Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

41/2016 Hvannalundur

Árið 2016, fimmtudaginn 24. nóvember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar-verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 41/2016, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Bláskógabyggðar frá 7. apríl 2016 um að synja beiðni um að fjarlægja eða færa til mannvirki á lóð nr. 8 við Hvannalund í Bláskógabyggð.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 25. apríl 2016, er barst nefndinni 27. s.m., kæra eigendur lóðar nr. 10 við Hvannalund, Bláskógabyggð, þá ákvörðun sveitarstjórnar Bláskógabyggðar frá 7. apríl 2016 að synja beiðni um að fjarlægja eða færa til mannvirki á lóðinni að Hvannalundi 8. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og að sveitarfélaginu verði gert að hlutast til um það að umrætt mannvirki verði fjarlægt eða fært til þannig að það sé að lágmarki 10 m frá lóðamörkum.

Gögn málsins bárust frá sveitarfélaginu 13. júní 2016.

Málavextir: Mál þetta á sér nokkurn aðdraganda, en með úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, uppkveðnum 17. apríl 2015, var felld úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúa uppsveita Árnessýslu og Flóahrepps frá 13. september 2011 um að sam-þykkja leyfi til að stækka sumarhús á lóðinni nr. 8 við Hvannalund. Taldi úrskurðarnefndin að samkvæmt Aðalskipulagi Bláskógabyggðar, Þingvallasveit 2004-2016 og með vísan til gr. 4.22.2. í skipulagsreglugerð nr. 400/1998 væri ekki heimilt að veita hið umdeilda byggingar-leyfi án undangenginnar deiliskipulagsgerðar.

Kærendur máls þessa, er staðið höfðu að fyrrgreindu málsskoti, sendu 25. maí s.á. tölvubréf til sveitarfélagsins og óskuðu eftir viðbrögðum þess við ofangreindum úrskurði. Töldu þeir ljóst að reist hefði verið nýbygging án gildandi heimilda. Stæði hún á lóðarmörkum en slíkt hefði verið óheimilt samkvæmt skipulagsreglugerð nr. 400/1998 og var þess farið á leit að upplýst yrði hvort til stæði að færa eða fjarlægja umrædda byggingu. Áréttuðu kærendur fyrirspurn sína með tölvubréfi 13. júní s.á. sem byggingarfulltrúi svaraði með bréfi 15. s.m. Á fundi skipulagsnefndar 25. júní 2015 var afgreiðslu málsins frestað og byggingarfulltrúa falið að leita álits lögfræðings um málið. Mun lögmaður kærenda hafa fengið þær upplýsingar frá byggingarfulltrúa í ágúst s.á. að unnið væri að umsögn vegna málsins og með tölvupósti lögmanns kærenda til byggingarfulltrúa 12. október 2015 var óskað frekari upplýsinga um fyrrnefnda umsögn. Með bréfi skipulagsfulltrúa til eigenda Hvannalundar 8, dags. 12. febrúar 2016, kom fram að gerð hefði verið sú krafa að stækkun sumarhúss þeirra yrði fjarlægð og var þeim veittur frestur til að koma að sjónarmiðum sínum. Bárust athugasemdir þeirra með bréfi, dags. 17. febrúar s.á.
Málið var tekið fyrir á fundi skipulagsnefndar 10. mars 2016 og eftirfarandi m.a. fært til bókar: „Skipulagsnefnd fellst ekki á að efnisrök eða hagsmunir séu fyrir því að fjarlægja húsið frá lóðarmörkum. Vinna við breytingu á aðalskipulagi sveitarfélagsins stendur nú yfir og er fyrirhugað að þeirri vinnu ljúki á haustmánuðum. Afgreiðslu umsóknar um byggingarleyfi er því frestað til 1. október 2016.“ Voru kærendur upplýstir um afgreiðslu skipulagsnefndar með tölvubréfi 31. mars 2016 í kjölfar fyrirspurnar þeirra um erindi sitt. Staðfesti sveitarstjórn nefnda afgreiðslu skipulagsnefndar 7. apríl s.á.

Málsrök kærenda: Kærendur benda á að ákvæði 2. mgr. 55. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki sé heimildarákvæði sem undirorpið sé frjálsu mati stjórnvalda. Verði ákvarðanir sem sveitarfélag taki á grundvelli ákvæðisins að fela í sér hagsmunamat, þar sem hagsmunir þriðja aðila sem ósáttur sé við bygginguna séu vegnir á móti hagsmunum byggingaraðila. Við ákvarðanatöku þurfi að fara að stjórnsýslulögum og málefnaleg sjónarmið að liggja til grundvallar. Af dómum Hæstaréttar megi ráða að þau sjónarmið sem skipti máli við nefnt hagsmunamat séu meðalhóf, huglæg afstaða eiganda mannvirkis, réttmætar væntingar og fjárhagsleg sjónarmið. Ekki hafi farið fram neitt slíkt mat af hálfu sveitarfélagsins í máli þessu. Viðbygging við umrætt sumarhús hafi verið reist án tilskilinna leyfa og síðar hafi byggingarmagni við lóðarmörk kærenda verið mótmælt við grenndarkynningu. Hafi sveitar-félagið farið þess á leit að byggingarmagn yrði ekki aukið á lóðarmörkum en þeim tilmælum hafi ekki verið fylgt eftir. Bæði sveitarfélagið og framkvæmdaraðili hafi vitað að ekki mætti veita leyfi fyrir framkvæmdunum án deiliskipulags vegna ákvæða í aðalskipulagi. Sé eign kærenda að Hvannalundi 10 ósöluhæf sökum fyrrnefndrar byggingar.

Málsrök Bláskógabyggðar: Sveitarfélagið bendir á að samkvæmt 2. mgr. 55. gr. laga um mannvirki sé byggingarfulltrúa heimilt að mæla fyrir um niðurrif óleyfisframkvæmdar. Sé ákvörðun þessi háð mati stjórnvalds hverju sinni, þar sem m.a. þurfi að taka tillit til meðalhófs. Geti kærendur ekki knúið byggingaryfirvöld til beitingar úrræðis þessa, enda séu þeim tryggð önnur réttarúrræði til að verja einstaklingsbundna hagsmuni sína. Megi hér vísa til úrskurðar úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 90/2012. Í öndverðu hafi ekki verið um óleyfisframkvæmd að ræða. Hafi byggingarleyfið verið fellt úr gildi vegna formannmarka á veitingu þess. Byggingarmagn við lóðamörk hafi verið óbreytt og ekki stafi hætta af húsinu. Hagsmunir kærenda og lóðarhafa Hvannalundar 8 hafi verið metnir við afgreiðslu málsins og skipulagssjónarmið höfð í huga. Þá liggi ekkert fyrir um að húseign kærenda hafi rýrnað í verði eða að þeir hafi orðið fyrir tjóni sökum þessa.

Athugasemdir lóðarhafa Hvannalundar 8: Sjónarmið umræddra lóðarhafa liggja fyrir í gögnum málsins. Þar kemur fram að þeir hafi árið 1991 fest kaup á lóðinni Hvannalundi 8 ásamt húsi reistu árið 1959. Árið 2010 hafi verið ákveðið að styrkja eldri undirstöður hússins og bæta við nýjum undirstöðum og endurnýja bita. Einnig hafi verið ákveðið að sækja um leyfi til að breyta gluggum, hækka þakið og lengja það yfir verönd sem sé í suður. Byggingarmagn á lóðarmörkum yrði það sama og áður. Við grenndarkynningu hafi allir hagsmunaðilar samþykkt nefndar breytingar nema eigendur Hvannalundar 10. Byggingarleyfi hafi síðan verið gefið út og hafi þá verið farið af stað og viðhald klárað. Hafi úrskurðarnefndin fellt leyfið úr gildi eingöngu þar sem ekki hafi mátt gefa það út fyrr en búið væri að deiliskipuleggja greint svæði.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti ákvörðunar sveitarstjórnar Bláskógabyggðar um að synja beiðni kærenda um að beitt verði úrræðum 2. mgr. 55. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki til að fjarlægja eða færa til mannvirki á lóðinni að Hvannalundi 8 við mörk lóðar þeirra. Í tilvitnuðu ákvæði er mælt fyrir um að ef byggingarframkvæmd sé hafin, án þess að leyfi sé fengið fyrir henni eða hún brjóti í bága við skipulag, geti byggingarfulltrúi krafist þess að hið ólöglega mannvirki eða byggingarhluti sé fjarlægt.

Sveitarstjórn er heimilt með sérstakri samþykkt samkvæmt 7. gr. mannvirkjalaga að kveða á um að í sveitarfélaginu starfi byggingarnefnd sem fjalli um byggingarleyfisumsókn áður en byggingarfulltrúi gefi út byggingarleyfi og hafi að öðru leyti eftirlit með stjórnsýslu hans fyrir hönd sveitarstjórnar. Er sveitarstjórn og heimilt að gera það að skilyrði fyrir útgáfu byggingar-leyfis af hálfu byggingarfulltrúa að byggingarnefnd eða sveitarstjórn hafi samþykkt útgáfuna, sbr. 2. mgr. 7. gr. laganna. Í ákvæðinu er ekki vikið að því hvort ákvörðun um beitingu þvingunarúrræða 2. mgr. 55. gr. laganna geti orðið með öðrum hætti en þar greinir. Ekki liggur fyrir að Bláskógabyggð hafi sett sér slíka samþykkt, en skv. 6. mgr. 7. gr. nefndra laga skal samþykkt sem sett er samkvæmt lagagreininni lögð fyrir umhverfis- og auðlindaráðherra til staðfestingar og birt af sveitarstjórn í B-deild Stjórnartíðinda. Enn fremur skal hún færð inn í rafrænt gagnasafn Mannvirkjastofnunar. Hins vegar er tekið fram í 48. gr. samþykktar um stjórn sveitarfélagsins Bláskógabyggðar nr. 592/2013, sem birt var í B-deild Stjórnartíðinda 27. júní s.á., að skipulagsnefnd fari með skipulagsmál skv. 6. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og byggingarmál skv. 7. gr. laga um mannvirki. Samþykktin er sett með stoð í 9. og 18. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 og var hún staðfest af innanríkisráðherra. Liggur því fyrir að sú samþykkt á ekki stoð í 7. gr. mannvirkjalaga og hefur hún ekki verið sett með þeim hætti sem þar er mælt fyrir um. Getur hún því ekki vikið til hliðar fyrirmælum 2. mgr. 55. gr. laganna um að það sé á forræði byggingarfulltrúa að meta og taka ákvörðun um beitingu þess þvingunarúrræðis sem þar greinir. Synjun skipulagsnefndar og sveitarstjórnar á erindi kærenda hefur því ekki þýðingu að lögum þar sem málið var ekki afgreitt af þar til bæru stjórnvaldi lögum samkvæmt.

Með vísan til þess sem að framan er rakið liggur ekki fyrir í málinu ákvörðun sem bindur endi á mál sem borin verður undir úrskurðarnefndina, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, og verður máli þessu því vísað frá nefndinni. 

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                  Þorsteinn Þorsteinsson