Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

134/2023 Gauksstaðir

Árið 2023, föstudaginn 29. desember, tók Ómar Stefánsson, varaformaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála fyrir með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 130/2011:

Mál nr. 134/2023, kæra á ákvörðun framkvæmda- og skipulagsráðs Suðurnesjabæjar frá 25. október 2023 um að samþykkja fyrirspurn vegna endurbyggingu matshluta 03 á lóðinni Gauksstöðum.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 15. nóvember 2023, er barst nefndinni 29. s.m., kæra eigendur, Gauksstaðavegi 6, þá ákvörðun framkvæmda- og skipulagsráðs Suðurnesjabær frá 25. október 2023 að samþykkja fyrirspurn um endurbyggingu á matshluta 03 á lóðinni Gauksstöðum. Skilja verður málskot kærenda svo að krafist sé ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Suðurnesjabæ 22. desember 2023.

Málsatvik og rök: Á fundi framkvæmda- og skipulagsráðs Suðurnesjabæjar 20. júlí 2023 var tekin fyrir fyrirspurn vegna endurbyggingar á matshluta 03 á lóðinni Gauksstöðum. Fólu fyrirhugaðar framkvæmdir í sér að fjarlægja geymslu og byggja íbúðarhúsnæði á nýjum stað innan lóðar. Var erindinu synjað þar sem ráðið taldi breytinguna ekki vera lítilsháttar eins og fram kæmi í byggingarlýsingu. Erindið var tekið fyrir að nýju á fundi ráðsins 20. september s.á. en þá höfðu verið gerðar breytingar á byggingaráformunum. Samþykkti ráðið byggingaráformin með fyrirvara um grenndarkynningu án athugasemda, sbr. 2. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Með bréfi verkefnastjóra umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 25. september 2023, voru áformin grenndarkynnt hagsmunaaðilum og bárust athugasemdir á kynningartíma, þ. á m. frá kærendum. Að kynningu lokinni tók framkvæmda- og skipulagsráð erindið fyrir að nýju á fundi 25. október s.á. og bókaði að athugasemdir hefðu borist þar sem fjölgun íbúða og aukinni umferð væri mótmælt. Taldi ráðið að byggingaráformin væru í samræmi við aðalskipulag og að framkomnar athugasemdir gæfu ekki tilefni til synjunar. Væri erindið því samþykkt. Staðfesti bæjarstjórn greinda afgreiðslu á fundi 1. nóvember s.á.

Kærendur telja að Gauksstaðavegur beri ekki þá aukna umferð sem muni fylgja fyrirhugaðri  byggingu, en um sé að ræða einbreiðan veg án gangstétta. Miðað við staðsetningu muni umferð til og frá Gauksstöðum fara í gegnum innkeyrslu kærenda að Gauksstaðavegi 6. Það sé augljóst að á Gauksstöðum muni verða rekið íbúðarhótel en hvergi hafi verið gert ráð fyrir slíkri starfsemi á svæðinu.

Af hálfu Suðurnesjabæjar er bent á að um sé að ræða metnaðarfulla uppbyggingu á eldra húsnæði á stórri lóð. Ekki liggi fyrir samþykkt deiliskipulag og sé því stuðst við gildandi aðalskipulag, en þar sé lóðin Gauksstaðir á skilgreindu svæði fyrir íbúðarbyggð (ÍB-16). Í Aðalskipulagi Suðunesjabæjar 2022–2034 segi að á íbúðarsvæðum sé svigrúm fyrir heimagistingu og íbúðir til útleigu í tengslum við ferðaþjónustu. Umferðaraukning og það ónæði sem hljótist af fyrirhugaðri byggingu verði ekki meiri en eðlilegt geti talist í þéttbýli.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur úrskurðarnefndin það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Samkvæmt 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verða þó ákvarðanir sem ekki binda enda á mál ekki kærðar til æðra stjórnvalds.

Afgreiðsla umsóknar um byggingarleyfi og útgáfu þess er í höndum byggingarfulltrúa samkvæmt ákvæðum laga nr. 160/2010 um mannvirki, sbr. 2. mgr. 9. gr., 11. gr. og 13. gr. laganna. Umrætt svæði hefur ekki verið deiliskipulagt en upphaf máls þessa má rekja til fyrirspurnar lóðarhafa Gauksstaða til bæjaryfirvalda Suðurnesjabæjar vegna tiltekinna byggingaráforma á lóðinni. Samkvæmt framkomnum upplýsingum frá bæjaryfirvöldum hafa byggingaráformin ekki verið samþykkt af byggingarfulltrúa. Hin kærða ákvörðun framkvæmda- og skipulagsráðs um að samþykkja fyrirspurn vegna umræddra byggingaráforma að lokinni grenndarkynningu felur samkvæmt framansögðu ekki í sér lokaákvörðun í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga heldur er hún liður í málsmeðferð framangreinds erindis sem eftir atvikum lýkur með samþykki byggingarfulltrúa á byggingaráformum. Er því ekki fyrir hendi ákvörðun sem borin verður undir úrskurðarnefndina og verður kærumáli þessu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.

Bent er á að ljúki málinu með því að byggingarfulltrúi samþykki umdeild byggingaráform byggingaráform er sú ákvörðun eftir atvikum kæranleg til úrskurðarnefndarinnar.

 Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.