Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

133/2023 Eyrartún

Árið 2023, föstudaginn 22. desember, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 133/2023, kæra á afgreiðslu skipulags- og mannvirkjanefndar Ísafjarðarbæjar frá 26. október 2023 vegna erindis kæranda um leikvöll á Eyrartúni á Ísafirði.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 26. nóvember 2023, er barst nefndinni sama dag, kærir íbúi, Túngötu 12, Ísafirði, þá ákvörðun skipulags- og mannvirkjanefndar Ísafjarðarbæjar frá 26. október 2023 að gefa ekki út framkvæmdaleyfi fyrir leikvöll á Eyrartúni. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Í málinu er jafnframt gerð krafa um að framkvæmdir verði stöðvaðar til bráðabirgða á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til framkominnar stöðvunarkröfu.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Ísafjarðarbæ 12. desember 2023.

Málavextir: Á fundi skipulags- og mannvirkjanefndar Ísafjarðarbæjar 22. desember 2022 var tekið fyrir mál vegna fyrirhugaðs leikvallar á Eyrartúni á Ísafirði þar sem m.a. var ráðgert að koma fyrir aparólu nálægt lóðarmörkum Túngötu 12. Var samþykkt að kynna uppdrætti leikvallarins fyrir íbúum bæjarins á heimasíðu þess og óska eftir ábendingum frá almenningi. Að lokinni kynningu voru gerðar breytingar á uppdráttunum með tilliti til innkominna athugasemda og þeir lagðir fyrir nefndina á fundi hennar 9. mars 2023. Samþykkti nefndin að fela starfsmanni að leggja inn pöntun á tækjum og bjóða framkvæmdina út í samræmi við fjárhagsáætlun. Á fundi bæjarráðs 11. september s.á. heimilaði ráðið útboð framkvæmdarinnar.

Með bréfi kæranda til sveitarfélagsins, dags. 20. september 2023, voru gerðar athugasemdir við samþykkt útboð á þeim grundvelli að fyrirhuguð staðsetning aparólu væri í ósamræmi við gildandi deiliskipulag. Var sveitarfélaginu tilkynnt að framkvæmdin yrði kærð til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála „ætli bæjaryfirvöld að halda áformum sínum til streitu.“ Á fundi skipulags- og mannvirkjanefndar 26. október s.á. var lagt fram minnisblað sviðsstjóra umhverfis- og eignasviðs, dags. 24. s.m., þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að framkvæmdin væri í samræmi við skipulagsáætlanir sveitarfélagsins og væri ekki framkvæmdaleyfisskyld. Fól skipulags- og mannvirkjanefnd starfsmanni sviðsins að svara kæranda í samræmi við umræður á fundinum og minnisblað sviðsstjóra. Þá færði nefndin til bókar að framkvæmdin væri ekki háð framkvæmdaleyfi með vísan til 5. gr. reglugerðar nr. 772/2012 um framkvæmdaleyfi.

Málsrök kæranda: Kærandi telur framkvæmdina ekki vera í samræmi við skipulagsáætlanir Ísafjarðarbæjar, sbr. 1. mgr. 12. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Svæðið þar sem leikvöllurinn sé fyrirhugaður nái yfir tvo skipulagsreiti. Eyrartúnið sjálft sé í aðalskipulagi skilgreint sem opið svæði til sérstakra nota en svæðið í kringum safnahúsið (Þ12) sé skipulagt undir þjónustustofnanir. Á deiliskipulagsuppdrætti sjáist vel að hluti leiksvæðisins sé utan þess reits sem skilgreindur sé sem leiksvæði/almenningsgarður.

Bent sé á að í úrskurði úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 103/2018 hafi nefndin talið framkvæmd vegna boltavallar vera framkvæmdaleyfisskylda m.a. með hliðsjón af áhrif vallarins á næsta umhverfi. Fyrir liggi að leikvöllurinn á Eyrartúni muni hafa veruleg grenndaráhrif á íbúa Túngötu 12, sérstaklega hvað varði hljóðvist og innsýn. Með hliðsjón af því og þar sem um sé að ræða mikla breytingu á ásýnd svæðisins sé framkvæmdin leyfisskyld. Horfa verði á svæðið í heild sinni en nú sé þegar kominn ærslabelgur á Eyrartún. Samkvæmt uppdrætti sé ráðgert að fara í frekari framkvæmdir sem ekki séu hluti af núverandi útboði. Ekki sé boðlegt að búta framkvæmdirnar niður í því skyni að horfa á hvern og einn verkþátt sem óverulegan.

Málsrök Ísafjarðarbæjar: Af hálfu sveitarfélagsins er bent á að lóðin Túngata 10, þar sem leikvöllurinn sé fyrirhugaður, sé staðsett innan svæðis sem skilgreint sé sem þjónustusvæði í Aðalskipulagi Ísafjarðarbæjar 2008–2020 og leiksvæði barna rúmist innan þess landnotkunarflokks. Framkvæmdin sé þess eðlis að hún hafi óveruleg áhrif á umhverfið. Þá sé hún ekki hluti af ítarlegri upptalningu framkvæmdaleyfisskyldra framkvæmda í 5. gr. reglugerðar nr. 772/2012 um framkvæmdaleyfi.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi bendir á að í lok sumars 2018 hafi Ísafjarðarbær ákveðið að setja niður ærslabelg á Eyrartúni. Upphaflega hafi staðið til að staðsetja ærslabelginn fjær lóðarmörkum Túngötu 12 heldur en nú standi til að staðsetja aparóluna. Eftir mótmæli íbúa hafi verið ákveðið að færa ærslabelginn til en um það megi lesa í úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála máli nr. 98/2021. Með hliðsjón af jafnræðisreglu stjórnsýsluréttarins verði að teljast ótækt af Ísafjarðarbæ að hafna með öllu ítrekuðum athugasemdum eigenda Túngötu 12 um staðsetningu aparólunnar.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er það hlutverk nefndarinnar að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og í ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Í 8. mgr. 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er að finna heimild til að skjóta máli til úrskurðarnefndarinnar leiki vafi á því hvort framkvæmdir séu háðar ákvæðum um framkvæmdaleyfi. Sú heimild er bundin við umsækjanda um framkvæmdaleyfi og hlutaðeigandi sveitarstjórn og kemur því ekki til álita að taka kærumálið til efnislegrar meðferðar á grundvelli þess lagaákvæðis.

Samkvæmt 52. gr. skipulagslaga sæta stjórnvaldsákvarðanir sem teknar eru á grundvelli þeirra laga kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Svo sem að framan greinir lagði kærandi fram erindi til Ísafjarðarbæjar hinn 20. september 2023 þar sem gerðar voru athugasemdir við fyrirhuguð framkvæmdaáform um leikvöll á Eyrartúni. Taldi kærandi framkvæmdina ekki vera í samræmi við deiliskipulag svæðisins auk þess sem sveitarfélaginu var tilkynnt um að til stæði að kæra framkvæmdina til úrskurðarnefndarinnar. Var erindið afgreitt af skipulags- og mannvirkjanefnd með þeim hætti að fela starfsmanni að svara kæranda í samræmi við framlagt minnisblað og færa til bókar að nefndin teldi framkvæmdina ekki leyfisskylda. Ekki er hægt að líta svo á að nefnd afgreiðsla feli í sér stjórnvaldsákvörðun tekna á grundvelli skipulagslaga sem kæranleg sé til úrskurðarnefndarinnar. Þá hafa önnur lög ekki að geyma heimild til málskots til nefndarinnar vegna afgreiðslunnar. Verður samkvæmt því að vísa kærumáli þessu frá úrskurðarnefndinni.

Það skal þó á það bent að í 53. gr. skipulagslaga er mælt fyrir um þvingunarúrræði sem byggingarfulltrúi getur beitt ef framkvæmdaleyfisskyld framkvæmd er hafin án þess að framkvæmdaleyfi sé fengið fyrir henni. Unnt er að beina erindi til skipulagsfulltrúa um beitingu þvingunarúrræða á þeim grundvelli en synji hann þeirri beiðni er eftir atvikum hægt að kæra þá ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar.

 Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.