Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

46/2007 Álafosskvos

Ár 2010, miðvikudaginn 24. febrúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 46/2007, kæra 19 íbúa og eigenda fasteigna við Álafossveg og Brekkuland í Mosfellsbæ á leyfi Mosfellsbæjar til framkvæmda í og við vegstæði Helgafellsvegar og til framkvæmda á bökkum Varmár, bak við gömlu ullarverksmiðjuna að Álafossi samkvæmt staðfestingu skipulagsfulltrúa og byggingarfulltrúa Mosfellsbæjar frá 15. maí 2007.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 15. maí 2007, sem barst nefndinni hinn 22. sama mánaðar, kærir Katrín Theodórsdóttir hdl., f.h. 19 íbúa og eigenda fasteigna við Álafossveg og Brekkuland í Mosfellsbæ, leyfi til framkvæmda í og við vegstæði Helgafellsvegar og til framkvæmda á bökkum Varmár, bak við gömlu ullarverksmiðjuna að Álafossi, samkvæmt staðfestingu skipulagsfulltrúa og byggingarfulltrúa Mosfellsbæjar frá 15. maí 2007.

Gera kærendur þá kröfu að hið kærða leyfi verði metið ólögmætt.  Þá gerðu kærendur og þá kröfu að úrskurðað yrði til bráðabirgða um stöðvun allra framkvæmda þar til ákvörðun úrskurðarnefndarinnar í málinu lægi fyrir.  Á fundi nefndarinnar hinn 15. júní 2007 var þeirri kröfu hafnað.  Er málið nú tekið til lokaúrskurðar. 

Málsatvik og rök:  Í bréfi skipulagsfulltrúa og byggingarfulltrúa Mosfellsbæjar til Helgafellsbygginga hf., dags. 15. maí 2007, segir eftirfarandi:  „Undirritaðir f.h. Mosfellsbæjar staðfesta hér með að yfirstandandi framkvæmdir á vegum Helgafellsbygginga hf. við lagningu stofnlagna vegna Helgafellshverfis norðan Álafossvegar eru með fullu leyfi Mosfellsbæjar.  Tekið skal fram að ekki er um að ræða framkvæmdir við lagningu Helgafellsvegar, heldur er um að ræða nauðsynlegar tengingar nýs Helgafellshverfis sem alltaf hefur legið fyrir að þyrftu að liggja um þetta svæði, óháð því hvort þar kæmi vegur eða ekki.  Umræddar veituframkvæmdir eru ekki framkvæmdaleyfisskyldar.“ 

Hafa kærendur skotið framangreindu til úrskurðarnefndarinnar svo sem áður greinir. 

Kröfu sína byggja kærendur á því að ekki hafi verið gefið út framkvæmdaleyfi fyrir þeim framkvæmdum sem fram fari á umræddu svæði, en framkvæmdirnar séu framkvæmdaleyfisskyldar skv. 27. gr. laga nr. 73/1997, sbr. 11. gr. laga 135/1997.  Óheimilt hafi því verið að hefja umræddar framkvæmdir fyrr en að fengnu leyfi sveitarstjórnar.  Hafi slík framkvæmd verið hafin án framkvæmdaleyfis geti kærendur, með heimild í 6. mgr. 8. gr. laga nr. 73/1997, krafist stöðvunar framkvæmda.  Í 6. mgr. gr. 9.1 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998 sé tekið fram að framkvæmdaleyfi veiti ekki heimild til framkvæmda sem brjóti í bága við skipulag, ákvæði laga og reglugerða eða rétt annarra.  Á því sé byggt að hinar umdeildu framkvæmdir séu á svæði sem ekki hafi verið skipulagt, en deiliskipulag þess hafi verið afturkallað hinn 28. febrúar 2007.  Auk þess séu framkvæmdirnar í andstöðu við aðalskipulag sveitarfélagins. 

Af hálfu Mosfellsbæjar hefur verið gerð grein fyrir málsástæðum og lagarökum bæjarins í málinu.  Er því m.a. haldið fram að kæran sé að hluta til byggð á misskilningi þar sem hinar umdeildu framkvæmdir lúti að nokkru að nauðsynlegri endurnýjun gamalla fráveitulagna.  Þá sé álitamál hvort framkvæmdaleyfi þurfi vegna lagnanna. 

Niðurstaða:    Í máli þessu er deilt um framkvæmdir sem Mosfellsbær hefur heimilað við veitulagnir er tengjast nýju íbúarhverfi, Helgafellshverfi, auk heimilda til endurnýjunar gamalla fráveitulagna er liggja skammt austan Varmár, nærri Álafosskvos.  Ekki hafa verið gefin út framkvæmdaleyfi samkvæmt 27. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 fyrir umræddum framkvæmdum enda telja bæjaryfirvöld þær ekki háðar slíkum leyfum.

Samkvæmt 8. mgr. nefndrar 27. greinar er umsækjanda um framkvæmdaleyfi og hlutaðeigandi sveitarstjórn heimilt að skjóta máli til úrskurðarnefndarinnar leiki vafi á því hvort framkvæmdir séu háðar ákvæðum greinarinnar um framkvæmdaleyfi.  Verður að skilja ákvæði þetta svo að ekki geti aðrir en umsækjandi um slíkt leyfi eða hlutaðeigandi sveitarstjórn átt aðild að máli til úrlausnar um vafa um það hvort framkvæmd sé háð framkvæmdaleyfi og verður því ekki skorið úr því álitaefni í máli þessu, jafnvel þótt kröfugerð kærenda þætti gefa tilefni til þess.

Eftir stendur að skipulagsfulltrúi og byggingarfulltrúi Mosfellsbæjar hafa staðfest að hinar umdeildu framkvæmdir hafi verið með fullu leyfi Mosfellsbæjar og krefjast kærendur þess að leyfi bæjarins verði metið ólögmætt.  Ekki liggur annað fyrir um leyfi þetta en staðfesting skipulagsfulltrúa og byggingarfulltrúa sem hvorki hefur hlotið afgreiðslu skipulags- og byggingarnefndar né verið samþykkt í bæjarstjórn.  Er því hér ekki um að ræða ákvörðun sem bindur enda á meðferð máls.  Meint leyfi, sem staðfestingin tekur til, sætir því ekki kæru skv. 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, og ber af þeim sökum að vísa kæru þessari frá úrskurðarnefndinni. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð: 

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

_________________________________
Hjalti Steinþórsson

______________________________           _______________________________
Ásgeir Magnússon                                            Þorsteinn Þorsteinsson