Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

141/2023 Laufdalur

Árið 2024, mánudaginn 15. janúar 2024, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 141/2023, kæra á ákvörðun bæjarlögmanns Reykjanesbæjar frá 24. nóvember 2023 um að hafna kröfu um greiðslu skaðabóta vegna vanrækslu á eftirliti með byggingu húss á lóð nr. 9 við Laufdal.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 14. desember 2023, kærir eigandi, Laufdal 15, Reykjanesbæ, vinnubrögð byggingarfulltrúa Reykjanesbæjar vegna byggingu húss á lóð nr. 15 við Laufdal. Verður að skilja málatilbúnað kæranda svo að kærð sé sú ákvörðun bæjarlögmanns frá 24. nóvember 2023 að hafna kröfu um greiðslu skaðabóta vegna vanrækslu á eftirliti með byggingu húss á lóð nr. 15 við Laufdal og að þess sé krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjanesbæ 5. janúar 2024.

Málavextir: Árið 2006 samþykkti byggingarfulltrúi Reykjanesbæjar umsókn um byggingarleyfi vegna byggingu raðhúss að Laufdal 9–15 í Reykjanesbæ. Í október 2007 skrifaði byggingarfulltrúi sveitarfélagsins undir úttekt vegna burðarvirki þaks fyrir húsið á lóð nr. 15 við Laufdal. Sama ár var húsið fært á byggingarstig 4. Hinn 15. maí 2017 gerði kærandi ásamt öðrum aðila kaupsamning um þá fasteign, en í samningnum kom fram að seljandi myndi sjá um að koma eigninni upp á byggingarstig 6 og skyldi því lokið fyrir afhendingu. Samkvæmt fasteignaskrá Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar var húsið skráð með byggingarstig 7 í lok maí mánaðar 2017. Í febrúar 2023 mun kærandi hafa orðið vör við leka frá þaki hússins. Í kjölfarið óskaði kærandi eftir því lokaúttekt færi fram á eigninni. Mættu starfsmann byggingarfulltrúa á staðinn og tóku mannvirkið út, en í þeirri úttekt mun kæranda hafi verið tjáð að margt þyrfti að lagfæra áður en hægt væri að gefa út lokaúttektarvottorð.

Málsrök kæranda: Kærandi tekur fram að efni kærunnar varði vinnubrögð byggingarfulltrúa Reykjanesbæjar við byggingu á eign hennar að Laufdal 15. Sé þess krafist að embættið takið ábyrgð á vinnubrögðum starfsmanna þess, þ.e. að gefið hafi verið út áfangaúttekt vegna burðarvirkis og að embættið hafi ekki virt skyldur sínar þegar komið hafi að eftirliti við byggingu hússins. Hagsmunir kæranda lúti að skemmdum á þaki vegna galla á þakvirki sem hafi valdið miklu fjárhagslegu tjóni. Kærufrestur hafi byrjað að líða 14. nóvember 2023 þegar bæjarlögmaður sveitarfélagsins hafi hafnað bótakröfu.

Kærandi ásamt öðrum aðila hafi keypt fasteignina árið 2017 en galli í burðarvirki hafi komið í ljós í byrjun árs 2023. Við nánari skoðun hafi komið í ljós að byggingarfulltrúi hafi gefið út áfangaúttekt þess efnis að þakvirki stæðist teikningar og byggingarreglugerð, en það hafi verið rangt. Starfsmenn sveitarfélagsins hafi gengist við því að ekki hafi verið farið eftir ferlum við eftirlit á byggingarframkvæmdum og að þakvirkið stæðist ekki kröfur byggingarreglugerðar.

Málsrök Reykjanesbæjar: Af hálfu sveitarfélagsins er bent á að kærandi hafi sótt um lokaúttekt á eigninni og hafi starfsmenn byggingarfulltrúa farið á staðinn 29. mars 2023. Lokúttekt hafi þó ekki getað farið fram þar sem ýmsir verkþættir hafi enn verið ókláraðir.

Gögn málsins beri með sér að kæra þessa máls lúti að ákvörðun byggingarfulltrúa um að framkvæma ekki lokaúttekt á fasteign kæranda að Laufdal 15. Skilja megi kæru málsins jafnframt á þann hátt að sú ákvörðun sveitarfélagsins að færa mannvirkið milli byggingarstiga á árinu 2017 sé kærð. Það falli utan valdheimilda úrskurðarnefndarinnar að gefa byggingarfulltrúa fyrirmæli um að framkvæma úttektir eða gefa út vottorð, nema þegar um sé að ræða að slík túlkun sé hluti málsmeðferðar kæranlegrar ákvörðunar til nefndarinnar, svo sem vikið hafi verið að í forsendum úrskurðar nefndarinnar í máli nr. 50/2023. Fyrir liggi hvaða verkþætti þurfi að laga til þess að hægt sé að framkvæma úttekt og í kjölfarið taka ákvörðun um það hvort lokaúttektarvottorð verði gefið út. Sveitarfélagið byggi á því að í máli þessu liggi ekki fyrir ákvörðun sem bindi enda á mál og verði borin undir nefndina, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Verði fallist á það með kæranda að framangreindar ákvarðanir séu kæranlegar þá sé byggt á því að kærufrestur til nefndarinnar sé þegar liðinn.

 Niðurstaða: Í kæru þessa máls er tilgreint að hina kærða ákvörðun hafi verið tekin 14. nóvember 2023 og er þar átt við svar bæjarlögmanns Reykjanesbæjar þar sem kröfu kæranda um greiðslu skaðabóta var hafnað. Verður því, svo sem að framan greinir, að líta svo á að það sé hin kærða ákvörðun í máli þessu.

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er það hlutverk nefndarinnar að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og í ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Ákvörðun um að hafna bótaskyldu vegna brota á eftirlitsskyldu byggingarfulltrúa við byggingu mannvirkis er hvorki tekin á grundvelli laga nr. 160/2010 um mannvirki né á grundvelli annarra laga þar sem mælt er fyrir um kæruheimild til úrskurðarnefndarinnar. Ágreiningur um bótaskyldu er einkaréttarlegs eðlis og verður hann ekki leiddur til lykta fyrir úrskurðarnefndinni, heldur eftir atvikum fyrir dómstólum. Brestur úrskurðarnefndina því vald til að taka kæruefnið til endurskoðunar og verður málinu af þeim sökum vísað frá nefndinni.

 Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.