Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

79/2009 Kórsalir

Ár 2010, þriðjudaginn 16. mars, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 79/2009, kæra vegna lokaúttektar byggingarfulltrúa Kópavogs á fjölbýlishúsinu að Kórsölum 5 í Kópavogi. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 13. nóvember 2009, er barst nefndinni sama dag, kærir húsfélagið að Kórsölum 5 í Kópavogi lokaúttekt byggingarfulltrúans í Kópavogi á greindu fjölbýlishúsi sem gefið var vottorð fyrir hinn 16. október 2009. 

Gerir kærandi þær kröfur að tekin verði afstaða til réttmætis athugasemda hans sem fram komu við lokaúttekt hússins og varða ákvæði byggingarreglugerðar nr. 441/1998 og að lagt verði fyrir byggingarfulltrúa að leggja fram öll gögn sem krafist sé að liggi fyrir við lokaúttekt og útgáfu úttektarvottorðs, sbr. 35. gr., 53. gr. og 54. gr. byggingarreglugerðar.  Reynist athugasemdir kæranda réttmætar varðandi hönnun, smíði og frágang hússins, verði lagt fyrir byggingarfulltrúa að hlutast til um að byggingaraðili lagfæri og endurbæti það sem nauðsynlegt sé til að lögmæt lokaúttekt geti farið fram og að því loknu verði gefið út nýtt lokaúttektarvottorð. 

Málsatvik og rök:  Fjölbýlishúsið að Kórsölum 5 í Kópavogi mun hafa verið tekið í notkun á árinu 2002.  Byggingarstjóri fyrir húsbyggingunni óskaði eftir lokaúttekt á byggingarframkvæmdunum og átti hún að fara fram hinn 28. júní 2005.  Sú ráðagerð gekk ekki eftir þar sem athugasemdir voru gerðar við framkvæmdir og var veittur frestur til 4. nóvember sama ár til að lagfæra tilgreind atriði en því var ekki sinnt innan frestsins.  Enn stóð til að ljúka lokaúttekt á húsinu og gefa út vottorð þar að lútandi hinn 15. mars 2007, en þar sem þá hafði ekki verið bætt úr atriðum sem þótti ábótavant við fyrri úttekt var því beint til byggingarstjóra að bæta þar úr.  Hinn 21. september 2009 fór síðan fram lokaúttekt, m.a. að viðstöddum fulltrúum kæranda, sem gerðu athugasemdir við byggingu og frágang fjölbýlishússins.  Var vottorð um lokaúttekt gefið út hinn 16. október sama ár eftir að bætt hafði verið úr þeim þáttum er byggingarfulltrúi hafði farið fram á. 

Kærandi vísar til þess að sá óhæfilegi dráttur sem orðið hafi á lokaúttekt Kórsala 5 gangi gegn hagsmunum íbúðareigenda hússins, fari gegn markmiðum byggingarreglugerðar og dragi úr réttaröryggi í meðferð byggingarmála.  Byggingarfulltrúi hafi við lokaúttekt ekki tekið tillit til athugasemda kæranda er lotið hafi að smíði og frágangi byggingarinnar, svo sem hljóðeinangrun og hljóðvist, loftræstingu og leka.  Gögn og yfirlýsingar sem eigi að liggja frammi við lokaúttekt hafi vantað eða verið ábótavant, svo sem yfirlýsingar um raforkuvirki, hitakerfi og loftræstingu.  Ekki hafi verið gengið með trúverðugum hætti úr skugga um að byggingarstjóri hafi fylgt samþykktum uppdráttum, lögum og reglugerðum við byggingu hússins áður en lokaúttektarvottorð hafi verið gefið út. 

Af hálfu Kópavogsbæjar er þess krafist að kærumálinu verði vísað frá úrskurðarnefndinni en ella að kröfum kæranda verði hafnað.  Lokaúttekt sé stjórnvaldsathöfn er feli í sér áfangaúttekt við byggingu mannvirkis en sé ekki stjórnvaldsákvörðun um rétt og skyldur aðila.  Kærandi eigi auk þess ekki aðild að framkvæmd lokaúttektar, sbr. 53. gr. byggingarreglugerðar, og verði því ekki séð að hann eigi kæruaðild um framkvæmd slíkrar úttektar.  Framkvæmd umdeildrar úttektar hafi verið lögum samkvæmt en af málatilbúnaði kæranda sé ljóst að kröfur hans séu einkaréttarlegs eðlis og sprottnar af ágreiningi og málaferlum hans gegn byggingar- og söluaðila umrædds húss.  Lögbundið hlutverk byggingarfulltrúa sé að hafa eftirlit með öryggi mannvirkja í þágu almannahagsmuna en honum sé ekki ætlað að taka afstöðu í máli milli einkaaðila eða beita sér í þeirra þágu í skjóli byggingarreglugerðar. 

Í andmælum kæranda við greinargerð Kópavogsbæjar í málinu er frávísunarkröfu mótmælt.  Athugasemdir kæranda vegna lokaúttektar að Kórsölum 5 séu ekki einungis einkaréttarlegs eðlis heldur lúti þær að atriðum sem gæta skuli að við byggingareftirlit samkvæmt ákvæðum byggingarreglugerðar.  Bent sé á að í öllum samskiptum kæranda við byggingaryfirvöld Kópavogsbæjar vegna lokaúttektarinnar hafi honum verið bent á kærurétt sinn til úrskurðarnefndarinnar við lyktir málsins.  Lokaúttekt og útgáfa lokaúttektarvottorðs hljóti að teljast ákvörðun sem bindi enda á mál í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og varði sú stjórnvaldsákvörðun verulega einstaklega og lögvarða hagsmuni íbúðareigenda sem hún snerti.  Telji kærandi því að um kæranlega stjórnvaldsákvörðun að ræða í máli þessu sem hann eigi kæruaðild að, enda beri að túlka aðildarhugtakið rúmt í stjórnsýslurétti.  Úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála sé eðlilegur farvegur fyrir þetta mál, enda komi fram í 8. gr. skipulags- og byggingarlaga og 10. gr. byggingarreglugerðar að komi upp ágreiningsmál á sviði byggingarmála eða telji einhver á rétt sinn hallað, megi skjóta slíku til úrskurðarnefndarinnar, sem úrskurði um ágreininginn.

—————–

Aðilar hafa gert ítarlegri grein fyrir sjónarmiðum sínum og rökum í málinu sem ekki verða rakin hér en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins. 

Niðurstaða:  Kærumál þetta snýst um framkvæmd lokaúttektar og útgáfu vottorðs um lokaúttekt vegna byggingar fjölbýlishússins að Kórsölum 5 í Kópavogi. 

Í 1. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 er kveðið á um það hlutverk úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála að úrskurða í ágreiningsmálum um skipulags- og byggingarmál samkvæmt lögunum og reglugerðum settum samkvæmt þeim.  Í 5. mgr. 8. gr. laganna er nánar skýrt hvaða ágreiningi verði skotið til nefndarinnar, en þar segir að kæru sæti stjórnvaldsákvarðanir stjórnsýslu sveitarfélaga nema sérstaklega sé á annan veg mælt í lögum.  Samkvæmt téðum ákvæðum verður aðeins ágreiningi um stjórnvaldsákvarðanir stjórnsýslu sveitarfélaga á sviði skipulags- og byggingarmála skotið til úrskurðarnefndarinnar nema sérstaklega sé mælt á annan veg í lögum. 

Lokaúttekt og útgáfa úttektarvottorðs eru liðir í eftirliti byggingarfulltrúa með byggingarframkvæmdum sem honum er falið að lögum, sbr. 2. mgr. 40. gr. skipulags- og byggingarlaga.  Lokaúttekt skal gerð að ósk byggingarstjóra eða byggjanda skv. 53. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998 eða ábyrgðartryggjenda hönnuða og byggingarstjóra.  Þar kemur og fram að auk byggingarfulltrúa og slökkviliðsstjóra skuli viðstaddir úttektina byggingarstjóri og þeir iðnmeistarar og hönnuðir sem þess óska eða eru til þess kvaddir af byggingarfulltrúa.  Lokaúttektarvottorð er síðan gefið út af byggingarfulltrúa þegar bætt hefur verið úr hugsanlegum ágöllum og gengið hefur verið úr skugga um að mannvirki fullnægi tilskyldum ákvæðum um gerð og búnað, sbr. 54. gr. byggingarreglugerðar. 

Skilja verður ákvæði þessi svo að þeim sé ætlað að tryggja eftirlit með öryggi og gæðum mannvirkja og að unnt sé að knýja þá sem ábyrgð bera á framkvæmdum til að bæta úr því sem á kunni að skorta svo mannvirkið fullnægi viðeigandi skilyrðum.  Lúta þessi ákvæði einkum að vörslu almannahagsmuna en ekki verður af þeim ráðið að eigendur fasteigna, sem keypt hafa eignir í byggingu, eignist lögvarinn rétt til aðildar að úttekt sem framkvæmd er af byggingarfulltrúa á grundvelli áðurgreindra laga og reglugerðarákvæða og geti gert þar kröfur um að skilaástand eigna verði staðreynt með tilteknum hætti eða knúið á um úrbætur í því efni.  Verður kærumáli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem kærandi verður ekki talinn aðili þess í skilningi 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð: 

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

______________________________
Hjalti Steinþórsson

_______________________________  ______________________________
Ásgeir Magnússon                                        Þorsteinn Þorsteinsson