Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

57/2007 Borgarbraut

Ár 2009, þriðjudaginn 28. júlí, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 57/2007, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Borgarbyggðar frá 8. mars 2007 um að samþykkja deiliskipulag fyrir Borgarbraut 55, 57 og 59 í Borgarnesi, Borgarbyggð. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 8. júní 2007, er barst nefndinni hinn 11. sama mánaðar, kærir A, Kveldúlfsgötu 2a, Borgarnesi, þá ákvörðun sveitarstjórnar Borgarbyggðar frá 8. mars 2007 að samþykkja deiliskipulag fyrir Borgarbraut 55, 57 og 59 í Borgarnesi, Borgarbyggð.  Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. 

Málavextir:  Síðla árs 2005 lögðu lóðarhafar Borgarbrautar 59 fram deiliskipulagstillögu fyrir lóðina sem bæjarstjórn Borgarbyggðar samþykkti að auglýsa eftir að breytingar höfðu verið gerðar á henni sem umhverfis- og skipulagsnefnd lagði til.  Samhliða var samþykkt að breyta aðalskipulagi varðandi lóðirnar að Borgarbraut  55, 57 og 59.  Á árinu 2006 var gerð breyting á Aðalskipulagi Borgarbyggðar 1997-2017, sem fól í sér breytta landnotkun fyrrgreindra lóða úr verslunar- og þjónustusvæði í blandaða byggð fyrir verslun, þjónustu, stofnanir og íbúðarbyggð.  Jafnframt var leyfilegt nýtingarhlutfall svæðisins hækkað úr 1,0 í 1,5.  Tók aðalskipulagsbreytingin gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda hinn 8. mars 2006. 

Eftir kynningu og samþykkt á deiliskipulagstillögu lóðarhafa Borgarbrautar 59 var ákveðið með hliðsjón af ábendingum Skipulagsstofnunar að auglýsa nýja skipulagstillögu er tók til lóðanna að Borgarbraut 55, 57 og 59.  Afmarkast reiturinn af Borgarbraut í austur, Kveldúlfsgötu í norður, Kjartansgötu í vestur og lóðarmörkum íbúðarhúss við Kjartansgötu og Klapparholt í suður.  Gerði tillagan m.a. ráð fyrir sameiningu lóðanna að Borgarbraut 55 og 57 sem yrði 3.882 m² að stærð en lóðin að Borgarbraut 59 yrði 3.050 m².  Hámarksnýtingarhlutfall lóðanna skyldi vera 1,15.  Að Borgarbraut 55-57 yrði heimilt að reisa fimm hæða hús með efstu hæð inndregna á allar hliðar.  Hámarksvegghæð væri 12,5 m og skyldi þak ekki vera hærra en einn metra yfir efri brún efstu hæðar.  Gert var ráð fyrir 30 íbúðum í húsinu af mismunandi stærðum.  Að Borgarbraut 59 var gert ráð fyrir sex hæða húsi með atvinnustarfsemi á fyrstu hæð en íbúðum á efri hæðum.  Hámarksvegghæð skyldi ekki fara yfir 18,5 m og þak ekki rísa hærra en einn metra frá efri brún efstu hæðar.  Gert var ráð fyrir 30 íbúðum í húsinu af mismunandi stærðum. 

Athugasemdir bárust við tillöguna á kynningartíma hennar, m.a. frá kæranda, en sveitarstjórn samþykkti hana hinn 8. mars 2007 með tilteknum breytingum.  Fólu þær m.a. í sér lækkun hámarksvegghæðar húss að Borgarbraut 59 úr 18,5 m í 17,9 m og hámarksvegghæð fyrstu fjögurra hæða húss að Borgarbraut 55-57 skyldi lækka úr 12,5 m í 11,9 m og hámarkshæð þess úr 15,5 m í 15,1 m.  Tók deiliskipulagið gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda hinn 16. maí 2007 að undangenginni yfirferð tillögunnar af hálfu Skipulagsstofnunar lögum samkvæmt. 

Skaut kærandi greindri skipulagsákvörðun til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir. 

Málsrök kæranda:  Af hálfu kæranda er vísað til þess að málsmeðferð hins kærða skipulags hafi verið ábótavant.  Gögn um skuggavarp, vindálag, umferðartölur og snið- og rúmmyndir, sem sýndu hlutföll fyrirhugaðra bygginga við núverandi byggð, hafi ekki legið fyrir á kynningartíma tillögunnar.  Þá hafi ekkert samráð verið haft við eigendur og íbúa nærliggjandi húsa við skipulagsferlið.  Telji kærandi að við hina kærðu ákvörðun hafi því hvorki verið gætt markmiða 1. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 um réttaröryggi borgaranna við skipulagsgerð né ákvæða 4. mgr. 9. gr. laganna um samráð. 

Engin rök hafi verið færð fram fyrir þrengingu hluta Kjartansgötu við Borgarbraut 59 en ætla megi að sú ráðstöfun sé einungis gerð í þeim tilgangi að stækka nefnda lóð svo hún rúmi fyrirhugaðra byggingu.  Þrengingin gæti valdið vandkvæðum til framtíðar litið í ljósi fyrirhugaðra blokkarbygginga við enda götunnar.  Þá stangist á rök fyrir þrengingu Borgarbrautar meðfram skipulagsreitnum þar sem annars vegar sé stefnt að lækkun umferðarhraða en hins vegar þess getið að Borgarbraut sé megin umferðaræð Borgarness. 

Ljóst sé að hæð fyrirhugaðra bygginga muni skerða útsýni frá nágrannafasteignum en jafnframt veita útsýni úr íbúðum bygginganna yfir nærliggjandi lóðir.  Þá sé hætt við að miklir sviptivindar geti verið kringum svo háar byggingar sem hér um ræði en engar tölur eða rannsóknir liggi fyrir um það atriði. 

Af framansögðu sé ljóst að hið kærða deiliskipulag feli í sér óþægindi fyrir íbúa nærliggjandi húsa og sé stílbrot við þá byggð sem fyrir sé. 

Málsrök Borgarbyggðar:  Af hálfu Borgarbyggðar er því haldið fram að hið kærða deiliskipulag hafi fengið lögmæta málsmeðferð og sé í samræmi við gildandi aðalskipulag. 

Í október 2005 hafi verið haldinn fjölmennur íbúafundur í Borgarnesi um skipulagsmál og hvert stefna skyldi í þeim efnum og hafi niðurstöður þess fundar verið kynntar á íbúafundi í desember sama ár.  Þá hafi verið haldinn kynningarfundur með íbúum í janúar 2006 um deiliskipulagstillögu varðandi lóðina að Borgarbraut 59 sem þá hafi legið fyrir.  Fleiri fundir hafi verið haldnir með íbúum um hugmyndir að skipulagi fyrir miðsvæði Borgarness þar sem lagðar hafi verið fram sniðmyndir með hliðsjón af áðurgreindri deiliskipulagstillögu sem og skuggavarpsteikningar vegna fyrirhugaðrar byggingar.  Við útfærslu skipulagstillögunnar fyrir Borgarbraut 55-57 og 59 hafi verið komið til móts við athugasemdir íbúa, m.a. með færslu byggingarreita að Borgarbraut og með því að megin aðkoma lóðanna verði frá Borgarbraut ásamt því að bílageymsla að Borgarbraut 59 verði öll neðanjarðar.  Vegna framkominna athugasemda á kynningartíma hinnar umdeildu skipulagstillögu hafi verið aflað frekari gagna um ætlað skuggavarp og sniðmyndir og þau kynnt á íbúafundi hinn 29. janúar 2007.  Jafnframt hafi athugasemdafrestur vegna skipulagstillögunnar verið lengdur um sjö daga.  Deiliskipulagið sé í samræmi við markmið aðalskipulags um þéttingu byggðar og eflingu miðsvæðis Borgarness. 

Ekki sé fallist á að fyrirhugaðar byggingar séu í ósamræmi við nærliggjandi byggð en benda megi á að í nágrenni þeirra að Borgarbraut 65 sé 18,6 m hátt hús.  Útsýnisskerðing og sjónræn áhrif verði ekki meiri en búast megi við á miðsvæði í þéttbýli.  Um sé að ræða sex hæða byggingar með efstu hæð Borgarbrautar 55-57 inndregna og muni skuggavarp ekki hafa teljandi áhrif þegar litið sé til staðsetningar fyrirhugaðra bygginga.  Ekki sé tíðkað að meta vindálag sérstaklega vegna húsa af umræddri hæð sem séu fjölmörg á Íslandi.  Umferð verði ekki að marki meiri en fylgt hafi fyrri landnotkun umræddra lóða og leitast sé við að draga úr umhverfisáhrifum hennar með þrengingu gatna og lækkun umferðarhraða. 

Loks sé skírskotað til þess að sveitarstjórn hafi gert breytingar að lokinni kynningu skipulagstillögunnar til að koma til móts við framkomnar athugasemdir.  Þannig hafi hámarkshæð húsa verið lækkuð og dregið úr fyrirhugaðri þrengingu gatna við skipulagssvæðið. 

Niðurstaða:  Með hinni kærðu ákvörðun var svæði við Borgarbraut deiliskipulagt að undangenginni breytingu á aðalskipulagi Borgarbyggðar er tók til umrædds svæðis.  Í greinargerð deiliskipulagsins er þess getið að á svæðinu við Borgarbraut, þar sem þjóðvegur 1 tengist byggðinni, hafi myndast vísir að miðbæ og sé nýjum byggingum við Borgarbraut ætlað að vera þungamiðja í þeim miðbæ.  Þá sé með skipulaginu stefnt að þéttingu byggðar þar sem rými til athafna fari óðum minnkandi bænum. 

Samkvæmt skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997 er vald til að skipuleggja land innan marka sveitarfélags í höndum sveitarstjórna og annast þær og bera ábyrgð á gerð deiliskipulags, sbr. 2. mgr. 3. gr. og 23. gr. laganna.  Skipulagsákvarðanir eru tæki sveitarfélags til þess að móta byggð innan síns umdæmis, m.a. með ákvörðun um landnotkun, tilhögun byggðar og húsagerðir.  Við beitingu skipulagsvalds ber að fylgja markmiðum skipulags- og byggingarlaga sem tíunduð eru í 1. gr. þeirra, en þar er m.a. kveðið á um að réttur einstaklinga og lögaðila skuli ekki fyrir borð borinn þótt hagur heildarinnar sé hafður að leiðarljósi.  Lögin gera þó ráð fyrir að með skipulagsákvörðun geti lögvörðum hagsmunum aðila verið raskað þar sem þeim er tryggður bótaréttur í 33. gr. laganna, valdi skipulagsákvörðun fjártjóni. 

Telja verður að með hinni umdeildu deiliskipulagsákvörðun sé stefnt að lögmætum skipulagsmarkmiðum.  Er landnotkun og fyrirhuguð byggð í samræmi við gildandi aðalskipulag.  Skipulagshugmyndir fyrir svæðið voru kynntar á íbúafundum og skipulagstillagan auglýst til kynningar lögum samkvæmt.  Kærandi kom að athugasemdum sínum við tillöguna og var þeim athugasemdum svarað af hálfu sveitarfélagsins auk þess sem sérstakur kynningarfundur var haldinn á kynningartíma vegna ábendinga kæranda þar sem fyrir lágu skuggavarpsmyndir.  Loks liggur fyrir að komið var til móts við sjónarmið kæranda þar sem bæjaryfirvöld ákváðu m.a. að lækka hámarkshæð umræddra bygginga. 

Að öllu framangreindu virtu verður ekki fallist á að hin kærða ákvörðun sé haldin þeim form- eða efnisannmörkum sem raskað geti gildi hennar.  Verður ógildingarkröfu kæranda því hafnað. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar sveitarstjórnar Borgarbyggðar frá 8. mars 2007 um að samþykkja deiliskipulag fyrir Borgarbraut 55, 57 og 59 í Borgarnesi, Borgarbyggð. 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

______________________________               ______________________________
Ásgeir Magnússon                                                   Þorsteinn Þorsteinsson