Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

62/2009 Gunnarssund

Ár 2009, fimmtudaginn 8. október, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 62/2009, kæra á samþykki skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðar frá 7. júlí 2009 fyrir breytingu á deiliskipulagi miðbæjar Hafnarfjarðar er tók til lóðarinnar að Gunnarssundi 9 og á ákvörðunum skipulags- og byggingarfulltrúa bæjarins frá 8. júlí og 19. ágúst 2009 um að veita byggingarleyfi fyrir niðurrifi húss og nýbyggingu í þess stað á lóðinni. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 13. september 2009, er barst nefndinni hinn 14. sama mánaðar, kæra H og E, Gunnarssundi 10, Hafnarfirði, samþykki skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðar frá 7. júlí 2009 fyrir breytingu á deiliskipulagi miðbæjar Hafnarfjarðar er tók til lóðarinnar að Gunnarssundi 9 og ákvarðanir skipulags- og byggingarfulltrúa bæjarins frá 8. júlí og 19. ágúst 2009 um að veita byggingarleyfi fyrir niðurrifi húss og nýbyggingu í þess stað á lóðinni. 

Gera kærendur þá kröfu að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi og að kveðinn verði upp bráðabirgðaúrskurður um stöðvun framkvæmda samkvæmt hinum kærðu byggingarleyfum á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.  Þykja nú nægilegar upplýsingar liggja fyrir til þess að málið verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfu kærenda. 

Málavextir:  Hinn 7. apríl 2009 var tekin fyrir í skipulags- og byggingarráði Hafnarfjarðar fyrirspurn eiganda fasteignarinnar að Gunnarssundi 9 um hvort leyft yrði að byggja nýtt hús á lóðinni í stað húss þess sem fyrir var.  Á fundi sínum hinn 12. maí 2009 lýsti ráðið sig jákvætt gagnvart erindinu en þá lágu fyrir umsagnir Byggðasafns Hafnarfjarðar og Húsafriðunarnefndar ríkisins um niðurrif eldra húss.  Á sama fundi var lögð fram tillaga að breytingu á deiliskipulagi miðbæjar Hafnarfjarðar frá árinu 1981 þar sem gert var ráð fyrir nýju einbýlishúsi að Gunnarssundi 9 sem yrði ein hæð og ris.  Samþykkti skipulags- og byggingarráð að grenndarkynna tillöguna sem óverulega breytingu á deiliskipulagi skv. 2. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Að lokinni grenndarkynningu var breytingartillagan tekin fyrir á fundi skipulags- og byggingarráðs hinn 7. júlí 2009 þar sem ráðið samþykkti hana og tók undir fyrirliggjandi svör við þeim þremur athugasemdum er borist höfðu.  Var gildistaka skipulagsbreytingarinnar auglýst í B-deild Stjórnartíðinda hinn 14. ágúst 2009. 

Umsókn um leyfi fyrir niðurrifi húss þess sem stóð á lóðinni að Gunnarssundi 9 var á dagskrá fundar skipulags- og byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar 8. júlí 2009 og var þar samþykkt.  Bæjarráð Hafnarfjarðar staðfesti þá afgreiðslu hinn 13. ágúst 2009 í umboði bæjarstjórnar. 

Á fundi skipulags- og byggingarfulltrúa 19. ágúst 2009 var samþykkt byggingarleyfisumsókn fyrir einnar hæðar bárujárnsklæddu timburhúsi á steyptum sökkli að Gunnarssundi 9.  Sú afgreiðsla var síðan staðfest í bæjarstjórn Hafnarfjarðar hinn 1. september sama ár. 

Hafa kærendur skotið þessum ákvörðunum til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir. 

Málsrök kærenda:  Af hálfu kærenda er á því byggt að hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu hafi verið áfátt að formi og efni til. 

Við grenndarkynningu tillögunnar hafi aðeins komið fram að tilefni hennar væri endurnýjun hússins að Gunnarssundi 9 en þá hafi legið fyrir ráðagerð um byggingu nýs og stærra húss á lóðinni.  Það hljóti að vera skylda byggingaryfirvalda að grenndarkynna teikningar að fyrirhuguðu húsi en sú aðferð sé viðhöfð vegna ýmiss konar framkvæmda sem minni áhrif hafi á umhverfi sitt.  Vegna þessa hafi þeir sem grenndarkynningin hafi náð til illa getað áttað sig á efni breytingarinnar og ekkert tillit hafi verið tekið til þeirra athugasemda sem þó hafi komið fram. 

Þá geti umrædd breyting ekki talist óveruleg.  Í henni felist að nýtingarhlutfall lóðarinnar að Gunnarssundi 9 fari í 0,71 en hámarksnýtingarhlutfall samkvæmt gildandi skipulagi sé 0,45.  Það séu ekki haldbær rök fyrir svo háu nýtingarhlutfalli að nýtingarhlutfall annarra lóða við götuna sé hærra.  Hafa verði í huga að umrædd hús hafi verið byggð löngu fyrir tilurð deiliskipulags svæðisins og hljóti ákvæði þess um hámarksnýtingarhlutfall að hafa verið sett til þess að hindra að í framtíðinni yrðu meiri þrengsli en þá þegar hafi verið orðin. 

Hæð fyrirhugaðs húss að Gunnarssundi 9 muni skerða útsýni, rýmistilfinningu og lífsgæði kærenda sem búi í nokkurra metra fjarlægð frá umræddri lóð.  Þótt vegghæð hins nýja húss verði sú sama og eldra húss verði þak hins nýja nærfellt helmingi hærra, bratt risþak með göflum, í stað lágs valmaþaks.  Þakið, eins og það snúi að kærendum, nánast fjórfaldist að flatarmáli og það litla sem eftir sé af útsýni og fjarsýni hverfi alveg. 

Málsrök Hafnarfjarðar:  Bæjaryfirvöld í Hafnarfirði hafa ekki sent úrskurðarnefndinni umsögn eða athugasemdir vegna kærumálsins en sjónarmið bæjarins koma fram í fyrirliggjandi svörum við framkomnum athugasemdum við kynningu umdeildrar skipulagsákvörðunar. 

Bent er á að gildandi skilmálar deiliskipulags miðbæjar Hafnarfjarðar fyrir reiti 15 og 16, sem eru við Gunnarssund, kveði á um að nýtingarhlutfall einstakra lóða verði mest 0,45 og flatarnýting 0,25.  Núverandi nýtingarhlutfall lóða á reit 16, sem Gunnarssund 9 tilheyri, sé 0,85 og á reit 15 sé það 1,15.  Meðalflatarnýting lóða á reitunum sé 0,41 og 0,32.  Markmið skipulagsins hafi ekki verið að lækka nýtingarhlutfall þegar byggðra lóða heldur að leyfa stækkun húsa á reitunum sem væru innan ofangreindra marka.  Í skilmálunum segi ennfremur að húsgerð sé kjallari, hæð og ris með 35° – 45° þakhalla. 

Hin kærða deiliskipulagsbreyting hafi verið talin óveruleg þar sem hún sé í anda gildandi skipulags.  Flatarnýting verði nánast óbreytt, nýtingarhlutfall lægra en á öðrum lóðum við Gunnarssund ofan Austurgötu, húsgerð verði í samræmi við gildandi skipulagsskilmála og þakhalli innan marka skilmálanna.  Ekki sé um að ræða grundvallarbreytingu á landnotkun, byggðamynstri eða yfirbragði svæðisins. 

Grenndarkynning hafi lotið að skipulagsbreytingu en ekki byggingarleyfi en form fyrirhugaðrar nýbyggingar að Gunnarssundi 9 hafi komið fram á kynntum uppdrætti og gerðar séu kröfur um að nýbyggingin verði í samræmi við gildandi skipulagsskilmála.  Breytingin muni bæta götumynd Gunnarssunds og sé vegghæð fyrirhugaðs húss ekki meiri en eldra húss á lóðinni og muni það hafa óveruleg áhrif á útsýni frá fasteign kærenda.  Leyfi til niðurrifs eldra húss á lóðinni hafi verið veitt að fengnu samþykki Húsafriðunarnefndar. 

Andmæli byggingarleyfishafa:  Af hálfu byggingarleyfishafa er tekið fram að upphaflega hafi verið áætlað að gera við og endurbyggja húsið að Gunnarssundi 9.  Með hliðsjón af ástandskönnun hússins, sem byggt hafi verið í mörgum áföngum úr mismunandi byggingarefnum, hafi þótt hagfelldara að reisa nýtt hús á lóðinni. 

Eldra hús sé ein hæð og kjallari, 119,9 m² að stærð samkvæmt uppmælingu, og sé nýtingarhlutfall lóðar 0,69 og flatarnýting 0,44.  Samkvæmt hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu og samþykktum byggingarnefndarteikningum að nýju húsi sé fyrirhugað einbýlishús innan upphaflegs byggingarreits með óbreyttum 75 m² grunnfleti.  Húsið verði hæð og portbyggt ris með mænisþaki með 40° halla og gólf fyrstu hæðar verði lækkað um 80 cm.  Húsið með 5,4 m² útigeymslu verði 134,7 m² og nýtingarhlutfall lóðar 0,67 að teknu tilliti til 25,5 m² lóðarstækkunar.  Af þessu sé ljóst að nýtingarhlutfall lóðar verði nánast það sama við umdeildar breytingar en flatarnýting lækki í 0,37.  Þá muni nýtt hús, gagnstætt hinu eldra, verða í samræmi við upphaflega skipulagsskilmála hvað húsgerð og þakhalla varði og verði í betra samræmi við önnur hús í götunni hvað form, stærðarhlutföll og byggingarefni snerti. 

Niðurstaða:  Hið kærða byggingarleyfi, sem skipulags- og byggingarfulltrúi veitti hinn 8. júlí 2009 og bæjarráð Hafnarfjarðar staðfesti 13. ágúst sama ár, fól einungis í sér heimild til niðurrifs húss þess sem stóð á lóðinni að Gunnarssundi 9 í Hafnarfirði og hefur það nú þegar verið rifið. 

Niðurrif mannvirkja eru framkvæmdir sem almennt fela, eðli máls samkvæmt, ekki í sér röskun á grenndarhagsmunum eða öðrum lögvörðum hagsmunum tengdum nágrannaeignum, en að stjórnsýslurétti verða aðilar að kærumáli að eiga lögvarinna hagsmuna að gæta um úrslit máls.  Ekki liggur fyrir að niðurrif eldra húss að Gunnarssundi 9 raski verulegum lögvörðum hagsmunum kærenda í máli þessu með þeim hætti að þeir teljist eiga kæruaðild um þá ákvörðun og verður þeim þætti kærumáls þessa því vísað frá úrskurðarnefndinni í samræmi við ákvæði 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.

Með hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu og leyfi til nýbyggingar var heimilað að reisa nýtt hús á lóðinni að Gunnarssundi 9 í Hafnarfirði sem yrði litlu stærra að flatarmáli en hús það sem fyrir var á lóðinni og byggt var á árinu 1916 auk síðari viðbygginga.  Nýbyggingin yrði um 1,7 m hærri en eldra hús vegna breytts þakforms sem þó er í samræmi við gildandi skilmála deiliskipulags svæðisins.  Hin kærða deiliskipulagsbreyting og byggingarleyfi fyrir nýbyggingu að Gunnarssundi 9 víkja frá eldri skilmálum gildandi deiliskipulags um nýtingarhlutfall fyrir reit 16, sem hér á við, auk þess sem byggingarreitur er markaður fyrir útigeymslu, 2,0×3,5 m að stærð.  Fyrir breytingu gat nýtingarhlutfall mest orðið 0,45 en með hinni kærðu skipulagsbreytingu er heimilað að nýtingarhlutfall lóðarinnar að Gunnarssundi 9 sé 0,71.

Ákvæði í fyrirliggjandi skilmálum deiliskipulags svæðisins um nýtingarhlutfall lóða á umræddum reit hljóðar svo:  „Nýtingarhlutfall einstakra lóða á reit sé mest N-0,45.“  Engin afstaða er þar tekin til þegar byggðra lóða þótt fyrir liggi að nýtingarhlutfall þeirra hafi verið mun hærra en greint ákvæði skipulagsins kvað á um við gildistöku þess.  Eftir orðanna hljóðan verður ákvæðið ekki skilið á annan veg en þann að öll byggingarleyfi fyrir framkvæmdum á skipulagsreitnum sem veitt yrðu eftir gildistöku skipulagsins þyrftu að vera innan þeirra marka sem nýtingarhlutfalli var sett, hvort sem um væri að ræða byggðar eða óbyggðar lóðir.  Engin gögn hafa komið fram er tengjast gerð umrædds deiliskipulags sem gefið gætu tilefni til rýmri túlkunar að þessu leyti.

Samkvæmt framansögðu verður ekki fallist á að umdeild deiliskipulagsbreyting hafi aðeins falið í sér óverulega breytingu á deiliskipulagi þar sem heimilað nýtingarhlutfall lóðarinnar að Gunnarssundi 9 var hækkað úr 0,45 í 0,71.  Skorti því lagaskilyrði fyrir því að fara með breytinguna samkvæmt undantekningarákvæði 2. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga.  Verður að ógilda hina kærðu deiliskipulagsbreytingu vegna þessa annmarka á málsmeðferð. 

Að þessari niðurstöðu fenginni skortir hið kærða leyfi fyrir nýbyggingu að Gunnarssundi 9 stoð í gildandi deiliskipulagi og ber því að fella það úr gildi í samræmi við 2. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga. 

Úrskurðarorð:

Kröfu um ógildingu byggingarleyfis fyrir niðurrifi húss að Gunnarssundi 9 í Hafnarfirði, sem skipulags- og byggingarfulltrúi veitti hinn 8. júlí 2009 og bæjarráð Hafnarfjarðar staðfesti 13. ágúst sama ár, er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

Ákvörðun skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðar frá 7. júlí 2009 um breytingu á deiliskipulagi miðbæjar Hafnarfjarðar, er tók til lóðarinnar að Gunnarssundi 9, er felld úr gildi. 

Byggingarleyfi fyrir nýbyggingu á lóðinni að Gunnarssundi 9 í Hafnarfirði, er skipulags- og byggingarfulltrúi bæjarins samþykkti hinn 19. ágúst 2009 og staðfest var í bæjarstjórn hinn 1. september sama ár, er fellt úr gildi.

______________________________
Hjalti Steinþórsson

_______________________________      ______________________________
Ásgeir Magnússon                                           Þorsteinn Þorsteinsson