Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

119/2017 Bíldshöfði

Árið 2018, fimmtudaginn 20. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 119/2017, kæra á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 28. september 2017 um að synja beiðni um breytingu á deiliskipulagi Ártúnshöfða vegna Bíldshöfða 18. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 11. október 2017, er barst nefndinni sama dag, kæra Riverside ehf. og Teiknir ehf., þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 28. september s.á. að synja beiðni um breytingu á deiliskipulagi Ártúnshöfða vegna Bíldshöfða 18. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 17. október 2017.

Málavextir: Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur 28. júní 2017 var samþykkt að auglýsa til kynningar og vísa til borgarráðs tillögu, dags. 8. júní s.á., um breytingu á deiliskipulagi Ártúnshöfða vegna Bíldshöfða 18. Í breytingunni fólst að leyfð yrði fjölbreytt blönduð atvinnustarfsemi í mannvirkjum á lóðinni, þ. á m. í formi gististaða í flokki I-III. Borgarráð samþykkti auglýsingu tillögunnar á fundi sínum 6. júlí s.á. Tillagan var auglýst til kynningar frá 14. júlí til 25. ágúst s.á. Á kynningartíma tillögunnar bárust 21 athugasemd og þar af voru 18 sameigendur að Bíldshöfða 18 með samhljóða athugasemdir. Þá skilaði annar kærenda þessa máls ódagsettum athugasemdum að loknum kynningartíma tillögunnar. Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 20. september s.á. var breytingartillögunni hafnað með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa, dags. 28. ágúst 2017. Var málinu vísað til afgreiðslu borgarráðs, sem samþykkti afgreiðslu ráðsins 28. september s.á.

Málsrök kærenda: Af hálfu kærenda er bent á að í umsögn skipulagsfulltrúa sé lagt til grundvallar að samþykki meðeigenda um breytingu á hagnýtingu séreignar liggi ekki fyrir með vísan til 1. og 2. mgr. 27. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús. Krafa kærenda um ógildingu á ákvörðun borgarráðs sé byggð á því að það sé ekki á forræði sveitarfélags að skera úr um hvort breyting á hagnýtingu séreignar sé heimil án samþykkis meðeigenda. Hin umrædda breyting sé ekki háð því hvort samþykki annarra eigenda að Bíldshöfða 18 liggi fyrir. Í skipulagslögum nr. 123/2010 sé ekki að finna ákvæði sem setji því skorður að hægt sé að verða við beiðni um breytingar á deiliskipulagi án samþykkis allra meðeigenda, enda sé ekki verið að breyta hagnýtingu séreignar með breytingu á deiliskipulagi.

Ef svo ólíklega vilji til að talið verið að samþykki allra meðeigenda þurfi til þess að breyting á deiliskipulagi geti átt sér stað sé vísað í 2. mgr. 27. gr. fjöleignarhúsalaga. Þar komi skýrt fram að eigandi geti ekki sett sig á móti breytingu á hagnýtingu séreignar ef sýnt sé að hún hafi ekki í för með sér neina röskum á lögmætum hagsmunum hans. Í frumvarpi því sem síðar hafi orðið að lögum nr. 26/1994 segi um 2. mgr. 27. gr. laganna að hér vegist á hagsmunir eiganda að geta hagnýtt eign sína á þann veg sem honum sýnist og hagsmunir annarra af því að fá notið sinna eigna í friði og án truflana. Hvoru tveggja séu gild sjónarmið sem verði að virða. Ákvæðið geri ráð fyrir að ákveðið hagsmunamat fari fram. Skipulagsfulltrúi virðist einungis hafa tekið til skoðunar hagsmuni annarra eigenda að Bíldshöfða 18 án þess að virða hagsmuni kærenda.

Þá hafi ekki verið gætt að andmæla- og upplýsingarétti kærenda. Niðurstaða skipulagsfulltrúa hafi legið fyrir 28. ágúst 2017. Annar kærenda þessa máls hafi komið að athugasemdum 30. ágúst s.á. Ljóst sé að tillaga skipulagsfulltrúa hafi legið fyrir áður en kærendur hafi komið að sínum sjónarmiðum. Í 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 sé kveðið á um að aðili máls skuli eiga þess kost að tjá sig um efni máls áður en stjórnvald taki ákvörðun í því, enda liggi ekki fyrir í gögnum málsins afstaða hans og rök fyrir henni. Ljóst sé að afstaða kærenda hafi ekki legið fyrir í gögnum málsins þegar skipulagsfulltrúi hafi komist að niðurstöðu 28. ágúst 2017. Í 1. mgr. 15. gr. stjórnsýslulaga sé kveðið á um að aðili máls eigi rétt á aðgangi að skjölum og öðrum gögnum er mál varði. Þá segi í 1. mgr. 18. gr. laganna að stjórnvaldi sé heimilt að setja málsaðila ákveðinn frest til þess að kynna sér gögn máls og tjá sig um það. Tillaga kærenda að breytingu á deiliskipulagi hafi verið auglýst frá 14. júlí til og með 25. ágúst 2017. Athugasemdir hafi borist á kynningartíma tillögunnar en kærendur hafi ekki fengið að kynna sér athugasemdirnar fyrr en eftir að tillaga skipulagsfulltrúa hafi legið fyrir. Athugasemdirnar hafi falið í sér nýjar upplýsingar er skipulagsfulltrúi hafi litið til í niðurstöðum sínum. Réttast hefði verið að veita kærendum frest til þess að kynna sér athugasemdirnar og tjá sig um þær. Athugasemdirnar sem sendar hafi verið inn hafi gefið tilefni til að rannsaka nánar hvort þær ættu sér stoð í lögum eða gögnum. Ekki hafi verið gætt að rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga.

Vegna framkominna athugasemda við kynningu skipulagstillögunnar sé tekið fram að í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 sé Ártúnshöfði á miðsvæði M4b en ekki á athafnasvæði. Á svæðinu sé fyrst og fremst gert ráð fyrir rýmisfrekum verslunum, heildsölum og skrifstofum. Léttur iðnaður og verkstæði séu leyfð. Að öllu jöfnu sé ekki gert ráð fyrir íbúðarhúsnæði, gistiheimilum eða hótelum nema það sé sérstaklega tilgreint í deiliskipulagi. Af orðalagi aðalskipulags sé ljóst að sú breyting sem kærendur hafi lagt til fari ekki gegn aðalskipulagi og sé í fullu samræmi við stefnu þess, líkt og kveðið sé á um í 3. mgr. 37. gr. skipulagslaga. Ótækt sé að hafna breytingu á deiliskipulagi fyrir heilt svæði einungis vegna þess að sambærileg starfsemi sé ekki í húsnæðinu. Nægi að taka fram að veitingastaðurinn Hamborgarabúllan og flugeldasala séu í húsnæðinu. Ekki hafi verið sýnt fram á með hvaða hætti fyrirhuguð starfsemi kærenda skerði lögmæta hagsmuni annarra í húsinu, en ein þeirra athugasemda sem borist hafi við kynningu tillögunnar hafi byggt á því að hávaði stafi af gistiheimili og einnig að gistiheimilið komi í veg fyrir að aðrir eigendur geti verið í hávaðasamri starfsemi. Ekki sé sýnt fram á að rekstur gistiheimilis teljist hávaðasöm starfsemi. Þá sé fráleitt að heimila kærendum ekki mögulega hávaðasama starfsemi vegna þess að hún gæti komið í veg fyrir hávaðasama starfsemi annarra eigenda fasteignarinnar. Ekki sé sýnt fram á með hvaða hætti fyrirhugaður rekstur kærenda hafi áhrif á aðra starfsemi í húsinu umfram rekstur skrifstofuhúsnæðis sem þar sé fyrir. Áréttað sé að breyting á deiliskipulagi sé ekki háð samþykki annarra eigenda.

Fyrirliggjandi eignaskiptayfirlýsing fyrir Bíldshöfða 18 geri ráð fyrir skrifstofum í eignarhluta kærenda. Í úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, mál nr. 115/2015, hafi verið talið að fjölgun hótelherbergja um 16 fæli ekki í sér meiri umferðaraukningu en búast mætti við á skilgreindu þéttbýlissvæði. Í aðalskipulagi sé almennt viðmið um fjölda bílastæða fyrir verslunar- og skrifstofuhúsnæði á umræddu svæði eitt bílastæði á hverja 35 m2. Þegar um annað atvinnuhúsnæði sé að ræða en verslunar- og skrifstofuhúsnæði geri aðalskipulagið ráð fyrir einu bílastæði á hverja 50 m2 á umræddu svæði. Aðalskipulagið geri því ráð fyrir að skrifstofu- og verslunarhúsnæði útheimti töluvert fleiri bílastæði en annars konar atvinnuhúsnæði á borð við gistiheimili. Þannig verði ekki séð að gistiheimili muni auka við þann bílastæðavanda sem þegar sé til staðar.

Með bréfi, dags. 20. desember 2016, hafi skipulagsfulltrúi tekið jákvætt í að heimila að láta vinna drög að deiliskipulagsbreytingu fyrir Bíldshöfða 8-18 til að heimila gististaði í flokki I-III. Áður hafi verið rekið gistiheimili á þróunarsvæði Þ89 við Viðarhöfða 2a og í dag sé rekið sambýli að Viðarhöfða 2 þrátt fyrir að ekki sé gert ráð fyrir íbúðabyggð eða hótelum á svæðinu. Þó svo að Bíldshöfði 18 sé á svokölluðu þróunarsvæði liggi fyrir fordæmi fyrir rekstri gistiheimilis og sambýlis, enda samræmist slík starfsemi stefnu sveitarfélagsins um að færa miðborgarstarfsemi til austurs.

Í gildandi aðalskipulagi Reykjavíkur fyrir þróunarsvæði Þ89, miðsvæði M4b, segi að nánari upplýsingar um uppbyggingu og þróun svæðisins sé að finna í kaflanum Borgin við Sundin, um þróunarásinn Örfirisey-Keldur. Í þeim kafla sé Bíldshöfði á svokölluðu þéttingarsvæði, blönduð byggð. Eitt helsta markmið sveitarfélagsins sé að þróa miðborgarstarfsemi til austurs. Þá sé lögð áhersla á hjólastíga og greiðar og þægilegar leiðir fyrir gangandi vegfarendur á svæðinu. Í stefnu sveitarfélagsins sé gert ráð fyrir þéttri blandaðri byggð. Þó svo að Bíldshöfði 18 sé á þróunarsvæði verði ekki séð hvernig breytt deiliskipulag, eins og kærendur hafi lagt til, fari gegn þeirri stefnu sem sveitarfélagið hafi sett með gildandi aðalskipulagi, en rekstur gistiheimilis falli óumdeilanlega undir miðborgarstarfsemi.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er vísað til þess að það hafi verið mat skipulagsfulltrúa að ekki væri hægt að samþykkja umsókn kæranda um breytingu á deiliskipulagi í ljósi andstöðu mikils meirihluta eigenda fasteignarinnar að Bíldshöfða 18. Þrátt fyrir að ekki sé að finna ákvæði í skipulagslögum nr. 123/2010, sem beinlínis setji því skorður að hægt sé að verða við beiðni um breytingar á deiliskipulagi þegar samþykki allra meðeigenda liggi ekki fyrir, sé litið svo á að ekki sé æskilegt að verða við slíkum óskum skorti samþykki meðlóðarhafa fyrir tillögum um breytingar. Verði skipulagsyfirvöld í slíkum tilvikum að líta til afstöðu annarra lóðarhafa sem mótfallnir séu breytingunni. Áskilnaður um samþykki meðlóðarhafa eigi sér einnig stoð í 1. og 2. mgr. 27. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús, en um sé að ræða breytingu á nýtingu lóðarinnar frá því sem gert hafi verið ráð fyrir í upphafi. Verði enn fremur að telja að ákvörðun um að breyta hagnýtingu lóðarinnar verði að taka á húsfundi samkvæmt fjöleignarhúsalögum, en svo hafi ekki verið gert að því best sé vitað. Samkvæmt eignaskiptasamningi séu kærendur einungis eigendur að litlum hluta lóðarinnar, eða tæplega 8%, og sé það ekki í samræmi við ákvæði fjöleignahúsalaga að lítill hluti eigenda geti knúið í gegn skipulagsbreytingar sem kunni að snerta hagsmuni annarra lóðarhafa gegn eindregnum mótmælum þeirra. Þá megi enn fremur benda á að breyting á nýtingu í gistiheimili kalli án efa á byggingarleyfisskyldar framkvæmdir, m.a. á sameign, en í tillögunni sé gert ráð fyrir að heimilt sé að fara með þakkanta, skyggni, skýli, svalir, stiga og lyftur út fyrir byggingarreit. Auk þess sé um breytingar að ræða varðandi girðingar á lóðarmörkum og vandséð að þær fengjust samþykktar í ljósi andstöðu mikils meirihluta meðeigenda.

Því sé enn fremur hafnað að ekki hafi verið gætt að andmæla- og upplýsingarétti. Dagsetning umsagnar skipulagsfulltrúa sé til komin vegna mistaka, en verkefnisstjóra hafi láðst að tilgreina rétta dagsetningu á umsögninni í stað þeirrar sem fyrir hafi verið á vinnuskjali sem síðar hafi orðið að umsögn. Þegar umsókninni hafi verið vísað til umsagnar verkefnisstjóra hjá skipulagsfulltrúa á fundi skipulagsfulltrúa 1. september 2017 hafi fyrrnefnt bréf annars kærenda þessa máls, dags. 30. ágúst s.á., legið fyrir í gögnum málsins. Enn fremur hafi það verið lagt fram á fundinum. Því hafi ekki verið búið að vinna neina umsögn í málinu 28. ágúst s.á., eins og dagsetning gefi til kynna. Ekki hafi þótt sérstök ástæða til að fjalla um eða svara bréfinu, enda hafi það borist eftir að fresti til athugasemda lauk. Við afgreiðslu málsins í umhverfis- og skipulagsráði hafi umrætt bréf einnig verið lagt fram og ráðið þannig upplýst um tilvist þess. Meðferð tillögunnar og afgreiðsla málsins hafi því að öllu leyti verið í samræmi við ákvæði skipulagslaga. Tillagan hafi verið auglýst, innsendar athugasemdir teknar til umfjöllunar lögum samkvæmt og ákvörðun um synjun tillögunnar tekin af umhverfis- og skipulagsráði en ekki skipulagsfulltrúa.

Skipulagsfulltrúi hafi enn fremur ekki talið æskilegt að setja fordæmi fyrir rekstri gistiheimila á svæðinu að svo stöddu fyrr en búið væri að vinna heildarstefnu fyrir nýtingu svæðisins. Samkvæmt skipulagslögum sé vald til að skipuleggja land innan marka sveitarfélags í höndum sveitarstjórna, sbr. 3. mgr. 3. gr. skipulagslaga. Í skipulagsáætlunum sé sett fram stefna skipulagsyfirvalda um þróun byggðar og landnotkun og teknar ákvarðanir um samgöngur og mannvirki sem þeim tengist. Sveitarstjórnum sé því gefið víðtækt vald til ákvarðana um skipulag innan marka sveitarfélags, en við beitingu þess valds beri þeim þó að fylgja markmiðum skipulagslaga, sem tíunduð séu í 1. gr. þeirra, m.a. að tryggja réttaröryggi í meðferð skipulagsmála, þannig að réttur einstaklinga og lögaðila verði ekki fyrir borð borinn þótt hagur heildarinnar sé hafður að leiðarljósi. Sveitarstjórnir séu enn fremur bundnar af lögmætis- og meðalhófsreglu stjórnsýsluréttarins, er feli m.a. í sér að með ákvörðun sé stefnt að lögmætum markmiðum og að ekki sé gengið lengra en nauðsynlegt sé til að ná þeim markmiðum. Að gættum þessum grundvallarreglum og markmiðum hafi sveitarstjórnir mat um það hvernig deiliskipulagi skuli háttað. Einstakir aðilar geti óskað eftir því við sveitarstjórn að deiliskipulagi sé breytt, en eiga þó almennt ekki lögvarinn rétt til þess að knýja fram slíka breytingu gegn vilja skipulagsyfirvalda. Það sé vissulega rétt að skipulagsyfirvöld hafi verið jákvæð gagnvart því að auglýsa tillögu að breytingu á deiliskipulagi fyrir lóðina en aðilar geti þó ekki tekið því sem sjálfgefnu að auglýstar breytingar verði samþykktar.

Varðandi tilvísun kærenda til sambýlis að Viðarhöfða 2 þá telji borgaryfirvöld það mál ekki vera sambærilegt, enda annað deiliskipulag í gildi þá. Árið 2000 hafi verið sótt um að fá að breyta skrifstofuhúsnæði á 2. hæð á lóðinni nr. 2 við Viðarhöfða í útleiguherbergi. Samkvæmt þágildandi Aðalskipulagi Reykjavíkur 1996-2016 hafi Viðarhöfði 2 verið á athafnasvæði með blandaðri landnotkun. Þar hafi mátt gera ráð fyrir félagsheimilum, hótelum og veitingastöðum. Samkvæmt aðalskipulaginu hafi mátt í jaðri athafnasvæða og íbúðarsvæða gera ráð fyrir íbúðum á efri hæðum atvinnubygginga ef aðstæður leyfðu. Hafi því breyting í gistiheimili þótt samræmast landnotkun svæðisins á þeim tíma.

Á árinu 2009 hafi svo verið auglýst breyting á deiliskipulagi Ártúnshöfða eystri vegna breytingu á nýtingu 3. hæðar Viðarhöfða 2 í sambýli. Með tillögunni hafi fylgt samþykki allra meðlóðarhafa. Í umsögn skipulagsfulltrúa vegna fyrirspurnarinnar hafi komið fram að um væri að ræða íbúðarhúsnæði/sambýli á svæðinu sem samkvæmt þágildandi aðalskipulagi hafi verið skilgreint sem miðsvæði. Þar sem aðstæður hafi leyft hafi mátt gera ráð fyrir íbúðarhúsnæði, sérstaklega á efri hæðum bygginga. Í gildandi deiliskipulagi hafi aftur á móti ekki verið gert ráð fyrir frekari fjölgun íbúða á svæðinu. Framangreind tillaga að deiliskipulagsbreytingu hafi þó aldrei tekið gildi. Samkvæmt núgildandi aðalskipulagi sé Viðarhöfði settur undir sömu skilmála og Bíldshöfði 18. Hvað varði þá málsástæðu að það sé stefna í aðalskipulaginu að færa gististarfsemi til austurs þá geti sú stefna ein og sér aldrei leitt til þess að verða beri við öllum óskum um slíkt, enda verði ávallt að líta til þeirra skilmála er gildi um viðkomandi svæði.

Niðurstaða: Lóð nr. 18 við Bíldshöfða er staðsett á svokölluðu þróunarsvæði Þ89 Höfðar-Vogur í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030. Svæðið er skilgreint sem miðsvæði, M4b, og um svæðið segir í aðalskipulaginu: „Fyrst og fremst gert ráð fyrir rýmisfrekum verslunum, heildsölum og skrifstofum. Léttur iðnaður og verkstæði eru leyfð. Að öllu jöfnu er ekki gert ráð fyrir gistiheimilum eða hótelum nema það sé sérstaklega tilgreint í deiliskipulagi.“ Í gildandi deiliskipulagi Ártúnshöfða frá árinu 1999 er ekki tilgreint sérstaklega hvaða starfsemi er leyfileg á lóðinni. Í tillögu kæranda að breytingu á deiliskipulagi fólst m.a. að leyfð yrði fjölbreytt blönduð atvinnustarfsemi í mannvirkjum á lóðinni, þ. á m. í formi gististaða í flokki I-III.

Sveitarfélagi er falið víðtækt vald í skipulagsmálum innan marka sveitarfélags, líkt og fram kemur í 3. mgr. 3. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Ber sveitarstjórn ábyrgð á og annast gerð deiliskipulags skv. 1. mgr. 38. gr. tilvitnaðra laga og er það í valdi sveitarstjórnar að samþykkja deiliskipulag, sbr. 40. til 42. gr. laganna. Gildir hið sama um breytingar á slíku skipulagi, sbr. 43. gr. laganna. Getur landeigandi óskað eftir því við sveitarstjórn að gerð sé tillaga að deiliskipulagi eða breytingu á deiliskipulagi á sinn kostnað skv. 2. mgr. 38. gr. sömu laga, en ekki verður talið að landeigandi eigi lögvarða kröfu á grundvelli nefnds ákvæðis til þess að knýja á um breytingu á deiliskipulagi. Aftur á móti ber sveitarstjórn við meðferð slíkra tillagna að gæta að málsmeðferðarreglum stjórnsýsluréttarins, m.a. hvað varðar rökstuðning ákvörðunar. Hin kærða ákvörðun var studd þeim rökum að vegna mótmæla lóðarhafa Bíldshöfða 18 lægi ljóst fyrir að ekki myndi nást samþykki meðlóðarhafa fyrir fyrirhuguðum breytingum, sbr. 1. og 2. mgr. 27. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús. Einnig var ekki talið æskilegt að setja fordæmi fyrir gistiheimili á svæðinu fyrr en búið yrði að vinna heildarstefnu um nýtingu þess.

Skipulagsvald sveitarstjórna er tæki þeirra til að hafa áhrif á og þróa byggð og umhverfi með bindandi hætti. Verður almennt að búast við því að ekki sé ráðist í breytingar á skipulagi nema að nauðsyn beri til. Þá er í skipulagslögum kveðið á um að kynning og samráð eigi sér stað við gerð deiliskipulags, sbr. 40. gr., og að afstaða skuli tekin til athugasemda sem borist hafi, sbr. 3. mgr. 41. gr. laganna. Með hliðsjón af þessu verður það ekki talið ómálefnalegt af hálfu borgaryfirvalda að líta m.a. til þess að mikill meirihluta lóðarhafa umræddrar lóðar lýstu sig andvíga umsóttum breytingum á landnotkun. Skiptir hér ekki máli þótt samþykki meðeigenda skv. 27. gr. fjöleignarhúsalaga sé ekki gert að skilyrði fyrir breytingu á deiliskipulagi í skipulagslögum. Þótt áður hafi verið rekið gistiheimili á þróunarsvæði Þ89 og nú sé þar rekið sambýli að Viðarhöfða 2 verður að líta til þess að þrátt fyrir jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sem kveður á um að við úrlausn mála skuli stjórnvald gæta samræmis og jafnræðis, getur verið réttlætanlegt til að ná fram skipulagsmarkmiðum að afgreiða sambærileg tilvik með ólíkum hætti. Verður ekki annað séð en að jafnræðis hafi verið gætt við töku hinnar kærðu ákvörðunar.
Kærendur byggja kröfu sína um ógildingu jafnframt á því að andmæla- og upplýsingarréttar þeirra hafi ekki verið gætt þar sem niðurstaða skipulagsfulltrúa hafi legið fyrir 28. ágúst 2017, en annar kærenda þessa máls hafi komið að athugasemdum 30. ágúst s.á. Í embættisafgreiðslu skipulagsfulltrúa 1. september s.á. kemur fram að breytingartillögunni ásamt athugasemdum, þ. á m. athugasemdum annars kærenda frá 30. ágúst s.á., sé vísað til umsagnar skipulagsfulltrúa. Með hliðsjón af þessu og þeim skýringum sem fram hafa komið af hálfu Reykjavíkurborgar að þessu leyti sýnist ljóst að um misritun á dagsetningu í niðurstöðu skipulagsfulltrúa var að ræða og að í henni hafi verið tekið tillit til þeirra athugasemda sem annar kærenda kom að. Verður því ekki fallist á að andmæla- og upplýsingaréttur kærenda hafi verið fyrir borð borinn við meðferð málsins.
Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar borgarráðs Reykjavíkur frá 28. september 2017 um að synja beiðni um breytingu á deiliskipulagi Ártúnshöfða vegna lóðarinnar Bíldshöfða 18.