Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

56/2006 Kiðjaberg

Ár 2007, miðvikudaginn 10. janúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 56/2006, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa uppsveita Árnessýslu frá 25. október 2005 um að veita leyfi til byggingar sumarhúss á lóð nr. 109 í landi Kiðjabergs í Grímsnes- og Grafningshreppi.   

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 7. júlí 2006, er barst úrskurðarnefndinni sama dag, kærir Ívar Pálsson hdl., f.h. Þ og Þ, Glaðheimum 14, Reykjavík, eigenda sumarhúss á lóð nr. 111 í landi Kiðjabergs í Grímsnes- og Grafningshreppi, þá ákvörðun  byggingarfulltrúa uppsveita Árnessýslu frá 25. október 2005 að veita leyfi til byggingar sumarhúss á lóð nr. 109 í landi Kiðjabergs í Grímsnes- og Grafningshreppi. 

Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.  Kærendur settu fram kröfu um stöðvun framkvæmda og með bráðabirgðaúrskurði úrskurðarnefndarinnar uppkveðnum hinn 2. ágúst 2006 var fallist á þá kröfu. 

Málsatvik og rök:  Hinn 7. desember 2005 samþykkti sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps breytingu á deiliskipulagi frá árinu 1990 um frístundabyggð á svæði C í landi Kiðjabergs í Grímsnes- og Grafningshreppi.  Auglýsing um gildistöku deiliskipulagsbreytingarinnar birtist í B-deild Stjórnartíðinda hinn 23. ágúst 2006.  Hinn 25. október 2005 veitti byggingarfulltrúi uppsveita Árnessýslu leyfi til byggingar sumarhúss á lóðinni nr. 109 í landi Kiðjabergs.  

Kærendur skírskota m.a. til þess að hið kærða byggingarleyfi sé ekki í samræmi við þágildandi deiliskipulag frá árinu 1990.  Sveitarstjórn hafi raunar samþykkt breytingar á því deiliskipulagi en málsmeðferðinni hafi ekki verið lokið er hið kærða byggingarleyfi hafi verið veitt. 

Með tölvubréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 31. október 2006, tilkynnti lögmaður Grímsnes- og Grafningshrepps að hið kærða byggingarleyfi hefði verið afturkallað á fundi byggingarnefndar hinn 17. október 2006 þar sem fyrir lægi að hið kærða leyfi væri ekki í samræmi við gildandi deiliskipulag svæðisins.  Var afturköllunin staðfest á fundi sveitarstjórnar hinn 26. október 2006.

Niðurstaða:  Fyrir liggur að hin kærða ákvörðun hefur verið afturkölluð.  Hefur hún því ekki lengur þýðingu að lögum og eiga kærendur ekki hagsmuni af því að fá skorið úr um gildi hennar.

Verður málinu af greindum ástæðum vísað frá úrskurðarnefndinni.  Jafnframt falla niður réttaráhrif bráðabirgðaúrskurðar úrskurðarnefndarinnar frá 26. ágúst 2006 um stöðvun framkvæmda samkvæmt hinu kærða leyfi.  

 Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

 

 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

 

 

_________________________        ___________________________
 Ásgeir Magnússon                            Þorsteinn Þorsteinsson