Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

116 og 119/2018 Hafnarstétt

Árið 2018, fimmtudaginn 13. desember kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 116/2018, kæra á ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Norðurþings frá 6. september 2018 um að óleyfisframkvæmdir utan lóðarmarka Hafnarstéttar 13 skuli fjarlægðar og gengið frá röskuðu landi utan lóðamarka. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 17. september 2018, er barst nefndinni 18. s.m., kærir Gentle Giants – Hvalaferðir ehf., Túngötu 6, Húsavík, þá ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Norðurþings frá 6. september 2018 að óleyfisframkvæmdir utan lóðarmarka Hafnarstéttar 13 skuli fjarlægðar og gengið frá röskuðu landi fyrir 20. september s.m.

Með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 28. september 2018, er barst nefndinni sama dag, kærir sami aðili ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa frá 25. s.m. um að fjarlægja óleyfisframkvæmdir utan lóðarmarka Hafnarstéttar 13 á kostnað lóðarhafa.

Er þess krafist að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi og að réttaráhrifum þeirra verði frestað á meðan málið sé til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Verður síðara kærumálið, sem er nr. 119/2018, sameinað máli þessu þar sem hinar kærðu ákvarðanir eru samofnar og sami aðili stendur að kærunum. Er málið nú tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa hinna kærðu ákvarðana.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Norðurþingi 26. september og 8. október 2018.

Málavextir: Kærandi óskaði eftir leyfi 17. nóvember 2017 til að ganga frá svæði umhverfis húsið að Hafnarstétt 13 samkvæmt framlögðum teikningum. Þar sem beiðnin fól í sér frávik frá gildandi deiliskipulagi, m.a. vegna fyrirhugaðs veggjar yfir lóðarmörk, var erindið tekið fyrir í skipulags- og umhverfisnefnd 21. nóvember s.á. og samþykkt að lóðarfrágangur næði 2 m til norðurs frá húsvegg og 1 m til austurs frá stafni hússins. Ekki var fallist á beiðni um frágang lóðar til suðurs við lóðarmörk. Kærandi óskaði eftir endurskoðun á ákvörðuninni og var fyrri afgreiðsla málsins staðfest á fundi skipulags- og umhverfisnefndar 13. desember s.á. Hinn 28. júní 2018 óskaði kærandi á ný eftir heimild til frágangs í samræmi við áður framlagða teikningu. Erindið var tekið fyrir í skipulags- og framkvæmdaráði 3. júlí 2018 og varð niðurstaðan sú að ekki var fallist á frágang samkvæmt teikningu við suður- og austurmörk lóðarinnar. Jafnframt var vísað til ákvarðana skipulags- og umhverfisnefndar frá 21. nóvember og 13. desember 2017.

Kærandi hóf framkvæmdir við hleðslu veggjar að Hafnarstétt 13 í ágúst 2018. Er byggingarfulltrúi fór í eftirlitsferð um framkvæmdasvæðið 17. s.m. taldi hann að byrjað væri að hlaða vegg utan við þau mörk sem sveitarfélagið hefði heimilað. Var það niðurstaða mælinga hans að veggurinn austan hússins næði rúmlega 1,7 m austur fyrir stafn, þ.e. 0,7 m umfram heimild, og að veggurinn norðan við húsið væri 2,35 m frá húsvegg, eða 0,35 m umfram það sem heimilað hafði verið. Tók byggingarfulltrúi ákvörðun um að stöðva verkið og sendi kæranda tölvupóst þess efnis sama dag. Kærandi mótmælti verkstöðvuninni og færði rök fyrir breyttri staðsetningu veggjarins með tölvupósti 18. ágúst s.á. Þar var tekið fram að bilið frá húsvegg að vegg austan við húsið væri 1,4 m, þar sem útilokað hefði verið að miða við 1 m vegna aðstæðna, og fyrir norðan húsið væru 2 m frá húsgafli í vegginn, þar sem þar hefði einnig þurft að stilla vegginn af m.t.t. lagna. Báðar aðgerðirnar hafi verið þaulskipulagðar m.t.t. til legu lagna o.fl. Yfirdrifið pláss væri utan við vegginn. Að lokum óskaði kærandi eftir afstöðu byggingarfulltrúa til legu veggjar sunnan hússins. Byggingarfulltrúi sendi kæranda tölvupóst 21. s.m. þar sem fram kom að hann féllist ekki á röksemdir kæranda fyrir færslu veggjarins og að kærandi hefði átt að hafa samráð við sveitarfélagið varðandi frávik. Ekki væri tilefni til afturköllunar á verkstöðvun. Var kærandi hvattur til að finna tíma til að ræða málið við byggingarfulltrúa og sveitarstjóra en málið yrði til umfjöllunar á næsta fundi skipulags- og framkvæmdaráðs hinn 28. s.m.

Byggingarfulltrúi óskaði eftir því við umhverfisstjóra að hann setti út nákvæma staðsetningu lóðarmarka Hafnarstéttar 13 samkvæmt þinglýstum lóðarleigusamningi og var það gert 22. ágúst 2018. Að sögn byggingarfulltrúa kom þá í ljós að vinna væri hafin við undirbúning fyrir hleðsluvegg 0,55 m vestan við húsið, en ekki hefði verið sótt um leyfi fyrir þeirri framkvæmd. Var kæranda bent á þetta með tölvupósti sama dag og þess krafist að ekki yrði unnið áfram við vegginn í þeirri línu. Málið var rætt á fundi skipulags- og framkvæmdaráðs 28. ágúst 2018. Taldi meirihluti ráðsins brot kæranda þess eðlis að tilefni væri til að skipulags- og byggingarfulltrúi krefðist þess að óleyfisframkvæmdirnar yrðu fjarlægðar með vísan til 55. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010. Skipulags- og byggingarfulltrúi sendi kæranda bréf, dags 6. september 2018, þar sem vísað var til kröfu um verkstöðvun og tekið fram að ekki hefðu komið fram rök í málinu sem gæfu tilefni til að afturkalla verkstöðvunina. Framkvæmdirnar væru hvorki í samræmi við ákvæði deiliskipulags né þær heimildir sem skipulagsyfirvöld hefðu veitt kæranda. Að lokum var kæranda tilkynnt að með vísan til 2. mgr. 55. gr. mannvirkjalaga færi skipulags- og byggingarfulltrúi fram á að óleyfisframkvæmdir utan lóðarmarka Hafnarstéttar 13 yrðu fjarlægðar og að gengið yrði frá röskuðu landi utan lóðarmarka til samræmis við það sem verið hefði áður en framkvæmdir hófust. Var þess krafist að búið yrði að fjarlægja hlaðna vegginn og ganga að öðru leyti snyrtilega frá svæðinu fyrir 20. s.m. Yrði ekki brugðist við með fullnægjandi hætti fyrir þann tíma eða um annað samið skyldi kærandi reikna með að sveitarfélagið léti vinna verkið á kostnað eiganda.

Kærandi óskaði eftir stöðuleyfi fyrir veggnum miðað við núverandi staðsetningu hans til næstu sex ára og var erindið tekið fyrir á skipulags- og framkvæmdaráðs 11. september 2018 þar sem beiðninni var hafnað. Jafnframt kom fram að meirihluti ráðsins teldi rétt að fara fram á að veggurinn yrði fjarlægður sem fyrst. Sendi skipulags- og byggingarfulltrúi kæranda bréf, dags. 17. september 2018. Þar kom fram að ekki hefðu borist skrifleg andmæli við bréfinu frá 6. s.m. og að ekki hefði verið brugðist við kröfu sveitarfélagsins um að óleyfisframkvæmdir yrðu fjarlægðar og gengið frá svæðinu. Var áréttuð krafa um að óleyfisframkvæmdirnar yrðu fjarlægðar án tafar. Jafnframt var hafnað beiðni um afturköllun ákvörðunarinnar þar sem ekki hefðu verið lögð fram nein gögn eða málsástæður sem réttlættu slíkt. Að lokum var áréttað að yrðu framkvæmdirnar ekki fjarlægðar fyrir 20. s.m., samið um annað eða embættinu borist skrifleg andmæli með öðrum sjónarmiðum eða nýjum gögnum sem leitt gætu til annarrar niðurstöðu, yrði tekin ákvörðun um að láta vinna verkið á kostnað lóðarhafa, sbr. 2. mgr. 55. gr. mannvirkjalaga, án frekari viðvörunar.

Í bréfi lögmanns kæranda til sveitarfélagsins, dags. 18. september 2018, var vísað til afgreiðslu skipulags- og framkvæmdaráðs frá 11. s.m. varðandi beiðni um stöðuleyfi. Kom fram að kærandi teldi að framkvæmdin félli undir f-lið gr. 2.3.5. í byggingareglugerð nr. 112/2012 og væri því ekki háð byggingarleyfi samkvæmt mannvirkjalögum. Framkvæmdin rúmaðist innan þeirra leyfa sem veitt hefðu verið til framkvæmda á lóðinni, sbr. m.a. afgreiðslur skipulags- og umhverfisnefndar 21. nóvember og 13. desember 2017 og skipulags- og framkvæmdaráðs 3. júlí 2018. Engin gögn lægju fyrir um að framkvæmdin viki frá gildandi skipulagi og áður útgefnum leyfum og að því marki sem slík frávik kynnu að vera fyrir hendi væru þau óveruleg og rúmuðust innan gildandi skipulags og leyfa. Að lokum var óskað eftir rökstuddri ákvörðun ef sveitarfélagið teldi að um byggingarleyfisskylda framkvæmd væri að ræða eða að framkvæmdin samrýmdist ekki lögum. Með bréfi skipulags- og byggingarfulltrúa til lögmanns kæranda, dags. 25. september 2018, var sú afstaða sveitarfélagsins ítrekuð að framkvæmdin væri utan lóðar kæranda og því háð samþykki sveitarfélagsins sem eiganda landsins. Þá væri framkvæmdin utan þess svæðis er sveitarfélagið hefði samþykkt að veggurinn yrði reistur á. Framkvæmdin væri byggingarleyfisskyld þar sem hún felli ekki undir undanþágu f-liðar gr. 2.3.5. í byggingareglugerð, auk þess sem óheimilt væri að breyta landhæð á lóðarmörkum án samþykkis sveitarfélagsins, sbr. e-lið sömu greinar. Frávikin frá samþykkt sveitarfélagsins væru veruleg í því umhverfi sem þarna væri og í raun óafsakanleg þar sem auðvelt væri að mæla út fjarlægðir. Þá var farið yfir gang málsins og með vísan til þess að staðreyndir málsins og sjónarmið aðila lægju fyrir teldi sveitarfélagið ekki þörf á frekari rannsókn þess. Fyrir lægi að umræddar óleyfisframkvæmdir hefðu ekki verið fjarlægðar. Að lokum var kæranda tilkynnt að með vísan til framangreinds, fyrirliggjandi gagna og fyrri samskipta myndi sveitarfélagið, án frekari viðvörunar, fjarlægja umræddan vegg utan lóðarmarka á kostnað kæranda með vísan til 2. mgr. 55. gr. laga um mannvirki.

Málsrök kæranda: Kærandi telur að ákvörðunin hafi verið tekin án þess að málið hafi verið nægjanlega upplýst. Vísað sé til 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Ákvörðunin hafi eingöngu verið reist á mælingum sem skipulags- og byggingarfulltrúi hafi framkvæmt að eigin sögn við vettvangsskoðun en engin önnur gögn liggi fyrir um þá skoðun. Þá sé óljóst hver lóðarmörkin séu samkvæmt deiliskipulagi og því ekki fullnægjandi að miða við þau mörk sem sveitarfélagið geri. Einnig hafi ákvörðunin verið tekin án þess að kæranda hafi verið gefin kostur á að tjá sig um efni hennar, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga. Sveitarfélagið hafi ekki aflað gagna um grundvallaratriði málsins og kæranda ekki verið gefin kostur á að vera viðstaddur vettvangsathugunina. Það sé bæði þáttur í andmælarétti og rökstuðningsskyldu stjórnvalda að tekin sé afstaða til þeirra meginathugasemda og málsástæðna sem aðili færi fram. Kærandi hafi ítrekað bent sveitarfélaginu á að nauðsynlegt hafi verið að haga staðsetningu veggjarins með þeim hætti sem hann gerði en ómögulegt hafi verið að hafa vegginn á þeim stað sem sveitarfélagið krefjist. Hafi sveitarfélagið enga rökstudda afstöðu tekið til þessarar grundvallarmálsástæðu kæranda og því ekki uppfyllt skyldur sínar skv. 13., 21. og 22. gr. stjórnsýslulaga. Jafnframt hafi rökstuðningurinn sem fylgt hafi ákvörðuninni verið haldinn verulegum annmörkum, en hann hafi ekki uppfyllt efniskröfur 22. gr. stjórnsýslulaga. Ákvörðunin sé reist á 2. mgr. 55. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010 og í rökstuðningi hafi verið fullyrt að um óleyfisframkvæmd væri að ræða sem hvorki væri í samræmi við deiliskipulag né þau leyfi sem skipulagsyfirvöld hefðu veitt kæranda. Ekki hafi hins vegar verið gerð grein fyrir því að hvaða leyti umræddar framkvæmdir færu í bága við skipulagsáætlanir eða útgefin leyfi. Þannig hafi engin grein verið gerð fyrir því að samkvæmt niðurstöðu vettvangsathugunar skipulags- og byggingarfulltrúa væri veggurinn staðsettur annars vegar 1,7 m austur af húsinu og hins vegar 2,35 m norður af því. Þá hafi ekki verið vísað til þeirra afgreiðslna sveitarfélagsins sem framkvæmdirnar hafi verið taldar í ósamræmi við. Ekki sé fullnægjandi að upplýsingar um grundvallaratriði málsins komi einungis fram í tölvupóstum og fundargerðum sveitarfélagsins, sem ekki hafi fylgt ákvörðuninni. Ekki sé ljóst hvort sveitarfélagið líti svo á að veggurinn í heild sinni sé ólöglega staðsettur eða einungis hluti hans. Þá hafi ákvörðunin ekki verið í samræmi við meðalhófsreglu, sbr. 12. gr. stjórnsýslulaga. Að engu leyti hafi verið gætt þeirrar skyldu sveitarfélagsins að kanna hvort vægari úrræði stæðu til boða m.t.t. fyrirliggjandi hagsmuna. Hafi borið að leggja rökstutt mat á það hvort unnt væri að ná þeim lögmætu markmiðum sem stefnt væri að með öðru og vægara úrræði, s.s. með því að gera breytingar á þykkt eða hæð veggjarins eða breyta honum með öðrum hætti. Engir hagsmunir krefjist þess að gripið sé til svo harkalegra aðgerða sem um ræði, en veggurinn fari að engu leyti inn á svæði í eigu annarra og skerði enga hagsmuni. Einungis sé um að ræða opið hafnarsvæði þar sem nóg sé af plássi og hinir umdeildu sentimetrar skipti engu máli fyrir ásýnd svæðisins, umferð eða annað. Jafnvel þótt litið yrði svo á að framkvæmdin færi út fyrir leyfð mörk sé um minniháttar frávik að ræða og framkvæmdin falli því undir f-lið gr. 2.3.5. í byggingareglugerð nr. 112/2012. Fjarlæging veggjarins vegna minniháttar annmarka sé bersýnilega ekki í samræmi við kröfur um meðalhóf. Jafnframt sé vísað til 6. tl. 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga varðandi hæfi til meðferðar máls. Málsaðili eigi ekki að þurfa að búa við óvissu um hvort þeir starfsmenn og kjörnu fulltrúar sem fari með opinbert vald séu óhlutdrægir í málinu, en kærandi telji sig búa við slíka óvissu. Þá bendi kærandi á að veggurinn sem hinar kærðu ákvarðanir sveitarfélagsins lúti að hafi ekki verið reistur á grundvelli deiliskipulagsins heldur á grundvelli sérstakrar undanþágu frá þeim heimildum sem sveitarfélagið hafi veitt kæranda. Þá megi benda á ýmsar aðrar framkvæmdir í Norðurþingi sem hafi fengið aðra meðferð en viðhöfð sé í máli þessu.

Málsrök Norðurþings:
 Af hálfu sveitarfélagsins er á það bent að kærandi hafi reist vegg utan lóðar í ósamræmi við það sem sveitarfélagið hafi samþykkt og megi sannreyna það með einföldum mælingum. Hin kærða ákvörðun sé byggð á stærð lóðar kæranda samkvæmt hnitasettum lóðaruppdrætti, skýrum afgreiðslum skipulagsyfirvalda um afmörkun framkvæmda, mælingum byggingarfulltrúa á frávikum og ákvæðum mannvirkjalaga nr. 160/2010. Þá liggi fyrir GPS-mælingar mælingarmanns sveitarfélagsins um staðsetningu veggjarins og séu þær í samræmi við mælingar kæranda sjálfs. Hefði kærandi talið að einhver málefnaleg sjónarmið stæðu til þess að breyta legu veggjarins hefði honum borið að sækja um það áður en hann réðist í framkvæmdir í andstöðu við ítrekaðar samþykktir sveitarfélagsins.

Þegar sett hafi verið fram krafa um stöðvun verksins hafi skýrlega verið kallað eftir sjónarmiðum kæranda varðandi lögmæti framkvæmda og verkstöðvunar og óskað eftir fundi með honum. Byggingarfulltrúi hafi ásamt sveitarstjóra fundað með kæranda 6. september 2018 þar sem staða málsins hafi verið rædd en ekki hafi fundist sameiginlegur flötur á lyktum þess. Með bréfi skipulags- og byggingarfulltrúa sama dag hafi kæranda því verið gefinn ríflegur tími til að fjarlægja vegginn og honum jafnramt tilkynnt að vænta mætti ákvörðunar um að veggurinn yrði að öðrum kosti fjarlægður af sveitarfélaginu á kostnað hans. Andmæli og sjónarmið kæranda, auk málavaxta, hafi því legið fyrir og viðurkennt hafi verið að veggurinn hafi ekki verið reistur á þeim stað sem sveitarfélagið hefði samþykkt. Krafa um að veggurinn yrði fjarlægður hafi verið áréttuð með bréfi sveitarfélagsins 17. september 2018 og hafi kærandi andmælt því að sveitarfélagið réðist í brottnám veggjarins með bréfi 18. s.m. Því bréfi hafi verið svarað 25. s.m. og kæranda tilkynnt að sveitarfélagið áskildi sér rétt til að fjarlægja framkvæmdirnar án frekari fyrirvara. Kærandi hafi ekki bent á nein atriði sem ekki hafi legið fyrir þegar ákvörðun hafi verið tekin um að veggurinn skyldi fjarlægður, sem hann hafi ekki getað komið að áður eða hefðu getað haft áhrif á ákvörðunina. Hafi  því verið gætt andmælaréttar kæranda við meðferð málsins.

Því sé mótmælt að verulegir annmarkar hafi verið á ákvörðuninni og að rökstuðningi hennar hafi verið áfátt. Í málinu hafi legið fyrir skýr gögn, þ.m.t. frá kæranda sjálfum, um að framkvæmdin væri ekki á þeim stað sem samþykkt hefði verið. Þá sé því hafnað að ekki hafi verið gætt meðalhófs í málinu. Líta verði til málsins í heild en það eigi sér langa forsögu. Til þess að koma til móts við sjónarmið kæranda og auka athafnarými hans, á kostnað almannarýmis og hagsmuna annarra húseigenda á svæðinu, hafi verið fallist á að leyfa honum að setja upp vegg utan lóðar á svæði sveitarfélagsins. Frávikin frá heimilaðri staðsetningu séu óafsakanleg og veruleg í því umhverfi sem þarna sé, sérstaklega þar sem mjög einfalt sé að setja vegginn nákvæmlega rétt út. Sé því mótmælt að sveitarfélagið hafi brotið gegn meðalhófi með því að gera kæranda að setja vegginn á réttan stað m.t.t. hagsmuna sveitarfélagsins og almennings. Þá hafi kæranda verið gefin kostur á að lagfæra framkvæmdirnar sjálfur en hann hafi kosið að gera það ekki. Ekki sé hægt að setja það fordæmi að með því að brjóta gegn ítrekuðum samþykktum sveitarfélagsins komist aðilar upp með slíka háttsemi á þeim forsendum að þeir hafi lagt í kostnað við ólögmætar framkvæmdir. Vægari úrræði en að færa vegginn á réttan stað séu ekki tæk að mati sveitarfélagsins. Hagsmunir kæranda séu ekki ríkari en sveitarfélagsins, en veggurinn sé staðsettur langt inni á landi þess án heimildar. Staðsetningin þrengi að umferð og gangi á almenningsrými og almannahagsmuni. Einnig felist almannahagsmunir í því að tekið sé með afgerandi hætti á tilvikum sem þessum, þ.e. þegar borgarar fara vísvitandi eða af gáleysi út fyrir þær heimildir sem þeim séu veittar.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti ákvörðunar skipulags- og byggingarfulltrúa Norðurþings frá 6. september 2018 um að hlaðinn steinveggur utan lóðarmarka Hafnarstéttar 13 skuli fjarlægður og gengið frá röskuðu landi og lögmæti ákvörðunar hans frá 25. s.m. um fjarlægja skuli nefndan vegg á kostnað lóðarhafa.

Samkvæmt mælingum sveitarfélagsins er ytri brún umrædds veggjar 2,33 m frá norðurhlið hússins að Hafnarstétt 13 og 1,74 m frá austurhlið þess. Kærandi hefur staðfest að innri brún veggjarins sé 2,0 m frá húsvegg norðan megin og 1,4 m frá húsvegg austan megin. Samkvæmt mælingum sveitarfélagsins er veggurinn 0,33 m á þykkt og verður ekki séð að kærandi hafi sérstaklega andmælt þeirri mælingu. Virðist því óumdeilt hversu langt hinn umdeildi veggur er frá húsvegg.

Samkvæmt deiliskipulagi miðhafnarsvæðis Húsavíkur, er tók gildi árið 2017 og tekur til umræddrar lóðar, eru mörk hennar 1,0 m frá norðurhlið hússins og 0-0,5 m frá austurhlið þess. Umdeildur veggur er því alfarið staðsettur utan marka lóðarinnar og allur inni á landi sveitarfélagsins. Hinn 21. nóvember 2017 heimilaði skipulags- og umhverfisnefnd að frágangur á lóðinni mætti ná 2 m í norður frá húsvegg og 1 m til austurs frá stafni hússins. Sú afgreiðsla var staðfest af skipulags- og umhverfisnefnd 13. desember s.á. og í skipulags- og framkvæmdaráði 3. júlí 2018. Því er ljóst að innri brún veggjarins er a.m.k. að hluta til utan samþykktra marka. Ytri brún veggjarins er hins vegar öll utan heimilaðrar staðsetningar. Veggurinn er því hvorki í samræmi við gildandi deiliskipulag svæðisins né áðurgreinda samþykkt skipulags- og umhverfisnefndar Norðurþings og er því um óleyfisframkvæmd að ræða. Var byggingarfulltrúa því heimilt að ákveða að hið ólöglega mannvirki skyldi fjarlægt og jarðrask afmáð, sbr. 2. mgr. 55. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010, enda ljóst að sveitarfélagið var ekki tilbúið að veita kæranda frekari heimildir til að byggja utan lóðarmarka og inn á land sveitarfélagsins.

Ekki verður séð að rannsókn málsins hafi verið áfátt af hálfu byggingarfulltrúa eða að brotið hafi verið gegn andmælarétti kæranda við meðferð þess, enda var kæranda gefinn kostur á að koma að athugasemdum, sem og hann gerði. Þá verður heldur ekki fallist á að rökstuðningi fyrir ákvörðuninni hafi verið áfátt eða að ekki hafi verið gætt meðalhófs, þegar höfð er hliðsjón af málsatvikum.

Varðandi mögulegt vanhæfi í máli þessu getur eingöngu hæfi byggingarfulltrúa komið til skoðunar þar sem honum er falið lögum samkvæmt að taka ákvarðanir um beitingu þvingunarúrræða, sbr. 55. gr. laga um mannvirki. Ekki liggur annað fyrir en að ágreiningur aðila snúist um efnisleg álitamál á sviði skipulags- og byggingarmála. Verður ekki séð á sá ágreiningur snerti persónulega hagsmuni byggingarfulltrúa eða náinna vandamanna hans heldur er um að ræða beitingu úrræða til gæslu almannahagsmuna sem eiga sér skýra lagastoð. Þá verður ekki af málsframvindu ráðið neitt það sem renni stoðum undir ályktun um að óvild hafi ráðið för gagnvart kæranda við hinar kærðu ákvarðanir. Eins og rakið er í málavaxtalýsingu voru mikil samskipti milli kæranda og yfirvalda sveitarfélagsins vegna umdeilds veggjar er leiddu til þess að kæranda var heimilað að reisa vegginn að hluta til utan lóðar á landi sveitarfélagsins. Að þessu virtu verður ekki séð að byggingarfulltrúi hafi verið vanhæfur við töku hinna kærðu ákvarðana skv. 3. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. 20. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011.

Kærandi hefur bent á ýmsar aðrar framkvæmdir í Norðurþingi sem hann telur að hafi fengið aðra meðferð hjá skipulags- og byggingaryfirvöldum en viðhöfð hafi verið í hans tilviki. Hvað sem þessum leyfisveitingum líður geta þær ekki veitt kæranda rétt til að reisa mannvirki utan lóðar sinnar á landi sveitarfélagsins án þess leyfis, en slíkt leyfi hefur hann ekki fengið.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið liggja ekki fyrir þeir ágallar á efni eða málsmeðferð hinna kærðu ákvarðana sem raskað geta gildi þeirra og verður kröfu þess efnis því hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúa Norðurþings frá 6. september 2018 um að óleyfisframkvæmdir utan lóðarmarka Hafnarstéttar 13 skuli fjarlægðar og gengið frá röskuðu landi utan lóðarmarka.

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúa Norðurþings frá 25. september 2018 um að fjarlægja skuli óleyfisframkvæmdir utan lóðarmarka Hafnarstéttar 13 á kostnað lóðarhafa.