Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

62/2018 Flatir, Vestmannaeyjar

 

Árið 2019, fimmtudaginn 11. apríl, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 62/2018, kæra á ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Suðurlands frá 23. mars 2018 um að veita 2-Þ ehf. starfsleyfi fyrir steypustöð að Flötum 7 í Vestmannaeyjum.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 25. apríl 2018, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur, Flötum 10, Vestmanna­eyjum, þá ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Suðurlands frá 25. apríl 2018 að veita 2-Þ ehf. starfsleyfi fyrir steypustöð að Flötum 7. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá Heilbrigðiseftirliti Suðurlands 27. apríl 2018 og 2. og 3. apríl 2019.

Málavextir: Fyrirtækið 2-Þ ehf. sótti hinn 5. febrúar 2018 um starfsleyfi til reksturs steypustöðvar og færanlegrar steypustöðvar að Flötum 7, Vestmannaeyjum. Auglýsing til kynningar á starfsleyfistillögunni birtist í Eyjafréttum 14. febrúar 2018 og var athugasemda­frestur veittur til og með 14. mars s.á. Kærendur ásamt fleirum komu á framfæri sameiginlegum athugasemdum, dags. 14. mars 2018, sem lutu m.a. að því að starfsleyfisskilyrði væru ekki uppfyllt, ákvæðum 1. mgr. 8. gr. reglugerðar nr. 724/2008 um hávaða væri ekki fylgt, auk þess sem ekki hefði verið leitast við að draga úr álagi á umhverfið og beita bestu fáanlegu tækni.

Á fundi heilbrigðisnefndar Suðurlands 22. mars 2018 var fjallað um starfsleyfisumsóknina og eftirfarandi bókun gerð: „Varðandi athugasemdir við starfsleyfi fyrir steypustöð að Flötum 7, Vestmannaeyjum. Umsókn liggur fyrir til afgreiðslu um starfsleyfi fyrir starfseminni sem er á skipulögðu athafnasvæði skv. Aðalskipulagi Vestmannaeyjabæjar. Málið rætt á fundinum og framkvæmdastjóra falið að afla frekari upplýsinga áður en starfsleyfið verður veitt.“

Hinn 23. mars 2018 svaraði framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Suðurlands athugasemdum kærenda og tók eftirfarandi fram: „Undirrituð hefur þegar aflað nánari gagna um málið og fengið staðfestingu frá Skipulags- og byggingafulltrúa Vestmannaeyjabæjar að skipulagið geri ráð fyrir þessari starfsemi. Í samræmi við ofangreint verður starfsleyfi fyrir 2 Þ ehf. vegna steypustöðvar að Flötum 7 afgreitt.“ Var í bréfinu leiðbeint um kæruheimild til úrskurðar­nefndar umhverfis- og auðlindamála og m.a. tekið fram að kærufrestur væri einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um hina kærðu ákvörðun. Starfsleyfi fyrir framleiðslu tilbúinnar steinsteypu og fyrir færanlegri steypustöð og steypustöð að Flötum 7 með ákveðnum starfsleyfisskilyrðum var gefið út af Heilbrigðiseftirliti Suðurlands sama dag, eða 23. mars 2018, með gildistíma til 23. mars 2030.

Málsrök kærenda: Kærendur taka fram að eftir að tímabundið starfsleyfi hafi runnið út 3. desember 2006 hafi færanleg steypustöð verið starfrækt að Flötum 7 án starfsleyfis. Varðandi það starfsleyfi sem gefið hafi verið út 23. mars 2018 hafi skilyrði fyrir rekstri færanlegrar steypustöðvar og/eða steypustöðvar að Flötum 7 ekki verið uppfyllt. Ekki hafi verið leitast við að draga úr álagi á umhverfið og beita bestu fáanlegu tækni til að ná þeim markmiðum, þrátt fyrir ítrekaðar óskir kærenda um úrbætur. Framkvæmd starfseminnar hafi ekki verið í samræmi við ýmis skilyrði útgefins starfsleyfis, ásamt því að verulegur hávaði og ónæði fylgi starfseminni, oft á tíðum að næturlagi. Ítrekaðar kvartanir hafi borist frá íbúunum til lögreglu vegna mikils hávaða utandyra, en að auki hafi Heilbrigðiseftirlit Suðurlands einnig móttekið kvörtun um ónæði. Þrátt fyrir að umrædd starfsemi sé staðsett á lóð sem ætluð sé undir atvinnustarfsemi samkvæmt gildandi aðalskipulagi séu á svæðinu einnig þrjú íbúðarhús frá eldri tíð. Því sé um að ræða blandaða byggð íbúðar- og athafnasvæðis.

Málsrök Heilbrigðiseftirlits Suðurlands: Heilbrigðiseftirlit Suðurlands kaus að koma ekki á framfæri athugasemdum vegna kærunnar.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi krefst þess fyrst og fremst að kærunni verði vísað frá þar sem hún hafi borist utan lögbundins kærufrests. Hin kærða ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Suðurlands sé frá 23. mars 2018. Kærendur hafi verið upplýstir um ákvörðunina samdægurs og fram hafi komið að kærufrestur væri einn mánuður frá því að kærendum varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Kæran sé dagsett 25. apríl 2018, þ.e. rúmum mánuði eftir að kærendum hafi verið kynnt ákvörðunin.

Ef málinu verði ekki vísað frá sé þess krafist að ákvörðun heilbrigðiseftirlitsins standi óbreytt. Því sé hafnað að færanleg steypustöð hafi verið starfrækt að Flötum 7 frá árinu 2006 án þess að starfsleyfi hafi verið framlengt eða nýtt leyfi gefið út. Starfsleyfi til handa félaginu vegna rekstursins hafi verið gefið út 23. febrúar 2007 en vegna mannlegra mistaka hafi þar tilgreint rangt heimilisfang.

Að mati leyfishafa uppfylli hann skilyrði þau sem fram komi í starfsleyfisinu. Kröfur þær sem lúti að frárennsli hafi ekki verið í eldri starfsleyfisskilyrðum og því sé verið að vinna að endurbótum í samræmi við ný skilyrði í samráði við Heilbrigðiseftirlit Suðurlands. Eðli þeirrar starfsemi sem um ræði og takmarkanir á samgöngumálum valdi því að sementsflutningabílar komi seint að kvöldi, með seinni ferð Herjólfs, með efni í starfsstöð leyfishafa. Þeir þurfi síðan að fara með fyrstu Herjólfsferju til baka morguninn eftir. Losun þurfi því að fara fram seint að kvöldi eða snemma að morgni og taki um 30 mínútur. Leyfishafi hafi reynt að sýna tillitssemi eftir fremsta megni og draga úr sjón-, hljóð- og rykmengun.

Viðbótarathugasemdir kærenda: Kærendur benda á að kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar sé einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina skv. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Fyrir liggi að tölvupóstur með tilkynningu um útgáfu starfsleyfisins hafi verið móttekinn hjá lögmanni kærenda 27. mars 2018. Í ákvörðun heilbrigðiseftirlitsins hafi verið vísað til ákveðinna fylgiskjala sem ekki hafi fylgt með tilkynningunni. Óskað hafi verið eftir fyrrnefndum fylgiskjölum og hafi þau borist 4. apríl 2018. Í kjölfarið hafi lögmaður kærenda upplýst þá um framangreinda ákvörðun, en þá fyrst hafi kærendum verið hún kunn. Af þessu leiði að kærufrestur hafi byrjað að líða 4. apríl 2018 þegar öll gögn hefðu borist. Að auki hafi ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Suðurlands, dags. 23. mars 2018, verið send kl. 16:27, eða eftir lok vinnudags á föstudegi, og því sé ómögulegt að miða upphaf kærufrests við þann dag.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti þeirrar ákvörðunar Heilbrigðiseftirlits Suðurlands að gefa út starfsleyfi fyrir steypustöð að Flötum 7, Vestmannaeyjum.

Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærufrestur til nefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um þá ákvörðun sem kæra lýtur að. Hið kærða starfsleyfi er frá föstudeginum 23. mars 2018 og voru svör við athugasemdum kærenda send lögmanni þeirra sama dag með bréfpósti og tölvupósti eftir opnunartíma skrifstofu eftirlitsins. Hvorki var ljóst af tölvupóstinum né svörunum að starfsleyfið hefði þegar verið gefið út heldur kom fram að starfsleyfið yrði gefið út. Verður því ekki talið að kærendur hafi mátt vita af útgáfu starfsleyfisins þegar á þeim tíma og að sama skapi tók kærufrestur ekki þá að líða. Hafði lögmaður þeirra og enga möguleika á að leita frekari upplýsinga fyrr en skrifstofan opnaði aftur 26. mars 2018 að helginni liðinni. Gerði hann það 27. s.m. og fékk gögn send 4. apríl s.á. Kæra barst í málinu 25. apríl 2018 og var það því innan kærufrests. Það athugast að þegar á þessum tíma var kveðið á um það í 5. mgr. 7. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, sbr. 7. gr. breytingalaga nr. 66/2017, að útgefandi starfsleyfis ætti að auglýsa á vefsvæði sínu útgáfu og gildistöku starfsleyfa. Birting á vefsíðu útgefanda starfsleyfis teldist vera opinber birting. Þar sem slík birting fór ekki fram tók kærufrestur ekki heldur að líða af þeim sökum.

Lög nr. 7/1998 hafa það að markmiði að búa landsmönnum heilnæm lífsskilyrði og vernda þau gildi sem felast í heilnæmu og ómenguðu umhverfi ásamt því að koma í veg fyrir eða að draga úr losun og koma í veg fyrir myndun úrgangs í því skyni að vernda umhverfið, sbr. 1. gr. laganna. Þegar hin kærða ákvörðun var tekin kom fram í 6. gr. að allur atvinnurekstur, sbr. viðauka I-V, ætti að hafa gilt starfsleyfi. Heilbrigðisnefndir gæfu út starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem talinn væri upp í viðauka IV í lögunum, þ. á m. vegna steypustöðva, sbr. 1. mgr. 7. gr. laganna. Af framangreindu er ljóst að það er lögbundið hlutverk heilbrigðisnefnda að veita starfsleyfi, m.a. fyrir þá starfsemi sem hér um ræðir.

Líkt og rakið er í málavaxtalýsingu var fjallað um málið á fundi heilbrigðisnefndar Suðurlands 22. mars 2018, þar sem bókað var að framkvæmdastjóra Heilbrigðiseftirlits Suðurlands væri falið að leita eftir frekari upplýsingum áður en starfsleyfið yrði veitt. Daginn eftir, eða 23. s.m., var starfsleyfið gefið út af Heilbrigðiseftirliti Suðurlands án þess að málið kæmi aftur til kasta heilbrigðisnefndar. Var bókun nefndarinnar frá fundi hennar 22. mars 2018 ekki afdráttarlaus um að leyfi skyldi veitt, auk þess sem í bókuninni var kveðið á um frekari rannsókn málsins áður en svo yrði gert. Verður að gera þá lágmarkskröfu til stjórnvalds þess sem bært er til að lögum að samþykkja starfsleyfi að það veiti slíkt samþykki berum orðum og án fyrirvara um frekari rannsókn sem eftir atvikum gæti breytt grundvelli málsins. Það var hins vegar ekki gert. Fór heilbrigðiseftirlitið því út fyrir valdmörk sín við útgáfu hins kærða starfsleyfis. Það þykir þó ekki eiga að leiða til ógildingar heldur verður litið svo á að í þeirri afgreiðslu hafi falist tillaga heilbrigðiseftirlitsins til heilbrigðisnefndar, enda eru hlutverk þessara aðila skv. lögum nr. 7/1998 samofin þótt lögin geri einnig ráð fyrir ákveðinni verkaskiptingu þar á milli. Þar sem heilbrigðisnefnd hefur ekki komið að málinu að nýju er hins vegar ekki til staðar lokaákvörðun í málinu í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þar sem ekki er til staðar ákvörðun sem kæranleg er til úrskurðarnefndarinnar verður máli þessu vísað frá nefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.