Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

74/2009 Sléttuhlíð

Ár 2010, fimmtudaginn 15. apríl, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 74/2009, kæra á ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúans í Hafnarfirði frá 2. apríl 2008 um að veita leyfi til byggingar sumarbústaðar á lóð merktri B-2 í Sléttuhlíð í Hafnarfirði. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 1. nóvember 2009, er barst nefndinni hinn 6. sama mánaðar, kærir Á, Smárahvammi 9 í Hafnarfirði, einn eigenda sumarhúss á lóð merktri F-4 í Sléttuhlíð í Hafnarfirði, þá ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúans í Hafnarfirði frá 2. apríl 2008 að veita leyfi til byggingar sumarbústaðar á lóð merktri B-2 í Sléttuhlíð í Hafnarfirði.  Var ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa staðfest á fundi bæjarstjórnar hinn 15. sama mánaðar. 

Gerir kærandi þá kröfu að hið kærða byggingarleyfi verði fellt úr gild. 

Málavextir og rök:  Á afgreiðslufundi skipulags- og byggingarfulltrúans í Hafnarfirði 2. apríl 2008 var samþykkt að veita leyfi til byggingar sumarbústaðar á lóð nr. B-2 í Sléttuhlíð samkvæmt framlögðum teikningum og var afgreiðslan staðfest á fundi bæjarstjórnar 15. sama mánaðar. 

Af hálfu kæranda er vísað til þess að hið kærða byggingarleyfi fari í bága við gildandi deiliskipulag sökum þess að á lóðinni séu tvö hús.  Sé annað þeirra 111 m2 og á tveimur hæðum en hitt 36 m2 og hafi staðið þar lengi.  

Bent sé á að hvorki hafi verið auglýst tillaga að breyttu deiliskipulagi svæðisins né farið fram grenndarkynning og því hafi ekki verið unnt að gera athugasemdir við hið kærða byggingarleyfi.  Fyrst skömmu áður en kæra hafi verið lögð fram hjá úrskurðarnefndinni hafi kærandi fengið í hendur gögn er vörðuðu málið.  Hafnarfjarðarbær hafi hvorki upplýst nágranna né íbúa bæjarins um leyfið og því sé ekki hægt að benda á að kærufrestur hafi verið liðinn þar sem ekki hafi verið tilefni til athugasemda. 

Af hálfu Hafnarfjarðarbæjar er fallist á að hið kærða byggingarleyfi sé ekki í samræmi við deiliskipulag svæðisins og að veiting þess hafi verið mistök.  Við afgreiðslu málsins hafi verið talið að leyfið rúmaðist innan deiliskipulags og því hafi grenndarkynning ekki verið viðhöfð. 

Vísað sé til þess að samkvæmt 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 sé frestur til að skjóta málum til úrskurðarnefndarinnar 30 dagar frá því kæranda hafi verið kunnugt eða mátt vera kunnugt um ákvörðun þá er kærð sé.  Sé um að ræða ákvarðanir sem sæti opinberri birtingu teljist kærufrestur frá birtingu.  Hið kærða byggingarleyfi hafi verið samþykkt 2. apríl 2008 og staðfest á fundi bæjarstjórnar 15. sama mánaðar.  Báðar fundargerðirnar séu á vef Hafnarfjarðarbæjar.  Framkvæmdir hafi hafist um mitt ár 2008.  Jafnvel þótt unnt væri að fallast á að kæranda hafi ekki verið kunnugt um hina kærðu ákvörðun hefði honum mátt vera ljóst að framkvæmdir væru í gangi.  Væri því liðinn frestur til að skjóta málinu til úrskurðarnefndarinnar. 

Kæranda var gefinn kostur á að tjá sig um málsrök Hafnarfjarðarbæjar.  Bendir hann á að þrátt fyrir mistök við veitingu hins kærða leyfis vilji skipulags- og byggingarsvið að það standi óhaggað í skjóli útrunnins kærufrests. 

————–

Málsaðilar hafa fært fram ítarlegri rök fyrir kröfum sínum en með hliðsjón af niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar þykir ekki ástæða til að rekja þau frekar. 

Niðurstaða:  Samkvæmt almennum reglum stjórnsýsluréttarins er það skilyrði aðildar að kærumáli fyrir æðra stjórnvaldi að kærandi eigi verulegra og einstaklegra lögvarinna hagmuna að gæta í málinu.  Er þessi regla nú áréttuð, hvað varðar málskot til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, í 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, svo sem ákvæðinu var breytt með lögum nr. 74/2005.  Kærandi hefur ekki tilgreint með hvaða hætti hin umdeilda ákvörðun varði einstaklega hagmuni hans heldur byggir hann málatilbúnað sinn alfarið á því áliti sínu að hið umdeilda byggingarleyfi sé ekki í samræmi við samþykkt deiliskipulag svæðisins.  Þegar litið er til þess að veruleg fjarlægð er frá lóð kæranda, merkt F-4, að lóð B-2, svo og til legu lóðanna að öðru leyti og einnig þess að fjölmörg sumarhús eru milli þeirra, verður ekki séð að kærandi eigi þá einstaklegu og lögvörðu hagsmuni í málinu sem eru skilyrði aðildar að kæru til úrskurðarnefndarinnar.  Hefur kærandi ekki heldur bent á neina slíka hagmuni og verður kærumáli þessu því vísað frá nefndinni vegna aðildarskorts. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð: 

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

_______________________________          _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                Þorsteinn Þorsteinsson