Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

14/2018 Helluhraun

Árið 2019, mánudaginn 20. maí 2019, tók Nanna Magnadóttir, forstöðumaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála fyrir mál nr. 14/2018 með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011.

Fyrir var tekið mál nr. 14/2018, kæra á álagningu stöðuleyfisgjalds vegna gáma á lóðinni að Helluhrauni 10, að fjárhæð kr. 80.690.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með ódagsettu bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 2. febrúar 2018, kærir Slökkvitæki ehf., Helluhrauni 10, Hafnarfirði, álagningu stöðuleyfisgjalds vegna gáma á lóðinni að Helluhrauni 10, að fjárhæð kr. 80.690. Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða álagning verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá Hafnarfjarðarkaupstað 6. mars 2018.

Málavextir: Kærandi fékk sent bréf frá byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarbæjar, dags. 20. desember 2017, þar sem tilkynnt var að samkvæmt gr. 2.6.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 væri skylt að sækja um stöðuleyfi ef gámur ætti að standa lengur en tvo mánuði innan lóðar. Kærandi og sameigandi hans að lóðinni Helluhrauni 10 sóttu um stöðuleyfi 19. janúar 2018 fyrir tímabilið frá 18. janúar 2018 til 30. janúar 2019 vegna gáma á fyrrnefndri lóð og óskaði kærandi eftir því að stöðuleyfisgjaldinu yrði skipt til helminga milli þeirra tveggja.

Með greiðsluseðli frá Hafnarfjarðabæ, dags. 29. janúar 2018, var lagt stöðuleyfisgjald á fyrirtæki kæranda fyrir 2,5 gámum að upphæð kr. 80.690 og mun sameiganda hans að lóðinni hafa verið sendur greiðsluseðill með sambærilegri innheimtu. Gjald fyrir hvern gám var skráð kr. 32.276 krónur og var því innheimt samtals stöðuleyfisgjald fyrir fimm gámum að upphæð kr. 161.380.

Málsrök kæranda: Kærandi telur að innheimta hefði átt eitt stöðuleyfisgjald fyrir lóðina Helluhraun 10 sem skipta hefði átt jafnt á milli kæranda og meðeiganda hans að lóðinni.

Samkvæmt 51. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki eigi upphæð stöðuleyfisgjalds að taka mið af kostnaði við þjónustu og einstök verkefni byggð á rekstraráætlun þar sem rökstudd séu þau atriði sem ákvörðun gjalds byggist á. Gjaldið megi ekki vera hærra en sá kostnaður og skuli gjaldskrá birt í B-deild Stjórnartíðinda. Upphæð stöðuleyfisgjalds fyrir einn gám hjá Hafnarfjarðarbæ hafi verið 32.276 krónur. Kærandi og meðeigandi hans hafi fengið greiðsluseðil upp á 161.380 krónur eða 80.690 krónur á hvort fyrirtæki sem sótt hafi um stöðuleyfi og hafi ekkert stöðuleyfi fylgt með. Með þessu hafi kærandi verið rukkaður fyrir stöðuleyfi nágrannans á hálfum gám þar sem ekki sé hægt að deila fimm gámum í tvennt, en kærandi eigi tvo gáma og meðeigandi hans þrjá.

Samkvæmt upplýsingum frá byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarbæjar sé kostnaður við hvert stöðuleyfi 11.000 krónur og að auki sé rukkað um tveggja klukkustunda eftirlitsgjald. Þar sem hér sé fimmfalt gjald innheimt sé innheimt 10 klukkustunda eftirlitsgjald. Kærandi efist um að vinna á lóðinni vegna umræddra gjalda hafi tekið svo langan tíma og hafi m.a. enginn komið á staðinn. Mannvirkjastofnun hafi gefið út leiðbeiningabækling fyrir byggingafulltrúa um stöðuleyfi ásamt því að halda fund fyrir þá. Þar hafi skýrt komið fram að ef óskað væri eftir stöðuleyfi fyrir fleiri en einn lausafjármun á sömu lóð væri gert ráð fyrir því að gefið væri út eitt stöðuleyfi og skyldi gjaldtakan miðast við þann kostnað óháð fjölda lausafjármuna á lóðinni.

Telur kærandi að með því að innheimta fimmfalt stöðuleyfisgjald sé sveitarfélagið að búa til auka tekjustofn. Í huga kæranda eigi stöðuleyfi ekki að vera tekjustofn fyrir sveitarfélög heldur snúist þau einungis um að hlutir valdi ekki hættu fyrir börn að leik og umferð. Í bæjarblaði Hafnarfjarðarbæjar hafi verið grein þar sem fram hafi komið að um 4000 gámar væru í landi bæjarins. Ef svo sé þá sé gjaldtakan fyrir þá gáma kr. 32.276 x 4000 = kr. 129.104.000. Kærandi stórefist um að sú upphæð sé eðlileg laun fyrir eitt embætti árlega sem sjái um veitingu stöðuleyfa á gámum. Hjá Kópavogsbæ kosti stöðuleyfi ekkert og væri best ef gjaldið myndi vera fellt niður að öllu leyti, sérstaklega ef litið sé til þess hvaða tilgangi það eigi að þjóna.

Málsrök Hafnarfjarðarkaupstaðar: Af hálfu Hafnarfjarðarkaupstaðar er farið fram á að kröfu kæranda verði vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem engin kæranleg ákvörðun hafi verið tekin, sbr. 3. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Gjald fyrir stöðuleyfi byggi á lögum um mannvirki og gildandi gjaldskrá Hafnarfjarðakaupstaðar. Ef ekki verði fallist á frávísun sé þess krafist að kröfu kæranda verði hafnað. Í grein 2.6.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 sem fjalli um stöðuleyfi komi m.a. fram að sækja skuli um stöðuleyfi ef láta eigi gáma standa lengur en tvo mánuði utan þeirra svæða sem sérstaklega séu skipulögð og ætluð til geymslu þeirra. Sömu sjónarmið komi einnig fram í reglum um stöðuleyfi sem samþykktar hafi verið í bæjarstjórn Hafnarfjarðar 24. maí 2017.

Samkvæmt 51. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki sé sveitarstjórnum heimilt að setja gjaldskrá fyrir veitta þjónustu og verkefni byggingarfulltrúa, þ.m.t. útgáfu stöðuleyfa. Eigi upphæð gjalds að taka mið af kostnaði við þjónustu og einstök verkefni. Hafnarfjarðarbær hafi sett gjaldskrá fyrir stöðugjald fyrir gáma með stoð í þessu ákvæði laganna og samkvæmt henni sé gjaldið fyrir gjaldárið 2018 kr. 32.276 á hvern gám.

Hafnarfjarðarkaupstaður sé ósammála túlkun Mannvirkjastofnunar um að ef óskað sé eftir stöðuleyfi fyrir fleiri en einn lausafjármun á sömu lóð eigi að gefa út eitt stöðuleyfi sem taki til þeirra allra og að gjaldtakan eigi að miðast við þann kostnað sem hljótist af útgáfu þess stöðuleyfis sem um ræði, óháð fjölda lausafjármuna. Sveitarstjórnum sé heimilt að setja gjaldskrá fyrir útgáfu stöðuleyfa þar sem upphæð gjalds taki mið af kostnaði við þjónustuna. Augljóst sé að kostnaður við útgáfu leyfa sé hærri eftir því sem gámar sem sótt sé um leyfi fyrir séu fleiri. Yfirferð umsókna sé flóknari og tímafrekari enda kunni tilgangur og lengd stöðuleyfis ekki að vera sá sami á milli allra gáma. Að auki sé tímafrekara að yfirfara uppdrætti enda ljóst að fleiri atriði þurfi að hafa í huga ef fleiri gámar séu á lóð s.s. út frá skipulagi og öryggissjónarmiðum og jafnvel sé nauðsynlegt fyrir byggingarfulltrúa að fara á vettvang áður en leyfi sé gefið út. Að virtu framangreindu og ekki síst jafnræðisreglu stjórnsýsluréttarins geti sveitarfélög ekki veitt afslátt af gjaldi fyrir stöðuleyfi þegar aðili sæki um leyfi fyrir fleiri en einn gám á sömu lóð. Væru þá þeir aðilar sem hefðu sótt um og fengið leyfi fyrir einum gám á lóð þannig að niðurgreiða leyfið fyrir aðra. Í þessu sambandi megi benda á að umræddur texti í leiðbeiningum Mannvirkjastofnunar hafi ekki verið í þeim drögum sem stofnunin hafi kynnt fyrir Sambandi íslenskra sveitarfélaga og lögfræðingum hjá sveitarfélögum.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti þeirrar ákvörðunar byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar að leggja á stöðuleyfisgjald vegna gáma á lóðinni Helluhraun 10. Úrskurðarnefndin óskaði frekari skýringa af hálfu sveitarfélagsins og var í kjölfarið upplýst um að kærandi hefði aldrei greitt umþrættan reikning og reikningurinn á endanum verið felldur niður. Hefur kærandi staðfest að svo hafi verið gert, en hann óski efnislegrar niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar þar sem hann efist um lögmæti álagningarinnar í öndverðu og um fordæmisgefandi mál sé að ræða.

Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvarðanir til nefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kærð er. Verður við úrlausn þess atriðis að meta hagsmuni og tengsl kærenda við úrlausn málsins, þ.e. hvort þeir eigi verulegra, sérstakra og lögvarinna hagsmuna að gæta. Eftir að álagning stöðuleyfisgjaldsins var afturkölluð hefur hún ekki lengur réttarverkan að lögum, enda ekki lengur til staðar. Á kærandi af þeim sökum ekki lengur einstaklingsbundinna hagsmuna að gæta af úrlausn málsins og kæruaðild sína getur hann ekki byggt á gæslu almannahagsmuna með því að vísa til fordæmisgildis málsins. Verður því ekki komist hjá því að vísa kærumáli þessu frá úrskurðarnefndinni vegna skorts á kæruaðild, sbr. nefnda 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.