Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

40/2005 Skólavörðustígur

Ár 2007, miðvikudaginn 18. apríl, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 40/2005, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík um að heimila byggingu vinnustofu á lóðinni nr. 25 við Skólavörðustíg. 

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 17. maí 2005, er barst nefndinni hinn 18. sama mánaðar, kærir Othar Örn Petersen hrl., f.h. S, Íragerði 14, Stokkseyri, eiganda að hluta hússins að Skólavörðustíg 25A, Reykjavík ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 5. apríl 2005 um að heimila byggingu vinnustofu á lóðinni nr. 25 við Skólavörðustíg.  Á fundi borgarráðs hinn 14. s.m. var afgreiðsla byggingarfulltrúa staðfest. 

Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. 

Málavextir og rök:  Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 5. apríl 2005 var samþykkt umsókn um leyfi til að byggja vinnustofu úr steinsteypu og timbri (matshluti 04) á lóðinni nr. 25 við Skólavörðustíg.  Var samþykktin staðfest á fundi borgarráðs hinn 14. s.m. 

Er hin kærða ákvörðun var tekin var kærandi máls þessa eigandi hluta hússins nr. 25A við Skólavörðustíg og setti fram kæru til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála vegna ofangreindrar samþykktar byggingarfulltrúa. 

Kærandi teflir fram fjölmörgum rökum fyrir kröfu um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar, m.a. þeim að hin fyrirhugaða skúrbygging muni hafa í för með sér aukna umferð inn á lóð kæranda og takmarka þar með eðlilega nýtingu hennar. 

Með kaupsamningi, dags. 1. ágúst 2006, seldi kærandi eignarhlut sinn í húsinu að Skólavörðustíg 25A og fór afhending hins selda fram samdægurs og skyldi afsal til kaupanda gefið út eigi síðar en hinn 15. sama mánaðar samkvæmt ákvæðum þess samnings.  Hefur úrskurðarnefndin leitað afstöðu kaupanda til kærumáls þessa en hann hefur ekki látið málið til sín taka. 

Niðurstaða:  Kærandi byggir málskot sitt vegna hins umdeilda byggingarleyfis á atvikum er tengjast rétti hans sem eiganda að eignarhluta í húsinu að Skólavörðustíg 25A.  Fyrir liggur kaupsamningur þar sem kærandi afsalar eignarhluta sínum í umræddu húsi til þriðja aðila og urðu eigendaskiptin hinn 1. ágúst 2006.  Kaupandi hefur ekki látið málið til sín taka þrátt fyrir að leitað hafi verið afstöðu hans til þess. 

Samkvæmt framansögðu á kærandi ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá úrlausn um ágreiningsefni máls þessa.  Jafnframt liggur fyrir að núverandi eigandi tekur ekki við aðild málsins.  Verður málinu því vísað frá úrskurðarnefndinni. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

 

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

 

 

___________________________      _____________________________
Ásgeir Magnússon                                    Þorsteinn Þorsteinsson