Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

14/2005 Blesugróf

Ár 2007, miðvikudaginn 18. apríl, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 14/2005, kæra á samþykkt skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkurborgar um deiliskipulag Blesugrófar. 

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 9. febrúar 2005, er barst nefndinni samdægurs, kærir B, Stjörnugróf 29, Reykjavík samþykkt skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 15. desember 2004 um deiliskipulag Blesugrófar.  Á fundi borgarráðs hinn 6. janúar 2005 var afgreiðsla nefndarinnar staðfest. 

Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. 

Málavextir og rök:  Á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 28. júlí 2004 var samþykkt að auglýsa tillögu að deiliskipulagi Blesugrófar sem áður hafði verið kynnt hagsmunaaðilum á svæðinu.  Var tillagan auglýst frá 18. ágúst 2004 til 29. september s.á. og bárust skipulagsyfirvöldum borgarinnar athugasemdir við tillöguna, þar á meðal frá kæranda.  Á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 15. desember 2004 var hin auglýsta tillaga samþykkt og hlaut hún staðfestingu borgarráðs hinn 6. janúar 2005.  Auglýsing um gildistöku samþykktarinnar birtist í B-deild Stjórnartíðinda hinn 16. júní 2005.  Með hinni kærðu deiliskipulagssamþykkt var fellt úr gildi deiliskipulag Blesugrófar frá 29. ágúst 1961. 

Markmið hinnar kærðu deiliskipulagsákvörðunar var m.a. að móta stefnu við framtíðaruppbyggingu hverfisins og styrkja heildarmynd þess. 

Athugasemdir kæranda á undirbúningsstigi hinnar kærðu ákvörðunar lutu að samþykktum teikningum húss hans að Stjörnugróf 29, lóðarmörkum og byggingarreit innan lóðarinnar, gegnumakstri innan hverfisins og girðingum á lóðarmörkum. 

Niðurstaða:  Í kæru kæranda til úrskurðarnefndarinnar var í engu gerð grein fyrir rökum fyrir kröfu um ógildingu heldur voru þau boðuð síðar.  Engin rök hafa þó borist nefndinni.  Í gögnum málsins kemur fram að borgaryfirvöld hafa, eftir að kæra var sett fram, komið til móts við athugasemdir kæranda sem hann hafði gert á undirbúningsstigi hinnar kærðu ákvörðunar.  Af þessum ástæðum verður ekki séð að kærandi eigi nú lögvarða hagsmuni af því að fá úrlausn um kæruefni máls þessa og verður málinu því vísað frá úrskurðarnefndinni. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

 

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

 

 

___________________________        _____________________________
Ásgeir Magnússon                                 Þorsteinn Þorsteinsson