Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

40/2018 Hraunhella

Árið 2019, fimmtudaginn 28. febrúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 40/2018, kæra vegna framkvæmda á lóðinni nr. 19 við Hraunhellu, Selfossi.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 6. mars 2018, er barst nefndinni sama dag, kæra fasteignaeigendur að Tjaldhólum 8, 18, 20 og að Hraunhellu 16 og 17, Selfossi, framkvæmdir við lóðina Hraunhellu 19. Skilja verður málatilbúnað kærenda svo að þess sé krafist að felldar verði úr gildi ákvarðanir  skipulags- og byggingarnefndar Árborgar frá 1. mars 2017 um að veita byggingarleyfi fyrir einbýlishúsi að Hraunhellu 19 á Selfossi og um breytta staðsetningu innkeyrslu á nefnda lóð.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Sveitarfélaginu Árborg 13. apríl 2018.

Málsatvik og rök: Á fundi skipulags- og byggingarnefndar Árborgar 1. mars 2017 var tekin fyrir umsókn lóðarhafa Hraunhellu 19, Selfossi, um byggingarleyfi fyrir einbýlishúsi á nefndri lóð. Umsóknin var samþykkt með fyrirvara um að brugðist yrði við athugasemdum nefndarinnar. Á sama fundi nefndarinnar var samþykkt umsókn lóðarhafa um­ breytta­­ staðsetningu innkeyrslu á greinda lóð. Eiganda var tilkynnt um þessa niðurstöðu með bréfi, dags. 3. mars 2017. Ákvarðanir þessar voru staðfestar á fundi bæjarstjórnar Árborgar 15. mars 2017.

Síðla árs 2017 kom í ljós að byggingarframkvæmdir á lóðinni nr. 19 við Hraunhellu voru ekki í samræmi við samþykktar teikningar, lóðarblað, byggingarleyfi og deiliskipulagsskilmála. Frá þeim tíma hélt eigandi fasteignarinnar að sér höndum með frekari framkvæmdir á lóðinni vegna þessara mistaka. Í kjölfarið kom beiðni frá eigandanum, dags. 22. nóvember 2017, um breytingu á deiliskipulagsskilmálum vegna lóðarinnar þess efnis að gerð yrði undanþága frá skilmálunum og leyfi gefið fyrir því að hluti byggingarinnar yrði hærri en sú hámarkshæð sem þar er tilgreind. Á fundi skipulags- og byggingarnefndar Árborgar 15. desember 2017 var tekin ákvörðun um að grenndarkynna erindið í samræmi við ákvæði skipulagslaga nr. 123/2010. Gögn vegna grenndarkynningarinnar voru send út 17. desember 2017 til íbúa að Hraunhellu 16 og 17 og Tjaldhólum 6, 8, 18, 20 og 34. Athugasemdir bárust frá nágrönnum 11. janúar 2018. Í athuga­­semdunum kom m.a. fram mikil andstaða þeirra gagnvart breytingum og framkvæmdum við umrædda lóð. Á fundi skipulags- og byggingarnefndar, sem haldinn var 17. janúar 2018, var fyrrgreindu erindi eiganda lóðarinnar hafnað og honum tilkynnt um þá niðurstöðu með bréfi, dags. 22. janúar 2018.

Kærendur halda því  fram að með framkvæmdunum hafi verið vikið frá gildandi skipulagi með því að aðkomu að lóðinni hafi verið breytt. Þá verði heimiluð bygging á lóðinni fullar tvær hæðir, auk kjallara, en ganga megi út frá því að þar sé aðeins heimiluð ein hæð. Loks sé bent á að brotið sé gegn ákvæði skipulagsreglugerðar nr. 90/2013 um mænishæð og með framkvæmdunum sé vikið frá meginforsendum sem settar voru í skipulagi um hæðarsetningu.

Sveitarfélagið vísar til þess að rétt hafi verið staðið að afgreiðslu málsins þar sem uppfylltar hafi verið kröfur form- og efnisreglna, sem því hafi borið að fara eftir, við meðferð umsóknar um hið kærða byggingarleyfi og um breytingu á innkeyrslu umræddrar lóðar. Ákvörðun í málinu hafi verið tekin á grundvelli deiliskipulagsskilmála fyrir Gráhellu á Selfossi, sem gildi á umræddu svæði, og annarra lagareglna sem við eigi. Þá sé ljóst að eins mánaðar kærufrestur samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hafi verið liðinn er kæran hafi borist  úrskurðarnefndinni. Kærendum hafi mátt vera kunnugt um hinar kærðu ákvarðanir í síðasta lagi þegar gögn vegna grenndarkynningar á umsókn um undanþágu frá deiliskipulagsskilmálum á hámarkshæð umræddrar byggingar hafi verið send út hinn 17. desember 2017.

Niðurstaða: Kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar er einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Gögn málsins bera með sér að byggingar­framkvæmdir á lóðinni nr. 19 við Hraunhellu hafi verið vel á veg komnar fyrir árslok 2017, en í nóvember s.á. fór eigandi lóðarinnar þess á leit við Sveitarfélagið Árborg að veitt yrði undanþága frá deiliskipulagsskilmálum og leyfi gefið fyrir því að hluti byggingarinnar á lóðinni yrði hærri en tilgreind hámarkshæð í deiliskipulagsskilmálum. Kærendum, sem búa á næstu lóðum við lóð leyfishafa, mátti vera ljóst af framkvæmdum á umræddri lóð á árinu 2017 að leyfi hefðu verið veitt fyrir þeim og gátu þeir þá þegar aflað sér upplýsinga um efni hinna kærðu ákvarðana hjá bæjaryfirvöldum. Þá liggur fyrir að grenndarkynningargögn vegna lóðarinnar Hraunhellu 19 voru send kærendum 17. desember 2017. Í ljósi þessa verður við það að miða að kærufrestur í málinu hafi í síðasta lagi byrjað að líða þann dag. Var kærufrestur því liðinn þegar kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni.

Berist kæra að liðnum kærufresti skal vísa henni frá samkvæmt 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, nema afsakanlegt verði talið að kæra hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæra verði tekin til meðferðar. Tiltekið er í athugasemdum með 28. gr. í frumvarpi því sem varð að stjórnsýslulögum að við mat á því hvort skilyrði séu til að taka mál til meðferðar að loknum kærufresti þurfi að líta til þess hvort aðilar að málinu séu fleiri en einn og með andstæða hagsmuni. Sé svo sé rétt að taka mál einungis til kærumeðferðar að liðnum kærufresti í algjörum undantekningartilvikum. Skal og á það bent að í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 130/2011 er tekið fram í athugasemdum með 2. mgr. 4. gr. að kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar sé styttri en almennur kærufrestur stjórnsýslulaga þar sem brýnt sé að ágreiningur um form eða efni ákvörðunar verði staðreyndur sem fyrst og áréttað í því samhengi að eftir því sem framkvæmdir séu komnar lengra, áður en ágreiningur um þær verði ljós, skapist meiri hætta á óafturkræfu tjóni af bæði umhverfislegum og fjárhagslegum toga. Að þessu virtu verður ekki talið að undantekningarákvæði 28. gr. stjórnsýslulaga eigi hér við.

Með hliðsjón af því sem að framan er rakið verður kærumáli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.