Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

48/2005 Laugavegur

Ár 2007, miðvikudaginn 18. apríl, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 48/2005, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík um samþykki fyrir núverandi innra fyrirkomulagi hússins að Laugavegi 161.      

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 20. júní 2005, er barst nefndinni samdægurs, kærir J, Laugavegi 161, Reykjavík ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 17. maí 2005 um samþykki fyrir núverandi innra fyrirkomulagi hússins að Laugavegi 161.  Á fundi borgarráðs hinn 19. s.m. var afgreiðsla byggingarfulltrúa staðfest.  

Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.  

Málavextir og rök:  Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 17. maí 2005 var veitt samþykki fyrir núverandi innra fyrirkomulagi hússins að Laugavegi 161 vegna gerðar eignaskiptayfirlýsingar.  Var samþykktin staðfest á fundi borgarráðs hinn 19. s.m.

Í kæru til úrskurðarnefndarinnar krefst kærandi þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og boðar rökstuðning kærunnar síðar.  Engin rök hafa þó borist nefndinni.  Í greinargerð borgaryfirvalda til úrskurðarnefndarinnar, dags. 5. febúar 2007, er gerð krafa um frávísun málsins og var kæranda kynnt efni greinargerðarinnar með bréfi, dags. 15. mars 2007.  Var kæranda veittur frestur til 30. mars 2007 til að tjá sig um efni greinargerðar borgaryfirvalda sem hann nýtti sér ekki.       

Niðurstaða:  Í kærumáli þessu er deilt um samþykki byggingarfulltrúa fyrir núverandi innra fyrirkomulagi hússins að Laugavegi 161 í tilefni af gerð eignaskiptayfirlýsingar.  Fyrir úrskurðarnefndinni hefur kærandi hvorki gert grein fyrir hagsmunum þeim er hann kann að eiga af því að fá hina kærðu samþykkt úr gildi fellda né mögulegu eignarhaldi hans á hluta hússins.  Verður ekki ráðið af málsgögnum, eins og málið liggur nú fyrir, að kærandi eigi lögvarða hagsmuni í málinu og verður því af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

 

___________________________        _____________________________
Ásgeir Magnússon                                       Þorsteinn Þorsteinsson