Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

18/2014 Suðurlandsbraut

Árið 2014, fimmtudaginn 8. maí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 18/2014, kæra á ákvörðun heilbrigðisnefndar Reykjavíkur frá 11. febrúar 2014 um að afturkalla leyfi til að halda sex hunda að Suðurlandsbraut 27 í Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 20. febrúar 2014, er barst nefndinni 11. mars s.á., kærir J, Suðurlandsbraut 27, Reykjavík, þá ákvörðun heilbrigðisnefndar Reykjavíkur frá 11. febrúar 2014 að afturkalla leyfi til að halda sex hunda að Suðurlandsbraut 27 í Reykjavík.

Af hálfu kæranda er gerð sú krafa að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Úrskurðarnefndinni bárust gögn frá Reykjavíkurborg 24. mars 2014 og réttaráhrifum ákvörðunarinnar var frestað með úrskurði nefndarinnar 27. s.m.

Málavextir: Kærandi fékk leyfi til að halda sex hunda að Suðurlandsbraut 27. Með bréfi Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur, dags. 19. desember 2013, var honum tilkynnt um fyrirhugaða sviptingu á leyfi til að halda hundana. Vísað er til þess að Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur hafi fengið staðfest að kærandi byggi ekki að Suðurlandsbraut 27, þótt lögheimili hans væri skráð þar. Staðfesting á þessu hafi m.a. fengist í samtali kæranda við hundaeftirlitsmann 8. ágúst 2013, þar sem komið hafi fram að kærandi hafi með skráningu hundanna á sig verið að aðstoða eiganda Suðurlandsbrautar 27, en sá sé ekki með lögheimili þar og fái ekki leyfi til hundahalds. Þá segir að í húsinu séu ennþá haldnir sex hundar sem kærandi sé skráður fyrir, auk hvolpa. Í húsnæði þar sem kærandi dvelji sé óheimilt að hafa hunda. Samkvæmt 2. gr. samþykktar um hundahald í Reykjavík nr. 478/2012 sé leyfi persónubundið, óframseljanlegt og bundið við heimili umsækjanda enda sé það ófrávíkjanlegt skilyrði að hundur sé skráður þar og haldinn. Í ljósi þessa sé fyrirhugað að svipta kæranda leyfi til að halda tilgreinda sex hunda. Veittur var tveggja vikna frestur til að gera athugasemdir.

Með bréfi, dags. 20. desember 2013, óskaði kærandi eftir gögnum málsins frá heilbrigðiseftirlitinu. Var sú beiðni ítrekuð með bréfum, dags. 30. s.m. og 2. janúar 2014, og jafnframt farið fram á rökstuðning fyrir fyrirhugaðri afturköllun leyfanna og frekari frest til andmæla. Í svarbréfi, dags. 6. janúar 2014, skírskotaði heilbrigðiseftirlitið til þess að ástæða fyrirhugaðrar afturköllunar leyfanna kæmi fram í bréfi stofnunarinnar frá 19. desember 2013. Það bréf, ásamt eftirlitsskýrslu frá 8. ágúst s.á., væru gögn málsins. Frestur kæranda til athugasemda var framlengdur til 13. janúar 2014. Á fundi heilbrigðisnefndar Reykjavíkur 11. febrúar s.á. var samþykkt sú tillaga heilbrigðiseftirlitsins að svipta kæranda leyfi til að halda sex hunda að Suðurlandsbraut 27. Með bréfi heilbrigðisnefndar Reykjavíkur 14. s.m. var kæranda tilkynnt um hina kærðu ákvörðun og ítrekaði hann kröfu sína um rökstuðning og um afhendingu málsgagna í bréfi til heilbrigðiseftirlitsins, dags. 27. s.m. Því bréfi svaraði heilbrigðiseftirlitið hinn 3. mars, þar sem vísað var til fyrri bréfa um rökstuðning og málsgögn.

Málsrök kæranda: Kærandi vísar til þess að hann hafi hvorki fengið í hendur málsgögn né umbeðinn rökstuðning fyrir hinni kærðu ákvörðun. Hafi hann því ekki haft færi á að andmæla ákvörðuninni, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá hafi aðeins verið fjórir virkir dagar innan þess tveggja vikna frests sem upphaflega hafi verið veittur til að skila andmælum.

Engin rök standi til þess að svipta kæranda leyfi til hundahalds vegna tímabundinnar dvalar hans á vegum Reykjavíkurborgar og engin ákvæði séu um slíkt í hundasamþykkt. Hundarnir hafi verið í umsjá leyfishafa og haldnir á lögheimili hans. Þá verði að finna að þeim starfsháttum heilbrigðiseftirlitsins að boðsenda erindi til kæranda á vistunarstað hans í stað lögheimilis, en trúnaður eigi að ríkja um vistunarstaðinn gagnvart einstaklingum og stjórnvöldum.

Með málsmeðferð og efni hinnar kærðu ákvörðunar sé farið gegn meðalhófsreglu og í ýmsu brotið gegn réttindum kæranda á sviði persónu-, upplýsinga- og stjórnsýslulaga.

Málsrök Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur: Af hálfu Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur er því haldið fram að hin kærða ákvörðun sé lögmæt að efni og formi til. Kæranda hafi verið veittur aðgangur að gögnum máls. Í þeim sé m.a. tilvitnun í 2. gr. samþykktar um hundahald í Reykjavík, þar sem skýrt komi fram að leyfi séu bundin við heimili eiganda hunds og að þau séu persónubundin. Rétt sé að taka fram að hundahald á viðkomandi stað sé flóknara en það mál sem hér sé til meðferðar og til staðar séu gögn sem varði ekki kæranda heldur eiganda hússins að Suðurlandsbraut 27, sem haldi hunda skráða á kæranda. Bent sé á að með kærunni kjósi kærandi að senda einungis hluta gagna sem hann hafi undir höndum. Kærandi hafi fengið framlengdan frest til andmæla en hann hafi ekki nýtt hann.

Fyrir liggi að kærandi eigi ekki heimili þar sem umræddir hundar séu haldnir og ekki sé um tímabundið ástand að ræða. Hundar að Suðurlandsbraut 27 séu ekki í umsjá kæranda heldur húseiganda að Suðurlandsbraut 27, sem haldi hundana í skjóli leyfa kæranda. Í eftirlitsferð 8. ágúst 2013 hafi komið fram hjá kæranda að hann hafi aðstoðað húseiganda á sínum tíma til að hundarnir gætu verið að Suðurlandsbraut, auk þess sem kærandi segi að húseigandi passi upp á hundana fyrir hann. Hinn 19. desember 2013 hafi kærandi undrast að húseigandi fái ekki að stunda hundarækt í friði. Heilbrigðiseftirlitið vísi til þess að kærandi hafi aldrei verið á vettvangi í þeim fjölmörgu eftirlitsferðum sem farnar hafi verið að Suðurlandsbraut 27. Þá hafi húseigandi verið viðriðinn það þegar ekið hafi verið á hund sem sloppið hafi hinn 18. desember 2013. Heilbrigðiseftirlitið telji að með því að sinna rannsóknarskyldu sem á embættinu hvíli skv. 1. mgr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hafi það leitt í ljós að kærandi haldi ekki hundana persónulega heldur sé um málamyndaleyfi að ræða. 

Erindi og bréf vegna máls þessa hafi verið birt og afhent kæranda á dvalarstað hans. Heilbrigðiseftirlitið telji að lögjafna megi frá 2. mgr. 85. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 varðandi birtingarstað. Ranglega sé staðhæft að velferðarsvið Reykjavíkurborgar hafi gefið trúnaðarupplýsingar um kæranda, en upplýsingar um dvalarstað manns teljist ekki til viðkvæmra persónuupplýsinga. Vísi heilbrigðiseftirlitið til 7. gr. og 2. mgr. 9. gr. laga nr. 37/1952 um tilkynningar aðsetursskipta. Nauðsynlegt hafi verið að fá þann grun staðfestan að kærandi byggi ekki að Suðurlandsbraut 27.

Kærandi hafi fengið framlengdan frest til andmæla en sá frestur hafi ekki verið nýttur.

Athugasemdir kæranda vegna greinargerðar Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur: Kærandi bendir á að hann eigi, samkvæmt upplýsingalögum og stjórnsýslulögum, rétt á að sjá öll gögn er varði hundahald hans, m.a. gögn um umferðarslys 18. desember 2013, sem vísað sé til í gögnum frá heilbrigðiseftirliti.

Það húsnæði sem kærandi dvelji í uppfylli ekki skilyrði til að teljast vera lögheimili samkvæmt lögum nr. 21/1990 um lögheimili, fremur en fangelsi, sjúkrahús, hótel eða frístundabyggð.

Kærandi hafi búið að Suðurlandsbraut 27 með hléum síðan á sjöunda áratugnum, m.a. hafi hann verið með lögheimili þar frá 25. júlí 1997 til 15. febrúar 2001 og frá 27. ágúst 2012. Hann hafi breitt bakland, margir aðstoði hann við hundahaldið.

———

Aðilar máls þessa hafa fært fram frekari rök til stuðnings kröfum sínum og hefur úrskurðarnefndin haft þau til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Með hinni kærðu ákvörðun var kærandi sviptur leyfi til að halda sex hunda að Suðurlandsbraut 27 í Reykjavík, með þeim rökum að hann byggi ekki lengur á því heimilisfangi þar sem hann hefði fengið leyfi til að halda hunda. Fram hefði komið að með skráningu hundanna á kæranda hefði hann verið að aðstoða eiganda nefndrar fasteignar. Verður að skilja málatilbúnað heilbrigðiseftirlitsins svo að ástæður sviptingarinnar varði annars vegar heimili kæranda og hins vegar það að leyfið sé bundið við persónu hans.

Samkvæmt samþykkt um hundahald í Reykjavík nr. 478/2012, sem sett var með heimild í 25. gr. laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, er hundahald heimilað að fengnu leyfi og að uppfylltum tilteknum skilyrðum. Kemur fram í a-lið 2. gr. samþykktarinnar að leyfi sé persónubundið, óframseljanlegt og bundið við heimili umsækjanda, enda sé það ófrávíkjanlegt skilyrði að hundur sé skráður þar og haldinn. Einnig segir í 3. mgr. 9. gr. samþykktarinnar að hundaeiganda beri að tilkynna heilbrigðiseftirlitinu um aðsetursskipti. Fram er komið að lögheimili kæranda er skráð að Suðurlandsbraut 27 en að hann dvelst og hefur búsmuni sína í húsum á vegum Reykjavíkurborgar. 

Við töku hinnar kærðu ákvörðunar skipti heimili kæranda höfuðmáli. Að mati úrskurðarnefndarinnar er nærtækast að túlka skilyrði a-liðar 2. gr. samþykktar um hundahald í Reykjavík, um að leyfi sé bundið við heimili, með hliðsjón af lögheimilislögum nr. 21/1990. Mun og hafa verið miðað við skilgreiningu þeirra laga á hugtakinu lögheimili við veitingu leyfa til hundahalds í Reykjavík samkvæmt upplýsingum sem nefndin hefur aflað við meðferð málsins. Eins og áður er rakið er lögheimili kæranda skráð að Suðurlandsbraut 27 og verður að telja að opinberri skráningu á lögheimili hans fylgi ákveðnar löglíkur. Telji heilbrigðisnefnd Reykjavíkur hins vegar að skráð lögheimili leyfishafa sé ekki raunverulegt heimili hans ber henni að rannsaka það sérstaklega í samræmi við 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Lögheimili manns er sá staður þar sem hann hefur fasta búsetu, sbr. 1. mgr. 1. gr. lögheimilislaga. Maður telst hafa fasta búsetu á þeim stað þar sem hann hefur bækistöð sína, dvelst að jafnaði í tómstundum sínum, hefur heimilismuni sína og svefnstaður hans er þegar hann er ekki fjarverandi um stundarsakir vegna orlofs, vinnuferða, veikinda eða annarra hliðstæðra atvika. Fram kemur í 3. mgr. 1. gr. laganna að dvöl í húsnæði á skipulögðu athafna- og hafnarsvæði sé ekki ígildi fastrar búsetu, nema búseta sé heimil þar samkvæmt lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum. Sama á við um dvöl á sjúkrahúsi, athvarfi eða öðru húsnæði sem jafna má til þess. Smáhýsin eru á hafnar- og athafnasvæði samkvæmt aðalskipulagi því sem gilti þegar ákvörðunin var tekin og fengust þær upplýsingar hjá Þjóðskrá Íslands við meðferð málsins að smáhýsin standi á athafna- og iðnaðarlóð og hafi af þessari ástæðu aldrei verið skráð sem íbúðarhúsnæði hjá Þjóðskrá. Beiðnum einstaklinga um skráningu lögheimilis í húsunum hafi ávallt verið hafnað. Af framangreindu er ljóst að kærandi telst ekki, í skilningi lögheimilislaga, hafa fasta búsetu og lögheimili að  og að honum er ekki unnt að fá heimili sitt skráð þar.

Það að kærandi dvelji í húsnæði þar sem hann telst ekki eiga fasta búsetu og lögheimili, og hann segir sjálfur að um sé að ræða tímabundið úrræði, nægir ekki til að því verði slegið föstu að hann eigi ekki heimili að Suðurlandsbraut 27, þar sem hann er með skráð lögheimili. Með því að um íþyngjandi ákvörðun var að ræða verður að gera til þess kröfu að það liggi fyrir með skýrum hætti að heimili kæranda hafi ekki verið að Suðurlandsbraut 27 og að skilyrðum fyrir leyfi til hundahalds hans þar því ekki lengur verið fullnægt. Það þurfti því að fara fram frekari rannsókn á því hvort hann gæti talist eiga þar heimili, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga. Í málinu liggur ekki fyrir að stjórnvaldið hafi rannsakað hver tengsl kæranda eru við Suðurlandsbraut 27, hversu lengi hann hefur dvalið eða mun dvelja að, eða hvernig farið hefur verið með sambærileg mál, þ.e. mál þar sem skráður eigandi hunds dvelur annars staðar en á lögheimili, t.a.m. vegna sjúkrahúsdvalar eða refsivistar.

Heilbrigðiseftirlitið nefnir í greinargerð sinni til nefndarinnar að kærandi haldi hundana ekki persónulega heldur hafi hann sótt um leyfið og fengið það útgefið á sitt nafn í þágu annars manns. Vegna beiðni kæranda um rökstuðning vísaði eftirlitið í svarbréfi 3. mars 2014 til fyrri bréfa sinna til kæranda í aðdraganda málsins. Ástæður fyrir fyrirhugaðri sviptingu leyfisins er að finna í bréfi heilbrigðiseftirlitsins, dags. 19. desember 2013. Þar er allt ákvæði a-liðar 2. gr. samþykktar um hundahald rakið og vísað til þess að kærandi hafi sagst hafa verið að aðstoða annan mann þegar hann skráði hundana á sitt nafn og að það m.a. staðfesti að kærandi byggi ekki lengur að Suðurlandsbraut 27. Hins vegar er í bréfinu ekki minnst á þær heimsóknir sem heilbrigðiseftirlitið fór í á Suðurlandsbraut 27 og vísað er til í greinargerð eftirlitsins til úrskurðarnefndarinnar. Það að stjórnvaldinu hafi þótt farið á svig við þau skilyrði ákvæðisins að leyfi sé persónulegt og óframseljanlegt kemur þannig ekki skýrlega fram sem forsenda hinnar kærðu ákvörðunar í rökstuðningi þess og uppfyllir ekki þau skilyrði sem gera verður til rökstuðnings, sbr. 22. gr. stjórnsýslulaga.

Þá bað kærandi um aðgang að gögnum máls með bréfum í desember 2013 og byrjun janúar 2014 og var í kjölfarið tjáð með bréfi að ákvörðunin byggði á eftirlitsskýrslu um heimsókn til hans og að hún ásamt bréfi heilbrigðiseftirlits frá 19. desember 2013 væru gögn málsins. Var honum sent afrit af hvoru tveggja. Í greinargerð sinni til nefndarinnar vísar heilbrigðiseftirlitið hins vegar til þess að kærandi hafi aldrei verið á staðnum í fjölmörgum eftirlitsferðum sem farnar hafi verið að skráðu lögheimili hans. Þá hafi húseigandi en ekki kærandi verið viðriðinn það þegar ekið hafi verið á hund sem sloppið hafi hinn 18. desember 2013. Samkvæmt 1. mgr. 15. gr. stjórnsýslulaga á málsaðili rétt á aðgangi að skjölum og öðrum gögnum er mál varða, þar á meðal skýrslum sem kunna að hafa verið ritaðar um málsatvik. Er slíkur aðgangur nauðsynlegur til að tryggja að réttur aðila til að koma að skýringum og gera athugasemdir við framlögð gögn komi að fullu gagni. Í samræmi við þetta verður að telja að rétt hefði verið að veita kæranda aðgang að gögnum stjórnvaldsins er málið varðar, þ. á m. um þær eftirlitsheimsóknir sem heilbrigðiseftirlitið fór að Suðurlandsbraut 27 og vísað er til í greinargerð eftirlitsins til úrskurðarnefndarinnar, enda ljóst að gögnin höfðu þýðingu við úrlausn þess.

Með vísan til þess sem að framan greinir skorti á að gætt væri að rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga, að virtur væri upplýsingaréttur skv. 15. gr. þeirra og að fullnægt væri áskilnaði 22. gr. laganna um efni rökstuðnings vegna hinnar kærðu ákvörðunar. Er ákvörðun heilbrigðisnefndar því verulegum annmörkum háð og verður hún felld úr gildi.

Úrskurðarorð:

Ákvörðun heilbrigðisnefndar Reykjavíkur frá 11. febrúar 2014, um að afturkalla leyfi kæranda til að halda sex hunda að Suðurlandsbraut 27 í Reykjavík, er felld úr gildi.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

____________________________              ___________________________
Ásgeir Magnússon                                        Þorsteinn Þorsteinsson