbr. 10.a.?
Tilvísað ákvæði 8. gr. reglugerðar nr. 1077/2004 varðar hver megi annast aflífun dýra.

Í 4. gr. samþykktar um hundahald í Hveragerðisbæ segir að eftirlitsmaður með dýrum í Hveragerðisbæ annist framkvæmd og eftirlit með hundahaldi í Hveragerði í umboði bæjarstjórnar og heilbrigðisnefndar og geti hann leitað aðstoðar heilbrigðiseftirlits og lögregluyfirvalda, þegar þörf krefur.

Af ákvæði a-liðar 10. töluliðar 2. gr. samþykktar um hundahald í Hveragerðisbæ leiðir að stjórnvöldum er heimilt að taka ákvörðun um að aflífa hund sem telst hættulegur eða hefur bitið. Í ákvæðinu er ekki tekið fram hvaða stjórnvald skuli taka ákvörðunina, en samkvæmt 4. gr. samþykktarinnar annast dýraeftirlitsmaður sveitarfélagsins framkvæmd og eftirlit með hundahaldi í Hveragerði og getur hann í því sambandi leitað aðstoðar heilbrigðiseftirlits og lögregluyfirvalda.

Þann 4. mars sl. þegar hundur sá sem mál þetta varðar beit konu fyrir utan heimili kæranda í Hveragerði var lögregla kölluð á staðinn. Dýraeftirlitsmaður bæjarfélagsins var vant við látinn þegar atburðurinn átti sér stað og gekk lögregla því inn í hlutverk hans samkvæmt heimild í 4. gr. samþykktar um hundahald í Hveragerðisbæ og sá m.a. til þess að hundinum yrði komið fyrir í vistun. Lögreglan annaðist síðan málið, hvort tveggja rannsóknarþátt þess og þann þátt sem laut að hundinum og ákvæðum samþykktar um hundahald í Hveragerðisbæ. Við það starf hafði lögreglan m.a. samstarf við dýraeftirlitsmann Hveragerðisbæjar.

Þar sem hvergi er tilgreint berum orðum í samþykkt um hundahald í Hveragerðisbæ hvaða stjórnvald fari með ákvörðunarvald um það hvort aflífa skuli hund á grundvelli a-liðar 10. töluliðar 2. gr. samþykktarinnar og þar sem dýraeftirlitsmanni bæjarfélagsins er þar falið að annast framkvæmd og eftirlit með hundahaldi og honum veitt heimild til þess að leita aðstoðar lögregluyfirvalda í því sambandi, telur úrskurðarnefndin að lögreglustjórinn á Selfossi hafi, eins og mál þetta er vaxið, verið bær til að taka ákvörðun um hvort aflífa skyldi hund þann sem mál þetta varðar. Telur úrskurðarnefndin að ákvæði 26. gr., 28. gr. og 29. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir, sem kærandi vísar til og eru í VI. kafla laganna, sem varðar valdsvið og þvingunarúrræði, breyti engu um þá niðurstöðu. Þá telur úrskurðarnefndin að nefndin sé bær aðili til að leysa úr þeim ágreiningi sem uppi er á milli málsaðila á grundvelli 1. mgr. 31. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir.

Í fyrirliggjandi áliti héraðsdýrlæknis, sem dagsett er 16. mars 2011, segir m.a.:
,,Álit héraðsdýralæknis
Í skapgerðarmati kemur fram að hundurinn gæti að öðru óbreyttu bitið aftur, en mögulegt væri að þjálfa hundinn þannig upp svo hann sýndi ekki þessa ríku varnaráráttu aftur og þá að því tilskildu að hundurinn væri aldrei í bandi fyrir utan húsið og aldrei eftirlitslaus.

Í skýrslunni kemur einnig fram að hundurinn hafi ekki ?fengið neina formlega þjálfun né uppeldi sem er algjört grundvallaratriði með hunda af þessari tegund, stærð og uppruna? Hanna María dýralæknir tjáði mér munnlega að tíkin þekkti ekki nafnið sitt, þrátt fyrir að vera orðin 16 mánaða gömul.“

Enn fremur segir í álitinu:
,,Héraðsdýralæknir leitaði einnig upplýsinga hjá Hrund Lárusdóttur eftirlitsdýralækni í Reykjavík, en hún annaðist opinbert eftirlit með hundunum í innflutningi. Hún segir að hundarnir hafi greinilega ekki verið mannvanir og t.d. hafi ekki verið hægt að klappa þeim.“

Niðurstaða héraðsdýralæknis er:
,,Að mati héraðsdýralæknis hefur ekkert komið fram sem útilokar að Rottveilertíkin ?Christel? geti bitið mann aftur. Einhver tiltekin framtíðarþjálfun og ríkt framtíðareftirlit breytir engu um þá niðurstöðu að töluverðar líkur eru á að hundurinn bíti aftur. Það er sömuleiðis álit héraðsdýralæknis að aflífa skuli hunda í tilvikum sem þessum.“

Í fyrirliggjandi álitsgerð Björns St. Árnasonar, hundaatferlisráðgjafa og Hönnu M. Arnórsdóttur, dýralæknis, dags. 10. mars 2011, sem aflað var vegna atburðarins þann 4. mars sl. segir m.a.:  ,,Sú aðstaða, sem Christel var í þegar þessi atburður á sér stað, getur að miklu leyti skýrt hegðun hennar, og er það fyrst og fremst eigendur hennar sem bera ábyrgð á því. Árásin sem hún gerir er þó líka úr öllu samhengi við það sem eðlilegt getur talist.
Með það í huga er ekki hægt að horfa framhjá því að hundurinn hefur eingöngu verið þarna í 6 vikur og kemur frá ræktunarbúi í útlöndum í gegnum einangrunarstöð til þeirra. Hann hefur ekki fengið neina formlega þjálfun né uppeldi sem er algjört grundvallar atriði með hunda af þessari tegund, stærð og uppruna (kemur frá ræktunarbúi ca 13 mánaða).
Það er okkar álit að þessi hundur er ekki hættulegur í daglegri umgengni en hann má ekki vera bundinn fyrir utan heimili sitt nokkurn tíma, því að öllu óbreyttu gæti þetta gerst aftur.
Það er skoðun undirritaðra að hægt sé að þjálfa hundinn svo hann sýni ekki þessa ríku varnaráráttu og svona árás er vel hægt að koma í veg fyrir með því að setja hundinn aldrei í þessar aðstæður aftur, í band fyrir utan hús né hafa hann án eftirlits innan girðingar á lóðinni eða utan.
Christel er eingöngu 16 mánaða og verður ekki fullorðinn fyrr en um 36 mánaða. Á þeim tíma væri hægt að þjálfa hana og umhverfisvenja til að sjá hvernig skapgerð hún kemur til með að bera en það þýðir að hún þarf stöðugt að fá rétta þjálfun og uppeldi. Sá er verður umsjónaraðili hundsins verður að gera sér grein fyrir því að árangur næst ekki nema með markvissri þjálfun og viðurkenningu á eðliseiginleikum hans. Þar er átt við að eiginleikinn (ríkulegt varð- og varnareðli tegundarinnar) verður alltaf til staðar en því þarf að stjórna. Einnig er mjög mikilvægt að aðbúnaðurinn og umhverfið sem hún býr við geti sem best stuðlað að eðlilegum þroska. Slíkt er mikilvægt fyrir alla hunda en sérstaklega fyrir hunda með mikið varnareðli.“

Fyrir liggja upplýsingar um að hundur sá, sem mál þetta varðar, hafi þann 4. mars sl. bitið konu, sem kom að heimili kæranda, svo fast og djúpt að sauma þurfti saman sár sem hún hlaut, auk þess sem hann hafi reynt að draga hana niður. Verður því ekki um það deilt að árás hundsins á konuna var mjög alvarleg. Þá liggja einnig fyrir upplýsingar um að hundurinn hafi áður bitið eða glefsað í manneskju. Jafnframt liggur fyrir að kærandi, sem er eigandi nokkurra hunda í Hveragerði, hafði haft hundinn hjá sér í sex vikur án þess að gera reka að því að skrá hann og fá leyfi bæjaryfirvalda til að hafa hann og án þess að kaupa ábyrgðartryggingu vegna hundsins, eins og skylt er samkvæmt samþykkt um hundahald í Hveragerðisbæ. Þá braut kærandinn einnig gegn sömu samþykkt þegar atburðurinn átti sér stað með því að hafa hundinn bundinn utandyra með tauminn inn í gegnum bréfalúguna þannig að ekki var unnt að komast óhindrað að húsi því sem kærandi bjó í. Þegar til alls þessa er litið, en þó einkum framangreindrar niðurstöðu héraðsdýralæknis þess efnis að töluverðar líkur séu á að umræddur hundur bíti aftur og framangreindrar niðurstöðu álits hundaatferlisráðgjafa og dýralæknis þess efnis að að öllu óbreyttu gætu atvik gerst aftur, svo og að teknu tilliti til almennra öryggissjónarmiða, er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að kærði hafi við ákvörðun sína tengda atburðinum 4. mars sl. ekki haft tilefni til að ganga skemur en að ákveða að aflífa skyldi hundinn, eins og veitt er heimild til í a-lið 10. töluliðar 2. gr. samþykktar um hundahald í Hveragerðisbæ. Því telur úrskurðarnefndin kærða ekki hafa, við töku hinnar kærðu ákvörðunar, brotið gegn meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Hugsanlegt fjártjón kæranda breytir í engu þeirri niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar. Rétt þykir að taka fram að ákvæði a-liðar 10. töluliðar 2. gr. samþykktar um hundahald í Hveragerðisbæ gerir ekki að skilyrði að tjónþoli krefjist aflífunar hunds sem valdið hefur honum tjóni. Með vísan til alls þess sem að framan er rakið er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að staðfesta beri ákvörðun kærða um að aflífa skuli rottweilertíkina Chrystel.

Úrskurðarorð:

Staðfest er ákvörðun lögreglustjórans á Selfossi um að aflífa skuli rottweilertíkina Chrystel.

Steinunn Guðbjartsdóttir

Gunnar Eydal                                                        Valgerður Dís Valdimarsdóttir

Date: 7/4/11

7/2010 Úrskurður vegna kæru Fles ehf. á hendur sveitarfélaginu Langanesbyggð vegna ákvörðunar um að hafna kröfu um endurskoðun á gjaldtöku vegna sorphreinsunar og sorpeyðingar.

Með

Mál nr. 7/2010.
Úrskurðarnefnd skv. 31. gr. laga nr. 7/1998.

Ár 2011, mánudaginn 4. apríl, kom úrskurðarnefnd skv. 31. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998 saman til fundar á skrifstofu formanns nefndarinnar að Lágmúla 7 í Reykjavík. Mætt voru Steinunn Guðbjartsdóttir, Gunnar Eydal og Guðrún Helga Brynleifsdóttir.

Fyrir var tekið mál nr. 7/2010 Vilhjálmur Jónsson vegna Fles ehf., Skálanesgötu 15, Vopnafirði gegn sveitarfélaginu Langanesbyggð.

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

I. Aðild kærumáls og kröfur

Með stjórnsýslukæru, dags. 4. nóvember 2010, kærði Vilhjálmur Jónsson f.h. Fles ehf. (hér eftir nefnt kærandi) ákvörðun sveitarfélagsins Langanesbyggðar (hér eftir nefnt kærði) um að hafna beiðni kæranda um endurskoðun á gjaldtöku vegna sorphreinsunar og sorpeyðingar. Kæruna sendi kærandi til samgöngu- og sveitarsjórnarráðuneytisins, sem framsendi hana úrskurðarnefnd samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir með bréfi, dags. 8. nóvember 2010, á grundvelli 2. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Kærandi gerir þær kröfur að álagning sorphreinsunar- og sorpeyðingargjalda á fasteignirnar Eyrarveg 1, Langanesveg 15 og Hafnargötu 3, Langanesbyggð, sem eru í eigu kæranda, verði endurskoðaðar og leiðréttar.

II. Málmeðferð og málsatvik

Kæra málsins barst úrskurðarnefndinni þann 10. nóvember 2010 og byggir hún á kæruheimild í 1. mgr. 39. gr. laga um meðhöndlun úrgangs nr. 55/2003, sbr. 31. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998. Meðfylgjandi kæru voru erindi kæranda til kærða, dags. 25. ágúst 2010, hin kærða ákvörðun, dags. 1. nóvember 2010 og yfirlit yfir fasteignagjöld árin 2009 og 2010 vegna fasteignanna Eyrarvegar 1, Langanesvegar 15 og Hafnargötu 3. Úrskurðarnefndin kynnti kærða framkomna kæru með bréfi, dags. 11. nóvember 2010, og óskaði eftir greinargerð hans í málinu. Kærði gerði grein fyrir sjónarmiðum sínum með greinargerð, dags. 6. desember 2010, sem kynnt var kæranda með bréfi, dags. 16. desember 2010. Eftir beiðni frá úrskurðarnefndinni bárust frá kærða afrit af samþykkt um sorphirðu sveitarfélaga á Norðurlandi eystra nr. 541/2000, álagningarákvæðum fasteignagjalda Langanesbyggðar fyrir árið 2010 og álagningarseðlum fasteignagjalda kæranda. Auk þess lá fyrir nefndinni núgildandi gjaldskrá vegna sorphirðu og förgunar úrgangs í Langanesbyggð.

III. Málsástæður og rök kæranda

Kærandi er eigandi þriggja fasteigna í Langanesbyggð, þ.e. Eyrarvegar 1, Langanesvegar 1 og Hafnargötu 3. Kærandi kveðst alltaf hafa staðið í skilum á álögðum gjöldum Langanesbyggðar vegna umræddra fasteigna, þ.á m. sorphreinsunar- og sorpeyðingargjöldum. Kveður kærandi að við þreföldum sorpgjalda milli áranna 2009 og 2010 hafi honum þótt nóg komið og borið fram kvörtun við sveitarstjóra. Á yfirliti yfir fasteignagjöld fyrir árin 2009 og 2010, sem kærandi lagði fram með kæru, kemur m.a. fram að sorphreinsunargjald fyrir Eyrarveg 1 hafi á árinu 2009 verið 1.232 kr. en 1.934 kr. á árinu 2010 og að sorpeyðingargjald fyrir sömu fasteign hafi verið 1.232 kr. á árinu 2009 en 1.934 kr. áh árinu 2010. Enn fremur kemur þar fram að sorphreinsunargjöld fyrir Langanesveg 15 og Hafnargötu 3 hafi á árinu 2009 verið 8.625 kr. fyrir hvora fasteign en 13.541 kr. á árinu 2010 og að sorpeyðingargjald fyrir sömu fasteignir hvora um sig hafi verið 8.625 kr. á árinu 2009 en 40.624 kr. á árinu 2010.

Í kæru kemur fram að kærandi hafi eignast fasteignina að Langanesvegi 15 á árinu 2003, fasteignina að Eyrarvegi 1 á árinu 2004 og fasteignina að Hafnargötu 3 á árinu 2005. Kærandi kveður að umræddar fasteignir hafi verið nýttar til geymslu útgerðartækja og veiðarfæra milli vertíða með þeirri undantekningu að Míla ehf. leigi 20% hússins við Hafnargötu 3 til hýsingar fjarskiptatækja. Þá heldur kærandi því fram að frá upphafi hafi aldrei átt sér stað sorphirða af neinu tagi við umræddar fasteignir enda hafi engin þörf verið á því. Óumdeilanlegt hljóti að vera að Langanesbyggð hafi aldrei haft nokkurn kostnað vegna sorphiðru við fasteignirnar þrjár. Fer kærandi fram á úrskurð um hvort gjaldtaka Langanesbyggðar fyrir sorphreinsun og sorpeyðingu vegna framangreindra fasteigna teljist í lagi og hvort fyrir henni sé lagastoð.

IV. Málsástæður og rök kærða

Í greinargerð kærða kemur fram að álagning fasteignaskatts, þ.m.t. sorphreinsunar- og sorpeyðingargjalds, í Langanesbyggð árið 2010 hafi farið fram á grundvelli reglna (gjaldskrár) sem samþykkt hafi verið af sveitarstjórn. Umrædd gjöld séu lögð á án tillits til þess hvort og þá í hve miklum mæli einstaklingar og/eða lögaðilar noti þá þjónustu sem gjöldin eigi að ganga upp í, en þó sé reynt að áætla magn sorps frá fyrirtækjum og þau flokkuð í þrjá flokka með tilliti til þess í gjaldskrá. Þá er því haldið fram í greinargerðinni að eftir að umrædd gjöld hafi verið lögð á sé útilokað fyrir sveitarstjórn að fylgjast með því hvort aðilar sem rétt eigi á þjónustunni nýti sér hana og þá í hve miklum mæli. Ef fallist yrði á kröfu kæranda yrði að finna út hve mikið aðrir gjaldendur hefðu notað umrædda þjónustu til þess að gæta jafnræðis og að slíkt væri óframkvæmdanlegt. Gerir kærði þá kröfu að kröfum kæranda verði hafnað.

V. Álit og niðurstaða úrskurðarnefndar

Í máli þessu er deilt um álagningu gjalda vegna sorphreinsunar og sorpeyðingar sem tengjast þremur tilgreindum fasteignum í Langanesbyggð. Langanesbyggð hefur sett gjaldskrá vegna sorphirðu og förgunar úrgangs í sveitarfélaginu. Í gildandi gjaldskrá sem samþykkt var í desember 2010 og birt í B-deild Stjórnartíðinda 20. desember 2010 segir að gjaldskráin sé sett samkvæmt ákvæðum 11. gr. laga um meðhöndlun úrgangs nr. 55/2003, 25. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998, með síðari breytingum og samþykkt um sorphirðu sveitarfélaga á Norðurlandi eystra nr. 541/2000.

Í 11. gr. laga um meðhöndlun úrgangs er kveðið á um gjald fyrir meðhöndlun úrgangs. Þar segir m.a. í 1. mgr. að rekstraraðili förgunarstaðar, hvort sem um sé að ræða sveitarfélag, byggðasamlag eða einkaaðila, skuli innheimta gjald fyrir förgun úrgangs og að gjaldið skuli nægja fyrir öllum kostnaði við förgun úrgangsins. Í 2. mgr. segir síðan að sveitarfélögum sé heimilt að innheimta gjald fyrir alla meðhöndlun úrgangs og tengda starfsemi sem samræmist markmiðum laganna. Er sveitarfélögum veitt heimild til að miða gjaldið við magn úrgangs, gerð úrgangs, losunartíðni, frágang úrgangs og aðra þætti sem áhrif hafi á kostnað við meðhöndlun úrgangs viðkomandi aðila. Einnig er sveitarfélögum veitt heimild til að ákveða gjaldið sem fast gjald á hverja fasteignareiningu miðað við fjölda sorpíláta og/eða þjónustustig. Í 3. mgr. segir að innheimt gjald skuli aldrei vera hærra en sem nemur þeim kostnaði sem fellur til í sveitarfélaginu við meðhöndlun úrgangs og tengda starfsemi sem samræmist markmiðum laganna. Þá er sveitarfélögum veitt heimild í 4. mgr. til að fela stjórn byggðasamlags að ákvarða umrætt gjald og tekið fram að gjaldskrá skuli birta í B-deild Stjórnartíðinda.

Á grundvelli framangreindrar lagagreinar hefur sveitarstjórn Langanesbyggðar samþykkt gjaldskrá vegna sorphirðu og förgunar úrgangs í sveitarfélaginu. Í gjaldskrá fyrir árið 2010 segir að sorphreinsunargjald og sorpeyðingargjald heimila sé hvort tveggja 13.541 kr. á íbúð og jafnframt að sorphreinsunargjald fyrirtækja sé 13.541 kr. eða samkvæmt reikningi. Sorpeyðingargjaldi fyrirtækja er hins vegar skipt í þrjá flokka, A, B og C, eftir urðuðu magni og nemur 13.541 kr., 40.623 kr. eða 162.495 kr.

Af kæru má ráða að umtalsverð hækkun sorphirðugjalda milli áranna 2009 og 2010 hafi orðið kveikjan að því að kærandi fór fram á að álögð sorphirðugjöld á þrjár fasteignir í hans eigu yrðu endurskoðuð. Ekkert hefur hins vegar komið fram í málinu sem gefur tilefni til að ætla að gjaldskráin hafi ekki verið innan þeirra marka sem sett eru í framangreindum lagaákvæðum eða hún hafi á einhvern hátt verið sett andstætt gildandi lagaákvæðum. Ágreiningur málsins lýtur að því hvort kærandi hafi átt rétt á því að kærði undanskildi hann frá gildandi gjaldskrá um sorphirðugjöld á þeim grundvelli að kærandi nýtti sér ekkert eða lítið sem ekkert þá þjónustu sem kærði veitir fasteignaeigendum sveitarfélagsins tengda sorphirðu.

Sorphreinsun og sorpeyðing er meðal þeirra grunnþjónustuverka sem sveitarfélög veita íbúum sínum. Líta verður til þess að skipulag sorphirðu í sveitarfélagi, eins og hjá kærða, sé í föstum skorðum og falli ekki niður þó einstaklingur eða fyrirtæki nýti hana ekki. Telur úrskurðarnefndin sterk rök fyrir því að greitt sé jafnaðargjald fyrir sorphreinsun og sorpeyðingu og að ekki verði lögð sú skylda á sveitarfélagið að rannsaka sorp og krefja fasteignaeigendur um gjald miðað við flokkað og mælt sorp.

Úrskurðarnefndin lítur svo á að kærði hafi samkvæmt framangreindu ákvæði 2. mgr. 11. gr. laga um meðhöndlun úrgangs lagaheimild til að haga gjaldtöku vegna sorphirðu á þann hátt að um sé að ræða jafnaðargjald á hverja gjaldskylda fasteign og jafnframt að lög og reglur standi ekki til þess að reiknaður sé út sá kostnaður sem falli til vegna hvers og eins gjaldanda, sbr. einnig 5. mgr. 25. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998.

Á hinn bóginn skal til þess litið að á álagningarseðli kemur fram að fyrirtæki kæranda að Langanesvegi 1 og Hafnargötu 3 hafi verið flokkuð í A flokk vegna sorpeyðingar árið 2010 en engu að síður eru álögð sorpeyðingargjöld þessara fasteigna sömu fjárhæðar og sorpeyðingargjald í B flokki samkvæmt gjaldskrá. Af þessum sökum telur úrskurðarnefndin að leiðrétta þurfi álögð sorpeyðingargjöld á fasteignir kæranda að Langanesvegi 1 og Hafnargötu 3 þannig að fjárhæð þeirra verði í samræmi við A flokk sem tilgreindur er á álagningarseðli. Skal því álagt sorpeyðingargjald fyrir hvora fasteign á árinu 2010 vera 13.541 kr. Af gögnum málsins verður ekki annað ráðið en að önnur sorpeyðingargjöld og sorphreinsigjöld sem lögð voru á fasteignir kæranda á árinu 2010 hafi verið í samræmi við gildandi gjaldskrá.

Úrskurðarorð:

Staðfest er álagning sorphreinsunar- og sorpeyðingargjalda á fasteignina Eyrarveg 1 á árinu 2010. Einnig er staðfest álagning sorphreinsunargjalda á fasteignirnar Langanesveg 1 og Hafnargötu 3 á árinu 2010. Álagning sorpeyðingargjalda á fasteignirnar Langanesveg 1 og Hafnargötu 3 á árinu 2010 er lækkuð í samræmi við A-flokk og skal vera kr. 13.541. kr.

Steinunn Guðbjartsdóttir

Gunnar Eydal                     Guðrún Helga Brynleifsdóttir

Date: 4/8/11

4/2011 Úrskurður um frestun réttaráhrifa vegna kæru Írisar Helgu Valgeirsdóttur gegn sýslumanninum á Selfossi vegna ákvörðunar um að aflífa skuli rottweilertíkina Chrystel.

Með

Mál nr. 4/2011.
Úrskurðarnefnd skv. 31. gr. laga nr. 7/1998.

Ár 2011, fimmtudaginn 5. maí, kom úrskurðarnefnd samkvæmt 31. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998 saman til fundar á skrifstofu formanns nefndarinnar að Lágmúla 7 í Reykjavík. Mætt voru Steinunn Guðbjartsdóttir, Gunnar Eydal og Guðrún Helga Brynleifsdóttir.

Fyrir var tekið mál nr. 4/2011 Íris Helga Valgeirsdóttir, Dalsbrún 25, Hveragerði gegn sýslumanninum á Selfossi.

Vegna kröfu í málinu um frestun réttaráhrifa hinnar kærðu ákvörðunar er kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

I. Aðild kærumáls og kröfur

Með stjórnsýslukæru, dags. 21. mars 2011, kærði Sigurður Jónsson, hrl., f.h. Írisar Helgu Valgeirsdóttur (hér eftir nefnd kærandi) ákvörðun sýslumannsins á Selfossi (hér eftir nefndur kærði) frá 16. mars 2011 þess efnis að aflífa skuli rottweilartíkina Chrystel. Þann 7. apríl 2011 setti kærandi fram kröfu um frestun réttaráhrifa hinnar kærðu ákvörðunar.

II. Málmeðferð

Kæra málsins er dagsett 21. mars 2011 og byggir hún á kæruheimild í 31. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998. Kæran barst úrskurðarnefndinni frá kæranda þann 28. mars 2011. Jafnframt því að senda kæru til úrskurðarnefndarinnar kærði kærandi ákvörðun kærða til innanríkisráðuneytisins. Þann 25. mars 2011 tók innanríkisráðuneytið ákvörðun um að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar á meðan ráðuneytið hefði málið til meðferðar. Þann 29. mars 2011 framsendi innanríkisráðuneytið málið til úrskurðarnefndarinnar og tilkynnti jafnframt að ákvörðun ráðuneytisins um frestun réttaráhrifa hefði ekki lengur gildi. Úrskurðarnefndin kynnti kærða framkomna kæru með bréfi, dags. 6. apríl 2011 og óskaði eftir greinargerð hans í málinu. Þann 8. apríl 2011 kynnti úrskurðarnefndin kærða kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa, gaf honum kost á að koma á framfæri sjónarmiðum sínum vegna þeirrar kröfu og veitti frest í því skyni til 13. apríl 2011. Kærði hefur ekki gert úrskurðarnefndinni grein fyrir sjónarmiðum sínum vegna framkominnar kröfu um frestun réttaráhrifa.

III. Málsatvik

Samkvæmt gögnum málsins beit hundur sá sem mál þetta varðar, þann 4. mars 2011, konu til blóðs er hún kom að húsi eiganda hundsins í Hveragerði. Þegar atburðurinn gerðist var hundurinn, sem þá var óskráður og leyfislaus, bundinn fyrir utan húsið og lá taumurinn inn í gegnum bréfalúgu á heimili eigandans. Atburðurinn var tilkynntur lögreglu og tók lögreglustjórinn á Selfossi ákvörðun um að aflífa skyldi hundinn. Áður en ákvörðunin var tekin hafði verið aflað álits héraðsdýralæknis sem taldi að samkvæmt skapgerðarmati kynni hundurinn að bíta aftur. Hundurinn var fluttur í vistun af hálfu yfirvalda þann 4. mars 2011. Samkvæmt upplýsingum sem liggja fyrir úrskurðarnefndinni var hundurinn fjarlægður án leyfis úr þeirri vistun aðfararnótt 3. maí 2011 og mun honum hafa verið komið til eiganda hans, sem nú býr á Akureyri og hefur neitað að afhenda lögreglu hundinn á ný.

IV. Málstæður og rök kærenda

Í erindi því sem úrskurðarnefndinni barst frá kæranda um frestun réttaráhrifa hinnar kærðu ákvörðunar er ekki að finna rökstuðning fyrir kröfunni. Þá verður ekki séð í gögnum málsins að kærandi hafi rökstutt slíka kröfu við innanríkisráðuneytið áður en ráðuneytið tók ákvörðun um að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar.

V. Málsástæður og rök kærða

Kærði hefur ekki nýtt sér það tækifæri sem honum var veitt til að koma á framfæri við úrskurðarnefndina sjónarmiðum sínum vegna kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa hinnar kærðu ákvörðunar. Af gögnum málsins verður heldur ekki séð að kærði hafi komið sjónarmiðum sínum á framfæri við innanríkisráðuneytið áður en ráðuneytið tók ákvörðun um frestun réttaráhrifa.

VI. Álit og niðurstaða úrskurðarnefndar

Í 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er kveðið á um réttaráhrif kærðrar ákvörðunar. Þar er í 1. mgr. kveðið á um þá meginreglu að stjórnsýslukæra fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar, en í 2. mgr. er lögfest undantekningarheimild fyrir æðra stjórnvald til að fresta réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar meðan mál er til meðferðar í þeim tilvikum þegar ástæður mæla með því.

Í athugasemdum við frumvarp til gildandi stjórnsýslulaga kemur fram varðandi ákvæði 2. mgr. 29. gr. laganna að nauðsynlegt hafi þótt að lögin geymdu heimild til að fresta réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar meðan mál væri til meðferðar þar sem kæruheimild gæti í raun orðið þýðingarlaus ef æðra stjórnvald hefði ekki heimild til þess að fresta réttaráhrifum ákvörðunar.

Í athugasemdum við frumvarpið segir jafnframt að ávallt verði að vega og meta í hverju tilviki fyrir sig hvort réttlætanlegt sé að fresta réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar og að við slíkt mat beri að líta til réttmætra hagsmuna hjá öllum aðilum málsins. Enn fremur segir að líta beri til þess hversu langt sé um liðið frá því hin kærða ákvörðun var tilkynnt aðilum, en einnig til þess hversu líklegt það sé að ákvörðuninni verði breytt. Þá segir auk þess í athugasemdum við frumvarpið að almennt mæli það á móti því að réttaráhrifum ákvörðunar sé frestað ef fleiri en einn aðili séu að máli og þeir eigi gagnstæðra hagsmuna að gæta eða ef til staðar séu mikilvægir almannahagsmunir, t.d. þar sem ákvörðun hafi að markmiði að koma í veg fyrir hættuástand. Það mæli hins vegar með því að fresta réttaráhrifum ákvörðunar ef aðili máls sé aðeins einn og ákvörðun sé íþyngjandi fyrir hann, valdi honum tjóni. Þá segir að þetta sjónarmið vegi sérstaklega þungt í þeim tilvikum þar sem erfitt yrði að ráða bót á tjóninu, enda þótt ákvörðunin yrði síðar felld úr gildi af hinu æðra stjórnvaldi. Loks megi svo nefna þau tilvik þar sem kæruheimild yrði í raun þýðingarlaus yrði réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar ekki frestað.

Fyrir liggur í máli þessu að kærði tók þann 16. mars 2011 ákvörðun um að aflífa skyldi rottweilartíkina Chrystel. Áður en sú ákvörðun var tekin lá fyrir álit héraðsdýralæknis sem taldi að samkvæmt skapgerðarmati kynni hundurinn að bíta aftur. Hundurinn var fluttur í vistun af hálfu yfirvalda þann 4. mars 2011 en fyrir liggur að hundurinn hefur nú verið numinn á brott úr þeirri vistun. Þar með telur úrskurðarnefndin að ekki hafi tekist að fyrirbyggja þá hættu sem kunni að stafa af hundinum og því telur úrskurðarnefndin sér ekki fært að taka ákvörðun um að fresta réttaráhrifum ákvörðunar kærða um að aflífa skuli rottweilertíkina Chrystel og er beiðni kæranda þess efnis því hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er beiðni um frestun réttaráhrifa ákvörðunar sýslumannsins á Selfossi um að aflífa skuli rottweilertíkina Chrystel.

Steinunn Guðbjartsdóttir

Gunnar Eydal                        Guðrún Helga Brynleifsdóttir

Date: 5/10/11

6/2010 Mosfellsbær

Með

Mál nr. 6/2010. Úrskurðarnefnd skv. 31. gr. laga nr. 7/1998.

Ár 2011, mánudaginn 4. apríl, kom úrskurðarnefnd skv. 31. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998 saman til fundar á skrifstofu formanns nefndarinnar að Lágmúla 7 í Reykjavík. Mætt voru Steinunn Guðbjartsdóttir, Gunnar Eydal og Guðrún Helga Brynleifsdóttir.

Fyrir var tekið mál nr. 6/2010 Róbert Ásgeirsson, Litlakrika 29, Mosfellsbæ gegn Heilbrigðiseftirliti Kjósasvæðis.

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

I. Aðild kærumáls og kröfur

Með stjórnsýslukæru, sem send var úrskurðarnefnd um hollustuhætti og mengunarvarnir þann 7. október 2010, kærði Róbert Ásgeirsson (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Kjósasvæðis (hér eftir nefnt kærði) um að fella niður mál sem Heilbrigðiseftirlitið hafði til meðferðar og varðaði að hundur hefði bitið dóttur kæranda. Kærandi gerir þær kröfur að málið verði tekið upp að nýju hjá kærða og að tryggt verði að viðkomandi hundur geti ekki bitið barn aftur.

II. Málmeðferð

Kæra málsins barst úrskurðarnefndinni þann 7. október 2010 og byggir hún á kæruheimild í 31. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998. Úrskurðarnefndin kynnti kærða framkomna kæru með bréfi, dags. 25. október 2010, og óskaði eftir greinargerð hans í málinu. Beiðni um greinargerð af hálfu kærða var ítrekuð með bréf, dags. 22. nóvember 2010. Kærði gerði grein fyrir sjónarmiðum sínum í greinargerð, dags. 2. desember 2010, sem kynnt var kæranda með bréfi, dags. 16. desember 2010. Að ósk kæranda voru honum með bréfi, dags. 7. janúar 2011, send afrit af þeim gögnum sem fylgdu greinargerð kærða. Þann 5. janúar 2011 bárust athugasemdir frá kæranda við greinargerð kærða. Athugaemdir kæranda voru kynntar kærða með bréfi, dags. 27. janúar 2011. Kom kærði frekari athugasemdum af sinni hálfu á framfæri með bréfi, dags. 8. febrúar 2011 og voru þær kynntar kæranda með bréfi, dags. 14. febrúar 2011.

III. Málsatvik

Miðvikudaginn 19. ágúst 2010 varð dóttir kæranda fyrir því að vera bitin af hundi. Var hún þá á hjóli á göngustíg en stoppaði til að hleypa krökkum með hunda fram hjá sér, þ. á m. var drengur með hund í taumi. Stúlkan klappaði hundinum sem drengurinn var með, en þegar hún lagði aftur af stað á hjólinu mun hundurinn hafa stokkið á eftir henni, ráðist á hana og bitið ítrekað í lærið áður en drengnum tókst að draga hann burtu. Hundaeftirliti Mosfellsbæjar var tilkynnt um atburðinn en í fyrstu tókst ekki að hafa upp á hundinum sem beit stúlkuna. Föstudagskvöldið 27. ágúst 2010 taldi stúlkan sig bera kennsl hvort tveggja á hundinn sem beit hana og drenginn sem hafði verið með hann. Voru upplýsingar þess efnis veittar Hundaeftirlitinu og í framhaldi af því skrifaði kærði bréf til eiganda hundsins sem stúlkan hafði borið kennsl á og gerði grein fyrir atburðinum. Í bréfinu var enn fremur sett fram krafa kærða um að hundurinn skyldi aldrei ganga laus á almannafæri heldur vera í taumi í fylgd aðila sem hefði fullt vald yfir honum, eins og kveðið er á um í 3. mgr. 4. gr. samþykktar um hundahald í Mosfellsbæ nr. 332/1998, auk þess sem hundurinn skyldi ávallt vera mýldur utan heimilis síns. Um var að ræða hund að nafni Tinni. Eigandi hans dró í efa að kennsl hefðu verið borin á réttan hund og kvað son sinn, 8 ára gamlan, ekki kannast við að hundurinn hefði bitið einhvern þegar hann hefði verið úti með hann. Þá lét eigandi umrædds hunds framkvæma atferlismat á hundinum og segir í niðurstöðu þess að hundurinn sé ekki hættulegur. Af gögnum málsins má ráða að kærði hafi óskað eftir því í símtali við eiganda hundsins að gert yrði atferlismat á hundinum til að kanna hvort hann væri hættulegur. Kærði sendi kæranda bréf, dags. 20. september 2010, þar sem segir að málið sé þannig vaxið að aðeins börn hafi orðið vitni af atburðinum og til frásagnar um hann. Dóttir kæranda telji sig vita hvaða hundur hafi bitið hana en drengurinn sem hafi verið með hundinn kannist ekki við að hafa farið svo langt frá heimili sínu. Þá segir í bréfinu að borist hafi atferlismat vegna hundsins sem stúlkan bar kennsl á og niðurstaða þess sé að umræddur hundur sé ekki hættulegur og ekki líklegur til þess að hafa bitið barn. Síðan segir að komi ekki fram nýjar upplýsingar í málinu muni kærði sjá sig knúinn til að fella úr gildi ákvörðun um að hundurinn skuli ávallt vera mýldur utandyra og aðhafast ekki frekar í málinu. Kærði sendi eiganda umrædds hunds bréf, dags. 30. september 2010, þar sem fram kom að ákvörðun hefði verið tekin um að láta málið falla niður af hálfu kærða.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Kærandi kveður dóttur sína hafa gefið góða lýsingu á hundinum sem beit hana, auk þess sem hún hefði heyrt að nafn hans byrjaði á T. Þá hafi stúlkan einnig borið kennsl á hundinn og drenginn sem var með hann nokkrum dögum eftir að hún var bitin. Áður hafi hún verið búin að lýsa smáatriðum sem kærandi telur útiloka að um annan hund hafi verið að ræða. Kærandi bendir á að staðfest hafi verið að drengurinn, sem dóttir hans hafi borið kennsl á, hafi verið með hundinn, sem dóttir hans bar einnig kennsl á, daginn sem hún var bitin af hundi. Hins vegar hafi ekki verið staðfest að umræddur drengur og umræddur hundur hafi verið á þeim stað sem atburðurinn á að hafa átt sér stað. Hann gagnrýnir að ekki hafi verið kölluð til börn sem gætu staðfest frásögn drengsins og að frásögn stúlkunnar væri dregin í efa. Stúlkan hafi lýst hundinum þannig að séreinkenni hundsins Tinna hafi komið fram og hafi borið kennsl á hann og drenginn saman rúmri viku eftir að hún var bitin. Kærandi gagnrýnir atferlismatið sem hundurinn Tinni var settur í og kveður að í stað þess að fara með hundinn í atferlismat til óháðs aðila hafi eigandi hans farið með hann á Dýralæknamiðstöðina Grafaholti til vinar síns og keypt þar atferlismat. Til staðfestingar á tengslum eiganda hundsins og dýralæknisins hefur kærandi lagt fram í fyrsta lagi upplýsingar um hvaða dýralæknar standi að Dýralæknamiðstöðinni Grafarholti, í öðru lagi upplýsingar um æskulýðsnefnd hestamannafélagsins Harðar og í þriðja lagi útprentun af ,,Facebook“ síðu eiganda hundsins Tinna. Samkvæmt framlögðum upplýsingum af heimasíðunni www.dyrin.is eru dýralæknar Dýralæknamiðstöðvarinnar Grafarholti fjórir, þ.e. Steinunn Geirsdóttir, Sif Traustadóttir, Ellen Ruth Ingimundardóttir og Dagmar Vala Hjörleifsdóttir. Það var Sif Traustadóttir sem framkvæmdi atferlismat það á hundinum Tinna sem liggur fyrir í kærumáli þessu. Samkvæmt öðrum framlögðum upplýsingum mun starfsfélagi Sifjar og meðeigandi hennar að Dýralæknamiðstöðinni, Ellen Ruth Ingimundardóttir, hafa ásamt eigandi Tinna verið í sjö manna æskulýðsráði hestamannafélagsins Harðar veturinn 2007 ? 2008, auk þess sem þær eru tilgreindar sem vinir á ,,Facebook“. Kærandi gagnrýnir enn fremur að hundurinn hafi verið prófaður á heimili sínu með eiganda sinn sér við hlið og að ekki sé hægt að lesa út úr skýrslu um atferlismatið hvaða áreiti hundurinn hafi orðið fyrir við matið. Kærandi efast mjög um að atferlismatið sem gert var á hundinum Tinna og sem kærði byggði niðurstöðu sína á og kveðst hann telja afgreiðslu málsins vera Heilbrigðiseftirlitinu til skammar. Aldrei hefði átt að móttaka skýrsluna um atferlismatið sem gagn í málinu, hvað þá að taka afstöðu til málsins út frá henni og fella það niður. Að láta hund njóta vafans fram yfir þúsundir barna og unglinga sem sæki opin svæði Mosfellsbæjar sé hneisa. Í athugasemdum sem úrskurðarnefndinni bárust frá kæranda 5. janúar 2011 ítrekar hann athugasemdir sínar við hvernig staðið var að gerð atferlismatsins sem framkvæmt var á hundinum Tinna. Þá fylgdu athugasemdum hans tölvupóstssamskipti milli hans og hundaeftirlitsmanns Mosfellsbæjar. Í tölvupóstsskeyti hundaeftirlitsmannsins til kæranda, dags. 29. desember 2010, segir m.a.: ,,Jú, ég get staðfest það að dóttir þín sagði að hundurinn sem beit sig væri þrílitur og líka þrílitur í framan. Aðallitur hundsins passaði líka alveg við lýsingu hennar (þó hvíti liturinn í hundinum hafi haft minna vægi í lýsingunni hjá dóttur þinni, en raunin er, þar sem Tinni er með stóran hvítan kraga), – en þess má geta að það er heldur ekki skrítið þar sem höfuð hundsins skyggir á hvítan kragann, þegar horft er framan á hundinn. Hún var ekki viss um tegundina, og þess vegna kom ég til ykkar með hundabókina, til að við gætum farið betur yfir, bæði aðallitinn á hundinum og hvaða tegundir kæmu til greina. Þannig að: Hún gat lýst stærð, aðallitunum og hann sagði líka að hann væri þrílitur á snoppunni. Stærðin passaði líka fyrir íslenskan fjárhund.“

V. Málsástæður og rök kærða

Í greinargerð kærða er atburðum málsins, eins og þeir birtust kærða, lýst í tímaröð. Í niðurstöðum er frá því greint að framburður dóttur kæranda sé trúverðugur, en hins vegar sé sönnunarbyrðin með þeim hætti að ekki sé annað hægt en að fella málið niður og tekið fram að þar vegi nokkuð þungt atferlismatið sem framkvæmt var á hundinum Tinna. Í athugasemdum frá kærða, sem bárust úrskurðarnefndinni í febrúar 2011, segir að kærði leggi áherslu á að umrætt atferlismat hafi verið unnið af til þess hæfum einstaklingi og á hans ábyrgð. Samkvæmt upplýsingum kærða hafi atferlismatið ekki verið unnið af dýralækni hundsins Tinna, en eigandi hundsins hafi þó skipt við dýralæknastofnuna sem dýralæknirinn vinni á. Þá segir í athugasemdunum að það sé mjög mikilvægt að kærði hafi metið framburð dóttur kærða trúverðugan og að það hafi orðið til þess að kærði hafi sett fram þá kröfu að atferlismat færi fram. Eftir að atferlismatið hafi legið fyrir hafi hundurinn verið metinn hættulaus og segi í umsögn að afar ólíklegt sé að atburðurinn geti endurtekið sig. Þar með sé kærði ekki að taka afstöðu til þess hvort atburðurinn hafi gerst eða ekki, heldur telji kærði sig vera búinn að sinna rannsóknarskyldu sinni og tryggja sem best öryggi íbúa. Þá segir að kærði telji að sérfræðinginn, sem framkvæmdi atferlismatið, hafi sett starfsheiður sinn að veði með skýrslu sinni um matið og telur kærði ekki tilefni til að efast um innihald þeirrar skýrslu.

V. Álit og niðurstaða úrskurðarnefndar

Í samþykkt um hundahald í Mosfellsbæ nr. 332/1998 er að finna ákvæði um hvernig bregðast skuli við ef hundur bítur mann. Þar segir í 2. og 3. málslið 3. mgr. 7. gr.: ,,Hafi hundur bitið mann og/eða er hættulegur getur dýraeftirlitsmaður í samráði við heilbrigðisfulltrúa tekið ákvörðun um að hundur verði aflífaður þegar í stað. Óski hundeigandi þess er heimilt að leita álits héraðsdýralæknis áður en ákvörðun um aflífun er tekin.“ Það virðist óumdeilt í máli þessu að dóttir kæranda hafi verið bitin af hundi í Mosfellsbæ í ágúst á síðasta ári. Stúlkan þekkti hvorki hundinn þegar hann beit hana né dreng sem var með hundinn. Hún taldi sig hins vegar bera kennsl hvort tveggja á hundinn og drenginn nokkrum dögum síðar. Var þar um að ræða hundinn Tinna og son eiganda hans. Af framlögðum gögnum má ætla að lýsingar sem stúlkan hafði gefið áður en hún bar sjálf kennsl á hundinn hafi komið heim og saman við hundinn Tinna. Að sögn eiganda Tinna kannast sonur hennar hins vegar ekki við þá atburði sem stúlkan lýsir. Ekkert kemur fram í gögnum málsins um að rætt hafi verið við son hundeigandans af hálfu starfsmanna kærða, heldur liggur aðeins fyrir frásögn móður hans. Kærði tilkynnti eiganda hundsins Tinna, með bréfi dags. 31. ágúst 2010, að tilkynning hefði borist um að hundur hennar hefði bitið barn. Eins og að framan greinir krafðist kærði þess í bréfinu að hundurinn gengi aldrei laus á almannafæri heldur væri í taumi í fylgd með aðila sem hefði fullt vald yfir honum og jafnframt að hundurinn væri ávallt mýldur utan heimilis síns. Svo virðist sem kærði hafi óskað eftir því í símtali við hundeigandann að atferlismat yrði gert á hundinum. Eigandi hundsins Tinna svaraði bréfi kærða með bréfi, dags. 12. september 2010. Þar kveðst hún m.a. hafa fengið Sif Traustadóttur dýralækni og sérfræðing í atferli dýra til að leggja mat á það hvort Tinni væri líklegur til að bíta. Mat dýralæknisins hafi verið að hundurinn væri ekki líklegur til þess að bíta og hafi ekki sýnt merki um vanlíðan, hræðslu eða annað. Í gögnum málsins liggur fyrir skýrsla Sifjar Traustadóttur dýralæknis sem framkvæmdi atferlismat á hundinum Tinna þann 10. september 2010 á heimili hundsins. Skýrsla hennar um atferlismatið er dags. 15. september 2010 og stíluð á kærða. Í skýrslunni segir að það sé mat dýralæknisins ,,að hundurinn Tinni sé ekki hættulegur og að í raun leiki enn vafi á því að hann sé sá hundur sem beit barn við Varmárskóla þann 19. ágúst sl.“ Á grundvelli þessa mats og þeirrar niðurstöðu að hundurinn Tinni væri ekki hættulegur ákvað kærði að fella niður mál það sem varðaði það er dóttir kæranda var bitin af hundi. Kærandi hefur hins vegar gert margvíslegar athugasemdir við atferlismat það sem kærði byggir ákvörðun sína á, m.a. þær að matið hafi farið fram á heimili hundsins, það hafi verið keypt af eiganda hans og að tengsl séu milli eiganda hundsins og dýralæknisins sem framkvæmdi matið. Í 3. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er kveðið á um vanhæfisástæður. Ekki er unnt að fella tengsl dýralæknisins og eiganda hundsins Tinna undir ákvæði þeirrar greinar og því verður ekki á því byggt að dýralæknir sá sem framkvæmdi umrætt atferlismat hafi verið vanhæf. Hins vegar telur úrskurðarnefndin rétt með hliðsjón af ákvæði 3. mgr. 7. gr. samþykktar um hundahald í Mosfellsbæ nr. 332/1998, sem veitir heimild til að leita álits héraðsdýralæknis, að heimvísa kærumáli þessu til Heilbrigðiseftirlits Kjósarsvæðis sem skal leita álits hjá héraðsdýralækni áður en ákvörðun er tekin um afgreiðslu erindis kæranda til kærða. Getur úrskurðarnefndin ekki fallist á að kærði byggi ákvörðun sína á atferlismati sem eigandi hundsins leitaði sjálfur eftir frá völdum dýralækni, enda virðist í því mati sem dýralæknirinn hafi horft til efnisþátta þessa máls en ekki eingöngu til þess hvort hundurinn væri hættulegur. Það er því niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að rétt sé að heimvísa máli þessu til Heilbrigðiseftirlits Kjósarsvæðis til endurskoðunar vegna ágalla á málinu.

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað aftur til Heilbrigðiseftirlits Kjósarsvæðis.

Steinunn Guðbjartsdóttir

Gunnar Eydal                  Guðrún Helga Brynleifsdóttir

Date: 4/8/11

6/2009 Úrskurður vegna kæru Magnúsar Guðjónssonar o.fl. gegn heilbrigðisnefnd Suðurlands varðandi lyktarmengun frá fiskþurrkun Lýsis hf.

Með

Mál nr. 6 /2009.

Úrskurðarnefnd skv. 31. gr. laga nr. 7/1998.

Ár 2010, mánudaginn 13. september, kom nefnd skv. 31. gr. l. nr. 7/1998 saman til fundar á skrifstofu formanns nefndarinnar að Lágmúla 7, 108 í Reykjavík. Mætt voru Steinunn Guðbjartsdóttir, Gunnar Eydal og Guðrún Helga Brynleifsdóttir.

Fyrir var tekið mál nr. 6/2009 Magnús Guðjónsson o.fl., hér eftir nefnd kærendur, gegn heilbrigðisnefnd Suðurlands, Austurvegi 56, 800 Selfoss, hér eftir nefnd kærði. Málið hefur dregist vegna tafa í umsagnarferli málsins og vegna sumarleyfis nefndarmanna.

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

I. Aðild kærumáls og kröfur

Með stjórnsýslukærum, dags 20. júní og 3. júlí 2008 kærðu Hafdís Sigurðardóttir, Jóna Gunnlaugsdóttir og Magnús Guðjónsson únbogason HH hf.   (hér eftir nefnd kærendur) vanrækslu heilbrigðisnefndar Suðurlands (hér eftir nefnd kærði) á eftirliti með lyktmengun frá fiskþurrkun Lýsis hf. og umgengni við starfsemina.

Úrskurðarnefnd um hollustuhætti og mengunarvarnir fékk framangreindar kærur áframsendar frá Umhverfisráðuneytinu með bréfi dags. 27. apríl 2009 á grundvelli 31. gr. laga nr. 7/1998 vegna ágreinings um eftirlit kærða með starfsemi Lýsis hf.

Eftirfarandi skjöl hafa verið lögð fram í málinu:

1. Stjórnsýslukærur dags. 20. júní 2008 og 3. júlí 2008 ásamt fylgiskjölum.

2. Úrskurður Umhverfisráðuneytisins dags. 8. apríl 2009.

3. Athugasemdir kærða dags. 8. apríl og 13. júlí 2010.

4.  Engar athugasemdir bárust frá kærendum þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir þess efnis af hálfu úrskurðarnefndar. Málið var því tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna.

Gagnaöflun telst lokið og er málið tekið til úrskurðar.

II.    Málsmeðferð

Framangreind kæra barst úrskurðarnefnd þann 27. apríl 2009. Kæruheimild er í 31. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998.

III. Málsatvik

Lýsi hf. hefur stundað heitloftsþurrkun sjávarafurða um nokkurt skeið og er starfsemin staðsett í Þorlákshöfn. Óánægju hafði gætt meðal íbúa á svæðinu vegna lyktarmengunar frá starfseminni. Þegar endurnýja átti starfsleyfi til handa Lýsi hf. gerðu kærendur, ásamt 530 íbúum svæðisins, athugasemdir við endurnýjun á starfsleyfi Lýsis hf. Þann 6. júní 2008 var ákveðið af kærða að veita fiskþurrkunarverksmiðjunni Lýsi hf. starfsleyfi til 12 ára. Í kjölfarið kærðu kærendur starfsleyfisútgáfuna til Umhverfisráðherra og þann 8. apríl 2008 var kveðinn upp úrskurður um starfsleyfi Lýsis hf. Ráðuneytið áframsendi ágreining í málinu um meinta vanrækslu á eftirliti kærða með starfseminni til úrskurðarnefndar um hollustuhætti og mengunarvarnir á grundvelli 31. gr. laga nr. 7/1998.

IV. Málsástæður og rök kærenda

Kærendur kveða mikla óánægju vera meðal íbúa Þorlákshafnar með starfsemi Lýsis hf. þar sem mikil lykt berist frá starfseminni sem kærendur segja að rekja megi að miklu leyti til umgengni stafsleyfishafa á svæðinu þar sem starfsemin fer fram. Kærendur segja umgengni starfsleyfishafa í og við starfsemina vera afar slæma og að mikil ýldulykt komi frá starfseminni, m.a. vegna þess að fiskur sé geymdur óvarinn og ókældur í opnum kerum á svæðinu fyrir utan starfsemina dögum saman. Kærendur segja að þegar svo hátti til sé lyktin frá starfseminni svo slæm að íbúar á svæðinu geti ekki gengið um bæinn eða haft opna glugga í húsum sínum og að lyktin sé hreinlega að kæfa kærendur og aðra íbúa svæðisins. Einn kærenda kveðst hafa veikst meira af astma en venjulega, þar sem lyktin sé svo sterk, og segir það þekkt að sterk lykt geti valdið slæmum astmaköstum.

Kærendur segjast hafa ítrekað kvartað undan lyktinni sem stafi frá fiskþurrkun Lýsis hf. og umgengni starfsleyfishafa. Einn kærenda kveðst hafa sent myndir til kærða sem sýni óvarinn og ókældan fisk í kerum fyrir utan starfsemi Lýsis hf., einnig tölvupósta og bréf þar sem kvartað sé undan lyktarmenguninni. Kærendur óskuðu einnig eftir upplýsingum frá kærða um hver afskipti hans væri af starfseminni, en í svari kærða við fyrirspurn kærenda kom fram að kærði gerði engar athugasemdir við starfsemi Lýsis hf. og að hún væri ekki á skjön við starfsleyfi Lýsis hf.

Kærendur segja öll viðbrögð kærða við kvörtunum kærenda og annarra íbúa svæðisins vera á einn veg, þ.e. starfsleyfishafa í hag. Kærendur segja kærða ávallt taka hagsmuni starfsleyfishafa fram yfir hagsmuni kærenda og annarra íbúa Þorlákshafnar. Athafnaleysi kærða felist meðal annars í því að hann hafi ekkert aðhafst við að setja upp mengunarvarnarbúnað eins og starfsleyfi Lýsis hf. og úrskurður Umhverfisráðuneytisins frá 10. desember 2007 kveði á um. Kærði hafi takmarkað eftirlit með umgengni starfsleyfishafa og hafi ekkert tekið á kvörtunum vegna starfseminnar. Kærði hafi þvert á móti veitt Lýsi hf. starfsleyfi, fyrst tímabundið til 3ja mánaða, svo til 18 mánaða og svo síðast til 12 ára, og það þrátt fyrir mikil mótmæli frá íbúum á svæðinu vegna lyktarmengunar.

Kærendur benda á að yfir 500 íbúar á svæðinu og kærendur hafi verið sammála um að lyktarmengun á svæðinu væri slæm og að hún hafi aukist en ekki minnkað. Kærendur kveða lyktina vera óviðunandi og hafi það í för með sér að önnur fyrirtæki fælist frá því að hefja rekstur í Þorlákshöfn og að einnig hafi borið á því að fólk setji lyktarmengunina fyrir sig þegar valinn sé staður til búsetu. Kærendur telja að reglur nábýlisréttar leiði það af sér að íbúum Þorlákshafnar verði ekki gert að þola viðvarandi lyktarmengun frá starfsemi Lýsis hf., a.m.k. ekki bótalaust.

Að lokum telja kærendur að lyktarmengunin sé skaðleg heilsu kærenda og annarra íbúa Þorlákshafnar og að þeim sé ekki fært að ganga um bæinn án þess að þurfa að anda að sér megnri ýldulykt. Kærendur telja að kærði hafi ekki viðhaft fullnægjandi eftirlit með fiskþurrkun Lýsis hf. og ekkert aðhafst þrátt fyrir ítrekuð brot Lýsis hf. á ákvæðum í starfsleyfi um mengunarvarnir. Þeir krefjast úrbóta svo þeir og aðrir íbúar Þorlákshafnar geti búið í mengunarlausu umhverfi.

Engar athugasemdir bárust frá kærendum við greinargerð kærða.

V. Málsástæður og rök kærða

Kærði telur aðallega að vísa eigi máli þessu frá úrskurðarnefnd á þeim grundvelli að allar kærur í máli þessu varði útgáfu á starfsleyfi til handa Lýsi hf. sem Umhverfisráðuneytið hefur þegar úrskurðað um. Bæði kærði og Lýsi hf. hafa gert úrbætur í samræmi við þann úrskurð ráðuneytisins. Kærði mótmælir því harðlega að rök kærenda í kærumáli sem varðar stjórnvaldsákvörðun um útgáfu á starfsleyfi séu grundvöllur að sjálfstæðri kæru og til meðhöndlunar sem slík hjá úrskurðarnefnd.

Kærði mótmælir því harðlega að ekki hafi verið brugðist við kvörtunum vegna starfsemi fiskþurrkunarverksmiðjunnar Lýsi hf. Kærði bendir á að kvartanir séu skráðar hjá kærða og að unnið sé úr hverri kvörtun með því að auka eftirlit og skoðanir með starfseminni sem og að gerðar séu viðeigandi úrbætur. Kærði bendir í því sambandi á bréf kærða til Umhverfisráðuneytisins dags. 7. desember 2009 þar sem fram kemur að mikið eftirlit sé haft með starfsemi Lýsis hf. Kærði bendir einnig á að Lýsi hf. hafi ávallt brugðist við athugasemdum kærða, ef einhverjar kvartanir hafi borist, og gert úrbætur hið fyrsta. Kærði kveðst ekki kannast við að úrgangur hafi verið geymdur utandyra dögum saman eða dyr á kæligeymslu hafi verið hafðar opnar dögum saman eins og fram kemur í kæru og telur kærði slíkar ásakanir ekki eiga við rök að styðjast. Kærði bendir á að við eftirlit fari hann eftir meðalhófsreglu stjórnsýslulaganna og því sé ekki farið strangar í sakirnar en nauðsyn beri til. Beitir kærði fyrst skriflegri áminningu áður en farið er í frekari þvingunaraðgerðir.

Kærði vill ennfremur benda á að starfsemi Lýsis hf. fari eftir ísatnúmeraflokki og samræmdri eftirlitsáætlun. Samkvæmt þeim ísatnúmeraflokki sem starfsemin fellur undir á eftirlit að vera framkvæmt einu sinni á ári. Kærði hefur á árinu 2010 framkvæmt fimm eftirlitsskoðanir vegna starfseminnar og árið 2009 voru 15 eftirlitsheimsóknir skráðar hjá kærða vegna starfsemi Lýsis hf. Þá vill kærði sérstaklega benda á að framangreindar eftirlitsheimsóknir séu alfarið fyrir utan daglegar lyktareftirlitsheimsóknir sem kærði framkvæmir í tengslum við úrvinnslu kvartana. Kærði telur því fullljóst að eftirlit sé viðhaft með starfsemi Lýsis hf. til að takmarka eins og kostur sé lyktarmengun frá starfseminni.

Kærði vill að lokum mótmæla því harðlega að kærði hafi vanrækt eftirlitsskyldur sínar með fiskþurrkun Lýsis hf. Þvert á móti hafi eftirlit kærða með starfseminni verið umfram áætlaða tíðni skv. eftirlitsáætlun kærða og umfram aðra sambærilega starfsemi, bæði á svæði kærða og annarra heilbrigðiseftirlitssvæða.

VI.  Álit og niðurstaða úrskurðarnefndar

Í máli þessu er deilt um meinta vanrækslu kærða á eftirliti með lyktarmengun vegna fiskþurrkunar sjávarafurða Lýsis hf. í Þorlákshöfn.

Kæruheimild vegna málsins er að finna í 31. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Þar segir að rísi ágreiningur um framkvæmd laganna, reglugerða settra samkvæmt þeim, heilbrigðissamþykkta sveitarfélaga eða um ákvarðanir yfirvalda, er heimilt að vísa málinu til sérstakrar úrskurðarnefndar. Ágreiningur málsins varðar meint brot kærða á ákvæðum reglugerðar um mengunarvarnareftirlit nr. 786/1999. Reglugerðin kveður á um eftirlit og tíðni eftirlits með fiskþurrkun sjávarafurða og er sett með stoð í 5. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og  mengunarvarnir. Þar sem ágreiningur málsins varðar framkvæmd laga nr. 7/1998 og reglugerðar setta samkvæmt þeim verður ekki fallist á frávísunarkröfu kærða.

Markmið laga nr. 7/1998 er að búa landsmönnum heilnæm lífsskilyrði og vernda þau gildi sem felast í heilnæmu og ómenguðu umhverfi. Reglugerð nr. 786/1999 er sett með stoð í framangreindum lög. Hún hefur það að markmiði að koma í veg fyrir og draga úr mengun af völdum atvinnurekstrar og athafna sem geta haft í för með sér mengun, með því að tryggja að mengunarvarnareftirlit sé viðhaft og sé með þeim hætti að mengun valdi ekki óæskilegum og skaðlegum áhrifum á heilsufar almennings eða óhreinkun lofts, láðs eða lagar. Í reglugerð nr. 786/1999 er kærði tilgreindur sem eftirlitsaðili með þeirri starfsemi sem fellur undir reglugerðina en hún skilgreinir ólykt sem hluta af mengun, sbr. lið 3.9. í 3. gr. reglugerðarinnar. Kærða ber því að hafa eftirlit með starfsemi Lýsis hf. skv. reglugerð nr. 786/1999 um mengunarvarnareftirlit til að tryggja að ólykt frá starfseminni hafi ekki skaðleg áhrif á umhverfið.

Í reglugerð nr. 786/1999 er mengunarvarnareftirliti skipt upp í fimm flokka, sbr. gr. 12.1 í reglugerðinni. Samkvæmt 12. gr. á eftirlit að vera reglubundið og ber kærði bæði ábyrgð á að framkvæma reglubundið mengunarvarnareftirlit með atvinnurekstri sem talinn er upp í viðauka 2 við reglugerðina og ber hann einnig ábyrgð á því að  eftirlit sé í samræmi við töflu A í 12. gr. reglugerðarinnar, sbr. 14. gr. reglugerðarinnar. Samkvæmt fylgiskjali nr. 2 með reglugerð nr. 786/1999 fellur heitþurrkun fiskiafurða og vinnsla fisks og annarra sjávarafurða undir eftirlitsflokk nr. 4 í töflu A í 12. gr. reglugerðarinnar. Í framangreindri töflu kemur fram að eftirlit með atvinnurekstri í eftirlitsflokki nr. 4 í reglugerð nr. 786/1999 skuli framkvæmt á tveggja ára fresti en að ekki sé skylt að framkvæma eftirlitsmælingar. Í starfsleyfisskilyrðum Lýsis hf., sem voru endurútgefin af kærða þann 27. apríl 2009 í kjölfar úrskurðar Umhverfisráðuneytisins þann 8. apríl 2009, er kveðið á um tíðni og framkvæmd eftirlits með lyktarmengun. Þar kemur fram að loftmengun í og við starfsemina megi ekki vera meiri en komi fram í reglugerð nr. 787/1999, en til að koma í veg fyrir loftmengun eigi lykteyðing að fara fram í þvotta- og þéttiturni. Í lið nr. 4 í starfsleyfisskilyrðum Lýsis hf. er kveðið á um tíðni eftirlits með starfseminni sem kærða ber að framkvæma. Þar segir að kærða beri að viðhafa virkt eftirlit og framkvæma reglubundnar skoðanir, m.a. með því að mæla lykt í lofti og takmarka þannig lyktarmengun frá starfseminni.

Meðal gagna málsins eru skráningar á eftirlitsmælingum kærða með starfsemi Lýsis hf. Þar kemur fram að kærði hafi viðhaft daglegt eftirlit með starfseminni og hafi haft sama starfsmanninn í eftirlitsmælingunum til að tryggja samræmi í mælingum á lykt í lofti í og við starfsemi Lýsis hf. Af þeim gögnum sem kærði hefur lagt fram má sjá að eftirlit kærða með starfseminni felst m.a. í því að mæla lykt í lofti og skrá styrkleika hennar á skalanum frá 0 (engin lykt) og upp í 5 (mikil lykt). Framkvæmd eftirlits er þannig háttað að eftirlitsmaður á vegum kærða mælir og skráir lykt í andrúmslofti á fimm mismunandi stöðum í Þorlákshöfn, skráir veðurfar við eftirlit, magn hráefnis við starfsemina, frágang þess og skráir tíðni kvartana og bætir úr ef kvartanir berast. Þá eru skráðar ástæður kvartana og til hvaða úrbóta hafi verið gripið. Kærði hefur lagt fram skráningar á eftirliti frá 1. maí til 20. október 2009 og má sjá af þeim gögnum að eftirlit hafi verið framkvæmt alla virka daga. Við eftirlit voru sýni tekin, lykt mæld í lofti, kvartanir skráðar og ástæður þeirra auk þess til hvaða aðgerða var gripið til að bæta úr. Af eftirlitsskýrslum kærða má sjá að í miklum meirihluta eru mælingar á lykt skráðar á skalanum 0 (engin lykt). Í fáein skipti var lykt mæld á skalanum 2 (vottur af lykt) og í eitt skipti á framangreindu tímabili var lykt mæld á skalanum 3 (lítil lykt). Engin mæling á lykt mældist á skalanum 4 (greinileg lykt) eða skalanum 5 (mikil lykt). Tíðni kvartana hefur einnig stórlega minnkað vegna lyktar frá starfsemi Lýsis hf. en skráðar kvartanir í maí 2008 voru 16 talsins á móti tveimur kvörtunum í nóvember 2009. Meðal gagna málsins er skýrsla VSÓ ráðgjafar frá júní 2009 á starfsemi Lýsis hf. sem gerð var fyrir sveitarfélagið Ölfuss. Í niðurstöðukafla skýrslunnar kemur fram að lykt í og við starfsemina hafi verið: „einkennandi lykt fyrir afurð. Engin ýldu- eða skemmdarlykt fannst af hráefni eða afurð.“

Af öllu framangreindu er ljóst að kærða ber að viðhafa mengunareftirlit með heitloftsþurrkun fiskafurða og vinnslu fisks og annarra sjávarafurða, sbr. 12. og 14. gr. reglugerðar nr. 786/1999. Samkvæmt starfsleyfisskilyrðum Lýsis hf. ber kærða að viðhafa virkt og reglubundið eftirlit með starfseminni. Af gögnum málsins er ljóst að kærði hefur viðhaft daglegt eftirlit með starfsemi Lýsis hf. í samræmi við endurbætt starfsleyfisskilyrði fyrir starfsemi Lýsis hf. Til að koma í veg fyrir lyktarmengun frá starfseminni mælir starfsmaður á vegum kærða lykt í lofti í og við starfsemina, skráir fjölda kvartana og ástæður þeirra og þær úrbætur sem gripið hefur verið til. Af þeim gögnum sem kærði hefur lagt fram má sjá að lykt í og við starfsemina hefur stórlega minnkað og einnig fjöldi kvartana vegna lyktar frá starfseminni. Af þeim mælingum sem lagðar hafa verið fram má sjá að mælingar hafa verið vel innan þeirra marka sem teljast ásættanleg vegna þeirrar starfsemi sem hér um ræðir, en kærendur hafa ekki lagt fram gögn sem sýna fram á hið gagnstæða. Ber því að fallast á með kærða að eftirlit með starfsemi Lýsis hf. er í fullu samræmi við þann eftirlitsflokk sem reglugerð nr. 786/1999 fellir starfsemi Lýsis hf. undir sem og endurútgefin starfsleyfisskilyrði Lýsis hf. Eru því ekki forsendur til að fallist á með kærendum að kærði hafi vanrækt eftirlit með starfsemi Lýsis hf.

Úrskurðarorð:

Ekki er fallist á með kærendum að kærði hafi vanrækt eftirlitsskyldur sínar með fiskþurrkun Lýsis hf. í Þorlákshöfn.

Date: 9/28/10