Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

114/2023 Krossavík

Með

Árið 2024, miðvikudaginn 31. janúar, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 114/2023, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Snæfellsbæjar frá 19. júlí 2023, um að samþykkja nýtt deiliskipulag Krossavíkurbaða.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 29. september 2023, er barst nefndinni sama dag, kærir íbúi að Hraunsási 18, Hellissandi, þá ákvörðun bæjarstjórnar Snæfellsbæjar frá 19. júlí 2023, að samþykkja nýtt deiliskipulag Krossavíkurbaða. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Þess var jafnframt krafist að réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar yrði frestað á meðan málið væri til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Þeirri kröfu var hafnað með úrskurði nefndarinnar uppkveðnum 10. nóvember 2023.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá bæjarstjórn Snæfellsbæjar 23. október 2023.

Málavextir: Krossavík er vík vestan við kauptúnið Hellissand þaðan sem áður fyrr var útgerð. Að undangenginni auglýsingu skv. 36. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 samþykkti sveitarstjórn Snæfellsbæjar á fundi sínum 17. júlí 2023 tillögu um breytingu á Aðalskipulagi Snæfellsbæjar 2015-2031 vegna fyrirhugaðs baðstaðar í Krossavík. Tók breytingin gildi með birtingu í B-deild Stjórnartíðinda 22. ágúst s.á. Samhliða aðalskipulagsbreytingunni var unnið að gerð deiliskipulags fyrir svæðið en í deiliskipulagstillögunni kom fram að svæðið hentaði einkar vel fyrir baðstað þar sem slík starfsemi styddi við verndun hafnarmannavirkja í Krossavík auk þess að fram kom að á svæðinu væri mikið útsýni. Uppbygging gerði ráð fyrir byggingum allt að 500 fermetrum að stærð, með þjónustubyggingu á einni hæð, með búningsherbergjum, móttöku og þjónustusvæði fyrir gesti, aðstöðu fyrir starfsfólk, tæknirýmum o.fl. Fram kom að á svæðinu yrði aðstaða til gufubaða og mismunandi gerðir af pottum með heitu og köldu vatni. Gert var einnig ráð fyrir 1.800 m² svæði fyrir um 40 bílastæði og umferðarsvæði milli baðs og bílastæða. Deiliskipulagstillagan fékk meðferð samkvæmt 1. mgr. 43. gr. laga nr. 123/2010 og var samþykkt í bæjarstjórn Snæfellsbæjar 19. júlí 2023. Auglýsing um samþykkt deiliskipulagsins var birt í B-deild Stjórnartíðinda 30. ágúst 2023.

Málsrök kæranda: Kærandi telur að undirbúningur hins kærða deiliskipulags hafi verið haldinn verulegum annmörkum. Með hinu nýja deiliskipulagi verði náttúru í Krossavík og á Brimnesi stórlega spillt og mikil áhætta tekin með fágætar vistgerðir með hátt verndargildi og fuglalíf. Engir brýnir almannahagsmunir standi til þess að þessi leið verði farin heldur þvert á móti krefjist almannahagsmunir þess að hentugri staðsetning verði fundin fyrir baðstað. Aðrir raunhæfir og sambærilegir staðarvalkostir hafi aldrei verið skoðaðir. Ekki hafi verið sinnt af hálfu Snæfellsbæjar að ráðast í grunnrannsóknir sem umsagnaraðilar hafi ítrekað bent á að skorti og séu nauðsynlegar. Við gerð umhverfismatsskýrsla hafi sveitarfélagið brotið gegn b. og c. lið 12. gr. laga um umhverfismat framkvæmda og áætlana nr. 111/2021. Hafi kynning og afgreiðsla bæjarstjórnar á nýju deiliskipulagi auk þess hvorki verið í samræmi við 4. mgr. 40. gr. og 3. mgr. 41 gr. skipulagslaga nr. 123/2010 né 1. mgr. 41. gr. laga nr. 138/2011

 Þá sé framsetning hins kærða deiliskipulags ekki verið í samræmi við 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga. Hafi Skipulagsstofnun bent á það í bréfi  til sveitarfélagsins, dags. 2. ágúst 2023, að áður en deiliskipulagið yrði birt með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda þyrfti að lagfæra m.a. hnitsetningu lóða. Því hafi ekki verið sinnt af hálfu sveitarfélagsins. Einnig hafi umhverfismat nýs deiliskipulags í Krossavík ekki verið í samræmi við c. lið 14. gr laga nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana. Þá séu athugasemdir gerðar við umfjöllun í umhverfismatsskýrslu. Sem dæmi sé mikið gert úr því að svæðið sé raskað og þar hafi verið athafnasvæði áður. Hið rétta sé að engin starfsemi, utan við rekstur á lágstemdri listamannaíbúð og litlu galleríi í stuttan tíma hafi verið í Krossavík í yfir 50 ár.

 Málsrök Snæfellsbæjar: Bent er á að hið kærða deiliskipulag sé í samræmi við aðalskipulag sem tekið hafi gildi með auglýsingu Skipulagsstofnunar í ágúst 2023. Deiliskipulagið sé einnig í samræmi við meginstefnu Snæfellsbæjar sem mótuð hafi verið við síðustu endurskoðun aðalskipulags um afþreyingar og ferðamannasvæði vegna fjölgunar ferðamanna. Lýsingar vegna aðalskipulagsbreytingar og nýs deiliskipulags og vinnslutillögur beggja skipulagsstiga hafi verið kynntar á almennum auglýstum fundum. Áður en lýsing og matslýsing hafi verið kynntar hefði staðsetning baðlóns í gömlu sundlauginni á Hellissandi verið metin en hafnað þar sem metið var að hún hefði valdið verulegri slysahættu fyrir börn. Eftir kynningu lýsingar hafi verið skoðað að koma baðlóni fyrir á Rifi, en það hafi einnig verið metið óraunhæft. Þar færi umferð um gönguleiðir og leiksvæði barna ef núverandi vegir yrðu notaðir, en að öðrum kosti hefði þurft að útbúa nýjan aðkomuveg með tilheyrandi raski fyrir svæðið. Einnig hafi verið metnir staðir milli Hellisands og Rifs en þeir hefðu kallað á nýjan veg og rask á ósnortnu landi. Alvanalegt sé að skoðaðir séu ýmsir kostir sem ekki sé fjallað frekar um séu þeir álitnir ónothæfir.

Umhverfismatsskýrslan sé miðuð við Krossavík, á þegar röskuðu svæði, og sé gerð miðað við að um litla framkvæmd sé að ræða, sem hvorki sé tilkynningarskyld né matsskyld í samræmi við lög um umhverfismat framkvæmda og áætlana. Í umhverfisskýrslu sé gert ráð fyrir að annað hvort verði fyrirhugaðar framkvæmdir við Krossavík eða engar framkvæmdir, því aðrir kostir hafi þegar verið útilokaðir. Eftir kynningu lýsingar og gerð nákvæmrar gróðurgreiningar hafi verið gerð tillaga um að færa fyrirhuguð mannvirki úr fjöru og upp fyrir gróðurkant við fjöru og minnka framkvæmdasvæðið verulega.

 Viðbótarathugasemdir kæranda:  Í tilefni af málsrökum Snæfellsbæjar er bent á að í stefnu bæjarins í umhverfismálum í aðalskipulagi komi fram í kafla 2 á bls. 15: „Í Snæfellsbæ er rík meðvitund um gildi umhverfisverndar og vilji til að stuðla að sjálfbærri uppbyggingu innan sveitarfélagsins, með áherslu á samþættingu náttúru, efnahags og mannlífs. Lögð er áhersla á vitundarvakningu um landslag og verndun þess. Leitað er leiða til að geta tekið á móti vaxandi umferð um svæðið, án þess að umhverfið verði fyrir skaða. Tekið verði tillit til þolmarka íbúa.” Hið kærða deiliskipulag stangist á við þessa stefnu í öllum meginatriðum. Vegna viðkvæms gróðurs og fuglalífs á svæðinu sé alls ekki æskilegt að ýta undir frekari umferð fólks í Krossavík þar sé fyrir. Sérstaklega ekki þar sem rannsóknir skorti á fuglalífi og mati á þolmörkum þess. Það sama gildi um þolmörk íbúa gagnvart ferðamönnum.

Málsrök framkvæmdaraðila: Framkvæmdaraðila var gefinn kostur á að koma að athugasemdum vegna málsins en engar bárust.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um ákvörðun bæjarstjórnar Snæfellsbæjar frá 19. júlí 2023 um að samþykkja deiliskipulag Krossavíkurbaða á Hellissandi.

Um kæruaðild í þeim málum sem undir úrskurðarnefndina heyra er fjallað um í 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Þar er kveðið á um að þeir einir geti kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eigi lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra eigi nema í tilteknum undantekningartilvikum sem þar eru greind. Verður að skýra þetta ákvæði í samræmi við almennar reglur stjórnsýsluréttarins um aðild að kærumálum þar sem áskilið er að kærandi eigi beina einstaklingsbundna hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á.

Kærandi er íbúi að Hraunási 18, á Hellissandi og hefur greint frá því að hann hafi útsýni til Krossavíkur þar sem ráðgert er samkvæmt hinu kærða deiliskipulagi að reisa baðstað og leggja bílastæði. Hann nýti sér svæðið til útivistar og heilsubótar með daglegum gönguferðum og fuglaskoðunarferðum í fjörunni og á fjörukambinum og hafi látið sig málefni svæðisins varða sem náttúruperlu og útivistarsvæðis. Hjá því verður þó eigi litið að fasteign kæranda er í nokkurri fjarlægð, eða rúmlega 800 metra frá ráðgerðum byggingum og verður ekki með hliðsjón því séð að hagsmunir hans muni skerðast á nokkurn hátt að því er varðar landnotkun, skuggavarp eða innsýn. Þá verður ekki séð að grenndaráhrif verði vegna aukinnar umferðar við hús kæranda. Þrátt fyrir að ásýnd umrædds landsvæðis muni breytast og ráðgerð mannvirki verði greinanleg frá húsi kæranda verður ekki talið að grenndaráhrif slíkrar útsýnisbreytingar séu með þeim hætti að varðað geti hagsmuni hans á þann veg að hann eigi með því einstaklingsbundna hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun umfram aðra. Verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar því vísað frá úrskurðarnefndinni.

 Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

122/2023 Gefjunarbrunnur

Með

Árið 2024, þriðjudaginn 30. janúar, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 122/2023, kæra vegna dráttar á afgreiðslu máls „til fullnustu úrskurðar ÚUA frá 22. mars 2023 þar sem ekkert hefur verið gert til lúkningar niðurstöðu og úrskurðarorða ÚUA af hendi byggingarfulltrúa Reykjavíkur“.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 17. október 2023, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi Freyjubrunns 9 drátt á afgreiðslu máls „til fullnustu úrskurðar ÚUA frá 22. mars 2023 þar sem ekkert hefur verið gert til lúkningar niðurstöðu og úrskurðarorða ÚUA af hendi byggingarfulltrúa Reykjavíkur“.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 14. nóvember 2023.

Málavextir: Mál þetta hefur áður komið til kasta úrskurðarnefndarinnar. Á afgreiðslufundi skilmálaeftirlits umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar 26. september 2022 var tekin fyrir ábending kæranda um að lóðarhafar Gefjunarbrunns 10 og 12 nýttu götuna Freyjubrunn til geymslu byggingarefnis sem og ósk hans um að dyrum að húsi að Gefjunarbrunni 12 með umgengni út í Freyjubrunn yrði lokað. Byggingarfulltrúi sat fundinn og bókað var í fundargerð að dyrnar og veggur undir svölum væru í lagi og ekki stæði til að aðhafast í málinu. Í tilkynningu til kæranda um afgreiðsluna kom fram að dyrnar, aðkoman og geymslupláss undir tröppum væru að mati byggingarfulltrúa í samræmi við samþykkta aðaluppdrætti. Af hálfu eftirlitsdeildar og byggingarfulltrúa væri því ekki ástæða til að aðhafast í málinu og teldist því lokið. Með úrskurði í máli nr. 109/2022, uppkveðnum 22. mars 2022, felldi úrskurðarnefndin úr gildi þessa ákvörðun þar sem misræmis virtist gæta milli teikninga á aðaluppdráttum hússins að Gefjunarbrunni 12 að því er varðaði jarðvegsyfirborð undir svölum. Í því ljósi taldi nefndin að telja mætti að vafi léki á því hvort ásigkomulagi, frágangi, umhverfi eða viðhaldi húss, annars mannvirki eða lóðar væri ábótavant, sbr. 1. mgr. 56. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Því hefði verið tilefni til þess fyrir byggingarfulltrúa að rannsaka málið að nýju, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að ekkert hafi verið gert til að fullnusta niðurstöðu og úrskurðarorð úrskurðarnefndarinnar síðan úrskurður hafi legið fyrir í máli nr. 109/2022. Krafa kæranda sé óbreytt, þ.e. að steypa skuli upp í skarð á vegg Gefjunarbrunns 12 á mörkum bílastæða Freyjubrunns og loka fyrir umgengni út á bílastæði Freyjubrunns. Í framhaldi af steyptum svalavegg verði að steypa þriggja metra langan vegg. Ástandið í götunni hafi versnað þegar brotið hafi verið fyrir gluggum á kjallara Gefjunarbrunns 12 og hann leigður út til fyrirtækis sem hafi umgengni að honum frá Freyjubrunni. Byggingarfulltrúi hafi engar athugasemdir gert við þetta ástand þrátt fyrir ábendingar. Húsnæðis- og mannvirkjastofnun telji sig hafa heimild til eftirfylgni en geri ekkert. Málið hafi hafi víða fengið umfjöllun vegna geymslunnar undir svölum, en engin viðbrögð megi merkja.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er bent á að uppdrættir séu í samræmi við deiliskipulag Úlfarsárdals frá árinu 2018 að því er varði aðgengi lóðarhafa Gefjunarbrunns 12 um Freyjubrunn og geymslu undir svölum hússins. Byggingarfulltrúi standi við fyrri afstöðu sína um að ekki verði aðhafst vegna dyranna sem snúi að Freyjubrunni enda sé um lögmætt ástand að ræða. Í fyrra máli hafi verið fallist á að misræmi væri í uppdráttum að því er varði jarðvegsyfirborð. Í máli úrskurðarnefndarinnar nr. 109/2022 hafi úrskurðarnefndin komist að þeirri niðurstöðu að þetta misræmi leiddi til þess að vafi léki á því hvort ásigkomulagi, frágangi, umhverfi eða viðhaldi húss væri ábótavant, sbr. 1. mgr. 56. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Ákveðið hafi verið að grípa til aðgerða vegna Gefjunarbrunns 12 í kjölfar úrskurðarins en samband hafi verið haft við eigandann. Hann hafi boðið fram skýringar og verið veittur frestur til þess að skila inn leiðréttum uppdrætti og endanlegri útfærslu lóðarmarka milli Gefjunarbrunns 10 og 12.

 Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi bendir á að breytingar á teikningum Gefjunarbrunns 12 breyti engu um kröfu um að lokað verði skarði á vegg og lokað fyrir aðgengi frá svalageymslu út í Freyjubrunn. Þess sé krafist að veggjum verði bætt á nýjar teikningar sem loki fyrir aðgengi.

Niðurstaða: Í máli þessu er kærður dráttur á afgreiðslu máls „til fullnustu úrskurðar ÚUA frá 22. mars 2023 þar sem ekkert hefur verið gert til lúkningar niðurstöðu og úrskurðarorða ÚUA af hendi byggingarfulltrúa Reykjavíkur“.

 Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er það hlutverk nefndarinnar að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og í ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Samkvæmt framanröktu hefur Reykjavíkurborg til meðferðar mál sem varðar Gefjunarbrunn 12. Engin ákvörðun liggur fyrir í því máli sem borin verður undir nefndina og verður því að vísa frá kröfu kæranda að því leyti sem hún varðar það mál.

 Samkvæmt 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal stjórnvald taka ákvarðanir í málum svo fljótt sem unnt er. Þá segir í 4. mgr. ákvæðisins að dragist afgreiðsla máls óhæfilega sé heimilt að kæra það til þess stjórnvalds sem ákvörðun í málinu verður kærð til. Er sú kæruheimild undantekning frá þeirri meginreglu 2. mgr. 26. gr. sömu laga að ekki sé hægt að kæra þær ákvarðanir sem ekki binda endi á mál fyrr en það hefur verið til lykta leitt. Einungis aðili máls getur borið slíka kæru fram og verður því að vísa einnig frá kröfu kæranda að því leyti sem hún varðar málsmeðferð Reykjavíkurborgar, enda er hann ekki aðili að málinu þótt hann kunni að njóta kæruréttar vegna ákvörðunar sem síðar kann að liggja fyrir.

Með vísan til framangreinds verður kæru í máli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

 Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

133/2022 Kuggavogur

Með

Árið 2024, þriðjudaginn 30. janúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 133/2022, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 15. nóvember 2022 um að aðhafast ekki vegna kvartana um ágalla á hönnun og frágangi fjölbýlishússins að Kuggavogi 15.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með ódagsettu bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 30. nóvember 2022, kærir Umhyggja – félag langveikra barna, eigandi íbúðar í fjölbýlishúsinu að Kuggavogi 15, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 15. nóvember 2022 að aðhafast ekki vegna kvartana kæranda um ágalla á hönnun og frágangi fjölbýlishússins að Kuggavogi 15. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Jafnframt er þess krafist að byggingar­fulltrúa verði gert að aðhafast í málinu í samræmi við stjórnsýslulög nr. 37/1993, lög nr. 160/2010 um mannvirki og byggingarreglugerð nr. 112/2012.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 22. nóvember 2023.

Málavextir: Kærandi er félag sem samkvæmt lögum þess gætir hagmuna langveikra barna og fjölskyldna þeirra, en í því skyni festi félagið kaup á íbúð í fjölbýlishúsinu að Kuggavogi 15 26. júní 2019 sem ætluð er til afnota fyrir fjölskyldur langveikra barna utan af landi. Lokaúttekt byggingarinnar fór fram 22. mars 2021 og sama dag gaf byggingarfulltrúinn í Reykjavík út vottorð um lokaúttekt án athugasemda. Með bréfi kæranda til byggingarfulltrúa og Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, dags. 13. september 2022, var bent á að ásigkomulagi og frágangi er varðaði aðgengis- og loftræsismál í fjölbýlishúsinu væri verulega ábótavant. Væru þessir ágallar í ósamræmi við ákvæði laga nr. 160/2010 um mannvirki og byggingarreglugerðar nr. 112/2012. Með vísan til 56. gr. laga um mannvirki skoraði kærandi því á byggingarfulltrúa og Húsnæðis- og mannvirkjastofnun að beina því til „hlutaðeigand[a]“ að framkvæma úrbætur á ágöllum að viðlögðum dagsektum svo kærandi og félagsmenn þess yrðu ekki fyrir afnota­missi af eigninni. Starfsmaður embættis byggingarfulltrúa svaraði erindi kæranda með tölvu­pósti 29. september 2022. Kom þar m.a. fram að kröfur um úrbætur vegna meintra ágalla þyrftu að berast til byggingaraðila og seljanda, ábyrgðaraðila á byggingarleyfi og þeirra aðila sem hafi yfirumsjón með hönnun og framkvæmd. Einnig væri hægt að kæra stjórnvaldsákvarðanir og ágreiningsmál til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Í kjölfarið óskaði kærandi eftir upplýsingum um hvort skilja mætti svör byggingarfulltrúa á þann hátt að í þeim fælist afstaða embættisins um að það gæti ekki beitt úrræðum 56. gr. laga nr. 160/2010 eða öðrum úrræðum. Hinn 15. nóvember 2022 ítrekaði byggingarfulltrúi fyrra svar sitt og er það hin kærða ákvörðun í þessu máli.

Undir rekstri máls þessa hjá úrskurðarnefndinni tók byggingarfulltrúi þá ákvörðun að taka til skoðunar þau atriði sem kærandi gerði athugasemdir við og eftir atvikum krefja byggingaraðila um úrbætur. Í tölvupósti 18. janúar 2023 fór embættið því fram á við kæranda að hann samþykkti að beðið yrði með að úrskurða í kærumálinu og varð kærandi við þeirri beiðni. Með bréfi byggingarfulltrúa, dags. 1. febrúar 2023, skoraði hann á byggingaraðila að gera úrbætur vegna aðgengis- og loftræsismála í umræddu fjölbýlishúsi og tilgreindi byggingarfulltrúi níu atriði sem þörfnuðust lagfæringa. Í lok bréfsins gerði hann þá kröfu, með vísan til gr. 2.9.2. í byggingarreglugerð, sbr. 56. gr. laga um mannvirki, að úrbæturnar yrðu gerðar innan 60 daga frá dagsetningu bréfsins. Yrði framkvæmdum ekki lokið innan þess tímafrests myndi byggingarfulltrúi íhuga að beita þvingunarúrræðum sem gætu falist í dagsektum eða að ráðist yrði í úrbætur „á kostnað eigenda“. Í kjölfarið var af hálfu byggingaraðila óskað eftir fundi með byggingarfulltrúa sem fór fram 15. febrúar 2023, en á fundinum var farið nánar yfir þau atriði sem byggingaraðila átti að gera úrbætur á. Kærandi og byggingarfulltrúi áttu svo í nokkrum samskiptum um stöðu málsins frá maí til júlí sama ár.

Með umsókn, dags. 9. ágúst 2023, sótti byggingaraðili um leyfi fyrir breytingum á inngangi hússins að Kuggavog 15. Hinn 10. s.m. sendi kærandi tölvupóst til byggingarfulltrúa og óskaði eftir upplýsingum um það hvort umsóknin yrði afgreidd innan einhvers tiltekins tíma. Einnig var óskað eftir afstöðu embættisins til þess umkvörtunarefnis kæranda er sneri að úrbótum vegna bílastæða fyrir hreyfihamlaða. Í tölvupósti kæranda 4. september s.á. var fyrirspurnin ítrekuð og jafnframt bent á að byggingaraðili hefði ekki lagfært þá ágalla sem byggingarfulltrúi hefði nú þegar staðfest að væru til staðar og krefðust ekki byggingarleyfis. Var erindið ítrekað 12., 21. og 26. s.m., en í síðasta skiptið var jafnframt krafist að úrbætur yrðu gerðar án tafar ella yrði óskað eftir því að úrskurðarnefndin héldi meðferð kæru­málsins áfram. Sama dag svaraði byggingarfulltrúi erindinu og vísaði til þess að dregist hefði úr hömlu að samþykkja breytingar á inngangi Kuggavogs 15. Leyfisumsókn yrði afgreidd eins fljótt og auðið væri, en að lokinni afgreiðslu hennar og „stöðutöku á öðru sem krafist var lagfæringa á“ yrði tekin ákvörðun um frekari aðgerðir. Hafi byggingaraðili verið krafinn skýringa á því af hverju engar framkvæmdir hafi verið gerðar í samræmi við kröfur embættisins. Hinn 17. nóvember 2023 óskaði kærandi eftir því við úrskurðarnefndina að meðferð málsins yrði haldið áfram.

Málsrök kæranda: Kærandi telur að svör byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 29. september 2022, 26. október s.á. og 15. nóvember s.á. feli í sér ákvörðun um rétt og skyldu kæranda, þ.e. að ekki verði brugðist við með lögmætum úrræðum til að verja einkaréttarlega hagsmuni kæranda og félagsmanna hans, en auk þess varði ákvörðunin almannahagsmuni annarra íbúa til algildrar hönnunar. Vísað sé til umfjöllunar í úrskurði nefndarinnar í máli nr. 30/2022 þar sem Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hafi bent kærendum á að hægt væri að beina kröfum um athugun á sambærilegum atriðum um ágalla eftir lokaúttekt til byggingarfulltrúa á grundvelli 56. gr. laga um mannvirki. Í niðurstöðu nefndarinnar hafi verið staðfest að ákvörðun byggingar­fulltrúa sem tekin væri á grundvelli þeirrar lagagreinar væru kæranlegar.

Telja verði að kærufrestur hafi byrjað að líða við síðustu svör byggingarfulltrúa, þ.e. 15. nóvember 2022. Líti nefndin svo á að fresturinn hafi byrjað að líða 29. september s.á. sé bent á að tafir í svörum Reykjavíkurborgar hafi verið verulegar og ekki við kæranda að sakast, sem hafi ítrekað óskað eftir frekari skýringum og leiðbeiningum um hlutverk byggingarfulltrúa og heimildir til beitingu úrræða. Verði því í öllu falli að líta svo á að um afsakanlegar ástæður í skilningi 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 sé að ræða. Þá hafi verið ljóst af orðalagi í tölvu­pósti byggingafulltrúa 15. nóvember 2022 að embættið myndi ekkert aðhafast í málinu.

Byggingarfulltrúi hafi gefið út vottorð um lokaúttekt byggingarinnar að Kuggavogi 15 án þess að gera athugasemdir við atriði sem varði algilda hönnun. Eftir að félagsmenn kæranda hafi byrjað að nota íbúð kæranda í fjölbýlishúsinu hafi komið í ljós að ásigkomulagi og frágangi er varðaði aðgengis- og loftræsismál væri verulega ábótavant, þannig að alvarlegar áskoranir og hindranir væru fyrir hendi, en félagsmenn séu margir hverjir langveikir og hreyfihamlaðir. Synjun byggingarfulltrúa á að viðhafa eftirlit eða beita úrræðum sé í andstöðu við hlutverk hans samkvæmt ákvæðum laga nr. 160/2010 um mannvirki og leiði til þess að ólögmætt ástand sé við lýði án þess að úrbótaskylda eða refsiábyrgð viðeigandi byggingaraðila sé metin, sbr. gr. 17.1.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Athafnaleysi embættisins sé því ólögmætt og feli auk þess í sér brot gegn rannsóknarskyldu stjórnvaldsins skv. 10. gr. stjórnsýslulaga.

Kærandi hafi bent byggingarfulltrúa á ýmis atriði sem ekki væru í samræmi við byggingar­reglugerð. Nánar tiltekið að halli á skábraut frá bílageymslu væri of mikill, að of hár þröskuldur væri um inngangsdyr í bílgeymslu frá skáhallandi braut, að ekki væri hægt að komast úr/inn í bílgeymslu að/frá stigagangi og lyftuhúsi með sjálfvirkum eða rafdrifnum opnunarbúnaði, að engin bílastæði fyrir hreyfihamlaða væru til almennra nota þar sem öll stæði væru þinglýst á tilteknar íbúðir, að aðkeyrsla í bílgeymslu væri ekki hönnuð til samræmis við stærri bifreiðar sem væru hannaðar til að ferja fólk í hjólastólum, að aðgengi um aðalinngang væri ófært hjólastólanotendum, að þröskuldar innan íbúðar og út á svalir væru of háir, að brunahurðir væru of þungar og án sjálfvirks opnunarbúnaðar og að útsog á salerni væri í ósamræmi við kröfur byggingarreglugerðar.

Athafnaleysi byggingarfulltrúi til að kanna hvort tilefni sé til að beita úrræðum skv. 56. gr. laga nr. 160/2010 sé ekki í samræmi við skyldur og hlutverk embættisins. Í því samhengi sé vísað til þess að byggingarfulltrúi sé eftirlitsaðili og leyfisveitandi í skilningi byggingarreglugerðar og fari því með forræði á að beina kröfum um úrbætur til eiganda eða umráðamanns mann­virkis. Einnig sé ljóst að svör byggingarfulltrúa og rökstuðningur fyrir því að embættið muni ekki bregðast við erindi kæranda sé í ósamræmi við niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 134/2020, en kæruefni þess sé að nokkru leyti sambærilegt við fyrirliggjandi mál.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Borgaryfirvöld benda á að ekki verði séð að nein formleg synjun á erindinu kæranda frá 13. september 2022 liggi fyrir í málinu. Þá sé þess krafist að kærunni verði vísað frá þar sem byggingarfulltrúi hafi sannarlega gripið til aðgerða í málinu. Byggingarfulltrúi hafi með tölvupósti 18. janúar 2023 tilkynnt kæranda að hann hafi ákveðið að taka til skoðunar þau atriði sem kærandi hafi gert athugasemdir við. Hinn 1. febrúar s.á. hafi byggingaraðila svo verið sent bréf með kröfu um úrbætur á atriðum sem listuð hafi verið upp í níu liðum. Jafnframt hafi verið haldinn fundur með byggingaraðila hinn 17. febrúar 2023, að ósk hans, þar sem farið hafi verið yfir þau atriði sem bæta þyrfti úr.

Þá liggi fyrir að byggingaraðili hafi gert sátt vegna lagfæringa á ýmsum göllum í húsinu og standi endurbætur á því yfir, en áhöld séu uppi á milli aðila um hvort sáttin nái til þeirra úrbóta sem byggingarfulltrúi hafi krafist úrbóta á. Reykjavíkurborg taki þó enga afstöðu til þessa álitaefnis. Þess megi geta að til meðferðar hjá byggingarfulltrúa sé umsókn um byggingarleyfi þar sem sótt sé um breytingar á aðalinngangi til að uppfylla skilyrði um algilda hönnun og gerð bílastæðis fyrir hreyfihamlaða á borgarlandi. Í ljósi þess að byggingarfulltrúi hafi orðið við áskorun kæranda um að krefjast úrbóta hafi kærandi ekki lengur hagsmuni af því að fá úr kærumálinu skorið. Beri því að vísa kærunni frá.

 Athugasemdir byggingaraðila: Af hálfu byggingaraðila er bent á að allsherjarsátt hafi verið gerð við húsfélag Kuggavogs 15 vegna gallamála og eigi aðfinnslur kæranda þar undir. Byggingarstjóri hússins sé enn að störfum við úrbætur og hafi byggingarfulltrúi verið upplýstur um það.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Vegna þeirra ummæla í umsögn Reykjavíkurborgar, þess efnis að ekki verði séð að nein formleg synjun á erindi kæranda frá 13. september 2022 liggi fyrir, bendir kærandi á að í svari byggingarfulltrúa frá 15. nóvember s.á. hafi verið að finna ábendingu um að kröfur um úrbætur yrðu að berast til ábyrgðaraðila á byggingarleyfi og þeirra sem hafi yfirumsjón með hönnun og framkvæmd hússins. Líta verði svo á að í þeirri bendingu hafi falist formleg synjun á að taka ákvörðun í samræmi við þær lagaskyldu sem hvílt hafi á embætti byggingarfulltrúa.

Í bréfi byggingarfulltrúa til byggingaraðila, dags. 1. febrúar 2023, hafi þess verið krafist að úrbætur yrðu gerðar innan 60 daga frá dagsetningu bréfsins ellegar myndi byggingarfulltrúi íhuga að beita þvingunarúrræðum sem gætu falist í dagsektum eða að ráðist yrði í úrbætur á eigin kostnað eigenda. Það sé staðreynd að engar úrbætur hafi verið gerðar innan 60 daga frá dagsetningu bréfsins en þrátt fyrir það hafi byggingarfulltrúi ekki beitt þvingunarúrræðum. Hafi því ekki verið tekin nein ákvörðun um beitingu þvingunarúrræðis og sé því fullt tilefni til að leysa efnislega úr kærumálinu. Vilji svo ólíklega til að úrskurðarnefndin telji að vísa beri kröfu kæranda frá um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar sé áréttað að enn standi eftir sá hluti kröfugerðar kæranda að byggingarfulltrúa verði gert að aðhafast í málinu, enda ljóst að beiting þvingunarúrræða hafi ekki farið fram þrátt fyrir að úrbætur hafi ekki verið gerðar á húsnæðinu.

——-

Aðilar máls þessa hafa fært fram ítarlegri rök fyrir máli sínu sem ekki verða rakin hér frekar, en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Kæra þessa máls lýtur að svari byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 15. nóvember 2022 vegna áskorunar kæranda frá 13. september s.á. um að byggingarfulltrúi beindi því til hlutaðeiganda að framkvæma úrbætur á þeim ágöllum sem kærandi telur vera á fjöl­býlishúsinu að Kuggavogi 15 og snúa að kröfum um algilda hönnun, aðgengi fyrir alla og loft­ræsingu. Var í áskorun kæranda m.a. vísað til 56. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki sem fjallar um beitingu þvingunarúrræða. Í svari byggingarfulltrúa kom fram sú afstaða embættisins að slíkum kröfum um úrbætur bæri að beina að byggingaraðila og seljanda, ábyrgðaraðila byggingarleyfis og þeirra aðila sem hafi yfirumsjón með hönnun og framkvæmd. Verður að teknu tilliti til þessa og atvika málsins að öðru leyti að líta svo á að í þeirri afstöðu byggingar­fulltrúa hafi falist synjun um að aðhafast í málinu.

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á þessu sviði, sbr. 1. gr. laga um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála nr. 130/2011. Í samræmi við þetta tekur úrskurðarnefndin lögmæti kærðrar ákvörðunar til endurskoðunar en telur það falla utan vald­heimilda sinna að leggja fyrir stjórnvöld að aðhafast með tilgreindum hætti í málum. Verður því ekki tekin afstaða til þeirrar kröfu kæranda að úrskurðarnefndin leggi fyrir byggingar­fulltrúa að aðhafast í málinu.

Svo sem nánar er rakið í málavöxtum var málsmeðferð þessa kærumáls frestað hjá úrskurðar­nefndinni 18. janúar 2023 að beiðni Reykjavíkurborgar og með samþykki kæranda. Var sú beiðni lögð fram vegna þeirrar ákvörðunar byggingarfulltrúa að taka til skoðunar þau atriði sem kærandi hafði gert athugasemdir við í kæru. Fyrir liggur að stuttu eftir það, eða hinn 1. febrúar 2023, sendi byggingarfulltrúi bréf til byggingaraðila og skoraði á hann að ráðast í úrbætur er varða aðgengis- og loftræsismál með vísan til gr. 2.9.2. í byggingarreglugerð nr. 112/2012, sbr. 56. gr. laga um mannvirki, auk þess sem byggingarfulltrúi tók fram að yrði ekki brugðist við áskoruninni innan 60 daga myndi hann íhuga að beita þvingunarúrræðum sem gætu falist í dagsektum eða að ráðist yrði í úrbætur á kostnað eiganda. Með hliðsjón af því verður að líta svo á að kærandi hafi ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um lögmæti hinnar kærðu ákvörðunar byggingarfulltrúa frá 15. nóvember 2022 um að aðhafast ekki í málinu. Af þeim sökum verður kærumáli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Fyrir liggur að töluverður dráttur hefur orðið á framkvæmd þeirra úrbóta sem byggingarfulltrúi lagði fyrir byggingaraðila að ráðast í. Af því tilefni telur úrskurðarnefndin rétt að vekja athygli kæranda á því að í byrjun janúar 2024 var af hálfu nefndarinnar óskað eftir upplýsingum frá Reykjavíkurborg um stöðu umsóknar byggingaraðila frá 9. ágúst 2023 um leyfi til að breyta inngangi Kuggavogs 15 og hvort hann væri að störfum við þær úrbætur sem byggingarfulltrúi hefði krafið hann um. Bárust þau svör frá borgaryfirvöldum 12. janúar 2024 þess efnis að byggingarleyfis­umsóknin væri enn til meðferðar og að byggingaraðili hefði verið í samskiptum við byggingar­fulltrúa og tjáð embættinu að úrbætur yrðu gerðar, en að þær hefðu tafist vegna veikinda og fjarveru.

Með hliðsjón af því sem að framan er rakið verður kærumáli þessu vísað frá úrskurðar­nefndinni.

 Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

142/2023 Efnistaka austan Karlseyjarvegar

Með

Árið 2024, mánudaginn 29. janúar, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 142/2023, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Reykhólahrepps frá 11. október 2023 um að samþykkja umsókn um framkvæmdaleyfi fyrir efnistöku í námu E-27.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 14. desember 2023, kærir eigandi, Miðjanesi, Reykhólahreppi, þá ákvörðun sveitarstjórnar Reykhólahrepps frá 11. október 2023 að samþykkja umsókn um framkvæmdaleyfi fyrir efnistöku í námu E-27, austan Karlseyjarvegar á Reykhólum. Er þess krafist að leyfið verði fellt úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykhólahreppi 15. janúar 2024.

Málsatvik og rök: Samkvæmt Aðalskipulagi Reykhólahrepps 2022–2034 eru í hreppnum nokkur fjöldi efnistökusvæða. Með óverulegri breytingu á skipulaginu, sem birt var í B-deild Stjórnartíðinda 29. september 2023, var nýrri námu bætt við austan Karlseyjarvegar á Reykhólum, E27. Í kjölfar þeirrar breytingar eru í sveitarfélaginu 20 efnistökusvæði. Framkvæmdaleyfi fyrir efnistöku í námunni var gefið út í nóvember s.á. en áður hafði sveitarstjórn á fundi sínum 11. október s.á. falið skipulagsfulltrúa að gefa leyfið út. Er ákvörðun sveitarstjórnar hin kærða ákvörðun í máli þessu.

Kærandi vísar m.a. til þess að með vinnubrögðum sveitarstjórnar sé bæði brotið gegn meðalhófi og jafnræði. Stjórnsýsla við breytingu á aðalskipulagi hafi verið óvönduð. Hagsmunir kæranda felist fyrst og fremst í því að hinn almenni íbúi sitji við sama borð og stjórnvald, en hann hafi sjálfur þurft að ganga í gegnum tæplega tveggja ára ferli til að fá landnotkun á jörð sinni breytt. Hagsmunir hans séu einnig fjárhagslegir en í landi kæranda sé opin grjótnáma og sé kærandi eigandi einu löglegu grjótnámunnar á Reykjanesi í Reykhólahreppi. Gert hafi verið ráð fyrir námu hans í aðalskipulaginu og sveitarfélagið hefði getað keypt efni úr henni. Verðmæti þeirra 20.000 m3 sem sveitarfélaginu vanti í framkvæmdir sé sennilega á milli 300-400 kr. pr. m3 og því ljóst að hagsmunir hans séu ríkir. Til staðar séu þúsundir rúmmetrar af góðu og sprengdu efni sem tilbúið sé til mölunar í rétta stærð. Þá hefur kærandi komið á framfæri varakröfu um að ákvörðun um „breytingu á aðalskipulagi varðandi námu E-27 verði tekin upp“.

Af hálfu Reykhólahrepps er m.a. bent á að kærandi hafi ekki lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun og eigi því ekki kæruaðild, sbr. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er það hlutverk nefndarinnar að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvalds­ákvarðana og í ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laganna geta þeir einir kært stjórnvaldsákvörðun til úrskurðarnefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda ákvörðun sem kæra á. Að stjórnsýslurétti hefur skilyrðið um lögvarða hagsmuni fyrir kæruaðild verið túlkað svo að þeir einir teljist aðilar kærumáls sem eigi einstaklegra hagsmuna að gæta af úrlausn máls umfram aðra og jafnframt að þeir hagsmunir séu verulegir.

Kærandi er eigandi jarðarinnar Miðjanes í Reykhólahreppi. Sú jörð er í nokkurri fjarlægð frá hinni umdeildu námu austan við Karlseyjarveg. Verður því ekki séð að leyfi til námunnar geti varðað grenndarhagsmuni hans og er heldur ekki á því byggt. Aftur á móti hefur kærandi fært fram sjónarmið um fjárhagslega eða samkeppnislega hagsmuni. Almennt leiða þeir óbeinu hagsmunir sem kærandi hefur með því vísað til ekki til kæruaðildar samkvæmt stjórnsýslurétti og verður ekki séð að í skipulagslögum nr. 123/2010 sé gert ráð fyrir því við töku ákvörðunar um veitingu framkvæmdaleyfis, sbr. 13. gr. laganna. Þar sem ekkert liggur fyrir um að kærandi hafi aðra þá lögvörðu hagsmuni sem veitt geta honum kæruaðild verður kröfu hans vísað frá úrskurðarnefndinni.

Kærandi hefur einnig krafist þess að úrskurðarnefndin láti sig breytingu á Aðalskipulagi Reykhólahrepps 2022–2034  varða. Í 3. mgr. 29. gr. skipulagslaga kemur fram að aðalskipulag er háð samþykki sveitarstjórnar og staðfestingu Skipulagsstofnunar og ráðherra í þeim tilvikum sem hann skal staðfesta aðalskipulag. Þær ákvarðanir sem Skipulagsstofnun og ráðherra ber að skipulagslögum að staðfesta verða ekki bornar undir úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, sbr. 1. mgr. 52. gr. skipulagslaga.

 

Af framangreindu virtu verður kærumáli þessu því vísað frá nefndinni.

 Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

141/2023 Laufdalur

Með

Árið 2024, mánudaginn 15. janúar 2024, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 141/2023, kæra á ákvörðun bæjarlögmanns Reykjanesbæjar frá 24. nóvember 2023 um að hafna kröfu um greiðslu skaðabóta vegna vanrækslu á eftirliti með byggingu húss á lóð nr. 9 við Laufdal.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 14. desember 2023, kærir eigandi, Laufdal 15, Reykjanesbæ, vinnubrögð byggingarfulltrúa Reykjanesbæjar vegna byggingu húss á lóð nr. 15 við Laufdal. Verður að skilja málatilbúnað kæranda svo að kærð sé sú ákvörðun bæjarlögmanns frá 24. nóvember 2023 að hafna kröfu um greiðslu skaðabóta vegna vanrækslu á eftirliti með byggingu húss á lóð nr. 15 við Laufdal og að þess sé krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjanesbæ 5. janúar 2024.

Málavextir: Árið 2006 samþykkti byggingarfulltrúi Reykjanesbæjar umsókn um byggingarleyfi vegna byggingu raðhúss að Laufdal 9–15 í Reykjanesbæ. Í október 2007 skrifaði byggingarfulltrúi sveitarfélagsins undir úttekt vegna burðarvirki þaks fyrir húsið á lóð nr. 15 við Laufdal. Sama ár var húsið fært á byggingarstig 4. Hinn 15. maí 2017 gerði kærandi ásamt öðrum aðila kaupsamning um þá fasteign, en í samningnum kom fram að seljandi myndi sjá um að koma eigninni upp á byggingarstig 6 og skyldi því lokið fyrir afhendingu. Samkvæmt fasteignaskrá Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar var húsið skráð með byggingarstig 7 í lok maí mánaðar 2017. Í febrúar 2023 mun kærandi hafa orðið vör við leka frá þaki hússins. Í kjölfarið óskaði kærandi eftir því lokaúttekt færi fram á eigninni. Mættu starfsmann byggingarfulltrúa á staðinn og tóku mannvirkið út, en í þeirri úttekt mun kæranda hafi verið tjáð að margt þyrfti að lagfæra áður en hægt væri að gefa út lokaúttektarvottorð.

Málsrök kæranda: Kærandi tekur fram að efni kærunnar varði vinnubrögð byggingarfulltrúa Reykjanesbæjar við byggingu á eign hennar að Laufdal 15. Sé þess krafist að embættið takið ábyrgð á vinnubrögðum starfsmanna þess, þ.e. að gefið hafi verið út áfangaúttekt vegna burðarvirkis og að embættið hafi ekki virt skyldur sínar þegar komið hafi að eftirliti við byggingu hússins. Hagsmunir kæranda lúti að skemmdum á þaki vegna galla á þakvirki sem hafi valdið miklu fjárhagslegu tjóni. Kærufrestur hafi byrjað að líða 14. nóvember 2023 þegar bæjarlögmaður sveitarfélagsins hafi hafnað bótakröfu.

Kærandi ásamt öðrum aðila hafi keypt fasteignina árið 2017 en galli í burðarvirki hafi komið í ljós í byrjun árs 2023. Við nánari skoðun hafi komið í ljós að byggingarfulltrúi hafi gefið út áfangaúttekt þess efnis að þakvirki stæðist teikningar og byggingarreglugerð, en það hafi verið rangt. Starfsmenn sveitarfélagsins hafi gengist við því að ekki hafi verið farið eftir ferlum við eftirlit á byggingarframkvæmdum og að þakvirkið stæðist ekki kröfur byggingarreglugerðar.

Málsrök Reykjanesbæjar: Af hálfu sveitarfélagsins er bent á að kærandi hafi sótt um lokaúttekt á eigninni og hafi starfsmenn byggingarfulltrúa farið á staðinn 29. mars 2023. Lokúttekt hafi þó ekki getað farið fram þar sem ýmsir verkþættir hafi enn verið ókláraðir.

Gögn málsins beri með sér að kæra þessa máls lúti að ákvörðun byggingarfulltrúa um að framkvæma ekki lokaúttekt á fasteign kæranda að Laufdal 15. Skilja megi kæru málsins jafnframt á þann hátt að sú ákvörðun sveitarfélagsins að færa mannvirkið milli byggingarstiga á árinu 2017 sé kærð. Það falli utan valdheimilda úrskurðarnefndarinnar að gefa byggingarfulltrúa fyrirmæli um að framkvæma úttektir eða gefa út vottorð, nema þegar um sé að ræða að slík túlkun sé hluti málsmeðferðar kæranlegrar ákvörðunar til nefndarinnar, svo sem vikið hafi verið að í forsendum úrskurðar nefndarinnar í máli nr. 50/2023. Fyrir liggi hvaða verkþætti þurfi að laga til þess að hægt sé að framkvæma úttekt og í kjölfarið taka ákvörðun um það hvort lokaúttektarvottorð verði gefið út. Sveitarfélagið byggi á því að í máli þessu liggi ekki fyrir ákvörðun sem bindi enda á mál og verði borin undir nefndina, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Verði fallist á það með kæranda að framangreindar ákvarðanir séu kæranlegar þá sé byggt á því að kærufrestur til nefndarinnar sé þegar liðinn.

 Niðurstaða: Í kæru þessa máls er tilgreint að hina kærða ákvörðun hafi verið tekin 14. nóvember 2023 og er þar átt við svar bæjarlögmanns Reykjanesbæjar þar sem kröfu kæranda um greiðslu skaðabóta var hafnað. Verður því, svo sem að framan greinir, að líta svo á að það sé hin kærða ákvörðun í máli þessu.

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er það hlutverk nefndarinnar að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og í ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Ákvörðun um að hafna bótaskyldu vegna brota á eftirlitsskyldu byggingarfulltrúa við byggingu mannvirkis er hvorki tekin á grundvelli laga nr. 160/2010 um mannvirki né á grundvelli annarra laga þar sem mælt er fyrir um kæruheimild til úrskurðarnefndarinnar. Ágreiningur um bótaskyldu er einkaréttarlegs eðlis og verður hann ekki leiddur til lykta fyrir úrskurðarnefndinni, heldur eftir atvikum fyrir dómstólum. Brestur úrskurðarnefndina því vald til að taka kæruefnið til endurskoðunar og verður málinu af þeim sökum vísað frá nefndinni.

 Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

140/2023 Endurvinnslustöð að Óseyri 3

Með

Árið 2024, fimmtudaginn 11. janúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Arnór Snæbjörnsson formaður og Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður. Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor tók þátt í gegnum fjarfundabúnað.

Fyrir var tekið mál nr. 140/2023, kæra á ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra frá 15. nóvember 2023 um að veita Furu ehf. starfsleyfi til móttöku og meðhöndlun á málmum og hjólbörðum til endurvinnslu á lóðinni Óseyri 3, Akureyri.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

 

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, 13. desember 2023, er barst nefndinni sama dag, kærir íbúi að Ægisgötu 7, Akureyri, þá ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra frá 15. nóvember 2023 að veita Furu ehf. starfsleyfi til móttöku og meðhöndlun á málmum og hjólbörðum til endurvinnslu á lóðinni Óseyri 3, Akureyri. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Til vara er þess krafist að úrskurðarnefndin felli ákvörðunina úr gildi þar til úrbætur hafa verið gerðar. Þá er gerð krafa um að Heilbrigðiseftirliti Norðurlands eystra verði gert að greiða kæranda málskostnað.

Þess er jafnframt krafist að hin umdeilda starfsemi verði stöðvuð á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og er því ekki tilefni til að taka afstöðu til þeirrar kröfu kæranda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Heilbrigðiseftirliti Norðurlands eystra 4. janúar 2024.

Málavextir: Leyfishafi í máli þessu hefur um skeið haft starfsleyfi til reksturs endurvinnslustöðvar fyrir móttöku og meðhöndlun á málmum og hjólbörðum á lóðinni Óseyri 3, Akureyri. Í ágúst 2023 sótti hann um endurnýjun starfsleyfisins og hinn 11. september s.á. var tillaga að þeirri endurnýjun kynnt á heimasíðu Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra. Á fundi Heilbrigðisnefndar Norðurlands eystra 20. s.m. samþykkti nefndin að starfsleyfi yrði gefið út að umsagnarfresti liðnum, nema athugasemdir sem kynnu að berast við tillöguna gæfu tilefni til annars. Á kynningartíma tillögunnar kom kærandi að athugasemd er laut að því að hætta væri á því að olía bærist í jarðveg þar sem athafnasvæðið væri ekki malbikað og þar sem ekki væri gerð krafa um að frárennsli væri tengt við olíuskilju. Á fundi heilbrigðisnefndarinnar 15. nóvember 2023 var bókað að athafnasvæðið væri malbikað og að sú krafa væri gerð í starfsleyfisskilyrðum að óheimilt væri að taka á móti úr sér gengin ökutæki nema þau hefðu áður verið hreinsuð af olíu og spilliefnum. Væru hverfandi líkur á að jarðvegur í grennd við athafnasvæðið myndi mengast vegna starfseminnar. Samþykkti nefndin að veita leyfishafa umsótt starfsleyfi til 12 ára. Sama dag gaf Heilbrigðiseftirlit Norðurlands eystra út starfsleyfi til handa leyfishafa.

Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda er vísað til þess að nokkur alvarleg frávik hafi átt sér stað í leyfisskyldri starfsemi leyfishafa í aðdraganda endurnýjunar starfsleyfisins. Hafi kærandi sent ábendingar þar um til Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra. Forsendur fyrir útgáfu starfsleyfisins hafi því verið brostnar þar sem skilyrði hafi ekki verið uppfyllt. Leyfishafi meðhöndli olíutunnur í starfsemi sinni en við slíka meðhöndlun sé ávallt hætta á að olíuskiljur leki. Sú aðstaða kalli á réttar og fullnægjandi varnir á athafnasvæðinu. Skemmri skírn dugi ekki. Það sé aðfinnsluvert að rökstuðningur fyrir starfsleyfi byggi á líkindafræði, en með því sé vísað til ummæla eftirlitsins um að „hverfandi líkur“ séu á mengun jarðvegs. Fyrir liggi að lögmælt skilyrði um olískiljur sé ekki uppfyllt. Þá sé starfsemin ekki í samræmi við skipulagsáætlun svæðisins.

Málsrök Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra: Stjórnvaldið bendir á að kærandi hafi ekki sýnt fram á hvaða lögvörðu hagsmuni hann hafi af hinni kærðu ákvörðun. Fasteign kæranda að Ægisgötu 7 sé í um eins kílómetra fjarlægð frá starfsstöð leyfishafa að Óseyri 3 og verði því ekki séð að hin kærða ákvörðun raski grenndarhagsmunum kæranda. Vísað sé til úrskurða úrskurðarnefndarinnar í málum nr. 146/2022 og 113/2020. Kærandi sé að auki einn af eigendum annars fyrirtækis sem sé í samskonar rekstri og leyfishafi, en samkeppnisstaða ein og sér geti ekki verið grundvöllur kæruaðildar. Hið kærða starfsleyfi hafi verið veitt í samræmi við lög nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Starfsemin sé ekki þess eðlis að olíuskilja skuli vera til staðar.

Athugasemdir leyfishafa: Af hálfu leyfishafa er bent á að ekki sé skýrt af kærunni hvaða hagsmuna kærandi hafi að gæta varðandi hina umræddu starfsemi, en fasteign kæranda sé fjarri Óseyri 3. Aldrei hafi neitt brugðið út af varðandi öryggismál eða mengunarvarnir. Fullyrðingu kæranda um að leyfishafi meðhöndli olíutunnur sem fylgi óhjákvæmileg hætta á leka sé mótmælt, enda hafi heilbrigðisfulltrúi staðfest að tunnurnar væru hreinsaðar og eingöngu nýttar fyrir geymslu á búnaði. Sé því engin hætta á mengun jarðvegs vegna þeirra.

 Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi telur sig hafa lögvarða hagsmuni af kæruefni þessa máls. Úrskurðarnefndin hafi í máli nr. 119/2021 tekið fram að gæta bæri varfærni við að vísa málum frá á þeim grunni að kærendur skorti lögvarða hagsmuni nema augljóst væri að það hefði ekki raunhæfa þýðingu fyrir lögvarða hagsmuni þeirra að fá leyst úr þeim ágreiningi sem standi að baki kærumáli. Í lögskýringargögnum sem hafi fylgt frumvarpi til stjórnsýslulaga nr. 37/1993 segi að skýra beri hugtakið aðili máls rúmt þannig að ekki einungis sé átt við þá sem eiga beina aðild að máli, heldur einnig þá sem hafi óbeinna hagsmuna að gæta, svo sem nágranna.

Við mat á því hvort kærandi eigi lögvarinna hagsmuna að gæta verði að líta til þess að hin kærða starfsemi feli í sér mengandi iðnað rétt við íbúðarbyggð, sem áhrif geti haft á fasteignaverð. Lóðin að Óseyri 3 sé í næsta nágrenni við heimili kæranda eða u.þ.b. 1,1 km fjarlægð. Vísað sé til sérálits nefndarmanns úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 96/2020 þar sem um hafi verið að ræða byggingu malbikunarstöðvar í 1,3–1,9 km fjarlægð. Hafi nefndarmaðurinn talið að ekki væri hægt að útiloka að kærendur yrðu fyrir áhrifum af loftmengun „og öðru ónæði“ frá starfseminni umfram aðra. Atvik í því máli séu sambærileg þessu máli. Kærandi sé íbúi á Akureyri en telja verði að allir íbúar Akureyrar geti verið aðilar að máli sem þessu þar sem þeir hafi hagsmuni af því að hætta á mengunarslysum sé sem minnst.

Þá sé það rétt að kærandi sé framkvæmdastjóri fyrirtækis sem sé í samkeppni við leyfishafa, en það fyrirtæki sé þó ekki aðili þessa máls þar sem kærandi hafi talið mikilvægara að efni kærunnar fengi að ráða för en ekki umfjöllun um samkeppni.

———-

Aðilar hafa gert ítarlegri grein fyrir máli sínu en þau sjónarmið verða ekki rakin nánar hér í ljósi niðurstöðu máls þessa.

Niðurstaða: Í máli þessu er kærð sú ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra frá 15. nóvember 2023 að veita Furu ehf. starfsleyfi til móttöku og meðhöndlunar á málmum og hjólbörðum til endurvinnslu á lóðinni Óseyri 3, Akureyri.

Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvarðanir til nefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kærð er. Verður að túlka þetta ákvæði í samræmi við almennar reglur stjórnsýsluréttar um aðild að kærumálum þar sem við mat á því hvort lögvarðir hagsmunir séu fyrir hendi beri að líta til þess hvort hlutaðeigandi eigi einstaklegra og verulegra hagsmuna að gæta við úrlausn málsins.

Fyrir liggur að fasteign kæranda, sem er í grónu íbúðarhverfi, er í tæplega eins kílómetra fjarlægð frá hinni umdeildu starfsemi leyfishafa og er starfstöðin ekki í augsýn frá húsi kæranda. Að teknu tilliti til þess og þeirrar starfsemi sem um ræðir verður ekki séð að hún varði grenndarhagsmuni kæranda. Þá byggir kærandi lögvarða hagsmuni sína einnig á því að hann hafi sem íbúi bæjarins hagsmuni af því að hætta á mengunarslysum sé sem minnst. Þau málsrök lúta að gæslu hagsmuna sem telja verður almenna en ekki einstaklega.

Með hliðsjón af framangreindu uppfyllir kærandi ekki skilyrði kæruaðildar samkvæmt fyrrgreindri 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 í máli þessu og verður málinu því vísað frá úrskurðarnefndinni sökum aðildarskorts.

 Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

135/2023 Kirkjuvegur

Með

Árið 2023, föstudaginn 29. desember, tók Ómar Stefánsson, varaformaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála fyrir með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála:

 Mál nr. 135/2023, kæra á afgreiðslu bæjarstjórnar Hafnarfjarðar frá 9. nóvember 2022 um að samþykkja deiliskipulag Vesturbæjar í Hafnarfirði.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 4. desember 2023, mótteknu sama dag, kæra eigendur, Kirkjuvegi 3, Hafnarfirði, þá ákvörðun bæjarstjórnar Hafnarfjarðar frá 9. nóvember 2022 að samþykkja deiliskipulag Vesturbæjar Hafnarfjarðar. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi að því er varðar lóð kærenda að Kirkjuvegi 3A.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Hafnarfjarðarbæ 13. desember 2023.

Málavextir: Hinn 5. október 2021 samþykkti skipulags- og byggingarráð Hafnarfjarðar að auglýsa tillögu að deiliskipulagi Vesturbæjar og samþykkti bæjarstjórn greinda afgreiðslu á fundi 13. s.m. Tillagan var auglýst til kynningar frá 19. október til 30. nóvember 2021 og athugasemdafrestur síðan framlengdur til 9. desember s.á. Málið var tekið fyrir að nýju á fundi skipulags- og byggingarráðs 25. mars 2022 og uppfærð tillaga ásamt greinargerð samþykkt. Samþykkti bæjarstjórn nefnda afgreiðslu á fundi 6. apríl s.á. Í kjölfarið var deiliskipulagið sent til Skipulagsstofnunar til lögboðinnar yfirferðar sem taldi að yfirfara þyrfti og skýra nánar tiltekin atriði. Málið var í frekari vinnslu hjá sveitarfélaginu og á fundi skipulags- og byggingarráðs 3. nóvember 2022 voru uppfærð gögn og minnisblað vegna samantektar verkefnastjóra við athugasemdir Skipulagsstofnunar samþykkt. Jafnframt var málinu vísað til staðfestingar bæjarstjórnar sem á fundi 9. nóvember 2022 samþykkti greinda afgreiðslu. Auglýsing um gildistöku deiliskipulagsins var birt í B-deild Stjórnartíðinda 29. nóvember 2022.

 Málsrök kærenda: Kærendur benda á að þegar deiliskipulag Vesturbæjar Hafnarfjarðar hafi fyrst verið auglýst hafi engar breytingar verið fyrirhugaðar á lóð þeirra. Í greinargerð með uppfærðri tillögu frá febrúar 2022 og mars s.á. komi skýrt fram að engar breytingar séu fyrirhugaðar á lóðinni. Hinn 4. okóber 2023 hafi bæjarlögmaður Hafnarfjarðar haft samband við kærendur og sent þeim skjal með heitinu „tillaga að deiliskipulagi“ og skipulagstöflu þar sem fram hafi komið að lóð kærenda yrði skipt upp í tvær lóðir. Tillagan hafi komið kærendum í opna skjöldu og hafi þeir ítrekað leitað frekari upplýsinga frá bæjarlögmanni á tímabilinu frá 6.–25. s.m. Efnislegt svar hafi borist þeim 6. nóvember 2023 þar sem fullyrt hafi verið að umrædd tillaga hefði tekið gildi og að kærufrestir vegna hennar væru liðnir. Þá hafi kærendum fyrst orðið ljóst að búið væri að taka ákvörðun um skiptingu á lóð þeirra án þess að þeim hafi verið kynnt málið eða gefinn kostur á andmælum.

Hinn 1. desember 2023 hafi lögmaður kærenda sent erindi til bæjarlögmanns þar sem m.a. hafi verið farið fram á að hafist yrði handa við að leiðrétta mistök varðandi lóð þeirra og hafi bæjarlögmaður sent viðkomandi gögn samdægurs og tjáð þeim að bæjarstjóri yrði upplýstur um stöðu mála. Auglýsing í B-deild Stjórnartíðinda 29. nóvember 2022 um deiliskipulagið geti ekki markað upphaf kærufrests gagnvart kærendum þar sem breyting sú er varði lóð þeirra hafi aldrei verið kynnt þeim eða auglýst eftir að upphafleg tillaga að nýju deiliskipulagi hafi verið auglýst sem gerði ekki ráð fyrir breytingum á lóð kærenda. Afsakanlegt verði að telja að kæra í máli þessu hafi ekki borist fyrr og að veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar, sbr. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Málsrök Hafnarfjarðarbæjar: Af hálfu sveitarfélagsins er tekið fram að hið kærða deiliskipulag sé nokkuð umfangsmikið og hafi tillagan verið ítarlega kynnt bæjarbúum og öðrum hagsmunaaðilum meðan á vinnu þess hafi staðið. Þó nokkuð af athugasemdum hafi borist á kynningartíma tillögunnar. Skipulagsfulltrúi hafi tekið saman minnisblað vegna þeirra sem samþykkt hafi verið á fundi bæjarstjórnar ásamt uppfærðri tillögu. Skipulagsstofnun hafi samþykkt með bréfi, dags. 24. nóvember 2022, að birt yrði auglýsing um samþykkt deiliskipulagsins. Undirbúningur hinnar kærðu ákvörðunar hafi því verið lögum samkvæmt.

Athugasemdir eiganda Kirkjuvegar 3A: Bent er á að Kirkjuvegur 3 og 3A séu í raun tvö samliggjandi hús á einni lóð, þ.e. timburhús (sem sé nr. 3A) og steinhús (sem sé nr. 3). Umræddur eigandi hafi búið erlendis í um 1 og ½ ár og þegar hann hafi komið til landsins vorið 2021 hafi verið búið að byggja stóran sólpall undir allri suðvesturhlið beggja húsanna. Hvort sem nágrannarnir séu við leik eða störf, að grilla eða í sólbaði blasi þeir nú við þegar horft sé út um gluggann á húsi eigandans. Byrgi sólpallurinn fyrir kjallaraglugga og ókleift sé að sinna viðhaldi utanhúss á kjallara. Þá stafi aukinn eldhætta af sólpalli úr timbri og grillaðstöðu alveg upp við húsið. Vegna framangreinds hafi þurft að skipta lóðinni upp og hafi Hafnarfjarðarbæ samþykkt erindi eiganda þess efnis. Sé kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar vegna deiliskipulagsins liðinn.

Viðbótarathugasemdir kærenda: Kærendur telja að umsögn sveitarfélagsins sé illskiljanleg. Ekki sé gerð athugasemd við málsatvikalýsingu kærenda en hún sé um að sveitarfélagið hafi ekki staðið rétt að umræddri skipulagsbreytingu. Þótt upphafleg tillaga hafi verið auglýst þá hafi breytingin sem lotið hafi að eign kærenda ekki verið það og hún hafi ekki verið kynnt kærendum með neinum hætti. Slík framkvæmd sé augljóslega ekki í samræmi við 8. kafla skipulagslaga nr. 123/2010, einkum 1. mgr. 43. gr. laganna sem kveði á um að fara skuli með breytingu á deiliskipulagi sem nýtt deiliskipulag. Umsögn þess sé því markleysa og sé andmælt sem slíkri.

Niðurstaða: Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærufrestur til nefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um þá ákvörðun sem kæra lýtur að. Sé um að ræða ákvörðun sem sætir opinberri birtingu telst kærufrestur frá birtingu ákvörðunar.

Hinn 29. nóvember 2022 var birt auglýsing í B-deild Stjórnartíðinda um samþykkt bæjarstjórnar frá 9. s.m. á endurgerðu og nýju deiliskipulagi Vesturbæjar í Hafnarfirði, þ.e. deiliskipulagi því sem kært er í máli þessu. Samkvæmt 2. mgr. 27. gr., sbr. 1. mgr. 8. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 tekur kærufrestur að líða degi eftir opinbera birtingu ákvörðunar. Kæra vegna hins umdeilda deiliskipulags barst úrskurðarnefndinni 4. desember 2023 og því ljóst að kærufrestur var þá liðinn.

Í 28. gr. stjórnsýslulaga er fjallað um áhrif þess ef kæra berst að liðnum kærufresti. Ber þá skv. 1. mgr. ákvæðisins að vísa kæru frá nema að afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að hún verði tekin til meðferðar. Í 2. mgr. kemur fram að kæru skuli ekki sinnt ef meira en ár sé liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila, en líta verður svo á að það taki jafnframt til þess þegar ákvörðun sætir opinberri birtingu skv. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Verður kærumáli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni af framangreindum sökum.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

134/2023 Gauksstaðir

Með

Árið 2023, föstudaginn 29. desember, tók Ómar Stefánsson, varaformaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála fyrir með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 130/2011:

Mál nr. 134/2023, kæra á ákvörðun framkvæmda- og skipulagsráðs Suðurnesjabæjar frá 25. október 2023 um að samþykkja fyrirspurn vegna endurbyggingu matshluta 03 á lóðinni Gauksstöðum.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 15. nóvember 2023, er barst nefndinni 29. s.m., kæra eigendur, Gauksstaðavegi 6, þá ákvörðun framkvæmda- og skipulagsráðs Suðurnesjabær frá 25. október 2023 að samþykkja fyrirspurn um endurbyggingu á matshluta 03 á lóðinni Gauksstöðum. Skilja verður málskot kærenda svo að krafist sé ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Suðurnesjabæ 22. desember 2023.

Málsatvik og rök: Á fundi framkvæmda- og skipulagsráðs Suðurnesjabæjar 20. júlí 2023 var tekin fyrir fyrirspurn vegna endurbyggingar á matshluta 03 á lóðinni Gauksstöðum. Fólu fyrirhugaðar framkvæmdir í sér að fjarlægja geymslu og byggja íbúðarhúsnæði á nýjum stað innan lóðar. Var erindinu synjað þar sem ráðið taldi breytinguna ekki vera lítilsháttar eins og fram kæmi í byggingarlýsingu. Erindið var tekið fyrir að nýju á fundi ráðsins 20. september s.á. en þá höfðu verið gerðar breytingar á byggingaráformunum. Samþykkti ráðið byggingaráformin með fyrirvara um grenndarkynningu án athugasemda, sbr. 2. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Með bréfi verkefnastjóra umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 25. september 2023, voru áformin grenndarkynnt hagsmunaaðilum og bárust athugasemdir á kynningartíma, þ. á m. frá kærendum. Að kynningu lokinni tók framkvæmda- og skipulagsráð erindið fyrir að nýju á fundi 25. október s.á. og bókaði að athugasemdir hefðu borist þar sem fjölgun íbúða og aukinni umferð væri mótmælt. Taldi ráðið að byggingaráformin væru í samræmi við aðalskipulag og að framkomnar athugasemdir gæfu ekki tilefni til synjunar. Væri erindið því samþykkt. Staðfesti bæjarstjórn greinda afgreiðslu á fundi 1. nóvember s.á.

Kærendur telja að Gauksstaðavegur beri ekki þá aukna umferð sem muni fylgja fyrirhugaðri  byggingu, en um sé að ræða einbreiðan veg án gangstétta. Miðað við staðsetningu muni umferð til og frá Gauksstöðum fara í gegnum innkeyrslu kærenda að Gauksstaðavegi 6. Það sé augljóst að á Gauksstöðum muni verða rekið íbúðarhótel en hvergi hafi verið gert ráð fyrir slíkri starfsemi á svæðinu.

Af hálfu Suðurnesjabæjar er bent á að um sé að ræða metnaðarfulla uppbyggingu á eldra húsnæði á stórri lóð. Ekki liggi fyrir samþykkt deiliskipulag og sé því stuðst við gildandi aðalskipulag, en þar sé lóðin Gauksstaðir á skilgreindu svæði fyrir íbúðarbyggð (ÍB-16). Í Aðalskipulagi Suðunesjabæjar 2022–2034 segi að á íbúðarsvæðum sé svigrúm fyrir heimagistingu og íbúðir til útleigu í tengslum við ferðaþjónustu. Umferðaraukning og það ónæði sem hljótist af fyrirhugaðri byggingu verði ekki meiri en eðlilegt geti talist í þéttbýli.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur úrskurðarnefndin það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Samkvæmt 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verða þó ákvarðanir sem ekki binda enda á mál ekki kærðar til æðra stjórnvalds.

Afgreiðsla umsóknar um byggingarleyfi og útgáfu þess er í höndum byggingarfulltrúa samkvæmt ákvæðum laga nr. 160/2010 um mannvirki, sbr. 2. mgr. 9. gr., 11. gr. og 13. gr. laganna. Umrætt svæði hefur ekki verið deiliskipulagt en upphaf máls þessa má rekja til fyrirspurnar lóðarhafa Gauksstaða til bæjaryfirvalda Suðurnesjabæjar vegna tiltekinna byggingaráforma á lóðinni. Samkvæmt framkomnum upplýsingum frá bæjaryfirvöldum hafa byggingaráformin ekki verið samþykkt af byggingarfulltrúa. Hin kærða ákvörðun framkvæmda- og skipulagsráðs um að samþykkja fyrirspurn vegna umræddra byggingaráforma að lokinni grenndarkynningu felur samkvæmt framansögðu ekki í sér lokaákvörðun í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga heldur er hún liður í málsmeðferð framangreinds erindis sem eftir atvikum lýkur með samþykki byggingarfulltrúa á byggingaráformum. Er því ekki fyrir hendi ákvörðun sem borin verður undir úrskurðarnefndina og verður kærumáli þessu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.

Bent er á að ljúki málinu með því að byggingarfulltrúi samþykki umdeild byggingaráform byggingaráform er sú ákvörðun eftir atvikum kæranleg til úrskurðarnefndarinnar.

 Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

131/2023 Hamrabrekkur

Með

Árið 2023, föstudaginn 22. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur. Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor tók þátt í gegnum fjarfundabúnað.

Fyrir var tekið mál nr. 131/2023, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Mosfellsbæjar frá 25. september 2023 um að fjarlægja beri tvö smáhýsi á suðurenda lóðarinnar Hamra-brekkum 11.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 21. nóvember 2023, er barst nefndinni 22. s.m. kærir eigandi Hamrabrekkna 11 Mosfellsbæ þá ákvörðun byggingarfulltrúa Mosfellsbæjar frá 25. september 2023 að fjarlægja beri tvö smáhýsi sem standa á suðurenda lóðarinnar Hamrabrekkna 11. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Þess er jafnframt krafist að réttaráhrifum ákvörðunarinnar verði frestað á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Mosfellsbæ 8. desember 2023.

Málavextir: Hinn 20. júní 2023 sendi eigandi lóðarinnar Hamrabrekkna 10, Mosfellsbæ, sveitarfélaginu erindi þess efnis að lóðinni Hamrabrekkum 11 hefði verið raskað og hún hækkuð. Verið væri að byggja smáhýsi sem eigandi lóðarinnar Hamrabrekkna 10 taldi skerða útsýni sitt auk þess sem þau væru of há og fyrir utan byggingarreit. Erindinu var svarað 21. s.m. og kom þar fram sú afstaða bæjaryfirvalda að svæðið hefði verið skoðað og að viðkomandi mannvirki væri ekki byggingarleyfisskylt.

Eigandi Hamrabrekkna 10 fór fram á að úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála tæki afstöðu til þess hvort bygging tveggja kofa á lóðinni Hamrabrekkum 11 væri háð byggingarleyfi með vísan til 4. mgr. 9. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Með úrskurði nefndarinnar í máli nr. 77/2023, uppkveðnum 19. júlí 2023, var komist að þeirri niðurstöðu að hin umdeildu smáhýsi væru byggingarleyfisskyld þar sem ekki væri í gildi deiliskipulag fyrir það svæði sem þau stæðu á, en í 1. mgr. gr. 2.3.5. byggingarreglugerðar væri samræmi við deiliskipulag gert að skilyrði fyrir þeim undanþágum frá skyldu til öflunar byggingarheimildar og byggingarleyfis sem þar væru taldar upp.

Í kjölfar úrskurðarins sótti kærandi í máli þessu um byggingarleyfi hinn 27. júlí 2023 vegna tveggja 15 m2 geymslna á lóðinni Hamrabrekkum 11. Byggingarfulltrúi Mosfellsbæjar sendi kæranda tölvupóst 14. ágúst s.á. þar sem fram kom að samanlagt byggingarmagn á lóðinni væri 130 m2 og því væri ekki hægt að samþykkja frekari byggingar á henni.

Með bréfi byggingarfulltrúa, dags. 25. september 2023, var skorað á kæranda að fjarlægja tvö smáhýsi á suðurenda lóðarinnar Hamrabrekkna 11 og var honum veittur frestur til 22. október 2023 til að ljúka því verki. Jafnframt var vakin athygli á heimildum byggingarfulltrúa skv. 55. og 56. gr. laga nr. 160/2010 til að stöðva framkvæmdir og að knýja á um úrbætur, en byggingarfulltrúi gæti látið fjarlægja húsin á kostnað eiganda þeirra yrði kærandi ekki við framangreindri áskorun. Þá gæti byggingarfulltrúi lagt á dagsektir til að knýja á um að umrædd mannvirki yrðu fjarlægð. Kæranda var síðar veittur viðbótarfrestur til 22. nóvember 2023 til að fjarlægja smáhýsin.

Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda er bent á að brotið hafi verið gegn leiðbeiningar-, rannsóknar- og andmælareglunni, sbr. 7., 10. og 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, þar sem kærandi hafi ekki fengið að tjá sig um hina kærðu ákvörðun áður en hún hafi verið tekin. Þá hafi verið brotið gegn jafnræðisreglunni, sbr. 11. gr. stjórnsýslulaga, þar sem fjölmörg smáhýsi séu á svæðinu.

Málsrök Mosfellsbæjar: Af hálfu Mosfellsbæjar er því hafnað að brotið hafi verið gegn 7., 10., 11. og 13. gr. stjórnsýslulaga. Kærandi hafi fengið allar nauðsynlegar upplýsingar til að gæta hagsmuna sinna þegar litið sé til atvika málsins og að allar upplýsingar hafi legið fyrir svo taka mætti hina kærðu ákvörðun. Þá hafi ekki verið skylt að veita kæranda andmælarétt þar sem grundvöllur málsins hafi byggst á úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 77/2023. Það sé máli þessu óviðkomandi að smáhýsi séu á öðrum lóðum í sveitarfélaginu.

———-

Aðilar máls þessa hafa fært fram ítarlegri rök fyrir máli sínu, sem ekki verða rakin nánar hér, en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Í 1. mgr. 56. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki segir að sé ásigkomulagi, frágangi, umhverfi eða viðhaldi húss, annars mannvirkis eða lóðar ábótavant, af því stafi hætta eða það teljist skaðlegt heilsu að mati byggingarfulltrúa eða Mannvirkjastofnunar eða ekki sé gengið frá því samkvæmt samþykktum uppdráttum, lögum, reglugerðum og byggingarlýsingu, skuli gera eiganda eða umráðamanni þess aðvart og leggja fyrir hann að bæta úr því sem áfátt sé. Í 2. mgr. 56. gr. sömu laga er mælt fyrir um að Mannvirkjastofnun og byggingarfulltrúa sé heimilt að leggja á dagsektir til þess að knýja menn til þeirra aðgerða. Ákvarðanir byggingar-fulltrúa um beitingu þvingunarúrræða skv. 55. og 56. gr. mannvirkjalaga eru kæranlegar til úrskurðarnefndarinnar samkvæmt 59. gr. laganna. Samkvæmt 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verða ákvarðanir sem ekki binda enda á mál ekki bornar undir kærustjórnvald fyrr en málið hefur verið til lykta leitt.

Tilefni máls þessa er bréf byggingarfulltrúa til kæranda með áskorun um úrbætur vegna mannvirkja á lóð hans innan tiltekins frests. Er þar jafnframt bent á heimildir byggingarfulltrúa skv. 55. og 56. gr. laga nr. 160/2010 til að stöðva framkvæmdir og knýja á um úrbætur, svo sem með því að láta fjarlægja húsin á kostnað eiganda þeirra, verði kærandi ekki við áskorun byggingarfulltrúa. Ekki verður talið að bréfið feli í sér lokaákvörðun sem skotið verði til úrskurðarnefndarinnar heldur einungis áskorun sem felur í sér tilmæli til kæranda og tilkynningu um að til álita komi að beita þvingunarúrræðum laga um mannvirki verði kærandi ekki við áskoruninni. Verður því að vísa máli þessu frá úrskurðarnefndinni í samræmi við fyrirmæli 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

133/2023 Eyrartún

Með

Árið 2023, föstudaginn 22. desember, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 133/2023, kæra á afgreiðslu skipulags- og mannvirkjanefndar Ísafjarðarbæjar frá 26. október 2023 vegna erindis kæranda um leikvöll á Eyrartúni á Ísafirði.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 26. nóvember 2023, er barst nefndinni sama dag, kærir íbúi, Túngötu 12, Ísafirði, þá ákvörðun skipulags- og mannvirkjanefndar Ísafjarðarbæjar frá 26. október 2023 að gefa ekki út framkvæmdaleyfi fyrir leikvöll á Eyrartúni. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Í málinu er jafnframt gerð krafa um að framkvæmdir verði stöðvaðar til bráðabirgða á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til framkominnar stöðvunarkröfu.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Ísafjarðarbæ 12. desember 2023.

Málavextir: Á fundi skipulags- og mannvirkjanefndar Ísafjarðarbæjar 22. desember 2022 var tekið fyrir mál vegna fyrirhugaðs leikvallar á Eyrartúni á Ísafirði þar sem m.a. var ráðgert að koma fyrir aparólu nálægt lóðarmörkum Túngötu 12. Var samþykkt að kynna uppdrætti leikvallarins fyrir íbúum bæjarins á heimasíðu þess og óska eftir ábendingum frá almenningi. Að lokinni kynningu voru gerðar breytingar á uppdráttunum með tilliti til innkominna athugasemda og þeir lagðir fyrir nefndina á fundi hennar 9. mars 2023. Samþykkti nefndin að fela starfsmanni að leggja inn pöntun á tækjum og bjóða framkvæmdina út í samræmi við fjárhagsáætlun. Á fundi bæjarráðs 11. september s.á. heimilaði ráðið útboð framkvæmdarinnar.

Með bréfi kæranda til sveitarfélagsins, dags. 20. september 2023, voru gerðar athugasemdir við samþykkt útboð á þeim grundvelli að fyrirhuguð staðsetning aparólu væri í ósamræmi við gildandi deiliskipulag. Var sveitarfélaginu tilkynnt að framkvæmdin yrði kærð til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála „ætli bæjaryfirvöld að halda áformum sínum til streitu.“ Á fundi skipulags- og mannvirkjanefndar 26. október s.á. var lagt fram minnisblað sviðsstjóra umhverfis- og eignasviðs, dags. 24. s.m., þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að framkvæmdin væri í samræmi við skipulagsáætlanir sveitarfélagsins og væri ekki framkvæmdaleyfisskyld. Fól skipulags- og mannvirkjanefnd starfsmanni sviðsins að svara kæranda í samræmi við umræður á fundinum og minnisblað sviðsstjóra. Þá færði nefndin til bókar að framkvæmdin væri ekki háð framkvæmdaleyfi með vísan til 5. gr. reglugerðar nr. 772/2012 um framkvæmdaleyfi.

Málsrök kæranda: Kærandi telur framkvæmdina ekki vera í samræmi við skipulagsáætlanir Ísafjarðarbæjar, sbr. 1. mgr. 12. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Svæðið þar sem leikvöllurinn sé fyrirhugaður nái yfir tvo skipulagsreiti. Eyrartúnið sjálft sé í aðalskipulagi skilgreint sem opið svæði til sérstakra nota en svæðið í kringum safnahúsið (Þ12) sé skipulagt undir þjónustustofnanir. Á deiliskipulagsuppdrætti sjáist vel að hluti leiksvæðisins sé utan þess reits sem skilgreindur sé sem leiksvæði/almenningsgarður.

Bent sé á að í úrskurði úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 103/2018 hafi nefndin talið framkvæmd vegna boltavallar vera framkvæmdaleyfisskylda m.a. með hliðsjón af áhrif vallarins á næsta umhverfi. Fyrir liggi að leikvöllurinn á Eyrartúni muni hafa veruleg grenndaráhrif á íbúa Túngötu 12, sérstaklega hvað varði hljóðvist og innsýn. Með hliðsjón af því og þar sem um sé að ræða mikla breytingu á ásýnd svæðisins sé framkvæmdin leyfisskyld. Horfa verði á svæðið í heild sinni en nú sé þegar kominn ærslabelgur á Eyrartún. Samkvæmt uppdrætti sé ráðgert að fara í frekari framkvæmdir sem ekki séu hluti af núverandi útboði. Ekki sé boðlegt að búta framkvæmdirnar niður í því skyni að horfa á hvern og einn verkþátt sem óverulegan.

Málsrök Ísafjarðarbæjar: Af hálfu sveitarfélagsins er bent á að lóðin Túngata 10, þar sem leikvöllurinn sé fyrirhugaður, sé staðsett innan svæðis sem skilgreint sé sem þjónustusvæði í Aðalskipulagi Ísafjarðarbæjar 2008–2020 og leiksvæði barna rúmist innan þess landnotkunarflokks. Framkvæmdin sé þess eðlis að hún hafi óveruleg áhrif á umhverfið. Þá sé hún ekki hluti af ítarlegri upptalningu framkvæmdaleyfisskyldra framkvæmda í 5. gr. reglugerðar nr. 772/2012 um framkvæmdaleyfi.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi bendir á að í lok sumars 2018 hafi Ísafjarðarbær ákveðið að setja niður ærslabelg á Eyrartúni. Upphaflega hafi staðið til að staðsetja ærslabelginn fjær lóðarmörkum Túngötu 12 heldur en nú standi til að staðsetja aparóluna. Eftir mótmæli íbúa hafi verið ákveðið að færa ærslabelginn til en um það megi lesa í úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála máli nr. 98/2021. Með hliðsjón af jafnræðisreglu stjórnsýsluréttarins verði að teljast ótækt af Ísafjarðarbæ að hafna með öllu ítrekuðum athugasemdum eigenda Túngötu 12 um staðsetningu aparólunnar.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er það hlutverk nefndarinnar að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og í ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Í 8. mgr. 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er að finna heimild til að skjóta máli til úrskurðarnefndarinnar leiki vafi á því hvort framkvæmdir séu háðar ákvæðum um framkvæmdaleyfi. Sú heimild er bundin við umsækjanda um framkvæmdaleyfi og hlutaðeigandi sveitarstjórn og kemur því ekki til álita að taka kærumálið til efnislegrar meðferðar á grundvelli þess lagaákvæðis.

Samkvæmt 52. gr. skipulagslaga sæta stjórnvaldsákvarðanir sem teknar eru á grundvelli þeirra laga kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Svo sem að framan greinir lagði kærandi fram erindi til Ísafjarðarbæjar hinn 20. september 2023 þar sem gerðar voru athugasemdir við fyrirhuguð framkvæmdaáform um leikvöll á Eyrartúni. Taldi kærandi framkvæmdina ekki vera í samræmi við deiliskipulag svæðisins auk þess sem sveitarfélaginu var tilkynnt um að til stæði að kæra framkvæmdina til úrskurðarnefndarinnar. Var erindið afgreitt af skipulags- og mannvirkjanefnd með þeim hætti að fela starfsmanni að svara kæranda í samræmi við framlagt minnisblað og færa til bókar að nefndin teldi framkvæmdina ekki leyfisskylda. Ekki er hægt að líta svo á að nefnd afgreiðsla feli í sér stjórnvaldsákvörðun tekna á grundvelli skipulagslaga sem kæranleg sé til úrskurðarnefndarinnar. Þá hafa önnur lög ekki að geyma heimild til málskots til nefndarinnar vegna afgreiðslunnar. Verður samkvæmt því að vísa kærumáli þessu frá úrskurðarnefndinni.

Það skal þó á það bent að í 53. gr. skipulagslaga er mælt fyrir um þvingunarúrræði sem byggingarfulltrúi getur beitt ef framkvæmdaleyfisskyld framkvæmd er hafin án þess að framkvæmdaleyfi sé fengið fyrir henni. Unnt er að beina erindi til skipulagsfulltrúa um beitingu þvingunarúrræða á þeim grundvelli en synji hann þeirri beiðni er eftir atvikum hægt að kæra þá ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar.

 Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.