Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

22/2009 Farbraut

Ár 2010, miðvikudaginn 5. maí, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 22/2009, kæra á ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar uppsveita Árnessýslu og Flóahrepps frá 24. október 2008 um að synja umsókn um  byggingarleyfi fyrir gróðurhúsi og geymslu að Farbraut 3 í landi Norðurkots í Grímsnes- og Grafningshreppi. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála hinn 8. apríl 2009, kærir B, Gvendargeisla 22, Reykjavík, þá ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar uppsveita Árnessýslu og Flóahrepps frá 24. október 2008 að synja umsókn um byggingarleyfi fyrir gróðurhúsi og geymslu að Farbraut 3 í landi Norðurkots.  Hin kærða ákvörðun var staðfest á fundi sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps 6. nóvember 2008.  Verður að skilja málatilbúnað kæranda svo að þess sé krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. 

Málsatvik og rök:  Kærandi er eigandi sumarbústaðarlóðar í landi Norðurkots í Grímsnes- og Grafningshreppi.  Á svæðinu er í gildi deiliskipulag fyrir frístundabyggð.  Samkvæmt skilmálum deiliskipulagsins, eins og þeim var breytt sumarið 2006, skulu sumarhús á svæðinu ekki vera stærri en 200 m².  Þá er heimilt að reisa útihús, geymslu, svefnhús eða gróðurhús, innan hvers byggingarreits, þó ekki stærri en 25 m². 

Haustið 2008 sótti kærandi um leyfi til að byggja á lóð sinni gróðurhús og geymslu, alls 41,3 m².  Var erindinu synjað á fundi skipulags- og byggingarnefndar 24. október 2008 með þeim rökum að skipulagsskilmálar svæðisins heimiluðu aðeins 25 m² aukahús.  Var kæranda tilkynnt um þá ákvörðun með bréfi, dags. 27. október 2008.  Þessi afgreiðsla var staðfest á fundi sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps 6. nóvember 2008 og var kæranda tilkynnt um

Kærandi vildi ekki una þessari niðurstöðu og skaut málinu til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir. 

Kærandi tekur fram að dregist hafi að ganga frá kæru í málinu vegna þess að hann hafi, með tölvubréfi hinn 30. desember 2008, kynnt byggingarfulltrúa fyrirhugaða kæru en jafnframt óskað rökstuðnings fyrir afgreiðslu málsins.  Sú ósk hafi verið ítrekuð í febrúar 2009 en engin svör hafi borist og hafi málinu því verið vísað til úrskurðarnefndarinnar. 

Kærandi vísar til þess að sumarhús hans sem fyrir sé að Farbraut 3 sé aðeins 86 m² og með þeim byggingum sem um hafi verið sótt hefði byggingar á lóðinni aðeins orðið 131 m².  Byggingarnefnd hafi ekki unnið faglega að málinu og ekki skoðað þau efnislegu rök sem færð hafi verið fram til stuðnings umsókn kæranda. 

Af hálfu Grímsnes- og Grafningshrepps er áréttað að ekki hafi verið talið að það samrýmdist skipulagsskilmálum að verða við umsókn kæranda vegna þeirrar takmörkunar sem gildi um stærð aukahúsa sem aðeins megi aðeins vera 25 m².  Því hafi umsókninni verið hafnað.

Niðurstaða:  Samkvæmt 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 er frestur til að skjóta máli til úrskurðarnefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt, eða mátti vera kunnugt, um ákvörðun þá sem kæra á.  Liggur fyrir í máli þessu að kærandi kynnti byggingarfulltrúa áform sín um kæru hinn 30. desember 2008 og var honum því, a.m.k. frá þeim tíma kunnugt, um kærurétt sinn í málinu.  Kæra barst úrskurðarnefndinni hins vegar ekki fyrr en 8. apríl 2009 og var kærufrestur þá liðinn. 

Kærandi hefur afsakað þann drátt sem varð á kæru með því að hann hafi óskað rökstuðnings og síðan beðið svara.  Eins og hér stendur á verður ekki talið að beiðni kæranda um rökstuðning eigi að hafa áhrif á kærufrest enda þarf slík beiðni að koma fram innan 14 daga frá því að aðila máls var tilkynnt um ákvörðunina, sbr. 3. mgr. 21. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Í máli þessu kom beiðni um rökstuðning ekki fram fyrr en að kærufresti liðnum og gat hún því ekki haft áhrif á lengd kærufrests, sbr. 3. mgr. 27. gr. sömu laga. 

Samkvæmt 28. gr. stjórnsýslulaga skal vísa kæru frá hafi hún borist að liðnum kærufresti nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til efnismeðferðar.  Verður ekki séð að neinar slíkar ástæður séu fyrir hendi í máli þessu og ber því, með hliðsjón af 1. mgr. tilvitnaðrar lagagreinar, að vísa málinu frá úrskurðarnefndinni. 

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

__________________________       __________________________
Ásgeir Magnússon                                  Þorsteinn Þorsteinsson