Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

14/2010 Bergstaðastræti

Ár 2010, miðvikudaginn 21. apríl, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 14/2010, kæra á synjun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 10. febrúar 2010 á beiðni um afturköllun á samþykki hans fyrir innréttingu og nýtingu íbúðar á annarri hæð hússins að Bergstaðastræti 28A í Reykjavík sem gististaðar. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 9. mars 2010, er barst nefndinni 11. sama mánaðar, kærir L, Gunnarsbraut 26, Reykjavík, eigandi íbúðar í húsinu að Bergstaðastræti 28A, Reykjavík, synjun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 10. febrúar 2010 á beiðni hennar um afturköllun á samþykki hans fyrir innréttingu og nýtingu íbúðar á annarri hæð hússins að Bergstaðastræti 28A sem gististaðar. 

Málavextir og rök:  Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 13. október 2009 var samþykkt umsókn um leyfi fyrir þegar breyttu innra fyrirkomulagi í íbúð á 2. hæð og til reksturs gististaðar í fl. II/E í sömu íbúð í húsinu að Bergstaðastræti 28A.  Í bókun byggingarfulltrúa er sérstaklega tekið fram að meðfylgjandi umsókninni sé samþykki meðeigenda, dags. 13. júlí 2009.  Þá var og eftirfarandi bókað:  „Í samþykktinni felst ekki leyfi til rekstrar gististaðar enda er það utan valdsviðs byggingarfulltrúa.   Umsækjanda er bent á að leita með þann þátt til leyfisdeildar lögreglunnar og heilbrigðiseftirlits.“ 

Með bréfi kæranda til byggingarfulltrúa, dags. 1. febrúar 2010, tilkynnti kærandi um afturköllun samþykkis síns fyrir rekstri gististaðar á 2. hæð að Bergstaðastræti 28A þar sem undirskrift hennar væri annað hvort fölsuð eða fengin með blekkingum.  Einnig var þess krafist að byggingarfulltrúi veitti neikvæða umsögn til leyfisdeildar lögreglu höfuðborgarsvæðisins.  Embætti byggingarfulltrúa svaraði kæranda með bréfi, dags. 10. febrúar 2010, þar sem erindi hennar var hafnað. 

Kærandi vísar m.a. til þess að ekki liggi fyrir raunverulegt samþykki hennar sem meðeiganda fyrir gististað í húsinu, þrátt fyrir meinta undirskrift hennar á undirskriftalista meðeigenda.  Þá hafi hún afturkallað hið meinta samþykki sitt. 

Af hálfu Reykjavíkurborgar er krafist frávísunar málsins þar sem ekki liggi fyrir kæranleg ákvörðun sem borin verði undir úrskurðarnefndina, sbr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. 

—————–

Málsaðilar hafa fært fram ítarlegri rök fyrir máli sínu en með hliðsjón af niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar þykir ekki ástæða til að rekja þau frekar. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er kært svar embættis byggingarfulltrúans í Reykjavík, dags. 10. febrúar 2010, við erindi kæranda, dags. 1. sama mánaðar, þar sem kærandi tilkynnir embættinu afturköllun samþykkis síns fyrir rekstri gististaðar á annarri hæð hússins að Bergstaðastræti 28A.  Þá krefst kærandi þess ennfremur að byggingarfulltrúi veiti neikvæða umsögn til leyfisdeildar lögreglunnar.  Umrætt svar í bréfi byggingarfulltrúa felur ekki í sér ákvörðun sem bindur enda á meðferð máls og hefur þar að auki hvorki verið afgreitt í skipulagsráði né komið til staðfestingar borgarráðs.  Verður því ekki litið á umrætt svar embættis byggingarfulltrúa sem kæranlega stjórnvaldsákvörðun og ber því, samkvæmt sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, að vísa málinu frá. 

Úrskurðarorð: 

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

_____________________________
Hjalti Steinþórsson

____________________________    ___________________________
Ásgeir Magnússon                                   Þorsteinn Þorsteinsson