Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

41/2008 Bauganes

Ár 2010, þriðjudaginn 6. júlí, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mætt voru Ásgeir Magnússon héraðsdómari, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor. 

Fyrir var tekið mál nr. 41/2008, kæra á ákvörðun skipulagsfulltrúa Reykjavíkur frá 25. apríl 2008 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Skildinganess sem fól í sér aukið byggingarmagn á annarri hæð heimilaðs húss að Bauganesi 22 í Reykjavík. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 23. júní 2008, er barst nefndinni 24. sama mánaðar, kærir G, eigandi lóðarinnar að Bauganesi 20 í Reykjavík, þá ákvörðun skipulagsfulltrúa Reykjavíkur frá 25. apríl 2008 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Skildinganess sem fól í sér aukið byggingarmagn á annarri hæð heimilaðs húss að Bauganesi 22 í Reykjavík.  Auglýsing um gildistöku ákvörðunarinnar birtist í B-deild Stjórnartíðinda hinn 2. júní 2008.  Skilja verður málskot kæranda svo að krafist sé ógildingar hinnar kærðu skipulagsákvörðunar. 

Málavextir:  Á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 7. mars 2008 var samþykkt að grenndarkynna fyrir hagsmunaaðilum tillögu að breytingu á deiliskipulagi fyrir Skildinganes vegna lóðarinnar nr. 22 við Bauganes.  Að lokinni grenndarkynningu var málið aftur tekið fyrir á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 25. apríl 2008 og lágu þá fyrir athugasemdir kæranda og annars aðila ásamt umsögn skipulagsstjóra, dags. 23. apríl 2008.  Var deiliskipulagsbreytingin samþykkt með eftirfarandi bókun:  „Samþykkt með vísan til umsagnar skipulagsstjóra, sbr. heimildir í viðauka um embættisafgreiðslur skipulagsstjóra við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar.“  Auglýsing um gildistöku skipulagsbreytingarinnar birtist í B-deild Stjórnartíðinda hinn 2. júní 2008 að undangenginni lögboðinni athugun Skipulagsstofnunar. 

Málsrök kæranda:  Af hálfu kæranda er á það bent að fyrirhuguð bygging á lóðinni nr. 22 við Bauganes muni valda skuggavarpi á suðurhlið lóðar og fyrirhugað hús kæranda á lóð nr. 20 við Bauganes, auk útsýnisskerðingar.  Þá sé áréttað að breyting á deiliskipulagi svæðisins frá 22. október 1990 hafi aldrei verið kynnt kæranda né öðrum á svæðinu og hafi hann því ekki haft tækifæri til að tjá álit sitt á málinu.  Gangi hin kærða ákvörðun eftir muni kærandi krefja borgarsjóð bóta vegna skerts verðgildis eignar sinnar og mögulegra óþæginda vegna breytingarinnar. 

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Vísað er til þess að með umræddri deiliskipulagsbreytingu hafi texta í skilmálum fyrir Bauganes 22 verið breytt.  Skilmálar hafi kveðið á um að byggja mætti á tveimur hæðum á helmingi grunnflatar hússins, innan byggingarreits, þó ekki hærra en 4,4 m yfir kóta í norðausturhorni lóðar.  Breytingin hafi aðeins falið í sér að heimilað yrði að byggja jafn marga fermetra á báðum hæðum innan marka leyfislegs nýtingarhlutfalls lóðarinnar. 

Í umsögn skipulagsstjóra, dags. 23. apríl 2008, komi fram að á sumarsólstöðum muni fyrirhugað hús að Bauganesi 22 ekki varpa skugga á aðliggjandi lóðir en á jafndægrum sé húsið farið að varpa talsverðum skugga á lóð Bauganess 20, eftir hádegi.  Hafa verði í huga að fyrir umrædda breytingu hafi deiliskipulag heimilað byggingu á lóðinni að Bauganesi 22 sem varpa myndi einhverjum skugga á nærliggjandi lóðir og skerða útsýni.  Breytingin feli ekki í sér „hækkun á byggingarreit“ heldur einungis það að byggja megi tvílyft á öllum grunnfleti hússins í stað hluta grunnflatar áður.  Við það verði neðri hæðin niðurgrafin og nýtingarhlutfall óbreytt.  Ekki sé um slíkar breytingar að ræða að leitt geti til ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar og ekki verði hróflað við gildi deiliskipulags svæðisins frá 1990 enda kærufrestur vegna gildistöku þess löngu liðinn.  Telji kærandi sig hins vegar geta sannað að hann hafi orðið fyrir tjóni, umfram það sem almennt megi búast við hjá eigendum fasteigna í þéttbýli, eigi hann bótarétt skv. ákvæðum 33. gr. skipulags- og byggingarlaga.  Um bótarétt hafi úrskurðarnefndin hins vegar ekki úrskurðarvald. 

Andmæli lóðarhafa:  Lóðarhafi Bauganess 22 bendir á að umdeild skipulagstillaga að uppbyggingu lóðarinnar sé í öllum aðalatriðum innan marka gildandi skipulags svæðisins.  Heimiluð hámarkshæð byggingar, byggingarreitur og nýtingarhlutfall sé óbreytt.  Breytingin felist fyrst og fremst í því að byggja megi tvílyft á öllum grunnfleti húss, þar sem neðri hæð sé niðurgrafin, en ekki einungis á helmingi grunnflatar eins og skilmálar hafi kveðið á um.  Vegna athugasemda nágranna hafi skuggavarp verið kannað og komið hafi í ljós að skipulagsbreytingin muni ekki hafa neikvæð áhrif á aðliggjandi lóðir umfram það sem leitt hefði af byggingu samkvæmt óbreyttu skipulagi.  Með hliðsjón af framangreindum atvikum, og öðru því sem liggi fyrir í málinu, sé ekkert tilefni til að fallast á kröfu um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar. 

Niðurstaða:  Samkvæmt 1. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga ber sveitarstjórn ábyrgð á og annast gerð deiliskipulags.  Sveitarstjórn tekur ákvörðun um að auglýsa tillögu að deiliskipulagi og komi fram athugasemdir skal hún fjalla um tillöguna að loknum athugasemdafresti á nýjan leik, að undangenginni umfjöllun skipulagsnefndar, og taka afstöðu til framkominna athugasemda, sbr. 25. gr. laganna.  Fram kemur í 26. gr. nefndra laga að breytingar á deiliskipulagi sæta sömu meðferð með þeirri undantekningu að óverulega breytingu má grenndarkynna í stað auglýsingar og nægir þá ein umræða í sveitarstjórn. 

Í 2. og 3. mgr. 44. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998 er sveitarstjórn heimilað með tilteknum skilyrðum að ákveða í samþykkt sveitarfélagsins skv. 10. gr. laganna að fela nefnd, ráði, stjórn eða öðrum aðilum innan stjórnsýslu sveitarfélagsins fullnaðarafgreiðslu mála.  Í Reykjavík hafa verið settar reglur um embættisafgreiðslur skipulagsstjóra í viðauka 2.3 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar frá 7. desember 2007, sem tók gildi með auglýsingu nr. 1200/2007 í B-deild Stjórnartíðinda hinn 19. desember sama ár.  Í 2. gr. nefndra reglna er skipulagsstjóra heimiluð fullnaðarafgreiðsla tillagna að óverulegum breytingum á deiliskipulagi hafi engar athugasemdir borist við grenndarkynningu. 

Við grenndarkynningu umdeildar deiliskipulagsbreytingar bárust athugasemdir en málið var engu að síður afgreitt á fundi skipulagsfulltrúa með skírskotun til áðurnefndra reglna um embættisafgreiðslur skipulagsstjóra.  Þrátt fyrir eftirgrennslan hefur ekki verið leitt í ljós að umrædd afgreiðsla hafi hlotið staðfestingu. 

Samkvæmt framangreindu brast skipulagsfulltrúa heimild til lokaafgreiðslu málsins og hefur það því ekki fengið fullnaðarafgreiðslu að lögum.  Með vísan til þess að hin kærða ákvörðun hefur formlega tekið gildi með opinberri auglýsingu í Stjórnartíðindum verður niðurstaðan sú að fella hana úr gildi. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð: 

Hin kærða ákvörðun skipulagsfulltrúa Reykjavíkur frá 25. apríl 2008, um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Skildinganess, er felld úr gildi. 

______________________________
Ásgeir Magnússon

______________________________        ___________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                   Aðalheiður Jóhannsdóttir