Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

49/2008 Höfðavegur

Með

Ár 2010, fimmtudaginn 16. september, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 49/2008, kæra annars vegar á samþykkt sveitarstjórnar Norðurþings frá 25. september 2006 um deiliskipulag Höfðavegar á Húsavík og hins vegar samþykkt hennar frá 20. maí 2008 um breytt deiliskipulag vegna lóðanna nr. 6a og 6b við Höfðaveg á Húsavík. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 23. júlí 2008, er barst úrskurðarnefndinni hinn 24. sama mánaðar, kærir Ingvar Þóroddsson hdl., f.h. S, Laugarbrekku 3, Húsavík og H, Laugarbrekku 5, Húsavík, annars vegar samþykkt sveitarstjórnar Norðurþings frá 25. september 2006 um deiliskipulag Höfðavegar á Húsavík og hins vegar samþykkt hennar frá 20. maí 2008 um breytt deiliskipulag vegna lóðanna nr. 6a og 6b við Höfðaveg.  Auglýsingar um gildistöku hinna kærðu ákvarðana birtust í B-deild Stjórnartíðinda 7. janúar 2008 og 10. júlí s.á. 

H lést hinn 29. ágúst 2009 en eftirlifandi eiginkona hans, J, Höfðabrekku 5, Húsavík, hefur fengið leyfi til setu í óskiptu búi og tekur hún við aðild málsins vegna dánarbúsins. 

Af hálfu kærenda er krafist ógildingar hinna kærðu ákvarðana. 

Málavextir:  Göturnar Höfðavegur og Laugarbrekka eru hluti gamalgróinnar íbúðarbyggðar á Húsavík.  Á milli þessara gatna er opið óbyggt svæði, sem að hluta er nýtt undir leiksvæði, m.a. sparkvöll.  Eru kærendur eigendur húsa við Laugarbrekku og snúa baklóðir þeirra að svæðinu. 

Á fundi skipulags- og byggingarnefndar 19. apríl 2006 var samþykkt að auglýsa tillögu að deiliskipulagi Höfðavegar, þar sem m.a. var gert ráð fyrir tveggja hæða parhúsum á lóðum nr. 6a og 6b við Höfðaveg.  Í sömu auglýsingu var kynnt tillaga að breyttu aðalskipulagi og m.a. tekið fram að opið svæði til sérstakra nota milli Laugarbrekku og Höfðavegar stækkaði til vesturs, en austurhluti þess breyttist í íbúðarsvæði þar sem gert væri ráð fyrir íbúðarlóð, þ.e. Höfðavegi 6a og 6b.  Öðlaðist samþykkt um breytt aðalskipulag gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 18. desember 2006. 

Á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 31. júlí 2006 var rætt um fyrrgreinda deiliskipulagstillögu en engar athugasemdir bárust er hún var auglýst til kynningar.  Lagði nefndin til við sveitarstjórn að tillagan yrði samþykkt.  Á fundi sveitarstjórnar 25. september 2006 var framangreint staðfest.  Á fundi skipulags- og byggingarnefndar 5. september 2007 var samþykkt að byggingarfulltrúi gerði nauðsynlegar textaleiðréttingar á deiliskipulagsuppdrætti og sendi Skipulagsstofnun til yfirferðar og auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda. 

Á fundi skipulags- og byggingarnefndar 9. október 2007 var tekið fyrir erindi lóðarhafa Höfðavegar 6a og 6b, þar sem hann óskaði eftir umsögn nefndarinnar um hvort leyfilegt yrði að byggja á lóðunum fimm til sex einstaklingsíbúðir.  Tók nefndin jákvætt í erindið, með þeim fyrirvara að slík bygging væri ekki í samræmi við gildandi deiliskipulag.  Á fundi nefndarinnar 13. nóvember 2007 var ákveðið að grenndarkynna framangreint og bárust skipulagsyfirvöldum athugasemdir vegna þessa. 

Með bréfi skipulags- og byggingarfulltrúa til Skipulagsstofnunar, dags. 30. nóvember 2007, óskaði hann eftir heimild stofnunarinnar til að auglýsa gildistöku deiliskipulags, sem hefði verið samþykkt í sveitarstjórn 25. september 2006 og birtist auglýsing þess efnis 7. janúar 2008. 

Á fundi skipulags- og byggingarnefndar 15. janúar 2008 voru lagðar fram athugasemdir er borist höfðu er grenndarkynnt var tillaga að breyttu deiliskipulagi lóðanna nr. 6a og 6b við Höfðaveg um fjölgun íbúða á lóðunum.  Á fundinum ákvað nefndin að falla frá tillögunni í ljósi athugasemdanna og var formanni hennar og byggingarfulltrúa falið að ræða við fulltrúa nágranna og lóðahafa um umfang bygginga á lóðinni. 

Á fundi skipulags- og byggingarnefndar 12. febrúar 2008 var m.a. eftirfarandi fært til bókar:  „Sótt er um byggingarleyfi fyrir 6 smáíbúða húsi á einni hæð á lóðinni.  Húsið er 351,4 m² að grunnfleti og 1.125 m3 að rúmmáli og stendur þar af leiðandi talsvert útyfir byggingarreit.  Húsið er teiknað af Hauki Haraldssyni tæknifræðingi hjá AVH.  Skv. gildandi deiliskipulagi Höfðavegar er heimilt að byggja tveggja hæða hús allt að 280 m² að grunnfleti á lóðinni með hæð allt að 7,5 m yfir gólfplötu.  Nágrannar lóðarinnar hafa nú mótmælt svo háu húsi á lóðinni.  Skipulags- og byggingarnefnd telur að lóðarhafi bjóði raunhæfa sáttaleið með því að láta teikna á lóðina einnar hæðar hús með mestu hæð 4,7 m gegn því að byggingarreitur verði rýmkaður um 25,5%.  Meirihluti skipulags- og byggingarnefndar samþykkir að fela skipulags- og byggingarfulltrúa að láta vinna tillögu að breytingu á deiliskipulagsuppdrætti og kynna skv. ákvæðum skipulags- og byggingarlaga.“  Var framangreint staðfest á fundi sveitarstjórnar 19. febrúar 2008 og tillagan auglýst.  Með bréfum kærenda, dags. 5. og 6. apríl 2008, komu þeir á framfæri athugasemdum sínum vegna tillögunnar. 

Á fundi skipulags- og byggingarnefndar 29. apríl 2008 var fjallað um framkomnar athugasemdir og m.a. eftirfarandi fært til bókar:  „Meirihluti skipulags- og byggingarnefndar telur: a1) Nefndin telur að skipulagsbreytingin feli ekki í sér aukna skuggamyndun á lóðum við Laugarbrekku þar sem jafnframt því að útvíkka byggingarreitinn var leyfileg hæð húss lækkuð úr 7,5 m í 5,0 metra.  Ekki verður fallist á að 5 m hátt hús sem stendur 3,5 m frá lóðarmörkum geti valdið óhóflegri skuggamyndum á næstu lóðum.  a2) Ekki er lagt til í breytingartillögunni að lóðarmörkum verði breytt og því ekki um að ræða skerðingu á leiksvæði frá gildandi deiliskipulagi.  b1) Nýtingarhlutfall upp á 40% getur ekki talist óhóflegt, sérstaklega í ljósi þess að gert er ráð fyrir fullnægjandi bílastæðafjölda utan lóðar.  Heimilað nýtingarhlutfall skv. gildandi deiliskipulagi er 60% og því í raun verið að minnka byggingarrétt á lóðinni frá gildandi deiliskipulagi.  b2) Nefndin telur að umrædd lóð rúmi það mannvirki sem gert er ráð fyrir í skipulagstillögunni sbr. b1).  b3) Nefndin telur að skipulagsbreytingin feli ekki í sér aukna skuggamyndun á lóðum við Laugarbrekku þar sem jafnframt því að útvíkka byggingarreitinn var leyfileg hæð húss lækkuð úr 7,5 m í 5,0 metra.  Ekki verður fallist á að 5 m hátt hús sem stendur 3,5 m frá lóðarmörkum geti valdið óhóflegri skuggamyndum á næstu lóðum.  b4) Við gerð núverandi aðalskipulags var leitast við að takmarka umfang þéttbýlisins á Húsavík, m.a. með þéttingu byggðar.  Lóðin sem stofnað hefur verið til að Höfðavegi 6 er liður í þeirri þéttingu.  Skipulags- og byggingarnefnd telur ekki tilefni til að falla frá þeirri hugmynd að nýta svæðið fyrir húsbyggingu, enda er skv. skipulagstillögunni skilið eftir umtalsvert óbyggt svæði milli Höfðavegar og Laugarbrekku.  Meirihluti skipulags- og byggingarnefndar leggur til við sveitarstjórn að skipulagstillagan verði samþykkt eins og hún var kynnt.“  Sveitarstjórn samþykkti tillögu að breyttu deiliskiplagi Höfðavegar á fundi 20. maí 2008 og 10. júlí s.á. birtist auglýsing um gildistöku breytingarinnar í B-deild Stjórnartíðinda. 

Hafa kærendur skotið samþykkt sveitarstjórnar til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir. 

Málsrök kærenda:  Af hálfu kærenda er því haldið fram að líta beri á alla málsmeðferð við gerð deiliskipulags Höfðavegar sem aðdraganda að einni ákvörðun varðandi lóðina á opna svæðinu milli Höfðavegar og Laugarbrekku.  Þeir telji að skipulagsferlið hafi verið ein heild frá því að fyrst hafi verið kynntar hugmyndir um þéttingu byggðar á svæðinu og því hafi ekki lokið fyrr en auglýsing birtist í B-deild Stjórnartíðinda 10. júlí 2008. 

Áður en deiliskipulagið, sem samþykkt hafi verið í sveitarstjórn 18. september 2007, hafi formlega tekið gildi 7. janúar 2008 hafi sveitarfélagið tekið ákvörðun um að breyta þessu sama deiliskipulagi vegna austurhluta svæðisins, norðan Höfðavegar.  Hinn 13. nóvember 2007 hafi skipulags- og byggingarnefnd tekið ákvörðun um að grenndarkynna fyrirhugaða fimm íbúða byggingu á tveimur hæðum, sem hafi verið í andstöðu við samþykkt deiliskipulag.  Sveitarstjórn hafi samþykkt þessa ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar á fundi 27. nóvember 2007.  Telji kærendur að með þessu hafi sveitarfélagið í raun afturkallað ákvörðun um deiliskipulagið og auglýsing deiliskipulagsins 7. janúar 2008 hafi verið markleysa, að minnsta kosti vegna byggingarlóða 6a og 6b, þar sem þá þegar hafi verið búið að falla frá fyrri skipulagshugmyndum um þetta tiltekna svæði.  Með vísan til þessa geti úrskurðarnefndin endurskoðað viðkomandi ákvarðanir sveitarfélagsins, sbr. niðurlag 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, þannig að upphaf kærufrests gagnvart öllum ákvörðunum í ferlinu beri að miða við 10. júlí 2008, þegar auglýsingin hafi birst í B-deild Stjórnartíðinda. 

Þá sé einnig á því byggt að málsmeðferðarreglum hafi ekki verið fylgt þegar upphaflega deiliskipulagstillagan hafi verið auglýst.  Einkum sé byggt á því að í auglýsingu, sem birst hafi í Lögbirtingarblaði og öðrum fjölmiðlum, hafi í engu verið kynnt efnisatriði deiliskipulagstillögunnar.  Þetta hafi verið í beinni andstöðu við 1. mgr. gr. 6.2.3 skipulagsreglugerðar nr. 400/1998, þar sem segi að þegar sveitarstjórn hafi samþykkt að auglýsa tillögu að deiliskipulagi skuli hún auglýst og kynnt.  Sérstaklega hafi verið nauðsynlegt að geta um efni tillögunnar í auglýsingunni, og þar með kynna hana almenningi, þar sem hún hafi gert ráð fyrir auknu byggingarmagni á viðkomandi byggingarreit miðað við það sem áður hafi komið fram.  Á kynningarfundi árið 2005 hafi eingöngu verið rætt um einbýlis- eða parhús á einni hæð.  Tillagan hafi hins vegar gert ráð fyrir parhúsi á tveimur hæðum.  Á það sé einnig að líta að deiliskipulagstillagan hafi verið í beinni andstöðu við aðalskipulagstillöguna, þar sem hún hafi gert ráð fyrir einni lóð á svæðinu, en deiliskipulagstillaga hafi gert ráð fyrir tveimur lóðum, Höfðavegi 6a og 6b.  Af auglýsingunni verði ekki annað ráðið en að ekkert deiliskipulag hafi verið í gildi um svæðið þegar hafist hafi verið handa við gerð tillögunnar sem auglýst hafi 15. júní 2006, sbr. vísun til 1. mgr. 25. gr. skipulags- og byggingarlaga. 

Sveitarfélaginu hafi verið skylt að kynna hagsmunaaðilum sérstaklega framkomna tillögu að nýju deiliskipulagi, sbr. ákvæði í gr. 3.2.1 í skipulagsreglugerð, ekki síst þar sem búið hafi verið að kynna aðra útfærslu varðandi byggingarmagn á opna svæðinu milli Höfðavegar og Laugarbrekku.  Enn meiri ástæða hafi verið til að kynna hagsmunaaðilum þessa útfærslu þar sem efnisatriða hennar hafi í engu verið getið í opinberum auglýsingum um hið nýja skipulag.  Í þessu sambandi sé einnig vísað til meginreglna í stjórnsýslurétti um rannsóknarskyldu stjórnvalds og skyldu til að veita hagsmunaaðilum andmælarétt, sbr. 10., 13, og 14. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Um rannsóknarskyldu við þessar aðstæður sé einnig vísað til úrskurðar úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála frá 7. september 2007 í máli nr. 74/2006. 

Þá sé því haldið fram að sveitarfélagið hafi ekki farið að réttum málsmeðferðarreglum skv. 1. mgr. 26. gr., sbr. 1. mgr. 25. gr. skipulags- og byggingarlaga, þegar breytingartillagan, sem samþykkt hafi verið í sveitarstjórn 20. maí 2008, hafi verið undirbúin.  Kærendur telji að tillagan hafi hvorki verið samþykkt í skipulags- og byggingarnefnd né sveitarstjórn í endanlegri gerð áður en hún hafi verið auglýst.  Hins vegar hafi nefndin samþykkt að fela byggingarfulltrúa að gera tillögu að breyttu deiliskipulagi og kynna er umsókn um byggingarleyfi hefði borist.  Þessi samþykkt skipulags- og byggingarnefndar hafi verið afgreidd í sveitarstjórn 19. febrúar 2008 án þess að ákveðin breytingartillaga hafi legið fyrir, eftir því sem best verði séð af fundargerð. 

Með hinum kærðu ákvörðunum sé gengið svo gegn grenndarhagsmunum kærenda að það varði ógildingu, þar sem farið sé á svig við þær meginreglur sem settar séu í 4. mgr. gr. 4.2.2 í skipulagsreglugerð.  Óþægindi, s.s. skuggavarp og útsýnisskerðing, fari út fyrir þau mörk sem húseigendur megi búast við í grónum hverfum.  Verið sé að skerða með víðtækum hætti opið svæði, sem liggi að lóðum kærenda, og takmarki það leik- og frístundasvæði íbúa í grenndinni.  Með skipulagsákvörðuninni sé verið að ákveða húsagerð að á lóðinni Höfðavegi 6, sem ekki sé að finna annars staðar í hverfinu.  Ákvörðunin sé í beinni andstöðu við það sem komi fram í greinargerð tillögunnar, dags. 14. febrúar 2008, þar sem segi að stefnt sé að hverfisvernd skipulagssvæðisins að hluta, með vísun til gr. 4.2.2 í skipulagsreglugerð. 

Sveitarfélagið hafi ekki sinnti rannsóknarskyldu sinni varðandi ábendingar kærenda um að hin fyrirhugaða bygging muni varpa skugga á hús og lóðir þeirra.  Engra gagna virðist hafa verið aflað til að rökstyðja það álit skipulags- og byggingarnefndar að skuggavarp af fyrirhugaðri byggingu skipti ekki máli fyrir kærendur.  Ekki sé nægilegt að líta eingöngu til hæðar fyrirhugaðs húss að Höfðavegi 6 þegar skuggavarp gagnvart nágrönnum sé skoðað heldur verði að hafa í huga að hús kærenda standi neðar í landi.  Um skyldu til að upplýsa mál sé vísað til 10. gr. stjórnsýslulaga.  Kærendur hafi skilning á þéttingu byggðar en þeir bendi jafnframt á að engin skipulagsleg rök hafi verið sett fram í þessu máli af hálfu bæjarfélagsins sem réttlæti að byggja á svo stórum reit með þeim hættu sem ákveðið hafi verið með hinni kærðu ákvörðun, er tekið hafi gildi 10. júlí 2008. 

Málsrök Norðurþings:  Af hálfu Norðurþings er vísað til þess að sveitarstjórn hafi samþykkt fullbúið deiliskipulag að Höfðavegi á fundi 20. mars 2007.  Gerðar hafi verið fáeinar prentvilluleiðréttingar á skipulaginu sem engu hafi breytt um innihald skipulagstillögunnar og hafi þær verið samþykktar á fundi sveitarstjórnar 18. september 2008.  Því miður hafi dregist hjá embættismönnum sveitarfélagsins að auglýsa gildistöku deiliskipulagsins en þessu skipulagsferli hafi endanlega lokið með auglýsingu um gildistöku í B-deild Stjórnartíðinda 7. janúar 2008 eftir yfirferð Skipulagsstofnunar á skipulagsferlinu. 

Vissulega sé ofangreint ferli ekki hnökralaust.  Það að gildistaka samþykkts deiliskipulags hafi ekki verið auglýst fljótlega eftir fund sveitarstjórnar 20. mars 2007 verði að skrifast á embættismenn sveitarfélagsins og skýringa þar að lútandi líklegast að leita í þeim mannaskiptum í embætti skipulags- og byggingarfulltrúa sem átt hafi sér stað á tímabilinu.  Þrátt fyrir þetta langa skipulagsferli hafi engar formlegar athugasemdir borist við byggingarmagn á lóðinni að Höfðavegi 6 skv. þessu skipulagi fyrr en með kæru til úrskurðarnefndarinnar, dags. 23. júlí 2008, en kærufrestur hafi þá löngu verið liðinn, sbr. 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga. 

Sveitarstjórn hafi falið skipulags- og byggingarfulltrúa að grenndarkynna breytingu á skipulagi vegna byggingar tveggja hæða fjölbýlishúss á lóðinni í nóvember 2007.  Vegna mótmæla nágranna hafi sveitarstjórn alfarið fallið frá breytingunni í janúar 2008.  Ekki sé rétt sem fram komi í kæru að sveitarstjórn hafi verið búin að taka ákvörðun um breytingu á deiliskipulagi áður en auglýsing um gildistöku fyrra skipulags hafi birst í B-deild Stjórnartíðinda heldur hafi sveitarstjórn aðeins verið að kynna tillögu að breytingu deiliskipulags sem hún hafi svo algerlega fallið frá þegar athugasemdir hafi borist frá nágrönnum.  Engar forsendur séu fyrir því að álykta sem svo að auglýsing um gildistöku fyrra skipulags sé markleysa, enda stjórnvaldsákvörðun sem að baki hennar liggi tekin löngu áður en grenndarkynning hafi farið fram og hún aldrei afturkölluð. 

Í undirbúningsferli að breyttu aðalskipulagi Húsavíkur hafi vissulega verið kynnt þétting byggðar, m.a. með nýtingu umrædds svæðis við Höfðaveg.  Þar verði að teljast fremur ósennilegt að skipulagsyfirvöld hafi kynnt hæðarmörk húss/húsa á svæðinu enda hafi engin ákvörðun þar að lútandi verið tekin á þeim tímapunkti.  Engar athugasemdir hafi borist við nýtingu lóðarinnar að Höfðavegi 6 við kynningu á tillögu að breyttu aðalskipulagi.  Það hefði ekki þurft að koma kærendum á óvart að gert væri ráð fyrir tveggja hæða húsi á lóðinni í þeirri deiliskipulagstillögu sem kynnt hafi verið í júní 2006, enda nánast öll hús í umhverfinu, þ.m.t. þeirra húseignir, á tveimur hæðum eða aðalhæð auk hárra rishæða. 

Því sé alfarið hafnað að útsýnisskerðing og skuggavarp fari yfir þau mörk sem húseigendur megi búast við í grónum hverfum, hvort sem litið sé til fyrra skipulags né breytts deiliskipulags.  Fyrra skipulag hafi heimilað allt að 7,5 m háa byggingu á lóðinni sem sé alls ekki í ósamræmi við önnur hús á svæðinu og geti á engan hátt talist yfirþyrmandi.  T.d. séu hús beggja kærenda um 7,5 m há.  Nýlega samþykkt deiliskipulagsbreyting heimili allt að 5 m hátt hús, 3,5 m frá lóðarmörkum kærenda, og sé varla hægt að skilgreina mikið lágreistari byggingu í deiliskipulagi.  Lítill og nokkuð jafn landhalli, um 1:20, sé á svæðinu milli umræddrar lóðar og íbúða kærenda þannig að aðalgólf íbúða beggja kærenda séu nærri 1,0 m neðar í landi en fyrirhugaður gólfkóti nýs húss.  Íbúðir kærenda séu næst í 19,5 m fjarlægð frá byggingarreit nýju lóðarinnar. 

Málflutningi kærenda um að rannsóknarskyldu sveitarfélagsins hafi ekki verið fullnægt vegna mögulegrar skuggamyndunar inn á lóðum þeirra sé hafnað.  Ljóst sé að 5 m hátt mannvirki sem standi í 3,5 m fjarlægð, sunnan og suðvestan lóða kærenda, valdi litlu skuggavarpi á lóðir þeirra nema þegar sól sé allra lægst á loft, hvað þá á íbúðir í um og yfir 20 m fjarlægð, þótt þær standi metranum neðar í landi.  Í því samhengi megi geta þess að kærendur hafi nærri sínum lóðarmörkum að nýju lóðinni röð hávaxinna trjáa, á að giska 8-15 m hárra, sem séu mun líklegri til að valda skuggamyndun á lóðum þeirra en fyrirhugað hús. 

Ekki sé fallist á með kærendum að með hinum kærðu ákvörðunum sé skert með víðtækum hætti opið svæði sem liggi að lóðum þeirra sem takmarki leik- og frístundasvæði íbúa í grenndinni.  Ákvörðun um skerðingu hafi verið tekin með samþykkt Aðalskipulags Húsavíkurbæjar 2005-2025, sem samþykkt hafi verið í sveitarstjórn Norðurþings árið 2006. 

Því sé hafnað að ekki hafi verið farið að málsmeðferðarreglum skipulags- og byggingarlaga.  Bæði skipulags- og byggingarnefnd, svo og sveitarstjórn, hafi verið fullkunnugt um hvað hafi falist í þeirri deiliskipulagsbreytingu sem ákveðið hafi verið að kynna á fundum nefndanna 12. og 19. febrúar 2007, þó svo hinn endanlegi uppdráttur hafi ekki verið tilbúinn fyrr en 21. febrúar.  Um það hafi ekki verið efast fyrr en með kæru í máli þessu.  Ekki komi fram í skipulags- og byggingarlögum að sveitarstjórn skuli hafa hina endanlega útgáfu deiliskipulagstillögu í höndum þegar ákvörðun sé tekin um kynningu og telja verði nóg að nefndarfulltrúar hafi haft aðgang að fullnægjandi gögnum til ákvarðanatökunnar. 

——-

Aðilar máls þessa hafa fært fram ítarlegri rök fyrir máli sínu, sem ekki verða rakin hér frekar, en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er annars vegar deilt um gildi samþykktar sveitarstjórnar Norðurþings frá 25. september 2006 um deiliskipulag Höfðavegar á Húsavík og hins vegar samþykkt sveitarstjórnar Norðurþings frá 20. maí 2008 um breytingu þess deiliskipulags, vegna lóðanna nr. 6a og 6b við Höfðaveg.  Auglýsingar um gildistöku hinna kærðu ákvarðana birtust í B-deild Stjórnartíðinda 7. janúar og 10. júlí 2008. 

Eins og framan er rakið var samþykkt á árinu 2006 að auglýsa tillögu að nýju deiliskipulagi Höfðavegar, þar sem m.a. var gert ráð fyrir tveggja hæða parhúsum á lóðum nr. 6a og 6b við Höfðaveg.  Í sömu auglýsingu var kynnt tillaga að breyttu aðalskipulagi og tekið m.a. fram að opið svæði til sérstakra nota milli Laugarbrekku og Höfðavegar stækkaði til vesturs, en austurhluti þess breyttist í íbúðarsvæði þar sem gert væri ráð fyrir íbúðarlóð, þ.e. Höfðavegi 6a og 6b.  Öðlaðist samþykkt um breytt aðalskipulag gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 18. desember 2006 en samþykkt um nýtt deiliskipulag Höfðavegar öðlaðist gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 7. janúar 2008. 

Samkvæmt 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 sæta ákvarðanir sveitarfélaga, sem þar er getið, kæru til úrskurðarnefndarinnar og er kærufrestur einn mánuður frá birtingu ákvörðunar, sé um að ræða ákvörðun sem sætir opinberri birtingu svo sem er í hinu kærða tilviki.  Kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni 24. júlí 2008, eða rúmum fjórum mánuðum eftir lok kærufrests, og ber því að vísa þessum hluta málsins frá úrskurðarnefndinni samkvæmt 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. 

Ákvörðun sveitarstjórnar um breytingar á nýlega samþykktu deiliskipulagi Höfðavegar fól m.a. í sér að í stað tveggja hæða parhúsa á lóðunum nr. 6a og 6b við Höfðabraut voru lóðirnar sameinaðar í eina lóð, Höfðaveg nr. 6, þar sem heimilt yrði að byggja eitt íbúðarhús með fimm íbúðum á einni hæð.  Hámarkshæð hússins yrði 5,0 m yfir gólfkóta og nýtingarhlutfall 0,4. 

Tillaga að deiliskipulagsbreytingunni var auglýst og málsmeðferð hagað í samræmi við 1. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga.  Kærendur komu athugasemdum á framfæri og þeim var svarað af skipulagsyfirvöldum.  Ákvörðun bæjarstjórnar um hið breytta skipulag hlaut lögboðna meðferð Skipulagsstofnunar skv. 3. mgr. 25. gr. laga nr. 73/1997 og gerði stofnunin ekki athugasemdir við að breytingin yrði auglýst í B-deild Stjórnartíðinda.  Öðlaðist hún gildi með auglýsingu hinn 10. júlí 2008.  Verður hvorki séð að neinir þeir annmarkar hafi verið á meðferð málsins er ógildingu gætu varðað né að með ákvörðuninni hafi verið gengið gegn lögvörðum rétti kærenda, enda var með breyttu aðalskipulagi Húsavíkur tekin ákvörðun um breytta landnotkun svæðis þess er um ræðir.  Verður því ekki fallist á kröfu þeirra um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð:

Vísað er frá úrskurðarnefndinni kröfu kærenda um ógildingu samþykktar sveitarstjórnar Norðurþings frá 25. september 2006 um deiliskipulag Höfðavegar á Húsavík. 

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu á samþykkt sveitarstjórnar Norðurþings frá 20. maí 2008 um breytt deiliskipulag vegna lóðanna nr. 6a og 6b við Höfðaveg. 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

___________________________   _____________________________
Ásgeir Magnússon                                Þorsteinn Þorsteinsson

78/2008 Sandgerði hafnarsvæði

Með

Ár 2010, miðvikudaginn 8. september, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 79/2008, kæra á samþykkt bæjarstjórnar Sandgerðisbæjar frá 7. maí 2008 um deiliskipulag fyrir hafnarsvæði Sandgerðisbæjar, suðursvæði. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 15. ágúst 2008, er barst nefndinni hinn 19. sama mánaðar, kæra S og H, Norðurtúni 6, Sandgerði samþykkt bæjarstjórnar Sandgerðisbæjar frá 7. maí 2008 um deiliskipulag fyrir hafnarsvæði Sandgerðisbæjar, suðursvæði.  Auglýsing um gildistöku hinnar kærðu ákvörðunar var birt í B-deild Stjórnartíðinda 8. ágúst 2008.

Af hálfu kærenda er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. 

Málavextir:  Á fundi húsnæðis-, skipulags- og byggingarráðs Sandgerðisbæjar 22. ágúst 2007 var samþykkt að auglýsa tillögu að deiliskipulagi hafnarsvæðisins í Sandgerði, svæðis er afmarkast af Miðtúni og Eyrartúni til austurs, friðlýstu svæði til vesturs og suðurs og Eyrargötu til norðurs.  Bæjaryfirvöldum bárust athugasemdir, m.a. frá kærendum, Fornleifavernd ríkisins, Siglingastofnun, Umhverfisstofnun og Vegagerðinni.  Á fundi ráðsins 12. desember s.á. var bókað:  „Byggingarfulltrúi fór yfir skipulagsuppdrættina og gerði grein fyrir tillögum að svörum við athugasemdum og þeim breytingum sem lagt er til að gerðar verði til að mæta athugasemdum og ábendingum umsagnaraðila og íbúa.“  Var framangreint staðfest á fundi bæjarstjórnar 9. janúar 2008.  Á fundi húsnæðis-, skipulags- og byggingarráðs 23. janúar 2008 var lögð fram umsögn vegna deiliskipulagstillögunnar og var byggingarfulltrúa falið að vinna að úrlausn málsins með skipulagsráðgjöfum.  Á fundi ráðsins 6. febrúar s.á. var bókað að farið hefði verið yfir stöðu mála og kynntar viðræður, sem fram hefðu farið við Vegagerðina o.fl.  Þá sagði m.a. í bókun ráðsins:  „Fyrirliggjandi gögn og uppdrættir með mögulegum breytingum lagðir fram til kynningar.“  Á fundi ráðsins 19. febrúar s.á. var bókað m.a:  „Deiliskipulag Suðursvæðis–Sjávarheimar var auglýst 4. október með fresti til að skila athugasemdum til 15. nóvember.  Eftirfarandi breytingar voru gerðar að auglýsingatíma og athugasemdafresti loknum:  Kafla 2.6 um sjóvarnargarða bætt í greinargerð.  Sjóvörn til athugunar færð inn á uppdrátt.  Kafla 2.7 um fornminjar bætt í greinargerð.  Garðar færðir inn á uppdrátt.  Kröfu um lágmarks gólfkóta aðkomuhæðar bætt í greinargerð og færð inn á uppdrátt.  Lóðir á suðurhluta svæðis felldar út.  Lóðum nr. 28-34 við Strandgötu skipt upp, byggingarreitir minnkaðir og aðkoma skilgreind frá Sjávargötu.  Hámarkshæð húsa lækkuð og/eða samræmd hæð núverandi húsa.  Möguleiki á íbúðum á efri hæðum fellur út.  Þjóðvegur færður til austurs til að uppfylla 30 m veghelgunarsvæði Vegagerðarinnar.  Hringtorg við Eyrargötu stækkað og hliðrað til austurs.  Þjóðvegur verður skoðaður skv. lið 13.a í 2. viðauka í stað 10.i í 1. viðauka laga 106/2000.  Skipulags- og byggingarnefnd telur að með breytingum hafi verið komið á móts við athugasemdir án þess að tillögum hafi verið breytt í grundvallaratriðum.

Skipulags- og byggingarnefnd setur fyrirvara á afgreiðslu Suðursvæðis – Sjávarheima þar sem svar hefur ekki borist vegna afgreiðslu umhverfisskýrslu sem send var þann. 8. febrúar 2008 til Skipulagsstofnunar, Umhverfisstofnunar og Vegagerðar til kynningar í samræmi við 7. gr. í lögum nr. 105/2006 um umhverfismat áætlana.  Byggingarfulltrúa er falið í samráði við skipulagsráðgjafa að ganga frá svörum til athugasemda- og umsagnaraðila í samræmi við Deiliskipulag hafnarsvæðis Sandgerðisbæjar, athugasemdir og svör frá VSÓ Ráðgjöf, dags. 6. febrúar 2008.  Lagt var fram minnisblað frá VSÓ Ráðgjöf ehf. um skipulagið varðandi athugasemdir og svör við þeim.“  Á fundi bæjarstjórnar 20. febrúar 2008 var framangreint til umfjöllunar og m.a. bókað að Skipulagsstofnun hefði ekki afgreitt umhverfisskýrslu frá 8. febrúar 2008 og biði fullnaðarafgreiðsla því afgreiðslu skýrslunnar.  Var fært til bókar að bæjarstjórn staðfesti afgreiðslu ráðsins og var bæjarráði falin fullnaðarafgreiðsla þess að fengnu svari Skipulagsstofnunar.  Á fundi húsnæðis,- skipulags- og byggingarráðs 23. apríl 2008 var enn fjallað um deiliskipulagstillöguna og breytingarnar sem gerðar voru á henni.  Þar sagði m.a:  „Gerð hefur verið breyting á greinargerð og bætt inn kafla þar sem gert er grein fyrir hvernig tekið er á umhverfissjónarmiðum í deiliskipulagi Suðursvæðis.  Húsnæðis-, skipulags- og byggingarráð samþykkir skv. 25. gr. skipulags- og byggingarlaga deiliskipulag Suðursvæðis með áorðnum breytingum og telur að með breytingum hafi verið komið á móts við athugasemdir án þess að tillögum hafi verið breytt í grundvallaratriðum.  Byggingarfulltrúa er falið í samráði við skipulagsráðgjafa að ganga frá svörum til athugasemda- og umsagnaraðila í samræmi við deiliskipulag hafnarsvæðis Sandgerðisbæjar, athugasemdir og svör frá VSÓ Ráðgjöf, dags. 23. apríl 2008.“  Á fundi bæjarstjórnar 7. maí 2008 var framangreint samþykkt samhljóða.  Auglýsing um gildistöku hinnar kærðu ákvörðunar var birt í B-deild Stjórnartíðinda 8. ágúst 2008. 

Hafa kærendur skotið framangreindri ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir. 

Málsrök kærenda:  Af hálfu kærenda er því haldið fram að með hinu samþykkta deiliskipulagi muni útsýni til sjávar frá Norðurtúni og Miðtúni skerðast eða hverfa með öllu er leiða muni til lækkunar fasteignaverðs.  Loforð hafi verið gefið á sínum tíma af þáverandi bæjaryfirvöldum að aldrei yrði byggt á svæðinu og lagt hafi verið að bæjarstjórn að friða þetta fallega útivistarsvæði og varpland, en talað hafi verið fyrir daufum eyrum. 

Bendi kærendur á að svæðið liggi neðar stórstraumsflóði á stórum kafla.  Af þeim sökum þurfi gríðarlega uppfyllingu til að ná fyrirskipaðri grunnhæð væntanlegra bygginga og muni svæðið allt því hækka um meira en fjóra metra.  Þá sé bent á að í fáum sveitarfélögum sé eins gott val á atvinnulóðum og í Sandgerði. 

Málsrök Sandgerðisbæjar:  Af hálfu Sandgerðisbæjar er vísað til þess að hið kærða deiliskipulag eigi sér stoð í Aðalskipulagi Sandgerðisbæjar 1997-2017, með síðari breytingum, og heildarsýn hafnarsvæðisins sem unnin hafi verið af bæjarfélaginu þar sem sett séu fram meginmarkmið um þróun svæðisins.  Heildarsýn um skipulag hafnarsvæðisins hafi verið kynnt á opnum íbúafundi 17. mars 2007 og samþykkt í bæjarstjórn 8. ágúst s.á. 

Hvað varði athugasemd kærenda þess efnis að útsýni þeirra til sjávar muni skerðast sé bent á að samkvæmt aðalskipulagi bæjarins sé svæðið neðan Strandgötu verslunar-, athafna- og iðnaðarsvæði.  Í ljósi athugasemda er borist hefðu á athugasemdartíma hafi breytingar verðið gerðar og fallið frá áformun um að hafa lóðir við Sjávargötu 11-18.  Lóðum og byggingarreitum hafi verið skipt upp í minni byggingareiningar og hámarkshæð húsa á nýjum lóðum lækkuð úr níu metrum í fimm og heimild til íbúðar í risi felld niður.  Á þegar byggðum lóðum sé hámarkshæð húsa takmörkuð við hæð núverandi bygginga.  Með þessu hafi verið komið til móts við kærendur, byggingar lækkaðar og dregið úr byggingarmagni, án þess að tillögunni hafi verið breytt í grundvallaratriðum. 

Þá sé bent á að í samráði við Siglingastofnun hafi lágmarkshæð gólfa í húsum á svæðinu verið færð inn í deiliskipulagið, þar sem tekið hafi verið tillit til hæstu mögulegrar sjávarstöðu, ölduágangs og spár um hækkandi sjávarborð.  Afstaða gagnvart íbúðarbyggð í Miðtúni og Norðurtúni, miðað við lágmarkshæð gólfa í húsum, sé sýnd í sniði á skýringaruppdrætti deiliskipulagsins.  Einnig hafi, að höfðu samráði við Siglingastofnun, verið færð inn á uppdráttinn lega núverandi og fyrirhugaðra varnarmannvirkja. 

Í samræmi við gildandi aðalskipulag sé gert ráð fyrir því að svæðið neðan Strandgötu verði verslunar-, athafna- og iðnaðarsvæði.  Rétt sé að geta þess að samkvæmt eldra aðalskipulagi frá árinu 1991 hafi svæðið verið auðkennt sem iðnaðarsvæði.  Á deiliskipulagsuppdráttinn hafi verið færð inn afmörkum náttúruverndarsvæðis nr. 108, fjörur og tjarnir á Rosmhvalanesi, eftir samráð við Umhverfisstofnun og viðmiðun stofnunarinnar um stærð og náttúruverndargildi svæða á náttúrminjaskrá.  Strandsvæði og fjörur séu skilgreind sem svæði sem afmarkist annars vegar af efstu stórstraumsflóðamörkum og hins vegar stórstraumsfjörumörkum. 

Í aðalskipulagi sé gert ráð fyrir nýjum Sandgerðisvegi úr suðaustri sem tengist nýrri Strandgötu suðaustan fyrirhugaðrar atvinnuuppbyggingar, og Sjávargötu er liggi að hafnarsvæðinu.  Þar með færist þungaumferð suður fyrir núverandi íbúðarbyggð.  Í aðalskipulaginu sé gert ráð fyrir að allri þungaumferð verði beint um Sjávargötu, að Hafnarsvæðinu.  Hið kærða deiliskipulag sé í samræmi við gildandi aðalskipulag hvað þetta varði.  Í afgreiðsluferli deiliskipulagsins hafi verulega verið tekið tillit til sjónarmiða íbúa við Miðtún og Norðurtún. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um gildi samþykktar bæjarstjórnar Sandgerðisbæjar frá 7. maí 2008 um deiliskipulag fyrir hafnarsvæði Sandgerðisbæjar, suðursvæði. 

Eins og að framan er rakið samþykkti húsnæðis-, skipulags- og byggingarráð á árinu 2007 að auglýsa tillögu að deiliskipulagi hafnarsvæðisins í Sandgerði, suðursvæði.  Bárust athugasemdir og í kjölfar þess samþykkti bæjarstjórn tvívegis á fundum sínum að gera breytingar á samþykktinni.  Fólu breytingar þessar m.a. í sér að sérstökum ákvæðum um sjóvarnargarða og fornminjar var bætt í greinargerð og settir fram skilmálar um gólfkóta aðkomuhæða húsa á lóðum nr. 2 og 4-16 við Sjávargötu.  Þá var fallið frá lóðum á suðurhluta svæðisins, lóðum nr. 28-34 við Strandgötu var skipt upp, byggingarreitir minnkaðir og aðkoma skilgreind frá Sjávargötu.  Hámarkshæð húsa var lækkuð og/eða samræmd þeim húsum sem fyrir eru á svæðinu ásamt því að felld var brott heimild til íbúða á efri hæðum.  Ennfremur var þjóðvegur færður til austurs og hringtorg við Eyrargötu stækkað og hliðrað til austurs.  Að síðustu var færður inn í greinargerð sérstakur kafli um umhverfissjónarmið þar sem breyting var gerð á afmörkun svæðis á náttúruverndarská. 

Í 25. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 er fjallað um kynningu, samþykkt og gildistöku deiliskipulags.  Í 2. mgr. segir að ákveði sveitarstjórn að breyta auglýstri tillögu í grundvallaratriðum skuli hin breytta tillaga auglýst á nýjan leik. 

Eins og að framan er rakið gerði bæjarstjórn tvívegis breytingar á tillögu þeirri er auglýst hafði verið eftir að frestur til að koma að athugasemdum var liðinn.  Úrskurðarnefndin telur að framangreindar breytingar sveitarstjórnar á tillögunni séu svo verulegar, þegar litið er til umfangs og eðlis þeirra, að með þeim hafi upphaflegri samþykkt verið breytt í grundvallaratriðum og því hefði þurft að auglýsa að nýju tillögu að breyttu deiliskipulagi svæðisins í samræmi við ákvæði 25. gr. skipulags- og byggingarlaga.  Þessa var ekki gætt og verður hin kærða samþykkt bæjarstjórnar því felld úr gildi. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna mikilla anna og málafjölda hjá úrskurðarnefndinni. 

Úrskurðarorð: 

Felld er úr gildi samþykkt bæjarstjórnar Sandgerðisbæjar frá 7. maí 2008 um deiliskipulag fyrir hafnarsvæði Sandgerðisbæjar, suðursvæði. 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

______________________________   _____________________________
Ásgeir Magnússon                                      Þorsteinn Þorsteinsson

86/2008 Hilmisgata

Með

Ár 2010, miðvikudaginn 8. september, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 86/2008, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Vestmannaeyja frá 17. júlí 2008 um breytingu á deiliskipulagi miðbæjar Vestmannaeyjabæjar vegna lóðar að Hilmisgötu 2-10, Vestmannaeyjum. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 27. ágúst 2008, er barst nefndinni sama dag, kærir Lilja Jónasdóttir hrl., f.h. B ehf., þá ákvörðun bæjarstjórnar Vestmannaeyja frá 17. júlí 2008 að breyta deiliskipulagi miðbæjar Vestmannaeyjabæjar vegna lóðar að Hilmisgötu 2-10 þar í bæ.  Tók ákvörðunin gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda hinn 28. júlí 2008.  Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. 

Málavextir:  Í aprílmánuði 2008 stóð umhverfis- og skipulagsráð Vestmannaeyjabæjar fyrir grenndarkynningu á breytingu á deiliskipulagi miðbæjar Vestmannaeyja vegna lóðarinnar að Hilmisgötu 2-10.  Fól hin kynnta tillaga í sér breytingu á notkun lóðarinnar úr íbúðarnotum í blandaða notkun fyrir íbúðir, verslun og þjónustu, stækkun byggingarreits úr 1.180 í 1.450 m2, færslu innkeyrslu á baklóð að norðurlóðarmörkum Hilmisgötu 2A og hækkun hámarkshæðar bygginga úr 8 í 9 m.  Ein athugasemd barst innan athugasemdafrests. 

Að lokinni grenndarkynningu tók umhverfis- og skipulagsráð bæjarins málið fyrir á fundi sínum hinn 14. maí 2008 og samþykkti umrædda tillögu að breytingu á deiliskipulagi og staðfesti bæjarstjórn þá afgreiðslu hinn 5. júní sama ár.  Vegna fjögurra athugasemdabréfa er bárust eftir lok athugasemdafrests, m.a. frá kæranda, tók ráðið málið fyrir að nýju hinn 2. júlí 2008 þar sem tekin voru fyrir áðurgreind athugasemdabréf.  Voru framkomnar athugasemdir ekki taldar snúa að atriðum sem hin kynnta skipulagsbreyting tæki til heldur að innihaldi deiliskipulags svæðisins frá árinu 2005 og voru þær því ekki teknar til efnislegrar afgreiðslu.  Bæjarstjórn staðfesti þessa afgreiðslu umhverfis- og skipulagsráðs hinn 17. júlí 2008 og tók deiliskipulagsbreytingin gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda eins og áður getur. 

Málsrök kæranda:  Kærandi vísar til þess að hann hafi með höndum veitingarekstur að Skólavegi 1 í Vestmannaeyjum og hafi hann nýtt sér aðgengi að baklóð þeirrar fasteignar um lóðina Hilmisgötu 2, en vörur vegna rekstrarins séu bornar inn í húsið bakatil.  Með hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu sé m.a. innkeyrslu að baklóð breytt og hún færð að norðurlóðamörkum Hilmisgötu 2A. 

Kærandi eigi þinglýstan umferðarrétt um Hilmisgötu 2 að baklóð sinni að Skólavegi 1 samkvæmt eignaskiptayfirlýsingu síðargreindrar fasteignar.  Farið hafi verið fram á við bæjaryfirvöld að sá umferðarréttur yrði tryggður við deiliskipulagsbreytinguna en það erindi kæranda hafi ekki fengið efnislega umfjöllun hjá umhverfis- og skipulagsráði.  Af þeim sökum verði ekki hjá því komist að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi.  Hið kærða deiliskipulag rýri verðmæti eignar kæranda og brjóti því gegn ákvæðum skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og 72. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944. 

Málsrök Vestmannaeyjabæjar:  Af hálfu bæjaryfirvalda er vísað til þess að misskilnings virðist gæta hjá kæranda um efni hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar.  Þar sé fjallað um stækkun á byggingarreit og tilfærslu á aðkeyrslu að baklóð Hilmisgötu 2-10, en sú lóð hafi orðið til við gerð deiliskipulags svæðisins frá árinu 2005.  Eftir umdeilda skipulagsbreytingu sé sú lóð óbreytt að stærð og lögun og engin breyting sé gerð á aðgengi kæranda að sinni lóð, heldur sé einungis aðkomu lóðarhafa Hilmisgötu 2-10 að baklóð þeirra breytt.  Skipulag svæðisins frá árinu 2005 hafi fengið lögmæta málsmeðferð en þá hafi engar athugasemdir frá lóðarhöfum aðliggjandi lóða, svo sem kæranda, komið fram þótt það skipulag hafi ekki gert ráð fyrir aðgengi í þá veru sem nú sé krafist. 

Varðandi umgengni kæranda um undirgöng inn í kjallara húss hans að Skólavegi 1 samkvæmt þinglýstri eignaskiptayfirlýsingu sé rétt að líta til þess að undirgöngin hafi verið eyðilögð fyrir 6-7 árum í tengslum við björgunaræfingu á vegum NATO.  Þau hafi á sínum tíma verið notuð til að flytja fisk í kjallara Skólavegar 1 en sú notkun hafi verið aflögð fyrir áratugum.  Telji kærandi sig eiga kröfu á aðgengi um lóðina að Hilmisgötu 2-10 um jarðgöng eða fyrir umferð ökutækja, hefði sú krafa átt að koma fram þegar sú lóð hafi verið afmörkuð og skipulögð á árinu 2005. 

—–

Lóðarhöfum Hilmisgötu 2-10, var gefinn kostur á að koma að sjónarmiðum sínum og athugasemdum en þeir hafa ekki talið ástæðu til þess. 

Niðurstaða:  Hin kærða deiliskipulagsbreyting var grenndarkynnt sem óveruleg breyting á deiliskipulagi samkvæmt 2. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Er þar um að ræða undantekningarreglu frá þeirri meginreglu 1. mgr. 26. gr. laganna að auglýsa skuli breytingatillögur á deiliskipulagi til kynningar. 

Hin kærða ákvörðun fól í sér breytta notkun húsnæðis að Hilmisgötu 2-10, stækkun byggingarreits, aukningu byggingarmagns um 22,8%, hækkun heimilaðra bygginga um einn metra og færslu innkeyrslu að baklóð.  Er breytingin þess eðlis að hún getur haft nokkur grenndaráhrif.  Af þessum ástæðum verður ekki fallist á að hin kærða deiliskipulagsbreyting hafi verið óveruleg í skilningi 2. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga og bar því að auglýsa tillöguna samkvæmt 1. mgr. 26. gr. laganna. 

Með vísan til þess sem að framan er rakið hefur hin kærða ákvörðun ekki fengið lögmæta málsmeðferð samkvæmt skipulags- og byggingarlögum og verður hún af þeim sökum felld úr gildi. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð: 

Felld er úr gildi ákvörðun bæjarstjórnar Vestmannaeyja frá 17. júlí 2008 um breytingu á deiliskipulagi miðbæjar Vestmannaeyjabæjar vegna lóðar að Hilmisgötu 2-10 í Vestmannaeyjum.

_____________________________
Hjalti Steinþórsson

_____________________________    ___________________________
Ásgeir Magnússon                                     Þorsteinn Þorsteinsson

48/2010 Steðji

Með

Ár 2010, þriðjudaginn 27. júlí, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mætt voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor. 

Fyrir var tekið mál nr. 48/2010, kæra á ákvörðun byggðarráðs Borgarbyggðar frá 15. júlí 2010 um að veita framkvæmdaleyfi fyrir motorcrossbraut í landi Steðja í Borgarbyggð. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 20. júlí 2010, er barst nefndinni sama dag, kærir Jón Ögmundsson hrl., f.h. A, eiganda jarðarinnar Runna í Borgarbyggð, þá ákvörðun byggðarráðs Borgarbyggðar frá 15. júlí 2010 að veita framkvæmdaleyfi fyrir motorcrossbraut í landi Steðja. 

Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.  Þá er þess krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar meðan málið sé til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.  Þykir málið nú nægilega upplýst til að taka megi það til efnisúrskurðar og kemur krafa kæranda um stöðvun framkvæmda því ekki til úrlausnar.

Málavextir:  Hinn 28. júní 2010 sótti eigandi jarðarinnar Steðja um framkvæmdaleyfi fyrir motorcrossbraut í landi jarðarinnar.  Var áformað að nota brautina á unglingalandsmóti UMFÍ, sem fram á að fara dagana 30. júlí til 1. ágúst 2010.  Var umsóknin samþykkt á fundi umhverfis- og skipulagsnefndar Borgarbyggðar hinn 30. júní 2010 með svohljóðandi bókun:  „D[..] f.h. landeigenda sækir um leyfi til framkvæmda við gerð mótorcrossbrautar í landi Steðja.  Samþykkt að veita framkvæmdaleyfi fyrir mótorcrossbraut til notkunar á unglingalandsmóti, enda sé framkvæmdin á röskuðu landi og afturkræf.“

Afgreiðsla umhverfis- og skipulagsnefndar var tekin fyrir á fundi byggðarráðs Borgarbyggðar 15. júlí 2010 og var svohljóðandi bókun gerð í málinu:  „Framlögð fundargerð frá 1. fundi umhverfis- og skipulagsnefndar Borgarbyggðar dags. 30. júní 2010.  Jafnframt framlagt bréf frá Jóni Ögmundssyni hrl. þar sem þess er krafist að framkvæmdaleyfi fyrir motorkrossbraut í landi Steðja verði fellt niður og framkvæmdir stöðvaðar.  Byggðarráð tekur undir með umhverfis- og skipulagsnefnd og samþykkir framkvæmdaleyfi fyrir motorkrossbraut til notkunar á unglingalandsmóti, enda sé framkvæmdin á röskuðu landi og afturkræf.  Byggðarráð ítrekar að þetta leyfi er tímabundið og stendur til lokadags unglingalandsmóts sem er 2. ágúst nk.“ 

Kærandi, sem telur sig eiga hagsmuna að gæta sem eigandi jarðar í nágrenni við framkvæmdastað, vildi ekki una þessum málalokum og skaut málinu til úrskurðarnefndarinnar með kæru, dags. 20. júlí 2010, svo sem að framan greinir.

Málsrök kæranda:  Kærandi telur aðfinnsluvert að byggðarráð gefi út tímabundið framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmd sem í eðli sínu sé varanleg gerð kappakstursbrautar fyrir motorcrosshjól.  Ekki sé gert ráð fyrir útgáfu tímabundinna framkvæmdaleyfa í skipulags- og byggingarlögum.  Hvergi komi fram í bókun byggðarráðs að land það sem notað verði undir brautina verði fært til fyrra horfs eftir unglingalandsmótið, og þá innan tiltekins tíma, svo ekki verði um varanlega framkvæmd að ræða.  Eingöngu sé tilgreint að framkvæmdin sé á röskuðu landi og afturkræf. 

Það gefi auga leið að starfsemi sem þessi eigi alls ekki heima á þessu svæði.  Á aðliggjandi jörðum sé hrossahald og tamningastöðvar.  Þá sé frístundabyggð á nálægum jörðum.  Það geti komið sér afar illa fyrir eigendur hrossa á svæðinu að fá motorcrossbraut í nágrennið með þeim gífurlega hávaða sem því fylgi og mögulegri olíumengun sem henni sé samfara.  Svæðið sé skipulagt sem landbúnaðarsvæði og samrýmist framkvæmdin því ekki gildandi skipulagi.  Ekki verði séð hvernig heimild fyrir motorcrossbraut verði felld að núverandi landnotkun á svæðinu, en motorcrossakstri fylgi hávaðamengun. 

Einnig megi telja að framkvæmdin sé háð mati á umhverfisáhrifum skv. 1. mgr. 6. gr. sbr. a lið 11. tölul. 2. viðauka laga um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000, enda komi ekkert fram í bókun umhverfis- og skipulagsnefndar eða byggðarráðs um að afmá eigi brautina að loknu unglingalandsmóti.  Hér vísist því aftur til þess sem fram hafi komið um hávaða- og umhverfismengun sem af slíkri braut stafi. 

Kærandi telji að ekki hafi verið rétt staðið að útgáfu þessa leyfis þar sem hvorki hafi verið tekin afstaða til þess hvort framkvæmdin sé í samræmi við skipulagsáætlanir, sbr. 4. mgr. 27. gr. skipulags- og byggingalaga, né heldur til þess hvort framkvæmdin eigi að fara í mat á umhverfisáhrifum. 

Þá sé á það bent að á svæðinu sé stofn blesgæsa sem haldi til í Reykholtsdal á haustin, en hún sé alfriðuð.  Allar framkvæmdir sem áhrif kynnu að hafa á lífríki svæðisins séu háðar mati á umhverfisáhrifum og óheimilt hafi verið að gefa út framkvæmdaleyfi án þess að slíkt mat hafi farið fram. 

Reyndar virðist framkvæmdin fremur vera byggingarleyfisskyld en framkvæmdaleyfisskyld, enda séu vegir aðeins undanþegnir byggingaleyfi séu þeir lagðir af opinberum aðilum, sbr. 2. mgr. 36. gr. skipulags- og byggingalaga.  Það hefði því átt að grenndarkynna tillöguna áður en afstaða var tekin til leyfisumsóknarinnar. 

Málsrök Borgarbyggðar:  Af hálfu Borgarbyggðar er á það bent að framkvæmdin sé afturkræf en hún sé á röskuðu landi í gamalli námu.  Leyfi sveitarfélagsins fyrir notkun brautarinnar gildi einungis í tengslum við unglingalandsmót UMFÍ.  Í samþykki byggðaráðs sé áréttað að leyfið sé tímabundið og gildi til lokadags unglingalandsmóts, sem er 2. ágúst.  Því megi reikna með að brautin verði notuð í 4 klst., meðan á sjálfri keppninni standi, en reiknað sé með að 30-40 manns muni keppa í þessari grein.  Af öryggisástæðum gæti þó mögulega þurft að reyna brautina skömmu fyrir mót áður en endanlega verði gengið frá keppnissvæðinu. 

Sveitarfélagið telji það ekki rök í málinu að brautin verði áfram notuð eftir unglingalandsmót UMFÍ því leyfi sveitarfélagsins fyrir notkun brautarinnar gildi ekki nema til 2. ágústs.  Umsækjandi og landeigandi að Steðja sé vel meðvitaður um hvað í samþykki sveitarfélagsins felist. 

Sveitarfélagið telji að mikið hefði verið í lagt fyrir 4 klst. mót að vinna sérstakt deiliskipulag vegna brautarinnar, breyta landnotkun aðalskipulags og meta umhverfisáhrif skv. lögum um mat á umhverfisáhrifum.  Hins vegar taki sveitarfélagið undir að slíkt bæri að gera væri um framtíðarbraut að ræða á þessum stað. 

Ekki sé að mati sveitarfélagsins ljóst hvort sveitarfélaginu hafi borið skylda til að sækja um leyfi fyrir þessari framkvæmd, þar sem um tímabundna notkun hafi verið að ræða, en engu að síður hafi það verið gert þar sem sveitarfélagið átti hlut að máli sem mótshaldari unglingalandsmóts UMFÍ. 

Um stöðu skipulagsmála á svæðinu sé það að segja að sveitarstjórn hafi samþykkt til auglýsingar aðalskipulagstillögu fyrir allt sveitarfélagið, sem ekki hafi verið fyrir hendi áður.  Skipulagsstofnun hafi gefið jákvæða umsögn með auglýsingu tillögunnar og hafi hún verið kynnt íbúum sveitarfélagsins á almennum kynningarfundum. 

Í þeirri tillögu, sem senn verði auglýst, sé umrædd náma sérstaklega tilgreind nr. E 79.  Náman sé því í samræmi við stefnumörkun sveitarfélagsins og landnotkunarflokkur hennar sé „efnistökusvæði“.  Landnotkun svæðisins í kring sé landbúnaðarland en skammt frá sé svæði, skilgreint sem athafnasvæði (A 3) í aðalskipulagstillögu, þar sem m.a. sé flugbraut og nokkur flugskýli. 

Málsrök framkvæmdaleyfishafa:  Framkvæmdaleyfishafi, sem er ábúandi og eigandi jarðarinnar Steðja, kveður sér ekki kunnugt að sést hafi til blesgæsar á landareigninni eða í nágrenni hennar. 

Hvað varði hávaða verði að minni á að þarna rétt hjá sé mikið notaður flugvöllur og yrði hljóðmengun frá brautinni ekki nálægt því eins mikil og þegar sé frá flugvellinum. 

Umrætt svæði sé skipulagt sem malarnáma í aðalskipulagi og hafi Vegagerðin tekið þarna töluvert efni.  Þarna sé því ekki verið að raska óafturkræfu svæði. 

Loks sé á það bent að fyrihugað mót muni einungis standa í 4 klst.

Ungmennafélagi Íslands var gefinn kostur á að koma að sjónarmiðum sínum í málinu en engin andsvör hafa borist frá félaginu. 

Niðurstaða:  Í 1. mgr. 27. gr. skipulags- og byggingarlaga er kveðið á um að afla skuli framkvæmdaleyfis sveitarstjórnar vegna meiri háttar framkvæmda sem áhrif hafi á umhverfið og breyti ásýnd þess, svo sem breytingar lands með jarðvegi eða efnistöku, og annarra framkvæmda sem falli undir lög um mat á umhverfisáhrifum.  Í 2.-7. mgr. 27. gr. er nánar kveðið á um gerð og undirbúning framkvæmdaleyfa og kemur þar m.a. fram að umsókn um framkvæmdaleyfi skuli fylgja nauðsynleg gögn sem nánar skuli kveðið á um í reglugerð og að við útgáfu framkvæmdaleyfis skuli sveitarstjórn fjalla um og taka afstöðu til þess hvort framkvæmd sé í samræmi við skipulagsáætlanir. 

Samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum er ekki í gildi aðalskipulaga fyrir umrætt svæði.  Þar sem svo stendur á getur sveitarstjórn leyft einstakar leyfisskyldar framkvæmdir sem um kann að verða sótt að fengnum meðmælum Skipulagsstofnunar.  Að þessu var ekki gætt við afgreiðslu leyfisins og var meðferð málsins að þessu leyti verulega ábótavant. 

Í gr. 9.2 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998 er fjallað um gögn vegna framkvæmdaleyfisumsókna.  Segir þar að meðal nauðsynlegra gagna sé uppdráttur í tilgreindum mælikvarða er sýni framkvæmd og afstöðu hennar í landi, þar sem fram komi mörk viðkomandi svæðis, tenging þess við þjóðveg, hæðarlínur og mannvirki sem fyrir séu á svæðinu.  Auk þess skuli leggja fram fylgigögn þar sem fram komi lýsing á framkvæmd og hvernig hún falli að gildandi skipulagsáætlunum ásamt öðrum upplýsingum sem skipulagsnefnd telji nauðsynlegar. 

Ekki verður séð að nein af þeim gögnum sem áskilin eru í tilvitnuðu ákvæði hafi legið fyrir við samþykkt hins umdeilda leyfis.  Eru upplýsingar um fyrirhugaða framkvæmd raunar svo takmarkaðar í máli þessu að ógerlegt er að leggja mat á það hvort um sé að ræða meiri háttar framkvæmd, sem háð sé framkvæmdaleyfi samkvæmt 27. gr. skipulags- og byggingarlaga, en líta verður til þess að framkvæmdin er á röskuðu svæði.  Þá er hið kærða leyfi tímabundið en tímaskilyrði leyfisins virðist aðeins eiga við um notkun mannvirkisins og hefur það skilyrði því litla þýðingu við mat því hvort umrædd framkvæmd sé háð framkvæmdaleyfi.

Samkvæmt framansögðu var undirbúningi hinnar kærðu ákvörðunar stórlega áfátt og þykja þeir annmarkar sem á málmeðferð voru eiga að leiða til ógildingar hennar.  Verður hún því felld úr gildi. 

Úrskurðarorð: 

Ákvörðun byggðarráðs Borgarbyggðar frá 15. júlí 2010, um að veita framkvæmdaleyfi fyrir motorcrossbraut í landi Steðja í Borgarbyggð, er felld úr gildi. 

______________________________
Hjalti Steinþórsson

____________________________    ____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                          Aðalheiður Jóhannsdóttir

41/2008 Bauganes

Með

Ár 2010, þriðjudaginn 6. júlí, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mætt voru Ásgeir Magnússon héraðsdómari, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor. 

Fyrir var tekið mál nr. 41/2008, kæra á ákvörðun skipulagsfulltrúa Reykjavíkur frá 25. apríl 2008 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Skildinganess sem fól í sér aukið byggingarmagn á annarri hæð heimilaðs húss að Bauganesi 22 í Reykjavík. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 23. júní 2008, er barst nefndinni 24. sama mánaðar, kærir G, eigandi lóðarinnar að Bauganesi 20 í Reykjavík, þá ákvörðun skipulagsfulltrúa Reykjavíkur frá 25. apríl 2008 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Skildinganess sem fól í sér aukið byggingarmagn á annarri hæð heimilaðs húss að Bauganesi 22 í Reykjavík.  Auglýsing um gildistöku ákvörðunarinnar birtist í B-deild Stjórnartíðinda hinn 2. júní 2008.  Skilja verður málskot kæranda svo að krafist sé ógildingar hinnar kærðu skipulagsákvörðunar. 

Málavextir:  Á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 7. mars 2008 var samþykkt að grenndarkynna fyrir hagsmunaaðilum tillögu að breytingu á deiliskipulagi fyrir Skildinganes vegna lóðarinnar nr. 22 við Bauganes.  Að lokinni grenndarkynningu var málið aftur tekið fyrir á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 25. apríl 2008 og lágu þá fyrir athugasemdir kæranda og annars aðila ásamt umsögn skipulagsstjóra, dags. 23. apríl 2008.  Var deiliskipulagsbreytingin samþykkt með eftirfarandi bókun:  „Samþykkt með vísan til umsagnar skipulagsstjóra, sbr. heimildir í viðauka um embættisafgreiðslur skipulagsstjóra við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar.“  Auglýsing um gildistöku skipulagsbreytingarinnar birtist í B-deild Stjórnartíðinda hinn 2. júní 2008 að undangenginni lögboðinni athugun Skipulagsstofnunar. 

Málsrök kæranda:  Af hálfu kæranda er á það bent að fyrirhuguð bygging á lóðinni nr. 22 við Bauganes muni valda skuggavarpi á suðurhlið lóðar og fyrirhugað hús kæranda á lóð nr. 20 við Bauganes, auk útsýnisskerðingar.  Þá sé áréttað að breyting á deiliskipulagi svæðisins frá 22. október 1990 hafi aldrei verið kynnt kæranda né öðrum á svæðinu og hafi hann því ekki haft tækifæri til að tjá álit sitt á málinu.  Gangi hin kærða ákvörðun eftir muni kærandi krefja borgarsjóð bóta vegna skerts verðgildis eignar sinnar og mögulegra óþæginda vegna breytingarinnar. 

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Vísað er til þess að með umræddri deiliskipulagsbreytingu hafi texta í skilmálum fyrir Bauganes 22 verið breytt.  Skilmálar hafi kveðið á um að byggja mætti á tveimur hæðum á helmingi grunnflatar hússins, innan byggingarreits, þó ekki hærra en 4,4 m yfir kóta í norðausturhorni lóðar.  Breytingin hafi aðeins falið í sér að heimilað yrði að byggja jafn marga fermetra á báðum hæðum innan marka leyfislegs nýtingarhlutfalls lóðarinnar. 

Í umsögn skipulagsstjóra, dags. 23. apríl 2008, komi fram að á sumarsólstöðum muni fyrirhugað hús að Bauganesi 22 ekki varpa skugga á aðliggjandi lóðir en á jafndægrum sé húsið farið að varpa talsverðum skugga á lóð Bauganess 20, eftir hádegi.  Hafa verði í huga að fyrir umrædda breytingu hafi deiliskipulag heimilað byggingu á lóðinni að Bauganesi 22 sem varpa myndi einhverjum skugga á nærliggjandi lóðir og skerða útsýni.  Breytingin feli ekki í sér „hækkun á byggingarreit“ heldur einungis það að byggja megi tvílyft á öllum grunnfleti hússins í stað hluta grunnflatar áður.  Við það verði neðri hæðin niðurgrafin og nýtingarhlutfall óbreytt.  Ekki sé um slíkar breytingar að ræða að leitt geti til ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar og ekki verði hróflað við gildi deiliskipulags svæðisins frá 1990 enda kærufrestur vegna gildistöku þess löngu liðinn.  Telji kærandi sig hins vegar geta sannað að hann hafi orðið fyrir tjóni, umfram það sem almennt megi búast við hjá eigendum fasteigna í þéttbýli, eigi hann bótarétt skv. ákvæðum 33. gr. skipulags- og byggingarlaga.  Um bótarétt hafi úrskurðarnefndin hins vegar ekki úrskurðarvald. 

Andmæli lóðarhafa:  Lóðarhafi Bauganess 22 bendir á að umdeild skipulagstillaga að uppbyggingu lóðarinnar sé í öllum aðalatriðum innan marka gildandi skipulags svæðisins.  Heimiluð hámarkshæð byggingar, byggingarreitur og nýtingarhlutfall sé óbreytt.  Breytingin felist fyrst og fremst í því að byggja megi tvílyft á öllum grunnfleti húss, þar sem neðri hæð sé niðurgrafin, en ekki einungis á helmingi grunnflatar eins og skilmálar hafi kveðið á um.  Vegna athugasemda nágranna hafi skuggavarp verið kannað og komið hafi í ljós að skipulagsbreytingin muni ekki hafa neikvæð áhrif á aðliggjandi lóðir umfram það sem leitt hefði af byggingu samkvæmt óbreyttu skipulagi.  Með hliðsjón af framangreindum atvikum, og öðru því sem liggi fyrir í málinu, sé ekkert tilefni til að fallast á kröfu um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar. 

Niðurstaða:  Samkvæmt 1. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga ber sveitarstjórn ábyrgð á og annast gerð deiliskipulags.  Sveitarstjórn tekur ákvörðun um að auglýsa tillögu að deiliskipulagi og komi fram athugasemdir skal hún fjalla um tillöguna að loknum athugasemdafresti á nýjan leik, að undangenginni umfjöllun skipulagsnefndar, og taka afstöðu til framkominna athugasemda, sbr. 25. gr. laganna.  Fram kemur í 26. gr. nefndra laga að breytingar á deiliskipulagi sæta sömu meðferð með þeirri undantekningu að óverulega breytingu má grenndarkynna í stað auglýsingar og nægir þá ein umræða í sveitarstjórn. 

Í 2. og 3. mgr. 44. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998 er sveitarstjórn heimilað með tilteknum skilyrðum að ákveða í samþykkt sveitarfélagsins skv. 10. gr. laganna að fela nefnd, ráði, stjórn eða öðrum aðilum innan stjórnsýslu sveitarfélagsins fullnaðarafgreiðslu mála.  Í Reykjavík hafa verið settar reglur um embættisafgreiðslur skipulagsstjóra í viðauka 2.3 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar frá 7. desember 2007, sem tók gildi með auglýsingu nr. 1200/2007 í B-deild Stjórnartíðinda hinn 19. desember sama ár.  Í 2. gr. nefndra reglna er skipulagsstjóra heimiluð fullnaðarafgreiðsla tillagna að óverulegum breytingum á deiliskipulagi hafi engar athugasemdir borist við grenndarkynningu. 

Við grenndarkynningu umdeildar deiliskipulagsbreytingar bárust athugasemdir en málið var engu að síður afgreitt á fundi skipulagsfulltrúa með skírskotun til áðurnefndra reglna um embættisafgreiðslur skipulagsstjóra.  Þrátt fyrir eftirgrennslan hefur ekki verið leitt í ljós að umrædd afgreiðsla hafi hlotið staðfestingu. 

Samkvæmt framangreindu brast skipulagsfulltrúa heimild til lokaafgreiðslu málsins og hefur það því ekki fengið fullnaðarafgreiðslu að lögum.  Með vísan til þess að hin kærða ákvörðun hefur formlega tekið gildi með opinberri auglýsingu í Stjórnartíðindum verður niðurstaðan sú að fella hana úr gildi. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð: 

Hin kærða ákvörðun skipulagsfulltrúa Reykjavíkur frá 25. apríl 2008, um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Skildinganess, er felld úr gildi. 

______________________________
Ásgeir Magnússon

______________________________        ___________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                   Aðalheiður Jóhannsdóttir

62/2009 Gunnarssund

Með

Ár 2009, fimmtudaginn 8. október, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 62/2009, kæra á samþykki skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðar frá 7. júlí 2009 fyrir breytingu á deiliskipulagi miðbæjar Hafnarfjarðar er tók til lóðarinnar að Gunnarssundi 9 og á ákvörðunum skipulags- og byggingarfulltrúa bæjarins frá 8. júlí og 19. ágúst 2009 um að veita byggingarleyfi fyrir niðurrifi húss og nýbyggingu í þess stað á lóðinni. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 13. september 2009, er barst nefndinni hinn 14. sama mánaðar, kæra H og E, Gunnarssundi 10, Hafnarfirði, samþykki skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðar frá 7. júlí 2009 fyrir breytingu á deiliskipulagi miðbæjar Hafnarfjarðar er tók til lóðarinnar að Gunnarssundi 9 og ákvarðanir skipulags- og byggingarfulltrúa bæjarins frá 8. júlí og 19. ágúst 2009 um að veita byggingarleyfi fyrir niðurrifi húss og nýbyggingu í þess stað á lóðinni. 

Gera kærendur þá kröfu að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi og að kveðinn verði upp bráðabirgðaúrskurður um stöðvun framkvæmda samkvæmt hinum kærðu byggingarleyfum á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.  Þykja nú nægilegar upplýsingar liggja fyrir til þess að málið verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfu kærenda. 

Málavextir:  Hinn 7. apríl 2009 var tekin fyrir í skipulags- og byggingarráði Hafnarfjarðar fyrirspurn eiganda fasteignarinnar að Gunnarssundi 9 um hvort leyft yrði að byggja nýtt hús á lóðinni í stað húss þess sem fyrir var.  Á fundi sínum hinn 12. maí 2009 lýsti ráðið sig jákvætt gagnvart erindinu en þá lágu fyrir umsagnir Byggðasafns Hafnarfjarðar og Húsafriðunarnefndar ríkisins um niðurrif eldra húss.  Á sama fundi var lögð fram tillaga að breytingu á deiliskipulagi miðbæjar Hafnarfjarðar frá árinu 1981 þar sem gert var ráð fyrir nýju einbýlishúsi að Gunnarssundi 9 sem yrði ein hæð og ris.  Samþykkti skipulags- og byggingarráð að grenndarkynna tillöguna sem óverulega breytingu á deiliskipulagi skv. 2. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Að lokinni grenndarkynningu var breytingartillagan tekin fyrir á fundi skipulags- og byggingarráðs hinn 7. júlí 2009 þar sem ráðið samþykkti hana og tók undir fyrirliggjandi svör við þeim þremur athugasemdum er borist höfðu.  Var gildistaka skipulagsbreytingarinnar auglýst í B-deild Stjórnartíðinda hinn 14. ágúst 2009. 

Umsókn um leyfi fyrir niðurrifi húss þess sem stóð á lóðinni að Gunnarssundi 9 var á dagskrá fundar skipulags- og byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar 8. júlí 2009 og var þar samþykkt.  Bæjarráð Hafnarfjarðar staðfesti þá afgreiðslu hinn 13. ágúst 2009 í umboði bæjarstjórnar. 

Á fundi skipulags- og byggingarfulltrúa 19. ágúst 2009 var samþykkt byggingarleyfisumsókn fyrir einnar hæðar bárujárnsklæddu timburhúsi á steyptum sökkli að Gunnarssundi 9.  Sú afgreiðsla var síðan staðfest í bæjarstjórn Hafnarfjarðar hinn 1. september sama ár. 

Hafa kærendur skotið þessum ákvörðunum til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir. 

Málsrök kærenda:  Af hálfu kærenda er á því byggt að hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu hafi verið áfátt að formi og efni til. 

Við grenndarkynningu tillögunnar hafi aðeins komið fram að tilefni hennar væri endurnýjun hússins að Gunnarssundi 9 en þá hafi legið fyrir ráðagerð um byggingu nýs og stærra húss á lóðinni.  Það hljóti að vera skylda byggingaryfirvalda að grenndarkynna teikningar að fyrirhuguðu húsi en sú aðferð sé viðhöfð vegna ýmiss konar framkvæmda sem minni áhrif hafi á umhverfi sitt.  Vegna þessa hafi þeir sem grenndarkynningin hafi náð til illa getað áttað sig á efni breytingarinnar og ekkert tillit hafi verið tekið til þeirra athugasemda sem þó hafi komið fram. 

Þá geti umrædd breyting ekki talist óveruleg.  Í henni felist að nýtingarhlutfall lóðarinnar að Gunnarssundi 9 fari í 0,71 en hámarksnýtingarhlutfall samkvæmt gildandi skipulagi sé 0,45.  Það séu ekki haldbær rök fyrir svo háu nýtingarhlutfalli að nýtingarhlutfall annarra lóða við götuna sé hærra.  Hafa verði í huga að umrædd hús hafi verið byggð löngu fyrir tilurð deiliskipulags svæðisins og hljóti ákvæði þess um hámarksnýtingarhlutfall að hafa verið sett til þess að hindra að í framtíðinni yrðu meiri þrengsli en þá þegar hafi verið orðin. 

Hæð fyrirhugaðs húss að Gunnarssundi 9 muni skerða útsýni, rýmistilfinningu og lífsgæði kærenda sem búi í nokkurra metra fjarlægð frá umræddri lóð.  Þótt vegghæð hins nýja húss verði sú sama og eldra húss verði þak hins nýja nærfellt helmingi hærra, bratt risþak með göflum, í stað lágs valmaþaks.  Þakið, eins og það snúi að kærendum, nánast fjórfaldist að flatarmáli og það litla sem eftir sé af útsýni og fjarsýni hverfi alveg. 

Málsrök Hafnarfjarðar:  Bæjaryfirvöld í Hafnarfirði hafa ekki sent úrskurðarnefndinni umsögn eða athugasemdir vegna kærumálsins en sjónarmið bæjarins koma fram í fyrirliggjandi svörum við framkomnum athugasemdum við kynningu umdeildrar skipulagsákvörðunar. 

Bent er á að gildandi skilmálar deiliskipulags miðbæjar Hafnarfjarðar fyrir reiti 15 og 16, sem eru við Gunnarssund, kveði á um að nýtingarhlutfall einstakra lóða verði mest 0,45 og flatarnýting 0,25.  Núverandi nýtingarhlutfall lóða á reit 16, sem Gunnarssund 9 tilheyri, sé 0,85 og á reit 15 sé það 1,15.  Meðalflatarnýting lóða á reitunum sé 0,41 og 0,32.  Markmið skipulagsins hafi ekki verið að lækka nýtingarhlutfall þegar byggðra lóða heldur að leyfa stækkun húsa á reitunum sem væru innan ofangreindra marka.  Í skilmálunum segi ennfremur að húsgerð sé kjallari, hæð og ris með 35° – 45° þakhalla. 

Hin kærða deiliskipulagsbreyting hafi verið talin óveruleg þar sem hún sé í anda gildandi skipulags.  Flatarnýting verði nánast óbreytt, nýtingarhlutfall lægra en á öðrum lóðum við Gunnarssund ofan Austurgötu, húsgerð verði í samræmi við gildandi skipulagsskilmála og þakhalli innan marka skilmálanna.  Ekki sé um að ræða grundvallarbreytingu á landnotkun, byggðamynstri eða yfirbragði svæðisins. 

Grenndarkynning hafi lotið að skipulagsbreytingu en ekki byggingarleyfi en form fyrirhugaðrar nýbyggingar að Gunnarssundi 9 hafi komið fram á kynntum uppdrætti og gerðar séu kröfur um að nýbyggingin verði í samræmi við gildandi skipulagsskilmála.  Breytingin muni bæta götumynd Gunnarssunds og sé vegghæð fyrirhugaðs húss ekki meiri en eldra húss á lóðinni og muni það hafa óveruleg áhrif á útsýni frá fasteign kærenda.  Leyfi til niðurrifs eldra húss á lóðinni hafi verið veitt að fengnu samþykki Húsafriðunarnefndar. 

Andmæli byggingarleyfishafa:  Af hálfu byggingarleyfishafa er tekið fram að upphaflega hafi verið áætlað að gera við og endurbyggja húsið að Gunnarssundi 9.  Með hliðsjón af ástandskönnun hússins, sem byggt hafi verið í mörgum áföngum úr mismunandi byggingarefnum, hafi þótt hagfelldara að reisa nýtt hús á lóðinni. 

Eldra hús sé ein hæð og kjallari, 119,9 m² að stærð samkvæmt uppmælingu, og sé nýtingarhlutfall lóðar 0,69 og flatarnýting 0,44.  Samkvæmt hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu og samþykktum byggingarnefndarteikningum að nýju húsi sé fyrirhugað einbýlishús innan upphaflegs byggingarreits með óbreyttum 75 m² grunnfleti.  Húsið verði hæð og portbyggt ris með mænisþaki með 40° halla og gólf fyrstu hæðar verði lækkað um 80 cm.  Húsið með 5,4 m² útigeymslu verði 134,7 m² og nýtingarhlutfall lóðar 0,67 að teknu tilliti til 25,5 m² lóðarstækkunar.  Af þessu sé ljóst að nýtingarhlutfall lóðar verði nánast það sama við umdeildar breytingar en flatarnýting lækki í 0,37.  Þá muni nýtt hús, gagnstætt hinu eldra, verða í samræmi við upphaflega skipulagsskilmála hvað húsgerð og þakhalla varði og verði í betra samræmi við önnur hús í götunni hvað form, stærðarhlutföll og byggingarefni snerti. 

Niðurstaða:  Hið kærða byggingarleyfi, sem skipulags- og byggingarfulltrúi veitti hinn 8. júlí 2009 og bæjarráð Hafnarfjarðar staðfesti 13. ágúst sama ár, fól einungis í sér heimild til niðurrifs húss þess sem stóð á lóðinni að Gunnarssundi 9 í Hafnarfirði og hefur það nú þegar verið rifið. 

Niðurrif mannvirkja eru framkvæmdir sem almennt fela, eðli máls samkvæmt, ekki í sér röskun á grenndarhagsmunum eða öðrum lögvörðum hagsmunum tengdum nágrannaeignum, en að stjórnsýslurétti verða aðilar að kærumáli að eiga lögvarinna hagsmuna að gæta um úrslit máls.  Ekki liggur fyrir að niðurrif eldra húss að Gunnarssundi 9 raski verulegum lögvörðum hagsmunum kærenda í máli þessu með þeim hætti að þeir teljist eiga kæruaðild um þá ákvörðun og verður þeim þætti kærumáls þessa því vísað frá úrskurðarnefndinni í samræmi við ákvæði 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.

Með hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu og leyfi til nýbyggingar var heimilað að reisa nýtt hús á lóðinni að Gunnarssundi 9 í Hafnarfirði sem yrði litlu stærra að flatarmáli en hús það sem fyrir var á lóðinni og byggt var á árinu 1916 auk síðari viðbygginga.  Nýbyggingin yrði um 1,7 m hærri en eldra hús vegna breytts þakforms sem þó er í samræmi við gildandi skilmála deiliskipulags svæðisins.  Hin kærða deiliskipulagsbreyting og byggingarleyfi fyrir nýbyggingu að Gunnarssundi 9 víkja frá eldri skilmálum gildandi deiliskipulags um nýtingarhlutfall fyrir reit 16, sem hér á við, auk þess sem byggingarreitur er markaður fyrir útigeymslu, 2,0×3,5 m að stærð.  Fyrir breytingu gat nýtingarhlutfall mest orðið 0,45 en með hinni kærðu skipulagsbreytingu er heimilað að nýtingarhlutfall lóðarinnar að Gunnarssundi 9 sé 0,71.

Ákvæði í fyrirliggjandi skilmálum deiliskipulags svæðisins um nýtingarhlutfall lóða á umræddum reit hljóðar svo:  „Nýtingarhlutfall einstakra lóða á reit sé mest N-0,45.“  Engin afstaða er þar tekin til þegar byggðra lóða þótt fyrir liggi að nýtingarhlutfall þeirra hafi verið mun hærra en greint ákvæði skipulagsins kvað á um við gildistöku þess.  Eftir orðanna hljóðan verður ákvæðið ekki skilið á annan veg en þann að öll byggingarleyfi fyrir framkvæmdum á skipulagsreitnum sem veitt yrðu eftir gildistöku skipulagsins þyrftu að vera innan þeirra marka sem nýtingarhlutfalli var sett, hvort sem um væri að ræða byggðar eða óbyggðar lóðir.  Engin gögn hafa komið fram er tengjast gerð umrædds deiliskipulags sem gefið gætu tilefni til rýmri túlkunar að þessu leyti.

Samkvæmt framansögðu verður ekki fallist á að umdeild deiliskipulagsbreyting hafi aðeins falið í sér óverulega breytingu á deiliskipulagi þar sem heimilað nýtingarhlutfall lóðarinnar að Gunnarssundi 9 var hækkað úr 0,45 í 0,71.  Skorti því lagaskilyrði fyrir því að fara með breytinguna samkvæmt undantekningarákvæði 2. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga.  Verður að ógilda hina kærðu deiliskipulagsbreytingu vegna þessa annmarka á málsmeðferð. 

Að þessari niðurstöðu fenginni skortir hið kærða leyfi fyrir nýbyggingu að Gunnarssundi 9 stoð í gildandi deiliskipulagi og ber því að fella það úr gildi í samræmi við 2. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga. 

Úrskurðarorð:

Kröfu um ógildingu byggingarleyfis fyrir niðurrifi húss að Gunnarssundi 9 í Hafnarfirði, sem skipulags- og byggingarfulltrúi veitti hinn 8. júlí 2009 og bæjarráð Hafnarfjarðar staðfesti 13. ágúst sama ár, er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

Ákvörðun skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðar frá 7. júlí 2009 um breytingu á deiliskipulagi miðbæjar Hafnarfjarðar, er tók til lóðarinnar að Gunnarssundi 9, er felld úr gildi. 

Byggingarleyfi fyrir nýbyggingu á lóðinni að Gunnarssundi 9 í Hafnarfirði, er skipulags- og byggingarfulltrúi bæjarins samþykkti hinn 19. ágúst 2009 og staðfest var í bæjarstjórn hinn 1. september sama ár, er fellt úr gildi.

______________________________
Hjalti Steinþórsson

_______________________________      ______________________________
Ásgeir Magnússon                                           Þorsteinn Þorsteinsson

52/2008 Álftanes, miðbær

Með

Ár 2009, fimmtudaginn 24. september, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 52/2008, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Álftaness frá 26. júní 2008 um að samþykkja nýtt deiliskipulag fyrir miðbæ Álftaness. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 28. júlí 2008, er barst nefndinni hinn 29. sama mánaðar, kærir G, Hákotsvör 5, Álftanesi, þá ákvörðun bæjarstjórnar Álftaness frá 26. júní 2008 að samþykkja nýtt deiliskipulag fyrir miðbæ Álftaness.  Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. 

Úrskurðarnefndinni hafa jafnframt borist 12 kærur mótteknar á tímabilinu 29. júlí til 5. ágúst 2008, þar sem 36 íbúar við Suðurtún, Hólmatún, Norðurtún, Túngötu, Vesturtún, Ásbrekku og Asparholt á Álftanesi kæra fyrrgreinda deiliskipulagsákvörðun.  Málatilbúnaður kærenda í þeim kærumálum er á sömu lund og í máli þessu og verða kærumálin, sem eru nr. 58-67 og 69-70/2008, því sameinuð því. 

Málavextir:  Á árinu 2007 samþykkti bæjarstjórn Álftaness að auglýsa breytingu á svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins.  Í auglýsingu um kynningu tillögunnar kom fram að hún tæki til „taflna 3.1 og 3.2, svæði 24, Sveitarfélagið Álftanes (áður Bessastaðahreppur).“  Í henni fólst að í lok skipulagstímabilsins árið 2024 yrði íbúafjöldi kominn í um 3.850 manns og að íbúðir yrðu 1.350 í stað 1.080.  Fermetrafjöldi atvinnuhúsnæðis yrði 48.000 í stað 28.000 og gert væri ráð fyrir 15.000 fermetrum undir verslunar- og skrifstofuhúsnæði og 26.000 fermetrum undir sérhæfðar byggingar.  Samhliða var auglýst breyting á Aðalskipulagi Álftaness 2005 – 2024, nýtt deiliskipulag fyrir miðsvæði Álftaness, er nefnt var grænn miðbær á Álftanesi, og breytingar á deiliskipulagi skóla- og íþróttasvæðis, Suðurtúns og Breiðumýrar og norðanverðs Sviðholts.  Fólu skipulagstillögur þessar m.a. í sér breytingar á landnotkun, samgöngumannvirkjum og mörkum deiliskipulagssvæða. 

Umhverfisráðherra staðfesti svæðisskipulagsbreytinguna hinn 28. janúar 2008 og tók breytingin gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda hinn 13. febrúar sama ár.  Aðalskipulagsbreytingin fékk staðfestingu ráðherra hinn 29. apríl 2008 og tók sú breyting gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 15. maí 2008.  Hin kærða deiliskipulagsákvörðun tók síðan gildi hinn 2. júlí 2008 með birtingu auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda og hafa kærendur skotið þeirri ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar eins og áður greinir. 

Málsrök kærenda:  Af hálfu kærenda eru annars vegar gerðar athugasemdir við málsmeðferð hinnar umdeildu skipulagstillögu og hins vegar við einstök efnisatriði hennar. 

Bent sé á að hið kærða deiliskipulag raski hagsmunum kærenda og hafi áhrif á búsetuskilyrði á Álftanesi.  Nærfellt helmingur kosningabærra manna í sveitarfélaginu hafi komið að athugasemdum við tillöguna á kynningartíma hennar en þrátt fyrir það hafi ekki verið leitað sátta eða komið fram með tillögur til úrbóta af hálfu bæjaryfirvalda. 

Kynningu skipulagsbreytinganna hafi verið áfátt í ljósi umfangs þeirra og stöðugra breytinga á vinnslutíma og tilkynning til kærenda um kæruleið og kærufrest hafi fyrst borist þeim hinn 14. júlí 2008, eða 12 dögum eftir að gildistökuauglýsing deiliskipulagsins hafi birst í B-deild Stjórnartíðinda.  Gagnrýnt sé hversu auðvelt sé að breyta svæðisskipulagi án aðkomu íbúa viðkomandi bæjarfélags þar sem um sé að ræða grundvöll að breytingum á aðal- og deiliskipulagi.  Áhrif svæðisskipulagsbreytingarinnar kunni að vera óveruleg á höfuðborgarsvæðið en þau séu veruleg gagnvart Álftanesi og kollvarpi gildandi aðalskipulagi sveitarfélagsins.  Þá sé sérkennilegt að svæðisskipulagsbreytingin hafi verið afgreidd frá Skipulagsstofnun til umhverfisráðherra á kynningartíma skipulagstillagnanna og hafi ráðuneytið staðfest svæðisskipulagsbreytinguna hinn 28. janúar 2008, eða fimm dögum eftir að athugasemdafresti vegna svæðis-, aðal- og deiliskipulagstillögunnar hafi lokið. 

Margar athugasemdir við hina kærðu deiliskipulagsákvörðun hafi lotið að því að um grundvallarbreytingu væri að ræða, en í andsvörum bæjaryfirvalda hafi verið vísað til þess að breytingin byggðist m.a. á samþykktu svæðisskipulagi.  Alvarlegar athugasemdir séu gerðar við þá málsmeðferð að virða athugasemdir íbúa við svæðisskipulagsbreytingu að vettugi og vísa svo til þeirrar breytingar, eftir staðfestingu hennar, sem grundvallar að auglýstri aðal- og deiliskipulagsbreytingu.  Vandséð sé í ljósi þessa hvaða tilgangi það þjóni að auglýsa umdeilda breytingu á aðal- og deiliskipulagi. 

Með hliðsjón af umfangi umdeildra skipulagstillagna sé flýtimeðferð þeirra gagnrýniverð.  Umhverfisskýrsla skipulagsins hafi fengið níu daga umfjöllun hjá Umhverfisstofnun, yfirferð Skipulagsstofnunar á aðalskipulagsbreytingunni hafi tekið sex vikur og afgreiðsla breytingarinnar hjá umhverfisráðuneytinu hafi tekið tvær vikur.  Þessi stutti málsmeðferðartími svo umfangsmikillar breytingar, sem vel á áttunda hundrað íbúa hafi mótmælt, sé með ólíkindum en sambærilegar skipulagstillögur hafi að jafnaði tekið mun lengri tíma hjá þessum stofnunum. 

Í umfangsmiklum andmælum fjölda íbúa við auglýstum breytingum á skipulagi hafi verið gerðar sterkar athugasemdir við breytingar á gatnakerfi bæjarfélagsins er hafi falið í sér að leggja niður Breiðumýri að hluta og leggja nýjan veg sunnan Suðurtúns og skólasvæðis og færslu Norðurnesvegar og Suðurnesvegar í því skyni að auka byggð á miðsvæðinu.  Ætla verði að breytingarnar leiði til mjög mikillar umferðar um nefndan veg sunnan skólasvæðis og Suðurtúns með tilheyrandi áhrifum gagnvart íbúum í nálægum hverfum og ekki sé réttlætanlegt að leggja niður hluta Breiðumýrar til þess að koma fyrir aukinni byggð.  Gatnabreytingarnar séu umdeildar eins og fram komi í umferðarskýrslu sem unnin hafi verið fyrir sveitarfélagið og ekki verði séð að umferðaröryggissjónarmið séu höfð að leiðarljósi við þessar breytingar. 

Þá hafi verið gerðar athugasemdir við áform um mikla aukningu verslunar-, atvinnu- og þjónusturýmis.  Aðkoma íbúa að þessum breytingum hafi ekki verið fyrir hendi þar sem bent hafi verið á að þeir hefðu ekkert með breytingar á svæðisskipulagi að gera en breytingar á aðal- og deiliskipulaginu ættu stoð í þeirri breytingu.  Efnislegum og rökstuddum andmælum íbúa hafi í engu verið sinnt við lokayfirferð deiliskipulagstillögunnar þar sem gatnaskipulagi bæjarfélagsins, sem sátt hafi verið um, sé umbylt. 

Málsrök Sveitarfélagsins Álftaness:  Bæjaryfirvöld benda á að hið kærða deiliskipulag hafi verið unnið eftir verðlaunatillögu um skipulag miðbæjar Álftaness, að aflokinni samkeppni um skipulag svæðisins.  Samhliða auglýsingu deiliskipulagstillögunnar hafi verið auglýst breyting á svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins og aðalskipulagi Álftaness og hafi þær breytingar verið staðfestar og tekið gildi.  Ekki sé talin ástæða til að fjalla um svæðis- og aðalskipulagsbreytingarnar enda falli þær ekki undir úrskurðarvald úrskurðarnefndarinnar. 

Öll málsmeðferð vegna umdeildrar deiliskipulagsbreytingar hafi verið í samræmi við skipulags- og byggingarlög og stjórnsýslulög.  Rannsóknarskyldu sveitarfélagsins hafi verið gætt eins og fyrirliggjandi skýrslur og greinargerðir, er unnar hafi verið í tengslum við deiliskipulagsgerðina, beri með sér, svo sem greinargerð deiliskipulagsins, greinargerð um samgönguskipulag þess og umhverfisskýrsla skipulagsins, auk skýrslu um þær breytingar sem gerðar hafi verið frá auglýstri tillögu. 

Öllum framkomnum athugasemdum hafi verið svarað og hafi með skýrum hætti verið gerð grein fyrir breytingum sem gerðar hafi verið á skipulagstillögunni í því skyni að koma til móts við athugasemdirnar.  Þannig hafi m.a. verið ákveðið að fækka fjölbýlishúsum við Norðurnesveg úr fjórum í þrjú og húsin lækkuð.  Skólavegur hafi verið færður til suðurs um ca. tvo metra fjær núverandi byggð og skólasvæði, auk þess sem gert væri ráð fyrir hraðalækkandi aðgerðum og 30 km hámarkshraða um veginn.  Fallið hafi verið frá staðsetningu bensínstöðvar við gatnamót Skólavegar og Norðurnesvegar til samræmis við breytingu á aðalskipulagi. 

Það sé aldrei svo að hægt sé að verða við öllum athugasemdum er kunni að koma fram við svo viðamiklar breytingar eins og hér um ræði enda hvíli ekki sú skylda á sveitarfélögum.  Hins vegar beri að taka rökstudda afstöðu til framkominna athugasemda við kynningu skipulagstillögu og það sé mat bæjaryfirvalda að svo hafi verið gert við meðferð deiliskipulags græns miðbæjar á Álftanesi. 

———-

Aðilar hafa fært fram ítarlegri rök og sjónarmið í málinu sem ekki verða rakin hér, en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn kærumálsins. 

Niðurstaða:  Samhliða hinni kærðu deiliskipulagsákvörðun voru gerðar breytingar á svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins hvað sveitarfélagið Álftanes varðar og á gildandi aðalskipulagi Álftaness.  Greind svæðis- og aðalskipulagsbreyting sætir staðfestingu umhverfisráðherra sem er æðsti handhafi stjórnsýsluvalds á þessu sviði og verða þær skipulagsákvarðanir því ekki bornar undir úrskurðarnefndina, sbr. 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Verður efni breytts svæðis- og aðalskipulags fyrir Álftanes af þeim sökum lagt til grundvallar í kærumáli þessu. 

Þeir einir geta skotið máli til úrskurðarnefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun skv. 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga og er það í samræmi við þá meginreglu stjórnsýsluréttar að skilyrði aðildar að kærumáli sé að kærandi eigi einstaklegra og verulegra lögvarinna hagsmuna að gæta um úrslit máls.  Þá verður kæra að berast úrskurðarnefndinni innan kærufrests sem er einn mánuður samkvæmt fyrrgreindu lagaákvæði og miðast sá frestur við dagsetningu opinberrar birtingar ákvörðunar þegar um hana er að ræða, sem í umræddu tilfelli var 2. júlí 2008.  Að teknu tilliti til útreiknings frests skv. 8. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 lauk kærufresti vegna hinnar kærðu ákvörðunar hinn 5. ágúst 2008. 

Telja verður að hin umdeilda deiliskipulagsákvörðun, sem m.a. breytir akvegum og uppbyggingu húsnæðis á miðsvæði Álftaness, snerti einstaklega lögvarða hagsmuni þeirra fasteignaeigenda og íbúa í næsta nágrenni, svo sem við Suðurtún.  Verða þeir kærendur sem svo er ástatt um því taldir eiga kæruaðild að máli þessu.  Eins og hér stendur sérstaklega á þykir ekki ástæða til að taka afstöðu til þess, með rannsókn á högum hvers og eins kærenda, hvort hann teljist eiga kæruaðild, enda verður málið allt að einu tekið til efnismeðferðar, en kærur þær sem til meðferðar eru bárust allar innan kærufrests. 

Samkvæmt skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997 er vald til að skipuleggja land innan marka sveitarfélags í höndum sveitarstjórna og annast þær og bera ábyrgð á gerð deiliskipulags, sbr. 2. mgr. 3. gr. og 23. gr. laganna.  Skipulagsvaldið er tæki sveitarstjórnar til að hafa áhrif á og þróa byggð og umhverfi í sveitarfélaginu. 

Hin kærða deiliskipulagsákvörðun hafði nokkurn aðdraganda.  Efnt var til verðlaunasamkeppni um skipulag miðbæjarins og verðlaunatillagan notuð sem grundvöllur deiliskipulagsins.  Fundað var með íbúum um tillöguna, hún auglýst til kynningar lögum samkvæmt, framkomnum athugasemdum svarað og nokkrar breytingar gerðar vegna þeirra.  Sérstakt umferðarskipulag var unnið í tengslum við tillöguna og gert mat á umhverfisáhrifum skipulagsins sem síðar var yfirfarið af Skipulagsstofnum og gildistaka þess auglýst í kjölfarið.  Var málsmeðferð deiliskipulagsins því í samræmi við skipulags- og byggingarlög. 

Með vísan til þess sem framan er rakið og þar sem ekki liggur annað fyrir en að hið kærða deiliskipulag sé í samræmi við gildandi aðalskipulag Álftaness verður ekki fallist á kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunarinnar. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu deiliskipulags fyrir miðbæ Álftaness, er bæjarstjórn samþykkti hinn 26. júní 2008.

___________________________
Hjalti Steinþórsson

______________________________          ______________________________
Ásgeir Magnússon                                             Þorsteinn Þorsteinsson

88/2008 Aspargrund

Með

Ár 2009, mánudaginn 7. september, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 88/2008, kæra eigenda fasteignarinnar að Aspargrund 9 í Kópavogi á ákvörðun byggingarnefndar Kópavogs frá 20. ágúst 2008 um að synja umsókn kærenda um byggingarleyfi fyrir þegar byggðum geymsluskúr á lóð. 

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 1. september 2008, er barst nefndinni 2. sama mánaðar, kæra G og D, eigendur fasteignarinnar að Aspargrund 9 í Kópavogi, þá ákvörðun byggingarnefndar Kópavogs frá 20. ágúst 2008 að synja umsókn þeirra um byggingarleyfi fyrir þegar byggðum geymsluskúr á lóð.  Framangreind ákvörðun var staðfest á fundi bæjarráðs hinn 28. ágúst 2008. 

Kærendur krefjast þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. 

Málavextir:  Á umræddu svæði er í gildi deiliskipulag við Birkigrund sem samþykkt var í bæjarstjórn Kópavogs 22. október 1996.  Samkvæmt greinargerð með deiliskipulaginu er um að ræða fjórar lóðir við nýja húsagötu við Birkigrund í Kópavogi.  Fékk gatan heitið Aspargrund og eru umræddar lóðir nr. 1, 3, 5 og 7 við þá götu.  Samkvæmt skipulaginu var heimilt að reisa á lóðunum einbýlishús á tveimur hæðum en efri hæð skyldi vera portbyggð.  Enginn byggingarreitur er sýndur á umræddum lóðum á skipulagsuppdrættinum en byggingarlína markar á hverri lóð hversu langt til suðurs og austurs bygging má ná.  Hámarks grunnflötur er 180 m² og heildarflatarmál bygginga á lóð 280 m². 

Hinn 27. ágúst 2007 var unnin tillaga að breytingu á umræddu skipulagi sem þá var talið taka einnig til lóðarinnar nr. 9-11 við Aspargrund, en umrædd lóð er á skipulagsuppdrættinum merkt nr. 1a, væntanlega við Birkigrund.  Var gerð breyting á skipulaginu á árinu 2007 er tók til umræddrar lóðar.  Var með henni heimiluð bygging bílskúrs og viðbygging við hús á lóðinni og voru byggingarreitir afmarkaðir fyrir umræddar byggingar en ekki tekin afstaða til þess hvað verða ætti um tvo skúra sem þá munu hafa staðið á umræddri lóð.

Skipulagsbreytingu þessa kærðu íbúar og eigendur fasteigna að Aspargrund 1, 3, 5 og 7 til úrskurðarnefndarinnar, en nefndin hafnaði kröfu þeirra um ógildingu hennar með úrskurði uppkveðnum 19. júní 2008.  

Umsókn um byggingarleyfi fyrir skúr á lóð kærenda barst byggingaryfirvöldum hinn 13. febrúar 2008.  Samkvæmt teikningu sem fylgdi umsókninni er um að ræða garðhús, byggt úr timbri, 13,4 m² að flatarmáli.  Mun skúrinn hafa staðið á lóð kærenda í nokkur ár en upphaflega á öðrum stað en nú er og um er sótt. 

Málið var tekið fyrir á fundi byggingarnefndar 5. mars 2008 og þá vísað til skipulagsnefndar til ákvörðunar um grenndarkynningu.  Á fundi skipulagsnefndar 15. apríl 2008 var samþykkt að senda erindið í kynningu til lóðarhafa að Aspargrund 1, 3, 5, og 7 og Birkigrund 1, 3, 5, og 9a.  Voru nágrönnum send kynningargögn, en ekki er ljóst hvort kynnt var umsókn um byggingarleyfi eða breyting á deiliskipulagi, eða hvort tveggja, en af málsgögnum verður helst ráðið að bæði hafi fylgt kynningarbréfinu byggingarnefndarteikningar að skúrnum og tillöguuppdráttur að breyttu deiliskipulagi þar sem sýndur er byggingarreitur fyrir skúrinn.  Stóð kynningin frá 16. maí til 16. júní 2008.  Lóðarhafar við Aspargrund 1, 3, 5 og 7 skiluðu inn sameiginlegum athugasemdum þar sem því var meðal annars haldið fram að skúrinn væri stærri en fram kæmi í umsókninni og gerðar voru athugasemdir við að ekki hefði verið getið um skúrinn þegar sótt hefði verið um stækkun íbúðarhúss og byggingu bílskúrs nokkru áður.  Einnig töldu nágrannar það í andstöðu við byggingarreglugerð að byggja fyrst hús, flytja það til eftir þörfum og sækja um leyfi mörgum árum síðar. 

Í framhaldi af grenndarkynningu gerði bæjarskipulag Kópavogs umsögn um breytingu á deiliskipulagi fyrir Aspargrund 9 og var hún lögð fyrir fund skipulagsnefndar 1. júlí 2008. Niðurstaða umsagnarinnar er að:  „Á skilgreindum byggingarreitum skv. deiliskipulagi lóðarinnar er ekki gert ráð fyrir frekari byggingum en þegar hafa verið samþykktar. Komi fram ósk um það frá lóðarhöfum við Aspargrund að leyfi verði veitt til að staðsetja garðhús á lóðunum, sé fjallað um það sérstaklega og þá með samræmingu útfærslu allra lóða við Aspargrund.“  Á fundinum hafnaði nefndin erindinu fyrir sitt leyti á grundvelli fyrrnefndrar umsagnar.  Staðfesti bæjarráð þá afgreiðslu á fundi sínum hinn 10. júlí 2008. 

Málið var tekið fyrir að nýju í byggingarnefnd þann 16. júlí 2008.  Þar var byggingarfulltrúa falið að tilkynna kærendum að til skoðunar væri að hafna umsókn þeirra um byggingarleyfi á grundvelli afgreiðslu skipulagsnefndar og vegna innsendra athugasemda og gefa þeim kost á að gæta andmælaréttar. 

Andmæli kærenda bárust 18. ágúst 2008 og var málið tekið fyrir að nýju á fundi byggingarnefndar 20. ágúst 2008.  Þar var erindinu synjað og óskað eftir því að skúrinn yrði fluttur burt af lóðinni.  Kærendum var tilkynnt um niðurstöðuna með bréfi, dags. 6. ágúst 2008, en ráða má af fundargerð byggingarnefndar að ákvörðunin hafi ekki verið tekin fyrr en 20. ágúst 2008, eftir að andmæli kærenda höfðu borist.  Hafa bæjaryfirvöld upplýst að dagsetning bréfs þeirra til kærenda hafi verið misrituð og hafi bréfið ekki verið sent fyrr en eftir afgreiðslu byggingarnefndar hinn 20. ágúst 2008. 

Kærendur vildu ekki una framangreindri niðurstöðu og skutu því málinu til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir. 

Málsrök kærenda:  Kærendur taka fram að eflaust hefði verið eðlilegt að fjalla um garðskúrinn um leið og fjallað var um byggingu bílskúrs og stækkun á íbúðarhúsnæði.  Skúrinn hafi staðið á lóðinni síðastliðin átta ár og hafi verið ómetanleg geymsla fyrir eigendur Aspargrundar 9.  Garðurinn að Aspargrund 9 sé fallegur og í mikilli rækt og séu garðáhöld og garðhúsgögn geymd í skúrnum.  Ef skúrinn væri ekki fyrir hendi þyrftu kærendur að nota bílskúrinn sem geymslu og yrði þá síður hægt að geyma þar bíl, en það væri nágrönnum til óhagræðis. 

Íbúar að Aspargrund 1, 3, 5 og 7 virðist vera ósáttir við skilgreindan byggingarreit á lóð Aspargrundar 9.  Þeir hafi ekki eins stórar lóðir og kærendur og þar af leiðandi ekki sömu tækifæri til að gera breytingar.  Nægt lóðarrými sé fyrir garðskúrinn að Aspargrund 9.  Hann sé færanlegur og ef staðsetningin fari fyrir brjóstið á nágrönnum sé auðvelt að færa hann innar í lóðina. 

Á deiliskipulagsuppdrætti fyrir Aspargrund 1, 3, 5 og 7 séu skilgreind ytri mörk mögulegrar stækkunar kringum hús út frá stærð lóða.  Það þurfi því ekki grenndarkynningu ef stækkun sé innan þessara marka, sbr. nýlegar framkvæmdir að Aspargrund 7.  Hins vegar virðist gilda aðrar reglur fyrir eigendur Aspargrundar 9 og hljóti það að vera brot á jafnræðisreglu. 

Varla geti skipt máli hvort skúrinn sé einum fermetra stærri eða minni.  Byggingarfulltrúi hafi mælt hann og því liggi fyrir réttar upplýsingar um stærð hans.  Skúrinn varpi hvorki skugga á lóðir nágranna né skerði birtu eða útsýni.  Vegna girðingar og gróðurs á lóð sé skúrinn lítt áberandi. 

Því sé hafnað að ítrekað hafi verið óskað eftir því að skúrinn yrði fjarlægður.  Engin rök hafi komið fram um að aðrir íbúar við götuna verði fyrir einhverjum skaða af umræddum skúr. 

Í ljósi framanritaðs beri að ógilda hina kærðu ákvörðun. 

Málsrök Kópavogsbæjar:  Kópavogsbær telur að rétt hafi verið að hafna umsókn kærenda og byggir það helst á því að staða garðskúrs á lóðinni sé í andstöðu við gildandi skipulag og að breyting á skipulagi til þess að heimila stöðu skúrsins væri í óþökk nágranna og í ósamræmi við skipulag lóða í nágrenninu.  Telja verði að skúr sem þessi þurfi byggingarleyfi og þurfi að vera í samræmi við gildandi deiliskipulag, sbr. 1. og 2. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, enda séu byggingar sem þessar ekki sérstaklega undanskyldar í lögunum. 

Kópavogsbær telji afgreiðslu bæjarins á ofangreindri umsókn um byggingarleyfi bæði formlega og efnislega rétta og geri þá kröfu að úrskurðarnefndin hafni framkominni kæru og staðfesti ákvörðun bæjarins um synjun byggingarleyfis. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er kærð ákvörðun byggingarnefndar Kópavogs frá 20. ágúst 2008 um að synja umsókn kærenda um byggingarleyfi fyrir þegar byggðum geymsluskúr á lóð.  Var umsókninni vísað til skipulagsnefndar til ákvörðunar um grenndarkynningu á fundi byggingarnefndar hinn 5. mars 2008 og verður að ætla að sú ákvörðun hafi stuðst við 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. 

Bókanir skipulagsnefndar um erindið hafa yfirskriftina „Aspargrund 9, breytt deiliskipulag“.  Ákvað nefndin að senda erindið í grenndarkynningu og virðist m.a. hafa verið kynntur uppdráttur að breyttu deiliskipulagi fyrir lóðina nr. 9-11 við Aspargrund þar sem sýndur var byggingarreitur fyrir umræddan skúr.  Hafnaði skipulagsnefnd síðan erindinu með vísan til umsagnar bæjarskipulags.  Virðist málinu eftir það hafa verið vísað aftur til byggingarnefndar. 

Byggingarnefnd tilkynnti kærendum að til skoðunar væri að hafna umsókn þeirra á grundvelli afgreiðslu skipulagsnefndar og vegna innsendra athugasemda og var kærendum gefinn kostur á að neyta andmælaréttar samkvæmt 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Synjaði nefndin síðan umsókn kærenda á fundi sínum hinn 20. ágúst 2008, en þá höfðu henni borist andmæli kærenda. 

Samkvæmt 2. mgr. 39. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 er byggingarnefnd skylt að rökstyðja afgreiðslur á erindum sem henni berast.  Leiðir af eðli máls að rökstuðningur þarf jafnframt að vera haldbær.  Í máli þessu færði byggingarnefnd ekki fram rök fyrir niðurstöðu sinni er hún tók hina kærðu ákvörðun og engin afstaða var heldur tekin til andmæla kærenda.  Hins vegar verður ráðið af fyrri tilkynningu nefndarinnar til kærenda að synjun hennar hafi verið byggð á afgreiðslu skipulagsnefndar og innsendum athugasemdum og verður að telja að með því hafi nefndin teflt fram rökum sínum í málinu. 

Afgreiðsla skipulagsnefndar, sem byggingarnefnd vísar til, var byggð á umsögn bæjarskipulags um innsendar athugasemdir.  Umræddri umsögn er hins vegar að því leyti áfátt að ekki fær staðist að hafna tillögu um nýjan byggingarreit fyrir skúr á lóð með þeim rökum að á skilgreindum byggingarreitum samkvæmt deiliskipulagi lóðarinnar sé ekki gert ráð fyrir frekari byggingum en þegar séu samþykktar.  Leiða slík rök til þess að almennt sé ekki hægt að breyta deiliskipulagi að þessu leyti þar sem byggingarreitir hafi verið afmarkaðir.  Á sú niðurstaða sér enga stoð í lögum.  Í umsögn bæjarskipulags er jafnframt tekið fram að komi fram ósk um það frá lóðarhöfum við Aspargrund að leyfi verði veitt fyrir garðhúsum á lóðum þurfi að fjalla um það sérstaklega og þá með samræmdri útfærslu fyrir allar lóðir við Aspargrund.  Við þessa staðhæfingu er það að athuga að vandséð er að ekki hafi verið unnt að taka afstöðu til erindis kærenda án þess að breytt skipulag tæki jafnframt til annarra lóða, enda eru aðstæður ólíkar, m.a. vegna þess að á lóðum nr. 1, 3, 5 og 7 við Aspargrund eru byggingarreitir opnir og byggingarheimildir skipulags ekki að fullu nýttar, svo og vegna þess að umtalverður munur er á nýtingarhlutfalli lóða á svæðinu.  Loks er þess að gæta að ekki var tekin afstaða til skúra sem fyrir voru á lóðinni nr. 9-11 við Aspargrund þegar unnið var deiliskipulag fyrir lóðina, svo sem rétt hefði verið, sbr. 5. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Hefði bæjaryfirvöldum verið rétt að taka mið af því við afgreiðslu á erindi kærenda. 

Auk þess að vísa til afgreiðslu skipulagsnefndar vísar byggingarnefnd einnig til innsendra athugasemda.  Um þær er það að segja að hvergi kemur fram af hálfu nágranna með hvaða hætti umræddur skúr skerði hagmuni þeirra.  Er ljóst að skúrinn varpar hvorki skugga á lóðir nágranna né skerðir útsýni enda lúta athugasemdir þeirra  fyrst og fremst að málsmeðferð.  Verður ekki séð að athugasemdirnar hafi átt að ráða úrslitum um niðurstöðu málsins enda var byggingarnefnd ekki bundin af þeim. 

Samkvæmt framansögðu er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að hin kærða ákvörðun byggingarnefndar hafi ekki verið studd haldbærum rökum og að því hafi ekki verið fullnægt skilyrði 2. mgr. 39. gr. skipulags- og byggingarlaga við afgreiðslu málsins.  Beri því að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarnefndar Kópavogs frá 20. ágúst 2008 um að synja umsókn kærenda um byggingarleyfi fyrir þegar byggðum geymsluskúr á lóð nr. 9. við Aspargrund. 

______________________________
Hjalti Steinþórsson

______________________________            _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                Þorsteinn Þorsteinsson

57/2007 Borgarbraut

Með

Ár 2009, þriðjudaginn 28. júlí, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 57/2007, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Borgarbyggðar frá 8. mars 2007 um að samþykkja deiliskipulag fyrir Borgarbraut 55, 57 og 59 í Borgarnesi, Borgarbyggð. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 8. júní 2007, er barst nefndinni hinn 11. sama mánaðar, kærir A, Kveldúlfsgötu 2a, Borgarnesi, þá ákvörðun sveitarstjórnar Borgarbyggðar frá 8. mars 2007 að samþykkja deiliskipulag fyrir Borgarbraut 55, 57 og 59 í Borgarnesi, Borgarbyggð.  Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. 

Málavextir:  Síðla árs 2005 lögðu lóðarhafar Borgarbrautar 59 fram deiliskipulagstillögu fyrir lóðina sem bæjarstjórn Borgarbyggðar samþykkti að auglýsa eftir að breytingar höfðu verið gerðar á henni sem umhverfis- og skipulagsnefnd lagði til.  Samhliða var samþykkt að breyta aðalskipulagi varðandi lóðirnar að Borgarbraut  55, 57 og 59.  Á árinu 2006 var gerð breyting á Aðalskipulagi Borgarbyggðar 1997-2017, sem fól í sér breytta landnotkun fyrrgreindra lóða úr verslunar- og þjónustusvæði í blandaða byggð fyrir verslun, þjónustu, stofnanir og íbúðarbyggð.  Jafnframt var leyfilegt nýtingarhlutfall svæðisins hækkað úr 1,0 í 1,5.  Tók aðalskipulagsbreytingin gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda hinn 8. mars 2006. 

Eftir kynningu og samþykkt á deiliskipulagstillögu lóðarhafa Borgarbrautar 59 var ákveðið með hliðsjón af ábendingum Skipulagsstofnunar að auglýsa nýja skipulagstillögu er tók til lóðanna að Borgarbraut 55, 57 og 59.  Afmarkast reiturinn af Borgarbraut í austur, Kveldúlfsgötu í norður, Kjartansgötu í vestur og lóðarmörkum íbúðarhúss við Kjartansgötu og Klapparholt í suður.  Gerði tillagan m.a. ráð fyrir sameiningu lóðanna að Borgarbraut 55 og 57 sem yrði 3.882 m² að stærð en lóðin að Borgarbraut 59 yrði 3.050 m².  Hámarksnýtingarhlutfall lóðanna skyldi vera 1,15.  Að Borgarbraut 55-57 yrði heimilt að reisa fimm hæða hús með efstu hæð inndregna á allar hliðar.  Hámarksvegghæð væri 12,5 m og skyldi þak ekki vera hærra en einn metra yfir efri brún efstu hæðar.  Gert var ráð fyrir 30 íbúðum í húsinu af mismunandi stærðum.  Að Borgarbraut 59 var gert ráð fyrir sex hæða húsi með atvinnustarfsemi á fyrstu hæð en íbúðum á efri hæðum.  Hámarksvegghæð skyldi ekki fara yfir 18,5 m og þak ekki rísa hærra en einn metra frá efri brún efstu hæðar.  Gert var ráð fyrir 30 íbúðum í húsinu af mismunandi stærðum. 

Athugasemdir bárust við tillöguna á kynningartíma hennar, m.a. frá kæranda, en sveitarstjórn samþykkti hana hinn 8. mars 2007 með tilteknum breytingum.  Fólu þær m.a. í sér lækkun hámarksvegghæðar húss að Borgarbraut 59 úr 18,5 m í 17,9 m og hámarksvegghæð fyrstu fjögurra hæða húss að Borgarbraut 55-57 skyldi lækka úr 12,5 m í 11,9 m og hámarkshæð þess úr 15,5 m í 15,1 m.  Tók deiliskipulagið gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda hinn 16. maí 2007 að undangenginni yfirferð tillögunnar af hálfu Skipulagsstofnunar lögum samkvæmt. 

Skaut kærandi greindri skipulagsákvörðun til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir. 

Málsrök kæranda:  Af hálfu kæranda er vísað til þess að málsmeðferð hins kærða skipulags hafi verið ábótavant.  Gögn um skuggavarp, vindálag, umferðartölur og snið- og rúmmyndir, sem sýndu hlutföll fyrirhugaðra bygginga við núverandi byggð, hafi ekki legið fyrir á kynningartíma tillögunnar.  Þá hafi ekkert samráð verið haft við eigendur og íbúa nærliggjandi húsa við skipulagsferlið.  Telji kærandi að við hina kærðu ákvörðun hafi því hvorki verið gætt markmiða 1. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 um réttaröryggi borgaranna við skipulagsgerð né ákvæða 4. mgr. 9. gr. laganna um samráð. 

Engin rök hafi verið færð fram fyrir þrengingu hluta Kjartansgötu við Borgarbraut 59 en ætla megi að sú ráðstöfun sé einungis gerð í þeim tilgangi að stækka nefnda lóð svo hún rúmi fyrirhugaðra byggingu.  Þrengingin gæti valdið vandkvæðum til framtíðar litið í ljósi fyrirhugaðra blokkarbygginga við enda götunnar.  Þá stangist á rök fyrir þrengingu Borgarbrautar meðfram skipulagsreitnum þar sem annars vegar sé stefnt að lækkun umferðarhraða en hins vegar þess getið að Borgarbraut sé megin umferðaræð Borgarness. 

Ljóst sé að hæð fyrirhugaðra bygginga muni skerða útsýni frá nágrannafasteignum en jafnframt veita útsýni úr íbúðum bygginganna yfir nærliggjandi lóðir.  Þá sé hætt við að miklir sviptivindar geti verið kringum svo háar byggingar sem hér um ræði en engar tölur eða rannsóknir liggi fyrir um það atriði. 

Af framansögðu sé ljóst að hið kærða deiliskipulag feli í sér óþægindi fyrir íbúa nærliggjandi húsa og sé stílbrot við þá byggð sem fyrir sé. 

Málsrök Borgarbyggðar:  Af hálfu Borgarbyggðar er því haldið fram að hið kærða deiliskipulag hafi fengið lögmæta málsmeðferð og sé í samræmi við gildandi aðalskipulag. 

Í október 2005 hafi verið haldinn fjölmennur íbúafundur í Borgarnesi um skipulagsmál og hvert stefna skyldi í þeim efnum og hafi niðurstöður þess fundar verið kynntar á íbúafundi í desember sama ár.  Þá hafi verið haldinn kynningarfundur með íbúum í janúar 2006 um deiliskipulagstillögu varðandi lóðina að Borgarbraut 59 sem þá hafi legið fyrir.  Fleiri fundir hafi verið haldnir með íbúum um hugmyndir að skipulagi fyrir miðsvæði Borgarness þar sem lagðar hafi verið fram sniðmyndir með hliðsjón af áðurgreindri deiliskipulagstillögu sem og skuggavarpsteikningar vegna fyrirhugaðrar byggingar.  Við útfærslu skipulagstillögunnar fyrir Borgarbraut 55-57 og 59 hafi verið komið til móts við athugasemdir íbúa, m.a. með færslu byggingarreita að Borgarbraut og með því að megin aðkoma lóðanna verði frá Borgarbraut ásamt því að bílageymsla að Borgarbraut 59 verði öll neðanjarðar.  Vegna framkominna athugasemda á kynningartíma hinnar umdeildu skipulagstillögu hafi verið aflað frekari gagna um ætlað skuggavarp og sniðmyndir og þau kynnt á íbúafundi hinn 29. janúar 2007.  Jafnframt hafi athugasemdafrestur vegna skipulagstillögunnar verið lengdur um sjö daga.  Deiliskipulagið sé í samræmi við markmið aðalskipulags um þéttingu byggðar og eflingu miðsvæðis Borgarness. 

Ekki sé fallist á að fyrirhugaðar byggingar séu í ósamræmi við nærliggjandi byggð en benda megi á að í nágrenni þeirra að Borgarbraut 65 sé 18,6 m hátt hús.  Útsýnisskerðing og sjónræn áhrif verði ekki meiri en búast megi við á miðsvæði í þéttbýli.  Um sé að ræða sex hæða byggingar með efstu hæð Borgarbrautar 55-57 inndregna og muni skuggavarp ekki hafa teljandi áhrif þegar litið sé til staðsetningar fyrirhugaðra bygginga.  Ekki sé tíðkað að meta vindálag sérstaklega vegna húsa af umræddri hæð sem séu fjölmörg á Íslandi.  Umferð verði ekki að marki meiri en fylgt hafi fyrri landnotkun umræddra lóða og leitast sé við að draga úr umhverfisáhrifum hennar með þrengingu gatna og lækkun umferðarhraða. 

Loks sé skírskotað til þess að sveitarstjórn hafi gert breytingar að lokinni kynningu skipulagstillögunnar til að koma til móts við framkomnar athugasemdir.  Þannig hafi hámarkshæð húsa verið lækkuð og dregið úr fyrirhugaðri þrengingu gatna við skipulagssvæðið. 

Niðurstaða:  Með hinni kærðu ákvörðun var svæði við Borgarbraut deiliskipulagt að undangenginni breytingu á aðalskipulagi Borgarbyggðar er tók til umrædds svæðis.  Í greinargerð deiliskipulagsins er þess getið að á svæðinu við Borgarbraut, þar sem þjóðvegur 1 tengist byggðinni, hafi myndast vísir að miðbæ og sé nýjum byggingum við Borgarbraut ætlað að vera þungamiðja í þeim miðbæ.  Þá sé með skipulaginu stefnt að þéttingu byggðar þar sem rými til athafna fari óðum minnkandi bænum. 

Samkvæmt skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997 er vald til að skipuleggja land innan marka sveitarfélags í höndum sveitarstjórna og annast þær og bera ábyrgð á gerð deiliskipulags, sbr. 2. mgr. 3. gr. og 23. gr. laganna.  Skipulagsákvarðanir eru tæki sveitarfélags til þess að móta byggð innan síns umdæmis, m.a. með ákvörðun um landnotkun, tilhögun byggðar og húsagerðir.  Við beitingu skipulagsvalds ber að fylgja markmiðum skipulags- og byggingarlaga sem tíunduð eru í 1. gr. þeirra, en þar er m.a. kveðið á um að réttur einstaklinga og lögaðila skuli ekki fyrir borð borinn þótt hagur heildarinnar sé hafður að leiðarljósi.  Lögin gera þó ráð fyrir að með skipulagsákvörðun geti lögvörðum hagsmunum aðila verið raskað þar sem þeim er tryggður bótaréttur í 33. gr. laganna, valdi skipulagsákvörðun fjártjóni. 

Telja verður að með hinni umdeildu deiliskipulagsákvörðun sé stefnt að lögmætum skipulagsmarkmiðum.  Er landnotkun og fyrirhuguð byggð í samræmi við gildandi aðalskipulag.  Skipulagshugmyndir fyrir svæðið voru kynntar á íbúafundum og skipulagstillagan auglýst til kynningar lögum samkvæmt.  Kærandi kom að athugasemdum sínum við tillöguna og var þeim athugasemdum svarað af hálfu sveitarfélagsins auk þess sem sérstakur kynningarfundur var haldinn á kynningartíma vegna ábendinga kæranda þar sem fyrir lágu skuggavarpsmyndir.  Loks liggur fyrir að komið var til móts við sjónarmið kæranda þar sem bæjaryfirvöld ákváðu m.a. að lækka hámarkshæð umræddra bygginga. 

Að öllu framangreindu virtu verður ekki fallist á að hin kærða ákvörðun sé haldin þeim form- eða efnisannmörkum sem raskað geti gildi hennar.  Verður ógildingarkröfu kæranda því hafnað. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar sveitarstjórnar Borgarbyggðar frá 8. mars 2007 um að samþykkja deiliskipulag fyrir Borgarbraut 55, 57 og 59 í Borgarnesi, Borgarbyggð. 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

______________________________               ______________________________
Ásgeir Magnússon                                                   Þorsteinn Þorsteinsson

162/2007 Gulaþing

Með

Ár 2009, þriðjudaginn 19. maí, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mætt voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Aðalheiður Jóhannsdóttir dósent. 

Fyrir var tekið mál nr. 162/2007, kæra á afgreiðslu skipulagsnefndar Kópavogsbæjar frá 6. nóvember 2007 um synjun á breyttu deiliskipulagi vegna lóðarinnar nr. 25 við Gulaþing. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 12. desember 2007, er barst nefndinni samdægurs, kærir Gunnar Guðmundsson hdl., f.h. Efrihlíðar ehf., lóðarhafa Gulaþings 25 í Kópavogi, þá afgreiðslu skipulagsnefndar Kópavogsbæjar frá 6. nóvember 2007 að synja beiðni um breytt deiliskipulag lóðarinnar nr. 25 við Gulaþing.  

Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. 

Málavextir og málsrök:  Á fundi skipulagsnefndar 29. maí 2007 var lögð fram beiðni lóðarhafa Gulaþings 25 um breytt deiliskipulag vegna lóðarinnar þannig að henni yrði skipt í tvær lóðir.  Var erindinu frestað.  Í gildi er deiliskipulag á svæðinu, Vatnsendi-Þing, sem samþykkt var árið 2005.  Samkvæmt því er lóðin nr. 25 við Gulaþing 1.845 m² að stærð og heimilt að byggja þar 400 m² einbýlishús á tveimur hæðum.  Á fundi nefndarinnar hinn 3. júlí sama ár var samþykkt að tillaga að breyttu deiliskipulagi vegna lóðarinnar yrði auglýst og bárust skipulagsyfirvöldum athugasemdir frá næstu nágrönnum.  Var erindi kæranda til umfjöllunar á fundum skipulagsnefndar hinn 4. september 2007 og 18. sama mánaðar, en á fundi nefndarinnar hinn 6. nóvember sama ár var erindinu hafnað með vísan til innsendra athugasemda og umsagnar bæjarlögmanns.  Var kæranda tilkynnt um þessi málalok með bréfi, dags. 8. nóvember 2007, og var í niðurlagi bréfsins vakin athygli á því að ákvörðunin væri kæranleg til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála. 

Á fundi bæjarráðs 8. nóvember 2007 var fundargerð skipulagsnefndar frá 6. sama mánaðar til umfjöllunar, sem og á fundi bæjarstjórnar hinn 13. sama mánaðar, án þess að hin umdeilda afgreiðsla skipulagsnefndar væri sérstaklega rædd.     

Af hálfu kæranda er krafist ógildingar á framangreindu og vísar hann m.a. til þess að hagsmunir nágranna hvað varði útsýni yfir Elliðavatn og umferð um götuna muni ekki skerðast þótt fallist yrði á beiðni hans um skiptingu lóðarinnar.

Af hálfu skipulagsyfirvalda er krafist frávísunar málsins og því haldið fram að kæran hafi borist að liðnum kærufresti.  Verði ekki fallist á frávísunarkröfuna sé bent á að deiliskipulag svæðisins, Vatnsendi-Þing, sé nýlega samþykkt og ekki séu fyrir hendi veigamiklar ástæður eða skipulagsleg rök sem réttlæti breytingar á deiliskipulagi vegna lóðarinnar nr. 25 við Gulaþing.

Niðurstaða:  Eins og að framan er rakið var beiðni kæranda um breytingu á deiliskipulagi vegna lóðarinnar nr. 25 við Gulaþing synjað á fundi skipulagsnefndar hinn 6. nóvember 2007.  Var fundargerðin til umfjöllunar á fundum bæjarráðs hinn 8. sama mánaðar og bæjarstjórnar hinn 13. sama mánaðar án þess þó að erindi kæranda fengi þar sérstaka afgreiðslu.

Í 23. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 kemur fram sú meginregla að sveitarstjórn beri ábyrgð á og annist gerð deiliskipulags og hið sama gildir um breytingu þess, sbr. 26. gr. laganna.  Þá segir í gr. 2.4 skipulagsreglugerðar nr. 400/1998 að skipulagsnefndir fari með skipulagsmál undir yfirstjórn sveitarstjórnar.  Ennfremur segir þar m.a. að meginverksvið skipulagsnefnda sé að fjalla um stefnumörkun í skipulagsmálum, hafa forgöngu um gerð og breytingar á skipulagsáætlunum og fjalla um skipulagstillögur.  Þá fjalli nefndirnar um athugasemdir við auglýstar skipulagstillögur, geri tillögu til sveitarstjórnar um endanlega afgreiðslu skipulagstillagna og veiti umsagnir um hvort leyfisskyldar framkvæmdir séu í samræmi við skipulagsáætlun.  Loks segir í gr. 2.5 að ákvarðanir skipulagnefnda skuli leggja fyrir sveitarstjórn til afgreiðslu.

Skilja verður framangreind ákvæði á þann veg að skipulagsnefnd sveitarfélags sé ekki falin fullnaðarafgreiðsla erinda er varða nýtt eða breytt deiliskipulag, hvort sem er til samþykkis eða synjunar.  Það er sveitarstjórnar einnar að taka slíkar ákvarðanir, nema fyrir hendi sé sérstök samþykkt sveitarfélagsins um annað fyrirkomulag, sbr. 44. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998, en slík samþykkt er ekki fyrir hendi í hinu kærða tilviki. 

Samkvæmt framansögðu verður ekki litið svo á að hin kærða afgreiðsla skipulagsnefndar hafi falið í sér stjórnvaldsákvörðun er sætt geti kæru til úrskurðarnefndarinnar, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, enda var nefndin aðeins bær til þess að gera tillögu til sveitarstjórnar um endanlega afgreiðslu málsins.  Engin ákvörðun liggur fyrir af hálfu sveitarstjórnar í málinu og gildir einu þótt fundargerð skipulagsnefndar hafi verið afgreidd í heild án umræðu í bæjarráði og bæjarstjórn enda var ekki með því tekin afstaða til þess erindis sem um ræðir í máli þessu.  Skorti því á að tekin væri kæranleg lokaákvörðun í málinu og verður kærumáli þessu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.
 

Úrskurðarorð: 

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

_____________________________
Hjalti Steinþórsson

_______________________________     _____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                  Aðalheiður Jóhannsdóttir