Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

140/2023 Endurvinnslustöð að Óseyri 3

Árið 2024, fimmtudaginn 11. janúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Arnór Snæbjörnsson formaður og Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður. Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor tók þátt í gegnum fjarfundabúnað.

Fyrir var tekið mál nr. 140/2023, kæra á ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra frá 15. nóvember 2023 um að veita Furu ehf. starfsleyfi til móttöku og meðhöndlun á málmum og hjólbörðum til endurvinnslu á lóðinni Óseyri 3, Akureyri.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

 

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, 13. desember 2023, er barst nefndinni sama dag, kærir íbúi að Ægisgötu 7, Akureyri, þá ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra frá 15. nóvember 2023 að veita Furu ehf. starfsleyfi til móttöku og meðhöndlun á málmum og hjólbörðum til endurvinnslu á lóðinni Óseyri 3, Akureyri. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Til vara er þess krafist að úrskurðarnefndin felli ákvörðunina úr gildi þar til úrbætur hafa verið gerðar. Þá er gerð krafa um að Heilbrigðiseftirliti Norðurlands eystra verði gert að greiða kæranda málskostnað.

Þess er jafnframt krafist að hin umdeilda starfsemi verði stöðvuð á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og er því ekki tilefni til að taka afstöðu til þeirrar kröfu kæranda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Heilbrigðiseftirliti Norðurlands eystra 4. janúar 2024.

Málavextir: Leyfishafi í máli þessu hefur um skeið haft starfsleyfi til reksturs endurvinnslustöðvar fyrir móttöku og meðhöndlun á málmum og hjólbörðum á lóðinni Óseyri 3, Akureyri. Í ágúst 2023 sótti hann um endurnýjun starfsleyfisins og hinn 11. september s.á. var tillaga að þeirri endurnýjun kynnt á heimasíðu Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra. Á fundi Heilbrigðisnefndar Norðurlands eystra 20. s.m. samþykkti nefndin að starfsleyfi yrði gefið út að umsagnarfresti liðnum, nema athugasemdir sem kynnu að berast við tillöguna gæfu tilefni til annars. Á kynningartíma tillögunnar kom kærandi að athugasemd er laut að því að hætta væri á því að olía bærist í jarðveg þar sem athafnasvæðið væri ekki malbikað og þar sem ekki væri gerð krafa um að frárennsli væri tengt við olíuskilju. Á fundi heilbrigðisnefndarinnar 15. nóvember 2023 var bókað að athafnasvæðið væri malbikað og að sú krafa væri gerð í starfsleyfisskilyrðum að óheimilt væri að taka á móti úr sér gengin ökutæki nema þau hefðu áður verið hreinsuð af olíu og spilliefnum. Væru hverfandi líkur á að jarðvegur í grennd við athafnasvæðið myndi mengast vegna starfseminnar. Samþykkti nefndin að veita leyfishafa umsótt starfsleyfi til 12 ára. Sama dag gaf Heilbrigðiseftirlit Norðurlands eystra út starfsleyfi til handa leyfishafa.

Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda er vísað til þess að nokkur alvarleg frávik hafi átt sér stað í leyfisskyldri starfsemi leyfishafa í aðdraganda endurnýjunar starfsleyfisins. Hafi kærandi sent ábendingar þar um til Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra. Forsendur fyrir útgáfu starfsleyfisins hafi því verið brostnar þar sem skilyrði hafi ekki verið uppfyllt. Leyfishafi meðhöndli olíutunnur í starfsemi sinni en við slíka meðhöndlun sé ávallt hætta á að olíuskiljur leki. Sú aðstaða kalli á réttar og fullnægjandi varnir á athafnasvæðinu. Skemmri skírn dugi ekki. Það sé aðfinnsluvert að rökstuðningur fyrir starfsleyfi byggi á líkindafræði, en með því sé vísað til ummæla eftirlitsins um að „hverfandi líkur“ séu á mengun jarðvegs. Fyrir liggi að lögmælt skilyrði um olískiljur sé ekki uppfyllt. Þá sé starfsemin ekki í samræmi við skipulagsáætlun svæðisins.

Málsrök Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra: Stjórnvaldið bendir á að kærandi hafi ekki sýnt fram á hvaða lögvörðu hagsmuni hann hafi af hinni kærðu ákvörðun. Fasteign kæranda að Ægisgötu 7 sé í um eins kílómetra fjarlægð frá starfsstöð leyfishafa að Óseyri 3 og verði því ekki séð að hin kærða ákvörðun raski grenndarhagsmunum kæranda. Vísað sé til úrskurða úrskurðarnefndarinnar í málum nr. 146/2022 og 113/2020. Kærandi sé að auki einn af eigendum annars fyrirtækis sem sé í samskonar rekstri og leyfishafi, en samkeppnisstaða ein og sér geti ekki verið grundvöllur kæruaðildar. Hið kærða starfsleyfi hafi verið veitt í samræmi við lög nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Starfsemin sé ekki þess eðlis að olíuskilja skuli vera til staðar.

Athugasemdir leyfishafa: Af hálfu leyfishafa er bent á að ekki sé skýrt af kærunni hvaða hagsmuna kærandi hafi að gæta varðandi hina umræddu starfsemi, en fasteign kæranda sé fjarri Óseyri 3. Aldrei hafi neitt brugðið út af varðandi öryggismál eða mengunarvarnir. Fullyrðingu kæranda um að leyfishafi meðhöndli olíutunnur sem fylgi óhjákvæmileg hætta á leka sé mótmælt, enda hafi heilbrigðisfulltrúi staðfest að tunnurnar væru hreinsaðar og eingöngu nýttar fyrir geymslu á búnaði. Sé því engin hætta á mengun jarðvegs vegna þeirra.

 Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi telur sig hafa lögvarða hagsmuni af kæruefni þessa máls. Úrskurðarnefndin hafi í máli nr. 119/2021 tekið fram að gæta bæri varfærni við að vísa málum frá á þeim grunni að kærendur skorti lögvarða hagsmuni nema augljóst væri að það hefði ekki raunhæfa þýðingu fyrir lögvarða hagsmuni þeirra að fá leyst úr þeim ágreiningi sem standi að baki kærumáli. Í lögskýringargögnum sem hafi fylgt frumvarpi til stjórnsýslulaga nr. 37/1993 segi að skýra beri hugtakið aðili máls rúmt þannig að ekki einungis sé átt við þá sem eiga beina aðild að máli, heldur einnig þá sem hafi óbeinna hagsmuna að gæta, svo sem nágranna.

Við mat á því hvort kærandi eigi lögvarinna hagsmuna að gæta verði að líta til þess að hin kærða starfsemi feli í sér mengandi iðnað rétt við íbúðarbyggð, sem áhrif geti haft á fasteignaverð. Lóðin að Óseyri 3 sé í næsta nágrenni við heimili kæranda eða u.þ.b. 1,1 km fjarlægð. Vísað sé til sérálits nefndarmanns úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 96/2020 þar sem um hafi verið að ræða byggingu malbikunarstöðvar í 1,3–1,9 km fjarlægð. Hafi nefndarmaðurinn talið að ekki væri hægt að útiloka að kærendur yrðu fyrir áhrifum af loftmengun „og öðru ónæði“ frá starfseminni umfram aðra. Atvik í því máli séu sambærileg þessu máli. Kærandi sé íbúi á Akureyri en telja verði að allir íbúar Akureyrar geti verið aðilar að máli sem þessu þar sem þeir hafi hagsmuni af því að hætta á mengunarslysum sé sem minnst.

Þá sé það rétt að kærandi sé framkvæmdastjóri fyrirtækis sem sé í samkeppni við leyfishafa, en það fyrirtæki sé þó ekki aðili þessa máls þar sem kærandi hafi talið mikilvægara að efni kærunnar fengi að ráða för en ekki umfjöllun um samkeppni.

———-

Aðilar hafa gert ítarlegri grein fyrir máli sínu en þau sjónarmið verða ekki rakin nánar hér í ljósi niðurstöðu máls þessa.

Niðurstaða: Í máli þessu er kærð sú ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra frá 15. nóvember 2023 að veita Furu ehf. starfsleyfi til móttöku og meðhöndlunar á málmum og hjólbörðum til endurvinnslu á lóðinni Óseyri 3, Akureyri.

Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvarðanir til nefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kærð er. Verður að túlka þetta ákvæði í samræmi við almennar reglur stjórnsýsluréttar um aðild að kærumálum þar sem við mat á því hvort lögvarðir hagsmunir séu fyrir hendi beri að líta til þess hvort hlutaðeigandi eigi einstaklegra og verulegra hagsmuna að gæta við úrlausn málsins.

Fyrir liggur að fasteign kæranda, sem er í grónu íbúðarhverfi, er í tæplega eins kílómetra fjarlægð frá hinni umdeildu starfsemi leyfishafa og er starfstöðin ekki í augsýn frá húsi kæranda. Að teknu tilliti til þess og þeirrar starfsemi sem um ræðir verður ekki séð að hún varði grenndarhagsmuni kæranda. Þá byggir kærandi lögvarða hagsmuni sína einnig á því að hann hafi sem íbúi bæjarins hagsmuni af því að hætta á mengunarslysum sé sem minnst. Þau málsrök lúta að gæslu hagsmuna sem telja verður almenna en ekki einstaklega.

Með hliðsjón af framangreindu uppfyllir kærandi ekki skilyrði kæruaðildar samkvæmt fyrrgreindri 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 í máli þessu og verður málinu því vísað frá úrskurðarnefndinni sökum aðildarskorts.

 Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.