Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

124/2007 Hólmsheiði

Ár 2010, þriðjudaginn 30. mars, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 124/2007, kæra á ákvörðun skipulagsráðs Reykjavíkur frá 22. ágúst 2007 um að veita framkvæmdaleyfi fyrir sléttun svæðis, grjóthreinsun og tilfærslu trjágróðurs til undirbúnings gerðar flugbrautarsvæðis, bílastæða, flugskýla og félagsheimilis fyrir starfsemi Fisfélags Reykjavíkur á Hólmsheiði. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 26. september 2007, er barst nefndinni 28. sama mánaðar, kærir Magnús Guðlaugsson hrl., f.h. Græðis, félags landeigenda í Óskoti og Reynisvatnslandi, þá ákvörðun skipulagsráðs Reykjavíkur frá 22. ágúst 2007 að veita framkvæmdaleyfi fyrir sléttun svæðis, grjóthreinsun og tilfærslu trjágróðurs til undirbúnings gerðar flugbrautarsvæðis, bílastæða, flugskýla og félagsheimilis fyrir starfsemi Fisfélags Reykjavíkur á Hólmsheiði.  Gerir kærandi þá kröfu að framkvæmdaleyfið verði fellt úr gildi. 

Málsatvik og rök:  Hinn 22. ágúst 2007 tók skipulagsráð Reykjavíkur fyrir umsókn Fisfélags Reykjavíkur um framkvæmdaleyfi fyrir tilteknum jarðvegsframkvæmdum til undirbúnings áformaðri fisflugstarfsemi félagsins á Hólmsheiði.  Var umsóknin samþykkt og framkvæmdaleyfið gefið út hinn 3. september 2007. 

Kærandi vísar til þess að fyrirhuguð starfsemi framkvæmdaleyfishafa verði í um 400 metra fjarlægð frá þeim sumarbústöðum félagsmanna kæranda sem næstir séu svæðinu en flest öll lönd og bústaðir þeirra séu í minna en kílómeters fjarlægð.  Umdeilt svæði sé skilgreint í gildandi aðalskipulagi sem opið svæði til sérstakra nota en það hafi ekki verið deiliskipulagt.  Verði helst ráðið af skipulagsuppdrætti að áformað hafi verið að nýta svæðið til skógræktar. 

Í grein 4.12.1 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998 séu opin svæði til sérstakra nota skilgreind sem svæði með útivistargildi þar sem gert sé ráð fyrir mannvirkjagerð í tengslum við þá starfsemi sem þar sé stunduð og séu í ákvæðinu tilfærð dæmi um ýmis konar starfsemi sem talið sé að geti fallið undir umrædda landnotkun.  Í 2. mgr. gr. 4.12.2 sömu reglugerðar segi að í deiliskipulagi skuli gera grein fyrir mannvirkjagerð, efnisnotkun og litavali, gróðri og girðingum, bílastæðum og frárennsli o.fl.  Samkvæmt framangreindu ákvæði þurfi að gera deiliskipulag að þeim mannvirkjum sem áformuð séu á umræddri spildu áður en til mannvirkjagerðar geti komið á svæðinu.  Jafnframt þurfi, á grundvelli þess skipulags, að veita framkvæmda- og byggingarleyfi fyrir einstökum framkvæmdum og mannvirkjum eftir því sem við geti átt. 

Í máli þessu sé staðan sú að hvorki liggi fyrir deiliskipulag af svæði því sem ætlað sé undir starfsemi framkvæmdaleyfishafa né teikningar af þeim mannvirkjum sem nú sé verið að heimila undirbúning að.  Telja verði að slík undirbúningsvinna við gerð flugbrauta, bílastæða, flugskýla og félagsheimila sé óheimil að óbreyttu aðalskipulagi nema að undangenginni gerð deiliskipulags fyrir svæðið svo sem skylt sé skv. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. 

Borgaryfirvöld telji að áformuð starfsemi á Hólmsheiði fari ekki í bága við skilgreinda landnotkun svæðisins í aðalskipulagi sem opið svæði til sérstakra nota.  Að svo komnu sé ekki gert ráð fyrir varanlegri mannvirkjagerð á svæðinu en ef til þess kæmi yrði það tekið til skipulagningar eða byggingarleyfisumsókn grenndarkynnt.  Ekki verði séð að hið kærða framkvæmdaleyfi, sem heimili einungis í sér tilteknar framkvæmdir við að slétta og lagfæra jarðvegsyfirborð og tíundaðar séu í umsókn, hafi þau áhrif á nágrennið að til álita komi að ógilda framkvæmdaleyfið. 

Rétt sé að koma því á framfæri að deiliskipulagstillaga að umræddu svæði hafi verið auglýst eftir að kæra hafi borist í máli þessu.  Þar sé gert ráð fyrir að svæðið sé ætlað tímabundið undir starfsemi Fisfélags Reykjavíkur og verði þar flugbrautir og æfingaaðstaða fyrir vélknúin fis, svæði fyrir bílastæði og flugskýli og svæði fyrir félagsheimili og útivist. 

Framkvæmdaleyfishafa var gefinn kostur á að tjá sig um kæruefnið en athugasemdir af hans hálfu hafa ekki borist úrskurðarnefndinni. 

Niðurstaða:  Í hinu kærða framkvæmdaleyfi fólst einungis heimild til umráðaaðila viðkomandi landspildu á Hólmsheiði að slétta og grjóthreinsa jarðvegsyfirborð og færa til trjágróður.  Þótt fram komi að framkvæmdirnar séu hugsaðar til undirbúnings fyrirhugaðrar fisflugsstarfsemi leyfishafa á svæðinu, felur hin kærða ákvörðun ekki í sér heimild til slíkrar starfsemi eða til gerðar mannvirkja í tengslum við hana. 

Að þessu virtu verður ekki séð að heimilaðar framkvæmdir séu þess eðlis að þær geti raskað grenndarhagsmunum félagsmanna kæranda sem umráðamanna lands í nokkur hundruð metra fjarlægð frá umræddu svæði.  Verður kærumáli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni enda telst kærandi ekki aðili máls í skilningi 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

_____________________________
Hjalti Steinþórsson

_____________________________            ____________________________
Ásgeir Magnússon                                              Þorsteinn Þorsteinsson