Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

119/2008 Tunguheiði

Með

Ár 2010, fimmtudaginn 20. maí, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 119/2008, kæra á afgreiðslu skipulagsnefndar Kópavogsbæjar frá 21. október 2008 um deiliskipulag vegna lóðarinnar að Tunguheiði 8. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 29. desember 2008, er barst nefndinni hinn 30. sama mánaðar, kæra S og S, til heimils að Tunguheiði 8 í Kópavogi, afgreiðslu skipulagsnefndar Kópavogsbæjar frá 21. október 2008 er varðar deiliskipulag vegna lóðarinnar nr. 8 við Tunguheiði. 

Gera kærendur þá kröfu að hin kærða afgreiðsla verði felld úr gildi. 

Málavextir og rök:  Frá árinu 2001 hafa kærendur, sem búsettir eru að Tunguheiði 8 í Kópavogi, óskað eftir heimild skipulags- og byggingaryfirvalda í Kópavogi til byggingar þakhýsis á hluta húseignarinnar, án þess að við henni hafi orðið.  Með bréfi kærenda til bæjarskipulags, dags. 12. febrúar 2007, lögðu þau enn fram beiðni þessa efnis ásamt samþykki meðeigenda.  Samþykkti skipulagsnefnd á fundi 6. maí 2008 að kærendur myndu vinna deiliskipulagstillögu fyrir lóðina.  Þá var samþykkt á fundi nefndarinar 20. maí 2008 að hönnuður myndi gera húsakönnun og tillagan í kjölfarið auglýst, sbr. 25. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Var tillagan auglýst og bárust athugasemdir vegna hennar.  Á fundi skipulagsnefndar 21. október 2008 var tillögunni hafnað á grundvelli innsendra athugasemda.  Var fundargerð skipulagsnefndar afgreidd án umræðu á fundi bæjarstjórnar 28. s.m.  Með bréfi arkitekts kærenda til bæjarskipulags, dags. 6. nóvember s.á., var farið fram á rökstuðning skipulagsnefndar og óskað eftir heimild til að vinna tillögu með tilliti til athugasemda nágranna.  Á fundi nefndarinnar 18. nóvember 2008 var bréf þetta lagt fram og var formanni hennar falið að rökstyðja synjunina.  Með bréfi formanns skipulagsnefndar til kærenda, dags. 2. desember 2008, var rökstuðningur nefndarinnar settur fram. 

Hafa kærendur kært framangreint til úrskurðarnefndarinnar svo sem áður getur. 

Af hálfu kærenda er m.a. vísað til þess að í nágrenni við þau hafi bæjaryfirvöld veitt heimild til byggingar þakhýsa á tveimur húsum og séu þau þess fullviss að unnt sé að hanna þakhýsi á húsið að Tunguheiði 8 þar sem tekið væri tillit til athugasemda nágranna. 

Af hálfu Kópavogsbæjar er m.a. bent á að erindi kærenda um byggingu þakhýsis hafi verið hafnað í skipulagsnefnd á árinu 2001 sem og deiliskipulagstillögu á árinu 2005 er laut að aukinni hæð húsa á svæðinu. 

Niðurstaða:  Skipulagsnefnd Kópavogs hafnaði á fundi sínum hinn 21. október 2008 tillögu að deiliskipulagi vegna lóðarinnar nr. 8 við Tunguheiði.  Fundargerð skipulagsnefndar frá þeim fundi var til umfjöllunar á fundi bæjarráðs hinn 23. s.m., þar sem afstaða var tekin til tiltekinna liða hennar.  Þar er þó ekki að finna bókun ráðsins varðandi afstöðu þess til áðurnefndrar afgreiðslu skipulagsnefndar.  Þá var og fyrrgreind fundargerð skipulagsnefndar á dagskrá fundar bæjarstjórnar hinn 28. október 2008, þar sem bókað var eftirfarandi:  „Fundargerðin afgreidd án umræðu.“ 

Samkvæmt 23. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 tekur sveitarstjórn ákvarðanir um deiliskipulag.  Þeir annmarkar eru á meðferð málsins að ekki kemur fram í bókunum viljaafstaða bæjarráðs eða bæjarstjórnar til þess.  Verður framangreind afgreiðsla ekki talin fela í sér ákvörðun er bindi endi á meðferð máls og ber því, skv. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, að vísa málinu frá nefndinni. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð: 

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

______________________________             ______________________________
Ásgeir Magnússon                                                  Þorsteinn Þorsteinsson

14/2010 Bergstaðastræti

Með

Ár 2010, miðvikudaginn 21. apríl, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 14/2010, kæra á synjun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 10. febrúar 2010 á beiðni um afturköllun á samþykki hans fyrir innréttingu og nýtingu íbúðar á annarri hæð hússins að Bergstaðastræti 28A í Reykjavík sem gististaðar. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 9. mars 2010, er barst nefndinni 11. sama mánaðar, kærir L, Gunnarsbraut 26, Reykjavík, eigandi íbúðar í húsinu að Bergstaðastræti 28A, Reykjavík, synjun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 10. febrúar 2010 á beiðni hennar um afturköllun á samþykki hans fyrir innréttingu og nýtingu íbúðar á annarri hæð hússins að Bergstaðastræti 28A sem gististaðar. 

Málavextir og rök:  Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 13. október 2009 var samþykkt umsókn um leyfi fyrir þegar breyttu innra fyrirkomulagi í íbúð á 2. hæð og til reksturs gististaðar í fl. II/E í sömu íbúð í húsinu að Bergstaðastræti 28A.  Í bókun byggingarfulltrúa er sérstaklega tekið fram að meðfylgjandi umsókninni sé samþykki meðeigenda, dags. 13. júlí 2009.  Þá var og eftirfarandi bókað:  „Í samþykktinni felst ekki leyfi til rekstrar gististaðar enda er það utan valdsviðs byggingarfulltrúa.   Umsækjanda er bent á að leita með þann þátt til leyfisdeildar lögreglunnar og heilbrigðiseftirlits.“ 

Með bréfi kæranda til byggingarfulltrúa, dags. 1. febrúar 2010, tilkynnti kærandi um afturköllun samþykkis síns fyrir rekstri gististaðar á 2. hæð að Bergstaðastræti 28A þar sem undirskrift hennar væri annað hvort fölsuð eða fengin með blekkingum.  Einnig var þess krafist að byggingarfulltrúi veitti neikvæða umsögn til leyfisdeildar lögreglu höfuðborgarsvæðisins.  Embætti byggingarfulltrúa svaraði kæranda með bréfi, dags. 10. febrúar 2010, þar sem erindi hennar var hafnað. 

Kærandi vísar m.a. til þess að ekki liggi fyrir raunverulegt samþykki hennar sem meðeiganda fyrir gististað í húsinu, þrátt fyrir meinta undirskrift hennar á undirskriftalista meðeigenda.  Þá hafi hún afturkallað hið meinta samþykki sitt. 

Af hálfu Reykjavíkurborgar er krafist frávísunar málsins þar sem ekki liggi fyrir kæranleg ákvörðun sem borin verði undir úrskurðarnefndina, sbr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. 

—————–

Málsaðilar hafa fært fram ítarlegri rök fyrir máli sínu en með hliðsjón af niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar þykir ekki ástæða til að rekja þau frekar. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er kært svar embættis byggingarfulltrúans í Reykjavík, dags. 10. febrúar 2010, við erindi kæranda, dags. 1. sama mánaðar, þar sem kærandi tilkynnir embættinu afturköllun samþykkis síns fyrir rekstri gististaðar á annarri hæð hússins að Bergstaðastræti 28A.  Þá krefst kærandi þess ennfremur að byggingarfulltrúi veiti neikvæða umsögn til leyfisdeildar lögreglunnar.  Umrætt svar í bréfi byggingarfulltrúa felur ekki í sér ákvörðun sem bindur enda á meðferð máls og hefur þar að auki hvorki verið afgreitt í skipulagsráði né komið til staðfestingar borgarráðs.  Verður því ekki litið á umrætt svar embættis byggingarfulltrúa sem kæranlega stjórnvaldsákvörðun og ber því, samkvæmt sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, að vísa málinu frá. 

Úrskurðarorð: 

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

_____________________________
Hjalti Steinþórsson

____________________________    ___________________________
Ásgeir Magnússon                                   Þorsteinn Þorsteinsson

22/2009 Farbraut

Með

Ár 2010, miðvikudaginn 5. maí, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 22/2009, kæra á ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar uppsveita Árnessýslu og Flóahrepps frá 24. október 2008 um að synja umsókn um  byggingarleyfi fyrir gróðurhúsi og geymslu að Farbraut 3 í landi Norðurkots í Grímsnes- og Grafningshreppi. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála hinn 8. apríl 2009, kærir B, Gvendargeisla 22, Reykjavík, þá ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar uppsveita Árnessýslu og Flóahrepps frá 24. október 2008 að synja umsókn um byggingarleyfi fyrir gróðurhúsi og geymslu að Farbraut 3 í landi Norðurkots.  Hin kærða ákvörðun var staðfest á fundi sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps 6. nóvember 2008.  Verður að skilja málatilbúnað kæranda svo að þess sé krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. 

Málsatvik og rök:  Kærandi er eigandi sumarbústaðarlóðar í landi Norðurkots í Grímsnes- og Grafningshreppi.  Á svæðinu er í gildi deiliskipulag fyrir frístundabyggð.  Samkvæmt skilmálum deiliskipulagsins, eins og þeim var breytt sumarið 2006, skulu sumarhús á svæðinu ekki vera stærri en 200 m².  Þá er heimilt að reisa útihús, geymslu, svefnhús eða gróðurhús, innan hvers byggingarreits, þó ekki stærri en 25 m². 

Haustið 2008 sótti kærandi um leyfi til að byggja á lóð sinni gróðurhús og geymslu, alls 41,3 m².  Var erindinu synjað á fundi skipulags- og byggingarnefndar 24. október 2008 með þeim rökum að skipulagsskilmálar svæðisins heimiluðu aðeins 25 m² aukahús.  Var kæranda tilkynnt um þá ákvörðun með bréfi, dags. 27. október 2008.  Þessi afgreiðsla var staðfest á fundi sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps 6. nóvember 2008 og var kæranda tilkynnt um

Kærandi vildi ekki una þessari niðurstöðu og skaut málinu til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir. 

Kærandi tekur fram að dregist hafi að ganga frá kæru í málinu vegna þess að hann hafi, með tölvubréfi hinn 30. desember 2008, kynnt byggingarfulltrúa fyrirhugaða kæru en jafnframt óskað rökstuðnings fyrir afgreiðslu málsins.  Sú ósk hafi verið ítrekuð í febrúar 2009 en engin svör hafi borist og hafi málinu því verið vísað til úrskurðarnefndarinnar. 

Kærandi vísar til þess að sumarhús hans sem fyrir sé að Farbraut 3 sé aðeins 86 m² og með þeim byggingum sem um hafi verið sótt hefði byggingar á lóðinni aðeins orðið 131 m².  Byggingarnefnd hafi ekki unnið faglega að málinu og ekki skoðað þau efnislegu rök sem færð hafi verið fram til stuðnings umsókn kæranda. 

Af hálfu Grímsnes- og Grafningshrepps er áréttað að ekki hafi verið talið að það samrýmdist skipulagsskilmálum að verða við umsókn kæranda vegna þeirrar takmörkunar sem gildi um stærð aukahúsa sem aðeins megi aðeins vera 25 m².  Því hafi umsókninni verið hafnað.

Niðurstaða:  Samkvæmt 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 er frestur til að skjóta máli til úrskurðarnefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt, eða mátti vera kunnugt, um ákvörðun þá sem kæra á.  Liggur fyrir í máli þessu að kærandi kynnti byggingarfulltrúa áform sín um kæru hinn 30. desember 2008 og var honum því, a.m.k. frá þeim tíma kunnugt, um kærurétt sinn í málinu.  Kæra barst úrskurðarnefndinni hins vegar ekki fyrr en 8. apríl 2009 og var kærufrestur þá liðinn. 

Kærandi hefur afsakað þann drátt sem varð á kæru með því að hann hafi óskað rökstuðnings og síðan beðið svara.  Eins og hér stendur á verður ekki talið að beiðni kæranda um rökstuðning eigi að hafa áhrif á kærufrest enda þarf slík beiðni að koma fram innan 14 daga frá því að aðila máls var tilkynnt um ákvörðunina, sbr. 3. mgr. 21. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Í máli þessu kom beiðni um rökstuðning ekki fram fyrr en að kærufresti liðnum og gat hún því ekki haft áhrif á lengd kærufrests, sbr. 3. mgr. 27. gr. sömu laga. 

Samkvæmt 28. gr. stjórnsýslulaga skal vísa kæru frá hafi hún borist að liðnum kærufresti nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til efnismeðferðar.  Verður ekki séð að neinar slíkar ástæður séu fyrir hendi í máli þessu og ber því, með hliðsjón af 1. mgr. tilvitnaðrar lagagreinar, að vísa málinu frá úrskurðarnefndinni. 

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

__________________________       __________________________
Ásgeir Magnússon                                  Þorsteinn Þorsteinsson

74/2009 Sléttuhlíð

Með

Ár 2010, fimmtudaginn 15. apríl, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 74/2009, kæra á ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúans í Hafnarfirði frá 2. apríl 2008 um að veita leyfi til byggingar sumarbústaðar á lóð merktri B-2 í Sléttuhlíð í Hafnarfirði. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 1. nóvember 2009, er barst nefndinni hinn 6. sama mánaðar, kærir Á, Smárahvammi 9 í Hafnarfirði, einn eigenda sumarhúss á lóð merktri F-4 í Sléttuhlíð í Hafnarfirði, þá ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúans í Hafnarfirði frá 2. apríl 2008 að veita leyfi til byggingar sumarbústaðar á lóð merktri B-2 í Sléttuhlíð í Hafnarfirði.  Var ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa staðfest á fundi bæjarstjórnar hinn 15. sama mánaðar. 

Gerir kærandi þá kröfu að hið kærða byggingarleyfi verði fellt úr gild. 

Málavextir og rök:  Á afgreiðslufundi skipulags- og byggingarfulltrúans í Hafnarfirði 2. apríl 2008 var samþykkt að veita leyfi til byggingar sumarbústaðar á lóð nr. B-2 í Sléttuhlíð samkvæmt framlögðum teikningum og var afgreiðslan staðfest á fundi bæjarstjórnar 15. sama mánaðar. 

Af hálfu kæranda er vísað til þess að hið kærða byggingarleyfi fari í bága við gildandi deiliskipulag sökum þess að á lóðinni séu tvö hús.  Sé annað þeirra 111 m2 og á tveimur hæðum en hitt 36 m2 og hafi staðið þar lengi.  

Bent sé á að hvorki hafi verið auglýst tillaga að breyttu deiliskipulagi svæðisins né farið fram grenndarkynning og því hafi ekki verið unnt að gera athugasemdir við hið kærða byggingarleyfi.  Fyrst skömmu áður en kæra hafi verið lögð fram hjá úrskurðarnefndinni hafi kærandi fengið í hendur gögn er vörðuðu málið.  Hafnarfjarðarbær hafi hvorki upplýst nágranna né íbúa bæjarins um leyfið og því sé ekki hægt að benda á að kærufrestur hafi verið liðinn þar sem ekki hafi verið tilefni til athugasemda. 

Af hálfu Hafnarfjarðarbæjar er fallist á að hið kærða byggingarleyfi sé ekki í samræmi við deiliskipulag svæðisins og að veiting þess hafi verið mistök.  Við afgreiðslu málsins hafi verið talið að leyfið rúmaðist innan deiliskipulags og því hafi grenndarkynning ekki verið viðhöfð. 

Vísað sé til þess að samkvæmt 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 sé frestur til að skjóta málum til úrskurðarnefndarinnar 30 dagar frá því kæranda hafi verið kunnugt eða mátt vera kunnugt um ákvörðun þá er kærð sé.  Sé um að ræða ákvarðanir sem sæti opinberri birtingu teljist kærufrestur frá birtingu.  Hið kærða byggingarleyfi hafi verið samþykkt 2. apríl 2008 og staðfest á fundi bæjarstjórnar 15. sama mánaðar.  Báðar fundargerðirnar séu á vef Hafnarfjarðarbæjar.  Framkvæmdir hafi hafist um mitt ár 2008.  Jafnvel þótt unnt væri að fallast á að kæranda hafi ekki verið kunnugt um hina kærðu ákvörðun hefði honum mátt vera ljóst að framkvæmdir væru í gangi.  Væri því liðinn frestur til að skjóta málinu til úrskurðarnefndarinnar. 

Kæranda var gefinn kostur á að tjá sig um málsrök Hafnarfjarðarbæjar.  Bendir hann á að þrátt fyrir mistök við veitingu hins kærða leyfis vilji skipulags- og byggingarsvið að það standi óhaggað í skjóli útrunnins kærufrests. 

————–

Málsaðilar hafa fært fram ítarlegri rök fyrir kröfum sínum en með hliðsjón af niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar þykir ekki ástæða til að rekja þau frekar. 

Niðurstaða:  Samkvæmt almennum reglum stjórnsýsluréttarins er það skilyrði aðildar að kærumáli fyrir æðra stjórnvaldi að kærandi eigi verulegra og einstaklegra lögvarinna hagmuna að gæta í málinu.  Er þessi regla nú áréttuð, hvað varðar málskot til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, í 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, svo sem ákvæðinu var breytt með lögum nr. 74/2005.  Kærandi hefur ekki tilgreint með hvaða hætti hin umdeilda ákvörðun varði einstaklega hagmuni hans heldur byggir hann málatilbúnað sinn alfarið á því áliti sínu að hið umdeilda byggingarleyfi sé ekki í samræmi við samþykkt deiliskipulag svæðisins.  Þegar litið er til þess að veruleg fjarlægð er frá lóð kæranda, merkt F-4, að lóð B-2, svo og til legu lóðanna að öðru leyti og einnig þess að fjölmörg sumarhús eru milli þeirra, verður ekki séð að kærandi eigi þá einstaklegu og lögvörðu hagsmuni í málinu sem eru skilyrði aðildar að kæru til úrskurðarnefndarinnar.  Hefur kærandi ekki heldur bent á neina slíka hagmuni og verður kærumáli þessu því vísað frá nefndinni vegna aðildarskorts. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð: 

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

_______________________________          _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                Þorsteinn Þorsteinsson

124/2007 Hólmsheiði

Með

Ár 2010, þriðjudaginn 30. mars, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 124/2007, kæra á ákvörðun skipulagsráðs Reykjavíkur frá 22. ágúst 2007 um að veita framkvæmdaleyfi fyrir sléttun svæðis, grjóthreinsun og tilfærslu trjágróðurs til undirbúnings gerðar flugbrautarsvæðis, bílastæða, flugskýla og félagsheimilis fyrir starfsemi Fisfélags Reykjavíkur á Hólmsheiði. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 26. september 2007, er barst nefndinni 28. sama mánaðar, kærir Magnús Guðlaugsson hrl., f.h. Græðis, félags landeigenda í Óskoti og Reynisvatnslandi, þá ákvörðun skipulagsráðs Reykjavíkur frá 22. ágúst 2007 að veita framkvæmdaleyfi fyrir sléttun svæðis, grjóthreinsun og tilfærslu trjágróðurs til undirbúnings gerðar flugbrautarsvæðis, bílastæða, flugskýla og félagsheimilis fyrir starfsemi Fisfélags Reykjavíkur á Hólmsheiði.  Gerir kærandi þá kröfu að framkvæmdaleyfið verði fellt úr gildi. 

Málsatvik og rök:  Hinn 22. ágúst 2007 tók skipulagsráð Reykjavíkur fyrir umsókn Fisfélags Reykjavíkur um framkvæmdaleyfi fyrir tilteknum jarðvegsframkvæmdum til undirbúnings áformaðri fisflugstarfsemi félagsins á Hólmsheiði.  Var umsóknin samþykkt og framkvæmdaleyfið gefið út hinn 3. september 2007. 

Kærandi vísar til þess að fyrirhuguð starfsemi framkvæmdaleyfishafa verði í um 400 metra fjarlægð frá þeim sumarbústöðum félagsmanna kæranda sem næstir séu svæðinu en flest öll lönd og bústaðir þeirra séu í minna en kílómeters fjarlægð.  Umdeilt svæði sé skilgreint í gildandi aðalskipulagi sem opið svæði til sérstakra nota en það hafi ekki verið deiliskipulagt.  Verði helst ráðið af skipulagsuppdrætti að áformað hafi verið að nýta svæðið til skógræktar. 

Í grein 4.12.1 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998 séu opin svæði til sérstakra nota skilgreind sem svæði með útivistargildi þar sem gert sé ráð fyrir mannvirkjagerð í tengslum við þá starfsemi sem þar sé stunduð og séu í ákvæðinu tilfærð dæmi um ýmis konar starfsemi sem talið sé að geti fallið undir umrædda landnotkun.  Í 2. mgr. gr. 4.12.2 sömu reglugerðar segi að í deiliskipulagi skuli gera grein fyrir mannvirkjagerð, efnisnotkun og litavali, gróðri og girðingum, bílastæðum og frárennsli o.fl.  Samkvæmt framangreindu ákvæði þurfi að gera deiliskipulag að þeim mannvirkjum sem áformuð séu á umræddri spildu áður en til mannvirkjagerðar geti komið á svæðinu.  Jafnframt þurfi, á grundvelli þess skipulags, að veita framkvæmda- og byggingarleyfi fyrir einstökum framkvæmdum og mannvirkjum eftir því sem við geti átt. 

Í máli þessu sé staðan sú að hvorki liggi fyrir deiliskipulag af svæði því sem ætlað sé undir starfsemi framkvæmdaleyfishafa né teikningar af þeim mannvirkjum sem nú sé verið að heimila undirbúning að.  Telja verði að slík undirbúningsvinna við gerð flugbrauta, bílastæða, flugskýla og félagsheimila sé óheimil að óbreyttu aðalskipulagi nema að undangenginni gerð deiliskipulags fyrir svæðið svo sem skylt sé skv. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. 

Borgaryfirvöld telji að áformuð starfsemi á Hólmsheiði fari ekki í bága við skilgreinda landnotkun svæðisins í aðalskipulagi sem opið svæði til sérstakra nota.  Að svo komnu sé ekki gert ráð fyrir varanlegri mannvirkjagerð á svæðinu en ef til þess kæmi yrði það tekið til skipulagningar eða byggingarleyfisumsókn grenndarkynnt.  Ekki verði séð að hið kærða framkvæmdaleyfi, sem heimili einungis í sér tilteknar framkvæmdir við að slétta og lagfæra jarðvegsyfirborð og tíundaðar séu í umsókn, hafi þau áhrif á nágrennið að til álita komi að ógilda framkvæmdaleyfið. 

Rétt sé að koma því á framfæri að deiliskipulagstillaga að umræddu svæði hafi verið auglýst eftir að kæra hafi borist í máli þessu.  Þar sé gert ráð fyrir að svæðið sé ætlað tímabundið undir starfsemi Fisfélags Reykjavíkur og verði þar flugbrautir og æfingaaðstaða fyrir vélknúin fis, svæði fyrir bílastæði og flugskýli og svæði fyrir félagsheimili og útivist. 

Framkvæmdaleyfishafa var gefinn kostur á að tjá sig um kæruefnið en athugasemdir af hans hálfu hafa ekki borist úrskurðarnefndinni. 

Niðurstaða:  Í hinu kærða framkvæmdaleyfi fólst einungis heimild til umráðaaðila viðkomandi landspildu á Hólmsheiði að slétta og grjóthreinsa jarðvegsyfirborð og færa til trjágróður.  Þótt fram komi að framkvæmdirnar séu hugsaðar til undirbúnings fyrirhugaðrar fisflugsstarfsemi leyfishafa á svæðinu, felur hin kærða ákvörðun ekki í sér heimild til slíkrar starfsemi eða til gerðar mannvirkja í tengslum við hana. 

Að þessu virtu verður ekki séð að heimilaðar framkvæmdir séu þess eðlis að þær geti raskað grenndarhagsmunum félagsmanna kæranda sem umráðamanna lands í nokkur hundruð metra fjarlægð frá umræddu svæði.  Verður kærumáli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni enda telst kærandi ekki aðili máls í skilningi 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

_____________________________
Hjalti Steinþórsson

_____________________________            ____________________________
Ásgeir Magnússon                                              Þorsteinn Þorsteinsson

79/2009 Kórsalir

Með

Ár 2010, þriðjudaginn 16. mars, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 79/2009, kæra vegna lokaúttektar byggingarfulltrúa Kópavogs á fjölbýlishúsinu að Kórsölum 5 í Kópavogi. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 13. nóvember 2009, er barst nefndinni sama dag, kærir húsfélagið að Kórsölum 5 í Kópavogi lokaúttekt byggingarfulltrúans í Kópavogi á greindu fjölbýlishúsi sem gefið var vottorð fyrir hinn 16. október 2009. 

Gerir kærandi þær kröfur að tekin verði afstaða til réttmætis athugasemda hans sem fram komu við lokaúttekt hússins og varða ákvæði byggingarreglugerðar nr. 441/1998 og að lagt verði fyrir byggingarfulltrúa að leggja fram öll gögn sem krafist sé að liggi fyrir við lokaúttekt og útgáfu úttektarvottorðs, sbr. 35. gr., 53. gr. og 54. gr. byggingarreglugerðar.  Reynist athugasemdir kæranda réttmætar varðandi hönnun, smíði og frágang hússins, verði lagt fyrir byggingarfulltrúa að hlutast til um að byggingaraðili lagfæri og endurbæti það sem nauðsynlegt sé til að lögmæt lokaúttekt geti farið fram og að því loknu verði gefið út nýtt lokaúttektarvottorð. 

Málsatvik og rök:  Fjölbýlishúsið að Kórsölum 5 í Kópavogi mun hafa verið tekið í notkun á árinu 2002.  Byggingarstjóri fyrir húsbyggingunni óskaði eftir lokaúttekt á byggingarframkvæmdunum og átti hún að fara fram hinn 28. júní 2005.  Sú ráðagerð gekk ekki eftir þar sem athugasemdir voru gerðar við framkvæmdir og var veittur frestur til 4. nóvember sama ár til að lagfæra tilgreind atriði en því var ekki sinnt innan frestsins.  Enn stóð til að ljúka lokaúttekt á húsinu og gefa út vottorð þar að lútandi hinn 15. mars 2007, en þar sem þá hafði ekki verið bætt úr atriðum sem þótti ábótavant við fyrri úttekt var því beint til byggingarstjóra að bæta þar úr.  Hinn 21. september 2009 fór síðan fram lokaúttekt, m.a. að viðstöddum fulltrúum kæranda, sem gerðu athugasemdir við byggingu og frágang fjölbýlishússins.  Var vottorð um lokaúttekt gefið út hinn 16. október sama ár eftir að bætt hafði verið úr þeim þáttum er byggingarfulltrúi hafði farið fram á. 

Kærandi vísar til þess að sá óhæfilegi dráttur sem orðið hafi á lokaúttekt Kórsala 5 gangi gegn hagsmunum íbúðareigenda hússins, fari gegn markmiðum byggingarreglugerðar og dragi úr réttaröryggi í meðferð byggingarmála.  Byggingarfulltrúi hafi við lokaúttekt ekki tekið tillit til athugasemda kæranda er lotið hafi að smíði og frágangi byggingarinnar, svo sem hljóðeinangrun og hljóðvist, loftræstingu og leka.  Gögn og yfirlýsingar sem eigi að liggja frammi við lokaúttekt hafi vantað eða verið ábótavant, svo sem yfirlýsingar um raforkuvirki, hitakerfi og loftræstingu.  Ekki hafi verið gengið með trúverðugum hætti úr skugga um að byggingarstjóri hafi fylgt samþykktum uppdráttum, lögum og reglugerðum við byggingu hússins áður en lokaúttektarvottorð hafi verið gefið út. 

Af hálfu Kópavogsbæjar er þess krafist að kærumálinu verði vísað frá úrskurðarnefndinni en ella að kröfum kæranda verði hafnað.  Lokaúttekt sé stjórnvaldsathöfn er feli í sér áfangaúttekt við byggingu mannvirkis en sé ekki stjórnvaldsákvörðun um rétt og skyldur aðila.  Kærandi eigi auk þess ekki aðild að framkvæmd lokaúttektar, sbr. 53. gr. byggingarreglugerðar, og verði því ekki séð að hann eigi kæruaðild um framkvæmd slíkrar úttektar.  Framkvæmd umdeildrar úttektar hafi verið lögum samkvæmt en af málatilbúnaði kæranda sé ljóst að kröfur hans séu einkaréttarlegs eðlis og sprottnar af ágreiningi og málaferlum hans gegn byggingar- og söluaðila umrædds húss.  Lögbundið hlutverk byggingarfulltrúa sé að hafa eftirlit með öryggi mannvirkja í þágu almannahagsmuna en honum sé ekki ætlað að taka afstöðu í máli milli einkaaðila eða beita sér í þeirra þágu í skjóli byggingarreglugerðar. 

Í andmælum kæranda við greinargerð Kópavogsbæjar í málinu er frávísunarkröfu mótmælt.  Athugasemdir kæranda vegna lokaúttektar að Kórsölum 5 séu ekki einungis einkaréttarlegs eðlis heldur lúti þær að atriðum sem gæta skuli að við byggingareftirlit samkvæmt ákvæðum byggingarreglugerðar.  Bent sé á að í öllum samskiptum kæranda við byggingaryfirvöld Kópavogsbæjar vegna lokaúttektarinnar hafi honum verið bent á kærurétt sinn til úrskurðarnefndarinnar við lyktir málsins.  Lokaúttekt og útgáfa lokaúttektarvottorðs hljóti að teljast ákvörðun sem bindi enda á mál í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og varði sú stjórnvaldsákvörðun verulega einstaklega og lögvarða hagsmuni íbúðareigenda sem hún snerti.  Telji kærandi því að um kæranlega stjórnvaldsákvörðun að ræða í máli þessu sem hann eigi kæruaðild að, enda beri að túlka aðildarhugtakið rúmt í stjórnsýslurétti.  Úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála sé eðlilegur farvegur fyrir þetta mál, enda komi fram í 8. gr. skipulags- og byggingarlaga og 10. gr. byggingarreglugerðar að komi upp ágreiningsmál á sviði byggingarmála eða telji einhver á rétt sinn hallað, megi skjóta slíku til úrskurðarnefndarinnar, sem úrskurði um ágreininginn.

—————–

Aðilar hafa gert ítarlegri grein fyrir sjónarmiðum sínum og rökum í málinu sem ekki verða rakin hér en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins. 

Niðurstaða:  Kærumál þetta snýst um framkvæmd lokaúttektar og útgáfu vottorðs um lokaúttekt vegna byggingar fjölbýlishússins að Kórsölum 5 í Kópavogi. 

Í 1. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 er kveðið á um það hlutverk úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála að úrskurða í ágreiningsmálum um skipulags- og byggingarmál samkvæmt lögunum og reglugerðum settum samkvæmt þeim.  Í 5. mgr. 8. gr. laganna er nánar skýrt hvaða ágreiningi verði skotið til nefndarinnar, en þar segir að kæru sæti stjórnvaldsákvarðanir stjórnsýslu sveitarfélaga nema sérstaklega sé á annan veg mælt í lögum.  Samkvæmt téðum ákvæðum verður aðeins ágreiningi um stjórnvaldsákvarðanir stjórnsýslu sveitarfélaga á sviði skipulags- og byggingarmála skotið til úrskurðarnefndarinnar nema sérstaklega sé mælt á annan veg í lögum. 

Lokaúttekt og útgáfa úttektarvottorðs eru liðir í eftirliti byggingarfulltrúa með byggingarframkvæmdum sem honum er falið að lögum, sbr. 2. mgr. 40. gr. skipulags- og byggingarlaga.  Lokaúttekt skal gerð að ósk byggingarstjóra eða byggjanda skv. 53. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998 eða ábyrgðartryggjenda hönnuða og byggingarstjóra.  Þar kemur og fram að auk byggingarfulltrúa og slökkviliðsstjóra skuli viðstaddir úttektina byggingarstjóri og þeir iðnmeistarar og hönnuðir sem þess óska eða eru til þess kvaddir af byggingarfulltrúa.  Lokaúttektarvottorð er síðan gefið út af byggingarfulltrúa þegar bætt hefur verið úr hugsanlegum ágöllum og gengið hefur verið úr skugga um að mannvirki fullnægi tilskyldum ákvæðum um gerð og búnað, sbr. 54. gr. byggingarreglugerðar. 

Skilja verður ákvæði þessi svo að þeim sé ætlað að tryggja eftirlit með öryggi og gæðum mannvirkja og að unnt sé að knýja þá sem ábyrgð bera á framkvæmdum til að bæta úr því sem á kunni að skorta svo mannvirkið fullnægi viðeigandi skilyrðum.  Lúta þessi ákvæði einkum að vörslu almannahagsmuna en ekki verður af þeim ráðið að eigendur fasteigna, sem keypt hafa eignir í byggingu, eignist lögvarinn rétt til aðildar að úttekt sem framkvæmd er af byggingarfulltrúa á grundvelli áðurgreindra laga og reglugerðarákvæða og geti gert þar kröfur um að skilaástand eigna verði staðreynt með tilteknum hætti eða knúið á um úrbætur í því efni.  Verður kærumáli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem kærandi verður ekki talinn aðili þess í skilningi 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð: 

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

______________________________
Hjalti Steinþórsson

_______________________________  ______________________________
Ásgeir Magnússon                                        Þorsteinn Þorsteinsson

5/2009 Reykjabakki

Með

Ár 2010, þriðjudaginn 16. mars, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 5/2009, kæra á ákvörðunum hreppsnefndar Hrunamannahrepps frá 5. nóvember 2008 og 7. janúar 2009 um eignarnám á landi í eigu kærenda. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 20. janúar 2009, framsendir umhverfisráðuneytið stjórnsýslukæru Óskars Sigurðssonar hrl. f.h., eigenda Reykjabakka í Hrunamannhreppi, vegna ákvarðana hreppsnefndar Hrunamannahrepps frá 5. nóvember 2008 og 7. janúar 2009 um eignarnám á landi í eigu kærenda. 

Gera kærendur þá kröfu að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi. 

Málsatvik:  Hinn 5. nóvember 2008 ákvað hreppsnefnd Hrunamannhrepps að taka land í eigu kærenda eignarnámi með stoð í 1. tl. 2. mgr. 32. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Var ákvörðunin tekin á grundvelli umsagnar Skipulagsstofnunar frá 18. september 2008, þar sem fram kom að stofnunin gerði ekki athugasemd við fyrirhugað eignarnám.  Í kjölfar athugasemda kærenda afturkallaði stofnunin hins vegar umsögn sína með bréfi, dags. 5. desember 2008, þar sem hún taldi ljóst að fyrirhugaðar vegtengingar til norð-vesturs, við heimreið Reykjabakka, væru utan marka deiliskipulagsins.

Með bréfi, dags. 8. janúar 2009, var kærendum tilkynnt að hreppsnefnd hefði ákveðið hinn 7. sama mánaðar að taka það land eignarnámi sem félli innan deiliskipulagsmarka, sbr. bréf Skipulagsstofnunar frá 5. desember 2008.  Ekki kom fram hver yrðu afdrif fyrri ákvörðunar frá 5. nóvember 2008.  Skutu kærendur framangreindum ákvörðunum hreppsnefndar frá 5. nóvember 2008 og 7. janúar 2009 til umhverfisráðherra með bréfi, dags. 20. janúar 2009.  Framsendi ráðuneytið erindið til úrskurðarnefndarinnar með bréfi, dags. 27. janúar 2009, svo sem að framan greinir. 

Málsrök kærenda:  Kærandur krefjast þess að greindar ákvarðanir hreppsnefndar Hrunamannahrepps verði felldar úr gildi.  Þar sem hreppsnefnd hafi ekki lýst því yfir með formlegum hætti að ákvörðunin frá 5. nóvember sé fallin úr gildi taki kæra þeirra einnig til hennar. 

Ákvarðanir þær sem krafist sé ógildingar á séu af hálfu hreppsnefndar Hrunamannahrepps byggðar á heimild í 1. tl. 2. mgr. 32. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, en þar segi: 

Sveitarstjórn er heimilt að fenginni umsögn Skipulagsstofnunar og á grundvelli gildandi deiliskipulags að taka eignarnámi vegna framkvæmdar skipulagsins:
  1. Fasteignir sem sveitarstjórn er samkvæmt skipulaginu nauðsynlegt að fá umráð yfir til almannaþarfa
.“ 

Eins og aðrar ákvarðanir um eignarnám þurfi ákvörðun hreppsnefndar einnig að uppfylla skilyrði 72. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944, sbr. stjórnskipunarlög nr. 97/1995, og ákvæði 1. gr. samningsviðauka nr. 1 við mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, sbr. einnig meðalhófsreglu stjórnskipunarréttar.  Þá þurfi ákvörðun hreppsnefndar að uppfylla þær kröfur sem stjórnsýslulög nr. 37/1993 og reglur stjórnsýsluréttarins setji um undirbúning og efni stjórnsýsluákvarðana. 

Kærendur byggi á því að ekki séu uppfyllt skilyrði til eignarnáms, hreppsnefnd hafi ekki við ákvarðanir sínar virt meðalhófs- og jafnræðisreglur stjórnskipunar- og stjórnsýsluréttar og gallar séu á undirbúningi og málsmeðferð við ákvarðanir hreppsnefndarinnar.  Þá séu ákvarðanirnar ekki byggðar á lögmætum sjónarmiðum. 

Á því sé byggt að hreppsnefnd geti ekki reist ákvarðanir sínar um eignarnám á 1. tl. 2. mgr. 32. gr. skipulags- og byggingarlaga. 

Eignarnámsheimild sveitarstjórnar skv. 2. mgr. 32. gr. sé takmörkuð við að þörf sé á eignarnáminu vegna framkvæmdar á deiliskipulagi.  Liggja verði fyrir samþykkt og birt deiliskipulag og þurfi eignarnámið að samrýmast því.  Auk þess þurfi að uppfylla skilyrði um almannaþörf. 

Kærendur telji ljóst að ákvörðunin frá 5. nóvember 2008 hafi ekki verið í samræmi við skipulag svæðisins.  Á uppdrætti, þar sem fyrirhugað eignarnám hafi verið nánar skilgreint, hafi verið gert ráð fyrir að umræddur vegur lægi þétt að garðávaxtageymslu í eigu kærenda og jafnframt kæmu tilteknir vegstútar þvert í gegnum land þeirra og aðliggjandi land.  Af fyrirliggjandi aðalskipulagi verði ekki séð að gert sé ráð fyrir umræddum vegstútum.  Deiliskipulag á landi kærenda verði að samrýmast fyrirliggjandi aðalskipulagi.  Ákvörðun hreppsnefndar frá 5. nóvember 2008 hafi því ekki verið í samræmi við gildandi aðal- og deiliskipulag og falli því utan heimildar í 1. tl. 2. mgr. 32. gr. skipulags- og byggingarlaga. 

Það felist í skilyrði 2. mgr. 32. gr. að fyrirhugað eignarnám verði að samrýmast gildandi deiliskipulagi.  Kærendur hafi ítrekað óskað eftir upplýsingum um hvernig fyrirhuguð framkvæmd samræmist skipulaginu.  Með bréfi sveitastjóra Hrunamannahrepps, dags. 18. nóvember 2008, hafi verið kynnt þau gögn sem legið hafi að baki ákvörðun hreppsins frá 5. nóvember.  Meðfylgjandi þeim gögnum hafi annars vegar verið uppdráttur að breyttu deiliskipulagi frá árinu 2006 og hins vegar uppdráttur að íbúðarsvæði frá 5. mars 2000.  Síðarnefndi uppdrátturinn virðist ekki vera hluti af deiliskipulagi, en á honum komi fram að um sé að ræða skýringaruppdrátt sem sýni á myndrænan hátt þær hugmyndir sem liggi að baki þágildandi deiliskipulagi. 

Af fyrrnefnda uppdrættinum megi ráða að sú breyting sem þá hafi verið gerð á deiliskipulagi íbúðarbyggðar í Bakkatúni hafi eingöngu náð til þess að færa til vegstæði um sjö metra til austurs þar sem vegurinn fari meðfram fyrirhugaðri íbúðarbyggð í Bakkatúni.  Breytingin hafi ekki náð til svæðis umhverfis fasteign kærenda.  Á uppdrættinum séu mörk deiliskipulags skilgreind sérstaklega.  Á þessum uppdrætti verði ekki séð að gert sé ráð fyrir vegstútum þvert í gegnum lóð kærenda.  Gert sé ráð fyrir einhverri vegtengingu eða vegstút á uppdrættinum, en sú tilhögun falli utan marka gildandi skipulags eins og skýrlega komi fram á uppdrættinum og sé því ekki hluti af gildandi deiliskipulagi. 

Ákvörðun hreppsnefndar frá 5. nóvember 2008 hafi m.a. falið í sér að tekið yrði eignarnámi land kærenda undir greinda vegstúta án heimildar samkvæmt gildandi deiliskipulagi.  Ákvæði 2. mgr. 32. gr. laganna sé fortakslaust um að eignarnám verði aðeins heimilað vegna framkvæmdar gildandi deiliskipulags.  Gæti misræmis í fyrirhugaðri framkvæmd og gildandi deiliskipulagi sé ljóst að ekki séu skilyrði fyrir eignarnámi.  Verði í þessu samhengi að líta til þess að eignarétturinn njóti sérstakrar verndar skv. 72. gr. stjórnarskrár.  Eignarnám verði ekki heimilað nema á grundvelli skýrrar og ótvíræðar lagaheimildar.  Skorti á að fyrirhuguð framkvæmd sé í samræmi við gildandi deiliskipulag beri að hafna eignarnámi.  Eins og fyrr greini hafi Skipulagsstofnun fallist á athugasemdir kærenda hvað þetta varði. 

Af framangreindu leiði að lagaskilyrði fyrir ákvörðun hreppsnefndar frá 5. nóvember 2008 séu ekki uppfyllt.  Hafi hreppsnefnd með ákvörðun sinni frá 7. janúar 2009 fallist á það, án þess þó að fella hina ólögmætu ákvörðun sína úr gildi.  Beri því að ógilda þá ákvörðun. 

Ennfremur sé skilyrði 1. tl. 2. mgr. ekki fullnægt og eigi það við um báðar hinar kærðu ákvarðanir.  Því hafi verið haldið fram að eignarnámið sé nauðsynlegt til að unnt sé að nýta land undir íbúðarbyggð fyrir aldraða.  Ekkert liggi hins vegar nánar fyrir um það.  Landið sem haldið sé fram að eigi að nýta til byggingar elliheimilis sé í einkaeigu og ekkert hafi verið lagt fram um heimildir til nýtingar á því í framangreindum tilgangi.  Auk þess hafi það ekki verið tekið úr landbúnaðarnotum.  Þá sé algjörlega óvíst hvort og hvenær fyrirhuguð íbúðarbyggð fyrir aldraða rísi.  Ekki sé þörf á eignarnámi lands í eigu kærenda í þeim tilgangi að fylgja eftir fyrirliggjandi skipulagi þegar óvíst og óljóst sé hvort yfirhöfuð verði ráðist í framkvæmdir samkvæmt því.  Skilyrði 1. tl. 2. mgr. um nauðsynleg umráð til almannaþarfa sé því ekki fullnægt.  Það skorti því á að sýnt hafi verið fram á að skilyrði eignarnáms um almannaþörf séu fyrir hendi. 

Ekki hafi heldur verið sýnt fram á að eignarnám á hluta lands kærenda nái því markmiði sem hreppsnefnd virðist stefna að með eignarnáminu.  Ljóst sé að hreppsnefnd beri að sýna fram á nauðsyn eignarnámsins og að markmið þess liggi fyrir, þ.e. að það sé nauðsynlegt til þess að tryggja greinda uppbyggingu.  Það hafi ekki verið gert. 

Samkvæmt 72. gr. stjórnarskrárinnar megi ekki svipta menn eignum sínum nema almenningsþörf krefji, sbr. einnig 1. gr. samningsviðauka við mannréttindasáttmála Evrópu.  Það sé og áréttað í 1. tl. 2. mgr. 32. gr. skipulags- og byggingarlaga.  Í ljósi þess sem hér liggi fyrir sé ljóst að ákvarðanir hreppsnefndar um eignarnám á hluta af landi kærenda séu ekki löglegar. 

Til viðbótar og fyllingar reglu stjórnarskrárinnar um almenningsþörf gildi hin óskráða meðalhófsregla stjórnskipunarréttarins einnig þegar eignarnám eigi í hlut, sbr. og 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Því úrræði að þvinga fram afhendingu á eign með eignarnámi verði ekki beitt ef markmiði því sem ætlunin sé að ná fram með eignarnáminu verði náð með því að beita öðru og vægara úrræði gagnvart eiganda eignarinnar.  Fyrirséð sé að aðrar og vægari leiðir í garð kærenda séu tækar. 

Ákvörðun um eignarnám á hluta af landi kærenda leiði til þess að húsakostur sem nú sé til staðar verði a.m.k. illnýtanlegur eða ónýtanlegur.  Athafnasvæði við húsið takmarkist verulega og einboðið sé að verulegri umferð eigi að beina um lóð kærenda, sem feli í sér verulega röskun og hættu.  Samkvæmt mælingum kærenda verði fyrirhugað vegstæði aðeins 6,7 metrum frá horni garðávaxtageymslu, sem sé á lóðinni.  Eingöngu séu 2,7 metrar frá veghelgunarsvæði að húshorninu skv. sömu mælingum.  Líklegt verði að telja að afstaða vegarins gagnvart húsinu brjóti gegn ákvæði 76. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998, þar sem mælt sé fyrir um að hús á lóðarmörkum við gatnamót megi aldrei hindra nægjanlegt útsýni fyrir akandi umferð.  Þá felist í eignarnáminu veruleg skerðing á ræktuðu landi, þar sem m.a. sé stunduð rófnarækt í atvinnuskyni.  Stór hluti þeirrar ræktunar fari undir fyrirhugaðan veg auk þess sem vegalagningin hafi bersýnilega áhrif á nýtingu þeirrar ræktunar sem ekki fari undir veginn en liggi þétt að honum.  Skerði þetta framfærslutekjur kærenda.  Óljóst sé með öllu hvaða þörf sé á því að taka umrædda spildu undir veginn, þar sem hægt sé með einföldum hætti að leggja hann austan við land kærenda og þar með takmarka skerðinguna. 

Óumdeilt sé að hreppsnefnd geti farið aðrar og vægari leiðir við vegalagningu á umræddu svæði.  Bent sé á að núverandi Hrunavegur liggi að jörðinni Grafarbakka og megi hæglega ráðast í lagfæringar og endurbætur á þeim vegi og tengja við fyrirhugaða íbúðarbyggð án þess að það raski að nokkru leyti eignarréttindum kærenda eða eigenda aðliggjandi eigna.  Vegurinn tengist við þjóðveginn utan við þéttbýlið á Flúðum og nýtist því vel í þeim tilgangi sem nýjum vegi sé ætlaður.  Hinar kærðu ákvarðanir brjóti því gegn meðalhófsreglu stjórnskipunarréttar. 

Svo virðist sem hreppsnefnd telji að afgreiðsla hennar 7. janúar 2009 geti bætt úr þeim vanköntum sem verið hafi á fyrri ákvörðun hennar frá 5. nóvember 2008.  Svo sé hins vegar ekki.  Ekki sé nægjanlegt af hálfu hreppsnefndar að afla einungis nýrrar lögmæltrar umsagnar Skipulagsstofnunar og/eða vísa til hennar sjálfstætt.  Að auki þurfi hreppsnefnd við undirbúning og töku ákvörðunar um eignarnám að uppfylla þær kröfur sem stjórnsýslulög nr. 37/1993 setji um undirbúning og málsmeðferð svo íþyngjandi ákvörðunar sem eignarnám sé, sbr. t.d. 3. mgr. 32. gr. skipulags- og byggingarlaga.  Þessa hafi ekki verið gætt af hálfu hreppsnefndar.  Undirbúningur ákvörðunar hreppsnefndar frá 7. janúar sl. sé því ófullnægjandi og leiði það til ógildingar hennar.  Hér beri að gera mjög ríkar kröfur til undirbúnings ákvörðunarinnar þar sem um sé að ræða inngrip í grundvallarréttindi kærenda. 

Ljóst sé að öll málsmeðferð, forsendur og samskipti hreppsnefndar við kærendur hafi miðast við að fyrirhugaðar vegtengingar, sem óumdeilt sé nú að séu utan deiliskipulagsins, væru hluti af hinu fyrirhugaða eignarnámi og framkvæmd. 

Kærendur byggi kröfu sína um ógildingu ákvörðunarinnar frá 7. janúar 2009 á því, auk fyrrgreindra sjónarmiða, að ekki hafi af hálfu hreppsnefndar Hrunamannahrepps verið fylgt reglum stjórnsýsluréttarins um rannsókn máls og andmælarétt, sbr. 10. og 13. gr., sbr. 14. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Sérlega rík skylda hafi hvílt á hreppsnefnd til að gæta þessara réttinda, enda um að ræða inngrip í stjórnarskrárvarinn eignarrétt. 

Eins og fyrr greini hafi allur ferill málsins og viðræður við kærendur miðast við að taka eignarnámi hluta af landi þeirra, sem fallið hafi utan gildandi skipulags.  Kærendum hafi aldrei verið tilkynnt formlega að til stæði að fella fyrri ákvörðun hreppsnefndar úr gildi og að ætlunin væri að eignarnámið myndi taka til annars landsvæðis en upphaflega hafi verið áformað.  Kærendum hafi ekki verið gefinn kostur á að koma á framfæri sjónarmiðum sínum sérstaklega af því tilefni áður en ákvörðun um eignarnám hafi verið tekin hinn 7. janúar 2009.  Hreppsnefnd Hrunamannahrepps hafi borið að leggja fullnægjandi grundvöll að ákvörðun sinni og rannsaka málið áður en ákvörðunin hafi verið tekin.  Liður í því hafi verið að gefa eigendum landsins kost á að tjá sig sérstaklega vegna breyttra áforma um eignarnám, þ.e. gæta andmælaréttar síns.   Máli hafi skipt að kærendur fengju tækifæri til að tjá sig um hina breyttu framkvæmd, breytingar á vegtengingum, hvort ný áform hefðu áhrif á fjarlægðir, staðsetningu vegstæðis gagnvart húsum og mannvirkjum, o.s.frv. 

Áður hafi verið gerð grein fyrir bókun hreppsnefndar um hina kærðu ákvörðun 7. janúar 2009.  Engan rökstuðning sé að finna fyrir ákvörðuninni, einungis sé til þess vísað að tekið sé eignarnámi það land „… sem fellur innan deiliskipulagsmarka.“ og vísað til umsagnar Skipulagsstofnunar án frekari skýringa.  Hvorki sé vikið að því hvort fyrri ákvörðun sé felld úr gildi né mælt fyrir um með skýrum hætti eða afmarkað það land sem eignarnámið eigi að taka til eða hvaða áhrif þessar breyttu forsendur varðandi vegtengingarnar hafi fyrir hina fyrirhuguðu framkvæmd.  Kærendur hafi ætíð skilið hreppsnefnd þannig að vegtengingarnar væru forsenda fyrir eignarnáminu og hluti af framkvæmdinni.  Þá komi ekkert fram í rökstuðningi hreppsnefndar um nánari útfærslur, nú þegar viðurkennt sé að vegtengingarnar séu ekki og hafi aldrei verið hluti af skipulaginu, hvernig og hvort það hafi áhrif á legu vegarins, fjarlægðir og annað.  Ekki sé því unnt að átta sig á hvað hreppsnefnd sé að fara fram á og algjörlega óljóst hvað eigi að taka eignarnámi. 

Kærendur telji því að ákvörðun hreppsnefndar frá 7. janúar 2009 uppfylli ekki þær kröfur um skýrleika stjórnvaldsákvörðunar sem gildi samkvæmt almennum reglum stjórnsýsluréttarins.  Gera verði sérstaklega strangar kröfur í þessu sambandi þegar um svona viðurhlutamiklar ákvarðanir sé að ræða og inngrip í stjórnarskrárvarin eignarréttindi, sbr. 12. og 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og 72. gr. stjórnarskrárinnar. 

Málsrök Hrunamannahrepps:  Af hálfu Hrunamannahrepps er forsaga málsins rakin í ítarlegu máli.  Er því haldið fram að í hvívetna hafi verið leitast við að fara að lögum varðandi meðferð málsins og reynt að leita sátta.  Það sé örugglega fátítt að hreppsnefndir leggi á sig að halda hreppsnefndarfundi inn á heimilum þegar deilur sem þessar standi yfir, en það hafi verið gert í því máli sem hér sé til umfjöllunar.  Þess skuli getið að umræddur Bakkatúnsvegur sé merktur nr. 31 á uppdrætti Aðalskipulags Hrunamannahrepps 1992-2012 en uppdrátturinn hafi verið undirritaður af skipulagsstjóra, staðfestur af hreppsnefnd 15. mars 1994 og loks staðfestur af umhverfisráðherra 25. apríl 1994. 

Fulltrúar hreppsnefndar hafi formlega rætt við umdæmisstjóra Vegagerðarinnar á Suðurlandi vegna umræddrar vegalagningar.  Í framhaldi af þeim viðræðum hafi hreppsnefnd ákveðið í samráði við Vegagerðina að sleppa ósk um eignarnám á landi undir þvervegi (stúta) sem annars vegar tengist veitingastaðnum Útlaganum og hins vegar grænmetisgeymslunni við Reykjabakka.  Þetta komi vel fram á uppdrætti að fyrirhuguðum vegi svo og í samþykkt hreppsnefndar frá 7. janúar 2009. 

Með samþykkt hreppsnefndar hinn 3. febrúar 2010 hafi verið tekin af öll tvímæli um að ákvörðun hreppsnefndar frá 5. nóvember 2008 hafi vikið fyrir ákvörðun hreppsnefndar frá 7. janúar 2009, en þar komi fram að aðeins sé óskað eignarnáms á því landi er falli innan marka deiliskipulags. 

Niðurstaða:  Með hinum kærðu ákvörðunum var annar vegar samþykkt „ …að taka umrædda spildu eignarnámi.“ og hins vegar „ …að taka það land eignarnámi sem fellur innan deiliskipulagsmarka.“  Af málsgögnum verður helst ráðið að eignarnámið hafi annars vegar átt að taka til spildu úr landi eiganda veitingastaðarins Útlagans og hins vegar spildu úr landi Reykjabakka. 

Með stjórnsýslukæru til samgönguráðuneytisins, dags 26. nóvember 2008, kærði Klemenz Eggertsson hdl., f.h. eiganda veitingastaðarins Útlagans, þá ákvörðun hreppsnefndar Hrunamannahrepps frá 5. nóvember 2008 að taka eignarnámi land í hans eigu til lagningar svonefnds Bakkatúnsvegar. 

Gekk úrskurður ráðuneytisins í málinu hinn 25. júní 2009 og segir þar m.a:

Kærandi gerir þá kröfu að ráðuneytið ógildi ákvörðun sveitarfélagsins um eignarnám sem byggir á skipulags- og byggingarlögum. Til álita kemur því hvort úrskurðarvald ráðuneytisins, samkvæmt 103. gr. sveitarstjórnarlaga, nær til þess að úrskurða um ákvarðanir sem teknar eru á grundvelli skipulags- og byggingarlaga.

Í 8. gr. skipulags- og byggingarlaga er kveðið á um úrskurðarnefnd sem hefur það hlutverk að úrskurða í ágreiningsmálum um skipulags- og byggingarmál samkvæmt lögunum og reglugerðum settum samkvæmt þeim.  Löggjafinn hefur því ákveðið að ákvarðanir sem teknar eru á grundvelli laganna skuli kæranlegar til sérstakrar úrskurðarnefndar og skiptir þá ekki máli hvort það er sveitarstjórn eða annað stjórnvald sem tekur viðkomandi ákvörðun.  Úrskurðarvald nefndarinnar nær þannig til lokaákvarðana sem teknar eru á grundvelli skipulags- og byggingarlaga, að því leyti sem þær eru ekki teknar af ráðherra, s.s. ákvarðanir um staðfestingu aðalskipulags, sbr. 19. gr.  Þegar úrskurðarvald í kærumálum er fært til slíkra nefnda sem settar eru á stofn með lögum er um leið kæruheimild til ráðherra rofin enda er meginreglan að sérstakar kæruheimildir ganga framar almennri kæruheimild (Páll Hreinsson, skýringarrit við Stjórnsýslulögin bls. 260-262).

Þá gildir sú meginregla að þegar sjálfstæðum úrskurðarnefndum er fengið úrskurðarvald í tilteknum málaflokkum tekur viðkomandi nefnd til endurskoðunar alla málsmeðferð sem leiddi til þeirrar ákvörðunar sem kærð er, sbr. álit umboðsmanns Alþingis í máli nr. 4968/2007 og álit í máli nr. 5184/2007.  Í þeim báðum var fjallað um úrskurðarvald úrskurðarnefndar um hollustuhætti og mengunarvarnir sem er sérstök lögbundin úrskurðarnefnd.  Kemur þar fram það álit umboðsmanns að úrskurðarnefndinni sé ætlað að fara með almennt úrskurðarvald á kærustigi um viðkomandi ágreining og geti því, í samræmi við almenn sjónarmið um stjórnsýslukærur, endurskoðað bæði undirbúning og efni þeirra ákvarðana sem bornar eru undir hana.“ 

Þrátt fyrir framanritað segir síðar í úrskurðinum að úrskurðarvald ráðuneytisins samkvæmt 103. gr. sveitarstjórnarlaga nái til þess að fjalla um málsmeðferð sveitarfélagsins sem hafi leitt til töku hinnar kærðu ákvörðunar.  Kemst ráðuneytið að þeirri niðurstöðu að engir þeir hnökrar hafi verið á þeirri málsmeðferð sem hafi leitt til töku hinnar kærðu ákvörðunar frá 5. nóvember 2008, sem valdi því að rétt sé að ógilda hana.  Ekki hafi heldur verið efni til að ógilda ákvörðun sveitarstjórnar frá 7. janúar 2009 þótt betur hefði mátt vanda til undirbúnings hennar.  Var það niðurstaða ráðuneytisins að hafna bæri kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar Hrunamannahrepps um eignarnám vegna lagningar Bakkatúnsvegar. 

Samkvæmt því sem að framan er rakið hefur æðra stjórnvald með úrskurði hafnað því að fella úr gildi ákvarðanir þær sem kærðar eru í máli þessu.  Er úrskurðarnefndin ekki til þess bær að endurskoða niðurstöðu ráðuneytisins í málinu og verður málinu því vísað fá nefndinni. 

Úrskurðarnefndin áréttar að komi til eignarnáms geta kærendur leitað úrlausnar dómstóla um lögmæti þess, sbr. 17. gr. laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna mikils fjölda kærumála sem úrskurðarnefndin hefur til úrlausnar. 

Úrskurðarorð: 

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

______________________________
Hjalti Steinþórsson

_______________________________  ______________________________
Ásgeir Magnússon                                         Þorsteinn Þorsteinsson

46/2007 Álafosskvos

Með

Ár 2010, miðvikudaginn 24. febrúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 46/2007, kæra 19 íbúa og eigenda fasteigna við Álafossveg og Brekkuland í Mosfellsbæ á leyfi Mosfellsbæjar til framkvæmda í og við vegstæði Helgafellsvegar og til framkvæmda á bökkum Varmár, bak við gömlu ullarverksmiðjuna að Álafossi samkvæmt staðfestingu skipulagsfulltrúa og byggingarfulltrúa Mosfellsbæjar frá 15. maí 2007.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 15. maí 2007, sem barst nefndinni hinn 22. sama mánaðar, kærir Katrín Theodórsdóttir hdl., f.h. 19 íbúa og eigenda fasteigna við Álafossveg og Brekkuland í Mosfellsbæ, leyfi til framkvæmda í og við vegstæði Helgafellsvegar og til framkvæmda á bökkum Varmár, bak við gömlu ullarverksmiðjuna að Álafossi, samkvæmt staðfestingu skipulagsfulltrúa og byggingarfulltrúa Mosfellsbæjar frá 15. maí 2007.

Gera kærendur þá kröfu að hið kærða leyfi verði metið ólögmætt.  Þá gerðu kærendur og þá kröfu að úrskurðað yrði til bráðabirgða um stöðvun allra framkvæmda þar til ákvörðun úrskurðarnefndarinnar í málinu lægi fyrir.  Á fundi nefndarinnar hinn 15. júní 2007 var þeirri kröfu hafnað.  Er málið nú tekið til lokaúrskurðar. 

Málsatvik og rök:  Í bréfi skipulagsfulltrúa og byggingarfulltrúa Mosfellsbæjar til Helgafellsbygginga hf., dags. 15. maí 2007, segir eftirfarandi:  „Undirritaðir f.h. Mosfellsbæjar staðfesta hér með að yfirstandandi framkvæmdir á vegum Helgafellsbygginga hf. við lagningu stofnlagna vegna Helgafellshverfis norðan Álafossvegar eru með fullu leyfi Mosfellsbæjar.  Tekið skal fram að ekki er um að ræða framkvæmdir við lagningu Helgafellsvegar, heldur er um að ræða nauðsynlegar tengingar nýs Helgafellshverfis sem alltaf hefur legið fyrir að þyrftu að liggja um þetta svæði, óháð því hvort þar kæmi vegur eða ekki.  Umræddar veituframkvæmdir eru ekki framkvæmdaleyfisskyldar.“ 

Hafa kærendur skotið framangreindu til úrskurðarnefndarinnar svo sem áður greinir. 

Kröfu sína byggja kærendur á því að ekki hafi verið gefið út framkvæmdaleyfi fyrir þeim framkvæmdum sem fram fari á umræddu svæði, en framkvæmdirnar séu framkvæmdaleyfisskyldar skv. 27. gr. laga nr. 73/1997, sbr. 11. gr. laga 135/1997.  Óheimilt hafi því verið að hefja umræddar framkvæmdir fyrr en að fengnu leyfi sveitarstjórnar.  Hafi slík framkvæmd verið hafin án framkvæmdaleyfis geti kærendur, með heimild í 6. mgr. 8. gr. laga nr. 73/1997, krafist stöðvunar framkvæmda.  Í 6. mgr. gr. 9.1 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998 sé tekið fram að framkvæmdaleyfi veiti ekki heimild til framkvæmda sem brjóti í bága við skipulag, ákvæði laga og reglugerða eða rétt annarra.  Á því sé byggt að hinar umdeildu framkvæmdir séu á svæði sem ekki hafi verið skipulagt, en deiliskipulag þess hafi verið afturkallað hinn 28. febrúar 2007.  Auk þess séu framkvæmdirnar í andstöðu við aðalskipulag sveitarfélagins. 

Af hálfu Mosfellsbæjar hefur verið gerð grein fyrir málsástæðum og lagarökum bæjarins í málinu.  Er því m.a. haldið fram að kæran sé að hluta til byggð á misskilningi þar sem hinar umdeildu framkvæmdir lúti að nokkru að nauðsynlegri endurnýjun gamalla fráveitulagna.  Þá sé álitamál hvort framkvæmdaleyfi þurfi vegna lagnanna. 

Niðurstaða:    Í máli þessu er deilt um framkvæmdir sem Mosfellsbær hefur heimilað við veitulagnir er tengjast nýju íbúarhverfi, Helgafellshverfi, auk heimilda til endurnýjunar gamalla fráveitulagna er liggja skammt austan Varmár, nærri Álafosskvos.  Ekki hafa verið gefin út framkvæmdaleyfi samkvæmt 27. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 fyrir umræddum framkvæmdum enda telja bæjaryfirvöld þær ekki háðar slíkum leyfum.

Samkvæmt 8. mgr. nefndrar 27. greinar er umsækjanda um framkvæmdaleyfi og hlutaðeigandi sveitarstjórn heimilt að skjóta máli til úrskurðarnefndarinnar leiki vafi á því hvort framkvæmdir séu háðar ákvæðum greinarinnar um framkvæmdaleyfi.  Verður að skilja ákvæði þetta svo að ekki geti aðrir en umsækjandi um slíkt leyfi eða hlutaðeigandi sveitarstjórn átt aðild að máli til úrlausnar um vafa um það hvort framkvæmd sé háð framkvæmdaleyfi og verður því ekki skorið úr því álitaefni í máli þessu, jafnvel þótt kröfugerð kærenda þætti gefa tilefni til þess.

Eftir stendur að skipulagsfulltrúi og byggingarfulltrúi Mosfellsbæjar hafa staðfest að hinar umdeildu framkvæmdir hafi verið með fullu leyfi Mosfellsbæjar og krefjast kærendur þess að leyfi bæjarins verði metið ólögmætt.  Ekki liggur annað fyrir um leyfi þetta en staðfesting skipulagsfulltrúa og byggingarfulltrúa sem hvorki hefur hlotið afgreiðslu skipulags- og byggingarnefndar né verið samþykkt í bæjarstjórn.  Er því hér ekki um að ræða ákvörðun sem bindur enda á meðferð máls.  Meint leyfi, sem staðfestingin tekur til, sætir því ekki kæru skv. 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, og ber af þeim sökum að vísa kæru þessari frá úrskurðarnefndinni. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð: 

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

_________________________________
Hjalti Steinþórsson

______________________________           _______________________________
Ásgeir Magnússon                                            Þorsteinn Þorsteinsson

57/2009 Grímsárvirkjun

Með

Ár 2010, fimmtudaginn 11. febrúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 57/2009, kæra á innheimtu Fljótsdalshéraðs á gjaldi fyrir framkvæmdaleyfi vegna Grímsárvirkjunar.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 19. ágúst 2009, er barst nefndinni 20. sama mánaðar, kærir Orkusalan ehf. innheimtu Fljótsdalshéraðs á gjaldi fyrir framkvæmdaleyfi vegna Grímsárvirkjunar.   Fer kærandi fram á niðurfellingu greinds framkvæmdaleyfisgjalds.

Málsatvik og rök:  Kærandi er dótturfélag RARIK og er megintilgangur fyrirtækisins að framleiða, kaupa og selja rafmagn.  Ein af virkjunum kæranda er Grímsárvirkjun sem er í Grímsá á Völlum í Skriðdal.

Hinn 30. júní 2009 sótti kærandi um framkvæmdaleyfi til Fljótsdalshéraðs fyrir áformuðum framkvæmdum vegna viðhalds á sográsarlokum Grímsárvirkjunar.  Var um að ræða gerð um 800 m³ stíflu framan við sográsarlokurnar, útjöfnun stíflunnar að loknum viðhaldsframkvæmdum, flutning um 300 m³ malareyrar neðar í farveg Grímsár og gerð vegslóða að vinnusvæðinu sem yrði fjarlægður við verklok.  Umsókninni fylgdi yfirlitsmynd af vinnusvæði, umsókn til Fiskistofu vegna framkvæmda við ár og vötn skv. 33. til 34. gr. laga nr. 61/2006 um lax- og silungsveiði, umsögn Veiðimálastofnunar og leyfi Fiskistofu til framkvæmdanna.  Skipulags- og mannvirkjanefnd Fljótsdalshéraðs samþykkti umsóknina hinn 7. júlí 2009 og staðfesti sveitarstjórn þá afgreiðslu hinn 22. júlí sama ár.  Í kjölfar leyfisveitingarinnar var kæranda sendur reikningur, dags. 29. júlí 2009, vegna framkvæmdaleyfisgjalds að upphæð kr. 103.059 með stoð í samþykkt um gatnagerðargjald, byggingarleyfisgjald og þjónustugjöld byggingarfulltrúa Fljótsdalshéraðs nr. 1034/2008.

Byggingarfulltrúa Fljótsdalshéraðs var sent erindi af hálfu kæranda hinn 10. ágúst 2009  þar sem farið var fram á niðurfellingu framkvæmdaleyfisgjaldsins.  Var vísað til þess að um væri að ræða bráðabirgðastíflu í vatnsfarvegi, sem væri venjuleg hliðarframkvæmd við viðhald búnaðar í virkjunum, og yrði hún afmáð að loknu viðhaldi.  Ekki væri um að ræða óafturkræfa meiri háttar framkvæmd sem hvorki hefði áhrif á umhverfi né ásýnd þess og hefði mat á umhverfisáhrifum aldrei komið til álita vegna hennar.  Byggingarfulltrúi hafnaði erindinu hinn 17. ágúst 2009 og benti á að um lágmarksgjald væri að ræða og að það væri úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála sem skæri úr um hvort framkvæmdin væri leyfisskyld.

Kærandi byggir málskot sitt á fyrrgreindum sjónarmiðum og bendir á að þótt sótt hafi verið um framkvæmdaleyfi í umræddu tilfelli beri sveitarfélaginu að meta hvort þörf sé á framkvæmdaleyfi og gjaldtöku vegna þess.  Ekki verði séð að kostnaður falli á sveitarfélagið vegna framkvæmda kæranda nema vegna bréfaskrifta er málinu tengist og þyki gjaldið því ríflegt.

Af hálfu Fljótsdalshéraðs er vísað til þess að um sé að ræða framkvæmdaleyfi fyrir stíflu í farvegi Grímsár, lagningu vegslóða og tilflutning á um 300 m³ malareyri í farvegi árinnar en ekki sérstaklega leyfi fyrir viðhaldi á sográsarlokum.

Niðurstaða:  Krafa kæranda í máli þessu lýtur að því að gjald vegna veitts framkvæmdaleyfis verði fellt niður þar sem umsóttar framkvæmdir séu ekki framkvæmdaleyfisskyldar.

Í 8. mgr. 27. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 er heimild fyrir umsækjanda um framkvæmdaleyfi og hlutaðeigandi sveitarstjórn að bera undir úrskurðarnefndina vafa um  hvort framkvæmdir séu háðar ákvæðum um framkvæmdaleyfi.  Þá segir í 4. mgr. gr. 9.1 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998 að leiki vafi á því hvort framkvæmdir séu háðar ákvæðum um framkvæmdaleyfi skuli úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála skera úr um það.  Skilja verður inntak þessara ákvæða svo að sá sem hyggur á framkvæmdir og einnig viðkomandi sveitarstjórn geti borið vafa um leyfisskyldu framkvæmda undir úrskurðarnefndina áður en mál er til lykta leitt með stjórnvaldsákvörðun.  Eftir það verði álitaefnið ekki borið undir úrskurðarnefndina nema í kærumáli um gildi viðkomandi stjórnvaldsákvörðunar.

Í máli þessu var af hálfu kæranda sótt um framkvæmdaleyfi til sveitarstjórnar fyrir áformuðum framkvæmdum og var það leyfi veitt.  Ákvörðun umdeilds framkvæmdaleyfisgjalds var ekki hluti þeirrar ákvörðunar heldur byggðist gjaldtakan á almennum stjórnvaldsfyrirmælum í samþykkt Fljótsdalshéraðs nr. 1034/2008 um gatnagerðargjald, byggingarleyfisgjald og þjónustugjöld byggingarfulltrúa á Fljótsdalshéraði.  Sú samþykkt á stoð í 55. gr. skipulags- og byggingarlaga og öðlaðist hún gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda hinn 11. nóvember 2008.  Samkvæmt 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga sæta stjórnvaldsákvarðanir stjórnsýslu sveitarfélaga kæru til úrskurðarnefndarinnar, en almenn stjórnvaldsfyrirmæli eins og hér um ræðir verða ekki borin undir hana, sbr. og 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Að öllu þessu virtu verður kröfu kæranda um niðurfellingu umdeilds framkvæmdaleyfisgjalds vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

___________________________
Hjalti Steinþórsson

_____________________________           ____________________________
    Ásgeir Magnússon                                          Þorsteinn Þorsteinsson

 

    

45/2007 Sóltún

Með

Ár 2009, föstudaginn 18. desember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mætt voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Sigurður Erlingsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 45/2007, kæra á samþykkt byggingarfulltrúans í  Reykjavík um að veita leyfi til að setja upp glerlokun á tuttugu svalir fjölbýlishúss nr. 5 á lóð nr. 5-9 við Sóltún.
 
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 21. maí 2007, er barst úrskurðarnefndinni hinn 22. s.m., kæra G og J, Sóltúni 5 í Reykjavík, samþykkt byggingarfulltrúans í  Reykjavík frá 17. apríl 2007, sem staðfest var í borgarráði hinn 26. s.m., um að veita leyfi til að setja upp glerlokun á tuttugu svalir fjölbýlishúss nr. 5 á lóð nr. 5-9 við Sóltún.  Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. 

Málsatvik og rök:  Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 17. apríl 2007 var m.a.  samþykkt umsókn um leyfi til að setja upp glerlokun á tuttugu svalir fjölbýlishúss nr. 5 á lóð nr. 5-9 við Sóltún.  Fundargerð afgreiðslufundar byggingarfulltrúa var lögð fram á fundi skipulagsráðs hinn 18. s.m. og samþykkt í borgarráði 26. apríl 2007.  Skutu kærendur ákvörðuninni til úrskurðarnefndarinnar svo sem fyrr greinir.

Ekki mun hafa komið til þess að formleg byggingarleyfi samkvæmt 44. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 væri gefið út en þrátt fyrir það mun hafa verið ráðist í framkvæmdir við umrædda glerlokun og henni lokið að mestu.

Af hálfu kærenda er m.a. vísað til þess að byggingarfulltrúa hafi verið óheimilt að samþykkja fyrirhugaðar framkvæmdir þar sem ekki hafi legið fyrir samþykki allra eigenda íbúða í fjölbýlishúsinu að Sóltúni 5.  Fyrir liggi álit kærunefndar fjöleignarhúsamála, dags. 13. febrúar 2006, þar sem skýrt komi fram að óheimilt sé að ráðast í framkvæmdir við lokun svala hússins án samþykkis allra eigenda þess.  Þrátt fyrir það hafi byggingarfulltrúi heimilað framkvæmdina.     

Af hálfu Reykjavíkurborgar er vísað til þess að byggingarfulltrúa hafi verið fullkomlega heimilt að samþykkja umrædda umsókn þrátt fyrir að ekki liggi fyrir samþykki eigenda allra íbúða í húsinu, sbr. m.a. úrskurð úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála í máli nr. 44/1998.  Hin kærða ákvörðun byggi einnig á því að um sé að ræða póstalausar svalalokanir sem hafi hverfandi áhrif á útlit hússins og því um óverulega breytingu að ræða sem falli undir ákvæði 3. liðar B-hluta 41. gr. fjöleignarhúsalaga og raski ekki í neinu hagsmunum kærenda.

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um samþykkt byggingarfulltrúans í  Reykjavík frá 17. apríl 2007 sem staðfest var í borgarráði hinn 26. s.m. 

Samkvæmt 1. tl. 1. mgr. 44. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 má gefa út byggingarleyfi þegar sveitarstjórn hefur staðfest samþykkt um veitingu leyfisins að öðrum skilyrðum uppfylltum en þess háttar leyfi hefur byggingarfulltrúi ekki gefið út í deilumáli þessu.  Samkvæmt 5. mgr. sömu lagagreinar fellur staðfesting sveitarstjórnar úr gildi hafi byggingarleyfi ekki verið gefið út innan 12 mánaða.    

Eins og að framan greinir var byggingarleyfi skv. 44. gr. skipulags- og byggingarlaga ekki gefið út innan tilskilins frests og er hin kærða samþykkt því úr gildi fallin.  Hafa kærendur af þessum sökum ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um lögmæti hinnar kærðu ákvörðunar og verður málinu því vísað frá úrskurðarnefndinni.  Breytir það ekki þeirri niðurstöðu þótt umdeild ákvörðun um svalalokun hafi að mestu komið til framkvæmda enda fellur það utan valdsviðs úrskurðarnefndarinnar að fjalla um framkvæmdir sem ráðist er í án tilskilinna leyfa.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

___________________________           __________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                             Sigurður Erlingsson