Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

20/2006 Suðurströnd

Ár 2007, föstudaginn 18. maí, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Geirharður Þorsteinsson arkitekt og skipulagshönnuður. 

Fyrir var tekið mál nr. 20/2006, kæra á ákvörðun skipulags- og mannvirkjanefndar Seltjarnarness frá 7. október 2005 um að heimila framkvæmdir við gerð gervigrasvallar við Suðurströnd, Seltjarnarnesi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 7. mars 2006, er barst úrskurðarnefndinni hinn 8. sama mánaðar, kærir H, Steinavör 6, Seltjarnarnesi, þá ákvörðun skipulags- og mannvirkjanefndar Seltjarnarnesbæjar frá 7. október 2005 að heimila framkvæmdir við gerð gervigrasvallar við Suðurströnd, Seltjarnarnesi.

Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.  Þá setti kærandi og fram kröfu um stöðvun framkvæmda sem var synjað með bráðabirgðaúrskurði uppkveðnum hinn 6. apríl 2006.  

Málsatvik:  Forsaga málsins er sú að hinn 25. júní 2005 voru haldnar almennar kosningar um skipulag og landnotkun á Hrólfsskálamel og Suðurströnd á Seltjarnarnesi og hlaut svokölluð S-tillaga, sem gerir m.a. ráð fyrir að áfram verði íþróttavöllur við Suðurströnd, meirihluta atkvæða bæjarbúa en gert hafði verið ráð fyrir að niðurstaða kosninganna væri bindandi gagnvart bæjaryfirvöldum.  Í samræmi við þá niðurstöðu samþykkti bæjarstjórn hinn 21. september 2005 að gerður yrði gervigrasvöllur við Suðurströnd. Óskaði bæjarstjóri Seltjarnarnesbæjar eftir því við skipulags- og mannvirkjanefnd með bréfi, dags. 6. október 2005, að nefndin gæfi út framkvæmdarleyfi vegna byggingar vallarins.  Tekið var fram að sótt væri um leyfi til að skipta um jarðveg undir knattspyrnuvellinum og ganga frá yfirborði hans með gervigrasi og upphitunarkerfi.  Samþykkti nefndin beiðnina 7. október s.á. og í kjölfar þess var verkið boðið út og framkvæmdir síðan hafnar.  Kærandi skaut ákvörðun um áðurnefnda framkvæmd til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir.

Málsrök kæranda:  Af hálfu kæranda er skírskotað til þess að umdeildar framkvæmdir séu ekki í samræmi við gildandi skipulag.  Ekki sé um að ræða endurbætur á velli sem fyrir sé heldur sé um mun víðtækari framkvæmdir að ræða án þess að hönnun veigamikilla þátta verksins liggi fyrir og verið sé að ganga á loforð sem íbúum hafi verið gefin við kynningu og kosningu um byggingarkosti á svæðinu. 

Málsrök Seltjarnarnesbæjar:  Af hálfu Seltjarnarnesbæjar er þess krafist að ógildingarkröfu kæranda verði vísað frá úrskurðarnefndinni en ella að henni verði hafnað.  Frávísunarkrafan byggi á því að umrædd framkvæmd sé ekki kæranleg til nefndarinnar enda liggi ekki fyrir kæranleg ákvörðun.  Framkvæmdin sé ekki leyfisskyld, enda eingöngu um að ræða breytingu á hæð og yfirborði íþróttavallar sem fyrir hafi verið á svæðinu.  Þá hafi kærufrestur vegna framkvæmdanna verið liðinn þegar kæran hafi borist nefndinni en framkvæmdir hafi hafist í byrjun desember 2005.  Loks sé á því byggt að kærandi eigi ekki lögvarinna hagsmuna að gæta í málinu.

Ekkert í gögnum málsins bendi til þess að við framkvæmdina hafi verið brotið gegn ákvæðum skipulags- og byggingarlaga eða annarra laga.  Framkvæmdirnar, sem feli í sér breytingar á knattspyrnuvellinum með þeim hætti að yfirborð hans sé lækkað um 1,5 metra og skipt um yfirborðsefni, séu hvorki byggingarleyfis- né framkvæmdaleyfisskyldar.  Íþróttavöllurinn hafi verið á umræddum stað um áratugaskeið og neikvæð grenndaráhrif vegna lækkunar hans vallarins og breytinga á yfirborðsefni séu engin.  Viðurkennt sé að íbúar í þéttbýli verði almennt að gera ráð fyrir slíkum breytingum og sætta sig við þær.  Bæjaryfirvöld telji reyndar að breytingarnar hljóti, breyti þær einhverju, að hafa jákvæð áhrif í grenndarréttarlegu tilliti þar sem völlurinn sé lækkaður í landi um 1,5 metra.

Þá samræmist framkvæmdin ótvírætt Aðalskipulagi Seltjarnarness 1981 – 2001.  Samkvæmt því skipulagi sé umrætt svæði skilgreint sem „opið svæði, leikvellir.“  Með hliðsjón af framsetningu skipulagsins og ákvæðum skipulagslaga nr. 19/1964, sem í gildi hafi verið þegar umrætt aðalskipulag hafi verið samþykkt, falli starfsemi íþróttavalla undir þá landnotkun.  Fullyrðingu kæranda um að framkvæmdin sé ekki í samræmi við skipulag sé því mótmælt sem rangri og órökstuddri.

Bæjaryfirvöld vilji einnig minna á að framkvæmdin byggi á niðurstöðu sem fengin hafi verið eftir mikla kynningu og samráð við bæjarbúa.  Því samráði hafi lokið með almennum kosningum þar sem meirihluti bæjarbúa hafi samþykkt að íþróttavöllurinn skyldi áfram staðsettur á þessum stað.

Að lokum sé bent á að gert sé ráð fyrir að jarðvegsmanir í kringum völlinn verði að mestu færðar í fyrra horf en nauðsynlegt hafi reynst að taka ofan af þeim og opna þær tímabundið vegna framkvæmdarinnar. 

Andsvör kæranda við málsrökum Seltjarnarnesbæjar:  Af hálfu kæranda er frávísunarkröfum Seltjarnarnesbæjar mótmælt.  Ljóst sé að kærð sé ákvörðun skipulags- og mannvirkjanefndar frá 7. október 2005 um að heimila framkvæmdir við gerð gervigrasvallar við Suðurströnd.  Ákvörðun þessa megi finna í fundargerð fundarins. 

Mótmælt sé fullyrðingum Seltjarnarnesbæjar þess efnis að eingöngu sé um að ræða breytingu á hæð og yfirborði íþróttavallarins.  Við samanburð á teikningu af vellinum frá árinu 1981 og teikningu þeirri sem unnið sé eftir komi í ljós að fótboltavellinum sé hliðrað að Suðurstönd og hlaupabraut um völlinn felld niður.  Við þetta færist völlurinn töluvert nær götunni.  Í kosningunum hinn 25. maí 2005 hafi þeim rökum verið teflt fram fyrir staðsetningu vallarins við Suðurströnd að með því væri hann fjær götu og í hvarfi. 

Þá sé því mótmælt að kærufrestur hafi verið liðinn er kæra hafi verið sett fram í málinu.  Eftir kosningarnar hinn 25. maí 2005 hafi átt sér stað nokkur umræða um lagfæringar á vellinum og um það hafi verið rætt að sem minnst breyting yrði fyrir íbúana.  Hafi kærandi m.a. átt samtal við bæjastjóra þar sem rætt hafi verið um lækkun vallarins og óbreyttar manir umhverfis hann.  Því yrði völlurinn í einhvers konar skál þannig að skjól fengist og hann yrði enn frekar í hvarfi.  

Þegar framkvæmdir hafi byrjað hafi jarðvegur verið grafinn út og fyllt með nýjum þannig að skál hafi myndast en brekkan sunnan við völlinn hafi haldist.  Engin ástæða hafi verið til annars en að ætla að framkvæmdin væri í samræmi við munnlegar kynningar bæjarstjórans. 

Vikunni áður en kæra hafi verið sett fram í málinu hafi verið grafið úr möninni sunnan vallarins.  Hafi kærandi þá sett sig strax í samband við bæjarstjórann og í kjölfarið hafi framkvæmdir verið stöðvaðar.  Nokkrum dögum síðar hafi framkvæmdir hafist að nýju og hafi skýring bæjarstjórans verið sú að tímabundið yrði mönin lækkuð vegna jarðvegsskipta og yrði hún byggð upp að nýju.  Í ljósi þessara atvika sé kröfu bæjarins um frávísun mótmælt.  Kæranda hafi ekki mátt vera ljóst fyrr en um viku áður en kæran hafi verið sett fram að hreyft yrði við brekkunni sunnan vallarins enda hafi engar teikningar um breytta mön verið settar fram fyrr en þá. 

Mótmælt sé kröfu Seltjarnarnesbæjar um frávísun sökum aðildarskorts.  Lækkun fótboltavallarins og flutningur hans nær Suðurströndinni leiði til þess að hann sé ekki eins í hvarfi frá húseign kæranda og áður hafi verið.  Áður hafi hann lítið orðið var við fótboltaleiki á vellinum en nú óttist hann að ónæði frá honum aukist vegna hávaða og lýsingar.  Þetta sé fleirum ljóst en kæranda einum því í endurgerðri tillögu að möninni sunnan vallarins komi eftirfarandi fram:  „Gróðurmössun meiri til að loka frekari innsýn inn á völlinn og draga út vindáhrifum.“  Gróður sé því aukinn en alls óvíst sé að hann verði farinn að veita nauðsynlega hlíf fyrr en að áratug liðnum eða jafnvel nái ekki að þrífast vegna vindálags.    

Vettvangsganga:  Úrskurðarnefndin kynnti sér staðhætti á vettvangi hinn 30. mars 2006.

Niðurstaða:  Þegar hin kærða ákvörðun var tekin var í gildi Aðalskipulag Seltjarnarness 1981-2001.  Samkvæmt því skipulagi var svæði það við Suðurströnd er hinn umdeildi fótboltavöllur stendur á skilgreint sem opið svæði – leikvellir og hefur íþróttavöllur verið þar til margra ára. 

Í máli þessu er aðeins kærð ákvörðun skipulags- og mannvirkjanefndar um að heimila framkvæmdir við völlinn.  Í umsókn varðandi framkvæmdina var tekið fram að sótt væri um leyfi til að skipta um jarðveg undir knattspyrnuvellinum og ganga frá yfirborði hans með gervigrasi og upphitunarkerfi. 

Þegar litið er inntaks framkvæmdaleyfisins og afstöðu vallarins gagnvart húsi kæranda að Steinavör 6 verður ekki séð að framkvæmdir samkvæmt hinni kærðu ákvörðun hafi haft þau áhrif á umhverfi kæranda að hann eigi þá lögvörðu hagsmuni tengda henni sem eru skilyrði aðildar kærumáls fyrir úrskurðarnefndinni, sbr. 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Ber því að vísa máli þessu frá úrskurðarnefndinni. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

 

___________________________
Hjalti Steinþórsson 

_____________________________    __________________________  
      Ásgeir Magnússon                                   Geirharður Þorsteinsson