Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

14/2018 Helluhraun

Með

Árið 2019, mánudaginn 20. maí 2019, tók Nanna Magnadóttir, forstöðumaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála fyrir mál nr. 14/2018 með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011.

Fyrir var tekið mál nr. 14/2018, kæra á álagningu stöðuleyfisgjalds vegna gáma á lóðinni að Helluhrauni 10, að fjárhæð kr. 80.690.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með ódagsettu bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 2. febrúar 2018, kærir Slökkvitæki ehf., Helluhrauni 10, Hafnarfirði, álagningu stöðuleyfisgjalds vegna gáma á lóðinni að Helluhrauni 10, að fjárhæð kr. 80.690. Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða álagning verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá Hafnarfjarðarkaupstað 6. mars 2018.

Málavextir: Kærandi fékk sent bréf frá byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarbæjar, dags. 20. desember 2017, þar sem tilkynnt var að samkvæmt gr. 2.6.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 væri skylt að sækja um stöðuleyfi ef gámur ætti að standa lengur en tvo mánuði innan lóðar. Kærandi og sameigandi hans að lóðinni Helluhrauni 10 sóttu um stöðuleyfi 19. janúar 2018 fyrir tímabilið frá 18. janúar 2018 til 30. janúar 2019 vegna gáma á fyrrnefndri lóð og óskaði kærandi eftir því að stöðuleyfisgjaldinu yrði skipt til helminga milli þeirra tveggja.

Með greiðsluseðli frá Hafnarfjarðabæ, dags. 29. janúar 2018, var lagt stöðuleyfisgjald á fyrirtæki kæranda fyrir 2,5 gámum að upphæð kr. 80.690 og mun sameiganda hans að lóðinni hafa verið sendur greiðsluseðill með sambærilegri innheimtu. Gjald fyrir hvern gám var skráð kr. 32.276 krónur og var því innheimt samtals stöðuleyfisgjald fyrir fimm gámum að upphæð kr. 161.380.

Málsrök kæranda: Kærandi telur að innheimta hefði átt eitt stöðuleyfisgjald fyrir lóðina Helluhraun 10 sem skipta hefði átt jafnt á milli kæranda og meðeiganda hans að lóðinni.

Samkvæmt 51. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki eigi upphæð stöðuleyfisgjalds að taka mið af kostnaði við þjónustu og einstök verkefni byggð á rekstraráætlun þar sem rökstudd séu þau atriði sem ákvörðun gjalds byggist á. Gjaldið megi ekki vera hærra en sá kostnaður og skuli gjaldskrá birt í B-deild Stjórnartíðinda. Upphæð stöðuleyfisgjalds fyrir einn gám hjá Hafnarfjarðarbæ hafi verið 32.276 krónur. Kærandi og meðeigandi hans hafi fengið greiðsluseðil upp á 161.380 krónur eða 80.690 krónur á hvort fyrirtæki sem sótt hafi um stöðuleyfi og hafi ekkert stöðuleyfi fylgt með. Með þessu hafi kærandi verið rukkaður fyrir stöðuleyfi nágrannans á hálfum gám þar sem ekki sé hægt að deila fimm gámum í tvennt, en kærandi eigi tvo gáma og meðeigandi hans þrjá.

Samkvæmt upplýsingum frá byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarbæjar sé kostnaður við hvert stöðuleyfi 11.000 krónur og að auki sé rukkað um tveggja klukkustunda eftirlitsgjald. Þar sem hér sé fimmfalt gjald innheimt sé innheimt 10 klukkustunda eftirlitsgjald. Kærandi efist um að vinna á lóðinni vegna umræddra gjalda hafi tekið svo langan tíma og hafi m.a. enginn komið á staðinn. Mannvirkjastofnun hafi gefið út leiðbeiningabækling fyrir byggingafulltrúa um stöðuleyfi ásamt því að halda fund fyrir þá. Þar hafi skýrt komið fram að ef óskað væri eftir stöðuleyfi fyrir fleiri en einn lausafjármun á sömu lóð væri gert ráð fyrir því að gefið væri út eitt stöðuleyfi og skyldi gjaldtakan miðast við þann kostnað óháð fjölda lausafjármuna á lóðinni.

Telur kærandi að með því að innheimta fimmfalt stöðuleyfisgjald sé sveitarfélagið að búa til auka tekjustofn. Í huga kæranda eigi stöðuleyfi ekki að vera tekjustofn fyrir sveitarfélög heldur snúist þau einungis um að hlutir valdi ekki hættu fyrir börn að leik og umferð. Í bæjarblaði Hafnarfjarðarbæjar hafi verið grein þar sem fram hafi komið að um 4000 gámar væru í landi bæjarins. Ef svo sé þá sé gjaldtakan fyrir þá gáma kr. 32.276 x 4000 = kr. 129.104.000. Kærandi stórefist um að sú upphæð sé eðlileg laun fyrir eitt embætti árlega sem sjái um veitingu stöðuleyfa á gámum. Hjá Kópavogsbæ kosti stöðuleyfi ekkert og væri best ef gjaldið myndi vera fellt niður að öllu leyti, sérstaklega ef litið sé til þess hvaða tilgangi það eigi að þjóna.

Málsrök Hafnarfjarðarkaupstaðar: Af hálfu Hafnarfjarðarkaupstaðar er farið fram á að kröfu kæranda verði vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem engin kæranleg ákvörðun hafi verið tekin, sbr. 3. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Gjald fyrir stöðuleyfi byggi á lögum um mannvirki og gildandi gjaldskrá Hafnarfjarðakaupstaðar. Ef ekki verði fallist á frávísun sé þess krafist að kröfu kæranda verði hafnað. Í grein 2.6.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 sem fjalli um stöðuleyfi komi m.a. fram að sækja skuli um stöðuleyfi ef láta eigi gáma standa lengur en tvo mánuði utan þeirra svæða sem sérstaklega séu skipulögð og ætluð til geymslu þeirra. Sömu sjónarmið komi einnig fram í reglum um stöðuleyfi sem samþykktar hafi verið í bæjarstjórn Hafnarfjarðar 24. maí 2017.

Samkvæmt 51. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki sé sveitarstjórnum heimilt að setja gjaldskrá fyrir veitta þjónustu og verkefni byggingarfulltrúa, þ.m.t. útgáfu stöðuleyfa. Eigi upphæð gjalds að taka mið af kostnaði við þjónustu og einstök verkefni. Hafnarfjarðarbær hafi sett gjaldskrá fyrir stöðugjald fyrir gáma með stoð í þessu ákvæði laganna og samkvæmt henni sé gjaldið fyrir gjaldárið 2018 kr. 32.276 á hvern gám.

Hafnarfjarðarkaupstaður sé ósammála túlkun Mannvirkjastofnunar um að ef óskað sé eftir stöðuleyfi fyrir fleiri en einn lausafjármun á sömu lóð eigi að gefa út eitt stöðuleyfi sem taki til þeirra allra og að gjaldtakan eigi að miðast við þann kostnað sem hljótist af útgáfu þess stöðuleyfis sem um ræði, óháð fjölda lausafjármuna. Sveitarstjórnum sé heimilt að setja gjaldskrá fyrir útgáfu stöðuleyfa þar sem upphæð gjalds taki mið af kostnaði við þjónustuna. Augljóst sé að kostnaður við útgáfu leyfa sé hærri eftir því sem gámar sem sótt sé um leyfi fyrir séu fleiri. Yfirferð umsókna sé flóknari og tímafrekari enda kunni tilgangur og lengd stöðuleyfis ekki að vera sá sami á milli allra gáma. Að auki sé tímafrekara að yfirfara uppdrætti enda ljóst að fleiri atriði þurfi að hafa í huga ef fleiri gámar séu á lóð s.s. út frá skipulagi og öryggissjónarmiðum og jafnvel sé nauðsynlegt fyrir byggingarfulltrúa að fara á vettvang áður en leyfi sé gefið út. Að virtu framangreindu og ekki síst jafnræðisreglu stjórnsýsluréttarins geti sveitarfélög ekki veitt afslátt af gjaldi fyrir stöðuleyfi þegar aðili sæki um leyfi fyrir fleiri en einn gám á sömu lóð. Væru þá þeir aðilar sem hefðu sótt um og fengið leyfi fyrir einum gám á lóð þannig að niðurgreiða leyfið fyrir aðra. Í þessu sambandi megi benda á að umræddur texti í leiðbeiningum Mannvirkjastofnunar hafi ekki verið í þeim drögum sem stofnunin hafi kynnt fyrir Sambandi íslenskra sveitarfélaga og lögfræðingum hjá sveitarfélögum.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti þeirrar ákvörðunar byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar að leggja á stöðuleyfisgjald vegna gáma á lóðinni Helluhraun 10. Úrskurðarnefndin óskaði frekari skýringa af hálfu sveitarfélagsins og var í kjölfarið upplýst um að kærandi hefði aldrei greitt umþrættan reikning og reikningurinn á endanum verið felldur niður. Hefur kærandi staðfest að svo hafi verið gert, en hann óski efnislegrar niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar þar sem hann efist um lögmæti álagningarinnar í öndverðu og um fordæmisgefandi mál sé að ræða.

Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvarðanir til nefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kærð er. Verður við úrlausn þess atriðis að meta hagsmuni og tengsl kærenda við úrlausn málsins, þ.e. hvort þeir eigi verulegra, sérstakra og lögvarinna hagsmuna að gæta. Eftir að álagning stöðuleyfisgjaldsins var afturkölluð hefur hún ekki lengur réttarverkan að lögum, enda ekki lengur til staðar. Á kærandi af þeim sökum ekki lengur einstaklingsbundinna hagsmuna að gæta af úrlausn málsins og kæruaðild sína getur hann ekki byggt á gæslu almannahagsmuna með því að vísa til fordæmisgildis málsins. Verður því ekki komist hjá því að vísa kærumáli þessu frá úrskurðarnefndinni vegna skorts á kæruaðild, sbr. nefnda 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

62/2018 Flatir, Vestmannaeyjar

Með

 

Árið 2019, fimmtudaginn 11. apríl, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 62/2018, kæra á ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Suðurlands frá 23. mars 2018 um að veita 2-Þ ehf. starfsleyfi fyrir steypustöð að Flötum 7 í Vestmannaeyjum.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 25. apríl 2018, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur, Flötum 10, Vestmanna­eyjum, þá ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Suðurlands frá 25. apríl 2018 að veita 2-Þ ehf. starfsleyfi fyrir steypustöð að Flötum 7. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá Heilbrigðiseftirliti Suðurlands 27. apríl 2018 og 2. og 3. apríl 2019.

Málavextir: Fyrirtækið 2-Þ ehf. sótti hinn 5. febrúar 2018 um starfsleyfi til reksturs steypustöðvar og færanlegrar steypustöðvar að Flötum 7, Vestmannaeyjum. Auglýsing til kynningar á starfsleyfistillögunni birtist í Eyjafréttum 14. febrúar 2018 og var athugasemda­frestur veittur til og með 14. mars s.á. Kærendur ásamt fleirum komu á framfæri sameiginlegum athugasemdum, dags. 14. mars 2018, sem lutu m.a. að því að starfsleyfisskilyrði væru ekki uppfyllt, ákvæðum 1. mgr. 8. gr. reglugerðar nr. 724/2008 um hávaða væri ekki fylgt, auk þess sem ekki hefði verið leitast við að draga úr álagi á umhverfið og beita bestu fáanlegu tækni.

Á fundi heilbrigðisnefndar Suðurlands 22. mars 2018 var fjallað um starfsleyfisumsóknina og eftirfarandi bókun gerð: „Varðandi athugasemdir við starfsleyfi fyrir steypustöð að Flötum 7, Vestmannaeyjum. Umsókn liggur fyrir til afgreiðslu um starfsleyfi fyrir starfseminni sem er á skipulögðu athafnasvæði skv. Aðalskipulagi Vestmannaeyjabæjar. Málið rætt á fundinum og framkvæmdastjóra falið að afla frekari upplýsinga áður en starfsleyfið verður veitt.“

Hinn 23. mars 2018 svaraði framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Suðurlands athugasemdum kærenda og tók eftirfarandi fram: „Undirrituð hefur þegar aflað nánari gagna um málið og fengið staðfestingu frá Skipulags- og byggingafulltrúa Vestmannaeyjabæjar að skipulagið geri ráð fyrir þessari starfsemi. Í samræmi við ofangreint verður starfsleyfi fyrir 2 Þ ehf. vegna steypustöðvar að Flötum 7 afgreitt.“ Var í bréfinu leiðbeint um kæruheimild til úrskurðar­nefndar umhverfis- og auðlindamála og m.a. tekið fram að kærufrestur væri einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um hina kærðu ákvörðun. Starfsleyfi fyrir framleiðslu tilbúinnar steinsteypu og fyrir færanlegri steypustöð og steypustöð að Flötum 7 með ákveðnum starfsleyfisskilyrðum var gefið út af Heilbrigðiseftirliti Suðurlands sama dag, eða 23. mars 2018, með gildistíma til 23. mars 2030.

Málsrök kærenda: Kærendur taka fram að eftir að tímabundið starfsleyfi hafi runnið út 3. desember 2006 hafi færanleg steypustöð verið starfrækt að Flötum 7 án starfsleyfis. Varðandi það starfsleyfi sem gefið hafi verið út 23. mars 2018 hafi skilyrði fyrir rekstri færanlegrar steypustöðvar og/eða steypustöðvar að Flötum 7 ekki verið uppfyllt. Ekki hafi verið leitast við að draga úr álagi á umhverfið og beita bestu fáanlegu tækni til að ná þeim markmiðum, þrátt fyrir ítrekaðar óskir kærenda um úrbætur. Framkvæmd starfseminnar hafi ekki verið í samræmi við ýmis skilyrði útgefins starfsleyfis, ásamt því að verulegur hávaði og ónæði fylgi starfseminni, oft á tíðum að næturlagi. Ítrekaðar kvartanir hafi borist frá íbúunum til lögreglu vegna mikils hávaða utandyra, en að auki hafi Heilbrigðiseftirlit Suðurlands einnig móttekið kvörtun um ónæði. Þrátt fyrir að umrædd starfsemi sé staðsett á lóð sem ætluð sé undir atvinnustarfsemi samkvæmt gildandi aðalskipulagi séu á svæðinu einnig þrjú íbúðarhús frá eldri tíð. Því sé um að ræða blandaða byggð íbúðar- og athafnasvæðis.

Málsrök Heilbrigðiseftirlits Suðurlands: Heilbrigðiseftirlit Suðurlands kaus að koma ekki á framfæri athugasemdum vegna kærunnar.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi krefst þess fyrst og fremst að kærunni verði vísað frá þar sem hún hafi borist utan lögbundins kærufrests. Hin kærða ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Suðurlands sé frá 23. mars 2018. Kærendur hafi verið upplýstir um ákvörðunina samdægurs og fram hafi komið að kærufrestur væri einn mánuður frá því að kærendum varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Kæran sé dagsett 25. apríl 2018, þ.e. rúmum mánuði eftir að kærendum hafi verið kynnt ákvörðunin.

Ef málinu verði ekki vísað frá sé þess krafist að ákvörðun heilbrigðiseftirlitsins standi óbreytt. Því sé hafnað að færanleg steypustöð hafi verið starfrækt að Flötum 7 frá árinu 2006 án þess að starfsleyfi hafi verið framlengt eða nýtt leyfi gefið út. Starfsleyfi til handa félaginu vegna rekstursins hafi verið gefið út 23. febrúar 2007 en vegna mannlegra mistaka hafi þar tilgreint rangt heimilisfang.

Að mati leyfishafa uppfylli hann skilyrði þau sem fram komi í starfsleyfisinu. Kröfur þær sem lúti að frárennsli hafi ekki verið í eldri starfsleyfisskilyrðum og því sé verið að vinna að endurbótum í samræmi við ný skilyrði í samráði við Heilbrigðiseftirlit Suðurlands. Eðli þeirrar starfsemi sem um ræði og takmarkanir á samgöngumálum valdi því að sementsflutningabílar komi seint að kvöldi, með seinni ferð Herjólfs, með efni í starfsstöð leyfishafa. Þeir þurfi síðan að fara með fyrstu Herjólfsferju til baka morguninn eftir. Losun þurfi því að fara fram seint að kvöldi eða snemma að morgni og taki um 30 mínútur. Leyfishafi hafi reynt að sýna tillitssemi eftir fremsta megni og draga úr sjón-, hljóð- og rykmengun.

Viðbótarathugasemdir kærenda: Kærendur benda á að kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar sé einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina skv. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Fyrir liggi að tölvupóstur með tilkynningu um útgáfu starfsleyfisins hafi verið móttekinn hjá lögmanni kærenda 27. mars 2018. Í ákvörðun heilbrigðiseftirlitsins hafi verið vísað til ákveðinna fylgiskjala sem ekki hafi fylgt með tilkynningunni. Óskað hafi verið eftir fyrrnefndum fylgiskjölum og hafi þau borist 4. apríl 2018. Í kjölfarið hafi lögmaður kærenda upplýst þá um framangreinda ákvörðun, en þá fyrst hafi kærendum verið hún kunn. Af þessu leiði að kærufrestur hafi byrjað að líða 4. apríl 2018 þegar öll gögn hefðu borist. Að auki hafi ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Suðurlands, dags. 23. mars 2018, verið send kl. 16:27, eða eftir lok vinnudags á föstudegi, og því sé ómögulegt að miða upphaf kærufrests við þann dag.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti þeirrar ákvörðunar Heilbrigðiseftirlits Suðurlands að gefa út starfsleyfi fyrir steypustöð að Flötum 7, Vestmannaeyjum.

Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærufrestur til nefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um þá ákvörðun sem kæra lýtur að. Hið kærða starfsleyfi er frá föstudeginum 23. mars 2018 og voru svör við athugasemdum kærenda send lögmanni þeirra sama dag með bréfpósti og tölvupósti eftir opnunartíma skrifstofu eftirlitsins. Hvorki var ljóst af tölvupóstinum né svörunum að starfsleyfið hefði þegar verið gefið út heldur kom fram að starfsleyfið yrði gefið út. Verður því ekki talið að kærendur hafi mátt vita af útgáfu starfsleyfisins þegar á þeim tíma og að sama skapi tók kærufrestur ekki þá að líða. Hafði lögmaður þeirra og enga möguleika á að leita frekari upplýsinga fyrr en skrifstofan opnaði aftur 26. mars 2018 að helginni liðinni. Gerði hann það 27. s.m. og fékk gögn send 4. apríl s.á. Kæra barst í málinu 25. apríl 2018 og var það því innan kærufrests. Það athugast að þegar á þessum tíma var kveðið á um það í 5. mgr. 7. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, sbr. 7. gr. breytingalaga nr. 66/2017, að útgefandi starfsleyfis ætti að auglýsa á vefsvæði sínu útgáfu og gildistöku starfsleyfa. Birting á vefsíðu útgefanda starfsleyfis teldist vera opinber birting. Þar sem slík birting fór ekki fram tók kærufrestur ekki heldur að líða af þeim sökum.

Lög nr. 7/1998 hafa það að markmiði að búa landsmönnum heilnæm lífsskilyrði og vernda þau gildi sem felast í heilnæmu og ómenguðu umhverfi ásamt því að koma í veg fyrir eða að draga úr losun og koma í veg fyrir myndun úrgangs í því skyni að vernda umhverfið, sbr. 1. gr. laganna. Þegar hin kærða ákvörðun var tekin kom fram í 6. gr. að allur atvinnurekstur, sbr. viðauka I-V, ætti að hafa gilt starfsleyfi. Heilbrigðisnefndir gæfu út starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem talinn væri upp í viðauka IV í lögunum, þ. á m. vegna steypustöðva, sbr. 1. mgr. 7. gr. laganna. Af framangreindu er ljóst að það er lögbundið hlutverk heilbrigðisnefnda að veita starfsleyfi, m.a. fyrir þá starfsemi sem hér um ræðir.

Líkt og rakið er í málavaxtalýsingu var fjallað um málið á fundi heilbrigðisnefndar Suðurlands 22. mars 2018, þar sem bókað var að framkvæmdastjóra Heilbrigðiseftirlits Suðurlands væri falið að leita eftir frekari upplýsingum áður en starfsleyfið yrði veitt. Daginn eftir, eða 23. s.m., var starfsleyfið gefið út af Heilbrigðiseftirliti Suðurlands án þess að málið kæmi aftur til kasta heilbrigðisnefndar. Var bókun nefndarinnar frá fundi hennar 22. mars 2018 ekki afdráttarlaus um að leyfi skyldi veitt, auk þess sem í bókuninni var kveðið á um frekari rannsókn málsins áður en svo yrði gert. Verður að gera þá lágmarkskröfu til stjórnvalds þess sem bært er til að lögum að samþykkja starfsleyfi að það veiti slíkt samþykki berum orðum og án fyrirvara um frekari rannsókn sem eftir atvikum gæti breytt grundvelli málsins. Það var hins vegar ekki gert. Fór heilbrigðiseftirlitið því út fyrir valdmörk sín við útgáfu hins kærða starfsleyfis. Það þykir þó ekki eiga að leiða til ógildingar heldur verður litið svo á að í þeirri afgreiðslu hafi falist tillaga heilbrigðiseftirlitsins til heilbrigðisnefndar, enda eru hlutverk þessara aðila skv. lögum nr. 7/1998 samofin þótt lögin geri einnig ráð fyrir ákveðinni verkaskiptingu þar á milli. Þar sem heilbrigðisnefnd hefur ekki komið að málinu að nýju er hins vegar ekki til staðar lokaákvörðun í málinu í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þar sem ekki er til staðar ákvörðun sem kæranleg er til úrskurðarnefndarinnar verður máli þessu vísað frá nefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

86/2018 Suðurgerði

Með

Árið 2019, þriðjudaginn 26. mars, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 86/2018, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Vestmannaeyjabæjar frá 15. maí 2018 um að samþykkja aðalskipulag Vestmannaeyjabæjar 2015-2035.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 14. júní 2018, er barst nefndinni sama dag, kærir A afgreiðslumáta, samskiptameðferð og brot á eignarétti umhverfis- og skipulagsráðs Vestmannaeyjabæjar við afgreiðslu aðalskipulags Vestmannaeyjabæjar 2015-2035, sem samþykkt var í bæjarstjórn Vestmannaeyjabæjar 15. maí 2018. Vísar kærandi nánar til bréfs skipulags- og byggingarfulltrúa þar sem tilkynnt var „afgreiðsla og niðurstaða sveitarfélagsins v/innsend bréf. Athugasemdir og úrvinnsla við auglýst aðalskipulagt Vestmannaeyja 2015-2035.“ Skilja verður kæruna svo að gerð sé krafa um að hið kærða aðalskipulag verði fellt úr gildi að svo miklu leyti sem það brjóti í bága við hagsmuni kæranda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Vestmannaeyjabæ 25. júní 2018.

Málavextir: Mál þetta á sér nokkra forsögu. Með afsali, dags. 28. apríl 1971, afsalaði nánar tilgreint dánarbú „afnotarétti sínum að fyrirhugaðri lóð eftir væntanlegu skipulagi Vestmannaeyjakaupstaðar, er verður nr. 9 við Suðurgerði, í Vestmannaeyjum, allrar lóðarinnar eins og skipulag bæjarins segir til um“ til kæranda. Í afsali þessu kemur einnig fram að kærandi eignist með afsalinu túnréttindi úr Gerðistúni og að kæranda sé, afsalsgjafa vegna, heimilt að fá útgefinn lóðarleigusamning til sín frá Vestmannaeyjakaupstað fyrir húslóð. Á fundi byggingarnefndar Vestmannaeyjakaupstaðar 23. maí 1972 dró nefndin í efa að dánarbúið hefði rétt til að selja lóðarréttindi vegna Suðurgerðis 9. Nefndin samþykkti þó að mæla með að bæjarstjóra yrði heimilað að gefa út lóðarleigusamning til kæranda, enda hæfust framkvæmdir innan eins árs. Uppbygging á svæðinu frestaðist hins vegar vegna eldgossins í Vestmannaeyjum sem hófst 23. janúar 1973.

Kærandi sendi bréf til sveitarfélagsins, dags. 28. maí 1979, til að mótmæla fyrirhuguðu deiliskipulagi austurbæjar, þar sem skipulagið færi gegn eignarétti kæranda sem lóðareiganda að Suðurgerði 9. Hinn 8. maí 1985 ítrekaði kærandi með bréfi til bæjarins að hann teldi gengið á rétt sinn. Í fundargerð byggingarnefndar bæjarins frá 23. maí 1985 er tekið fram að hægt sé að fallast á ofangreind sjónarmið kæranda frá 8. maí 1985 þegar svæðið verði tilbúið til úthlutunar. Hinn 14. febrúar 1988 ritaði kærandi bæjarstjórn bréf þar sem sömu sjónarmið komu fram og áður. Kærandi taldi auglýsta deiliskipulagstillögu austurbæjar minnka þá lóð sem hann teldi sig eiga réttindi yfir og óskaði eftir því að hafa forgang á vali lóðar í stað lóðarinnar við Suðurgerði 9. Einnig fór kærandi fram á að mismunur á stærð lóðanna yrði annaðhvort greiddur kæranda eða dreginn frá gatnagerðargjöldum. Sömu athugasemdir komu fram í bréfi kæranda 16. janúar 1990 vegna tillögu að aðalskipulagi Vestmannaeyja 1988-2008.

Þegar aðalskipulag fyrir Vestmannaeyjar 2015-2035 var auglýst gerði kærandi athugasemdir, dags. 5. apríl 2018. Athugasemdir þessar voru sambærilegar athugasemdum við fyrri skipulagsáætlanir á svæðinu. Kærandi gerði þannig „athugasemd við auglýsingu um skipulag Vestmannaeyjabæjar 2015-2035, þar sem það brýtur í bága við rétt [kæranda] sem eiganda húslóðarinnar Suðurgerði 9 Vestmannaeyjum.“ Við úrvinnslu athugasemda við auglýst aðalskipulag Vestmannaeyja 2015-2035, dags. 9. maí 2018, var athugasemd kæranda flokkuð sem „almenn ábending“. Óskaði kærandi eftir skriflegum rökstuðningi við afgreiðslu athugasemdarinnar með tölvupósti 27. maí s.á. Honum var svarað 7. júní s.á. og bent á að lóðin Suðurgerði 9 væri ekki til og hefði ekki verið stofnuð af Vestmannaeyjabæ. Þá vísaði bærinn til þess að í afsali kæranda væri vísað til afnotaréttinda að fyrirhugaðri húslóð en ekki væri um að ræða afsal fyrir lóðaréttindum útgefnum af Vestmannaeyjabæ og að ekki lægju fyrir heimildir afsalsgjafa til þeirra réttinda sem afsöluð voru til kæranda. Að lokum hvatti Vestmannaeyjabær kæranda til að gera nánari grein fyrir réttindum sínum yfir lóðinni. Kærandi svaraði 12. júní s.á. þar sem fram kom saga samskipta kæranda við bæjaryfirvöld á á árunum 1971-1972, sem áður er fjallað um.

Málsrök kæranda: Kærandi byggir á því að aðalskipulag Vestmannaeyjabæjar 2015-2035 brjóti í bága við eignarrétt hans þar sem „nýtt skipulag fer inn á lóðarmörk“ hans við Suðurgerði 9. Bendi kærandi á að í stað þess að taka athugasemd sína við aðalskipulagið til afgreiðslu hafi Vestmannaeyjabær flokkað athugasemdina sem almenna ábendingu. Kærandi hafi óskað eftir skriflegu svari við athugasemd sinni en teldi afgreiðslu bæjarins ekki uppfylla þau skilyrði. Hann hafi óskað skriflegs rökstuðnings en einungis fengið þau svör að lóðin sé ekki til og hafi ekki verið stofnuð. Bendi kærandi á að ætlun sín sé einungis að standa vörð um lögmætan eignarrétt sinn, en sveitarfélagið hafi ekki boðið fram neina lausnir í málinu. Hafi kærandi ekki notið réttlátrar málsmeðferðar af þess hálfu.

Málsrök Vestmannaeyjabæjar: Af hálfu sveitarfélagsins er á það bent að samkvæmt 28. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 fjalli aðalskipulag ekki um eignarréttindi að fasteignum heldur landnotkun, byggðaþróun o.s.frv. Athugasemd kæranda beinist að því að aðalskipulagið hafi með einhverjum hætti áhrif á eignaréttindi hans að umræddri fasteign. Ekki verði þó ráðið af athugasemdum kæranda á hverju sé byggt í því sambandi.

Aðalskipulag Vestmannaeyja 2015-2035 geri ráð fyrir að svæði það er kærandi vísar til sem Suðurgerði 9 sé skipulagt sem íbúðabyggð. Hvað framangreint svæði varði sé engin breyting gerð á þeirri landnotkun eða byggðamynstri er ákveðin hefði verið í því aðalskipulagi sem áður hafi gilt. Ekki verði því séð með hvaða hætti núverandi aðalskipulag hafi brotið gegn réttindum kæranda og sé það ekki útskýrt frekar af hans hálfu. Kröfugerð kæranda sé mjög óljós og ekki verði ráðið, hvorki af kærunni né athugasemdum kæranda, að hvaða ákvörðun kæran beinist eða hvaða réttindum kærandi telji að brotið sé gegn og með hvaða hætti. Af þessum sökum sé farið fram á að máli þessu verði vísað frá úrskurðarnefndinni. Ella beri að hafna kröfum kæranda.

Suðurgerði 9 sé ekki til í núgildandi þinglýsingabókum, enda sé fasteignin ekki með fastanúmer og séu engar heimildir til staðar um stofnun eignarinnar. Sveitarfélagið hafi aldrei gefið út lóðaleigusamning vegna eignarinnar. Lóðin sé þó skipulögð sem íbúðalóð og sé laus til úthlutunar. Umsækjandi gæti þannig fengið úthlutuðum lóðarleigusamningi að öðrum skilyrðum uppfylltum.

Sveitarfélagið telji samskiptum sínum við kæranda ekki áfátt. Með tölvupósti 7. júní 2018 hafi bærinn leitað eftir frekari upplýsingum frá kæranda um hvað málið snerist og hver réttindi hans væru. Almennt haggi aðalskipulag ekki við eða hafi áhrif á eignarréttindi aðila almennt. Því til viðbótar hafi engin breyting verið gerð á landnotkun eða byggðaskipulagi á því svæði sem athugasemdir kæranda hafi beinst að. Þá verði vart talið að skipulag umrædds svæðis til íbúðabyggðar sé í andstöðu við staðhæfingu kæranda um eignarréttindi að húslóð til íbúðabyggingar.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. mgr. 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 verða ákvarðanir sem Skipulagsstofnun og ráðherra ber að skipulagslögum að staðfesta ekki bornar undir úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Í 3. mgr. 29. gr. sömu laga kemur fram að aðalskipulag sé háð samþykki sveitarstjórnar og staðfestingu Skipulagsstofnunar og ráðherra í þeim tilvikum sem hann skal staðfesta aðalskipulag. Samkvæmt 2. ml. 3. mgr. 32. gr. laganna tekur aðalskipulag gildi þegar það hefur verið samþykkt af sveitarstjórn, hlotið staðfestingu Skipulagsstofnunar og verið birt í B-deild Stjórnartíðinda.

Hið kærða aðalskipulag var samþykkt í bæjarstjórn Vestmannaeyjabæjar 15. maí 2018, staðfest af Skipulagsstofnun 10. september s.á. og birt í B-deild Stjórnartíðinda 24. september s.á. Samkvæmt skýrum fyrirmælum skipulagslaga brestur úrskurðarnefndina því vald til að taka hina kærðu ákvörðun til endurskoðunar. Hið sama á við um hvern þann ágreining sem kann að vera til staðar vegna undirbúnings og málsmeðferð þeirrar ákvörðunar. Verður kærumáli þessu af þeim sökum vísað frá nefndinni. Þá skal á það bent að eignarréttarlegur ágreiningur verður ekki til lykta leiddur fyrir úrskurðarnefndinni heldur heyrir hann undir lögsögu dómstóla.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

149/2017 Nesbali

Með

Árið 2019, föstudaginn 22. mars, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ómar Stefánsson varaformaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 149/2017, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans á Seltjarnarnesi frá 24. október 2016 um að samþykkja umsókn um byggingarleyfi fyrir nýbyggingu að Nesbala 35.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 20. desember 2017, er barst nefndinni 22. s.m., kæra  fyrri eigandi Nesbala 33, og Lísa B. Hjaltested og eigandi, Nesbala 33, Seltjarnarnesi, þá ákvörðun byggingarfulltrúans á Seltjarnarnesi frá 24. október 2016 að samþykkja byggingarleyfi vegna nýbyggingar að Nesbala 35. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og lagt verði fyrir bæjarstjórn að láta fjarlægja ólögmætan sökkul og lagnir undir fyrirhuguðu gróðurhúsi á lóðinni.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Seltjarnarnesbæ 9. apríl 2018.

Málavextir: Með umsókn, dags. 13. maí 2016, sótti lóðarhafi Nesbala 35 um byggingarleyfi fyrir nýbyggingu á nefndri lóð. Lóðin var þá á ódeiliskipulögðu svæði en vinna við deiliskipulag fyrir svæðið stóð yfir af hálfu Seltjarnarnesbæjar. Með bréfi, dags. 13. júlí 2016, gerði einn kærenda máls þessa athugasemdir við ósamþykkta uppdrætti að fyrirhugaðri nýbyggingu, m.a. varðandi gólfkóta og nýtingarhlutfall. Byggingarfulltrúi veitti 15. s.m. takmarkað byggingarleyfi til jarðvinnu vegna byggingar húss á nefndri lóð. Plötupróf var framkvæmt 7. október 2016 og 24. s.m. samþykkti byggingarfulltrúi aðaluppdrætti, uppdrætti af burðarvirki og teikningar að lögnum. Sama dag samþykkti hann einnig takmarkað byggingarleyfi til að fullgera sökkla og grunnlagnir. Fyrrnefndur kærandi hafði aftur samband við byggingarfulltrúa 10. nóvember s.á. og gerði athugasemd við fjarlægð sökkuls frá lóðarmörkum og að byggingarframkvæmdir væru hafnar án þess að fyrir lægi samþykkt deiliskipulag. Í svari byggingarfulltrúa til kæranda, dags. 14. s.m., kom fram að vegna tafa við gerð nýs deiliskipulags fyrir Vestursvæði hafi verið gefið út takmarkað byggingarleyfi til að ljúka við sökkla, grunnlagnir og grunnplötu. Þá segir í svari byggingarfulltrúa til kæranda, dags. 23. nóvember 2016, að uppdrættir sýni áformaða byggingu innan byggingarreits samkvæmt gildandi byggingarskilmálum en meira nýtingarhlutfall, sem þó sé innan skilmála deiliskipulags sem sé í vinnslu. Samþykkt sé að hús verði 3,15 m frá lóð nr. 33 við Nesbala og gólfkóti verði 5,35 m. Breyttir aðaluppdrættir vegna nýbyggingarinnar að Nesbala 35 voru svo samþykktir 21. desember 2016.

Að lokinni kynningu samþykkti skipulags- og umferðarnefnd 11. apríl 2017 að senda bæjar­stjórn til staðfestingar tillögu að breytingu á deiliskipulagi Vestursvæðis, sem m.a. tekur til lóðarinnar Nesbala 35. Samþykkti bæjarstjórnin skipulagstillöguna á fundi sínum 24. maí 2017 og tók deiliskipulagið gildi með birtingu auglýsingar þar um í B-deild Stjórnartíðinda 7. september s.á. Byggingarfulltrúi gaf svo að lokum út endanlegt byggingarleyfi fyrir fram­kvæmdum að Nesbala 35 hinn 17. janúar 2018.

Málsrök kærenda: Kærendur benda á að eitt af markmiðum skipulagslaga nr. 123/2010 sé að tryggja réttaröryggi í meðferð skipulagsmála þannig að réttur einstaklinga og lögaðila verði ekki fyrir borð borinn þótt hagur heildarinnar sé hafður að leiðarljósi, sbr. c-liður 1. gr. laganna. Ljóst megi vera að bæjaryfirvöld hafi sniðgengið þetta markmið með því að heimila byggingu í trássi við skipulagslög og lög um mannvirki og veita einum aðila ríkari rétt en öðrum. Óheimilt hafi verið að veita leyfi, jafnt takmarkað byggingarleyfi fyrir sökklum sem og leyfi fyrir frekari framkvæmdum, fyrr en eftir samþykkt deiliskipulags og staðfestingu þess með birtingu í Stjórnartíðindum. Með auknu nýtingarhlutfalli umræddrar lóðar í samþykktu deiliskipulagi hafi bæjaryfirvöld staðfest eftir á það ólögmæti sem þau hafi áður samþykkt. Það að eiganda Nesbala 35 sé veitt 15% meiri nýting en öðrum sé tvímælalaust brot á jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Málsrök Seltjarnarnesbæjar: Af hálfu bæjaryfirvalda er farið fram á að málinu verið vísað frá á þeim grunni að kæran sé of seint fram komin. Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála sé kærufrestur til nefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðun. Af kæru sé raunar ekki fyllilega ljóst hvaða ákvörðun verið sé að kæra. Seltjarnarnesbær gangi út frá því að það séu hin takmörkuðu byggingarleyfi sem veitt hafi verið.

Í málinu liggi fyrir að framkvæmdir við byggingu hússins að Nesbala 35 hafi hafist strax í júlí 2016 þegar veitt hafi verið takmarkað byggingarleyfi fyrir jarðvinnu. Þá hafi kæranda í síðasta lagi mátt vera ljóst að veitt hefði verið leyfi fyrir byggingarframkvæmdum á lóðinni. Einn kærenda hafi þá nokkru áður verið í samskiptum við byggingaryfirvöld, m.a. um teikningar að húsinu o.fl., sbr. m.a. bréf kæranda frá 13. júlí 2016. Plötupróf sem framkvæmt var 7. október 2016 beri með sér að þá þegar hafi verið kominn þjappaður púði á lóðina. Þá liggi fyrir, með hliðsjón af samskiptum kæranda og sveitarfélagsins í byrjun október 2016 og í nóvember s.á. um framkvæmdirnar, að þeim kæranda hafi verið ljóst að veitt hafi verið leyfi fyrir byggingu sökkla, enda framkvæmdir við þá verið hafnar, og í kjölfarið leyfi fyrir uppsteypu hússins, enda hafi kærandi fylgst grannt með framkvæmdum og m.a. mælt staðsetningu sökkla. Þá komi fram í kæru að byggingarframkvæmdum við húsið hafi verið lokið í byrjun september 2017. Kæranda hafi því verið kunnugt um framkvæmdirnar frá miðju ári 2016 þar til þeim hafi nánast verið lokið í september 2017. Þá hafi hann notið aðstoðar lögmanns frá því í apríl 2017. Kærufrestur hafi því verið löngu liðinn þegar framkvæmdin hafi verið kærð 22. desember 2017. Af þeirri ástæðu beri að vísa kærunni frá nefndinni. Enn fremur liggi fyrir að lóðarhafa hafi verið veitt heildar byggingarleyfi á grundvelli gildandi deiliskipulags 17. janúar 2018. Kærendur eigi því ekki lengur lögvarða hagsmuni af ógildingu fyrri leyfa. Því beri jafnframt að vísa málinu frá á þeirri forsendu.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi bendir á að hann hafi keypt lóð að Nesbala 35 árið 2016 og upp frá því hafi hafist vinna við að hanna húsið í sátt við skipulagsfulltrúa Seltjarnarnesbæjar. Takmarkað byggingarleyfi hafi verið gefið út 15. júlí 2016 og 14. desember s.á., en endanlegt byggingarleyfi hafi verið gefið út 17. janúar 2018 í samræmi við deiliskipulag sem hafi öðlast gildi 7. september 2017. Húsið sé að öllu leyti byggt í samræmi við núgildandi deiliskipulag. Húsið hafi sérstaklega verið lækkað að norðanverðu, sem sé sú hlið sem snúi að húsi kæranda að Nesbala 33, með tilliti til þeirra sem þar búi, auk þess sem gluggar sem snúi í norður hafi verið hafðir sérstaklega háir svo að það væri ekki horft yfir að lóð kærenda.

Niðurstaða: Samkvæmt 59. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki sæta stjórnvaldsákvarðanir sem teknar eru á grundvelli laganna kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Útgáfa byggingarleyfis veitir leyfishafa heimild til að hefja framkvæmdir í samræmi við þegar samþykkta umsókn þegar viðbótarskilyrði 13. gr. laga um mannvirki eru uppfyllt, s.s. um samþykki aðaluppdrátta og greiðslu gjalda. Útgáfan ein og sér felur ekki í sér kæranlega stjórnvaldsákvörðun, enda eru leyfin gefin út í skjóli þegar samþykktra byggingaráforma í samræmi við 11. gr. laganna sem felur í sér kæranlega stjórnvaldsákvörðun. Eins og atvikum máls þessa er háttað verður því litið svo á að í máli þessu sé kærð ákvörðun byggingarfulltrúa frá 24. október 2016 um að samþykkja umsókn um byggingarleyfi fyrir framkvæmdum að Nesbala 35 með áritun aðaluppdrátta.

Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála nr. 130/2011 er kærufrestur til nefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðun þá sem kæra lýtur að. Samkvæmt kæru varð fyrri eigandi Nesbala 33 þess var að fyrirhugað væri að reisa nýbyggingu á lóð Nesbala 35 fyrri part sumars 2016. Gerði hann athugasemdir við bæjaryfirvöld vegna fyrirhugaðrar framkvæmdar um sumarið. Í bréfi byggingarfulltrúa til kæranda, dags. 14. nóvember 2016, kemur fram að gefið hafi verið út takmarkað byggingarleyfi til að ljúka við sökkla, grunnlagnir og grunnplötu. Fól hið takmarkaða byggingarleyfi í sér samþykkta uppdrætti fyrir nýbyggingu. Gögn málsins bera með sér að framkvæmdir hafi hafist í kjölfar útgáfu hins takmarkaða byggingarleyfis frá 24. október 2016, en í bréfi kæranda til byggingarfulltrúa frá 10. nóvember s.á. eru gerðar athugasemdir við að byggingarframkvæmdir séu hafnar. Með hliðsjón af þessum aðdraganda og framkvæmdum á lóð Nesbala 35 verður að líta svo á að kæranda hafi mátt vera kunnugt um að byggingarleyfi fyrir nýbyggingu hafi verið samþykkt í síðasta lagi í nóvember 2016. Kæra í máli þessu barst hins vegar ekki fyrr en 22. desember 2017 eða rúmu ári síðar. Var lögbundinn kærufrestur þá löngu liðinn og byggingarframkvæmdum á umræddri lóð að mestu lokið.

Samkvæmt afsali vegna Nesbala 33, dags. 5. desember 2017, tóku núverandi eigendur Nesbala 33 við eigninni hinn 1. ágúst 2017. Ekki liggur fyrir að hvaða leyti þeir voru upplýstir um samskipti fyrri eiganda við bæjaryfirvöld vegna byggingarleyfisumsóknar Nesbala 35 og þann ágreining sem þar var á milli. Við afhendingu voru framkvæmdir að Nesbala 35 hins vegar langt á veg komnar og höfðu nýir eigendur þá tilefni til að afla upplýsinga um hið kærða byggingarleyfi. Verður og ekki fram hjá því litið að fjölskyldutengsl eru á milli núverandi eigenda og fyrri eiganda Nesbala 33. Að því virtu verður að líta svo á að kærufrestur hafi einnig verið liðinn að því er varðar núverandi eigendur Nesbala 33, en kæra í máli þessu barst hátt í fimm mánuðum eftir að þau fengu eignina afhenta.

Í 28. gr. stjórnsýslulaga er fjallað um áhrif þess ef kæra berst að liðnum kærufresti. Ber þá samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins að vísa kæru frá nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til efnis­meðferðar. Samkvæmt 2. mgr. ákvæðisins verður kæru þó ekki sinnt ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila. Í frumvarpi því sem varð að stjórnsýslulögum nr. 37/1993 kemur m.a. fram í athugasemdum með nefndri 28. gr. að líta þurfi til þess hvort aðilar að málinu séu fleiri en einn og með andstæða hagsmuni, en undir þeim kringumstæðum sé rétt að taka mál einungis til kærumeðferðar að liðnum kærufresti í algerum undantekningartilvikum. Í máli þessu fara hagsmunir kærenda og handhafa hins kærða leyfis ekki saman. Þótt ekki verði séð að fyrri eiganda Nesbala 33 hafi verði leiðbeint um kæruleið og kærufrest í tilefni af samskiptum hans við byggingaryfirvöld vegna málsins, svo sem rétt hefði verið að gera samkvæmt 2. tl. 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga, verður sá dráttur sem varð á að málið var kært ekki talinn afsakanlegur í ljósi þess sem áður er rakið. Að sama skapi er dráttur núverandi eigenda Nesbala 33 á að kæra málið heldur ekki talinn afsakanlegur að virtum fyrrnefndum aðstæðum. Eru því ekki uppfyllt skilyrði til að taka málið til meðferðar á grundvelli áðurgreindrar undanþágu 28. gr. stjórnsýslulaga, sbr. og áðurnefndan tímafrest 2. mgr. 28. gr. laganna.

Með vísan til þess sem að framan er rakið verður kærumáli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni. Þar sem málið verður ekki tekið til efnismeðferðar verður eðli máls samkvæmt ekki tekin afstaða til lögmætis hins kærða byggingarleyfis.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kæru þessari er vísað frá úrskurðarnefndinni.

141/2018 Brekkukot

Með

Árið 2019, föstudaginn 1. mars tók Ómar Stefánsson, varaformaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála fyrir með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 130/2011:

Mál nr. 141/2018 kæra vegna ákvörðunar bæjarstjórnar Mosfellsbæjar frá 31. október 2018 um breytingar á aðalskipulagi Mosfellsbæjar og framkvæmda í landi Brekkukots í Mosfellsdal

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 11. desember 2018, er barst nefndinni 12. s.m., kærir eigandi, Fífuhjalla 1, Kópavogi, ákvörðun bæjarstjórnar Mosfellsbæjar frá 31. október 2018 um breytingu á Aðalskipulagi Mosfellsbæjar 2011-2030 og framkvæmdir í landi Brekkukots í Mosfellsdal. Skilja verður málskot kæranda svo að gerð sé krafa um að hin kærða aðalskipulagsbreyting verði felld úr gildi og greindar framkvæmdir verði stöðvaðar til bráðabirgða á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Mosfellsbæ 18. febrúar 2019.

Málsatvik og rök: Hinn 31. október 2018 samþykkti bæjarstjórn Mosfellsbæjar breytingu á Aðalskipulagi Mosfellsbæjar 2011-2030 vegna stakra íbúðarhúsa í Mosfellsdal. Í breytingunni fólst heimild til að byggja íbúðarhús til viðbótar þeim sem fyrir væru á landareignum/lóðum Móatúni, Brekkukoti, Sigtúni og Mosfelli í Mosfellsdal. Skipulagsstofnun staðfesti breytinguna 10. desember 2018 og var hún birt í B-deild Stjórnartíðinda 27. desember s.á.

Af hálfu kæranda er á það bent að engin grenndarkynning hafi farið fram á hinni kærða aðalskipulagsbreytingu, líkt og kveðið sé um í lögum. Skýrt sé tekið fram í afsali fyrir sumarhúsi kæranda sem liggi að lóðinni Brekkukoti að óheimilt sé að reisa nokkrar byggingar á melunum fyrir neðan landspilduna nema samþykki eigenda hennar komi til. Á lóðinni Brekkukoti hafi nú hins vegar risið mikið mannvirki sem virðist mun stærra en íbúðarhúsið að Brekkukoti og sé notað sem íbúðarhús þó eigandi kalli það geymslur.

Af hálfu Mosfellsbæjar er tekið fram að bærinn hafi ekki úthlutað neinum lóðum til búsetu í Brekkukotslandi enda sé Mosfellsbær ekki eigandi jarðnæðis á því svæði. Einungis hafi verið samþykkt breyting á aðalskipulagi sem sé almenns eðlis og taki til fleiri lóða en Brekkukots. Þá hafi hvorki byggingar- né framkvæmdaleyfi verið gefin út og hafi vettvangskannanir skipulagsfulltrúa og byggingarfulltrúa á svæðinu ekki gefið til kynna að nýjar byggingarframkvæmdir hafi verið þar hafnar.

Niðurstaða: Samkvæmt 2. ml. 3. mgr. 32. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 tekur aðalskipulag gildi þegar það hefur verið samþykkt af sveitarstjórn, hlotið staðfestingu Skipulagsstofnunar og verið birt í B-deild Stjórnartíðinda, sbr. 2. ml. 3. mgr. 32. gr. nefndra laga. Hin kærða aðalskipulagsbreyting var staðfest af Skipulagsstofnun 10. desember 2018 og öðlaðist gildi með birtingu auglýsingar þar um í B-deild Stjórnartíðinda 27. s.m.

Samkvæmt 1. mgr. 52. gr. skipulagslaga verða ákvarðanir sem Skipulagsstofnun og ráðherra ber að skipulagslögum að staðfesta ekki bornar undir úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Þá liggur ekki fyrir að ákvarðanir um byggingar- eða framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmdum í landi Brekkukots hafi verið teknar sem kæranlegar eru til úrskurðar-nefndarinnar. Af þeim sökum verður kærumáli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

 Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

91/2018 Berserkseyri

Með

Árið 2019, föstudaginn 1. mars tók Ómar Stefánsson, varaformaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála fyrir með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 130/2011:

Mál nr. 91/2018, kæra vegna aðgerðarleysis Grundafjarðarbæjar í tengslum við lagningu vatnslagnar í landi Berserkseyrar Ytri.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 25. júní 2018, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur, Blikaási 8, Hafnarfirði, aðgerðarleysi Grundarfjarðarbæjar í tengslum við lagningu vatnslagnar í landi Berserkseyrar Ytri. Er þess krafist að úrskurðarnefndin hlutist til um að landeigandinn að Berserkseyri fjarlægi vatnslögnina ásamt tilheyrandi lokunarbúnaði úr landi Berserkseyrar Ytri sem fyrst.

Gögn málsins bárust frá Grundafjarðarbæ 20. júlí 2018.

Málsatvik og rök: Eigendur jarðarinnar Berserkseyrar lögðu vatnslögn sem fór að hluta til inn á jörðina Berserkseyri Ytri. Samkvæmt fundargerð umhverfis– og skipualgsnefndar bæjarins samþykkt nefndin 1. febrúar 2018 breytt aðalskipulag Berserkseyrar og deiliskipulag þar sem m.a. var gert ráð fyrir vatnslögn um land Berserkseyrar Ytri að íbúðarhúsi að Berserkseyri. Þá var tekið fram að þegar til framkvæmda kæmi á deiliskipulagssvæðinu þyrfti að færa vatnslögn vegna frístundabyggðarinnar út fyrir byggingarreit að Berserkseyri Ytri á kostnað eigenda Berserkseyrar. Bæjarstjórn samþykkti afgreiðslu nefndarinnar hinn 8. febrúar 2018.

Kærendur benda á að þeir séu hluti erfingja að jörðinni Berskerseyri Ytri og sé ætluð sú landspilda sem nefnd vatnslögn muni liggja að hluta til um samkvæmt gildandi deiliskipulagi. Eigi þeir því lögvarinna hagsmuna að gæta varðandi legu lagnarinnar. Vatnslögn ásamt lokunarbúnaði hafi verið lögð yfir deiliskipulagt byggingarsvæði Berserkseyrar Ytri. Lagning umræddrar vatnslagnar hafi ekki verið gerð í samráði við sveitarfélagið. Eftir nokkur samskipti við bæjarstjóra og skipulags- og byggingarfulltrúa Grundarfjarðar hafi skipulags- og byggingarfulltrúi tilkynnt að samþykkt hefði verið í umhverfis- og skipulagsnefnd 1. febrúar 2018 að vatnslögnin ásamt lokunarbúnaði yrði fjarlægð þegar kærendur hæfu byggingarframkvæmdir á landinu. Telja kærendur að um lögbrot skv. 53. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 sé að ræða þar sem ekki hafi fengist framkvæmdaleyfi frá sveitarfélaginu fyrir framkvæmdinni. Því beri að fjarlægja lögnina sem fyrst úr landi Berserkseyrar Ytri.

Af hálfu sveitarfélagsins er bent á að vísa eigi kærunni frá af þeirri ástæður að kærendur séu ekki þinglýstir eigendur lands þess sem til umfjöllunar er. Því hafi þeir ekki lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun líkt og krafa sé gerð um í 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Þinglýstur eigandi sé móðir annars kæranda og virðist kæran, samkvæmt gögnum sem sveitarfélagið hafi undir höndum, vera í andstöðu við vilja hennar. Lagning vatnslagnarinnar hafi verið í fullu samráði við sveitarfélagið og stríði að mati þess ekki gegn skipulagsákvörðunum. Í samþykkti skipulags- og umhverfisnefndar Grundafjarðarbæjar frá 1. febrúar 2018 komi einnig skýrt fram að verði vatnslögnin fyrir á hinu skipulagða svæði þegar til framkvæmda komi muni hún verða færð á kostnað landeiganda Berserkseyrar.

 Niðurstaða: Í 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kveðið á um að þeir einir geti skotið máli til úrskurðarnefndarinnar sem eigi lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun. Er það í samræmi við þá meginreglu stjórnsýsluréttar að kæruaðild sé bundin við þá sem eiga einstaklingsbundna og verulega lögvarða hagsmuna að gæta vegna kæranlegrar ákvörðunar.

Samkvæmt fasteignaskrá Þjóðskár Íslands telja kærendur hvorki til beinna né óbeinna eignarréttinda er tengjast landi Berserkseyrar Ytri og þar með því landi sem umdeild vatnslögn mun liggja um. Hafa þeir því engan lögvarinn rétt til íhlutunar um ráðstöfun eða notkun þess lands. Þótt annar kærenda væri lögerfingi eiganda umræddrar landsspildu veitir það honum ekki lögvarinn réttindi tengd umræddri eign fyrr en hún eftir atvikum félli í hans hlut við dánarbúskipti.

Með hliðsjón af framangreindu og þar sem ekki hafa komið fram aðrar ástæður af hálfu kærenda sem leitt geta til kæruaðildar þeirra samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 verður kærumáli þessu vísað frá  úrskurðarnefndinni sökum aðildarskorts.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar

Úrskurðarorð:

 Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

40/2018 Hraunhella

Með

Árið 2019, fimmtudaginn 28. febrúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 40/2018, kæra vegna framkvæmda á lóðinni nr. 19 við Hraunhellu, Selfossi.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 6. mars 2018, er barst nefndinni sama dag, kæra fasteignaeigendur að Tjaldhólum 8, 18, 20 og að Hraunhellu 16 og 17, Selfossi, framkvæmdir við lóðina Hraunhellu 19. Skilja verður málatilbúnað kærenda svo að þess sé krafist að felldar verði úr gildi ákvarðanir  skipulags- og byggingarnefndar Árborgar frá 1. mars 2017 um að veita byggingarleyfi fyrir einbýlishúsi að Hraunhellu 19 á Selfossi og um breytta staðsetningu innkeyrslu á nefnda lóð.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Sveitarfélaginu Árborg 13. apríl 2018.

Málsatvik og rök: Á fundi skipulags- og byggingarnefndar Árborgar 1. mars 2017 var tekin fyrir umsókn lóðarhafa Hraunhellu 19, Selfossi, um byggingarleyfi fyrir einbýlishúsi á nefndri lóð. Umsóknin var samþykkt með fyrirvara um að brugðist yrði við athugasemdum nefndarinnar. Á sama fundi nefndarinnar var samþykkt umsókn lóðarhafa um­ breytta­­ staðsetningu innkeyrslu á greinda lóð. Eiganda var tilkynnt um þessa niðurstöðu með bréfi, dags. 3. mars 2017. Ákvarðanir þessar voru staðfestar á fundi bæjarstjórnar Árborgar 15. mars 2017.

Síðla árs 2017 kom í ljós að byggingarframkvæmdir á lóðinni nr. 19 við Hraunhellu voru ekki í samræmi við samþykktar teikningar, lóðarblað, byggingarleyfi og deiliskipulagsskilmála. Frá þeim tíma hélt eigandi fasteignarinnar að sér höndum með frekari framkvæmdir á lóðinni vegna þessara mistaka. Í kjölfarið kom beiðni frá eigandanum, dags. 22. nóvember 2017, um breytingu á deiliskipulagsskilmálum vegna lóðarinnar þess efnis að gerð yrði undanþága frá skilmálunum og leyfi gefið fyrir því að hluti byggingarinnar yrði hærri en sú hámarkshæð sem þar er tilgreind. Á fundi skipulags- og byggingarnefndar Árborgar 15. desember 2017 var tekin ákvörðun um að grenndarkynna erindið í samræmi við ákvæði skipulagslaga nr. 123/2010. Gögn vegna grenndarkynningarinnar voru send út 17. desember 2017 til íbúa að Hraunhellu 16 og 17 og Tjaldhólum 6, 8, 18, 20 og 34. Athugasemdir bárust frá nágrönnum 11. janúar 2018. Í athuga­­semdunum kom m.a. fram mikil andstaða þeirra gagnvart breytingum og framkvæmdum við umrædda lóð. Á fundi skipulags- og byggingarnefndar, sem haldinn var 17. janúar 2018, var fyrrgreindu erindi eiganda lóðarinnar hafnað og honum tilkynnt um þá niðurstöðu með bréfi, dags. 22. janúar 2018.

Kærendur halda því  fram að með framkvæmdunum hafi verið vikið frá gildandi skipulagi með því að aðkomu að lóðinni hafi verið breytt. Þá verði heimiluð bygging á lóðinni fullar tvær hæðir, auk kjallara, en ganga megi út frá því að þar sé aðeins heimiluð ein hæð. Loks sé bent á að brotið sé gegn ákvæði skipulagsreglugerðar nr. 90/2013 um mænishæð og með framkvæmdunum sé vikið frá meginforsendum sem settar voru í skipulagi um hæðarsetningu.

Sveitarfélagið vísar til þess að rétt hafi verið staðið að afgreiðslu málsins þar sem uppfylltar hafi verið kröfur form- og efnisreglna, sem því hafi borið að fara eftir, við meðferð umsóknar um hið kærða byggingarleyfi og um breytingu á innkeyrslu umræddrar lóðar. Ákvörðun í málinu hafi verið tekin á grundvelli deiliskipulagsskilmála fyrir Gráhellu á Selfossi, sem gildi á umræddu svæði, og annarra lagareglna sem við eigi. Þá sé ljóst að eins mánaðar kærufrestur samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hafi verið liðinn er kæran hafi borist  úrskurðarnefndinni. Kærendum hafi mátt vera kunnugt um hinar kærðu ákvarðanir í síðasta lagi þegar gögn vegna grenndarkynningar á umsókn um undanþágu frá deiliskipulagsskilmálum á hámarkshæð umræddrar byggingar hafi verið send út hinn 17. desember 2017.

Niðurstaða: Kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar er einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Gögn málsins bera með sér að byggingar­framkvæmdir á lóðinni nr. 19 við Hraunhellu hafi verið vel á veg komnar fyrir árslok 2017, en í nóvember s.á. fór eigandi lóðarinnar þess á leit við Sveitarfélagið Árborg að veitt yrði undanþága frá deiliskipulagsskilmálum og leyfi gefið fyrir því að hluti byggingarinnar á lóðinni yrði hærri en tilgreind hámarkshæð í deiliskipulagsskilmálum. Kærendum, sem búa á næstu lóðum við lóð leyfishafa, mátti vera ljóst af framkvæmdum á umræddri lóð á árinu 2017 að leyfi hefðu verið veitt fyrir þeim og gátu þeir þá þegar aflað sér upplýsinga um efni hinna kærðu ákvarðana hjá bæjaryfirvöldum. Þá liggur fyrir að grenndarkynningargögn vegna lóðarinnar Hraunhellu 19 voru send kærendum 17. desember 2017. Í ljósi þessa verður við það að miða að kærufrestur í málinu hafi í síðasta lagi byrjað að líða þann dag. Var kærufrestur því liðinn þegar kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni.

Berist kæra að liðnum kærufresti skal vísa henni frá samkvæmt 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, nema afsakanlegt verði talið að kæra hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæra verði tekin til meðferðar. Tiltekið er í athugasemdum með 28. gr. í frumvarpi því sem varð að stjórnsýslulögum að við mat á því hvort skilyrði séu til að taka mál til meðferðar að loknum kærufresti þurfi að líta til þess hvort aðilar að málinu séu fleiri en einn og með andstæða hagsmuni. Sé svo sé rétt að taka mál einungis til kærumeðferðar að liðnum kærufresti í algjörum undantekningartilvikum. Skal og á það bent að í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 130/2011 er tekið fram í athugasemdum með 2. mgr. 4. gr. að kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar sé styttri en almennur kærufrestur stjórnsýslulaga þar sem brýnt sé að ágreiningur um form eða efni ákvörðunar verði staðreyndur sem fyrst og áréttað í því samhengi að eftir því sem framkvæmdir séu komnar lengra, áður en ágreiningur um þær verði ljós, skapist meiri hætta á óafturkræfu tjóni af bæði umhverfislegum og fjárhagslegum toga. Að þessu virtu verður ekki talið að undantekningarákvæði 28. gr. stjórnsýslulaga eigi hér við.

Með hliðsjón af því sem að framan er rakið verður kærumáli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

20/2018 Seiðaeldi í Þorlákshöfn

Með

Árið 2019, þriðjudaginn 19. febrúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri, Geir Oddsson auðlindafræðingur og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur. Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor tók þátt í fundi nefndarinnar í gegnum fjarfundarbúnað.

Fyrir var tekið mál nr. 20/2018, kæra á ákvörðun Matvælastofnunar frá 13. nóvember 2017 um að veita rekstrarleyfi fyrir allt að 500 tonna seiðaeldi á ári að Laxabraut 9, Þorlákshöfn.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 11. febrúar, er barst nefndinni 12. s.m., kæra Veiðifélag Árnesinga, Náttúruverndarsamtök Íslands og náttúruverndarfélagið Laxinn lifi, þá ákvörðun Matvælastofnunar frá 13. nóvember 2017 að gefa út rekstrarleyfi fyrir allt að 500 tonna seiðaeldi á ári að Laxabraut 9, Þorlákshöfn. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Með bráðabirgðaúrskurði, uppkveðnum 17. apríl 2018, var synjað kröfu um frestun réttaráhrifa hins kærða rekstrarleyfis á meðan mál þetta væri til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Matvælastofnun 21. febrúar 2018.

Málavextir: Hinn 21. maí 2016 tilkynnti Laxar fiskeldi ehf. Skipulagsstofnun um framkvæmd sína í samræmi við 6. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum og lið 1.11 í 1. viðauka laganna. Í tilkynningunni kemur fram að stefnt sé að framleiðslu 500 tonna af laxaseiðum á ári í Þorlákshöfn. Farið var með tilkynninguna í samræmi við lög nr. 106/2000 og í niðurstöðukafla ákvörðunar Skipulagsstofnunar frá 3. ágúst 2016 kemur fram sú niðurstaða stofnunarinnar að framkvæmdin skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Í tilkynningunni kemur fram að þar sem um landeldi í kerjum sé að ræða sé enginn möguleiki á að fiskur sleppi eða að dauður fiskur fari úr stöðinni, t.d. með affallsvatni. Frárennsli stöðvarinnar fari í gegnum stálgrindur sem komi í veg fyrir að fiskur sleppi. Seiði verða flutt með brunnbáti frá stöð félagsins í Þorlákshöfn austur í Reyðarfjörð. Framkvæmdaraðilar hafa töluverða reynslu af seiðaflutningum og noti almenna og viðurkennda flutningsaðferð sem notuð er þar sem eldi sé stundað. Vísað er til ákvörðunar Skipulagsstofnunar frá apríl 2014 vegna matsskyldu framkvæmdar er laut að framleiðsluaukningu Eldisstöðvarinnar Ísþórs, en í þeirri ákvörðun var vísað til umsagnar Matvælastofnunar. Í þeirri umsögn kom fram að eldi muni ekki hafa neikvæð áhrif á heilbrigði og viðgang villtra laxastofna sem fyrir séu í nálægu vistkerfi. Í niðurstöðu Skipulagsstofnunar kemur fram að helstu neikvæðu áhrif fyrirhugaðra framkvæmda verði vegna næringarefnalosunar í sjó, en viðtakinn sé Atlantshafið og teljist því síður viðkvæmur og því ekki líkur á að næringarefni safnist upp að neinu ráði vegna mikils dýpis og áhrifa strauma á stórbrimasömu strandsvæði.

Með umsókn, dags. 10. ágúst 2016, sótti Laxar fiskeldi ehf. um rekstrarleyfi vegna seiða-eldisstöðvar sinnar. Með umsókninni fylgdu upplýsingar um eignaraðild, fagþekkingu, gæðakerfi o.s.frv. í samræmi við 8. gr. laga nr. 71/2008 um fiskeldi. Hinn 13. nóvember 2017 veitti Matvælastofnun hið kærða rekstrarleyfi.

Málsrök kærenda: Kærendur taka fram að þeir telji sig eiga mikilla hagsmuna að gæta af því að ekki sé stefnt í hættu lífríki Ölfusár og vatnakerfis hennar, þ. á m. hinum villtu laxa- og silungastofnum vatnakerfisins, m.a. með lúsafári, sjúkdómasmiti og erfðamengun frá erlendum og framandi laxastofni, sem fáir mótmæli að muni sleppa eða „leka“ í meira eða minna mæli úr fyrirhuguðu seiðaeldi við Þorlákshöfn. Víst sé að eldisfiskurinn muni dreifa sér í veiðiár á Suðurlandi, Faxaflóa og jafnvel víðar um land og setja þar í hættu laxa- og silungsstofna, svo að ekki sé minnst á stórfellda saur- og fóðurleifamengun í nágrenni eldisstöðvarinnar.

Málsrök Matvælastofnunar: Af hálfu Matvælastofnunar er bent á að af þeim gögnum sem fyrir liggi eftir málsmeðferð hjá Skipulagsstofnun og Matvælastofnun verði ekki séð að ann-markar séu á þeirri ákvörðun stofnunarinnar að gefa út rekstrarleyfi. Um sé að ræða landeldi í kerjum og litlar sem hverfandi líkur á að fiskur sleppi eða að dauður fiskur skili sér út úr stöðinni með t.d. affallsvatni, þar sem frárennsli til sjávar fari í gegnum stálgrindur sem varni slíku. Í rekstrarleyfinu sé þannig sett það skilyrði að stöðin verði með tvöfaldar varnir gegn því að fiskur komist úr kerjum og út í umhverfið. Annars vegar verði búnaður sem komi í veg fyrir að fiskur sleppi úr eldiskerfi og hins vegar viðbótaröryggisbúnaður staðsettur í frárennsli stöðvarinnar, sem einnig fangi fisk. Fyrir liggi að seiðastöðin sé hönnuð þannig að full stýring sé fyrir hendi á lykilþáttum, s.s. vatnsnotkun, meðhöndlun fisks og frárennslis. Áhersla sé lögð á varnir gegn smiti.

Eldið muni því ekki hafa neikvæð áhrif á heilbrigði og viðgang villtra fiskistofna sem fyrir séu í nálægu vistkerfi. Þar sem leyfishafi hafi lagt fram þau gögn sem kveðið sé á um í lögum um fiskeldi og engin málefnaleg sjónarmið hafi mælt á móti útgáfu leyfisins hafi Matvælastofnun gefið leyfið út 18. nóvember 2017, sbr. 10. gr. laga nr. 71/2008 um fiskeldi.

Athugasemdir leyfishafa: Af hálfu leyfishafa er tekið fram að kæra hafi borist að liðnum kærufresti. Hið kærða rekstrarleyfi hafi verið gefið út af Matvælastofnun á grundvelli III. kafla laga nr. 71/2008 um fiskeldi. Í þeim lögum séu engar sérreglur um birtingu slíkra rekstrarleyfa. Gildi þá meginregla stjórnsýsluréttar um að slík ákvörðun sem útgáfa rekstrarleyfis sé hafi réttaráhrif frá því að hún hafi verið tilkynnt aðila máls. Rekstrarleyfið hafi verið tilkynnt leyfishafa 13. nóvember 2017, eða sama dag og það hafi verið gefið út. Engum öðrum aðilum hafi verið til að dreifa sem tilkynna hafi þurft um útgáfu þess.

Á því sé byggt í kæru að kæranda hafi ekki verið kunnugt um útgáfu hins kærða leyfis fyrr en hann hafi sjálfur haft samband við Matvælastofnun 12. febrúar 2018. Ekki stoði að þræta við kæranda um hvenær hann hafi sjálfur ákveðið að senda tölvupóst til Matvælastofnunar. Hins vegar sé ljóst að kæranda hafi mátt vera kunnugt um útgáfu rekstrarleyfisins töluvert fyrr. Í starfsleyfi Umhverfisstofnunar, sem gefið hafi verið út sama dag og rekstrarleyfi Matvæla-stofnunar, eða 13. nóvember 2017, hafi verið vísað til hins kærða rekstrarleyfis og tekið fram að leyfin tækju gildi samtímis við afhendingu rekstrarleyfis til leyfishafa. Starfsleyfi hafi verið birt opinberlega á vef stofnunarinnar 17. nóvember s.á. og í Stjórnartíðindum 24. s.m. Kærandi, sem einnig hafi kært útgáfu starfsleyfis Umhverfisstofnunar 21. desember 2017, hafi því vitað eða mátt vita af tilvist rekstrarleyfisins eigi síðar en þann dag og sennilega einhverju fyrr, svo sem þegar starfsleyfi Umhverfisstofnunar hafi verið birt á vef hennar 17. nóvember s.á.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun Matvælastofnunar frá 13. nóvember 2017 að gefa út rekstrarleyfi fyrir allt að 500 tonna seiðaeldi á ári að Laxabraut 9, Þorlákshöfn.

Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er það skilyrði kæruaðildar að málum fyrir nefndinni að kærandi eigi lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun. Er það í samræmi við þá meginreglu stjórnsýsluréttar að kæruaðild sé bundin við þá sem eiga einstaklingsbundna og verulega lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun. Sú undantekning er þó gerð í nefndum lögum að umhverfisverndar-, útivistar- og hagsmunasamtök geta að ákveðnum skilyrðum uppfylltum átt kæruaðild án þess að sýna fram á lögvarða hagsmuni. Aðrir kærendur þurfa hins vegar að uppfylla framangreind skilyrði kæruaðildar. Eins og fram kemur í kæru eru kærendur annars vegar náttúruverndarsamtök og hins vegar Veiðifélag Árnesinga.

Í 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 er talið upp að hvaða ákvörðunum umhverfisverndar-, útivistar- og hagsmunasamtök geti átt kæruaðild án þess að þau þurfi að sýna fram á lögvarða hagsmuni. Er þar m.a. um að ræða ákvarðanir Skipulagsstofnunar um matsskyldu framkvæmda, sbr. a-lið 3. mgr., og ákvarðanir um að veita leyfi vegna framkvæmda sem falla undir lög um mat á umhverfisáhrifum, sbr. b-lið 3. mgr. Í athugasemdum með nefndri 4. gr. í frumvarpi því sem varð að lögum um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er m.a. tekið fram að ákvörðun um matsskyldu ráði því hvort almenningur fái rétt til frekari þátttöku í gegnum matsferlið og hvort hann njóti kæruaðildar vegna ákvarðana stjórnvalda um að veita leyfi vegna framkvæmda. Með vísan til þess sem að framan er rakið uppfylla náttúruverndarsamtök ekki skilyrði til kæruaðildar að máli þessu enda liggur fyrir ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 3. ágúst 2016 um að framkvæmdin skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Verður kæru náttúruverndarsamtakanna af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.

Veiðifélag Árnesinga rökstyður lögvarða hagsmuni sína í málinu með því að það eigi mikilla hagsmuna að gæta af því að ekki verði stefnt í hættu lífríki viðkomandi veiðiár og þar með hinum villtu laxa- og silungastofnum hennar, enda sé víst að eldisfiskurinn muni dreifa sér í veiðiár á Suðurlandi, Faxaflóa og jafnvel víðar um land. Á sviði umhverfisréttar er oft álitamál hvern telja beri aðila máls. Verður við úrlausn þess atriðis að meta hagsmuni og tengsl kærenda við úrlausn málsins, þ.e. hvort þeir eigi verulegra, sérstakra og lögvarinna hagsmuna að gæta. Við mat á því hvort viðkomandi hafi lögvarða hagsmuni af úrlausn kærumáls verður að líta til þess að stjórnsýslukæra er mjög virkt úrræði til að tryggja réttar-öryggi borgaranna, en það er meðal markmiða stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. athugasemdir í frumvarpi því sem varð að þeim lögum. Verður því almennt að gæta varfærni við að vísa málum frá á þeim grunni að kærendur skorti lögvarða hagsmuni. Ber þannig að jafnaði ekki að vísa frá málum vegna þess að kæranda skorti lögvarða hagsmuni nema augljóst sé að það hafi ekki raunhæft gildi fyrir lögverndaða hagsmuni hans að fá leyst úr ágreiningi þeim sem stendur að baki kærumálinu.

Seiðaeldið, sem hin kærða ákvörðun lýtur að, mun fara fram á landi í um 10 km fjarlægð frá Ölfusárósi. Í tilkynningu framkvæmdaraðila til Skipulagsstofnunar kemur fram að þar sem um landeldi sé að ræða í kerjum sé enginn möguleiki á að fiskur sleppi eða að dauður fiskur skili sér út úr stöðinni, t.d. með affallsvatni. Frárennsli stöðvarinnar muni fara í gegnum stálgrindur sem varni sleppingum. Í starfsleyfi Umhverfisstofnunar, sem liggur fyrir úrskurðarnefndinni, kemur fram að rekstraraðili skuli tryggja viðunandi hreinsun frárennslisvatns með settjörn, tromlusíu eða öðrum sambærilegum eða betri búnaði, sem gróflega hreinsi frárennslið. Í svörum framkvæmdaraðila við spurningum Matvælastofnunar við meðferð rekstrarleyfisumsóknar hans kom fram að þegar seiði hefðu náð tilætlaðri stærð yrði þeim fleytt í gegnum 315 mm lögn frá botni kerja í brunnbát. Um væri að ræða 300-400 m vegalengd. Ekki verði hægt að flytja seiði í brunnbát nema veður sé gott og verði útbúin aðstaða fyrir bátinn þar sem hann verði festur kirfilega með lóðum sem verði komið fyrir á sjávarbotni, auk ankera og stroffa sem verði festar í land.

Í 3. gr. laga nr. 71/2008 um fiskeldi er að finna skilgreiningu á m.a. kvíaeldi, sem sé fiskeldi í netkvíum (netbúrum) í fersku vatni eða söltu, sjókvíaeldi, sem sé eldi á fiski í netbúrum sem komið er fyrir í sjó eða söltu vatni, strandeldi, sem sé eldi fiska til slátrunar í tönkum eða kerjum á landi, sem og á skiptieldi, sem sé eldi á fiski í strandeldi upp í 250 til 1.000 g og framhaldseldi í sjókvíum upp í markaðsstærð. Einnig er að finna þá skilgreiningu á seiðaeldi í 3. gr. reglugerðar nr. 1170/2015 um fiskeldi að um sé að ræða klak og eldi á fyrstu stigum lífsferils fiska. Þá er strandeldi skilgreint þar sem eldi fisks í eldiskerum eða jarðtjörnum á landi þar sem sjó eða ísöltu vatni sé dælt í eldiseininguna. Loks er kví þar skilgreind sem netpoki sem hangi í fljótandi grind eða sé festur á grind sem komið sé fyrir undir eða við yfir­borð lagar.

Ljóst er að eldi í kerjum á landi er ekki sambærileg framkvæmd við eldi í sjókvíum þótt um fiskeldi sé að ræða í báðum tilvikum. Framkvæmd sú sem hér um ræðir felst í eldi seiða í kerjum á landi. Þegar seiðin hafa náð ákveðinni lágmarksstærð er þeim dælt úr kerjunum í brunnbát og þau flutt í sjókvíar þar sem þau verða alin upp í markaðsstærð. Óumdeilt er að á Íslandi, líkt og annars staðar, sleppur fiskur úr sjókvíum þrátt fyrir að fylgt sé norskum staðli, NS 9415:2009 (Flytende oppdrettsanleg), eða öðrum sambærilegum alþjóðlegum stöðlum, sbr. 2. gr. reglugerðar nr. 1170/2015. Skilur enda eingöngu net að þegar um sjókvíaeldi er að ræða. Í landeldi því sem hér er til umfjöllunar er fiskurinn hins vegar í kerjum á landi og er komið í veg fyrir að hann sleppi í gegnum fráveitu með grindum á kerjum og á frárennsli, auk þess sem frárennslisvatn verður hreinsað með settjörn, tromlusíu eða öðrum sambærilegum eða betri búnaði. Er helst að seiði sleppi ef óhöpp verða við dælingu í brunnbát, en eðli máls samkvæmt fer slík dæling eingöngu fram þegar seiði hafa náð ákveðinni stærð og eru afhent til brottflutnings. Þá er því ekki saman að jafna að seiði sleppi, sem e.t.v. eru ekki lífvænleg, eða fullvaxta fiskur. Að öllum þessum atriðum virtum er það mat úrskurðarnefndarinnar ekki hafi raunhæft gildi fyrir lögvarða hagsmuni veiðifélagsins að fá leyst úr ágreiningi um lögmæti þeirrar ákvörðunar Matvælastofnunar frá 13. nóvember 2017 að gefa út rekstrarleyfi fyrir allt að 500 tonna seiðaeldi á ári að Laxabraut 9. Þar sem hagsmunir veiðifélagsins, sem reisir aðild sína á því að lífríki Ölfusár og vatnsvæðis hennar verði stefnt í hættu, teljast ekki svo verulegir að skapað geti því kæruaðild verður kæru þess einnig vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

155/2017 Seiðaeldi í Þorlákshöfn

Með

Árið 2019, þriðjudaginn 19. febrúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri, Geir Oddsson auðlindafræðingur og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur. Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor tók þátt í fundi nefndarinnar í gegnum fjarfundarbúnað.

Fyrir var tekið mál nr. 155/2017, kæra á ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 8. nóvember 2017 um að gefa út starfsleyfi fyrir allt að 500 tonna seiðaeldi á ári að Laxabraut 9, Þorlákshöfn.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 21. desember 2017, er barst nefndinni 22. s.m., kæra Veiðifélag Árnesinga, Náttúruverndarsamtök Íslands og náttúruverndarfélagið Laxinn lifi þá ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 8. nóvember 2017 að gefa út starfsleyfi fyrir allt að 500 tonna seiðaeldi á ári að Laxabraut 9, Þorlákshöfn. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Með bráðabirgðaúrskurði, uppkveðnum 6. febrúar 2018, var synjað kröfu um frestun réttaráhrifa hins kærða starfsleyfis á meðan mál þetta væri til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Umhverfisstofnun 9. febrúar 2018.

Málavextir: Hinn 21. maí 2016 tilkynnti Laxar fiskeldi ehf. Skipulagsstofnun um framkvæmd sína í samræmi við 6. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum og lið 1.11 í 1. viðauka laganna. Í tilkynningunni kemur fram að stefnt sé að framleiðslu 500 tonna af laxaseiðum á ári í Þorlákshöfn. Farið var með tilkynninguna í samræmi við lög nr. 106/2000 og í niðurstöðukafla ákvörðunar Skipulagsstofnunar frá 3. ágúst 2016 kemur fram að framkvæmdin skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Í tilkynningunni kemur fram að þar sem um landeldi í kerjum sé að ræða sé enginn möguleiki á að fiskur sleppi eða að dauður fiskur skili sér úr stöðinni, t.d. með affallsvatni. Frárennsli stöðvarinnar fari í gegnum stálgrindur sem komi í veg fyrir að fiskur sleppi. Seiði verði flutt með brunnbáti frá stöð félagsins í Þorlákshöfn austur í Reyðarfjörð. Framkvæmdaraðilar hafi töluverða reynslu af seiðaflutningum og noti almenna og viðurkennda flutningsaðferð þar sem eldi sé stundað. Vísað er til ákvörðunar Skipulagsstofnunar frá apríl 2014 vegna matsskyldu framkvæmdar er laut að framleiðsluaukningu Eldisstöðvarinnar Ísþórs, en í þeirri ákvörðun var vísað til umsagnar Matvælastofnunar þar sem fram kom að eldi myndi ekki hafa neikvæð áhrif á heilbrigði og viðgang villtra laxastofna sem fyrir væru í nálægu vistkerfi. Í niðurstöðu Skipulagsstofnunar kemur fram að helstu neikvæðu áhrif fyrirhugaðra framkvæmda verði vegna næringarefnalosunar í sjó en viðtakinn sé Atlantshafið og teljist því síður viðkvæmur. Því séu ekki líkur á að næringarefni safnist upp að neinu ráði vegna áhrifa mikils dýpis og strauma á stórbrimasömu strandsvæði.

Með umsókn, dags. 10. ágúst 2016, sótti Laxar fiskeldi um starfsleyfi vegna seiðaeldisstöðvar sinnar. Umhverfisstofnun auglýsti tillögu að starfsleyfi 5. júlí 2017 með athugasemdafresti til 31. ágúst s.á., ásamt því að óska eftir umsögnum tiltekinna aðila, t.d. viðkomandi heilbrigðisnefndar. Engar efnislegar athugasemdir bárust á auglýsingatíma. Hinn 8. nóvember 2017 veitti Umhverfisstofnun hið kærða starfsleyfi og í greinargerð með leyfinu er tekið fram að það taki á mengunarþætti eldisins á grunni reglugerðar nr. 785/1999 um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun. Starfsleyfið geri ítarlegar kröfur um takmörkun á mengun, eftirlit og mælingar á starfstíma. Í greinargerðinni er enn fremur vísað til þess að Skipulagsstofnun hafi metið það svo að framkvæmdin væri ekki háð mati á umhverfisáhrifum, Umhverfisstofnun hafi veitt umsögn við þá málsmeðferð Skipulags­stofnunar og talið að framkvæmdin myndi ekki hafa umtalsverð umhverfisáhrif í för með sér.

Málsrök kærenda: Kærendur taka fram að þeir telji sig eiga mikilla hagsmuna að gæta af því að ekki sé stefnt í hættu lífríki Ölfusár og vatnakerfis hennar, þ. á m. hinum villtu laxa- og silunga­stofnum vatnakerfisins, m.a. með lúsafári, sjúkdómasmiti og erfðamengun frá erlendum og framandi laxastofni, sem fáir mótmæli að muni sleppa eða „leka“ í meira eða minna mæli úr fyrirhuguðu seiðaeldi við Þorlákshöfn. Víst sé að eldisfiskurinn muni dreifa sér í veiðiár á Suðurlandi, Faxaflóa og jafnvel víðar um land og setja þar í hættu laxa- og silungsstofna, svo að ekki sé minnst á stórfellda saur- og fóðurleifamengun í nágrenni eldisstöðvarinnar.

Málsrök Umhverfisstofnunar: Af hálfu stofnunarinnar er hafnað málatilbúnaði kærenda og farið fram á að staðfest verði ákvörðun hennar um útgáfu starfsleyfis. Er tekið fram að hún telji, líkt og fram komi í niðurstöðu Skipulagsstofnunar um matsskyldu framkvæmdarinnar, að þar sem viðtaki frárennslis stöðvarinnar verði opið Atlantshafið, þar sem aðstæður séu með öðrum hætti en í fjörðum, verði áhrif hennar takmörkuð. Jafnframt að með þeim hreinsibúnaði sem rekstraraðili muni notast við verði næringarefnalosun í viðtakann takmörkuð.

Sótt hafi verið um starfsleyfi vegna seiðaeldisstöðvar leyfishafa og taki starfsleyfi Umhverfis­stofnunar á mengunarþætti eldisins á grunni reglugerðar nr. 785/1999 um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun. Stofnunin hafi kynnt sér tilkynningu umsækjanda og ákvörðun Skipulagsstofnunar og geri starfsleyfið ítarlegar kröfur um tak­mörkun á mengun, eftirlit og mælingar á starfstíma.

Athugasemdir leyfishafa: Af hálfu leyfishafa kemur fram að í kæru sé gert nokkuð úr því að notast sé við „framandi og kynbættan norskan laxastofn“ og að ekki hafi verið fjallað sérstaklega um það í umsögnum og ákvörðunum þar til bærra stjórnvalda. Hið rétta sé að allt laxeldi í sjókvíum við Ísland notist við sama laxastofninn af Saga-kyni og sé það kunnara en að frá þurfi að segja. Stjórnvöld á Íslandi hafi á undanförnum árum staðið að viðamikilli stefnumótun um sjókvíaeldi við landið, m.a. í þeim tilgangi að koma í veg fyrir erfðablöndun eldislaxa við villta laxastofna, fullmeðvituð um hvaða laxastofn skyldi notaður við það eldi. Almennar reglur sem stjórnvöld hafi sett um laxeldi á Íslandi endurspegli það mat og þá afstöðu að ekki sé þvílík hætta á erfðablöndun eða sjúkdómum vegna þeirrar starfsemi, svo lengi sem hún sé innan þeirra almennu marka sem stjórnvöld ákveði á hverjum tíma. Þá skuli ítrekað að við veitingu starfsleyfis á grundvelli laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir hafi Umhverfisstofnun ekki verið hið bæra stjórnvald til að taka afstöðu til meintra umhverfisáhrifa, enda hefði áður verið tekin ákvörðun um matsskyldu vegna mats á umhverfisáhrifum.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 8. nóvember 2017 að gefa út starfsleyfi fyrir allt að 500 tonna seiðaeldi á ári að Laxabraut 9, Þorlákshöfn.

Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er það skilyrði kæruaðildar að málum fyrir nefndinni að kærandi eigi lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun. Er það í samræmi við þá meginreglu stjórnsýsluréttar að kæruaðild sé bundin við þá sem eiga einstaklingsbundna og verulega lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun. Sú undantekning er þó gerð í nefndum lögum að umhverfisverndar-, útivistar- og hagsmunasamtök geta að ákveðnum skilyrðum uppfylltum átt kæruaðild án þess að sýna fram á lögvarða hagsmuni. Aðrir kærendur þurfa hins vegar að uppfylla framangreind skilyrði kæruaðildar. Eins og fram kemur í kæru eru kærendur annars vegar náttúruverndar­samtök og hins vegar Veiðifélag Árnesinga.

Í 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 er talið upp að hvaða ákvörðunum umhverfisverndar-, útivistar- og hagsmunasamtök eiga kæruaðild án þess að þau þurfi að sýna fram á lögvarða hagsmuni. Er þar m.a. um að ræða ákvarðanir Skipulagsstofnunar um matsskyldu fram­kvæmda, sbr. a-lið 3. mgr., og ákvarðanir um að veita leyfi vegna framkvæmda sem falla undir lög um mat á umhverfisáhrifum, sbr. b-lið 3. mgr. Í athugasemdum með nefndri 4. gr. í frumvarpi því sem varð að lögum um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er m.a. tekið fram að ákvörðun um matsskyldu ráði því hvort almenningur fái rétt til frekari þátttöku í gegnum matsferlið og hvort hann njóti kæruaðildar vegna ákvarðana stjórnvalda um að veita leyfi vegna framkvæmda. Með vísan til þess sem að framan er rakið uppfylla náttúruverndarsamtök ekki skilyrði til kæruaðildar að máli þessu, enda liggur fyrir ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 3. ágúst 2016 um að framkvæmdin skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Verður kæru náttúruverndarsamtakanna af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.

Veiðifélag Árnesinga rökstyður lögvarða hagsmuni sína í málinu með því að það eigi mikilla hagsmuna að gæta af því að ekki verði stefnt í hættu lífríki viðkomandi veiðiár og þar með hinum villtu laxa- og silungsstofnum hennar, enda sé víst að eldisfiskurinn muni dreifa sér í veiðiár á Suðurlandi, Faxaflóa og jafnvel víðar um land. Á sviði umhverfisréttar er oft álitamál hvern telja beri aðila máls. Verður við úrlausn þess atriðis að meta hagsmuni og tengsl kærenda við úrlausn málsins, þ.e. hvort þeir eigi verulegra, sérstakra og lögvarinna hagsmuna að gæta. Við mat á því hvort viðkomandi hafi lögvarða hagsmuni af úrlausn kærumáls verður að líta til þess að stjórnsýslukæra er mjög virkt úrræði til að tryggja réttar­öryggi borgaranna, en það er meðal markmiða stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. athugasemdir í frumvarpi því sem varð að þeim lögum. Verður því almennt að gæta varfærni við að vísa málum frá á þeim grunni að kærendur skorti lögvarða hagsmuni. Ber þannig að jafnaði ekki að vísa frá málum vegna þess að kæranda skorti lögvarða hagsmuni nema augljóst sé að það hafi ekki raunhæft gildi fyrir lögverndaða hagsmuni hans að fá leyst úr ágreiningi þeim sem stendur að baki kærumálinu.

Seiðaeldið, sem hin kærða ákvörðun lýtur að, mun fara fram á landi í um 10 km fjarlægð frá Ölfusárósi. Í tilkynningu framkvæmdaraðila til Skipulagsstofnunar kemur fram að þar sem um landeldi sé að ræða í kerjum sé enginn möguleiki á að fiskur sleppi eða að dauður fiskur skili sér út úr stöðinni, t.d. með affallsvatni. Frárennsli stöðvarinnar muni fara í gegnum stálgrindur sem varni sleppingum. Í hinu kærða starfsleyfi kemur fram að rekstraraðili skuli tryggja viðunandi hreinsun frárennslisvatns með settjörn, tromlusíu eða öðrum sambærilegum eða betri búnaði sem gróflega hreinsar frárennslið. Í svörum framkvæmdaraðila við spurningum Matvæla­stofnunar vegna umsóknar um rekstrarleyfi, sem liggja fyrir hjá úrskurðarnefndinni, kemur fram að þegar seiði hafi náð tilætlaðri stærð verði þeim fleytt í gegnum 315 mm lögn sem sé í botni kerja í brunnbát. Um sé að ræða 300-400 m vegalengd. Ekki verði hægt að flytja seiði í brunnbát nema veður sé gott og verði útbúin aðstaða fyrir bátinn þar sem hann verði festur kirfilega með lóðum sem komið verði fyrir á sjávarbotni, auk ankera og stroffa sem verði festar í land.

Í 3. gr. laga nr. 71/2008 um fiskeldi er að finna skilgreiningu á m.a. kvíaeldi, sem sé fiskeldi í netkvíum (netbúrum) í fersku vatni eða söltu, sjókvíaeldi, sem sé eldi á fiski í netbúrum sem komið er fyrir í sjó eða söltu vatni, strandeldi, sem sé eldi fiska til slátrunar í tönkum eða kerjum á landi, sem og á skiptieldi, sem sé eldi á fiski í strandeldi upp í 250 til 1.000 g og framhaldseldi í sjókvíum upp í markaðsstærð. Einnig er að finna þá skilgreiningu á seiðaeldi í 3. gr. reglugerðar nr. 1170/2015 um fiskeldi að um sé að ræða klak og eldi á fyrstu stigum lífsferils fiska. Þá er strandeldi skilgreint þar sem eldi fisks í eldiskerum eða jarðtjörnum á landi þar sem sjó eða ísöltu vatni er dælt í eldiseininguna. Loks er kví þar skilgreind sem netpoki sem hangir í fljótandi grind eða er festur á grind sem komið er fyrir undir eða við yfir­borð lagar.

Ljóst er að eldi í kerjum á landi er ekki sambærileg framkvæmd við eldi í sjókvíum þótt um fiskeldi sé að ræða í báðum tilvikum. Framkvæmd sú sem hér um ræðir felst í eldi seiða í kerjum á landi. Þegar seiðin hafa náð ákveðinni lágmarksstærð er þeim dælt úr kerjunum í brunnbát og þau flutt í sjókvíar þar sem þau verða alin upp í markaðsstærð. Óumdeilt er að á Íslandi, líkt og annars staðar, sleppur fiskur úr sjókvíum þrátt fyrir að fylgt sé norskum staðli, NS 9415:2009 (Flytende oppdrettsanleg), eða öðrum sambærilegum alþjóðlegum stöðlum, sbr. 2. gr. reglugerðar nr. 1170/2015. Skilur enda eingöngu net að þegar um sjókvíaeldi er að ræða. Í landeldi því sem hér er til umfjöllunar er fiskurinn hins vegar í kerjum á landi og er komið í veg fyrir að hann sleppi í gegnum fráveitu með grindum á kerjum og á frárennsli, auk þess sem frárennslisvatn verður hreinsað með settjörn, tromlusíu eða öðrum sambærilegum eða betri búnaði. Er helst að seiði sleppi ef óhöpp verða við dælingu í brunnbát, en eðli máls samkvæmt fer slík dæling eingöngu fram þegar seiði hafa náð ákveðinni stærð og eru afhent til brottflutnings. Þá er því ekki saman að jafna að seiði sleppi, sem e.t.v. eru ekki lífvænleg, eða fullvaxta fiskur. Að öllum þessum atriðum virtum, sem og vegna þess að líkur á uppsöfnun næringarefna eru litlar vegna aðstæðna, er það mat úrskurðarnefndarinnar að ekki hafi raunhæft gildi fyrir lögvarða hagsmuni veiðifélagsins að fá leyst úr ágreiningi um lögmæti þeirrar ákvörðunar Umhverfisstofnunar frá 8. nóvember 2017 að gefa út starfsleyfi fyrir allt að 500 tonna seiðaeldi á ári að Laxabraut 9. Þar sem hagsmunir veiðifélagsins, sem reisir aðild sína á því að lífríki Ölfusár og vatnasvæðis hennar verði stefnt í hættu, teljast ekki svo verulegir að skapað geti því kæruaðild verður kæru þess einnig vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

16/2018 Rangárbakki 2

Með

Árið 2019, miðvikudaginn 30. janúar, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

l nr. 16/2018, kæra á ákvörðun skipulags- og umferðarnefndar Rangárþings ytra frá 8. janúar 2018 um að hafna beiðni kæranda um leyfi fyrir breyttri notkun núverandi húsnæðis á lóðinni Rangárbakka 2 í þjónustubyggingu fyrir gistihús og um leyfi til að setja niður smáhýsi á lóðinni til að nota sem gistihús .

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 7. febrúar 2018, er barst nefndinni sama dag, kærir Rent Leigumiðlun ehf., eigandi fasteignarinnar að Rangárbakka 2, þá ákvörðun Rangárþings ytra frá 8. janúar s.á. að hafna beiðni kæranda um leyfi fyrir breyttri notkun núverandi húsnæðis í þjónustubyggingu fyrir gistihús á lóðinni Rangárbakka 2 og um leyfi til að setja niður smáhýsi á lóðinni til að nota sem gistihús. Er þess aðallega krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og að sveitarfélaginu verði gert að veita kæranda umbeðna heimild. Til vara er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og sveitarfélaginu gert að taka umsóknina aftur fyrir.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Rangárþingi ytra 15. mars 2018.

Málavextir: Með bréfi, dags. 27. desember 2017, sótti kærandi um leyfi til skipulags- og umferðarnefndar Rangárþings ytra til að setja niður smáhýsi á lóðinni að Rangárbakka 2 til að nota sem gistihús. Jafnframt sótti kærandi um breytta notkun verslunarhúsnæðis á lóðinni í þjónustuhúsnæði fyrir umrædd gistihús. Á fundi nefndarinnar 8. janúar 2018 var erindinu hafnað. Með bréfum, dags. 15. janúar s.á. og 2. febrúar s.á., óskaði kærandi eftir rökstuðningi sveitarfélagsins fyrir ákvörðuninni, en ekkert svar barst. Kærandi kærði ákvörðunina til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála 7. s.m. Á fundi skipulags- og umferðarnefndar 12. mars 2018 var bókað um rökstuðning fyrir hinni kærðu ákvörðun og var sá rökstuðningur staðfestur á fundi sveitarstjórnar Rangárþings ytra 14. s.m..

Málsrök kæranda: Kærandi telur að synjun sveitarfélagsins á erindi hans standist ekki lög. Synjunin brjóti gegn aðal- og deiliskipulagi svæðisins, sem og gegn stjórnsýslu- og skipulagslögum. Auk þess standist meðferð málsins ekki ákvæði laga.

Frá því að fulltrúar kæranda hafi sett sig í samband við skipulagsfulltrúa sveitarfélagsins í ágúst 2017 hafi aldrei annað komið fram en að unnt væri að fá í gegn þá breytingu sem kærandi hafi viljað gera. Þannig hafi verið óskað eftir því að fulltrúar kæranda útbyggju öll gögn sem hefði annars verið óþarft ef fyrir lægi að í grunninn væri ekki heimild samkvæmt skipulagi fyrir þess háttar starfsemi á lóðinni. Sú túlkun virðist hafa komið til síðar, þ.e. að kærandi þyrfti að sækja um breytta notkun á húsnæðinu. Um þetta hafi kæranda aldrei verið tilkynnt.

Samkvæmt aðalskipulagi sveitarfélagsins sé Rangárbakki 2 skilgreind sem „Þ3“ lóð, en samkvæmt skilgreiningu á skipulaginu séu Þ-svæði „verslunar- og þjónustusvæði“. Í greinargerð með aðalskipulagi segi að á þessum reit sé „blómaverslun og möguleiki á frekari uppbyggingu“. Forsaga þess sé að á svæðinu hafi áður verið blómaverslun en hún hafi ekki verið starfrækt þar lengi. Þrátt fyrir að tekið sé fram í greinargerð aðalskipulagsins að þarna sé blómaverslun þá geti það ekki verið túlkað sem einhvers konar takmörkun fyrir aðra starfsemi, t.d. annars konar verslun eða þjónustustarfsemi, enda sé greinargerðin fyrst og fremst að lýsa ákveðnu ástandi og notkun eignarinnar á tilteknum tíma. Deiliskipulag af svæðinu kveði á um það sama, þ.e. að þarna séu „verslunar- og þjónustulóðir“. Hvergi sé notkun þessara lóða skilgreind nánar eða takmörkuð, þ.e. að þarna megi ekki vera annars konar starfsemi en verslun. Einnig sé lóðin skilgreind sem „verslunar- og þjónustulóð“ samkvæmt fasteignaskrá. Í lóðarleigusamningi segi að leigutaka sé leigð lóðin „undir atvinnustarfsemi“. Í 1. gr. samningsins komi fram að önnur notkun lóðarinnar en að framan greini sé óheimil. Að öðru leyti sé ekki að finna neinar takmarkanir í samningnum fyrir því hvers konar atvinnustarfsemi megi fara fram á lóðinni.

Í 2. mgr. 28. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 sé kveðið á um að í aðalskipulagi skuli lagður grundvöllur fyrir gerð deiliskipulags varðandi m.a. landnotkun og takmarkanir á landnotkun. Þá segi í 1. mgr. 37. gr. að í deiliskipulagi séu teknar ákvarðanir um m.a. lóðir, lóðanotkun og aðrar skipulagsforsendur. Í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 sé fjallað nánar um landnotkunarflokka. Samkvæmt c-lið gr. 6.2. í reglugerðinni sé „Verslun og þjónusta (VÞ)“ svæði þar sem gert sé ráð fyrir verslun og þjónustu, þ.m.t. hótelum, gistiheimilum og gistiskálum. Í gr. 6.3. komi fram að hvers konar takmarkanir á landnotkun skuli tilgreindar í aðalskipulagi og eftir atvikum í deiliskipulagi. Þá segi í 2. mgr. gr. 5.3. í reglugerðinni að heimilt sé að skilgreina landnotkun og takmarkanir á henni þrengra í deiliskipulagi en gert sé í aðalskipulagi. Því sé ljóst að sveitarfélagið hafi haft ýmis tækifæri til þess að kveða skýrt á um takmarkanir á notkun umræddrar lóðar. Svo hafi aftur á móti ekki verið gert. Hvorki í aðalskipulagi, deiliskipulagi né lóðarleigusamningi. Höfnun sveitarfélagsins á umsókn kæranda sé því óheimil.

Afgreiðsla sveitarfélagsins standist ekki jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Við Rangárbakka 6 og 8b, sem sé á næstu lóð við eign kæranda og á sama svæði skv. aðalskipulagi, sé sams konar starfsemi og kærandi hafi í hyggju að byggja upp, þ.e. smáhýsi sem nýtt séu til gistingar. Það fáist ekki staðist að leyfa slíka starfsemi á einum stað en hafna á öðrum, þegar í báðum tilfellum sé um að ræða viðskipta- og þjónustulóðir samkvæmt skipulagi. Með því brjóti sveitarfélagið gegn jafnræðisreglu stjórnsýslulaga og eftir atvikum jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrárinnar. Einnig sé brotið gegn 75. gr. stjórnarskrárinnar um atvinnufrelsi þar sem afgreiðsla sveitarfélagsins stöðvi áform kæranda um að hefja fyrirhugaða starfsemi. Í ljósi þess að sambærileg starfsemi sé nú þegar við Rangárbakka 6 og 8b þá jafnist afgreiðsla bæjarins til þess að þeim aðilum sé veitt einokun á því að reka slíka starfsemi í bænum.

Málsrök Rangárþings ytra: Af hálfu sveitarfélagsins er á það bent að í gildandi Aðalskipulagi Rangárþings ytra 2010-2022 segi um verslunar- og þjónustusvæði á Hellu að gera skuli fyrst og fremst ráð fyrir verslunar- og þjónustustarfsemi, m.a. ferðaþjónustu. Á lóðinni að Rangárbakka 2 segi í greinargerð: „Á þessum reit er blómaverslun og möguleiki á frekari uppbyggingu.“ Ekki sé minnst á frekari uppbyggingu smáhýsa á lóðinni.

Á lóð nr. 8 við Rangárbakka sé rekin ferðaþjónusta, m.a. smáhýsi ásamt tengingu við tjaldsvæði. Síðast hafi verið byggð smáhýsi þar árið 1993 fyrir utan tvö smáhýsi sem hafi verið byggð árið 2010. Uppbygging lóðanna núna sé allt önnur en lagt hafi verið upp með árið 1993. Áform kæranda feli í sér mikla breytingu á nýtingu lóðarinnar, en þar sé nú einungis eitt verslunarhúsnæði. Þá sé stærð lóðarinnar ekki nema um 3.500 m2. Nefndin telji því að uppbygging lóðarinnar geti ekki talist sambærileg og núverandi aðstæður á lóð nr. 8.

Unnið sé að endurskoðun aðalskipulagsins. Þar sé umræddu svæði fyrir lóðir nr. 2 og 4 við Rangárbakka breytt úr verslunar- og þjónustusvæði yfir í miðsvæði. Ef breytingin sé samþykkt muni það hafa áhrif á umhverfi og yfirbragð byggðar á svæðinu, þar á meðal ásýnd þéttbýlisins varðandi aðkomu úr vestri. Það sé álit nefndarinnar að uppbygging fjölda smáhýsa til útleigu gistinga fari betur við jaðar heldur en innan væntanlegs miðsvæðis. Í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 segi um miðsvæði: „svæði fyrir verslunar- og þjónustustarfsemi og stjórnsýslu sem þjónar heilu landsvæði, þéttbýlisstað eða fleiri en einu bæjarhverfi, svo sem verslanir, skrifstofur, þjónustustofnanir, hótel, veitinga- og gistihús, menningarstofnanir og önnur hreinleg atvinnustarfsemi sem talin sé samræmast yfirbragði og eðli starfsemi miðsvæðis.“ Yfirbragð smáhýsabyggðar samræmist ekki skilgreiningu fyrir miðsvæði.

Í gildandi deiliskipulagi fyrir svæðið segi um lóð nr. 4 við Rangárbakka, sem sé við hlið lóðar nr. 2, að lóðin sé fyrir gistihús eða hótel á 1-2 hæðum og að mænishæð sé heimilt allt að 12 m. Frekari uppbygging á lóð nr. 2. skuli frekar fylgja slíkri stefnu heldur en smáhýsabyggð.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun skipulags- og umferðarnefndar Rangárþings ytra frá 8. janúar 2018 að synja umsókn kæranda um leyfi til breyttrar notkunar núverandi húsnæðis á lóðinni að Rangárbakka 2 og til að setja niður smáhýsi á lóðinni til að nota sem gistihús.

Umsókn kæranda laut að byggingarleyfisskyldum framkvæmdum, en skv. 9. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki er óheimilt að grafa grunn fyrir mannvirki, reisa það, rífa eða flytja, breyta því, burðarkerfi þess eða lagnakerfum eða breyta notkun þess, útliti eða formi nema að fengnu leyfi viðkomandi byggingarfulltrúa, sbr. 2. mgr., eða leyfi Mannvirkjastofnunar, sbr. 3. mgr. ákvæðisins. Sé mannvirki háð byggingarleyfi byggingarfulltrúa skal hann leita umsagnar skipulagsfulltrúa leiki vafi á að framkvæmd samræmist skipulagsáætlunum sveitarfélagsins, sbr. 10. gr. laganna. Samkvæmt sömu grein skal umsókn um byggingarleyfi ásamt hönnunargögnum send hlutaðeigandi byggingarfulltrúa, sem fer yfir umsóknina, gengur úr skugga um að aðaluppdrættir uppfylli ákvæði laganna, og reglugerða settra samkvæmt þeim, og tilkynnir umsækjanda eftir atvikum um samþykkt byggingaráforma hans, sbr. 11. gr. nefndra laga. Sveitarstjórn er heimilt, með sérstakri samþykkt samkvæmt 7. gr. laganna, að kveða á um það að í sveitarfélaginu starfi byggingarnefnd sem fjalli um byggingarleyfisumsókn áður en byggingarfulltrúi gefi út byggingarleyfi og hafi að öðru leyti eftirlit með stjórnsýslu hans fyrir hönd sveitarstjórnar. Er sveitarstjórn og heimilt að gera það að skilyrði fyrir útgáfu byggingarleyfis af hálfu byggingarfulltrúa að byggingarnefnd eða sveitarstjórn hafi samþykkt útgáfuna, sbr. 2. mgr. 7. gr. laganna. Rangárþing ytra hefur ekki sett sér slíka samþykkt.

Í almennum athugasemdum með frumvarpi því sem varð að mannvirkjalögum segir að um sé að ræða nokkrar breytingar frá gildandi lögum. Lögð sé til sú grundvallarbreyting að sveitarstjórn staðfesti að meginreglu ekki lengur ákvarðanir byggingarfulltrúa, auk þess sem lagt er til að tilvist byggingarnefnda verði háð gerð sérstakrar samþykktar viðkomandi sveitarstjórnar. Loks er tekið fram í athugasemdunum að sveitarstjórnir komi að meginreglu til ekki að stjórnsýslu byggingarmála með beinum hætti. Í eðli sínu séu byggingarmál tæknileg mál og þess vegna sé eðlilegt að framkvæmd þeirra sé í höndum aðila með sérfræðiþekkingu á því sviði.

Samkvæmt skýru orðalagi mannvirkjalaga og athugasemdum í lögskýringargögnum er endanleg ákvörðun um samþykkt byggingaráforma og útgáfu byggingarleyfis á hendi byggingarfulltrúa. Svo sem fram kemur í málavaxtalýsingu var umsókn kæranda synjað á fundi skipulags- og umhverfisnefndar 8. janúar 2018. Sú ákvörðun gat ekki bundið enda á málið í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 heldur þurfti að koma til sjálfstæð ákvörðun byggingarfulltrúa, en ákvörðun hans liggur ekki fyrir í málinu samkvæmt þeim upplýsingum sem úrskurðarnefndin hefur aflað.

Að teknu tillit til þess sem að framan er rakið er ljóst að ekki liggur fyrir lokaákvörðun í málinu, en kærandi verður þó ekki látinn bera hallann af því. Verður að svo komnu máli að líta svo á að kærður sé óhæfilegur dráttur á afgreiðslu máls, en skv. 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga er heimilt að kæra slíkan drátt til þess stjórnvalds sem ákvörðun í málinu verður kærð til. Með hliðsjón af því að tæpt ár er liðið frá kæru og enn liggur ekki fyrir afgreiðsla byggingarfulltrúans í Rangárþingi ytra í málinu verður lagt fyrir hann að taka erindi kæranda frá 27. desember 2017 til efnislegrar meðferðar án frekari tafa. Þegar ákvörðun byggingarfulltrúa vegna erindis kæranda liggur fyrir er sú ákvörðun hins vegar eftir atvikum kæranleg til úrskurðarnefndarinnar skv. 59. gr. mannvirkjalaga.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Lagt er fyrir byggingarfulltrúann í Rangárþingi ytra að taka til efnislegrar afgreiðslu án ástæðulauss dráttar umsókn kæranda frá 27. desember 2017 um leyfi fyrir breyttri notkun núverandi húsnæðis í þjónustubyggingu fyrir gistihús á lóðinni Rangárbakka 2 og um leyfi til að setja niður smáhýsi á lóðinni til að nota sem gistihús.