Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

27/2012 Laugarásvegur

Árið 2012, þriðjudaginn 28. ágúst, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 27/2012, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 6. mars 2012, sem staðfest var í borgarráði 15. s.m., um að veita leyfi til að fjarlægja einlyfta skúrbyggingu við austurhlið hússins á lóðinni nr. 25 við Laugarásveg og reisa í hennar stað tvílyfta, steinsteypta byggingu á baklóð er tengist húsinu með tengigangi úr timbri. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 30. mars 2012, er barst nefndinni 3. apríl s.á., kærir Sigurður G. Guðjónsson hrl., fyrir hönd S, Laugarásvegi 23, Reykjavík, samþykki byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 6. mars 2012 á umsókn um leyfi til að fjarlægja einlyfta skúrbyggingu við austurhlið hússins að Laugarásvegi 25 og reisa í hennar stað tvílyfta byggingu úr steinsteypu á baklóð sem tengist húsinu með tengigangi úr timbri.  Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að kveðinn verði upp til bráðabirgða úrskurður um stöðvun framkvæmda meðan málið sé til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.  Þykir málið nú nægjanlega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til kröfu um stöðvun framkvæmda, en fyrir liggur að engar framkvæmdir hafa átt sér stað á grundvelli hinnar kærðu ákvörðunar. 

Málavextir:  Á lóðinni nr. 25 við Laugarásveg stendur 99,2 m² timburhús, byggt árið 1935 samkvæmt skráningu í fasteignaskrá.  Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 9. ágúst 2011 var tekin til afgreiðslu fyrirspurn um hvort fjarlægja mætti timburskúr er áfastur væri húsinu og reisa í hans stað tveggja hæða viðbyggingu á lóðinni.  Var tekið jákvætt í erindið með vísan til umsagnar skipulagsstjóra.  Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 8. nóvember s.á. var tekin fyrir umsókn um byggingarleyfi til að fjarlægja einlyfta skúrbyggingu við austurhlið hússins og reisa í þess stað tvílyfta byggingu úr steinsteypu á baklóð er tengjast myndi núverandi húsi með gangi úr timbri.  Var afgreiðslu málsins frestað og því vísað til skipulagsstjóra til ákvörðunar um grenndarkynningu.  Á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa hinn 11. s.m. var samþykkt að grenndarkynna framlagða tillögu fyrir hagsmunaaðilum að Laugarásvegi 19, 21, 23 og 27.  Bárust athugasemdir og ábendingar frá kæranda og eigendum Laugarásvegar 21, en eigandi Laugarásvegar 19 tilgreindi í bréfi að hann hefði engar athugasemdir fram að færa.  Málið var næst til umfjöllunar á embættis afgreiðslufundi skipulagsfulltrúa hinn 13. janúar 2012 og vísaði hann því áfram til skipulagsráðs.  Á fundi ráðsins hinn 29. febrúar s.á. var lögð fram umsögn skipulagsstjóra vegna málsins, dags. 17. janúar s.á., og fært til bókar að ekki væri gerð athugasemd við erindið með vísan til umsagnarinnar og var málinu vísað til fullnaðarafgreiðslu byggingarfulltrúa.  Var þessi afgreiðsla skipulagsráðs samþykkt á fundi borgarráðs hinn 1. mars 2012.  Hinn 6. s.m. var umsóknin tekin fyrir að nýju á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa og hún samþykkt með svohljóðandi bókun:  „Samþykkt. Samræmist ákvæðum laga nr. 160/2010.  Með vísan til samþykktar borgarráðs frá 1. september 1998 skal utanhúss- og lóðarfrágangi vera lokið eigi síðar en innan tveggja ára frá útgáfu byggingarleyfis að viðlögðum dagsektarákvæðum 57. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Áskilin lokaúttekt byggingarfulltrúa.“  Var ákvörðun byggingarfulltrúa staðfest í borgarráði 15. mars 2012.  Þeim sem gert höfðu athugasemdir á grenndarkynningartíma var tilkynnt um afgreiðslu byggingarfulltrúa með bréfi dags. 7. mars 2012. 

Málsrök kæranda:  Af hálfu kæranda er vísað til þess að fram komi í lóðarleigusamningi fyrir lóðina Laugarásveg 25, dags. 5. ágúst 1955, að þáverandi leigutaki hafi þegar hafið byggingu íbúðarhúss á lóðinni.  Engin gögn hafi fundist um að byggingarleyfi hafi verið gefið út eða að fyrir hendi séu uppdrættir að húsi því er leigutaki hafi ætlað að reisa.  Mæliblað fyrir lóðina frá 27. júlí 1955 sýni aðeins staðsetningu þess húss á lóðinni er reist hafi verið árið 1935.  Í kaupsamningi núverandi eiganda um fasteignina komi fram að um kvaðir fari samkvæmt fyrrgreindum lóðarleigusamningi.  Hluti þess samnings sé mæliblað fyrir lóðirnar nr. 19, 21, 23 og 25 við Laugarásveg.  Þar sé m.a. kveðið á um umferðarkvöð en eigandi Laugarásvegar 25 hafi að nokkru gengið á þann rétt með því að nota umferðarsvæðið sem bílastæði. 

Lög nr. 55/1921 um skipulag kauptúna og sjávarþorpa hafi gilt þegar lóðir nr. 23 og 25 hafi verið leigðar og hafi efni lóðarleigusamninganna orðið að samrýmast þeim lögum, en í c-lið 11. gr. þeirra hafi verið kveðið á um fjarlægðir milli húshliða í íbúðargötum.  Liggi ekki fyrir skipulagsuppdráttur fyrir lóðirnar nr. 19, 21, 23 og 25 er byggi á lögum nr. 55/1921, eða lögum nr. 19/1964, sem hafi leyst hin fyrrgreindu lög af hólmi.  Þá sé ekki til deiliskipulag að umræddu svæði en það veiti byggingaryfirvöldum ekki rýmri rétt til útgáfu byggingarleyfis.  Við mat á því hvort heimiluð nýbygging samrýmist landnotkun, byggðamynstri og þéttleika byggðar á svæðinu verði að leggja til grundvallar það sem ákveðið hafi verið árið 1955 þegar lóðin hafi verið leigð til 75 ára og leyfi veitt til bygginga.  Sé nýbyggingin í engu samræmi við það sem ákveðið hafi verið þegar landsvæðinu hafi verið úthlutað undir einbýlishús. 

Neðri hæð fyrirhugaðrar nýbyggingar sé tuttugu metrar að lengd frá norðri til suðurs og efri hæð hennar um þrettán metrar.  Húsið muni verða í fjögurra metra fjarlægð frá mörkum lóða Laugarásvegar 23 og 25 en núverandi hús á lóð nr. 25 sé um átján metra frá lóðarmörkum Laugarásvegar 23.  Fyrirhuguð staðsetning nýbyggingar sé í engu samræmi við þinglýst mæliblað lóðanna nr. 19, 21, 23 og 25 við Laugarásveg, sem verði að telja bindandi yfirlýsingu um staðsetningu mannvirkja á lóðunum.  Verði nýtt mannvirki á lóð nr. 25 að vera í samræmi við þau hús sem fyrir séu á lóðum nr. 19, 21 og 23 eða eins og húsið sem fyrir sé á lóðinni.  Geti borgaryfirvöld ekki leyft blandaða byggð á lóðinni nr. 25 sem nái langt út fyrir þau mörk sem núverandi byggingu séu sett. 

Hvergi séu fyrirheit um það í lóðarleigusamningi um Laugarásveg 25 að lóðarhafi geti fengið að nýta lóðina með öðrum hætti en þeim sem heimilað hafi verið árið 1955.  Þáverandi leigutaki hafi einnig skuldbundið sig til að ljúka framkvæmdum á lóðinni innan tveggja ára frá gerð samningsins, að öðrum kosti félli hann úr gildi.  Ákvæði þessu hljóti að hafa vera ætlað að tryggja að nágrannar þyrftu ekki að þola framkvæmdir á aðliggjandi lóðum um aldur og ævi eða að byggingum á lóðum þessum og staðsetningu þeirra yrði gjörbreytt.  Séu breytingum settar skorður og verði þær að vera óverulegar miðað við þær forsendur sem til staðar hafi verið þegar leyfi til byggingar hafi verið veitt.  Til grundvallar því mati verði að leggja lóðarleigusamninga og byggingarleyfi sem veitt hafi verið til að byggja á lóðunum nr. 23 og 25 við Laugarásveg.  Þegar horft sé til þessara gagna verði ekki séð að nokkur efnis- eða lagarök styðji að kærandi þurfi, liðlega hálfri öld eftir að hann flutti í hús sitt, að þola að á næstu lóð sé leyft að byggja hús sem sé allt annarrar gerðar og standi nær lóðamörkum en hús er þar hafi verið.  Réttur lóðarhafa að Laugarásvegi 25 standi til þess eins að nýta þá lóð með þeim hætti sem upphaflegum leigulóðarhafa hafi verið heimilað.  Staðsetning og stærð húsanna á lóðunum nr. 19, 21 og 23 skapi eiganda lóðarinnar að Laugarásvegi 25 engan rétt til að stækka mannvirki á lóðinni og gjörbreyta þeim.  Þá vísi kærandi til VIII. kafla skipulagslaga nr. 123/2010, sbr. ákvæði 23.-26. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. 

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Þess er krafist að kröfum um ógildingu á samþykkt byggingarfulltrúa verði hafnað.  Það sé með öllu fráleitt og eigi sér enga stoð í lögum og samningum að upphaflegur lóðarleigusamningur bindi lóðarhafa og sveitarfélög á þann hátt að ekki sé heimilt að byggja ný hús síðar.  Geymi samningur um umrædda lóð engar takmarkanir á uppbyggingarheimildum lóðarinnar enda sé hann fyrst og fremst samningur um endurgjald fyrir leigu.  Engir aðrir skilmálar séu settir í samninginn sem bendi til þess að ekki megi byggja á lóðinni um aldur og ævi.  Ákvæði í lóðarleigusamningum um fresti til framkvæmda eigi við um viðkomandi framkvæmd á þeim tíma þegar samningar séu gerðir, en ekki sé hægt að skýra slík ákvæði þannig að þau takmarki breytingar á lóðunum síðar meir.  Það sé eðli byggðar að þróast og breytast og geti íbúar í þéttri byggð ekki vænst þess að nánasta umhverfi þeirra taki ekki neinum breytingum, nema smávægilegum, í tímans rás. 

Lóðin sé á skilgreindu íbúðarsvæði samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2001-2024 en ekki sé í gildi deiliskipulag að svæðinu.  Þegar svo hátti til sé umsókn um byggingarleyfi í þegar byggðum hverfum grenndarkynnt, enda teljist fyrirhuguð framkvæmd vera í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar í hlutaðeigandi hverfi.  Nýtingarhlutfall lóða í nánasta umhverfi sé allt frá 0,27 upp í 0,49.  Sé nýtingarhlutfall á lóðinni nr. 25 við Laugarásveg 0,09 en verði 0,261.  Flatarmál lóðarinnar sé 1.106 m² og þoli hún vel aukna nýtingu en heimilað byggingarmagn sé í fullu samræmi við nánasta umhverfi.  Lóð kæranda sé 784 m² og nýtingarhlutfall allt að 0,27.  Nýbyggingin verði fjóra metra frá lóðarmörkum en sú fjarlægð sé ekki óalgeng í hverfinu.  Sé í því sambandi bent á að fjarlægð húss kæranda að lóðamörkum austan megin sé 3,5 metrar. 

Hæsti punktur efri hæðar nýbyggingar sé í svipaðri hæð og neðri brún glugga á efri hæð aðlægrar hliðar að Laugarásvegi 23.  Þann hluta hússins, sem sé á tveimur hæðum, beri að miklu leyti í eldra hús sem nú þegar takmarki útsýni kæranda.  Muni aukið byggingarmagn hafa óveruleg áhrif á skuggavarp og skýrist það af því að hús kæranda standi miklu hærra í landinu en fyrirhuguð nýbygging og núverandi hús að Laugarásvegi 25.  Sé byggðamynstri í hverfinu þannig háttað að byggt hafi verið á austurhluta lóðanna nærri lóðarmörkum.  Sé einnig gert ráð fyrir því í samþykktri umsókn, þrátt fyrir að afstaða núverandi húss á umræddri lóð sé ólík öðrum húsum við götuna, sem standi yfirleitt aftar á lóðum sínum.  Verði ekki séð að fyrirhuguð nýbygging muni skerða hagsmuni kæranda á neinn hátt, en um sé að ræða eðlilega og hóflega nýtingu á lóðinni, sambærilega eða vel undir því sem algengt sé í nágrenninu. 

Málsrök byggingarleyfishafa:  Byggingarleyfishafi krefst þess að kröfum kæranda verði vísað frá úrskurðarnefndinni en að öðrum kosti að þeim verði hafnað. 

Bent sé á varðandi heimild til framkvæmda að samkvæmt ýmsum gögnum, t.d. lóðarleigusamningi frá 5. ágúst 1955 fyrir umrædda lóð, mæliblaði fyrir lóðina og skipulagsuppdrætti, sem merktur sé „Skipulag í Laugarási“, sé gert ráð fyrir nýbyggingu þar sem nú standi til að byggja, í línu við önnur hús í götunni samkvæmt skipulagi. 

Nær ekkert sé tiltekið í kæru um að umrædd framkvæmd gangi gegn beinum hagsmunum kæranda, sem leiði til þess að hann eigi lögvarinna hagsmuna að gæta er réttlætt geti ógildingu byggingarleyfisins.  Gangi nær allur málflutningur kæranda út á að leiða líkur að því að umrædd framkvæmd gangi mögulega gegn upphaflegum lóðarleigusamningum, byggðamynstri, áætlunum um landnýtingu eða öðrum skipulagsskilmálum og vísi byggingarleyfishafi í því sambandi til fyrrgreindra heimilda fyrir framkvæmdum, sem og til afstöðu skipulagsyfirvalda til málsins.  Komi fram ýmsar rangfærslur eða misskilningur hjá kæranda, en á tilgreindu mæliblaði komi skýrt fram afmörkun til norðurs og vesturs fyrir nýbyggingu á umræddum stað.  Staðhæfingar séu mótsagnakenndar og ruglingslegar um hvað byggja megi á lóðinni og hvað ekki.  Í engu sé vikið að lagalegum skyldum eða öðrum rökum fyrir því að samþykkja umsóknina. 

Úrskurðarnefndinni virðist þannig ætlað að velja einhver þeirra raka sem reifuð séu til að hrekja niðurstöðu skipulagsyfirvalda á þeim forsendum að umrætt leyfi hljóti að vera ólöglegt.  Enginn rök standi til þess.  Þá séu heldur ekki tilteknir neinir þeir lögvörðu hagsmunir sem brotið hafi verið gegn.  Varðandi þessi atriði sé kærandi einfaldlega ekki málsaðili eða umsagnaraðili frekar en aðrir borgarbúar heldur sé það hlutverk Reykjavíkurborgar að taka hér afstöðu, svo sem gert hafi verið með útgáfu leyfisins.  Kæruréttur og möguleg málsaðild kæranda snúi eingöngu að þeim atriðum í byggingarframkvæmdinni sjálfri sem hann telji sig geta sýnt fram á að gangi gegn lögvörðum hagsmunum hans. 

Kærandi hafi teflt fram fjölda athugasemda við grenndarkynningu og hafi þau verið hrakin og sé þeim ekki lengur haldið fram.  Eftir standi aðeins léttvæg atriði sem lúti að meintu ónæði af fyrirhuguðum framkvæmdum.  Hafi aðrir nágrannar ekki gert neinar athugasemdir og góð sátt verið um framkvæmdina, sem fengið hafi ítarlega umfjöllun hjá skipulagsyfirvöldum. 

Með fyrirhuguðum framkvæmdum sé fyrst farið að nýta lóðina samkvæmt nýjasta skipulagi á svæðinu sem sé frá 6. áratug síðustu aldar.  Sé gengið mun skemur í nýtingu en alls staðar í nágrenninu sem lýsi sér t.d. í að nýtingarhlutfall sé það lægsta í nágrenninu eða um 0,25.  Mesta hæð hússins sé tveimur metrum undir línu sem dregin sé milli aðliggjandi húsa nr. 19 og 27.  Mannvirki á lóðinni séu í meiri fjarlægð frá lóðarmörkum en mannvirki á aðliggjandi lóðum og fyrirhuguð mannvirki séu minnst 16 m frá húsi kæranda og standi um þremur metrum neðar í landinu.  Sé gengið skemur í nýtingu lóðarinnar en hægt hefði verið samkvæmt upphaflegu skipulagi og að teknu tilliti til nýtingar næstu lóða.  Njóti kærandi góðs af þeirri lausn sem valin hafi verið enda sé skuggavarpi á baklóð hans og skerðingu á útsýni haldið í lágmarki.  Vegna hæðarmunar, fjarlægðar og afstöðu verði skuggavarp á lóð kæranda nánast ekkert allan þann tíma sem sólar njóti. 

Við hönnun hússins hafi verið lögð mikil áhersla á að það félli sem allra best að umhverfi sínu og nálægum byggingum og að uppbyggingin á lóðinni myndi stuðla frekar að auknu verðmæti nálægra húsa en hinu gagnstæða.  Sé vandséð hvernig kærandi getið beðið tjón af þessu.  Hafi hús það sem fyrir sé á lóðinni verið varðveitt í sínu upphaflega umhverfi en jafnframt hafi verið náð fram aukinni nýtingu á lóðinni á eins tillitssaman hátt gagnvart umhverfinu og mögulegt sé. 

Einnig sé bent á að tilvitnaðar lengdir fyrirhugaðrar byggingar séu nánast þær sömu og eigi við um hús kæranda, sem þó standi á talsvert minni lóð. 

Þá sé vandséð að ekki megi fara í nokkurra mánaða framkvæmdir á lóðinni á 50-60 ára fresti, líkt og gert hafi verið alls staðar í nágrenninu, og að ekki megi byggja á lóðinni þótt framkvæmdum við nýbyggingu, sem leyfi hafi verið veitt fyrir á sínum tíma, hafi ekki lokið á árunum 1955 til 1957.  Jafnframt sé bent á vegna athugasemda um umferðarkvöð að samkvæmt samþykktu byggingarleyfi muni verða bílastæði fyrir innan snúningssvæði, sem tryggi að því verði haldið opnu og greiðfæru fyrir alla. 

Virðist sem kærandi vilji hafa nánast autt svæði fyrir framan sig um alla framtíð og koma í veg fyrir að þar sé byggt upp með eðlilegri nýtingu og í samræmi við nýjasta skipulag, sem geri ótvírætt ráð fyrir byggingu á þessum stað.  Sé um ólíka hagsmuni að ræða, þ.e. annars vegar ríka og réttmæta hagsmuni byggingarleyfishafa og borgarinnar, og hins vegar mótmæli eins nágranna sem ekki geti bent á nein dæmi um að hagsmunir hans séu skertir. 

————————

Aðilar hafa fært fram frekari rök í máli þessu og hefur úrskurðarnefndin haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn þess.

Gögn í máli þessu bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg hinn 25. apríl 2012 og markar sú dagsetning upphaf lögbundins þriggja mánaða frests til uppkvaðningar úrskurðar. 

Úrskurðarnefndin hefur kynnt sér aðstæður á vettvangi með óformlegum hætti. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um lögmæti byggingarleyfis fyrir nýbyggingu að Laugarásvegi 25, sem veitt var að undangenginni grenndarkynningu.  Var á því byggt við leyfisveitingu að ekki væri í gildi deiliskipulag að umræddu svæði.  Má á það fallast, enda hafði skipulag í Laugarási, samþykkt í bæjarráði Reykjavíkur 19. maí 1953, ekki verið sent Skipulagsstofnun í samræmi við 5. tl. ákvæða til bráðabirgða með skipulagslögum nr. 123/2010 þegar umsókn um hið kærða byggingarleyfi kom til meðferðar hjá byggingaryfirvöldum.  Þá rann út frestur til skráningar eldri skipulagsákvarðana samkvæmt ákvæðinu hinn 31. desember 2011 og kemur umrætt skipulag ekki til álita eftir það. 

Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. skipulagslaga skal gera deiliskipulag fyrir einstök svæði eða reiti þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar og skal jafnan miða við að það taki til svæða sem myndi heildstæða einingu.  Skal þess gætt að byggingarleyfisskyld framkvæmd sé í samræmi við skipulagsáætlanir sveitarfélags þegar sótt er um byggingarleyfi, sbr. 2. mgr. 10. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010.  Leiðir af þessum ákvæðum að byggingarleyfi skuli vera í samræmi við gildandi deiliskipulag.  Í 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga segir hins vegar að þegar sótt sé um byggingar- eða framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmd sem sé í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar í þegar byggðu hverfi og deiliskipulag liggi ekki fyrir, eða um sé að ræða óverulega breytingu á deiliskipulagi, skuli skipulagsnefnd láta fara fram grenndarkynningu.  Verður að skilja ákvæði þetta svo að heimilt sé, við þær aðstæður sem þar greinir, að víkja frá lagaskilyrði 2. mgr. 37. gr. skipulagslaga um deiliskipulag, enda þótt það sé hvergi berum orðum sagt í lögunum.  Í 2. mgr. 44. gr. sömu laga er því síðan lýst hvernig staðið skuli að grenndarkynningu og kemur þar fram að sveitarstjórn afgreiði, að kynningarfresti liðnum, mál sem sæti slíkri meðferð. 

Skilyrði þess að veita megi byggingarleyfi í þegar byggðum hverfum án þess að fyrir liggi deiliskipulag eru að fyrirhuguð framkvæmd sé í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar.  Í hinu kærða tilviki er um að ræða leyfi til byggingar íbúðarhúsnæðis á lóð í grónu hverfi á svæði sem skilgreint er sem íbúðarsvæði í gildandi aðalskipulagi.  Töluverður hæðarmunur er milli lóða og dregur hann verulega úr grenndaráhrifum umdeildrar nýbyggingar gagnvart eign kæranda.  Nýtingarhlutfall, sem er mælikvarði á þéttleika byggðar, er í góðu samræmi við það sem gerist á svæðinu.  Þá verður ekki talið að gerð nýbyggingar eða fyrirkomulag mannvirkja á lóð skeri sig úr með þeim hætti að ekki samræmist byggðamynstri enda um nokkuð fjölbreytta byggð að ræða.  Er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að heimilt hafi verið að veita byggingarleyfi það sem um er deilt í málinu á grundvelli grenndarkynningar og verður því ekki fallist á að ógilda beri það með þeim rökum að ekki hafi verið gætt réttrar aðferðar við undirbúning leyfisveitingarinnar. 

Kærandi vísar til þess að í lóðarleigusamningi um lóðina nr. 25 við Laugarásveg séu ákvæði um að byggingu á lóðinni skuli lokið innan tveggja ára og að samningurinn setji heimildum lóðarhafa til bygginga á lóðinni skorður.  Sé óheimilt að leyfa byggingar á lóðinni umfram það sem leiði af umræddum samningi.  Úrskurðarnefndin fellst ekki á þessi sjónarmið.  Algengt er að við úthlutun lóða séu sett ákvæði, t.d. í byggingarskilmálum, um byggingarhraða og um lok byggingartíma.  Eru slík ákvæði sett til að tryggja að bygging húsa dragist ekki úr hófi en ekki verður talið að slík ákvæði girði fyrir rétt til endurbyggingar húsa, viðbygginga eða breytinga síðar.  Ráðast heimildir til byggingar á lóðum af gildandi skipulagi, ásamt þeim heimildum laga og reglugerða er gilda á hverjum tíma, þar á meðal heimildum til að víkja frá skilyrðum skipulagslaga um deiliskipulag, þar sem þær eiga við. 

Nokkurrar ónákvæmni gætti af hálfu borgaryfirvalda við meðferð málsins.  Þannig vísaði skipulagsráð málinu að lokinni grenndarkynningu til fullnaðarafgreiðslu byggingarfulltrúa í stað þess að vísa því til borgarráðs til afgreiðslu, en í 44. gr. skipulagslaga er gert ráð fyrir að sveitarstjórn afgreiði mál að lokinni grenndarkynningu.  Borgarráð samþykkti hins vegar afgreiðslu skipulagsráðs áður en málið kom til fullnaðarafgreiðslu byggingarfulltrúa og verður nefndur ágalli á málsmeðferð því ekki látinn varða ógildingu.  Þá skorti á að kæranda væri tilkynnt um niðurstöðu sveitarstjórnar þegar hún lá fyrir hinn 1. mars. 2012, sbr. 2. mgr. 44. gr. skipulagslaga, en með hliðsjón af því að honum var skömmu síðar tilkynnt um endanlega ákvörðun byggingarfulltrúa í málinu verður þessi annmarki ekki heldur talinn varða ógildingu.
Að þessu athuguðu, og með vísan til þess sem að framan er rakið, verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað. 

Dráttur hefur orðið á uppkvaðningu úrskurðar í málinu og stafar hann af önnum hjá úrskurðarnefndinni og töfum við gagnaöflun. 

Úrskurðarorð: 

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 6. mars 2012, sem staðfest var í borgarrráði 15. s.m., um að veita leyfi til að fjarlægja einlyfta skúrbyggingu við austurhlið hússins á lóðinni nr. 25 við Laugarásveg í Reykjavík og reisa í þess stað tvílyfta steinsteypta byggingu á baklóð er tengist húsinu með tengigangi úr timbri. 

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

____________________________              ___________________________
Ásgeir Magnússon                                                Þorsteinn Þorsteinsson