Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

57/2009 Grímsárvirkjun

Ár 2010, fimmtudaginn 11. febrúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 57/2009, kæra á innheimtu Fljótsdalshéraðs á gjaldi fyrir framkvæmdaleyfi vegna Grímsárvirkjunar.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 19. ágúst 2009, er barst nefndinni 20. sama mánaðar, kærir Orkusalan ehf. innheimtu Fljótsdalshéraðs á gjaldi fyrir framkvæmdaleyfi vegna Grímsárvirkjunar.   Fer kærandi fram á niðurfellingu greinds framkvæmdaleyfisgjalds.

Málsatvik og rök:  Kærandi er dótturfélag RARIK og er megintilgangur fyrirtækisins að framleiða, kaupa og selja rafmagn.  Ein af virkjunum kæranda er Grímsárvirkjun sem er í Grímsá á Völlum í Skriðdal.

Hinn 30. júní 2009 sótti kærandi um framkvæmdaleyfi til Fljótsdalshéraðs fyrir áformuðum framkvæmdum vegna viðhalds á sográsarlokum Grímsárvirkjunar.  Var um að ræða gerð um 800 m³ stíflu framan við sográsarlokurnar, útjöfnun stíflunnar að loknum viðhaldsframkvæmdum, flutning um 300 m³ malareyrar neðar í farveg Grímsár og gerð vegslóða að vinnusvæðinu sem yrði fjarlægður við verklok.  Umsókninni fylgdi yfirlitsmynd af vinnusvæði, umsókn til Fiskistofu vegna framkvæmda við ár og vötn skv. 33. til 34. gr. laga nr. 61/2006 um lax- og silungsveiði, umsögn Veiðimálastofnunar og leyfi Fiskistofu til framkvæmdanna.  Skipulags- og mannvirkjanefnd Fljótsdalshéraðs samþykkti umsóknina hinn 7. júlí 2009 og staðfesti sveitarstjórn þá afgreiðslu hinn 22. júlí sama ár.  Í kjölfar leyfisveitingarinnar var kæranda sendur reikningur, dags. 29. júlí 2009, vegna framkvæmdaleyfisgjalds að upphæð kr. 103.059 með stoð í samþykkt um gatnagerðargjald, byggingarleyfisgjald og þjónustugjöld byggingarfulltrúa Fljótsdalshéraðs nr. 1034/2008.

Byggingarfulltrúa Fljótsdalshéraðs var sent erindi af hálfu kæranda hinn 10. ágúst 2009  þar sem farið var fram á niðurfellingu framkvæmdaleyfisgjaldsins.  Var vísað til þess að um væri að ræða bráðabirgðastíflu í vatnsfarvegi, sem væri venjuleg hliðarframkvæmd við viðhald búnaðar í virkjunum, og yrði hún afmáð að loknu viðhaldi.  Ekki væri um að ræða óafturkræfa meiri háttar framkvæmd sem hvorki hefði áhrif á umhverfi né ásýnd þess og hefði mat á umhverfisáhrifum aldrei komið til álita vegna hennar.  Byggingarfulltrúi hafnaði erindinu hinn 17. ágúst 2009 og benti á að um lágmarksgjald væri að ræða og að það væri úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála sem skæri úr um hvort framkvæmdin væri leyfisskyld.

Kærandi byggir málskot sitt á fyrrgreindum sjónarmiðum og bendir á að þótt sótt hafi verið um framkvæmdaleyfi í umræddu tilfelli beri sveitarfélaginu að meta hvort þörf sé á framkvæmdaleyfi og gjaldtöku vegna þess.  Ekki verði séð að kostnaður falli á sveitarfélagið vegna framkvæmda kæranda nema vegna bréfaskrifta er málinu tengist og þyki gjaldið því ríflegt.

Af hálfu Fljótsdalshéraðs er vísað til þess að um sé að ræða framkvæmdaleyfi fyrir stíflu í farvegi Grímsár, lagningu vegslóða og tilflutning á um 300 m³ malareyri í farvegi árinnar en ekki sérstaklega leyfi fyrir viðhaldi á sográsarlokum.

Niðurstaða:  Krafa kæranda í máli þessu lýtur að því að gjald vegna veitts framkvæmdaleyfis verði fellt niður þar sem umsóttar framkvæmdir séu ekki framkvæmdaleyfisskyldar.

Í 8. mgr. 27. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 er heimild fyrir umsækjanda um framkvæmdaleyfi og hlutaðeigandi sveitarstjórn að bera undir úrskurðarnefndina vafa um  hvort framkvæmdir séu háðar ákvæðum um framkvæmdaleyfi.  Þá segir í 4. mgr. gr. 9.1 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998 að leiki vafi á því hvort framkvæmdir séu háðar ákvæðum um framkvæmdaleyfi skuli úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála skera úr um það.  Skilja verður inntak þessara ákvæða svo að sá sem hyggur á framkvæmdir og einnig viðkomandi sveitarstjórn geti borið vafa um leyfisskyldu framkvæmda undir úrskurðarnefndina áður en mál er til lykta leitt með stjórnvaldsákvörðun.  Eftir það verði álitaefnið ekki borið undir úrskurðarnefndina nema í kærumáli um gildi viðkomandi stjórnvaldsákvörðunar.

Í máli þessu var af hálfu kæranda sótt um framkvæmdaleyfi til sveitarstjórnar fyrir áformuðum framkvæmdum og var það leyfi veitt.  Ákvörðun umdeilds framkvæmdaleyfisgjalds var ekki hluti þeirrar ákvörðunar heldur byggðist gjaldtakan á almennum stjórnvaldsfyrirmælum í samþykkt Fljótsdalshéraðs nr. 1034/2008 um gatnagerðargjald, byggingarleyfisgjald og þjónustugjöld byggingarfulltrúa á Fljótsdalshéraði.  Sú samþykkt á stoð í 55. gr. skipulags- og byggingarlaga og öðlaðist hún gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda hinn 11. nóvember 2008.  Samkvæmt 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga sæta stjórnvaldsákvarðanir stjórnsýslu sveitarfélaga kæru til úrskurðarnefndarinnar, en almenn stjórnvaldsfyrirmæli eins og hér um ræðir verða ekki borin undir hana, sbr. og 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Að öllu þessu virtu verður kröfu kæranda um niðurfellingu umdeilds framkvæmdaleyfisgjalds vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

___________________________
Hjalti Steinþórsson

_____________________________           ____________________________
    Ásgeir Magnússon                                          Þorsteinn Þorsteinsson