Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

89/2016 Egilsgata Borgarbyggð

Árið 2016, miðvikudaginn 9. nóvember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ómar Stefánsson varaformaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 89/2016, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Borgarbyggðar frá 9. júní 2016 um að fela byggingarfulltrúa að gefa út byggingarleyfi til að breyta húsnæði á lóð nr. 6 við Egilsgötu.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 1. júlí 2016, er barst nefndinni 8. s.m., kærir Ikan ehf., Egilsgötu 4, Borgarnesi, „stjórnsýsluframkvæmd, leyfisveitingar og ákvarðanir sveitarstjórnar í Borgarbyggð“. Verður að skilja málskot kæranda svo að kærð sé ákvörðun sveitarstjórnar frá 9. júní 2016 um að fela byggingarfulltrúa að gefa út byggingarleyfi til að breyta húsnæði á lóð nr. 6 við Egilsgötu. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 17. júlí 2016, er barst nefndinni sama dag, kærir sami aðili þá ákvörðun byggðarráðs Borgarbyggðar frá 7. júlí 2016 að staðfesta ákvörðun umhverfis-, skipulags og landbúnaðarnefndar Borgarbyggðar frá 6. s.m. um að „fram verði látin fara grenndarkynning á rekstri gistihúss í íbúðarhúsi við Egilsgötu 6, Borgarnesi“. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Þar sem hinar kærðu ákvarðanir eru samofnar og sami aðilinn stendur að báðum kærumálunum verður síðargreinda kærumálið, sem er nr. 102/2016, sameinað máli þessu.

Jafnframt er í báðum kærum gerð krafa flýtimeðferð og krafa um stöðvun rekstrar að Egilsgötu 6, Borgarnesi, þar sem heimildir fyrir rekstrarleyfi séu ekki til staðar.

Gögn málsins bárust frá Borgarbyggð 18. og 24. júlí, 30. ágúst og 2. september 2016.

Málsatvik og rök: Forsaga málsins er sú að með úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 57/2013, sem kveðinn var upp 24. september 2015, var felld úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúa Borgarbyggðar um að veita leyfi til að breyta íbúðarhúsi og geymslu á lóð nr. 6 við Egilsgötu í þrjár stúdíóíbúðir á fyrstu hæð og eina íbúð á annarri hæð. Komst úrskurðarnefndin að þeirri niðurstöðu að málsmeðferð og ákvörðunartaka vegna leyfisins hefði verið háð verulegum annmörkum.

Hinn 21. janúar 2016 var endurnýjuð byggingarleyfisumsókn grenndarkynnt fyrir hagsmunaaðilum með fresti til athugasemda til 26. febrúar s.á. Bárust athugasemdir á kynningartíma, m.a. frá kæranda. Að grenndarkynningu lokinni var erindið tekið fyrir á fundi umhverfis-, skipulags- og landbúnaðarnefndar 6. júní 2016 og skipulagsfulltrúa falið að svara athugasemdum í samræmi við umræður á fundinum. Á fundi sveitarstjórnar 9. s.m. voru drög að svörum við athugasemdum samþykkt og var skipulags- og byggingarfulltrúa falið að gefa út byggingarleyfi.

Á fundi umhverfis-, skipulags- og landbúnaðarnefndar 6. júlí 2016 var lagt til að grenndarkynna breytta notkun úr íbúðarhúsi í gistiheimili að Egilsgötu 6. Jafnframt var tekið fram að búið væri að grenndarkynna umsókn vegna byggingarleyfis. Var nefnd afgreiðsla samþykkt á fundi byggðarráðs Borgarbyggðar 7. s.m.

Kærandi skírskotar til þess að hann kannist ekki við að hafa tekið þátt í grenndarkynningu byggingarleyfis vegna Egilsgötu 6, líkt og komi fram í bókun umhverfis-, skipulags- og landbúnaðarnefndar Borgarbyggðar frá 6. júní 2016. Hafi aðeins verið grenndarkynntar fyrirhugaðar breytingar á húsnæði að Egilsgötu og nýtingu þess. Jafnframt hafi formleg afstaða til þeirra athugasemda sem bárust á kynningartíma ekki verið tekin þar sem ekkert í bókun umhverfis-, skipulags- og landbúnaðarnefndar frá umræddum fundi gefi slíkt til kynna. Að auki sé ekkert að finna í gildandi skipulagslögum um að grenndarkynning geti farið fram á byggingarleyfum. Fullnægjandi gögn hafi ekki fylgt grenndarkynningunni og hafi málsmeðferð ekki verið í samræmi við ákvæði skipulagsreglugerðar nr. 90/2013.

Af hálfu sveitarfélagsins er vísað til þess að umsókn um byggingarleyfi hafi verið lögð fyrir sveitarstjórn til meðferðar og hafi hún samþykkt að fela byggingarfulltrúa að annast grenndarkynningu umsóknarinnar í samræmi við 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Að lokinni grenndarkynningu hafi erindið verið samþykkt á lögmætum fundi sveitarstjórnar Borgarbyggðar 9. júní 2016 og einnig verið samþykkt að fela byggingarfulltrúa útgáfu byggingarleyfis. Hafi slíkt leyfi þó ekki enn verið gefið út. Málsmeðferð hafi verið í samræmi við gildandi lög á sviði mannvirkja- og skipulagsmála. Hvað varði kröfu kæranda um að fella úr gildi ákvörðun byggðarráðs Borgarbyggðar frá 7. júlí 2016 um að staðfesta þá ákvörðun umhverfis-, skipulags- og landbúnaðarnefndar að grenndarkynna rekstrarleyfi gistihúss í íbúðarhúsi við Egilsgötu sé bent á að útgáfa eða meðferð rekstareyfis sé ekki kæranleg til nefndarinnar, sbr. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Sé forræði slíkra mála alfarið á hendi sýslumannsembætta.

Leyfishafi bendir á að allar heimildir fyrir starfseminni á Egilsgötu 6 liggi fyrir. Aðalskipulag Borgarbyggðar geri ráð fyrir að á svæðinu sé blönduð byggð íbúðar- og atvinnuhúsnæðis. Fyrir liggi samþykkt sveitarstjórnar frá 9. júní um útgáfu byggingarleyfis til breytinga á innra skipulagi Egilsgötu 6. Þá sé einnig vísað til svars sýslumannsins á Vesturlandi, dags. 16. september 2015, þar sem embættið hafi hafnað kröfu kæranda um að rekstrarleyfi Egils Guesthouse yrði afturkallað.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um breytingar hússins að Egilsgötu 6. Annars vegar er kærð sú ákvörðun sveitarstjórnar að fela skipulags- og byggingarfulltrúa að gefa út byggingarleyfi vegna breytinga á innra skipulagi hússins. Hins vegar er kærð sú ákvörðun byggðarráðs að grenndarkynna breytta notkun nefnds húss úr íbúðarhúsi í gistiheimili. Að auki tiltekur kærandi að kærð sé stjórnsýsla skipulags- og byggingarfulltrúans í Borgarbyggð í kjölfar úrskurðar úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 57/2013. Þá séu kærð svör lögmanns Borgarbyggðar við athugasemdum kæranda við grenndarkynningu vegna Egilsgötu 6. Loks krefst kærandi stöðvunar rekstrar í húsinu.

Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010 er m.a. óheimilt að grafa grunn fyrir mannvirki, reisa það, breyta notkun þess, útliti eða formi nema með fengnu leyfi viðkomandi byggingarfulltrúa. Jafnframt skal byggingarleyfisskyld framkvæmd vera í samræmi við skipulagsáætlanir, sbr. 2. mgr. 10. gr. laganna. Þegar sótt er um byggingarleyfi á ódeiliskipulögðu svæði og hin leyfisskylda framkvæmd er í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar í þegar byggðu hverfi getur sveitarstjórn ákveðið að veita megi leyfi án deiliskipulagsgerðar og skal skipulagsnefnd þá láta fara fram grenndarkynningu, sbr. 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Að grenndarkynningu lokinni og þegar sveitarstjórn hefur afgreitt málið skal þeim sem tjáðu sig um það tilkynnt niðurstaða sveitarstjórnar, sbr. 2. mgr. sömu lagagreinar, og byggingarfulltrúa veitt heimild til samþykkis eða synjunar í samræmi við niðurstöðu sveitarstjórnar.

Í málinu liggur fyrir að grenndarkynning fór fram í byrjun árs 2016, að henni lokinni var á fundi  umhverfis-, skipulags- og landbúnaðarnefndar, 6. júní s.á., samþykkt að fela skipulagsfulltrúa að svara athugasemdum í samræmi við umræður á fundinum. Á fundi sveitarstjórnar 9. s.m. voru drög að svörum við athugasemdum samþykkt og skipulags- og byggingarfulltrúa falið að gefa út byggingarleyfi. Í málinu liggur hins vegar ekki fyrir afgreiðsla byggingarfulltrúa á hinni kærðu byggingarleyfisumsókn en samkvæmt mannvirkjalögum er endanleg ákvörðun um samþykkt eða synjun byggingaráforma og útgáfa byggingarleyfis í höndum byggingarfulltrúa. Samkvæmt 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður ákvörðun sem ekki bindur enda á mál ekki kærð fyrr en málið hefur verið til lykta leitt. Að framangreindu virtu verður þeim hluta kærumálsins er lýtur að ákvörðun sveitastjórnar frá 9. júní 2016 um að fela skipulags- og byggingarfulltrúa að gefa út byggingarleyfi vísað frá úrskurðarnefndinni.

Jafnframt gerir kærandi þá kröfu að ákvörðun byggðarráðs Borgarbyggðar frá 7. júlí 2016 um að staðfesta afgreiðslu umhverfis-, skipulags og landbúnaðarnefndar frá 6. s.m. þess efnis að láta fara fram grenndarkynningu á breyttri notkun úr íbúðarhúsi í gistiheimili í húsi á lóð nr. 6 við Egilsgötu. Líkt og að framan greinir er kveðið á um í mannvirkjalögum að skylt sé að sækja um byggingarleyfi fyrir breyttri notkun mannvirkis. Af umræddri bókun umhverfis-, skipulags og landbúnaðarnefndar Borgarbyggðar verður ekki annað séð en að umrædd grenndarkynning um breytta notkun sé hluti af slíkri málsmeðferð, og eftir atvikum tengd fyrri ákvörðun nefndarinnar frá 6. júní s.á., sem staðfest var af sveitarstjórn 9. s.m. Svo sem áður greinir liggur frekari afgreiðsla byggingarfulltrúa hins vegar ekki fyrir og verður þessum hluta málsins því einnig vísað frá úrskurðarnefndinni, enda ekki um lokaákvörðun að ræða, sbr. áðurnefnda 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga.

Að framangreindri niðurstöðu fenginni verður ekki fjallað frekar um þær kröfur kæranda er lúta að svörum vegna grenndarkynningar enda er þar um að ræða hluta af málsmeðferð sem sætir ekki lögmætisathugun nefndarinnar fyrr en meðferð málsins er lokið. Aðrar kröfur kæranda lúta að stöðvun á rekstri gistiheimilis að Egilsgötu 6 og forsendum leyfis til þess rekstrar, m.a. afstöðu skipulags- og byggingarfulltrúa til fyrri umsagnar til sýslumannsins á Vesturlandi í kjölfar úrskurðar úrskurðarnefndarinnar í kærumáli nr. 57/2013. Rekstrarleyfi vegna nefndrar starfsemi eru gefin út af sýslumanninum á Vesturlandi og eru þau ekki kæranleg til úrskurðarnefndarinnar, heldur eftir atvikum til viðeigandi ráðuneytis. Sama á við um málsmeðferð varðandi kröfur um endurupptöku eða afturköllun slíkra leyfa. Hefur enda kærandi leitað til viðkomandi sýslumanns sem hafnaði því að afturkalla leyfið, m.a. byggt á upplýsingum sem veittar voru af skipulags- og byggingarfulltrúa. Þær upplýsingar um stöðu mála og afstöðu skipulags- og byggingarfulltrúa fela ekki í sér neina þá ákvörðun sem bindur enda á mál og kæranleg er til úrskurðarnefndarinnar, sbr. enn á ný 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulega, heldur voru þær liður í nefndri málsmeðferð sýslumanns sem leiðbeindi um kæruheimild til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins.

Samkvæmt því sem að framan er rakið verður öllum kröfum kæranda í máli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ómar Stefánsson                                                     Þorsteinn Þorsteinsson