Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

90/2006 Hrólfsskálamelur

Með

Ár 2007, fimmtudaginn 24. maí, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Geirharður Þorsteinsson arkitekt og skipulagshönnuður. 

Fyrir var tekið mál nr. 90/2006, kæra á samþykkt bæjarstjórnar Seltjarnarness frá 11. september 2006 um deiliskipulag Hrólfsskálamels.  

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 9. nóvember 2006, er barst nefndinni hinn 10. sama mánaðar, kærir H, Steinavör 6, Seltjarnarnesi, samþykkt bæjarstjórnar Seltjarnarness frá 11. september 2006 um deiliskipulag Hrólfsskálamels á Seltjarnarnesi. 

Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.  

Málavextir og málsrök:  Í júní árið 2005 voru haldnar almennar kosningar um skipulag og landnotkun á Hrólfsskálamel og Suðurströnd á Seltjarnarnesi og hlaut svokölluð S-tillaga, sem gerir m.a. ráð fyrir íbúðarbyggð við Hrólfsskálamel, meirihluta atkvæða bæjarbúa en gert hafði verið ráð fyrir að niðurstaða kosninganna væri bindandi gagnvart bæjaryfirvöldum.  Í kjölfar niðurstöðu atkvæðagreiðslunnar var unnið nýtt aðalskipulag fyrir sveitarfélagið sem samþykkt var í bæjarstjórn og staðfest af ráðherra í maí 2006.  Auglýsing um gildistöku þess birtist í B-deild Stjórnartíðinda hinn 5. október s.á.  Þá var og unnið deiliskipulag af svæðum þeim er um ræðir og á fundi hinn 11. september 2006 samþykkti bæjarstjórn deiliskipulag Hrólfsskálamels og birtist auglýsing um gildistöku þess í B-deild Stjórnartíðinda hinn 16. október s.á.      

Framangreindri samþykkt bæjarstjórnar hefur kærandi skotið til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir.

Af hálfu kæranda er vísað til þess að kosningar þær er farið hafi fram í júní árið 2005 hafi verið bindandi fyrir skipulagsyfirvöld á Seltjarnarnesi, skv. 5. mgr. 104. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998.  Því hafi verið óheimilt, með deiliskipulagsákvörðun, að víkja frá niðurstöðu kosninganna svo sem gert hafi verið.  Telji kærandi að í hinu kærða deiliskipulagi séu ekki teknir frá 1.000 fermetrar vegna stækkunar íþróttamiðstöðvar auk þess sem byggingarmagn á svæðinu sé umfram heimildir.    

Af hálfu Seltjarnarnesbæjar er krafist frávísunar málsins. Í fyrsta lagi með vísan til þess að  kæran eigi ekki undir úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála þar sem kærandi byggi eingöngu á að deiliskipulagið sé ekki í samræmi við niðurstöðu bindandi kosninga og að brotið hafi verið gegn 5. mgr. 104. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998.  Úrskurðarnefndinni hafi ekki verið falið að úrskurða um brot á ákvæðum sveitarstjórnarlaga heldur fari félagsmálaráðuneytið með úrskurðarvald um slík mál.  

Í öðru lagi byggi frávísunarkrafa á því að kærandi eigi ekki einstaklegra lögákveðinna hagsmuna að gæta varðandi deiliskipulag Hrólfsskálamels enda vísi hann ekki til þeirra í kærunni.  Ekki verði séð að skipulagið hafi grenndaráhrif gagnvart kæranda umfram aðra bæjarbúa á Seltjarnarnesi almennt.

Verði kröfu um frávísun hafnað sé á því byggt að hið kærða deiliskipulag samræmist niðurstöðu kosninganna enda hafi ekki verið kosið um deiliskipulagstillögur heldur grunn þeirra sem síðan yrðu unnar og auglýstar til kynningar með lögformlegum hætti.  Það hafi verið gert með hinni kærðu ákvörðun.  

Því sé haldið fram að hið kærða deiliskipulag sé að öllu leyti í samræmi við tillögu S sem samþykkt hafi verið af meirihluta bæjarbúa í almennri kosningu.  Hámarksbyggingarmagn ofanjarðar sé 11.400 fermetrar eins og tillaga S hafi gert ráð  fyrir að teknu tilliti til 1.000 fermetra byggingarmagns fyrir íþróttamiðstöð.  Byggingarmagn neðanjarðar hafi ekki verið fastákveðið.

Kærandi mótmælir kröfum Seltjarnarnesbæjar um frávísun málsins og bendir á að kæruheimild í skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997, vegna ákvarðana sveitarstjórna um skipulagsmál, gangi framar almennri kæruheimild 103. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998 og því sé félagsmálaráðuneytið ekki bært til að kveða upp úrskurð í kærumáli þessu.  Kærandi búi að Steinavör 6 eða í næsta nágrenni við hið skipulagða svæði.  Afgreiðsla skipulagsins sem og fyrirhugaðrar framkvæmdir á grundvelli þess geti því augljóslega snert hagsmuni hans.  

Niðurstaða:  Kærandi máls þessa er búsettur að Steinavör á Seltjarnarnesi.  Frá húsi hans og að hinum svokallaða Hrólfsskálamel, eða svæði því er um er deilt í máli þessu, eru a.m.k. 300 metrar.  Steinavör er lokuð gata, hús kæranda er í botni hennar og stendur neðan götu.  Norðan Steinavarar er Suðurstönd, sem er ein af aðalgötum bæjarfélagsins, en frá Suðurströnd er m.a. gert ráð fyrir aðkomu að húsum þeim er heimilt verður að reisa á reitnum. 

Úrskurðarnefndin telur að kærandi eigi ekki einstaklegra eða verulegra hagsmuna að gæta hvað varðar uppbyggingu á Hrólfsskálamel.  Telur nefndin ljóst að deiliskipulagið skerði ekki útsýni eða hafi í för með sér svo verulegar breytingar á umferð eða áhrif á umhverfi kæranda að það geti snert lögvarða hagsmuni hans þegar miðað er við staðsetningu hús hans og afstöðu þess til bygginga þeirra er heimilaðar eru samkvæmt hinu kærða deiliskipulagi.  Þar sem kærandi telst samkvæmt framansögðu ekki eiga lögvarða hagsmuni því tengda að fá úrlausn um kæruefnið, sbr. 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, ber að vísa máli þessu frá úrskurðarnefndinni. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

 

 

______________________________         _______________________________
    Ásgeir Magnússon                                       Geirharður Þorsteinsson 

20/2006 Suðurströnd

Með

Ár 2007, föstudaginn 18. maí, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Geirharður Þorsteinsson arkitekt og skipulagshönnuður. 

Fyrir var tekið mál nr. 20/2006, kæra á ákvörðun skipulags- og mannvirkjanefndar Seltjarnarness frá 7. október 2005 um að heimila framkvæmdir við gerð gervigrasvallar við Suðurströnd, Seltjarnarnesi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 7. mars 2006, er barst úrskurðarnefndinni hinn 8. sama mánaðar, kærir H, Steinavör 6, Seltjarnarnesi, þá ákvörðun skipulags- og mannvirkjanefndar Seltjarnarnesbæjar frá 7. október 2005 að heimila framkvæmdir við gerð gervigrasvallar við Suðurströnd, Seltjarnarnesi.

Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.  Þá setti kærandi og fram kröfu um stöðvun framkvæmda sem var synjað með bráðabirgðaúrskurði uppkveðnum hinn 6. apríl 2006.  

Málsatvik:  Forsaga málsins er sú að hinn 25. júní 2005 voru haldnar almennar kosningar um skipulag og landnotkun á Hrólfsskálamel og Suðurströnd á Seltjarnarnesi og hlaut svokölluð S-tillaga, sem gerir m.a. ráð fyrir að áfram verði íþróttavöllur við Suðurströnd, meirihluta atkvæða bæjarbúa en gert hafði verið ráð fyrir að niðurstaða kosninganna væri bindandi gagnvart bæjaryfirvöldum.  Í samræmi við þá niðurstöðu samþykkti bæjarstjórn hinn 21. september 2005 að gerður yrði gervigrasvöllur við Suðurströnd. Óskaði bæjarstjóri Seltjarnarnesbæjar eftir því við skipulags- og mannvirkjanefnd með bréfi, dags. 6. október 2005, að nefndin gæfi út framkvæmdarleyfi vegna byggingar vallarins.  Tekið var fram að sótt væri um leyfi til að skipta um jarðveg undir knattspyrnuvellinum og ganga frá yfirborði hans með gervigrasi og upphitunarkerfi.  Samþykkti nefndin beiðnina 7. október s.á. og í kjölfar þess var verkið boðið út og framkvæmdir síðan hafnar.  Kærandi skaut ákvörðun um áðurnefnda framkvæmd til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir.

Málsrök kæranda:  Af hálfu kæranda er skírskotað til þess að umdeildar framkvæmdir séu ekki í samræmi við gildandi skipulag.  Ekki sé um að ræða endurbætur á velli sem fyrir sé heldur sé um mun víðtækari framkvæmdir að ræða án þess að hönnun veigamikilla þátta verksins liggi fyrir og verið sé að ganga á loforð sem íbúum hafi verið gefin við kynningu og kosningu um byggingarkosti á svæðinu. 

Málsrök Seltjarnarnesbæjar:  Af hálfu Seltjarnarnesbæjar er þess krafist að ógildingarkröfu kæranda verði vísað frá úrskurðarnefndinni en ella að henni verði hafnað.  Frávísunarkrafan byggi á því að umrædd framkvæmd sé ekki kæranleg til nefndarinnar enda liggi ekki fyrir kæranleg ákvörðun.  Framkvæmdin sé ekki leyfisskyld, enda eingöngu um að ræða breytingu á hæð og yfirborði íþróttavallar sem fyrir hafi verið á svæðinu.  Þá hafi kærufrestur vegna framkvæmdanna verið liðinn þegar kæran hafi borist nefndinni en framkvæmdir hafi hafist í byrjun desember 2005.  Loks sé á því byggt að kærandi eigi ekki lögvarinna hagsmuna að gæta í málinu.

Ekkert í gögnum málsins bendi til þess að við framkvæmdina hafi verið brotið gegn ákvæðum skipulags- og byggingarlaga eða annarra laga.  Framkvæmdirnar, sem feli í sér breytingar á knattspyrnuvellinum með þeim hætti að yfirborð hans sé lækkað um 1,5 metra og skipt um yfirborðsefni, séu hvorki byggingarleyfis- né framkvæmdaleyfisskyldar.  Íþróttavöllurinn hafi verið á umræddum stað um áratugaskeið og neikvæð grenndaráhrif vegna lækkunar hans vallarins og breytinga á yfirborðsefni séu engin.  Viðurkennt sé að íbúar í þéttbýli verði almennt að gera ráð fyrir slíkum breytingum og sætta sig við þær.  Bæjaryfirvöld telji reyndar að breytingarnar hljóti, breyti þær einhverju, að hafa jákvæð áhrif í grenndarréttarlegu tilliti þar sem völlurinn sé lækkaður í landi um 1,5 metra.

Þá samræmist framkvæmdin ótvírætt Aðalskipulagi Seltjarnarness 1981 – 2001.  Samkvæmt því skipulagi sé umrætt svæði skilgreint sem „opið svæði, leikvellir.“  Með hliðsjón af framsetningu skipulagsins og ákvæðum skipulagslaga nr. 19/1964, sem í gildi hafi verið þegar umrætt aðalskipulag hafi verið samþykkt, falli starfsemi íþróttavalla undir þá landnotkun.  Fullyrðingu kæranda um að framkvæmdin sé ekki í samræmi við skipulag sé því mótmælt sem rangri og órökstuddri.

Bæjaryfirvöld vilji einnig minna á að framkvæmdin byggi á niðurstöðu sem fengin hafi verið eftir mikla kynningu og samráð við bæjarbúa.  Því samráði hafi lokið með almennum kosningum þar sem meirihluti bæjarbúa hafi samþykkt að íþróttavöllurinn skyldi áfram staðsettur á þessum stað.

Að lokum sé bent á að gert sé ráð fyrir að jarðvegsmanir í kringum völlinn verði að mestu færðar í fyrra horf en nauðsynlegt hafi reynst að taka ofan af þeim og opna þær tímabundið vegna framkvæmdarinnar. 

Andsvör kæranda við málsrökum Seltjarnarnesbæjar:  Af hálfu kæranda er frávísunarkröfum Seltjarnarnesbæjar mótmælt.  Ljóst sé að kærð sé ákvörðun skipulags- og mannvirkjanefndar frá 7. október 2005 um að heimila framkvæmdir við gerð gervigrasvallar við Suðurströnd.  Ákvörðun þessa megi finna í fundargerð fundarins. 

Mótmælt sé fullyrðingum Seltjarnarnesbæjar þess efnis að eingöngu sé um að ræða breytingu á hæð og yfirborði íþróttavallarins.  Við samanburð á teikningu af vellinum frá árinu 1981 og teikningu þeirri sem unnið sé eftir komi í ljós að fótboltavellinum sé hliðrað að Suðurstönd og hlaupabraut um völlinn felld niður.  Við þetta færist völlurinn töluvert nær götunni.  Í kosningunum hinn 25. maí 2005 hafi þeim rökum verið teflt fram fyrir staðsetningu vallarins við Suðurströnd að með því væri hann fjær götu og í hvarfi. 

Þá sé því mótmælt að kærufrestur hafi verið liðinn er kæra hafi verið sett fram í málinu.  Eftir kosningarnar hinn 25. maí 2005 hafi átt sér stað nokkur umræða um lagfæringar á vellinum og um það hafi verið rætt að sem minnst breyting yrði fyrir íbúana.  Hafi kærandi m.a. átt samtal við bæjastjóra þar sem rætt hafi verið um lækkun vallarins og óbreyttar manir umhverfis hann.  Því yrði völlurinn í einhvers konar skál þannig að skjól fengist og hann yrði enn frekar í hvarfi.  

Þegar framkvæmdir hafi byrjað hafi jarðvegur verið grafinn út og fyllt með nýjum þannig að skál hafi myndast en brekkan sunnan við völlinn hafi haldist.  Engin ástæða hafi verið til annars en að ætla að framkvæmdin væri í samræmi við munnlegar kynningar bæjarstjórans. 

Vikunni áður en kæra hafi verið sett fram í málinu hafi verið grafið úr möninni sunnan vallarins.  Hafi kærandi þá sett sig strax í samband við bæjarstjórann og í kjölfarið hafi framkvæmdir verið stöðvaðar.  Nokkrum dögum síðar hafi framkvæmdir hafist að nýju og hafi skýring bæjarstjórans verið sú að tímabundið yrði mönin lækkuð vegna jarðvegsskipta og yrði hún byggð upp að nýju.  Í ljósi þessara atvika sé kröfu bæjarins um frávísun mótmælt.  Kæranda hafi ekki mátt vera ljóst fyrr en um viku áður en kæran hafi verið sett fram að hreyft yrði við brekkunni sunnan vallarins enda hafi engar teikningar um breytta mön verið settar fram fyrr en þá. 

Mótmælt sé kröfu Seltjarnarnesbæjar um frávísun sökum aðildarskorts.  Lækkun fótboltavallarins og flutningur hans nær Suðurströndinni leiði til þess að hann sé ekki eins í hvarfi frá húseign kæranda og áður hafi verið.  Áður hafi hann lítið orðið var við fótboltaleiki á vellinum en nú óttist hann að ónæði frá honum aukist vegna hávaða og lýsingar.  Þetta sé fleirum ljóst en kæranda einum því í endurgerðri tillögu að möninni sunnan vallarins komi eftirfarandi fram:  „Gróðurmössun meiri til að loka frekari innsýn inn á völlinn og draga út vindáhrifum.“  Gróður sé því aukinn en alls óvíst sé að hann verði farinn að veita nauðsynlega hlíf fyrr en að áratug liðnum eða jafnvel nái ekki að þrífast vegna vindálags.    

Vettvangsganga:  Úrskurðarnefndin kynnti sér staðhætti á vettvangi hinn 30. mars 2006.

Niðurstaða:  Þegar hin kærða ákvörðun var tekin var í gildi Aðalskipulag Seltjarnarness 1981-2001.  Samkvæmt því skipulagi var svæði það við Suðurströnd er hinn umdeildi fótboltavöllur stendur á skilgreint sem opið svæði – leikvellir og hefur íþróttavöllur verið þar til margra ára. 

Í máli þessu er aðeins kærð ákvörðun skipulags- og mannvirkjanefndar um að heimila framkvæmdir við völlinn.  Í umsókn varðandi framkvæmdina var tekið fram að sótt væri um leyfi til að skipta um jarðveg undir knattspyrnuvellinum og ganga frá yfirborði hans með gervigrasi og upphitunarkerfi. 

Þegar litið er inntaks framkvæmdaleyfisins og afstöðu vallarins gagnvart húsi kæranda að Steinavör 6 verður ekki séð að framkvæmdir samkvæmt hinni kærðu ákvörðun hafi haft þau áhrif á umhverfi kæranda að hann eigi þá lögvörðu hagsmuni tengda henni sem eru skilyrði aðildar kærumáls fyrir úrskurðarnefndinni, sbr. 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Ber því að vísa máli þessu frá úrskurðarnefndinni. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

 

___________________________
Hjalti Steinþórsson 

_____________________________    __________________________  
      Ásgeir Magnússon                                   Geirharður Þorsteinsson

 

40/2005 Skólavörðustígur

Með

Ár 2007, miðvikudaginn 18. apríl, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 40/2005, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík um að heimila byggingu vinnustofu á lóðinni nr. 25 við Skólavörðustíg. 

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 17. maí 2005, er barst nefndinni hinn 18. sama mánaðar, kærir Othar Örn Petersen hrl., f.h. S, Íragerði 14, Stokkseyri, eiganda að hluta hússins að Skólavörðustíg 25A, Reykjavík ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 5. apríl 2005 um að heimila byggingu vinnustofu á lóðinni nr. 25 við Skólavörðustíg.  Á fundi borgarráðs hinn 14. s.m. var afgreiðsla byggingarfulltrúa staðfest. 

Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. 

Málavextir og rök:  Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 5. apríl 2005 var samþykkt umsókn um leyfi til að byggja vinnustofu úr steinsteypu og timbri (matshluti 04) á lóðinni nr. 25 við Skólavörðustíg.  Var samþykktin staðfest á fundi borgarráðs hinn 14. s.m. 

Er hin kærða ákvörðun var tekin var kærandi máls þessa eigandi hluta hússins nr. 25A við Skólavörðustíg og setti fram kæru til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála vegna ofangreindrar samþykktar byggingarfulltrúa. 

Kærandi teflir fram fjölmörgum rökum fyrir kröfu um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar, m.a. þeim að hin fyrirhugaða skúrbygging muni hafa í för með sér aukna umferð inn á lóð kæranda og takmarka þar með eðlilega nýtingu hennar. 

Með kaupsamningi, dags. 1. ágúst 2006, seldi kærandi eignarhlut sinn í húsinu að Skólavörðustíg 25A og fór afhending hins selda fram samdægurs og skyldi afsal til kaupanda gefið út eigi síðar en hinn 15. sama mánaðar samkvæmt ákvæðum þess samnings.  Hefur úrskurðarnefndin leitað afstöðu kaupanda til kærumáls þessa en hann hefur ekki látið málið til sín taka. 

Niðurstaða:  Kærandi byggir málskot sitt vegna hins umdeilda byggingarleyfis á atvikum er tengjast rétti hans sem eiganda að eignarhluta í húsinu að Skólavörðustíg 25A.  Fyrir liggur kaupsamningur þar sem kærandi afsalar eignarhluta sínum í umræddu húsi til þriðja aðila og urðu eigendaskiptin hinn 1. ágúst 2006.  Kaupandi hefur ekki látið málið til sín taka þrátt fyrir að leitað hafi verið afstöðu hans til þess. 

Samkvæmt framansögðu á kærandi ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá úrlausn um ágreiningsefni máls þessa.  Jafnframt liggur fyrir að núverandi eigandi tekur ekki við aðild málsins.  Verður málinu því vísað frá úrskurðarnefndinni. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

 

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

 

 

___________________________      _____________________________
Ásgeir Magnússon                                    Þorsteinn Þorsteinsson

14/2005 Blesugróf

Með

Ár 2007, miðvikudaginn 18. apríl, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 14/2005, kæra á samþykkt skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkurborgar um deiliskipulag Blesugrófar. 

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 9. febrúar 2005, er barst nefndinni samdægurs, kærir B, Stjörnugróf 29, Reykjavík samþykkt skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 15. desember 2004 um deiliskipulag Blesugrófar.  Á fundi borgarráðs hinn 6. janúar 2005 var afgreiðsla nefndarinnar staðfest. 

Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. 

Málavextir og rök:  Á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 28. júlí 2004 var samþykkt að auglýsa tillögu að deiliskipulagi Blesugrófar sem áður hafði verið kynnt hagsmunaaðilum á svæðinu.  Var tillagan auglýst frá 18. ágúst 2004 til 29. september s.á. og bárust skipulagsyfirvöldum borgarinnar athugasemdir við tillöguna, þar á meðal frá kæranda.  Á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 15. desember 2004 var hin auglýsta tillaga samþykkt og hlaut hún staðfestingu borgarráðs hinn 6. janúar 2005.  Auglýsing um gildistöku samþykktarinnar birtist í B-deild Stjórnartíðinda hinn 16. júní 2005.  Með hinni kærðu deiliskipulagssamþykkt var fellt úr gildi deiliskipulag Blesugrófar frá 29. ágúst 1961. 

Markmið hinnar kærðu deiliskipulagsákvörðunar var m.a. að móta stefnu við framtíðaruppbyggingu hverfisins og styrkja heildarmynd þess. 

Athugasemdir kæranda á undirbúningsstigi hinnar kærðu ákvörðunar lutu að samþykktum teikningum húss hans að Stjörnugróf 29, lóðarmörkum og byggingarreit innan lóðarinnar, gegnumakstri innan hverfisins og girðingum á lóðarmörkum. 

Niðurstaða:  Í kæru kæranda til úrskurðarnefndarinnar var í engu gerð grein fyrir rökum fyrir kröfu um ógildingu heldur voru þau boðuð síðar.  Engin rök hafa þó borist nefndinni.  Í gögnum málsins kemur fram að borgaryfirvöld hafa, eftir að kæra var sett fram, komið til móts við athugasemdir kæranda sem hann hafði gert á undirbúningsstigi hinnar kærðu ákvörðunar.  Af þessum ástæðum verður ekki séð að kærandi eigi nú lögvarða hagsmuni af því að fá úrlausn um kæruefni máls þessa og verður málinu því vísað frá úrskurðarnefndinni. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

 

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

 

 

___________________________        _____________________________
Ásgeir Magnússon                                 Þorsteinn Þorsteinsson

32/2005 Túngata

Með

Ár 2007, miðvikudaginn 18. apríl, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 32/2005, kæra á synjun skipulagsráðs Reykjavíkur frá 9. mars 2005 á umsókn um að breyta notkun hússins að Túngötu 34, Reykjavík í gistiheimili með sex íbúðareiningum. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 11. apríl 2005, er barst nefndinni sama dag, kærir Björn Líndal hdl., fyrir hönd Lýsingar hf. Suðurlandsbraut 22, Reykjavík, synjun skipulagsráðs Reykjavíkur frá 9. mars 2005 á umsókn um að breyta notkun hússins að Túngötu 34, Reykjavík í gistiheimili með sex íbúðareiningum.  Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. 

Málsatvik og rök:  Hinn 24. ágúst 2004 sótti kærandi um byggingarleyfi fyrir breyttri notkun hússins að Túngötu 34 í Reykjavík úr heimagistingu í gistiheimili.  Fasteignin er á svæði sem hefur ekki verið deiliskipulagt.  Vísaði byggingarfulltrúi erindinu til skipulagsfulltrúa til ákvörðunar um grenndarkynningu.  Málið kom til kasta skipulagsráðs sem samþykkti að grenndarkynna umsókn kæranda á fundi sínum hinn 19. janúar 2005.  Við grenndarkynninguna komu fram andmæli íbúa við fyrirhuguðum rekstri er snérust einkum um aukið ónæði, bílastæðavandamál og sorphirðu.  Skipulagsráð afgreiddi erindið hinn 9. mars 2005 með svofelldri bókun:  „Umsókn um breytta notkun synjað.  Ákvæði Aðalskipulags Reykjavíkur útilokar ekki að veitt verði leyfi til rekstrar gistiheimila á íbúðarsvæðum að uppfylltum þeim skilyrðum að starfsemin valdi ekki óþægindum vegna lyktar, hávaða eða óeðlilega mikillar umferðar.  Með vísan til athugasemda íbúa er ekki talið að þeim skilyrðum sé fullnægt.“ 

Kærandi bendir á að fyrirhugaður gistiheimilisrekstur hafi ekki önnur eða meiri áhrif á umhverfið en sambærilegur rekstur í íbúðarhverfum sem hafi verið heimilaður.  Skipulagsráð hafi ekki gætt samræmis eða jafnræðis við hina kærðu ákvörðun og sé það brot á 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Þá sé með hinni kærðu ákvörðun vegið að stjórnarskárvörðum atvinnuréttindum kæranda.  Auk þess hafi málsmeðferð verið ábótavant þar sem kæranda hafi ekki verið kynntar framkomnar athugasemdir og gefinn kostur á að tjá sig um þær.  Sé þetta brot á andmælareglu stjórnsýslulaga. 

Niðurstaða:  Samkvæmt þinglýstu afsali, dags. 18. nóvember 2005, varð Íslenska prinsessan ehf. eigandi fasteignarinnar að Túngötu 34 í Reykjavík og sama dag seldi það fyrirtæki DB ehf. fasteignina.  Samkvæmt þinglýstum kaupsamningi, dags. 29. desember 2006, seldi síðan DB ehf. umrædda fasteign til einkahlutafélagsins Abios ehf.

Þar sem kærandi er ekki lengur tengdur greindri fasteign sem eigandi eða afnotahafi verður hann ekki talinn eiga lögvarinna hagsmuna að gæta varðandi gildi hinnar kærðu ákvörðunar.  Núverandi eiganda hefur verið tilkynnt um kærumálið og honum gefinn kostur á að láta málið til sín taka innan tiltekins frests en hann hefur látið það hjá líða.  Verður kærumáli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulaga sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

 

 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

 

 

_____________________________        _________________________________
Ásgeir Magnússon                                    Þorsteinn Þorsteinsson

48/2005 Laugavegur

Með

Ár 2007, miðvikudaginn 18. apríl, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 48/2005, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík um samþykki fyrir núverandi innra fyrirkomulagi hússins að Laugavegi 161.      

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 20. júní 2005, er barst nefndinni samdægurs, kærir J, Laugavegi 161, Reykjavík ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 17. maí 2005 um samþykki fyrir núverandi innra fyrirkomulagi hússins að Laugavegi 161.  Á fundi borgarráðs hinn 19. s.m. var afgreiðsla byggingarfulltrúa staðfest.  

Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.  

Málavextir og rök:  Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 17. maí 2005 var veitt samþykki fyrir núverandi innra fyrirkomulagi hússins að Laugavegi 161 vegna gerðar eignaskiptayfirlýsingar.  Var samþykktin staðfest á fundi borgarráðs hinn 19. s.m.

Í kæru til úrskurðarnefndarinnar krefst kærandi þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og boðar rökstuðning kærunnar síðar.  Engin rök hafa þó borist nefndinni.  Í greinargerð borgaryfirvalda til úrskurðarnefndarinnar, dags. 5. febúar 2007, er gerð krafa um frávísun málsins og var kæranda kynnt efni greinargerðarinnar með bréfi, dags. 15. mars 2007.  Var kæranda veittur frestur til 30. mars 2007 til að tjá sig um efni greinargerðar borgaryfirvalda sem hann nýtti sér ekki.       

Niðurstaða:  Í kærumáli þessu er deilt um samþykki byggingarfulltrúa fyrir núverandi innra fyrirkomulagi hússins að Laugavegi 161 í tilefni af gerð eignaskiptayfirlýsingar.  Fyrir úrskurðarnefndinni hefur kærandi hvorki gert grein fyrir hagsmunum þeim er hann kann að eiga af því að fá hina kærðu samþykkt úr gildi fellda né mögulegu eignarhaldi hans á hluta hússins.  Verður ekki ráðið af málsgögnum, eins og málið liggur nú fyrir, að kærandi eigi lögvarða hagsmuni í málinu og verður því af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

 

___________________________        _____________________________
Ásgeir Magnússon                                       Þorsteinn Þorsteinsson

 

 

20/2007 Heiðmörk

Með

Ár 2007, fimmtudaginn 22. mars, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 20/2007, kæra Náttúruverndarsamtaka Íslands á ákvörðun skipulagsráðs Reykjavíkur frá 7. mars 2007 um að veita framkvæmdaleyfi til lagningar vatnsveitu frá Vatnsendakrikum um Heiðmörk innan lögsögu Reykjavíkurborgar.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 13. mars 2007, sem barst nefndinni sama dag, kæra Náttúruverndarsamtök Íslands þá ákvörðun skipulagsráðs Reykjavíkur frá 7. mars 2007 að veita framkvæmdaleyfi til lagningar vatnsveitu frá Vatnsendakrikum um Heiðmörk innan lögsögu Reykjavíkurborgar.

Kröfur kæranda og helstu málsrök:  Kærandi krefst þess að umrædd ákvörðun verði felld úr gildi.  Að auki er þess krafist að framkvæmdir samkvæmt hinu umdeilda leyfi verði stöðvaðar þar til úrskurðarnefndin hafi kveðið upp úrskurð sinn í málinu.  Er til þess vísað af hálfu kæranda að fram hafi komið að framkvæmd sú sem leyfið taki til sé háð breytingu á aðalskipulagi sem ekki hafi enn verið gerð.  Fleiri rök eru færð fram í kærunni sem ekki verða rakin hér.

Úrskurðarnefndin hefur af sjálfsdáðum tekið til athugunar hvort kærandi uppfylli skilyrði til aðildar að kærumáli þessu og var honum gefinn kostur á að koma að sjónarmiðum sínum um það álitaefni.  Hefur nefndinni borist bréf kæranda, dags. 18. mars 2007, þar sem vísað er til 2. gr. reglugerðar nr. 621/1997 um úrskurðarnefndina og telur kærandi að í tilvitnuðu ákvæði sé að finna fullnægjandi kæruheimild fyrir samtök sem hafi það m.a. að markmiði að vera málsvari umhverfis- og náttúruverndarsjónarmiða.  Orðalag reglugerðarákvæðisins sé heldur rýmra en orðalag 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, en það girði þó ekki fyrir aðild kæranda að málinu. 

Ekki verði séð að neitt sé því til fyrirstöðu að tryggja með þessum hætti almenningi, og samtökum hans, rúman rétt til kæruaðildar enda sé það bæði í samræmi við almenna lagaþróun og skuldbindingar íslenska ríkisins á alþjóðavettvangi.  Vísar kærandi til þess að umhverfisráðherra hafi á árinu 1998 undirritað fyrir hönd íslenska ríkisins svonefndan Árósasamning, sem feli meðal annars í sér að almenningi og frjálsum félagasamtökum skuli tryggður réttur til þátttöku í ákvarðanatöku og aðgengi að réttarúrræðum við stjórnvaldsákvarðanir er varði umhverfið.  Það sé eðlilegt að réttur almennings og samtaka hans til kæruaðildar sé ekki túlkaður þrengra en stjórnvöld hafi ætlað og sé það skoðun Náttúruverndarsamtaka Íslands að þau eigi lögum samkvæmt fullan rétt til aðildar að stjórnsýslukæru þeirri sem hér um ræði.

Kröfur og sjónarmið Reykjavíkurborgar:  Af hálfu Reykjavíkurborgar er þess krafist að máli þessu verið vísað frá.  Verði ekki fallist á frávísunarkröfuna áskilja borgaryfirvöld sér rétt til að koma að rökstuðningi og gögnum um efni málsins.

Frávísunarkrafan er byggð á þeim forsendum að Náttúruverndarsamtök Íslands eigi ekki kæruaðild að málinu þar sem þau hafi engra lögvarinna hagsmuna að gæta, sbr. 6. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Framkvæmd sú sem hið kærða leyfi taki til falli ekki undir lög um mat á umhverfisáhrifum og eigi því umhverfis- og náttúruverndarsamtök enga aðild að málinu.

Niðurstaða:  Náttúruverndarsamtök Íslands eru umhverfisverndarsamtök sem hafa það m.a. að markmiði að vera málsvari umhverfis- og náttúruverndarsjónarmiða.  Hvergi er í lögum að finna heimild fyrir því að samtök sem þessi eigi aðild að kærumálum á sviði skipulags- og byggingarmála án þess að eiga jafnframt þá einstaklegu og lögvörðu hagsmuni sem að stjórnsýslurétti eru taldir skilyrði aðildar að kæru til æðra stjórnvalds.  Hefur kærandi ekki sýnt fram á að hann eigi neinna þeirra hagsmuna að gæta er verið gætu grundvöllur aðildar hans að máli þessu samkvæmt almennum reglum stjórnsýsluréttarins.  Þá verður ekki heldur fallist á að aðild kæranda geti átt stoð í 2. gr. reglugerðar nr. 621/1997 um úrskurðarnefndina, en telja verður ákvæði þetta úrelt eftir þær breytingar sem gerðar voru á 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 með lögum nr. 74/2005, er tóku gildi hinn 1. október 2005.  Er eftir nefnda breytingu skýrt kveðið á um það í 8. gr. skipulags- og byggingarlaga að þeir einir geti skotið máli til úrskurðarnefndarinnar sem eigi lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun.  Eru engin efni til að skýra ákvæði reglugerðar nr. 621/1997 með þeim hætti að leiða eigi til rýmri kæruheimilda en lög standa til.

Sú undantekning er gerð frá framangreindri meginreglu 8. gr. laganna að sé um að ræða ákvarðanir vegna framkvæmda sem falli undir lög um mat á umhverfisáhrifum eigi umhverfisverndar- og hagsmunasamtök, sem varnarþing eigi á Íslandi, jafnframt kærurétt, enda séu félagsmenn 30 eða fleiri og það samrýmist tilgangi samtakanna að gæta þeirra hagsmuna sem kæran lúti að.  Þessi undantekningarregla á hins vegar ekki við í málinu enda liggur fyrir niðurstaða Skipulagsstofnunar frá 23. júní 2003 um að umrædd framkvæmd skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum og hefur þeirri niðurstöðu ekki verið hnekkt.

Loks verður ekki fallist á að aðild kæranda geti átt sér stoð í Árósasamningnum sem kærandi hefur vísað til.  Hefur samningur þessi ekki hlotið fullgildingu og ekki hafa verið gerðar neinar þær breytingar á íslenskum lögum er miða að því að innleiða ákvæði hans að því leyti sem hér skiptir máli.

Samkvæmt því sem að framan er rakið telst kærandi ekki eiga aðild að kærumáli um lögmæti hins umdeilda framkvæmdaleyfis og verður máli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

________________________________
Hjalti Steinþórsson

 

___________________________                        ____________________________
          Ásgeir Magnússon                                                   Þorsteinn Þorsteinsson
                                                                            

 

26/2005 Hraunbær

Með

Ár 2007, fimmtudaginn 15. mars, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 26/2005, kæra á synjun skipulagsráðs Reykjavíkur frá 9. febrúar 2005 um breytingu á deiliskipulagi varðandi lóðina að Hraunbæ 123 er fæli í sér að reisa þar loftnetsmastur. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 18. mars 2005, er barst nefndinni hinn 23. sama mánaðar, kærir Bandalag íslenskra skáta, Hraunbæ 123, Reykjavík, þá ákvörðun skipulagsráðs Reykjavíkur frá 9. febrúar 2005 að synja um breytingu á deiliskipulagi varðandi lóðina að Hraunbæ 123 er fæli í sér að reisa þar loftnetsmastur.  Skilja verður málskot kæranda svo að krafist sé ógildingar á hinni kærðu ákvörðun. 

Málsatvik og rök:  Á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa hinn 17. desember 2004 var tekin fyrir umsókn kæranda um breytingu á deiliskipulagi er fæli í sér heimild til þess að reisa 15 metra loftnetsmastur í suð-austur horni lóðarinnar að Hraunbæ 123 í Reykjavík.  Var mastrið ætlað fyrir starfsemi fjarskiptaáhugamanna á vegum skátahreyfingarinnar.  Var ákveðið að grenndarkynna umsótta breytingu. 

Við grenndarkynningu komu fram andmæli gegn fyrirhuguðu mastri sem andmælendur töldu m.a. að ylli sjónmengun og útsýnisskerðingu og ætti það ekki heima í íbúðarbyggð. 

Málið var afgreitt á fundi skipulagsráðs hinn 9. febrúar 2005 með því að ráðið synjaði umsókn kæranda með vísan til andmæla íbúa.  Tilkynning um þessi málalok var send fulltrúa kæranda með bréfi, dags. 10. febrúar 2005. 

Kærandi fer fram á að honum verði veittur framlengdur kærufrestur í málinu.  Kærandi sé sjálfboðaliðasamtök og hafi mánaðar kærufrestur ekki reynst nægur til þess að taka afstöðu til málsins en kærandi telji að andmæli íbúa við grenndarkynningu byggi á misskilningi.  Hafi því ekki verið efni til að synja umdeildri umsókn kæranda. 

Niðurstaða:  Fyrir liggur að fulltrúa kæranda var tilkynnt um hina kærðu ákvörðun með bréfi, dags. 10. febrúar 2005, en kæra til úrskurðarnefndarinnar er póststimplað hinn 21. mars 2005 og barst nefndinni hinn 23. sama mánaðar.  Liggur því ekki annað fyrir en kæran hafi borist að liðnum eins mánaðar kærufresti, eins og þá var kveðið á um í 39. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Úrskurðarnefndin hefur ekki að lögum heimild til þess að framlengja kærufrest að honum loknum og ekki þykja þau skilyrði fyrir hendi að unnt sé að taka kæruna til efnismeðferðar að loknum kærufresti á grundvelli 1. eða 2. tl. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Verður kærumáli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

 

 

_____________________________             _________________________________
            Ásgeir Magnússon                                                    Þorsteinn Þorsteinsson

43/2006 Kiðjaberg

Með

Ár 2007, miðvikudaginn 10. janúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 43/2006, kæra á ákvörðunum byggingarfulltrúa uppsveita Árnessýslu frá 28. febrúar 2006 og 28. júní 2005 um að veita leyfi til byggingar sumarhúsa á lóðunum nr. 112 og 113 í landi Kiðjabergs í Grímsnes- og Grafningshreppi.   

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 7. júní 2006, er barst úrskurðarnefndinni sama dag, kærir Ívar Pálsson hdl., f.h. Þ og Þ, Glaðheimum 14, Reykjavík, eigenda sumarhúss á lóð nr. 111 í landi Kiðjabergs í Grímsnes- og Grafningshreppi, þær ákvarðanir byggingarfulltrúa uppsveita Árnessýslu frá 28. febrúar 2006 og 28. júní 2005 að veita leyfi til byggingar sumarhúsa á lóðunum nr. 112 og 113 í landi Kiðjabergs í Grímsnes- og Grafningshreppi. 

Gera kærendur þá kröfu að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi.  Kærendur settu fram kröfu um stöðvun framkvæmda og með bráðabirgðaúrskurði úrskurðarnefndarinnar uppkveðnum hinn 2. ágúst 2006 var fallist á þá kröfu. 

Málsatvik og rök:  Hinn 7. desember 2005 samþykkti sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps breytingu á deiliskipulagi frá árinu 1990 um frístundabyggð á svæði C í landi Kiðjabergs í Grímsnes- og Grafningshreppi.  Auglýsing um gildistöku deiliskipulagsbreytingarinnar birtist í B-deild Stjórnartíðinda hinn 23. ágúst 2006.  Hinn 28. janúar 2006 og 28. júní 2005 veitti byggingarfulltrúi uppsveita Árnessýslu leyfi til byggingar sumarhúsa á lóðunum nr. 112 og 113 í landi Kiðjabergs.  

Kærendur skírskota m.a. til þess að hið kærða byggingarleyfi sé ekki í samræmi við þágildandi deiliskipulag frá árinu 1990.  Sveitarstjórn hafi raunar samþykkt breytingar á því deiliskipulagi en málsmeðferðinni hafi ekki verið lokið er hið kærða byggingarleyfi hafi verið veitt. 

Með tölvubréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 31. október 2006, tilkynnti lögmaður Grímsnes- og Grafningshrepps að hin kærðu byggingarleyfi hafi verið afturkölluð á fundum byggingarnefndar hinn 29. ágúst 2006 og 17. október 2006 þar sem fyrir hafi legið að leyfin væru ekki í samræmi við gildandi deiliskipulag svæðisins.  Voru afturkallanirnar staðfestar á fundum sveitarstjórnar hinn 6. september 2006 og 26. október 2006.

Niðurstaða:  Fyrir liggur að hinar kærðu ákvarðanir hafa verið afturkallaðar.  Hafa þær því ekki lengur þýðingu að lögum og eiga kærendur ekki hagsmuni af því að fá skorið úr um gildi þeirra.

Verður málinu af greindum ástæðum vísað frá úrskurðarnefndinni.  Jafnframt falla niður réttaráhrif bráðabirgðaúrskurðar úrskurðarnefndarinnar frá 26. ágúst 2006 um stöðvun framkvæmda samkvæmt hinum kærðu leyfum.  

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

 

_____________________________      _________________________________
Ásgeir Magnússon                                       Þorsteinn Þorsteinsson       

 

                                  

 

 

 

 

56/2006 Kiðjaberg

Með

Ár 2007, miðvikudaginn 10. janúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 56/2006, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa uppsveita Árnessýslu frá 25. október 2005 um að veita leyfi til byggingar sumarhúss á lóð nr. 109 í landi Kiðjabergs í Grímsnes- og Grafningshreppi.   

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 7. júlí 2006, er barst úrskurðarnefndinni sama dag, kærir Ívar Pálsson hdl., f.h. Þ og Þ, Glaðheimum 14, Reykjavík, eigenda sumarhúss á lóð nr. 111 í landi Kiðjabergs í Grímsnes- og Grafningshreppi, þá ákvörðun  byggingarfulltrúa uppsveita Árnessýslu frá 25. október 2005 að veita leyfi til byggingar sumarhúss á lóð nr. 109 í landi Kiðjabergs í Grímsnes- og Grafningshreppi. 

Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.  Kærendur settu fram kröfu um stöðvun framkvæmda og með bráðabirgðaúrskurði úrskurðarnefndarinnar uppkveðnum hinn 2. ágúst 2006 var fallist á þá kröfu. 

Málsatvik og rök:  Hinn 7. desember 2005 samþykkti sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps breytingu á deiliskipulagi frá árinu 1990 um frístundabyggð á svæði C í landi Kiðjabergs í Grímsnes- og Grafningshreppi.  Auglýsing um gildistöku deiliskipulagsbreytingarinnar birtist í B-deild Stjórnartíðinda hinn 23. ágúst 2006.  Hinn 25. október 2005 veitti byggingarfulltrúi uppsveita Árnessýslu leyfi til byggingar sumarhúss á lóðinni nr. 109 í landi Kiðjabergs.  

Kærendur skírskota m.a. til þess að hið kærða byggingarleyfi sé ekki í samræmi við þágildandi deiliskipulag frá árinu 1990.  Sveitarstjórn hafi raunar samþykkt breytingar á því deiliskipulagi en málsmeðferðinni hafi ekki verið lokið er hið kærða byggingarleyfi hafi verið veitt. 

Með tölvubréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 31. október 2006, tilkynnti lögmaður Grímsnes- og Grafningshrepps að hið kærða byggingarleyfi hefði verið afturkallað á fundi byggingarnefndar hinn 17. október 2006 þar sem fyrir lægi að hið kærða leyfi væri ekki í samræmi við gildandi deiliskipulag svæðisins.  Var afturköllunin staðfest á fundi sveitarstjórnar hinn 26. október 2006.

Niðurstaða:  Fyrir liggur að hin kærða ákvörðun hefur verið afturkölluð.  Hefur hún því ekki lengur þýðingu að lögum og eiga kærendur ekki hagsmuni af því að fá skorið úr um gildi hennar.

Verður málinu af greindum ástæðum vísað frá úrskurðarnefndinni.  Jafnframt falla niður réttaráhrif bráðabirgðaúrskurðar úrskurðarnefndarinnar frá 26. ágúst 2006 um stöðvun framkvæmda samkvæmt hinu kærða leyfi.  

 Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

 

 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

 

 

_________________________        ___________________________
 Ásgeir Magnússon                            Þorsteinn Þorsteinsson