Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

90/2006 Hrólfsskálamelur

Ár 2007, fimmtudaginn 24. maí, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Geirharður Þorsteinsson arkitekt og skipulagshönnuður. 

Fyrir var tekið mál nr. 90/2006, kæra á samþykkt bæjarstjórnar Seltjarnarness frá 11. september 2006 um deiliskipulag Hrólfsskálamels.  

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 9. nóvember 2006, er barst nefndinni hinn 10. sama mánaðar, kærir H, Steinavör 6, Seltjarnarnesi, samþykkt bæjarstjórnar Seltjarnarness frá 11. september 2006 um deiliskipulag Hrólfsskálamels á Seltjarnarnesi. 

Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.  

Málavextir og málsrök:  Í júní árið 2005 voru haldnar almennar kosningar um skipulag og landnotkun á Hrólfsskálamel og Suðurströnd á Seltjarnarnesi og hlaut svokölluð S-tillaga, sem gerir m.a. ráð fyrir íbúðarbyggð við Hrólfsskálamel, meirihluta atkvæða bæjarbúa en gert hafði verið ráð fyrir að niðurstaða kosninganna væri bindandi gagnvart bæjaryfirvöldum.  Í kjölfar niðurstöðu atkvæðagreiðslunnar var unnið nýtt aðalskipulag fyrir sveitarfélagið sem samþykkt var í bæjarstjórn og staðfest af ráðherra í maí 2006.  Auglýsing um gildistöku þess birtist í B-deild Stjórnartíðinda hinn 5. október s.á.  Þá var og unnið deiliskipulag af svæðum þeim er um ræðir og á fundi hinn 11. september 2006 samþykkti bæjarstjórn deiliskipulag Hrólfsskálamels og birtist auglýsing um gildistöku þess í B-deild Stjórnartíðinda hinn 16. október s.á.      

Framangreindri samþykkt bæjarstjórnar hefur kærandi skotið til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir.

Af hálfu kæranda er vísað til þess að kosningar þær er farið hafi fram í júní árið 2005 hafi verið bindandi fyrir skipulagsyfirvöld á Seltjarnarnesi, skv. 5. mgr. 104. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998.  Því hafi verið óheimilt, með deiliskipulagsákvörðun, að víkja frá niðurstöðu kosninganna svo sem gert hafi verið.  Telji kærandi að í hinu kærða deiliskipulagi séu ekki teknir frá 1.000 fermetrar vegna stækkunar íþróttamiðstöðvar auk þess sem byggingarmagn á svæðinu sé umfram heimildir.    

Af hálfu Seltjarnarnesbæjar er krafist frávísunar málsins. Í fyrsta lagi með vísan til þess að  kæran eigi ekki undir úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála þar sem kærandi byggi eingöngu á að deiliskipulagið sé ekki í samræmi við niðurstöðu bindandi kosninga og að brotið hafi verið gegn 5. mgr. 104. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998.  Úrskurðarnefndinni hafi ekki verið falið að úrskurða um brot á ákvæðum sveitarstjórnarlaga heldur fari félagsmálaráðuneytið með úrskurðarvald um slík mál.  

Í öðru lagi byggi frávísunarkrafa á því að kærandi eigi ekki einstaklegra lögákveðinna hagsmuna að gæta varðandi deiliskipulag Hrólfsskálamels enda vísi hann ekki til þeirra í kærunni.  Ekki verði séð að skipulagið hafi grenndaráhrif gagnvart kæranda umfram aðra bæjarbúa á Seltjarnarnesi almennt.

Verði kröfu um frávísun hafnað sé á því byggt að hið kærða deiliskipulag samræmist niðurstöðu kosninganna enda hafi ekki verið kosið um deiliskipulagstillögur heldur grunn þeirra sem síðan yrðu unnar og auglýstar til kynningar með lögformlegum hætti.  Það hafi verið gert með hinni kærðu ákvörðun.  

Því sé haldið fram að hið kærða deiliskipulag sé að öllu leyti í samræmi við tillögu S sem samþykkt hafi verið af meirihluta bæjarbúa í almennri kosningu.  Hámarksbyggingarmagn ofanjarðar sé 11.400 fermetrar eins og tillaga S hafi gert ráð  fyrir að teknu tilliti til 1.000 fermetra byggingarmagns fyrir íþróttamiðstöð.  Byggingarmagn neðanjarðar hafi ekki verið fastákveðið.

Kærandi mótmælir kröfum Seltjarnarnesbæjar um frávísun málsins og bendir á að kæruheimild í skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997, vegna ákvarðana sveitarstjórna um skipulagsmál, gangi framar almennri kæruheimild 103. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998 og því sé félagsmálaráðuneytið ekki bært til að kveða upp úrskurð í kærumáli þessu.  Kærandi búi að Steinavör 6 eða í næsta nágrenni við hið skipulagða svæði.  Afgreiðsla skipulagsins sem og fyrirhugaðrar framkvæmdir á grundvelli þess geti því augljóslega snert hagsmuni hans.  

Niðurstaða:  Kærandi máls þessa er búsettur að Steinavör á Seltjarnarnesi.  Frá húsi hans og að hinum svokallaða Hrólfsskálamel, eða svæði því er um er deilt í máli þessu, eru a.m.k. 300 metrar.  Steinavör er lokuð gata, hús kæranda er í botni hennar og stendur neðan götu.  Norðan Steinavarar er Suðurstönd, sem er ein af aðalgötum bæjarfélagsins, en frá Suðurströnd er m.a. gert ráð fyrir aðkomu að húsum þeim er heimilt verður að reisa á reitnum. 

Úrskurðarnefndin telur að kærandi eigi ekki einstaklegra eða verulegra hagsmuna að gæta hvað varðar uppbyggingu á Hrólfsskálamel.  Telur nefndin ljóst að deiliskipulagið skerði ekki útsýni eða hafi í för með sér svo verulegar breytingar á umferð eða áhrif á umhverfi kæranda að það geti snert lögvarða hagsmuni hans þegar miðað er við staðsetningu hús hans og afstöðu þess til bygginga þeirra er heimilaðar eru samkvæmt hinu kærða deiliskipulagi.  Þar sem kærandi telst samkvæmt framansögðu ekki eiga lögvarða hagsmuni því tengda að fá úrlausn um kæruefnið, sbr. 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, ber að vísa máli þessu frá úrskurðarnefndinni. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

 

 

______________________________         _______________________________
    Ásgeir Magnússon                                       Geirharður Þorsteinsson