Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

154/2016 Nónhæð

Árið 2016, miðvikudaginn 14. desember, tók Nanna Magnadóttir, forstöðumaður úrskurðarefndar umhverfis- og auðlindamála, fyrir mál nr. 154/2016 með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 24. nóvember 2016, er barst nefndinni sama dag, kærir F, Foldarsmára 18, Kópavogi, þá ákvörðun bæjarstjórnar skipulagsnefndar Kópavogsbæjar frá 21. nóvember 2016 að vinna deiliskipulag fyrir Nónhæð í Kópavogi. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá Kópavogsbæ 12. desember 2016.

Málsatvik og rök: Á fundi skipulagsnefndar Kópavogsbæjar 21. nóvember 2016 voru lögð fram drög að deiliskipulagsbreytingu fyrir Nónhæð. Bókað var að í breytingunni fælist að í stað þjónustubygginga væri gert ráð fyrir íbúðarbyggð á svæðinu fyrir um 140 íbúðir að stofni til í þremur fjölbýlishúsum. Áætlað byggingarmagn ofanjarðar væri um 14.000 m² með áætlað nýtingarhlutfall 0,6, en hámarks byggingarmagn að meðtöldum geymslu og bílgeymslum neðanjarðar yrði um 19.000 m² með áætlað nýtingarhlutfall 0,7. Miðað væri við 1,2 bílastæði á íbúð, eða um 200 bílastæði, þar af um 100 stæði neðanjarðar. Var og bókað að skipulagsnefnd samþykkti að unnið yrði deiliskipulag á grundvelli þeirra draga sem fyrir lægju.

Á sama fundi var lögð fram tillaga skipulags- og byggingardeildar að skipulagslýsingu fyrir breytingu á Aðalskipulagi Kópavogs 2012-2024. Tekið var fram að lýsingin fjallaði um breytingu á landnotkun og talnagrunni í Nónhæð. Skipulagsnefnd samþykkti framlagða lýsingu og að hún yrði kynnt í samræmi við 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Vísaði nefndin málinu til afgreiðslu bæjarráðs og bæjarstjórnar. Bæjarráð tók málið fyrir á fundi sínum 24. nóvember 2016 og vísaði málinu áfram til afgreiðslu bæjarstjórnar.

Kærandi bendir á að samkvæmt gildandi aðalskipulagi Kópavogs sé umrætt svæði þegar skipulagt sem „opið svæði“ og „samfélagsþjónusta“ en ekki sem svæði undir íbúðarbyggð. Deiliskipulag sé því unnið í andstöðu við aðalskipulag og sé það ekki í samræmi við skipulagslög nr. 123/2010, einkum 3. mgr. 37. gr. sem mæli fyrir um að við gerð deiliskipulags skuli byggt á stefnu aðalskipulags. Aðeins þegar aðalskipulagi hafi verið breytt geti bæjaryfirvöld hugað að setningu deiliskipulags á umræddum reit.

Af hálfu sveitarfélagsins er þess krafist að málinu verði vísað frá úrskurðarnefndinni. Ekki hafi verið gerðar breytingar á deiliskipulagi fyrir Nónhæð heldur hafi skipulagsnefnd einungis heimilað að vinna við slíkar breytingar verði hafin. Málið hafi ekki verið tekið fyrir á fundi bæjarstjórnar. Vegna athugasemda kæranda sé bent á að skipulagsnefnd hafi samþykkt 21. nóvember 2016 að kynna skipulagslýsingu vegna breytingar á aðalskipulagi Kópavogs, en málið hafi þó ekki hlotið umfjöllun bæjarstjórnar.

Niðurstaða: Samkvæmt 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður ákvörðun, sem ekki bindur enda á mál, ekki kærð fyrr en málið hefur verið til lykta leitt. Ljóst er að ákvörðun skipulagsnefndar um að hefja megi vinnu við deiliskipulagsgerð markar upphaf máls en felur ekki í sér lokaákvörðun. Slík ákvörðun um málsmeðferð er ekki kæranleg til úrskurðarnefndarinnar, sbr. framangreind lagafyrirmæli. Verður kærumáli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni

___________________________________
Nanna Magnadóttir