Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

115/2016 Dalsmári Tennishöll

Árið 2016, mánudaginn 21. nóvember, tók Nanna Magnadóttir, forstöðumaður úrskurðarefndar umhverfis- og auðlindamála, fyrir mál nr. 115/2016 með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 27. ágúst 2016, er barst nefndinni 29. s.m., kærir G, Þinghólsbraut 33, Kópavogi, þá ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogsbæjar frá 28. júní 2016 að samþykkja breytt deiliskipulag Kópavogsdals, útivistarsvæðis, vegna lóðar nr. 13 við Dalsmára. Gerðar eru athugasemdir við hina kærðu ákvörðun og verður að skilja málskot kæranda svo að þess sé krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá Kópavogsbæ 11. október 2016.

Málsatvik og rök: Árið 2013 var óskað heimildar til að stækka Tennishöllina að Dalsmára 13 og voru gögn lögð fram því til stuðnings. Í kjölfar samþykktar skipulagsnefndar, sem staðfest var af bæjarstjórn, var auglýst tillaga að breytingu á deiliskipulagi Kópavogsdals, útivistarsvæði, vegna lóðar nr. 13 við Dalsmára. Í breytingartillögunni fólst að greind lóð yrði stækkuð til austur og byggt yrði við Tennishöllina sem stendur á lóðinni. Á fundi skipulagsnefndar 20. október 2014 var deiliskipulagstillögunni hafnað. Á fundi bæjarráðs 23. s.m. var málinu frestað og vísað til umsagnar sviðsstjóra menntasviðs, framkvæmdastjóra markaðsstofu Kópavogs og sviðsstjóra umhverfissviðs. Á fundi bæjarráðs 27. nóvember s.á. var málinu vísað til skipulagsnefndar til umsagnar sem bókaði á fundi sínum 15. desember 2014 að afstaða nefndarinnar væri óbreytt.

Með bréfi, dags. 8. september 2015, var óskað eftir því að framlögð tillaga að nýju útliti og stækkunar Tennishallarinnar fengi afgreiðslu hjá skipulagsnefnd. Á fundi skipulagnefndar 5. október s.á. var erindinu hafnað, en á fundi bæjarstjórnar 13. s.m. var hins vegar samþykkt að auglýsa deiliskipulagstillöguna í samræmi við skipulagslög. Var tillagan auglýst í fjölmiðlum 13. nóvember 2015 með fresti til athugasemda til 11. janúar 2016. Bárust athugasemdir á kynningartíma, þ. á m. frá kæranda, og var þeim svarað með umsögn skipulags- og byggingardeildar. Á fundi skipulagsnefndar 27. júní 2016 var nefnd umsögn samþykkt sem og tillaga að breyttu deiliskipulagi. Var tillagan samþykkt af bæjarstjórn 28. s.m. og tók deiliskipulagsbreytingin gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 29. júlí 2016.

Kærandi skírskotar til þess að ekki hafi verið brugðist við athugasemdum hans í deiliskipulagsferlinu á nokkurn hátt. Afgreiðslutími málsins hafi farið út fyrir alla viðeigandi fresti og komið hafi nýjar upplýsingar á tímabilinu sem hefði átt að taka tillit til, t.a.m hugmyndir byggingaraðila um frágang, að hafa tennisvelli í kringum húsið og um bílastæði og annað er varði starfsemi tennisfélagsins. Þá sé sú bygging sem skipulagsbreytingin taki til sögð vera á íþróttasvæði en það sé hins vegar ljóst af öllum teikningum að byggingin muni ná talsvert inn á annað skipulagssvæði, þ.e. opið svæði, samkvæmt aðalskipulagi. Deiliskipulagstillagan sé því ekki í samræmi við orðalag aðalskipulags.

Af hálfu sveitarfélagsins er þess krafist að málinu verði vísað frá úrskurðarnefndinni. Hin kærða ákvörðun sé samþykkt breyting á deiliskipulagi vegna Tennishallarinnar við Dalsmára 13 í Kópavogsdal. Kærandi búi að Þinghólsbraut 33 í Kópavogi sem sé á sunnanverðu Kársnesi. Kærandi geti því ekki átt einstaklegra, verulegra né lögvarinna hagsmuna að gæta, enda búi hann ekki í næsta nágrenni við Tennishöllina. Þá sé því mótmælt að afgreiðslutími hafi farið út fyrir alla fresti. Allir lögbundnir frestir hafi verið virtir, m.a. hafi verið veittur lengri athugasemdarfrestur á kynningartíma og Skipulagsstofnun hafi verið send samþykkt deiliskipulagsbreyting innan sex mánaða líkt og kveðið sé á um í 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Þá sé ekki hægt að fallast á að hin kærða skipulagsbreyting sé ekki í samræmi við aðalskipulag Kópavogs. Ótækt sé að leggja svo mikla áherslu á nákvæmni aðalskipulags enda yrði deiliskipulagsgerð þá marklaus. Verði að veita bæjarstjórn svigrúm til að útfæra aðalskipulag líkt með hinu kærða deiliskipulagi. Hin kærða ákvörðun sé því ekki andstæð stefnu í aðalskipulagi.

Lóðarhafi Dalsmára 13 bendir á að kærandi búi fjarri því svæði sem hin kærða ákvörðun taki til. Verði því ekki séð að hann eigi lögvarinna hagsmuna að gæta í málinu í skilningi 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Af þeim sökum beri að vísa málinu frá úrskurðarnefndinni.

Niðurstaða: Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á nema tilteknum undantekningartilvikum sem þar eru greind. Verður að skýra þetta ákvæði í samræmi við almennar reglur stjórnsýsluréttar um aðild í kærumálum þar sem áskilið er að kærandi eigi beina einstaklingsbundna hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kærð er.

Í kæru eru gerðar athugasemdir við málsmeðferð, þ.e. að henni hafi verið ábótavant og ekki hafi verið staðið við lögbundna fresti. Jafnframt er því haldið fram að innbyrðis samræmi skipulagsáætlana hafi ekki verið gætt. Þá er í kæru vísað til athugasemda kæranda við auglýsta deiliskipulagstillögu og virðast þær að mestu byggja á gæslu almannahagsmuna, þ.m.t. skipulagslegra hagsmuna, s.s. um áhrif á nánasta umhverfi og umferð á svæðinu, auk þess að byggja á skoðunum á þróun starfsemi í Kópavogsdal. Hins vegar er hvorki minnst á möguleg grenndaráhrif sem gætu komið fram við framkvæmd hinnar kærðu ákvörðunar né hvaða annarra lögvarinna hagsmuna kærandi eigi mögulega að gæta í málinu.

Samkvæmt upplýsingum frá Þjóðskrá Íslands á kærandi lögheimili að Þinghólsbraut 33 í Kópavogi en hin kærða ákvörðun tekur til lóðarinnar Dalsmára 13 í Kópavogsdal. Hin kærða deiliskipulagsbreyting gerir ráð fyrir stækkun á Tennishöllinni sem er staðsett í tæplega tveggja kílómetra fjarlægð frá lögheimili kæranda. Þá er um sinn hvorn bæjarhlutann að ræða og liggur þar á milli Hafnarfjarðarvegur, fjögurra akreina stofnvegur, en til stofnvega teljast m.a. umferðarmestu vegir sem tengja saman sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu, sbr. a. lið 2. mgr. 8. gr. vegalaga nr. 80/2007. Er því ljóst að fasteign kæranda er ekki í þeirri nálægð við Tennishöllina, eða aðstæður að öðru leyti með þeim hætti, að framkvæmdir með stoð í hinni umdeildu deiliskipulagsbreytingu hafi þau áhrif á umhverfi hans að skapi honum þá einstaklegu lögvörðu hagsmuni sem gerðir eru að skilyrði fyrir kæruaðild, sbr. áðurnefnda 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Verður kærumáli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni

___________________________________
Nanna Magnadóttir