Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

89/2018 Heitloftsþurrkun á fiski í Garði

Árið 2019, þriðjudaginn 29. janúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður og Ásgeir Magnússon dómstjóri. Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor tók þátt í fundi úrskurðarnefndarinnar í gegnum fjarfundarbúnað.

Fyrir var tekið mál nr. 89/2018, kæra á ákvörðun heilbrigðisnefndar Suðurnesja frá 17. maí 2018 um að synja umsókn um endurnýjun starfsleyfis Nesfisks ehf. til heitloftsþurrkunar fiskafurða.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 18. júní 2018, er barst nefndinni sama dag, kærir Nesfiskur ehf., Gerðavegi 32, Garði, þá ákvörðun heilbrigðisnefndar Suðurnesja frá 17. maí 2018 að synja umsókn kæranda um endurnýjun starfsleyfis hans til heitloftsþurrkunar fiskafurða. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og að lagt verði fyrir heilbrigðisnefnd Suðurnesja að veita hið umbeðna tímabundna starfsleyfi.

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála barst tölvupóstur af hálfu kæranda 2. nóvember 2018 þar sem fram kom að ákvörðun heilbrigðisnefndar hefði verið tekin upp og nefndin samþykkt tímabundið starfsleyfi honum til handa. Hagsmunir kæranda af kæru væru því fallnir niður og skyldi kæra í málinu teljast afturkölluð samhliða því að Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja gæfi út umrætt starfsleyfi. Í samræmi við tilkynningu kæranda taldi úrskurðarnefndin málinu lokið.

Úrskurðarnefndinni barst tölvupóstur að nýju frá kæranda 11. desember 2018 þar sem fram kom að þrátt fyrir að heilbrigðisnefnd hefði ákveðið að veita skyldi starfsleyfið hefði Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja ekki enn gefið það út og væri óvíst hvenær það yrði formlega gert. Afturköllun kæru hefði verið bundin því skilyrði að formlegt starfsleyfi yrði gefið út. Hygðist kærandi ekki afturkalla kæruna og óskaði hann þess að fá úrskurð í málinu sama hver framvindan yrði.

Úrskurðarnefndin fellst á að afturköllun kæranda hafi verið háð skilyrði sem ekki var uppfyllt þegar hann tilkynnti að hann hygðist halda kæru sinni til streitu. Verður málið nú tekið til endanlegs úrskurðar.

Gögn málsins bárust frá heilbrigðisnefnd Suðurnesja 11. júlí og 17. desember 2018.

Málavextir: Forsaga máls þessa er sú að kærandi mun um langt skeið hafa starfrækt heitloftsþurrkun fiskafurða í Garði samkvæmt starfsleyfum frá heilbrigðisnefnd Suðurnesja. Var kæranda m.a. veitt starfsleyfi árið 2012 og var bókað af því tilefni á fundi heilbrigðisnefndar að leyfið væri veitt til eins árs til reynslu á mengunarvarnarbúnaði og skyldi starfsleyfið endurskoðað á tímabilinu reyndist hann ófullnægjandi. Starfsleyfið var endurnýjað til fjögurra ára á fundi heilbrigðisnefndar 6. maí 2013. Var þá bókað að nefndin ítrekaði að hún teldi að heitloftsþurrkun fiskafurða ætti ekki að vera nálægt íbúabyggð og hvetti hún fyrirtækið til að íhuga aðra staðsetningu, t.d. á Reykjanesi. Á fundi heilbrigðisnefndar 11. maí 2017 var starfsleyfi veitt til eins árs og var fært til bókar hvers efnis bókun nefndarinnar hefði verið við starfsleyfisveitinguna árið 2013. Var enn bókað að fyrirtækið hefði fundið starfseminni annan stað á Reykjanesi og myndi flytja þangað. Í ljósi þess væri fyrirtækinu veitt starfsleyfi til loka maí 2018, en ekki væri heimilt að halda úti starfsemi mánuðina júní, júlí og ágúst 2017. Nefnd ákvörðun heilbrigðisnefndarinnar var ekki kærð til úrskurðarnefndarinnar.

Með umsókn, dags. 27. apríl 2018, óskaði kærandi eftir því að starfsleyfi hans yrði endurnýjað. Greinargerð hans barst heilbrigðisnefnd 14. maí s.á. og var þar tekið fram að sökum kvartana vegna lyktarmengunar hygðist kærandi ekki starfrækja þurrkklefa í Garði í júní, júlí og ágúst 2018 í þeirri von að með því næðist sátt um framlengingu starfsleyfisins til eins árs, en um mitt ár 2019 myndi starfsemin flytja. Með bréfi Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja, dags. 18. maí 2018, var kæranda tilkynnt að á fundi heilbrigðisnefndar degi áður hefði umsókn hans um endurnýjun starfsleyfis verið synjað. Var í bókun heilbrigðisnefndar tekið fram að í greinargerð með umsókn kæmi fram að ástæða hennar væri sú að ný verksmiðja á Reykjanesi yrði ekki tilbúin fyrr en um mitt ár 2019. Nefndin hefði áður framlengt starfsleyfi fyrirtækisins og við það tilefni bókað að hún teldi að heitloftsþurrkun ætti ekki að vera nálægt íbúabyggð og hvetti fyrirtækið til að íhuga aðra staðsetningu, t.d. á Reykjanesi. Starfsleyfið hefði verið framlengt að nýju þar sem fyrirtækið hefði fundið starfseminni stað á Reykjanesi. Starfsmenn heilbrigðiseftirlitsins hefðu ítrekað staðfest lyktarmengun frá verksmiðjunni, m.a. í nærliggjandi íbúðahverfi, auk þess sem fjölmargar kvartanir þess efnis hefðu borist frá íbúum í nálægum íbúðarhúsum. Samkvæmt lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir væri heilbrigðisnefndum ætlað að standa vörð um heilnæm lífsskilyrði landsmanna og vernda þau gildi sem fælust í heilnæmu ómenguðu umhverfi. Teldi heilbrigðisnefndin forsendur brostnar fyrir áframhaldandi heitloftsþurrkun í verksmiðju kæranda og væri umsókn hans um endurnýjun starfsleyfis því hafnað.

Kærandi gerði athugasemdir við ákvörðun heilbrigðisnefndar með bréfi, dags. 31. maí 2018. Var tekið fram að kærandi hefði haft réttmætar væntingar til framlengingar starfsleyfis síns og að hann teldi að við synjun þess hefði ekki verið gætt að meginreglum stjórnsýsluréttar og stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Kæranda var svarað með bréfi, dags. 15. júní s.á., og var því þar vísað á bug að ekki hefði verið gætt að stjórnsýslureglum við meðferð málsins, sbr. stjórnsýslulög, og ítrekað að niðurstaða heilbrigðisnefndar hefði verið að ekki væri unnt að tryggja íbúum í grennd við starfsstöð kæranda heilnæmt og ómengað umhverfi nema með því að synja kæranda um umsótt starfsleyfi. Hefur synjun heilbrigðisnefndar frá 17. maí 2018 verið kærð til úrskurðarnefndarinnar, svo sem að framan greinir.

Á fundi heilbrigðisnefndar 1. nóvember 2018 var tekin fyrir ósk kæranda um endurupptöku ákvörðunar nefndarinnar um synjun á tímabundnu starfsleyfi honum til handa til þurrkunar fiskafurða. Var bókað að umsókn kæranda, dags. 11. september s.á., hefði borist og að frekari skýringa hefði verið óskað. Frekari skýringar hefðu leitt í ljós að um beiðni um endurupptöku væri að ræða, sem byggðist aðallega á sjónarmiðum um jafnræði og rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar. Einnig var bókað að nefndin hefði móttekið viðbót við erindið og frekari yfirlýsingar af hálfu kæranda þar sem fram kæmi að hann myndi nota óson í meira mæli og með reglulegri hætti en ráðgert hefði verið til þess að minnka lyktarmengun, eins og mögulegt væri. Hefði kærandi enn fremur lýst því yfir að fyrirtækið væri reiðubúið að skoða alla mögulega þætti er vörðuðu útloftun og dregið gætu úr lykt auk þess að leita allra leiða sem því væru tækar til úrbóta. Ekki yrði sótt um áframhaldandi leyfi fyrir vinnslu í Garði færi svo að fallist yrði á endurupptöku málsins og leyfi veitt til skamms tíma. Féllst heilbrigðisnefnd á endurupptöku málsins, með vísan til 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, þar sem synjunin hefði falið í sér íþyngjandi ákvörðun gagnvart kæranda og ný sjónarmið hefðu komið fram. Væru skilyrði fyrir hendi til að veita kæranda tímabundið starfsleyfi til 31. maí 2019, en starfsleyfisveitingin væri bundin því skilyrði að aukið yrði við mengunarvarnir, s.s. fram hefði komið. Einnig væri það gagnkvæmur skilningur nefndarinnar og kæranda, sem og forsenda fyrir leyfisveitingu, að ekki yrðu veitt frekari starfsleyfi vegna starfseminnar þar sem hún væri nú staðsett í Garði.

Drög að starfsleyfisskilyrðum voru kynnt, m.a. á vefsíðu Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja, hinn 9. nóvember 2018 með fresti til að gera athugasemdir til 12. desember s.á.

Á fundi heilbrigðisnefndar 12. desember 2018 var bókað að kæranda væri veitt starfsleyfi til 31. maí 2019 skv. reglugerð nr. 785/1999 um atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun, sbr. verklagsreglur við auglýsingu nr. 582/2000 frá umhverfisráðuneytinu. Enn fremur að Heilbrigðiseftirliti Suðurnesja væri falið að vinna starfsleyfisskilyrði fyrir kæranda á grundvelli þeirra draga sem auglýst hefðu verið á netsíðu embættisins. Nefndin legði áherslu á að starfsemi fyrirtækisins myndi ekki hefjast fyrr en heilbrigðiseftirlitið hefði með úttekt staðfest að mengunarvarnarbúnaður og vinnsluferlar væru í samræmi við starfsleyfisskilyrðin.

Málsrök kæranda: Kærandi tekur fram í bréfi sínu, dags. 28. desember 2018, að umrætt starfsleyfi hafi enn ekki verið gefið út þrátt fyrir að heilbrigðisnefnd hafi á fundi sínum 12. s.m. ákveðið að það skyldi gert. Hvað sem afgreiðslu málsins líði nú, sem ekki sé útséð um, hafi kærandi ríka hagsmuni af því að fá efnislega úrlausn úrskurðarnefndarinnar í kærumálinu. Upphafleg afgreiðsla málsins og meðferð þess í kjölfarið hafi valdið kæranda umtalsverðu fjárhagstjóni sem hann muni sækja á þar til bæra aðila.

Hvað efni málsins varði hafi kærandi gætt að kröfum laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir og reglugerða settum samkvæmt þeim og hafi því borið að veita honum umsótt leyfi. Heilbrigðisnefnd Suðurnesja hafi hins vegar ekki gætt að meginreglum stjórnsýslulaga nr. 37/1993, s.s. um meðalhóf, jafnræði, rannsókn máls og andmælarétt aðila.

Heilbrigðisnefnd hafi vísað til þess að heilbrigðisnefndum sé ætlað að standa vörð um heilnæm lífsskilyrði landsmanna og vernda þau gildi sem felist í ómenguðu umhverfi. Telji kærandi útilokað að þessi efnisgrundvöllur geti einn og sér talist fullnægjandi. Stutt sé í að ný verksmiðja verði tekin í gagnið af kæranda og hafi hann sömuleiðis bætt allan sinn búnað í núverandi starfsemi til að draga úr mengun. Hafi hann haft réttmætar væntingar til endurnýjunar leyfisins og málefnalegar ástæður búið að baki umsókn hans, en meðalhófs hafi ekki verið gætt. Ekkert tillit hafi verið tekið til þeirra aðgerða sem kærandi hefði gripið til í þeim tilgangi að sporna við lyktarmengun. Jafnræðisreglan hafi ekki verið virt, en samþykkt hafi verið umsókn annars aðila til sömu starfsemi, sem einnig sé í grennd við íbúabyggð. Önnur sambærileg dæmi megi nefna. Ekki hafi verið gengið úr skugga um að mengun sú sem kvartað hafi verið yfir hafi raunverulega stafað frá starfsemi kæranda, sbr. rannsóknarregluna.

Málsrök heilbrigðisnefndar Suðurnesja: Af hálfu heilbrigðisnefndar er tekið fram að 12. desember 2018 hafi kæranda verið veitt tímabundið starfsleyfi að kynningarferli loknu. Eftir að nefndin hafi ákveðið að endurupptaka málið hafi þurft að vinna starfsleyfisskilyrði í samræmi við ákvæði þágildandi reglugerðar nr. 785/1999 um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur hafti í för með sér mengun. Starfsleyfisskilyrði beri að auglýsa og veita almenningi frest til að gera athugasemdir við þau. Ekki sé hægt að víkja frá greindum málsmeðferðarreglum. Séu engin skilyrði til að hætta við afturköllun kæru vegna þess að farið hafi verið að lögum við meðferð umsóknar um starfsleyfi eða vegna þess að kæranda hafi á einhvern hátt komið á óvart að svo væri eða að málsmeðferð tæki þann tíma sem ákvæði laga og reglugerða mæli fyrir um. Kærandi hafi ekki lengur lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins og beri af þeirri ástæðu að fella málið niður eða vísa því frá úrskurðarnefndinni.

Vegna synjunar á umsókn kæranda um starfsleyfi ítreki heilbrigðisnefnd að fjölmargar kvartanir hafi borist vegna ólyktar frá starfsemi kæranda, m.a. á árinu 2018. Í greinargerð kæranda með umsókn sinni hafi ekki verið vísað til áætlana hans um að beita nýjum aðferðum við mengunarvarnir heldur hafi verið viðurkennt að könnun hans á mögulegum mengunarvörnum hafi leitt í ljós að ekki væri unnt að koma í veg fyrir mengun. Umsókn hans hafi því verið synjað. Óumdeilt sé að mengun stafi frá starfseminni. Um starfsleyfisskylda starfsemi sé að ræða skv. 1. mgr. 6. gr. og 1. mgr. 7. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, en markmið þeirra laga sé að búa landsmönnum heilnæm lífsskilyrði og vernda þau gildi sem felist í heilnæmu og ómenguðu umhverfi, sbr. 1. gr. Kæranda hafi ekki geta dulist að forsendur hafi ekki verið fyrir frekari framlengingu starfsleyfis og gæti réttur hans ekki verið ríkari en réttindi t.a.m. íbúa í sveitarfélaginu til að búa sér og fjölskyldum sínum heilnæm lífsskilyrði og nýta eignir sínar.

Farið hafi verið að stjórnsýslureglum við meðferð málsins, sbr. stjórnsýslulög nr. 37/1993. Kæranda hafi verið veittur réttur til að gera athugasemdir við ákvörðunina og koma að frekari gögnum og skýringum en ekkert hafi komið fram sem gefið hafi tilefni til að breyta hinni kærðu ákvörðun. Fyrir liggi að aðferð kæranda til að draga úr mengun hafi reynst ófullnægjandi, eins og kærandi hafi sjálfur viðurkennt, og sé það í samræmi við eftirlitsskýrslu heilbrigðiseftirlits frá júlí 2015, sem byggst hafi á skoðun á staðnum og aðstæðum. Þá hafi fjölmargar kvartanir borist vegna mengunar frá starfsemi kæranda og sé ekki fyrir hendi nein óvissa um að mengun stafi frá henni. Mengunin hafi verið staðfest í eftirlitsferðum heilbrigðiseftirlitsins auk þess sem kvartanir hafi borist þegar nærliggjandi fiskverkunarfyrirtæki hafi verið lokað. Það fyrirtæki hafi haft starfsleyfi til sama tíma og kærandi en aðstæður hjá öðru fyrirtæki sem kærandi hafi nefnt séu ólíkar. Séu m.a. staðhættir og staðsetning þessara fyrirtækja gagnvart íbúðarbyggð ekki sambærilegar, auk þess sem mikill munur sé á mengunarvarnarbúnaði þessara fyrirtækja. Meðalhófs hafi verið gætt, enda hafi kærandi ítrekað fengið starfsleyfi til skamms tíma. Honum hafi einnig verið gefið til kynna að starfsleyfi yrði ekki til langframa sökum mengunar sem frá starfsemi hans stafaði.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti synjunar heilbrigðisnefndar Suðurnesja á umsókn kæranda um endurnýjun starfsleyfis. Fyrir liggur, svo sem áður er rakið, að sú ákvörðun hefur verið endurupptekin og hefur heilbrigðisnefndin nú samþykkt umsókn kæranda um starfsleyfi. Telur heilbrigðisnefnd að af þeim sökum hafi kærandi ekki lengur lögvarða hagsmuni af úrlausn kærumálsins og beri af þeim sökum að vísa því fá úrskurðarnefndinni. Kærandi heldur því hins vegar fram að hann hafi orðið fyrir fjárhagslegu tjóni við ólögmæta meðferð málsins og kveðst hann muni sækja bætur vegna þess. Með hliðsjón af þeim rökum kæranda, og eins og atvikum er hér sérstaklega háttað, telur úrskurðarnefndin að þrátt fyrir að leyfi hafi nú verið veitt þá hafi kærandi engu að síður lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um lögmæti synjunar heilbrigðisnefndarinnar. Hins vegar einskorðast umfjöllun úrskurðarnefndarinnar við þá ákvörðun, enda hefur mögulegur ágreiningur aðila í kjölfar hennar ekki sætt kæru til nefndarinnar.

Samkvæmt 6. gr. í lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir skal allur atvinnurekstur sem haft getur í för með sér mengun hafa gilt starfsleyfi, sbr. 7. gr. sömu laga. Samkvæmt 1. mgr. nefndrar 7. gr. gefa heilbrigðisnefndir út starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem m.a. er talinn upp í viðauka IV í lögunum, þ. á m. fyrir heitloftsþurrkun fiskafurða, sbr. lið 5.7. Samkvæmt 5. gr. laganna setur ráðherra reglugerð til að stuðla að framkvæmd mengunarvarnaeftirlits og skulu þar m.a. vera almenn ákvæði um starfsleyfi fyrir allan atvinnurekstur sem haft getur í för með sér mengun, sbr. 1. tl. nefndrar lagagreinar. Þegar umsókn kæranda um endurnýjun starfsleyfis var synjað voru starfsleyfi háð skilyrðum þágildandi reglugerðar nr. 785/1999 um atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun. Markmið hennar er m.a. að koma í veg fyrir og draga úr mengun af völdum slíks atvinnurekstrar, koma á samþættum mengunarvörnum og að samræma kröfur og skilyrði í starfsleyfum. Heilbrigðisnefnd er því ætlað það hlutverk að veita starfsleyfi, að teknu tilliti til þeirra markmiða reglugerðarinnar sem snúa að mengunarvörnum. Í 10. mgr. 3. gr. í nefndri reglugerð segir að mengun sé þegar örverur, efni og efnasambönd og eðlisfræðilegir þættir valdi óæskilegum og skaðlegum áhrifum á heilsufar almennings, röskun lífríkis eða óhreinkun lofts, láðs eða lagar. Mengun taki einnig til ólyktar, hávaða, titrings, geislunar og varmaflæðis og ýmissa óæskilegra eðlisfræðilegra þátta. Ber heilbrigðisnefnd þannig m.a. að líta til þess við ákvörðun um starfsleyfi að áhrif framangreindra þátta á umhverfið verði sem minnst. Að auki ber nefndinni að fara að þeim reglum sem í reglugerðinni eru tilgreindar, sem og í lögum nr. 7/1998 og stjórnsýslulögum nr. 37/1993.

Af gögnum málsins verður ráðið að allt frá árinu 2000 hafi í starfsleyfum fiskvinnslufyrirtækja, m.a. kæranda, gefnum út af Heilbrigðiseftirliti Suðurnesja, verið tiltekið það skilyrði að loftræstingu skuli þannig háttað að hún valdi ekki fólki í nærliggjandi húsakynnum eða vegfarendum óþægindum vegna lyktar, mengunar eða hávaða. Kemur og fram að kæranda var veitt starfsleyfi í maí 2012 til eins árs til reynslu á mengunarvarnarbúnaði og hefur sá búnaður, ósonbúnaður, verið í notkun frá hausti 2012. Í maí 2013 var kæranda veitt starfsleyfi til fjögurra ára og af því tilefni var tekið fram af heilbrigðisnefnd að hún teldi heitloftsþurrkun fiskafurða ekki eiga að vera nálægt íbúabyggð. Í ágúst sama ár var kæranda tilkynnt með bréfi að heilbrigðiseftirlitinu hefði borist kvörtun vegna ólyktar frá starfsemi hans og hefði embættið staðreynt það. Var tekið fram að á þeim tíma hefði fiskþurrkun ekki farið fram í annarri fiskverkun við sömu götu og starfsemi kæranda og var sú krafa gerð til hans að komið yrði í veg fyrir ólykt. Í júlímánuði 2015 var kæranda tilkynnt bréflega að kvartanir hefðu borist um nokkurra vikna skeið vegna ólyktar frá fiskverkunarfyrirtækjum í Garðinum. Hefði fulltrúi heilbrigðiseftirlitsins kannað aðstæður vegna þessa 30. júní svo og 6., 8. og 10. júlí. Enga lykt hefði verið að finna frá starfsemi kæranda 30. júní, lykt hefði mátt finna 6. júlí og ólykt hefði fundist 8. og 10. júlí. Ítrekuð var sú krafa eftirlitsins að komið yrði í veg fyrir ólykt, bent á bókun heilbrigðisnefndar við starfsleyfisveitingu árið 2013 og tekið fram að einsýnt þætti nú að mengunarvarnarbúnaður sá sem notaður væri virkaði ekki sem skyldi. Var og tiltekið að vegna þessa myndi Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja leggja til við heilbrigðisnefnd að starfsleyfi kæranda yrði ekki framlengt á núverandi stað þegar það rynni úr gildi í maí 2017. Var kæranda veittur andmælaréttur vegna þessa en hann mun ekki hafa nýtt sér hann. Svo sem fram kemur í málavaxtalýsingu var kæranda allt að einu veitt starfsleyfi í eitt ár frá maí 2017, en bent á fyrri bókun og jafnframt tekið fram að í ljósi þess að kærandi hefði fundið starfsemi sinni annan stað væri leyfi veitt til eins árs, en starfsemin væri óheimil yfir sumarmánuðina 2017.

Í greinargerð í Aðalskipulagi Sveitarfélagsins Garðs 2013-2030 er tekið fram að með skipulaginu sé gerð breyting á tegund atvinnusvæðanna í þéttbýli þannig að öll skilgreind iðnaðarsvæði verði að athafnasvæðum, enda eigi landnotkun athafnasvæða betur við þá starfsemi sem geti farið saman við íbúðarbyggð í þéttbýlinu. Innan eins athafnasvæðisins, AT7, er þó skilgreint iðnaðarsvæðið I4, þar sem starfstöð kæranda er staðsett, og er tekið fram um það svæði að áfram skuli unnið að mótvægisaðgerðum til að draga úr lyktarmengun þar. Í málinu liggja fyrir gögn sem sýna ítrekaðar kvartanir árin 2015-2018 vegna ólyktar frá starfsemi kæranda og annarrar fiskverkunar við sömu götu. Liggur og fyrir útdráttur úr dagbók heilbrigðiseftirlitsins vegna tímabilsins 2011 til síðla árs 2016 og kemur þar fram að í tugfjölda tilfella hafi lyktarmengun verið staðfest ýmist frá báðum fiskverkununum eða annarri hvorri þeirra. Báðar fiskverkanirnar héldu úti starfsemi til loka maí 2018 og eru kvartanir vegna lyktarmengunar allt til þess tíma. Ekki verður séð að staðreynt hafi verið af heilbrigðiseftirliti á árunum 2017 til 2018 frá hvorri fiskverkuninni mengunina hafi stafað hverju sinni, en nefndar kvartanir lutu ýmist almennt að fiskverkun við nefnda götu eða að ólykt frá starfsemi kæranda. Á það er hins vegar að líta að í greinargerð kæranda með umsókn um áframhaldandi starfsleyfi er því lýst að notast sé við óson sem dragi verulega úr lykt og bætt hafi verið við skolun á hráefni, auk þess sem nýtt og ferskt hráefni sé notað til þurrkunar. Þá hafi kærandi tekið þátt í rannsóknarverkefnum en þau ekki leitt í ljós neina leið sem gæti með fullkominni vissu útilokað alla lykt sem fylgdi starfseminni. Umsókn kæranda var fyrst og fremst reist á því að fyrirhugað húsnæði fyrir starfsemi hans væri ekki tilbúið án þess að lagðar væru til aðrar og frekari mótvægisaðgerðir eða uppsetning mengunarvarnarbúnaðar. Þó tók kærandi fram að starfsemi yrði ekki yfir sumarmánuðina árið 2018.

Umsækjandi um starfsleyfi fyrir starfsemi sem getur haft í för með sér mengun á ekki lögvarða kröfu á því að leyfi sé gefið út honum til handa. Í ákvörðun sinni vísaði heilbrigðisnefnd til þeirra sjónarmiða sinna sem áður hefðu komið fram að „heitloftsþurrkun fiskafurða eigi ekki að vera nálægt íbúabyggð.“ Að teknu tilliti til þeirra markmiða reglugerðar nr. 785/1999 sem áður er lýst og þess að mengun tekur einnig til ólyktar verður að telja nefnd sjónarmið lögmæt. Var bæði kæranda og öðrum fiskverkanda við sömu götu synjað um starfsleyfi til heitloftsþurrkunar, en starfsleyfi þeirra beggja runnu út í maímánuði 2018. Að mati úrskurðarnefndarinnar lágu nægar upplýsingar fyrir heilbrigðisnefnd til að synja umsókn kæranda, enda lá ljóst fyrir að kærandi hafði átt í erfiðleikum með að koma í veg fyrir lyktarmengun frá starfsemi sinni og uppfylla þar með skilyrði fyrri starfsleyfa sinna. Þá verður umrædd ákvörðun talin byggjast á meðalhófi, enda hafði kæranda ítrekað áður verið veitt starfsleyfi svo hann gæti fundið starfsemi sinni heppilegri stað. Var hann og upplýstur um að möguleikar hans til áframhaldandi starfsemi í nágrenni við íbúðarbyggð væru takmarkaðir og bundnir við það að honum tækist að koma í veg fyrir lyktarmengun frá starfseminni. Loks var hvorugri fiskverkuninni á svæðinu veitt leyfi til áframhaldandi heitloftsþurrkunar og því ekki tæk þau rök kæranda að jafnræðis hafi ekki verið gætt, enda eru önnur þau tilvik er hann tiltekur ekki sambærileg, t.a.m. hvað varðar nálægð við íbúðarbyggð. Var málsmeðferð nefndarinnar og að öðru leyti í samræmi við lög.

Með hliðsjón af því sem að framan greinir voru hvorki þeir form- né efnisgallar á hinni kærðu ákvörðun sem ógildi hennar geta valdið. Verður kröfu kæranda þar um því hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun heilbrigðisnefndar Suðurnesja frá 17. maí 2018 um að synja umsókn Nesfisks ehf. um endurnýjun á starfsleyfi til heitloftsþurrkunar fiskafurða.