Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

1/2000 Sólheimar, Gríms – og Grafningshreppi

Með

Nefnd skv. 31 gr. l. nr. 7/1998.

Ár 2000 þriðjudaginn 27. júní kom nefnd skv. 31 gr. l. nr. 7/1998 saman til fundar á skrifstofu formanns nefndarinnar Lágmúla 7, Reykjavík.  Mættir voru Sigurmar K. Albertsson hrl., Gunnar Eydal, skrifstofustjóri og Óðinn Elísson hdl.

 Fyrir var tekið mál nr. 1/2000 kæra Sjálfseignarstofnunarinnar Sólheima og Styrktarsjóðs Sólheima, Sólheimum, Grímsnes- og Grafningshreppi, vegna álagninar Grímsnes- og Grafningshrepps á sorphirðugjöldum fyrir árið 1997.

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

Úrskurður:

I.

Aðdragandi máls þessa er að þann 11. febrúar árið 2000 barst nefnd skv. 31 gr. l. 7/1998 erindi frá Sjálfseignarstofnuninni Sólheimum og Styrktarsjóði Sólheima, Grímsnesi og tekið fram að framangreindir aðilar „vilji með erindi þessu vísa til úrskurðar nefndarinnar ákvörðun Grímsneshrepps (nú Grímsnes- og Grafningshrepps) um álagningu sorphirðugjalds fyrir árið 1997“

Með bréfi nefndarinnar til Grímsnes- og Grafningshrepps dags. 24.2.2000 var hreppnum gefinn kostur á andsvörum og bárust þau nefndini með bréfi dags. 27.3.2000.  Svör hreppsins voru send til Sólheima og Styrktarsjóðs Sólheima sem gerði athugasemdir við andsvör hreppsins með bréfi dags. 18. apríl 2000.

Ekki þótti ástæða til að kalla eftir frekari andsvörum frá Grímsnes- og Grafningshreppi og var erindi Sólheima og Styrktarsjóðsins tekið til úrskurðar.

Uppkvaðning úrskurðar hefur hins vegar dregist vegna mikilla anna nefndarmanna.

II.

Í erindi Sólheima og Stryktarsjóðsins frá 11. febrúar 2000 segir: „Sveitarstjórn Grímsnes og Grafningshrepps hefur ítrekað skuldfært Sólheima og Styrktarsjóð Sólheima vegna sorphirðugjalda fyrir árið 1997 með því að draga sorphirðugjöld fyrir umrætt ár frá óskildum fjárveitingum ríkisins og sveitarfélagsins til Sólheima.“

Síðan er rakið að þann 15. maí 1997 hafi borist innheimtuseðlar frá Landsbanka Íslands vegna fasteignagjalda 1997 og í innheimtufjárhæð hafi fylgt gjald vegna sorphirðu og hafi það verið í fyrsta sinn sem slíkt gjald var til innheimtu.  Fasteignagjöld hafi verið greidd skilvíslega en greiðslu vegna sorphirðu hafi verið hafnað.  Þá hafi verið spurst fyrir með bréfi dags. 12. júní 1997 um hvenær gjaldskrá vegna sorphirðu hafi verið staðfest af umhverfisráðuneyti og sú

fyrirspurn ítrekuð með bréfi dagsettu 14. nóvember 1997 og aftur 20. júní 1998, en svör loks borist þann 20. júlí 1998.

Þá segir í erindinu: „Sólheimar og Styrktarsjóður Sólheima líta svo á að gjaldtaka sem þessi geti ekki verið afturvirk og sveitarstjórn hafi því verið óheimilt að leggja sérstakt sorphirðugjald á fasteignir Sólheima og Styrktarsjóðs Sólheima með fasteignagjöldum fyrir árið 1997.  Hafa ber í huga að hér var um nýja og áður óþekkta gjaldtöku að ræða að hálfu sveitarfélagsins, sem samkvæmt eðlilegum stjórnsýsluháttum og venjum ber að tilkynna gjaldendum með eðlilegum fyrirvara.“

Í niðurlagi erindisins er síðan beðist velvirðingar á því hve seint erindið er á ferðinni en vísað til þess að sorphirðugjaldið fyrir árið 1997 hafi verið dregið frá styrk vegna fráveitukerfis þann 29. desember 1999.  Erindinu fylgdu afrit þeirra bréfa sem gengið hafa á milli aðila þessa máls.

III.

Í svari Grímsnes- og Grafningshrepps frá 27. mars 2000 er aðdragandi álagningar sorphirðugjalds fyrir 1997 rakinn og honum lýst svo: „Á fundi Grímsneshrepps, þann 10. desember 1996, voru sorpgjöld fyrir árið 1997 samþykkt  (sjá fskj. nr. 1).  Í bréfi hreppsins til Umhverfisráðuneytisins dags. 7. mars 1997 er óskað eftir staðfestingu á áður samþykktri gjaldskrá (sjá fskj. nr. 2).  Skv. bréfi ráðuneytisins dags. 4. júní 1997 kemur fram að það geti ekki samþykkt gjaldskrána þar sem að ekki liggi fyrir nægileg rök fyrir upphæð gjalda í þeirri gjaldskrá sem lögð hefur verið fram.  Einnig telur ráðuneytið að frekari útfærslu vanti hvernig gjald vegna akstur og að upphæð vegna þess verði að koma fram í erindinu (sjá fskj. nr. 3).  Skv. bréfi Grímsneshrepps dags. 16. september 1997 er lögð endurbætt gjaldskrá (sjá fskj. nr. 4) skv. óskum ráðuneytisins (sjá fskj. nr. 3).  Rétt er að benda á að þau gjöld sem um er rætt hefur ekkert verið breytt frá samþykki fundar hreppsnefndar dags. 10. desember 1996 til bréfs dags. 16. september 1997.  Skv. bréfi ráðuneytisins dags. 29. september 1997 er gjaldskráin staðfest (sjá fskj. 5) og send samdægurs til Stjórnartíðinda til auglýsingar í B-deild (sjá fskj. nr. 6).

Eins og fram kemur í bréfi dags. 4. júní 1997 (sjá fskj. nr. 3) hefur þetta verið þrautarganga að fá gjaldskrána samþykkta enda var um að ræða álagningu sorpgjalda í fyrsta sinn hjá hreppnum.  Formgallar og ákveðnar kröfur ráðuneytisins gerðu það að verkum að gjaldskráin fékkst ekki samþykkt fyrr.  Í þessu bréfi verður ekki rætt um þá skýringu hversvegna farið var að leggja á sorphirðugjöld sérstaklega.

Skv. bréfi Grímsnes og Grafningshrepps dags. 29. desember 1999 (sjá fskj. nr. 7) var gerð leiðrétting á þessum gjöldum.  Fram til þessa hafa erindi ávallt borist í nafni Sólheima en ekki gerður greinarmunur á m.a. Styrktarsjóð Sólheima eða Sjálfseignarstofnun Sólheima.  Þess vegna er eðlilegt að Grímsneshreppur (hér áður) og Grímsnes og Grafningshreppur (í dag) hafi ávallt svarað erindum til Sólheima, eins og um eina stofnunin sé að ræða.“

Þau gögn sem fylgdu svari hreppsins eru m.a. endurrit hreppsnefndarfundar þann 10. desember 1996 þar sem samþykkt er tillaga um sorphirðugjald.  Bréf umhverfis-ráðuneytis frá 4. júlí 1997 þar sem ráðuneytið tilkynnir um endursendingu (synjun innsk. nefndar) gjaldskrárinnar.  Bréf hreppsins 16. september 1997 þar sem fram kemur að þann 9. sama mánaðar hafi hreppsnefnd samþykkt gjaldskrá vegna sorphirðu og loks bréf ráðuneytisins þar sem gjaldskráin er samþykkt þann 29. september 1997 og mun gjaldskráin síðan hafa verið birt í því hefti Stjórnartíðinda sem kom út 10. október 1997.

IV.

Í 18 gr. l. 81/1988 (nú 25 gr. l. 7/1998) segir að sveitarfélög geti sett sér sínar eigin heilbrigðissamþykktir og m.a. má setja í slíkar samþykktir ákvæði um gjaldtöku vegna leyfa, leigu eða veittrar þjónustu.  Skv. 3 mgr. 18 gr. l. 81/1988 skal upphæð gjalda ákveðin í sérstakri gjaldskrá, sem ráðherra staðfestir og í 4 mgr. segir efnislega að sveitarstjórnir skuli senda slíkar gjaldskrár til ráðherra í formi samþykktar.

Synji ráðherra staðfestingu endursendir hann samþykktina með leiðbeiningum um hvað þurfi til staðfestingar henni.

Um sumarið 1997 þegar Grímsnes- og Grafningshreppur krefur Sólheima og Styrktarsjóð Sólheima um sorphirðugjald vegna ársins 1997 hafði ráðherra synjað um staðfestingu gjaldskrárinnar og hún því ekki í því formi sem lög krefjast.  Hvort síðar tilkomin staðfesting ráðherra á gjaldskrá fyrir sorphirðu í Grímsneshreppi þann 29. september 1997 réttlæti álagningu og innheimtu sorphirðugjalds fyrir það ár er álitamál, sem nefnd skv. 31 gr. l. 7/1998 mun ekki taka afstöðu til.  Hér stendur svo á að skv. 27 gr. l. 37/1997 er kærufrestur þrír mánuðir frá því að aðila máls var tilkynnt um stjórnavaldsákvörðun og skv. 28 gr. s.l. skal kærum ekki sinnt, ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila.  Því verður að vísa frá kæru Sjálfseignarstofnunar Sólheima og Styrktarsjóðs Sólheima.

Úrskurðarorð:

Vísað er frá kæru Sjálfseignarstofnunarinnar Sólheima og Stryktarsjóðs Sólheima

 Sigurmar K. Albertsson hrl.

Gunnar Eydal, skrifstofustjóri                           Óðinn Elísson hdl.

Date: 6/27/00

Mál 3/2002 Hótel Egilsbúð

Með

Úrskurður vegna kæruTrölla ehf., Hafnarbraut 50, 740 Fjarðarbyggð gegn heilbrigðiseftirliti Austurlands, Búðareyri 7, 730 Fjarðarbyggð frá 2. júlí 2003.

Úrskurðarnefnd skv. 31. gr. laga nr. 7/1998.

Ár 2003 miðvikudaginn 2. júlí, kom nefnd skv. 31.gr. l. nr. 7/1998 saman til fundar á skrifstofu formanns nefndarinnar að Sölvhólsgötu 7, Reykjavík.   Mætt voru Gunnar Eydal, Guðrún Helga Brynleifsdóttir og Lára G. Hansdóttir.

 

Fyrir var tekið mál nr. 3/2002 kæra Trölla ehf., Hafnarbraut 50, 740 Fjarðarbyggð gegn heilbrigðiseftirliti Austurlands, Búðareyri 7, 730 Fjarðarbyggð.

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

úrskurður 

I.
Kæra lögmanns kæranda, ásamt meðfylgjandi gögnum barst nefndinni í september 2002.  Með kærunni fylgdi : 1)       yfirlit yfir leyfi heilbrigðiseftirlits Austurlands vegna hvers konar gistingar á Neskaupstað,

2)       bréf kæranda til kærða, heilbrigðiseftirlits Austurlands,

3)       svarbréf síðarnefnda til kæranda.

Þá barst ennfremur svar kærða til umhverfisráðuneytis, ásamt ljósriti af starfsleyfum og umsóknum um starfsleyfi, en ráðuneytið hafði óskað greinargerðar heilbrigðiseftirlitsins vegna málsins.

Með bréfi úrskurðarnefndar dags. 8. apríl s.l. var óskað skilgreiningar á því hvers konar leyfi kærði var að veita með starfsleyfi fyrir Hótel Egilsbúð svo og var óskað svara við eftirfarandi spurningum :

Hver var fyrirhuguð notkun starfsmannabústaða þegar ákvörðun kærða um starfsleyfi var tekin og hvaða notkun hafi verið á húsnæðinu á þeim tíma sem fyrirspurn var send.  Svar barst frá framkvæmdastjóra kærða með bréfi dags. 14. apríl, 2003, ásamt viðbótargögnum um mismunandi flokka gististaða.  Svarbréf það var sent lögmanni kæranda til umsagnar og barst bréf hans 25. júní s.l.

II.

Í kæru kemur fram að kærð sé sú ákvörðun kærða frá 21. maí, 2001 að veita B.G. Brosi ehf. starfsleyfi fyrir Hótel Egilsbúð að Egilsbraut 1, Neskaupstað og ennfremur sú ákvörðun að veita  sama aðila starfsleyfi fyrir starfsmannabústað að Hafnarbraut 8, Neskaupstað hinn 12. janúar 2002.   Gerir lögmaður kærandi þá kröfu að starfsleyfi Hótels Egilsbúðar verði breytt þannig að það beri titilinn gistiheimilið Egilsbúð og ennfremur er þess krafist að starfsleyfi fyrir starfsmannabústaði verði fellt úr gildi.  Þá er gerð sú krafa að ólögmæt afnot af starfsmannabústað að Hafnarbraut 8 í Neskaupstað verði bönnuð.

Lögmaður kæranda rekur málsatvik sem hann kveður þau að kærandi reki hótel og gistiþjónustustarfsemi í Neskaupstað.  Hann hafi sem slíkur orðið að hlíta mjög ströngu eftirliti kærða og þeim reglum sem þeir setji.  Skjóti því skökku við að kærði hafi veitt gistiheimili B.G. Bross ehf. starfsleyfi fyrir hóteli þar sem í reynd sé um að ræða gistiheimili og beri  að sæta reglum um gistiheimili.   Rekur lögmaður kæranda samskipti sín við heilbrigðiseftirlitið og greinir frá að kröfum sínum um leiðréttingu hafi verið hafnað af kærða.   Því leiti hann með málið til úrskurðarnefndar skv. 31. gr. laga nr. 7/1998.

Lögmaður kæranda byggir kröfur sínar á því að í lögum nr. 67/1985 um veitinga- og gististaði komi skýrt fram að enginn megi stunda slíka starfsemi  nema hafa til þess leyfi.

Í 8. gr laganna komi fram að gististöðum sé skipt upp í   4 flokka ; hótel, gistiheimili, gistiskála og gistingu á einkaheimilum og mismunandi skilyrði séu fyrir leyfi hvers flokks fyrir sig.  Í 3. mgr. 6. gr. reglugerðar   nr. 288/1987 um veitinga- og gististaði komi fram að óheimilt sé að nota á veitinga- eða gististað nafn, sem gefi til kynna annan rekstur en leyfi sé veitt til.    Lögmaður kæranda vísar til þess að kærði sé einn eftirlitsaðila þessara reglna.  Ennfremur vísar hann til þess að við veitingu leyfis í maí 2001 hafi átt að fara fram sjálfstæð könnun á vegum kærða á því hvort skilyrðum fyrir útgáfu leyfis væri fullnægt.  Telur lögmaður kæranda að með veitingu starfsleyfis fyrir Hótel Egilsbúð sé um brot á fyrrgreindu lagaákvæði að ræða. Þá vísar lögmaðurinn ennfremur til jafnræðisreglu stjórnarskrár og stjórnsýslulaga.  Kröfu sína um niðurfellingu eða afturköllun á starfsleyfi fyrir starfsmannabústað að Hafnarbraut 8 í Neskaupstað byggir lögmaðurinn á því að notkun kærða á húsnæðinu hafi farið í bág við það leyfi sem út var gefið.  Í athugasemdum sínum dags. 20. júní s.l. ítrekar lögmaðurinn kröfuna um starfsleyfið og telur að viðurkennt sé í gögnum kærða að um brot á lögum  nr. 67/1985 og rgl nr. 288/1987 sé að ræða.

Varðandi notkun húsnæðis að Hafnarbraut 8, bendir lögmaður kæranda á að starfsleyfi hafi verið breytt og sé nú um að ræða starfsleyfi fyrir gistiskála, en ekki starfsmannabústaða.  Breytir lögmaður kæranda kröfugerð sinni með tilvísan til þessa.

III.

Framkvæmdastjóri kærða  gerir grein fyrir leyfisveitingum til B.G. Bross ehf. í bréfi til umhverfisráðuneytis dags. 24. ágúst. s.l. .  Kemur fram í gögnum  að starfsleyfi fyrir Hótel Egilsbúð sé fyrir veitingastað með veitingasal fyrir allt að 40 gesti svo og veislusal fyrir allt að 400 gesti.  Þá er vísað  til þess að miðað sé við starfsreglur fyrir veitingastaði og gistiheimili. Það sama kemur fram í afriti af starfsleyfi sem veitt hefur verið B.G. Brosi ehf. v. Hótels Egilsbúðar og fylgdi með í gögnum heilbrigðiseftirlits.  Varðandi starfsmannabústaði að Hafnarbraut 8, Neskaupstað gerir framkvæmdastjóri grein fyrir veitingu leyfisins.  Í ljós kemur í gögnum málsins að sótt hefur verið um leyfi fyrir gistiheimili, en húsnæðið uppfyllti ekki kröfur sem gerðar eru til þess.

Í svarbréfi framkvæmdastjóra kærða dags. 14. apríl s.l. staðfestir hún að starfsleyfi Hótels Egilsbúðar sé vegna gistiheimils.  Framkvæmdastjórinn svarar  hins vegar ekki fyrirspurn um hvaða notkun hafi verið fyrirhuguð á húsnæðinu né heldur hvaða upplýsingar hafi legið fyrir um notkun þegar leyfi var veitt.  Framkvæmdastjórinn upplýsir að nú hafi verið gefið út leyfi fyrir gistiskála í margumræddu húsnæði að Hafnarbraut 8.  Skilyrði leyfis sé að húsið skuli leigt út til hóps eða einstaklinga í einu lagi, ekki sé heimilt að leigja stök herbergi út úr íbúðinni nema kröfur um næturvörslur séu uppfylltar.

IV.

Fram er komið í gögnum málsins að starfsleyfi það sem veitt var BG. Brosi ehf. v. Hótels Egilsbúðar var starfsleyfi gistiheimilis. Í gögnum framkvæmdastjóra heilbrigðiseftirlits Austurlands og starfsleyfinu sjálfu kemur fram að farið skuli eftir starfsreglum heilbrigðiseftirlits Austurlands fyrir veitingahús og gistiheimili.  Með tilvísan til laga nr. 67/1985 og reglugerðar nr. 288/1987, er ljóst að starfsleyfi til handa B.G. Brosi ehf. brýtur í bága við þær réttarheimildir.  Starfsleyfið er villandi fyrir starfsemi sem þar er rekin.

Hvað snertir notkun á gistiskála að Hafnarbraut 8 á Neskaupstað er bent á að heilbrigðiseftirlit Austurlands er eftirlitsaðili með skálanum og ber því að gæta að því að notkun húsnæðisins sé í samræmi við útgefið leyfi og að skilyrði það sem leyfinu fylgir sé uppfyllt.  Að öðrum kosti ber að fella leyfið úr gildi.

Ekki er á valdsviði úrskurðarnefnd skv. 31. gr. l. nr. 7/1998 að banna notkun húsnæðis eins og lögmaður kæranda gerir kröfu um.  Þeirri kröfu er því vísað frá.

Úrskurðarorð:

Lagt er fyrir heilbrigðiseftirlit Austurlands að gefa að nýju út starfsleyfi til B.G. Bross ehf. fyrir gistiheimili.

 Lára G. Hansdóttir
Gunnar Eydal hrl.              Guðrún Helga Brynleifsdóttir hdl.

Date: 7/7/03

Mál 10/2002 Heilbrigðiseftirlit Norðurlands eystra

Með

Úrskurðarnefnd skv. 31. gr. laga nr. 7/1998.

Ár 2003, miðvikudaginn 2. júlí, kom nefnd skv. 31.gr. l. nr. 7/1998 saman til fundar á skrifstofu formanns nefndarinnar að Sölvhólsgötu 7, Reykjavík.   Mætt voru Gunnar Eydal, Guðrún Helga Brynleifsdóttir og Lára G. Hansdóttir.

Fyrir var tekið mál nr.  10/2002 kæra Danielle Palade Somers, Ólafs Jónssonar  og Henri Palade Ólafssonar,  vegna töku Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra á hundum í eigu þeirra.

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

úrskurður

I.

Kæra Daniellu Palade Somers, Ólafs Jónssonar og Henri Palade Ólafssonar, hér eftir nefnd kærendur, ásamt meðfylgjandi gögnum barst nefndinni frá umhverfisráðuneyti með bréfi ráðuneytisins dags. 16.  desember 2002.  Með kærunni fylgdu 20 fylgiskjöl sem varða samskipti kærenda, dýraeftirlits umhverfisdeildar Akureyrar, heilbrigðisfulltrúa Norðurlands eystra, yfirlýsingar sýslumanns og vörslumanna dýra, afrit bréfa frá dýralækni og líffræðingi og frekari gögn.

Afrit af kæru og öðrum gögnum kærenda voru send kærða, heilbrigðiseftirliti Norðurlands eystra, í maí sl.  Kærði  sendi greinargerð  til nefndarinnar ásamt 41 fylgiskjali sem eru afrit bréfa sem sýna samskipti kærenda og kærða vegna máls þessa, auk afrita af bréfum kærða til kærenda svo og ljósrit mynda af hundum, afrit af úrskurði um húsleitarheimild, tilkynningum um kvartanir og fleira.  Afrit greinargerðar kærða  og annarra gagna sem með fylgdu voru send kærendum og þeim gefinn kostur á að senda athugasemdir sínar við greinargerð og fram komin gögn.  Kærendur ítrekuð kröfur sínar munnlega við formann nefndarinnar og ítrekuðu enn á ný að málinu yrði hraðað.  Kærendur sendu ennfremur framhaldskæru til nefndarinnar 23. júní s.l. vegna húsleitarheimildar og töku hundanna 5. júní 2003 ásamt ljósritum af gögnum sem málið varða.  Ennfremur barst nefndinni viðauki við framhaldskæru vegna máls þessa 30. júní, dags. 24. s.m. og fylgdu með ýmiss konar viðbótargögn ljósrit af áður komnum gögnum svo og ljósrit úr dagblöðum v. málsins og fleira.   Óskað var eftir að nefndin fjallaði um húsleit sem framkvæmd var.

II.

Málavextir eru þeir að allt frá því á árinu 2001 hefur kærði sent kærendum bréf varðandi lóðahreinsun og hundahald. Með bréfi dags. 1. júlí 2002 tilkynnti kærði kærendum að fyrirhuguð væri taka hunda af heimili þeirra.  Vísar kærði til stuðnings aðgerðum sínum til samþykktar um hundahald á Akureyri, þess að ekki eru leyfi fyrir hundum kærenda svo og þess að hundar hafa ekki verið færðir til hreinsunar.  Með bréfi sýslumannsins á Akureyri dags. 28. ágúst 2002, var gerð krafa um húsleit hjá kærendum og heimild til  töku á hundum sem séu án leyfis í vörslu kærenda.  Úrskurður héraðsdóms var dagsettur sama dag og heimilaði hann húsleit og töku hundanna.  Voru hundarnir teknir úr vörslu kærenda með valdi 29. ágúst 2002 og fluttir að Leirum á Kjalarnesi.  Hinn 30. ágúst 2002 sóttu kærendur um leyfi til dýrahalds í atvinnuskyni til lögreglustjórans á Akureyri sem framsent var heilbrigðisnefnd Norðurlands eystra.  Beiðninni var hafnað með bréfi heilbrigðisnefndar Norðurlands eystra dags. 9. september 2002 og vísað til þess að um væri að ræða óásættanlega atvinnustarfsemi inni í íbúðabyggð og ennfremur að kærendur hefðu ekki leyfi Akureyrarbæjar til hundahalds.  Með yfirlýsingu dagsettri 16. september 2002 var kærendum heimilað að fá í vörslu sína þá 16 hunda sem af þeim höfðu verið teknir, enda hafi kærendur komið hundunum í vörslu til Birnu Björnsdóttur og Hólmgeirs Valdimarssonar. Í yfirlýsingu sýslumanns dags. 16. September 2002, kemur fram að kærendum sé óheimilt að hafa hundana á Akureyri.  Með bréfi kærða dags. 6. janúar 2003 var kærendum send aðvörun vegna hundahalds.  Var kærendum gefinn kostur á að hætta dýrahaldi og eða fara með hundana frá Akureyri innan 10 daga frá móttöku bréfsins.  Með bréfi dags. 25. febrúar 2003 sendu kærði og bæjarlögmaður Akureyrarbæjar bréf til sýslumannsins á Akureyri þar sem óskað var eftir aðstoð lögreglu til húsleitar.

Úrskurður um húsleit var að nýju kveðinn upp í Héraðsdómi Norðurlands eystra og hundarnir aftur teknir úr vörslum kærenda 5 júní 2003 og eru nú að Leirum á Kjalarnesi.

III.

Kæra kærenda er ódagsett en barst úrskurðarnefnd frá umhverfisráðneyti með bréfi dags. 10. desember 2002.  Kærðar eru aðgerðir, ákvarðanir og framkvæmdir stjórnvalda gagnvart kærendum og gæludýraeign þeirra í ágúst og september s.l. svo og með framhaldskæru aðgerðir í júní 2003.  Í greinargerð og gögnum kærenda kemur fram að þau telja sig hafa sætt einelti af hálfu stjórnvalda og að réttur sé brotinn bæði á þeim og 16 chihuahua hundum þeirra.  Lýsa kærendur að ýmis brot hafi verið framin við töku dýranna  og að kærendur hafi sætt harðræði.  Kærendur halda því fram að ekki sé um að ræða kvartanir á hundahaldi frá nágrönnum og að um sé að ræða aðgerðir kærða án nokkurra utanaðkomandi kvartana.

Með framhaldskæru sem barst formanni úrskurðarnefndar 23. júní s.l. eru síðustu aðgerðir heilbrigðiseftirlits kærðar en hundar kærenda voru teknir að nýju úr vörslum þeirra hinn 5. júní s.l.og að nýju fluttir að Leirum á Kjalarnesi.  Lýsa kærendur því að þeir hafi nú sótt um leyfi til hundahalds 16 chihuahua hunda sinna. Kærendur óska þess sérstaklega að málinu verði flýtt.  Telja kærendur að taka hundanna sé lögbrot,  brot á dýraverndarlögum, jafnræðisreglu stjórnarskrár og stjórnsýslulaga og almennum mannréttindum sínum.  Hafi kærendur fengið að vera í friði með hunda sína um nokkurra ára bil, þar til á árinu 2001 þegar upp hafi hafist miklar aðgerðir gegn þeim.  Hafi þá bæði verið krafist lóðahreinsunar og lögð hafi verið fram kæra á hendur kæranda Ólafi fyrir að stunda hundarækt.  Síðan þá hafi aðgerðir yfirvalda á hendur þeim verið linnulítið í gangi og hafi nú endað með  töku dýranna.  Í viðauka við framhaldskæru er þess óskað að úrskurðarnefnd fjalli um húsleit þá sem fram hafi farið hinn 5. júní s.l. og ítrekað að um sé að ræða mannréttindabrot og valdníðslu stjórnvalda.

IV.

Í umsögn kærða er krafist frávísunar á stjórnsýslukærunni í heild eða að hluta vegna aðildarskorts þar sem kæruefni beinist að fleiri aðilum en kærða.  Þá er ennfremur krafist frávísunar vegna vanreifunar kröfunnar þar sem kæruatriði séu mjög óljós og vanreifuð.

Í umsögn sinni reifar kærði  kvartanir sem borist hafa og vísar til meðfylgjandi gagna auk þess sem kærði greinir frá málinu á sama máta og kærendur og má ljóst vera að ekki er deilt um málavexti.  Greinir heilbrigðiseftirlitið frá bréfum til kæranda Ólafs vegna lóðahreinsunar svo og til kæru og bréfa sendum kærendum vegna hundahalds á heimili og lóð sinni.  Þann 14. nóvember 2001 kveður heilbrigðiseftirlitið að kærða Ólafi hafi verið veitt áminning vegna brota á samþykktum Akureyrarbæjar um hundahald.  Lýst er kvörtunum vegna hunda á árinu 2002 svo og ítrekunum um lóðahreinsun. Eins og fyrr er greint frá voru hundar kærenda teknir úr vörslum þeirra í ágúst 2002 og aftur nú í júní 2003.

Heilbrigðiseftirlit lýsir málsástæðum svo að allt frá árinu 2001 hafi verið reynt að fá kærendur til að verða við tilmælum um lóðahreinsun, sækja um hundaleyfi greiða hundaleyfisgjald, en án árangurs.  Bendir kærði á að ekki hafi verið brotinn réttur á kærendum.  Sendar hafi verið viðvaranir vegna hundanna  og margoft skorað á kærendur að hreinsa lóð sína. Telur kærði sig hafa sinnt rannsóknarskyldu sinni svo og farið eftir meðalhófs- og andmælareglu við gang málsins. Þá er því lýst yfir að kærandi telji sig framfylgja jafnræðisreglu með því að gera kröfu til kærenda um að fara að lögum og reglum eins og aðrir hundaeigendur verði að gera.

V.

Svo sem fram er komið greinir aðila á um töku hunda úr vörslu eigenda í tvígang og meðferð málsins hjá stjórnvöldum.

Kærði gerir þær kröfur að málinu verði vísað frá úrskurðarnefnd vegna aðildarskorts og vanreifunar.  Enda þótt kærðar séu aðgerðir ýmissa aðila í máli þessu kemur skýrt fram að kæran beinist gegn kærða.   Ekki verður því fallist á að um aðildarskort sé að ræða.  Ekki verður heldur fallist á að kröfur kærenda séu vanreifaðar  enda verður að telja  að málavextir séu nægilega skýrt fram komnir með framlagningu gagna beggja aðila.

Valdsvið úrskurðarnefndar skv. 31. gr. l. nr. 7/1998 nær einungis til aðgerða heilbrigðiseftirlits hvort farið hafi verið að settum reglum við aðgerðir þeirra.  Aðrar kröfur eiga ekki undir nefndina og verða því ekki teknar til umfjöllunar. Svo sem fram er komið í gögnum málsins og aðilar eru sammála um hafa aðgerðir heilbrigðiseftirlits staðið lengi.  Hefur kærði sent kærendum erindi bréflega svo sem aðvaranir vegna hundahalds án leyfis og áskoranir um lóðahreinsun.  Var kærendum veittur möguleiki á því að lagfæra lóð sína svo sem þeir og gerðu og var því fallið frá frekari kröfum á hendur þeim vegna lóðahreinsunar.  Hins vegar brugðust kærendur ekki við aðvörunum kærða vegna hundahalds.  Hefur því kærði sinnt andmælarétti og meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar og gætir jafnframt að jafnræðisreglu með því að framfylgja þeirri samþykkt sem gildir fyrir hundaeigendur í umdæmi heilbrigðiseftirlisins.  Samkvæmt samþykkt um hundahald á Akureyri nr. 360/2001, má  veita leyfi til hundahalds að uppfylltum ákveðnum skilyrðum svo sem þeim að greiða beri leyfisgjald og færa skuli hunda til hreinsunar.  Einnig er ákvæði í samþykktinni um  að óleyfilega hunda og hunda sem ganga lausir skuli eftirlitsmaður handsama og færa í sérstaka hundageymslu

Ekki er um það deilt í máli þessu að kærendur hafa ekki leyfi til hundahalds.  Þau hafa áður sótt um leyfi til hundahalds í atvinnuskyni en þeirri umsókn var hafnað.  Þau hafa nú sótt um leyfi fyrir 16 hundum,  en svar hefur ekki borist frá yfirvöldum.

Miðað við málavexti eins og þeir nú  liggja fyrir nú er ljóst að heilbrigðiseftirliti ber að fylgjast með því að reglum um hundahald sé fylgt. Þar sem ekki er leyfi fyrir hundum kærenda er ljóst að Heilbrigðiseftirliti Norðurlands eystra er heimilt  og ber raunar að taka leyfislausa hunda í sína vörslu.  Ekki verður talið að kærði hafi farið offari í aðgerðum sínum.

Um lagarök vísast til laga nr. 7/1998 og samþykktar um hundahald á Akureyri nr. 360/2001.

Úrskurðarorð :

Með tilvísan til framangreinds verður ekki fallist á að aðgerðir kærða, Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra, við töku hunda úr vörslu kærenda hafi verið ólögmætar.

Lára G. Hansdóttir

Gunnar Eydal hrl.                                        Guðrún Helga Brynleifsdóttir hdl.

Date: 7/7/03

3/2000 Bessastaðahreppur hundahald

Með

Nefnd skv. 31. gr. l. 7/1998.

Ár 2001 fimmtudaginn 1. febrúar kom nefnd  skv. 31. gr. l. nr. 7/1998 saman til fundar á skrifstofu formanns nefndarinnar Lágmúla 7, Reykjavík.  Mættir voru Sigurmar K. Albertsson hrl., Gunnar Eydal, hrl. og Óðinn Elísson hdl.

Fyrir var tekið mál nr. 3/2000, kæra Aðalheiðar Esterar Gunnarsdóttur og Guðjóns Birkis Helgasonar, Sjávargötu 11, Bessastaðahreppi, kæra Ingrid Kuhlman, Sjávargötu 29, Bessastaðahreppi og kæra Elínar Vigdísar Hallvarðsdóttur og Gísla I. Þorsteinssonar vegna afgreiðslu Heilbrigðisnefndar Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis þann 11.12.2000 á kröfu þeirra um aflífun hunds, skráðan eign Þorgerðar Nielsen, Sjávargötu 23, Bessastaðahreppi.

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

Úrskurður

I.

Upphaf máls þessa er að með bréfi dagsettu 20. september 2000 til formanns nefndar skv. 31. gr. l. nr. 7/1998 lýstu þau Aðalheiður Ester Gunnarsdóttir og Guðjón Birkir Helgason því að sonur þeirra, Aron Ragúel, 10 ára, hafi verið bitinn af hundi, sem og annað barn í nágrenninu, og hafi bitið verið kært til lögreglu og þar sett fram krafa um aflífun hundsins.  Í bréfinu kom einnig fram að Heilbrigðiseftirlit Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis hafi hafnað því að hundurinn yrði aflífaður og var þeirri málsmeðferð mótmælt.

Með bréfi dags. 2. október 2000 til Heilbrigðiseftirlits Hafnarfjarðar og Kópavogs-svæðis fór nefnd skv. 31. gr. l. nr. 7/1998 fram á gögn og viðhorf eftirlitsins vegna framangreindrar kvörtunar.  Svar Heilbrigðiseftirlits Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis barst nefndinni daginn eftir og fylgdu ýmis gögn bréfinu m.a. lögregluskýrslur, bréf lögmanns hundeigandans, bréf Ástu Dóru Ingadóttur hundaþjálfara og ýmis bréf (vottorð) nágranna um hegðun þeirra barna sem koma hér við sögu.

Í framangreindum gögnum kom fram að Heilbrigðiseftirlit Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis hafi gefið eiganda hundsins tækifæri til að „endurþjálfa“ hundinn og myndi síðar leggja málið fyrir heilbrigðisnefnd sömu svæða til endanlegrar ákvörðunar um afdrif hundsins og þá eftir mat á því hvernig til hefði tekist um þjálfunina.  Nefnd skv. 31. gr. l. nr. 7/1998 ákvað að bíða með afgreiðslu kvörtunar þeirra Aðalheiðar Esterar Gunnarsdóttur og Guðjóns Birkis Helgasonar þar til endanleg ákvörðun heilbrigðisnefndar Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis lægi fyrir og var þeim tilkynnt sú ákvörðun.

Heilbrigðisnefndin kom saman til fundar þann 11. desmber 2000 og er niðurstaða nefndarinnar að hundurinn skuli ekki aflífaður.

Afgreiðsla heilbrigðisnefndarinnar barst nefndinni með bréfi dags. 13. desember 2000 og fylgdu ýmis gögn m.a. bréf sem gengið hafa milli aðila málsins svo og álit skólaráðs Hundaskóla Hundaræktarfélags Íslands, en ekki verður ráðið af gögnum hver leitaði þess álits.

Með bréfi dags. 15. desember 2000 ítreka Aðalheiður Ester Gunnarsdóttir og Guðjón Birkir Helgason mótmæli sín vegna afgreiðslu heilbrigðiseftirlitsins og gera kröfu um að hundurinn verði aflífaður en til vara að hann verði látinn fara úr sveitarfélaginu.  Með bréfi dagsettu sama dag sendi Ingrid Kuhlman, Sjávargötu 29, Bessastaðahreppi, nefndinni sömuleiðis kröfu um að úrskurði heilbrigðisnefndar Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis verði hafnað og gripið verði til viðeigandi ráðstafana skv. 14. gr. samþykkta um hundahald nr. 154/2000.

Að lokum barst nefndinni bréf dagsett 21. desember 2000 frá Elínu Vigdísi Hallvarðsdóttur og Gísla I. Þorsteinssyni, Sjávargötu 27, Bessastaðahreppi sem einnig gera kröfu um að ákvörðun Heilbrigðiseftirlits (nefndar) Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis verði felld úr gildi og hundinum lógað.

Með bréfi dags. 3.1.2001 til aðila málsins taldi nefnd skv. 31. gr. l. nr. 7/1998 öll sjónarmið vera komin fram og tilkynnti að málið yrði tekið til úrskurðar.

II. 

Í bréfi kæranda, þeirra Aðalheiðar Esterar og Guðjóns Birkis, er lýst aðdraganda og afleiðingum þess er hundurinn Nói beit son þeirra Aron Ragúel þann 14. ágúst 2000.  Afleiðingar bitsins voru þær að sauma þurfti 7 til 8 spor í andlit drengsins en sárin voru tvö á efri vör og nasavæng sem rifnaði frá og svo á neðri vör, en ljósmyndir fylgdu af áverkunum.  Lýtalæknir mun síðan hafa stundað drenginn og lagfært bitsárin eins og hægt er.

Í bréfinu kom einnig fram að sami hundur hafi bitið 6 ára stúlku í nef og hvirfil skömmu áður.  Mál það var ekki kært þá að beiðni eiganda hundsins, en við síðara bitið hafi foreldrar þess barns ákveðið að setja fram kæru.

Í lögregluskýrslu kemur fram að stúlkan, Íris Anita, hafði verið bitin þann 29. júlí 2000 og foreldrar hennar þau Eyþór Eðvarðsson og Ingrid Kuhlman gerðu þá kröfu hjá lögreglu að hundurinn yrði aflífaður.  Í öðrum skýrslum kemur fram að Ágúst Böðvarsson faðir hundaeigandans hafi ætlað að svæfa hundinn þann 17. ágúst 2000 og einnig kom fram hjá móður eiganda hundsins að hann hafi glefsað í eigendur sína en sú fullyrðing var síðan dregin til baka af lögmanni þeirra.

Við meðferð málsins hjá Heilbrigðiseftirliti Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis var orðið við óskum eiganda hundsins um tækifæri til „endurþjálfunar“ hans en til öryggis krafðist heilbrigðiseftirlitið þess að hundurinn færi af heimili sínu meðan á þjálfun stæði og gefinn var tveggja mánaða frestur en þá skyldi málið metið að nýju.

Í bréfi lögmanns eiganda hundsins, dags. 4. september 2000, kemur fram að eigendur höfðu ráðfært sig við Ástu Dóru Ingadóttur hundaþjálfara hjá firmanu Gallerí Voff og beðið var um samþykki fyrir því að álits áðurgreinds hundaþjálfara væri leitað.  Í bréfinu er einnig lýst aðstæðum þegar hundurinn beit börnin og þau raunar sökuð um að hafa æst hundinn sérstaklega upp.  Eru þær staðhæfingar m.a. studdar ýmsum yfirlýsingum m.a. frá eigendum hundsins og öðrum í nágrenninu.

Ásta Dóra Ingadóttir, hundaþjálfari, skilar áliti í bréfi sem dagett er 8. september 2000.  Í álitinu er lýst hegðun hundsins og aðstæðum hans í Sjávargötu 23.  Tekið er fram að hundurinn sé á „félagsþroskatímabili“ sem hundar noti til að finna sinn stað í virðingarstiga heimilisins.  Síðan er því lýst að endurmóta þurfi viðhorf hundsins gagnvart fólki.

Í framhaldi þessa álits er í bréfi lögmannsins beðið um að hundurinn „fái tækifæri til að læra góða siði og fái að njóta einkaþjálfunar Ástu Dóru, sem síðan myndi meta hann að þeirri þjálfun lokinni“.  Í niðurlagi bréfs lögmannsins er því heitið að ef álit þjálfarans verði neikvætt muni hundurinn verða aflífaður og lokaorð bréfsins eru:“Með einlægri bón um að lífi Nóa litla (hundsins innsk. nefndar) verði þyrmt nú um hríð og að hann fái tækifæri til að læra að umgangast mannfólkið hjá góðum og viðurkenndum hundaþjálfara.“

Nefndinni þótti ástæða til að beina þeim spurningum til heilbrigðiseftirlitsins í fyrsta lagi hvernig staðið hafi verið að vali Ástu D. Ingadóttir til að þjálfa hundinn, í öðru lagi hvort hæfni hennar til þjálfunar hafi verið könnuð á einhvern hátt og að lokum hvernig heilbrigðiseftirlitið muni staðreyna árangur þeirrar þjálfunar sem eftirlitið sjálft hafi ráðgert.  Heilbrigðiseftirlitið svaraði og kom fram að val hundaþjálfarans hafi alfarið verið á vegum eiganda hundsins og starfsemi þjálfarans hafi verið kunn eftirlitinu.  Að lokum var svarað að mat á þjálfun hundsins eigi að koma fram í skýrslu hundaþjálfarans.

Í ódagsettri greinargerð hundaþjálfarans sem skilað var til heilbrigðiseftirlits Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis er m.a. fullyrt að miklar breytingar hafi orðið á viðhorfi hundsins til manna og þetta sé góður hundur með trausta skapgerð og sýni ekki nokkrum manni óvild.  Síðan er sagt: ,,Það eina sem eftir situr er að hann ofles hormónaboð frá tíkum, hann fékk hormónasprautur til að minnka kynkvötina en það virðist ekki duga alltof vel og þá geti gelding verið næsta skerfið.“

Í framhaldi þessa álits fóru framkvæmdastjóri og skrifstofustjóri heilbrigðiseftirlitsins á heimili hundsins þann 24. nóvember 2000 og skoðuðu aðstæður.  Niðurstaða þeirrar heimsóknar var að gefa það mat að hundurinn gæti verið áfram á heimili sínu.

Þann 11. desember 2000 er málið síðan tekið fyrir í heilbrigðisnefnd Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis, forsaga málsins rakin og er úrskurðarorð nefndarinnar svohljóðandi:

„Ekki er gerð krafa um að hundurinn Nói að Sjávargötu 23, Bessastaðahreppi verði aflífaður enda verði hann ekki hafður utan dyra án gæslu fullorðinna“.

III.

Þessi niðurstaða er kærð til nefndar skv. 31. gr. l. nr. 7/1998 fyrst með bréfi foreldra Arons Ragúels, þeirra Aðalheiðar Esterar Gunnarsdóttur og Guðjóns Birkis Helgasonar, dags. 15. desember 2000, og er gerð krafa um að hundurinn verði svæfður og til vara að hann verði látinn fara úr sveitarfélaginu.  Sama dag barst nefndinni einnig kæra Ingrid Kuhlman, móður Írisar Anitu sem hundurinn hafði bitið í júlí 2000.  Í kæru Ingrid eru gerðar ýmsar athugasemdir við málsmeðferð heilbrigðiseftirlits Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis og segir m.a. í kærunni „Í fyrsta lagi verður að telja undarlegt að sami aðili sem valinn er til að þjálfa hundinn gegn borgun skuli líka vera valinn til að leggja mat á hann.  Hér er ekki hægt að segja að um hlutlausan aðila sé að ræða.  Umræddur hundaþjálfari er enn í viðskiptum við eiganda hundsins, sem greiðir honum laun.“

Síðar segir: „Í öðru lagi dreg ég í efa fagleg vinnubrögð hundaþjálfara og undrast að heilbrigðisnefnd skuli velja ófaglærða manneskju til að leggja mat á það hvort að hundinum sé treystandi.  Í greinargerðinni má lesa eftirfarandi álit:

„Í eðli sínu er Nói góður hundur, með trausta skapgerð og ég hef aldrei séð hann sýna nokkrum manni óvild né heldur áhuga yfir höfuð, hann fer ekki að fólki að fyrra bragði“.

Hvernig má það vera að hundur, sem með skömmu millibili ræðst án nokkurrar sjáanlegrar ástæðu á tvö börn og bítur þau í andlitið svo harkalega að þau þurfa að leita læknis, fái þetta mat „sérfræðingsins“.

Það  hlýtur að verða að gera greinarmun á þeirri hlýðniþjálfun sem hundaþjálfari beitir og faglegu mati á því hvort að dýrið sé líklegt að ráðast á önnur börn í þriðja, fjórða og fimmta skiptið.  Það að hundurinn hlýði eiganda sínum þýðir ekki sjálfkrafa að hann sé ekki hættulegur.  Af hverju var t.d. ekki lagt fyrir viðurkennt skapgerðar-mat sem Hundaræktarfélag Íslands notar og viðurkenndur atferlisfræðingur framkvæmir?

Í þriðja lagi tel ég að heilbrigðisnefndin hafi ekki sinnt skyldu sinni við að láta lóga hundinum.  Til grundvallar ákvörðuninni voru notaðar vægast sagt undarlegar sögusagnir nágranna sem vitað er að ekki voru viðstaddir þegar árás hundarins átti sér stað, hvorki þegar hann réðst á

dóttur mína né Aron.  Hvernig geta þær frásagnir nágranna á nokkurn hátt verið trúverðugar?  Sonur minn 7 ára varð vitni að árásinni á systur sína ásamt einu 5 ára barni.

Það er umhugsunarefni hvað raunverulega þurfi til að fá hund eins og Nóa aflífaðan?

Einnig finnst mér undarleg ályktun Guðmundar H. Einarssonar framkvæmdastjóra heilbrigðiseftirlitsins í bréfi sínu til Sigurmars K. Albertssonar dagsett 13.12.2000.  Þar segir á blaðsíðu 2:

„Hvorugt hundsbitið telst brot á ofangreindri samþykkt (nr. 154/2000) þar

sem hundurinn var á heimili sínu þegar atvikin áttu sér stað.“

Hvernig getur það verið að hundsbit teljist ekki brot þegar hundurinn er á heimilinu sínu, er þá allt í lagi að hann bíti börn heima hjá sér en ekki úti?  Hvergi í samþykkt nr. 154/2000 um hundahald í Bessastaðahreppi, Garðabæ, Hafnarfirði og Kópavogi kemur fram að hundar hafi leyfi til að ráðast á börn eða að heimilið sé verndaður vettvangur fyrir árásir af þessum toga“.

Loks barst nefndinni kæra frá Elínu Vigdísi Hallvarðsdóttur og Gísla I. Þorsteinssyni sem setja fram þá kröfu að hundurinn verði aflífaður og lýsa þeim áhyggjum sínum að hundurinn komi til með að bíta fleiri börn í nágrenninu.

IV.

Sérstök samþykkt hefur verið gerð um hundahald fyrir Bessastaðahrepp, Garðabæ, Hafnarfjörð og Kópavog nr. 154/2000.

Í 1. gr. samþykktarinnar er sagt að hundahald sé takmarkað í áðurgreindum lögsagnarumdæmum og í 2 gr. er staðfest sú skipun að heilbrigðiseftirlit Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis annist framkvæmd og eftirlit með hundahaldi á eftirlitssvæðinu.

Í 11 gr. samþykktarinnar segir: „Hafi eigandi ástæðu til að ætla að hundur hans sé grimmur eða varasamur skal hann sjá til þess að hundur hans sé ávallt mýldur utan heimilis síns.  Hafi hundur bitið mann og/eða er hættulegur getur eftirlitsaðili, tjónþoli eða forráðamaður hans krafist þess að hundurinn verði aflífaður.  Óski hundeigandi þess skal leita álits sérfróðs aðila, dýralæknis eða hundaþjálfara sem Heilbrigðiseftirlit Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis viðurkenna áður en ákvörðun um aflífun er tekin.“

Í 14 gr. samþykktarinnar sem er undir kaflaheitinu „Valdsvið og þvingunarúrræði“ segir: “ Sé um alvarlegt eða ítrekað brot á samþykkt þessari að ræða eða sinni hundeigandi eða umráðamaður hunds ekki fyrirmælum eftirlitsaðila um úrbætur eða breytingu á hegðan hunds getur heilbrigðisnefnd afturkallað skráninguna, bannað viðkomandi eiganda að vera með hund á eftirlitssvæðinu, gert hundeiganda eða umráðamanni að koma hundi fyrir á öðrum stað, viðurkenndum af eftirlitsaðila eða látið fjarlægja hundinn.“

V.

Heilbrigðiseftirlit Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis féllst á að gefa eiganda hundsins tækifæri til að koma honum í svonefnda endurþjálfun og valdi eigandi hundsins til þess tiltekinn hundaþjálfara.  Það er álit nefndar skv. 31. gr. l. nr. 7/1998 að sá aðili hafi ekki verið til þess bær að gefa heilbrigðiseftirlitinu álit skv. 11. gr. samþykktanna um hundahald að þeirri þjálfun lokinni, en í raun er hundaþjálfarinn að meta eigin verk og árangur og augljóst að hlutlaus aðili hefði verið betur fallinn til þess verks.

Auk þess telur nefnd skv. 31. gr. l. nr. 7/1998 að álit hundaþjálfarans sé ekki trúverðugt og stutt skoðunarferð starfsmanna heilbrigðiseftirlitsins á heimili hundsins styrki ekki álit hundaþjálfarans.

Í afgreiðslu heilbrigðisnefndar Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis frá 13. desember 2000 eru hagsmunir hundeigandans einir látnir ráða niðurstöðum en ekki horft til hagsmuna umhverfisins sem er barnmargt íbúðarhverfi.  Það er álit nefndarinnar að hvað sem líður þjálfun hundsins og fullyrðingum um að hann hafi verið vaninn af þeim göllum sem hann var haldinn muni börnum í nágrenni hans alltaf stafa af honum ógn sem ekki verði við unað og því verði að fjarlægja hundinn af heimili hans og koma honum fyrir á öðrum stað í samræmi við 14 gr. samþykktar um hundahald sem gildir í Bessastaðahreppi.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi afgreiðsla heilbrigðisnefndar Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis og lagt fyrir heilbrigðiseftirlit sama svæðis að fjarlægja hundinn af Sjávargötu 23, Bessastaðahreppi í samræmi við ákvæði 14 gr. samþykktar um hundahald nr. 154/2000.

Sigurmar K. Albertsson hrl.

Gunnar Eydal hrl.                                           Óðinn Elísson hdl.

Date: 2/1/01

2/2000 Akranesbær sorphirðugjald

Með

Nefnd skv. 31 gr. l. nr. 7/1998

Lágmúla 7

108 Reykjavík

Ár 2000 miðvikudaginn 25. október kom nefnd skv. 31 gr. l. 7/1998 til fundar á skrifstofu formanns nefndarinnar Lágmúla 7, Reykjavík.  Mættir voru Sigurmar K. Albertsson hrl., Gunnar Eydal, skrifstofustjóri og Óðinn Elísson hdl.

Fyrir var tekið mál nr. 2/2000, kæra Óskars H. Ólafssonar, Sævangi 22, Hafnarfirði, vegna álagningar Akranessbæjar á sorphirðugjaldi fyrir árið 2000 fyrir fasteignirnar 01-02-01, 02-01-03 og 04-01-01 Vesturgötu 119, Akranesi.

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

Úrskurður

I.

Forsaga máls þessa er að þann 28. febrúar 2000 fór Óskar H. Ólafsson f.h. einkahlutafélagsins Óskars og Kjartans fram á það við bæjarráð Akranesskaupstaðar að kaupstaðurinn felldi niður álagningu sorphirðugjalds á þremur tilgreindum  eignarhlutum í fasteigninni nr. 119 við Vesturgötu á Akranesi.

Með bréfi dagsettu þann 2. mars 2000 hafnaði Akranesbær erindinu og í framhaldi sendi Óskar H. Ólafsson erindi dagsett þann 19. apríl 2000 til umhverfisráðuneytisins og óskaði eftir úrskurði þess.  Þann 31. maí framsendi ráðuneytið erindi Óskars H. Ólafssonar til nefndar skv. 31 gr. l. 7/1998.

Nefnd skv. 31 gr. l. 7/1998 óskaði þann 27. júní 2000 eftir athugasemdum Akranesskaupstaðar vegna erindisins og bárust athugasemdir kaupstaðarins til nefndarinnar 18. júlí.  Nefndinni þótti ástæða til að gefa Óskari H. Ólafssyni kost á andsvörum og bárust þau nefndinni þann 8. ágúst 2000.  Vegna ýmissa atriða í svarbréfi Óskars H. Ólafssonar þótti ástæða til að afla frekari gagna frá Akranesskaupstað og bárust þau þann 17. ágúst 2000.

II.

Sjónarmið kæranda koma fram í bréfi hans til bæjarráðs Akranesskaupstaðar þann 28. febrúar 2000 en þar segir m.a.: „Undirritaður f.h. hlutafélagsins Óskars og Kjartans ehf kt. 480399-3319, Sævangi 22, 220 Hafnarfirði, eigendur að neðangreindum eignarhlutum fasteignarinnar að Vesturgötu 119, Akranesi, nánar tiltekið eignarhlutum, 210-115, 2233-9631 og 223-9633, förum fram á niðurfellingu sorphirðugjalds.  Umræddir eignarhlutar eru í dag langt frá því að vera komnir í fullbúið ástand sbr. hér að neðan og ennfremur fer engin starfsemi fram í umræddum eignarhlutum“.  Síðar í bréfinu segir: “ Af framangreindu má ljóst vera að umræddir eignarhlutar eru einungis rúmlega fokheldir og langt í að einhver starfsemi verði í eignarhlutunum.  Því er farið fram á að Akranesskaupstaður felli niður álagningu sorphirðugjalds þar til eignarhlutarnir eru komnir í fullbúið ástand og starfsemi hafin í þeim.  Undirritaður skuldbindur sig til að láta Akranesskaupstað strax vita þegar starfsemi hefst í einhverjum þessara eignarhluta.“

Í andsvari við rökum Akranesskaupstaðar segir m.a.: „Forsaga þessa máls og samskipti mín við Akranesbæ voru í stuttu máli þau að ég kvartaði yfir reikningi sem mér var sendur vegna sorphirðugjalda sem eru innheimt með fasteignagjöldum bæjarins og óskaði eftir að hann yrði niðurfelldur þar sem engin starfsemi væri í mínum hluta hússins við Vesturgötu 119.  Lét ég þess getið að ekki væru neinar sorptunnur við húseign mína.   Daginn eftir voru settar 3 sorptunnur við húsið (hafa þær fokið tómar til og frá um lóðina í vetur).  Ég ræddi símleiðis við bæjarritara og í samtali okkar kom aðeins fram að þetta væru reglur Akranesbæjar og reikningurinn fengist ekki niður felldur.“

„Í 4. málsgrein fjallar J.P.P. um að: „..timbri, járni og spillefnum sé komið til Sorpu í Reykjavík til frekari vinnslu“.  Ég óska eftir að taka fram að eftir að framkvæmdum við útlitsbreytingar og viðhald húseignar að utan lauk, greiddu húseigendur móttökustöð sérstaklega fyrir urðun á grófúrgangi er til féll og sáu sjálfir um flutning þess, sé ég ekki hvað það kemur þessu máli við þar sem húseigendum er gert að greiða sérstaklega fyrir það eftir vigt.

Í 5. málsgrein bréfs Jóns Pálma segir ennfremur: „..reglur settar á árinu 1997 og staðfestar af umhverfisráðherra þann 18. desember það ár.“  Í framhaldi af þessu svari hlýt ég að spyrja hvaða þýðingu það hefur fyrir mál mitt ef rétt er.

Í 6. málsgrein sama bréfs er tíundaður samingur Akraneskaupstaðar vegna sorphirðu bæjarins.  Ég get ekki séð að það hafi neitt með mín mál að gera þó Akranesbær eigi í erfiðleikum með að greiða fyrir sorphirðu eða geri óhagstæða samninga við verktaka sína.

Í áðursendu bréfi mínu frá 28. febrúar útskýrði ég ástæður mínar fyrir ósk um niðurfellingu sorphirðugjalds v/húseignar minnar, þar sem enn fer engin starfsemi fram og er hún á sama byggingarstigi og áður var lýst.

Ég tel það réttlætismál að mér sé ekki gert að greiða fyrir þjónustu sem ég þarf ekki á að halda þó um verulegar upphæðir sé ekki að ræða í þessu tilviki.  Óska ég því eftir að nefnd sú sem alþingi hefur falið að úrskurða um þessi mál taki mál mitt til úrskurðar.“

III.

Í rökum Akranesskaupstaðar segir m.a. „Akraneskaupstaður hefur með höndum sorphirðu fyrir Akranes og rekur til þess móttökustöð þar sem sorpi frá einstaklingum og fyrirtækjum er veitt móttaka.  Sorpinu er síðan ekið til Fíflholta á Mýrum til urðunar.  Einnig er timbri, járni og spillefnum komið til Sorpu í Reykjavík til frekari vinnslu.  Grófúrgangi, þ.e. jarðefnum og þ.h. er komið fyrir í grófurðunargryfju nálægt sorpmóttökustöð Akraness.

Bæjarstjórn Akraness hefur samþykkt reglur sem unnið er eftir varðandi fyrirkomulag á hirðingu og innheimtu gjalda, þær reglur voru settar á árinu 1997 og staðfestar af umhverfisráðherra þann 18. desember það ár.  Á grundvelli þeirra samþykkta hefur bæjarstjórn síðan gefið út gjaldskrá sem unnið hefur verið eftir, nú síðast sem samþykkt var í bæjarstjórn þann 7. desember 1999 og gildir fyrir árið 2000.

Á árinu 2000 er reiknað með að sorphirðan kosti Akraneskaupstað um 5 milljónir króna (nettó), en þá hefur verið tekið tillit til innheimtra sorpgjalda bæði hjá einstaklingum og fyrirtækjum, en þá er ekki reiknað inn í þá tölu afskriftir af stofnkostnaði sem var um 50 millj. króna á árinu 1997, eða fjármagnskostnaður af þeirri upphæð.

Fyrirkomulag sorpmála er með þeim hætti að lagt er sorpgjald á allar fasteignir (matseiningar) og er í gjaldskránni ákvæði um lágmarkseiningu sem nemur lágmarksgjaldi, en slíkt var talið nauðsynlegt með hliðsjón af jafnræði.  Þetta gjald hefur verið innheimt á alla aðila sem eiga fasteignir óháð því hversu mikið sorp fellur til hjá viðkomandi.  Sorplosun er síðan á 14 daga fresti.  Sé þörf á tíðari losunum verða viðkomandi aðilar að annast slíkar losanir sjálfir eða semja um slíkt við verktaka.

Það hefur verið skoðun bæjaryfirvalda á Akranesi að sú beiðni sem fram kemur frá Óskari um niðurfellingu sorpgjalda falli ekki innan núverandi samþykkta um sorphreinsun á Akranesi eða undir gildandi gjaldskrá, af þeim orsökum var ekki hægt að verða við beiðni hans.

Það er einnig skoðun bæjaryfirvalda að illmögulegt sé að taka tillit til slíkrar beiðni þar sem bæði skipulag og kostnaður vegna sorpmála geri ráð fyrir verulegum föstum kostnaði í þessum málaflokki sem fellur ekki niður þótt einstaklingar eða fyrirtæki nýti ekki sorphirðuna með fullum hætti einhvern hluta ársins.

Þess utan að talið hefur verið ómögulegt að halda þannig utan um sorpmálin að eingöngu sé miðað við magn þess sorps sem kemur frá þeim aðilum sem skila frá sér sorpi, sorpmálin á Íslandi bjóða einfaldlega ekki enn þann möguleika að innheimt sé eftir vigt frá hverjum og einum sem þurfa að koma frá sér sorpi, þótt slíkt kunni að vera eðlilegt til framtíðar litið.

Í þessu samhengi er rétt að benda á að fasteignagjöld, holræsagjöld og vatnsskattur hefur verið lagður á fasteignir óháð því hvort eignirnar séu nýttar í starfsemi eða til íbúðar, eingöngu hefur verið horft til þess hvort viðkomandi eign sé komin í fasteignamat eða ekki og þar af leiðandi hafa þau gjöld ekki verið felld niður hafi viðkomandi fasteignir ekki verið nýttar allt árið, það sama hlýtur að gilda varðandi álagningu lágmarksgjalda vegna hirðingu(sic) og eyðingu(sic) sorps í sveitarfélögum, ekki er hægt að sjá hvernig annað fyrirkomulag geti í raun gengið upp án verulegs kostnaðarauka fyrir þá sem þjónustuna nota.“

IV.

Samþykkt um sorphreinsun á Akranesi var afgreidd í bæjarstjórn Akraness þann 9. desember 1997 og síðar birt í Stjórnartíðindum 30. desember 1997.  Í samræmi við samþykktina var síðan samin og samþykkt gjaldskrá fyrir hirðingu og eyðingu sorps á Akranesi þann 7.12.1999 og gildir sú gjaldskrá um sorphirðugjöld þau sem deilt er um í máli þessu.

V.

Í 9 gr. l. 45/1998 segir að sveitarstjórnir hafi ákvörðunarvald um nýtingu tekjustofna sveitarfélagsins og um framkvæmd þeirra verkefna sem sveitarfélagið annast að svo miklu leyti sem ekki eru um það settar reglur í löggjöf.  Í 44 gr. heilbrigðisreglugerðar nr. 149/1990 segir að sveitarstjórn sé ábyrg fyrir reglubundinni tæmingu og flutningi sorps frá öllum húsum á viðkomandi svæðum og í 38 gr. 3. tl. mengunarvarnar-

reglugerðar nr. 48/1994 er sagt að sveitarstjórn skuli sjá um að tæma sorpílát og flytja sorpið brott sé það ekki falið öðrum með samningi.

Í 25 gr. l. 7/1998 segir m. a. að sveitarfélög geti sett sér eigin samþykktir um atriði sem ekki er fjallað um í reglugerðum eða gert um einstök atriði ítarlegri kröfur en fram koma í þeim, enda falli þau undir lögin og síðan segir áfram að sveitarfélögum sé heimilt að setja gjaldskrá vegna leyfa, leigu eða veittrar þjónustu, en gjöld megi ekki vera hærri en nema kostnaði við veitta þjónustu eða framkvæmd eftirlits með einstökum þáttum.  Um það atriði er ekki deilt í máli þessu.

Eftir framangreindum reglum setti Akranesskaupstaður sér gjaldskrá fyrir hirðu og eyðingu sorps þann 7.12.1999.

Í gögnum kemur fram að kærandi telur ekki grundvöll fyrir sorphirðugjaldi þar sem fasteignir þær sem mynda gjaldstofninn séu ekki komnar í fullbúið ástand og engin starfsemi sé í eignunum, en tekið fram að kaupstaðnum verði gert viðvart strax og svo verði.  Hvorki í samþykktum um sorphreinsun á Akranesi né í gjaldskrá fyrir hirðu og eyðingu sorps á Akranesi er gert ráð fyrir undantekningum frá gjaldskyldu af ástæðum samsvarandi þeim er fram koma í sjónarmiðum kæranda og ekki kemur heldur fram í gögnum hvort aðstæður kæranda verði bornar saman við aðstæður annarra gjaldenda á Akranesi og honum mismunað að því leyti.

Nefnd skv. 31 gr. l. 7/1998 lítur svo á að Akranesskaupstaður hafi samkvæmt framansögðu lagalegar heimildir til að haga gjaldtöku vegna sorphirðu á þann hátt sem fram kemur í ákvæðum gjaldskrár frá 9. desember 1999 og almennt verði sorphirðugjöld ekki ákveðin nema sem jafnaðargjald á hverja gjaldskylda fasteign, en lög og reglur standi ekki til þess að reiknaður sé kostnaður sem fellur til vegna hvers og eins gjaldanda.

Úrskurðarorð:

Ekki er fallist á niðurfellingu sorphirðugjalda vegna Vesturgötu 119, Akranesi fyrir eignarhluta nr. 01-02-01, 02-01-03 og 04-01-01.

Sigurmar K. Albertsson hrl.

Gunnar Eydal                                                    Óðinn Elísson hdl.

Date: 10/25/00

Mál 3/1999 Eyrargata 12, Suðureyri, Ísafjarðarbæ

Með

Nefnd skv. 31. gr. l. nr. 7/1998.

Ár 2000 mánudaginn 29. maí kom nefnd skv. 31. gr. l. nr. 7/1998 saman til fundar á skrifstofu formanns nefndarinnar Lágmúla 7, Reykjavík.  Mættir voru Sigurmar K. Albertsson hrl., Gunnar Eydal, skrifstofustjóri og Óðinn Elísson hdl.

Fyrir var tekið mál nr. 3/1999, kæra Sveinbjargar Hermannsdóttur, Flókagötu 6, Hafnarfirði, vegna álagningar Ísafjarðarbæjar á sorphirðugjöldum 1997 og 1998 fyrir fasteignina Eyrargötu 12, Suðureyri, Ísafjarðarbæ.

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

ÚRSKURÐUR:

I.

Forsaga máls þessa er að í febrúar 1997 mótmælti Sveinbjörg Hermannsdóttir, kærandi mál þessa, sorphirðugjaldi sem lagt var á hana vegna fasteignar hennar að Eyrargötu 12, Suðureyri, Ísafjarðarbæ, fyrir árið 1997 og fór fram á endurskoðun þess til lækkunar.  Gjaldið var ákvarðað í gjaldskrá sem umhverfisráðuneytið staðfesti í byrjun árs 1997.

Í febrúar 1998 mótmælir lögmaður kæranda, Hlöðver Kjartansson hdl., síðan álagningu holræsa-, sorphirðu- og fasteignagjalda vegna ársins 1998 og krafðist þess m.a. að sorphirðugjald, sem úrskurðarmál þetta fjallar um, yrði tekið til endurskoðunar og lækkað.

Í mars 1998 svarar Ísafjarðarbær erindinu og er öllum kröfum hafnað.  Í apríl 1998 kærði lögmaður kæranda þá niðurstöðu til félagsmálaráðuneytisins og krafðist þess að ákvörðunum Ísafjarðarbæjar yrði breytt og kröfur hennar teknar til greina.  Ráðuneytið tók til meðferðar þann þátt er laut að holræsa- og fasteignagjöldum en vísaði þeim þætti sem snéri að sorphirðugjaldi til umhverfisráðuneytis með tilvísun til l. nr. 7/1998.

Í maí 1998 svaraði umhverfisráðuneytið lögmanni kæranda og skýrði tildrög að staðfestingu ráðuneytisins á gjaldskrá Ísafjarðarbæjar fyrir sorphirðu vegna ársins 1998.  Í niðurlagi svarsins var einnig vísað til þess að hægt væri að snúa sér til sveitastjórnar og óska eftir leiðréttingu og ef ekki yrði sátt um upphæð sorphirðugjaldsins væri hægt að kæra til nefndar skv. 31. gr. l. nr. 7/1998.

Þrátt fyrir framangreinda ábendingu kaus lögmaður kæranda að bera fram kvörtun til umboðsmanns Alþingis í maí 1998 vegna álagningar sorphirðugjalda fyrir árin 1997 og 1998 á húseignina Eyrargötu 12, Suðureyri.  Umboðsmaður Alþingis tók kvörtun kæranda til meðferðar og komst að þeirri niðurstöðu í nóvember 1999 að ágreiningur skyldi borinn undir úrskurðarnefnd skv. 31. gr. l. nr. 7/1998 og beindi þeim tilmælum til umhverfisráðuneytisins að að það framsendi erindi kæranda til úrskurðarnefndarinnar.

Nefnd skv. 31. gr. l. 7/1998 barst síðan erindið frá umhverfisráðuneyti þann 11. nóvember 1999.  Nefndin skrifaði lögmanni kæranda þann 24.11.1999 og var hann beðinn um upplýsingar um hvort vilji væri til þess að nefndin tæki ágreining kæranda og Ísafjarðarbæjar til meðferðar.  Því bréfi var svarað 2.12.1999 þar sem óskað var eftir meðferð nefndarinnar og tekið fram að ekki þyrfti frekari athugasemdir fram að færa um málefnið og var vísað til þeirra gagna sem þegar væru komin fram.  Ísafjarðarbæ var framsent bréf lögmanns kæranda frá 2.12.1999 og í svarbréfi bæjarins dags. 16.12.1999 kom fram að af hálfu bæjarins væru öll gögn þegar komin til nefndarinnar.

Nefndinni barst síðan bréf frá lögmanni Ísafjarðarbæjar 13.1.2000 þar sem óskað var eftir fresti til að koma að sjónarmiðum og beðið um þau gögn, sem nefndinni höfðu þá borist.  Fallist var á beiðni lögmannsins og barst greinargerð hans síðan til nefndarinnar 31.1.2000.  Lögmanni kæranda var gefinn kostur á andsvörum og bárust þau 28.2.2000.  Ástæða þótti til að gefa lögmanni Ísafjarðarbæjar enn kost á athugasemdum og bárust þær 11.3.2000.  Með bréfi til nefndarinnar dags. 27.3.2000 taldi lögmaður kæranda ekki þörf frekari gagna í málið.

Vegna páskaleyfa og anna nefndarmanna hefur dregist að kveða upp úrskurð en aðilum málsins var gert viðvart um þær tafir.

II.

Sjónarmið kæranda birtast m.a. í kæru lögmanns hans til Ísafjarðarbæjar frá febrúar 1998.  Þar segir m.a. „Gjaldi vegna sorphirðu (sorphreinsunar og sorpeyðingar) er ætlað að standa straum af raunverulegum kostnaði við þá þjónustu og skal gjaldið vegna einstakra fasteigna samkvæmt því taka mið af kostnaði við þann flokk fasteigna, sem fasteignin fellur í.  Þannig  er gjald þetta almennt mismunandi eins og fram kemur í eftirgreindum reglugerðum eftir því hvort um er að ræða sveitabýli, sumarhús, íbúðir eða fyrirtæki.  Með hliðsjón af þeim reglugerðum verður að telja sorphirðugjald að upphæð kr. 7.750 á allar íbúðir eða íbúðarhúsnæði í Ísafjarðarbæ mun hærra en nauðsyn krefur til að standa straum af kostnaði við þessa þjónustu og skylt að veita afslátt vegna einstakra íbúða, svo sem með tilliti til íbúafjölda í einstökum íbúðum eða takmarkaðrar notkunar íbúðar, þar sem enginn hefur lögheimili, eins og á við um húseignina að Eyrargötu 12, en þar hefur sorpílátið t.d. staðið inni frá því í september og kemur til með að vera þar fram í maí eða júni, eins og verið hefur frá því Sveinbjörg eignaðist húseignina, nema til dvalar í húsinu um páskana komi, sem verður reyndar nema óviðráðanleg atvik hamli.

Samkvæmt þessu verður að telja, að sorphirðugjald að upphæð kr. 7.750 sé mun hærra en réttlætanlegt er til að bera uppi kostnað við þessa þjónustu fyrir húseignina, enda enginn kostnaður við hana, og þær aðrar í sveitarfélaginu, sem eins er ástatt um, og fjórðungur þeirrar fjárhæðar, eða kr. 1.938, væri fullnægjandi til að standa undir þeim kostnaði t.a.m. með hliðsjón af neðangreindum reglugerðum, ella sé hér um að ræða beina skattlagningu, sem ekki sé lagaheimild til.  Gerð er krafa til að gjaldið verði lækkað eða afsláttur veittur niður í þá fjárhæð eða gjaldið fellt niður með öllu leggi sveitarfélagið gjald þetta ekki á sumarhús, sem vísbending er fyrir, enda er ekkert ákveðið í reglugerðinni varðandi sorphirðugjald af slíkum eignum.“

Í framhaldi eru síðan nefnd dæmi um ýmsa gjaldlagningu vegna sorphirðu hjá allmörgum sveitarfélögum.

Í stjórnsýslukæru til félagsmálaráðuneytis frá 17.4.1998 eru framangreind sjónarmið endurtekin og áréttuð.  Í kvörtun til umboðsmanns Alþingis segir m.a. „Kvörtun umbjóðanda míns lýtur að því, að 1) ekki hafi verið gætt lögmætra sjónarmiða við ákvörðun sorphirðugjaldsins í A-lið 1. mgr. 2. gr. gjaldskránna, 2) ákvörðun gjaldsins byggist ekki á viðhlítandi undirbúningi og útreikningi kostnaðar við þessa þjónustu sveitarfélagsins í heild, á Suðureyri sérstaklega, og við einstakar íbúðir eða íbúðaflokka, 3) ekki hafi verið gætt samræmis og jafnræðis við ákvörðun þess og niðurjöfnun og 4) gjaldtakan sé andstæð lögum eða skorti lagastoð.  Þá er kvartað yfir því, að setning gjaldskránna, er staðfest af Magnúsi Jóhannessyni ráðuneytisstjóra og undirmönnum hans í umhverfisráðuneytinu, sem Magnús er vanhæfur til vegna skyldleika við Þorstein Jóhannesson, sem lengst af var ýmist forseti bæjarstjórnar eða formaður bæjarráðs Ísafjarðarbæjar á síðasta kjörtímabili, sbr. 3. tl. 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, en þeir Magnús og Þorsteinn eru bræður.“

Í andsvari við rökum lögmanns Ísafjarðarbæjar segir m.a.:

„2.  Ágreiningur málsaðila, sem til úrlausnar er fyrir úrskurðarnefndinni, varðar álagningu sorphirðugjalds bæði árin 1997 og 1998, sbr. inngangsorð í IV. kafla álits umboðsmanns Alþingis.  Mótmælum umbj.m. varðandi bæði árin var hafnað af Ísafjarðarbæ.  Sá ágreiningur hefur ekki sætt úrlausn æðra stjórnvalds.  Eins og málið er vaxið og hefur rekist verður því að líta á kvörtun mína til umboðsmanns Alþingis 28. maí 1998, þar sem kvartað er vegna álagningar beggja áranna, sem hluta af kæruefninu til æðra stjórnvalds, úrskurðarnefndarinnar, enda liggur málið nú þannig fyrir til úrlausnar.  Á það er bent að einungis vegna ákvæða 2. mgr. 6. gr. laga um umboðsmann Alþingis nr. 85/1997 vísaði hann frá sér að leysa úr ágreiningi aðila varðandi árið 1997.  Það bindur ekki úrskurðarnefndina á nokkurn hátt.

5.  Bréf umhverfisráðuneytisins til mín í tilefni af stjórnsýslukæru umbj.m. er dagsett 13. maí 1998.  Af hálfu umbj.m. hefur aldrei verið fallist á að þær upplýsingar sem þar koma fram um kostnað vegna reksturs sorpbrennslustöðvarinnar Funa og urðun ásorpi séu réttar eða fullnægjandi grundvöllur fyrir staðfestingu gjaldskránna eða gagnvart gjaldtökunni af umbj.m.   Sama á við um svokallaða umsögn fjármálastjóra Ísafjarðarbæjar í bréfi, dags. 31. janúar 2000.  Er þessu öllu vísað á bug sem þýðingarlausu fyrir réttlætingu Ísafjarðarbæjar á gildi samningar og samþykktar bæjarstjórnar á gjaldskránum á sínum tíma.  Hvað sem þessu líður skiptir hér hins vegar meginmáli sem segir í 2. mgr. 25. gr. laga nr. 7/1998: „Gjöld mega aldrei vera hærri en sem nemur rökstuddum kostnaði við veitta þjónustu eða framkvæmd eftirlits með einstökum þáttum.“  Af þessu og reyndar almennum reglum stjórnsýsluréttar um þjónustugjöld er augljóst að miða ber gjaldið við að mæta kostnaði af þjónustunni í einstökum tilvikum.  Verður því að gera kröfu um að fyrir liggi, er gjaldskrá er samin af sveitarfélagi og staðfest af ráðherra, útreikningur sorphirðukostnaðar vegna einstakra húseigna eða flokka húseigna í Ísafjarðarbæ við ákvörðun sorphirðugjalds, þar sem gjaldið má aldrei vera hærra en nemur veittri þjónustu við viðkomandi gjaldanda eða flokk gjaldenda.  Ekki nægir að vísa til þess að álagt sorphirðugjald alls í sveitarfélagi sé lægra en heildarkostnaður af þjónustunni.  Þar sem enginn útreikningur í þessa veru lá fyrir við samþykkt bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar á gjaldskránum og staðfestingu umhverfisráðherra á þeim eru bæði staðfestingar þeirra og álagningarnar á

umbj.m. samkvæmt þeim ólögmætar.  Sjónarmið stjórnsýslu- og stjórnskipunarréttar um jafnræði gjaldenda leiða til sömu niðurstöðu.

6.      Því er eindregið mótmælt að nokkurri venju sé til að dreifa um gjaldtöku

sorphirðu frá íbúðarhúsnæði miðað við fast gjald.  Slík gjaldtaka er ólögmæt, ómálefnaleg og ósamrýmanleg almennum lögskýringarsjónarmiðum um réttmæti þjónustugjalda.  Af hálfu Ísafjarðarbæjar hefur ekki verið sýnt fram á að myndast hafi bindandi stjórnsýslu- eða stjórnskipunarvenja sem helgi hið gagnstæða.  Engum ómöguleika- eða neyðarréttarsjónarmiðum er til að dreifa sem Ísafjarðarbær getur borið fyrir sig til að réttlæta hina ólögmætu gjaldtöku.  Það er vissulega einfalt og þægilegt fyrir Ísafjarðarbæ að leggja á jafnaðargjald.  Þeim sem þar ráða verður hins vegar að skiljast að með því næst ekki lögboðið samræmi og jafnræði og ekki einu sinni nálgun að því lögboðna marki.  Af hálfu Ísafjarðarbæjar hefur það ekki heldur reynt.   Af hálfu Ísafjarðarbæjar hafa engin rök, hvað þá sterk rök, verið færð fyrir því að bæjarfélaginu sé rétt að leggja á jafnaðargjald og sneiða með því hjá þessum mikilvægu reglum stjórnsýsluréttar og almennum reglum um ákvörðun þjónustugjölda miðað t.d. stærð einstakra eigna eða flokks eigna,  íbúafjölda í þeim eða notkun þeirra á þjónustunni.  Slíkt er einfaldlega framkvæmt eins og sést af fyrirliggjandi gjaldskrám tiltekinna sveitarfélaga.  Það verður að teljast hægur vandi að haga gjaldskrá með þeim hætti að ekki sé lagður skattur í formi þjónustugjalds vegna sorphirðu frá eignum eins og umbj.m.  Það stoðar ekki Ísafjarðarbæ að bera fyrir sig að íbúaskráning kunni að vera röng eða sniðgengin.  T.d. fer kosningaréttur eftir slíkum opinberum skrám.  Hví má ákvörðun sorphirðugjalds þá ekki taka mið af þeim?“

III.

Í svarbréfi Ísafjarðarbæjar frá 10.3.1998 segir m.a.:  „Sorphirðugjaldi í Ísafjarðarbæ er ætlað að standa undir kostnaði sveitarfélagsins af sorphirðu.  Gjaldinu er skipt í tvo megin flokka, annars vegar gjald á íbúðir og íbúðarhúsnæði, hins vegar á fyrirtæki, félög og stofnanir.  Ljóst er að kostnaður sveitarfélagsins af sorphirðu og sorpeyðingu skv. reikningum sveitarfélagsins er umfram tekjur og verður gjaldtökunni því ekki hnekkt af þeim sökum.  Telja verður fullnægjandi að lagt sé jafnaðargjald á hverja einingu íbúðarhúsnæðis.  Óhjákvæmilegt er að taka tillit til meðaltals-sjónarmiða en útilokað er að magntaka sorp einstakra íbúðareigenda auk þess sem magn sorps getur verið mismunandi frá einum tíma til annars.  Með sorphirðugjaldinu er íbúðareiganda tryggður sorpflutningur ef hann kýs að nýta sér hann.  Fyrir þá aðstöðu ber að greiða.  Ekki er fallist á þau rök, að sorphirðugjald geti miðast við fjölda heimilismanna á hverjum tíma, eða hvort og hverjir hafi þar lögheimili.  Ekki er heldur fallist á að eignin Eyrargata 12 teljist vera sumarbústaður enda er eignin ekki á slíku svæði skv. skipulagi.  Kröfu um breytingu eða niðurfellingu sorphirðugjalds er því hafnað.

Í ljósi ofangreinds föllumst við ekki á breytingu á álagningu fasteignagjalda á fasteignina Eyrargötu 12, Suðureyri.“

Í bréfi umhverfisráðuneytisins frá apríl 1998 til lögmanns kæranda segir m.a. vegna staðfestingar ráðuneytisins á gjaldskrá nr. 28/1998 fyrir sorphirðu í Ísafjarðarbæ.

„Samkvæmt upplýsingum sem lagðar voru fram af Ísafjarðarbæ þegar óskað var staðfestingar gjaldskrár í upphafi þessa árs kemur fram að á árinu 1997 var kostnaður vegna reksturs sorpbrennslustöðvarinnar Funa og urðunar á sorpi áætlaður kr. 62.457.000.  Á sama tíma voru álögð sorphirðugjöld og þjónustutekjur

kr. 34.139.000.  Kostnaður umfram tekjur var því áætlaður kr. 28.318.000.  Í drögum að fjárhagsáætlun fyrir árið 1998 er gert ráð fyrir tekjum sem nema kr. 37.500.000 og  útgjöldum sem nema kr. 63.900.000.  Útgjöld umfram tekjur eru því áætluð

kr. 28.400.000.  Afborganir áhvílandi lána eru ekki með í þessum útreikningum.  Ráðuneytið telur sorphirðugjald kr. 7.750 á ári á íbúð ekki óeðlilegt miðað við framangreindar forsendur.  Ráðuneytið telur ekki ástæðu til að hnekkja gildandi gjaldskrá.  Þegar upphæð sorphirðugjalda á íbúðarhúsnæði er ákveðin er venjan sú að sveitarfélög ákveða jafnaðargjald á hverja íbúð.  Þó hafa nokkur sveitarfélög tilgreint í gjaldskrá lægra gjald ef t.d. um er að ræða lítið sorpmagn eða fáa í heimili.  Gjald sem fram kemur í gjaldskrá er hámarksgjald.  Sveitarstjórn getur tekið ákvörðun um að innheimta lægra gjald.“

Í bréfi lögmanns Ísafjarðarbæjar frá 31.1.2000 segir m.a.:

I.

„Af hálfu Ísafjarðarbæjar er litið svo á, að kæruefnið taki eingöngu til álagningar sorphirðugjalds skv. gjaldskrá nr. 28/1998, en ekki til álagningar skv. gjaldskrá

nr. 37/1997, en í kvörtun sinni til Ísafjarðarbæjar, hinn 10. febrúar 1998, sem kærð var til félagsmálaráðuneytisins hinn 17. apríl 1998, var eingögnu vikið að álagningu skv. gjaldskrá nr. 28/1998, þ.e. vegna ársins 1998.

III.

Gjaldskrá sú fyrir sorphirðu, sem kæran lýtur að, er nr. 28/1998.  Gjaldskráin er sett með heimild í 18. gr. laga nr. 81/1988, sbr. 6. gr. l. nr. 70/1995.  Í 3. tl. gr. 18.2 var kveðið á um að í gjaldskrá sem sveitarfélög setja sér mætti kveða á um gjaldtöku m.a. vegna veittrar þjónustu.

Í gjaldskránni er mælt fyrir um árlegt sorphirðugjald á íbúðarhúsnæði skyldi vera

kr. 7.750, þ.e. á íbúð, eða kr. 645,83 á mánuði.  Fyrir þetta gjald er látin í té sorphirða, þ.e. kannað er með reglubundnum hæti hvort sorp hafi verið sett í tunnuna og hún þá tæmd, sbr. 44. gr. heilbrigðisreglugerðar nr. 149/1990, sbr. síðar.  Tíðni sorphirðu er miðuð við að fyllsta hreinlætis sé gætt og að sorp safnist ekki upp.  Er hverrar eignar vitjað að þessu leyti.

IV.

Samkvæmt 44. gr. heilbrigðisreglugerðar, nr. 149/1990, er sveitarfélag ábyrgt fyrir „reglubundinni tæmingu og flutningi sorps frá öllum húsum á viðkomandi svæði.“  Löng venja hefur skapast um gjaldtöku fyrir sorphirðu, sem byggir á föstu gjaldi, þ.e. fyrir þá aðstöðu, að láta hirða frá sér sorp sem til fellur, hvort sem sorpið er meira eða minna í hverju tilfelli.

Almennt er því viðurkennt að ákveðið sé jafnaðargjald á hverja íbúðareiningu.  Kemur þar til að miðað við núverandi aðstæður er almennt ekki framkvæmanlegt, a.m.k. ekki hjá Ísafjarðarbæ, að vigta eða ummálsmæla sorp frá einstökum íbúðum, eða að flokka sorpið eftir því, hversu mikill kostnaður er fólginn í flutningi þess og förgun í hverju tilfelli.  Mikill kostnaður og mikil fyrirhöfn fylgir því að kanna nákvæmlega og rannska sorp hvers íbúðareiganda.  Telja verður að svo sterk rök séu fyrir því að greitt sé jafnaðargjald fyrir að njóta þessarar aðstöðu, að ekki verði lögð á sveitarfélög skylda til að rannsaka sorp og krefja íbúðareigendur um gjald miðað við flokkað og mælt sorp, fyrr en frekari reglur og venjur hafa skapast varðandi fokkun sorps og meðhöndlun þess, en ætla má að í framtíðinni verði meðhöndlun úrgangs nækvæmari en nú er.  Slíku var ekki að heilsa 1998.

Í kvörtuninni er vikið að því, að nokkur sveitarfélög hafi sett í gjaldskrár sínar sérákvæði varðandi magntöku sorps og sérákvæði varðandi sumarbústaði.  Rétt er að nokkur smærri sveitarfélög hafa ákveðið, að heimilt sé að veita afslátt, ef magn er innan tiltekinna marka, t.d. þar sem færri en tveir eru í heimili eða þar sem sorpmagn er minna innan ákveðinna marka.  Í stærri sveitarfélögum er hins vegar ýmsum vandkvæðum bundið að viðhafa eftirlit með slíku, svo sem áður var rakið.  Varðandi mismunandi notkun eigna sérstaklega þá er þess að geta, að sveitarfélög hafa ekki möguleika á að fylgjast með því, hvernig háttað er notkun einstakra íbúða, nema þá skv. íbúatali.  Engin takmörk eru hins vegar á því, hvað margir gista eða nota viðkomandi íbúð eða á neyslu þeirra sem þar dvelja, en ljóst er að sorp fer ekki síður eftir neyslu íbúa en fjölda þeirra.“

Í niðurlagi bréfs lögmanns Ísafjarðarbæjar eru síðan sett fram rök gegn því að nefnd skv. 31. gr. l. 7/1998 fjalli um meint vanhæfi ráðuneytisstjóra umhverfisráðuneytis og haldið fram sjónarmiðum um að vanhæfi ráðuneytisstjórans sé sjálfstætt kæruefni og hafi kvörtun vegna þess ekki verið sett fram innan hins almenna þriggja mánaða kærufrests stjórnsýslulaga.  Þá er staðhæft að heimildir 31. gr. l. 7/1998 nái ekki til þess að fjalla um ágreining vegna vanhæfis og að lokum er því mótmælt að atvik og þeir hagsmunir sem hér eiga við, valdi vanhæfi ráðuneytisstjóra umhverfis-ráðuneytisins.

IV.

Eins og lýst var hér að framan var mál þetta sent umboðsmanni Alþingis þann 28.5.1998.  Umboðsmaður Alþingis skilað áliti þann 4.11.1999 og skipta niðurstöður þess álits máli við úrlausn ágreinings kæranda og Ísafjarðarbæjar.

Í IV. kafla álits umboðsmanns Alþingis segir:

„Kvörtun Sveinbjargar Hermannsdóttur frá 28. maí 1998 lýtur að álagningu sorphirðugjalds árin 1997 og 1998 samkvæmt gjaldskrám nr. 37/1997 og 28/1998,fyrir sorphirðu í Ísafjarðarbæ, á húseign hennar að Eyrargötu 12, Suðureyri í Ísafjarðarbæ, sbr. nú gjaldskrá nr. 25/1999, um sama efni.  Í kvörtuninni eru bornar brigður á lögmæti þessarar gjaldtöku, svo sem að framan er rakið.  Þá er yfir því kvartað að ráðuneytisstjóri í umhverfisráðuneytinu hafi verið vanhæfur til að annast um staðfestingu gjaldskráa nr. 37/1997 og 28/1998 af ástæðum er greinir í kvörtuninni.

Í 2. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, kemur fram að kvörtun skuli bera fram innan árs frá því er stjórnsýslugerningur sá er um ræðir var til lykta leiddur.  Eins og áður er rakið var Sveinbjörgu Hermannsdóttur tilkynnt um álagningu sorphirðugjalds árið 1997 með bréfi Ísafjarðarbæjar, dags. 3. febrúar 1997.  Af hennar hálfu var álagningunni mótmælt með bréfi hinn 20. febrúar s.á. og með bréfum Ísafjarðarbæjar, dags. 11. mars og 11. apríl s.á., var henni synjað um endurskoðun hins álagða gjalds.  Síðari meðferð málsins varðar álagningu sorphirðugjalds árið 1998, sbr. erindi lögmanns Sveinbjargar til Ísafjarðarbæjar frá 10. febrúar 1998 og erindi hans til félagsmálaráðuneytisins frá 17. apríl s.á.

Samkvæmt þessu eru ekki uppfyllt skilyrði laga til þess að ég fjalli í áliti þessu um álagningu sorphirðugjalds á húseign Sveinbjargar Hermannsdóttur árið 1997, sbr. 2. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997.  Af sömu ástæðu get ég ekki fjallað um þann þátt kvörtunarinnar er lýtur að staðfestingu gjaldskrár nr. 37/1997, fyrir sorphirðu í Ísafjarðarbæ, en gjaldskráin var staðfest í umhverfisráðuneytinu hinn 13. janúar 1997.

Þá segir áfram í áliti umboðsmanns Alþingis.

„Með 1. mgr. 31. gr. laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, er sérstakri úrskurðarnefnd falið að úrskurða í ágreiningsmálum sem rísa á grundvelli laganna, þ.m.t. um framkvæmd heilbrigðissamþykkta sveitarfélaga, en samkvæmt 1. mgr. 25. gr. laganna eru ákvæði um gjaldtöku vegna leyfa, leigu eða veittrar þjónustusveitarfélags hluti heilbrigðissamþykktar þess.  Er ljóst af ákvæði 1. mgr. 31. gr. að þar er gengið út frá meginreglu um úrskurðarvald hinnar sérstöku úrskurðarnefndar, en tilgreind tilvik þar sem ráðherra fer með úrskurðarvald samkvæmt lögunum sérstaklega undanþegin, sbr. tilvísun ákvæðisins til 32. og 6. gr. laganna.

Samkvæmt framansögðu tel ég að ágreiningur um lögmæti álagningar sorphirðugjalda sveitarfélags verði borinn undir sérstaka úrskurðarnefnd samkvæmt 31. gr. sömu laga, enda er hvergi mælt fyrir um það í lögum nr. 7/1998 að ráðherra skeri úr ágreiningi um það efni.  Í ljósi orðalags 1. mgr. 31. gr. laganna fær að mínum dómi ekki breytt þessari niðurstöðu þótt ráðherra skuli samkvæmt 2. mgr. 25. gr. sömu laga staðfesta gjaldskrá sveitarfélags og þar af leiðandi hafa eftirlit með því að efni gjaldskrárinnar hafi næga lagastoð og sé í samræmi við lög og grundvallarreglur stjórnsýsluréttar,?????.

Ágreiningur um lögmæti álagningar sorphirðugjalds á húseign Sveinbjargar Hermannsdóttur árið 1998 hafði ekki verið borinn undir stjórn Hollustuverndar ríkisins né úrskurðarnefnd samkvæmt lögum nr. 81/1988, um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, þegar lög nr. 7/1998 tóku gildi.  Var henni því unnt að bera ágreininginn undir sérstaka úrskurðarnefnd samkvæmt hinum síðarnefndu lögum, sbr. 1. mgr. 31. gr. laganna og ákvæði IV. til bráðabirgða með þeim.  Samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er ekki unnt að kvarta til umboðsmanns, ef skjóta má máli til æðra stjórnvalds og það hefur ekki fellt úrskurð sinn í málinu.  Byggir þetta ákvæði á því sjónarmiði að stjórnvöld skulu sjálf fá fyrst tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir, sem hugsanlega eru rangar, áður en farið er til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvartanir.  (Alþt. 1986-87, A-deild, bls. 2561.)  Þar sem sérstök úrskurðarnefnd samkvæmt lögum nr. 7/1998 hefur samkvæmt framansögðu ekki leyst úr ágreiningi vegna álagningar sorphirðugjalds á húseign Sveinbjargar Hermannsdóttur árið 1998 er umræddu lagaskilyrði ekki fullnægt í máli því sem hér er til umfjöllunar.

Í niðurlagi álits umboðsmanns Alþingis er síðan fjallað um vanhæfi ráðuneytisstjóra umhverfisráðuneytisins og sagt:  „Af þessu tilefni skal tekið fram að ég (umboðsmaður Alþingis, innsk. nefndar) tel álitamál hvort úrskurðarvald úrskurðarnefndar þeirrar, sem starfar á grundvelli 31. gr. laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, nái til ágreinings um formlegt gildi staðfestingar ráðherra á gjaldskrá sveitarfélags skv. 2. mgr. 25. gr. þeirra laga.“

Með framangreindum forsendum er niðurstaða umboðsmanns Alþingis því að skv. 2. mgr. 7. gr. l. nr. 37/1998 hafi umhverfisráðuneytinu borið að senda erindi Sveinbjargar Hermannsdóttur til nefndar skv. 31. gr. l. nr. 7/1998 og ekki hafi verið nægilegt að láta fylgja ábendingu um kæruleið, eins og gert var í bréfi ráðuneytisins frá apríl 1998.

V.

1.  Ágreiningur máls þessa er margþættur.  Af hálfu kæranda er krafist endurskoðunar álagningar sorphirðugjalda vegna áranna 1997, sbr. gjaldskrá nr. 37/1997, og 1998, sbr. gjaldskrá nr. 28/1998, og þess krafist að gjöldin verði felld niður.  Af hálfu Ísafjarðarbæjar er því haldið fram að kæruefnið nái einvörðungu til ársins 1998.

Í áliti umboðsmanns Alþingis kemur fram sú afstaða að 2. mgr. 6. gr. l. nr. 85/1997 standi því í vegi að hann geti fjallað um álagningu á húseign Sveinbjargar Hermannsdóttur fyrir árið 1997 þar sem kvörtun hafi ekki verið borin fram innan árs frá því að stjórnsýslugerningur sá sem um ræðir var til lykta leiddur.

Á sama hátt lítur nefnd skv. 31. gr. l. 7/1998 svo á að frestur sá sem nefndur er í

1. mgr. 27. gr. l. 37/1993 hafi einnig verið liðinn þegar kvörtun til umboðsmanns Alþingis var borin upp í maí 1998 en hvorki í „kæru“ til Ísafjarðarbæjar í febrúar 1998 né í „stjórnsýslukæru“ til félagsmálaráðuneytis í apríl 1998 eru álögð sorphirðugjöld 1997 gerð að ágreiningsefni.  Það er einnig álit nefndarinnar að 28. gr. l. 37/1992 eigi hér við og mun nefndin því ekki fjalla um ágreining vegna sorphirðugjalda 1997.

2.  Skv. 9. gr. l. nr. 8/1986 sem í gildi voru í byrjun árs 1998 segir að sveitarstjórnir hafi ákvörðunarvald um nýtingu tekjustofna og um framkvæmd þeirra verkefna sem sveitarfélagið annast að svo miklu leyti sem ekki eru settar um það reglur í löggjöf.  Orðalag l. nr. 45/1985 sem tóku við af l. nr. 8/1986 er óbreytt að þessu leyti.  Í 44. gr. heilbrigðisreglugerðar nr. 149/1990 segir að sveitarstjórn sé ábyrg fyrir reglubundinni tæmingu og flutningi sorps frá öllum húsum á viðkomandi svæðum og í 38. gr. 3. tl. mengunarvarnarreglugerðar nr. 48/1994 er sagt að sveitarstjórn skuli sjá um að tæma sorpílát og flytja sorpið brott sé það ekki falið öðrum með samningi.

Í 18. gr. l. 81/1988 sagði m.a. að sveitarfélag geti sett sér eigin heilbrigðissamþykktir um þætti sem ekki er fjallað um í heilbrigðisreglugerð og mengunarreglugerð eða til að gera um einstök atriði ítarlegri kröfur en þar er gert og síðan sagði áfram að heimilt sé að setja m.a. inn í slíkar samþykktir ákvæði um gjaldtöku vegna leyfa, leigu eða veittrar þjónustu og að upphæð gjalda skuli ákveðin í sérstakri gjaldskrá sem ráðherra staðfesti.  Í 25. gr. l. 7/1998, sem leysti 18. gr. l. 81/1988 af hólmi, er orðalag hið sama en því bætt við að gjöld megi aldrei vera hærri en sem nema rökstuddum kostnaði við veitta þjónustu eða framkvæmd eftirlits með einstökum þáttum og má ætla að regla þessi hafi gilt fyrir lögfestingu l. nr. 7/1998 en ekki er ágreiningur með aðilum þessa mál um það atriði.  Eftir framangreindum reglum setti Ísafjarðarbær sér gjaldskrá fyrir sorphirðu og er hún nr. 28/1998 og staðfest af umhverfisráðuneyti þann 9.1.1998.  Gjöldum er skipt í tvo liði A og B og á A ? liður við íbúðarhúsnæði en B ? liður um félög, stofnanir og aðrar lögpersónur.  Í 4. gr. gjaldskrárinnar er þeim sem fá álögur í B-lið gefinn kostur á athugasemdum og óskum um breytingar og er bæjarstjórn heimilt að breyta gjaldtöku með tilliti til réttmæti framsettra athugasemda.  Samsvarandi ákvæði eru ekki vegna íbúðarhúsnæðis eða A-liðar gjaldskrárinnar.

Fyrir staðfestingu gjaldskrárinnar kom fram að útgjöld vegna sorphirðu í Ísafjarðarbæ eru hærri en sorphirðugjöld og aðrar tekjur vegna sorphirðu og er ekki ástæða til að véfengja þá fullyrðingu.

Í kærugögnum kemur fram að kærandi á lögheimili í öðru sveitarfélagi og að enginn sé skráður með lögheimili á Eyrargötu 12, Suðureyri, og fasteignin sé einungis notuð að sumri og e.t.v. um páska en að öðru leyti er óljóst um notkun eignarinnar og þá á sama hátt um þann kostnað sem sveitarfélagið hefur af sorphirðu vegna hennar.  Ekki kemur heldur fram í gögnum hvort aðstæður kæranda verði bornar saman við aðstæður annarra gjaldenda í Ísafjarðarbæ og honum mismunað að því leyti.  Hægt er að líta svo á að álagning sorphirðugjalda geti að nokkru verið ósanngjörn í tilviki kæranda og heppilegra sé að veita gjaldendum í A-lið gjaldskrárinnar svipaða möguleika og gjaldendum í lið B, sbr. 4. gr. gjaldskrár nr. 28/1998.  Engu að síður lítur nefnd skv. 31. gr. l. 7/1998 svo á að sveitarstjórn Ísafjarðarbæjar hafi samkvæmt framansögðu lagalegar heimildir til að haga gjaldskrárgerð vegna sorphirðu á þann hátt sem gert var með setningu gjaldskrár nr. 28/1998, og almennt verði sorphirðugjöld ekki ákveðin nema sem jafnaðargjald á hverja gjaldskylda fasteign og þess eigi að gæta að heildartekjur sveitarfélaga af sorphirðugjöldum séu ekki hærri en nemur heildarkostnaði við sorphirðu í sveitarfélaginu þ.e. lög og reglur standi ekki til þess að reikna út kostnað sem fellur til af hverjum gjaldanda.

3.      Það er álit nefndar skv. 31. gr. l. nr. 7/1998 að henni beri almennt að gæta að

hæfisreglum sbr. II. kafla l. 37/1993.  Í máli þessu er gerð krafa um að nefndin fjalli um hæfi ráðuneytisstjóra umhverfisráðuneytisins.  Skv. 14. gr. l. 33/1944 bera ráðherrar ábyrgð á stjórnarframkvæmdum öllum og eru þannig æðstu embættismenn framkvæmdavaldsins.  Skv. 10. gr. l. nr. 73/1969 stýra ráðuneytisstjórar ráðuneytum undir yfirstjórn ráðherra og koma  í þeirra stað við stjórnarathafnir.  Í tilviki því sem hér skiptir máli undirritaði ráðuneytisstjóri umhverfisráðuneytisins gjaldskrá nr. 28/1998 fyrir hönd ráðherra og í hans umboði.

Í greinargerð með 31. gr. l. nr. 7/1998 segir m.a.: „Lagt er til að í þeim tilvikum þar sem ráðherra fer með afgreiðslu mála verði þeim afgreiðslum ekki vísað til úrskurðarnefndarinnar enda kemur úrskurðarnefndin í stað ráðherra sem endanlegur úrskurðaraðili á stjórnsýslustigi og getur ekki úrskurðað í málum sem ráðherra fer með ákvörðunarvald eða úrskurðarvald í.  Er þetta gert til að taka af allan vafa um hvernig túlka beri greinina.“

Af framangreindum ástæðum telur nefnd skv. 31. gr. l. 7/1998 að hún geti ekki kveðið á um réttmæti ákvarðana og um hæfi ráðuneytisstjóra umhverfisráðuneytisins í máli þessu.

Úrskurðarorð:

1.      Vísað er frá kæru Sveinbjargar Hermannsdóttur vegna álagningar sorphirðugjalda fyrir árið 1997.

2.      Ekki er fallist á kröfur Sveinbjargar Hermannsdóttur um endurskoðun og niðurfellingu sorphirðugjalds fyrir árið 1998.

3.      Nefnd skv. 31. gr. l. nr. 7/1998 telur sig ekki hafa úrskurðarvald um hæfi ráðuneytisstjóra umhverfisráðuneytis.

 

Sigurmar K. Albertsson hrl.

Gunnar Eydal, skrifstofustjóri                     Óðinn Elísson hdl.

Date: 10/29/02

4/2000 Reykjanesbær gjaldtaka

Með

Nefnd skv. 31. gr. l. nr. 7/1998

Lágmúla 7, 108 Reykjavík

Ár 2001 1. mars kom nefnd skv. 31. gr. l. nr. 7/1998 til fundar á skrifstofu formanns nefndarinnar Lágmúla 7, Reykjavík. Mættir voru Sigurmar K. Albertsson hrl., Gunnar Eydal hrl. og Óðinn Elísson hdl.

Fyrir var tekið mál nr. 4/2000, kæra Sigurjóns Kjartanssonar, Bjarnarvöllum 3, Keflavík, vegna gjaldtöku Reykjanesbæjar vegna fráveituframkvæmda í Reykjanesbæ.

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

Úrskurður.

I.

Forsaga málsins er að nefndinni barst bréf dags. 30. nóvember 2000 frá umhverfis-ráðuneyti en þangað hafði kærandi upphaflega sent erindi sitt. Nefndin bar sjónarmið kæranda undir Reykjanesbæ og bárust svör bæjarins með bréfi dags. 16. janúar 2001. Bréfinu fylgdu gjaldskrá vegna hreinsunar fráveituvatns í Reykjanesbæ, samþykkt af umhverfisráðuneyti þann 10. mars 1997, yfirlit bæjarverkfræðings yfir framgang útboða vegna framkvæmda og yfirlit fjármálastjóra Reykjanesbæjar yfir innheimtu gjalda árin 1997 – 2000. Framangreind gögn voru borin undir kæranda sem gerði athugasemdir vegna þeirra með bréfi dagsettu 1. febrúar 2001. Ástæða þótti að gefa Reykjanesbæ kost á andsvörum og bárust þau nefndinni með bréfi dags. 12. mars 2001.

II.

Í bréfi kæranda dags. 29. nóvember 2000 segir m.a.: ,,Undanfarin ár hefur Reykjanesbær innheimt gjald sem ýmist er kallað ,,GJALD VEGNA FRÁVEITUFRAMKVÆMDA“ eða GJALD VEGNA HREINSUNAR Á FRÁVEITUVATNI“. Og er þetta gjald 6000 kr. á ári á hvert fasteignanúmer.

Í Reykjanesbæ á sér ekki stað nein hreinsun á fráveituvatni og engar eru fráveituframkvæmdirnar. Ég held að þessi gjaldtaka sé ekki lögleg.

Reykjanesbær á ekki að geta rukkað íbúana um annað en lögboðna skatta og greiðslur fyrir veitta þjónustu. Þetta gjald fellur undir hvorugt. Gjaldið miðast ekki við verðmæti eignar eða tekjur manna og leggst því á fólk með öðrum hætti en ef holræsagjald eða útsvar hefði verið notað til framkvæmdanna. Ef þessar framkvæmdir eru lögboðnar þá ber að greiða þær af útsvari. Það getur ekki gengið að bæjarfélög innheimti skatta og bæti síðan aukagjöldum ofan á þá til að fjármagna framkvæmdir eins og þessa eða skóla, áhaldahús, íþróttahús o.s.frv. til hvers eru þá skattarnir?“

Í andsvari kæranda við sjónarmiðum Reykjanesbæjar segir m.a.: ,,Í bréfi til mín dags. 22. janúar 2001 biðjið þér um viðhorf mitt til gagna sem með því fylgdu. Mitt viðhorf er það að hér sé um skattheimtu að ræða en ekki þjónustugjald. Og þar sem engin lög heimila þessa skattheimtu þá sé hún ólögleg. Skatta má ekki leggja á nema lög

kveði svo um. Reglugerðir og heimildir ráðuneyta duga ekki til.

Skattar fara t.d. í að byggja skóla, sorpeyðingarstöðvar og sjúkrahús, síðan eru innheimt þjónustugjöld fyrir þjónustuna. Þess eru að ég held hvergi dæmi að byggingin sjálf flokkist undir þjónustu. Heldur aðeins sú starfsemi sem þar fer fram. Þjónustugjöld mega ekki vera hærri en kostnaðurinn við þjónustuna. Skattar eru ekki bundnir af þessu ákvæði og því geta t.d. fasteignagjöld (sem eru skattar með stoð í lögum) verið töluvert hærri en kostnaður þeirrar þjónustu sem veitt er. Þegar skolphreinsunarstöðin fer að starfa er Reykjanesbæ stætt á því að innheimta þjónustugjöld en ekki fyrr.“

Síðan vitnar kærandi til l. nr. 53/1998 um framkvæmdir sveitarfélaga í fráveitumálum og vísar til 12. og 25. gr. l. nr. 7/1998.

Í niðurlagi andsvarsins segir síðan: ,,Hvergi gat ég fundið lagastoð fyrir þessari gjaldtöku. Ég tel því að umhverfisráðuneytinu beri að afturkalla staðfestingu á gjaldskrá dags. 10. mars 1997. Og að Reykjanesbæ beri að endurgreiða alla upphæðina með vöxtum.“

III.

Í bréfi Reykjanesbæjar frá 16. janúar 2001 segir m.a.: ,,Innheimta á gjaldi vegna fráveituframkvæmda byggir á ,,Gjaldskrá vegna hreinsunar fráveituvatns í Reykjanesbæ“ sem samþykkt var í bæjarstjórn Reykjanesbæjar þann 4. febrúar 1997 og staðfest af umhverfisráðuneytinu þann 10. mars 1997. Gjaldið rennur í sérstakan sjóð skv. 2. gr. gjaldskrárinnar og er ekki notað til annarra hluta en fráveituframkvæmda. Gert er ráð fyrir að gjaldið falli niður þegar framkvæmd lýkur.

Þá fylgir yfirlit yfir meðferð fjármuna til framkvæmda frá bæjarverkfræðingi Reykjanesbæjar, þar kemur fram að framkvæmdir eru í fullum gangi. Nú hefur verið framkvæmt eða samið um fyrir kr. 272.000.000,-

Heildarkostnaðaráætlun er kr. 1.150.000.000,-

Innheimt hefur verið samtals á árunum 1997-2000 kr. 100.000.720,- sbr. bréf fjármálastjóra Reykjanesbæjar.“

Í fylgigögnum staðfestir bæjarverkfræðingur Reykjanesbæjar annars vegar kostnaðaráætlun og hins vegar staðfestir fjármálastjóri Reykjanesbæjar þegar innheimt gjöld og sundurgreinir fjárhæðir eftir árlegri innheimtu vegna áranna

1997–2000. Í lokasvari Reykjanesbæjar segir: ,,Eins og fram kom í bréfi voru og gögnum sem dagsett er 16. janúar 2001, er gjaldið til greiðslu á stofnkostnaði fráveitumannvirkja. Þegar stofnkostnaður er að fullu greiddur fellur gjaldið niður. Frá þeim tíma, þegar rekstur hefst er gert ráð fyrir að rekstrarkostnaður verði greiddur af álögðu holræsagjaldi.

Allur undirbúningur og meðferð málsins var samkvæmt samþykkt frá heilbrigðis-nefnd Suðurnesja og einnig umhverfisráðuneytinu, farið var eftir ráðgjöf lögmanna í hvívetna. Reykjanesbær telur sig hafa uppfyllt allar þær lagaskyldur sem fyrir voru lagðar af hálfu yfirstjórnar málaflokksins.“

IV.

Í gögnum málsins kemur fram að þau gjöld sem um er deilt voru fyrst lögð á árið 1997 og síðan árlega og samtala innheimtra gjalda 1997–2000 kr. 100.000.720.- og ljóst að ætlunin er að innheimta gjöld til framkvæmdaáætlunar, sem nemur ríflega einum milljarði króna, enn um sinn. Því telur nefnd skv. 7. gr. l. nr. 7/1998 þrátt fyrir ákvæði 27 gr. og 28 gr. l. 37/1993 ekki efni til að vísa máli þessu frá að eigin frumkvæði, en krafa hefur ekki komið fram um slíkt.

V.

Í 7. gr. l. nr. 45/1998 segir m.a.: ,,Skylt er sveitarfélögum að annast þau verkefni sem þeim er falin að lögum.“ Síðan segir: ,,Sveitarfélög skulu hafa sjálfstæða tekjustofna og sjálfsforræði á gjaldskrá eigin fyrirtækja og stofnana til þess að mæta kostnaði við framkvæmd þeirra verkefna sem fyrirtækin og stofnanirnar annast.“

Í 9. gr. s.l. segir m.a.: ,, Sveitarstjórn hefur ákvörðunarvald um nýtingu tekjustofna sveitarfélagsins og um framkvæmd þeirra verkefna sem sveitarfélagið annast, að svo miklu leyti sem ekki eru settar um það reglur í löggjöf.“

Í 2. gr. l. nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga segir: ,,Auk tekna skv. 1. gr. (þ.e. fasteignaskatta, framlaga úr jöfnunarsjóði og útsvars) hafa sveitarfélög tekjur af eignum sínum, eigin atvinnurekstri og stofnunum sem reknar eru í almenningsþágu, svo sem vatnsveitum, rafmagnsveitum, hitaveitum o.fl., enn fremur ýmsar aðrar tekjur, svo sem af holræsagjaldi, lóðarleigu, leyfisgjöldum o.fl. allt eftir því sem lög og reglugerðir mæla fyrir um.“

Í 25. gr. l. nr. 7/1998 segir ennfremur að sveitarfélög geti sett sér eigin samþykktir um atriði sem ekki er fjallað um í reglugerðum eða gert um einstök atriði ítarlegri kröfur sem fram koma í þeim og er heimilt m.a. að setja í slíkar samþykktir ákvæði um meðferð úrgangs og sorps svo og gjaldtökuleyfi, leigu eða veitta þjónustu. Sveitarfélögum er heimilt að setja gjaldskrá um innheimtu gjalda en þau gjöld mega ekki vera hærri en nemur rökstuddum kostnaði við veitta þjónustu.

18. gr. l. nr. 81/1988 sem gilti um hluta þessa tímabils sem mál þetta snýst um er eins að mestu leyti en þó var skylt skv. því ákvæði að leyta samþykktar ráðherra á gjaldskrá og var það gert en sú samþykkt bæjarstjórnar Reykjanesbæjar sem var grundvöllur gjaldskrár vegna hreinsunar fráveituvatns í Reykjanesbæ var staðfest af umhverfisráðherra þann 10. mars 1997.

Ekki er um það deilt að eitt af verkefnum hvers sveitarfélags er að annast skólp- og fráveitur sbr. t.d. X kafla l. nr. 15/1923 og l. nr. 53/1995. Í mengunarvarnareglugerð nr. 48/1994 sem sett er með stoð í l. nr. 81/1988 (nú l. nr. 7/1998) er einnig að finna ýmis ákvæði sem leggja ríkar skyldur á sveitarfélög um meðferð skólps og annars úrgangs og m.a. með tilliti til krafna skv. reglugerðinni mun Reykjanesbær hafa ákveðið að endurnýja fráveitur bæjarins eða eins og segir í 2 gr. þeirrar gjaldskrár sem staðfest var 10. mars 1997: ,,Gjaldið rennur í sjóð til að standa straum af kostnaði við hönnun og byggingu útrása og dælu- og hreinsistöðva í Reykjanesbæ.“

Skv. framanrituðum lagatilvitnunum er það álit nefndar skv. 31. gr. l. nr. 7/1998 að Reykjanesbær hafi lagaheimildir til að haga gjaldtöku eins og gert er í samræmi við staðfesta gjaldskrá frá 10. mars 1997 og engin þau atriði hafi komið fram sem benda til að ekki hafi verið gætt réttra sjónarmiða og aðferða við setningu gjaldskrárinnar.

Úrskurðarorð.

Hafnað er kröfum kæranda, Sigurjóns Kjartanssonar, um afturköllun gjaldskrár frá 10. mars 1997 vegna hreinsunar fráveituvatns í Reykjanesbæ og kröfum um endurgreiðslu þegar greiddra gjalda.

Sigurmar K. Albertsson hrl.

Gunnar Eydal hrl.                 Óðinn Elísson hdl.

Date: 3/1/01

105/2016 Legsteinasafn

Með

Árið 2018, fimmtudaginn 6. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ómar Stefánsson varaformaður og Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor.

Fyrir var tekið mál nr. 105/2016 kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Borgarbyggðar frá 12. febrúar 2015 um að samþykkja deiliskipulag fyrir Húsafell 2, Steinharpan. Jafnframt er kærð ákvörðun byggingarfulltrúans í Borgarbyggð frá 12. janúar 2016 um að veita leyfi fyrir byggingu húss undir legsteinasafn við Bæjargil í landi Húsafells. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 2. ágúst 2016, er barst nefndinni 3. s.m., kærði landeigandi Húsafells 1, þá ákvörðun sveitarstjórnar Borgarbyggðar frá 12. febrúar 2015 að samþykkja deiliskipulag fyrir Húsafell 2 og ákvörðun byggingarfulltrúans í Borgarbyggð frá 12. janúar 2016 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir húsi undir legsteinasafn við Bæjargil í landi Húsafells. Var þess krafist að hinar kærðu ákvarðanir yrðu felldar úr gildi og að framkvæmdir yrðu stöðvaðar á meðan málið væri til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Með úrskurði nefndarinnar uppkveðnum 23. september 2016 var kröfu kæranda um ógildingu á fyrrnefndri ákvörðun byggingarfulltrúa hafnað en vísað frá kröfu hvað deiliskipulagið varðaði.

Með bréfi úrskurðarnefndarinnar til aðila málsins, dags. 6. mars 2018, var tilkynnt að nefndin hefði í ljósi álits setts umboðsmanns Alþingis frá 23. október 2017 í máli nr. 9116/2016 fallist á beiðni kæranda um endurupptöku málsins. Kom kærandi að kröfum sínum til nefndarinnar með bréfi, dags. 13. mars 2018, mótteknu sama dag. Sem fyrr var gerð krafa um að felld yrði úr gildi samþykkt sveitarstjórnar um deiliskipulag fyrir Húsafell 2 og ákvörðun byggingarfulltrúa um leyfi fyrir byggingu húss undir legsteinasafn við Bæjargil. Að auki var þess krafist að byggingarleyfi, útgefið í ágúst 2015 vegna svokallaðs pakkhúss yrði ógilt. Þá var gerð krafa um að framkvæmdir yrðu stöðvaðar en þeirri kröfu var hafnað með úrskurði nefndarinnar uppkveðnum 15. mars 2018. Verður málið nú tekið til endanlegs úrskurðar.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Borgarbyggð 14. mars, 13. apríl, 9. og 16. nóvember 2018. Jafnframt lágu fyrir nefndinni gögn er móttekin voru 24. og 26. ágúst 2016 og 12. september s.á. Þá móttók nefndin gögn vegna endurupptökubeiðna.

Málsatvik: Mál þetta á sér nokkra forsögu en á árinu 2014 hófst vinna við gerð nýs deiliskipulags fyrir Steinhörpuna í landi Húsafells. Á fundi sveitarstjórnar Borgarbyggðar 8. október 2014 var samþykkt að auglýsa lýsingu á „deiliskipulagi lóðar í landi Húsafells 1“. Var lýsingin auglýst með þeim hætti í Lögbirtingablaðinu og á heimasíðu sveitarfélagsins en að auki mun hún hafa legið frammi til kynningar í ráðhúsi sveitarfélagsins frá 21. nóvember – 1. desember 2014. Í umræddum tilkynningum kom fram að markmið deiliskipulagsins væri að byggja upp sýningarskála, menningarhús og þjónustuhús vegna menningartengdrar starfsemi í Húsafelli. Í lýsingunni var og tekið fram að deiliskipulagssvæðið væri á 9.107 m² lóð í eigu Páls Guðmundssonar í landi Húsafells 1 og markmiði deiliskipulagsins nánar lýst.

Málið var tekið fyrir að nýju á fundi sveitarstjórnar 15. desember 2014  þar sem samþykkt var „tillag[a] að deiliskipulagi Húsafell 1 – lóðar A til auglýsingar“. Tilkynning var birt á vef sveitarfélagsins 17. desember s.á. og samsvarandi tilkynning mun hafa birst í Skessuhorni um svipað leyti með yfirskriftinni „Tillaga að nýju deiliskipulagi – Húsafell 2“.  Í greindum tilkynningum kom fram að samþykkt hefði verið að auglýsa nýtt deiliskipulag lóðar í landi Húsafells 1 og jafnframt var vikið að markmiðum skipulagsins. Tekið var fram að gögn væru aðgengileg á heimasíðu og í ráðhúsi sveitarfélagsins frá 17. desember 2014 og að athugasemdum bæri að skila fyrir 29. janúar 2015. Við meðferð skipulagsáætlunarinnar leitaði sveitarfélagið umsagna, m.a. Umhverfisstofnunar.

Skipulagstillagan var samþykkt á fundi sveitarstjórnar 12. febrúar 2015 og birtist auglýsing þar um í B-deild Stjórnartíðinda 9. júní s.á. Yfirskrift hennar var „Nýtt deiliskipulag við Húsafell 2, landnúmer 178425“. Jafnframt sagði eftirfarandi: „Sveitarstjórn Borgarbyggðar samþykkti 12. febrúar 2015 nýtt deiliskipulag við Húsafell 2. Deiliskipulagið tekur til sýningarskála, menningarhúss og þjónustuhúss sem meðal annars geta hýst steinhörpur og önnur verk listamannsins á Húsafelli. Einnig er gert ráð fyrir að hægt verði að byggja upp legsteinasafn fyrir Húsafells legsteina frá 19. öld. Þjónustuhúsið getur auk þess hýst aðra menningartengda starfsemi á Húsafelli.“ Í greinargerð deiliskipulagsins var hið sama tekið fram en um skipulagssvæðið sagði þar eftirfarandi: „Skipulagssvæðið er á bæjarhlaði Húsafells 1, skammt vestan við Bæjargil við rætur Reyðarfells. Á skipulagssvæðinu er heimreið að gamla bænum, bílastæði, vinnusvæði umhverfis landbúnaðarbyggingar, fjárhús, súrheysturn, gömul tún og túngarður. Skammt utan við skipulagssvæðið er gistiheimilið Gamli bær og Húsafellskirkja.“

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 18. ágúst 2015 var samþykkt umsókn um leyfi til að flytja pakkhús á lóðina við Bæjargil í Húsafelli. Hinn 12. janúar 2016 samþykkti byggingarfulltrúi síðan leyfi til byggingar húss fyrir legsteinasafn við Bæjargil. Skaut kærandi síðar greindri ákvörðun byggingarfulltrúa til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, sem og samþykkt sveitarstjórnar um deiliskipulag Húsafells 2. Fór hann fram á ógildingu beggja ákvarðananna. Skírskotaði kærandi m.a. til þess að auglýst hefði verið röng tilgreining hinnar skipulögðu lóðar. Hinn 23. september 2016 kvað úrskurðarnefndin upp úrskurð í málinu. Var þeim hluta kærunnar er laut að ógildingu deiliskipulagsins vísað frá nefndinni þar sem kæran hefði hvað það varðaði borist að liðnum kærufresti. Sætti byggingarleyfið hins vegar lögmætisathugun nefndarinnar og hafnaði hún kröfu um ógildingu þess.

Með bréfi, dags. 27. september 2016, fór kærandi fram á endurupptöku málsins en því var synjað með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 28. október s.á. Kvartaði kærandi yfir þeirri afgreiðslu til umboðsmanns Alþingis og lá álit setts umboðsmanns fyrir 23. október 2017 í máli nr. 9116/2016. Taldi settur umboðsmaður að úrskurðarnefndinni hefði borið að taka rökstudda afstöðu til þess hvort deiliskipulag það sem hefði verið grundvöllur byggingarleyfis fyrir legsteinasafn hefði verið gilt, þar með talið hvort það hefði verið birt með fullnægjandi hætti. Væri rökstuðningur nefndarinnar ekki í samræmi við 22. gr., sbr. 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og ekki yrði séð hvort nefndin hefði að þessu leyti rannsakað málið í samræmi við 10. gr. stjórnsýslulaga og reist niðurstöðu sína á réttum lagagrundvelli. Beindi settur umboðsmaður því til nefndarinnar að taka mál kæranda til meðferðar að nýju kæmi fram beiðni frá honum þess efnis og leysa þá úr því í samræmi við þau sjónarmið sem rakin væru í álitinu.
Með tölvupósti kæranda til úrskurðarnefndarinnar 24. október 2017 var óskað eftir endurupptöku kærumálsins með vísan til álits setts umboðsmanns Alþingis. Leitaði úrskurðarnefndin sjónarmiða aðila um framkomna beiðni og tók erindið svo fyrir á fundi nefndarinnar 28. febrúar 2018. Með hliðsjón af fyrrnefndu áliti setts umboðsmanns var það ákvörðun nefndarinnar að málið skyldi endurupptekið og úrskurður kveðinn upp í því að nýju. Var aðilum málsins tilkynnt um þá niðurstöðu með bréfi, dags. 6. mars s.á., og þeim gefinn kostur á að tjá sig um atriði málsins, einkum þau er fram kæmu í nefndu áliti. Með bréfi, dags. 13. mars 2018, bárust úrskurðarnefndinni athugasemdir kæranda sem og kröfur hans fyrir nefndinni, svo sem áður er rakið. Verður nú kveðinn upp efnisúrskurður í máli þessu að nýju.

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að hann sé eigandi Húsafells 1 og reki þar gistiheimilið Gamla bæ. Bæjargil, landnúmer 221570, sé landspilda í landi Húsafells og liggi að Húsafelli 1, sunnan við Húsafellskirkju. Húsafell 2, landnúmer 178425, liggi norðan við Húsafell 1 og Húsafellskirkju. Leyfishafi sé bæði eigandi Bæjargils og Húsafells 2. Vegna legu og nálægðar Húsafells 1 við Bæjargil og þær byggingar sem fyrirhugað sé að reistar verði á grundvelli hins kærða deiliskipulags hafi kærandi lögvarða hagsmuni af máli þessu. Muni deiliskipulagið hafa áhrif á landnotkun og þéttleika byggðar á hinu deiliskipulagða svæði og á útsýni kæranda. Einnig muni fyrirhuguð starfsemi hafa í för með sér aukna umferð um land hans en aðkoma að Bæjargili sé um sameiginlegan veg frá Húsafellsvegi að Húsafellskirkju, gistiheimili og núverandi byggingum á lóð að Húsafelli 1. Aðkoma að safninu og vegghleðslur muni ná inn á land Gamla bæjar. Hafi kærandi ekki sýnt af sér neitt tómlæti í máli þessu heldur hafi hann þvert á móti sýnt skjót og ákveðin viðbrögð á öllum stigum málsins.

Með hliðsjón af áliti umboðsmanns Alþingis í máli nr. 9116/2016 beri úrskurðarnefndinni að taka afstöðu til lögmætis hins kærða deiliskipulags. Það sé haldið verulegum form- og efnisannmörkum. Skort hafi á kynningu og samráð við meðferð deiliskipulagstillögunnar. Í þessu sambandi sé m.a. vísað til 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og  4. mgr. 12. gr. sömu laga sem og til 1. mgr. gr. 5.2.1. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013. Þá hafi ekki verið gætt að þeirri fortakslausri reglu 3. mgr. gr. 5.2.1. skipulagsreglugerðar að hafa samráð við eiganda þess lands er liggi að lóðamörkum. Samkvæmt greinargerð deiliskipulagsins sé Gamli bærinn á Húsafelli 1 titlaður umsagnaraðili, en í skipulagsferlinu hafi kæranda hvorki verið tilkynnt um gerð deiliskipulagsins né haft samráð við hann.

Í 1. mgr. gr. 5.5.1. skipulagsreglugerðar komi fram að í titli skipulagsáætlunar skuli koma fram að um deiliskipulag sé að ræða og skuli titilinn vera lýsandi fyrir framkvæmdasvæði og staðsetningu innan sveitarfélags. Fram hafi komið í yfirskrift deiliskipulagsins og auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda að um væri að ræða Húsafell 2. Af deiliskipulagsuppdrætti megi þó sjá að deiliskipulagið taki til lóðarinnar Bæjargils en uppdrátturinn hafi ekki verið birtur með auglýsingunni. Vegna framangreinds annmarka hafi kærandi ekki kynnt sér að eigin frumkvæði efni skipulagstillögunnar á vinnslutíma hennar, enda hafi hann talið að tillagan varðaði Húsafell 2 en ekki Bæjargil, sbr. til hliðsjónar 12. gr. laga nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna. Stríði fyrrgreind málsmeðferð einnig gegn 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. óskráða meginreglu stjórnsýsluréttarins, og andmælareglu 13. gr. sömu laga, sbr. óskráða andmælareglu stjórnsýsluréttarins.

Umrætt deiliskipulag sé í andstöðu við gildandi Aðalskipulag Borgarbyggðar 2010-2022 sem sé brot á 7. mgr. 12. gr. og 3. mgr. 37. gr. skipulagslaga. Í aðalskipulagi komi fram að jörðin Húsafell sé á skilgreindu svæði fyrir verslun og þjónustu (reit S4) og að þar sé gert ráð fyrir verslun-, gisti- og veitingarekstri. Ekki sé gert ráð fyrir menningartengdri starfsemi á jörðinni og einvörðungu uppbyggingu mannvirkja sem þjóni svæðinu sem útivistarsvæði. Njóti jörðin hverfisverndar samkvæmt aðalskipulaginu. Sé tekið fram í skilmálum þess að þar skuli halda öllu raski í lágmarki og að við uppbyggingu skuli taka sérstakt tillit til vistkerfa sem falli undir 37. gr. náttúruverndarlaga nr. 44/1999, nú lög nr. 60/2013. Þá segi að uppbygging mannvirkja sem þjóni svæðinu sem útivistarsvæði sé heimil að fenginni umsögn Umhverfisstofnunar. Ekki hafi verið leitað umsagnar Umhverfisstofnunar áður en deiliskipulagið hafi verið samþykkt eða ákvarðanir teknar um að veita byggingarleyfi, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga. Fram komi í greinargerð deiliskipulagsins að það samræmist ekki þeirri stefnu sem sett sé fram í aðalskipulaginu. Á hinn bóginn sé „það í samræmi við þá starfsemi sem þar er og hefur verið stunduð um árabil á skipulagssvæðinu“. Samkvæmt skipulagslögum skuli deiliskipulag fylgja stefnu aðalskipulags og hefði þurft að gera breytingar á aðalskipulaginu samhliða gerð deiliskipulagsins, sbr. 2. mgr. 41. gr. laganna. Ýmsir aðrir annmarkar séu hinu kærða deiliskipulagi, nafn Bæjargils sé hvorki skráð í greinargerð skipulagsáætlunarinnar né á uppdrætti, ósamræmi sé á milli hnita og uppdráttar og ekki sé fjallað um þinglýsta kvöð sem hvíli á leyfishafa. Þá hafi hvorki verið skilyrði til að samþykkja umrædd byggingaráform né útgáfu hinna kærðu byggingarleyfa, en ekki verði séð að við þær afgreiðslur hafi legið fyrir öll þau gögn sem lög um mannvirki nr. 160/2010 og byggingarreglugerð nr. 112/2012 áskilji.

Málsrök sveitarfélagsins:
Af hálfu sveitarfélagsins er þess aðallega krafist að málinu verði vísað frá úrskurðarnefndinni á grundvelli þess að lögvarðir hagsmunir kæranda séu ekki fyrir hendi. Til vara er gerð krafa um að ógildingu verði hafnað.

Endurupptaka máls hljóti eðli málsins samkvæmt að snúast um málið á upphaflegum forsendum þess. Í málatilbúnaði kæranda nú sé ekki vísað til neins af þeim hagsmunum sem hafi verið grundvöllurinn að upphaflegri kæru og áframhaldandi málarekstri kæranda fyrir nefndinni og umboðsmanni Alþingi. Eigi því ekki að líta til þeirra athugasemda kæranda sem nú komi fram heldur miða við forsendur upphaflega málsins að teknu tilliti til þess sem fram komi í áliti umboðsmanns Alþingis. Byggingarleyfi vegna umrædds pakkhúss hafi ekki verið hluti af upprunalegri kæru og geti því ekki komið til álita við úrlausn málsins fyrir nefndinni nú.

Þá beri að horfa til þess að ekki séu lengur fyrir hendi þeir hagsmunir sem upphaflega hafi verið vísað til, þ.e. varðandi bílastæði og staðsetningu legsteinasafnsins. Þinglýstri kvöð um skipulags- og bílastæðamál hafi verið aflýst og verði því ekki neinn réttur á henni byggður. Lagðar hafi verið fram nýjar mælingar af hálfu byggingarleyfishafa á staðsetningu legsteinasafnsins sem sýni með skýrum hætti að því hafi verið ranglega haldið fram að hús þess væri ekki innan byggingarreits eins og hann sé skilgreindur í deiliskipulagi. Verði úrskurðarnefndin að líta til þess að framangreind atvik hafi skýrst eða breyst verulega frá upphaflegri úrlausn málsins, sbr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Eigi í ljósi þessa að vísa kærunni frá nefndinni á þeim grundvelli að kærandi eigi ekki, eða hafi jafnvel aldrei átt, þá lögvörðu hagsmuni af afgreiðslu málsins sem hann upphaflega hafi byggt málflutning sinn á og lög nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geri kröfu um.

Ekki verði séð að landnotkun á hinu deiliskipulagða svæði muni með nokkrum hætti hafa áhrif á hagsmuni kæranda en hún verði sú sama og verið hafi. Umrædd lóð sé  9.100 m²  og á henni séu mannvirki sem samanlagt séu 300 m². Fyrirhugað byggingarmagn nýrra bygginga samkvæmt hinu kærða deiliskipulagi sé að hámarki 390 m². Nýtingarhlutfall lóðarinnar verði því 0,075. Með hliðsjón af þessu sé fráleitt að kærandi geti átt svo ríka hagsmuni vegna þéttingar byggðar í dreifbýli að þeir komi í veg fyrir að byggingarleyfishafi geti nýtt 7,5% lóðar sinnar undir mannvirki.
Hús þau sem fyrirhugað sé að reisa eða sem þegar séu risin hafi óveruleg áhrif á útsýni kæranda. Samkvæmt deiliskipulagsuppdrætti sé legsteinasafnið u.þ.b. 35 m frá gistiheimili kæranda og nánast aðeins gafl þess verði sjáanlegur úr tveimur herbergjum gistiheimilisins. Áfram verði rúmt um gistiheimilið til allra átta. Eina útsýnið sem tapist sé upp í fjallshlíðina fyrir ofan húsin sem varla hafi verulega þýðingu við mat á verðmæti hússins að Húsafelli 1 eða nýtingarmöguleika þess. Jörðin Húsafell 1 sé 43.500 m² og því muni ný mannvirki að Bæjargili engin áhrif hafa á útsýni af langstærstum hluta jarðarinnar. Séu hagsmunir kæranda vegna þessa atriðis engir eða í besta falli svo óverulegir að þeir geti ekki talist lögvarðir.

Verði ekki með nokkru móti séð með hvaða hætti starfsemi að Bæjargili muni hafa í för með sér aukna umferð um land kæranda þar sem ekki þurfi að fara um land hans til að komast að fyrirhuguðum og núverandi mannvirkjum að Bæjargili. Þannig sé sá sameiginlegi vegur sem vísað sé til í athugasemdum kæranda að hluta til á landi austan við hið deiliskipulagða svæði, auk þess sem hann liggi jafnframt um land Bæjargils að nokkru leyti. Þá sé planið sjálft allt á landi Bæjargils að undanskilinni mjórri landræmu framan við gistiheimilið þar sem bílastæði kæranda séu. Fari akstur inn á skipulagða svæðið því ekki að neinu leyti um land kæranda. Því sé andmælt að ljósmyndir sem kærandi hafi lagt fram séu lagðar til grundvallar varðandi mat á þessu atriði.

Kærandi hafi alls ekki sýnt skjót viðbrögð í máli þessu. Framkvæmdir þær sem gert hafi verið ráð fyrir í deiliskipulagi hafi byrjað á árinu 2015, en fyrir liggi úttektarvottorð byggingarfulltrúa frá því í nóvember s.á. vegna framkvæmda við grunn undir svokallað pakkhús. Hafi kæranda verið send drög að deiliskipulagsuppdrætti um svipað leyti, en óumdeilanlegt sé að framkvæmdir við pakkhúsið hafi ekki getað farið fram án þess að kærandi hafi verið meðvitaður um þær.

Í titli auglýstrar lýsingar hafi verið vísað til landareignar kæranda og í því ljósi hafi kærandi haft fulla ástæðu til að kynna sér efni hennar. Í auglýsingu tillögu að nýju deiliskipulagi að Húsafelli 2 hafi komið fram í texta að um væri að ræða lóð í landi Húsafells 1 sem hafi gefið kæranda enn ríkari ástæðu til að kynna sér stöðu mála varðandi þá deiliskipulagsvinnu sem staðið hafi yfir á þeim tíma. Þrátt fyrir áðurnefndar auglýsingar og tilvísanir í þeim til Húsafells 1, hafi kærandi ekki séð ástæðu til að kynna sér stöðu mála eða aðhafast neitt í málinu þegar framkvæmdir við grunn undir fyrrnefnt pakkhús hafi hafist í aðeins 50 m fjarlægð frá gistiheimilinu. Landamörk jarðanna Húsafells 1 og 2 liggi saman á löngum kafla og í raun á miklu lengri kafla en landamerki Bæjargils og Húsafells 1. Sé því fráleitt að halda því fram að þar sem hið kærða deiliskipulag hafi verið auglýst undir nafni Húsafells 2, landnr. 178425, hafi það ekki gefið kæranda fulla ástæðu til að kynna sér efni hins kærða deiliskipulags fyrr en einu og hálfu ári eftir að það hafi verið staðfest í Stjórnartíðindum. Það að hið kærða deiliskipulag hafi verið ranglega auglýst undir nafninu Húsafell 2 í Stjórnartíðindum hafi því í raun engin áhrif haft á hagsmuni kæranda. Hann hefði strax átt að kynna sér skipulagsmál á aðliggjandi landi hefði hann haft á þeim einhverjar skoðanir. Ástæða þess að ekki virðist hafa verið leitað umsagnar kæranda sé ekki kunn.

Hafi kærandi sýnt af sér nægilegt tómlæti með því að koma ekki að kæru til nefndarinnar fyrr en í ágúst 2016 þar sem hann hafi mátt vita um stöðu mála að Bæjargili, eða í öllu falli haft fulla ástæðu til að kynna sér hana, miklu fyrr eða þegar framkvæmdir hófust. Í því ljósi hafi kærandi aukinheldur öðlast sérstaklega ríka ástæðu til þess þegar hann hafi fengið í hendur deiliskipulagsuppdrátt frá talsmanni byggingarleyfishafa síðla árs 2015. Í ljósi framangreinds skuli miða upphaf kærufrests, bæði vegna deiliskipulagsins sem og vegna byggingarleyfisins við 13. nóvember 2015, en þann dag hafi framkvæmdir sannanlega verið hafnar við pakkhúsið. Vegna þessa verði að líta svo á að kæra sé of seint fram komin vegna tómlætis kæranda.

Byggingarleyfishafi hafi hafið framkvæmdir með eðlilegar væntingar til gildis umrædds deiliskipulags og byggingarleyfis, útgefnu af þar til bæru yfirvaldi. Þær hafi staðið í um það bil ár án athugasemda kæranda þegar kæra hafi verið send nefndinni. Hafi byggingarleyfishafi því mátt vera í góðri trú um að öll tilskilin leyfi og formsatriði væru til staðar. Kunni framkvæmdir að verða unnar fyrir gíg verði kæran tekin til greina, rúmum þremur árum eftir gildistöku deiliskipulagsins og rúmu einu og hálfu ári eftir að úrskurður nefndarinnar um frávísun og synjun um endurupptöku málsins hafi legið fyrir. Samkvæmt lögum um úrskurðarnefndina skuli úrskurðir hennar vera fullnaðarúrskurðir á stjórnsýslustigi og hafi byggingarleyfishafi því eðlilega vænst þess að niðurstaða nefndarinnar væri endanleg.

Neikvæð áhrif hinna kærðu ákvarðana á eignarréttindi kæranda séu óveruleg eða jafnvel engin. Séu hagsmunir kæranda af ógildingu engir eða í það minnsta mjög óverulegir samanborið við geysimikla hagsmuni byggingarleyfishafa af því að geta nýtt lóð sína með þeim hófsama, ábyrga og tillitssama hætti sem raun beri vitni og hið kærða deiliskipulag geri ráð fyrir.

Málsmeðferðarreglum skipulagslaga sé ætlað að vernda beina, verulega og lögmæta hagsmuni þeirra sem skipulagáætlanir kunni að hafa bein áhrif á en slíkir hagsmunir séu ekki til staðar hér. Í ljósi þess telji sveitarfélagið ekki óeðlilegt að úrskurðarnefndin líti til þess við meðferð málsins að þó svo að leitað hefði verið umsagnar kæranda í þessu tilviki séu yfirgnæfandi líkur á því að sú umsögn hefði hvorki haft þau áhrif að deiliskipulagið hefði ekki verið samþykkt af sveitarfélaginu né komið í veg fyrir útgáfu byggingarleyfis vegna legsteinasafnsins þar sem  fyrirhuguð uppbygging að Bæjargili sé hófleg, skynsamleg og eðlilegt framhald á starfsemi sem hafi verið á svæðinu um nokkra hríð.

Ljóst sé að mistök hafi átt sér stað í málsmeðferð sveitarfélagsins hvað hið kærða deiliskipulag varði. Ekki skuli þó ógilda hinar kærðu ákvarðanir á þeim grundvelli einum að málsmeðferð vegna hinna kærðu ákvarðana kunni að hafa verið ófullnægjandi þegar kæranda hafi ekki tekist að sýna fram á að ógilding myndi þjóna verulegum lögvörðum hagsmunum hans. Þannig hafi mögulegur annmarki á málsmeðferð í raun ekki haft nein áhrif á efni þeirra ákvarðana sem sveitarfélagið hafi tekið í málinu. Ekki sé orsakasamband á milli þess að kærandi hafi ekki komið athugasemdum sínum á framfæri á meðan á málsmeðferðinni stóð og þess að sveitarstjórn hafi ákveðið að staðfesta hið kærða deiliskipulag. Sama eigi við um hið kærða byggingaleyfi.

Ekki sé hægt að fullyrða að nánar tilgreind gögn hafi ekki verið afhent sveitarfélaginu þegar sótt hafi verið um byggingarleyfi beggja húsanna eða útiloka að þau hafi ekki verið skráð og gengið frá þeim eins og verklagsreglur embættisins hafi gert ráð fyrir. Fari kærandi vísvitandi með rangt mál fyrir nefndinni varðandi staðsetningu og aukna umferð um land kæranda.

Málsrök leyfishafa: Leyfishafi tekur undir sjónarmið sveitarfélagsins í máli þessu. Sérstaklega sé tekið undir þær athugasemdir þar sem mótmælt sé nýjum málatilbúnaði kæranda, einkum þær er varði byggingarleyfi pakkhússins. Ótækt sé að kærandi geti aukið við kröfugerð sína  með þessum hætti og sé það til þess fallið að ógna réttaröryggi. Leyfishafi hafi í gegnum allt ferlið unnið samviskusamlega og verið í góðri trú um að hann væri að vinna verkið í samræmi við gildandi lög og reglur. Hafi öllum nauðsynlegum gögnum verið skilað inn til byggingaryfirvalda.
Athugasemdir kæranda við umsögn Borgarbyggðar: Kærandi bendir á að í athugasemdum sveitarfélagsins sé beinlínis viðurkennt að ekki hafi verið leitað umsagnar hans við gerð hins umþrætta deiliskipulags. Þar með hafi verið viðurkennt að brotið hafi verið gegn andmælareglu 3. mgr. gr. 5.2.1. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013. Leyfishafi hafi ekki framkvæmt í góðri trú. Mælingum sem sveitarfélagið hafi sent til úrskurðarnefndarinnar varðandi staðsetningu sé mótmælt.

—–

Færðar hafa verið fram frekari röksemdir í máli þessu sem ekki verða raktar nánar en úrskurðarnefndin hefur haft þær til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti deiliskipulags og byggingarleyfis vegna framkvæmda á landi aðliggjandi fasteignar kæranda þar sem hann rekur lítið gistiheimili og hefur yfir að ráða fimm bílastæðum. Er því svo lýst í hinu kærða deiliskipulagi að skipulagssvæðið sé á bæjarhlaði Húsafells 1 og enn fremur tekið fram að skammt utan við skipulagssvæðið sé gistiheimili kæranda. Framkvæmdir þær sem um ræðir eru að mestu á landbúnaðarlandi þar sem byggð verður upp menningartengd starfsemi. Er gert ráð fyrir 16 bílastæðum vegna hennar. Verður að telja kæranda hafa grenndarhagsmuni af þeirri uppbyggingu sem fyrirhuguð er í dreifbýlinu og þeirri umferðaraukningu sem henni kann að fylgja.

Eins og rakið er í málavaxtalýsingu var á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa Borgarbyggðar 18. ágúst 2015 samþykkt umsókn um leyfi til að flytja pakkhús á lóðina við Bæjargil. Liggur fyrir úttektarvottorð byggingarfulltrúa frá því í nóvember s.á. vegna framkvæmda við grunn hússins. Hinn 3. ágúst 2016 barst úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála kæra vegna deiliskipulags Húsafells 2 og samþykktar byggingaráforma fyrir húsi undir legsteinasafn, en ekki var kærð fyrrgreind ákvörðun um flutning pakkhúss. Hún hefur nú verið kærð með bréfi kæranda, dags. 13. mars 2018, en af hálfu sveitarfélagsins hefur því verið mótmælt að krafa um ógildingu þeirrar ákvörðunar komist að í málinu. Auk þess telur sveitarfélagið að líta beri fram hjá málsástæðum kæranda öðrum en þeim sem þegar hafi verið fram komnar af hans hálfu þegar fyrri úrskurður hafi verið kveðinn upp.

Svo sem fram hefur komið var mál þetta endurupptekið 28. febrúar 2018 í kjölfar álits setts umboðsmanns Alþingis. Við endurupptöku máls heldur meðferð þess áfram þar sem frá var horfið. Eðli máls samkvæmt eru þá undir þær ákvarðanir sem kærðar voru í öndverðu, en aðrar ekki. Skírlega kom fram í kæru að kært væri deiliskipulag og byggingarleyfi vegna legsteinasafns, en krafa um ógildingu byggingarleyfis vegna svokallaðs pakkhúss kom ekki fram fyrr en í bréfi kæranda 13. mars 2018. Verður að líta á það sem nýtt kæruefni. Er í því sambandi rétt að benda á að í viðbótarathugasemdum kæranda til úrskurðarnefndarinnar, dags. 6. september 2016, þar sem svarað er athugasemdum leyfishafa frá 28. ágúst s.á., kemur fram að kærandi hefði haft vitneskju um nefnda framkvæmd. Hann hefði orðið var við jarðrask vegna þessa en óljóst hafi verið hvað þar ætti að framkvæma og það ekki verið kæranda til ama. Hins vegar hafi hann beint því til byggingarfulltrúa að þar væri um óleyfisframkvæmd að ræða. Hefði kæranda verið í lófa lagið að gera reka að því að kæra þá þegar leyfi vegna sömu framkvæmdar til úrskurðarnefndarinnar, en það gerði hann ekki. Kröfu kæranda um ógildingu byggingarleyfis frá 18. ágúst 2015 vegna pakkhússins verður því vísað frá sem of seint fram kominni, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Hið kærða deiliskipulag og byggingarleyfi vegna legsteinasafns sæta hins vegar lögmætisathugun nefndarinnar að nýju og skal í því sambandi áréttað að málsforræðisreglan á ekki við um meðferð kærumála í stjórnsýslunni og getur úrskurðarnefndin tekið sjálfstætt til skoðunar öll þau atriði sem áhrif geta haft á gildi kærðrar ákvörðunar óháð því hvort þær málsástæður hafa komið fram áður eða ekki, enda skal nefndin sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Samkvæmt lokamálslið 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 skal birta auglýsingu um samþykkt deiliskipulag í B-deild Stjórnartíðinda og kemur jafnframt fram í 2. mgr. að hafi slík auglýsing ekki verið birt innan árs frá því að athugasemdafresti lauk teljist deiliskipulagið ógilt. Í gr. 5.7.3. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 er að finna efnislega samhljóða ákvæði en í 2. mgr. ákvæðisins er auk þess tekið fram að í auglýsingu í Stjórnartíðindum skuli koma fram um hvaða deiliskipulag sé að ræða, meginefni þess og hvenær sveitarstjórn samþykkti deiliskipulagið. Um réttaráhrif birtingar er fjallað í 8. gr. laga nr. 15/2005 um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað. Í 1. mgr. nefndrar 8. gr. er tiltekið að fyrirmælum, er m.a. felast í auglýsingum, megi eigi beita fyrr en birting í Stjórnartíðindum hafi farið fram og skuli birt fyrirmæli binda alla frá og með deginum eftir útgáfudag, sbr. 2. mgr. 8. gr. Réttaröryggissjónarmið búa að baki reglum um birtingu laga og fyrirmæla og hvenær þeim verði beitt. Eru þau sjónarmið m.a. reifuð í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 15/2005 og þar vísað til frekari umfjöllunar í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 64/1943 um birtingu laga og stjórnvaldaerinda. Er svo tekið fram í athugasemdum með frumvarpi til laga nr. 15/2005 að ef undanskildir séu tveir tilgreindir dómar Hæstaréttar frá sjötta áratug 20. aldar hafi það verið staðföst/samfelld afstaða íslenskra dómstóla að óbirtum reglum í lögum og stjórnvaldsfyrirmælum verði ekki beitt og gildi þá einu hvort um þær var kunnugt.

Í B-deild Stjórnartíðinda 9. júní 2015 var birt auglýsing um „Nýtt deiliskipulag við Húsafell 2, landnúmer 178425.“ Í auglýsingunni var enn fremur tekið fram: „Sveitarstjórn Borgarbyggðar samþykkti 12. febrúar 2015 nýtt deiliskipulag við Húsafell 2. Deiliskipulagið tekur til sýningarskála, menningarhúss og þjónustuhúss sem meðal annars geta hýst steinhörpur og önnur verk listamannsins á Húsafelli. Einnig er gert ráð fyrir að hægt verði að byggja upp legsteinasafn fyrir Húsafells legsteina frá 19. öld. Þjónustuhúsið getur auk þess hýst aðra menningartengda starfsemi á Húsafelli.“ Í auglýsingunni var réttilega greint frá því hvenær deiliskipulagið var samþykkt af sveitarstjórn og meginefni þess reifað í samræmi við nefnt ákvæði 2. mgr. gr. 5.7.3. í skipulagsreglugerð. Samkvæmt upplýsingum úr fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands er Húsafell 2, landnúmer 178425, íbúðarhúsalóð sem er 6.726,3 m² að stærð. Er listamaður sá sem vísað er til í deiliskipulagsauglýsingunni eigandi Húsafells 2 og er hann jafnframt til húsa þar. Listamaðurinn er einnig eigandi Bæjargils, 9.104,0 m² lóðar með landnúmerinu 221570, þar sem eru vinnustofur, fjós og geymsla. Er það sú lóð þar sem fyrirhugað er að reisa mannvirki þau sem vísað er til í deiliskipulagsauglýsingunni og eru þau sýnd á deiliskipulagsuppdrætti sem ekki var birtur með auglýsingunni. Var því ranglega tilgreint í deiliskipulagsauglýsingunni hvaða landsvæði deiliskipulagið tæki til og skorti því á að í henni væri tilgreint með skýrum hætti um hvaða deiliskipulag væri að ræða, sbr. tilvitnað reglugerðarákvæði. Þá var ekki fjarstæðukennt að telja auglýsinguna rétta í ljósi eignarhalds á Húsafelli 2 og stærðar landsins, enda ekki óvarlegt að telja þau mannvirki sem tilgreind voru í deiliskipulagsauglýsingunni geta rúmast þar. Þótt umdeilt deiliskipulag varði fyrst og fremst hagsmuni aðila í næsta nágrenni, einkum leyfishafa og kæranda, verður ekki fram hjá því litið að með opinberri birtingu er skipulaginu beint að ótilteknum hópi og er því ætlað að binda almenning allan, sbr. þau lög og reglur sem áður eru rakin. Þótt leiða megi líkur að því með hliðsjón af málsatvikum að kæranda, sem kunnugur er staðháttum, hafi mátt vera ljóst í hvað stefndi þá verður, að teknu tilliti til þeirra réttaröryggissjónarmiða sem áður hafa verið reifuð, ekki hjá því komist að álykta sem svo að hið kærða deiliskipulag hafi ekki tekið gildi með lögformlega réttri birtingu í B-deild Stjórnartíðinda skv. 2. mgr. gr. 5.7.3. í skipulagsreglugerð, sbr. og 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga. Að fenginni þeirri niðurstöðu liggur ljóst fyrir að vegna fyrirmæla 2. mgr. 42. gr. skipulagslaga, sem áður hafa verið rakin, telst skipulagið ógilt. Þar sem ekki liggur fyrir í málinu gild skipulagsákvörðun er réttarverkan hefur að lögum verður kröfu kæranda um ógildingu hennar vísað frá úrskurðarnefndinni.

Í málinu er einnig deilt um gildi byggingarleyfis fyrir legsteinasafni sem veitt var 12. janúar 2016 á grundvelli umdeilds deiliskipulags. Þess skal gætt að byggingarleyfisskyld framkvæmd sé í samræmi við skipulagsáætlanir sveitarfélags þegar sótt er um byggingarleyfi og er það jafnframt skilyrði fyrir útgáfu þess að mannvirki og notkun þess samræmist skipulagsáætlunum á svæðinu, sbr. 2. mgr. 10. gr. og 1. tl. 1. mgr. 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki, en eins og fram hefur komið er ekki í gildi deiliskipulag á svæðinu. Undanþágu hvað varðar ódeiliskipulögð svæði er að finna í 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga. Þar er kveðið á um að þegar sótt sé um byggingar- eða framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmd sem sé í samræmi við aðalskipulag hvað varði landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar í þegar byggðu hverfi og deiliskipulag liggi ekki fyrir, geti sveitarstjórn ákveðið að veita megi leyfi án deiliskipulagsgerðar en þá að undangenginni grenndarkynningu. Í greinargerð hins umdeilda deiliskipulags er tekið fram að fyrirhugað deiliskipulag samræmist ekki þeirri stefnu sem sett sé fram í aðalskipulagi Borgarbyggðar 2010-2022, en hins vegar sé það í samræmi við þá starfsemi sem þar sé og hafi verið stunduð um árabil á deiliskipulagssvæðinu. Hvort sem hið kærða byggingarleyfi hefði átt sér stoð í aðalskipulagi eða ekki liggur fyrir að sú málsmeðferð sem fyrir er mælt í 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga fór ekki fram. Á hið kærða byggingarleyfi sér því hvorki stoð í gildu deiliskipulagi né fór málsmeðferð þess að undantekningarákvæðum skipulagslaga um grenndarkynningu. Verður byggingarleyfið þegar af þeim sökum fellt úr gildi.

Frekari gagnaöflun í máli þessu var að meginstefnu lokið í apríl 2018 en frekari dráttur hefur orðið á uppkvaðningu úrskurðar þessa sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúa frá 18. ágúst 2015 um að samþykkja umsókn um leyfi til að flytja pakkhús á lóðina við Bæjargil í Húsafelli er vísað frá úrskurðarnefndinni.

Kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar sveitarstjórnar Borgarbyggðar frá 12. febrúar 2015 um að samþykkja deiliskipulag fyrir Húsafell 2, Steinharpan er vísað frá úrskurðarnefndinni.

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Borgarbyggð frá 12. janúar 2016 um að veita leyfi fyrir byggingu húss undir legsteinasafn við Bæjargil í landi Húsafells.

42/2018 Skotæfingasvæði

Með

Árið 2018, miðvikudaginn 28. nóvember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 42/2018, kæra á ákvörðun heilbrigðisnefndar Norðurlands vestra frá 9. febrúar 2018 um að veita leyfi til að starfrækja skotvöll í landi Hjaltabakka, Húnavatnshreppi. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 12. mars 2018, sem móttekið var sama dag, kæra A og Blomstra ehf., eigendur jarðarinnar Hjaltabakka í Húnavatnshreppi, auk Veiðifélags Laxár á Ásum, þá ákvörðun heilbrigðisnefndar Norðurlands vestra frá 9. febrúar 2018 að veita Skotfélaginu Markviss á Blönduósi leyfi til að starfrækja skotvöll í landi Hjaltabakka. Kærendur krefjast ógildingar starfsleyfisins. Þá var gerð krafa um frestun réttaráhrifa hinnar kærðu ákvörðunar en þeirri kröfu var hafnað með úrskurði formanns úrskurðarnefndarinnar uppkveðnum 17. apríl 2018.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Heilbrigðiseftirliti Norðurlands vestra 16. mars 2018.

Málavextir: Með umsókn, dags. 24. september 2017, sótti leyfishafi um starfsleyfi vegna skotíþróttasvæðis í landi jarðarinnar Hjaltabakka. Hjaltabakki er innan hreppsmarka Húnavatnshrepps, en með samningi milli þáverandi landeiganda Hjaltabakka og hreppsnefndar Blönduóshrepps, dags. 21. nóvember 1931, var samið um girðingar milli Hjaltabakka og Blönduóss. Kemur fram í lið II í samningnum að spilda sú sem verði milli girðingarinnar og gildandi landamerkja heimilist Blönduóshreppi til ævarandi nota án sérstaks endurgjalds með tilteknum skilyrðum, sem lúti að því að girðingum sé haldið við. Segir í lið VI að samningurinn gildi um óákveðinn tíma og sé því óuppsegjanlegur.

Var umsóknin tekin fyrir á fundi heilbrigðisnefndar 26. október 2017 og samþykkt að auglýsa starfsleyfisskilyrði umsóknarinnar. Erindið var auglýst frá 13. nóvember til 10. desember 2017 og bárust athugasemdir frá tveimur aðilum, m.a. kærendum, með bréfi, dags. 7. desember s.á. Afgreiðslu umsóknarinnar var frestað á fundi heilbrigðisnefndarinnar 20. desember 2017 en umsóknin síðan samþykkt á fundi nefndarinnar 9. febrúar 2018. Heilbrigðiseftirlit Norðurlands vestra gaf sama dag út starfsleyfi til að starfrækja skotvöllinn og var kærendum tilkynnt um leyfið með tölvupósti 13. s.m.

Málsrök kærenda:
Á því er byggt að óheimilt hafi verið að gefa út starfsleyfi fyrir skotvellinum, m.a. þar sem leyfi landeigenda til notkunar umrædds landsvæðis fyrir skotvöll liggi ekki fyrir, lögskylt umhverfismat hafi ekki farið fram og að umdeilt sé að deiliskipulag svæðisins heimili slíka starfsemi.

Ákvæði starfsleyfisins um að innra eftirlit með starfseminni skuli vera á hendi leyfishafa sjálfs sé alls ófullnægjandi og óásættanlegt. Skýringar leyfisveitanda um að innra eftirlit snúist um skyldu rekstraraðila til að halda utan um upplýsingar, séu út í hött. Fullnægjandi skilgreiningu og upplýsingar vanti um ábyrgð leyfishafa á slysavörnum þ.á.m. hvernig leyfishafi geti staðið undir skaðabótakröfum vegna hugsanlegra óhappa eða slysa og hvaða ábyrgðartryggingu hann verði að taka. Ákvæði um að huga skuli að skotstefnu, sé ófullnægjandi með hliðsjón af öryggi nágranna og umferð. Gera verði ráð fyrir allt að 3 km skotdrægni riffla og skilgreina verði hvernig forðast eigi slysahættu. Af öryggisástæðum fyrir menn og búfé sé óforsvaranlegt að hafa skotvöll með riffilbraut þar sem skotmark liggi í beina stefnu á þjóðveg í 1.600 m fjarlægð, á veiðihús við Laxá á Ásum í 110 m fjarlægð og á næsta veiðistað við ána í 600 m fjarlægð, auk þess sem umsvifamikil hrossarækt sé í næsta nágrenni. Þá séu ákvæði um takmörkun á útbreiðslu hávaða „eins og kostur er“ ófullnægjandi þar sem ekki sé við að styðjast tiltekin viðmiðunarmörk. Hvorki sé nægjanlegt að vísa almennt og í heild til reglugerðar nr. 724/2008 um hávaða né að nefna „ónæði í umhverfinu umfram það, sem eðlilegt má teljast.“

Helst komi til greina viðmiðunarmörk fyrir frístundabyggð, þ.e. að hámarki 35 dB, sbr. töflu III í viðauka við reglugerð nr. 724/2008. Jafnframt sé ákvæði um að „starfsleyfishafa er skylt að gera allt sem í hans valdi stendur til að koma í veg fyrir heilsuspillandi hávaða og ónæði af völdum hávaða eða truflað umferð“ ófullnægjandi. Krefjast verði ítarlegra hávaðamælinga frá riffilskotum áður en starfsleyfi sé gefið út, sbr. 2. ml. gr. 9.3 í reglugerð nr. 785/1999. Framlögð mæling í skýrslu frá 28. mars 2017 um hávaða frá haglaskotum sé ófullnægjandi, en sýni þó að hávaði í umhverfi skotvallarins í allt að 1.450 m fjarlægð sé í nánast öllum tilvikum langt yfir viðmiðunarmörkum fyrir frístundabyggð, eða 55-85 dB. Skothríð frá rifflum sé 50% háværari en hávaði frá haglabyssum, eins og staðfest sé í áðurnefndri skýrslu.

Umtalsvert ónæði og stórkostleg slysahætta séu fyrirsjáanleg og starfsemin sé í ósátt við nágrannana Veiðifélag Laxár á Ásum og landeiganda. Orðalag um að lágmarka álag á umhverfið og halda góðri sátt við nágranna sé út í hött miðað við fyrirliggjandi upplýsingar. Athygli sé vakin á því að leyfisveitandi svari ekki athugasemdum um öryggismál og kröfu um skilgreiningu á leyfilegri stærð, gerð og búnaði heimilaðra skotvopna á svæðinu. Ekki sé getið um öryggisráðstafanir sem viðhafa beri á svæðinu, sbr. 5. tl. 16. gr. reglugerðar nr. 787/1998 um skotvopn, skotfæri o.fl.

Margvíslegar upplýsingar vanti, sem fylgja skuli umsóknum um starfsleyfi, sbr. 10. gr. reglugerðar nr. 785/1999, t.d. greinargerð um áhrif losunar á umhverfið (hávaði frá starfseminni) og lýsing á mengunarvörnum. Leyfisveitanda hafi borið að vísa umsókninni frá þegar af þessari ástæðu, sbr. 11. gr. reglugerðarinnar.

Málsrök Heilbrigðiseftirlits Norðurlands vestra: Heilbrigðiseftirlitið kveður starfsemi skotvallarins vera í samræmi við gildandi skipulag. Útgefandi starfsleyfis miði við núverandi stöðu málsins, en ekki aðrar mögulegar forsendur sem kunni að breytast þegar allar kæruleiðir stjórnsýslunnar hafi verið til lykta leiddar og niðurstöður komnar í óútkljáð dómsmál.

Athugun í skýrslu, dags. 28. mars 2017, bendi eindregið til þess að ónæði vegna starfsemi skotvallarins verði óverulegt. Skotfélagið hafi haft umrætt svæði til afnota frá árinu 1989 og skotæfingar hafi farið fram í einhverjum mæli frá þeim tíma. Það að félagið fái formlegt starfsleyfi og ramma utan um starfsemina ætti frekar en ella að verða til þess að tekið verði tillit til athugasemda eða kvartana nágranna og þeirra sem telji sig starfsemina varða. Hafa beri í huga að starfsleyfi skuli endurskoða á fjögurra ára fresti og taka skuli þá tillit til þess sé ónæði eða mengun meiri en búast hafi mátt við. Vísað sé til fyrrnefndrar skýrslu varðandi þá þætti sem snúi að hávaða. Aldrei hafi borist kvörtun vegna hávaða eða ónæðis vegna starfseminnar.

Ákveðinn misskilningur komi fram í umfjöllun kærenda um túlkun ákvæða reglugerðar nr. 724/2008, þar sem vitnað sé til hámarkshljóðstyrks 35 dB í töflu III. Með gildinu LAFmax nótt sé átt við hljóðstyrk sem mælist innandyra í frístundabyggð að nóttu til. Sé farið yfir niðurstöður mælinga í áðurnefndri skýrslu frá 28. mars 2017 komi í ljós að af þremur skotum sem hleypt hafi verið af á skotvellinum, hafi tvö þeirra heyrst við veiðihúsið Ásgarð en þriðja skotið hafi ekki heyrst. Hljóðstyrkurinn í skotunum tveimur sem mældust hafi annars vegar reynst vera 37 dB og hins vegar 45 dB og útilokað sé að umrædd hljóð berist inn í veiðihúsið. Hafa beri í huga að umræddur hámarkshljóðstyrkur eigi við að nóttu til, á þeim tíma sem skotvöllurinn verði ekki starfræktur. Í skýrslunni sé fall hljóðstyrks reiknað eftir fjarlægð frá skotsvæði, bæði frá stórum rifflum og haglaskotum. Forsendur útreikninga séu að land sé slétt og hvorki hljóðmanir né niðurgrafin riffilbraut á svæðinu. Niðurstaða mælinga á hljóðstyrk sýni að hann sé lægri en útreikningar skýrslu gefi til kynna, sem skýrist af hæðarmun og að land sé ekki slétt. Reikna megi með að útbreiðsla hávaða á svæðinu muni minnka enn frekar þegar ráðgerðar mengunarvarnir, þ.e. hljóðmanir og niðurgrafin riffilbraut, verði komnar til framkvæmda.

Ekki þekkist að í starfsleyfi sé gerð krafa um ábyrgðartryggingu, enda sé ekki skýr heimild til þess nema hætta sé á mengun sjávar, sbr. lög nr. 33/2004 um varnir gegn mengun hafs og stranda. Fullyrðing kæranda um innra eftirlit sé á misskilningi byggð. Ákvæði í reglugerð nr. 785/1999 skilgreini innra eftirlit þannig að það sé eigið eftirlit starfsleyfishafa með sjálfum sér. Það leysi rekstraraðila ekki undan opinberu eftirliti heldur snúist um skyldu rekstraraðila til að halda utan um upplýsingar. Krafa um innra eftirlit sé algengt ákvæði sem fram komi í fjölmörgum starfsleyfisskilyrðum fyrir mengandi- og hollustuháttafyrirtæki.

Heilbrigðiseftirlitið hafi fengið afrit af öryggisreglum skotfélagsins á svæðinu en vísi að öðru leyti til úttektar lögreglunnar um öryggismál og til reglna um meðferð skotvopna. Upplýsingar um hávaðamælingar úr fyrrnefndri skýrslu hafi verið hafðar til hliðsjónar við útgáfu starfsleyfisins. Því hafi engin ástæða verið til að vísa málinu frá á grundvelli 10. gr. reglugerðar  nr. 785/1999.

Samkvæmt lið 9.2 í 9. gr. reglugerðar nr. 785/1999 meti leyfisveitandi hjá hverjum leita skuli umsagna. Kærandi hafi komið sínum sjónarmiðum rækilega að í leyfisveitingarferlinu. Skotvellir séu starfræktir um allt land og starfsleyfisskilyrði séu með svipuðu sniði og hið kærða starfsleyfi. Fyrrgreindar mælingar hafi legið fyrir ásamt útreikningi á hávaða frá fyrirhugaðri starfsemi og athugun heilbrigðisfulltrúa á staðháttum. Málið hafi því verið rannsakað í samræmi við 10. gr. laga nr. 37/1993 áður en starfsleyfið hafi verið gefið út.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi krefst þess að kröfum kærenda verði vísað frá. Samkvæmt samningi frá 1931 hafi Blönduósbær full yfirráð og skipulagsrétt á umræddu svæði. Núverandi aðal- og deiliskipulag á svæðinu sé samþykkt og yfirfarið af Skipulagsstofnun.

Aldrei hafi verið kvartað yfir ónæði af starfsemi skotfélagsins í þau tæplega 30 ár sem starfsemin hafi verið á umræddu svæði. Tal um stórkostlega slysahættu af starfsemi á svæðinu sé úr lausu lofti gripið. Nægi að benda á að aldrei hafi orðið slys í tengslum við skotsvæði hérlendis í þau 150 ár sem slík svæði hafi verið starfrækt hér á landi. Skotfélagið sé með skaðabóta/ábyrgðartryggingu og svo hafi verið í fjölda ára. Skotstefna sé hvorki í átt að veiðihúsi, ánni sjálfri né jörðinni Hjaltabakka. Skotstefna vísi frá byggð á Blönduósi og ekki sé sjónlína þangað frá Laxá á Ásum.

Að nota frístundabyggð sem viðmið varðandi hljóðvist á svæðinu sé út í hött enda sé allt nærliggjandi land skilgreint sem iðnaðarsvæði samkvæmt skipulagi. Orðalaginu skothríð úr stórum rifflum sé mótmælt. Hlaup á stærri rifflum hitni hratt sé skotið ört úr þeim og þau eyðileggist. Því sé það ávallt regla hjá notendum slíkra riffla að skjóta hægt og leyfa hlaupi að kólna á milli skota. Notkun hljóðdempara á stærri rifflum sé einnig orðin mjög almenn. Að lokum megi benda á að notkun lítilla riffla 22 Lr sé milli 70-80% af heildarnýtingu riffilsvæða hérlendis og ólíklegt að annað eigi við í Húnavatnssýslu.

Riffilbraut á umræddu skotsvæði sé niðurgrafin og lokuð á alla kanta en lengd hennar sé 300 m. Langdrægni þeirra riffla sem notaðir verði afmarkist af lengd brautar. Manir sem séu 3,5-4 m háar, séu meðfram hliðum brautanna og 5 m fyrir enda. Hvergi á skotsvæðum hérlendis sé jafn afmörkuð riffilbraut eða jafn háar manir. Yfirskotsvörn verði í brautinni sem komi í veg fyrir að hægt sé að skjóta yfir manir. Sambærileg yfirskotsvörn sé t.d. á skotsvæði Skotfélags Húsavíkur. Innra eftirlit leyfishafa sé í engu ólíkt því sem gerist hjá almennum rekstraraðilum þar sem skráning ýmissa efna skuli haldin og hægt eigi að vera að framvísa henni til heilbrigðisfulltrúa, sé eftir því falast.

Niðurstaða: Samkvæmt 6. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir skal allur atvinnurekstur skv. viðauka I-IV hafa gilt starfsleyfi útgefið af Umhverfisstofnun eða heilbrigðisnefndum. Er í 5. gr. laganna kveðið á um að ráðherra setji reglugerð til að stuðla að framkvæmd mengunarvarnareftirlits og skuli þar m.a. vera almenn ákvæði um starfsleyfi fyrir allan atvinnurekstur sem haft geti í för með sér mengun, sbr. 1. tl. ákvæðisins.

Á þeim tíma er hið kærða starfsleyfi var gefið út var í gildi reglugerð nr. 785/1999 um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun, en hún var felld brott með reglugerð nr. 550/2018 hinn 30. maí það ár. Var markmið eldri reglugerðar m.a. að koma í veg fyrir og draga úr mengun af völdum fyrrgreinds atvinnurekstrar, koma á samþættum mengunarvörnum og að samræma kröfur og skilyrði í starfsleyfum. Í fylgiskjali 2 og í liðum 6.4-6.6 í I. viðauka með reglugerðinni var talinn upp sá atvinnurekstur sem heilbrigðisnefnd veitti starfsleyfi fyrir. Skal heilbrigðisnefnd vinna tillögur að starfsleyfum og gefa þau út, sbr. lið 9.1 í 9. gr. Í lið 9.2 í sömu grein segir að heilbrigðisnefnd skuli leita, eftir því sem við eigi hverju sinni, umsagnar Hollustuverndar ríkisins, Náttúruverndar ríkisins, Skipulagsstofnunar, Vinnueftirlits ríkisins, frjálsra félagasamtaka og annarra sérfróðra aðila. Rökstutt álit viðkomandi heilbrigðiseftirlits á áhrifum hugsanlegrar mengunar á umhverfið skuli liggja fyrir áður en umsagnar sé leitað, sbr. lið 9.3. Heilbrigðisnefnd er þannig ætlað það hlutverk að veita starfsleyfi, að teknu tilliti til þeirra markmiða reglugerðarinnar sem snúa að mengunarvörnum. Ber nefndinni að fara að þeim málsmeðferðarreglum sem í ákvæðinu eru tilgreindar, sem og í lögum nr. 7/1998 og stjórnsýslulögum nr. 37/1993.

Áður en hið kærða starfsleyfi var gefið út var gerð breyting á Aðalskipulagi Blönduósbæjar 2010-2030, sem tók gildi 24. júlí 2017. Með breytingunni var nýtt svæði skilgreint, O11 – Skotæfingasvæði, og því breytt í opið svæði til sérstakra nota fyrir skotæfingasvæði. Samhliða var gert deiliskipulag fyrir skotæfingasvæðið sem tók gildi 27. júlí 2017. Í deiliskipulaginu kemur fram að gert sé ráð fyrir að innan svæðisins verði, auk núverandi haglvallabrauta, riffilbraut og bogfimibraut. Öryggisreglur gildi á skotsvæðum Skotsambands Íslands sem séu að mestu sniðnar eftir keppnis- og tæknireglum Alþjóðaskotsambandsins (UIT). Markmið með deiliskipulagsgerðinni sé áhersla á að bæta öryggi og auka gildi svæðisins til skotæfinga. Í 5. kafla deiliskipulagsins er fjallað um umhverfisáhrif og kemur þar fram að lögð verði áhersla á að vandað verði til fyrirkomulags og frágangs skotbrauta svo starfsemin uppfylli viðmiðunargildi fyrir hljóðvist og valdi ekki ónæði í nærliggjandi byggð. Riffilbraut verði grafin niður um 2-2,5 m sunnan haglvallar og uppgröftur nýttur í tvær manir, hvor sínu megin brautarinnar og við austurenda hennar, í því skyni að draga úr hávaða sem berist frá skotsvæðinu. Breyting liggi fyrir á reglugerð þar sem opnað verði á almenna notkun hljóðdeyfa á stærri riffla sem muni hafa veruleg og jákvæð áhrif á það hljóð sem berist frá riffilbrautum. Í fylgiskjali 4 með deiliskipulaginu er fjallað um hljóðvistarkröfur og niðurstöður hljóðmælinga frá 21. mars 2017. Í þeim niðurstöðum kemur fram að við Ásgarð hafi hljóð mælst 45,0 dB frá skotstað 1, 37,0 dB frá skotstað 2, en þriðja skotið hafi ekki heyrst. Við Laxá hafi hljóð mælst 50,0 dB frá fyrsta skotstað en tvö skot hafi ekki heyrst þótt hljóðmæli væri skýlt fyrir árniði. Við Hnitbjörg, dvalarheimili aldraðra, hafi hljóð mælst 46,0 dB frá skotstað 1, 38,0 dB frá skotstað 2 og 40,6 dB frá skotstað 3. Hljóð við kirkju hafi mælst 47,0 dB frá skotstað 1 en umhverfishljóð hafi yfirgnæft skothvellina á hinum skotstöðunum. Verður að gera ráð fyrir að ofangreindar mælingar hafi verið gerðar með A-síun og því séu þær dB(A), sbr. reglugerð nr. 724/2008 um hávaða.

Viðmiðunarmörk fyrir leyfilegan hávaða samkvæmt reglugerð nr. 724/2008 eru tilgreind í töflu I-III í viðauka. Í dreifbýli skal hljóð ekki fara yfir Lden 40dB(A), þar sem dvalarsvæði á lóð sé skilgreint skuli þess jafnframt gætt að hljóðstig sé undir LAeq 55 dB(A). Bent er á að reglugerðin miði við langtímamælingu en engin ákvæði séu um hámarkshögghljóð eins og skothvelli. Sænskar reglur um slík hljóð miði t.d. við 65-70 dB(A) í íbúðarbyggð á virkum dögum milli kl. 07-18, en 55-60 dB(A) virk kvöld, helgar og frídaga. Á útivistarsvæði sé miðað við 60-65 dB(A) virka daga en 55-60 dB(A) virk kvöld, helgar og frídaga.

Í greinargerð deiliskipulags svæðisins kemur fram að niðurstöður hljóðmælinga bendi til þess að raunverulegur hljóðstyrkur frá æfingaskotum sé nokkru minni en áætlað hafi verið og oftast undir viðmiðunarmörkum. Þar sem um högghljóð sé að ræða kunni skothvellir að valda öðruvísi truflun en önnur umhverfishljóð sem fólk sé vant þótt hljóðstyrkur umhverfishljóða sé stundum meiri. Miðað við niðurstöðurnar verði hljóðstyrkur frá skotæfingum ásættanlegur við Ásgarð og Laxá á Ásum þegar hljóðmanir við riffilbraut verði komnar. Æskilegt sé að draga meira úr hávaða frá skothvellum í átt að hesthúsahverfi og byggð á Blönduósi, t.d. með hljóðmön úr jarðvegi eða með trjárækt.

Líkt og bent er á í áðurgreindri skýrslu frá 21. september 2017 miðar reglugerð nr. 784/1998 við langtímamælingu og tekur því ekki sérstaklega á hámarkshögghljóðum eins og skothvellum. Mældist hljóðstig þó í flestum tilfellum innan viðmiðunarmarka samkvæmt töflum I-III í viðauka við greinda reglugerð. Þá eru og uppi í skipulagi áform uppi um að draga frekar úr áhrifum hljóðmengunar með því að grafa riffilbrautina niður og útbúa hljóðmanir. Verður samkvæmt framangreindu ekki annað séð en að skilyrðum um hljóðstyrk samkvæmt reglugerð nr. 784/1998 verði fullnægt.

Samkvæmt áðurnefndum lið 9.2 í 9. gr. reglugerðar nr. 785/1999 skal heilbrigðisnefnd leita umsagnar þeirra sem við á hverju sinni. Þá skal samkvæmt lið 9.3 liggja fyrir rökstutt álit viðkomandi heilbrigðiseftirlits á áhrifum hugsanlegrar mengunar á umhverfið áður en umsagna er leitað. Slíkt álit er ekki meðal gagna málsins, en meðal þeirra gagna sem heilbrigðisnefnd studdist við eru öryggisreglur umrædds skotsvæðis, greindar hljóðmælingar sem gerð var 21. september 2017, auk gagna frá lögreglu. Í greinargerð heilbrigðisnefndar er vísað til öryggisúttektar lögreglu en það skjal liggur ekki fyrir meðal gagna málsins. Hins vegar liggur fyrir leyfisbréf embættis lögreglustjórans á Norðurlandi vestra, dags. 30. janúar 2017, sem viðurkennir æfinga- og keppnissvæði skotfélagsins. Í leyfisbréfinu, sem gildir til tíu ára, kemur fram að svæðið teljist uppfylla skilyrði IV. kafla reglugerðar nr. 787/1998 um skotvopn, skotfæri o.fl. og að leyfið sé veitt með heimild í 24. gr. vopnalaga nr. 16/1998. Úrskurðarnefndin hefur ekki það hlutverk að fjalla um eða leggja mat á nefnt leyfi lögreglustjórans. Verður þó ekki framhjá því litið að þar kemur fram afstaða embættisins til umrædds skotvallar sem telur svæðið uppfylla þau skilyrði sem þarf til veitingar slíks leyfis. Þá hefur umræddur skotvöllur verið starfræktur á svæðinu frá árinu 1989.

Með hliðsjón af öllu því sem að framan er rakið verða ekki taldir slíkir ágallar á efni eða málsmeðferð hinnar kærðu leyfisveitingar að raski gildi hennar. Verður kröfu kærenda um ógildingu því hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um að fella úr gildi ákvörðun heilbrigðisnefndar Norðurlands vestra frá 9. febrúar 2018 um að veita leyfi til að starfrækja skotvöll í landi Hjaltabakka í Húnavatnshreppi.

1/2018 Löggilding iðnmeistara

Með

Árið 2018, miðvikudaginn 28. nóvember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 1/2018, kæra á ákvörðun Mannvirkjastofnunar frá 22. ágúst 2017 um að synja umsókn kæranda um löggildingu málarameistara skv. 32. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 11. janúar 2018, er barst nefndinni sama dag, kærir A þá ákvörðun Mannvirkjastofnunar frá 22. ágúst 2017 að synja umsókn hans um löggildingu málarameistara skv. 32. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Verður að skilja málatilbúnað kæranda svo að þess sé krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Mannvirkjastofnun 27. febrúar 2018.

Málavextir:
Kærandi hlaut réttindi sem málarameistari árið 1982 og gerðist fullgildur félagi í Málarameistarafélagi Reykjavíkur árið 1984. Hinn 17. ágúst 2017 sótti hann um löggildingu málarameistara skv. 32. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki hjá Mannvirkjastofnun. Samkvæmt 3. mgr. nefndrar 32. gr. er skilyrði fyrir greindri löggildingu að umsækjandi hafi meistarabréf og hafi lokið prófi frá meistaraskóla eða hafi a.m.k. sambærilega menntun á hlutaðeigandi sviði. Í umsókn kæranda kemur fram að hann hafi lokið sveinsprófi frá Iðnskólanum í Reykjavík í húsamálum árið 1978. Hann sé með gömul réttindi og hafi því aldrei gengið í meistaraskóla.

Með bréfi Mannvirkjastofnunar til kæranda, dags. 22. ágúst 2017, þar sem umsókn kæranda var synjað, var tekið fram að innsend gögn bæru hvorki með sér að kærandi hefði lokið námi í meistaraskóla né að hann hefði sambærilega menntun.

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að hann hafi starfað sem meistari í málaraiðn í hátt í 40 ár. Hann hafi útskrifað nema, unnið í nýbyggingum, viðhaldi og öðru fyrir ríki og sveitarfélög ásamt því að þjónusta bæði byggingarfyrirtæki og opinberar stofnanir. Í umsókn sinni fyrir löggildingu hafi fylgt með meistaraskírteini hans og inntökubréf í Málarameistarafélag Reykjavíkur. Hann hafi lokið framhaldsnámi í tæknideild frá Víghólaskóla í Kópavogi, sem jafngildi verslunarskólaprófi á sínum tíma og sé í það minnsta sambærileg menntun og fáist í meistaraskóla. Það sé ósk hans að ákvörðunin verði endurskoðuð. Að öðrum kosti sé verið að kippa undan honum starfsmöguleikum í framtíðinni.

Málsrök Mannvirkjastofnunar:
Stofnunin vísar til þess að löggilding iðnmeistara á landsvísu hafi verið nýmæli í skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997 og hafi umhverfisráðherra veitt slíka löggildingu. Við gildstöku laga nr. 160/2010 um mannvirki hafi hlutverkið færst til Mannvirkjastofnunar. Samkvæmt síðarnefndu lögunum geti þeir iðnmeistarar einir hlotið löggildingu sem hafi meistarabréf og hafi lokið prófi frá meistaraskóla eða hafi a.m.k. sambærilega menntun á hlutaðeigandi sviði. Hafi viðkomandi ekki lokið meistaraskóla meti stofnunin hvort viðkomandi hafi lokið sambærilegu námi og séu dæmi um slíkt. Hafi slíkt verið metið í hverju tilviki fyrir sig og teljist t.d. þeir sem lokið hafa byggingariðnfræði hafa lokið námi sem sé sambærilegt meistaraskóla. Stofnunin telji að um formlegt nám á sviði mannvirkjagerðar þurfi að vera að ræða og að ekki sé heimilt að meta starfsreynslu sem ígildi náms.

Athygli sé vakin á því að samkvæmt lögum nr. 117/1999, um breytingu á skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997, hafi þeir einir sem fengið hefðu útgefið, eða hefðu átt rétt á að fá útgefið, meistarabréf fyrir 1. janúar 1989 og ekki hefðu lokið meistaraskóla, fengið löggildingu til að bera ábyrgð á verkframkvæmdum fyrir byggingarnefnd hefðu þeir sótt námskeið sem umhverfisráðuneytið stóð fyrir. Lagaheimildin hafi fallið niður 1. júlí 2001. Að mati stofnunarinnar styðji framangreind lagaheimild þá túlkun að skilyrði fyrir landslöggildingu iðnmeistara hafi ávallt verið að viðkomandi hafi lokið meistaraskóla. Einnig bendi stofnunin á gr. 2.4.7. í þágildandi byggingarreglugerð nr. 177/1992, en samkvæmt ákvæðinu hafi iðnmeistarar sem lokið hefðu sveinsprófi eftir 1. janúar 1989 einnig þurft að ljúka meistaraskóla til að fá staðbundna viðurkenningu.

Krafa um meistaraskóla sem skilyrði fyrir löggildingu byggi að mati Mannvirkjastofnunar á skýrri lagaheimild. Kærandi hafi sagst hafa lokið framhaldsnámi í tæknideild frá Víghólaskóla í Kópavogi en hann hafi ekki sýnt fram á eða leitt líkur að því að það nám jafngildi meistaraskóla. Þar sem kærandi hafi hvorki lokið meistaraskóla né sambærilegu námi hafi honum verið synjað um löggildingu.

Niðurstaða:
Í máli þessu er um það deilt hvort kærandi uppfylli skilyrði laga fyrir því að öðlast löggildingu málarameistara skv. 32. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki til að bera ábyrgð sem iðnmeistari á einstökum verkþáttum við mannvirkjagerð á sínu fagsviði.

Samkvæmt 3. mgr. 32. gr. nefndra laga geta þeir iðnmeistarar einir borið ábyrgð á einstökum verkþáttum við mannvirkjagerð sem hlotið hafa til þess löggildingu Mannvirkjastofnunar. Er löggilding háð því að iðnmeistarar hafi fengið meistarabréf og lokið prófi frá meistaraskóla, eða hafi a.m.k. sambærilega menntun á hlutaðeigandi sviði. Ágreiningur þessa máls snýst í hnotskurn um það hvort kærandi hafi aflað sér menntunar sem jafna megi til náms í meistaraskóla.

Í athugasemdum við 32. gr. frumvarps þess er varð að mannvirkjalögum kemur fram að ákvæðið samsvari 2. mgr. 52. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. Gerði tilvitnað ákvæði skipulags- og byggingarlaga í upphafi aðeins ráð fyrir því að iðnmeistarar með meistarabréf og próf frá meistaraskóla gætu fengið löggildingu, en með 16. gr. laga nr. 170/2000 var sú breyting gerð á ákvæðinu að skilyrði um sambærilega menntun var lögfest. Gerð var grein fyrir ástæðu þeirrar breytingar í athugasemdum við nefnt ákvæði og tekið fram að það hefði verið framkvæmt á þann veg að hefði iðnmeistari meistarabréf og sambærilega menntun við meistaraskóla að mati menntamálaráðuneytisins hefði ráðuneytið veitt þeim iðnmeisturum landslöggildingu. Þætti því rétt að taka af allan vafa um heimild til slíkrar málsmeðferðar. Þá var tekið fram að engin ástæða þætti til að útiloka aðra aðila með sambærilega eða meiri menntun á hlutaðeigandi sviði, t.d. verkfræðinga, tæknifræðinga eða iðnfræðinga, frá því að hljóta löggildingu ráðherra.

Við afgreiðslu umsóknar kæranda þurfti Mannvirkjastofnun sem leyfisveitandi að meta hvort kærandi hefði tilskylda menntun lögum samkvæmt, í þessu tilviki hvort hann hefði menntun á sínu fagsviði sem jafna mætti til prófs úr meistaraskóla. Ákvæði 3. mgr. 32. gr. mannvirkjalaga felur í sér almennar kröfur sem uppfylla þarf til þess að öðlast tiltekin atvinnuréttindi. Þar er m.a. gerð krafa um tiltekna menntun, próf úr meistaraskóla eða sambærilega menntun. Kærandi telur að hann uppfylli skilyrði um sambærilega menntun þar sem hann hafi starfað við málaraiðn í hátt í 40 ár og lokið framhaldsnámi í tæknideild frá Víghólaskóla í Kópavogi. Ekki verður talið unnt að jafna starfsreynsla kæranda við nám í meistaraskóla, enda ljóst að skilyrði 3. mgr. 32. gr. laganna tekur einvörðungu til formlegrar menntunar. Þá verður heldur ekki fallist á að nám kæranda við tæknideild á framhaldsskólastigi teljist sambærilegt námi í meistaraskóla í skilningi 3. mgr. 32. gr. mannvirkjalaga. Styðst það mat og við þá upptalningu um sambærilega menntun sem finna má í athugasemdum við fyrrgreinda breytingu á 2. mgr. 52. gr. skipulags- og byggingarlaga.

Samkvæmt 5. tl. bráðabirgðaákvæðis skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 áttu ákvæði laganna hvorki að hafa áhrif á eldri rétt hönnuða né viðurkenningu byggingaryfirvalda til handa iðnmeisturum og byggingarstjórum til þess að standa fyrir framkvæmdum hver á sínu sviði við gildistöku laganna. Með lögum nr. 117/1999, sem fólu í sér breytingu á skipulags- og byggingarlögum, var sett tímabundið ákvæði í 10. tl. ákvæðis til bráðabirgða um að iðnmeistarar sem ekki hefðu lokið námi í meistaraskóla gætu öðlast umrædd réttindi með því að sækja sérstakt námskeið. Ekki liggur fyrir að kærandi hafi nýtt sér þann kost. Verður því ekki séð að með hinni kærðu ákvörðun hafi kærandi verið sviptur þegar áunnum starfsréttindum.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar Mannvirkjastofnunar frá 22. ágúst 2017 um að synja umsókn hans um löggildingu málarameistara skv. 32. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki.