Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

25/2016 Kerlingarfjöll

Með

Árið 2016, fimmtudaginn 30. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 25/2016, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Hrunamannahrepps frá 2. júlí 2015 um að heimila efnistöku vegna 1. áfanga uppbyggingar hálendismiðstöðvar í Kerlingarfjöllum. Jafnframt er kærð ákvörðun byggingarfulltrúa Hrunamannahrepps frá 30. september 2015 um að samþykkja byggingu hótels með 40 herbergjum í Ásgarði á svæði Kerlingarfjalla.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 8. mars 2016, er barst nefndinni sama dag, kærir Landvernd, landgræðslu- og umhverfisverndarsamtök Íslands, Þórunnartúni 6, Reykjavík, þá samþykkt byggingarfulltrúa Hrunamannahrepps frá 30. september 2015 að heimila byggingu 1.869 m² hótels í Ásgarði í Kerlingarfjöllum. Enn fremur er kærð sú ákvörðun sveitarstjórnar Hrunamannahrepps frá 2. júlí 2015 að leggjast ekki gegn efnistöku í Kerlingarfjöllum vegna framangreindrar hótelbyggingar.

Er þess krafist að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi. Jafnframt er gerð krafa um að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar, en ekki þótti tilefni til að taka afstöðu til stöðvunarkröfu kæranda fyrr þar sem framkvæmdir höfðu þegar hafist haustið 2015 en var ekki framhaldið um vetrartímann vegna aðstæðna.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Hrunamannahreppi 21. mars og 25. apríl 2016.

Málavextir: Hinn 2. júlí 2015 tók sveitarstjórn Hrunamannahrepps fyrir erindi Fannborgar ehf. um heimild til efnistöku vegna fyrirhugaðra framkvæmda í Ásgarði og Hveradölum í Kerlingarfjöllum. Var fært til bókar að nú lægi fyrir álit Skipulagsstofnunar um að framkvæmdir við heildaruppbyggingu hálendismiðstöðvar í Kerlingarfjöllum skyldu háðar mati á umhverfisáhrifum, utan 1. áfanga. Í ljósi þessa væri ekki hægt að veita leyfi fyrir efnistöku fyrir heildaruppbyggingu svæðisins en ekki væri gerð athugsemd við efnistöku í tengslum við 1. áfanga uppbyggingarinnar, þ.e. á svæðum merktum B, C og E í fyrirliggjandi greinargerð.

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa Hrunamannahrepps 30. september 2015 var tekin fyrir umsókn Fannborgar ehf. um leyfi til að reisa 1.869 m² hótel í Ásgarði í Kerlingarfjöllum. Um tveggja hæða byggingu væri að ræða með kjallara, þjónustuálmu og gistiálmu með 40 herbergjum. Var umsóknin samþykkt og bókað að uppfyllt væru ákvæði laga um mannvirki nr. 160/2010. Einnig var fært til bókar að byggingarleyfi yrði gefið út að uppfylltum skilyrðum er fram kæmu í gr. 2.4.4. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Gaf byggingarfulltrúi út leyfi til byggingar greinds hótels 4. desember 2015.

Málsrök kæranda: Kærandi tekur fram að hann eigi lögvarða hagsmuni skv. 1. ml. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Tengist mál þetta á órjúfanlegan hátt öðru máli sem kærandi hafi skotið til úrskurðarnefndarinnar og byggi ákvarðanir leyfisveitenda á ákvörðun þeirri sem kærð hafi verið í því máli. Þá sé kæranda á grundvelli b-liðar síðari málsliðar 3. mgr. 4. gr. greindra laga ekki nauðsyn á að sýna fram á lögvarða hagsmuni sína, en hinar kærðu ákvarðanir varði framkvæmdir sem falli undir lög um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000.

Kæra þessi sé sett fram innan lögbundins kærufrests. Kæranda hafi ekki verið kunnugt um samþykki byggingarleyfisins fyrr en 17. febrúar 2016 og ekki um ákvörðun um efnistöku fyrr en 7. mars s.á. Með tölvupósti kæranda til byggingarfulltrúa 8. og 10. febrúar 2016 hafi verið óskað upplýsinga um hvort gefið hefði verið út byggingarleyfi til framkvæmdaraðila vegna byggingar 1. áfanga hótels í Kerlingarfjöllum. Svar hafi borist 17. s.m. og þar komið fram að byggingarleyfið hafi verið samþykkt 30. september 2015. Í svarpósti til kæranda 22. febrúar 2016 hefði verið frá því greint að leyfið hefði þó ekki verið útgefið. Hafi kærandi orðið þess áskynja 4. mars s.á. að framkvæmdir væru hafnar.

Lögum samkvæmt sé skrifleg tilkynning um að leyfisveitandi fallist á byggingaráform ekki ígildi byggingarleyfis. Verði því að líta svo á að ekki hafi enn verið útgefið byggingarleyfi í skilningi mannvirkjalaga nr. 160/2010. Þá liggi fyrir að framkvæmdaleyfi fyrir efnistöku hafi ekki verið gefið út.

Ljóst sé að slíkir annmarkar séu á hinum kærðu ákvörðunum að fella beri þær úr gildi. Umrætt svæði sé allt innan þjóðlendu, en ekki hafi legið fyrir áskilin leyfi samkvæmt lögum nr. 58/1998 um þjóðlendur. Ákvörðun um byggingarleyfi hafi stuðst við heimildarlaust samþykki sveitarstjórnar til efnistöku fyrir framkvæmdinni eða hagnýtingar á landi til þeirrar efnistöku, en ekki hafi verið leitað samþykkis forsætisráðherra skv. 2. mgr. 3. gr. laganna. Jafnframt sé ákvörðunin ólögmæt þar sem ekki virðist hafa legið fyrir nauðsynlegt samþykki forsætisráðherra skv. 3. mgr. 3. gr. þjóðlendalaga um að heimila nýtingu lands til byggingar umrædds hótels. Sé í þessu sambandi einnig vísað til ákvæða mannvirkjalaga og kafla 2.4. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Þá verði ekki séð að gætt hafi verið 4. mgr. tilvitnaðs ákvæðis laganna um endurgjald. Breyti samningar milli Hrunamannahrepps og framkvæmdaraðila, dags. 25. ágúst 2015, engu í þessu sambandi.

Málsrök Hrunamannahrepps: Af hálfu Hrunamannahrepps er þess krafist að máli þessu verði vísað frá úrskurðarnefndinni. Kærandi geti ekki átt aðild að kærumálinu þar sem hann hafi ekki lögvarinna hagsmuni að gæta. Varði kröfur kæranda ekki ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsskylda framkvæmd og því geti a-liður 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála ekki átt við. Þá hafi kæra borist úrskurðarnefndinni utan lögbundins kærufrests. Hafi kæranda verið tilkynnt með tölvupósti 9. október 2015 að byggingarleyfi lægi fyrir og hafi það verið gefið út 4. desember s.á. Fullljóst sé að kæranda hafi verið vel kunnugt um útgáfu hins kærða byggingarleyfis.

Öllum röksemdum kæranda sé hafnað. Réttum málsmeðferðarreglum hafi verið fylgt við samþykkt hins kærða byggingarleyfis og hafi engin rök verið færð fyrir öðru.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi gerir aðallega þá kröfu að máli þessu verði vísað frá úrskurðarnefndinni. Til vara sé þess krafist að kröfum kæranda verði hafnað og hinar kærðu ákvarðanir staðfestar.

Telja verði að kæra sé of seint fram komin. Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála sé frestur til að kæra ákvörðun til nefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um hana, nema á annan veg sé mælt í lögum. Lögbundinn kærufrestur vegna ákvörðunar sveitarstjórnar um efnistöku hafi runnið út 2. ágúst 2015 og kærufrestur vegna ákvörðunar byggingarfulltrúa  hafi hafist 30. september s.á. Kæra hafi ekki borist fyrr en 8. mars 2016, nokkrum mánuðum eftir lok kærufrests. Sé röksemdum kæranda um upphaf kærufrests alfarið hafnað.

Bent sé á að kærandi hafi getað kynnt sér stöðu mála á heimasíðu sveitarstjórnar og byggingarfulltrúa, en þar séu fundargerðir birtar. Fyrir úrskurðarnefndinni liggi kæra frá kæranda vegna ákvörðunar Skipulagsstofnunar um matsskyldu framkvæmda í Kerlingarfjöllum. Hafi kærandi bæði haft efni og sérstaklega ríka ástæðu til að fylgjast náið með framgangi framkvæmda við Kerlingarfjöll, sem hann hafi lengi vitað að væru í uppsiglingu. Hafi honum í öllu falli mátt vera kunnugt um hinar kærðu ákvarðanir fljótlega eftir að framkvæmdir hófust. Hafi honum þá borið að kynna sér kærurétt sinn og gera reka að því að skjóta málinu til úrskurðarnefndarinnar. Sé í þessu sambandi vísað til úrskurðar úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála í máli nr. 84/2011. Kæranda hafi sérstaklega verið tilkynnt með tölvupósti byggingarfulltrúa 9. október 2015 að byggingarleyfi fyrir 1. áfanga framkvæmdarinnar lægi fyrir. Í öllu falli sé ljóst að kæranda hafi í síðasta lagi mátt vera kunnugt um hinar kærðu ákvarðanir undir lok janúar 2016, þegar hann hafi fengið senda tillögu að matsáætlun þar sem fram komi með skýrum hætti að framkvæmdir við 1. áfanga séu hafnar. Þá verði ekki séð að afsakanlegt sé eða að veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar. Yrði það verulega íþyngjandi fyrir leyfishafa yrði málinu ekki vísað frá úrskurðarnefndinni, enda hafi framkvæmdum verið haldið áfram í góðri trú eftir að kærufresti lauk. Verði að túlka allar undanþágur frá hinum lögbundna kærufresti þröngt.

Sé ekki fallist á frávísun máls þessa sé mótmælt rökum kæranda er snúa að því að byggingarleyfi hafi ekki verið gefið út. Útgáfa þess sé sjálfstætt álitamál sem engin áhrif geti haft á gildi ákvörðunar um að samþykkja umsókn um byggingarleyfi. Málatilbúnaður kæranda að þessu leyti varði því ekki álitaefni hinnar kærðu stjórnvaldsákvörðunar og komi því ekki til álita í máli þessu.

Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. laga nr. 58/1998 um þjóðlendur sé það hlutverk forsætisráðherra að skera úr ágreiningi um veitingu leyfa. Því sé hafnað að tilvitnuð leyfi skv. 3. gr. laganna, hafi þurft að liggja fyrir áður en ákvarðanir um samþykkt byggingaráforma eða um heimild til efnistöku hafi verið teknar. Ekki sé gert að sérstöku skilyrði í mannvirkjalögum nr. 160/2010, byggingarreglugerð nr. 112/2012 og skipulagslögum nr. 123/2010 að öll leyfi sem þurfi til að ráðast í framkvæmd séu nauðsynlegur undanfari ákvörðunar um samþykkt byggingar- eða framkvæmdaleyfisumsókna. Ekki megi heldur lesa það úr lögum nr. 58/1998 eða lögskýringargögnum. Geti skortur á tilskildum leyfum því ekki talist vera ágalli sem varðað geti ógildingu hinnar kærðu ákvarðana. Jafnframt sé því vísað á bug að 4. mgr. 3. gr. þjóðlendulaga eigi við um leyfisveitingar samkvæmt öðrum lögum en þjóðlendulögum. Þá sé ljóst að um heimildarákvæði sé að ræða.

Athugasemdir kæranda við málsrökum sveitarfélagsins og leyfishafa: Kærandi áréttar sjónarmið sín sem að framan eru rakin. Jafnframt fer hann fram á að úrskurðarnefndin hafi í huga starfsaðstæður kæranda þegar metin verði áhrif þess að ekki hafi verið brugðist strax við með nýrri kæru þegar fyrir hafi legið vitneskja um samþykki til útgáfu byggingarleyfis í október 2015, enda hefði leyfisveitandi ítrekað staðhæft við framkvæmdastjóra kæranda í október 2015 og febrúar 2016 að byggingarleyfi hefði ekki verið gefið út. Ekki sé hægt að ætlast til þess af kæranda að hann vefengdi orð forsvarsmanna leyfisveitanda um að leyfi væri óútgefið. Hafi kærandi enga ástæðu haft til að ætla að framkvæmdir gætu hafist eða myndu hefjast án útgáfu slíks leyfis. Ekki liggi heldur fyrir að leyfisveitingin hafi verið birt í Lögbirtingablaðinu eða öðru blaði. Þá skipti það engu þótt fundargerðir séu aðgengilegar á netinu. Hafi ekkert bent til þess að byggingarframkvæmdir væru í gangi eða yfir höfuð mögulegar yfir hávetur í Kerlingarfjöllum. Hafi leyfisveitandi ekki upplýst kæranda um kærurétt eða kærufrest.

Framkvæmdastjóri kæranda hafi óskað eftir gögnum í október 2015 og í febrúar 2016, þegar byggingarleyfi lægi fyrir. Hafi þau aldrei borist og hefði það fyrst verið 19. apríl 2016, eftir að kærandi hafi fengið afrit af gögnum málsins hjá nefndinni, að kæranda hafi orðið ljóst að þrátt fyrir ítrekaðar fullyrðingar af hálfu leyfisveitanda hefði byggingarleyfi í raun verið gefið út.

Líta verði svo á að kærufrestur hafi ekki getað byrjað að líða á meðan kæranda hafi ekki verið kunnugt um að byggingarleyfi hefði verið gefið út eða að veitt hefði verið leyfi til efnistöku. Geti fresturinn fyrst byrjað að líða þegar kærandi hafi haft réttmæta ástæðu til að ætla að ákvörðun sú sem honum hefði vissulega verið kunnugt um hefði komið til framkvæmda, það er að skilyrði útgáfu byggingarleyfis hefði verið uppfyllt og það gefið út. Það hefði kæranda í fyrsta lagi getað verið kunnugt um þegar upplýsingar hefðu farið að berast um að framkvæmdir hefðu hafist. Önnur og strangari skýring geti ekki átt rétt á sér eins og atvikum hafi verið háttað. Hafi kærandi ekki sýnt af sér tómlæti um að halda málinu áfram.

Á því sé byggt að ekki verði horft fram hjá 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki við úrlausn á því hvaða atburður marki upphaf kærufrests. Líta verði svo á að útgáfa byggingarleyfis teljist „ákvörðun“ í skilningi ákvæðisins, en skilyrt samþykkt í bókun í fundargerð sé ekki það tímamark sem miða beri við, eins og hér á standi. Sé vísað í 59. gr. mannvirkjalaga. Álykta verði að það sé hin skriflega útgáfa byggingarleyfisins sem fyrst geti markað upphaf kærufrests. Samkvæmt því hafi kærufrestur ekki getað byrjað að líða fyrr en eftir að kærandi setti fram kæru, þar sem honum hefði ekki verið kunnugt um það fyrr en hann fékk afrit af umsögnum 19. apríl 2016 að leyfi hefði verið gefið út.

Kærandi geri jafnframt athugsemd við samþykkt stöðuleyfi. Þá hafi sveitarstjórn verið vanhæf til töku hinnar kærðu ákvörðunar sökum einkaréttarlegra hagsmuna sinna.

Athugasemdir leyfishafa við athugasemdum kæranda: Leyfishafi áréttar að jafnvel þótt miðað sé við síðasta mögulega tímamark megi ljóst vera að kæran hafi borist að liðnum lögbundnum kærufresti. Sé lögð áhersla á að óumdeilt verði að teljast að kæranda hafi verið fullkunnugt um kæruleiðir og kærufresti til úrskurðarnefndarinnar en kærandi hafi rekið fjöldamörg kærumál fyrir úrskurðarnefndinni undanfarin áratug.

Því sé mótmælt að útgáfa stöðuleyfis komi til álita í máli þessu. Hafnað sé að engin gögn hafi verið lögð fram varðandi afstöðu forsætisráðuneytisins til leyfisveitingar samkvæmt þjóðlendulögum nr. 58/1998 og sé m.a. vísað til lóðarleigusamnings í þessu efni. Loks sé tekið fram að sveitarstjórnarmenn hafi ekki haft neinna hagsmuna að gæta er valdið geti vanhæfi þeirra til aðkomu að málinu.

——

Aðilar hafa fært fram ítarlegri sjónarmið í máli þessu sem ekki verða rakin, en úrskurðarnefndin hefur haft til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Vettvangsganga: Úrskurðarnefndin kynnti sér aðstæður á vettvangi 23. júní 2016.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um gildi leyfisveitinga vegna uppbyggingar hálendismiðstöðvar í Kerlingarfjöllum. Kærandi hefur m.a. gert athugasemd við að stöðuleyfi hafi verið veitt fyrir herbergjaeiningum, sem síðar skyldu notaðar sem 2. hæð fyrirhugaðrar hótelbyggingar. Beinir hann því til úrskurðarnefndarinnar „að skoða umrætt stöðuleyfi í tengslum við þetta mál“. Af aðstæðum á vettvangi er ljóst að umræddar herbergiseiningar eru nú þegar orðnar hluti af þeim byggingarframkvæmdum sem lokið hefur verið við á svæðinu. Var á vettvangi upplýst um það af hálfu leyfishafa að framkvæmdum vegna þessa hefði lokið á haustmánuðum ársins 2015, eða áður en kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni. Þykir því ekki ástæða til að fjalla frekar um nefnt stöðuleyfi.

Í málinu er gerð krafa um frávísun með þeim rökum að kærandi eigi ekki lögvarinna hagsmuna að gæta auk þess sem kæra hafi borist að liðnum kærufresti.

Um málsmeðferð og kæruaðild að máli þessu fer eftir 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, en skv. 3. mgr. hennar geta umhverfisverndar-, útivistar- og hagsmunasamtök kært nánar tilgreindar ákvarðanir, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum, án þess að sýna fram á lögvarða hagsmuni. Þar á meðal geta slík samtök kært ákvarðanir um að veita leyfi vegna framkvæmda sem falla undir lög nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum, sbr. b-lið nefndrar 3. mgr. 4. gr. Þegar frumvarp til laganna var til umfjöllunar á Alþingi var orðalagi nefnds b-liðar breytt, án þess þó að efnisinnihald hans breyttist. Í athugasemdum með frumvarpinu segir um greindan lið að ákvörðun um matsskyldu ráði því hvort almenningur fái rétt til frekari þátttöku í gegnum matsferlið og hvort hann njóti kæruaðildar vegna ákvarðana stjórnvalda um að veita leyfi til framkvæmda. Hér undir falli m.a. framkvæmdir sem ákveðið hafi verið að háðar skuli mati á umhverfisáhrifum, sbr. 6. gr. laganna. Þau leyfi sem um sé að ræða séu öll leyfi stjórnvalda sem sæti kæru til nefndarinnar og nauðsynleg séu svo ráðast megi í framkvæmd sem sé háð mati á umhverfisáhrifum.

Með úrskurði, uppkveðnum fyrr í dag í máli nr. 60/2015, féllst úrskurðarnefndin á þá kröfu kæranda að fella úr gildi þann hluta ákvörðunar Skipulagsstofnunar frá 1. júlí 2015 að 1. áfangi uppbyggingar hálendismiðstöðvar í Kerlingarfjöllum skuli ekki háður mati á umhverfisáhrifum. Að þeirri niðurstöðu fenginni stendur óhögguð sú ákvörðun stofnunarinnar að heildaruppbygging hálendismiðstöðvarinnar skuli háð mati á umhverfisáhrifum. Þar með á kærandi, sem er umhverfisverndarsamtök, kæruaðild á grundvelli framangreinds b-liðar 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011.

Í 2. mgr. umræddrar 4. gr. laga nr. 130/2011 er kveðið á um að kærufrestur til nefndarinnar sé einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um hina kæranlegu ákvörðun. Ekki sér þess stað í gögnum málsins að kærandi hafi vitað eða mátt vita um útgáfu framkvæmdaleyfis til efnistöku fyrr en kæra barst í málinu, þrátt fyrir að hann hafi óskað eftir upplýsingum þar um frá leyfisveitanda. Verður þeim hluta málsins því ekki vísað frá á grundvelli þess að kærufrestur sé liðinn.

Hið kærða byggingarleyfi var samþykkt 30. september 2015 og gefið út 4. desember s.á. Af hálfu kæranda var sendur tölvupóstur til byggingarfulltrúa 9. október það ár og leitað upplýsinga um útgefin leyfi vegna framkvæmdanna. Í svari byggingarfulltrúa sama dag segir að byggingarleyfi hafi verið gefið út vegna 1. áfanga framkvæmdanna og er jafnframt tekið fram að nánari upplýsingar verði sendar. Að mati úrskurðarnefndarinnar mátti kæranda vera kunnugt um efni byggingarleyfisins á þessu tímamarki þrátt fyrir að ekki væri upplýst nánar í tölvupóstinum til hverra framkvæmda 1. áfangi tæki, en kærandi er aðili annars máls fyrir úrskurðarnefndinni þar sem kærð er ákvörðun Skipulagsstofnunar varðandi nefndan 1. áfanga. Kæra í því máli barst úrskurðarnefndinni 4. ágúst 2015, um tveimur mánuðum fyrir samskipti kæranda við byggingarfulltrúa, og fjallar kæran efnislega um umræddan 1. áfanga. Þykir því ekki varhugavert að miða upphaf kærufrests vegna hins kærða byggingarleyfis við tölvupóst byggingarfulltrúa 9. október 2015. Kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni hins vegar 8. mars 2016, eða um fjórum mánuðum eftir að kærufresti lauk.

Í 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er fjallað um áhrif þess ef kæra berst að liðnum kærufresti. Ber þá að vísa kærunni frá nema að afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, sbr. 1. tl. 1. mgr. 28. gr., eða veigamiklar ástæður mæli með því að hún verði tekin til efnismeðferðar, sbr. 2. tl. 1. mgr. Í athugasemdum við nefndan 1. tl. er tekið fram í frumvarpi því sem varð að stjórnsýslulögum að nefna megi sem dæmi að lægra sett stjórnvald hafi vanrækt að veita leiðbeiningar um kæruheimild skv. 20. gr. laganna eða veitt rangar eða ófullnægjandi upplýsingar. Við mat á því hvort fyrir hendi séu skilyrði til að taka kæru til meðferðar á grundvelli nefndra töluliða þurfi að líta til þess hvort aðilar að málinu séu fleiri en einn og með andstæða hagsmuni, en undir þeim kringumstæðum sé rétt að taka mál einungis til kærumeðferðar að liðnum kærufresti í algjörum undantekningartilvikum. Er ótvírætt að leyfishafi í máli þessu á verulega hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun.

Með vísan til þess verður ekki talið afsakanlegt að kæra hafi ekki borist fyrr. Kemur þá til skoðunar hvort taka beri málið til meðferðar á grundvelli þess að veigamiklar ástæður mæli með því. Við mat á því verður samkvæmt framangreindu að líta til hagsmuna aðila máls, en að mati úrskurðarnefndarinnar koma þar einnig til skoðunar almannahagsmunir. Slíkir almannahagsmunir geta m.a. tengst framkvæmdum á svæðum á náttúruminjaskrá, en svo háttar t.a.m. um Kerlingarfjöll, sem einnig lúta hverfisvernd samkvæmt Aðalskipulagi Hrunamannahrepps 2003-2015. Í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 130/2011 er tekið fram í athugasemdum með 2. mgr. 4. gr. að brýnt sé að ágreiningur um form eða efni ákvörðunar verði staðreyndur sem fyrst og áréttað í því samhengi að eftir því sem framkvæmdir séu komnar lengra áður en ágreiningur um þær verði ljós skapist meiri hætta á óafturkræfu tjóni af bæði umhverfislegum og fjárhagslegum toga. Er þar öðrum þræði vísað til hagsmuna leyfishafa. Með vísan til alls framangreinds þykja ekki nægar ástæður liggja til grundvallar því að taka kærumálið til efnismeðferðar að liðnum kærufresti á grundvelli undantekningaákvæða 28. gr. stjórnsýslulaga þrátt fyrir fyrrgreinda almannahagsmuni. Verður þeim hluta kærunnar sem snýr að byggingarleyfi því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Samkvæmt 1. mgr. 14. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er óheimilt að gefa út leyfi fyrir framkvæmd samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum fyrr en álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum liggur fyrir eða ákvörðun stofnunarinnar um að framkvæmd sé ekki matsskyld. Þá er ákvæði sama efnis að finna í 1. mgr. 13. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Með úrskurði, uppkveðnum fyrr í dag í máli nr. 60/2015, felldi úrskurðarnefndin úr gildi ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 1. júlí 2015, þess efnis að framkvæmd sú sem hér er um deilt skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Verður þegar af framangreindum ástæðum að ógilda hið kærða framkvæmdaleyfi til efnistöku.

Í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 58/1998 um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta er tiltekið að til að nýta land og landsréttindi innan þjóðlendu að öðru leyti en greini í 2. mgr. 3. gr. þurfi leyfi hlutaðeigandi sveitarstjórnar, en sé nýting heimiluð til lengri tíma en eins árs þurfi jafnframt samþykki ráðherra. Leyfishafi og Hrunamannahreppur hafa gert með sér lóðarleigusamning til 25 ára vegna lóðar undir hálendismiðstöð í Kerlingarfjöllum. Samningurinn var samþykktur af forsætisráðherra í samræmi við framangreint ákvæði. Í málinu liggur jafnframt fyrir sú afstaða forsætisráðuneytisins, í tölvupósti frá 29. mars 2016, að þar sem samþykki liggi fyrir samningnum á grundvelli 3. og 4. mgr. 3. gr. laganna þurfi ekki að koma til samþykkis vegna einstakra framkvæmda við mannvirki á hinni leigðu lóð. Úrskurðarnefndin bendir hins vegar á að í 2. mgr. 3. gr. tilvitnaðra laga er einnig kveðið á um að leyfi ráðherra þurfi m.a. til að nýta námur og önnur jarðefni innan þjóðlendu nema mælt sé fyrir um annað í lögum. Ákvörðun sveitarstjórnar um framkvæmdaleyfi vegna efnistöku lá fyrir 2. júlí 2015 og verður ekki séð af gögnum málsins að leyfi skv. fyrrnefndri 2. mgr. 3. gr. laga nr. 58/1998 hafi þá legið fyrir.

Sveitarstjórn veitir framkvæmdaleyfi skv. 13. og 14. gr. skipulagslaga, sbr. og 3. gr. reglugerðar nr. 772/2012 um framkvæmdaleyfi. Þar segir nánar að ef annað sé ekki ákveðið í samþykkt sveitarfélags gefi skipulagsfulltrúi út framkvæmdaleyfi, að fengnu samþykki sveitarstjórnar. Um þau gögn sem fylgja skulu framkvæmdaleyfisumsókn er fjallað í 7. gr. reglugerðarinnar og er í 2. mgr. hennar m.a. talið upp að umsókninni skuli fylgja fyrirliggjandi samþykki og/eða leyfi annarra leyfisveitenda sem framkvæmdin kann að vera háð samkvæmt öðrum lögum. Verður að skilja nefnd ákvæði svo að leyfi skv. lögum nr. 58/1998 þurfi að liggja fyrir þegar leyfisveitandi, þ.e. sveitarstjórn, tekur afstöðu til umsóknarinnar. Sama máli gegnir um aðrar leyfisveitingar, s.s. á grundvelli vatnalaga nr. 15/1923, en ekki verður séð að við veitingu framkvæmdaleyfis hafi legið fyrir gögn um hvort Orkustofnun hafi verið tilkynnt um fyrirhugaða efnistöku úr áreyrum Ásgarðsár í samræmi við 1. mgr. 144. gr. þeirra laga.

 

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun sveitarstjórnar Hrunamannahrepps frá 2. júlí 2015 um að heimila efnistöku vegna 1. áfanga uppbyggingar við hálendismiðstöð í Kerlingarfjöllum.

Að öðru leyti er kærumáli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ómar Stefánsson                                                   Aðalheiður Jóhannsdóttir

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                 Þorsteinn Þorsteinsson

61/2014 Reynifellskrókur

Með
Árið 2016, fimmtudaginn 30. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ómar Stefánsson varaformaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 61/2014, kæra á ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Rangárþings ytra frá 13. maí 2013 um að veita byggingarleyfi fyrir frístundahúsi á lóð nr. 2b í landi Reynifells.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 3. júlí 2014, sem barst nefndinni 4. s.m., kærir K, eigandi lóðar nr. 6 við Reynifellskrók í landi Reynifells, Rangárþingi ytra, þá ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Rangárþings ytra frá 13. maí 2013 að veita byggingarleyfi fyrir frístundahúsi á lóð nr. 2b í landi Reynifells. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Með bréfi, dags. 8. júní 2015, gerir sami aðili þá kröfu að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Þeirri kröfu var hafnað með úrskurði nefndarinnar uppkveðnum 26. ágúst 2015. 

Gögn málsins bárust frá Rangárþingi ytra 14. júlí 2014.

Málsatvik og rök: Hinn 13. maí 2013 samþykkti skipulags- og byggingarfulltrúi Rangárþings ytra umsókn um byggingarleyfi fyrir byggingu frístundahúss á lóð nr. 2b í landi Reynifells. Var byggingarleyfið gefið út 21. s.m. Um var að ræða 23,2 m2 hús úr timbri með einhalla þaki með 3,65 m hámarkshæð. Gert var ráð fyrir að ytra byrði frístundahússins yrði klætt bárujárni. Hinn 12. janúar 2014 hafði kærandi samband við skipulags- og byggingarfulltrúa í því skyni að fá frekari upplýsingar um hið umrædda hús og hvort það samrýmdist byggingarskilmálum svæðisins. Fór kærandi þess á leit að aðstæður yrðu kannaðar og var hann í samskiptum við embættið vegna málsins allt til 18. júní 2014. Var hið umdeilda byggingarleyfi kært til úrskurðarnefndarinnar 4. júlí 2014.

Kærandi skírskotar til þess að húsið samræmist ekki byggingarskilmálum svæðisins. Húsið sé of lítið, og hvorki húslag né klæðning í samræmi við önnur hús á svæðinu. Hið umrædda hús stingi mjög í stúf við landslagið og raski útliti svæðisins. Sjónmengun sé mikil vegna hússins alls staðar að á svæðinu. Auk þess geti hin kærða ákvörðun gefið fordæmi fyrir því að fleiri hús af þessu tagi rísi á svæðinu.

Af hálfu sveitarfélagsins er vísað til þess að meðvituð ákvörðun hafi verið tekin um að leyfa tiltekna stærð á sumarhúsinu þrátt fyrir ákvæði um lágmarksstærð í byggingarskilmálum svæðisins. Skilmálarnir séu frá árinu 1999 og byggðir á samkomulagi eigenda við  landskipti á árinu 1983. Skipulag svæðisins hafi verið til umræðu hjá embætti skipulags- og byggingarfulltrúa og viðraðar hugmyndir um breytingu á því við landeigendur. Á síðustu árum hafi ekki verið sett ákvæði um  lágmarksstærðir mannvirkja á frístundasvæðum, heldur um hámarksstærðir. Sé það merki um nauðsynlegar endurbætur á núgildandi skilmálum. Að auki sé það eðlilegt að leyfa byggjendum að byrja smátt með möguleika á stækkun eða viðbyggingu síðar. Með byggingu svalaskýlis við umrætt frístundahús sé komið til móts við ríkjandi byggingarlag á svæðinu. Í byggingarskilmálunum sé tekið fram að hús skulu vera sömu gerðar og yfirvöld mæli með sem sumarhús. Sé hiklaust mælt með þeim byggingarstíl sem hér um ræði og falli hann vel að því sem fyrir sé á svæðinu. Í byggingarskilmálum segir að hús skuli byggð úr timbri. Umrætt hús sé alfarið úr timbri en veðurkápa sé þó úr stáli. Nokkuð sé um að sumarhús á svæðinu hafi ómálað stál á þökum og hafi ekki verið gerðar athugasemdir við umrætt efni á útvegg þar sem auðvelt sé að mála það í þeim lit sem hæfi. Hafi verið rétt staðið að veitingu umrædds byggingarleyfis samkvæmt lögum og reglum og almennum hefðum í landinu.

———-

Byggingarleyfishafa var gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum sínum vegna kæru máls þessa, en greinargerð af hans hálfu hefur ekki borist úrskurðarnefndinni.

Vettvangsskoðun: Úrskurðarnefndin kynnti sér aðstæður á vettvangi hinn 23. júní 2016.

Niðurstaða: Kærandi í máli þessu byggir málatilbúnað sinn á því að með hinu kærða byggingarleyfi sé vikið frá byggingarskilmálum gildandi deiliskipulags og heimilað hús falli ekki að yfirbragði byggðar eða landslagi og útliti umrædds svæðis. Umrætt frístundasvæði er fremur flatlent og að mestu leyti þakið lággróðri. Stendur hin umdeilda bygging í a.m.k. 250 m fjarlægð frá frístundahúsi kæranda en milli húsanna eru tvær óbyggðar frístundahúsalóðir.

Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er skilyrði kæruaðildar í málum fyrir nefndinni að kærandi eigi lögvarða hagsmuni tengda viðkomandi ákvörðun nema að lög mæli sérstaklega á annan veg. Er það í samræmi við meginreglu stjórnsýsluréttar að kæruaðild sé bundin við þá sem eiga einstaklingsbundna og verulega lögvarða hagsmuni tengda hinni kæranlegu ákvörðun.

Framangreindar málsástæður kæranda lúta að atriðum er tengjast skipulagslegum hagsmunum er teljast til almannahagsmuna sem sveitarstjórnir fara með og ber að gæta innan marka síns sveitarfélags í samræmi við ákvæði skipulagslaga nr. 123/2010.  Eins og atvikum er hér háttað verður ekki séð að umdeild bygging raski lögvörðum grenndarhagsmunum kæranda, en útlit byggingarinnar eitt og sér getur ekki varðað einstaklingsbundna lögvarða hagsmuni hans. 

Með hliðsjón af því sem rakið hefur verið þykir á skorta að kærandi eigi þá lögvörðu hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun sem gert er að skilyrði fyrir kæruaðild í fyrrgreindri 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 og verður kærumáli þessu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
  Ómar Stefánsson                                                  Þorsteinn Þorsteinsson

38/2014 Hverafold

Með
Árið 2016, föstudaginn 24. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ómar Stefánsson varaformaður og Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor.

Fyrir var tekið mál nr. 38/2014, kæra á afgreiðslu Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur frá 8. apríl 2014 um aðgerðir vegna notkunar á eignarhlutum 0301 og 0302 á þriðju hæð hússins að Hverafold 5, Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 1. maí 2014, er barst nefndinni sama dag, kærir J, Hverafold 5, Reykjavík, ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur frá 8. apríl 2014 um að „aðhafast ekkert að svo komnu máli vegna notkunar Tónlistarskólans í Grafarvogi á húsnæði sínu á 3ju hæð Hverafoldar 5 í Reykjavík“. Er þess krafist að rekstur tónlistarskólans á téðri hæð verði stöðvaður og að forsvarsmönnum skólans verði gert að sækja um leyfi fyrir nefndri starfsemi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur 6. júní 2014.

Málavextir: Í húsum á lóð nr. 1-5 við Hverafold í Grafarvogi er starfrækt verslunar- og þjónustumiðstöð, reist árið 1992 samkvæmt upplýsingum úr fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands. Í matshluta 02 að Hverafold 5 eru alls níu eignarhlutar og er þar m.a. starfræktur tónlistarskóli.

Árið 2011 festi kærandi kaup á eignarhluta 0303 á efstu hæð fyrrgreinds húss. Hinn 13. nóvember 2012 samþykkti byggingarfulltrúi umsókn kæranda um leyfi til að breyta notkun umrædds rýmis úr sólbaðsstofu í íbúð og lá þá fyrir álit kærunefndar húsamála í máli nr. 19/2012 um að nefnd breyting væri heimil án samþykkis annarra eigenda hússins. 

Á árinu 2013 kom kærandi á framfæri athugasemdum sínum vegna meintrar breyttrar starfsemi í rými á þriðju hæð hússins að Hverafold 5. Kom fram í tölvupóstum kæranda að umrætt rými hefði áður verið nýtt sem félagsheimili en þar færi nú fram starfsemi tónlistarskóla. Væri af henni mikið ónæði. Var kærandi í samskiptum við heilbrigðiseftirlitið vegna starfseminnar og með bréfi hans til m.a. heilbrigðiseftirlitsins, dags. 28. desember 2013, var gerð krafa um að „viðtakendur grípi til tafarlausrar aðgerða, einir sér eða allir saman, vegna ólíðandi breyttra nýtinga nýs eiganda á eignarhlut hans á 3ju hæð Hverafoldar 5, Reykjavík“. Vísaði kærandi m.a. til þess að í umræddu rými væri tónlistarkennsla og útleiga salar án leyfa og að nýr eigandi væri grandsamur um að nýtingin væri ósamrýmanleg íbúðarnotkun á sömu hæð. Hefði nefndur eignarhluti verið keyptur þrátt fyrir að forsvarsmenn tónlistarskólans hefðu áður staðhæft að tónlistarskólahald á annarri hæð væri ósamrýmanlegt íbúðarbyggð kæranda á þriðju hæð. Gerð var krafa um skrifleg viðbrögð viðtakenda. Þá sagði svo: „Fallist viðtakendur ekki á kröfur kæranda og ákveða að sitja aðgerðarlausir með hendur í skauti krefst kærandi þessi að viðtakendur sendi kæranda skriflega ákvörðun/úrskurð sem er eftir atvikum kæranleg til æðra stjórnsýsluvalds.“

Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur svaraði bréfi kæranda með bréfi, dags. 14. febrúar 2014. Þar var m.a. vakin athygli á því að eftirlitinu hefðu ekki borist kærur heldur fyrirspurnir frá kæranda um starfsemi tónlistarskólans. Starfsleyfi fyrir skólann hefði verið gefið út 2. nóvember 2000, það endurnýjað 4. apríl 2006 og gilti það til 4. apríl 2018. Heilbrigðiseftirlitið hefði fengið yfirlit yfir nemendatónleika í salnum á haustönn 2013. Þær upplýsingar hefðu jafnframt fengist að salurinn væri ekki leigður út til skemmtana- og samkomuhalds. Hefði rekstaraðili verið upplýstur um að ef til þess kæmi væri slík starfsemi leyfisskyld. Einnig var kæranda bent á að leita til heilbrigðiseftirlitsins eða til lögreglu teldi hann sig verða fyrir ónæði vegna hávaða og myndu heilbrigðisfulltrúar rannsaka réttmæti kvörtunar og krefjast viðeigandi úrbóta ef kvörtun ætti við rök að styðjast.

Í svarbréfi kæranda, dags. 3. mars 2014, var tekið fram að líta bæri á fyrrnefnt bréf, dags. 28. desember 2013, sem kæru, en ekki fyrirspurn. Enn fremur var áréttað að niðurstaða málsins yrði í úrskurðarformi, sem eftir atvikum væri kæranleg til tilgreinds æðra stjórnvalds og að upplýst yrði um kærufrest.

Með bréfi heilbrigðiseftirlitsins til kæranda, dags. 8. apríl 2014, var bent á að heilbrigðiseftirlitið myndi ljúka erindi kæranda með stjórnvaldsákvörðun en ekki stjórnvaldsúrskurði. Þá var tilgreint að í kjölfar bréfs kæranda, dags. 28. desember 2013, hefði heilbrigðiseftirlitið kannað meinta breytta hagnýtingu fasteignarinnar og notkun tónlistarskólans á umræddu rými, þar sem talið hafi verið af hálfu eftirlitsins að hugsanlega yrði tekin stjórnvaldsákvörðun í málinu. Við þá rannsókn hefði ekkert komið fram er bent hafi til þess að „umfang nýtingar“ á rýminu hefði breyst eða brotið hefði verið gegn starfsleyfi, þrátt fyrir eigendaskipti á fasteigninni. Tilefni hefði ekki verið til þess að heilbrigðiseftirlitið legði mat á truflun sem yrði vegna starfsemi í umræddu rými þar sem mæling á hljóðvist hefði ekki farið fram. Því væri ítrekað það sem fram kæmi í bréfi, dags. 14. febrúar 2014, um að leita skyldi til eftirlitsins eða lögreglunnar þegar meint truflun væri til staðar, svo unnt væri að staðfesta kvartanir um ónæði. Þá var tilgreint að samkvæmt 2. mgr. 13. gr. reglugerðar nr. 941/2002 um hollustuhætti væri heimilt að færa starfsemi á nýjan rekstraraðila, tæki nýr aðili við rekstri sem hefði gilt starfsleyfi. Enn fremur sagði svo: „Með vísan til framangreinds mun Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur ekki aðhafast að svo komnu máli, vegna notkunar [tónlistarskólans] á umræddu rými til kennslu, að því gefnu að ekki komi fram nýjar eða frekari upplýsingar sem gætu breytt afstöðu eftirlitsins til þessa máls.“ Loks var bent á að heimilt væri að kæra ákvörðun tekna á grundvelli reglugerðar um hollustuhætti til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála.    

Málsrök kæranda: Kærandi tekur fram að hann eigi lögvarða hagsmuni af því að gripið verði til aðgerða og skólahald tónlistarskólans stöðvað og kæranda tryggður réttur til friðar og öryggis á heimili sínu. Starfsleyfi tónlistarskólans sé bundið við starfsemi á annarri hæð hússins en hvorki sé fyrir hendi starfsleyfi né rekstrarleyfi fyrir að rækja starfsemi skólans á þriðju hæð þess. Skýrt komi fram í starfsleyfi tónlistarskólans að það gildi einungis í því húsnæði sem byggingarnefnd hafi veitt starfseminni heimild fyrir. Um sé að ræða breytta nýtingu rýmis á hæðinni. Ætli skólinn sér að vera með starfsemi á þriðju hæð beri að sækja um leyfi fyrir því og byggingarnefnd að fjalla um málið, m.a. hvort uppfyllt séu ákvæði byggingarreglugerðar um tónlistarskóla. Beri að uppfylla ákvæði þau er sett séu í starfsleyfinu, byggingarreglugerð og í lögum um fjöleignarhús. Ólíðandi hávaði sé af skólahaldinu fyrir íbúa á sömu hæð hússins.

Málsrök Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur: Af hálfu heilbrigðiseftirlitsins er þess krafist að kæru verði vísað frá úrskurðarnefndinni. Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála sé m.a. gerð krafa til þess að til grundvallar kæru liggi stjórnvaldsákvörðun stjórnvalds. Í máli þessu hafi ekki verið tekin stjórnvaldsákvörðun í samræmi við meginreglur stjórnsýsluréttar. Verði mál ekki kært fyrr en það hafi verið til lykta leitt með stjórnvaldsákvörðun, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Fram komi í bréfi Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur til kæranda, dags. 8. apríl 2014, að það muni að svo komnu máli ekki aðhafast frekar, nema nýjar upplýsingar berist embættinu. Með þessu orðalagi sé vísað til leiðbeininga í bréfi embættisins, dags. 14. febrúar s.á. Tekin hafi verið ákvörðun um meðferð máls, en slík ákvörðun bindi ekki enda á stjórnsýslumál. Á sama hátt hafi almennt verið litið svo á að ákveði stjórnvald að fresta máli, með þeim áskilnaði að taka það upp að nýju berist ný gögn, þá teljist það jafnframt ekki stjórnvaldsákvörðun.

Ekki hafi verð tekin ákvörðun um réttindi og skyldur kæranda, heldur sé beðið viðbragða kæranda á grundvelli þeirra leiðbeininga sem gefnar hafi verið um mælingu á hávaða. Slík mæling hafi ekki farið fram, þar sem kærandi hafi ekki veitt tækifæri til þess með upplýsingagjöf til embættisins, en fyrr verði ekki tekin ákvörðun um að ljúka málinu endanlega.  

Andmæli kæranda við málsrökum heilbrigðiseftirlitsins: Bent sé m.a. á að með bréfi kæranda til heilbrigðiseftirlitsins, dags. 3. mars 2014, hafi verið áréttað að bréf hans, dags. 28. desember 2013, bæri að skoða sem kæru. Sé ástandið í Hverafold 5 orðið óbærilegt og þörf sé skjótra viðbragða til að stöðva starfsemi tónlistarskólans. Hafi heilbrigðiseftirlitið tekið ákvörðun 8. apríl 2014 um aðgerðarleysi og sé það sú ákvörðun sem kærð sé. Um endanlega ákvörðun sé að ræða.

Athugasemdir eiganda eignarhluta tónlistarskólans: Vísað er til þess að við reglubundið eftirlit Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur hjá tónlistarskólanum 31. október 2013 hafi önnur og þriðja hæð hússins að Hverafold 5 verið skoðuð og eingöngu verið gerð athugasemd við ræstigeymslur. Hafi heilbrigðiseftirlitið þegar tekið til skoðunar kvartanir kæranda og komist að þeirri niðurstöðu að ekki verði aðhafst vegna starfsemi skólans á þriðju hæð, enda hafi tónlistarkennsla verið stunduð í þessum hluta hússins síðan árið 1994. Um þetta sé kæranda fullkunnugt um. Muni þriðja hæð hússins áfram þjóna sama tilgangi fyrir tónlistarskólann og hún hafi gert hingað til. Sala á fasteigninni til núverandi eiganda hennar hafi því augljóslega ekkert aukið ónæði í för með sér.

Vakin sé athygli á áliti kærunefndar húsamála í máli nr. 19/2012 en þar sé m.a. tekið fram að eigandi fyrirhugaðrar íbúðar, þ.e. kærandi í máli þessu, verði að sætta sig við þá atvinnustarfsemi sem fram fari í húsinu, enda geti tilkoma hennar ekki sett öðrum eigendum nýjar og þrengri skorður á nýtingu eignarhluta sinna. Með vísan til þessa sé ljóst að kærandi verði að sætta sig við þá atvinnustarfsemi sem fram fari og farið hafi fram liðna áratugi í húsinu. Haldi kærandi því nú fram að tónlistarskólinn, sem almennt sé einungis með starfsemi á daginn, og í mesta lagi fram yfir kvöldmat, samrýmist ekki sinni eigin breyttu notkun. Sé þessi málatilbúnaður fráleitur og beri að hafna honum.

Þá sé bent á álit kærunefndar húsamála í máli nr. 92/2013 en þar hafi verið hafnað kröfu kæranda í máli þessu um að gagnaðila [tónlistarskólanum] væri óheimilt að hagnýta eignarhluta sinn á þriðju hæð hússins sem tónlistarskóla og til útleigu salar til veisluhalda.
 
Niðurstaða: Tilefni kærumáls þessa er efni bréfs Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur, dags. 8. apríl 2014, vegna kvörtunar kæranda um ónæði sem stafaði af starfrækslu tónlistarskóla á þriðju hæð fjöleignarhússins að Hverafold 5 og kröfu hans um aðgerðir heilbrigðiseftirlitsins af því tilefni.

Svo sem rakið er í málavaxtalýsingu var í nefndu bréfi upplýst um viðbrögð heilbrigðiseftirlitsins í kjölfar kvartana kæranda og tekið fram að ekki væri tilefni til að meta truflun vegna umdeildrar starfsemi þar sem mæling á hljóðvist hefði ekki farið fram. Var þar og áréttað að leitað skyldi til eftirlitsins eða lögreglu þegar meint truflun væri til staðar svo unnt væri að staðreyna ónæði sem fylgja kynni umræddri starfsemi. Tilkynnti heilbrigðiseftirlitið í greindu bréfi að af framangreindum ástæðum yrði ekki aðhafst að svo komnu máli af þess hálfu vegna starfsemi tónlistarskóla í húsinu.

Til þess að ganga úr skugga um hvort hljóðvist sé innan þeirra marka sem eiga við um íbúðarhúsnæði þarf hljóðmæling að fara þar fram á þeim tíma sem starfsemi sú sem ætlað er að valdi hávaða fer fram. Eðli máls samkvæmt þarf framkvæmd slíkrar hljóðmælingar að vera í samráði við kæranda eða umráðamann húsnæðis. Þarf enda slík mæling eftir atvikum að fara fram innan íbúðar. Í ljósi þess bjuggu efnislegar ástæður að baki þeirri ákvörðun heilbrigðiseftirlitsins að afgreiða ekki erindi kæranda að svo stöddu. Ber orðalag bréfs heilbrigðiseftirlitsins til kæranda, dags. 8. apríl 2014, berlega með sér að ekki var um að ræða lyktir málsins.  

Að öllu framangreindu virtu felur hin kærða afgreiðsla heilbrigðiseftirlitsins ekki í sér lokaákvörðun máls en samkvæmt 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þarf svo að vera svo máli verði skotið til æðra stjórnvalds. Verður kærumáli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni.  

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

                                   ______________________________              _____________________________                                                       
Ómar Stefánsson                                                    Aðalheiður Jóhannsdóttir              

110/2014 Hringbraut

Með
Árið 2016, miðvikudaginn 1. júní 2016, tók Ómar Stefánsson, varaformaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála fyrir mál nr. 110/2014 með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr.  l. nr. 130/2011.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 13. október 2014, er barst nefndinni sama dag, kærir S, Víðimel 58, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 16. september 2014 um að veita byggingarleyfi fyrir breytingum á húsinu að Hringbraut 79. Gerir kærandi þá kröfu að samþykki fyrir breytingum á innra skipulagi hússins “ í þeim tilgangi að breyta því úr venjulegu íbúðarhúsnæði í gistihús, verði felld úr gildi.”

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 18. desember 2014.

Málsatvik og rök:  Hinn 13. maí 2014 var tekin fyrir á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa umsókn um leyfi til að hækka þak og byggja kvisti, grafa frá kjallara og innrétta tvær íbúðir í húsi á lóð nr. 79 við Hringbraut. Við breytingarnar stækkaði húsið um 31 fermetra. Var málinu vísað til skipulagsfulltrúa til ákvörðunar um grenndarkynningu. Skipulagsfulltrúi samþykkti á fundi sínum 16. s.m. að grenndarkynna erindið og bárust athugasemdir frá nágrönnum, þar á meðal kæranda. Skipulagsfulltrúi tók erindið fyrir að lokinni grenndarkynningu 8. ágúst 2014 og vísaði því til umhverfis- og skipulagsráðs. Málið var á dagskrá ráðsins 13. s.m. sem gerði ekki athugasemdir við erindið með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa, dags. 6. ágúst 2014. Var málinu vísað til fullnaðarafgreiðslu byggingarfulltrúa sem samþykkti umsótt byggingarleyfi hinn 16. september 2014 og var sú afgreiðsla staðfest í borgarráði 18. s.m. Byggingarleyfi var síðan gefið út 17. október 2014.

Af hálfu kæranda er vísað til þess að með heimiluðum breytingum á húsinu við Hringbraut 79, sem tilheyri grónu íbúðarhverfi, sé  farið á svig við gildandi lög og reglugerðir um íbúðarhúsnæði og skipulag íbúðarhverfa í þeim tilgangi að breyta húsinu í  hótel eða gistiheimili. Samþykktar teikningar beri með sér að ekki sé gert ráð fyrir að búið verði í húsinu, sem eftir breytingar uppfylli ekki kröfur um íbúðarhúsnæði þar sem á teikningum sé ekki að finna annað eldhús en eldhúskrók í kjallara hússins. Hins vegar sé gert ráð fyrir sjö baðherbergjum. Þurfi ekki að velkjast í vafa um tilgang breytinganna og fráleitt að halda því fram að hið kærða leyfi feli í sér að breyta húsinu úr þriggja í tveggja íbúða hús. Þar sem ekki verði búið í húsinu verður ekki rekin þar heimagisting sem háð sé öðrum skilyrðum en gistiheimili og hótel. Með byggingarleyfinu sé farið á svig við lög um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald og gengið gróflega á rétt kæranda sem næsta nágranna. Húsið að Hringbraut 79 standi á horni þar sem fjöldi gangandi og hjólandi skólabarna fari um og með nýjum inngangi hússins að Hofsvallagötu sé verið að fórna öryggi á gangstéttinni og á nýrri hjólreiðabraut. Þurft hefði að leita umsagnar Hofsvallagötunefndar og Melaskóla um þá ákvörðun. Aukin ásókn ferðamanna hafi verið í leiguherbergi í íbúðarhverfum með tilheyrandi röskun og verðfalli fasteigna nágranna vegna hávaða og mengunar frá umferð þegar rútur sækji fólk og farangur á öllum tímum sólarhrings. Framganga borgaryfirvalda í máli þessu sýni að ekki sé staðið vörð um hagsmuni íbúa þegar atvinnustarfsemi eins og útleiga herbergja hafi forgang fram yfir umferðaröryggi og heimili húseigenda á staðnum. Með sömu þróun muni rútur og fjallajeppar leggja undir sig götur íbúðarhverfa í eldri hluta borgarinnar. Hér séu undir hagsmunir allra íbúa í hverfinu og borgarbúa í heild.

Borgaryfirvöld benda á að með hinu kærða byggingarleyfi hafi verið fallist á að innrétta tvær íbúðir í stað þriggja í húsinu að Hringbraut 79 en ekki hafi verið samþykkt gistiheimili í umræddu húsi. Í byggingarreglugerð sé fjölda eldhúsa eða salerna ekki takmörk sett og uppfylli samþykktir uppdrættir ákvæði reglugerðarinnar um íbúðir. Í 3. gr. laga um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald nr. 85/2007 sé heimagisting skilgreind svo að um sé að ræða gistingu á heimili leigusala og sé þar átt við einkaheimili eða lögheimili leigusala. Túlka verði nefnt lagaákvæði á þann veg að það sé skilyrði að eigandi búi í hinu leigða húsnæði ásamt þeim er greiði endurgjald fyrir gistinguna. Leiga á séreign sem leigusali búi ekki í, þó í sama húsi sé, falli ekki undir hugtakið heimagisting í lögunum heldur sé þá um útleigu á íbúð að ræða.    Ekki sé áskilið  leyfi skipulagsyfirvalda fyrir heimagistingu. Þá hafi ekki verið sýnt fram á að með umræddum breytingum aukist slysahætta vegna innkeyrslu að bílskúrum frá Hofsvallagötu enda engin breyting þar á frá áður samþykktum teikningum. 

Niðurstaða: Upplýst er að eftir veitingu hins kærða byggingarleyfis var tekin fyrir umsókn á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 24. febrúar 2015 um byggingarleyfi samkvæmt nýjum uppdráttum að breytingum á húsinu að Hringbraut 79.  Var sú umsókn samþykkt á þeim fundi með áritun byggingarfulltrúa á aðaluppdrætti. Sú afgreiðsla var staðfest í borgarráði hinn 26. s.m. Hið nýja byggingarleyfi er í stórum dráttum sama efnis og hið kærða byggingarleyfi en heimilaðar voru breytingar á innra fyrirkomulagi húss og ytra útliti þess frá því sem ráð var fyrir gert í hinu fyrra leyfi.  Liggur því fyrir að samþykkt hefur verið nýtt byggingarleyfi fyrir breytingum á húsinu að Hringbraut 79 en sú byggingarleyfisákvörðun hefur ekki verið borin undir úrskurðarnefndina.

Hefur hin kærða ákvörðun af framangreindum ástæðum ekki réttarverkan að lögum eftir gildistöku hinnar yngri ákvörðunar og á kærandi af þeim sökum ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um gildi hennar. Hvað sem lögmæti hinnar kærðu ákvörðunar líður, stæði hið nýja byggingarleyfi óhaggað allt að einu. Verður máli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni með hliðsjón af 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

________________________________________
Ómar Stefánsson

 

39/2014 Fálkaklettur

Með
Árið 2016, mánudaginn 30. maí 2016, tók Ómar Stefánsson, varaformaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála fyrir mál nr. 39/2014 með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr.  laga nr. 130/2011.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 27. apríl 2014, er barst úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála 28. s.m., kærir Þ, Fálkakletti 5, Borgarnesi, ákvörðun byggingarfulltrúa Borgarbyggðar, sem tilkynnt var með bréfi, dags. 2. apríl 2014, um að beita ekki þvingunarúrræðum vegna byggingar sem standi við lóðamörk Fálkakletts 5 og 7. Er gerð sú krafa að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Málsatvik og rök: Með bréfi til byggingarfulltrúa Borgarbyggðar, dags. 11. desember 2013, sendi kærandi kvörtun í tilefni af byggingu sem staðsett var á lóðinni Fálkakletti 7 við lóðarmörk fasteignar kæranda að Fálkakletti 5. Var erindið tekið fyrir á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 21. janúar 2014 og bókað: „Þórdís Arnardóttir er með fyrirspurn er varðar byggingu á Fálkakletti 7 fyrir fiðurfénað. Málið var lagt fram og byggingarfulltrúa falið að svara erindinu.“ Við könnun á vettvangi kom í ljós að umræddur hænsnakofi stóð nær lóðamörkum Fálkakletts 5 og 7 en sem nam 3 metrum. Í svarbréfi byggingarfulltrúa til kæranda, dags. 2. apríl 2014, var sú niðurstaða tilkynnt að það væri mat byggingarfulltrúa að ekki væri ástæða til að fara í þvingunaraðgerðir vegna málsins þar sem ekki hafi verið gerðar athugasemdir við staðsetningu kofans fyrr en löngu eftir að honum hafi verið komið fyrir.

Kærandi vísar til þess að umdeild bygging standi innan við 3 metra frá mörkum lóðar hans og hefði því þurft að koma til samþykki kæranda skv. 6. tl. g liðar gr. 2.3.5 í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Slíkt samþykki liggi ekki fyrir. Staðsetning byggingarinnar og notkun hafi truflandi áhrif gagnvart kæranda enda standi hún alveg á mörkum nefndra lóða.

Niðurstaða: Í umsögn byggingarfulltrúa til úrskurðarnefndarinnar, dags. 17. maí 2016, kemur fram að eigandi umdeilds hænsnakofa, sem staðsettur var á lóðinni Fálkakletti 7, sé fluttur og hafi tekið hænsnakofann með sér, en kærumálið snýst um lögmæti staðsetningar nefnds kofa nærri mörkum lóðar kæranda.

Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, sem tekið hefur við þeim málum sem áður áttu undir úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála, er sett það skilyrði fyrir aðild að kærumálum fyrir úrskurðarnefndinni að viðkomandi eigi lögvarða hagsmuni tengda ákvörðun sem kæra skal nema að lög kveði sérstaklega á annan veg. Þar sem umdeildur kofi hefur verið fjarlægður af lóðinni Fálkakletti 7 á kærandi ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá hinni kærðu ákvörðun hnekkt. Af þeim sökum verður máli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

___________________________________________
Ómar Stefánsson

117/2015 Brynjureitur

Með
Árið 2016, fimmtudaginn 12. maí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ómar Stefánsson varaformaður og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 117/2015, kæra á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 29. október 2015 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Brynjureits.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 23. desember 2015, er barst nefndinni sama dag, kærir húsfélagið Klapparstíg 29, Reykjavík, þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 29. október 2015 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Brynjureits. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 25. febrúar 2016.

Málsatvik og rök: Hinn 22. apríl 2015 var samþykkt á fundi umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur að kynna fyrir hagsmunaaðilum tillögu að breytingu á deiliskipulagi reits 1.172.0, svonefnds Brynjureits, og kom kærandi á framfæri athugasemdum við þá kynningu. Með breytingartillögunni var stefnt að samræmingu þess hluta skipulagsreitsins sem skipulagður hafði verið á árinu 2003 og 2006 við breytingar þær sem gerðar voru á deiliskipulagi reitsins á árinu 2013. Voru skipulagsskilmálar alls reitsins m.a. endurskoðaðir og samræmdir. Málið var á dagskrá ráðsins hinn 10. júní og 8. júlí s.á. og lá þá fyrir umsögn skipulagsstjóra um framkomnar athugasemdir, sem og lagfærðir uppdrættir. Var ákveðið að auglýsa tillöguna til kynningar. Málinu var í kjölfarið vísað til borgarráðs sem staðfesti þá afgreiðslu hinn 16. júlí 2015. Að lokinni kynningu samþykkti umhverfis- og skipulagsráð hina kynntu tillögu 14. október s.á., með þeim breytingum sem lagðar voru til í fyrirliggjandi umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 12. s.m. Var sú ákvörðun staðfest í borgarráði 22. s.m. og tók deiliskipulagsbreytingin gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 26. nóvember 2015, að undangenginni umfjöllun Skipulagsstofnunar lögum samkvæmt.

Kærandi vísar til þess að lóðin Klapparstígur 29 sé 705 m² en ekki 330 m² líkt og hið samþykkta deiliskipulag byggi á. Eignaskiptayfirlýsing sem gerð hafi verið fyrir Klapparstíg 29 á árinu 1991, þar sem lóðinni hafi verið skipt upp í þrjár lóðir, hafi aldrei verið samþykkt lögum samkvæmt af byggingarnefnd en sú nefnd hafi hafnað þeirri skiptingu lóðarinnar 11. júní 1991. Yfirlýsingin geti því ekki verið gild eignarheimild þeirra sem telji sig núverandi eigendur Klapparstígs 29a. Jafnvel þótt Reykjavíkurborg hafi keypt lóðina Klapparstíg 29a árið 1998, sem skilin hafi verið frá lóðinni Klapparstíg 29 með ólögmætum hætti, verði það vart talið jafngilda samþykki borgaryfirvalda fyrir skiptingu lóðarinnar í verki eins og borgaryfirvöld hafi haldið fram. Telji kærendur að lóðaskiptingin á þeim tíma hafi farið í bága við reglur fjöleignarhúsalaga um ráðstöfun sameignar. Umhverfis- og skipulagssvið hafi viðurkennt í bréfi, dags. 7. nóvember 2013, að óvissa ríkti um stærð lóðar og umferð að bakgarði Klapparstígs 29 og veki það furðu að í umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 12. október 2015, komi fram að ekki leiki nokkur vafi á að lóðin Klapparstígur 29 sé 330 m². Af þessu verði ekki annað ráðið en að þetta atriði hafi ekki verið kannað með viðeigandi hætti í samræmi við rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Samkvæmt upplýsingum sýslumanns frá 27. september 2013 hafi lóðin Klapparstígur 29 þá verið skráð í bókum embættisins 705 m², en þeirri skráningu hafi hins vegar verið breytt fyrirvaralaust og án tilkynningar til kæranda. Stærð lóðarinnar hafi verið skráð á sama veg í Þjóðskrá hinn 10. júlí 2014.
   
Borgaryfirvöld vísa til þess að lóðin Klapparstígur 29 hafi upphaflega verið 750 m² en eftir sölu 45 m² af lóðinni til lóðarhafa Laugavegar 25 á árinu 1985 hafi lóðin verið skráð 705 m². Í nóvember 2011 hafi lóðinni Klapparstíg 29 verið skipt upp í þrjá hluta. Klapparstígur 29 hafi þá orðið 330 m², baklóðin 308 m² og 67 m² umferðarsvæði. Sé sú skipting í samræmi við þinglýsta eignaskiptayfirlýsingu frá árinu 1991 í kjölfar þessa að allir eignarhlutar aðalhúss að Klapparstíg 29 hafi verið seldir. Í þeim kaupsamningum hafi komið fram að lóðin Klapparstígur 29 væri 330 m². Með kaupum borgarinnar á baklóðinni og umferðarsvæðinu á árinu 1998 hafi borgaryfirvöld viðurkennt í verki lóðarskiptinguna sem byggt hafi verið á í greindri eignaskiptayfirlýsingu frá árinu 1991. Hvað sem öðru líði geti kærendur ekki gert tilkall til frekari lóðarréttinda en leiði af heimildarskjölum þeirra. Bent sé á að með úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 60/2013, uppkveðnum 25. nóvember 2015, hafi því verið slegið föstu að skoðun á þinglýstum gögnum, svo sem afsölum og kaupsamningum um Kapparstíg 29, hefði leitt í ljós að sú lóð væri 330 m² og hafi hin kærða deiliskipulagsbreyting í því máli verið talin í samræmi við þinglýst gögn hvað það varðaði.

———-

Aðilar hafa fært fram ítarlegri rök fyrir sjónarmiðum sínum í málinu sem ekki verða rakin nánar hér en úrskurðarnefndin hefur haft þann rökstuðning til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða:  Í máli þessu eru uppi deildar meiningar um stærð lóðarinnar Klapparstígs 29 og byggir kærandi málatilbúnað sinn á því að í hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu sé stærð lóðarinnar ranglega tilgreind 330 m².

Hinn 30. maí 2013 samþykkti borgarráð Reykjavíkur breytingu á deiliskipulagi Brynjureits en lóðin Klapparstígur 29 er innan þess skipulagsreits. Tók breytingin gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 18. júní s.á. Í þeirri deiliskipulagsbreytingu fólst m.a. að lóð, sem nefnd var Klapparstígur 29a og var áður hluti baklóðar Klapparstígs 29, var sameinuð lóðunum Hverfisgötu 40-42 og Laugavegi 27a. Kærandi í máli þessu skaut ákvörðun um nefnda deiliskipulagsbreytingu til úrskurðarnefndarinnar, sem kvað upp úrskurð í því máli 25. nóvember 2015. Í forsendum þess úrskurðar kemur m.a. fram að athugun á þinglýstum skjölum, svo sem afsölum og kaupsamningum um Klapparstíg 29, leiði í ljós að lóðin sem fylgi húsinu að Klapparstíg 29 sé 330 m² og sé hin kærða deiliskipulagsbreyting að því leyti í samræmi við þinglýst gögn. Var kröfu um ógildingu greindrar deiliskipulagsbreytingar hafnað. Liggur því fyrir að úrskurðarnefndin hefur í fyrrgreindu máli tekið afstöðu til þeirrar málsástæðu kæranda sem teflt er fram í máli þessu og lýtur að stærð lóðarinnar Klappastígs 29. Með deiliskipulagsbreytingu þeirri sem um er deilt í máli þessu er stærð og lóðarmörk nefndrar lóðar óbreytt frá fyrri skipulagsbreytingu árið 2013 og hefur þinglýstum skjölum varðandi fasteignina Klapparstíg 29, sem vitnað var til í fyrri úrskurði, ekki verið hnekkt.

Hin kærða skipulagsákvörðun breytir ekki umdeildum lóðarréttindum kæranda frá gildistöku deiliskipulagsbreytingar fyrir umræddan skipulagsreit hinn 18. júní 2013, en í þeirri breytingu var við það miðað að lóðin Klapparstígur 29 væri 330 m². Þá verður og að líta til þess að deiliskipulag getur ekki að lögum falið í sér ráðstöfun beinna eða óbeinna eignaréttinda. Skortir af þessum sökum á að kærandi eigi þá lögvörðu hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun sem 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála gerir að skilyrði fyrir kæruaðild.

Að öllu framangreindu virtu, og þar sem það er utan valdsviðs úrskurðarnefndarinnar að leiða til lykta ágreining um eignarréttindi, verður máli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ómar Stefánsson                                                   Ásgeir Magnússon

38/2016 Markavegur

Með
Árið 2016, fimmtudaginn 12. maí, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011 fyrir:

Mál nr. 38/2016, kæra vegna dráttar á afgreiðslu erindis um að fjarlægja rafmagnskassa, háspennustrengi og spindla af lóðinni nr. 1 við Markaveg í Kópavogi.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 11. apríl 2016, er barst nefndinni 14. s.m., kæra lóðarhafar Markavegar 1, Kópavogi, drátt á afgreiðslu erindis kærenda frá 1. ágúst 2014 um að fjarlægja rafmagnskassa, háspennustrengi og spindla af lóðinni nr. 1 við Markaveg í Kópavogi. Skilja verður málskot kærenda svo að krafist sé að lagt verði fyrir Kópavogsbæ að taka fyrrgreint erindi kærenda til efnislegrar afgreiðslu.

Gögn málsins bárust frá Kópavogsbæ 4. maí 2016.

Málsatvik og rök: Árið 2008 fengu kærendur úthlutað hesthúsalóð að Markavegi 1, á svæði þar sem í gildi er deiliskipulag fyrir Kjóavelli, hesthúsahverfi. Með bréfi kærenda til bæjarstjóra Kópavogs, dags. 1. ágúst 2014, var farið fram á að Kópavogsbær fjarlægði rafmagnskassa, háspennustrengi og spindla af lóð kærenda. Gerð var krafa um að sveitarfélagið yrði við nefndum kröfum eigi síðar en 19. september s.á., ella yrði litið svo á að það hefði synjað erindinu. Sveitarfélagið varð ekki við nefndum kröfum og skutu kærendur þá málinu til úrskurðarnefndarinnar sem kvað upp úrskurð 30. mars 2016 í máli nr. 112/2014. Vísaði úrskurðarnefndin málinu frá þar sem ekki lægi fyrir í því lokaákvörðun sem kæranleg væri til nefndarinnar. Nefndin tók hins vegar fram að erindi kærenda væri enn óafgreitt.

Kærendur taka fram að enn hafi ekki verið tekin nein ákvörðun vegna erindis kærenda frá 1. ágúst 2014 og sé því enn ósvarað um 20 mánuðum síðar. Ekki verði séð að í erindi kærenda felist neitt sem réttlæti þann langa tíma sem tekið hafi Kópavogsbæ að bregðast við. Sé ekki að sjá að upplýsingaöflun í málinu hafi verið tímafrek eða erfið viðureignar, enda ekki um umfangsmikið mál að ræða. Auk þess ættu gögn málsins að vera Kópavogsbæ aðgengileg. Aftur á móti sé um mikla hagsmuni að ræða fyrir kærendur sem geti ekki hagnýtt lóð sína til fulls. Hafi Kópavogsbær brotið gegn 1. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 auk hinnar óskráðu meginreglu stjórnsýsluréttar um málshraða. Þá hafi Kópavogsbær aldrei tilkynnt kærendum um tafir á afgreiðslu málsins, en slíkt hefði bænum borið að gera að eigin frumkvæði. Hafi þannig einnig verið brotið gegn 3. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga.

Af hálfu Kópavogsbæjar er tekið fram að samkvæmt gildandi deiliskipulagi sé umræddur rafmagnskassi staðsettur á lóð kærenda. Hjá sveitarfélaginu sé nú til meðferðar deiliskipulagsbreyting fyrir lóðir nr. 1-9 við Markaveg. Frestur til að skila inn athugasemdum sé til og með 20. maí 2016. Með umræddri breytingu muni rafmagnskassinn, lagnir og háspennustrengir standa utan lóðarmarka Markavegar 1. Sé því að vænta ákvörðunar sem muni hafa áhrif á erindi kærenda og líti sveitarfélagið því svo á að erindið sé í vinnslu.

Niðurstaða: Með bréfi, dags. 1. ágúst 2014, beindu kærendur þeim kröfum til Kópavogsbæjar að fjarlægja rafmagnskassa, háspennustrengi og spindla á lóð þeirra að Markavegi 1. Ekki hefur verið tekin ákvörðun þar um af hálfu Kópavogsbæjar, en samkvæmt upplýsingum sveitarfélagsins er nú til meðferðar tillaga að deiliskipulagsbreytingu fyrir lóðir nr. 1-9 við Markaveg. Mun breytingin fela í sér að hlutir þeir sem kærendur hafa krafist að verði fjarlægðir muni standa utan lóðar kærenda.

Samkvæmt 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal stjórnvald taka ákvarðanir í málum svo fljótt sem unnt er. Það er álit úrskurðarnefndarinnar að afgreiðsla málsins hafi dregist verulega úr hófi fram, enda langt liðið á annað ár frá því að kærendur settu fram kröfur sínar gagnvart sveitarfélaginu. Hins vegar er til þess að líta að til meðferðar er tillaga að deiliskipulagsbreytingu sem m.a. lýtur að lóð kærenda. Gefur það tilefni til að ætla að málinu verði lokið án tafa að þeim tíma liðnum sem ákveðinn er í skipulagslögum nr. 123/2010 til meðferðar slíkra skipulagsbreytinga. Með hliðsjón af því að málið er nú í vinnslu og að niðurstöðu er að vænta í því er ekki tilefni fyrir úrskurðarnefndina að fjalla frekar um það á þessu stigi og verður því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Dragist hins vegar meðferð nefndrar deiliskipulagsbreytingartillögu, og þar með afgreiðsla erindis kærenda, úr hófi miðað við það sem skipulagslög kveða á um er unnt að kæra dráttinn að nýju til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

60/2012 Langholtsvegur

Með
Árið 2016, fimmtudaginn 12. maí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ómar Stefánsson varaformaður og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 60/2012, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 13. mars 2012 um að endurnýja byggingarleyfi fyrir breytingum á húsi að Langholtsvegi 87 í Reykjavík og vegna framkvæmda á þeirri lóð.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 8. júní 2012, er barst nefndinni sama dag, kærir H, Langholtsvegi 89, Reykjavík, ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík um veitingu byggingarleyfis fyrir breytingum á húsi að Langholtsvegi 87 o.fl.

Gerir kærandi þá kröfu að hið kærða byggingarleyfi verði fellt úr gildi og framkvæmdir á grundvelli þess stöðvaðar til bráðabirgða á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Þá er gerð krafa um að skiptasamningur um þrjár íbúðir fyrir nefnda fasteign verði felldur úr gildi, að húskofi og trjágróður á lóðamörkum við fasteign kæranda verði fjarlægður og að girðing og lóð við lóðamörk verði löguð. Er kæra barst í máli þessu mun framkvæmdum við heimilaðar breytingar samkvæmt hinu kærða byggingarleyfi að mestu hafa verið lokið og var því ekki tilefni til að taka afstöðu til fram kominnar kröfu um stöðvun framkvæmda. Verður málið nú tekið til endanlegs úrskurðar.

Málavextir: Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 15. júlí 2008 var  samþykkt umsókn um leyfi til að endurbyggja og stækka þakhæð og byggja nýja kvisti á húsið að Langholtsvegi 87, sem stækkaði við það um 5,8 m². Leyfið féll úr gildi þar sem framkvæmdir hófust ekki innan lögboðins frests og var endurnýjun byggingarleyfisins samþykkt hinn 13. mars 2012. Var sú afgreiðsla staðfest í borgarráði 15. s.m. Munu framkvæmdir hafa byrjað í kjölfarið og hafði kærandi sambandi við borgaryfirvöld og gerði athugasemdir við þær.

Í tölvupóstum kæranda í aprílmánuði s.á. kom m.a. fram að hann teldi að um væri að ræða óleyfilega hækkun á húsi, sem valda myndi skugga austan megin á fasteign hans. Kom jafnframt fram að kæranda hefði skilist að byggingarleyfi fyrir hækkun á þaki og kvistum hefði verið gefið út 2008 og endurnýjað 2012. Byggingaryfirvöld könnuðu málið og var kæranda tilkynnt með tölvupósti 4. maí 2012 að um tvö byggingarleyfi væri að ræða, það fyrra frá árinu 2008, en hið síðara, frá 13. mars 2012, væri endurnýjun á því fyrra. Í leyfinu fælist heimild til að endurbyggja þak hússins með meiri styrk og hærra einangrunargildi. Við það hækkaði mænir hússins um 15 cm frá því sem hann væri fyrir og kvistar hækkuðu einnig vegna þessa um 20 cm. Loks sagði að athugun á staðnum hefði sýnt að framkvæmdin væri í samræmi við greind gögn. Kærandi svaraði því til í tölvupósti sama dag að hann gerði ekki frekari athugasemdir vegna hækkunar þaksins og að hann væri sáttur við vinnu embættis byggingarfulltrúa vegna þeirra framkvæmda. Í sama tölvupósti gerði kærandi hins vegar athugasemdir við trjágróður og tréhýsi á lóð framkvæmdaraðila, sem væri á mörkum lóðar kæranda. Með tölvupósti 8. maí 2012 var kæranda svarað á ný og tiltekið að samræmi væri á milli deiliskipulags og byggingarleyfis. Auk þess hefði framkvæmd á byggingarstað sætt athugun að nýju og væri hún í samræmi við nefnt leyfi. Þá hefði fulltrúi embættis byggingarfulltrúa ekki orðið var við neina hluti á eða við lóðamörk, svo sem kærandi hefði nefnt.

Með tölvupósti 8. júní 2012 sendi kærandi athugasemdir að nýju til embættis byggingarfulltrúa. Kom þar m.a. fram að kærandi teldi stækkun kvista brot á skipulagi og að það myndi svipta íbúð sína sól, vestan megin. Þá væri verið að byggja þrjár íbúðir í stað tveggja áður. Jafnframt kom fram að kærandi hefði vegna flutninga ekki komist í að svara fyrr eða kæra. Óskaði kærandi eftir því að málið yrði tekið fyrir formlega á fundi borgarinnar og minntist auk þess á mögulega kæruleið. Kæranda var svarað með tölvupósti 11. s.m. Var þar vísað til fyrri svara embættis byggingarfulltrúa en jafnframt bent á að ákvarðanir í skipulags- og byggingarmálum væru kæranlegar til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála skv. lögum nr. 130/2011.

Málsrök kæranda: Kærandi vísar til þess að umdeilt byggingarleyfi heimili stóra viðbyggingu í formi tveggja kvista á húsið að Langholtsvegi 87. Þá sé hækkun á þaki og tveimur kvistum, sem snúi í suður, ólögmæt og með framkvæmdunum sé hagsmunum kæranda verulega raskað með skerðingu sólarljóss og útsýnis. Hið kærða byggingarleyfi eigi hvorki stoð í lögum né deiliskipulagi og hafi  fengist útgefið undir því yfirskini að um væri að ræða lagfæringu á þaki, þótt ljóst sé að um umfangsmikla viðbyggingu sé að ræða. Byggingarfulltrúi hafi vanrækt upplýsinga- og eftirlitsskyldu með því að aðhafast ekkert þrátt fyrir að kærandi hafi leitað aðstoðar embættisins. Kærandi geti ekki sætt sig við fjölgun íbúða úr tveimur í þrjár að Langholtsvegi 87 með skiptasamningi sem sé ólögmætur að hans mati. Veruleg umferð og ólögleg lagning ökutækja við og á lóð kæranda á vegum eigenda Langholtsvegar 87 sé daglegt brauð og muni ágangur aukast með fjölgun íbúða. Á lóðamörkum Langholtsvegar 87 og 89 sé óleyfisbygging sem beri að fjarlægja ásamt trjám og trjárótum, sem skemmi lóð kæranda og skerði útsýni og sólarljós. Þá sé girðing á lóðamörkum að svigna undan trjágróðri og rótum. Kærandi hafi skotið máli þessu til úrskurðarnefndarinnar innan mánaðar frá því að ljóst hafi orðið að umdeilt byggingarleyfi og skiptasamningur stæðust ekki lög.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er farið fram á að öllum kröfum kæranda í máli þessu verði vísað frá úrskurðarnefndinni, en að öðrum kosti hafnað. Kæra í máli þessu hafi borist að liðnum eins mánaðar kærufresti samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Ljóst sé af fyrirliggjandi tölvupóstsamskiptum kæranda og byggingaryfirvalda að kæranda hafi í síðasta lagi  23. apríl 2012 verið kunnugt um  umdeildar framkvæmdir. Þá hafi kæranda verið tilkynnt í tölvubréfi 8. maí s.á. að athugun byggingaryfirvalda hefði leitt í ljós að fullt samræmi væri milli framkvæmda, uppdrátta og skipulags. Tölvupóstur kæranda til byggingarfulltrúa 8. júní 2012 breyti engu um útreikning kærufrests. Geti kærandi, sem sé löglærður, ekki borið fyrir sig vanþekkingu um kæruleiðir eða kærufresti. Það að byggingarfulltrúi veki athygli á kæruleið hinn 11. s.m. feli ekki í sér afstöðu til kæruheimildar í máli þessu. Í öllu falli hafi kærufrestur í síðasta lagi byrjað að líða 4. maí 2012, þegar umkvörtunum kæranda hafi verið svarað með viðhlítandi hætti. Þeim hluta kæru sem snúi að skiptasamningi, húskofa á lóðamörkum og trjágróðri beri að vísa frá úrskurðarnefndinni enda liggi ekki fyrir kæranlegar ákvarðanir af hálfu borgaryfirvalda er snerti þau atriði.

Um efni máls sé á það bent að samþykkt byggingarfulltrúa í málinu sé í samræmi við mannvirkjalög  nr. 160/2010 og deiliskipulag fyrir Sundin, reit 1.3-1.4, sem samþykkt hafi verið í borgarráði 10. nóvember 2005. Samkvæmt skipulagsskilmálum sé heimilað 354,7 m² hús með þremur íbúðum á lóðinni nr. 87 við Langholtsveg, með nýtingarhlutfall 0,60. Á samþykktum reyndarteikningum frá árinu 2005 sé tilgreint að nýtingarhlutfall lóðarinnar sé 0,61 en á uppdráttum frá 2008 sé það talið 0,611. Þetta skýrist af því að húsið sé í raun aðeins stærra en deiliskipulagsuppdrátturinn segi til um, en stundum gæti einhverrar ónákvæmni við útreikninga á nýtingarhlutfalli í deiliskipulagi. Hönnuðir hafi notast við upplýsingar úr fasteignamatsskrá sem oft séu ekki hárnákvæmar. Hafi þetta ósamræmi enga þýðingu í máli þessu enda heimili deiliskipulag að helmingur flatarmáls kjallara sé undanskilinn við útreikning nýtingarhlutfalls, sé hann niðurgrafinn um 80 cm, eins og hér eigi við. Við hina heimiluðu breytingu stækki umrætt hús um 6 m², mænishæð aukist um 15 cm og kvistir á vesturhlið hækki um 20 cm. Af þessu verði ekki séð að heimilaðar framkvæmdir raski með nokkrum hætti hagsmunum kæranda.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um gildi byggingarleyfis vegna endurbyggingar þaks og kvista á húsi að Langholtsvegi 87. Auk þess hefur kærandi gert kröfu um að skiptasamningur fyrir nefnda fasteign verði felldur úr gildi, að húskofi og trjágróður á lóðamörkum við fasteign kæranda verði fjarlægður og að girðing og lóð við lóðamörkin verði löguð. Ágreiningur um efni skiptasamninga heyrir ekki undir úrskurðarnefndina og verður því ekki fjallað frekar um þá kröfu kæranda.

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur nefndin það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála efir því sem mælt er fyrir um í lögum á þessu sviði. Í 2. mgr. 4. gr. sömu laga er kærufrestur tiltekinn einn mánuður frá því að kærandi vissi eða mátti vita um þá ákvörðun sem kæra á.

Svo sem rakið er í málavaxtalýsingu gerði kærandi athugasemdir í apríl 2012 við þá framkvæmd sem hið kærða leyfi heimilar og var af þeim ljóst að hann var ósáttur við framkvæmdina. Kærandi var upplýstur um efni byggingarleyfisins 4. maí s.á. og byrjaði þá kærufrestur að líða. Kæra í málinu barst með símbréfi 8. júní s.á. og var þá kærufrestur liðinn, sbr. nefnda 2. mgr. 4. gr. Kemur þá til skoðunar hvort að afsakanlegt verður talið að kæra hafi borist að kærufresti liðnum, sbr. 1. tl. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Um þann tölulið segir í frumvarpi því sem varð að stjórnsýslulögum að nefna megi sem dæmi að lægra sett stjórnvald hafi vanrækt að veita leiðbeiningar um kæruheimild skv. 20. gr. eða veitt rangar eða ófullnægjandi upplýsingar. Enn fremur segir að líta þurfi til þess hvort aðilar að málinu séu fleiri en einn og með andstæða hagsmuni, en undir þeim kringumstæðum sé rétt að taka mál einungis til kærumeðferðar að liðnum kærufresti í algjörum undantekningartilvikum.

Í tölvupósti þar sem kærandi var upplýstur um áðurnefnt byggingarleyfi var ekki leiðbeint um kæruleið eða kærufresti. Kærandi svaraði hins vegar sama dag og tók þar fram að hann gerði ekki athugasemdir við þær framkvæmdir sem heimilaðar voru með hinu kærða leyfi. Þrátt fyrir að kærandi hefði á fyrri stigum lýst óánægju sinni með framkvæmdina verður að líta svo á að ekki hafi verið tilefni fyrir sveitarfélagið að svo stöddu til að veita leiðbeiningar um kæruheimild eða fresti vegna þeirrar ákvörðunar. Benti enda ekkert til annars en að um hana ríkti sátt. Þá skal á það bent að í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 130/2011 er tekið fram í athugasemdum með 2. mgr. 4. gr. að kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar sé styttri en almennur kærufrestur stjórnsýslulaga. Segir nánar að brýnt sé að ágreiningur um form eða efni ákvörðunar verði staðreyndur sem fyrst og áréttað í því samhengi að eftir því sem framkvæmdir séu komnar lengra áður en ágreiningur um þær verði ljós skapist meiri hætta á óafturkræfu tjóni af bæði umhverfislegum og fjárhagslegum toga. Sjónarmið um réttaröryggi og tillit til hagsmuna leyfishafa liggja því þarna að baki. Byggingarleyfishafi hefur eðli máls samkvæmt ríkra hagsmuna að gæta í málinu. Með vísan til þess sem að framan er rakið verður sá þáttur málsins er lýtur að fyrrgreindu byggingarleyfi ekki tekin til efnismeðferðar að liðnum kærufresti á grundvelli undantekningaákvæða 28. gr. stjórnsýslulaga. Verður þeim hluta kærunnar því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Eins og greinir í málavaxtalýsingu gerði kærandi með tölvupósti sínum 4. maí 2012 athugasemdir við trjágróður og tréhýsi á lóð framkvæmdaraðila og fór m.a. fram á „að byggingafulltrúi hlutist til um að skora á eiganda Langholtsvegar 87, vegna ólögmætrar byggingu á lóðarmörkum 87 89“. Hann fékk þau svör með tölvupósti 8. s.m. að fulltrúi embættis byggingarfulltrúa hefði ekki orðið var við neina þá hluti á eða við lóðamörk sem kærandi hefði nefnt og hugsanlega væru án byggingarleyfis. Jafnvel þótt að litið verði svo á að kærandi hafi með framangreindum tölvupósti sett fram þá kröfu að byggingarfulltrúi beitti þvingunarúrræðum þeim sem honum eru tiltæk samkvæmt lögum nr. 160/2010 um mannvirki verður ekki séð að hann hafi tekið lokaákvörðun þess efnis að þeim yrði ekki beitt, enda báru  framangreind samskipti þess merki að um upplýsingagjöf væri að ræða um þá vettvangskönnun sem fram hefði farið á vegum embættis byggingarfulltrúans. Þar sem ekki var um að ræða neina þá ákvörðun sem bindur enda á mál og kæranleg er til úrskurðarnefndarinnar, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga, verður einnig að vísa kæru málsins frá hvað þetta varðar.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ómar Stefánsson                                                   Ásgeir Magnússon                                    

33/2014 Sölvaslóð

Með
Árið 2016, fimmtudaginn 12. maí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 33/2014, kæra á ákvörðun umhverfis- og skipulagsnefndar Snæfellsbæjar frá 25. mars 2014 um að synja um byggingarleyfi fyrir sumarhúsi að Sölvaslóð 1, Arnarstapa í Snæfellsbæ.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 22. apríl 2014, er barst nefndinni sama dag, kærir E, ákvörðun umhverfis- og skipulagsnefndar Snæfellsbæjar frá 25. mars 2014 um að synja um byggingarleyfi fyrir sumarhúsi að Sölvaslóð 1, Arnarstapa. Skilja verður málsskot kæranda svo að gerð sé krafa um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar.

Gögn málsins bárust frá Snæfellsbæ 26. maí 2014 og 22. apríl 2016. 

Málavextir: Forsaga málsins er sú að kærandi átti sumarhús á lóðinni Sölvaslóð 1, Arnarstapa, en það brann árið 2009. Í kjölfar þess hefur kærandi nokkrum sinnum sótt um að fá að byggja nýtt sumarhús á lóðinni.

Með úrskurði úrskurðarnefndarinnar nr. 42/2010, uppkveðnum 22. nóvember 2012, var ákvörðun umhverfis- og skipulagsnefndar Snæfellsbæjar frá 25. maí 2010, um að synja umsókn um byggingarleyfi fyrir 105,1 m² sumarhúsi að Sölvaslóð 1, felld úr gildi. Í úrskurðinum kom m.a. fram að synjunin hefði verið byggð á deiliskipulagstillögu sem hefði ekki öðlaðast gildi, þar sem lögboðin auglýsing um gildistöku hennar hefði aldrei verið birt í B-deild Stjórnartíðinda. Þá hefði ekki heldur verið unnt að leggja til grundvallar tillögu að nýju deiliskipulagi umrædds svæðis, enda hefði hún þá ekki öðlast gildi.

Úrskurðurinn var tekinn fyrir á fundi umhverfis- og skipulagsnefndar hinn 2. júlí 2013 og í bréfi skipulags- og byggingarfulltrúa til kæranda, dags. 3. s.m., kom fram að í samræmi við úrskurðinn féllist umhverfis- og skipulagsnefnd á umsókn hans um að reisa einnar hæðar 105,1 m² sumarhús á umræddri lóð. Í bréfinu var þó tiltekið að nefndin gerði athugasemdir við rúmmál, svalahurð og milliloft og að skipulags- og byggingarfulltrúa hefði verið falið að leita eftir sjónarmiðum eigenda þar um. Var það gert með bréfi sama dag þar sem skipulags- og byggingarfulltrúi, f.h. umhverfis- og skipulagsnefndar, rakti athugasemdir nefndarinnar. Tekið var fram að það væri mat nefndarinnar að rúmmál sumarhússins, þ.e. 404,8 m3 án gólfplötu og 425,8 m3 með gólfplötu, væri meira en leyfilegt hámark, sem væri 394,1 m3, að teknu tilliti til skilmála deiliskipulagsins og niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar. Þá gerði nefndin athugasemd við svalahurð sem væri að finna á framlögðum uppdráttum, en ekki væri gert ráð fyrir efri hæð í húsinu. Því samræmdust svalir ekki hönnunargögnum, skilmálum eða ákvæðum byggingarreglugerðar. Að lokum gerði nefndin athugasemd varðandi milliloft sem væri í húsinu og áréttaði að ekki væri gert ráð fyrir því í hönnunargögnum eða skilmálum. Var kæranda gefið færi á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri vegna þessara atriða sem og upplýsingum um hvernig húsinu yrði breytt til að það myndi standast hönnunargögn og skilmála.

Kærandi svaraði með bréfi, dags. 21. júlí 2013, og tók fram að öll þau atriði sem umhverfis- og skipulagsnefnd gerði athugasemdir við hefðu legið fyrir frá upphafi og myndað forsendur úrskurðar úrskurðarnefndarinnar frá 22. nóvember 2012. Yrði nefndin af þeim sökum að samþykkja umsókn kæranda án tafar. Í svarbréfi umhverfis- og skipulagsnefndarinnar, dags. 13. ágúst 2013, áréttaði nefndin að sveitarfélagið teldi sig bundið af niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar, en að úrskurðurinn tæki eingöngu til afmarkaðs þáttar, þ.e. flatarmáls hússins. Var tekið fram að framlagðar teikningar yrðu að fullnægja öðrum skilyrðum er lytu að rúmmáli, svalahurð og millilofti.

Teikningar munu hafa borist frá kæranda 31. október 2013 og með bréfi skipulags- og byggingarfulltrúa til hans, dags. 12. nóvember s.á., var tilkynnt að umhverfis- og skipulagsnefnd hefði á fundi sínum 5. s.m. frestað fyrirhuguðum dagsektum þar sem borist hefðu nýjar teikningar sem skoða þyrfti hvort væru í anda þeirra athugasemda sem nefndin hefði gert. Með bréfi skipulags- og byggingarfulltrúa, dags. 18. mars 2014, var kæranda síðan tilkynnt að á fundi umhverfis- og skipulagsnefndar hinn 21. janúar s.á. hefði nefndin samþykkt að kæranda yrði tilkynnt um að í undirbúningi væri að leggja á hann dagsektir.

Umhverfis- og skipulagsnefnd barst bréf kæranda 19. mars 2014, sem póstlagt var 11 s.m. en dagsett 29. október 2013. Þar krefst kærandi þess að á næsta fundi nefndarinnar verði „… samþykkt meðfylgjandi teikning af sumarhúsi að Sölvaslóð 1“ samkvæmt úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Í svarbréfi skipulags- og byggingarfulltrúa, dags. 20. mars 2014, var tilkynnt að erindið færi á næsta fund nefndarinnar. Á fundi umhverfis- og skipulagsnefndar 25. mars 2014 var erindið tekið fyrir og í bréfi skipulags- og byggingarfulltrúa 26. s.m. er greint frá efni hans. Þar er tekið fram að engar teikningar hafi fylgt erindi kæranda en að nefndin telji að lóðarhafi eigi við teikningar sem borist hefðu nefndinni án erindis 31. október 2013. Sagði í bréfinu að nefndin hafnaði því að gefa út byggingarleyfi á grundvelli þessara teikninga. Á þeim væri rúmmál hússins tilgreint 404,8 m³ en samkvæmt skilmálum mætti rúmmál mest vera 394,1 m³ án gólfplötu. Auk þess ítrekaði nefndin kröfur um úrbætur vegna framkvæmda við svalahurð og milliloft, sem færu í bága við skipulagsskilmála og innsendar teikningar. Hefur framangreind ákvörðun nefndarinnar verið kærð til úrskurðarnefndarinnar, svo sem áður greinir.

Málsrök kæranda: Kærandi byggir málskot sitt á því að umhverfis- og skipulagsnefnd Snæfellsbæjar hafi verið skylt að samþykkja umsókn sína um byggingarleyfi á fundi sínum 25. mars 2014. Þau atriði sem nefndin hafi gert athugasemdir við og nýtt sér sem rökstuðning fyrir synjuninni hafi öll verið ljós af teikningum sem legið hafi fyrir og komið fram við fyrri málsmeðferð úrskurðarnefndarinnar árið 2010, þ.e. með vettvangsferð og í gögnum málsins. Þau atriði sem athugasemdir hafi verið gerðar við hafi verið meðal forsendna fyrir ákvörðun úrskurðarnefndarinnar í úrskurði sínum nr. 42/2010 um að fella úr gildi fyrri synjun umhverfis- og skipulagsnefndar.

Málsrök Snæfellsbæjar: Af hálfu sveitarfélagsins er tekið fram að með bréfi 3. júlí 2013 hafi kæranda verið tilkynnt að það sætti sig við úrskurð úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 42/2010 og að málið væri tekið fyrir að nýju til þess að fjalla um annað en hið umdeilda flatarmál. Þrjú atriði hafi verið til skoðunar, þ.e. rúmmál hússins, svalahurð og milliloft. Um þessi atriði sé ekkert fjallað í greindum úrskurði. Það sé mat sveitarfélagsins að rétt sé að um þessi atriði gildi sömu almennu skilyrði og fyrir aðrar lóðir á svæðinu, að teknu tilliti til byggingartíma og gildistöku skilmála.

Samkvæmt deiliskipulagi sé gert ráð fyrir því að leyfilegt hámarksrúmmál húsa verði 3,75 m × flatarmál. Því megi reikna með að hámarksrúmmál húss á lóð nr. 1 við Sölvaslóð megi vera allt að 105,1 m² × 3,75 m = 394,1 m3. Samkvæmt þeim teikningum sem kærandi hafi lagt fram sé hins vegar sótt um hús sem sé 404,8 m3, án gólfplötu. Umhverfis- og skipulagsnefnd hafi tilkynnt kæranda að draga þyrfti úr rúmmáli hússins þannig að það yrði ekki stærra en 394,1 m3, án gólfplötu. Skilmálar séu túlkaðir lóðarhafa í vil að því leyti að miðað sé við gólflöt án botnplötu. Kærandi hafi ekki enn lagt fram breyttar teikningar, tillögur eða ráðagerðir um hvernig það verði gert.

Á teikningum sem kærandi hafi lagt fram sé sýnd svalahurð. Það stangist á við að ekki sé gert ráð fyrir efri hæð í húsinu. Auk þess sé hvorki gert ráð fyrir öryggissvæði innan við svalahurð né gert ráð fyrir aðgengi að svölum. Svalir eða svalahurð samræmist þannig ekki umsókn eða hönnunargögnum, skilmálum eða ákvæðum byggingarreglugerðar. Þá hafi kærandi komið fyrir millilofti í húsinu. Hins vegar sé ekki gert ráð fyrir millilofti í hönnunargögnum eða skilmálum. Nefndin hafi tilkynnt kæranda að þessum atriðum þyrfti að breyta.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun umhverfis- og skipulagsnefndar Snæfellsbæjar frá 25. mars 2014 að synja um byggingarleyfi fyrir þegar byggðu sumarhúsi að Sölvaslóð 1, Arnarstapa.

Svo sem rakið er í málavaxtalýsingu á mál þetta sér nokkra forsögu. Sú ákvörðun umhverfis- og skipulagsnefndar, sem felld var úr gildi með úrskurði úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 42/2010, var tekin í gildistíð skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. Lög nr. 160/2010 um mannvirki tóku hins vegar gildi 1. janúar 2011 og giltu því um þá málsmeðferð sem fram fór í kjölfar úrskurðarins og þá ákvörðun umhverfis- og skipulagsnefndar sem hér er deilt um.

Samkvæmt 9. gr. mannvirkjalaga er óheimilt að grafa grunn fyrir mannvirki, reisa það, rífa eða flytja, breyta því, burðarkerfi þess eða lagnakerfum eða breyta notkun þess, útliti eða formi nema að fengnu leyfi viðkomandi byggingarfulltrúa, sbr. 2. mgr., eða leyfi Mannvirkjastofnunar, sbr. 3. mgr. ákvæðisins. Sé mannvirki háð byggingarleyfi byggingarfulltrúa skal hann leita umsagnar skipulagsfulltrúa leiki vafi á að framkvæmd samræmist skipulagsáætlunum sveitarfélagsins, sbr. 10. gr. laganna. Samkvæmt sömu grein skal umsókn um byggingarleyfi ásamt hönnunargögnum send hlutaðeigandi byggingarfulltrúa, sem fer yfir umsóknina, gengur úr skugga um að aðaluppdrættir uppfylli ákvæði laganna, og reglugerða settra samkvæmt þeim, og tilkynnir umsækjanda eftir atvikum um samþykkt byggingaráforma hans, sbr. 11. gr. nefndra laga. Sveitarstjórn er heimilt, með sérstakri samþykkt samkvæmt 7. gr. laganna, að kveða á um það að í sveitarfélaginu starfi byggingarnefnd sem fjalli um byggingarleyfisumsókn áður en byggingarfulltrúi gefi út byggingarleyfi og hafi að öðru leyti eftirlit með stjórnsýslu hans fyrir hönd sveitarstjórnar. Er sveitarstjórn og heimilt að gera það að skilyrði fyrir útgáfu byggingarleyfis af hálfu byggingarfulltrúa að byggingarnefnd eða sveitarstjórn hafi samþykkt útgáfuna, sbr. 2. mgr. 7. gr. laganna. Snæfellsbær mun hins vegar ekki hafa sett sér slíka samþykkt.

Í almennum athugasemdum með frumvarpi því sem varð að mannvirkjalögum segir að um sé að ræða nokkrar breytingar frá gildandi lögum. Lögð sé til sú grundvallarbreyting að sveitarstjórn staðfesti að meginreglu ekki lengur ákvarðanir byggingarfulltrúa, auk þess sem lagt er til að tilvist byggingarnefnda verði háð gerð sérstakrar samþykktar viðkomandi sveitarstjórnar. Loks er tekið fram í athugasemdunum að sveitarstjórnir komi að meginreglu til ekki að stjórnsýslu byggingarmála með beinum hætti. Í eðli sínu séu byggingarmál tæknileg mál og þess vegna sé eðlilegt að framkvæmd þeirra sé í höndum aðila með sérfræðiþekkingu á því sviði.

Samkvæmt skýru orðalagi mannvirkjalaga og athugasemdum í lögskýringargögnum er endanleg ákvörðun um samþykkt byggingaráforma og útgáfu byggingarleyfis á hendi byggingarfulltrúa. Synjun umhverfis- og skipulagsnefndar á erindi kærenda gat því ekki bundið enda á málið í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 heldur þurfti til að koma sjálfstæð ákvörðun byggingarfulltrúa. Af samskiptum skipulags- og byggingarfulltrúa við kæranda, svo sem þeim er lýst í málavöxtum, er ljóst að í þeim fólst eingöngu upplýsingagjöf skipulags- og byggingarfulltrúa til kæranda um afstöðu umhverfis- og skipulagsnefndar. Þannig einskorðaðist efni bréfs fulltrúans, dags. 26. mars 2014, við að greina frá efni fundar nefndarinnar degi áður og niðurstöðu hennar um að synja kæranda um byggingarleyfi. Afstöðu eða afgreiðslu byggingarfulltrúa á umsókn kæranda var hins vegar í engu getið og verður hvorki séð af bréfinu né öðrum gögnum málsins að byggingarfulltrúi hafi, í samræmi við fortakslaus ákvæði mannvirkjalaga, sem áður eru rakin, tekið afstöðu til umsóknar kæranda.
   
Af öllu framangreindu er ljóst að ekki liggur fyrir ákvörðun þar til bærs stjórnvalds sem bindur enda á mál í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga og borin verður undir úrskurðarnefndina. Verður því ekki hjá því komist að vísa kærumáli þessu frá nefndinni.
   
Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                 Þorsteinn Þorsteinsson

21/2016 Biskupstungnahreppur

Með
Árið 2016, mánudaginn 18. apríl, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011 fyrir:

Mál nr. 21/2016, kæra á samþykkt sveitarstjórnar Bláskógabyggðar frá 10. desember 2015 á tillögu að breyttu Aðalskipulagi Biskupstungnahrepps 2000-2012.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 12. febrúar 2016, er barst nefndinni 17. s.m., kærir K, Einiholti 2, Selfossi, þá ákvörðun Bláskógabyggðar frá 10. desember 2015 að samþykkja tillögu að breytingu á Aðalskipulagi Biskupstungnahrepps 2000-2012. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá Bláskógabyggð 21. mars 2016.

Málsatvik og rök: Hinn 10. desember 2015 samþykkti sveitarstjórn Bláskógabyggðar breytingu á Aðalskipulagi Biskupstungnahrepps 2000-2012. Í breytingunni fólst að 7 ha svæði milli þjóðvegar og Einiholtslækjar væri skilgreint sem svæði fyrir verslun og þjónustu í stað landbúnaðarsvæðis og efnistökusvæðis. Efnistökusvæði í Einiholti (E10) væri jafnframt fellt burt. Staðfesti Skipulagsstofnun téða breytingu 21 janúar 2016 og birtist auglýsing um gildistöku hennar í B-deild Stjórnartíðinda 4. febrúar 2016.

Kærandi tekur fram að landeigendur hafi mótmælt fyrirætlunum sveitarfélagins frá því að þær hafi legið fyrir. Öll umferð um svæðið muni aukast til muna með tilheyrandi raski, rykmengun og ónæði auk þess sem vegur og brýr á svæðinu muni ekki þola aukna umferð. Verslunar- og þjónustustarfsemi muni hamla því að hægt sé að auka umsvif þess landbúnaðar sem fyrir sé, en að því stefni landeigendur með auknum fjárfestingum. Umfangsmikil starfsemi sé nú þegar í ferðaþjónustu í Bláskógabyggð og það hljóti að vera markmið aðalskipulags að góð landbúnaðarsvæði verði ekki tekin til afnota sem skerði verulega starfsemi landbúnaðar í kring. Þá sé fjölskrúðugt fuglalíf á svæðinu sem hingað til hafi verið óáreitt og beri að forðast að raska votlendissvæðum eða mikilvægum búsvæðum fugla. Loks hafi markmið skipulagslaga nr. 123/2010 ekki verið höfð að leiðarljósi við hina kærðu aðalskipulagsbreytingu auk þess sem rannsókn málsins eða mati stjórnvalda hafi verið áfátt í þeim efnum.

Af hálfu Bláskógabyggðar er bent á að vísa beri máli þessu frá úrskurðarnefndinni. Samkvæmt 1. mgr. 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 séu ákvarðanir sem Skipulagsstofnun og ráðherra staðfesti ekki kæranlegar til úrskurðarnefndarinnar. Skýrt komi fram í umsögn sveitarfélagsins um athugasemdir vegna aðalskipulagsbreytingarinnar að deiliskipulag, sem auglýst hafi verið samhliða henni, sé kæranlegt til úrskurðarnefndarinnar og hver kærufrestur sé.

Niðurstaða: Samkvæmt 3. mgr. 29. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er aðalskipulag háð samþykki sveitarstjórnar og staðfestingu Skipulagsstofnunar og ráðherra í þeim tilvikum sem hann skal staðfesta aðalskipulag. Er mælt svo fyrir um í 2. ml. 3. mgr. 32. gr. tilvitnaðra laga  að aðalskipulag taki gildi þegar það hafi verið samþykkt af sveitarstjórn, hlotið staðfestingu Skipulagsstofnunar og verið birt í B-deild Stjórnartíðinda. Eins og að framan er rakið var hin umþrætta breyting á aðalskipulagi Biskupstungnahrepps staðfest af Skipulagsstofnun 21. janúar 2016 og birt í B-deild Stjórnartíðinda 4. febrúar s.á. Sæta ákvarðanir sem Skipulagsstofnun og ráðherra ber að fyrrgreindum lögum að staðfesta ekki kæru til úrskurðarnefndarinnar samkvæmt 1. mgr. 52. gr. téðra laga. Af þeim sökum brestur úrskurðarnefndina vald til að taka hina kærðu ákvörðun til endurskoðunar og verður málinu því vísað frá nefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir