Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

8/2015 Tryggvagata Selfossi

Árið 2016, þriðjudaginn 25. október, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 8/2015, kæra vegna ákvörðunar skipulags- og byggingarfulltrúa Árborgar 12. janúar 2015 um að gefa út stöðuleyfi vegna tveggja gáma við Tryggvagötu 6 á Selfossi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með ódagsettu bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 23. janúar 2015, kærir J, Tryggvagötu 4a, Selfossi, ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar frá 7. janúar 2015 um að gefa út stöðuleyfi vegna tveggja gáma á lóðinni Tryggvagötu 6. Skilja verður málskot kæranda svo að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að umræddir gámar verði fjarlægðir.

Gögn málsins bárust frá sveitarfélaginu Árborg 17. febrúar 2015.

Málsatvik og rök: Snemma árs 2014 keypti kærandi fasteign við Tryggvagötu á Selfossi. Síðar sama ár hafði kærandi samband við skipulags- og byggingarfulltrúa Árborgar og óskaði eftir upplýsingum um stöðuleyfi vegna tveggja gáma á næstu lóð, Tryggvagötu 6, sem er íbúðarlóð samkvæmt gildandi deiliskipulagi. Í janúar 2015 fékk kærandi þær upplýsingar frá sveitarfélaginu að stöðuleyfi hefði verið gefið út fyrir staðsetningu gámanna í janúar s.á. og að sú ákvörðun væri kæranlega til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála skv. 59. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010.

Kærandi telur að ekki hafi verið veitt tímabundið leyfi fyrir gámunum þar sem þeir hafi verið staðsettir á lóðinni í mörg ár og ekki sé minnst á stöðuleyfi fyrir gámunum í eldri fundargerðum skipulags- og byggingarnefndar Árborgar. Gámarnir séu staðsettir á lóðinni Tryggvagötu 6, þremur metrum frá lóðarmörkum kæranda og í beinni sjónlínu frá gluggum fasteignar hans. Staðsetning þeirra sé óviðunandi og hafi mikla sjónmengun í för með sér.

Af hálfu sveitarfélagsins kemur fram að leyfishafi hafi sótt um stöðuleyfi 9. október 2014. Hinn 7. janúar 2015 hafi umsóknin verið samþykkt á fundi skipulags- og byggingarnefndar og tilkynning um afgreiðslu fundarins, undirrituð af skipulags- og byggingarfulltrúa, send leyfishafa hinn 12. s.m. Leyfið hafi verið veitt til tólf mánaða, sbr. ákvæði gr. 2.6.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012.

Niðurstaða:
Hið kærða stöðuleyfi var tímabundið og rann út hinn 12. janúar 2016. Hefur leyfið því ekki lengur réttarverkan að lögum. Af þeim sökum hefur kærandi ekki lengur þá lögvörðu hagsmuni af því að fá skorið úr um hvort fella eigi leyfið úr gildi sem kveðið er á um í 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Ber því að vísa máli þessu frá úrskurðarnefndinni.

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 er það hlutverk úrskurðarnefndarinnar að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og í ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála, eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Tekur úrskurðarnefndin því fyrst og fremst afstöðu til lögmætis ákvarðana sem þegar hafa verið teknar af stjórnvöldum innan stjórnsýslunnar. Það er ekki á valdsviði nefndarinnar að taka ákvörðun um að umræddir gámar verði fjarlægðir, en kærandi getur eftir atvikum gert þá kröfu til byggingarfulltrúa sveitarfélagsins að gámar án stöðuleyfis verði fjarlægðir, sbr. gr. 2.6.2. í byggingarreglugerð nr. 112/2012.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                  Þorsteinn Þorsteinsson