Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

147/2018, 1 0g 2/2019 Vatnsendablettur

Árið 2019, fimmtudaginn 24. janúar, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011 fyrir:

Mál nr. 147/2018 kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogsbæjar frá 25. september 2018 um að samþykkja breytingu á deiliskipulaginu Vatnsendi, svæðið milli vatns og vegar, að því er varðar Vatnsendabletti 730-739.

Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður

um kröfu kærenda um frestun réttaráhrifa:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 20. desember 2018, er barst nefndinni 21. desember s.á., kæra tilgreindir íbúar við Vatnsenda, Kópavogi, þá ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogsbæjar frá 25. september 2018 að samþykkja breytingu á deiliskipulaginu Vatnsendi, svæðið milli vatns og vegar, fyrir Vatnsendabletti 730-739. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi, að úrskurðarnefndin kveði upp bráðabirgðaúrskurð um frestun réttaráhrifa ákvörðunarinnar og að allar framkvæmdir, hvort sem þær eru hafnar eða yfirvofandi, verði stöðvaðar til bráðabirgða á meðan úrskurðarnefndin hafi málið til umfjöllunar.

Með bréfum til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 3. janúar 2018, sem barst úrskurðarnefndinni sama dag, kæra annars vegar Þorsteinn Sigmundsson, Elliðahvammi v/Vatnsenda, Kópavogi og hins vegar Karl Lárus Hjaltested og Sigurður Kristján Hjaltested, erfingjar að 1/15 hluta dánarbús sem hefur á hendi beinan eignarrétt að jörðinni Vatnsenda, einnig fyrrgreinda ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogsbæjar. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi, að úrskurðarnefndin kveði upp bráðabirgðaúrskurð um frestun réttaráhrifa ákvörðunarinnar og að allar framkvæmdir, hvort sem þær eru hafnar eða yfirvofandi, verði stöðvaðar til bráðabirgða á meðan úrskurðarnefndin hafi málið til umfjöllunar. Þar sem hin síðari kærumál, sem eru nr. 1 og 2/2019, varða sömu ákvörðun, kröfugerð er samhljóða og hagsmunir kærenda þykja ekki standa því í vegi, verða þau sameinuð máli þessu.

Verður nú tekin afstaða til framkominnar kröfu kærenda um frestun réttaráhrifa.

Málsatvik og rök: Breyting á deiliskipulaginu Vatnsendi, svæðið milli vatns og vegar, var samþykkt fyrir Vatnsendabletti 730-739 af bæjarstjórn Kópavogs 25. september 2018. Í samræmi við 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 var breytingin send Skipulagsstofnun til athugasemda. Með bréfi, dags. 10. október 2018, tilkynnti Skipulagsstofnun Kópavogsbæ að stofnunin gæti ekki tekið afstöðu til efnis deiliskipulagsbreytingarinnar þar sem ekki lægi fyrir umsögn heilbrigðiseftirlits vegna færslu byggingarreits nær alifuglaeldi á svæðinu. Jafnframt var bent á að rökstuðning vantaði fyrir deiliskipulagsbreytingunni í greinargerð líkt og gert væri að skilyrði í skipulagsreglugerð nr. 90/2013.

Með bréfi skipulags- og byggingardeildar Kópavogsbæjar, dags. 6. nóvember 2018, var brugðist við athugasemdum Skipulagsstofnunar og 15. s.m. barst Kópavogsbæ bréf frá Skipulagsstofnun þar sem stofnunin gerði ekki frekari athugasemdir við að auglýsing um gildistöku deiliskipulagsbreytinganna yrði birt í B-deild Stjórnartíðinda. Var slík auglýsing birt 28. nóvember 2018.

Kærendur gera þá kröfu að allar framkvæmdir, hvort sem þær eru hafnar eða yfirvofandi, verði stöðvaðar þar til mál þetta er til lykta leitt. Er m.a. skírskotað til þess að kærendur hafi brýna hagsmuni af því að nærumhverfi þeirra sé ekki raskað með óafturkræfum hætti meðan málið sé til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Deiliskipulagsbreytingin feli í sér gjörbreytingu á uppbyggingu Vatnsendabletts, bæði hvað varði byggingarmagn, svipmót og eðli byggðar. Verði krafa kærenda ekki samþykkt sé hætt við að Kópavogsbær gefi út framkvæmdar- eða byggingarleyfi samkvæmt hinu breytta deiliskipulagi. Hagsmunir kærenda af því að réttaráhrifum verði frestað, sem leiðir m.a. til þess að Kópavogsbæ gefst ekki færi á að gefa út framkvæmdar- eða byggingarleyfi, vegi mun þyngra en hagsmunir Kópavogsbæjar, þar sem sú röskun á náttúrunni sem framkvæmdir hefðu í för með sér yrði óafturkræf. Hin kærða deiliskipulagsbreyting verði aldrei gerð nema að höfðu samráði og með samþykki eiganda beins eignarréttar að því landi sem breytingin nái til, þ.e. skiptastjóra og eftir atvikum erfingja dánarbúsins þess sem landið eigi. Þá geti byggingarnefnd Kópavogsbæjar ekki gefið út byggingarleyfi nema fyrir liggi samþykki eiganda jarðarinnar Elliðahvamms á Vatnsenda.

Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er tekið fram að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar, en jafnframt er kæranda þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Þá getur úrskurðarnefndin að sama skapi frestað réttaráhrifum ákvörðunar sem felur ekki í sér heimild til framkvæmda, komi fram krafa um það af hálfu kæranda, sbr. 3. mgr. nefndrar 5. gr. Með sama hætti er kveðið á um það í 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar, en þó sé heimilt að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar til bráðabirgða meðan málið er til meðferðar hjá kærustjórnvaldi þar sem ástæður mæli með því. Tilvitnuð lagaákvæði bera með sér að meginreglan er sú að kæra til æðra stjórnvalds frestar ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar og eru heimildarákvæði fyrir stöðvun framkvæmda eða frestun réttaráhrifa kærðar ákvörðunar undantekning frá nefndri meginreglu sem skýra ber þröngt. Verða því að vera ríkar ástæður eða veigamikil rök fyrir ákvörðun um frestun réttaráhrifa og stöðvun framkvæmda.

Mál þetta snýst um þá ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogsbæjar að samþykkja breytingu á deiliskipulaginu Vatnsendi, svæðið milli vatns og vegar, að því er varðar Vatnsendabletti 730-739. Sú ákvörðun felur ekki í sér heimild til þess að hefja framkvæmdir heldur þurfa að koma til sérstakar stjórnvaldsákvarðanir, t.a.m. um byggingarleyfi, sem kæranlegar eru til úrskurðarnefndarinnar, sbr. III. kafla laga um mannvirki nr. 160/2010. Í kærumáli vegna slíkrar stjórnvaldsákvörðunar er eftir atvikum unnt að gera kröfu um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða skv. 5. gr. laga nr. 130/2011. Af þessu leiðir að jafnaði er ekki tilefni til að beita heimild til stöðvunar framkvæmda eða frestunar réttaráhrifa í kærumálum er varða gildi ákvarðana sem veita ekki heimild til þess að framkvæmdir hefjist.

Þegar litið er til fyrrgreindra lagaákvæða og hinnar kærðu ákvörðunar, verður ekki séð að knýjandi nauðsyn sé á að fallast á kröfu kærenda frestun réttaráhrifa, enda veitir hin kærða ákvörðun ekki sjálfstæða heimild til þess að framkvæmdir hefjist.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um frestun réttaráhrifa hinnar kærðu ákvörðunar.