Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

154/2016 Nónhæð

Með
Árið 2016, miðvikudaginn 14. desember, tók Nanna Magnadóttir, forstöðumaður úrskurðarefndar umhverfis- og auðlindamála, fyrir mál nr. 154/2016 með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 24. nóvember 2016, er barst nefndinni sama dag, kærir F, Foldarsmára 18, Kópavogi, þá ákvörðun bæjarstjórnar skipulagsnefndar Kópavogsbæjar frá 21. nóvember 2016 að vinna deiliskipulag fyrir Nónhæð í Kópavogi. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá Kópavogsbæ 12. desember 2016.

Málsatvik og rök: Á fundi skipulagsnefndar Kópavogsbæjar 21. nóvember 2016 voru lögð fram drög að deiliskipulagsbreytingu fyrir Nónhæð. Bókað var að í breytingunni fælist að í stað þjónustubygginga væri gert ráð fyrir íbúðarbyggð á svæðinu fyrir um 140 íbúðir að stofni til í þremur fjölbýlishúsum. Áætlað byggingarmagn ofanjarðar væri um 14.000 m² með áætlað nýtingarhlutfall 0,6, en hámarks byggingarmagn að meðtöldum geymslu og bílgeymslum neðanjarðar yrði um 19.000 m² með áætlað nýtingarhlutfall 0,7. Miðað væri við 1,2 bílastæði á íbúð, eða um 200 bílastæði, þar af um 100 stæði neðanjarðar. Var og bókað að skipulagsnefnd samþykkti að unnið yrði deiliskipulag á grundvelli þeirra draga sem fyrir lægju.

Á sama fundi var lögð fram tillaga skipulags- og byggingardeildar að skipulagslýsingu fyrir breytingu á Aðalskipulagi Kópavogs 2012-2024. Tekið var fram að lýsingin fjallaði um breytingu á landnotkun og talnagrunni í Nónhæð. Skipulagsnefnd samþykkti framlagða lýsingu og að hún yrði kynnt í samræmi við 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Vísaði nefndin málinu til afgreiðslu bæjarráðs og bæjarstjórnar. Bæjarráð tók málið fyrir á fundi sínum 24. nóvember 2016 og vísaði málinu áfram til afgreiðslu bæjarstjórnar.

Kærandi bendir á að samkvæmt gildandi aðalskipulagi Kópavogs sé umrætt svæði þegar skipulagt sem „opið svæði“ og „samfélagsþjónusta“ en ekki sem svæði undir íbúðarbyggð. Deiliskipulag sé því unnið í andstöðu við aðalskipulag og sé það ekki í samræmi við skipulagslög nr. 123/2010, einkum 3. mgr. 37. gr. sem mæli fyrir um að við gerð deiliskipulags skuli byggt á stefnu aðalskipulags. Aðeins þegar aðalskipulagi hafi verið breytt geti bæjaryfirvöld hugað að setningu deiliskipulags á umræddum reit.

Af hálfu sveitarfélagsins er þess krafist að málinu verði vísað frá úrskurðarnefndinni. Ekki hafi verið gerðar breytingar á deiliskipulagi fyrir Nónhæð heldur hafi skipulagsnefnd einungis heimilað að vinna við slíkar breytingar verði hafin. Málið hafi ekki verið tekið fyrir á fundi bæjarstjórnar. Vegna athugasemda kæranda sé bent á að skipulagsnefnd hafi samþykkt 21. nóvember 2016 að kynna skipulagslýsingu vegna breytingar á aðalskipulagi Kópavogs, en málið hafi þó ekki hlotið umfjöllun bæjarstjórnar.

Niðurstaða: Samkvæmt 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður ákvörðun, sem ekki bindur enda á mál, ekki kærð fyrr en málið hefur verið til lykta leitt. Ljóst er að ákvörðun skipulagsnefndar um að hefja megi vinnu við deiliskipulagsgerð markar upphaf máls en felur ekki í sér lokaákvörðun. Slík ákvörðun um málsmeðferð er ekki kæranleg til úrskurðarnefndarinnar, sbr. framangreind lagafyrirmæli. Verður kærumáli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni

___________________________________
Nanna Magnadóttir

 

41/2016 Hvannalundur

Með
Árið 2016, fimmtudaginn 24. nóvember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar-verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 41/2016, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Bláskógabyggðar frá 7. apríl 2016 um að synja beiðni um að fjarlægja eða færa til mannvirki á lóð nr. 8 við Hvannalund í Bláskógabyggð.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 25. apríl 2016, er barst nefndinni 27. s.m., kæra eigendur lóðar nr. 10 við Hvannalund, Bláskógabyggð, þá ákvörðun sveitarstjórnar Bláskógabyggðar frá 7. apríl 2016 að synja beiðni um að fjarlægja eða færa til mannvirki á lóðinni að Hvannalundi 8. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og að sveitarfélaginu verði gert að hlutast til um það að umrætt mannvirki verði fjarlægt eða fært til þannig að það sé að lágmarki 10 m frá lóðamörkum.

Gögn málsins bárust frá sveitarfélaginu 13. júní 2016.

Málavextir: Mál þetta á sér nokkurn aðdraganda, en með úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, uppkveðnum 17. apríl 2015, var felld úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúa uppsveita Árnessýslu og Flóahrepps frá 13. september 2011 um að sam-þykkja leyfi til að stækka sumarhús á lóðinni nr. 8 við Hvannalund. Taldi úrskurðarnefndin að samkvæmt Aðalskipulagi Bláskógabyggðar, Þingvallasveit 2004-2016 og með vísan til gr. 4.22.2. í skipulagsreglugerð nr. 400/1998 væri ekki heimilt að veita hið umdeilda byggingar-leyfi án undangenginnar deiliskipulagsgerðar.

Kærendur máls þessa, er staðið höfðu að fyrrgreindu málsskoti, sendu 25. maí s.á. tölvubréf til sveitarfélagsins og óskuðu eftir viðbrögðum þess við ofangreindum úrskurði. Töldu þeir ljóst að reist hefði verið nýbygging án gildandi heimilda. Stæði hún á lóðarmörkum en slíkt hefði verið óheimilt samkvæmt skipulagsreglugerð nr. 400/1998 og var þess farið á leit að upplýst yrði hvort til stæði að færa eða fjarlægja umrædda byggingu. Áréttuðu kærendur fyrirspurn sína með tölvubréfi 13. júní s.á. sem byggingarfulltrúi svaraði með bréfi 15. s.m. Á fundi skipulagsnefndar 25. júní 2015 var afgreiðslu málsins frestað og byggingarfulltrúa falið að leita álits lögfræðings um málið. Mun lögmaður kærenda hafa fengið þær upplýsingar frá byggingarfulltrúa í ágúst s.á. að unnið væri að umsögn vegna málsins og með tölvupósti lögmanns kærenda til byggingarfulltrúa 12. október 2015 var óskað frekari upplýsinga um fyrrnefnda umsögn. Með bréfi skipulagsfulltrúa til eigenda Hvannalundar 8, dags. 12. febrúar 2016, kom fram að gerð hefði verið sú krafa að stækkun sumarhúss þeirra yrði fjarlægð og var þeim veittur frestur til að koma að sjónarmiðum sínum. Bárust athugasemdir þeirra með bréfi, dags. 17. febrúar s.á.
Málið var tekið fyrir á fundi skipulagsnefndar 10. mars 2016 og eftirfarandi m.a. fært til bókar: „Skipulagsnefnd fellst ekki á að efnisrök eða hagsmunir séu fyrir því að fjarlægja húsið frá lóðarmörkum. Vinna við breytingu á aðalskipulagi sveitarfélagsins stendur nú yfir og er fyrirhugað að þeirri vinnu ljúki á haustmánuðum. Afgreiðslu umsóknar um byggingarleyfi er því frestað til 1. október 2016.“ Voru kærendur upplýstir um afgreiðslu skipulagsnefndar með tölvubréfi 31. mars 2016 í kjölfar fyrirspurnar þeirra um erindi sitt. Staðfesti sveitarstjórn nefnda afgreiðslu skipulagsnefndar 7. apríl s.á.

Málsrök kærenda: Kærendur benda á að ákvæði 2. mgr. 55. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki sé heimildarákvæði sem undirorpið sé frjálsu mati stjórnvalda. Verði ákvarðanir sem sveitarfélag taki á grundvelli ákvæðisins að fela í sér hagsmunamat, þar sem hagsmunir þriðja aðila sem ósáttur sé við bygginguna séu vegnir á móti hagsmunum byggingaraðila. Við ákvarðanatöku þurfi að fara að stjórnsýslulögum og málefnaleg sjónarmið að liggja til grundvallar. Af dómum Hæstaréttar megi ráða að þau sjónarmið sem skipti máli við nefnt hagsmunamat séu meðalhóf, huglæg afstaða eiganda mannvirkis, réttmætar væntingar og fjárhagsleg sjónarmið. Ekki hafi farið fram neitt slíkt mat af hálfu sveitarfélagsins í máli þessu. Viðbygging við umrætt sumarhús hafi verið reist án tilskilinna leyfa og síðar hafi byggingarmagni við lóðarmörk kærenda verið mótmælt við grenndarkynningu. Hafi sveitar-félagið farið þess á leit að byggingarmagn yrði ekki aukið á lóðarmörkum en þeim tilmælum hafi ekki verið fylgt eftir. Bæði sveitarfélagið og framkvæmdaraðili hafi vitað að ekki mætti veita leyfi fyrir framkvæmdunum án deiliskipulags vegna ákvæða í aðalskipulagi. Sé eign kærenda að Hvannalundi 10 ósöluhæf sökum fyrrnefndrar byggingar.

Málsrök Bláskógabyggðar: Sveitarfélagið bendir á að samkvæmt 2. mgr. 55. gr. laga um mannvirki sé byggingarfulltrúa heimilt að mæla fyrir um niðurrif óleyfisframkvæmdar. Sé ákvörðun þessi háð mati stjórnvalds hverju sinni, þar sem m.a. þurfi að taka tillit til meðalhófs. Geti kærendur ekki knúið byggingaryfirvöld til beitingar úrræðis þessa, enda séu þeim tryggð önnur réttarúrræði til að verja einstaklingsbundna hagsmuni sína. Megi hér vísa til úrskurðar úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 90/2012. Í öndverðu hafi ekki verið um óleyfisframkvæmd að ræða. Hafi byggingarleyfið verið fellt úr gildi vegna formannmarka á veitingu þess. Byggingarmagn við lóðamörk hafi verið óbreytt og ekki stafi hætta af húsinu. Hagsmunir kærenda og lóðarhafa Hvannalundar 8 hafi verið metnir við afgreiðslu málsins og skipulagssjónarmið höfð í huga. Þá liggi ekkert fyrir um að húseign kærenda hafi rýrnað í verði eða að þeir hafi orðið fyrir tjóni sökum þessa.

Athugasemdir lóðarhafa Hvannalundar 8: Sjónarmið umræddra lóðarhafa liggja fyrir í gögnum málsins. Þar kemur fram að þeir hafi árið 1991 fest kaup á lóðinni Hvannalundi 8 ásamt húsi reistu árið 1959. Árið 2010 hafi verið ákveðið að styrkja eldri undirstöður hússins og bæta við nýjum undirstöðum og endurnýja bita. Einnig hafi verið ákveðið að sækja um leyfi til að breyta gluggum, hækka þakið og lengja það yfir verönd sem sé í suður. Byggingarmagn á lóðarmörkum yrði það sama og áður. Við grenndarkynningu hafi allir hagsmunaðilar samþykkt nefndar breytingar nema eigendur Hvannalundar 10. Byggingarleyfi hafi síðan verið gefið út og hafi þá verið farið af stað og viðhald klárað. Hafi úrskurðarnefndin fellt leyfið úr gildi eingöngu þar sem ekki hafi mátt gefa það út fyrr en búið væri að deiliskipuleggja greint svæði.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti ákvörðunar sveitarstjórnar Bláskógabyggðar um að synja beiðni kærenda um að beitt verði úrræðum 2. mgr. 55. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki til að fjarlægja eða færa til mannvirki á lóðinni að Hvannalundi 8 við mörk lóðar þeirra. Í tilvitnuðu ákvæði er mælt fyrir um að ef byggingarframkvæmd sé hafin, án þess að leyfi sé fengið fyrir henni eða hún brjóti í bága við skipulag, geti byggingarfulltrúi krafist þess að hið ólöglega mannvirki eða byggingarhluti sé fjarlægt.

Sveitarstjórn er heimilt með sérstakri samþykkt samkvæmt 7. gr. mannvirkjalaga að kveða á um að í sveitarfélaginu starfi byggingarnefnd sem fjalli um byggingarleyfisumsókn áður en byggingarfulltrúi gefi út byggingarleyfi og hafi að öðru leyti eftirlit með stjórnsýslu hans fyrir hönd sveitarstjórnar. Er sveitarstjórn og heimilt að gera það að skilyrði fyrir útgáfu byggingar-leyfis af hálfu byggingarfulltrúa að byggingarnefnd eða sveitarstjórn hafi samþykkt útgáfuna, sbr. 2. mgr. 7. gr. laganna. Í ákvæðinu er ekki vikið að því hvort ákvörðun um beitingu þvingunarúrræða 2. mgr. 55. gr. laganna geti orðið með öðrum hætti en þar greinir. Ekki liggur fyrir að Bláskógabyggð hafi sett sér slíka samþykkt, en skv. 6. mgr. 7. gr. nefndra laga skal samþykkt sem sett er samkvæmt lagagreininni lögð fyrir umhverfis- og auðlindaráðherra til staðfestingar og birt af sveitarstjórn í B-deild Stjórnartíðinda. Enn fremur skal hún færð inn í rafrænt gagnasafn Mannvirkjastofnunar. Hins vegar er tekið fram í 48. gr. samþykktar um stjórn sveitarfélagsins Bláskógabyggðar nr. 592/2013, sem birt var í B-deild Stjórnartíðinda 27. júní s.á., að skipulagsnefnd fari með skipulagsmál skv. 6. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og byggingarmál skv. 7. gr. laga um mannvirki. Samþykktin er sett með stoð í 9. og 18. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 og var hún staðfest af innanríkisráðherra. Liggur því fyrir að sú samþykkt á ekki stoð í 7. gr. mannvirkjalaga og hefur hún ekki verið sett með þeim hætti sem þar er mælt fyrir um. Getur hún því ekki vikið til hliðar fyrirmælum 2. mgr. 55. gr. laganna um að það sé á forræði byggingarfulltrúa að meta og taka ákvörðun um beitingu þess þvingunarúrræðis sem þar greinir. Synjun skipulagsnefndar og sveitarstjórnar á erindi kærenda hefur því ekki þýðingu að lögum þar sem málið var ekki afgreitt af þar til bæru stjórnvaldi lögum samkvæmt.

Með vísan til þess sem að framan er rakið liggur ekki fyrir í málinu ákvörðun sem bindur endi á mál sem borin verður undir úrskurðarnefndina, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, og verður máli þessu því vísað frá nefndinni. 

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                  Þorsteinn Þorsteinsson

115/2016 Dalsmári Tennishöll

Með
Árið 2016, mánudaginn 21. nóvember, tók Nanna Magnadóttir, forstöðumaður úrskurðarefndar umhverfis- og auðlindamála, fyrir mál nr. 115/2016 með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 27. ágúst 2016, er barst nefndinni 29. s.m., kærir G, Þinghólsbraut 33, Kópavogi, þá ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogsbæjar frá 28. júní 2016 að samþykkja breytt deiliskipulag Kópavogsdals, útivistarsvæðis, vegna lóðar nr. 13 við Dalsmára. Gerðar eru athugasemdir við hina kærðu ákvörðun og verður að skilja málskot kæranda svo að þess sé krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá Kópavogsbæ 11. október 2016.

Málsatvik og rök: Árið 2013 var óskað heimildar til að stækka Tennishöllina að Dalsmára 13 og voru gögn lögð fram því til stuðnings. Í kjölfar samþykktar skipulagsnefndar, sem staðfest var af bæjarstjórn, var auglýst tillaga að breytingu á deiliskipulagi Kópavogsdals, útivistarsvæði, vegna lóðar nr. 13 við Dalsmára. Í breytingartillögunni fólst að greind lóð yrði stækkuð til austur og byggt yrði við Tennishöllina sem stendur á lóðinni. Á fundi skipulagsnefndar 20. október 2014 var deiliskipulagstillögunni hafnað. Á fundi bæjarráðs 23. s.m. var málinu frestað og vísað til umsagnar sviðsstjóra menntasviðs, framkvæmdastjóra markaðsstofu Kópavogs og sviðsstjóra umhverfissviðs. Á fundi bæjarráðs 27. nóvember s.á. var málinu vísað til skipulagsnefndar til umsagnar sem bókaði á fundi sínum 15. desember 2014 að afstaða nefndarinnar væri óbreytt.

Með bréfi, dags. 8. september 2015, var óskað eftir því að framlögð tillaga að nýju útliti og stækkunar Tennishallarinnar fengi afgreiðslu hjá skipulagsnefnd. Á fundi skipulagnefndar 5. október s.á. var erindinu hafnað, en á fundi bæjarstjórnar 13. s.m. var hins vegar samþykkt að auglýsa deiliskipulagstillöguna í samræmi við skipulagslög. Var tillagan auglýst í fjölmiðlum 13. nóvember 2015 með fresti til athugasemda til 11. janúar 2016. Bárust athugasemdir á kynningartíma, þ. á m. frá kæranda, og var þeim svarað með umsögn skipulags- og byggingardeildar. Á fundi skipulagsnefndar 27. júní 2016 var nefnd umsögn samþykkt sem og tillaga að breyttu deiliskipulagi. Var tillagan samþykkt af bæjarstjórn 28. s.m. og tók deiliskipulagsbreytingin gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 29. júlí 2016.

Kærandi skírskotar til þess að ekki hafi verið brugðist við athugasemdum hans í deiliskipulagsferlinu á nokkurn hátt. Afgreiðslutími málsins hafi farið út fyrir alla viðeigandi fresti og komið hafi nýjar upplýsingar á tímabilinu sem hefði átt að taka tillit til, t.a.m hugmyndir byggingaraðila um frágang, að hafa tennisvelli í kringum húsið og um bílastæði og annað er varði starfsemi tennisfélagsins. Þá sé sú bygging sem skipulagsbreytingin taki til sögð vera á íþróttasvæði en það sé hins vegar ljóst af öllum teikningum að byggingin muni ná talsvert inn á annað skipulagssvæði, þ.e. opið svæði, samkvæmt aðalskipulagi. Deiliskipulagstillagan sé því ekki í samræmi við orðalag aðalskipulags.

Af hálfu sveitarfélagsins er þess krafist að málinu verði vísað frá úrskurðarnefndinni. Hin kærða ákvörðun sé samþykkt breyting á deiliskipulagi vegna Tennishallarinnar við Dalsmára 13 í Kópavogsdal. Kærandi búi að Þinghólsbraut 33 í Kópavogi sem sé á sunnanverðu Kársnesi. Kærandi geti því ekki átt einstaklegra, verulegra né lögvarinna hagsmuna að gæta, enda búi hann ekki í næsta nágrenni við Tennishöllina. Þá sé því mótmælt að afgreiðslutími hafi farið út fyrir alla fresti. Allir lögbundnir frestir hafi verið virtir, m.a. hafi verið veittur lengri athugasemdarfrestur á kynningartíma og Skipulagsstofnun hafi verið send samþykkt deiliskipulagsbreyting innan sex mánaða líkt og kveðið sé á um í 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Þá sé ekki hægt að fallast á að hin kærða skipulagsbreyting sé ekki í samræmi við aðalskipulag Kópavogs. Ótækt sé að leggja svo mikla áherslu á nákvæmni aðalskipulags enda yrði deiliskipulagsgerð þá marklaus. Verði að veita bæjarstjórn svigrúm til að útfæra aðalskipulag líkt með hinu kærða deiliskipulagi. Hin kærða ákvörðun sé því ekki andstæð stefnu í aðalskipulagi.

Lóðarhafi Dalsmára 13 bendir á að kærandi búi fjarri því svæði sem hin kærða ákvörðun taki til. Verði því ekki séð að hann eigi lögvarinna hagsmuna að gæta í málinu í skilningi 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Af þeim sökum beri að vísa málinu frá úrskurðarnefndinni.

Niðurstaða: Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á nema tilteknum undantekningartilvikum sem þar eru greind. Verður að skýra þetta ákvæði í samræmi við almennar reglur stjórnsýsluréttar um aðild í kærumálum þar sem áskilið er að kærandi eigi beina einstaklingsbundna hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kærð er.

Í kæru eru gerðar athugasemdir við málsmeðferð, þ.e. að henni hafi verið ábótavant og ekki hafi verið staðið við lögbundna fresti. Jafnframt er því haldið fram að innbyrðis samræmi skipulagsáætlana hafi ekki verið gætt. Þá er í kæru vísað til athugasemda kæranda við auglýsta deiliskipulagstillögu og virðast þær að mestu byggja á gæslu almannahagsmuna, þ.m.t. skipulagslegra hagsmuna, s.s. um áhrif á nánasta umhverfi og umferð á svæðinu, auk þess að byggja á skoðunum á þróun starfsemi í Kópavogsdal. Hins vegar er hvorki minnst á möguleg grenndaráhrif sem gætu komið fram við framkvæmd hinnar kærðu ákvörðunar né hvaða annarra lögvarinna hagsmuna kærandi eigi mögulega að gæta í málinu.

Samkvæmt upplýsingum frá Þjóðskrá Íslands á kærandi lögheimili að Þinghólsbraut 33 í Kópavogi en hin kærða ákvörðun tekur til lóðarinnar Dalsmára 13 í Kópavogsdal. Hin kærða deiliskipulagsbreyting gerir ráð fyrir stækkun á Tennishöllinni sem er staðsett í tæplega tveggja kílómetra fjarlægð frá lögheimili kæranda. Þá er um sinn hvorn bæjarhlutann að ræða og liggur þar á milli Hafnarfjarðarvegur, fjögurra akreina stofnvegur, en til stofnvega teljast m.a. umferðarmestu vegir sem tengja saman sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu, sbr. a. lið 2. mgr. 8. gr. vegalaga nr. 80/2007. Er því ljóst að fasteign kæranda er ekki í þeirri nálægð við Tennishöllina, eða aðstæður að öðru leyti með þeim hætti, að framkvæmdir með stoð í hinni umdeildu deiliskipulagsbreytingu hafi þau áhrif á umhverfi hans að skapi honum þá einstaklegu lögvörðu hagsmuni sem gerðir eru að skilyrði fyrir kæruaðild, sbr. áðurnefnda 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Verður kærumáli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni

___________________________________
Nanna Magnadóttir

 

10/2015 Stöðuleyfisgjöld

Með
Árið 2016, föstudaginn 28. október, tók Ómar Stefánsson, varaformaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr.  l. nr. 130/2011. fyrir:

Mál nr. 10/2015, kæra á ákvörðun Seyðisfjarðarkaupstaðar um að leggja á stöðuleyfisgjöld vegna gáma að Þórsmörk og Fjarðargötu 1, Seyðisfirði, fyrir árið 2014
 
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 6. febrúar 2015, sem barst nefndinni 7. s.m., kæra S, Þórsmörk, Seyðisfirði, og Stálstjörnur ehf., Garðarsvegi 21, Seyðisfirði, þá ákvörðun Seyðisfjarðarkaupstaðar að krefja nefnda aðila um greiðslu stöðuleyfisgjalda fyrir árið 2014 vegna gáma að Þórsmörk og Fjarðargötu 1. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá Seyðisfjarðarkaupstað 2. mars 2015.

Málsatvik og rök:
Á fundi umhverfisnefndar Seyðisfjarðarkaupstaðar 20. nóvember 2014 kom fram að nefndin hefði farið um kaupstaðinn og skráð lausafjármuni, m.a. gáma, sem stæðu utan gámasvæðis. Var samþykkt að senda öllum lóðarhöfum reikning fyrir stöðuleyfi lausafjármuna vegna ársins 2014 samkvæmt gjaldskrá með 50% álagi vegna kostnaðar nefndarinnar við eftirlit og skráningu. Sendi Seyðisfjarðarkaupstaður kærendum reikninga fyrir álögðum gjöldum. Einn kærenda var krafinn um stöðuleyfisgjald ásamt 50% álagi vegna gáma að Fjarðargötu 1, samtals að upphæð kr. 382.500 samkvæmt reikningi með gjalddaga 31. desember 2014 og eindaga 25. janúar 2015. Þá var annar kærandi krafinn um greiðslu gjalds vegna stöðuleyfis auk álags, samtals kr. 112.500, vegna gáma að Þórsmörk. Mun sá reikningur hafa verið móttekinn 9. janúar 2015 en bakfærður 27. s.m. og annar kærandi krafinn í þess stað um greiðslu nefnds gjalds og álags með reikningi að sömu upphæð með eindaga 6. febrúar 2015.

Kærendur telja m.a. að ekki sé fyrir hendi lagaheimild til að sveitarfélagið geti lagt á gjald fyrir stöðuleyfi að eigin frumkvæði en kærendur hafi ekki sótt um nefnd leyfi. Álagt álag eigi sér enga stoð, hvorki í gjaldskrá né í lögum um mannvirki nr. 160/2010 eða byggingarreglugerð nr. 112/2012. Þá hafi kröfu verið beint að röngum aðila.

Sveitarfélagið bendir á að gámaeigendum hafi á liðnum árum ítrekað verið bent á skyldur sínar samkvæmt lögum um mannvirki og byggingarreglugerð nr. 112/2012 með auglýsingum og dreifibréfum sveitarfélagsins. Ekki hafi verið brugðist við þessum ábendingum á nokkurn hátt. Á fundi umhverfisnefndar 2. febrúar 2015 hafi verið samþykkt að afturkalla útsenda reikninga vegna stöðuleyfa fyrir árið 2014 og endurgreiða þá sem þegar voru greiddir. Hafi skrifstofa kaupstaðarins þegar fylgt eftir niðurstöðu nefndarinnar.

Niðurstaða: Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvarðanir til nefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda ákvörðun þeirri sem kæra á.
 
Svo sem að framan er rakið var reikningur með umdeildri kröfu á hendur eins kærenda bakfærður og ákvörðun af hálfu umhverfisnefndar bæjarins um greinda gjaldtöku á hendur öðrum kærendum hefur verið afturkölluð. Hefur hin umdeilda álagning stöðuleyfisgjalda  af þeim sökum ekki lengur réttarverkan að lögum og hafa kærendur því ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um gildi ákvörðunarinnar. Verður máli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni með hliðsjón af 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

               

_________________________________________
Ómar Stefánsson

 

89/2016 Egilsgata Borgarbyggð

Með
Árið 2016, miðvikudaginn 9. nóvember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ómar Stefánsson varaformaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 89/2016, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Borgarbyggðar frá 9. júní 2016 um að fela byggingarfulltrúa að gefa út byggingarleyfi til að breyta húsnæði á lóð nr. 6 við Egilsgötu.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 1. júlí 2016, er barst nefndinni 8. s.m., kærir Ikan ehf., Egilsgötu 4, Borgarnesi, „stjórnsýsluframkvæmd, leyfisveitingar og ákvarðanir sveitarstjórnar í Borgarbyggð“. Verður að skilja málskot kæranda svo að kærð sé ákvörðun sveitarstjórnar frá 9. júní 2016 um að fela byggingarfulltrúa að gefa út byggingarleyfi til að breyta húsnæði á lóð nr. 6 við Egilsgötu. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 17. júlí 2016, er barst nefndinni sama dag, kærir sami aðili þá ákvörðun byggðarráðs Borgarbyggðar frá 7. júlí 2016 að staðfesta ákvörðun umhverfis-, skipulags og landbúnaðarnefndar Borgarbyggðar frá 6. s.m. um að „fram verði látin fara grenndarkynning á rekstri gistihúss í íbúðarhúsi við Egilsgötu 6, Borgarnesi“. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Þar sem hinar kærðu ákvarðanir eru samofnar og sami aðilinn stendur að báðum kærumálunum verður síðargreinda kærumálið, sem er nr. 102/2016, sameinað máli þessu.

Jafnframt er í báðum kærum gerð krafa flýtimeðferð og krafa um stöðvun rekstrar að Egilsgötu 6, Borgarnesi, þar sem heimildir fyrir rekstrarleyfi séu ekki til staðar.

Gögn málsins bárust frá Borgarbyggð 18. og 24. júlí, 30. ágúst og 2. september 2016.

Málsatvik og rök: Forsaga málsins er sú að með úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 57/2013, sem kveðinn var upp 24. september 2015, var felld úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúa Borgarbyggðar um að veita leyfi til að breyta íbúðarhúsi og geymslu á lóð nr. 6 við Egilsgötu í þrjár stúdíóíbúðir á fyrstu hæð og eina íbúð á annarri hæð. Komst úrskurðarnefndin að þeirri niðurstöðu að málsmeðferð og ákvörðunartaka vegna leyfisins hefði verið háð verulegum annmörkum.

Hinn 21. janúar 2016 var endurnýjuð byggingarleyfisumsókn grenndarkynnt fyrir hagsmunaaðilum með fresti til athugasemda til 26. febrúar s.á. Bárust athugasemdir á kynningartíma, m.a. frá kæranda. Að grenndarkynningu lokinni var erindið tekið fyrir á fundi umhverfis-, skipulags- og landbúnaðarnefndar 6. júní 2016 og skipulagsfulltrúa falið að svara athugasemdum í samræmi við umræður á fundinum. Á fundi sveitarstjórnar 9. s.m. voru drög að svörum við athugasemdum samþykkt og var skipulags- og byggingarfulltrúa falið að gefa út byggingarleyfi.

Á fundi umhverfis-, skipulags- og landbúnaðarnefndar 6. júlí 2016 var lagt til að grenndarkynna breytta notkun úr íbúðarhúsi í gistiheimili að Egilsgötu 6. Jafnframt var tekið fram að búið væri að grenndarkynna umsókn vegna byggingarleyfis. Var nefnd afgreiðsla samþykkt á fundi byggðarráðs Borgarbyggðar 7. s.m.

Kærandi skírskotar til þess að hann kannist ekki við að hafa tekið þátt í grenndarkynningu byggingarleyfis vegna Egilsgötu 6, líkt og komi fram í bókun umhverfis-, skipulags- og landbúnaðarnefndar Borgarbyggðar frá 6. júní 2016. Hafi aðeins verið grenndarkynntar fyrirhugaðar breytingar á húsnæði að Egilsgötu og nýtingu þess. Jafnframt hafi formleg afstaða til þeirra athugasemda sem bárust á kynningartíma ekki verið tekin þar sem ekkert í bókun umhverfis-, skipulags- og landbúnaðarnefndar frá umræddum fundi gefi slíkt til kynna. Að auki sé ekkert að finna í gildandi skipulagslögum um að grenndarkynning geti farið fram á byggingarleyfum. Fullnægjandi gögn hafi ekki fylgt grenndarkynningunni og hafi málsmeðferð ekki verið í samræmi við ákvæði skipulagsreglugerðar nr. 90/2013.

Af hálfu sveitarfélagsins er vísað til þess að umsókn um byggingarleyfi hafi verið lögð fyrir sveitarstjórn til meðferðar og hafi hún samþykkt að fela byggingarfulltrúa að annast grenndarkynningu umsóknarinnar í samræmi við 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Að lokinni grenndarkynningu hafi erindið verið samþykkt á lögmætum fundi sveitarstjórnar Borgarbyggðar 9. júní 2016 og einnig verið samþykkt að fela byggingarfulltrúa útgáfu byggingarleyfis. Hafi slíkt leyfi þó ekki enn verið gefið út. Málsmeðferð hafi verið í samræmi við gildandi lög á sviði mannvirkja- og skipulagsmála. Hvað varði kröfu kæranda um að fella úr gildi ákvörðun byggðarráðs Borgarbyggðar frá 7. júlí 2016 um að staðfesta þá ákvörðun umhverfis-, skipulags- og landbúnaðarnefndar að grenndarkynna rekstrarleyfi gistihúss í íbúðarhúsi við Egilsgötu sé bent á að útgáfa eða meðferð rekstareyfis sé ekki kæranleg til nefndarinnar, sbr. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Sé forræði slíkra mála alfarið á hendi sýslumannsembætta.

Leyfishafi bendir á að allar heimildir fyrir starfseminni á Egilsgötu 6 liggi fyrir. Aðalskipulag Borgarbyggðar geri ráð fyrir að á svæðinu sé blönduð byggð íbúðar- og atvinnuhúsnæðis. Fyrir liggi samþykkt sveitarstjórnar frá 9. júní um útgáfu byggingarleyfis til breytinga á innra skipulagi Egilsgötu 6. Þá sé einnig vísað til svars sýslumannsins á Vesturlandi, dags. 16. september 2015, þar sem embættið hafi hafnað kröfu kæranda um að rekstrarleyfi Egils Guesthouse yrði afturkallað.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um breytingar hússins að Egilsgötu 6. Annars vegar er kærð sú ákvörðun sveitarstjórnar að fela skipulags- og byggingarfulltrúa að gefa út byggingarleyfi vegna breytinga á innra skipulagi hússins. Hins vegar er kærð sú ákvörðun byggðarráðs að grenndarkynna breytta notkun nefnds húss úr íbúðarhúsi í gistiheimili. Að auki tiltekur kærandi að kærð sé stjórnsýsla skipulags- og byggingarfulltrúans í Borgarbyggð í kjölfar úrskurðar úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 57/2013. Þá séu kærð svör lögmanns Borgarbyggðar við athugasemdum kæranda við grenndarkynningu vegna Egilsgötu 6. Loks krefst kærandi stöðvunar rekstrar í húsinu.

Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010 er m.a. óheimilt að grafa grunn fyrir mannvirki, reisa það, breyta notkun þess, útliti eða formi nema með fengnu leyfi viðkomandi byggingarfulltrúa. Jafnframt skal byggingarleyfisskyld framkvæmd vera í samræmi við skipulagsáætlanir, sbr. 2. mgr. 10. gr. laganna. Þegar sótt er um byggingarleyfi á ódeiliskipulögðu svæði og hin leyfisskylda framkvæmd er í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar í þegar byggðu hverfi getur sveitarstjórn ákveðið að veita megi leyfi án deiliskipulagsgerðar og skal skipulagsnefnd þá láta fara fram grenndarkynningu, sbr. 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Að grenndarkynningu lokinni og þegar sveitarstjórn hefur afgreitt málið skal þeim sem tjáðu sig um það tilkynnt niðurstaða sveitarstjórnar, sbr. 2. mgr. sömu lagagreinar, og byggingarfulltrúa veitt heimild til samþykkis eða synjunar í samræmi við niðurstöðu sveitarstjórnar.

Í málinu liggur fyrir að grenndarkynning fór fram í byrjun árs 2016, að henni lokinni var á fundi  umhverfis-, skipulags- og landbúnaðarnefndar, 6. júní s.á., samþykkt að fela skipulagsfulltrúa að svara athugasemdum í samræmi við umræður á fundinum. Á fundi sveitarstjórnar 9. s.m. voru drög að svörum við athugasemdum samþykkt og skipulags- og byggingarfulltrúa falið að gefa út byggingarleyfi. Í málinu liggur hins vegar ekki fyrir afgreiðsla byggingarfulltrúa á hinni kærðu byggingarleyfisumsókn en samkvæmt mannvirkjalögum er endanleg ákvörðun um samþykkt eða synjun byggingaráforma og útgáfa byggingarleyfis í höndum byggingarfulltrúa. Samkvæmt 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður ákvörðun sem ekki bindur enda á mál ekki kærð fyrr en málið hefur verið til lykta leitt. Að framangreindu virtu verður þeim hluta kærumálsins er lýtur að ákvörðun sveitastjórnar frá 9. júní 2016 um að fela skipulags- og byggingarfulltrúa að gefa út byggingarleyfi vísað frá úrskurðarnefndinni.

Jafnframt gerir kærandi þá kröfu að ákvörðun byggðarráðs Borgarbyggðar frá 7. júlí 2016 um að staðfesta afgreiðslu umhverfis-, skipulags og landbúnaðarnefndar frá 6. s.m. þess efnis að láta fara fram grenndarkynningu á breyttri notkun úr íbúðarhúsi í gistiheimili í húsi á lóð nr. 6 við Egilsgötu. Líkt og að framan greinir er kveðið á um í mannvirkjalögum að skylt sé að sækja um byggingarleyfi fyrir breyttri notkun mannvirkis. Af umræddri bókun umhverfis-, skipulags og landbúnaðarnefndar Borgarbyggðar verður ekki annað séð en að umrædd grenndarkynning um breytta notkun sé hluti af slíkri málsmeðferð, og eftir atvikum tengd fyrri ákvörðun nefndarinnar frá 6. júní s.á., sem staðfest var af sveitarstjórn 9. s.m. Svo sem áður greinir liggur frekari afgreiðsla byggingarfulltrúa hins vegar ekki fyrir og verður þessum hluta málsins því einnig vísað frá úrskurðarnefndinni, enda ekki um lokaákvörðun að ræða, sbr. áðurnefnda 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga.

Að framangreindri niðurstöðu fenginni verður ekki fjallað frekar um þær kröfur kæranda er lúta að svörum vegna grenndarkynningar enda er þar um að ræða hluta af málsmeðferð sem sætir ekki lögmætisathugun nefndarinnar fyrr en meðferð málsins er lokið. Aðrar kröfur kæranda lúta að stöðvun á rekstri gistiheimilis að Egilsgötu 6 og forsendum leyfis til þess rekstrar, m.a. afstöðu skipulags- og byggingarfulltrúa til fyrri umsagnar til sýslumannsins á Vesturlandi í kjölfar úrskurðar úrskurðarnefndarinnar í kærumáli nr. 57/2013. Rekstrarleyfi vegna nefndrar starfsemi eru gefin út af sýslumanninum á Vesturlandi og eru þau ekki kæranleg til úrskurðarnefndarinnar, heldur eftir atvikum til viðeigandi ráðuneytis. Sama á við um málsmeðferð varðandi kröfur um endurupptöku eða afturköllun slíkra leyfa. Hefur enda kærandi leitað til viðkomandi sýslumanns sem hafnaði því að afturkalla leyfið, m.a. byggt á upplýsingum sem veittar voru af skipulags- og byggingarfulltrúa. Þær upplýsingar um stöðu mála og afstöðu skipulags- og byggingarfulltrúa fela ekki í sér neina þá ákvörðun sem bindur enda á mál og kæranleg er til úrskurðarnefndarinnar, sbr. enn á ný 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulega, heldur voru þær liður í nefndri málsmeðferð sýslumanns sem leiðbeindi um kæruheimild til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins.

Samkvæmt því sem að framan er rakið verður öllum kröfum kæranda í máli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ómar Stefánsson                                                     Þorsteinn Þorsteinsson

8/2015 Tryggvagata Selfossi

Með
Árið 2016, þriðjudaginn 25. október, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 8/2015, kæra vegna ákvörðunar skipulags- og byggingarfulltrúa Árborgar 12. janúar 2015 um að gefa út stöðuleyfi vegna tveggja gáma við Tryggvagötu 6 á Selfossi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með ódagsettu bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 23. janúar 2015, kærir J, Tryggvagötu 4a, Selfossi, ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar frá 7. janúar 2015 um að gefa út stöðuleyfi vegna tveggja gáma á lóðinni Tryggvagötu 6. Skilja verður málskot kæranda svo að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að umræddir gámar verði fjarlægðir.

Gögn málsins bárust frá sveitarfélaginu Árborg 17. febrúar 2015.

Málsatvik og rök: Snemma árs 2014 keypti kærandi fasteign við Tryggvagötu á Selfossi. Síðar sama ár hafði kærandi samband við skipulags- og byggingarfulltrúa Árborgar og óskaði eftir upplýsingum um stöðuleyfi vegna tveggja gáma á næstu lóð, Tryggvagötu 6, sem er íbúðarlóð samkvæmt gildandi deiliskipulagi. Í janúar 2015 fékk kærandi þær upplýsingar frá sveitarfélaginu að stöðuleyfi hefði verið gefið út fyrir staðsetningu gámanna í janúar s.á. og að sú ákvörðun væri kæranlega til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála skv. 59. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010.

Kærandi telur að ekki hafi verið veitt tímabundið leyfi fyrir gámunum þar sem þeir hafi verið staðsettir á lóðinni í mörg ár og ekki sé minnst á stöðuleyfi fyrir gámunum í eldri fundargerðum skipulags- og byggingarnefndar Árborgar. Gámarnir séu staðsettir á lóðinni Tryggvagötu 6, þremur metrum frá lóðarmörkum kæranda og í beinni sjónlínu frá gluggum fasteignar hans. Staðsetning þeirra sé óviðunandi og hafi mikla sjónmengun í för með sér.

Af hálfu sveitarfélagsins kemur fram að leyfishafi hafi sótt um stöðuleyfi 9. október 2014. Hinn 7. janúar 2015 hafi umsóknin verið samþykkt á fundi skipulags- og byggingarnefndar og tilkynning um afgreiðslu fundarins, undirrituð af skipulags- og byggingarfulltrúa, send leyfishafa hinn 12. s.m. Leyfið hafi verið veitt til tólf mánaða, sbr. ákvæði gr. 2.6.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012.

Niðurstaða:
Hið kærða stöðuleyfi var tímabundið og rann út hinn 12. janúar 2016. Hefur leyfið því ekki lengur réttarverkan að lögum. Af þeim sökum hefur kærandi ekki lengur þá lögvörðu hagsmuni af því að fá skorið úr um hvort fella eigi leyfið úr gildi sem kveðið er á um í 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Ber því að vísa máli þessu frá úrskurðarnefndinni.

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 er það hlutverk úrskurðarnefndarinnar að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og í ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála, eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Tekur úrskurðarnefndin því fyrst og fremst afstöðu til lögmætis ákvarðana sem þegar hafa verið teknar af stjórnvöldum innan stjórnsýslunnar. Það er ekki á valdsviði nefndarinnar að taka ákvörðun um að umræddir gámar verði fjarlægðir, en kærandi getur eftir atvikum gert þá kröfu til byggingarfulltrúa sveitarfélagsins að gámar án stöðuleyfis verði fjarlægðir, sbr. gr. 2.6.2. í byggingarreglugerð nr. 112/2012.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                  Þorsteinn Þorsteinsson

40/2014 Kárahnjúks- og Lagarfossvirkjanir

Með
Árið 2016, föstudaginn 2. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættar voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Hólmfríður Grímsdóttir héraðsdómari.

Fyrir var tekið mál nr. 40/2014, kæra á ákvörðun Orkustofnunar frá 9. apríl 2014 um að synja kröfu Fljótsdalshéraðs um endurupptöku á málsmeðferð varðandi skilmála virkjunarleyfa Kárahnjúka- og Lagarfossvirkjana.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 6. maí 2014, er barst nefndinni 8. s.m., kærir Fljótsdalshérað, Lyngási 12, Egilsstöðum, þá ákvörðun Orkustofnunar frá 9. apríl 2014 að synja kröfu Fljótsdalshéraðs um endurupptöku á málsmeðferð varðandi skilmála virkjunarleyfa Kárahnjúka- og Lagarfossvirkjana. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og stofnuninni falið að fjalla um málið á nýjan leik.

Gögn málsins bárust frá Orkustofnun 23. maí 2014.

Málavextir: Með bréfi, dags. 30. maí 2013, óskaði kærandi þess að Orkustofnun kannaði hvort farið hefði verið að skilmálum virkjunarleyfa vegna Kárahnjúkavirkjunar og Lagarfossvirkjunar, einkum varðandi rennsli og vatnsyfirborð Lagarfljóts. Segir m.a. í bréfi kæranda að ástæða sé til þess að farið verði heildstætt yfir skilmála leyfanna. Orkustofnun leitaði í kjölfarið umsagna virkjunaraðila. Að þeim fengnum kom kærandi að frekari athugasemdum og benti á að tilefni væri til þess að taka til skoðunar hvort umrædd virkjunarleyfi skyldu endurskoðuð. Stofnunin svaraði með bréfi, dags. 6. janúar 2014, þar sem fram kom sú niðurstaða hennar að ekki væri ástæða að svo stöddu til að endurskoða skilmála Kárahnjúka- og Lagarfossvirkjana. Var tekið fram að samkvæmt 2. mgr. 37. gr. raforkulaga nr. 65/2003 sættu ákvarðanir Orkustofnunar er lytu að veitingu, endurskoðun og afturköllun leyfa, sbr. nánar tilgreind ákvæði laganna, kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Jafnframt að um aðild, kærufrest, málsmeðferð og annað varðandi kæru færi samkvæmt lögum um úrskurðarnefndina nr. 130/2011.

Með bréfi til Orkustofnunar, dags. 4. mars 2014, fór kærandi fram á að stofnunin endurupptæki málsmeðferð varðandi skilmála virkjunarleyfanna eða veitti fyllri rökstuðning fyrir afgreiðslu málsins. Í svarbréfi stofnunarinnar, dags. 9. apríl s.á., var beiðni kæranda um endurupptöku hafnað og jafnframt kom fram það álit stofnunarinnar að rökstuðningur fyrir ákvörðuninni væri í samræmi við 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Hefur þessi ákvörðun verið kærð til úrskurðarnefndarinnar, svo sem að framan greinir.

Málsrök Fljótsdalshéraðs:
Af hálfu sveitarfélagsins er um kæruheimild vísað til 2. mgr. 37. gr. raforkulaga nr. 65/2003, en höfnun endurupptöku á málsmeðferð varðandi endurskoðun og skilmála virkjunarleyfis falli undir valdssvið úrskurðarnefndarinnar. Að öðrum kosti beri að vísa málinu til þess ráðuneytis sem með yfirstjórn málaflokksins fari.

Hvað varði lögvarða hagsmuni kæranda sé því vísað á bug að þeir séu ekki til staðar, enda fari hann sem sveitarfélag með stjórn skipulag- og náttúruverndarmála. Kærandi hafi m.a. komið að útgáfu framkvæmdaleyfis fyrir Lagarfossvirkjun og varði athugasemdir hans m.a. það að virkjunaraðili hafi ekki staðið að rekstri í samræmi við upplýsingar sem því lágu til grundvallar.

Áréttað sé að eftirlit Orkustofnunar með virkjunaraðilum sé viðvarandi og geti stofnunin því hvenær sem er hafið málsmeðferð varðandi endurskoðun virkjunarleyfa. Kærandi telji hins vegar mikilvægt, í ljósi þeirrar vinnu sem fram hafi farið við málið, að það sé tekið upp og fjallað um þau efnisatriði sem komið hafi fram á grundvelli fullnægjandi gagna.

Málsrök Orkustofnunar: Orkustofnun tekur fram að málið varði endurupptöku máls en hvorki endurskoðun né afturköllun leyfis sem fjallað sé um í 1. mgr. 4. gr., 2. mgr. 9. gr. og 2. mgr. 11. gr. raforkulaga nr. 65/2003, sbr. 2. mgr. 37. gr. laganna. Samkvæmt 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 sé aðila máls hins vegar heimilt að kæra stjórnvaldsákvörðun til æðra stjórnvalds til þess að fá hana fellda úr gildi eða henni breytt nema annað leiði af lögum eða venju. Í tilviki Orkustofnunar sé atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið það æðra stjórnvald sem beina hefði átt kæru til, en ekki úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Í ákvörðun Orkustofnunar frá 6. janúar 2014 hafi verið leiðbeint um kæruheimild til úrskurðarnefndarinnar. Kærandi hafi ekki nýtt sér þá heimild, enda kærufrestur verið liðinn, heldur valið þá leið með vísan til 24. gr. stjórnsýslulaga að óska endurupptöku á málinu varðandi skilmála hinna umdeildu virkjunarleyfa eða eftir frekari rökstuðningi. Ákvörðun Orkustofnunar um að synja endurupptöku hafi verið tekin með vísan til 1. tl. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga, en skilyrðum ákvæðisins hafi ekki verið fullnægt. Kærandi hafi kært þá ákvörðun á grundvelli raforkulaga en stjórnvaldsákvarðanir sem ekki varði ákvæði þeirra laga fari að ákvæðum stjórnsýslulaga, eins og hin kærða ákvörðun beri með sér. Kæruheimild sé því til æðra stjórnvalds á grundvelli 26. gr. þeirra laga.

Athugasemdir Landsvirkjunar: Landsvirkjun bendir á að sérstaklega sé lögákveðið í 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hverjir geti kært stjórnvaldsákvarðanir til nefndarinnar, en það geti þeir einir sem eigi lögvarða hagsmuni tengda ákvörðun sem kæra eigi auk samtaka sem starfi í ákveðnum tilgangi. Óljóst sé á hvaða lagagrundvelli kærandi hafi lögvarinna hagsmuna að gæta í máli þessu og beri úrskurðarnefndinni að vísa málinu frá af þeim sökum þar sem almenn aðildarskilyrði stjórnsýsluréttarins eigi ekki við.

Athugasemdir Orkusölunnar: Orkusalan telur kæranda ekki eiga aðild að máli er snúi að skilmálum virkjunarleyfis vegna Lagarfossvirkjunar þar sem það hafi ekki beina, sérstaka, verulega og lögvarða hagsmuni af úrlausn þess. Sem sveitarfélag hafi kærandi hvorki beina né óbeina hagsmuni af úrlausn málsins þar sem skilmálar virkjunarleyfis þess sem um sé deilt varði hagsmuni virkjunarleyfishafa og landeigenda við Lagarfossvirkjun en ekki hagsmuni sem sveitarfélögum beri að gæta að. Í 7. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 segi m.a. að sveitarfélög skuli annast verkefni sem þeim séu falin í lögum og vinna að sameiginlegum velferðarmálum íbúa eftir því sem fært þyki. Hvorugt þessara skilyrða sé fyrir hendi í máli þessu. Sveitarfélögum beri að vinna að málum sem sérstaklega séu tiltekin í löggjöf og að sameiginlegum hagsmunamálum íbúa sinna. Kærandi gangi hins vegar erinda tiltekinna landeigenda í kærumáli á hendur atvinnurekanda í sama sveitarfélagi. Uppfylli það bersýnilega ekki þær kröfur sem gerðar séu til aðildar í stjórnsýslumáli.

Sveitarfélag geti ekki talist hafa lögvarða hagsmuni vegna virkjunarleyfis samkvæmt raforkulögum með vísan til þess að það geri skipulagsáætlanir eða veiti framkvæmdaleyfi. Kærandi hafi með kæru farið út fyrir sitt lögbundna hlutverk. Þá liggi skipulag vegna Lagarfossvirkjunar þegar fyrir og sé ekki um það deilt í málinu. Loks undirbyggi það ekki aðild að stjórnsýslumáli er snúi að virkjunarleyfi þótt sveitarfélög hafi visst hlutverk við framkvæmd náttúruverndarlaga.

Hvort sem málið eigi undir úrskurðarnefndina eða viðeigandi ráðherra beri að vísa því frá þar sem kærandi eigi ekki aðild að því.

——-

Aðilar hafa gert ítarlegri grein fyrir sjónarmiðum sínum sem ekki verða rakin nánar hér en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Kæruheimildir til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála er að finna í ýmsum sérlögum og er fjallað um eina slíka í 2. mgr. 37. gr. raforkulaga nr. 65/2003. Samkvæmt lagaákvæðinu sæta ákvarðanir Orkustofnunar er lúta að veitingu, endurskoðun og afturköllun leyfa sem fjallað er um í 1. mgr. 4. gr., 2. mgr. 9. gr. og 2. mgr. 11. gr. laganna kæru til úrskurðarnefndarinnar, en um aðild, kærufrest, málsmeðferð og annað er varðar kæruna fer samkvæmt lögum um úrskurðarnefndina. Þau lög eru nr. 130/2011 og er fjallað um kæruaðild í 3. mgr. 4. gr. þeirra. Þar er tekið fram að þeir einir geti kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eigi lögvarða hagsmuni tengda ákvörðun sem kæra eigi. Umhverfisverndar-, útivistar- og hagsmunasamtök geta þó kært nánar tilgreindar ákvarðanir að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Kærandi í máli þessu er ekki slík samtök heldur sveitarfélag og er lögfesta kæruheimild því til handa hvorki að finna í lögum nr. 130/2011 né raforkulögum.

Í kæru vísar sveitarfélagið um lögvarða hagsmuni sína til þess að það fari með stjórn skipulags- og náttúruverndarmála. Það hafi t.a.m. komið að útgáfu framkvæmdaleyfis fyrir Lagarfossvirkjun á grundvelli tilkynningar virkjunaraðila til Skipulagsstofnunar um framkvæmdina, en athugasemdir sveitarfélagsins lúti m.a. að því að virkjunaraðili hafi ekki staðið að rekstri í samræmi við upplýsingar sem fram hafi komið í þeirri tilkynningu. Þá hafi sveitarfélagið með margs konar hætti fengið til umfjöllunar málefni er tengist náttúruverndarþætti málsins.

Í 3. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 kemur fram að sveitarfélög séu sjálfstæð stjórnvöld og er í 7. gr. laganna fjallað um almennar skyldur þeirra. Í 1. mgr. lagagreinarinnar segir að sveitarfélögum sé skylt að annast þau verkefni sem þeim eru falin í lögum. Svo hefur t.d. verið gert í skipulagslögum nr. 123/2010, sbr. 13. og 14. gr. þeirra um veitingu framkvæmdaleyfis. Stjórnvald sem tekur stjórnvaldsákvörðun í skjóli opinbers valds síns, t.d. um leyfisveitingu, er hins vegar ekki aðili að því máli og getur ekki átt að því kæruaðild í skilningi 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Verður því að líta svo að sveitarfélagið verði að eiga lögvarða hagsmuni af úrlausn máls til að geta átt að því kæruaðild. Í samræmi við almennar reglur stjórnsýsluréttarins um aðild í kærumálum verður og við það að miða að það verði að eiga sérstaka einstaklingsbundna hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun.

Af kæru og öðrum gögnum málsins verður ráðið að athugasemdir kæranda beinast að vatnsborði í Lagarfljóti og stýringu hæðar þess. Hvað Lagarfossvirkjun varðar hefur kærandi einnig bent á að gert hafi verið ráð fyrir því að samið yrði við landeigendur vegna vatnshæðar. Svo sem fram er komið er kærandi stjórnvald sem gætir opinberra hagsmuna að lögum, t.a.m. á grundvelli skipulagslaga og náttúruverndarlaga, svo sem kærandi hefur vísað til. Hvorki slík almannahagsmunagæsla né eftir atvikum hagsmunagæsla einstakra landeigenda eða annarra íbúa sveitarfélagsins skapa kæranda hins vegar kæruaðild, enda ekki um einstaklega lögvarða hagsmuni hans að ræða, sbr. áðurnefnda 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011.

Að öllu framangreindu virtu er ljóst að kærandi á ekki aðild að kærumáli þessu og verður því þegar af þeirri ástæðu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                      Hólmfríður Grímsdóttir

75/2016 Leirdalur

Með
Árið 2016, föstudaginn 19. ágúst, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 75/2016, kæra á ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs Reykjanesbæjar um að samþykkja að breyta einbýlishúsum á lóðum nr. 29-37 við Leirdal í tvíbýlishús. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 20. júní 2016, er barst nefndinni 21. s.m, kæra 40 íbúar við Leirdal, Hamradal og Hraundal, þá ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs Reykjanesbæjar frá 8. mars 2016, sem staðfest var í bæjarstjórn 16. s.m., að heimila lóðarhafa Leirdals 29-37 að hafa á lóðunum tvíbýlishús í stað einbýlishúsa. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Með bréfi, dags. 28. júní 2016, kröfðust kærendur þess að framkvæmdir á nefndum lóðum yrðu stöðvaðar á meðan málið væri til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfu kærenda.

Gögn málsins bárust frá Reykjanesbæ 7. júlí og 5. ágúst 2016.

Málsatvik og rök:
Umhverfis- og skipulagsráð Reykjanesbæjar samþykkti 8. mars 2016, með vísan til 3. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, umsókn lóðarhafa Leirdals 29-37 um heimild til þess að breyta fokheldum einbýlishúsum lóðanna í tvíbýli og staðfesti bæjarstjórn þá afgreiðslu 16. s.m. Hinn 7. apríl s.á. ritaði hópur íbúa í nágrenni Leirdals bréf til bæjaryfirvalda þar sem þeir lýstu andstöðu við breytingar á lóðunum að Leirdal 7-37 og kröfðust þess að ákvörðunin yrði afturkölluð. Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 12. apríl 2016 var tekin fyrir umsókn lóðarhafa þess efnis að skipulagi lóðanna Leirdalur 7-27 yrði breytt og þar gert ráð fyrir tvíbýlishúsum í stað einbýlishúsa. Umhverfis- og skipulagsráð hafnaði umsókninni, m.a. með hliðsjón af undirskriftalistum íbúa Leirdals og Hamradals, þar sem lagst var alfarið gegn umræddum breytingum. Ráðið tók þó fram að endurskoðun deiliskipulagsins væri í undirbúningi.
 
Hinn 20. júní 2016 samþykkti umhverfis- og skipulagsráð að úthluta lóðunum Leirdal 7-27 til lóðarhafa lóða nr. 29-37 með þeim fyrirvörum að fyrirhuguð deiliskipulagsbreyting yrði samþykkt. Tillaga að þeirri deiliskipulagsbreytingu hefur ekki verið lögð fram á fundi umhverfis- og skipulagsráðs.

Kærendur telja að ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs eigi ekki að fá að standa þar sem ein forsenda þess að fasteignareigendur á svæðinu hafi keypt eða byggt þar hús hafi verið sú að hverfið væri skipulagt sem einbýlishúsahverfi. Þá sé um fordæmisgefandi ákvörðun að ræða og ekki sé hægt að samþykkja svo stórtækar breytingar án grenndarkynningar. Bílastæðafjöldi við lóðirnar dugi ekki til þegar fjöldi íbúða sé tvöfaldaður og umferð muni koma til með að aukast um helming, sem auki slysahættu.

Sveitarfélagið telur að umþrættar breytingar komi öllum til góða, þar sem umrædd hús hafi staðið fokheld í átta ár, öllum til ama, og engar horfur á að þau seldust sem svo stór einbýli á næstu árum. Tekið hafi verið tillit til þess að engar breytingar yrðu á útliti og stærð húsa eða nýtingarhlutfalli lóða. Þá hafi ekki enn verið sótt um byggingarleyfi fyrir fyrirhuguðum framkvæmdum.

Lóðarhafi gerir kröfu um frávísun kærumálsins þar sem kærufrestur hafi verið liðinn þegar kæran hafi borist úrskurðarnefndinni. Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála nr. 130/2011 sé kærufrestur einn mánuður frá þeim tíma er kæranda mátti vera kunnugt um viðeigandi ákvörðun. Hin kærða ákvörðun hafi verið birt á vef Reykjanesbæjar 9. mars 2016 og hafi kærufrestur því runnið út mánuði síðar, eða 9. apríl s.á. Í öllu falli sé ljóst að kærendum hafi verið kunnugt um ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs í síðasta lagi 7. apríl 2016 þegar þau hafi undirritað mótmælabréf í kjölfar ákvörðunar ráðsins, sem leiði til þess að kærufrestur hafi runnið út í síðasta lagi 7. maí 2016. 

Niðurstaða: Með hinni kærðu ákvörðun var samþykkt að veita lóðarhafa Leirdals 29-37 heimild til að breyta fokheldum einbýlishúsum á þeim lóðum í tvíbýli, en samkvæmt gildandi deiliskipulagi svæðisins frá september 2005 er gert ráð fyrir einbýlishúsum á umræddum lóðum. Hin kærða ákvörðun var tekin með stoð í 3. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Þar er skipulagsnefnd veitt heimild til að falla frá grenndarkynningu ef sýnt er fram á að breyting á deiliskipulagi eða leyfisskyld framkvæmd varði ekki hagsmuni annarra en sveitarfélagsins eða umsækjanda.

Í málinu liggur fyrir að tillaga að breyttu deiliskipulagi Leirdals 29-37 hefur hvorki verið samþykkt af sveitarstjórn né birt í B-deild Stjórnartíðinda og ekki hefur verið samþykkt byggingarleyfi fyrir umdeildum breytingum. Samkvæmt 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður ákvörðun, sem ekki telst lokaákvörðun í skilningi ákvæðisins, ekki borin undir kærustjórnvald. Verður því að vísa máli þessu frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                  Þorsteinn Þorsteinsson

 

48/2016 Flatahraun

Með
Árið 2016, miðvikudaginn 24. ágúst, tók Nanna Magnadóttir, forstöðumaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, fyrir mál nr. 48/2016 með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi, dags. 2. maí 2016, er framsent var af innanríkisráðuneytinu til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með bréfi, dags. 9. s.m., kærir G, þá ákvörðun Hafnarfjarðarbæjar að leggja á gjöld vegna stöðuleyfa. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá Hafnarfjarðarbæ 6. júlí og 23. ágúst 2016.

Málsatvik og rök: Með bréfi, dags. 6. apríl 2016, tilkynnti Hafnarfjarðarbær hlutaðeigandi þá ákvörðun bæjarstjórnar frá 20. janúar s.á. að tekið yrði upp gjald fyrir stöðuleyfi vegna gáma, skv. 2.6.1. gr. byggingarreglugerðar nr. 112/2012 og gjaldskrá fyrir leyfisveitingar og þjónustu byggingarfulltrúa og skipulagsfulltrúa í Hafnarfjarðarkaupstað nr. 1244/2015 er birt var í B-deild Stjórnartíðinda 4. janúar 2016. Samkvæmt bréfinu skyldi ársgjald vegna stöðuleyfis fyrir 20 feta gám eða minna vera kr. 31.780 og fyrir 40 feta gám eða minna kr. 63.559.

Kærandi kveður gjald það sem Hafnarfjarðarbær hafi ákveðið að innheimta vegna stöðuleyfa vera skatt þar sem engin þjónusta komi fyrir. Þar af leiðandi sé um ólögmæta skattheimtu að ræða. Hann sé með 20 feta gám sem sé 15 m² smáhýsi staðsett á lóð en um sé að ræða hjóla- og verkfærageymslu sem undanþegin sé byggingarleyfi.

Hafnarfjarðarbær kveður heimild til töku gjalds fyrir stöðuleyfi vera í 51. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Samkvæmt gr. 2.6.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 sé óheimilt að láta hjólhýsi, gáma, báta, torgsöluhús, frístundahús í smíðum sem ætlað er til flutnings og stór samkomutjöld standa lengur en tvo mánuði utan þeirra svæða sem sérstaklega séu skipulögð og ætluð til geymslu slíkra hluta. Aftur á móti sé unnt að sækja um stöðuleyfi fyrir ofangreinda lausafjármuni sé ætlunin að þeir standi lengur utan slíkra geymslustaða.

Niðurstaða: Kæra í máli þessu snýst um um lögmæti gjalds fyrir stöðuleyfi, sbr. 2. gr. gjaldskrár nr. 1244/2015 fyrir leyfisveitingar og þjónustu byggingarfulltrúa og skipulagsfulltrúa í Hafnarfjarðarkaupstað, er birtist í B-deild Stjórnartíðinda 4. janúar 2016. Samkvæmt þeim upplýsingum sem úrskurðarnefndin hefur aflað frá sveitarfélaginu mun kærandi ekki hafa sótt um slíkt stöðuleyfi og hefur hann því ekki verið krafinn um hið kærða gjald.

Í 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála kemur m.a. fram að hlutverk úrskurðarnefndarinnar sé að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á þessu sviði. Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laganna geta þeir einir kært stjórnvaldsákvarðanir til nefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á. Er það í samræmi við þá meginreglu stjórnsýsluréttar að kæruaðild sé bundin við þá sem eiga einstaklingsbundna og verulega lögvarða hagsmuni tengda hinni kæranlegu ákvörðun.

Eins og áður hefur verið rakið liggur engin ákvörðun fyrir í máli þessu um álagningu gjalda á kæranda á grundvelli hinnar umdeildu gjaldskrár. Verður því að telja að kæran beinist að lögmæti hennar. Samkvæmt 51. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010 er sveitarstjórnum heimilt að setja gjaldskrá fyrir veitta þjónustu og verkefni byggingarfulltrúa, m.a. fyrir útgáfu stöðuleyfa. Upphæð gjalds skal taka mið af kostnaði við þjónustu og einstök verkefni og skal byggð á rekstraráætlun þar sem rökstudd eru þau atriði sem ákvörðun gjalds byggist á. Gjaldskrá skal birt í B-deild Stjórnartíðinda. Slík gjaldskrá felur í sér heimild til innheimtu gjalda samkvæmt nánar tilgreindum skilyrðum sem þar koma fram. Þótt gjaldskráin geti haft verulega þýðingu fyrir þá aðila er þar falla undir, verður ekki talið að setning hennar ein og sér skapi almennt þá sérstöku lögvörðu hagsmuni að það veiti einstökum aðilum, sem mögulega verður gert að greiða gjöld samkvæmt henni, stöðu aðila máls.

Verður  með vísan til alls þess sem að framan er rakið ekki talið að kærandi hafi lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins og verður máli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni í samræmi við ákvæði fyrrgreindrar 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

53/2016 Kröflulína 4 Þingeyjarsveit

Með
Árið 2016, föstudaginn 19. ágúst, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ómar Stefánsson varaformaður og Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor.

Fyrir var tekið mál nr. 53/2016, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar frá 28. apríl 2016 um að samþykkja framkvæmdaleyfi fyrir Kröflulínu 4.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 26. maí 2016, er barst nefndinni sama dag, kærir Landvernd, landgræðslu- og umhverfisverndarsamtök Íslands, Þórunnartúni 6, Reykjavík, þá ákvörðun sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar frá 28. apríl 2016 að samþykkja framkvæmdaleyfi fyrir Kröflulínu 4, 220 kV háspennulínu. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Þess er jafnframt krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfu kæranda.

Gögn málsins bárust frá Þingeyjarsveit 2. og 14. júní 2016.

Málsatvik og rök: Á fundi sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar, sem haldinn var 28. apríl 2016, var samþykkt umsókn Landsnets hf. um framkvæmdaleyfi vegna Kröflulínu 4. Kom fram að framkvæmdin væri matsskyld samkvæmt lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum og væri matsskýrsla og álit Skipulagsstofnunar meðfylgjandi. Samkvæmt fundargerð var sótt um leyfið á grundvelli Aðalskipulags Þingeyjarsveitar 2010-2022, þar sem gert væri ráð fyrir háspennulínum og einnig væri gert ráð fyrir framkvæmdinni í aðalskipulagi nágrannasveitarfélaganna, Norðurþings og Skútustaðahrepps. Loks kom fram að náðst hefði samkomulag við landeigendur þeirra lendna sem fyrirhuguð lína myndi liggja um. Var skipulags- og byggingarfulltrúa sveitarfélagsins falið að gefa út leyfið í samræmi við reglugerð nr. 772/2012 um framkvæmdaleyfi og var það gefið út 1. júní 2016.

Kærandi telur mál þetta hafa almenna þýðingu fyrir náttúru Íslands og orðspor landsins, alla Íslendinga, erlenda ferðamenn og vísindamenn er heimsæki Ísland. Hagsmunirnir séu stórfelldir en um sé að ræða svæði sem fyrirhugað sé að vinna veruleg og óafturkallanleg spjöll á.

Með bréfi Þingeyjarsveitar til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 14. júní 2016, er tilkynnt að ákvörðun sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar frá 28. apríl 2016 hafi verið afturkölluð á sveitarstjórnarfundi 8. júní s.á. Í bókun sveitarstjórnar komi fram að ástæða afturköllunar sé sú að ekki liggi fyrir bókun skipulags- og umhverfisnefndar varðandi umsókn um framkvæmdaleyfið. Jafnframt hafi verið bókað að lagt væri fyrir nefndina að taka málið til umfjöllunar og afgreiðslu. Í ljósi þessa beri að vísa kærumáli þessu frá úrskurðarnefndinni.

Niðurstaða: Eins og fram hefur komið tók sveitarstjórn Þingeyjarsveitar þá ákvörðun hinn 8. júní 2016 að afturkalla hina kærðu ákvörðun sína frá 28. apríl s.á. að veita framkvæmdaleyfi vegna lagningar Kröflulínu 4 innan sveitarfélagsins.

Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvarðanir til nefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á. Umhverfisverndar-, útivistar- og hagsmunasamtök, sem uppfylla tiltekin skilyrði og hafa þann tilgang að gæta þeirra hagsmuna sem kæran lýtur að, er þó m.a. heimilt að kæra leyfisveitingar vegna framkvæmda sem falla undir lög um mat á umhverfisáhrifum án þess að sýna fram á lögvarða hagsmuni. Á þessi heimild við um kæranda og kæruefnið. Eftir afturköllun hinnar kærðu ákvörðunar hefur hún ekki réttarverkan að lögum og hefur því enga þýðingu, hvorki með tilliti til einstaklingsbundinna- né almannahagsmuna að fá skorið úr um gildi ákvörðunarinnar. Verður kærumáli þessu þegar af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ómar Stefánsson                                                    Aðalheiður Jóhannsdóttir